Auður og völd

Greinar

Alþýðusambandsþing minna mjög á landsþing bandarísku stjórnmálaflokkanna, áður en prófkjör og forkosningar einstakra ríkja urðu meginaðferðin við að safna liði um forsetaframbjóðendur. Þá var forsetaframboðum vestra ráðið í vindlareykmettuðum bakherbergjum.

Á Íslandi árið 1996 er forsetamálum Alþýðusambandsins ráðið á heimili eins hliðarkóngsins. Þar sömdu nokkrir menn um niðurstöðu þingsins og stilltu öðrum upp við vegg, svo að þeir sáu sitt óvænna og létu hlut sinn fyrir þeim, sem greinilega tefldu skákina bezt.

Ekki voru allir þingfulltrúar sáttir við þessa niðurstöðu. Þeir mótmæltu bakherbergisvinnubrögðunum með því að bjóða fram nýtt og óþekkt forsetaefni, sem fékk 25% atkvæða. Sigurvegararnir fóru þannig nokkuð sárir út úr þinginu, en munu fljótlega jafna sig.

Margir fletir eru á valdabraskinu í Alþýðusambandinu. Einn er hinn flokkspólitíski, þar sem þrír stjórnmálaflokkar hafa með sér eins konar ekki-árásarbandalag um, að hver þeirra eigi einn af þremur forsetum og varaforsetum sambandsins. Þetta kerfi stóðst í sviptingunum.

Annar flötur er baráttan milli svonefnds uppmælingaraðals, það er að segja mannanna með sveinsprófin, og almenns verkafólks. Eins og venjulega urðu hinir fyrrnefndu sigurvegarar. Einn af þessum aðalsmönnum fetaði í fótspor forverans eins og hann hefur áður gert.

Þetta þýðir í raun, að framvegis verða kjarasamningar eins og þeir hafa lengi verið. Í samningaharki verða láglaunamenn dráttarklárar. Mikið verður talað um, að nauðsynlegt sé að jafna laun, en þegar upp verður staðið, hafa þeir fengið meira, sem betur mega sín.

Alþýðusambandið og helztu undirsambönd þess snúast ekki og hafa lengi ekki snúizt um kjör fólks. Þetta eru fyrst og fremst fyrirtæki eins og önnur fyrirtæki í landinu og stjórnendurnir eru verkalýðsrekendur á svipaðan hátt og aðrir atvinnurekendur í landinu.

Forsetar og formenn þessara sambanda eru hluti yfirstéttarinnar í landinu og hafa tekjur í samræmi við það. Þetta er talið nauðsynlegt, því að annars væru stéttarfélögin ekki samkeppnishæf um hæfileika á vinnumarkaði. En þetta skilur á milli þeirra og félagsmanna.

Forsetar og formenn þessara sambanda sitja í stjórnum ýmissa sjóða, þar sem lífeyrissjóðir landsmanna skipa fremsta sess. Mikið af fjárfestingarfé landsins fer um þessa sjóði, sem eru smám saman að verða að öflugustu hluthöfum ýmissa helztu stórfyrirtækja landsins.

Lífeyrissjóðir tengja saman hagsmuni stórfyrirtækjanna og hagsmuni yfirstéttar samtaka launafólks. Þess vegna snýst hugsun aðalsins í samböndum stéttarfélaganna einkum um svipuð mál og í öðrum stórfyrirtækjum. Hún snýst fyrst og fremst um auð og völd.

Þetta veldur því, að mikilvægt er fyrir aðalinn að gera út um sín mál í vindlareykmettuðum bakherbergjum eða á heimilum hver annars, en láta þau ekki rekast í óvissu almennrar atkvæðagreiðslu á gólfi Alþýðusambandsþinga. Þannig gekk forsetaembættið í arf í fyrri viku.

Þetta þýðir líka, að sambönd stéttarfélaganna eru meira eða minna óhæf til að gæta hagsmuna félagsmanna sinna í kjarasamningum, svo sem dæmin sanna endalaust. Þetta þýðir líka, að fulltrúar þeirra standa oftast með einokun landbúnaðarins gegn neytendum.

Verkalýðsrekendur er orðið, sem lýsir bezt yfirstétt sambanda stéttarfélaga. Það lýsir stétt, sem er hluti yfirstéttarinnar og stundar rekstur, með launþega að vöru.

Jónas Kristjánsson

DV

Enn eru berin súr

Greinar

Jón Baldvin Hannibalsson er sammála Davíð Oddssyni um, að berin séu súr. Hann telur forsetaembættið fremur tilgangslítið og valdalaust eftirlaunastarf, sem henti ekki stjórnmálamanni í blóma lífsins. Hann segist ekki hafa áhuga á að setjast í helgan stein sem forseti landsins.

Hann telur samt eins og Davíð, að frambjóðendurnir séu ekki starfsins verðir. Davíð hafði kvartað um, að í þeim hópi væru væntanlegir farandsendiherrar og fyrirverandi ráðhúsandstæðingar. Jón Baldvin kvartar um, að forsetaefnin geri ekki grein fyrir málstað sínum.

Þetta er beinlínis rangt hjá honum. Öll forsetaefnin hafa rækilega gert grein fyrir viðhorfum sínum til forsetaembættisins. Sum hver hafa gert það við ótal tækifæri. Öll hafa þau til dæmis svarað spurningum DV um þau efni og Pétur Hafstein gerir það í blaðinu í dag.

Þegar nær dregur kosningum, munu þessi viðhorf vafalaust verða margsinnis endurtekin og einnig dregin saman í einfaldar línur. Kjósendur hafa þegar fengið tækifæri til að átta sig á stefnumun frambjóðenda og munu fá enn betri tækifæri til þess á næstu vikum.

Athyglisvert er, að tveir af helztu stjórnmálamönnum landsins skuli hafa verið að velta fyrir sér framboði til embættis, sem báðir segja svo lítilfjörlegt, að þeir vitna í Sigurð Líndal lagaprófessor því til staðfestingar. Það taki því tæpast að láta þjóðina kjósa forseta beint.

Jón Baldvin spyr, hvort þjóðin sé að kjósa um, hvaða hjón muni koma bezt fyrir á Bessastöðum. Margir telja það ekki vera ómerkilegt mál. Margir telja sig vera að kjósa sér þjóðarföður eða þjóðarmóður, sem sé eins konar sameiningartákn þjóðarinnar rétt eins og fáninn.

Jón Baldvin er hins vegar kominn með þurrt land undir fætur, þegar hann gagnrýnir hugmyndir um, að Bessastaðir verði virkjaðir í þágu afmarkaðra málefna á alþjóðlegum vettvangi eða að þeir verði eins konar upphafin markaðsdeild í utanríkisráðuneytinu.

Sérstaklega er ástæða til að vara við, að embættið verði að símstöð fyrir sambönd meira eða minna skuggalegra valdhafa og viðskiptajöfra í þriðja heiminum. Sérstaklega er óraunhæft að ætla, að Íslendingar geti haft fé út úr braski með tækifærissinnum af því tagi.

Hins vegar benda skoðanakannanir og ýmis önnur teikn til þess, að mikill hluti þjóðarinnar sé fjarskalega sáttur við alþjóðapólitíska virkjun Bessastaða. Fólk hefur sýnt meiri stuðning við frambjóðanda með útsækna stefnu en hina, sem vilja fremur fara með löndum.

Hugsanlegt er, að Jón Baldvin sé fyrst og fremst að hugsa um að draga Ólaf Ragnar Grímsson út úr skápnum og fá hann til að fjalla svo mikið um skoðanir sínar á utanríkismálum og viðskiptamöguleikum við valdhafana í Víetnam, að tvær grímur fari að renna á fólk.

Hins vegar er það vafasöm iðja hans eins og Davíðs að gera því skóna, að forsetakosningar séu orðnar eins konar ógöngur, sem jafnvel beri að afnema, annaðhvort með samruna embættisins við önnur embætti eða með því að fela Alþingi valdið til að kjósa forseta.

