Sakna gömlu góðu Rafha

Punktar

Sakna gömlu Rafha eldavélarinnar. Var ættuð úr Hafnarfirði og reyndist  vel. Ég sneri einum takka til að steikja egg. Nú þarf ég að þrýsta fimm sinnum á takka til að steikja egg. 1. Kveikja á eldavélinni. 2. Velja hellu. 3. Velja hita. 4. Velja hellu. 5. Velja hellustærð. Frábær þægindi. Svo er hér nýtízku Bomann hraðsuðukanna. Allir takkar stríða gegn lögmáli vogarstangar. Svo lekur þessi nýja kanna. Frábær þægindi. Minnir á lyfturnar um daginn á Grand hótel Chamran í Shiraz. Flókin samskipti við takka þurfti til að vekja lyfturnar. Óþolinmóðir lömdu takkaborðið, lyftur trylltust og fluttu fólk á ýmsar óumbeðnar hæðir.

Flagga trúarsetningum

Punktar

Fáir eiga jafn erfitt með að verja rangan málstað og þrengingarfólk skipulags Reykjavíkur. Slagorð þess styðjast ekki við raunvísindi, bara við draumóra kennara í skipulagsspeki. Í forsendum er ekki tekið tillit til óska íbúa, sem fyrir eru á þrengdum svæðum. Útsýni, bílastæði og andrými er hrifsað af íbúum svæðis og selt bröskurum og verktökum. Við þrengingu umferðaræða er ekki tekið tillit til aukinnar mengunar og aukins benzíns við hverja stöðvun, sem búin er til. Í stað viðstöðulausrar umferðar koma umferðarljós og slys. Þegar þetta er gagnrýnt, ver þrengingarfólk sig með marklausum möntrum úr draumórabæklingum.

Fín regla um ryksugur

Punktar

Þurfti að kaupa nýja ryksugu. Tók ekki aðra eins í gamla stílnum, heldur nýja að hætti Evrópusambandsins á sama verði. Hafði lesið hryllingssögur um tilræði Evrópusambandsins við ryksuguhefð þjóðanna. Reynslan var sú, að þessi ryksugar langtum betur og er langtum hljóðlátari en hin, sem ég gat valið í gamla stílnum. Evrópusambandið þvingaði þannig framleiðendur á ryksugum til að búa til miklu betri ryksugur, sem nota miklu minna rafmagn, ryksuga miklu betur og hafa miklu lægra. Sama gildir líklega um aðrar hataðar reglugerðir hins voðalega sambands. Lengi lifi sameinuð Evrópa, niður með afdala- og útnesjalið.

Í Róm eins og Rómverji

Punktar

Flýði ég rústagerð silfurskeiðunga og settist að í landi múslima, mundi ég lúta þarlendum siðum. „Í Róm lifirðu eins og Rómverji“. Ætlast til hins sama af múslimum, sem hingað leita. Þeir vita fyrirfram, að Ísland er veraldlegt land. Mundi vilja leyfa slæður, þær voru þjóðbúningur kvenna á Íslandi í minni æsku. En banna búrkur á almannafæri. Mundi ekki vilja hliðra til fyrir halal mat í mötuneytum frekar en kosher gyðinga. Mundi ekki vilja haga skólastarfi eftir bænastundum eða föstum múslima. Örfáir múslimar á Íslandi eru ósáttir við það. Tilvalið fyrir þá er að fara annað, þar sem hliðrað er til fyrir trúarbrögðum.

Andvana andstaða

Punktar

Mér sýnast þingmenn stjórnarandstöðunnar vera sams konar undirmálsfólk og þingmenn stjórnarinnar. Get nefnt tíu bloggara og fésbókara, sem hver um sig hitar meira undir stjórninni en samanlögð stjórnarandstaðan. Má þó draga frá Helga Hjörvar, sem oft er á vakt. Verstir eru formenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Sá síðari rankar við sér einu sinni í viku og sú fyrri einu sinni í mánuði. Hafa má þeim til afsökunar, að ríkisstjórnin er einfær um reka sjálf sína andstöðu. Svo oft skýtur hún sig í fótinn, einkum dekurbarnið á toppnum. Setningu dagsins á þá hinn höfuðfávitinn: „Hanna Birna axlar ábyrgð með því að starfa áfram“.

