Skólamenn eiga leik

Greinar

Þegar skólamál færast heim í hérað í haust, aukast tækifæri skólamanna og annars áhugafólks um skólamál til að efla þau. Þessir aðilar eru mun áhrifameiri í sveitarstjórnum en í landsstjórninni og hafa í héraði mun meiri möguleika á að hafa áhrif á gang mála.

Skólamál eru dæmi um hagsmuni, sem eru afgangsstærð í landsstjórninni, sem snýst um hagsmuni atvinnugreina og stórfyrirtækja. Flestir þingmenn landsbyggðarinnar líta á sig sem eins konar fulltrúa efnahagslegra hagsmuna, sem yfirleitt tengjast atvinnulífi.

Þingmenn landsbyggðarinnar hafa helzt þau afskipti af skólamálum að reyna að fá fé til skólabygginga, meðal annars vegna tækifæranna, sem slíkt veitir byggingaverktökum í héraði. Þegar framkvæmdum sleppir, eru þeir ráðalausir um innihald skólastarfsins.

Skólamenn eru áhrifamenn í héraði og eru víða hlutfallslega margir í sveitarstjórnum. Þetta stafar af, að þeir eru hluti hinna svokölluðu talandi stétta, eru vanir að koma fram fyrir aðra til að flytja mál sitt skipulega og eru vanir því úr skólunum, að hlustað sé á þá.

Ýmis sveitarfélög landsbyggðarinnar eiga við atgervisflótta að stríða. Kennarar og skólastjórar eru í vaxandi mæli kallaðir til að leysa vandamál og verkefni í sveitarstjórnum, af því að þeir eru menntaðir. Þessari ábyrgð fylgja auðvitað áhrif á forgangsröðun mála.

Þegar skólamálin flytjast heim í hérað í haust og fara inn í forgangsröðun sveitarstjórnarmála, myndast ný tækifæri fyrir skólamenn staðarins til að koma þeim ofar í forgangsröðina. Þeir eru þar á heimavelli og munu án efa geta látið til sín taka margir hverjir.

Í sveitarstjórnum hafa skólamenn aðstöðu til að sannfæra ráðamenn um gildi þess, að börn og unglingar staðarins fái góða menntun. Sums staðar mun þeim takast að fá sveitarstjórnir til að leggja meira fé til kjara kennara og annars rekstrar skóla heldur en lögboðið er.

Þetta getur birzt í ýmsum myndum, til dæmis í staðaruppbótum og öðrum fríðindum handa kennurum, sem gengur vel að ná og halda athygli nemenda. Ennfremur í styrkjum til kennara til að taka þátt í námskeiðum til að draga nýja þekkingu heim í skólastarfið.

Af ýmsum slíkum ástæðum munu sum sveitarfélög soga til sín betri kennara og þannig leiða til aukins áhuga kennara á að gera sig samkeppnishæfa á kennaramarkaði. Þannig munu forustusveitarfélög ekki bara bæta sín skólamál, heldur bæta ástandið almennt í landinu.

Framfarir verða, þegar brotin er niður lognmolla jafnstöðunnar undir regnhlíf ríkisins og komið á samkeppni milli margra tuga sveitarfélaga. Markaðslögmálin munu halda innreið sína í skólakerfið og leysa þar úr læðingi orku, sem fólk vissi ekki, að væri þar til.

Samtök kennara hafa ekki áttað sig á hinum gerbreyttu valdahlutföllum á vinnumarkaði, þegar viðsemjandinn er ekki lengur einn einokunaraðili, heldur hundrað eða tvö hundruð aðilar. Í stað þess að stinga við fótum, ættu þessi samtök að reyna að knýja málið í gegn.

En þetta er ekki eina dæmið um, að fólk er svo íhaldssamt, að það getur ekki séð og vill ekki sjá tækifærin, sem opnast, þegar röskunin hefst og verður að óviðráðanlegri skriðu. Þetta truflar fólk á svipaðan hátt og markaðslögmálin gerðu í Rússlandi eftir áratuga stöðnun.

Eins og aðrir, sem búa við sovézka skipan, eiga kennarar erfitt með að sjá út fyrir staðnað kerfi, sem rammar líf þeirra í sovézku öryggi og sovézkri fátækt.

Jónas Kristjánsson

DV

Ofstæki í tóbaksfrumvarpi

Greinar

Heilbrigðisráðuneytið er að reyna að hafa vit fyrir fólki með ofstækisfullu frumvarpi til laga um tóbaksvarnir, sem fékk óblíðar viðtökur á Alþingi í fyrradag. Lagafrumvarpið vill banna áberandi tóbaksneyzlu á tónlistarmyndböndum, sem framleidd eru hér á landi.

Fólk hlýtur að spyrja, hvort næsta skref felist í að banna áberandi tóbaksneyzlu í kvikmyndum, sem framleiddar eru hér á landi og í leiksýningum, sem settar eru upp, svo og frásagnir af áberandi tóbaksneyzlu í bókum, blöðum og tímaritum, sem prentuð eru hér á landi.

Sérstakt bann við sjáanlegri notkun tóbaks á innlendum tónlistarmyndböndum hefur ekki önnur áhrif en þau að spilla gjaldeyrisjöfnuði þjóðarinnar, af því að framleiðsla tóbaksmettaðra myndbanda flytzt bara úr landi. Síðan borga menn gjaldeyri fyrir að flytja þau inn.

Gildandi bann við auglýsingum tóbaks í innlendum fjölmiðlum kemur að litlu gagni, af því að allt flóir hér í brezkum og bandarískum tímaritum, sem meira eða minna ganga fyrir slíkum auglýsingum. Hefur ráðuneytinu ekki dottið í hug að banna innflutninginn?

Aðgerðir ríkisvaldsins gegn birtingu tóbaks í innlendum fjölmiðlum ná ekki til hliðstæðra erlendra fjölmiðla, sem óspart eru notaðir hér á landi, allt frá kvikmyndum yfir í dagblöð. Þar á ofan heftir auglýsingabannið samkeppnisstöðu innlendrar fjölmiðlunar gagnvart erlendri.

Ef heilbrigðisráðuneytið vill stíga skref í þá átt að hafa vit fyrir Íslendingum á þessu sviði, er stórvirkara að snúa sér að þeim aðila, sem hefur einkarétt á allri sölu tóbaks hér á landi. Það er ríkið sjálft. Af hverju bannar frumvarpið ekki alla sölu tóbaks hér á landi?

Tóbak er hættulegt eitur og fíkniefni, sem felur í sér niðurlægingu sérhvers, sem það notar. Upplýsingar um skaðsemi þess hafa dregið töluvert úr notkuninni hjá fullorðnu fólki, en hafa því miður ekki komizt nógu vel til skila hjá unglingum. Það er því úr vöndu að ráða.

Reykingabann er víða komið til sögunnar á heimilum og vinnustöðum. Á enn fleiri stöðum eru leyfðar reykingar á takmörkuðum svæðum. Þessi bönn eru yfirleitt orðin til vegna samkomulags á heimilum og vinnustöðum, án þess að tilskipanir hafi komið að ofan.

Ef heilbrigðisráðuneytið telur ekki, að þessi þróun mála sé nægileg, og vill láta Stóra Bróður koma ákveðnar til skjalanna, er miklu einfaldara að koma á banni við innflutningi og sölu tóbaks en að reyna að koma í veg fyrir, að reykingar sjáist á tónlistarmyndböndum.

Og sé heilbrigðisráðuneytið almennt að komast á þá skoðun, að bezt sé að hafa vit fyrir fólki, liggur beinast við að banna fleira óhollt en tóbak og fíkniefni. Áfengis- og sykurbönn hljóta að vera ofarlega á óskalista þeirra, sem hafa ræktað með sér ofstækisfulla forsjárhyggju.

Heilbrigðisráðuneytið er annars ekki þekkt fyrir mikinn áhuga á almennum heilbrigðismálum þjóðarinnar. Fjárlagatillögur þess ganga að mestu út á viðgerðarþjónustu á sjúkrahúsum, en ná afar lítið til fyrirbyggjandi aðgerða. Ráðuneytið ætti að heita sjúkdómaráðuneyti.