Enginn vafi er á, að þjóðin vill áfram kjósa sér forseta samkvæmt óbreyttri stjórnarskrá og vill sjálf ákveða, hvort það nægi sér, að forsetahjónin komi vel fyrir á Bessastöðum, eða hvort forsetinn eigi þar á ofan að vera á þönum úti í heimi til að bjarga friði eða viðskiptum.

Enda eiga flestir auðvelt með að sjá, að raunverulegt innihald langhunda Davíðs og Jóns Baldvins um forsetaembættið er að upplýsa okkur um, að berin séu súr.Jónas Kristjánsson

DV

Lyfjanotkun hefnir sín

Greinar

Eyðni var uppgötvuð snemma á níunda áratugnum og hefur farið sem logi yfir akur. Tæplega fimmtán árum síðar eru 20 milljónir manna þjáðar af sjúkdómnum og ein milljón lézt úr honum árið 1995, samkvæmt nýjum upplýsingum frá Alþjóðlegu heilbrigðisstofnuninni.

Það er fyrst á þessu ári, að vonir eru að vakna um, að fundizt hafi lyf, sem haldi eyðni niðri eða fresti framgangi hennar. Hinn langi tími, sem leið í þessu tilviki frá tilkomu nýs sjúkdóms til fyrstu skrefanna í lyfjameðferð gegn honum er þó engan veginn neitt einsdæmi.

Smitandi blæðingarhiti, sem nefndur er ebola, uppgötvaðist árið 1977 og hefur farið hægar yfir. 245 manns í Saír dóu úr þeim sjúkdómi í fyrra. Engin ráð hafa enn fundizt gegn honum. Ekki heldur gegn krabbameinsvaldandi C-lifrarveiru, sem kom í ljós árið 1989.

Einnig hafa gamlir sjúkdómar verið að birtast í nýjum og hættulegri myndum en áður. Til dæmis eru tvær lungnabólguveirur, ennfremur malaríuveirur og berklaveirur farnar að birtast í útgáfum, sem þola lyf. Harðgerðar veirur uppgötvast hraðar en ný lyf eru fundin upp.

Kólera og gula eru farin að stinga upp kollinum á svæðum, sem áður voru talin hrein af þessum sjúkdómum. Að öllu samanlögðu eru sjúkdómar farnir að snúa vörn í sókn að mati Alþjóðlegu heilbrigðisstofnunarinnar, sem varar í skýrslunni við ótæpilegri lyfjagjöf.

“Við stöndum á brún hengiflugs í smitsjúkdómum,” segir Hiroshi Nakajima, forstjóri stofnunarinnar í heilbrigðisskýrslu ársins 1996. Hann segir þrjátíu banvæna sjúkdóma hafa litið dagsins ljós á síðustu tveimur áratugum og býst við að enn aðrir eigi eftir að koma í ljós.

Athuglisverðast við skýrsluna er áherzlan, sem þar er lögð á, að ofnotuð lyf eigi mikinn þátt í vandræðunum. Fúkalyf, sem rjúfa ónæmiskerfi líkamans, eru að mati stofnunarinnar notuð “af of mörgum, gegn röngum sjúkdómum, í röngu magni og í rangan tíma”.

Mikil notkun fúkalyfja til framleiðsluaukningar í landbúnaði hefur magnað vandann. Hún framkallar lyfjaþolna gerla, sem enda á borðum neytenda og brjóta niður ónæmiskerfi þeirra. Þannig hefnist okkur fyrir misnotkun náttúrunnar alveg eins og misnotkun lyfjanna.

Við þekkjum mörg dæmi um, að lyf og eiturlyf eru oft sami hluturinn, bara í mismunandi magni. Þannig má flokka alkóhól, nikótín, koffín og sykur. Og hér á landi er alþekkt, að margir fíklar sækjast meira eftir lyfseðlum en öðrum leiðum til að komast í vímu.

Hversdagsleg lyf eru ekki síður hættuleg en alkóhól, nikótín, koffín eða sykur. Þeir, sem hafa vald til að dreifa lyfjum = eiturlyfjum, þurfa að fara miklu varlegar í sakirnar en nú er gert. Lyfjagjöf á að vera algert neyðarúrræði, en ekki það fyrsta, sem mönnum dettur í hug.

Ekki er nóg með, að læknar og aðrir dreifingaraðilar lyfja raski efnafræðilegu jafnvægi sjúklinganna, heldur stuðla þeir að stökkbreytingum sýkla yfir í hættulegri útgáfur, sem valda einnig vandræðum öllum hinum, er forðast bæði lyf og eiturlyf sem framast er kostur.

Þegar Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin hefur kveðið fast að orði í skýrslu ársins 1996, má vænta þess, að landlæknir og yfirmenn heilbrigðismála taki fastar á lyfjanotkuninni en hingað til hefur verið gert og hafi að leiðarljósi, að öll lyfjanotkun er í rauninni misnotkun.

Einnig þarf að stöðva fjárhagslegan vítahring, er felst í, að á hverju ári koma fram ný og ofsadýr lyf, sem sjálfvirkt hækka sjúkdómakostnað þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Hinn ósvífnasti allra

Greinar

Paolo Berlusconi, bróðir Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, afplánar nú hálfs þriðja árs dóm fyrir spillingu í þágu fyrirtækja bróður síns. Sjálfur er Silvio Berlusconi oft í yfirheyrslum hjá rannsóknardómurum og á yfir höfði sér ótal ákærur af slíku tagi.

Berlusconi eignaðist fyrst peninga í verktakabransanum, sem á Ítalíu hefur löngum byggzt á mútum. Síðan lenti hann í vinfengi við Bettino Craxi, leiðtoga ítalskra jafnaðarmanna og löngum forsætisráðherra. Af honum þáði Berlusconi fyrsta sjónvarpsleyfið í landinu.

Craxi er nú í útlegð í Norður-Afríku á flótta undan réttvísinni og getur ekki snúið til Ítalíu aftur, því að þar bíður hans að afplána dóma fyrir margvíslega og geigvænlega spillingu, sem hann stóð fyrir sem forsætisráðherra á sínum tíma. Hann er orðinn ærulaus maður.

Pilsfaldakapítalistinn Berlusconi blómstraði hins vegar. Hann notaði sjónvarpsleyfið frá Craxi til að byggja upp fjármálaveldi, sem hefur haft greiðan aðgang að fjármagni hjá sumum bönkum og lánastofnunum og skuldar nú sem svarar 170 milljörðum íslenzkra króna.

Á uppstigningardag handtók lögreglan fimm helztu stjórnendur fjármálaveldis Berlusconis og gaf út handtökuskipanir á tvo aðra, sem ekki fundust. Þeir eru sakaðir um skjalafalsanir og mútur. Þar með eru taldar greiðslur til Craxis og til skattalögreglunnar á Ítalíu.

Rannsóknin á umsvifum Berlusconis nær til annarra landa. Í apríl gerði svonefnd stórsvikadeild brezku lögreglunnar húsleit í London og gerði upptæka fimmtán skjalapakka á vegum fjármálaveldis Berlusconis. Á Spáni er verið að rannsaka kaup á sjónvarpsstöð.

Berlusconi fór út í stjórnmál á sínum tíma til að vernda umsvif sín. Hann beitti fyrir sig öflugu fjölmiðlaveldi sínu, fékk um fjórðung þingsæta í kosningunum fyrir rúmlega tveimur árum og varð forsætisráðherra. Hann notaði völd sín til að hreiðra betur um fyrirtæki sín.

Meðal annars gaf hann út ólöglega tilskipun um, að 2000 fjárglæframönnum yrði sleppt úr gæzluvarðhaldi. Ennfremur þrýsti hann sínum mönnum inn í helztu áhrifastöður samkeppnisaðilans, ríkissjónvarpsins á Ítalíu. Hann reyndi líka að skrúfa fyrir rannsóknardómara.

Sem betur fer varð Berlusconi skammlífur í embætti. Við tóku hlutlausar embættismannastjórnir, sem létu hann ekki vaða yfir sig. Síðan var kosið aftur í vor og þá náðu aðrir samkomulagi um myndun ríkisstjórnar án þátttöku Berlusconis og flokks hans, Áfram Ítalía.