Handarbakavinna bófanna

Punktar

Watergate-málinu lauk ekki með dómi yfir fimm handbendum Nixons. Því lauk með afsögn Nixons forseta. Samkvæmt lögmálinu: „It isn’t the crime, it’s the cover up“. Eins lýkur Hönnubirnumálinu ekki með dómi yfir handbendi Hönnu Birnu, því lýkur með afsögn Hönnu Birnu. Á Vesturlöndum axla pólitíkusar ábyrgð fyrr eða síðar. En hér á landi segir Bjarni Benediktsson hins vegar: „Hanna Birna axlar ábyrgð með því að starfa áfram.“ Íslandi er stjórnað af bófum á borð við Nixon. Klaufalegum afskiptum Hönnu Birnu af rannsókninni verður ekki sópað undir borð. Flokkurinn minnir á sögu Jimmy Breslin: „The Gang That Couldn’t Shoot Straight“

Harmleikur heimsmetsins

Punktar

Vel er gert hjá Bjarna Ben, Katrínu Jakobs og Árna Páli að sýna fram á harmleik heimsmetsins. Þau sóttu öll um „leiðréttingu“. Ekkert sýnir betur, að með henni er verið að gefa peninga, sem fólk þarf ekki. Þetta er aðgerð, sem umfram aðrar hentar efri millistéttum, sem skulda mikið, en eru ekki á flæðiskeri. Eins og allar gerðir ríkisstjórnarinnar miðar heimsmetið að aukinni stéttaskiptingu. Við sáum það strax í lækkun auðlindarentu og afnámi auðlegðarskatts. Við sjáum það núna í vísvitandi niðurrifi Landspítalans og lækkun framlaga til hvers kyns velferðar. Leiðréttingin er eitt skref af mörgum í átt frá þjóðfélagi mannúðar.

Gamlingjar og glæponar

Punktar

Gott væri, að höfundur þessa frábæra texta, sem rúllar á fésbók, gefi sig fram:
„Setjum gamla fólkið í fangelsi og afbrotamenn á elliheimili.
Þá fengi gamla fólkið aðgang að baði, tölvu, sjónvarpi, líkamsrækt og gönguferðum. Allt starfsfólk talaði íslensku við það og enginn stæli frá þeim. Þeir sem vildu gætu stundað nám, smá vinnu eða dútlað við föndur og gamla fólkið fengi líka greitt í stað þess að borga háan hluta af ellilífeyrinum sínum. Bubbi Mortens og Ari Eldjárn kæmu svo til að skemmta á aðfangadag.
Afbrotamenn fengju þá kaldan mat, engan pening, væru aleinir, starfsfólkið talaði allt að 10 ólík tungumál og enga íslensku. Þeir þyrftu að slökkva ljósin kl. 20 og fengju að fara í bað einu sinni í viku. Félagar úr Harmonikkufélagi Reykjavíkur kæmu svo til að skemmta þeim á sjómannadaginn.“

Týndi milliliðurinn

Punktar

Á BLOGGINU í dag ræðir Brynjar Níelsson þingmaður misræmi í skoðunum sínum á ráðherraábyrgð Hönnu Birnu. Þetta er stutt grein, enda hefur Brynjar það fram yfir marga aðra að láta ekki vaða á súðum. Í fyrri hlutanum staðfestir Brynjar fyrri skoðanir um afsögn ráðherra. Í síðari hlutanum segist hann treysta Hönnu Birnu og virðist vilja verja hana vantrausti. Hann sé þó enn sömu skoðunar og áður. Þarna vantar millilið (missing link). Vonandi finnst þessi milliliður í síðari röksemdum. Þróunarkenning Darwins þótti ekki sönnuð fyrr en „missing link“ fannst. Ekki er alltaf nóg að skrifa stuttaralega til að mál skiljist.

Hjörvar tryllir Sigmund

Punktar

Í kynningu á heimsmetinu á alþingi í gær, sagðist Sigmundur Davíð hlakka til umræðu um réttlætismálið. Næsti, Helgi Hjörvar, var að byrja, þegar Sigmundur hljóp út og sást ekki meir. Hann þolir alls ekki mótlæti og verður fárveikur, þegar veruleikanum er brugðið upp. Þá er ekkert annað í stöðunni en að flýja undir sæng. Umræðu um hið fagra heimsmet var frestað til næsta dags. Þannig er líf forsætisráðherra fremur skrykkjótt. Dögum saman er hann týndur. Svo stígur hann fram til að dásama heimsmetin. Helgi Hjörvar þarf svo bara að standa upp til að Sigmundur Davíð umhverfist í ofsa um loftárásir og lætur sig svo hverfa.

