Hversu hvítt er svart

Greinar

Sá sem flettir nýrri ársskýrslu Landsvirkjunar án þess að þekkja málavexti, gæti freistazt til að halda, að fyrirtækið væri eins konar náttúruverndarsamtök, en ekki orkufyrirtæki, sem hefur hagsmuna að gæta, sumpart í andstöðu við þekkt náttúruverndarsamtök.

Þetta er ný stefna ímyndarfræða, sem hefur rutt sér til rúms í Bandaríkjunum á allra síðustu árum. Þar taka samtök hagsmunaaðila upp nöfn eins og Skógasamtökin, Fenjasamtökin og Fossasamtökin og gefa út gróðursæla litabæklinga til að villa á sér heimildir.

Áður reyndu fyrirtæki og hagsmunaaðilar að nudda sér utan í vinsæl mál í þeirri von, að eitthvað af ljómanum færðist yfir á sig. Þannig auglýsa olíufélög, að þau séu eins konar landgræðslu- og skógræktarfélög til að fá fólk til að gleyma okri þeirra í skjóli fáokunar.

Algengast er, að fyrirtæki og hagsmunaaðilar reyni að nudda sér utan í flokkaíþróttir á borð við handbolta og fótbolta til að reyna að skapa sér ímynd frá alls óskyldum vettvangi. Nýtt er, að slíkir aðilar fari á leiðarenda og reyni að skapa sér öfuga ímynd við veruleikann.

Aðferðafræðin er þó gömul. Henni hefur bezt verið lýst í 1984, hryllingssögu George Orwell, þar sem hermálaráðuneytið hét friðarmálaráðuneyti og pyndingamálaráðuneytið hét ástarmálaráðuneyti. Heimsbókmenntirnar síast hægt inn hjá ímyndarfræðingunum.

Sú aðferð að segjast vera þverstæða sjálfs sín byggist á tvenns konar forsendum. Annars vegar, að fólk sé almennt bæði heimskt og leiðitamt, og hins vegar, að það hafi ekki aðgang að réttum upplýsingum. Báðar forsendurnar eru óneitanlega til í töluverðum mæli.

Það kemur raunar fram í kosningum, að kjósendur eru furðulega heimskir og leiðitamir. Úr því að hægt er að draga fólk endalaust á asnaeyrunum í almennum stjórnmálum, þar sem umræða er mikil, er full ástæða til að ætla, að það sé hægt í málum hagsmunaaðila.

Slíkir aðilar njóta þess stundum, að engin umræða og engin fræðsla skyggir á möguleika þeirra til að móta ímynd sína að eigin vali og jafnvel búa til ímynd, sem gengur þvert á raunveruleikann. Nokkur hluti auglýsingamarkaðarins er undir slíkum áhrifum.

Þannig hafa tóbaksframleiðendur annars vegar verið að selja ímynd útivistar og félagslyndis til að dylja raunveruleika eiturs og fíknar. Og þannig hafa þeir reynt að hanna niðurstöður rannsókna og koma í veg fyrir að niðurstöður óháðra rannsókna komist á almannafæri.

Almenningur á erfitt með að verjast ímyndum af þessu tagi. Þekkingarforði ímyndarfræðanna fer sífellt vaxandi, en neytendafræðsla og pólitísk fræðsla er af skornum skammti. Engin efahyggja eða önnur varnartækni neytenda og kjósenda er kennd í skólum landsins.

Stundum eru fjölmiðlar og einkum dagblöð að reyna að gefa lesendum sínum færi á fræðslu af þessu tagi, einkum í stjórnmálum, en minna í neytendamálum. Yfirleitt túlka hagsmunaaðilar þessa fræðslu sem “gula” pressu, æsifréttamennsku, sem ekki sé marktæk.

Þegar þessi leiðari notar ársskýslu Landsvirkjunar til að sýna dæmi þess, hversu forstokkaðar ímyndarfræðingar og umbjóðendur þeirra eru orðnir, verður það vafalaust talið stafa af illum hvötum og óbeit á viðkomandi fyrirtæki. Þannig týnist málið úti í mýri.

Líklega fær lýðræðisfyrirkomulagið hægt andlát, því að kunnátta og ósvífni misnotkunarmanna þess vex margfalt hraðar en varnir skjólstæðinga þess.

Jónas Kristjánsson

DV

Sannleikurinn um Peres

Greinar

Nokkrir íslenzkir þingmenn fengu ákúrur fyrir hálfu þriðja ári, þegar þeir vildu ekki sitja til borðs með stríðsglæpamanninum Símoni Peres í opinberri heimsókn hans til Íslands, og DV fékk sömuleiðis ákúrur fyrir að segja sannleikann um hann í leiðara blaðsins.

Peres hafði sem hermálaráðherra Ísraels borið ábyrgð á barnamorðunum í Palestínu, þegar hundruð barna voru skotin til bana fyrir að kasta grjóti. Hann stjórnaði refsiaðgerðum gegn ættingjum grunaðra hryðjuverkamanna og eyðileggingu efnahags Palestínu.

Peres og samstarfsmenn hans hafa margbrotið hvert einasta ákvæði alþjóðlegra laga um meðferð stríðsfanga og um meðferð fólks á hernumdum svæðum. Þeir reka eitt helzta hryðjuverkaríki heims um þessar mundir og haga sér að ýmsu leyti verr en nazistar Hitlers.

Árásir Ísraels á Líbanon á undanförnum dögum hafa kostað að minnsta kosti 136 óbreytta borgara lífið. Þetta er refsing Peresar og Ísraels fyrir fall eins óbreytts borgara Ísraels á þessum sama tíma. Þetta á að vera eins konar auga fyrir auga að mati Ísraelsmanna.

Herleiðing hugarfarsins er ekki bundin við ráðamenn Ísraels. Mikill meirihluti þjóðarinnar lítur á sig sem guðs útvalda þjóð, sem sé ofar alþjóðalögum og heimilt að ofsækja nágrannaþjóðirnar á svipaðan hátt og forfeður hennar reyndu að gera fyrir þúsundum ára.

Ísrelar eru almennt gegnsýrðir hinu krumpaða hugarfari, sem lengi hefur einkennt ráðamenn landsins. Morðin Í Líbonon hafa ekkert hernaðarlegt eða utanríkispólitískt gildi. Þau eru ekkert annað en aðferð Peresar við að ná endurkosningu sem forsætisráðherra.

Því fleiri sem Peres lætur drepa í Líbanon, þeim mun meiri líkur eru á, að hann nái kosningu. Með morðunum hefur honum tekizt að snúa á stjórnarandstöðuna og skrúfa sjálfan sig upp vinsældalistann. Þessi staðreynd sýnir vel ástand hinnar hrokafullu þjóðar.

Áratugum saman hefur þetta krabbamein Miðausturlanda verið ræktað af ráðamönnum Bandaríkjanna. Þau leggja Ísrael til upphæðir, sem nema árlega nokkur hundruð milljörðum íslenzkra króna. Bandarískt fjármagn hefur gert Ísrael að hrokafullu yfirgangsríki.

Ísrael og Bandaríkjunum hefur tekizt að rústa efnahag Palestínu og Líbanons, nú síðast að koma hálfri milljón óbreyttra Líbanonsmanna á flótta frá heimilum sínum. Sameiginlega bera Ísrael og Bandaríkin fjárhagslega ábyrgð á þessum afleiðingum gerða sinna.

Engin leið virðist vera að koma vitinu fyrir Bandaríkjamenn, enda eiga frásagnir af hryðjuverkum Ísraela erfitt uppdráttar í bandarískum fjölmiðlum. Undirritaður horfði í Jerúsalem á lögregluárás á kristna skáta, sem þagað var um í öllum bandarískum fjölmiðlum.

Ekki þarf að vera lengi í Ísrael til að taka eftir, hvernig þjóðin hefur krumpazt af hrokafullri kenningu um sig sem guðs útvalda þjóð. Hún lítur á Líbanons- og Palestínumenn sem hunda og hagar sér í samræmi við það. Hún kýs sér þá leiðtoga, sem mestri hörku lofa.

