Miðaldir múslima

Punktar

Heimur múslima færist nær miðöldum. Trú er enn samofin pólitík og vísindi eru á jaðrinum. Hugsun sumra múslima er svipuð og teboðsfólksins í Bandaríkjunum, sem neitar að láta kenna börnum sínum vísindi. Vesturlönd fóru gegnum endurreisn og upplýsingabyltingu. Þau áttuðu sig á, að jörðin er ekki flöt og að byggja má vísindi á þróunarkenningunni. Teboðshreyfingin er ekki komin að endurreisn og upplýsingaöld. Miðaldahugsun er á jaðri í Evrópu, en nýtur mikils stuðnings í ýmsum löndum múslima. Í andsvari við yfirburði vesturlanda hafa sumir múslimar í auknum mæli leitað halds og trausts í bókstafstrú, sem brjálar alla skynsemi.

Svona gerir maður ekki

Punktar

Sigurður Ingi Jóhannsson útvegsráðherra hefur eyru, en notfærir sér þau ekki. Heyrir ekki það, sem honum er sagt. Ítrekað hefur komið fram, að Nærabergið kom ekki til Reykjavíkur til að landa afla. Það kom hingað vegna vélarbilunar. Sigurður Ingi heyrir það ekki og raunar enginn í ráðuneytinu. Hann tönnlast á , að hér séu „lög sem gilda um löndun erlendra skipa“. Eitt er að heyra svo illa, en vandinn doblast, sé um þjóðkunnan tudda að ræða. Þá verður vandinn að stóru fokki, sem laskar ráðherrann, flokk hans og ríkisstjórnina. Og hér er því miður enginn forsætis, sem segir við heyrnarlausa tuddann: „Svona gerir maður ekki“.

Ráðherra sparkað strax

Punktar

Maurice WILLIAMSON, ráðherra á Nýja-Sjálandi, gerði nákvæmlega sama og Hanna Birna gerði hér. Hringdi í lögreglustjóra til að ræða um rannsókn máls. Eins og hér komst upp um þetta og Williamson var umsvifalaust látinn taka pokann sinn. Nýja-Sjáland er nefnilega alvöruríki, sem stjórnað er samkvæmt regluverki. Er ekki bananalýðveldi, þar sem siðblindir bófar skipa flesta ráðherrastóla. Og Williamson var ekki látinn „stíga til hliðar“ „meðan rannsókn fer fram“, heldur var honum sparkað formálalaust. Hér á landi telja kjósendur sér kleift að kjósa til valda nautheimska og ofbeldishneigða siðblindingja, sem ættu að sitja inni.

Stjórn er betri en bann

Punktar

Seðlabankinn hefur lagt mat á vændi, smygl og sölu fíkniefna í útreikninga á þjóðarhag. Notar evrópska staðla og metur verðgildið á 6,6 milljarða á ári. Það byggist á mati á framboði og eftirspurn. Upphæðin er utan kerfis og er þar á ofan notuð til að grafa undan kerfinu. Söluaðilar múta og ógna vitnum og hvetja fólk til að styðja þá frekar en ríkiskerfið. Ýmsar mafíur eru því í samkeppni við ríkið. En það getur með einu höggi drepið mafíur og hirt sjálft skatta og skyldur. Með því að annast sjálft sölu fíkniefna og fela bæjarfélögum að halda utan um vændi. Greiðara að skipuleggja lífseigan vanda en reyna að banna hann.

Bókstafstrú er skelfileg

Punktar

Mér til skelfingar heyrði ég stundum í bókstafstrúarfólki á Omega. Furðulegt er, að fólk reyni að túlka þýðingar á þýðingum á eldri þýðingum á helgiritum sem eins konar guðsorð. Þetta fólk verður hvarvetna hættulegt, þegar það kemst til valda. Sem betur fer hafa vesturlönd afkristnast nægilega til að hafna bókstafstrú, nema helzt Bandaríkin. Öðru vísi er farið um ríki múslima og gyðinga. Í mismiklum mæli eru trúarbrögð hornsteinn slíkra ríkja, með ákaflega skaðlegum afleiðingum. Einkum leiðir þetta til valdshyggju og valdbeitingar. Slík ríki eru gefin fyrir ofbeldi og stríð að undirlagi bókstafstrúarfólks.