Eigi að síður tókst Berlusconi að ná næstum því sama fylgi í kosningunum og hann hafði náð tveimur árum áður. Í millitíðinni hafði þó það gerzt, að öllum Ítölum átti að vera orðið ljóst, að hann hefur allan tímann verið að reyna af alefli að skara eld að eigin köku.

Hér í blaðinu var fyrir tveimur árum lýst furðu á, að Ítalir skyldu styðja þennan gerspillta mann í stjórnmálum. Sú furða er enn meiri núna, þegar miklu meira er vitað um feril hans, en hann endurnýjar samt fylgi sitt. Sú staðreynd er áfellisdómur yfir ítölskum kjósendum.

Stundum er kvartað um, að Íslendingar séu tæpast með réttu ráði, þegar þeir velja sér stjórnmálaleiðtoga. Fávísi okkar í stjórnmálum er þó hreinn barnaleikur við dálæti Ítala á pilsfaldakapítalista, sem hefur öðlast allt sitt peningavald með söfnun skulda, mútum og fölsunum.

Þótt forstjórar hans og bróðir sitji inni og höfuðpaurinn sitji sjálfur á tímasprengju, heldur hinn ósvífni tækifærissinni áfram að faðma þjóðarhjartað í sjónvarpi sínu.

Jónas Kristjánsson

DV

Losaralegt ráðuneyti

Greinar

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um stjórnsýslu í utanríkisráðuneytinu sýnir, að hvort tveggja var rétt, sem sagt var hér og í öðrum fjölmiðlum á sínum tíma, að starfshættir ráðuneytisins væru of losaralegir og hefðu versnað í ráðherratíð Jóns Baldvins Hannibalssonar.

Í sex skipti af fjórtán hafði ráðherrann frumkvæði að skipun embættismanna, þar af sumra án menntunar eða reynslu og án hæfnisflokkunar í ráðuneytinu. Þekktasta dæmið er skipun búksláttarfræðings sem sendifulltrúa og síðan eins konar viðlagasendiherra í London.

Sumt af göllum ráðuneytisins er gamalkunnugt. Sendiherrar hafa ekki skýr fyrirmæli um störf og stefnu, heldur móta hver starf sitt að töluverðu leyti að eigin höfði. Þegar þeir eru leystir af, eru ekki til skýr fyrirmæli um verksvið og verkefni þeirra heima í ráðuneytinu.

Einnig kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, að sendimenn erlendis tregðast við að koma heim til starfa í ráðuneytinu, af því að þá missa þeir skattfrjálsar staðaruppbætur, sem eru breytilegar og geta verið miklar. Sumir sendimenn ílendast hreinlega erlendis.

Risna sendiráðanna beinist í of miklum mæli inn á við. Sendiráðin leggja sig fram um að gera vel við gestkomandi stjórnmála- og embættismenn að heiman, þótt sú risna gagnist ríkinu ekki út á við. Hana má minnka án þess að það komi niður á hagsmunum ríkisins.

Ekki kemur fram í skýrslunni, að töluvert af þeirri risnu, sem snýr að erlendum aðilum, gagnast ríkinu ekki heldur. Þar er um að ræða hefðbundinn sirkus, sem hefst, þegar nýr sendiherra kemur í borgina og þarf að þiggja hjá og veita öllum sendiherrunum, sem fyrir eru.

Fræg er skýrsla, sem sendiherra Íslands í Bretlandi gaf einu sinni um afhendingu trúnaðarbréfs sem sendiherra í Indlandi. Hún fór víða og var höfð í flimtingum, því að sendiherrann fór einlæglega og að tilefnislitlu gegnum allan risnuferilinn fyrir milljónir króna.

Ekki kemur fram í skýrslunni, að staðsetning sendiráða er sumpart tilviljanakennd og sumpart sagnfræðileg. Við höfum til dæmis ekkert sendiráð í Japan, sem er mikilvægt viðskiptaríki okkar, en aftur á móti sendiráð í Kína, þar sem viðskipti eru lítil og léleg.

Æskilegt væri að nota skýrslu Ríkisendurskoðunar til að stokka upp sendiþjónustu ráðuneytisins. Að svo miklu leyti, sem um er að ræða hversdagslega þjónustu við Íslendinga í útlöndum, er unnt að nýta betur ágætt kerfi kjörræðismanna, sem er ódýrt í rekstri og gefst vel.

Ræðismenn Íslands eru oft auðugir menn, sem geta rekið skrifstofu á eigin kostnað, en fá í staðinn virðingarstöðu, sem veitir þeim aðgang að samkvæmum fína fólksins á viðkomandi stað. Þetta er þægilegt fyrirkomulag, þegar Íslendingar þurfa aðstoð í útlöndum.

Raunveruleg sendiráð þurfum við fyrst og fremst í löndum, þar sem við eigum mikilla hagsmuna að gæta, oftast vegna fjölþjóðlegra stofnana, sem við þurfum að vera í nánu sambandi við. Lykilstaðir af því tagi eru Brussel, Genf og París, þar sem framtíð Evrópu ræðst.

Við neyðumst af sagnfræðilegum ástæðum til að hafa lágmarkssendiráð á Norðurlöndum og við verðum vegna mikilla viðskiptahagsmuna að hafa sendiráð í Þýzkalandi, Bretlandi og Bandaríkjunum. Ekki er því unnt að fækka sendiráðum okkar neitt, sem heitið geti.

Kostnaður utanríkisþjónustunnar mundi nýtast betur með nýjum reglum og áherzlum, svo og með því að ófyrirleitnir ráðherrar trufli ekki gangverk hennar.

Jónas Kristjánsson

DV

Lærum af Ísfirðingum

Greinar

Stjórnmálamenn gömlu flokkanna og nýrra samfylkinga gömlu flokkanna á sameinuðum Ísafirði eru ekki verri en aðrir stjórnmálamenn í landsmálum eða sveitarfélagamálum þjóðarinnar. Samt eiga þeir skilið rassskellingu fönklistans í kosningunum um síðustu helgi.

Eins og aðrir hefðbundnir stjórnmálamenn í landinu eiga þeir gömlu ekkert erindi í valdastóla. Þeir eru hugmyndafræðilega innantómir framagosar eins og aðrir hefðbundnir stjórnmálamenn í landinu. Þeir eru gamalkunna tegundin, sem hefur gert þjóðina fátækari.

Við hressumst við að sjá ungt framhaldsskólafólk skáka hinum hefðbundnu stjórnmálaflokkum og nýjum samfylkingum þeirra. Við spyrjum, hvað sé hægt að gera á landsvísu, úr því að hægt er að ná mörg hundruð manna stuðningi og tveimur bæjarfulltrúum á Ísafirði.

Íslenzkir kjósendur hafa hagað sér aumlega á undanförnum áratugum. Þeir hafa vísvitandi kosið yfir sig ömurlega gasprara og vilja gera einn slíkan að forseta lýðveldisins. Sigur fönklistans á Ísafirði er ljós í þessu sameinaða svartnætti kjósenda og stjórnmálamanna.

Oftast hefur ástandið verið svo slæmt, að menn andvarpa og segja ekkert geta bjargað þjóðinni, nema skipt verði um kjósendur fyrst. Raunar er ótrúlegt, hvað íslenzkir kjósendur hafa leyft stjórnmálaflokkum og pólitíkusum að komast upp með áratugum saman.

Við erum að dragast aftur úr nágrannaþjóðunum og stéttaskipting er um leið að aukast innanlands. Fólk hefur í vaxandi mæli verið að flýja til útlanda frá lágtekjunum og stéttaskiptingunni, sem hér á landi stafa eingöngu af mannavöldum, en ekki af slökum gæðum landsins.

Eymdarbotn landsins er í sölum Alþingis, þar sem leikarar fara hamförum í ræðustóli, láta eins og þorpsfífl, semja ferskeytlur og haga sér eins og þeir séu gersamlega úr sambandi við umhverfið. Þeir blaðra klukkustundum saman án þess að finna kjarna neins máls.