Trúlega meðsek

Punktar

Hanna Birna er trúlega meðsek Gísla Frey. Það eru dæmigerð hennar vinnubrögð, sem hann var dæmdur fyrir. Hún er hamslaus af frekju og yfirgangi. Arngrímur Ísberg dómari leit ekki á hennar anga málsins. Tók bara játningu Gísla Freys góða og gilda eins og dómarar gerðu á Sikiley mafíunnar í gamla daga. Ætti þó  að hafa reynslu af marklausum játningum. Marklausum dómi hans ber að áfrýja. Ekki til að fá strangari dóm yfir Gísla Frey, heldur til að ná fram rannsókn á aðild Hönnu Birnu. Efni í þá skoðun mun koma fram í greinargerð umboðsmanns alþingis um samskipti hennar og Stefáns Eiríkssonar, sem flúði svo úr starfi.

Sjúk hugsun kommissars

Punktar

Gísli Freyr bað ekki fórnardýrið afsökunar á slúðri og lygi. Bað ekki blaðamenn DV afsökunar, þótt þeir sæti ofsóknum fyrir dómstólum. Bað ekki afsökunar Rauða krossinn, skúringakerlingar, ráðuneytisstjórann og aðra þá, sem liðsmenn hans bentu á sem líklega skúrka. Bað ekki umboðsmann alþingis og ríkissaksóknara afsökunar, þótt þeir væru sagðir í skipulögðu samsæri með stjórnarandstöðunni. Allra sízt bað hann Stefán Eiríksson lögreglustjóra afsökunar, þótt sá fórnaði starfinu í örvæntingu. Allt í kringum Gísla Frey er vítavert blóðbað, en hann biður bara ráðherra og samsærisfólk sitt afsökunar. Allt hitt eru bara óvinir.

Viðreisn: Sama tóbakið

Punktar

Viðreisnarflokkur Benedikts Jóhannessonar boðar aukna einkavæðingu í menntun. Ég fékk gæsahúð. Þar er flokkur, sem hyggst lifa samhliða þeim flokki, sem er að keyra menntun þjóðarinnar fjandans til. Þurfum ekki fleiri slíka. Þótt annar sé með Evrópu og á móti krónu og hinn á móti Evrópu og með krónu. Komi báðir flokkarnir fólki á þing, munu þeir óðar semja um samstarf um að kýla fátæklinga í verri klessu. Viðreisn og Flokkurinn eru jafngild afsprengi trúarofstækis Hannesar Hólmsteins, síamstvíburar í „græðgi er góð“. Þeir skipta með sér 25% sauðahjörð kjósenda. En þeir fiska væntanlega lítið á dýpri og fengsælli miðum.

Flokkurinn er þjóðin

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn lítur á flokksmenn sem þjóðina. Þegar Geir Haarde biðst afsökunar, biður hann flokkinn afsökunar, ekki þjóðina. Þegar Gísli Freyr biðst afsökunar, biður hann ráðherrann og samstarfsfólkið afsökunar. Ekki fórnardýr sín og allra sízt þjóðina. Þegar Hanna Birna keyrir í klessu, ber hún vandann undir þingflokkinn, sem segir laggo. Allar athafnir flokksins í þessari stjórn eru í þágu auðsins og flokksins, ekki fólksins. Er flokkurinn hannar réttlæti, er það réttlæti fyrir flokksmenn. Skilar sér vel í stjórn með Framsókn. Svo frávita eru kjósendur hans, að þeir ímynda sér allt annað, sem enginn skilur.

Siðblinda leiðréttingin

Punktar

Eins og Bjarni Benediktsson ráðherra sóttu margir auðmenn um „leiðréttinguna“. Fengu hana auðvitað, enda aðgerðin miðuð við hagsmuni hinna ríku. Hér er allt miðað við hagsmuni hinna ríku. Sumir vel stæðir hafa komið fram til að ræða, hvað gera skuli við mánaðarlegu þúsundkallana. Sumir hafa góðar hugmyndir, til dæmis um barnaþorp í Afríku eða Landspítalann. Allir vita þeir mun betur en ríkisstjórnin og Tryggvi Þór Herbertsson um réttu forgangsröðina í samfélagi siðaðra. Gjafmildin stingur prjóni í blöðru siðblindingjanna. Þeir bjuggu til fáránlega „leiðréttingu“ í þágu þeirra, sem ekki þurfa neina þúsundkalla frá þér og mér.