Betri leikreglur

Greinar

Páll Pétursson félagsmálaráðherra hefur kynnt frumvarp til laga um stéttarfélög og vinnudeilur, sem á rætur að rekja til nefndar, er skilaði skýrslu um málið skömmu fyrir áramót. Sú nefnd var skipuð með þátttöku aðila vinnumarkaðarins, en komst samt að niðurstöðu.

Ráðamenn Alþýðusambandsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja fengu hins vegar bakþanka og vildu fá svigrúm til að semja milli aðila vinnumarkaðarins um breytingarnar, án þess að þær væru beinlínis lögfestar. Þær tilraunir náðu ekki árangri á tilsettum tíma.

Félagsmálaráðherra sagðist verða að leggja frumvarpið núna fyrir Alþingi til þess að unnt yrði að lögfesta það að vori. Búast má við, að eitthvert framhald verði á efasemdum samtaka launafólks, þótt þær komi tæpast í veg fyrir, að frumvarpið verði að lögum í vor.

Rauði þráðurinn í frumvarpinu er færsla ákvörðunarvalds frá forustu til óbreyttra félagsmanna. Þrengdir eru möguleikar stjórna, trúnaðarráða og fámennra félagsfunda til að taka afdrifaríkar ákvarðanir í vinnudeilum án samráðs við breiðari hóp félagsmanna.

Felld er niður heimild samninganefnda, félagsstjórna og trúnaðarráða til að boða vinnustöðvun án skýrrar heimildar félagsmanna. Leynileg og skrifleg atkvæðagreiðsla þarf fyrst að fara fram meðal félagsmanna, þar sem minnst einn fimmti hluti þeirra tekur þátt.

Lagafrumvarpið er ekki róttækara en svo, að fræðilega séð getur rúmlega einn tíundi hluti félagsmanna ákveðið fyrir hönd þeirra allra að hefja vinnustöðvun. Frumvarpið er því ekki hár þröskuldur í vegi verkfalls, ef málsástæður knýja á, að því vopni verði beitt.

Sami lági þröskuldurinn verður samkvæmt frumvarpinu í vegi þess, að fámenn atkvæðagreiðsla í stéttarfélagi felli gerðan kjarasamning. Minnst einn fimmti hluti félagsmanna þarf að taka þátt í atkvæðagreiðslu til þess að meirihluti í henni geti fellt kjarasamninginn.

Til þess að auðvelda almenna þátttöku í atkvæðagreiðslum um vinnustöðvun og kjarasamninga heimilar frumvarpið notkun póstatkvæðagreiðslu. Ef slík atkvæðagreiðsla fer fram, nægir einfaldur meirihluti greiddra atkvæða til að binda félagið í heild.

Tvö atriði önnur eru mikilvæg í frumvarpinu. Annað er heimild til að stofna vinnustaðafélög í fyrirtækjum, sem hafa að minnsta kosti 250 starfsmenn. Þessi félög geta samkvæmt frumvarpinu samið fyrir hönd starfsfólks, ef þrír fjórðu hlutar þess eru í félaginu.

Samkvæmt þessu er dregið úr ýmsum vandræðum, sem hljótast af því, að mörg stéttarfélög koma við sögu á fjölmennum vinnustöðum, svo sem dæmin sanna hjá Flugleiðum. En hvers eiga að gjalda aðrir fjölstétta vinnustaðir, þar sem eru innan við 250 starfsmenn?

Hitt atriðið er, að sáttasemjari fær aukið vald. Hann má leggja fram sameiginlega miðlunartillögu, sem nær til margra hópa, og má ákveða, að fram fari póstatkvæðagreiðsla um miðlunartillögu. Til þess að fella slíka tillögu þarf þriðjungur að taka þátt í atkvæðagreiðslunni.

Sumum mun finnast ástæðulaust að reisa slíka þröskulda í vinnudeilum. Aðrir munu telja þær vinnudeilur ekki vera mjög brýnar, sem ekki njóta nægilegs stuðnings til að komast yfir þröskuldana. Flestir alþingismenn munu væntanlega vera á síðari skoðuninni.

Leikreglur frumvarpsins eru siðferðilega betri en þær leikreglur, sem nú er farið eftir, og ættu að draga úr þeirri skoðun, að vinnudeilur séu tímaskekkja.

Jónas Kristjánsson

DV

Flokkar sameinast ekki

Greinar

Stjórnmálaflokkar verða ekki sameinaðir, en hægt er að fara út fyrir flokkana og sameina hugmyndir, atgervi og fólk. Þetta er skoðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra, sem hefur ágæta reynslu af sameiginlegu framboði nokkurra stjórnmálaflokka í Reykjavík.

Borgarstjórinn flutti ávarp á 80 ára afmæli Alþýðuflokksins og fjallaði um erfiða stöðu lítilla stjórnmálaflokka á miðju stjórnmálanna og á vinstri væng þeirra. Þar lagði hún áherzlu á, að ekki væri hægt að sameina öflin í flokkunum á grundvelli flokkanna sjálfra.

Þetta er einmitt kjarni málsins. Endurteknar umræður um sameiningu stjórnmálaflokka hafa lítið gildi, af því að flokkarnir eru ekki fyrirbæri, sem hafa í eðli sínu getu til sameinast. Þeir eru fyrst og fremst valdastofnanir og alls ekki uppsprettur pólitískra hugmynda.

Ekki þarf annað en að líta á forustumenn stjórnmálaflokkanna til að sjá, að þeir geta ekki sameinazt í flokki. Tilvera þeirra í forustunni byggist á hirðmannasveitum, sem þeir hafa myndað umhverfis sig. Þeir eru forustumenn vegna valdsins, sem þetta veitir þeim.

Foringjar stjórnmálaflokkanna, eins og þeir eru nú og hafa lengi verið, eru ekki merkisberar hugmynda og atgervis, heldur sækjast þeir eftir völdum. Þeir mynda um sig klíkur, er ná í flokkunum völdum, sem síðan eru notuð til að verða ráðherrar og skömmtunarstjórar.

Það er til dæmis ekki unnt að sameina stjórnmálaöfl með því að sameina Jón Baldvin Hannibalsson og Ólaf Ragnar Grímsson eða með því að sameina Halldór Ásgrímsson og Svavar Gestsson. Ekki þarf langa umhugsun til að sjá, að slík dæmi ganga engan veginn upp.

Sameiginlegt framboð nokkurra flokka tókst í Reykjavík, af því að þessir foringjar og aðrir slíkir starfa fyrst og fremst á landsvísu og hafa lítil afskipti af borgarmálum. Sameiginlega framboðið fór fram hjá leiðtogunum, fjallaði ekki um þá og hefur ekki fordæmisgildi.

Sameiginlegt framboð tókst í Reykjavík, af því að áherzlan var á öðru en stjórnmálaflokkunum, sem að því stóðu. Það tekst hins vegar ekki um þessar mundir á Vestfjörðum, af því að flokkarnir sem slíkir eru þar of sterkir í viðræðunum um sameiginlegt framboð.

Frægasta dæmið um misheppnaða sameiningu í framboði var Hræðslubandalagið, sem Framsóknarflokkurinn og Alþýðuflokkurinn mynduðu árið 1956, af því að hagfræðingar reiknuðu því meirihluta á Alþingi með því að leggja saman kjósendatölur flokkanna.

Kjósendur láta ekki sameina sig með slíkum hætti. Flokkunum tókst ekki að reikna sig í valdastóla. Kjósendur Framsóknarflokksins vildu ekki kjósa frambjóðanda Alþýðuflokksins og kjósendur Alþýðuflokksins vildu ekki kjósa frambjóðanda Framsóknarflokksins.

Ekki þarf heldur lengi að skoða valdabaráttuna innan einstakra flokka til að sjá, hvernig staðan væri, ef sérfræðingar í valdabrölti innan flokka ætluðu að fara að sameinast milli flokka. Við getum ímyndað okkur, hvernig forustumenn Alþýðubandalagsins mundu haga sér.