Stríðsglæpamaðurinn Símon Peres veit þetta. Blóðbaðið í Líbanon hefur ekkert með hernaðarlega eða utanríkispólitíska stöðu landsins að gera. Blóðbaðið í Líbanon er liður í innanríkispólitík Ísraels. Það kostar blóð að safna atkvæðum meðal hryðjuverkaþjóðarinnar.

Íslenzkir stjórnmálamenn eru sem betur fer að byrja að átta sig á, að allt var það satt, sem sagt var hér í leiðara DV um Peres og Ísrael fyrir hálfu þriðja ári.

Jónas Kristjánsson

DV

199 mílna lögsaga?

Greinar

Eftir hrakförina gegn rússneska landhelgisbrjótnum er heldur lágt risið á landhelgisgæzlunni. Síðustu daga hefur borið á því, að erlendir togarar fari svo sem hálfa sjómílu inn fyrir 200 mílna fiskveiðilögsöguna. Hefur tveimur togurum verið stuggað út fyrir 200 mílur.

Samkvæmt þessu hefur verið tekin upp ný stefna í landhelgisgæzlu. Búið hefur verið til grátt svæði innan 200 mílnanna, þar sem ekki gilda togaratökur og dómsmál, heldur aðvaranir og áminningar. Afleiðingin er, að brotum á gráa svæðinu hefur skyndilega fjölgað.

Landhelgisgæzlan vill auðvitað ekki óð og uppvæg leggja í mikinn kostnað við eftirför og uppgöngu í skip landhelgisbrjóta, ef hún fær síðan fyrirmæli frá dómsmálaráðherra um að láta skipið í friði. Ódýrara er að sigla um og senda skipstjórum tóninn í talstöð.

Vægðar- og sparnaðarstefnan hefur hliðarverkanir. Erlendir fiskiskipstjórar missa virðingu fyrir gæzlunni og komast á þá skoðun, að það sé eftirmálalaust að læðast lítillega inn fyrir 200 mílna mörkin. Ef til þeirra sjáist, fái þeir aðeins tiltal, en engan kostnað.

Þetta er svipað og þegar borgin lét setja upp myndavélakassa við Miklatorg, en setti engar myndavélar í kassana. Þegar ökumenn áttuðu sig á, að kassarnir eru ekki notaðir, létu þeir umferðarreglur sem vind um eyru þjóta, rétt eins og engir kassar væru á staðnum.

Íslenzkir ráðamenn hafa aldrei viljað taka afleiðingunum af sigri í deilunum um 200 mílna fiskveiðilögsögu. Í stað þess að byggja upp löggæzlu fyrir margfalt stærra hafsvæði en áður, var landhelgisgæzlan látin drabbast niður í fjársvelti og úreltum skipakosti.

Um þessar mundir er með veikum mætti verið að reyna að halda uppi lögum á 200 mílum með tækjakosti, sem hentar 12 mílna lögsögu. Aðeins tvö skip geta verið úti og flug er stopult, því að fjárlög ríkisins gera alls ekki ráð fyrir neinum landhelgisbrotum.

Fæst landhelgisbrot komast því upp og ríkið hefur ekki ráð á að fylgja þeim fáu eftir, sem upp komast. Þetta þýðir í raun, að íslenzka ríkið hefur ekki reynzt hæft til að takast á herðar þær skyldur, sem fylgja alþjóðlegri viðurkenningu á 200 mílna fiskveiðilögsögunni.

Á þetta reyndi, þegar landhelgisgæzlan vaknaði óvart til lífsins, veitti rússneskum togara samfellda eftirför og tjáði sig hafa aðstöðu til að senda menn um borð til að taka þar skipstjórnarvöld. Íslenzki dómsmálaráðherrann heimtaði þá, að togarinn yrði látinn í friði.

Eftir afskipti dómsmálaráðherra er augljóst, að landhelgisgæzlan leggur ekki aftur í hliðstæðan eltingaleik. Hér eftir getur hún bara áminnt landhelgisbrjóta. Óhjákvæmilegt er, að þeir færi sig upp á skaftið á næstu dögum og vikum. Eyða í löggæzlu er alltaf misnotuð.

Spurningin er því núna, hver fiskveiðilögsagan sé um þessar mundir. Er hún 199 mílur eða minni? Erlendir landhelgisbrjótar munu smám saman færa sig lengra inn fyrir til að kanna, hversu stórt gráa svæðið er. Kannski er fiskveiðilögsagan 195 mílur í raun. Eða 190 mílur.

Löggæzluóvissa af þessu tagi er skaðleg. Heppilegast er, að mörk laga og lögleysis séu klippt og skorin. 200 mílna fiskveiðilögsaga á að þýða 200 mílna fiskveiðilögsögu og ekkert annað. Grá svæði eru alltaf til vandræða og kalla jafnan á útþenslustefnu lögbrjóta.

Ofurvarfærni landhelgisgæzlunnar stafar af fjárskorti ríkisins og sameiginlegri skoðun dómsmála- og utanríkisráðherra, að útlendinga megi alls ekki styggja.

Jónas Kristjánsson

DV

Afturvirk leyfi

Greinar

Einn helzti skipherra Landhelgisgæzlunnar hefur sagt starfi sínu lausu og gerzt trillukarl, af því að hann er ósáttur við, hvernig ráðamenn þjóðarinnar hafa leikið Landhelgisgæzluna. Skipherrann er Höskuldur Skarphéðinsson, sem fjallað er um á öðrum stað í blaðinu í dag.

Meðal þess, sem fyllti mæli Höskuldar, er afturvirkt leyfi, sem hann telur, að Þorsteinn Pálsson hafi, sem dómsmálaráðherra og sjávarútvegsráðherra í senn, veitt einu skipa Einars Odds Kristjánssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem staðið var að ólöglegum veiðum.

Þessi skoðun er studd mannalátum þáverandi skipverja á Æsu, sem sögðu tökuna marklausa, af því að Einar Oddur mundi kippa málunum í liðinn fyrir sunnan. Það kom svo í ljós, að afturvirkt leyfi var skjótlega gefið út að kvöldlagi og taka skipsins gerð marklaus.

Einar Oddur hefur bætt gráu ofan á svart við upprifjun þessa máls og uppnefnt skipherra Landhelgisgæzlunnar sem “ofvirkan bókstafstrúarmann”. Þeir þykjast svo sem eiga ríkið þessir höfðingjar Sjálfstæðisflokksins, enda virðast ýmis fleiri dæmi staðfesta, að svo sé.

Þorsteinn Pálsson hefur margsinnis dregið taum sérhagsmuna gegn almannahagsmunum. Frægast var, þegar hann gekk framhjá lægsta tilboði í Síldarverksmiðjur ríkisins og lét vini sína í flokknum hafa þær á verði, sem var hundruðum milljóna króna undir raunvirði.

Hann hefur einnig dregið taum tryggingafélaganna, þegar þau hafa einhliða tekið saman höndum um að rýra kjör öryrkja. Mikill meirihluti lögmannastéttar landsins hefur fordæmt þann gerning, sem var dæmigerður fyrir stuðning ráðherrans við sérhagsmuni.

Verst er við mál af þessu tagi, að þjóðin lætur sér fátt um finnast. Hún æmtir hvorki né skræmtir, þótt flett sé ofan af hverju hneykslismálinu á fætur öðru. Hún hefur þannig komið sér upp stétt stjórnmálaleiðtoga, sem tekur áhyggjulausar geðþóttaákvarðanir eftir þörfum.

Raunar er venjulegur Íslendingur svo lokaður fyrir umræðu um siðalögmál, að hann hefur þær einar áhyggjur af spillingu að komast ekki í hana sjálfur. Það er ekki von, að menn endist til vera skipherrar landhelgisgæzlu og aðrir laganna verðir hjá svo siðlausri þjóð.

Fyrir nokkrum árum var í landinu fjármálaráðherra, sem lét ríkið taka verðlaus veð í ímynduðum eignum vina sinna og gaf vildarmönnum sínum ríkisfyrirtæki á Siglufirði. Hann var óvenjulega frakkur við geðþóttaákvarðanir í svipuðum stíl og dómsmálaráðherrann.

