Félög gegn fáokun

Greinar

Ef Félag íslenzkra bifreiðaeigenda býður út ökutryggingar þeirra, sem þess óska, er hægt að fá erlend tryggingafélög til að bjóða kjör, sem lækka iðgjöld skyldutrygginga um mörg þúsund krónur á hvern bíl á ári. Um þetta þarf samtök, eins og um önnur hagsmunamál fólks.

Ekki þýðir að kvarta yfir því, að íslenzku tryggingafélögin safni digrum tjónasjóðum og hafi iðgjöld skyldutrygginga í því skyni tuttugu eða þrjátíu þúsund krónum hærri á ári en gengur og gerist í nágrannalöndunum, þar sem tjón eru ekki fleiri, stærri eða dýrari en hér.

Íslenzku tryggingafélögin eru ekki að gera annað en að gæta hagsmuna sinna. Þau eru fá og hafa samráð sín í milli um að bæta hag sinn á kostnað viðskiptamanna, sem eru margir og dreifðir. Koma Skandia inn í þessa fáokun hefur ekki aukið samkeppnina neitt að ráði.

Sundraðir eru ökumenn máttlitlir. Sameinaðir geta margir ökumenn hins vegar lagt fram viðskiptapakka, sem freistar erlendra tryggingafélaga. Það er verðugt verkefni fyrir Félag íslenzkra bifreiðaeigenda að rjúfa fáokun tryggingafélaganna með útboði á bílatryggingum.

Ekki skiptir minna máli, að félagið aðstoði við að auka samkeppni í benzínverði með því að stuðla að tilkomu fleiri seljenda. Við sjáum, að ótti olíufélaganna við ókomið Irving Oil hefur þegar leitt til þess, að fólk getur fengið ódýrara benzín með því dæla sjálft á bílinn.

Olíufélögin eru enn færri en tryggingafélögin og fáokun þeirra magnaðri. Óvíst er, að eitt nýtt olíufélag til viðbótar við þau tvö eða þrjú, sem fyrir eru, hafi miklu betri áhrif en fjölgun tryggingafélaga um eitt erlent félag. En lítil fjölgun er þó betri en alls engin fjölgun.

Fáokun íslenzkra banka hefur svipuð áhrif og fáokun olíu- og tryggingafélaga. Bankarnir hafa stundað fáránlegar lánveitingar, sumpart pólitískar, og komast upp með að láta heiðarlega viðskiptavini sína greiða sér milljarða á hverju ári upp í tapið af óráðsíu bankastjóra.

Því miður eru engin samtök á sviði viðskiptamanna bankanna. Það er hins vegar verðugt verkefni fyrir samtök fyrirtækja á ýmsum sviðum að leita erlendra tilboða í bankaviðskipti sín. Við verðum að fá hingað banka, sem ekki bera fortíðarbyrðar af völdum óhæfra bankastjóra.

Ekkert fæst með því að kvarta og kveina. Slíkt hljómar sem flugusuð í eyrum fáokunarstofnana. Fólk og fyrirtæki þurfa að bindast samtökum um að gæta hagsmuna sinna, svo að mark sé tekið á þeim. Þetta gildir líka um sveitarfélög, sem reyna að gæta hagsmuna íbúanna.

Þetta gildir um alla fáokun og einokun á Íslandi. Hér hefur verið fjallað um benzín, bílatryggingar og bankaþjónustu, en hefði eins verið hægt að fjalla um flug, póst eða síma. Hinir undirokuðu þurfa að taka saman höndum um að freista erlendra fyrirtækja til að starfa hér.

Þegar fólk og fyrirtæki hafa safnað hagsmunum hinna smáu á afmörkuðum sviðum í öflug samtök, er eðlilegt framhald, að slagkrafturinn verði notaður til að beita pólitískum þrýstingi gegn óeðlilegum áhrifum fáokunar- og einokunarstofnana á stefnu pólitískra laxveiðivina.

Vonandi tekst Félagi íslenzkra bifreiðaeigenda að ná viðskiptalegri og pólitískri stöðu til að berja á þeim, sem sitja yfir hlut bíleigenda. Það mundi hvetja til hliðstæðra aðgerða þolenda á öðrum sviðum. Okkur skortir til dæmis vígreif baráttusamtök neytenda landbúnaðarafurða.

Fáokunarstofnanir óttast að missa viðskipti og stjórnmálamenn óttast að missa atkvæði. Hinir smáu verða að standa saman um að rækta þennan mikilvæga ótta.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir hækka líka jólatrén

Greinar

Jólatré verða dýrari um næstu jól en þau hafa hingað til verið. Ríkisstjórnin notar svonefnt GATT-samkomulag um minnkuð innflutningshöft til að leggja sérstakt gjald á innflutt jólatré. Gjaldið leiðir til 40% verðhækkunar á hefðbundnum jólatrjám af venjulegri stærð.

Þetta er nýjasta dæmið af mörgum um, að ríkisstjórnin notar GATT-samkomulagið þveröfugt við yfirlýst markmið þess. Hún notar það til að koma á fót kerfisbundnum mismun á verði innlendra og innfluttra afurða, þegar hún neyðist til að heimila innflutning.

Örlítill hluti innfluttu trjánna verður þó á sérkvóta og sleppur við nýja gjaldið, alveg eins og í annarri búvöru. Enn er ekki ljóst, hvernig þessi gjaldfría búvara verður skömmtuð í hendur neytenda. Ljóst er þó, að ýmsir munu kunna við sig í hlutverki skömmtunarstjóra.

Athuganir hafa leitt í ljós, að grænmeti hefur í sumar verið umtalsvert dýrara en undanfarin sumur. Það stafar af nýju reglunum frá landbúnaðarráðuneytinu. Þær hafa verið notaðar til að hífa upp grænmetisverð, alveg eins og þær verða notaðar til að hækka verð á jólatrjám.

Hér á landi hefur GATT-samkomulagið þegar verið og mun enn frekar verða notað til að auka útgjöld neytenda í því skyni að bæta stöðu sérhagsmunahópa. Þessi stefna ríkisstjórnarinnar stríðir gegn samkomulaginu og sýnir botnlausa fyrirlitningu á íslenzkum neytendum.

Neytendur eiga þessa fyrirlitningu skilið, af því að reynslan sýnir, að þeir láta flest yfir sig ganga möglunarlaust. Þeir halda áfram að kjósa stjórnmálamenn, sem eru yfirlýstir andstæðingar neytenda. Og þeir sýna yfirvaldinu því meiri hollustu, sem þeir eru meira barðir.

Undirstöður verðhækkana þessa árs voru reistar af fyrrverandi ríkisstjórn, sem seldi þáverandi landbúnaðarráðherra nánast sjálfdæmi um túlkun GATT-samkomulagsins á Íslandi. Hann beitti þessu sjálfdæmi til hins ýtrasta og sá nýi hefur bætt um betur.

Hefðbundið er, að ráðherra og embættismenn landbúnaðarmála á Íslandi starfi ekki með hagsmuni ríkis og þjóðar í huga, heldur séu framlengdur armur hagsmunasamtaka úti í bæ. Þetta hefur aukizt með árunum og náð hámarki í nýjustu reglugerðum ráðuneytisins.

Reynslan sýnir, að allir stjórnmálaflokkar landsins styðja þessa sérstöðu landbúnaðarmála í kerfinu. Þeir eru allir sammála því, að landbúnaðarráðuneytið ráði ferðinni, þegar árekstrar verða milli þess og annarra ráðuneyta, svo sem viðskipta- og umhverfisráðuneyta.

Til skamms tíma notaði pólitíska kerfið þessa bóndabeygju til að tefja fyrir og draga úr ávinningi neytenda af þróun vöruverðs og vörugæða í milliríkjaverzlun landbúnaðarafurða. Það er hins vegar nýtt, að hún sé notuð til að stíga skref aftur á bak til fortíðarinnar.

Þetta væri ekki framkvæmanlegt í öðrum ríkjum Vesturlanda. Þar mundu neytendur rísa upp til varna, ef ráðizt væri gegn hagsmunum þeirra á jafn purkunarlausan hátt og hér hefur verið gert á þessu ári. Erlendir neytendur mundu taka til varna á eftirminnilegan hátt.