Ingibjörg Sólrún lýsti ástandi, þar sem úthaldið brestur, um leið og einhver keppinautanna sýnist þess albúinn að græða á raunverulegum eða ímynduðum stundaróvinsældum hinna, jafnan með ódýrum skyndilausnum. Henni fannst það ekki eftirsóknarvert ástand.

Niðurstaða hennar var, að sameiningarumræðuna yrði að færa út fyrir tortryggið ratsjársvið flokkanna og reyna fremur að sameina hugmyndir, atgervi og fólk.

Jónas Kristjánsson

DV

Næturvörðurinn sefur

Greinar

Um helgina réðst hópur manna inn í heimahús og misþyrmdi tveimur mönnum, sem þar voru. Sauma varð fjörutíu spor í höfuð annars og hinn nefbrotnaði. Ekki er vitað um neitt tilefni árásarinnar, enda ekki vitað, að lögreglan hafi reynt að ná í glæpamennina.

Hópur manna réðst á mann í Vallarstræti, misþyrmdi honum og skildi eftir meðvitundarlausan. Af því að vitni voru að árásinni, náðist í glæpamennina. Þeir hafa ekki getað gefið neina skýringu á verknaðinum. Kannski hafa þeir horft of mikið á kvikmyndakynningar í sjónvarpi.

Hópur manna réðst á pitsusendil, þegar hann fór fram á greiðslu fyrir heimsenda pitsu. Lögreglan fékkst ekki til að fara á staðinn, enda er hún upptekin við að drepa tímann, svo sem við að kanna, hvort fólk stanzi alveg við biðskyldumerki. Allt gerðist þetta nú um helgina.

Í öllum tilvikum er það venjulegt fólk, sem verður fyrir barðinu á glæpalýð, sem yfirleitt er undir áhrifum áfengis og annarra eiturlyfja og hefur horft of mikið á bíómyndir. Þetta er ekki eins og á Norðurlöndum, þar sem vélhjólaskallar drepa aðallega hver annan.

Að undanförnu höfum við séð mörg dæmi um, að ríkið sinnir ekki frumskyldu sinni og helztu afsökun tilveru sinnar, sem felst í að gæta öryggis borgaranna gagnvart ytri og innri áreitni. Samt er ríkið með nefið niðri í hverjum koppi og skattleggur borgarana til óbóta.

Lög og regla á að vera fyrsta, annað og þriðja verkefni ríkisins, áður en kemur að öðrum áhugamálum þess, svo sem brennslu verðmæta í bönkum og landbúnaði, félagslegri velferð, heilbrigðis- og skólamálum. Ríkið er til, af því að það þykist geta verið næturvörður borgaranna.

Svo áhugasnautt er ríkið um skyldu sína, að nýlega var erlendu burðardýri fíkniefna sleppt lausu og það rekið úr landi, af því að lögreglan nennti ekki að standa í máli, sem varðaði útlending. Þau skilaboð voru send, að áhættulítið væri að flytja fíkniefni til Íslands.

Svo áhugasnautt er ríkið um skyldu sína, að tollstjórinn í Reykjavík kemst upp með að sinna afar illa fíkniefnavörnum í tollpósti, þótt vitað sé, að töluverður hluti innfluttra fíkniefna fari þá leiðina inn í landið. Það hefur engin áhrif, þótt frá þessu sé sagt í fjölmiðlum.

Það eina, sem stjórnmálaöflin gera í slíku máli, er, að óvenjulega misvitur fjármálaráðherra ærist út af því, að tollverðir hafi lekið í fjölmiðla upplýsingum, sem sýna, að fíkniefnavarnir tollstjóraembættisins eru í rúst. Hann heimtaði, að tollstjórinn tæki þá á teppið.

Í leiðara DV á laugardaginn var bent á, að ofbeldisórar voru í vetur eitt helzta auglýsingaefnið í sjónvarpi á mesta notkunartímanum í kringum fréttir. Þetta voru kvikmyndahúsin, sem gátu þannig ráðizt inn á heimili fólks, sem var að bíða eftir, að fréttir hæfust.

Rannsóknir sýna, að 15% barna og unglinga, sem horfa á ofbeldi í sjónvarpi, sýna merki um mikla árásarhneigð og rúmlega 35% í viðbót verða fyrir nokkrum áhrifum í þá átt. Í sjónvarpi sleppa 73% ofbeldismanna við refsingu og 58% þolenda ofbeldis finna ekki fyrir sársauka.

Þannig er verið að senda hættuleg skilaboð í allar áttir. Ríkið staðfestir síðan ruglið úr kvikmyndum og sjónvarpi með því að standa sig illa í vörnum gegn eitri og ofbeldi og með því að sleppa þeim lausum, sem brjóta lög. Smám saman magnast öryggisleysið í þjóðfélaginu.

Svo fáránlegt er ástandið orðið vegna fákænsku stjórnvalda, að miðbær Reykjavíkur er hættulegri að næturlagi en miðbærinn í London, New York, París og Róm.

Jónas Kristjánsson

DV

Ofbeldisórar í auglýsingum

Greinar

Fólk ræður því, hvort það fer í kvikmyndahús og hvaða myndir það sér þar. Sömuleiðis ræður fólk, hvort það fer á myndbandaleigur og hvaða myndir það tekur á leigu. Erfiðara er að stjórna notkuninni á því efni, sem kemur beint í sjónvarpstæki fólks, sumpart að því óvöru.

Erfiðast reynist fólki að forðast kvikmyndakynningar, sem stundum eru í tengslum við fréttatíma. Fólk, sem ætlar í sakleysi sínu að fylgjast með fréttum, lendir í að þurfa að horfa á ofbeldis- og kynóra þeirra, sem ráða ferðinni í miðstöð afsiðunar mannkyns í Hollywood.

Ástandið á þessu sviði hefur verið með versta móti á sjónvarpsstöðvunum í vetur. Á tímabili var tæpast þorandi að opna fyrir venjulegar fréttir af ótta við að lenda á þessum kvikmyndakynningum, þar sem virðist skeytt saman ógeðfelldustu þáttum viðkomandi kvikmyndar.

Eðlilegt er að fara fram á það við sjónvarpsstöðvarnar, að þær hafi einhvern hemil á þessu efni, birti það annaðhvort ekki eða á fyrirfram auglýstum tíma utan þess tíma, þegar venjulegt fólk ætlar að fara að fylgjast með fréttum af því, sem er að gerast í heiminum.

Einhvern veginn virðist glæpalýðurinn, sem stjórnar kvikmyndaiðnaðinum í Hollywood, hafa komizt á þá skoðun, að mannkynið vilji helzt horfa á óra af ýmsu tagi. Kvikmyndakynningar sjónvarpsstöðvanna benda til þess, að framleiðendur flaggi helzt slíkum afurðum.

Fullsannað er, að kvikmyndir þessar hafa slæm áhrif á sumt fólk. Landlæknir hefur upplýst, að hundrað bandarískar rannsóknir, sem ekki eru kostaðar af kvikmyndaiðnaðinum, leiði í ljós, að ofbeldiskvikmyndir veki oft kvíða og árásargirni hjá sumum börnum.

Samkvæmt upplýsingum landlæknis er talið, að 15% barna og unglinga, er horfa á ofbeldismuyndir, sýni merki um mikla árásarhneigð og rúmlega 35% í viðbót verði fyrir nokkrum áhrifum í þá átt. Þetta skýrir stóraukna villimennsku í ungmennaofbeldi á götunum.

Tíðni alvarlegra meiðsla vegna ofbeldis hefur tvöfaldazt á Reykjavíkursvæðinu frá 1987, sem er tiltölulega skammur tími. Mynztur ofbeldisins hefur breytzt. Ber nú meira en áður á barsmíðum og spörkum í höfuð og kynfæri. Og liggjandi fólki er ekki lengur hlíft.

Að hluta kann þetta að stafa af veruleikafirringu í kvikmyndum, þar sem ofbeldi af þessu tagi er ótæpilega stundað og að því er virðist án varanlegra áhrifa á þolendur. Áhorfendur fá þá brengluðu mynd, að ofbeldið sé ekki eins hættulegt og það er í raun og veru.