Þessi fyrrverandi fjármálaráðherra, sem er fjarri því að vera vammlaus, nýtur nú feiknarlegra vinsælda þjóðarinnar og verður sennilega orðinn forseti lýðveldisins í sumar. Ekki er hægt að hugsa sér átakanlegra dæmi um víðtækt siðleysi Íslendinga almennt.

Áhugaleysi Íslendinga um fastar leikreglur í lagalegum römmum á veigamikinn þátt í erfiðleikum þjóðarinnar, þar á meðal minni hagvexti en hjá nágrannaþjóðunum. Efnahagsleg velgengni markaðshyggjuþjóðfélaga byggist nefnilega á föstum og sjálfvirkum leikreglum.

Hér fer gengi stórfyrirtækja minna eftir rekstrarárangri heldur en eftir aðstöðu þeirra í kerfinu, samböndum þeirra við valdamenn, sem taka ákvarðanir eftir geðþótta, óbundnir af skrifuðum og óskrifuðum lögmálum, svo og möguleikum þeirra til að misnota sér fákeppni.

Hér á landi skiptir meiru, að útgerðarmaður sé í pólitík og helzt á þingi, svo að hann fái fyrirgreiðslu ráðherra, heldur en að hann kunni að reka fyrirtæki.

Jónas Kristjánsson

DV

Forsetalínur skýrast

Greinar

Fátt virðist geta komið í veg fyrir, að Ólafur Ragnar Grímsson verði kosinn næsti forseti Íslands. Í skoðanakönnun DV í gær var hann kominn með hreinan meirihluta svarenda og nærri helming alls úrtaksins. Þetta er fjórfalt fylgi þess frambjóðanda, sem næst kom.

Með þessu hrynur kenningin um, að þjóðin vilji ekki virkan stjórnmálamann í embætti forseta. Hún getur ekki aðeins hugsað sér stjórnmálamann í embætti landsföður, heldur getur hún meira að segja hugsað sér óvæginn pólitískan slagsmálamann í þetta embætti.

Skoðanir þjóðarinnar á frambjóðendum skipta miklu, því að þeir hafa misjafna afstöðu til embættisins. Ólafur Ragnar hefur til dæmis lagt áherzlu á mikil samskipti forsetans við útlönd, þar með á vægi hans í utanríkismálum og enn frekar í málefnum utanríkisviðskipta.

Meðal forustumanna í stjórnmálum er andstaða við víkkaða túlkun á verksviði forsetans. Forsætisráðherra tók af skarið í löngu nöldurviðtali um helgina, þar sem hann fordæmdi almennt þá frambjóðendur, sem þá voru komnir fram, og kallaði þá “farandsendiherra”.

Hjá honum eins og sumum pólitískum valdamönnum koma fram áhyggjur af, að næsti forseti hafi tilhneigingu til að neita að skrifa undir lög á umdeildum sviðum og þvingi þannig fram þjóðaratkvæðagreiðslur, sem mundu trufla hefðbundið valdakerfi í landinu.

Kominn er forsetaframbjóðandi, sem fellur að þessum sjónarmiðum. Pétur Kr. Hafstein vill túlka embættið þrengra en aðrir frambjóðendur. Hann vill ekki, að forseti skyggi á þingræðið í landinu. Og hann vill ekki, að forsetinn sé eins konar farandsendiherra í útlöndum.

Skoðanakönnunin sýnir, að skoðanir Davíðs og Péturs eiga erfitt uppdráttar hjá kjósendum. Það staðfestir kenningu í leiðara DV fyrir réttri viku um, að þjóðin muni sjálf finna sér forseta hjálparlaust og muni ekki láta valdakerfið í landinu segja sér fyrir verkum.

Íslendingar eru yfirleitt þýlyndir og láta flest yfir sig ganga möglunarlítið. Þeir endurkjósa stjórnmálamenn og -flokka, sem hafa ítrekað valtað yfir fólkið í landinu og valdið því stórtjóni, t.d. með ríkisrekstri landbúnaðar. En þrælaþjóðin tekur sér frí í forsetakosningum.

Þetta tengist þeirri staðreynd, að ráðherrar og ráðuneytisstjórar, með forsætisráðherra í broddi fylkingar, hafa ekki fengið umboð sitt beint frá þjóðinni, sem hins vegar fær að kjósa sér forseta beint og tekur greinilega sjálfstæða og jafnvel róttæka afstöðu til þess.

Enda sagði forsætisráðherra í áðurnefndu viðtali, að það væri álitamál, hvort hér ætti yfirleitt að vera forseti og hvort hann ætti að öðrum kosti ekki fremur að vera kosinn af Alþingi heldur en í beinni þjóðaratkvæðagreiðslu. Orð hans endurspegla vanda valdakerfisins.

Hin eindregna afstaða forsætisráðherra til forsetaembættisins, sem kom þá fyrst í ljós, þegar hann var sjálfur hættur við að bjóða sig fram til þess, hefur án efa farið þversum í fólk og eflt þau sjónarmið, sem hann var að gagnrýna í áðurnefndu nöldurviðtali í málgagninu.

Þar sem þrír fjórðu hlutar kjósenda hafa nú þegar gert upp hug sinn til frambjóðenda og fjórir efstu skipta með sér öllum þorra fylgisins, má búast við, að nýir frambjóðendur hafi ekki erindi sem erfiði. Hin eiginlega kosningabarátta er því að hefjast óvenjulega snemma.

Ef ekki verður mikil breyting á fylgishlutföllum efstu frambjóðenda á næstu tveimur vikum, siglir Ólafur Ragnar við góðan byr og beina leið til Bessastaða.

Jónas Kristjánsson

DV

Sátt um vaxtaskatt

Greinar

Tvær sterkar röksemdir eru fyrir fjármagnstekjuskatti, sem breið samstaða hefur náðst um hér á landi. Í fyrsta lagi er slíkur skattur í nágrannalöndunum. Vaxtaskattur hefur staðizt pólitíska umræðu í öðrum löndum og virðist ekki vera þar umdeildur að neinu ráði.

Í öðru lagi virðist sanngjarnt, að tekjur, sem peningar afla, taki þátt í rekstri samfélagsins, alveg eins og tekjur, sem hugur og hönd afla. Raunar halda margir fram, að ekki eigi að gera neinn greinarmun á þessu. Láta skuli vexti bera sömu skatta og aðrar tekjur.

Niðurstaðan varð þó sú, að fjármagnstekjur beri lægri skatta en aðrar tekjur, það er að segja flatan 10% skatt. Þessi niðurstaða er dæmigerð málamiðlun. Um hana náðist víðtæk samstaða í nefnd, sem skipuð var fulltrúum allra þingflokka og aðila vinnumarkaðarins.

Andstæðingar skattsins telja, að hann muni hækka vexti eða draga úr sparnaði fólks, nema hvort tveggja verði. Raunar virðist eðlilegt, að vextir hækki sem nemur skattinum, svo að meiri líkur séu á, að sparnaður haldist í horfinu, sem hlýtur að teljast brýnt.

Andstæðingar skattsins segja líka, að innheimta hans muni kosta nokkur hundruð milljónir króna á ári í fjármálastofnunum landsins. Innheimta hans verði dýr, sem stafar meðal annars af þeirri málamiðlun, að skatthlutfallið er annað en í tekjuskattinum.

Enn er óvíst um sum hliðaratriði fjármagnstekjuskattsins. Í niðurstöðu nefndarinnar er lagt til, að ýmsar breytingar verði gerðar í tengslum við aðra skatta um leið og kemur til sögunnar þessi nýi skattur, sem á að útvega ríkinu allt einn milljarð króna á ári.

Þessi hliðaratriði munu vafalaust hafa nokkur áhrif á mat manna á niðurstöðu málsins. Kjarni hennar er þó sá, að náðst hefur víðtæk samstaða stjórnmálaafla og vinnumarkaðar um þessa ákveðnu niðurstöðu, þannig að um hana mun ríkja sómasamlegur friður.

Stuðningsmenn og andstæðingar vaxtaskattsins munu eiga auðvelt með að finna galla á niðurstöðunni. Hún er dýr í rekstri og hefur ýmsa aðra annmarka, sem jafnan fylgja málamiðlunum. En pólitískur friður skiptir miklu máli og hefur verið hafður að leiðarljósi.