Í nágrannalöndunum mundu samtök launafólks hafa forustu um að knýja stjórnvöld til að láta af ofsóknum í garð neytenda. Hér á landi eru forustumenn slíkra samtaka yfirleitt værukærir kontóristar, sem hafa reynzt alveg ófærir um að vernda lífskjör umbjóðenda sinna.

Ríkisstjórnin veit, að henni er óhætt að brjóta alþjóðasamninga til að taka sérhagsmuni fram yfir hagsmuni neytenda, sem ekki vilja bera hönd fyrir höfuð sér.

Jónas Kristjánsson

DV

Heimsmarkaðsverð er rétt

Greinar

Nýsjálendingar flytja út mikið af landbúnaðarvörum og verða í útflutningi að sæta heimsmarkaðsverði. Þeir keppa til dæmis við Íslendinga um sölu lambakjöts og ráða miklu um, að verðið er svo lágt, að það dugir varla fyrir slátur- og flutningskostnaði hér heima.

Samt styðja Nýsjálendingar ekki sauðfjárrækt eins og við gerum. Meðan markaðsstuðningur við landbúnað hér á landi er 73% samkvæmt tölum frá efnahags- og framfarastofnuninni OECD, nemur stuðningurinn þar ekki nema 3% og er á allt öðrum sviðum en í sauðfjárrækt.

Talsmenn íslenzks landbúnaðar fara með rangt mál, þegar þeir halda fram, að heimsmarkaðsverð á landbúnaðarvörum sé tilbúið verð, sem skili bændum ekki því verði, er þeir verði að fá til að hafa upp í kostnað og vinnu. Dæmið um Nýja-Sjáland sýnir þetta greinilega.

Ástralir eru önnur landbúnaðarþjóð, sem hefur útflutning búvöru að einum hornsteini efnahagslífsins og verður líka að sæta heimsmarkaðsverði á fjölbreyttum afurðum sínum. Samt er markaðsstuðningur við landbúnað þar í landi aðeins 10%, það er nánast enginn.

Nýsjálendingar og Ástralir eru í hópi auðþjóða heimsins og gera því töluverðar kröfur um lífsþægindi. Þjóðir þriðja heimsins gera minni kröfur af því tagi. Þær flytja út mikið af búvöru án þess að styðja landbúnaðinn neitt og selja auðvitað á heimsmarkaðsverði eins og aðrir.

Bandaríkjamenn eru í senn ein mesta auðþjóð heimsins og ein mesta útflutningsþjóð búvöru. Framleiðslan er fjölbreytt og rekstur bandarískra bænda er markviss. Markaðsstuðningurinn þar er aðeins 21% og er nánast allur á afmörkuðum sviðum, svo sem í hveitirækt.

Þegar hagsmunaðilar hér á landi og raunar líka á meginlandi Evrópu fárast út af því, að heimsmarkaðsverð sé marklaust, eru þeir bara að segja, að þeir geti ekki keppt við þetta verð, þótt bændur í öðrum heimsálfum geti notað það og hafi það sumir bara nokkuð gott.

Heimsmarkaðsverð ræðst af hagkvæmni í sérhæfðum rekstri, sem býr við ákjósanleg náttúruskilyrði. Í mörgum tilvikum, svo sem í Bandaríkjunum, Ástralíu og Nýja-Sjálandi eru það engir kotkarlar, heldur vel stæðir bændur, sem standa fyrir þessu verði og selja á því.

Af því að heimsmarkaðsverð er raunhæft verð er eðlilegt að miða við það, þegar reiknaður er út markaðsstuðningur við landbúnað. Það hefur OECD gert í skýrslum sínum um landbúnað þátttökuríkjanna. Þar kemur fram, að íslenzki markaðsstuðningurinn er 73%.

Auðvitað er þetta allt of hátt. Það veldur of háu verði á búvöru á Íslandi, of háum sköttum og of litlu fjármagni til annarra félagslegra þarfa, svo sem til heilsugæzlu og skóla. Það er of dýrt fyrir okkur að halda uppi of miklum landbúnaði á jaðri freðmýrabeltisins.

Ríkinu ber í áföngum að hætta markaðsstuðningi við landbúnað, afnema hvers kongar innflutningshöft og verndartolla, niðurgreiðslur og styrki. Þannig ber ríkinu að afnema allan stuðning við landbúnað, sem er umfram eðlilega fyrirgreiðslu við atvinnuvegi yfirleitt.

Til að byrja með má nota töluverðan hluta af hagnaði ríkisins af slíkum aðgerðum til að borga bændum fyrir að bregða búi. Hvatt hefur verið til þess hér í blaðinu í aldarfjórðung við litlar vinsældir, en fyrstu skrefin til aðgerða hafa þó verið stigin á allra síðustu árum.

Heimsmarkaðsverð á búvöru er raunhæft verð. Ef við viljum, getum við fengið búvöru á því verði og stigið stærsta skref til efnahagsframfara í sögu okkar.

Jónas Kristjánsson

DV

Ólíkindalæti út úr kú

Greinar

Forsætisráðherra hefur upplýst, að markmið svokallaðs GATT-samnings hafi ekki verið að lækka vöruverð og bæta hag neytenda. Slíkt sé einhver misskilningur, sem hafi komizt á flot, af því að fjölmiðlar og nokkrir kaupmenn hafi búið til ástæðulausar væntingar.

Þetta er með sérstæðari söguskýringum síðari áratuga. Við sjáum fyrir okkur, að umboðsmenn ríkisstjórna heimsins hafi í algeru tilgangsleysi verið árum saman að reyna að berja saman samkomulag á vegum GATT og stofna upp úr því ný heimsverzlunarsamtök, WTO.

Samkvæmt skýringu forsætisráðherra virðist markmið þessarar miklu vinnu hafa verið að útvega embættismönnum tækifæri til ferðalaga og langdvala í útlöndum vegna samningaviðræðna um GATT-samninginn, það er að segja að búa til forsendur ferðakostnaðarreikninga.

Íslenzkir skattgreiðendur og neytendur segja fátt og virðast sáttir við söguskýringu forsætisráðherra. Ef til vill finnst okkur eðlilegt, að varið sé milljörðum króna út í loftið til að búa til samning, sem ekki á að hafa neitt þjóðhagslegt gildi fyrir aðildarríki samningsins.

Hitt er líklegra, að fólk viti, að ráðherrann var með ólíkindalæti án þess að honum stykki bros á vör, og sé nokkuð ánægt með það, af því að það sé viðurkennd umgengni leiðtoga lífs okkar við raunveruleikann, allt frá Jónum Prímusum bókmenntanna yfir í landsfeðurna.

Annað nýlegt dæmi um, að ráðherra tali af ástettu ráði út í hött, fólst í ummælum samgönguráðherra um, að illfærir stígar svonefndrar upplýsingahraðbrautar á Íslandi væru raunhæfar og fullnægjandi hraðbrautir á því sviði. Hann var kaldur karl og komst upp með það.

Þrátt fyrir söguskýringu forsætisráðherra fólst markmið í GATT-samningnum. Með honum átti að minnka hömlur á milliríkjaviðskiptum í áföngum til að bæta hag þjóða heims. Ríkisstjórn Íslands hefur hins vegar af alefli reynt að koma í veg fyrir þetta.

Með GATT-samningnum átti fólk að fá aðgang að ódýrari vörum til að lækka rekstrarkostnað sinn. Þetta gildir jafnt um almenning, fyrirtæki og heilar þjóðar. Þetta átti um leið að bæta samkeppnisaðstöðu þjóða á þeim sviðum, þar sem sérhæfing þeirra er vænlegust.

Við kunnum að meta þessa hugsun, þegar við viljum, að erlend ríki hleypi íslenzkum sjávarafurðum tolla- og hindrunarlaust inn fyrir sínar dyr. Við viljum hins vegar ekki nýta okkur hina hliðina með því að hleypa erlendri matvöru tolla- og hindrunarlaust inn fyrir okkar dyr.

Það er alls ekki svo, að innflutningsfrelsi sé eins konar greiðsla okkar fyrir útflutningsfrelsi. Við græðum nefnilega ekki minna á að veita erlendri vöru innflutningsfrelsi en á því að fá útflutningsfrelsi fyrir íslenzka vöru. Þetta er viðurkennd hagfræði GATT-samningsins.