Ef tóbaksfrumvarp sjúkdómaráðuneytisins er merki þess, að það sé að snúa sér að forvörnum í auknum mæli og verða að eiginlegu heilbrigðisráðuneyti, er nærtækari og síður umdeilanleg verk að vinna á öðrum sviðum en í reykingabanni á tónlistarmyndböndum.

Andúðin gegn óhollustu, sem felst í hinu misheppnaða tóbaksfrumvarpi, mætti gjarna fá útrás á fleiri sviðum og þá með áhrifaríkari hætti en með boðum og bönnum.

Jónas Kristjánsson

DV

Illa rökstudd vaxtahækkun

Greinar

Mikil vaxtahækkun bankanna er hvorki í samræmi við mat óháðra manna úti í bæ á verðlagsþróun í landinu né í samræmi við vaxtastigið í nágrannalöndunum. Þess vegna er brýnt, að bankarnir láti frá sér fara rækilegan rökstuðning fyrir hinni óvæntu hækkun.

Bankarnir kunna að hafa rétt fyrir sér. En þeir eru líka grunaðir um græzku. Þeir starfa á tiltölulega lokuðum markaði, þar sem afar fáir aðilar standa öðrum megin við borðið og ákveða vextina. Það eru stóru bankarnir og samtök lífeyrissjóðanna, sem stunda fáokun.

Það dugir ekki, að bankastjórar fullyrði, að vaxtastigið sé inn og út í bönkunum, hafi ekki áhrif á afkomu þeirra og því séu engin slík undirmál að baki vaxtahækkuninni. Við treystum ekki fullyrðingum bankanna og viljum heldur sjá röksemdir þeirra fyrir hækkuninni.

Ef sparifjármyndun fer minnkandi um þessar mundir, þannig að hættulegt megi teljast, eiga bankarnir að segja frá því, þannig að eftir verði tekið. Sama er að segja um aðrar röksemdir, sem bankarnir kunna að hafa fyrir því að hækka vexti, þegar verðbólga er nánast engin.

Raunvextir í landinu eru komnir í og yfir 10%, sem hlýtur að teljast svo óvenjulegt, að það þarfnist nánari útskýringa af hálfu fáokunarinnar. Erfitt er að sjá fyrir sér, að atvinnuvegirnir í landinu búi yfir framleiðni, sem standi undir svona hrikalega háum raunvöxtum.

Hitt er svo líka rétt, að þessir háu vextir hljóta að kalla á, að þeir spari meira, sem það geta, til þess að njóta hagnaðarins af hækkun vaxta. Þar með ætti meira fé að sogast um banka- og sjóðakerfið til afnota í atvinnulífinu, ef þar ríkir mikil þensla og fjárþörf.

Ekki sjá allir þensluna og verðbólguhvatana, sem bankarnir virðast þykjast sjá. Við erum enn í lægðinni, sem hefur einkennt þjóðarbúskapinn í um það bil tvö ár. Tölur um atvinnuleysi í Reykjavík eru hærri í byrjun þessa árs en þær voru í byrjun síðasta árs.

Bætt afkoma margra stórfyrirtækja stafar ekki af auknum umsvifum þeirra, heldur af útgjaldasamdrætti, sem leiðir af sparnaði í rekstri og fækkun starfsfólks. Þessi bætta afkoma tengist hvergi þenslu, heldur er hún bein afleiðing varnaraðgerða á samdráttartíma.

Nú kann svo að vera, að bankastjórar verði á biðstofum sínum varir við holskeflur bjartsýnna athafnamanna, sem þurfi lánsfé til að fjármagna athafnir, er standa undir 10% raunvöxtum. En þá eiga talsmenn bankanna að segja okkur frá þeim merku tíðindum.

Við vantreystum bæði heilindum og dómgreind ráðamanna bankanna. Við vitum af háum afskriftum bankanna, að þeir kunna að minnsta kosti ekki að lána peninga, svo vel fari. Við vitum af mikilli eyðslusemi þeirra, að þeir kunna að minnsta kosti ekki með fé að fara.

Helzt vildum við, að einhverjir aðrir en fáokunarmenn bankanna segðu okkur, hvert sé verðbólgustigið og hverjir séu eðlilegir vextir um þessar mundir. Við teljum, að fáokun bankanna sé slík, að markaðslögmálin stjórni þessu ekki, heldur sé eins konar handafl á ferðinni.

Við komum enn og aftur að þeirri staðreynd, að óþægilegt er að vera háð svona fáum bönkum og hafa ekki greiðan aðgang að alþjóðlegum lánamarkaði. Ef við værum betur tengd umheiminum, mundum við fremur treysta því, að vextir fylgdu markaðslögmálum.

Meðan svo er ekki, viljum við að minnsta kosti sjá, hvort bankarnir geta rökstutt mikla og óvænta hækkun vaxta. Við bíðum enn eftir þeirri röksemdafærslu.

Jónas Kristjánsson

DV

Erlend aðild að útgerð

Greinar

Vegna aðgangs sjávarútvegsins að auðlind hafsins vilja flestir fara varlega í að heimila erlendum aðilum að eiga í innlendum fyrirtækjum í sjávarútvegi. Fyrir Alþingi liggja um þetta efni þrjú frumvörp, sem eiga það sameiginlegt að setja skorður við erlendri eignaraðild.

Ef ekki væri þessi sérstaða, væri ekki ástæða til að setja aðrar reglur um sjávarútveg en aðra atvinnuvegi. Hins vegar er hægt að haga málum á þann veg, að ekki þurfi sértækar reglur. Það gerist með að skilgreina eignarhald auðlindarinnar skarpar en nú er gert.

Ef auðlindin er skilgreind sem þjóðareign í umsjá ríkisvaldsins og leigð notendum í samræmi við ótal tillögur, stórminnkar öryggisleysið, sem fylgir erlendri eignaraðild að fyrirtækjum í sjávarútvegi, því að hún felur þá ekki í sér eignaraðild að sjálfri auðlindinni.

Ef til viðbótar væri tryggt í lögum, að allur sjávarafli færi á markað á Íslandi, væri búið að girða fyrir allar hættur, sem kynnu að vera samfara erlendu eignarhaldi í sjávarútveginum. Slíkar aðferðir eru skynsamlegri en að binda beina eða óbeina eignaraðild við prósentur.

Raunar er kyndugt, að þjóð, sem seilist til áhrifa í erlendum sjávarútvegi, skuli hamla gegn erlendri fjárfestingu í innlendum sjávarútvegi. Íslenzk fyrirtæki hafa keypt ráðandi hlut í þýzkum fyrirtækjum í sjávarútvegi, en vilja ekki fá á móti slíka samkeppni að utan.

Fyrr eða síðar kemur að því, að fjölþjóðlegt samstarf neyðir okkur til að gæta jafnréttis í þessu efni sem öðrum. Við getum ekki heimtað opinn aðgang að erlendum fyrirtækjum og heft aðgang að innlendum fyrirtækjum á sama tíma. Hömlur eru því ekki langtímalausn.

Við megum ekki heldur gleyma, að kaup íslenzkra fyrirtækja á þýzkum fyrirtækjum veita íslenzku áhættufjármagni til eflingar þýzks atvinnulífs. Hvers vegna skyldum við ekki alveg eins vilja soga erlent áhættufjármagn til eflingar íslenzks atvinnulífs?

Það er réttlátt, hagkvæmt og óumflýjanlegt að takmarka ekki erlenda eignaraðild að íslenzkum sjávarútvegi. Samt getum við varið auðlindina með skarpari skilgreiningu á eignarhaldi hennar og verndað umsvifin í landi með skilmálum um sölu sjávarfangs á markaði.

Frumvörpin þrjú, sem Alþingi hefur til umfjöllunar, eru vel meint, en grípa ekki á réttum stað inn í ferilinn. Í framkvæmd verða þau alltaf ranglát, óhagkvæm og skammvinn. Varanleg lausn fæst hins vegar með veiðileyfagjaldi og söluskyldu á innlendum fiskmarkaði.