Frá lýðræðislegu sjónarmiði er til fyrirmyndar, hvernig staðið hefur verið að undirbúningi vaxtaskattsins. Nefndin hefur gefið sér góðan tíma til starfa. Afgreiðslu málsins var um skeið frestað til að reyna að sætta ólík og í mörgum tilvikum gagnstæð viðhorf.

Saga málsins er raunar dæmisaga um kosti og lesti lýðræðislegra vinnubragða. Þau kosta stundum mikinn tíma og leiða ekki alltaf til hagkvæmustu niðurstöðu. En þau gera mikilvægustu málsaðilana að þátttakendum framvindunnar og að ábyrgðaraðilum hennar.

Þannig heldur þjóðfélagið saman. Þetta er sama viðhorfið og kemur fram í ýmsum þjóðarsáttum, sem gerðar hafa verið á snertiflötum stjórnmála og atvinnumála á undanförnum árum. Víðtæk samstaða um einstök mál eflir samstöðu þjóðarinnar í heild um tilveru sína.

Lítils háttar upphlaup hefur orðið á Alþingi í kjölfar niðurstöðunnar, enda er ekki laust við, að sumir hafi fengið bakþanka. Þetta upphlaup leitar væntanlega í dag útrásar í útvarps- og sjónvarpsumræðu og er eðlilegur þáttur í lýðræðislegri framvindu málsins.

Fólk getur haft ýmsar skoðanir á, hvort vaxtaskattur sé góður eða vondur, en flestir munu þó fallast á, að gott sé að hafa víðtækt samkomulag um niðurstöðuna.

Jónas Kristjánsson

DV

Bannað að reikna

Greinar

Fjármálaráðuneytið hefur reynt að banna fólki að reikna. Þessi misheppnaða tilraun er í nýrri reglugerð, sem bannar fólki að vinna úr álagningar- og skattskýrslum, svo sem að áætla tekjur út frá gjöldum og að framreikna upphæðir til líðandi stundar.

Ekki mun neinn taka mark á reglugerðinni. Mun hver sem er reikna eins og honum sýnist, enda mun ráðuneytinu ekki takast að koma reglugerðinni til framkvæmda. Það getur alveg eins bannað mönnum að lesa og skrifa eins og að reikna eða reynt að banna jólin.

Fjármálaráðuneytið neyðist til að draga reglugerðina til baka eftir að hafa orðið fyrir hæfilegu athlægi, enda stenzt hún hvorki lög né stjórnarskrá, fjölþjóðlega dómstóla né almennt siðferði. Hún verður ekkert annað en minnisvarði um bjálfa í fjármálaráðuneytinu.

Reglugerðin var samin að beiðni hagsmunaaðila úti í bæ, Verzlunarráðs Íslands, að fenginni jákvæðri umsögn Tölvunefndar, annarrar ríkisstofnunar, sem oft kemur af fjöllum. Reglugerðin er tilraun til að hindra umræðu fjölmiðla um skatta fyrirtækja og áhrifafólks.

Reglugerðin er eins konar harmsaga um ástandið í fjármálaráðuneytinu, sem hefur leitt til þess, að ráðuneytið hefur orðið afturreka með ýmis mál, til dæmis eftir áminningar og háðsyrði forsætisráðherra, sem auðvitað hafa beinzt að fjármálaráðherranum sjálfum.

Hina misheppnuðu reglugerð var ekki hægt að framleiða nema saman færi heimska og hroki í nægilega miklum hlutföllum. Hrokinn er landlægur í ráðuneytunum, en hefur einkum fengið að geisa í fjármálaráðuneytinu í tíð núverandi ráðherra, sem er liðtækur á því sviði.

Heimskan á rætur í þeirri staðreynd, að 265.000 manna þjóð getur ekki mannað alla þjóðfélagspósta á frambærilegan hátt. Við slíkar aðstæður er óhjákvæmilegt að ýmsir þeir, sem ekki eru færir um að vinna fyrir sér, lendi á ríkisjötunni og dundi sér þar á lágu kaupi.

Ýmsir bjálfar lenda í stöðum í ráðuneytum út á lágt kaup eða pólitík og komast þar smám saman í áhrifastöður vegna aldursreglna um framaferil manna. Ýmsar reglugerðir og lagafrumvörp stjórnvalda draga dám af þessu ástandi, sem byggist á fámenni þjóðarinnar.

Ráðherrar og ráðuneytisstjórar bera auðvitað ábyrgð á því, sem kemur úr ráðuneytunum. Þeim bera að haga mannahaldi þannig, að sem minnstur skaði verði af óhæfum millistjórnendum. En þeir geta það ekki, nema þeir skilji vandann og viðurkenni tilvist hans.

Bezta leiðin til að koma í veg fyrir tjón af völdum vanhæfra embættismanna og ráðherra er að draga úr þörf á nýjum lögum og reglugerðum. Annars vegar má gera það með því að nota hliðstæða erlenda vinnu, til dæmis frá Norðurlöndunum og Evrópusambandinu.

Hins vegar má gera það með því að draga úr notkun reglugerða sem innviða í þjóðfélaginu, til dæmis með því að auka vægi sjálfvirkra lögmála á borð við markaðslögmálin. Því fleira sem verður sjálfvirkt í þjóðfélaginu, þeim mun minni hætta er á mannlegum mistökum.

Við erum svo fámenn þjóð, að við getum ekki mannað alla pósta á sama hátt og milljónaþjóðirnar geta. Þess vegna þurfum við að gera þjóðfélagsgerðina eins einfalda og framast er unnt og beita sjálfvirkni sem allra mest, en leggja niður sem flestar geðþóttaákvarðanir.

Tilraun bjálfa fjármálaráðuneytisins til að banna fólki að reikna er góð ábending um, að þjóðfélagið ber að reka á annan hátt en með reglugerðum úr ráðuneytum.

Jónas Kristjánsson

DV

Rakalaus kvótaaukning

Greinar

Engin málefnaleg rök hníga að aukningu þorskveiðikvóta núna á miðju kvótaári, þótt komið hafi í ljós, að meiri þorskur sé í sjónum en áður hafði verið gert ráð fyrir. Við upphaf kvótaársins var þegar búið að heimila 15.000 tonn umfram það, sem ráðlegt þótti þá.

Þá var ríkisstjórnin búin að samþykkja aflareglu, sem fól í sér, að árlega verði nýtt 25% af veiðistofni þorsks. Aflareglan byggðist á langvinnum rannsóknum fiskifræðinga og hagfræðinga á því, hvernig hagkvæmast væri að byggja upp og nýta þorskstofninn við landið.

Af því að kjarkur stjórnmálamanna er jafnan lítill, þegar á reynir, var farið 15.000 tonnum umfram þessa samþykktu reglu, þegar kvóti ársins var ákveðinn. Ríkisstjórnin stóðst ekki í haust þrýsting vinsældakapphlaupara á Alþingi.

Ráðherrar og aðrir vinsældakapphlauparar fara með rangt mál, þegar þeir halda fram, að þorskveiðirallið sýni, að óhætt sé að veiða meira en kvótann. Rallið sýnir ekki annað en, að óhætt er að veiða kvótann, en ekkert umfram hann. Það eru staðreyndir málsins.

Ef nýjasta þorskveiðirallið hefði leitt í ljós, að heldur minni þorskur væri í sjónum en gert var ráð fyrir í haust, hefðu engir vinsældakapphlauparar á Alþingi haft uppi kröfur um að kvótinn yrði skyndilega minnkaður á miðju kvótaári.

En þeir eru á fullri ferð um þessar mundir, af því að rallið hefur sýnt, að þorskurinn er heldur meiri en gert var ráð fyrir. Samt er gildandi kvóti svo mikill, að hann er í samræmi við nýja stofnmatið. Hagsmunaaðilarnir hafa fengið að éta út aukninguna fyrirfram.

Athyglisvert er, að skekkjureikningar vinsældakapphlaupara hníga alltaf í sömu átt til aukins afla. Þeir miða alltaf við grunntölu plús einhverja sveiflu, en aldrei mínus neina sveiflu. Þannig hefur þorskstofninn verið keyrður niður í sögulegt lágmark.