Flestar ríkisstjórnir eru hallar undir þrönga sérhagsmuni, einkum innlendan landbúnað. Til þess að vernda þessa þröngu sérhagsmuni gegn almannahagsmunum var ákveðið að hafa samninginn í áföngum, svo að landbúnaður hvers lands fengi nokkurn aðlögunartíma.

Ríkisstjórn Íslands hefur hins vegar sett hemlana á fullt og sýnt mikla útsjónarsemi við að hindra, að þjóðin fengi neitt út úr GATT-samningnum. Fyrsta skrefið hefur því ekki lækkað vöruverð á Íslandi, heldur þvert á móti hækkað verð á nokkrum innfluttum landbúnaðarvörum.

Íslenzkir kjósendur vilja láta kvelja sig, eru ánægðir með þessa útsjónarsemi og hafa enn meira traust á leiðtoga sínum, þegar hann hefur talað eins og út úr kú.

Jónas Kristjánsson

DV

Nýr nagli í kistuna

Greinar

Enn einu sinni er staðfest, að stuðningur skattgreiðenda og neytenda við innlendan landbúnað er allt of mikill og með því hæsta, sem þekkist í heiminum. Að þessu sinni kemur þetta fram í skýrslu Alþjóða efnahagsframfarastofnunarinnar OECD um íslenzkan landbúnað.

Tillögur stofnunarinnar eru svipaðar og löngum hafa verið settar fram hér í blaðinu. Stjórnvöld verða að hætta afskiptum af verðlagninu búvara og afnema kvótakerfi í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt, svo og að gera kleifa aukna samkeppni af hálfu innflutnings.

Ekkert af þessu mun ríkisstjórnin gera. Komið hefur fram, að hún fer aldrei bil beggja, þegar hagsmunir landbúnaðarins eru í húfi. Hún hindrar til dæmis alveg, að undirritun samningsins um Alþjóða viðskiptastofnunina komi innlendum neytendum að tilætluðu gagni.

Skýrsla Alþjóða efnahagsframfarastofnunarinnar er athyglisverð, af því að þar er beitt sömu reikningsaðferðum og sama stofnun hefur áður beitt í hliðstæðum skýrslum um landbúnað í öðrum aðildarríkjum stofnunarinnar. Hún er því góð til samanburðar við útlönd.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerir þó strax þá athugasemd við aðferðir OECD, að þar vanti mat á þeim séríslenzku aðstæðum, að framleiðendur eiga afurðastöðvarnar og ráða verðinu. Það mat var hins vegar tekið inn í svipaða athugun hjá Hagfræðistofnuninni.

Alþjóða efnahagsframfarastofnunin mat markaðsstuðninginn við íslenzkan landbúnað á tíu milljarða króna á ári. Hagfræðistofnun Háskólans hafði áður metið hann á sautján milljarða króna. Hún mun nú skoða hina nýju útreikninga og bera saman við þá fyrri.

Tíu milljarðar á ári eru mikið fé. Það er mikið fé fyrir þjóð, sem verður að loka sjúkradeildum barna og geðveikra. Það er mikið fé fyrir þjóð, sem hefur ekki ráð á að halda dampi í skólakerfinu. Það er mikið fé fyrir þjóð, sem býr við fjöldagjaldþrot heimila almennings.

Hins vegar er útilokað fyrir Íslendinga að væla út af lokunum sjúkradeilda, forgangsröðun sjúklinga, skólagjöldum og niðurskurði námslána, erfiðleikum í endurgreiðslum húsnæðislána og lélegum lífskjörum yfirleitt. Það eru þeir, sem hafa gefið landbúnaðinum forganginn.

Íslenzkir kjósendur hafa gefið nær öllum stjórnmálaflokkum landsins og þar með báðum stjórnarflokkunum umboð til að taka landbúnaðinn fram yfir aðra velferð þjóðarinnar með tíu eða sautján milljarða markaðsstuðningi á hverju ári. Um þennan forgang er þjóðarsátt.

Hinir árlegu tíu eða sautján milljarðar eru því ekki notaðir í skóla og sjúkrahús, lánasjóði og húsnæðissjóði. Þeir eru ekki notaðir til að lækka byrðar skattgreiðenda. Og þeir eru ekki notaðir til að bæta lífskjör almennings með lægra vöruverði. Þetta eiga kjósendur að vita.

Skýrsla Alþjóða efnahagsframfarastofnunarinnar sýnir það, sem oft hefur verið sagt hér í blaðinu. Hún sýnir, að íslenzkur landbúnaður er ekki atvinnuvegur, heldur hluti félagslega kerfisins og er þar í samkeppni við skóla, sjúkrahús, trygginar, húsnæðislán og fleira slíkt.

Samkvæmt skýrslunni eru þrjár af hverjum fjórum krónum af tekjum landbúnaðarins komnar frá þessu opinbera stuðningskerfi. Þetta gekk, þegar sjávarútvegurinn gat framleitt verðmæti upp í hítina. Þegar geta sjávarútvegsins byrjar að bila, brestur ómagakerfið.

Fyrir aldarfjórðungi var byrjað að leggja til hér í blaðinu, að bændum yrði borgað fyrir að hætta búskap. Það er erfiðara í atvinnuskortinum nú, en samt ekki of seint.

Jónas Kristjánsson

DV

Tvöfaldar tryggingar

Greinar

Samkvæmt nýjum útreikningum Félags íslenzkra bifreiðaeigenda greiða íslenzkir bíleigendur mun meira fyrir bíltryggingu en nágrannarnir gera og raunar tvöföld iðgjöld sænskra bíleigenda. Þessu valda ýmis atriði, en einkum þó fákeppni í tryggingum á Íslandi.

Fleiri atriði eiga þátt í þessum mikla mun. Til dæmis eru tjón tíðari hér á landi en í löndunum, sem samanburðurinn nær til. Þrír aðilar eiga sök á því: ríkið, sem leggur ekki góða vegi; ökumenn, sem aka ekki vel; og tryggingafélög, sem sundurgreina áhættuþætti ekki vel.

Vegagerð þingmanna leggur megináherzlu á lagningu spotta víðs vegar um landið til að þjónusta atkvæði, þótt ódýrara sé að leggja færri og lengri leiðir í einu. Þetta étur upp vegafé landsins og kemur einkum niður á þéttbýlinu, sem situr á hakanum hjá Vegagerð þingmanna.

Enginn vafi er á, að vinnubrögð Vegagerðarinnar leiða til fleiri, meiri og dýrari slysa en ella væru. Einkum á þetta við um helztu þjóðleiðir Reykjavíkursvæðisins, sem mestu fjársvelti sæta. Í umferðarþunga svæðisins verða mörg þau slys, sem mest magna útgjöld tryggingafélaga.

Íslenzkir ökumenn eru annálaðir. Margir þeir, sem aka heima og erlendis, eru sammála um, að þeim finnist þeir vera öruggari í margfalt þyngri umferð erlendra stórborga en í smábæjarumferðinni á Íslandi. Erlendis aka menn skipulega, en hér aka menn óútreiknanlega.

Að mörgu leyti hefur umferðarómenning Íslendinga versnað. Fáir gefa stefnuljós áður en þeir beygja. Fyrr á árum gáfu margir stefnuljós í beygjunni sjálfri, svona til sagnfræðilegra upplýsinga fyrir nærstadda. Nú er orðið algengt, að menn gefi alls ekki stefnuljós.

Tryggingafélögin hafa ekki heldur fundið umbunarleiðir, sem duga til að hvetja ökumenn til að komast slysalaust leiðar sinnar. Þau bjóða að vísu afslætti fyrir tjónalaus viðskipti í líkingu við það, sem gerist erlendis, en það virðist ekki duga til að halda slysum í skefjum.

Tryggingafélög þurfa að flokka ökumenn í fleiri áhættuflokka. Til dæmis þarf að taka meira tillit til tíðra slysa af völdum nýliða í umferðinni. Ennfremur þarf að taka meira tillit til þess, hvort ökumenn eru bindindismenn á áfengi, því að áfengi er mesti slysavaldurinn.