Bezta leiðin er að bjóða fiskveiðileyfin út á alþjóðlegum markaði með ákvæðum um löndunarskyldu. Þannig heldur þjóðin hjá sér fullum arði af eignarhaldi auðlindarinnar og af innlendri veltu í kringum fiskmarkaðina, en útgerðin heldur hagnaði af eigin rekstri.

Frumvörpin þrjú bera með sér, að pólitísku öflin í landinu viðurkenna, að núverandi hömlur eru óframkvæmanlegar, enda eru þær brotnar án þess að neitt sé gert í málunum. Frumvörpin fela í sér skipulegt undanhald í átt til þess frelsis, sem óhjákvæmilegt er um síðir.

Í stað þess að lifa í stöðugum ótta við breytingar í umhverfinu og fara alltaf í flæmingi undan óhjákvæmilegri þróun eigum við að taka frumkvæðið og notfæra okkur kostina við að ganga beint til verks og sveigja hina óhjákvæmilegu þróun að langtímahagsmunum okkar.

Uppboð veiðileyfa og löndunarskylda eru sameiginlega heppilegri en reglur um takmarkaðar prósentur í beinni eða óbeinni aðild útlendinga að sjávarútveginum.

Jónas Kristjánsson

DV

Major klúðraði málinu

Greinar

Upphafsins að hruni hins torsótta friðarferils á Norður-Írlandi er að leita hjá John Major, forsætisráðherra Bretlands. Hann hafnaði 30. janúar niðurstöðu alþjóðlegrar nefndar, sem 24. janúar síðastliðinn gaf út skýrslu um, hvernig mætti stíga næsta skref í friðarátt.

Hin svonefnda Mitchell-nefnd hafði verið skipuð af málsaðilum deilunnar til að koma friðarferlinum úr sjálfheldu, sem hann var kominn í eftir nokkuð góðan árangur í upphafi viðræðna ríkisstjórna Bretlands og Írlands. John Major átti sjálfur þátt í að skipa nefndina.

Alþjóðlega Mitchell-nefndin lagði til, að hnúturinn yrði leystur með því að vinna tvö verk samhliða og samtímis. Afvopnun skæruliða færi fram í áföngum, um leið og viðræður héldu áfram um framtíð Norður-Írlands. Þetta álit kom fram í skýrslunni frá 24. janúar.

Með því að fara eftir niðurstöðu nefndarinnar gat John Major orðið eins konar höfundur að endanlegri afgreiðslu Írlandsdeilunnar. Í staðinn kom hann með tillögu um kosningar á Norður-Írlandi, sem mundu festa spennuna í sessi og framlengja pattstöðuna.

Málið hrökk auðvitað í harðan hnút við þetta hliðarskref Majors. Hann var harðlega fordæmdur af viðsemjendum sínum Írlandsmegin við samningaborðið og gagnrýndur af öðrum ríkisstjórnum. Allt fór í bál og brand. Virðist nú sem óöld sé að hefjast á nýjan leik.

Ástæðan fyrir skyndilegu og óvæntu hliðarskrefi Majors er slæm staða hans í brezka þinginu og hörmulegar tölur í skoðanakönnunum. Í hverjum aukakosningunum á fætur öðrum saxast á nauman meirihluta hans í neðri deild þingsins, sem skiptir nú örfáum atkvæðum.

Til þess að koma í veg fyrir missi meirihluta og nýjar kosningar í Bretlandi, sem Major vill fresta sem allra lengst, þarf hann að fá stuðning þingmanna sambandssinna frá Norður-Írlandi. Hann er orðinn gísl þeirra, af því að hann er skammtímamaður að eðlisfari.

Við þetta bætist, að hann telur aukna hörku og óbilgirni í meðferð mála Norður-Írlands munu færa sér aukið fylgi brezkra þjóðernissinna, þegar kosningar verða óumflýjanlegar. Þannig selur hann friðinn fyrir persónuleg og flokkspólitísk skammtímasjónarmið sín.

Allt er þetta í undirmáls- og skammtímastíl Majors, sem stingur mjög í stúf við fyrirrennarann, Margaret Thatcher. Hann hefur alltaf verið lítill karl, sem hefur haft slæm áhrif á gang mála í Evrópu. Til dæmis á hann mikinn þátt í klúðri Vesturlanda í Bosníu.

Major var leiðandi ríkisleiðtogi þeirrar evrópsku stefnu að fara fram með japli, jamli og fuðri í málum arfaríkja Júgóslavíu með þeim hryllilega árangri, sem öllum er nú ljós, þegar Bandaríkjamenn hafa tekið stjórnartaumana úr örvasa höndum leiðtoga Vestur-Evrópu.

Svo forustulaus er þessi heimshluti orðinn, að varla kemur upp sú ófriðarhætta innan landamæra Evrópu, að Bandaríkin verði ekki að koma til skjalanna. Nýjasta dæmið eru væringar Grikkja og Tyrkja á Eyjahafi. Bandaríkin urðu líka að sinna Írlandsdeilunni.

Sú deila er ofjarl Majors forsætisráðherra. Hans verður ekki minnzt í veraldarsögunni sem mannsins, sem leysti hana. Hans verður ekki einu sinni minnzt í veraldarsögunni sem mannsins, sem klúðraði lausn málsins. Hans verður alls ekki minnzt í veraldarsögunni.

Major er skýrasta dæmið um pólitískt volæði Evrópu. Hann stjórnar ekki, heldur rekst um ólgusjó skoðanakannana með það eina markmið að tóra til næsta dags.

Jónas Kristjánsson

DV

Hjörðin og hirðirinn

Greinar

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skelfdust, þegar þeir voru spurðir, hvort þeir vildu, að formaður flokksins byði sig fram til forseta Íslands. “Ekki spyrja mig” báðu þeir. Aðeins einn þingmaður flokksins treysti sér til að hafa skoðun á einu helzta umræðuefni þjóðarinnar.

Eins og þingflokkurinn er skipaður, telja þingmenn ekki hlutverk sitt að hafa skoðun á máli, fyrr en formaðurinn hefur sagt þeim, hvaða skoðun þeir eigi að hafa. Og hann hefur ekki sagt þeim, hvaða skoðun þeir eigi að hafa á þessu máli. Því eru þeir bjargarlausir.

Örfáar undantekningar eru á þessu, en þær snerta jafnan afmörkuð mál. Einar Oddur Kristjánsson treystir sér til að hafa sérstaka skoðun á framboði formannsins til forseta. Og Egill Jónsson á Seljavöllum treystir sér til að hafa sérstaka skoðun á landbúnaðarmálum.

Flestir þingmenn flokksins tengjast ákveðnum hagsmunum, til dæmis byggða eða atvinnugreina eða einstakra fyrirtækja, en eru ekki fulltrúar neinnar sérstakrar línu í stjórnmálum. Þeir eru aðilar að kosningavél, sem hefur engan sérstakan tilgang annan en völdin.

Þetta er raunar nákvæmlega það sama og einkennir þingflokk Framsóknarflokksins í jafn ríkum mæli og að meira eða minna leyti flesta aðra þingflokka. Þeir eru sagnfræðileg og tæknileg fyrirbæri, en ekki pólitísk. Enda tala verk allra ríkisstjórna sama rómi.

Þegar Matthías Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, skammaði sína menn fyrir skoðanaleysi í framboðsmáli formannsins, benti hann á, að enginn munur væri lengur á einstökum deildum fjórflokksins gamla á Alþingi. Þeir gætu þess vegna boðið framan sameiginlega.

Engin flokkur hefur þróað þetta skipulag betur en Sjálfstæðisflokkurinn. Þar snýst veröldin umhverfis formanninn. Einstakir flokksmenn og verkstjórar telja ekki hlutverk sitt að reyna að hafa áhrif á stefnuna, enda skiptir alls engu máli, hver hún er á pappírnum.

Þetta gekk mjög vel, þegar Bjarni Benediktsson var formaður og gengur aftur vel núna, þegar Davíð Oddsson er formaður. Á milli var óróatímabil ósamkomulags um formenn. Sá ágreiningur hentaði flokknum illa og menn voru fegnir að fá Davíð til að hugsa fyrir sig.