Þessir vinsældakapphlauparar bera ábyrgð á, að þorskstofninn hrundi. Þeir hafa verið við völd í ríkisstjórn og á Alþingi allan þann tíma, er þorskstofninn snarminnkaði frá ári til árs. Orð þeirra nú eru marklaust fleipur.

Þegar loksins hefur með ærnu erfiði tekizt að finna 25% aflaregluna, sem að beztu manna yfirsýn nægir til að efla stofninn og hafa nýtingu hans í skynsamlegu hámarki, vilja þessir marklausu og ábyrgðarlausu aðilar brjóta hana af skammsýni á miðju kvótaári.

Aðilarnir, sem sjávarútvegsráðherra hefur haft samráð við um helgina, gáfu misvísandi svör. Aðeins smábátaeigendur og sumir yfirmenn fiskiskipa vildu auka kvótann. En sjómenn, vélstjórar og útgerðarmenn vildu halda honum óbreyttum. Vonandi verður sjávarútvegsráðherra sammála hinum síðuranefndu.

Fyrir helgina voru stjórnmálamenn, sem þekktastir allra eru að eltingaleik við skammtíma upphlaupsmál, farnir að heimta aukinn þorskkvóta. Af forsögu þessara sömu stjórnmálamanna má ráða, að þeir ráða ekki heilt, hvorki í þessu máli né neinu öðru, sem þeir káfa á.

Upphlaupið í þjóðfélaginu vegna jákvæðrar niðurstöðu þorskveiðirallsins sýnir, hversu lítið þanþol þjóðin hefur. Hvenær sem glæta sést í einhverjum búskap, eru menn roknir upp til handa og fóta til að eyða hagnaðinum fyrirfram. Biðlund og úthald eru í lágmarki.

Órökrétt aukning þorskveiðikvóta á miðju kvótatímabili væri enn ein staðfesting þess, að þjóðin og stjórnin eigi afar erfitt með að sjá fótum sínum forráð.

Jónas Kristjánsson

DV

Ofbeit hrossa

Greinar

Minnkandi kvótar í ríkisreknum hlutum landbúnaðarins hafa leitt til offramleiðslu í greinum, sem standa utan við kvóta og ríkisrekstur. Um leið og sauðfé og nautgripum fækkar, fjölgar hrossum langt umfram auknar þarfir markaðarins og burðargetu sumra bújarða.

Offramleiðsla reiðhrossa hefur lækkað markaðsverð miðlungshrossa niður fyrir framleiðsluverð þeirra. Hrossarækt byggist í vaxandi mæli á nógum tíma fólks, sem reiknar sér ekki mikið kaup við ræktun og tamningar, en hefur grundvallartekjur sínar af öðru.

Því miður er hluti þessarar óarðbæru ræktar stjórnlaus með öll. Til eru bújarðir, þar sem hrossum fjölgar nánast með villtum hætti, án þess að bóndinn stundi neitt ræktunarskipulag að heitið geti. Sumir þessara bænda hafa hreinlega orðið gjaldþrota á slíku.

Þekktar eru nokkrar jarðir á landinu, sem eru nauðbeittar af hrossum. Á mörgum fleiri jörðum eru til ofbeitt hólf, sem sums staðar stinga mjög í augu við þjóðvegi landsins. Þessi mikla beit er minnisvarði um misvitra hrossabændur, sem hafa misst ræktunartökin.

Að vísu þarf að gera greinarmun á þessari ofbeit og ofbeit sauðfjár, sem stunduð er á afréttum, þar sem ríkir uppblástur og landeyðing. Ofbeit hrossa er stunduð í heimahögum, þar em ekki er hætta á uppblæstri og landeyðingu. Hún er því ekki sams konar vandamál.

Ofbeit hrossa er eigi að síður vandamál og þar að auki gersamlega ástæðulaust vandamál. Markaðurinn þarf ekki öll þessi hross og engir opinberir sjóðir koma þeim bændum til bjargar, sem sitja uppi með ofbeitta haga og hundruð hrossa, er enginn vill kaupa.

Af þessari ástæðu er nauðsynlegt að herða opinbert eftirlit með hrossahaldi og burðargetu bújarða, ef til vill á svipaðan hátt og löngum hefur verið með skepnuhaldi og vetrarfóðri. Unnt þarf að vera að grípa fyrr í taumana hjá þeim, sem ekki finna fótum sínum forráð.

Samtök á borð við Félag hrossabænda og hrossaræktarsambönd héraðanna þurfa að taka miklu öflugra frumkvæði í þessum efnum. Með því gættu þau almennra markaðshagsmuna félagsmanna og um leið hagsmuna ruglukollanna, sem ofbeita sér til tjóns.

Almenn samtök hestamanna þurfa líka að taka til hendinni vegna almennra hagsmuna í greininni. Nauðbeit nokkurra jarða og fjölmargra hrossahólfa kemur óorði á hestahald og stuðlar að ýktum hugmyndum hjá fólki um meinta skaðsemi hrossa í náttúrunni.

Margir telja til dæmis, að hross haldi til á afréttum og stuðli að uppblæstri og landeyðingu. Þeir telja, að ferðalög með hross um óbyggðir séu óeðlilegt álag á landkosti þessara staða. Hvort tveggja er misskilningur, sem stafar af sýnilegri ofbeit hrossa í heimahögum.

Ekki er hægt að sjá, að sumarumferð manna með hrossahópa um merkilega gróðurstaði á borð við Marardal við Hengil og Þjófadali á Kili hafi nokkur skaðleg áhrif á gróðurfar. Auðvitað eru hrossagötur alls staðar í landslaginu eins og þær hafa verið í þúsund ár.

Nú er svo komið, að þúsund ára gamlar hrossagötur hafa verið merktar sem gönguslóðir og reynt að banna umferð hesta um þær. Þetta gerist í skjóli óorðs, sem fer af hestamennsku vegna ástæðulausrar ofbeitar á allt öðrum stöðum í landinu, í heimahögum við þjóðvegi.

Hagsmuna sinna vegna þurfa því samtök ræktenda, seljenda, leigjenda og notenda hrossa að taka upp hvassari stefnu gegn staðbundinni ofbeit hrossa.

Jónas Kristjánsson

DV

Ævikvöld kvótakerfisins

Greinar

Veiðar smábáta falla undir heildarstjórn þorskveiða í kvótakerfinu, þegar Alþingi hefur samþykkt smábátafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Þar með hefur kvótakerfið náð tökum á því meginhlutverki sínu að hafa hemil á heildarveiði þorsks í fiskveiðilögsögunni.

Kvótakerfið er gallagripur, svo sem margoft hefur komið fram í umræðu undanfarinna ára. Það hefur hliðarverkanir eins og flest skipulag að ofan, framleiðir ný vandamál í stað þeirra, sem það leysir. En sem kerfi færist það þó nær innri fullkomnum með frumvarpinu.

Sjávarútvegsráðherra samdi við smábátaeigendur um, að þeir héldu þeim þorskveiðihlut, sem þeir hafa náð á síðustu árum. Sá hlutur er mun meiri en hann var fyrir fimm árum. Þessi samningur endurspeglast í frumvarpinu, sem gefur smábátunum 20% heildaraflans.

Þessi 20% eru 45.000 tonn á þessu fiskveiðiári, sem er svipað og smábátaaflinn hefur verið undanfarin fimm ár. Fiskveiðiárið 1991-1992 var smábátaaflinn 47.700 tonn. Þannig taka smábátamenn engan þátt í þeim samdrætti, sem orðið hefur í þorskveiðum á tímabilinu.

Fyrir fimm árum var heildarafli þorsks 333.000 tonn, en verður væntanleg 165.000 tonn á þessu fiskveiðiári. Með því að halda óbreyttu þorskaflamagni hefur smábátaflotanum því tekizt að auka hlutdeild sína í minnkandi heildarafla úr 14% í 21% á fimm ára tímabilinu.