Á Alþingi og í ríkisstjórn er talað um allt milli himins og jarðar og samdar um það ferskeytlur, en hvergi minnst orði á neitt sem máli skiptir, svo sem viðbrögð Íslendinga við óðfluga efnahagssamruna Evrópu og um stöðu landsins í breyttri heimsmynd 21. aldar.

Þegar tölvur og sími eru að búa til nýja tegund af upplýsingaþjóðfélagi og framleiða óendanlega athafnamöguleika á nýjum sviðum, efna stjórnmálamennirnir til hverrar nefndarinnar á fætur annarri til að skoða málið og framleiða um það doðrant á doðrant ofan.

Ekkert skortir á umfjöllun um upplýsingahraðbrautina, nema að ráðherrar yrki um hana fleiri ferskeytlur. Hins vegar er ekki gert það, sem gera þarf. Ekki er séð um, að bandvídd þessarar brautar sé á hverjum tíma mun rýmri en sem svarar notkun líðandi stundar.

Núverandi stjórnmálamenn eru upp til hópa ófærir um að búa þjóðina undir 21. öldina. Hingað til hefur verið talið, að þetta væri tröllheimskum kjósendum að kenna, umbjóðendum stjórnmálamanna. En glætan frá Ísafirði sýnir, að kjósendum er ekki alls varnað.

Íslenzkir kjósendur þurfa að læra af Ísfirðingum. Þeir þurfa að muna eftir pólitískum afglöpum umboðsmanna sinna og byrja að rjúfa sauðtryggð sína við hina hefðbundnu stjórnmálaflokka og forustumenn þeirra. Þeir þurfa að fara að gera tilraunir í stjórnmálum.

Þegar búið er að skipta út stjórnmálaflokkunum og pólitíkusunum er loksins komin forsenda þess, að unnt verði að lifa vel í landinu á 21. öldinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjálfskaparvíti?

Greinar

Til sparnaðar í heilbrigðiskerfinu hefur verið nefndur sá kostur, að reykingafólk greiði fyrir heilbrigðisþjónustu vegna reykingasjúkdóma á borð við lungnakrabbamein. Slíkir sjúkdómar séu sjálfskaparvíti reykingamanna. Fólk eigi að taka ábyrgð á heilsu sinni.

Þótt reykingar séu að nokkru leyti sjálfskaparvíti og þótt fólk eigi að taka aukna ábyrgð á heilsu sinni, hefur mál þetta miklu fleiri hliðar. Í fyrsta lagi er það margvísleg önnur hegðun en reykingar, sem veldur sjúkdómum og getur á sama hátt flokkazt sem sjálfskaparvíti.

Afleiðingar sykurneyzlu og ofáts af völdum hennar eru sennilega dýrari þáttur heilbrigðiskerfisins en afleiðingar tóbaksneyzlu. Ef reykingafólk á að borga fyrir sína sjúkdóma, er ekki síður ástæða til að láta sykurætur borga fyrir þá menningarsjúkdóma, sem þær fá.

Einnig má nefna áfengisneyzlu, sem að hluta til kann að vera sjálfskaparvíti á borð við sykurát og tóbaksneyzlu. Raunar kom Guðmundur Árni Stefánsson, þáverandi heilbrigðisráðherra, fyrstur fram með þá hugmynd, að áfengissjúklingar borguðu fyrir sig.

Engan sérstakan greinarmun er hægt að gera á sjálfskaparvíti í notkun tóbaks, sykurs eða áfengis. Sjálfskaparvítið er aðeins þáttur málsins. Fólk er mismunandi næmt fyrir sjúkdómum, sem þessi þrjú fíkniefni valda. Sumir standast neyzlu þeirra, en aðrir ekki.

Að töluverðu leyti gera líkamlegar ástæður fólk misjafnlega næmt fyrir þessum sjúkdómum. Líkamlegu ástæðurnar eru að umtalsverðu leyti arfgengar, svo sem sýnt hefur verið fram á með rannsóknum á eineggja tvíburum, sem alast upp í mismunandi umhverfi.

Spurningin í framhaldi af þessu er þá, hvort refsa beri fólki fyrir að bera í sér arfgengar og líkamlegar forsendur þess, að það reykir, borðar eða drekkur sér til skaða. Það er siðferðileg spurning, sem tæpast er hægt að svara öðruvísi en algerlega neitandi.

Ekki má gleyma, að öll þessi efni, sykur, áfengi og tóbak, eru hættuleg fíkniefni eins og raunar ýmis fleiri efni, sem eru í daglegri og löglegri notkun. Fólk, sem ánetjast þeim, losnar ekki við þau, þótt það sé að öðru leyti viljasterkt fólk, eins og ótal dæmi sanna.

Í öðru lagi yrði greiðslukerfið ákaflega flókið og dýrt. Hvernig á að meta, hve mikils sykurs sjúklingurinn hefur neytt um ævina eða hversu mikils áfengis eða hversu mikið hann hefur reykt og hve lengi? Á fiktarinn að sitja við sama borð og stórreykingamaðurinn?

Auðvelt er að sjá fyrir sér skriffinnskuna, sem færi í að meta í hverju tilviki, hvort sjúklingur teldist að nægilega miklu leyti hafa bakað sér sjúkdóm sinn af eigin hvötum eða hvort arfgeng áhrif, önnur líkamleg áhrif eða illviðráðanleg umhverfisáhrif væru þyngri.

Þetta er hvorki siðleg né vitræn aðferð við að efla ábyrgð fólks á eigin heilsu og draga úr kostnaði heilbrigðismála. Nærtækara er að halda áfram á sömu braut og hingað til hefur verið gert, láta fólk borga meira fyrir vöruna, en láta tekjurnar renna til heilbrigðismála.

Sykur og sykurlíki, áfengi, tóbak og tóbakslíki á að skattleggja dýrum dómum og nota tekjurnar annars vegar til áróðurs og forvarna og hins vegar til lækninga. Tóbak og áfengi er raunar þegar skattlagt, en sykur, sykurlíki og sykraðar vörur hafa hingað til sloppið.

Eyrnamerktir skattar á fíkniefni eru eina leiðin til að afla fjár til að draga úr fjölda fíklanna og til að greiða kostnað hins opinbera af sjúkdómum fíklanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Glæpalýður fer sínu fram

Greinar

Tollvörður, sem er sérfróður í fíkniefnaleit, var barinn til óbóta af fjórum þekktum fíkniefnamönnum á fimmtudagskvöldið, svo sem sagt var frá í DV í gær. Tollgæzlan kærði málið ekki og lætur eins og ekkert hafi gerzt. Yfirmenn hennar hafa ekki viljað tjá sig um málið.

DV hefur að undanförnu einnig greint frá skemmdarverkum á persónulegum eigum tollvarða. Einnig hafa fíkniefnamenn að undanförnu haft í hótunum við tollverði og fíkniefnalögreglumenn, svo og fjölskyldur þeirra. Embættiskerfið hefur ekkert gert í málunum.

Tollstjóraembættið í Reykjavík varð hins vegar við kröfu fjármálaráðherra um að kalla á teppið nokkra tollverði, sem höfðu skýrt fjölmiðlum frá áhugaleysi embættisins í fíkniefnavörnum. Þannig er sótt að vörðum laganna úr báðum áttum, neðan frá og ofan.

Ekki er von að vel gangi í viðureigninni við fíkniefni, þegar við völd eru embættismenn á borð við tollstjórann í Reykjavík og fjármálaráðherrann, sem óbeint vinna með fíkniefnamönnum að því að hræða tollverði til að hætta að trufla nærri óheftan innflutning fíkniefna.

Svo áhugalaust er kerfið um fíkniefnavarnir, að ekki er lögð nein áherzla á að þefa uppi fíkniefni í tollpósti, þótt vitað sé að umtalsverður hluti fíkniefna komi þá leið inn í landið. Ennfremur hefur ekki tekizt að taka fíkniefni á Keflavíkurflugvelli síðan í febrúar.

Svo áhugalaust er kerfið um fíkniefnavarnir, að nýlega var erlendu burðardýri fíkniefna sleppt lausu og það rekið úr landi. Burðardýrið var vinsamlega beðið um að gefa sig fram í heimalandinu. Þar með voru þau skilaboð send, að áhættulítið sé að flytja hingað fíkniefni.