Nú eru menn svo eðlilega og notalega skoðanalausir, að þeir hafa enga skoðun á því, hvort landsþing flokksins skuli vera að vori eða hausti, þetta árið eða hitt. Þeir bíða bara eftir ákvörðun formanns. Þeir mundu sætta sig við, að landsþingi yrði frestað til aldamóta.

Skoðanalaus og foringjahollur flokkur er kjörinn valdaflokkur. Hann nær léttu samkomulagi við aðra flokka um myndun ríkisstjórnar, af því að menn eru innilega sammála um að láta ekki málefnaágreining standa í vegi. Hrein og tær völd eru eina stórmálið.

Það hentar slíkum flokki að vera í samstarfi um skiptingu valdsins við Framsóknarflokksins, sem tímabundið hefur komið upp svipuðu formannsveldi og Sjálfstæðisflokkurinn. Ekkert mælir á móti því, að samstarfið haldist fram eftir næstu öld, ef kjósendur bara leyfa.

Þannig er ekki hægt að merkja, að ríkisstjórnir, sem Sjálfstæðisflokkurinn skipar, séu hægri sinnaðri en aðrar. Allar ríkisstjórnir vernda miðstýringuna, af því að hún hentar sterku hagsmunaaðilunum, sem hafa aðgang að valdinu og hafa þingmenn á sínum snærum.

Einn góðan veðurdag segir formaðurinn flokki sínum, hvort hann ætlar að verða forseti landsins. Allir verða áfram afar hamingjusamir og una glaðir við sitt.

Jónas Kristjánsson

DV

Lömuð tollgæzla

Greinar

Tollstjórinn í Reykjavík hefur alla tíð verið á pólitísku framfæri Framsóknarflokksins í ýmsum embættum og hvergi gert garðinn frægan. Stofnun hans er full af silkihúfum, en virðist samt skorta mannskap til að halda uppi eðlilegum vörnum gegn innflutningi fíkniefna.

Tollstjórinn hefur ekki séð ástæðu til viðbragða, þótt fíkniefnasalar reyni að hræða tollverði til hlýðni með því að valda þeim miklu fjárhagslegu tjóni með skemmdarverkum á bílum þeirra og rúðubrotum á heimilum þeirra. Þetta gerist þó vegna starfs þeirra.

Fíkniefnasalar vita, að tollverðir eru á lágum launum og hafa ekki ráð á að amast við mönnum, sem valda þeim persónulegu fjárhagstjóni í skjóli nætur. Ef þeir hafa ekki stuðning frá silkihúfunum í Tollstöðinni, eru þeir varnarlitlir og hætta að finna fíkniefni.

Ofan á þetta hefur tollstjóri tekið upp þá ógeðfelldu stefnu að ógna tollvörðum með því að kalla þá á teppið fyrir að segja fjölmiðlum frá ólestrinum í vörnum gegn innflutningi fíkniefna. Næsta skref á eftir teppinu er skrifleg áminning og hið þriðja er brottrekstur.

Ekki er komið í ljós, hversu langt tollstjórinn mun ganga á þessari braut. Tollverðirnar hafa fengið sér lögmann til að gæta hagsmuna sinna gagnvart honum. Það segir raunar mikla sögu, að tollverðir í fíkniefnaleit telji sig þurfa lögfræðilega vernd gegn yfirmanni sínum.

Komið hefur í ljós, að töluvert af þeim fíkniefnum, sem eru í umferð hér á landi, berst til landsins í pósti. Samt er millilandapóstur afar lítið tollskoðaður frá þessu sjónarmiði. Það er til dæmis aðeins gert í dagvinnu, þótt póstur berist til landsins á öllum tímum sólarhringsins.

Nú síðast viðurkenndi maður fyrir fíkniefnalögreglunni að hafa látið senda sér kókaín í hraðpósti frá New York. Verðmæti sendingarinnar nam rúmlega einni milljón króna á götunni. Það er því ljóst, að fíkniefnasalar hafa ráð á að mýkja tollgæzluna í landinu.

Andvaraleysi og tvískinnungsháttur stjórnvalda gagnvart fíkniefnavandanum er alltaf að koma betur og betur í ljós. Lögreglumenn standa í vonlítilli baráttu um grömm og milligrömm á götunni á meðan lítið sem ekkert er gert til að sporna gegn innflutningnum sjálfum.

Starfsmenn tollgæzlunnar í Reykjavík og á Keflavíkurflugvelli telja, að fíkniefnasmyglarar hafi nánast frjálsar hendur í innflutningi. Starfsmönnum við fíkniefnaleit hefur farið fækkandi, en stofnanirnar notaðar til að sjá pólitískum kvígildum fyrir þægilegu lifibrauði.

Ekkert vit fæst í baráttuna gegn innflutningi fíkniefna fyrr en skipt hefur verið um tollstjóra í Reykjavík og á Keflavíkurflugvelli. Fá þarf til mannaforráða menn, sem ekki eru á pólitísku framfæri, og beina starfsorku embættanna í auknum mæli að fíkniefnaleit.

Þetta er ekki spurning um aukin heildarútgjöld hins opinbera, heldur tilfærslu á mannskap og skipti á mannskap. Með því að skipta um tollstjóra og fækka silkihúfum á skrifstofum þeirra verður hægt að fjölga starfandi fólki við varnir gegn innflutningi fíkniefna.

Stóru fíkniefnasendingarnar til landsins fara um hendur tollgæzlunnar, yfirleitt í Reykjavík eða á Keflavíkurflugvelli. Af því að sambandið við útlönd verður annað hvort að vera á sjó eða í lofti, á að vera hægt að hafa strangt eftirlit á hinum fáu innflutningspunktum.

En fyrst þarf að ryðja þeim frá, sem standa í vegi þess, að eyja í miðju Atlantshafi geti notið þeirra fíkniefnavarna, sem landfræðilegar kringumstæður leyfa.

Jónas Kristjánsson

DV

Kominn í Maó-jakkann

Greinar

Jiang Zemin, forseti Kína, er hættur að láta mynda sig í vestrænum fötum og klæðist nú búningi að hætti Maós formanns. Tónninn í ræðum hans er orðinn hvassari og stríðari en áður var. Jafnframt fer vaxandi yfirgangur Kínverja á hafinu gagnvart nágrannaríkjunum.

Um nokkurra mánaða skeið hefur herinn í Kína stundað æfingar á sundinu milli meginlandsins og Tævan og reynt að haga þeim þannig, að þær skjóti Tævan-búum skelk í bringu. Jaframt ítreka kínverskir ráðamenn oftar og hvassar en áður, að Tævan verði sameinað Kína.

Fyrr í vetur gengu kínverskir hermenn á land á skerjum, sem Filipseyjar telja sig eiga. Kínastjórn var með þessu að reyna að sýna fram á mátt sinn og megin. Með slíkum aðferðum sáir hún um leið öryggisleysi í nágrannaríkjunum og magnar raunar hervæðingu þeirra.

Jafnframt hafa kínverskir ráðamenn ótvírætt sagt, að lýðræðisöfl verði virt að vettugi í Hong Kong, þegar þeir taka þar völdin á næsta ári. Í undirbúningsnefnd valdaskiptanna var ekki skipaður neinn fulltrúi lýðræðisaflanna, sem unnu kosningasigur í Hong Kong í fyrra.

Harka Kínastjórnar hefur aukizt gagnvart Tíbet-búum, menningu þeirra og trúarbrögðum. Hún virti að vettugi val þeirra á barni til að verða Panchet Lama, setti það í stofufangelsi og valdi sjálf annað barn til að gegna þessu hlutverki. Hún þolir enga sjálfstæða skoðun.

Stjórnarandstæðingar í Kína eru ofsóttir harðar en áður. Er nú svo komið, að fangelsaðir eru allir þeir, sem lýsa öðrum sjónarmiðum en þeim, sem viðurkennd eru af stjórnvöldum. Daglega rignir yfir kínverska fjölmiðla tilskipunum um herta hugmyndafræðilega baráttu.