Smábátamenn eru að vonum ánægðir með þessa niðurstöðu, en útgerðarmenn og togarasjómenn óánægðir. Hinir síðarnefndu segjast hafa tekið á sig allan samdrátt undanfarinna fimm ára og sé nú refsað með því að fá ekki að sama skapi aðild að árangri samdráttarins.

Þeir síðarnefndu segja enn fremur, að smábátamenn séu verðlaunaðir fyrir að fara ekki eftir fyrri reglum og hafa með frekjunni komizt úr 14% í 21%. Ekki beri að verðlauna þá fyrir þetta, heldur færa hlut þeirra aftur niður í fyrri hlutdeild, 14% eða enn minna.

Stórútgerðarmenn njóta ekki samúðar kjósenda í kveinstöfum sínum. Þeir hafa áratugum saman verið stimplaðir í þjóðarvitundinni sem grátkerlingar og upp á síðkastið einnig sem sægreifar, er hafi sölsað svo undir sig þjóðareignina, að hún gangi þar í erfðir.

Smábátamenn hafa einmitt notað þá áhrifamiklu röksemd, að samningurinn og frumvarpið fresti því, að svokallaðir ofursægreifar eignist allan kvótann við Ísland. Þessi röksemd fer betur í þjóðina en grátur sægreifa út af minnkuðu tangarhaldi sínu á þjóðareigninni.

Af þessu tilefni skal ítrekað enn einu sinni, að nauðsynlegt er að leggja niður kvótakerfið hið bráðasta og taka upp útboð veiðileyfa til að tryggja, að sem mestur hluti veiðanna falli í hlut hagkvæmustu útgerðarinnar, og til að tryggja, að þjóðin eigi sjálf auðlindina.

Ef hins vegar er litið afmarkað á smábátafrumvarpið, sem liggur fyrir Alþingi, verður að líta svo á, að hinir óvinsælu sægreifar hafi nokkuð til síns máls. Til dæmis væri hægt að fara bil beggja og láta smábátana hafa 35.000-40.000 tonn í stað 45.000 tonna.

Með frumvarpinu hefur ríkisstjórnin að undirlagi sjávarútvegsráðherra hins vegar lagzt á sveif með smábátamönnum gegn stórútgerðum og togarasjómönnum. Þingflokkar stjórnarinnar hafa samþykkt þessa leið, sem einnig nýtur stuðnings í röðum stjórnarandstöðunnar.

Burtséð frá þessum ágreiningi um hlut smábátanna er frumvarpið ágæt endurbót á gersamlega úreltu kvótakerfi og getur framlengt ævikvöld þess um nokkur ár.

Jónas Kristjánsson

DV

Forsetinn og stjórnmál

Greinar

Davíð Oddsson forsætisráðherra tók skynsamlega ákvörðun, þegar hann tilkynnti á þriðjudaginn var, að hann byði sig ekki fram til embættis forseta. Raunar hefði hann gjarna mátt taka þessa ákvörðun miklu fyrr, því að óvissan hafði truflað framboðsmál annarra.

Með skjótari ákvörðun hefði forsætisráðherra líka losnað við áfall af völdum skoðanakönnunar, er sýndi lítið fylgi hans, minna en sumir aðrir hafa haft, sem ekki voru búnir að staðfesta framboð sitt. En það er vandmeðfarin list að reyna að tímasetja atburðarás.

Um nokkurra áratuga skeið hefur verið haft fyrir satt, að þjóðin vilji ekki virka stjórnmálamenn í embætti forseta Íslands. Ásgeir Ásgeirsson var eina undantekningin, enda var hann boðinn fram gegn sameiginlegum frambjóðanda tveggja stærstu stjórnmálaflokkanna.

Af reynslunni má ráða, að þjóðin vilji, að forsetinn sé vammlaus, eins og hún vill, að biskupinn sé vammlaus. Þetta sjónarmið getur verið fjötur um fót umdeildra stjórnmálamanna, sem telja eðlilega, að þeir eigi að hafa sama rétt og aðrir til að verða forseti Íslands.

Auðvitað geta stjórnmálamenn verið vammlausir, þótt þeir séu umdeildir. En það lítur óneitanlega einkennilega út, þegar stjórnmálamenn koma beint frá fúlu orðbragði illvígra deilna inn í friðsælt skógræktarhjal forsetaefna og láta jafnvel mynda sig undir lestri Passíusálma.

Samkvæmt skoðanakönnunum hefur einn umdeildasti stjórnmálamaður landsins, Ólafur Ragnar Grímsson, feikilegt fylgi sem forsetaefni. Ef fylgið skilar sér allt á kjördegi, hefur rækilega afsannazt kenningin um, að þjóðin vilji ekki pólitíska slagsmálamenn í starfið.

Það, sem haft er fyrir satt, að þjóðin vilji, þarf ekki að vera satt. Með framboði Ólafs Ragnars reynir á þá kenningu, að umdeildir stjórnmálamenn geti ekki bætt forsetaembættinu á langa röð virðingarembætta. Þetta eitt gerir framboð hans sérstaklega spennandi.

Kynningin á framboði hans bar eins og gull af eiri kynninga annarra frambjóðenda. Ef munur fagmennsku og kunnáttuleysis verður áfram með slíkum hætti, flýgur hann til Bessastaða. En það er einmitt í fagi almannatengsla, sem stjórnmálamenn geta haft forskot.

Stjórnmálamaður getur bætt sér það upp með fagmennsku í almannatengslum, sem hann missir af völdum umdeildrar valdsmennsku. Kannski eru stjórnmálin ekki sama bannorðið í forsetavali og þau hafa hingað til verið talin. Ef til vill eru skilaboð kjósenda önnur.

Hugsanlegt er, að þjóðin hafi hingað til ekki verið að hafna stjórnmálamönnum sérstaklega, heldur verið að hafna því, að digrir stjórnmálaflokkar segi henni fyrir verkum, þegar forseti er kjörinn. Það gæti til dæmis skýrt kosningu Ásgeirs Ásgeirssonar í embætti forseta.

Samkvæmt þessari kenningu telur þjóðin sig eiga frí, þegar hún velur sér forseta. Hún lætur segja sér fyrir verkum í stjórnmálum, starfi og leik. Hún kemur raunar fyrir sem óvenjulega undirgefin þjóð. Þegar kemur svo að forsetavali, neitar hún að þiggja vel meint ráð.

Reyndir menn hafa það að leiðarljósi í væntanlegum forsetakosningum, að þjóðin muni sjálf finna sér forseta hjálparlaust og að það geti aðeins haft öfug áhrif að reyna að segja henni fyrir verkum. Þessir sömu menn eru af sömu ástæðu andvígir þjóðaratkvæðagreiðslum.

Hver fer að verða síðastur að tilkynna framboð. Línurnar eru að skýrast og óákveðnum fækkar. Varla er rúm fyrir fleiri en einn frambjóðanda í viðbót. Eða engan.

Jónas Kristjánsson

DV

Tuð leysir gæzlu af hólmi

Greinar

Eftir tveggja sólarhringa eftirför og varðstöðu Landhelgisgæzlunnar fyrirskipaði dómsmálaráðherra í samráði við forsætis- og utanríkisráðherra, að hún hætti afskiptum af rússneskum togara, sem staðinn var að ólöglegum veiðum innan íslenzku fiskveiðilögsögunnar.

Íslenzku gæzluskipin eru svo lítil í samanburði við rússneska togarann, að taka hans af sjó þótti ekki ráðleg. Í staðinn ætlaði Landhelgisgæzlan að láta menn síga úr þyrlu til að taka við stjórn hans. En ráðherrarnir þrír gripu í taumana, þegar þar var komið sögu.

Í staðinn ákváðu ráðherrarnir að láta utanríkisráðuneytið tuða um málið við rússneska sendiherrann, sem nýtur slíkra vinsælda þar á bæ, að ráðuneytið tekur að sér útréttingar fyrir hann, svo sem að tuða við fjölmiðla um, að ekki megi segja satt um Rússlandsforseta.

Hvorki sendiherrann né aðrir aðilar í Rússlandi hafa lofað að koma í veg fyrir, að rússnesk landhelgisbrot verði endurtekin. Staða málsins er því sú, að send hafa verið til umheimsins skilaboð um, að Íslendingar séu búnir að gefast upp á að gæta fiskveiðilögsögunnar.