Íslandsmet í vantrausti

Punktar

Þjóðin vantreystir ríkisstjórninni og einstökum ráðherrum hennar. Kemur fram í SKOÐANAKÖNNUN Fréttablaðsins. Allir ráðherrar sæta meira vantrausti en trausti. Lægst fer Hanna Birna með 25% vantraust, sem líklega er Íslandsmet. Engin fyrri ríkisstjórn hefur fengið slíka útreið í könnun á trausti. Orsökin er, að á rúmu einu valdaári hafa ráðherrarnir almennt sýnt heimsku og hroka og einkum gengið fram í siðblindu. Málið snýst ekki um lélegan spuna hennar, heldur um almennan hæfileikaskort ráðherranna. Þegar landsfeður hafa á annað borð glatað trausti, glata þeir líka meðvirkni fólks og geta svo ekki unnið sig út úr vítahringnum.

Sparka í Færeyinga

Punktar

Hérna er tuddunum rétt lýst. Sjávarútvegsráðherra bannaði færeysku skipi olíu og vistir hér á landi vegna hagsmunagæzlu fyrir innlenda kvótagreifa. Margir Íslendingar hafa skrifað á vefsvæði færeyskra fjölmiðla og beðist afsökunar á heimsku og illsku íslenzku ríkisstjórnarinnar. Færeyingar komu okkur fyrstir til hjálpar, þegar hrunverjar Sjálfstæðisflokksins höfðu sett þjóðina á hausinn árið 2008. Oft er ástæða til að dauðskammast sín fyrir að vera Íslendingur, en aldrei meira en núna. Límið í samfélaginu er horfið, tuddarnir vaða um sviðið í heimsku og illsku. Stór hluti kjósenda er því miður litlu skárri en tuddarnir.

Hafna ráðherra sínum

Punktar

Skoðanakönnun Fréttablaðsins segir nærri helming sjálfstæðismanna vilja afsögn Hönnu Birnu. Sú tala skiptir öllu máli og segir okkur, að ráðherradagar hennar séu taldir. Haldi hún áfram að engjast í snörunni, færist vandinn hratt yfir á Bjarna Benediktsson. Hann hefur hingað til veitt henni skjól. Ég hélt flokkinn hafa fundið sinn botn í 24% fylgi. Nú getur botninn farið neðar, í 13%. Væri frábært, það er sanngjörn stærð. Ofurlygar Hönnu Birnu eru svo linnulausar og ljósar, að gróið flokksfólk sér siðblinduna. Tímaspursmál er, hvenær þjáning flokks og formanns verður óbærileg. Og tjón flokksins ekki lengur bætanlegt.

Tæplega túristagos

Punktar

Gosið sást vel í VEFMYNDAVÉL Mílu í nótt. Virðist vera túristagos eða tæplega túristagos. Fréttir segja það vera þunnfljótandi hraun ofan á Holuhrauni milli Dyngjujökuls og Öskju. Feginn er ég, að þetta er minniháttar sprungugos utan jökuls án nokkurs vatnsflóðs eða öskufalls. Eykur vonir um, að það haldist án flóðs eða ösku. Öll losun á spennu á þessu svæði án hamfara er góð losun. Til langs tíma mun gosið efla túrisma á Íslandi. Auka áhuga fólks á að skoða land, sem lætur illa í hæfilegri fjarlægð. Á Eyjafjallajökli þurfti að vernda gosið fyrir ágangi forvitinna. Vonandi þarf ekki að verja þetta smágos fyrir fólki.

Vont Ísland versnar

Punktar

Flest bendir til, að DV muni veslast upp eftir brotthvarf Reynis Traustasonar. Hann hefur gert blaðið að eindregnu blaði uppljóstrana og rannsókna. Meirihluti slíks efnis á íslenzku birtist þar. Það er vafalaust ástæða þess, að Reyni er bolað út. Enda veldur hún hinu mikla hatri, sem margir leggja á blaðið. Sízt vekur traust, að fremstur hatursmanna er kunnur fjárglæframaður, sem lengi hefur verið á framfæri Landsbankans. Þá verður ekki mikið annað eftir af slíku efni í fjölmiðlum, nema í Kjarnanum. Kastljósið er að vísu stundum á sama róli, en sérhæfir sig fremur í harðskeyttum viðtölum. En vont Ísland mun enn versna.