Helzta einkenni kerfisins í Kína er, að það þolir engin frávik frá línunni, sem hefur orðið einstrengingslegri með hverjum mánuðinum að undanförnu. Þetta beindist áður einkum að fólkinu í landinu, en einkennir upp á síðkastið í vaxandi mæli samskiptin við útlönd.

Stjórnin í Kína brýtur hverja þá alþjóðasamninga, sem hún telur standa í vegi fyrir ráðagerðum sínum. Hún heldur áfram tilraunum með kjarnorkuvopn, þótt öll önnur stjórnvöld hafi hætt þeim. Hún skirrist við að efna viðskiptasamninga, sem hún hefur skrifað undir.

Herinn í Kína rekur sjálfur þrjátíu umfangsmiklar verksmiðjur, sem framleiða geisladiska án þess að greiða tilskilin og umsamin gjöld fyrir réttindi. Svipað er að segja um tölvuhugbúnað. Á mörgum sviðum er stundaður ríkisrekinn þjófnaður á vestrænum höfundarétti.

Vestræn fyrirtæki, sem hafa verið ginnt til athafna í Kína, verða að sæta því, að engar leikreglur gilda þar í landi. Þar stjórna ekki lög og reglur samskiptum fyrirtækja og opinberra aðila, heldur hreinn geðþótti ríkisins, þar á meðal eignaupptaka, ef því sýnist svo.

Reynslan hefur líka sýnt ráðamönnum Kína, að vestrænir ráðamenn og ráðamenn nágrannaríkjanna fara undan í flæmingi. Í einstaka ríkjum bíða bjálfarnir nánast í biðröð eftir að komast í opinbera heimsókn til Kína. Þetta magnar fjölþætta forherðingu Kínastjórnar.

Þegar forseti Kína afklæðist vestrænu jakkafötunum, sem hafa verið einkenni Deng-tímans, og dregur rykfallinn Maó-jakka úr skápnum, er afturhvarfið til fyrri tíma orðið formlega staðfest. Deng Xiaoping er sjálfur orðinn 91 árs og hefur ekki sézt opinberlega í tvö ár.

Að engu eru orðnar vestrænar vonir um, að ódýrt fjármagn, ódýr þekking og pólitískur stuðningur geri einstrengingslega Kínastjórn alþjóðlega samstarfshæfa.

Jónas Kristjánsson

DV

Silkihúfuspítali

Greinar

Við sameiningu tveggja spítala í Sjúkrahús Reykjavíkur og hagræðingu í rekstri þess er lögð áherzla á að varðveita stöður yfirmanna og búa til nýjar í staðinn fyrir þær, sem greinilega urðu óþarfar. Eftir breytingarnar eru þar 27 yfirmenn og hefur þeim fækkað um sex.

Á sama tíma eru á borðinu tillögur um að fækka starfsmönnum Sjúkrahúss Reykjavíkur um 96. Það nægir þó ekki til að mæta samdrætti í fjárveitingum til spítalans. Enn eru ekki til neinar tillögur um, hvernig gatinu verði lokað, þótt liðinn sé rúmlega mánuður af fjárhagsárinu.

Rekstrarfræðilega er ástæða til að draga í efa, að sameinað sjúkrahús þurfi nærri eins marga yfirmenn og tveir spítalar þurftu áður samanlagt. Enn frekar er ástæða til að draga það í efa, þegar starfsemi hins sameinaða sjúkrahúss er minnkuð og sumar deildir aflagðar.

Ætla má, að sjúkrahúsinu nægi um 15-20 yfirmenn í stað 27, þegar búið er að sameina reksturinn og skera hann niður í þær fjárhæðir, sem það hefur til ráðstöfunar samkvæmt fjárlögum ríkisins. Ráðamenn þess telja hins vegar nauðsynlegt að vernda silkihúfurnar.

Sjúkrahús Reykjavíkur er ekki einstætt tilvik. Þegar opinber fyrirtæki þurfa að draga saman seglin, dettur ráðamönnum yfirleitt fyrst í hug að fækka ræstingarfólki og síðast í hug að fækka yfirmönnum. Þetta er bara ein myndbirting vaxandi stéttaskiptingar í landinu.

Mismunun af þessu tagi er ekki aðeins ósiðleg, heldur einnig óhagkvæm. Hún leiðir til aukins klofnings milli yfirmanna og undirmanna og dregur úr áhuga undirmanna á að leggja hönd á plóginn, þegar taka þarf á til að halda fyrirtækinu á floti í lífsbaráttunni.

Í opinberum rekstri skortir oft skilning starfsmanna á hagkvæmni í rekstri. Þeir líta sumir á vinnustaðinn sem eins konar lífsstíl, en ekki sem fyrirtæki, er þurfi að samræma útgjöld og tekjur. Til að framkalla skilning starfsmanna þurfa yfirmenn einnig að bera byrðar.

Þessa hefur ekki verið gætt við sameiningu tveggja spítala í Sjúkrahús Reykjavíkur og hagræðingu í rekstri hins nýja spítala. Yfirstjórn hans hefur af töluverðri hugkvæmni teiknað ný skipurit, sem gera ráð fyrir, að útvegaðar séu hillur handa nærri öllum stjórnendum.

Þetta vekur auðvitað athygli undirmanna, sem bíða nú eftir uppsagnarbréfum, og hefur áreiðanlega áhrif á vinnuframlag sumra þeirra. Ef yfirmannastéttin hefði gengið á undan með góðu fordæmi, væri auðveldara fyrir undirmennina að sætta sig við samdráttinn.

Aðstæður eru alltaf að breytast. Það er gangur lífsins. Þau tímabil koma stundum í rekstri fyrirtækja eða stofnana, að tekjurnar dragast saman. Þetta er það sama og kemur fram í rekstri heimila, þegar illa árar í þjóðfélaginu. Þá þarf fólk að laga útgjöld sín að tekjum.

Flestum heimilum tekst að ná jafnvægi á nýjan leik og sömuleiðis mörgum fyrirtækjum, enda færu þau ella á hausinn. Í opinberum rekstri gengur hins vegar ekki eins vel að ná þessum árangri, því að samhengið er þar ekki eins greinilegt milli tekna og afkomu.

Sjúkrahús Reykjavíkur á við að stríða mikla erfiðleika, sem eru hliðstæðir vandræðum fyrirtækja, er ramba á barmi gjaldþrots. Tillögurnar um samdrátt í rekstri eru sársaukafullar fyrir starfsfólk, en nægja þó ekki til að koma rekstri spítalans í þolanlegt horf.

Slíkar aðstæður leyfa ekki verndun á silkihúfum. Stjórn spítalans ber að skera hlutfallslega meira niður í stjórnunarstöðum hans en í starfsmannahaldinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Kvótinn verði boðinn upp

Greinar

Ef rétturinn til veiða á öllum nytjafiskum við Ísland væri seldur á sama verði og menn kaupa og selja þennan rétt á kvótamörkuðum, mundi heildarverð auðlindarinnar nema 160 milljörðum króna samkvæmt sundurliðuðum reikningi á fjórtán tegundum í DV í fyrradag.

Hafa verður í huga, að ekki er víst, að gangverð allra fiskveiðiréttinda yrði í raun hið sama og gangverð jaðarréttindanna, sem nú ganga kaupum og sölum á kvótamarkaði. Stundum kaupa menn dýrar en ella, af því að þeir eru að laga kvótaeignina að búnaði og aðstæðum.

Á hinn bóginn kann líka að vera, að söluverð á kvótamarkaði endurspegli ekki fullt verðgildi kvótanna vegna óvissunnar um, hver eigi kvótana í raun. Sú skoðun er útbreidd, að seljendur kvótanna eigi ekki auðlindina og að kaupendur séu því ekki lausir allra eftirmála.

Samkvæmt skoðanakönnun vilja tveir þriðju hlutar þjóðarinnar, að tekið verði upp veiðileyfagjald, væntanlega á þeim forsendum, að ríkið eigi kvótann fyrir hönd þjóðarinnar allrar, en ekki þeir einir, sem af sagnfræðilegum ástæðum fengu ókeypis úthlutun á sínum tíma.