Nokkur aðdragandi er að niðurlægingu þessari. Um langt árabil hefur skort pólitískan vilja til að halda uppi virkri gæzlu í 200 mílna fiskveiðilögsögu landsins. Þetta kemur einkum fram í minnkandi fjárveitingum til fjárfestingar og rekstrar Landhelgisgæzlunnar.

Afleiðingin er, að skip og tæki gæzlunnar hafa smám saman verið að ganga úr sér og að ekki er rekstrarfé til að halda úti nema tveimur af þremur gæzluskipum. Raunar er ekki fjármagn til sérstakra aðgerða á borð við þær, sem gæzlan reyndi að stunda í dymbilvikunni.

Þjóðin hefur að vísu ekki sérstaklega verið spurð um, hvort hún vilji eða vilji ekki fjármagna gæzlu fiskveiðilögsögunnar. En hún hefur stutt stjórnmálamenn, sem hafa staðið að fjársvelti gæzlunnar allar götur síðan friður náðist um 200 mílna fiskveiðilögsögu landsins.

Hún hefur haldið áfram að styðja þessa stjórnmálamenn, þótt áður hafi komið í ljós, að Landhelgisgæzlan hefur ekki burði til að halda uppi öryggisþjónustu við íslenzk fiskiskip á alþjóðlegum hafsvæðum á borð við Smugu, Svalbarðamið, Síldarsmugu og Reykjaneshrygg.

Ákvörðun Davíðs Oddssonar, Halldórs Ásgrímssonar og Þorsteins Pálssonar er aðeins endapunkturinn á langvinnri niðurlægingu. Hún er raunar eðlileg afleiðing fyrri ákvarðana um, að ekki skuli haldið uppi virkri gæzlu hinnar nýlega fengnu 200 mílna fiskveiðilögsögu.

Á síðustu árum hefur verið að koma í ljós, að við þurfum aftur virka gæzlu fiskveiðihagsmuna okkar. Aukizt hefur sókn í stofna, sem eru utan 200 mílna fiskveiðilögunnar. Um þessa sókn eru stundaðar milliríkjaviðræður og gerðir fjölþjóðlegir samningar.

Samningaferlið bendir til, að við höfum sem strandríki og fiskveiðiþjóð hagsmuna að gæta langt út fyrir 200 mílna fiskveiðilögsöguna. Athafnasvæði Landhelgisgæzlunnar ætti því að vera orðið mun stærra en áður, ef allt hefði verið með felldu í fjármögnun hennar.

Þátttaka íslenzkra stjórnvalda í milliríkjaviðræðum og -samningum um fiskveiðar á undanförnum árum hefur ekki leitt til aukinnar löggæzlu af okkar hálfu. Því er ekki unnt að búast við, að fiskimenn annarra ríkja taki mark á tuðinu, sem íslenzkir ráðamenn temja sér nú.

Þótt Landhelgisgæzlan hafi sýnt lífsmark í dymbilvikunni, er niðurstaða málsins sú, að ráðherrar telja áfram, að hún sé næsta óþörf á tímum tuðs að hætti Halldórs.

Jónas Kristjánsson

DV

Lærdómsrík Bretlandsriða

Greinar

Þegar nautakjötsmarkaðurinn hrundi í Bretlandi vegna kúariðunnar, hélt brezka heilbrigðisráðuneytið því fram, að kúariðan væri fólki skaðlaus. Það fór samt ekki eftir eigin ráðum, því að jafnframt lét það taka nautgripi af matseðli í sínu eigin starfsmannamötuneyti.

Í áratug hafa brezkir embættismenn og ráðherrar vitað um kúariðuna. Allan tímann hafa þeir reynt að halda henni leyndri. Afleiðingin er sú, að hundruð kúa hafa sýkzt. Kúariðutilfelli eru mörgum tugum sinnum fleiri í Bretlandi en samanlagt á meginlandi Evrópu.

Framganga brezkra embættismanna og pólitískra ráðherra hefur valdið trúnaðarbresti. Fólk trúir ekki yfirlýsingum valdamanna, sem eru uppvísir að því að halda sjúkdómi leyndum. Fólk trúir ekki yfirlýsingum kerfisdýralækna, sem hafa tekið kjöt af eigin matseðli.

Stjórnvöld í Bretlandi kenna öllum öðrum en sér um þennan trúnaðarbrest. Að venju byrjuðu þau á að kenna fjölmiðlum um að hafa framleitt hysteríu hjá almenningi. Síðan leituðu þau víðar fanga og kenndu stjórnarandstöðunni í Bretlandi um trúnaðarbrestinn.

Ef viðbrögð almennings í Bretlandi eru hastarlegri en málið gefur tilefni til, er sökin ekki hjá þeim aðilum, sem hafa komið upp um þögn og lygi stjórnvalda, heldur hjá þeim stjórnvöldum, sem hafa stundað þögn og lygi í heilan áratug. Ótíðindi eru ekki sögumanni að kenna.

Kúariðan í Bretlandi er skýrt dæmi um atburðarás, sem endurtekur sig í sífellu. Embættismenn eru kerfisbundið á móti því að veita almenningi upplýsingar um stöðu mála. Þeir vilja ekki, að báti sínum sé ruggað. Í því falla saman hagsmunir þeirra og ráðherranna.

Þegar leyndarhyggjan hefur leitt málið í slíkar ógöngur, að hún er greinilega orðin fjandsamleg hagsmunum viðkomandi þjóðar, fara heiðarlegir embættismenn að leka upplýsingum í fjölmiðla. Málið springur síðan framan í andlitið á ráðherrunum, sem ábyrgðina bera.

Hinir seku embættismenn og ráðherrar fara síðan undan í flæmingi og reyna að takmarka tjónið með því að gera á hverju stigi málsins minna úr því en efni standa til. Þetta misræmi magnar trúnaðarbrestinn, sem þegar er orðinn, og getur leitt til almennrar hysteríu.

Glæpsamleg meðferð brezkra embættismanna og stjórnmálamanna á málinu á undanförnum áratug hefur komið í veg fyrir, að beitt væri hliðstæðum aðgerðum og beitt er gegn kindariðu á Íslandi. Slíkar aðgerðir hefðu komið í veg fyrir trúnaðarbrest og markaðshrun.

Íslendingar hafa búið við kindariðu um langan aldur. Gripið er til harkalegs niðurskurðar í hvert skipti, sem hennar verður vart. Þess vegna myndast ekki trúnaðarbrestur hér á landi. Fólk borðar íslenzkt dilkakjöt án þess að hafa sérstakar áhyggjur af kindariðu.

Þar á ofan er hægt að flytja íslenzkt dilkakjöt úr landi. Heilbrigðisyfirvöld annarra landa vita um kindariðuna hér, en vita líka, að henni er haldið í skefjum með niðurskurði. Þess vegna leyfa þau innflutning íslenzks dilkakjöts, ef einhver kaupandi finnst að því.

Brezk yfirvöld hafa hins vegar forðazt niðurskurð í heilan áratug og misst tök á útbreiðslu riðunnar. Þau standa nú andspænis óhjákvæmilegum niðurskurði, sem verður hlutfallslega margfalt meiri en sá, sem íslenzkur landbúnaður hefur mátt sæta undanfarna áratugi.

Embættismönnum og ráðherrum um allan heim má nú vera augljós sá lærdómur, að leyndarstefna hefnir sín með trúnaðarbresti milli valdamanna og almennings.

Jónas Kristjánsson

DV

Kristnir barðir í Jerúsalem

Greinar

Herlögregla Ísraels réðst á friðsamlega skrúðgöngu prúðbúinna og kristinna skáta og ylfinga í Jerúsalem síðdegis á pálmasunnudag og slasaði marga þeirra, af því að Palestínufánar voru meðal annarra hafðir á lofti á leiðinni til Kirkju hinnar heilögu grafar.

Þjóðfélag Ísraels hefur verið að krumpast á síðustu árum. Þjóðin er áberandi hrokafyllri í framgöngu en aðrar þjóðir og fer fram með vaxandi yfirgangi í samskiptum við aðrar þjóðir. Hugarfarið og framferðið minnir í auknum mæli á ríki Hitlers í Þýzkalandi.