Fyrst og fremst þurfa tryggingafélögin að láta gera stærðfræðilega útreikninga á fylgni umferðartjóna við sem flest atriði, sem reiknanleg eru, og haga iðgjaldatöflum í samræmi við það. Yfirleitt nota tryggingafélögin allt of lítið af tryggingastærðfræðilegum útreikningum.

Annað atriði, sem veldur háum iðgjöldum, er, að erlend tryggingafélög hafa ekki séð sér hag í að bjóða bíltryggingar á Íslandi. Aðeins eitt erlent tryggingafélag hefur haslað sér völl hér á landi og virðist ekki bjóða miklu betri kjör en innlendu fáokunarfélögin gera.

Erlend tryggingafélög gera ekki strandhögg hér á landi, af því að þau óttast slæmar viðtökur íslenzkra bíleigenda. Þau telja, að þeir muni halda tryggð við gömlu okurbúlurnar, þótt þeim sé gefinn kostur á lægri iðgjöldum, af því að þeir þjáist af skorti á verðskyni.

Þetta er sennilega mikilvægasti þröskuldurinn í vegi lægri iðgjalda. Íslenzkir bíleigendur eru íhaldssamir og vilja ekki leita yfir bæjarlækinn að betri tilboðum. Þeir vilja svo sem samkeppni að utan, en vilja ekki sjálfir taka neinn þátt í að brjóta fáokunina á bak aftur.

Tryggingamarkaðurinn er orðinn frjáls. Ekki er lengur við innlendu fáokunina eina að sakast. Bíleigendur sjálfir verða að bindast samtökum um fá lág iðgjöld að utan.

Jónas Kristjánsson

DV

Ánægð með ekkert

Greinar

Ekkert lát er á vinsældum ríkisstjórnarinnar, enda er ekkert lát á aðgerðaleysi hennar. Hún lofaði fáu, þegar markmið hennar voru sett á blað, og ekkert af því hefur komizt á rekspöl. Þetta er í samræmi við vilja þjóðar, sem er orðin þreytt á tíðum stjórnvaldsaðgerðum.

Ríkisstjórnin, sem var næst á undan þessari, var mjög virk. Einkennisráðherrar hennar voru Sighvatur Björgvinsson, sem stóð í sífelldum átökum við niðurskurðartilraunir, og Jón Baldvin Hannibalsson, sem beitti liðugum talanda til að hrella mann og annan í tíma og ótíma.

Ráðherrar þeirrar ríkisstjórnar voru daglegir gestir í sjónvarpsfréttum. Suma daga snerust hálfir fréttatímar sjónvarpsstöðva um viðtöl við ráðherra. Ráðherrar þessarar ríkisstjórnar sjást mun sjaldnar á skjánum, enda munu menn ekki verða eins fljótt langþreyttir á þeim.

Ríkisstjórnin hefur takmarkaðan hugmyndafræðigrunn. Hún er fyrst og fremst ríkisstjórn hinna vel settu fyrir hina vel settu. Hún reynir að varðveita ríkjandi hagsmuni í þjóðfélaginu, einkum og sér í lagi landbúnaðarins og stórfyrirtækja kolkrabbans og smokkfisksins.

Þetta er þannig hin hefðbundna helmingaskiptastjórn Íhalds og Framsóknar. Hún er fremur andsnúin smælingjum, hvort sem þeir eru neytendur, láglaunafólk, styrkþegar af ýmsu tagi, börn eða konur, og reynir að hafa hemil á margs konar velferð í þágu smælingjanna.

Mikill meirihluti kjósenda er ánægður með þetta. Menn eru til dæmis mjög ánægðir með, að ríkisstjórninni skuli hafa tekizt að hindra, að innihald fjölþjóðlegra viðskiptayfirlýsinga nái fram að ganga hér á landi. Meirihluti kjósenda vill alls ekki efla hag neytenda.

Hvenær sem rekast á hagsmunir innlendra matvælaframleiðenda og innlendra neytenda, sem gerist anzi oft, tekur ríkisstjórnin skýra afstöðu með hinum fyrrnefndu. Hún lítur á sig sem verndara landbúnaðarins gegn vaxandi heimtufrekju neytenda og kemst upp með það.

Hin hefðbundna stjórnarandstaða er meira eða minna máttvana gegn þessum merkilegu staðreyndum. Raunveruleg stjórnarandstaða hefur færzt í hendur kaupmanna Bónusar og Hagkaups og á fréttastofur ýmissa fjölmiðla, sem kann ekki góðri lukku að stýra.

Erlendir sendiherrar bjuggust ranglega við, að ríkisstjórnin mundi hugsa sér til hreyfings í átt til Evrópu á kjörtímabilinu. Það sýnir gagnsleysi slíkra embætta, að sendiherrarnir vissu ekki það, sem augljóst var, að forsætisráðherrann var og er andvígur slíkri þróun.

Þegar kjörtímabilinu lýkur á síðasta ári aldarinnar verður ekki búið að leggja neinn marktækan grunn að þátttöku Íslands í Evrópu 21. aldar. Þá verður þjóðin enn í fangelsi þeirra hagsmuna, sem ráða ríkinu, landbúnaðar og stórfyrirtækja kolkrabbans og smokkfisksins.

Svo íhaldssöm er ríkisstjórnin, að hún getur ekki hugsað sér að leggja í ódýrar aðgerðir til að gera Íslendinga gjaldgenga á upplýsingahraðbraut nútímans. Hún hyggst afhenda íhaldssamri einokunarstofnun aðstöðu til að selja dýran aðgang að níðþröngum upplýsingastígum.

Ríkisstjórnin hæfir íhaldssamri eyþjóð, sem alltaf hefur vitað, að allt er bezt á Íslandi. Hún hæfir þjóð, sem telur, að sjávarútvegur sé hina eina og sanna uppspretta verðmæta, sem síðan eigi að brenna í landbúnaði. Hún hæfir þjóð, sem telur, að hver sé sjálfum sér næstur.

Af þessum ástæðum er þjóðin ánægð með, að ríkisstjórnin skuli litlu lofa og gera enn minna, en standa dyggan vörð um afmarkaða hagsmuni aftan úr fortíðinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Séra Jón er bara Jón

Greinar

Danskt máltæki segir, að þeim, sem guð gefi embætti, gefi hann líka skilning. Það felur í sér, að persónur vaxi upp í þau embætti, sem eru of stór fyrir þær, þegar þær byrja. Máltækið á rætur sínar í fyrri öldum, þegar minni kröfur voru gerðar til valdsmanna en núna eru gerðar.

Annað máltæki nútímalegra hefur leyst þetta af hólmi. Það segir, að menn hætti að hækka í tign, þegar þeir nái getuleysisstigi sínu. Þess vegna séu flest embætti skipuð mönnum, sem ekki ráði við þau. Ef þeir réðu við embættin, hefðu þeir hækkað upp í enn hærri embætti.

Máltækin lýsa raunar tveimur hliðum á sama hlutnum. Munurinn er sá, að fyrra máltækið gerir litlar kröfur til valdsmanna, en hið síðara miklar. Í rauninni skiptir litlu, hvort Jón eða séra Jón gegnir valdsmannsstöðu. Jón á eyrinni gæti gegnt henni eins og séra Jón gerir.

Valdsmannsstöðu fylgir virðing, sem persóna nýtur, þótt hún hafi litla embættisgetu. Virðingin leiðir af embættinu sem slíku og því valdi, sem það veitir, en ekki af embættisfærslu valdsmannsins, sem yfirleitt er upp og ofan. Fólk ber virðingu fyrir valdinu sem slíku.

Þegar hér er talað um embætti, er ekki aðeins átt við stöður í opinbera geiranum, heldur einnig í einkageiranum, þar sem afleiðingarnar eru raunar mælanlegri. Stórforstjórar hafa leitt margt fyrirtækið út á kaldan klaka, af því að þeir réðu engan veginn við embætti sín.

Fyrir allmörgum árum leiddu ævintýralega launaðir stórforstjórar heimsfyrirtækið IBM út á jaðar gjaldþrots vegna vanmats á einmenningstölvum. Með snarræði tókst helztu hluthöfum á síðustu stundu að skipta út forstjórum og kippa fyrirtækinu af bjargbrúninni.