Glæpalýðurinn, sem stjórnar kvikmyndaiðnaði Hollywood, lætur líta svo út í kvikmyndum, að ofbeldi sé nánast sársaukalaust, oftast lofsvert og stundum fyndið. Samkvæmt rannsóknum síast þetta hugarfar inn í áhorfendur, einkum þá, sem eru ungir og óharðnaðir.

Rannsókn á ofbeldi í sjónvarpsdagskrám leiddi í ljós, að þeir, sem beittu valdi, sluppu við refsingu í 73% tilvika og ekki sást í 58% tilvika, að þolendur ofbeldis fyndu fyrir sársauka. Þetta gefur greinilega afar ranga mynd af raunveruleikanum utan skjás og tjalds.

Glæpakóngar kvikmyndaiðnaðarins hafa lengi verið heilagar kýr. Þó kallaði Clinton Bandaríkjaforseti nýlega þá verstu inn á teppið hjá sér og las yfir þeim. Þess sjást líka merki, að áhugahópar almennings þar vestra fari að byrja að grípa til aðgerða gegn afsiðunarliðinu.

Brýnasta verkefnið hér á Íslandi í baráttunni gegn afsiðuninni er að losa nánasta umhverfi fréttatíma sjónvarps við kynningar á ofbeldisórunum frá Hollywood.

Jónas Kristjánsson

DV

Ofbeldishneigð Kínastjórn

Greinar

Ríkisstjórn Kína er til vandræða í alþjóðlegum samskiptum. Hún á í útistöðum við flest nágrannaríkin og lætur ófriðlega á alþjóðlegum siglingaleiðum. Hún stundar heræfingar við landhelgi Taívans og sendir landgöngulið til smáeyja í eigu Víetnams og Filippseyja.

Heræfingarnar undan ströndum Taívans eru beinlínis stundaðar til að reyna að hafa áhrif á úrslit forsetakosninga þar í landi. Hin herskáa ríkisstjórn í Kína minnir um leið á, að hún telji Taívan aðeins vera hérað í Kína og flaggar þannig dulbúinni hótun um innrás.

Ríkisstjórn Kína virðir einskis alþjóðlega samninga og stofnskrár samtaka, sem ríkið á aðild að. Höfundaréttur hugverka og hugbúnaðar er ekki virtur og alls engin gagnrýni er leyfð í landinu. Mannréttindi eru fótum troðin og langt seilzt til þess eins að sýna hörkuna.

Á sama tíma hafa vestrænir ráðamenn verið að nudda sér utan í kínversku dólgana. Í þeim hópi hafa verið forseti og forsætisráðherra Íslands. Forseti Íslands hefur meira að segja orðið sér til skammar með afskiptum af kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kína.

Ráðamenn frjálsu kvennaráðstefnunnar höfðu krafizt þess, að Kínastjórn færi eftir reglum Sameinuðu þjóðanna um slíkar ráðstefnur, úr því að hún hafði heimtað að fá að halda hana. Ofanígjöf forseta Íslands var einkar óviðeigandi eins og málum var þá háttað.

Kínverskir ráðamenn eru siðlausir í viðskiptum og samskiptum. Þeir virða ekki leikreglur og gæta aflsmunar. Þeir hafa ginnt erlend fyrirtæki til að fjárfesta í Kína og hafa fyrirtækin síðan í gíslingu til að fá ráðamenn þeirra til að gæta hagsmuna Kínastjórnar í útlöndum.

Ísland hefur blessunarlega engra viðskiptahagsmuna að gæta í Kína. Þar eru engir markaðir, sem skipta okkur nokkru máli. Við höfum miklu meiri viðskiptamöguleika í nágrannalöndum Kína, svo sem í Japan og Suður-Kóreu, en við getum nokkru sinni nýtt okkur til fulls.

Því miður var þó nýlega komið upp íslenzku sendiráði í Kína. Þetta sendiráð ber að leggja niður hið snarasta og verja peningunum í staðinn til að koma upp sendiráði í Japan, þar sem þess er full þörf. Sendiráð í Kína er eins fáránlegt og sendiráð væri á Kúbu eða í Írak.

Við eigum að fara í stóran sveig umhverfis Kína. Viðskipti og önnur samskipti við Kína geta aðeins orðið okkur til vandræða, meðan yfirgangssemi og ofbeldishneigð ráðamanna þar í landi er slík, sem dæmin sanna. Við eigum í staðinn að beina athyglinni að Japan.

Íslenzkir ráðamenn eru ekki einir um að hafa misstigið sig í samskiptum við Kínastjórn. Bandaríkjastjórn hefur hvað eftir annað orðið fyrir hremmingum við að reyna að hafa góð áhrif á ráðamenn í Kína. Hún hefur meðal annars veitt Kína allt of góð viðskiptakjör.

Það var misráðið af Bandaríkjastjórn að fylgja ráðum hins ofmetna Kissingers, fyrrum utanríkisráðherra, og þjónusta ríkisstjórn, sem er eindregið andvíg flestum grundvallaratriðum í bandarísku þjóðskipulagi og reynir um allan heim að grafa undan bandarískum áhrifum.

Við sjáum þessa dagana, að tilraunir vestrænna ráðamanna til að spekja kínverska ráðamenn hafa engan árangur borið. Ofbeldisheigð alræðiskerfisins er hin sama og við sáum áður hjá Hitler og Stalín. Áráttan leitar útrásar í samskiptum Kína við umheiminn.

Því meiri festu, sem Bandaríkin og önnur vestræn ríki sýna í samskiptum við Kínastjórn, þeim mun meiri líkur eru á, að hún hætti að færa sig upp á skaftið.

Jónas Kristjánsson

DV

Ævintýralegt útlánatap

Greinar

Ríkisbankarnir og opinberir sjóðir töpuðu rúmlega tveimur tugum milljarða króna af útlánum sínum á aðeins fimm ára tímabili, frá 1990 til 1994. Þannig höfðu útlánastofnanir hins opinbera forustu um að koma þjóðinni í kreppuna, sem varð við lok þessa tímabils.

Tveir tugir milljarða eru ævintýralega miklir peningar, svo miklir, að erfitt er að gera sér grein fyrir því. Þessum peningum veittu bankarnir í óarðbærar og misheppnaðar fjárfestingar, sem komu þjóðinni í kreppu, í stað þess að leiða hana fram á veg til velsældar.

Umfangsmestu glæframenn þessa máls eru stjórnendur Landsbankans, sem einir út af fyrir sig glötuðu þriðjungi alls þessa fjár. Næstir þeim komu stjórnendur Framkvæmdasjóðs og Byggðastofnunar. Enginn þeirra hefur sagt af sér og enginn verið látinn segja af sér.

Þjóðhagslegt einkenni þessa tímabils er, að Íslendingar drógust aftur úr öðrum vestrænum ríkjum. Lífskjör manna stóðu fyrst í stað og rýrnuðu síðan. Brestir mynduðust í velferðarkerfinu. Landflótti hófst á nýjan leik, af því að margir glötuðu trúnni á land og stjórn.

Meirihluti þjóðarinnar er gersamlega meðvitundarlaus á þessu mikilvæga pólitíska sviði. Menn láta sér vel líka að kjósa og endurkjósa valdhafa, sem mega ekki koma nærri peningum og halda verndarhendi yfir gersamlega óhæfum stjórnendum opinberra lánastofnana.

Allir eru í rauninni ábyrgir fyrir sukkinu. Í fyrstu víglínu eru það bankastjórarnir og bankaráðsmennirnir. Í annarri víglínu eru það Seðlabankinn og bankaeftirlitið. Í þriðju víglínu eru það stjórnmálaflokkarnir og ráðherrarnir. Og í þeirri fjórðu eru það kjósendur sjálfir.

Andvirði þrjú þúsund íbúða hefur horfið út í veður og vind á þessu fimm ára tímabili, af því að bankastjórarnir biluðu og af því að enginn vildi koma vitinu fyrir þá eða reka þá. Eftirlitskerfið bilaði í bankaráðum, bankaeftirliti, í Seðlabankanum og hjá eigandanum, ríkinu sjálfu.

