Ruddalegur skuldakóngur

Greinar

Bandaríkjastjórn hefur tilkynnt, að hún muni beita neitunarvaldi til að koma í veg fyrir endurkjör Boutros Ghali til annars fimm ára tímabils sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Hún hefur gert honum tilboð um, að hann fái til málamynda eins árs framlengingu.

Fulltrúar Evrópu eru hvumsa yfir þessum yfirgangi Bandaríkjanna. Þeir eru flestir ánægðir með störf framkvæmdastjórans eins og raunar fulltrúar ríkja úr öðrum heimshlutum. Þeir telja, að Boutros Ghali hafi staðið sig með bezta móti og eigi að fá fimm ár í viðbót.

Flest bendir til, að hann fái eindreginn stuðning flestra ríkja heims, en verði samt að víkja vegna neitunarvalds Bandaríkjanna. Evrópuríkin, sem borga skilvíslega gjöld sín, telja brýnna, að Bandaríkin fari að greiða niður sjötíu milljarða króna skuld sína við samtökin.

Fulltrúar Bandaríkjanna segja hins vegar, að þetta sé einmitt aðferðin við að greiða niður skuldina. Boutros Ghali er af ómálefnalegum ástæðum orðinn blóraböggull meirihluta repúblikana í bandaríska þinginu, sem kennir honum um ýmislegt, sem aflaga fer í heiminum.

Þingið hefur árum saman sett í fjárlög ríkisins mun lægri upphæðir en Bandaríkin hafa skuldbundið sig til að greiða og þannig safnað gífurlegri skuld. Ríkisstjórnin telur, að fyrirstaðan gegn fjárveitingunum muni dofna, ef hinn óvinsæli Boutros Ghali verði rekinn.

Merkilegast í öllu þessu er, að Bandaríkjastjórn er sífellt að hlaða verkefnum á Sameinuðu þjóðirnar, sumpart gegn ráðum annarra ríkja, en neitar síðan að taka þátt í að greiða verkefnin, sem hún stofnar sjálf til. Engin rökfræði eða málefni eru í siðleysi hennar.

Ruddalegar aðgerðir Bandaríkjastjórnar væru skiljanlegri, ef hún hefði á takteinum annan frambjóðanda, sem líklegur væri til að taka til hendinni í ofvöxnu og gagnslitlu skrifræði Sameinuðu þjóðanna og nyti víðtæks trausts. En hún hefur alls engan frambjóðanda.

Boutros Ghali hefur metið stöðuna og komizt að raun um stuðning alls þorra ríkja heimsins. Hann telur sig ekki hafa neinu að tapa og ætlar því að bjóða sig fram til annars kjörtímabils. Þá reynir óþægilega á neitunarvald ósvífna skuldakóngsins í Sameinuðu þjóðunum.

Komið hefur í ljós í ýmsum málum, að Clinton Bandaríkjaforseti er nánast alveg stefnulaus í utanríkismálum og skiptir um skoðun á ýmsa vegu eftir því, hvernig vindurinn blæs í innanríkismálum. Hann rambar fram og til baka eftir gagnrýni repúblikana hverju sinni.

Af því að kalda stríðinu er lokið, telja ríkisstjórnir heimsins sig ekki þurfa eins mikið á bandarískri forustu að halda og áður. Þess vegna er vingulsháttur forsetans ekki eins skaðlegur og hann hefði verið fyrr á árum. Samt veldur hann óþægindum í samstarfi ríkja heims.

Með neðanbeltisárás sinni á Boutros Ghali hefur Bandaríkjastjórn aukið einangrun sína á alþjóðlegum vettvangi og dregið úr líkum á, að tekið verði mark á henni, þegar hún þarf á því að halda. Hún hefur hagað sér eins og óknyttaunglingur með neitunarvaldi.

Boutros Ghali er engan veginn gallalaus. Hann hefur ekki tekið skrifræðið nógu föstum tökum og hefur verið tregur til aðgerða, til dæmis í Bosníu, sumpart vegna peningaleysis af völdum skuldseigju Bandaríkjanna. En auðvelt er að hugsa sér mun lakari framkvæmdastjóra.

Hann er líka áhrifamesti og virtasti framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, ef til vill að Dag Hammarskjöld frátöldum, og ætti því að sitja áfram.

Jónas Kristjánsson

DV

Líf þitt er opin bók

Greinar

Alls óþekktum tölvuáhugamanni með sjaldgæfu nafni í Bandaríkjunum, nýkomnum á Internetið, datt nýlega í hug að nota eitt öflugasta leitarforritið á netinu til að finna nafnið sitt. Það tók forritið fimm sekúndur að finna nafn hans 32svar sinnum í óravíddum netsins.