Allir, sem til þekkja, segja, að óbreytt framboð sé á flestum tegundum fíkniefna, svo sem hassi, amfetamíni og harðari efnum. Lítill afrakstur fíkniefnaleitar er því ekki merki þess, að markaðurinn sé að dragast saman, heldur merki slakrar frammistöðu ríkisvaldsins.

Ísland ætti að vera óskaland fíkniefnaleitar. Landið á engin landamæri með öðru ríki. Innflutningsleiðir fíkniefna eru því tiltölulega fáar og varnir tiltölulega auðveldar. Samt fljóta fíkniefni um landið í nokkurn veginn eins miklum mæli og markaðurinn framast þolir.

Þjóðfélagið breytist hratt við þetta og líkist meira undirheimahverfum stórborga í Ameríku og þriðja heiminum. Þetta lýsir sér meðal annars í auknum líkamsárásum. Sölumenn lemja tollverði og fíkniefnaneytendur ráðast tilefnislaust á þá, sem verða á vegi þeirra.

Fyrir skömmu réðist hópur manna inn í óviðkomandi heimahús og misþyrmdi tveimur mönnum þar að tilefnislausu. Um svipað leyti réðist hópur manna tilefnislaust á mann á götu og skildi eftir meðvitundarlausan. Einnig var ráðizt á pizzusendil, sem vildi fá pizzuna borgaða.

Sameiginlegt einkenni allra þessara mála, hvort sem fórnardýrin eru óviðkomandi fólk eða leitarfólk, er, að ríkið sinnir ekki þeirri frumskyldu sinni og helztu afsökun tilveru sinnar að gæta öryggis borgaranna. Samt er ríkið að öðru leyti með nefið í hvers manns koppi.

Árásin á tollvörðinn á fimmtudagskvöldið markar þau tímabót, að spírallinn er kominn niður í gólf. Hér eftir munu fíkniefnamenn hafa sína hentisemi og haga sér eins og þeim þóknast, með óbeinum stuðningi æðstu embættismanna, sem vilja ekki heyra staðreyndir.

Ástandið er fáránlegt og ástæðulaust í senn. Það er út í hött, að þjóðfélag á menningarstigi Íslands þurfi að þola stjórnmála- og embættismönnum þessa eymd.

Jónas Kristjánsson

DV

Norræni útkjálkinn

Greinar

Ein stærsta fréttastofa heims er Reuter, sem meðal annars er allsráðandi í erlendum fréttum á Íslandi, enda gamalkunn af vönduðum fréttum. Hún hafði í gær ekki enn minnzt einu orði á miðvikudagsfréttina, sem sett hefur pólitíska umræðu í Noregi á annan endann.

Reuter telur ekki taka því að dreifa þeirri frétt um heiminn, að á miðvikudaginn var dreift skýrslu rannsóknarnefndar norska stórþingsins, þar sem fram kemur, að leyniþjónustan og Verkamannaflokkurinn unnu saman að persónunjósnum um tæplega 50.000 manns.

Þetta jafngildir því, að ímynduð leyniþjónusta á Íslandi og Sjálfstæðisflokkurinn ynnu saman að njósnum um 2.500 Íslendinga frá 12 ára aldri og upp að níræðu. Símtöl þessa fólks væru hleruð samkvæmt skrá, sem samin hefði verið af flokksstarfsmönnum í Valhöll.

Auðvitað fara menn hamförum í Noregi út af þessum uppljóstrunum, sem hljóta að vekja grunsemdir um, að framkvæmdastjóri Verkamannaflokksins á þessum tíma, Haakon Lie, þekktur stjórnmálamaður langt út fyrir landsteina, hafi tæpast verið með öllum mjalla.

Reuter telur líklega mál þetta vera storm í vatnsglasi, ekki vegna þess að það sé efnislega ómerkilegt, heldur vegna þess að Noregur sé hálfgert vatnsglas, sem komi umheiminum lítið við. Hin æpandi þögn Reuters segir sögu um hvarf Norðurlanda úr alþjóðlegri umræðu.

Fyrir nokkrum áratugum var Norðurlanda oft getið í þeim fjölmiðlum, sem mestu ráða um alþjóðlega umræðu. Þau voru að ýmsu leyti talin vera þjóðfélög til fyrirmyndar, byggð forríkum þjóðum, sem tekizt hefði að sameina markaðshyggju og velferðarstefnu.

Þótt heldur hafi dalað geta Norðurlandaþjóða til að standa undir villtustu útgáfum velferðarstefnunnar, eru þær enn með ríkustu þjóðum heims. Ekkert hefur komið fram, sem bendir til, að þjóðfélagsgerðin sem slík hafi mistekizt, þótt henni hafi slegið í öfgar á köflum.

Umheimurinn hefur hins vegar misst áhugann á þessu. Hann lítur á Norðurlönd sem hálfgert elliheimili auðugs fólks, þar sem tíminn líði án þess að neitt gerist í raun og veru. Eða eins og stöðuvatn, þar sem enginn vindur er til að gára atburðalausan hversdagsleika.

Ef Norðurlanda er getið, er það helzt í gríni. Eitt alvörugefnasta blað í heimi, Economist, spottaðist fyrir nokkrum árum að norrænu samstarfi, sem blaðið sagði einkennast af sífelldum þeytingi stjórnmála- og embættismanna á samnorræna fundi, sem ekkert kæmi út úr.

Blaðið sagði, að í norrænu samstarfi væri unnið að 2000 verkefnum fyrir alls 7,7 milljarða króna, þar sem fjallað væri um allt niður í varðveizlu leðurhúsgagna. Þetta kæmi helzt flugfélaginu SAS að gagni, því að dýra farrýmið væri fullt af norrænum embættismönnum.

Norðurlönd hefðu hins vegar ekki getað lækkað tolla sín í milli fyrr en Austurríkismenn og Svisslendingar komu til skjalanna í Fríverzlunarsamtökunum. Þannig séu Norðurlönd ófær um að vinna að framtíðarhagsmunum sínum, en þeim mun iðnari við samnorrænar veizlur.

Síðan Economist birti þetta hafa Svíar og Finnar gengið í Evrópusambandið og mæna með Dönum í átt til Brussel. Þessi þrjú ríki hafa misst áhuga á norrænu samstarfi, þótt þau fari til málamynda gegnum formsatriði þess. Norænt samstarf er í andaslitrunum.

Botninn fannst, þegar stormur í vatnsglasi Noregs, eitt stærsta persónunjósnamál Vesturlanda, varð ekki tilefni neðanmálsgreina í alþjóðlegum fjölmiðlum.

Jónas Kristjánsson

DV

Dýrkeypt menntanet

Greinar

Íslenzka menntanetið á umtalsverðan þátt í heimsmeti Íslendinga í notkun Internetsins, sem er 50% útbreiddara hér á landi en í upphafslandinu Bandaríkjunum. Fyrirtækið hefur haft forgöngu um fræðslunotkun netsins og mótað nýja möguleika í menntakerfinu.

Þetta skiptir miklu í strjálbýlu landi. Netið er happasending fyrir þjóð, sem vill búa vítt um dreifðar byggðir og ná samt efnahagslegri hagkvæmni þéttbýlis. Með netinu getur fólk stundað fjarnám með áhrifamiklum hætti og það getur einnig stundað arðbær störf í einrúmi.

Fjarnámstækni á netinu er orðin svo þróuð, að unnt er að stunda nám við bandaríska háskóla og taka þar próf án þess að mæta í skóla nema einu sinni á ári eða sjaldnar. Athuganir benda til, að fjarnemendur séu áhugasamari og standi sig betur en staðarnemendur.

Íslenzka menntanetið er einkafyrirtæki, sem hefur vakið athygli víða um heim fyrir frumkvæði í notkun netsins í menntakerfinu. Það lagði í vetur í fjárfestingu við að koma upp netþjónum í öllum símaumdæmum landsins og varð sú fjárfesting fyrirtækinu ofviða.