Það flækir málið, að margir þeir, sem upprunalega fengu kvótann frítt, hafa nú selt hann öðrum, sem væntanlega yrðu að tvíborga hann að einhverju leyti, ef komið yrði upp veiðileyfagjaldi. Réttarstaða þessara aðila hlýtur að vera atriði, sem taka þarf til skoðunar.

Ef réttur til veiða á öllum nytjafiskum við Ísland væri leigður, en ekki seldur, og á sama verði og menn kaupa og selja á kvótamörkuðum þennan árlega notkunarrétt, mundi árlegt leiguverð auðlindarinnar nema 28 milljörðum samkvæmt áðurnefndum reikningi í DV.

Þetta eru 17-18% söluverðsins, sem virðist nærri lagi sem hlutfallstala, þótt krónutalan sjálf virðist nokkuð há. Hún er auðvitað háð sömu fyrirvörum, nema að því leyti, að réttaróvissan um eignarhald kvóta á leigumarkaði er nánast engin vegna hins skamma leigutíma.

Tölur sem þessar skipta máli í ljósi þess, að tveir þriðju hlutar þjóðarinnar og flestir hagfræðingar telja, að taka beri upp veiðileyfagjald. Þjóðin telur þetta væntanlega vera sanngirnismál og hagfræðingarnir telja reikningslega rétt, að greitt sé afnotagjald.

Ef veiðileyfagjaldið verður eins konar skattur, er hægt að hafa upphæðina einhverja aðra en þá, sem kemur fram í niðurstöðum útreikninga af þessu tagi. Þá hefur bætzt við enn ein millifærslan í þjóðfélaginu, sem felur í sér aukið skömmtunarvald stjórnmálamanna.

Eðlilegast er að framkvæma veiðileyfagjald með uppboði á öllum kvóta til eins árs í senn. Þar með fengi markaðurinn að ákveða, hvert sé rétt verðgildi auðlindarinnar og afnotanna af henni. Markaðslögmálin segja slíkt vera réttlátustu og hagkvæmustu leiðina.

Betra er að leyfa markaðinum að ákveða tölurnar en að láta hagfræðilega útreikninga eða pólitíska málamiðlun gera það, alveg eins og markaðurinn fær að ákveða tölurnar, sem nú gilda við sölu og leigu á kvóta. Tölurnar í DV eru ekkert annað en tilraun til að spá í markaðinn.

Síðan er það auðvitað allt annað og stórpólitískt mál, hvað eigi að gera við tekjurnar, sem komi úr veiðileyfagjaldinu. Á að nota þær til að lækka skatta og þá hvaða skatta? Á að nota þær til að stækka ríkisbáknið. Á að senda landsmönnum öllum árlega ávísun í pósti?

Um langan aldur hefur verið lagt til í þessu blaði, að fiskveiðikvótinn verði leigður á frjálsu uppboði og að tekjurnar verði ekki notaðar til að stækka ríkisbáknið.

Jónas Kristjánsson

DV

Kurteisin nær skammt

Greinar

Hinar mildu aðferðir utanríkisráðherra duga ekki í samskiptum við Norðmenn um ýmsa fiskveiðihagsmuni. Þær hafa ekki skilað neinum árangri umfram hinar hörðu aðferðir fyrrverandi utanríkisráðherra. Þær virðast fremur hafa magnað óbilgirni viðsemjenda okkar.

Við utanríkisráðherraskiptin í vor lagði hinn nýi ráðherra áherzlu á, að hann hefði annan stíl en fyrirrennarinn. Halldór Ásgrímsson sagðist mundu beita góðum kynnum sínum af ráðamönnum í Noregi til að leysa málin í friði eins og góðra granna væri siður.

Við venjulegar aðstæður kann að vera farsælt að beita fremur kurteisi en hávaða. Ágreiningur okkar við Norðmenn um fiskveiðihagsmuni telst hins vegar ekki til venjulegra aðstæðna. Yfirgangur og þvergirðingur Norðmanna á þessu sviði er einstæður í sinni röð.

Taumlaus frekja Norðmanna ætti að vera okkur kunn af deilunum um Jan Mayen, þar sem þeir náðu áttatíu prósent árangri. Þeir eru að leika sama leikinn nú, ekki aðeins gagnvart Íslandi, heldur einnig öðrum hagsmunaaðilum, svo sem Rússlandi og Evrópusambandinu.

Norðmenn sitja yfir hlut okkar á nokkrum sviðum í senn, í Smugunni, á Svalbarðasvæðinu og í Síldarsmugunni. Fiskveiðihagsmunir okkar eru líka í uppnámi á öðrum sviðum, djúpkarfamiðum út af Reykjaneshrygg og rækjumiðum á Dhornbanka og Flæmska hattinum.

Á Svalbarðasvæðinu hafa Norðmenn hreinlega tekið sér einhliða forræði, sem ekki á sér stoð í fjölþjóðasamningi um svæðið. Rússland og Evrópusambandið hafa mótmælt yfirganginum, en svo virðist sem íslenzk stjórnvöld hafi meira eða minna gefið eftir í málinu.

Mikilvægt er, að utanríkisráðherra og sjávarútvegsráðherra hætti að fá glýju í augun, þegar þeir sjá erlenda viðsemjendur sína. Eftir níu mánaða brosmildi og notalegheit er kominn tími til að berja í borðið og byrja til dæmis á að draga Norðmenn fyrir dómstólinn í Haag.

Ennfremur þarf nú að leggja mikla áherzlu á að einangra Norðmenn með bandalögum við aðra hagsmunaaðila, sem eru gáttaðir á norskum yfirgangi. Við eigum meðal annars að hafa samráð við Evrópusambandið, því að það hefur að sumu leyti svipaða hagsmuni og við.

Um leið getum við hugleitt, hversu betur við værum á vegi stödd í milliríkjadeilum af þessu tagi, ef við værum nú að hoppa inn í Evrópusambandið á sama tíma og Norðmenn hafa hafnað aðild. Það eru stórfelld sagnfræðileg mistök okkar að missa af Evrópuhraðlestinni.

Hinn nýfengni aumingjaskapur í utanríkisstefnu okkar kemur greinilega fram í tregðu utanríkisráðuneytis okkar við að kæra Norðmenn fyrir dómstóli Evrópska efnahagssvæðisins fyrir að neita íslenzkum skipum um aðstöðu í norskum höfnum í neyðartilvikum.

Ekki fer á milli mála, að mannfjandsamlegar aðgerðir Norðmanna á þessu sviði eru brot á reglum Evrópska efnahagssvæðisins. Okkur veitir ekki af að auglýsa málið og velta þeim sem allra mest upp úr mistökunum til að veikja þá í öðrum samskiptum við okkur.

Níu mánaða reynslutími sýnir, að kurteisisstefna utanríkisráðherra er að bíða skipbrot. Hún hefur magnað óbilgirni viðsemjenda okkar. Og svo er nú komið, að við erum farin að sjá eftir fyrrverandi utanríkisráðherra, sem lét Norðmenn þó vita, hvar Davíð keypti ölið.

Ef svo fer sem horfir, munu margir fara að telja, að utanríkisráðherra sé, þrátt fyrir alvörugefinn svip, ekki nógu hæfur til að sinna erfiðustu þáttum starfsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Átta af hverjum tíu

Greinar

Átta af hverjum tíu lögmönnum og lögmannafulltrúum landsins hafa ritað undir áskorun til Alþingis um að lögfesta breytingar á hinum illræmdu skaðabótalögum frá 1993. Í aðeins fimm daga söfnunarátaki náðust undirskriftir 220 lögmanna af um 270-280 í landinu.

Fáir þessara lögmanna hafa umtalsverða hagsmuni af skaðabótamálum, sem þeir reka gegn tryggingafélögunum í umboði fólks, sem tryggingafélögin hafa leikið grátt í viðskiptum. Flestir þeirra hafa bara réttlætistilfinningu fyrir því, að siðlausum lögum verði breytt.