Allt hefur þetta gerzt í undarlegu skjóli Bandaríkjanna, er veita árlega milljörðum dollara til að styðja öryggi ríkis, sem er eins konar krabbamein í Miðausturlöndum. Þannig hafa Bandaríkin um langan aldur unnið gegn hagsmunum Vesturlanda og kristinna kirkna.

Vestrænum ríkjum kæmi vel, að komið yrði á eðlilegum samskiptum milli kristinna ríkja og íslamskra ríkja. Stuðningur Bandaríkjanna við krumpun Ísraels kemur í veg fyrir slíkt. Börn og unglingar í heimi íslams alast upp í andstöðu við vestræn ríki og vestræna menningu.

Kristnum kirkjudeildum kæmi vel, að komið yrði upp alþjóðlegri stjórn á Jerúsalem til að tryggja, að öll trúarbrögð, sem hafa hagsmuna að gæta, geti óáreitt starfað þar í friði. Árás ísraelsku herlögreglunnar á kristnu skátana á pálmasunnudag sýnir, að svo er alls ekki nú.

Ísraelar hafa hernumið Jerúsalem og gert að höfuðborg sinni án þess að fá viðurkenningu umheimsins á því. Þeir hafa hernumið allan vesturbakka Jórdans og Gaza-svæðið og brjóta daglega flest ákvæði alþjóðlegra sáttmála um meðferð fólks á hernumdum svæðum.

Ekkert er að marka undirskriftir ísraelskra ráðamanna á sáttmálum og samningum. Þeir hafa rofið nærri öll ákvæði samkomulags um svokallaðan friðarferil. Þeir hafa haldið áfram hryðjuverkum sínum í Palestínu og refsa meðal annars ættingjum meintra andófsmanna.

Þar á ofan hefur stjórn Ísraels notað landamæravörzlu til að hindra, að Palestínumenn komi afurðum sínum úr landi. Þeir hafa þannig bakað Palestínumönnum milljarðatjón, sem Ísrael ber siðferðilega að borga, auðvitað með stuðningi Bandaríkjanna eins og venjulega.

Ísraelsstjórn heldur áfram að byggja upp vopnuð þorp ísraelskra landnema fyrir bandaríska peninga á landi Palestínumanna á vesturbakka Jórdans, þvert ofan í margendurteknar aðvaranir Sameinuðu þjóðanna. Þessi umdeildu landnemaþorp eru hreinar tímasprengjur.

Ísraelum hefur tekizt að gera Jassir Arafat háðan sér, en um leið hafa þeir grafið svo undan honum, að hann er fyrirlitinn af flestum Palestínumönnum. Þeir streyma nú í raðir Hamas-samtakanna, sem eru harðari í afstöðunni til Ísraels. Friðarferillinn er því í hættu.

Ekki þarf að tala við marga Palestínumenn til að komast að raun um, að frelsisþráin býr í brjóstum þeirra og hlýtur að fá útrás með einhverjum hætti, stundum með hryðjuverkum. En hryðjuverk kúgaðra verða aldrei eins forkastanleg og hryðjuverk hernámsliðs.

Palestínumenn eru upplýstir og menntaðir, en meðhöndlaðir af Ísraelum eins og hundar í eigin landi og munu ekki sætta sig við það. Friðarferill, sem ekki tekur tillit til hagsmuna annars aðilans, hlýtur að vera byggður á sandi og hlýtur að renna aftur út í sandinn.

Með eindregnum stuðningi Bandaríkjanna hefur Ísrael komið friðarferlinum í slíkan hnút, að vandséð er, að hann verði yfirleitt leystur á friðsamlegan hátt.

Jónas Kristjánsson

DV

Saumað að tóbaki

Greinar

Fimmti stærsti tóbaksframleiðandi Bandaríkjanna hefur sætzt á að greiða sem svarar hundruðum milljóna króna í skaðabætur í máli gegn stærstu tóbaksframleiðendunum, sem sextíu lögmannastofur höfðuðu fyrir hönd allra þeirra, sem hafa ánetjast tóbaksfíkninni.

Málshöfðunin byggist á, að tóbaksframleiðendur hafi stjórnað nikótínmagni í tóbaki og haldið fram röngum upplýsingum um vanabindandi áhrif tóbaks. Hún var studd nýlegum játningum fyrrverandi starfsmanna tóbaksfyrirtækja og leyniskjölum fyrirtækjanna.

Þetta er í fyrsta skipti sem bilun verður á eindreginni samstöðu tóbaksfyrirtækjanna gegn hugmyndum um skaðsemi tóbaks. Þau hafa hingað til varið sig með klóm og kjafti færustu lögmanna og ekki sparað að styrkja framboð bandarískra þingmanna til að gera þá háða sér.

Tóbaksframleiðandinn Liggett er ekki búinn að bíta úr nálinni. Fyrirtækið hefur ákveðið að ganga til samninga við fimm ríki, Florida, Massachusetts, Minnesota, Mississippi og West Virginia, sem hafa krafizt greiðslu kostnaðar við heilsugæzlu reykingafólks.

Þriðja skýið á himni tóbaksframleiðenda er sjálft bandaríska dómsmálaráðuneytið, sem er að undirbúa persónuleg málaferli gegn stjórnendum tóbaksfyrirtækja fyrir af hafa skaðað heilsu fólks og hagsmuni hlutafjáreigenda með fölsuðum upplýsingum um skaðsemi tóbaks.

Meðal þess, sem tóbaksframleiðendur eru sakaðir um, er að hafa fjármagnað rannsóknastofnanir og gert að stofnunum almannatengsla í sína þágu. Svo langt eru mál þessi komin, að nokkrir helztu forstjórar tóbaksfyrirtækja hafa ráðið sér fræga verjendur glæpamanna.

Öll ber málin að sama brunni. Vísindalega er orðið sannað, að tóbak er vanabindandi eiturlyf. Tóbaksfyrirtækin hafa falsað rannsóknir og haldið fram röngum stæðhæfingum gegn betri vitund. Þau bera því ábyrgð á heilsu fólks, sem trúði áróðri og auglýsingum þeirra.

Nú er ekki lengur spurt um, hversu mikla milljarða þetta muni kosta tóbaksfyrirtækin. Vaxandi líkur eru á, að forstjórar þeirra og helztu sérfræðingar almannatengsla verði að sæta langri fangelsisvist fyrir persónulega aðild að lygavef tóbaksfyrirtækjanna.

Enda liggur í augum uppi, að margir sitja lengi inni í Bandaríkjunum fyrir minni sakir en að hafa með framleiðslu eiturlyfs og fölsun upplýsinga skaðað heilsu milljóna manna og valdið stórtjóni öllum þeim, sem kosta lækningu krabbameins og annarra tóbakssjúkdóma.

Hugsanlegt er, að tímabundinn afturkippur komi í suma þætti baráttunnar gegn tóbaksfyrirtækjunum, ef repúblikanar, sem eru skjólstæðingur tóbaksfyrirtækjanna, ná völdum í stjórnarráðinu næsta vetur og segja dómsmálaráðuneytinu að fara hægar í sakirnar.

Ekkert fær þó stöðvað framsókn málstaðarins, því að hún streymir í svo mörgum kvíslum, að tóbaksfyrirtækin fá ekki við allt ráðið. Það sýnir dómsátt Liggett og lögmannastofanna sextíu. Tóbak er réttilega á hraðri leið efst á skrá hættulegustu eiturlyfja nútímans.

Þegar svona er komið, fer að vakna spurning um persónulega ábyrgð þeirra, sem dreifa tóbaki, til dæmis yfirmanna íslenzka fjármálaráðuneytisins og forstjóra Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins. Lifa þeir ekki á því að dreifa eiturlyfi, sem veldur hrikalegum vandræðum?

Hverjir bera raunar ábyrgð á, að leyft skuli vera að selja vanabindandi eiturlyf á hundruðum sölustaða hér á landi, þar sem fólk er að kaupa hversdagsvöru?

Jónas Kristjánsson

DV