Menntaráðuneytinu rann blóðið til skyldunnar. Það keypti gjaldþrota fyrirtækið með manni og mús fyrir 21 milljón króna til að tryggja, að áfram héldist þjónustan, sem Menntanetið veitir skólakerfinu og er talin vera ómissandi vegna 300 fjarnemenda á netinu.

Ráðuneytið fór offari í þessu efni. Það gat tryggt hagsmuni hinna 300 fjarnemenda með broti af þessari upphæð. Það hefði getað greitt áskriftargjöld fyrir þá og skóla landsins hjá öðrum einkafyrirtækjum, sem bjóða sömu þjónustu og Menntanetið á svipuðu verði.

Ráðuneytið hefði stuðlað að heilbrigðri samkeppni í þjónustu við netið með því að bjóða út netviðskipti skólakerfisins. Starfrækt eru í landinu nokkur fyrirtæki á þessu sviði, þannig að Menntanetið er ekki lengur ómissandi, þótt það eigi merka afrekasögu.

Búnaðurinn, sem ráðuneytið fékk með kaupunum á Menntanetinu, nemur í verðmætum um helmingi af upphæðinni, sem það greiddi fyrir kaupin. Þannig felur hálf upphæðin í sér óeðlilegt handafl á markaðnum og hinn helmingurinn felur í sér þakklætisvott ráðuneytisins.

Þegar ráðuneyti vill ganga svona langt í björgunaraðgerðum, sem fela í senn í sér markaðsmismunun og þakklætisvott, átti ráðuneytið að leita samþykkis þeirra aðila, sem fara með fjárveitingavaldið í landinu. Það gerði menntaráðherra ekki og gróf þannig undan þingræðinu.

Ef ráðuneytið tekur þessa 21 milljón af tölvukaupafé, svo sem fullyrt hefur verið því til afsökunar, verða íslenzkir skólar mörgum tugum tölva fátækari en ella hefði orðið. Ráðuneytið hamlar þannig gegn brýnni tölvuvæðingu skólanna með kaupum sínum á Menntanetinu.

Komið hefur í ljós, að flestir þingmenn eru eftir á að hyggja sammála kaupum ráðuneytisins á Menntanetinu og vilja væntanlega veita sérstaklega fé til þeirra, svo að það verði ekki tekið af tölvukaupafé skólanna. Vonandi láta þeir verkin ekki tala síður en orðin.

Sighvatur Björgvinsson þingmaður stóð einn í gagnrýni sinni á kaupin. Hans gagnrýni var eigi að síður réttmæt. Kaupverðið var hátt yfir raunvirði. Ráðuneytið hefði sparað peninga með því að bjóða út þjónustuna og reyndi ekki einu sinni að ganga úr skugga um það.

Mál þetta sýnir ráðuneyti, sósíaliskan ráðherra og Alþingi, sem sameiginlega eru ófær um að hugsa mál á grundvelli alþjóðlega viðurkenndra markaðslögmála.

Jónas Kristjánsson

DV

Afleitur síldarsamningur

Greinar

Samningur strandríkja Íslandshafs um veiðar á norsk- íslenzku síldinni er okkur afar óhagstæður og kemur ekki í veg fyrir ofveiði, af því að Evrópusambandið stendur utan við samninginn og hefur ítrekað, að það muni halda fast við 150 þúsund tonna veiði sína.

Færeyingar, Íslendingar, Norðmenn og Rússar verða nú að fara sameiginlega bónarveg að Evrópusambandinu og biðja það um að semja um minni síldarkvóta fyrir sig á næsta fiskveiðiári. Ekki er enn vitað um neinn ádrátt um slíkt af hálfu Evrópusambandsins.

Ekki bendir heldur nein reynsla til þess, að Evrópusambandið sé veikt fyrir rökum um stofnverndun og skipulega fiskveiði. Hingað til hafa áhrif bandalagsins jafnan leitt til aukinnar ofveiði á hafsvæðum bandalagsþjóðanna, svo sem í Norðursjó og á Biskayaflóa.

Samkvæmt samningnum veita Íslendingar Norðmönnum og Rússum einhliða leyfi til síldveiða í fiskveiðilögsögu Íslands. Þessi furðulega heimild kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti og er í algerri þversögn við grundvallarforsendur landhelgisbaráttu okkar.

Á móti fá Íslendingar hvorki leyfi til síldveiða í norskri né rússneskri fiskveiðilögsögu. Samkvæmt Jan Mayen samkomulaginu frá 1980 höfum við þegar heimild til slíkra veiða á því svæði, sem er utan fiskveiðilögsögu Noregs, og þurfum ekki nýja heimild til þess.

Samkomulag náðist upp á þau býti, að Íslendingar gáfu eftir 54 þúsund tonn af 244 þúsund tonna kröfu sinni og fara niður í 190 þúsund tonn. Norðmenn og Rússar gefa hins vegar ekki eftir nema 24 þúsund tonn af 851 þúsund tonna samanlögðum kröfum sínum.

Þegar Íslendingar gefa eftir 23% af kröfu sinni og Norðmenn og Rússar gefa eftir 4%, hlýtur að vakna sú spurning, til hvers var allt þetta samningaþóf. Ef ætlunin var alltaf að gefast upp, var hægt að gera það strax og ná betri tíma til undirbúnings að veiðunum.

Samkvæmt samningnum eiga Íslendingar 17% af síldinni, unz samið verður um hlut Evrópusambandsins, en þá lækkar hlutur okkar sennilega í 14%. Þetta er afar lágt hlutfall í sagnfræðilegum samanburði, því að í gamla daga höfðum við 30-40% af norsk-íslenzku síldinni.

Óljóst er það ákvæði samningsins, sem vekur þá ímyndun íslenzku samningamannanna, að semja megi síðar um hærri hlut Íslendinga, ef norsk-íslenzka síldin fer að ganga í miklu magni inn í lögsögu Íslands. Slíkt yrði háð velvilja hinna erlendu viðsemjenda.

Samningamenn okkar verja undirskrift sína með því að segja mikilvægast að ná samkomulagi um takmörkun veiða, svo að síldin nái að verða sjö ára og eldri, þannig að hún fari í meira mæli í fiskveiðilögsögu Íslands, eins og hún gerði á áratugum síldarævintýrisins.

Þar sem Evrópusambandið stendur utan hins nýja samnings og segir hann hljóma sem flugusuð í eyrum sér, eru engar sérstakar ástæður til að ætla, að hann leiði til stækkunar síldveiðistofnsins og betri aldursdreifingar síldarinnar. Um það er enn öldungis ósamið.

Mjög hefur lækkað risið á Íslendingum í fjölþjóðlegum samningum um fiskveiðilögsögu og fiskveiðiréttindi, síðan þorskastríðin voru háð við Breta og nokkrar þjóðir á meginlandi Evrópu. Í deilunum um Jan Mayen kom í ljós, að Íslendingar voru farnir að linast.

Nýi samningurinn sýnir, að enn hefur ástandið versnað. Ekki er lengur neitt bein í nefi íslenzkra ráðamanna, er þeir heyra erkibiskups boðskap í Noregi.

Jónas Kristjánsson

DV

Óhollir ofurtollar

Greinar

Íslendingar borða mun minna grænmeti en aðrar þjóðir. Við erum lengst allra þjóða Vestur-Evrópu frá því að ná þeirri hlutdeild grænmetis í fæðinu, sem mælt er með af Alþjóða heilbrigðisstofnuninni og í hliðstæðum ráðleggingum heilbrigðisráðuneyta á Vesturlöndum.

Við erum hins vegar nær vestrænum stöðlum í ávaxtaneyzlu og skerum okkur að því leyti ekki úr hópnum. Mismunurinn á neyzlu okkar á grænmeti og ávöxtum sýnir, að við erum ekki á móti hollustufæði, heldur eru það önnur atriði, sem fæla frá grænmetisnotkun.

Munurinn stafar af, að grænmeti er ræktað í landinu, en ávextir ekki. Það þýðir, að ríkið setur verndartolla á innflutt grænmeti til að vernda það innlenda, en setur ekki slíka tolla á innflutta ávexti. Verndartollarnir valda því, að grænmeti verður of dýrt fyrir neytendur.