Tryggingafélögin eru öflugar stofnanir í innsta kjarna valdakerfisins. Dómsmálaráðherra lét starfsmann þeirra semja frumvarp, sem formaður allsherjarnefndar Alþingis tók að sér að fá staðfest. Þetta tókst þessum framangreindu umboðsmönnum tryggingafélaganna.

Alþingismenn höfðu ekki sér til afsökunar, að málið væri ekki nógu vel kynnt. Í fjölmiðlum komu þá fram rækilegar upplýsingar, sem hefðu átt að nægja til að stöðva framgang frumvarpsins, sem hafði þann eina tilgang að magna tekjur tryggingafélaganna sem mest.

Eftir uppistandið í þjóðfélaginu af völdum þessarar hagsmunagæzlu fyrir hina fáu og ríku á kostnað hinna mörgu, var dæmið reiknað að nýju á vegum allsherjarnefndar Alþingis. Samt hafa hvorki nefndin né ráðherrann tekið mark á hinum nýju og réttu útreikningum.

Upplýst er, að starfsmaður tryggingafélaganna, sem samdi frumvarpið á sínum tíma, gaf Alþingi rangar upplýsingar um innihald þess. Þetta hefur rækilega verið staðfest, en samt þarf undirskriftir mikils meirihluta lögmanna landsins til að vekja málið á nýjan leik.

Tryggingafélögin mynda fáokunarhring, sem lætur sníða lög og reglur að þörfum sínum, og raka saman fé í skjóli pólitískrar aðstöðu. Þau halda uppi hærra verði á bifreiðatryggingum en þekkist á Vesturlöndum. Og þau neita að greiða fólki réttmætar skaðabætur.

Með aðstoð dómstóla og Hæstaréttar hefur tryggingafélagi til dæmis tekizt í átta ár að fresta því að greiða skaðabætur til konu, sem missti handlegg, þegar hún var þrettán ára. Með því að halda fénu fyrir konunni hefur tryggingafélagið stórskert tækifæri hennar í lífinu.

Síðan tapar tryggingafélagið þessu máli eins og félögin hafa verið að tapa slíkum málum á síðustu árum. Dómskerfið er meira eða minna stíflað af málum, þar sem tryggingafélögin reyna að draga greiðslur sem lengst til að knýja fórnardýr sín til ótímabærra samninga.

Fólk, sem hlýtur örorku í slysum, er illa í stakk búið til að halda uppi málarekstri gegn tryggingafélagi í mörg ár. Það freistast til að semja um smánarbætur til að fá eitthvað af peningum fljótt. Tryggingafélögin eru hins vegar rík og geta látið tímann vinna fyrir sig.

Ef allt væri með felldu í valdakerfi landsins, mundu dómstólar landsins afgreiða gerviáfrýjanir og frestunarkröfur tryggingafélaganna á einni viku og hreinsa málastífluna. Ef allt væri með felldu, mundi Alþingi setja strax ný skaðabótalög í stað hinna illræmdu.

En tryggingafélögin ráða ferðinni í krafti peningaveldis síns og rótgróinnar aðstöðu sinnar hjá stærstu stjórnmálaflokkunum. Þau eru skólabókardæmi um, að íslenzka þjóðfélagið er ekki sniðið að þörfum borgaranna, heldur að þörfum helztu valdastofnana þjóðfélagsins.

Framtak lögmannastéttarinnar er stórmerkileg tilraun til að vekja athygli Alþingis á, að þetta óeðlilega ástand í þjóðfélaginu fær ekki staðizt til lengdar.

Jónas Kristjánsson

DV

Kæruleysi í fíkniefnastríði

Greinar

Handtökur fíkniefnaneytenda geta verið gagnlegar, ef þær leiða til, að lögreglan getur fetað sig upp keðjuna frá sölumönnum til skipuleggjenda framboðs fíkniefna. Eitt út af fyrir sig er gagnslaust að taka neytendur með nokkur grömm af hinum veikari tegundum fíkniefna.

Undanfarnar vikur hefur lögreglan gert harða hríð að fíkniefnaneytendum. Ekki hefur enn komið í ljós, hvort yfirheyrslur hafa leitt í ljós upplýsingar um, hverjir séu sölumenn og hvaðan þeir fái fíkniefni. En væntanlega safnast slíkar upplýsingar í sarpinn.

Athyglisvert er, að aukin árvekni löggæzlunnar kemur með nýju fjárhagsári. Væntanlega sjá viðkomandi yfirmenn um, að haldið verði allt árið uppi leit að sölumönnum og skipuleggjendum fíkniefna, en aðgerðirnar fjari ekki út á hausti, af því að fé sé upp urið.

Tvískinnungs gætir í baráttu stjórnvalda gegn glæpamönnum á þessu sviði. Fögur orð og efndir fara ekki saman frekar en fyrri daginn í þjóðmálunum. Fjármagn til baráttunnar hefur farið minnkandi á síðustu árum og stór göt eru komin á eftirlit með innflutningi.

Niðurskurður tollgæzlu á Keflavíkurflugvelli hefur leitt til, að þar var til skamms tíma minna tekið af fíkniefnum en hafði verið gert fyrr á árum. Síðustu fréttir geta þó bent til, að þetta ástand kunni að vera að lagast aftur, og verður grannt fylgzt með árangrinum.

Afar óheppilegt er, að lögreglan skuli svo verðlauna fíkniefna-burðardýr, sem tekin eru í tolli, með því að senda þau til útlanda án nokkurra eftirmála annarra en þeirra að senda bréf um málið til heimalands burðardýrsins. Með þessu eru glæpamönnum send röng skilaboð.

Þá kom í ljós í fréttum DV í gær, að tollpóststofan hefur aðeins peninga til að leita að fíkniefnum á daginn, þótt tollpóstur berist þangað allan sólarhringinn. Þarna er greinilegt gat í kerfinu, því að fróðir menn telja víst, að mikið sé um, að fíkniefni séu send í pósti.

Flestir eru sammála um, að framboð fíkniefna sé mikið hér á landi og verð þeirra ekki tiltakanlega hátt, þrátt fyrir þær góðu aðstæður, að Ísland er eyja úti í reginhafi. Barátta gegn innflutningi fíkniefna ætti að vera tiltölulega auðveld hér, en nær samt litlum árangri.

Skylt þessu vandamáli er tvískinnungur stjórnvalda gagnvart ólöglegri framleiðslu áfengis til dreifingar meðal barna og unglinga. Illræmdasta dæmið um það er, að sundrað var hópi lögreglumanna í Breiðholti, sem höfðu náð miklum árangri við að handsama bruggara.

Aukinn áhugi almennings í vetur á framgangi málsins verður vonandi til að ýta við ríkisstjórn og embættismönnum. Stjórnvöldum ber að samræma fíkniefnaleit og útvega fjármagn til að unnt sé að halda henni uppi. Þau hafa sofið á verðinum, þrátt fyrir fögur orð.

Fleiri aðilar þurfa að koma til skjalanna. Alþingi þarf að breyta lögum á þann hátt, að hert séu viðurlög við skipulagi og sölu ólöglegra fíkniefna, þar á meðal áfengis. Ennfremur ber dómstólum að nýta sér svigrúm í lögum, þegar dómar eru kveðnir upp í slíkum málum.

Auðvitað verður líka að reyna að koma skilaboðum til neytenda um hættur fíkniefna. Það er ekki viðaminna mál að reyna að minnka eftirspurnina en að minnka framboðið. Hingað til hefur fræðsla verið lítil og rangt hugsuð, svo að hún hefur ekki náð tilætluðum árangri.

Fréttir og umræða í þjóðfélaginu hafa verið á þann veg á síðustu vikum, að ástæða er til að vona, að hreyfing sé loksins að komast á baráttuna gegn fíkniefnum.

Jónas Kristjánsson

DV

Uggvænlegar framfarir

Greinar

Vetrarræktun á tómötum og gúrkum er að verða að veruleika. Þessar afurðir verða að þessu sinni tveimur mánuðum fyrr á ferðinni en áður. Við venjulegar aðstæður ætti fólk að fagna þessu sem framförum í efnahagslífinu, en málið er því miður flóknara en svo.