Hann fékk skrá yfir margt af því, sem hann hafði verið að gera á netinu, t.d. lesendabréf, sem hafði birzt í nettímariti, og athugasemdir, sem hann hafði sent inn í lokaða umræðuhópa á netinu. Allar þessar upplýsingar um sjálfan hann komu eins og hendi væri veifað.

Þetta segir margar sögur í senn. Annars vegar er greinilegt, að netið er nú þegar í stakk búið til að útvega fólki leifturskjótar upplýsingar um hvaðeina, sem það vill vita. Hins vegar er líka greinilegt, að óhjákvæmilega þrengir netið töluvert einkalífshjúp notenda þess.

Þeir, sem af ungæðishætti ramba um netið og leggja orð í belg í vafasömum umræðuhópum, t.d. um afbrigðileg kynferðismál, geta sem hægast átt það á hættu, að leitarforrit séu notuð til að rifja fortíðina upp, ef þeir fara löngu síðar í framboð sem meintir góðborgarar.

Sömuleiðis geta menn komið á fót njósnastofum, er nota leitarforrit til að búa til mynd af fortíð þeirra, sem hafa slysazt inn í vafasama umræðu á netinu; og hótað að senda upplýsingarnar til makans, nema hæfileg fjárupphæð sé notuð til að liðka fyrir málinu.

Að þessu leyti heggur netið nær einkalífi fólks heldur en síminn, því að altækar hleranir alls símakerfisins mundu ekki nýtast á sama hátt, þótt einhver vildi og gæti stundað þær. Það er til dæmis mun erfiðara að flokka hleruð símtöl eftir ákveðnum lykilorðum.

Tölvutækni nútímans er að breyta einkalífi fólks á fleiri sviðum. Greiðslukort eru orðin að helzta gjaldmiðli fjölda fólks og gefa því mánaðarlega upplýsingar um reksturinn. Allar þessar upplýsingar liggja áfram í tölvukerfum og sýna neyzlumynztur einstakra borgara.

Fólk verður að átta sig á þessu og læra á þetta, ef það vill vernda það, sem það telur vera einkalíf sitt. Það getur forðast greiðslukort og notað heldur peningaseðla eða væntanleg myntkort. Það getur forðast internet og síma og notað heldur samskipti á staðnum í gamla stílnum.

Að öðrum kosti þarf viðkvæmt fólk að venjast því að haga sér á neti, í kortum og í síma eins og það mundi gera á opinberum vettvangi, svo að ekki sé hægt að hafa neitt eftir því, sem vansæmd sé að. Raunar hafa margir vanið sig á að umgangast þessi tól af varfærni.

Tölvutæknin þvingar fólk til að skilgreina einkalíf sitt á nýjan leik og setja sér umgengnisreglur á fleiri sviðum en áður. Fyrri tilraunir til að vernda hefðbundnar skilgreiningar á einkalífi fólks verða hjákátlegar í samanburði við þau verkefni, sem nú steðja að.

Við slíkar aðstæður er úrelt að hafa sérstaka Tölvunefnd til að koma í veg fyrir, að fólk geti séð á símareikningum, hvert það hafi verið að hringja; að fólk geti séð í bifreiðaskrá, hvort bíll í sölu hafi lent í tjóni; að fólk geti lagt saman tvo og tvo við lestur skattskrár.

Við slíkar aðstæður er úrelt að hafa sérstaka Tölvunefnd til að koma í veg fyrir, að fólk geti séð, hver er skyldur hverjum, með því að fletta upp í prentuðum ættfræðiritum. Allt puð Tölvunefndar er hlægilegt í ljósi upplýsingasprengingarinnar á alþjóðavettvangi.

Leyndarstjórar tölvunefnda heims munu aldrei geta hamlað gegn þessari opnun, enda væri þeim nær að viðurkenna aðstæður og kenna fólki að umgangast þær.

Jónas Kristjánsson

DV

Tölvunefnd er enn á ferð

Greinar

Almennur aðgangur að bifreiðaskrá hefur gert viðskipti með notaða bíla traustari en þau voru áður. Á flestum bílasölum fá væntanlegir kaupendur útskrift úr bifreiðaskrá ríkisins, þar sem fram kemur, hverjir hafi átt bílinn frá upphafi og í hvaða tjóni hann hafi lent.

Um nokkurt skeið hefur af þessari ástæðu verið mun erfiðara en var áður fyrr að svindla bílum með vafasama fortíð inn á kaupendur. Þessu þægilega ástandi hefur nú verið raskað, því að Tölvunefnd hefur gert ráðstafanir til að reyna að takmarka aðgang að bifreiðaskrá.

Þessi nefnd er valdamikil stofnun, sem komið hefur verið á fót að norrænni fyrirmynd. Þar sitja vandamálafræðingar að norrænni fyrirmynd og velta fyrir sér margvíslegri skaðsemi nýjunga í tölvumálum, þar á meðal óheftum aðgangi almennings að bifreiðaskrá ríkisins.