Þegar ríki heimsins ákváðu fyrir rúmu ári að lækka tolla og koma á fót Alþjóða viðskiptastofnuninni, voru íslenzk stjórnvöld svo forstokkuð í verndarstefnu sinni, að þau notuðu tækifærið til að setja meiri ofurtolla á innflutt grænmeti en nokkru sinni fyrr.

Þetta getur fólk sannreynt í útlöndum. Við samanburð fínustu grænmetisborða í verzlunum á Íslandi og venjulegra borða af því tagi í erlendum verzlunum leynir sér ekki, að grænmeti er þar margfalt fjölbreyttara en hér og kostar ekki nema brot af því, sem það kostar hér.

Áhrif verndarstefnunnar leiða einnig til þess, að inn er flutt grænmeti af ódýrasta tagi. Gæðavara er ekki flutt inn, af því að hún yrði stjarnfræðilega dýr í tollareikningi landbúnaðarráðuneytisins. Innflutt grænmeti á Íslandi er raunar mestmegnis stórvaxið skepnufóður.

Þverpólitísk samstaða er um, að landbúnaðarráðuneytið sé hagsmunagæzlustofnun landbúnaðar gegn almannahagsmunum og að það fái alltaf að ráða ferðinni, þegar hagsmunir landbúnaðar eru í húfi. Þannig var það í síðustu ríkisstjórn og þannig er það í þessari.

Allir stjórnmálaflokkar bera jafna ábyrgð á þessum glæp. Það gildir einnig um Alþýðuflokkinn, sem sat í síðustu ríkisstjórn, er kom á fót ofurtollakerfi grænmetis, sem við búum nú við. Allir stjórnmálaflokkar taka hagsmuni landbúnaðar fram yfir hagsmuni neytenda.

Ein afleiðingin af þessu er minni grænmetisnotkun Íslendinga en ella væri og verra heilsufar. Það er ekki að ástæðulausu, að Alþjóða heilbrigðisstofnunin mælir með stóraukinni grænmetisnotkun. Það stafar af, að hún bætir heilsu og dregur úr menningarsjúkdómum.

Herkostnaður þjóðarinnar af verndun innlendrar garðyrkju er mikill. Hann lýsir sér í auknum kostnaði við hjartasjúkdóma og krabbamein. Hluti af kostnaði þjóðarinnar af sjúkrahúsakerfinu stafar beinlínis af ofurtollum stjórnvalda á innfluttu grænmeti.

Ef þjóðin hefði nógu mikinn áhuga á heilsu sinni, mundi hún ekki þola stjórnmála- og embættismönnum að skaða heilsu fólks á þennan hátt, valda því hjartasjúkdómum og krabbameini til að halda uppi háu verði á grænmeti. En þjóðina skortir áhuga á þessu.

Þetta breytist vonandi smám saman, þegar fleiri Íslendingar kynnast útlöndum og komast að raun um, að við erum þriðja flokks þjóð á þessu sviði. En það á langt í land, því að enn eru mál hér í þeim farvegi, að ríkið er að efla verndartolla á innfluttu grænmeti.

Þekkingin á þessu sviði er þó orðin svo mikil, að ljóst er, að stjórnmála- og embættismenn eru í þröngri hagsmunagæzlu vísvitandi að skaða heilsu þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Í farsælum farvegi

Greinar

Forseti Íslands er sameiningartákn þjóðarinnar og kemur fram fyrir hönd hennar inn á við og út á við. Þar sem hann tekur ekki þátt í pólitísku dægurþrasi, ber þjóðin virðingu fyrir honum sem heiðurstákni. Hún rís úr sæti, þegar forsetinn gengur í salinn.

Stjórnarskráin gerir ráð fyrir, að forsetinn sé um leið öryggisventill, ef Alþingi og ríkisstjórn villast af spori lýðræðis. Þar sem Ísland er rótgróið lýðræðisríki, hefur forseti hingað til ekki haft ástæðu til að beina viðkvæmum deilumálum í farveg þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ekkert bendir til, að forsetinn muni í náinni framtíð telja sig knúinn til að beita hemlunarvaldi sínu. Þjóðfélagið mun áfram haldast um sinn í föstum lýðræðisskorðum, svo að forsetinn mun ekki þurfa að beita þessu valdi. En það er eigi að síður hans vald.

Sem sameiningartákn ferðast forsetinn um þjóðfélagið og talar við háa og lága. Hann ferðast um landið og gerir vart við sig hjá öllum þjóðfélagshópum. Hann gefur þjóðinni þannig tækifæri til að muna eftir sjálfri sér sem slíkri. Hvar sem hann kemur, er hátíð í bæ.

Forsetinn kemur einnig fram fyrir hönd þjóðarinnar út á við. Hann kemur þannig fram, að athygli vekur og að á hann er hlustað. Hann kemur á framfæri hagsmunum þjóðarinnar, hvort sem þeir eru menningarlegir eða viðskiptalegir og eflir þannig gengi þjóðfélagsins.

Forsetinn forðast að taka afstöðu í dægurþrasi og bilar ekki í þeim hlutverkum, sem hér hafa verið rakin. Þannig gefur hann ekki tilefni til gagnrýni. Um leið hugsa gagnrýnendur sig um tvisvar, áður en þeir taka afstöðu gegn gerðum eða orðum eða háttum forsetans.

Forsetinn er ekki hafinn yfir gagnrýni, en hún er spöruð eins og kostur er. Hingað til hafa verið lítil tilefni til slíkrar gagnrýni og lítið verið um hana. Ekkert bendir til, að fleiri tilefni verði á næstu árum, og ekkert bendir heldur til, að meira verði um gagnrýni.

Forsetar eru ekki steyptir í sama mót. Hver þeirra fyllir embættið með sínum hætti. Þróunin hefur þó verið sú, að þjóðin gerir æ meiri kröfur til hans. Hún hefur til dæmis gert hann sýnilegri en áður var. Hún vill gjarna, að hann sé meira á ferðinni en áður tíðkaðist.

Fólk býður sig ekki fram sem forseta, nema það telji sig þeim kostum búið, er henta embættinu. Fólk getur verið afar vel gert að flestu leyti án þess að vera heppilegt forsetaefni. Til dæmis hentar embættið aðeins þeim, sem hafa ómælda ánægju af að umgangast annað fólk.

Forsetinn er óhjákvæmilega hófsmaður, af því að hátíðahöld eru allt í kringum hann. Hann er óhjákvæmilega alþýðlegur og lítillátur, af því að fyrirmenn safnast kringum hann og byrgja sýn hans til annarra. Hann losar sig úr böndum hrokans og nær til fólksins sjálfs.

Hingað til hefur þjóðin talið sér takast vel að kjósa sér forseta. Hún hefur jafnan viljað, að hinn kjörni sitji sem lengst. Hún metur mikils frelsi sitt að velja sér forseta beint og milliliðalaust, en hún hefur ekki áhuga á að gegna því hlutverki á fjögurra ára fresti.

Þótt lýðveldið sé ungt og þar með forsetaembættið einnig, hefur þegar mótazt hefð, sem þjóðin er sátt við. Þessi hefð lagar sig eftir aðstæðum hvers tíma og persónu hvers forseta á þann hátt, að þjóðin lætur sér vel líka. Embættið er rótgróið, en ekki staðnað.

Þótt margt hafi aflaga farið á skammri sjálfstæðisbraut þjóðarinnar, hefur henni þó jafnan tekizt að veita embætti forseta Íslands í farsælan farveg.

Jónas Kristjánsson

DV

Björgun Mývatns

Greinar

Gerð hefur verið framkvæmdaáætlun um friðun 3000- 4000 ferkílómetra lands á öræfum og afréttum Mývatnssveitar fyrir ágangi sauðfjár. Markmiðið er að stöðva gróðureyðingu á einu mesta landrofssvæði jarðarinnar og koma í veg fyrir, að Mývatnssveit verði að auðn.

