Ísland er samt ónýtt

Punktar

Ísland er ónýtt land, ef fjöldi embættismanna tekur gerræði ráðherra fram yfir reglur um meðferð mála. Ísland er ónýtt land, ef ráðherrar fara að skipa jámenn og undirmálsfólk í embætti. Ísland er ónýtt land, ef pólitíkusum og lagatæknum tekst að salta stjórnarskrá fólksins. Ísland er ónýtt land, ef kvótagreifar ná varanlegu eignarhaldi á auðlindum hafsins. Ísland er ónýtt land, ef því tekst ekki að ná auðlindarentu af auðlindum sínum. Ísland er ónýtt land, ef þjóðin hefur ekki döngun til að hafna pólitískum bófum án þess að velja aðra slíka. Ég tel líkur á, að öll ofangreind atriði séu veruleikinn. Ísland er því ónýtt.

Hunza regluverkið

Punktar

Mér sýnist félag lögreglustjóra telja við hæfi, að þeir sendi starfsfólki ráðuneyta skýrslur um einkahagi fólks. Og að þessar sendingar séu stílaðar beint á starfsmanninn og finnist aldrei í skrám ráðuneytisins. Yfirlýsing þess til stuðnings lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu verður ekki skilin á annan hátt. Þarna er greinilega víðtæk brotalöm í framkvæmd á regluverki. Að ýmsu þarf að gæta við slíkar sendingar til að brjóta ekki lagagreinar og reglugerðir. Lögreglustjórar virðast hunza allt regluverk og telja sig knúna til að hlýða gerræði ráðherra. Fasistar taka gerræði fram yfir regluverk góðrar býrókratíu. Ríkissaksóknari þarf að rannsaka þessa firru allra lögreglustjóra.

Sáttmáli þjóðar

Punktar

Stjórnarskráin góða, sem samin var í opnu ferli þjóðarinnar, lenti í hakkavél lagatækna. Með aðstoð þeirra tókst Sjálfstæðis, Framsókn og nokkrum þingmönnum annarra flokka að stöðva framgang hennar. Var þó orðin heimsfræg sem merkasta nýjung við gerð stjórnarskrár. Sumpart minnti hún á bandarísku stjórnarskrána. Hún er sáttmáli þjóðar við sjálfa sig um, hvernig hún vilji skipa málum sínum. Hún leggur línur, skilur hugtök á borð við þjóðareign, sem lagatæknar þykjast ekki skilja. Enda mega lagatæknar aldrei kom að gerð stjórnarskrár. En mega smíða lög innan ramma stjórnarskrár. Við munum knýja þessa stjórnarskrá í gegn.

Gólftuskur og byrokratar

Punktar

Í ríkiskerfinu eru embættismenn, sem byggja upp góða siði og setja í regluverk, byggt á fyrri reynslu. Oft er þýzka ríkiskerfið nefnt sem dæmi um byrokratíu af því tagi. Svo eru gólftuskur, er þjóna gerræðishneigð ráðherra, þótt það stríði gegn regluverkinu. Oft er ítalska kerfið nefnt sem dæmi um slíka rotnun. Ísland hallast að því ítalska, embættismenn eru gólftuskur, svo sem nýr lögreglustjóri Reykjavíkur og ráðuneytisstjóri innanríkis. Samt eru hér einnig embættismenn í þýzka stílnum, sem láta gerræðishneigða ráðherra ekki valta yfir sig. Dæmi eru ríkissaksóknari, umboðsmaður alþingis, brotthrakinn lögreglustjóri borgarinnar.

Fjarlægist skáldskap

Punktar

Langt er síðan ég hætti að lesa skáldsögur til að fá samtöl eða efnisþráð eða óvæntan enda. Reyfarar með spennu valda mér þjáningu, einkum þeir norrænu. Ég les reyfara, ef ætla má, að lýsingin á Camp Knox sé rétt eða sannferðug. Að lýsingin á þjóðlífi í Istanbul fyrir öld sé rétt eða sannferðug. Að lýsingin á borg á Sikiley sé rétt eða sannferðug. Að lýsingin á síkjum eða matreiðslu í Feneyjum sé rétt eða sannferðug. Oft les ég reyfara með borgar- eða landakort við hliðina. Ég fjarlægist smám saman dálæti á skáldskap. Vil helzt lesa texta, sem fjallar óbeint um landa- og sagnfræði í nútíð eða fortíð. Helzt í fortíð.