Hana vantar gott minni

Punktar

Mánuðum saman höfum við fylgzt með langdregnu pólitísku sjálfsvígi vonarpenings Sjálfstæðisflokksins. Á hverju andartaki þjáningarinnar segir Hanna Birna það, sem hún telur þægilegast að segja þá stundina. Jafnóðum gleymir hún orðum sínum. Segir næst eitthvað allt annað um sama atriði. Einnig koma fram aðrar heimildir um málið, sem segja enn aðra sögu. Langur og leiður lygaferill hennar segir okkur, að fíklar í lygum verða að hafa feikilega gott minni. Annars fer allt úrskeiðis hjá þeim. Undarlegast er, að siðblindur flokkurinn tekur einnig á sig skellinn. Með að lýsa ítrekað yfir trausti á mesta lygara stjórnmálasögunnar.

Fyll þitt glas

Punktar

Omar Khayyám er eitt merkasta skáld veraldarsögunnar. Orti um fegurð lífsins, daður í tunglsljósi og neyzlu eðalvína. Samt var hann múslimi, stjörnufræðingur og stærðfræðingur við hirð soldánsins í Bukhara. Frægastur er kvæðabálkur hans, Rubaiyat. Þar segir m.a., í þýðingu FitzGerald:

A Book of Verses underneath the Bough,
A Jug of Wine, a Loaf of Bread — and Thou,
Beside me singing in the Wilderness,
And oh, Wilderness is Paradise enow.

Og á öðrum stað, í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar:

Kom, fyll þitt glas! lát velta á vorsins eld
þinn vetrarsnjáða yfirbótafeld!
Sjá, Tíminn, það er fugl, sem flýgur hratt,
Hann flýgur máske úr augsýn þér í kveld!

Íslam hefur ætíð verið trú fjölbreytileikans eins og kristni, góð eða vond eftir atvikum. Þegar ég les ljóð Omar Khayyám, undrast ég, að undir sama trúarhatti skuli vera brjálaðir bókstafsmenn.

Bjarni er á hálum ís

Punktar

Væntanlega þykir Bjarna Benediktssyni ekki verra, að keppinautur um formennsku í Flokknum engist áfram í snörunni. Það er eina skýringin á stuðningi hans við frekari setu hennar í ríkisstjórn. En hann þarf ekki á því að halda. Þegar er ljóst, að hún verður aldrei formannsefni. Hún er pólitískt lík í lestinni. Með því að styðja hana eftir allar upplýsingarnar, sem fram hafa komið, skaðar hann flokkinn. Þótt margir séu flúnir, er áreiðanlega sumt enn eftir af fólki, sem hristir haus. Stjórnlaust og siðblint framferðið er af allt öðrum toga en fólk vandist í flokknum fyrir valdatöku Davíðs Oddssonar. Bjarni þarf að passa sig.

Hanna Birna er einfær

Punktar

Eins og leka- og fölsunarmál Hönnu Birnu hefur þróazt, er rétt, að alþingi taki þessu með ró og bíði eftir frekari framvindu. Þáttaskil markar bréf umboðsmanns alþingis og efni þess um orð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Rétt er, að ferlið haldist að sinni í þeim farvegi og verði ekki gert pólitískt. Raunar er innanríkisráðherra einfær um að fylgja málinu eftir fram að afsögn. Hún hefur farið með svo glannaleg ósannindi, að undrum sætir. Hún hefur laskað ráðuneyti sitt, hrakið lögreglustjóra úr embætti og lýst frati á virðulega embættismenn úti í bæ. Er enn á fullu við að reka hnífa í bak sér. Þarf ekki aðstoð við það.

Þjóðargersemi fórnað

Punktar

Reynir Traustason er þjóðargersemi. Kom til dæmis upp um Ólaf Skúlason biskup og Árna Johnsen alþingismann. Gafst ekki upp á leka- og fölsunarmálinu, þótt aðrir tækju ekki undir uppljóstranir hans. Þolinmæðin minnti á Washington Post í Watergate. Og nú er Hanna Birna sprungin í andlit ríkisstjórnarinnar. Þegar hrunverjinn Björn Leifsson í World Class nær völdum á DV, munu góðir blaðamenn hætta og lesendur segja upp áskrift. Enda er markmið gæludýrs bankanna ekki að gefa út blað, heldur að leggja niður blað. Í það má sóa nokkrum milljónum af fé úr bönkunum. Mál þetta sýnir í hnotskurn, að nútíma auðræði drepur fjölmiðlun.