Til þess að fá sauðfjárbændur Mývatnssveitar til að samþykkja áætlunina og taka þátt í henni er gert ráð fyrir, að þeir verði hafðir með í ráðum, fái landgræðsluvinnu og verði studdir til að bæta gróður í heimahögum til að bæta sauðfénu upp missi úthaganna.

Þetta er gömul og viðurkennd aðferð, sem notuð er á óknyttaunglinga, þegar þeir eru teknir í lögregluna og verða að nýjum og betri mönnum. Brátt munu þeir verða gerðir að landvörðum, sem áður fluttu fé sitt í vornóttinni á sandinn, “af því að nálin er svo holl”.

Ofbeit Mývetninga hefur stuðlað að sandfoki og magnað vítahring gróðureyðingar, sem um þessar mundir ógnar Dimmuborgum og mun fyrr eða síðar breyta í sandauðn mestum hluta svæðisins milli Vatnajökuls og Öxarfjarðar, Laxár í Aðaldal og Jökulsár á Fjöllum.

Auðvitað er það mest Mývetningum sjálfum í hag, að vítahringurinn verði stöðvaður. Miklir hagsmunir eru í húfi í ferðaþjónustu, auk þess sem umsvifin í landgræðslu tryggja atvinnu fyrir fjölda manns. Því má fastlega búast við, að þeir fallist á ráðagerðina.

Mývatnssvæðið hefur verið tilnefnt á heimsminjaskrá Mennta- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem ein af helztu náttúruperlum heims. Það er óbærileg tilhugsun, að hinar ríku kynslóðir, sem nú byggja Ísland, glutri perlunni úr höndum sér í andvaraleysi.

Raunar er ekki seinna vænna að fara að taka til höndum. Árum saman hefur í leiðurum þessa blaðs verið hvatt til þeirrar friðunar, sem nú er orðin að áætlun í ríkiskerfinu. Á meðan hefur landauðnin aukizt hröðum skrefum í skjóli forgangsréttar sauðfjárræktar.

Undanfarin ár hefur Landgræðsla ríksins haft lagaheimild til að setja tímamörk á upprekstur sauðfjár á afréttir Mývetninga. Sauðfjárbændur hafa jafnan virt þessar reglur að vettugi án þess að Landgræðslan hafi reynt að fylgja rétti sínum eftir á viðeigandi hátt.

Nú er svo komið, að afréttir Mývetninga eru versta rofsvæði landsins og sennilega allrar Evrópu. Leita verður suður til Sahara til að finna sambærilega framsókn eyðimerkurinnar. Gróðurtapið á afréttum og öræfum Mývetninga er upp undir 500 hektarar á hverju ári.

Landeyðingin hefur hingað til verið studd af héraðsráðunauti Búnaðarfélagsins, gróðurverndarnefnd Suður- Þingeyjarsýslu, landbúnaðarnefnd og hreppsnefnd Skútustaðahrepps. Þessir aðilar hafa opinberlega sagt, að unnt sé að reka 5000-6000 fjár á sandinn!

Tímabært er orðið að taka ráðin af þessum mönnum, sem gefa skít í náttúruna, þjóðina og umheiminn. Á þetta reynir enn einu sinni í vor, þegar sauðfjárbændur vilja sturta fé sínu í sandrokið í trássi við lög og reglur. Vonandi næst áður samkomulag um landgræðsluáætlunina.

Um leið er nauðsynlegt að minna á, að fagrar ráðagerðir stjórnvalda á pappír draga ekki úr þeirri skyldu þeirra að sjá um, að lögum og rétti sé fylgt á afréttum Mývetninga fram að tíma hinnar algeru friðunar fyrir sauðfé, sem gert er ráð fyrir í landgræðsluáætluninni.

Fróðlegt verður að fylgjast með, hvort sauðfé Mývetninga verður að þessu sinni hleypt á nálina í sandinum og hvort það verður á sama tíma og undanfarin ár.

Jónas Kristjánsson

DV

Minnisvarði um verksvit

Greinar

Vegagerðardans undanfarinna ára hefur verið stiginn eitt skref áfram og annað aftur á bak á þann hátt, að á haustin er vegagerðarfé skorið niður til að snyrta fjárlög ríkisins og á vorin er það aukið aftur til að efla atvinnu í landinu. Þetta hefur þótt sjálfsögð sjálfsblekking.

Að þessu sinni telja ráðamenn, að farið sé að birta af degi í atvinnulífinu eftir kreppu síðustu ára og því þurfi ekki að verja fjármunum sérstaklega til atvinnuskapandi aðgerða. Þess vegna er ekki reiknað með í vor, að Vegagerðin endurheimti fjárlaganiðurskurð haustsins.

Þetta er óvenjulega bagalegt, því að 200 milljónir króna vantar til að ljúka breikkun Vesturlandsvegar yfir Elliðaárdal og Ártúnsbrekku. Skilin verður eftir brúin yfir Sæbraut, svo að þar mun Vesturlandsvegur þrengjast snögglega á 100 metra kafla og skapa slysahættu.

Þetta eru í senn hættuleg og óhagkvæm vinnubrögð, en um leið hefðbundin. Vegagerð á Íslandi hefur löngum einkennzt af bútavinnu. Lagðir eru nokkurra kílómetra kaflar á sem flestum stöðum, en lítið sem ekkert reynt að hefja verk og ljúka því í einum og sama áfanga.

Upphaflega stafaði þetta af óskráðu jafnvægi í baráttu kjördæma, sýslna og hreppa um vegagerðarfé. Í senn var reynt að stinga árlegri dúsu upp í sem flesta hagsmunaaðila og búa til aðstæður þess, að heimamenn fremur en aðkomumenn gætu haft atvinnu af vegagerðinni.

Eftir að útboð framkvæmda komu til sögunnar, var reynt að auka líkur á, að heimamenn væru samkeppnishæfir í tilboðum, með því að hafa útboðin nógu lítil hverju sinni. Af ýmsum slíkum ástæðum hafa smákaflar haldið áfram að vera einkennistákn Vegagerðarinnar.

Dreifbýlismennirnir, sem stjórna þjóðmálum og vegagerð landsins, telja því í lagi að fresta frágangi Vesturlandsvegar yfir Dalbraut um óákveðinn tíma. Þeir telja, að það sé bara svipað og aðrir landsmenn verði að búa við, þótt verkið sjálft sé öllu umfangsmeira.

Þeir vilja ekki taka 200 milljónirnar, sem vantar, af annarri vegagerð, því að margir hagsmunaaðilar úti um allt land mundu finna fyrir því, sem gert yrði fyrir einn. Og það hefur ekki spurzt vel í dreifbýlinu, að verið sé að hossa Reykvíkingum umfram aðra landsmenn.

Leysa mætti málið á Alþingi þegar á þessu vori með því að samþykkja heimild handa ríkisstjórninni til að verja 200 milljónum af tekjum ríkisins umfram áætlun fjárlaga til þessarar ákveðnu vegagerðar, svo að henni megi ljúka í einum áfanga þegar á þessu ári.

En þingmenn annarra kjördæma en Reykjavíkur og Reykjaness eru áhugalitlir um verklegar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Og þingmenn Reykjavíkur eru í senn óvanir að fylgja eftir málum af þessu tagi og allt of latir til þess. Þannig verður slysagildran til.

Ekki er einu sinni svo gott, að treysta megi því, að verkinu verði lokið á næsta ári. Framhald þess er ekki komið á neina áætlun hjá Vegagerðinni, svo að vitað sé. Gamla brúin yfir Sæbraut getur staðið ein sér árum saman sem minnisvarði um verksvit Íslendinga.

Óþarfi er að taka fram, að reiknað hefur verið, að þetta sé arðsamasta framkvæmd í vegagerð á Íslandi. Hefðbundið er að taka lítið tillit til arðsemi í forgangsröðun vegagerðarframkvæmda, svo að það atriði hefur lítil áhrif á framgang brúarsmíðinnar yfir Sæbraut.

Eini kostur þessa hættulega og óhagkvæma brúarleysis er, að það gefur langvinnt tækifæri til að hafa ríkisstjórnina, Alþingi og Vegagerðina að háði og spotti.

Jónas Kristjánsson

DV