Hér á landi eru tugir dæma um, að fyrirtæki lifa hreinlega ekki af aðra eða þriðju kynslóð forstjóra. Viðskiptasaga Reykjavíkur einkennist af þeirri staðreynd, að sjaldgæft er, að fyrirtæki lifi af þrjár kynslóðir forstjóra. Austurstræti og Laugavegur eru minnisvarði um þetta.

Helztu valdamenn Bandaríkjanna og Bretlands, Clinton og Major, eru dæmi um stjórnmálamenn, sem valda ekki hlutverki sínu. Þeir gætu ráðið við að vera ráðherrar í friðsælu umhverfisráðuneyti á Íslandi, en þeir hafa jafnan verið úti að aka í aðkallandi heimsmálum.

Bosnía er dæmi um ráðleysi þeirra og nokkurra annarra valdhafa í stórveldum heimsins og í helztu fjölþjóðasamtökum, sem sinnt hafa Bosníudeilunni. Annað hvort áttu þeir að láta málið afskiptalaust eða taka það föstum tökum. Í staðinn hafa þeir farið undan í flæmingi.

Stöðug útgáfa algerlega marklausra hótanabréfa hefur grafið svo undan áliti helztu stórvelda og fjölþjóðasamtaka hins vestræna heims, að þriðja heims tindátar taka ekki lengur nokkurt mark á vestrænum valdhöfum. Þetta hefur valdið Vesturlöndum miklu og vaxandi tjóni.

Íslenzkir valdamenn þurfa blessunarlega ekki að taka afdrifaríkar ákvarðanir um Bosníu. Ef utanríkisráðherra okkar væri í stöðu Clintons eða Majors, mundi hann hafa flaskað á sömu atriðum og þeir. Ummæli hans um alþjóðamál benda ekki til, að hann hafi næga yfirsýn.

Utanríkisráðherra okkar er gott dæmi, af því að hann er talinn hæfari valdsmaður en gengur og gerist hér. Sem sjávarútvegsráðherra stóðst hann þrýsting hagsmunaaðila og gat haldið sjó í kvótakerfinu. En getur hann skipt um skoðun núna, þegar kvótakerfið er orðið úrelt?

Raunsæið eykst, ef Jónar þjóðfélagsins átta sig á, að séra Jónar þess eru ekki miklu hæfari en venjulegir Jónar til að sinna valdastöðum stofnana og fyrirtækja.

Jónas Kristjánsson

DV

Hann er samt velkominn

Greinar

Heimsókn forseta Taívans til Íslands væri hið bezta mál. Við þurfum að taka upp betri samskipti við það merka ríki, sem er í örum uppgangi sem lýðræðisríki og efnahagsveldi. Miklu nær væri raunar að hafa sendiherra þar en í hryllingsríkinu Kína á meginlandinu.

Taívan hefur undanfarin ár siglt í kjölfar Japans með efldu lýðræði og bættum efnahag. Þessi tvö ríki og Suður- Kórea að auki eru kraftaverkin í Austur-Asíu, útverðir lýðræðislegra og efnahagslegra framfara. Við eigum að vera í sem beztu sambandi við þessi þrjú undraríki.

Frá sjónarmiði viðskipta ættum við að hafa sameiginlegan sendiherra í þessum þremur löndum, en alls engan í Kína. Við höfum mikil og góð viðskipti við Japani. Þau hafa dafnað af sjálfu sér, alveg án fjölmennra heimsókna opinberra sendinefnda og hástemmdra yfirlýsinga.

Við þurfum að víkka japönsku viðskiptasamböndin til Taívans og Suður-Kóreu um leið og þjóðum þeirra ríkja vex fiskur um hrygg í efnahagsmálum. Þar verður senn mikil kaupgeta eins og er nú í Japan, sem um þessar mundir er okkar mesti hátekjumarkaður í heimi.

Samskipti okkar við Kína eru hins vegar einskis virði frá sjónarmiði viðskipta. Og raunar er út í hött að hafa þar sendiherra. Það getur aldrei orðið okkur annað en til vandræða, því að kínversk yfirvöld eru sí og æ að heimta, að önnur yfirvöld beygi sig fyrir þeim.

Svo undirgefnir eru menn kínverskum ráðamönnum, að þeir hlaupa upp út af því, hversu vingjarnlega forseti Íslands hafi talað til forseta Taívans við blaðakonu frá því landi. Hafi forseti Íslands látið góð orð falla í viðtalinu, er það ekki hneyksli, heldur hið bezta mál.

Undirlægjuhátturinn gagvart kínverskum ráðamönnum er hins vegar orðinn að hneyskli. Hinar tíðu ferðir íslenzkra ráðherra til Kína eru hneyksli og sömuleiðis opinberar heimsóknir kínverskra ráðamanna til Íslands. Þetta eru gagnslaus samskipti við pólitísk úrhrök.

Kína verður seint annar eins kostamarkaður fyrir íslenzkar afurðir og markaðurinn er í Japan, Taívan og Suður-Kóreu. Kínverjar munu um langan aldur greiða sultarverð fyrir íslenzkar afurðir. Enda hafa ekki dafnað nein viðskipti, þrátt fyrir opinberar heimsóknir.

Enn síður eru nokkrar líkur á, að íslenzk fjárfesting í Kína muni skila sér. Þvert á móti mun fara fyrir allri íslenzkri fjárfestingu þar í landi nákvæmlega eins og lakkrísverksmiðjunni frægu, sem Halldór Blöndal samgönguráðherra var svo ánægður með á sínum tíma.

Öflugri fjárfestar en Íslendingar eru nú sem óðast að komast að raun um, að kínversk stjórnvöld nota ekki lög og rétt, heldur geðþótta og tilskipanir í samskiptum við erlenda fjárfesta. Þau vilja ekki samstarf við erlenda aðila, heldur reyna þau að kúga þá og hafa af þeim fé.

Þolanlegt er að tapa á viðskiptum við gott fólk, en því er alls ekki til að dreifa með kínverska viðsemjendur okkar. Ráðamenn Kína eru blóði drifnir glæpamenn, sem halda hundruðum milljóna manna í stærsta fangelsi heimsins. Kína er heimsins mesta kúgunarmiðstöð.

Ráðamönnum okkar ber að hætta þeirri ógeðfelldu iðju að sleikja ráðamenn Kína til að gefa okkur færi á að tapa peningum á viðskiptum og fjárfestingu í Kína. Miklu nær er að beina sjónum okkar að Taívan, þar sem pólitíska loftið er hreinna og hagnaðarlíkur meiri.

Þess vegna skal forseti lýðræðisríkisins Taívans ævinlega vera velkominn hingað til lands, en blóði drifnir ráðamenn alræðisríkisins Kína hins vegar alls ekki.

Jónas Kristjánsson

DV

Vestrænir aular

Greinar

Símahleranir hafa leitt í ljós, að her Bosníu-Serba er stjórnað af yfirmönnum júgóslavneska hersins. Ennfremur hafa fundizt skjöl, sem sýna, að yfirmönnum og verkstjórum herja Serba eru greidd laun af júgóslavneska hernum. Óargadýrin lúta yfirstjórn.

Einnig er ljóst, að það var júgóslavneski herinn, sem miðaði út bandarísku könnunarþotuna, sem skotin var niður yfir Bosníu. Loks hefur komið í ljós, að Júgóslavíustjórn hefur áfram haldið að búa Bosníu-Serba vopnum og vistum, þrátt fyrir formlega lokun landamæranna.

Áður var vitað, að Milosevits Serbíuforseti hóf stríðið í Bosníu. Hann réð strax stefnu stríðsins, sem fólst í, að geðveikum óargadýrum var sigað á óbreytta borgara, með skipulögðum morðum og nauðgunum, pyndingum og hreinsunum á tugþúsundum sakleysingja.

Lengi hefur verið vitað, að helztu ráðamenn Bosníu- Serba eru snargeðveikir morðingjar, þar á meðal Radovan Karadzik forseti og Radco Mladic herstjóri. Stríðsglæpadómstóllinn í Haag hefur mál þeirra til meðferðar. Raunveruleg ábyrgð á stríðsglæpum Bosníu-Serba hvílir þó hjá Slobodan Milosevits Júgóslavíuforseta.