Seðlabankinn er kapítuli út af fyrir sig. Þar var mesti sukkari íslenzkra stjórnmála tuttugustu aldar gerður að bankastjóra, sem er raunar verra en þegar mesti strigakjaftur íslenzkra stjórnmála var gerður að bankastjóra í stærsta sukkbankanum, sem tapaði sjö milljörðum.

Stjórnmál og opinberar lánastofnanir eru nátengd fyrirbæri á Íslandi. Stjórnmálamenn hafa fengið umboð og endurnýjuð umboð kjósenda til að nota opinberar lánastofnanir sem hvíldarhæli fyrir misheppnaða stjórnmálamenn, sem talið er, að eigi slík verðlaun skilið.

Atvinnureksturinn og almenningur sýpur seyðið af þessu ráðslagi. Vextir eru miklu hærri en í öðrum ríkjum, af því að bankarnir og sjóðirnir eru að bæta sér upp tjónið af sukki sínu. Þetta dregur úr nýjungum í atvinnulífinu og fækkar atvinnutækifærum almennings.

Útlánatapið leiddi fyrst til rangrar fjárfestingar, sem magnaði ekki atvinnulífið, fjölgaði ekki atvinnutækifærum og bætti ekki lífskjörin. Síðan leiðir það núna til eins konar vaxtaskatts á lánsfé, sem heldur aftur af nýjungum og tækifærum í atvinnulífinu og framlengir kreppuna.

Yfir tuttugu milljarða króna útlánatap lánastofnana hins opinbera á fimm ára tímabili hljómar sérkennilega í eyrum fólks, sem hefur með takmörkuðum árangri verið að reyna að sannfæra stjórnendur banka og sjóða um, að óhætt væri að lána sér smáaura á okurvöxtum.

Sérkennilegast er þó, að rúmir tveir tugir milljarða skuli tapast án þess að nein uppstokkun verði í lánakerfinu og án þess að nokkur sé látinn taka pokann sinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Schengen er ódýr kostur

Greinar

Framkvæmdasýsla ríkisins er nýleg stofnun, sem er að láta reisa Hæstaréttarhús fyrir lægri upphæð en sem nemur kostnaðaráætlun. Það gerist meðal annars með því að gera hönnuði hússins ábyrga fyrir verki sínu og lækka greiðslur til þeirra, ef kostnaður hækkar.

Húsameistari ríkisins er gömul stofnun í andaslitrunum. Hún er þekkt fyrir dýrar byggingar og mikinn hönnunarkostnað, svo sem sýna endurbætur á Bessastöðum, sem kosta meira en milljarð og fela í sér meira en hundrað milljónir til misjafnlega heppnaðrar hönnunar.

Húsameistari ríkisins áætlaði nýlega, að stækka þurfi Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli fyrir einn milljarð króna og þar af 400 milljónir beinlínis vegna hugsanlegrar aðildar Íslands að Schengen-samkomulaginu um afnám vegabréfaskyldu á ferð milli landa í Vestur-Evrópu.

Framkvæmdasýsla ríksins, sem hefur reynzt mun ábyrgari stofnun, áætlar hins vegar, að heildarkostnaður verði 400 milljónir og þar af vegna aðildarinnar ekki nema 150 milljónir, sem er ekki mikið meira en sem nemur hönnunarkostnaði alls dæmis Húsameistara.

Þessi talnamunur skiptir miklu máli, því að 150 milljónir eru ekki hátt verð á aðgöngumiða okkar að Schengen-samkomulaginu, sem kemur í veg fyrir, að við þurfum að taka upp vegabréf í ferðum um Norðurlönd og víkkar vegabréfafrelsi okkar til meginhluta Vestur-Evrópu.

Aðild að samkomulaginu er líka mikilvægt innlegg í viðræður um aðild að Evrópusambandinu. Með góðri aðild að vegabréfasamkomulaginu sýnum við, að við eigum heima í Evrópu og fáum væntanlega meiri forgang en ella, þegar kemur að inntöku nýrra ríkja.

Saman við þetta blandast óbeinn ríkisstyrkur til Flugleiða vegna tengiflugstefnu fyrirtækisins, sem felur í sér, að afgreiða þarf allt flug á tveimur tímapunktum dagsins, snemma á morgnana í ferðum austur um haf og síðdegis í endurkomum véla og ferðum vestur um haf.

Ef flugið dreifðist sómasamlega yfir daginn, þyrfti ekki einu sinni að stækka núverandi flugstöð til að fá aðild að Schengen-samkomulaginu. Nýting flugstöðvarinnar er afar léleg, því að þar er annað hvort verið að afgreiða margar flugvélar í einu eða alls engar.

Með mismunandi afgreiðslugjöldum eftir tímum dagsins getur stjórn Leifsstöðvar dreift álaginu og komið í veg fyrir stækkun. Sú ákvörðun, að haga stærð og rekstri stöðvarinnar á þann hátt, að allt sé gert í skyndingu tvisvar á dag, er bara óbeinn styrkur til Flugleiða.

Hefðbundið er, að ríkið tekur að sér að sjá um innri uppbyggingu í samgöngumálum með því að leggja vegi og flugvelli og reisa flugstöðvar, sem koma öllum að gagni. Ekki felst í þessu hlutverki, að ríkið þurfi að borga fyrir sérþarfir eins fyrirtækis umfram aðra aðila.

Flest fyrirtæki þurfa sjálf að greiða fyrir sértæka fyrirgreiðslu hins opinbera. Vel getur verið, að Flugleiðir séu svo yndislegar, að þær eigi skilið ríkisstyrk til að geta afgreitt allar millilandaflugvélar sínar í einni kippu á sama tíma, en þá á að kalla hlutinn réttu nafni.

Í ráðagerðum um stækkun Leifsstöðvar á því að segja, að 150 milljónir séu vegna Schengen-samkomulagsins og 250 milljónir króna séu ríkisstyrkur til Flugleiða vegna afgreiðslukerfis þeirra. Á sama hátt á að skipta auknum árlegum rekstrarkostnaði milli þessara tveggja verkefna.

Aukinn mannafli ríkisins til afgreiðslu 500 komufarþega að vestan á einum klukkutíma á sólarhring er fyrst og fremst nauðsynlegur vegna áætlunarkerfis Flugleiða.

Jónas Kristjánsson

DV

Með töffara að talsmanni

Greinar

Biskupinn yfir Íslandi hefur gert töffara að talsmanni sínum í málum þeim, sem hafa brunnið á honum að undanförnu. Talsmaðurinn hefur gengið hart fram í að mála fyrir fólki afleiðingar af mótþróa við biskupinn, svo sem kostnað þess af hugsanlegum málaferlum biskups.

Talsmaðurinn hefur aflað sér bréfa, sem endurspegla gamlan systkinaágreining; fengið eina af konunum þremur til að draga kæru sína til baka, en ekki lýsingu hennar á málsatvikum; og fengið sóknarnefndarformann og organista til að brjóta trúnað á presti sínum.

Venjulegir talsmenn úr hefðbundinni stétt kynningarfulltrúa hefðu farið mýkri leiðir og meira hugsað um langtímaáhrif aðgerða sinna á almenningsálitið. Talsmanna-, ímyndar- og spunafræði er sérstakt og erfitt fag og er raunar allt annað fag en lögfræði töffarans.

Komið hefur fram, að talsmaðurinn telur málið hafa verið komið í svo slæma stöðu, að hann hafi ekki átt annars kost en að taka að sér hlutverk fréttafulltrúa. En aðferðir hans eru þær, að erfitt er að sjá annað en að þær skaði stöðu þjóðkirkjunnar í þjóðfélaginu.

Faxahríð hans úr Biskupsstofu til fjölmiðla hefur meðal annars þær afleiðingar, að erfiðara en áður verður fyrir fólk að leita til presta í trúnaði, þegar það sér, að Biskupsstofa brýtur þessa nafnleynd í örvæntingu. Þetta dregur úr trausti fólks á þjóðkirkjunni yfirleitt.

Mál biskups stendur þannig, að þrjár konur saka hann um óviðeigandi athæfi. Ein þeirra hefur dregið kæru sína til baka, en ekki lýsingu sína á málsatvikum. Fréttaflutningur fjölmiðla af gangi þessara mála um stofnanir kirkjunnar fela ekki sér neina dómsúrskurði fjölmiðla.