Evrópa síast inn

Punktar

Að venju kemur allt réttlæti á Íslandi frá Evrópu. EFTA-dómstóllinn hefur metið íslenzk neytendalán ólögleg, séu þau með verðbólguvísitölu, sem miðuð er við 0%. Þau eigi að miðast við verðbólgu á lántökutíma. Bankarnir munu berjast um á hæl og hnakka, en innlendir dómstólar þora ekki að fara gegn Evrópu og evrópsku réttlæti. Hingað til hefur einkennt íslenzka dómara, að þeir skilja ekki orðið réttlæti. Voru í geðveikiskasti að dæma ungling fyrir 0,2 grömm af marijúana. En Evrópa síast inn hægt og örugglega. Senn hverfa dómarar frá Líndælsku, fara að skilja orð eins og þjóðareign og réttlæti, hornstein góðra laga í Evrópu.

Vandið ykkur næst

Punktar

Ekkert bendir til, að unnt verði að losna við ríkisstjórnina á kjörtímabilinu. Hún mun valda þjóðinni miklu tjóni í hálft þriðja ár í viðbót. Íslendingar eru seinþreyttir til vandræða og þá sennilega líka til byltinga. Í næstu kosningum er þó hægt að kasta út bófaflokkunum. Brýnt er, að fólk greiði atkvæði og kasti ekki atkvæði á flokka, sem litlu vilja breyta. Fái skýr og eindregin loforð flokka og frambjóðenda fyrir samþykkt nýrrar stjórnarskrár, sem liggur fullbúin í salti. Fá loforð sömu aðila fyrir samþykkt fiskveiðilaga, sem gefur þjóðinni væna auðlindarentu. Þá verður mikið um keypta frambjóðendur bófanna, varist þá.

Skapandi bókhald greifa

Punktar

Vegna gjafakvóta er ekki samkeppni í sjávarútvegi. Þar eru ekki þær framfarir, sem fylgja samkeppni, til dæmis útboði veiðiheimilda. Rekstur fyrirtækja felst í skapandi bókhaldi. Til dæmis í hækkun í hafi, sem flytur peninga til Tortola. Bókhald fyrirtækja í utanríkisviðskiptum er marklaust eins og bókhald stóriðju. Því er hagað þannig, að sem minnst fé verði eftir í landinu. Mest hverfur út í heim. Gerir kvótagreifum í evrum kleift að borga hlægilegt kaup í krónum og gráta út af skattlagningu. Þannig verður þjóðin af arði sinnar þjóðarauðlindar. Öfugt við Norðmenn, sem láta sína þjóðarauðlind borga lífeyri alls almennings.

Gólftuskur ráðherrans

Punktar

Þótt ráðherra sé „yfir“, verður hann að fara eftir lögum og reglum. Núverandi ráðherrar vilja fremur geðþótta, jafnvel í símaskilaboðum. Þótt ráðherra segi „ég ræð“, verða embættismenn að halda í lög og reglur. Því má lögreglustjóri ekki senda trúnaðargögn stíluð á aðstoðarmann ráðherra, aðeins á ráðuneytið, þar sem gögnin fara í skjalaskrá. Því má ráðuneytisstjóri ekki mæla svo fyrir, að rannsókn máls verði slök, svo hlægileg, að ekkert komi í ljós. Embættismenn af því tagi eru ekkert annað en gólftuskur ráðherrans. Hanna Birna hefði ekki getað gengið sinn berserksgang án slíkra gólftuskna í gervi embættismanns.

Fyrir skít og kanil

Punktar

Ekki kemur á óvart, að þrælahald er stundað á Íslandi eins og önnur siðvilla. Útlendir þrælar eru látnir skúra Landspítalann fyrir skít og kanil. Auðvitað er ekkert eftirlit, Íslendingar hata allt eftirlit og kalla það eftirlitsiðnað. Raunar ættu eigendur og stjórnendur Hreins efh. að sitja bakvið lás og slá. Málið sýnir líka ræfildóm Einingar, stéttarfélags verkamanna. Verkalýðsrekendur eru fyrir löngu hættir að sinna umbjóðendum sínum. Orðnir verkfæri gráðugra atvinnurekenda, sem skipulega reyna að rústa öllu eftirliti með glæpum sínum. Þetta er Ísland í dag, díki spillingar og þrælahalds, undir stjórn bófaflokka.