Ef lengist tímabil framboðs á dýru grænmeti frá Íslandi, þá styttist fljótlega sá tími, þegar almenningur hefur aðgang að ódýru grænmeti frá útlöndum. Haustak landbúnaðarins á þjóðinni er slíkt, að hún verður að greiða þessa tilraunastarfsemi fullu verði.

Við búum við þær sérkennilegu kringumstæður, að grænmeti lækkar í verði á haustin, þegar vetur gengur í garð hér á landi, og hækkar aftur á vorin, þegar gróðrartími hefst að nýju. Þetta stafar af reglum um forgang íslenzkra afurða á þeim tíma, þegar þær eru fáanlegar.

Við erum hins vegar enn svo heppin, að ávextir eru ekki ræktaðir í landinu. Ef þeir fengjust úr gróðurhúsum á sumrin, mundum við ekki njóta ódýrra ávaxta frá útlöndum á þeim tíma. Við verðum bara að vona, að tækniþróun íslenzkra gróðurhúsa nái aldrei svo langt.

Þessar aðstæður valda því, að ávextir eru tiltölulega ódýrir hér á landi, en grænmeti hins vegar afar dýrt, að minnsta kosti nokkurn hluta ársins. Fólk áttar sig ekki á þessu, fyrr en það kemur í matvöruverzlanir í útlöndum og ber verðið saman við það, sem það þekkir heima.

Ástandið þýðir í rauninni, að árangur í tilraunum til lengri ræktunartíma í gróðurhúsum er hrein og bein útgerð á vasa neytenda. Þessar tilraunir hafa ekkert efnahagslegt gildi fyrir þjóðina, af því að það vantar alveg fjárhagslegan mælikvarða á markaðshæfni vörunnar.

Raunverulegur mælikvarði á gildi vetrartómata og vetrargúrkna felst í verðsamkeppni við innflutta vöru. Landbúnaðarkerfið mun hins vegar sjá um, að hindra slíka samkeppni, svo að tilraunavaran seljist, alveg eins og hún sér um, að önnur garðyrkjuvara seljist.

Þetta gerist ekki í vetfangi. Um þessar mundir er hægt að fá ódýrar gúrkur frá útlöndum, þótt dýrar vetrargúrkur séu líka fáanlegar. En reynslan sýnir, að kerfið kemur í humátt á eftir tækniframförunum og sér um, að þær verði á kostnað neytenda í landinu.

Stundum er haldið fram, að íslenzkt grænmeti megi vera dýrara en innflutt, af því að það sé betri vara. Út frá þessari röksemdafærslu ætti að vera unnt að hafa hvort tveggja til sölu á sama tíma, svo að neytendur geti valið milli verðs og gæða samkvæmt markaðslögmálum.

Kenningin um gæði íslenzks grænmetis er hins vegar sett fram af annarri ástæðu, til að halda uppi vörnum fyrir innflutningsbanni. Kerfið vill nefnilega ákveða, hvað sé neytendum fyrir beztu, og telur þeim vera fyrir beztu að kaupa grænmeti frá skjólstæðingum kerfisins.

Það væri ósköp indælt, ef hægt væri að fagna tækniframförum í garðyrkju af heilum hug. Það er hins vegar tæpast hægt, af því að við vitum, að markaðslögmál verða ekki látin gilda sem mælikvarði á tækniframfarirnar, heldur munu ráða einokunarlögmál kerfisins.

Dýra einokunarkerfið leiðir til óeðlilega lítillar notkunar grænmetis hér á landi. Sem dæmi má nefna, að börn og unglingar borða hér aðeins 37 grömm á dag af grænmeti að meðaltali, en æskileg neyzla á grænmeti er talin vera 150 grömm í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.

Einokunarkerfið hefur leitt til minni grænmetisneyzlu hér á landi en í nokkru öðru landi í Evrópu og skaðar þannig almennt heilsufar þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Friðinum fylgt eftir

Greinar

Í Bosníu hefur verið að birta allra síðustu mánuði, þótt þar sé harður hávetur. Aðgerðir Vesturlanda hafa komið á friði í landinu og lagt drög að uppbyggingarstarfi. Stríðinu er lokið í bili, enda virðist Bandaríkjamönnum hafa tekizt að halda haustaki á Serbíuforseta.

Slobodan Milosevits hefur raunar hagað sér í nokkra mánuði á þann veg, að það líkist því helzt, að hann sé að reyna að bjarga sálu sinni eftir óvenjulega ógeðfelldan feril. Hann gerir nánast allt, sem honum er sagt að gera til að stöðva stríðsæðið, sem hann hóf sjálfur.

Í því skyni hefur hann fórnað tveimur helztu fjöldamorðingjum sínum, Radovan Karadzic, forseta Bosníu-Serba, og Ratko Mladic, yfirbrjálæðingi hers Bosníu-Serba. Þeir hafa nú hægt um sig, enda vofir yfir þeim handtaka og málaferli vegna hrikalegra stríðsglæpa.

Framganga Atlantshafsbandalagsins í Bosníu er núna allt önnur og betri en hún var, þegar Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna þóttist halda um stjórnvölinn. Hermenn bandalagsins láta ekki vaða yfir sig og yfirmenn þeirra þekkja reynsluna af kerfisbundnum lygum Serba.

Á allra síðustu vikum hefur Bandaríkjastjórn enn fremur gefið eftir fyrir stríðsglæpadómstólnum í Haag og lofað að láta af hendi upptökur af hlerunum, sem veita upplýsingar um skipulagið á stríðsglæpum Serba og Bosníu-Serba og aðild manna að skipulaginu.

Hingað til hafa vestrænir embættismenn, einkum brezkir, franskir og bandarískir, reynt að leggja stein í götu stríðsglæpadómstólsins með því að koma í veg fyrir, að hann fái fjármagn til starfa, og einnig með því að liggja á upplýsingum, sem hann þarf á að halda.

Þvergirðingsháttur vestrænna embættismanna stafar einkum af ótta þeirra við, að uppljóstranir stríðsglæpadómstólsins muni verða þungar í skauti ýmsum valdamiklum viðsemjendum þeirra af hálfu Serba og Bosníu-Serba og raunar einnig Króata, þótt í minna mæli sé.

En Bandaríkjastjórn komst að þeirri niðurstöðu, að það stríði gegn hagsmunum Bandaríkjanna vegna siðferðisstöðu þeirra í heiminum, ef hún taki þátt í þessu samsæri vestrænna embættismanna. Það yrði þyngra í skauti en skaðlegu áhrifin á sambúðina við Serba.

Þetta hefur meðal annars þau áhrif, að senn tekur herlið Atlantshafsbandalagsins völdin á þeim svæðum, þar sem vitað er, að Serbar og Bosníu-Serbar hafa falið lík tugþúsunda fanga, sem þeir myrtu í stríðinu. Það þarf að gerast, áður en sönnunargögnum verður spillt.

Þetta mun líklega einnig hafa þau áhrif, að herliðið fari að handtaka þá, sem ákærðir hafa verið fyrir stríðsglæpi og verða á vegi þeirra í Bosníu. Fréttamenn hafa tekið eftir, að franskir og brezkir foringjar láta sem ekkert sé, þótt slíkir sitji við næsta kaffihúsaborð.

Það verður að koma lögum yfir þessa snarbiluðu glæpamenn, svo að Vesturlönd nái að halda reisn sinni og senda þau skilaboð til gráu svæðanna í heiminum, að grundvallarlögmál vestræns samfélags séu enn í fullu gildi, þrátt fyrir fyrra klúður Sameinuðu þjóðanna.

Enn er of fljótt að spá, hvort Vesturlöndum tekst að komast með sæmd frá Bosníumálinu. Þróun síðustu vikna bendir til, að svo geti orðið. Þar ræður úrslitum, að Bandaríkin hafa lagt lóð sitt á vogarskálina. Á næstu vikum mun svo koma í ljós, hvort árangur næst.

Eftir allar hremmingarnar, sem Vesturlönd hafa sætt í Bosníu vegna heimsku og heigulsháttar fyrri umboðsmanna sinna, er nauðsynlegt að fylgja friðinum eftir.

Jónas Kristjánsson

DV