Þótt allir aðilar í styrjöld Serba, Króata og Bosníumanna hafi framið stríðsglæpi, er þó komið í ljós, að meira en 90% glæpanna hafa verið framdir af Serbum og í þágu krumpaðrar hugsjónar um Stór-Serbíu, sem er undirrótin að hörmungum almennings á Balkanskaga.

Ráðamenn Vesturlanda hafa vitað þetta árum saman, þótt þeir reyni að þegja yfir því. Það hefur lengi verið vitað, að Milosevits Júgóslavíuforseti segir aldrei satt orð, en fer sínu fram með undirferli og svikum. Samt eru vestrænir ráðamenn sífellt að semja við hann.

Umboðsmenn vestrænna ráðamanna og ráðamanna Sameinuðu þjóðanna eru sí og æ að skrifa undir marklaus plögg á borð við vopnahléssamninga og senda ráðamönnum Bosníu-Serba marklaus hótunarbréf. Mótaðilinn hefur aldrei tekið mark á neinum slíkum pappírum.

Þótt þetta sé allt hin mesta sorgarsaga, er hún ekki gagnslaus með öllu. Þeir, sem vita vilja, sjá nú, að Vesturlöndum er undantekningarlítið stjórnað af villuráfandi aumingjum, sem eru ófærir um að takast á við verkefni, er krefjast greindar, framsýni og áræðis.

Þetta gildir raunar ekki aðeins um ráðamenn stærstu ríkjanna á Vesturlöndum, svo sem Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands og Þýzkalands, heldur einnig nokkurra annarra ríkja, sem hafa með ýmsum hætti stuðlað að hneykslinu, svo sem ráðamenn Grikklands og Spánar.

Þetta gildir líka um sáttasemjara, herstjóra og aðra umboðsmenn umheimsins á Balkanskaga. Frægur af endemum er pólitískur fulltrúi Sameinuðu þjóðanna á svæðinu. Einnig hafa sáttasemjararnir staðið sig afar illa, þeir Vance, Owen og Stoltenberg. Þeir hafa leikið fífl.

Engin atburðarás hefur opnað þvílíka innsýn í hnignun og hrun Vesturlanda. Með afskiptum sínum af málinu hefur Nató reynzt vera farlama öldungur, sem er gersamlega ófær um nokkuð annað en að nöldra og væla. Tilgangsleysi Nató eftir lok kalda stríðsins er kristaltært.

Atburðarásin hefur sýnt, að þjóðskipulag Vesturlanda leiðir nú til vals á ráðamönnum og öðrum ábyrgðarmönnum, sem kunna að geta ráðið við hversdagsleg viðfangsefni heima fyrir, en eru alveg ófærir um að gæta víðra langtímahagsmuna Vesturlanda í umheiminum.

Þessir ráðamenn og ábyrgðarmenn munu reynast jafn óhæfir um að mæta öðrum aðsteðjandi vandamálum, svo sem af hálfu ofsatrúarmanna og hryðjuverkamanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Hyggindi sem í hag koma

Greinar

Helzti kostur lýðræðis fram yfir önnur rekstrarform þjóðfélaga er, að það getur slampazt áfram, þótt teknar séu rangar ákvarðanir. Af því að fólk hefur frelsi til að velja, getur það snúið frá röngum ákvörðunum og átt þátt í að taka nýjar, sem að vísu eru oft líka rangar.

Lýðræðið hefur byggða í sér öryggisventla, sem koma yfirleitt í veg fyrir, að þjóðfélagið stirðni á blindgötum. Það þýðir engan veginn, að lýðræði sé gott, aðeins að það sé illskárra en önnur rekstrarform þjóðfélaga. Það er eina formið, sem ræktar nauðsynlegan sveigjanleika.

Lýðræði felur engan veginn í sér í reynd, að allir séu jafnir. Aðstaðan er misjöfn í glímu þrýstihópa og hagsmunaaðila. Peningar og þröngt skilgreindir hagsmunir ná oftast undirtökum í þessari glímu. Fjölmennir hópar vítt skilgreindra hagsmuna bíða oftast lægri hlut.

Ekki þarf lengi að fylgjast með verzlunarháttum almennings til að sjá, að fjöldi manns kann ekki að fara með frelsið til að velja. Innihald innkaupakörfu þeirra er fáránlegt frá sjónarmiðum verðs og gæða í senn. Þetta fólk hefur enga þjálfun fengið í skynsemi í vöruvali.

Fólk tekur litað sykurvatn með 35% blöndu af hreinum ávaxtasafa, þótt við hliðina sé hreinn ávaxtasafi án nokkurra aukefna á nákvæmlega sama verði. Fólk kaupir lítið stykki af súkkulaðihúðuðu togleðri, þótt hægt sé að fá heilt kíló af ferskum eplum á sama verði.

Af innkaupum margra mætti ætla, að sjónvarpssetur séu orðnar svo fyrirferðarmiklar, að þeir hafi ekki tíma til að sinna matreiðslu. Fólk kaupir tilbúna rétti eða blandaða rétti fyrir mun hærra verð en er á óblönduðum og ómatreiddum matvörum. Það lifir á dýru ruslfæði.

Þetta heimskulega atferli hættir að vera einkamál, þegar þetta sama fólk fer að abbast upp á umhverfi sitt með skoðunum sínum á því, hversu dýrt sé að lifa í landinu og hversu lágt kaupið sé. Af innkaupakörfunum að dæma er þetta fólk þvert á móti á allt of háu kaupi.

Af þessu má ráða, að byrja þarf að gera þær kröfur til skólakerfisins, að það veiti neytendafræðslu, svo að nemendur hafi meiri möguleika á að koma fram sem þroskaðir einstaklingar í skæðadrífu villandi auglýsinga og geti tekið mið af verði og gæðum í vöruvali sínu.

Kenna þarf fólki að lesa vörulýsingar á umbúðum. Kenna þarf fólki að gera greinarmun á bragði og gæðum ekta vöru og eftirlíkinga. Kenna þarf fólki að halda bókhald yfir útgjöld sín og gera á þeim samanburðarútreikninga. Skólunum ber að efla hyggindi, sem í hag koma.

Á sömu forsendum er brýnt, að skólarnir fari að kenna fólki að umgangast umheim sinn og að bjarga sér sjálft, án þess að þurfa sífellt að kalla í dýra sérfræðinga. Menn geta sparað mikla peninga á að kunna rétt handtök og tækjanotkun í viðhaldi húsa, bíla og annarra eigna.

Á sömu forsendum er brýnt, að skólarnir fari að kenna samhengið í þjóðhagfræði og heimilishagfræði, svo að fólk geti lært að þekkja yfirgang hagsmunaaðila. Ennfremur þurfa þeir að kenna rökfræði, svo að fólk geti þjálfazt í að sjá gegnum orðaleiki stjórnmálamanna.

Skólakerfið þarfnast endurnýjunar. Í stað fúsks og leikja líðandi stundar þarf að koma hagnýt kennsla, þar sem nemendum er kennt að vera neytendur, eigendur, fjárfestar, skattgreiðendur og kjósendur. Þessum mikilvægum hlutverkum fólks sinnir skólakerfið nánast ekki.

Skólakerfi lýðræðisríkis á að reyna að skila frá sér sem flestum sjálfbjarga einstaklingum, sem láta ekki draga sig á asnaeyrunum í glímu hagsmuna- og þrýstihópa.

Jónas Kristjánsson

DV

Atvinnusaga í hnotskurn

Greinar

Einstaka sinnum telja pólitísk stjórnvöld henta sér að líta út fyrir hefðbundinn ramma atvinnulífsins, sjávarútveg og landbúnað. Þá er annað hvort reynt að fá hingað eins konar happdrættisvinning í mynd stóriðju eða fleygt hundruðum milljóna í fjárfestingarsjóði nýrra greina.

Dauf reynsla er af stóriðju. Álverið er eiginlega eina niðurstaðan, því að járnblendiverksmiðjan var byggð með aðild ríkisins, sem síðan hljóp aftur undir bagga, þegar illa gekk. Um nokkurra ára skeið hefur nýtt orkuver við Blöndu beðið eftir stóriðju, sem ekki kom.

Reynslan er slæm af opinberum sjóðum til nýrra tækifæra. Loðdýraævintýrið kom og fór og sama er að segja um laxeldisævintýrið. Ríkið kaffærði þessar greinar í auðsóttum lánum, sem urðu eins og myllusteinn um háls nýrra fyrirtækja, þegar markaðurinn þrengdist.