Ekki hefur verið auðvelt fyrir biskup að meta, hvernig hann eigi að mæta hremmingum af þessu tagi. Ein leiðin hefði verið að einangra málið við sig persónulega til að hlífa þjóðkirkjunni við afleiðingum af brostnu trausti milli hans og umtalsverðs hluta þjóðarinnar.

En biskup valdi þá leið, sem nú er komin í ljós. Sú leið felur í sér, að vandamál hans verða um leið að hremmingum þjóðkirkjunnar. Það gerir honum kleift að sitja sem fastast og bíða eftir að veður sloti, en veldur því um leið, að sár kirkjunnar gróa verr en ella.

Óneitanlega er sérkennilegt að fylgjast með talsmanni, sem hamast á faxinu eins og hann sé verjandi landskunnra afreksmanna í skuggalegum viðskiptum. Vinnubrögðin gagnast töffurum í lögmannastétt á mörgum sviðum, en klæða biskupsembættið ekki vel.

Með þessum aðferðum verður líklega unnt að koma málunum í pattstöðu, þar sem klögumálin ganga á víxl og enda úti í mýri. Það er árangur út af fyrir sig, þótt biskup og talsmaður hans hafi í leiðinni fórnað svo sem einum sóknarnefndarformanni og einum organista.

Vandamál biskups felast í, að mikill hluti þjóðarinnar tekur ekki orð hans eins trúanleg og kvennanna þriggja. Um daginn voru um tveir þriðju hlutar þjóðarinnar á þessari skoðun. Þessi hópur kann að minnka niður í minnihluta, en verður áfram afar fjölmennur.

Prófastar hafa á fundi dómtekið mál biskups og úrskurðað hann saklausan af áburði. Þar með ætti málinu að vera lokið á vegum þjóðkirkjunnar og á þann hátt, að þjóðkirkjan tekur það á bakið, svo sem stefnt hefur verið að af hálfu biskups og talsmanns hans.

Þegar rykið hefur setzt, situr eftir öflug áminning um, að þjóðin þarf að losna undan ábyrgð á þjóðkirkjunni, svo að hvor aðili um sig geti siglt sína leið.

Jónas Kristjánsson

DV

Misjafnt skömmtuð samúð

Greinar

Forsætisráðherra og utanríkisráðherra hafa sent stjórn Ísraels samúðarkveðjur vegna nýrra hermdarverka Hamas-samtaka öfgafullra Palestínumanna. Ráðherrarnir hafa aldrei sent Palestínumönnum samúðarkveðjur vegna hryðjuverka Ísraelshers í Palestínu.

Átakasaga síðasta áratugar á hernumdu svæðunum í Palestínu hefur verið næsta eindregin saga ríkisrekins ofbeldis Ísraels gegn vopnlausum Palestínumönnum. Nokkur hundruð Palestínumanna hafa á þessum tíma fallið fyrir vopnum hryðjuverkasveita Ísraelshers.

Framkvæmd hernáms Ísraels í Palestínu hefur allan þennan tíma strítt gegn alþjóðlegum sáttmálum um réttindi fólks á hernumdum svæðum. Þessi framkvæmd hefur magnað stuðning almennings við öfgasamtök á borð við Hamas, sem hafna friðarsamningum.

Samkvæmt ísraelskum lögum má herinn beita pyntingum í fangelsum sínum. Enn fremur eru sakir á hendur einstaklingum látnar leiða til ofbeldis gegn ættingjum þeirra. Til dæmis eru þeir reknir úr húsum sínum og þau jöfnuð við jörðu, svo sem nú er að gerast.

Núverandi forsætisráðherra Ísraels, Símon Peres, er sem fyrrverandi hermálaráðherra persónulega ábyrgur fyrir tugum barnamorða í Palestínu og fyrir eyðingu þúsunda heimila í hefndarskyni fyrir meinta glæpi einhverra skyldmenna þeirra, sem í húsunum bjuggu.

Um hernumdu svæðin fara ísraelskir trúarofstækismenn alvopnaðir og ögra heimamönnum, sem ekki mega bera vopn. Engar ráðstafanir eru gerðar til að koma í veg fyrir hryðjuverk ofstækismannanna, sem hafa með bandarískum stuðningi reist sér heimili í Palestínu.

Í friðarferli undanfarinna ára hefur Ísraelsstjórn nánast neytt Frelsissamtök Palestínumanna til uppgjafar. Yassir Arafat hefur mátt kyngja þungbærum samninganiðurstöðum, sem stjórn Ísraels hefur síðan ekki staðið við, nema þegar hún telur sér það henta.

Engin furða væri, þótt meirihluti íbúa Palestínu hefði hafnað forsjá Arafats og styddi öfgasinnaða hryðjuverkahópa á borð við Hamas. Það er raunar mesta furða, að meirihluti fólksins í landinu skuli enn styðja friðarferilinn sem leiðtogar þjóðanna hafa stundum verið að feta.

Ísraelum er enginn greiði gerður með einhliða samúðarkveðjum valdamanna, sem enga samúð hafa sýnt á hinum vængnum. Slíkt hvetur valdamenn Ísraels til að halda áfram hryðjuverkum, er flokkast sem glæpir gegn mannkyninu samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu.

Betra væri, að vestrænir valdamenn segðu valdamönnum Ísraels, að þeirra ábyrgð felist í að hafa komið upp krumpuðu þjóðskipulagi, þar sem Herrenvolk Ísraelsmanna kúgar Untervolk Palestínumanna og beitir eins konar Gestapósveitum til að kúga þá til undirgefni.

Vestrænir valdamenn eiga að segja valdamönnum Ísraels, að í því ástandi, sem þeir hafi komið upp í Palestínu, sé ekki lengur auðvelt að gera greinarmun á frelsishetjum annnars vegar og hryðjuverkamönnum hins vegar. Hernámsríkið geti sjálfu sér um kennt.

Hryðjuverkamennirnir, sem hafa stjórnað Ísrael frá því að Palestína var hernumin, eru valdamenn í skjóli kjósenda. Almenningur í Ísrael ber ábyrgð á valdamönnum sínum og hefur raunar hvatt til þeirrar hörku, sem enn einu sinni hefur kallað á hryðjuverk á móti.

Erlendis er spakmæli, er segir, að þeir, sem kjósa að lifa með sverði, hætti líka á að deyja með sverði. Þeir þurfa ekki meiri samúð en fórnardýr þeirra.

Jónas Kristjánsson

DV

Einkavinavæðingin

Greinar

Dómsmálaráðherra hefur afhent laxveiðivinum sínum og einkavinum flokksins neyðarlínu landsins að gjöf. Einkavinavæðing þessi fór fram án nokkurs útboðs og kostar skattgreiðendur nokkra tugi milljóna króna á hverju ári. Þetta eru dæmigerð íslenzk vinnubrögð.

Ekki kemur á óvart, að dómsmálaráðherrann er sami maðurinn og sjávarútvegsráðherrann, sem einkavæddi síldar- og fiskimjölsverksmiðjur ríkisins með því að brjóta hverja einustu málsgrein í alþjóðlegum stöðlum um útboð. Þetta er auðvitað Þorsteinn Pálsson.

Tilboðin í verksmiðjurnar voru opnuð í kyrrþey og strax ákveðið að hafna því tilboði, sem hæst var og bauð staðgreiðslu. Á þeim tveimur árum, sem síðan eru liðin, hefur svo skýrt komið í ljós, hversu lágt verðið var, að til greina hefur komið að skattleggja mismuninn.

Með ósvífinni framkvæmd einkavinavæðingarinnar hefur dóms- og sjávarútvegsráðherra haft hundruð milljóna króna af skattgreiðendum, sem láta sér þetta vel líka, þegar þeir sem kjósendur taka til við að endurkjósa alla spilltustu stjórnmálamenn og -flokka landsins.

Ráðherrar þessarar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eiga það sameiginlegt með ráðherrum næstu ríkisstjórnar þar á undan, Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, að reka landið eins og bananalýðveldi í Mið-Ameríku. Um það vitnar miðstýringaráráttan.