Feludýr stjórnar löggu

Punktar

Lögreglustjórinn í Reykjavík, áður lögreglustjóri í Keflavík er feludýr undir verndarvæng hinnar æruskertu Hönnu Birnu. Feludýrið vill auðvitað ekki tala við blaðamenn, því það getur ekki útskýrt framferði sitt í yfirhilmingarmálinu. Hún er ekki embættismaður, heldur senditík. Hún veldur ekki embættinu, sem sést af, að hún getur ekki einu sinni rætt stöðu sína. Þessa dagana er lögreglustjórinn í Reykjavík skýrasta dæmið um andverðleikaþjóðfélagið. Bófaflokkarnir, sem öllu ráða, velja til embættis helzt af öllu vitlausari og meðfærilegri jámanninn. Þannig er Ísland ólíkt flestum nálægum þjóðum, allt í boði firrtra kjósenda.

Hin illa ríkisstjórn

Punktar

Sorglegt er að sjá viðbrögð innanríkis og forsætis við svokallaðri afsögn Hönnu Birnu. Svo siðblind, að þau sjá ekkert rangt við afskipti ráðherra af rannsókn máls. Eftir þeirra bók er Hanna Birna fórnardýr vondrar þjóðar. Valdamenn almennt eru fullir hroka, illsku og heiftar og spegla það í þjóðinni. Ráðherrarnir eru sjálfir gerendur málsins, ekki þjóðin, sem finnur bara til sársauka og reiði. Svona blindar valdið ráðamenn og gerir brýnt að skipta um þá á fjögurra ára fresti. Sigmundur Davíð og Hanna Birnu urðu að vísu óalandi og óferjandi á mun skemmri tíma. Hvenær linnir ofsóknum hinnar illu stjórnar gegn þjóðinni?

Þú berð sjálfur ábyrgð

Punktar

Örlög ráða ekki erfiðleikum þínum. Þau koma ekki að ofan frá Urði, Verðandi eða Skuld. Það voru kjósendur Framsóknar og Sjálfstæðis, sem ákváðu að valda þér fjárhagstjóni og öðrum erfiðleikum. Þeir ákváðu, að þú mundir ekki lifa góðu lífi innan um alla auðlegðina í hafinu, í orkunni, í ferðafólkinu. Kjósendur stjórnarflokkanna ákváðu, að allur arður þjóðarauðsins rynni til greifa af ýmsu tagi. Og þú hefur látið það viðgangast. Hefur ekki einu sinni kvartað við þann örlagavald, sem þú þekkir í fjölskyldunni, í húsinu, vinnunni. Hefur ekki lýst hneykslun þinni á, að hann láti þjóðinni vera stjórnað af gráðugum bófaflokkum.

Lak smám saman út

Punktar

Dæmigert fyrir lekamálaráðherrann. Síðasta daginn lak fréttin af eins konar-nokkurn veginn-næstum því afsögn hennar. Áður en formlegum lygum yrði komið við að fyrra bragði. Hanna Birna horfir nú til baka eftir eins árs lygavef. Gæti fattað, að ódýrara fyrir alla hefði verið að segja satt strax í upphafi. En það er erfitt að segja satt, þegar maður kann bara lygi. Hrunbotn Hönnu Birnu var um daginn. Þá laug aðstoðarmaðurinn mest, er hann sagðist segja satt. Í lygavef Hönnu Birnu og félaga liggja eyðilagðir embættismenn, sem tóku þátt: Formaður rekstrarfélagsins, ráðuneytisstjórinn og svo einka-lögreglustjóri Hönnu Birnu.

Hvar sem þeir finnast

Punktar

Stefna ríkisstjórnarinnar sést í fjárlögum, skýr, einbeitt og grimm. Þar sjást flutningar tugmilljarða króna frá fátækum til hinna allra ríkustu. Í umboði nærri helmings þjóðarinnar er kvótagreifum og öðrum auðgreifum afhentur arður þjóðfélagsins. Með stórfelldri lækkun auðlindarentu og afnámi auðlegðarskatts. Í umboði nærri helmings kjósenda eru þessir tugmilljarðar teknir af fátækum. Af öldruðum, öryrkjum, sjúklingum, einstæðum. Við sjáum afleiðingarnar, þegar fólk deyr á biðlistum Landspítalans. Hafi fólk eitthvað við grimmdina að athuga, ber því að snúa sér til kjósenda Framsóknar og Sjálfstæðis. Hvar sem þeir finnast.