Ríkið á ekki að freista manna með þessum hætti. Auðfengin lán eru efnahagsleg deyfilyf, sem gera fyrirtæki að lánafíklum, er geta ekki staðið undir rekstri og endurgreiðslum lánanna. Þannig urðu laxinn og loðdýrin að kennslubókardæmi um óhóflega velvild ríkisins.

Að fenginni þessari reynslu er freistandi fyrir stjórnvöld að gefast upp og halla sér að því, sem þau þekkja bezt. Það eru sjávarútvegur og landbúnaður, atvinnugreinar, sem einkenna fátæku löndin í heiminum. Ríkið þrautskipuleggur þær með sjóðum og kvótakerfum.

Kvótakerfið í sjávarútvegi felur í sér viðurkenningu á, að lengra verður ekki gengið í sjávarútvegi. Og kvótakerfið í landbúnaði felur beinlínis í sér viðurkenningu á, að greinin sé fremur atvinnubótavinna en raunverulegur atvinnuvegur. Hvert á þá unga fólkið að leita?

Reynsla Bandaríkjamanna og fleiri vestrænna þjóða á að segja okkur, að ný atvinnutækifæri myndast nærri öll í nokkurra manna smáfyrirtækjum. Þau myndast ekki í stórfyrirtækjum, þar sem stjórnendur eru önnum kafnir við að hagræða í rekstri og fækka starfsfólki.

Stjórnvöld geta stuðlað að vexti smáfyrirtækja með almennum, en ekki sértækum aðgerðum, sem auðvelda stofnun og rekstur, meðal annars með aðgerðum í samgöngumálum á borð við vegi, hafnir, flugvelli og síma. Ennfremur með nýrri samgöngutækni á borð við netið.

Hlutverk ríkisvaldsins á sviði atvinnulífsins á fyrst og fremst að felast í að byggja upp innri þjóðfélagsgerð, sem stuðlar að framtaki á nýjum sviðum. Samgöngurnar eru eitt atriðið. Annað er menntun fólks. Og hið þriðja er jafnræði milli nýs og gamals í atvinnulífinu.

Netið eða internetið er gott dæmi um, að stjórnvöld átta sig ekki á öllum hliðum þessa samhengis. Menntunin er eini þátturinn, sem er sómasamlegur. Menntunarleysi kemur að minnsta kosti ekki í veg fyrir, að Íslendingar geti haft miklar tekjur af nýju samgönguæðinni.

Til skamms tíma voru miklir möguleikar fyrir Íslendinga að hazla sér hátekjuvöll í atvinnu- og rekstrartækifærum netsins. Með lagi hefði meira að segja verið hægt að búa hér til litla paradís fyrir erlent hugvit á þessu sviði og flytja þannig inn atgervi á hátekjusviði.

Ríkið hefur hins vegar ekki skapað netinu hin ytri skilyrði. Svo lítil og léleg er nettengingin við útlönd, að engum útlendingi dettur í hug að taka þátt í rekstri hér á landi. Miklu líklegra er, að atgervisfólk á þessu sviði flýi úr landi til að tryggja hugmyndir sínar.

Nýja íhaldsstjórnin er þessum vanda ekki vaxin. Hún er upptekin af hefðbundnum greinum og leggur einkum áherzlu á að varðveita hagsmuni gróinna stórfyrirtækja.

Jónas Kristjánsson

DV

Leikvöllur stórhvela

Greinar

Fátt er um fína drætti í varnarræðum Hæstaréttar og skjólstæðinga hans í fjölmiðlum að undanförnu. Seinagangurinn í meðferð mála hjá Hæstarétti er svo augljós, að hann er helzt varinn með því að segja hann ekki vera eins slæman núna og hann var fyrir nokkrum árum.

Þótt eitthvað sé nú illskárra en það var fyrir nokkrum árum, þýðir það ekki, að það sé viðunandi. Formúlan um, að batnandi manni sé bezt að lifa, gildir ekki, meðan hann er enn vondur. Batinn verður að fullnægja lágmarkskröfum til að hægt sé að byrja að lofa hann.

Enginn málsvara Hæstaréttar og skjólstæðinga hans treystir sér til að verja siðferðið í framgöngu Hæstaréttar, enda er það með endemum. Siðleysið felst einkum í seinagangi, sem veldur því, að þeir, sem minna mega sín í lífinu, treysta sér ekki til að gæta réttar síns.

Hæstiréttur er hins vegar kjörinn leikvöllur fyrir stórhveli þjóðfélagsins, ríkisvaldið og stofnanir þess, ýmis stórfyrirtæki og fáokunarsamtök þeirra, sem hafa endalaust fjármagn til að reka mál og draga þau á langinn með eindregnum stuðningi og velvilja Hæstaréttar.

Lögmaður tryggingafélags fékk tíu mánaða frest hjá Hæstarétti til að afla gagna í máli, sem búið var að rannsaka í héraði og eftir að tryggingafélagið hafði fullnýtt áfrýjunarfrest. Þessi langi frestur Hæstaréttar er óviðunandi. Frestun réttlætis er skortur réttlætis.

Talsmenn Hæstaréttar og skjólstæðinga hans segja, að mikinn tíma taki að afla gagna úr héraðsdómi. Með því eru þeir að segja, að í dómskerfinu séu stunduð vinnubrögð úr forneskju, sem engan veginn hæfa tölvuöld. Þessi skýring er áfellisdómur yfir dómstólum landsins.

Auðvitað er ekki viðunandi, að það taki meira en nokkrar klukkustundir að fá gögn frá héraðsdómi. Alveg eins og það er ekki viðunandi, að skjólstæðingarnir fái meira en mánuð til að undirbúa sig fyrir viðbótarmálflutning fyrir Hæstarétti ofan á fyrri undirbúning.

Áður hafa verið færð til bókar eindregin dæmi þess, að Hæstiréttur sé hallur undir valdið í öllum myndum þess, en fyrst og fremst ríkisvaldið. Þetta hefur leitt til þess, að Hæstiréttur hefur hvað eftir annað verið rassskelltur í úrskurðum hjá fjölþjóðadómstólum.

Auðvitað getur ekki allur almenningur fetað í fótspor þeirra, sem hafa með seiglu og fórnum sótt mál sín gegnum allt dómskerfi landsins og að lokum endurheimt réttlætið úti í Strasbourg eða Haag. Á þessari leið bugast þeir, sem minna mega sín, og ganga til nauðasamninga.

Tryggingafélögin mynda fáokunarhring, sem leikur á þetta kerfi. Þau stífla dómskerfið með endalausum málaferlum, þar sem allt er dregið sem mest á langinn með stuðningi dómstóla. Markmiðið er að fá fólk til að semja um smánarbætur, af því að það hefur ekki úthald.Afkastalítill Hæstaréttur situr í fílabeinsturni sínum og horfir ekki á skrumskælingu réttlætisins í þessari aðferðafræði. Í þess stað gefur rétturinn skjólstæðingum sínum hjá valdastofnunum hins opinbera og efnahagslífsins nokkurn veginn eins mikið svigrúm og þeir vilja.

Gott dæmi um hroka og siðblindu Hæstaréttar er, að forseti réttarins hefur notað umræðuna til að vekja athygli á, að ekki fáist dómur fyrr en eftir næstu áramót í máli, sem þegar hefur verið að velkjast um í átta ár. Hvergi örlar á skilningi á aðstöðuleysi lítilmagnans.

Viðbrögð Hæstaréttar og skjólstæðinga hans draga úr líkum á, að þeir, sem minna mega sín í þjóðfélaginu, þori að gæta réttar síns í seinagangi dómskerfisins.

Jónas Kristjánsson

DV

800 dilka heimsókn

Greinar

Senn kemur að ferðaveizlu, sem stofnanir landbúnaðarins halda forustumönnum tveggja verzlana í Bandaríkjunum, sem hafa tekið að sér að selja vistvænt dilkakjöt af íslenzku bergi. Heimsóknin kostar okkur 800 slíka dilka, því að bændur fá 100 krónur fyrir kílóið.