Ísland er það land í heiminum, þar sem mesti peningasukkari stjórnmálanna er verðlaunaður með því að gera hann að seðlabankastjóra. Þetta er líka eina vestræna ríkið, þar sem helztu bankar þjóðarinnar eru eign ríkisins og reknir af útbrunnum kjaftöskum úr pólitíkinni.

Þegar önnur ríki einkavæða ríkisrekstur, eru málin vandlega unnin og þess gætt, að sannvirði fáist fyrir söluna. Hér reyna ráðamenn hins vegar að koma í veg fyrir einkavæðingu og framkvæma hana síðan sem einkavinavæðingu, ef þeir telja sig tilneydda til athafna.

Flokkarnir sérhæfa sig sumir hverjir í einstökum tegundum spillingar. Alþýðuflokkurinn er sérfræðingur í einkavinavæðingu opinberra embætta. Sjálfstæðisflokkurinn er sérfræðingur í einkavinavæðingu í þágu stórfyrirtækjanna, sem kosta þungan rekstur flokksins.

Framsóknarflokkurinn sérhæfir sig ekki, heldur stundar allar tegundir spillingar jöfnum höndum. Hann hefur náð flokka lengst í að fjarlægjast stefnur og sjónarmið og hefur löngum verið rekinn eins og hrein valdamaskína án nokkurs málefnalegs innihalds.

Samkvæmt skoðanakönnunum láta kjósendur sér þetta allt vel líka. Núverandi stjórnarsamstarf er vinsælt, þótt það feli ekki í sér neitt málefnalegt innihald, heldur sé ekkert annað en tært hagsmunabandalag um skiptingu valds til skömmtunar á spillingu.

Dæmigert fyrir vel heppnaða ósvífni valdhafanna er að taka erlenda hugmyndafræði einkavæðingar og snúa út úr henni í formi hinnar séríslenzku einavinavæðingar og segjast vera að framkvæma það, sem sé í tízku í útlöndum um þessar mundir. Ekkert er raunar fjær sanni.

Enginn vafi er á, að dómsmálaráðherra kemst upp með að gefa laxveiðivinum sínum og einkavinum flokksins neyðarþjónustu landsins í þakklætisskyni fyrir stuðning við sig og fjárhagslegan stuðning við flokkinn. Kjósendur hafa ekki rekið upp nein stór augu vegna þessa.

Raunar er tilgangslítið að tuða um þetta. Kjósendur fá einfaldlega nákvæmlega þá valdhafa, sem þeir eiga skilið, þar á meðal dóms- og sjávarútvegsráðherra.

Jónas Kristjánsson

br>
DV

Hverful pólitík

Greinar

Fylgi er fallvalt í nútímanum. Við sjáum það vel af miklu skyndifylgi Þjóðvaka Jóhönnu Sigurðardóttur, sem náði yfir fjórðungs fylgi í skoðanakönnunum nokkrum mánuðum fyrir síðustu kosningar, en var komið á niðurleið í kosningunum og er núna nærri horfið.

Enn skarpari skil sjáum við sums staðar í erlendum stjórnmálum. Kanadíski íhaldsflokkurinn hrapaði í einum kosningum úr því að vera ríkisstjórnarflokkur landsins niður í tvo þingmenn. Það kemur þó ekki í veg fyrir, að flokkurinn geti risið til valda á nýjan leik.

Hvergi eru þessar sveiflur tíðari en í Bandaríkjunum. Þær eru lærdómsríkar, af því að breytingar á þeim bæ hafa stundum forspárgildi um breytingar á öðrum stöðum á öðrum tímum. Það er svo margt, sem gerist fyrst í Bandaríkjunum og endurómar síðar um allan heim.

Á síðustu áratugum hefur forsetum Bandaríkjanna reynzt erfitt að ná endurkjöri til síðara kjörtímabils. Johnson forseti var svo illa stæður í skoðanakönnunum, að hann hætti við að reyna. Carter forseti féll fyrir Reagan og Bush forseti féll nú síðast fyrir Clinton.

Fylgissveiflur forseta eru orðnar svo krappar í Bandaríkjunum, að þær endast þeim ekki til tveggja kjörtímabila, nema við sérstakar aðstæður. Fylgissveiflur frambjóðenda til forseta eru enn krappari. Og athyglisverðastar allra eru fylgissveiflur sjónarmiðanna að baki.

Þegar Clinton náði kjöri, mátti reikna með tímabili fráhvarfs frá markaðssinnaðri efnahags- og fjármálastefnu Reagans, sem hafði einkennt fyrra tímabil. Þetta fráhvarf gerðist ekki, heldur varð frjálshyggja öflugri í næstu þingkosningum en hún hafði verið um langt skeið.

Í rúmt ár hefur Gingrich þingforseti gefið tóninn og ýtt forsetanum í vörn. Þingið hefur samþykkt mörg lagafrumvörp, sem miða að minni umsvifum ríkisins, einkum í velferðarmálum. Forsetinn hefur neitað að staðfesta sum þeirra og leitað málamiðlana af ýmsu tagi.

Forseti, er náði kjöri sem velferðarsinni, einkum í heilbrigðismálum, hefur mátt sæta því, að kjörtímabil hans hefur einkennzt af samdrætti velferðar, einkum í heilbrigðismálum. Sveifa samdráttarstefnu í ríkisafskiptum kom snögglega og breytti stöðunni á skákborðinu.

Ætla mætti, að hin harða markaðshyggja Gingrich þingforseta væri svo öflug um þessar mundir, að forsetaefni repúblikana reyndu að flagga sem mest svonefndum Sáttmála við Bandaríkin, sem hann lét semja. En frambjóðendurnir forðast að nefna þennan sáttmála.

Forsetaefnið Buchanan hefur breytt málefnastöðunni. Sjónarmið hans ganga þvert á markaðshyggju stórfyrirtækjanna, sem styðja sáttmála Gingrich. Buchanan ræðst á fyrirtæki, sem reka starfsfólk í sparnaðarskyni og boðar aukin ríkisafskipti í utanríkisviðskiptum.

Tæpast er hægt að hugsa sér lengra bil í stjórnmálum en milli Gingrich og Buchanan. Annars vegar er frjálshyggja og markaðshyggja Gingrich og hins vegar er ríkisafskipta- og miðstýringarstefna Buchanans, sem hefur heltekið hugi margra óbreyttra flokksmanna.

Þannig hefur markaðshyggja Gingrich tæpast haft tíma til að fagna sigri yfir velferðarhyggju Clintons, þegar ný miðstýringarstefna feykir markaðshyggjunni til hliðar. Kjósendur Buchanans munu margir fara yfir á Clinton, er þeirra maður nær ekki kjöri til framboðs.

Clinton mun líklega ná endurkjöri, af því að hans sveifla er komin til baka í tæka tíð. Tímasetningar á kröppum sveiflum eru orðnar aðalmál í pólitíkinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Hvalfjarðarsamtök

Greinar

Til marks um þýlyndi Íslendinga má hafa, að engin samtök grípa til varna gegn Hvalfjarðargöngum. Fólk tuðar gegn göngunum í hornum sínum, en notar ekki samtakamátt til að koma í veg fyrir, að göngin verði að einni helztu martröð þjóðarbúsins á næstu árum.

Á fjölmennum fundi verkfræðinga fyrir nokkru komu fram rökstuddar efasemdir um, að ráðagerðir um göng væru verkfræðilega frambærilegar. Talsmenn framkvæmdanna áttu mjög í vök að verjast á þeim fundi. Samt halda stjórnmálamenn áfram að styðja göngin.

Rangar eru fullyrðingar þeirra um, að ríkið muni hafa skattahag af dæminu. Beinar og óbeinar skattatekjur ríkisins af framkvæmdum og rekstri Spalar verða minni en þær tekjur, sem ríkið tapar af minni bensínnotkun vegna minni umferðar fyrir botn Hvalfjarðar.

Verkfræðilegar og hagfræðilegar mótbátur fagmanna gegn Hvalfjarðargöngum hafa engin áhrif á framvindu málsins. Aðstandendur þess í Speli hf. og í stjórnmálunum hafa kosið að hlusta ekki á neina gagnrýni og keyra málið fram í skjóli hinnar pólitísku verndar.

Fyrir tveimur árum laug formaður fyrirtækisins að þjóðinni: “Því hefur alltaf verið ljóst og út frá því gengið, að ef í þessa framkvæmd yrði ráðizt, þyrfti hún að fjármagnast af öðrum aðilum en ríkinu, án ríkisábyrgða, og endurgreiðsla kæmi af vegtolli af umferðinni.”

Nú er ríkisábyrgð á gatinu komin upp í heilan milljarð og á eftir að hækka, því að kostnaðaráætlun er komin í rúmlega hálfan fimmta milljarð og á eftir að hækka samkvæmt reynslu af slíkum göngum í útlöndum. Skattgreiðendur eru engan veginn búnir að bíta úr nálinni.

Fyrir tveimur árum lýsti samgönguráðherra, hverjar kostnaðartölur framkvæmdanna þyrftu að vera: “Þær séu innan þeirra arðsemismarka, að ekki þurfi að koma til ríkisábyrgðir, en umferðin greiði kostnaðinn við göngin.” Þessi sami samgönguráðherra er enn við völd.

Kostnaður skattgreiðenda af Hvalfjarðargöngum er að bólgna stjarnfræðilega. Fyrir tveimur árum styrkti ríkið könnun málsins með 50 milljóna króna láni og með 70 milljóna króna láni í fyrra. Nú er ríkisábyrgð komin upp í milljarð, sem örugglega fellur á ríkið.

Ef Íslendingar væru ekki þýlyndari en aðrar þjóðir, létu þeir ekki rugl af þessu tagi yfir sig ganga hljóðalaust. Stofnuð væru samtök til að gæta hagsmuna skattgreiðenda og vegfarenda til þess að berjast gegn því, að vandræðin yrðu meiri en þau eru þegar orðin.

Annað helzta baráttumál slíkra samtaka fælist í að reyna að hamla gegn því, að veittar verði frekari ríkisábyrgðir til framkvæmdanna. Hitt baráttumálið fælist í að reyna að stuðla að því, að vegurinn fyrir botn Hvalfjarðar fái eðlilegt viðhald og endurbætur.

Alþingismenn og ráðherrar, sem bera ábyrgð á málinu, munu vafalítið reyna að draga úr viðhaldi núverandi vegar fyrir botn fjarðarins og hindra, að vegurinn verði endurbættur að því marki, sem verið hefði, ef ekki þyrfti að vernda göngin gegn samkeppni.

Því meiri sem ábyrgð ríkisins verður á Hvalfjarðargöngum, þeim mun brýnna mun pólitískum umboðsmönnum gatsins þykja að þrýsta umferð landsmanna inn í það til að hafa meira upp í ört vaxandi kostnað, til dæmis með aðgerðum gegn þjóðveginum fyrir botninn.

Stofna þarf virk almannasamtök til að vernda viðhald og framkvæmdir við veginn fyrir botn Hvalfjarðar og hindra frekari ábyrgð skattgreiðenda á göngunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Kerfisdurgar

Greinar

Komið hefur í ljós, að gjaldheimtustjórinn í Reykjavík og lögmaður gjaldheimtunnar kunna lítið fyrir sér í almennum mannasiðum og eru ekki nógu greindir til að leyna því á almannafæri. Ummæli þeirra hér í blaðinu benda til, að ekki sé allt með felldu í stofnuninni.

“Við höfum þetta í okkar hendi og þurfum ekkert að skýra það frekar, hvorki fyrir honum né öðrum, hvernig við stöndum að innheimtu opinberra gjalda.” Þannig svaraði lögmaðurinn mótbátum manns, sem hafði þolað fjárnám vegna peninga, sem hann hafði þegar greitt.

Yfirmaður stofnunarinnar kaus að draga ekki í land daginn eftir, þegar hann sagði: “Heyrðu, ef þú skilur þetta ekki, þá vil ég ekki útskýra þetta fyrir þér.” Hann telur sig greinilega óhultan í einu helzta virki skrifræðisins í landinu og ekki þurfa að skýra vinnubrögð þess.

Tilefni málsins var, að erfingjar dánarbús áttuðu sig ekki á, að dánarbúið breyttist í sameignarfyrirtæki með sérstökum eignarskatti, sem einstakir eignaraðilar voru ekki rukkaðir um, heldur dánarbúið sjálft. Eigendur áttuðu sig ekki á þessu fyrr en löngu eftir gjalddaga.

Þrír af átta erfingjum greiddu sinn hlut í þessum skatti. Boðaði Gjaldheimtan þá fjárnám í eignum eins hinna þriggja, sem greitt höfðu, af því að hún taldi hann betri borgunarmann fyrir skuldum hinna fimm, sem ekki höfðu greitt, heldur en þeir voru sjálfir.

Gjaldheimtustjóri og lögmaður gjaldheimtunnar segja þetta vera lögum samkvæmt. Hitt er ljóst, að vinnubrögðin stinga í stúf við almenna réttlætistilfinningu og kalla á, að stofnunin fari mildum höndum um málið. En hrokafullum embættismönnum er ekkert slíkt í huga.

Kerfisdurgaviðbrögð af þessu tagi hafa magnazt í tíð núverandi fjármálaráðherra, sem hefur misst af öllu sambandi við almenning í landinu og er orðinn að mesta kerfiskarli íslenzkra stjórnmála. Svo virðist, sem sumir embættismenn rækti hroka sinn í skjóli ráðherrans.

Illræmt var, þegar fjármálaráðherra heimtaði, að tollstjórinn í Reykjavík kallaði yfirmenn í tollgæzlunni á sinn fund og ávítaði þá fyrir að segja fjölmiðlum frá hörmulegum afleiðingum þeirrar ákvörðunar ráðherra og forstjóra að draga úr fíkniefnaleit í tollpósti.

Tollverðirnir voru þó ekki að gera annað en að gæta almannahagsmuna, sem eru æðri hagsmunum tollstjórans og fjármálaráðherrans, er urðu berir að vanrækslu í starfi. Tollverðirnir höfðu gegnt skyldu sinni gagnvart þjóðfélaginu, en tollstjóri og ráðherra alls ekki.

Hrokafull kerfiskarlaviðbrögð fjármálaráðherra og tollstjóra fengu sanngjarna útreið í umræðum á Alþingi. Þar kom greinilega fram, að ráðherranum var fyrirmunað að skilja, að hann lék þar hlutverk þess, sem heldur verndarhendi yfir ólöglögum fíkniefnainnflutningi.

Eftir stendur, að fjármálaráðherra hefur gert misheppnaða tilraun til að kæfa eðlilega umræðu um niðurskurð á fjárframlögum til fíkniefnaleitar í tollgæzlu og hefur ekki innsæi til að skynja, hvar hjarta kjósenda slær í einu allra erfiðasta vandamáli þjóðarinnar.

Embætti gjaldheimtustjóra og tollstjóra í Reykjavík eru grófustu dæmin um úrelta blöndu af hroka og getuleysi, sem stingur í stúf við nútíma viðhorf gagnvart innihaldi opinberrar þjónustu, er í vaxandi mæli sætir óhagstæðum samanburði við viðskiptavænan einkarekstur.

Bezta leiðin til úrbóta er að segja fremsta kerfiskarli fjármála ríkisins upp störfum og fá nýjan fjármálaráðherra, sem tekur litlu kerfisdurgana á teppið.

Jónas Kristjánsson

DV

Þolanlegt og skánandi

Greinar

Í nýju þjóðhagsspánni er sérstaklega tekið fram, að 2,4% hagvöxtur auðríkja heims í fyrra hafi valdið þeim vonbrigðum. Ekki er tekið neitt slíkt fram um 2% hagvöxt Íslands á sama ári, enda er alþekkt, að auðveldara er tala um vandamál annarra en sín eigin.

Í Vestur-Evrópu eru menn ekki ánægðir, ef árlegur hagvöxtur fer niður fyrir 3%. Í Bandaríkjunum og nokkrum ríkjum Austur-Asíu setja menn mörkin við 4% og fjölyrða um stöðnunareinkenni Vestur-Evrópu. Ísland er utan þessa korts með árlegan hagvöxt upp á 2%.