Stofnanir landbúnaðarins hafa fengið aukalega kvartmilljarð af almannafé til að selja íslenzkar landbúnaðarvörur sem vistvænar. Þingmenn ákváðu þetta í þinglok í vetur, þótt þá þegar væri upplýst, að peningarnir ættu að fara í sjónhverfingar, en ekki endurbætur á vöru.

Árangurinn er auðvitað enginn. Verðið, sem landbúnaðurinn fær fyrir vöruna, sem kölluð er vistvæn, er sama lága verðið og hingað til hefur fengizt í útflutningi fyrir sömu vöruna, áður en farið var að kalla hana vistvæna. Enda hefur orðið vistvænt enga skilgreinda merkingu.

Erlendis er orðið lífrænt hins vegar skilgreint. Að baki þess liggja skilgreindar kröfur um lífrænan áburð og skiptiræktun. Ennfremur eru á bak við það óháðar vottunarstofur, sem votta, að farið sé eftir settum reglum. Á þessum forsendum fæst hærra verð fyrir afurðirnar.

Engar slíkar skilgreindar reglur eru til um neitt, sem heitir vistvænt á þessu sviði. Engar óháðar vottunarstofur starfa á því sviði. Enda fæst ekki króna í viðbót fyrir búvöru, þótt stofnanir landbúnaðarins á Íslandi ráði ímyndunarfræðing til að selja hana sem vistvæna.

Munurinn á lífrænu og vistvænu felst í rauninni í, að hafa þarf sérstaklega fyrir lífrænni framleiðslu. Stofnanir landbúnaðarins eru að reyna að komast hjá þeirri fyrirhöfn með því að setja marklausan vistvænustimpil á framleiðslu íslenzkrar búvöru eins og hún er nú.

Raunar er til lífræn framleiðsla í landinu. Hún er stunduð á nokkrum stöðum, einkum í nágrenni Víkur í Mýrdal. Fimm sveitarfélög hafa komið á fót vottunarstofu, sem fer eftir alþjóðlegum reglum um það efni. Fulltrúar verzlunar og neytenda eru í stjórn hennar.

Embættismenn stofnana landbúnaðarins hafa oft reynt að bregða fæti fyrir þessa lífrænu ræktun. Þeir hafa lagt lykkju á leið sína til að hefta framgang framleiðslu, sem er í samræmi við alþjóðlega staðla um lífræna ræktun. Þeim finnst hún trufla sjónhverfingarnar.

Í stað þess að leggja kvartmilljarðinn í að bæta framleiðslu landbúnaðarins, svo að stærri hluti hennar geti fengið hinn óháða stimpil lífrænnar vöru, er hann allur lagður í sjónhverfingar, sem eiga að selja núverandi framleiðslu eins og hún er og án nokkurra endurbóta.

Þetta var þingmönnum sagt, áður en þeir samþykktu ruglið, en þeir létu sér ekki segjast, enda flestir fremur skillitlir og þröngsýnir í senn. Afleiðingarnar eru þegar farnar að koma í ljós. Peningar skattgreiðenda brenna fljótt og verðið á dilkakjötinu er bara óbreytt.

Það er dæmigert fyrir þessar ímyndanir og sjónhverfingar, að tveimur kaupmönnum í Bandaríkjunum er boðið í Íslandsheimsókn, sem kostar 800 dilka á því verði, sem fæst út úr þeim fyrir vistvæna kjötið. Það sýnir, að málið í heild er kostnaður, en ekki tekjur.

Einnig er dæmigert, að farið er með gestina vítt og breitt um landið, farið í Bláa lónið, farið í siglingu um Breiðafjörð og farið í reiðtúr á hrossabúi, en alls ekki sýndur sauðfjárbúskapurinn að baki afurðanna og allra sízt nokkur búskapur, sem getur talizt lífrænn.

Ímyndunarfræðin og sjónhverfingarnar, sem hafa heltekið stofnanir landbúnaðarins, draga úr möguleikum þess, að hér verði stunduð lífræn ræktun með hagnaði.

Jónas Kristjánsson

DV

Hafa allt á hornum sér

Greinar

Íslenzkir klerkar hafa ekki alltaf verið sérstaklega kristilegir í framgöngu eða lífsháttum. Öldum saman stóð klerkastéttin framarlega í veraldlegu vafstri og átökum við meðbræður. Sumir frægðarklerkar brutu flest boðorð kristinnar kirkju einhvern tíma á ferli sínum.

Hugsanlegt er, að þjóðin vilji hafa þetta svona, hún vilji ekki, að klerkar hennar líkist heilögum mönnum, heldur að þeir líkist þjóðinni sjálfri. Hitt er þó sennilegra, að fólk vilji fremur en hitt, að prestar skari fram úr öðrum í kristilegu líferni og kristilegri framgöngu.

Þjóðin hefur að undanförnu orðið vitni að óskemmtilegum átökum af ýmsum toga í röðum kirkjunnar þjóna. Hæst heyrðist í gauraganginum á nýafstaðinni prestastefnu. Ekki er kunnugt um neina stétt manna, sem lætur eins ófriðlega á fundum og klerkastéttin gerir.

Af fyrirganginum mætti ætla, að klerkar séu persónulega ófullkomnari en annað fólk í landinu. Í venjulegum hópum er hægt að halda fundi, án þess að hnútur fljúgi um borð. Efast má því um, að sumir klerkar hafi stillingu og geðprýði til að vera sálusorgarar annarra.

Klerkar eiga í útistöðum hver við annan. Þeir eiga í útistöðum við safnaðarnefndir og aðra starfsmenn á vegum safnaðarnefnda. Þeir eiga sumir hverjir einnig í útistöðum við biskup og virðast þannig enn vera að taka þátt í síðasta biskupskjöri, sem lauk fyrir löngu.

Ef sumir klerkar eru slíkir klíkustefnumenn, að þeir geti ekki sætt sig við niðurstöður kosninga til biskups, er eðlilegt, að þeir bíði eftir næsta biskupskjöri til að þjóna þeirri stefnu. Það er hins vegar nýtt, að klerkar láti eins og ljón allan tímann milli biskupskosninga.

Engin stofnun fær staðizt, að smákóngar hennar séu í sífellu að troða illsakir við sjálfan biskupinn. Það er ekkert nýtt, að sumir kirkjunnar menn séu ókátir að loknu biskupskjöri, en þeir reyndu áður að dylja gremju sína. Nú hafa þeir hins vegar allt á hornum sér.

Í rauninni er ekki verið að gera miklar kröfur til klerka, þegar þeim er bent á, að láta biskupsembættið í friði og reyna að gera gott úr ágreiningi, sem varðar embættið. Þá er eingöngu verið að gera þær kröfur til þeirra, að þeir hagi sér eins og prestum sæmir.

Orðbragð sumra klerka í garð biskups er með þeim hætti, að fjölmiðlar hafa neyðst til að ritskoða það í fréttum, svo að umræðan komist þó upp á það lága plan, sem almennt gildir í skoðanaskiptum í þjóðfélaginu. Þjóðkirkjan stenzt ekki slíkt innra virðingarleysi.

Fjölmiðlar hafa síður en svo reynt að gera úlfalda úr mýflugu. Þeir hafa skýrt frá staðreyndum ágreiningsefna og fremur reynt að draga úr orðbragði kirkjunnar manna heldur en hitt. Innri vandamál kirkjunnar eiga ekki frekar rætur í fjölmiðlum en ull finnst í geitarhúsum.

Tímabært er, að ráðsettir menn innan klerkastéttarinnar taki sig saman um að ganga milli hinna skapstyggu klerka og minni þá á nauðsyn þess, að atferli þeirra og framganga skaði ekki kirkjuna sem stofnun og kristni í landinu frekar en þegar er orðið.

Margt er á hverfanda hveli í þjóðfélaginu. Uppivöðslumenn eru áberandi í stjórnmálum og félagsmálum. Sérhagsmunagæzla tröllríður samfélaginu, harla óvægin í seinni tíð. Þjóðfélagið í heild er að verða ruddalegra og harðara en áður. Það gildir um klerkana eins og aðra.

Meðan gerðar eru heldur meiri kröfur til presta en venjulegra dólga er þó líklegt, að með góðra manna hjálp megi varðveita stöðu kristninnar í þjóðlífsmynstrinu.

Jónas Kristjánsson

DV