Þjóðhagsstofnun spáir því að vísu núna, að íslenzkur hagvöxtur nýbyrjaðs árs muni aukast upp í evrópskan hægagang og verða 3%. Sú spá virðist raunhæf, af því að stórframkvæmdir eru að hefjast og mörg fyrirtæki hafa eflzt til fjárhagslegra áhlaupaverkefna.

Um nokkurra ára skeið hefur Ísland verið að dragast efnahagslega aftur úr nágrannalöndunum, enda finna menn það á sjálfum sér, að íslenzk lífskjör hafa staðið í stað og raunar versnað hjá sumum. Atvinnuleysi og landflótti hafa magnazt á þessum síðustu árum.

Einkum er það ungt fólk, sem flyzt af landi brott. Svo virðist sem fólk þurfi enga sérstaka þekkingu, aðeins viljann til að vinna, til að fá umsvifalaust atvinnu við fiskvinnslu í Danmörku, þar sem kaupið er tvöfalt það íslenzka og Íslendingar í góðu áliti sem starfsfólk.

Fiskvinnslufólkið í Danmörku dásamar mest að þurfa ekki að vinna nema venjulegan vinnudag til að hafa tekjur, sem áður fengust með botnlausri yfirvinnu á Íslandi. Það dásamar líka að geta fengið þak yfir höfuðið án þess að þurfa að setja allt líf sitt úr skorðum.

Ráðamenn Íslands og tryggustu kjósendur þeirra búa við annan raunveruleika en unga fólkið í landinu, sem dreymir um að flytjast af landi brott. Þeir hafa komið sér fyrir í lífinu, eiga skuldlítið húsnæði og hafa komið sér í störf, sem gefa meira af sér en kauptaxta.

Ráðamenn Íslands og tryggustu kjósendur þeirra eru sáttir við 2% hagvöxt, atvinnuleysi og landflótta. Þeir eiga landið og hirða af því arðinn. Unga fólkið lítur hins vegar misjöfnum augum á stöðu mála og möguleika sína. Og hluti þess hafnar fyrir sitt leyti ástandinu.

Það er dýrt að vera ungur á Íslandi. Matur kostar óeðlilega mikið, einkum sá, sem framleiddur er í landinu. Með innflutningshöftum og einokunarkerfi er árlega sóað milljörðum, sem nýtast hvorki til að bæta lífskjörin né til að auka hagvöxtinn upp í erlenda staðla.

Húsnæði er svo dýrt, að fólk getur ekki staðið undir því af venjulegum töxtum, nema tvær heilar fyrirvinnur séu í hverri fjölskyldu. Margar fjölskyldur eiga um sárt að binda vegna óvæntrar tekjuskerðingar, sem hefur komið í kjölfar húsnæðisöflunar og hvolft fjárhagnum.

Hinir eldri, sem eiga landið og hirða af því arðinn, yppta öxlum út af vandamálum af þessu tagi. Þeir halda áfram að kjósa stjórnmálaflokka til að halda uppi ríkisrekstri í landbúnaði og í bankastarfsemi og stunda ýmis önnur austantjalds-vinnubrögð í efnahagslífinu.

Með miðstýringu er arðurinn af Íslandi í senn lágmarkaður og veitt til gæludýra kerfisins. Þeir eru ánægðir, sem eiga aðild að miðstýringunni og sitja við áveituskurði hennar. Þeir ráða ferðinni og eru að gera landið óbyggilegt í hugum hluta af unga fólkinu í landinu.

Svo traust er kerfið í sessi, að Þjóðhagsstofnun telur ekki ástæðu til að hringja viðvörunarbjöllum í nýju spánni. Hún telur ástandið vera þolanlegt og skánandi.

Jónas Kristjánsson

DV

Skýr og einbeittur vilji

Greinar

Samkeppnisstofnun telur, að Félag eggjaframleiðenda hafi notið samþykkis landbúnaðarráðuneytisins fyrir hluta af alvarlegum og ámælisverðum brotum á samkeppnislögum. Stofnunin notar samt ekki niðurstöðuna til að draga ráðuneytið til hluta ábyrgðinnar.

Eðlilegt hefði verið að sekta bæði félagið og ráðuneytið, því að brotin eru skýr, að mati Samkeppnisstofnunar. Heimilt er að sekta aðila um 40 milljónir króna eða um 10% af ársveltu þeirra, ef hagnaðurinn af brotunum er meiri. Þetta þorði Samkeppnisstofnun ekki.

Samt telur stofnunin ljóst, að Félag eggjaframleiðenda hafi árin 1994 og 1995 hvatt til samráðs um verð og afslætti á eggjum, haft forgöngu um skiptingu eggjamarkaðar eftir svæðum og viðskiptavinum og reynt að takmarka aðgang nýrra aðila að markaðinum.

Samkeppnisstofnun notar orðin “alvarleg og ámælisverð” um brot félagsins. Hún segir líklegt, að þau hafi leitt til hærra eggjaverðs en ella hér á landi. Hún telur líka, að skipting eggjamarkaðarins hafi farið fram með vitund og vilja landbúnaðarráðuneytisins.

Stofnunin bendir á, að félagið starfi í skjóli búvörulaga og hafi ákveðnu hlutverki að gegna við framkvæmd þeirra, en hafi notað aðstöðuna til að hamla gegn samkeppni og vinna gegn markmiðum samkeppnislaga. Hafi félagið sýnt “skýran og einbeittan” brotavilja.

Eftir lýsingar stofnunarinnar vekur furðu, að hún skuli ekki láta til skarar skríða gegn svo forhertum aðilum, sem hafa “skýran og einbeittan” vilja til “alvarlegra og ámælisverðra” lögbrota. En þar njóta félagið og ráðuneytið þess að vera ofan við lög og rétt.

Þrátt fyrir kjarkleysi Samkeppnisstofnunar er úrskurður hennar gagnlegur, því hann veitir innsýn í spillt einokunarkerfi, þar sem hagsmunaaðilar í landbúnaði og landbúnaðarráðuneytið gera samsæri gegn þjóðinni um að halda uppi óeðlilega háu matarverði í landinu.

Þetta samsæri kemur skýrast í ljós í búvörusamningum, sem ráðuneytið gerir við hagsmunaaðila landbúnaðar um tilflutning á milljörðum króna á hverju ári úr vasa skattborgaranna til hagsmunaaðilanna og um innflutningshöft til að halda uppi okri og einokun.

Í þessum aðgerðum sem öðrum kemur ráðuneytið ekki fram sem gæzluaðili þjóðarhagsmuna, heldur hegðar sér eins og hluti þjófaflokks, sem skiptir með sér ránsfeng búvörulaganna. Ráðuneytið er ekkert annað en hluti af viðamiklu hagsmunagæzlukerfi landbúnaðarins.

Pólitísku öflin hafa ekki frekar en Samkeppnisstofnun manndóm í sér til að hamla gegn skýrum og einbeittum einokunarvilja ráðuneytis og hagsmunaaðila. Þau láta yfir sig ganga hvern búvörusamninginn á fætur öðrum án þess að rísa upp og reka ósómann af höndum sér.

Eindregnast er þetta ástand, þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn sitja að völdum í landinu. Með stuðningi þéttbýlisþingmanna sinna gæta þessir flokkar alltaf ýtrustu hagsmuna landbúnaðarins gegn vægustu hagsmunum neytenda og skattgreiðenda.

Pólitísku öflin haga sér svona, af því að kjósendur halda áfram að þola sem neytendur og skattgreiðendur, að fjármunum þjóðarinnar sé sóað í búvörusamninga í stað þess að halda uppi vel stæðu þjóðfélagi með fullri reisn, öflugum skólum og virku heilbrigðiskerfi.

Þetta ástand hefur gert einokunarkerfi landbúnaðarins að ríki í ríkinu, sem hefur “skýran og einbeittan” vilja til “alvarlegra og ámælisverðra” lögbrota.

Jónas Kristjánsson

DV