Frægust varð þessi nefnd vandamálafræðinga fyrir að reyna að banna útreikninga á tölum í skattskrá, sem tíðkast hafa á hverju sumri í tilefni af útkomu nýrrar skattskrár. Málið komst svo langt, að fjármálaráðuneytið gaf út reglugerð um þetta einstæða bann nefndarinnar.

Fjármálaráðuneytið dró síðan reglugerðina til baka, þegar það og ráðherra þess höfðu orðið fyrir hæfilegum flimtingum fyrir að reyna að banna samlagningu og frádrátt, margföldun og deilingu. Auðvitað stóðst reglugerðin hvorki stjórnarskrá né fjölþjóðasamninga.

Útreið fjármálaráðherra og -ráðneytis af völdum Tölvunefndar verður vonandi til þess, að mál hennar fái ekki eins greiða leið um kerfið og áður var. Menn eru að byrja að átta sig á, að úrskurðir nefndarinnar eru ekki í samræmi við væntingar manna um opið þjóðfélag.

Um þetta leyti er nefndin að fjalla um, hvort ekki sé rétt að banna birtingu nafna nokkurra manna í ættfræðiriti, sem er í undirbúningi. Þannig ræðst hún að nánast heilagri þjóðaríþrótt Íslendinga og um leið að vísindalegum vinnubrögðum í einni helztu grein sagnfræðinnar.

Fyrst varð Tölvunefnd fræg fyrir að koma í veg fyrir, að sundurliðun símreikninga kæmi að fyrirhuguðum notum með því að láta krossa yfir suma tölustafi í númerum. Þá þegar hefði verið eðlilegt, að stjórnvöld færu að gæta sín á nefndinni og setja hana á hliðarspor.

Nefndin er ekki í takt við þjóðfélagið á Íslandi. Hún veltir fyrir sér breytingum, sem fylgja aukinni tölvunotkun og aukinni samtengingu á tölvum, og sér hvarvetna skrattann á ferð. Hún ofkeyrir áherzlu sína á leyndarhelgi á kostnað upplýsingafrelsisins í landinu.

Bezt væri að leggja niður nefndina, sem hefur þegar reynt að leggja steina í götuna í átt til upplýsingaþjóðfélags framtíðarinnar á Íslandi og er líkleg til að halda áfram að reyna að hamla gegn þróuninni. Að öðrum kosti er rétt að skipta um fólk í nefndinni.

Við þurfum sem þjóð að vera framarlega í þróun opinna, greiðra og pappírslausra viðskipta með samtengingu tölva. Það gengur allt of hægt, meðal annars vegna forns hugsunarháttar í mörgum opinberum stofnunum. Þá múra fortíðar þarf að brjóta sem fyrst.

Tölvunefnd verður einn þröskuldurinn á efnahagslegri framfarabraut þjóðarinnar inn í opna upplýsingaheima. Nefndin hefur lengi sýnt það í verkum sínum, að hún leggur hvarvetna lóð sitt á vogarskál leyndar. Við þurfum því að gefa henni strangar gætur.

Friðhelgi einkalífs er ágætt, en hlaðið hugtak, sem kallar á misnotkun. Gullinn meðalvegur leyndar og opnunar er á öðrum slóðum en þeim, sem Tölvunefnd fetar.

Jónas Kristjánsson

DV

Hagkvæmniskenningin

Greinar

Röð skoðanakannana var birt hér í blaðinu á aðfaratíma forsetakosninganna 1980. Þær sýndu mjög jafnt fylgi Vigdísar Finnbogadóttur og Guðlaugs Þorvaldssonar. Þau skiptust raunar á um forustuna í þessum könnunum eins og í könnunum annarra aðila á þessum tíma.

Samkvæmt kenningunni um hagkvæmnishugsun kjósenda hefðu kannanirnar átt að skerpa muninn á fylgi Vigdísar og Guðlaugs annars vegar og Alberts Guðmundssonar og Péturs Thorsteinsson hins vegar. Fylgi hefði átt að færast yfir á þau, sem efst stóðu.

Kjósendur hefðu þá hugsað sem svo, að úr því að kannanir sýndu vonlitla aðstöðu þess frambjóðanda, sem þeir studdu, skyldu þeir í kosningunum flytja atkvæði sitt yfir á þann næstbezta til þess að reyna að koma í veg fyrir, að keppinautur hins næstbezta yrði valinn.

Þetta gerðist ekki. Þvert á móti jókst fylgi Alberts og Péturs jafnt og þétt í þessum könnunum. Í kosningunum sjálfum náðu þeir heldur meira fylgi en þeir höfðu haft í könnunum aðfaratímans. Kjósendur þeirra brugðust þeim ekki, þrátt fyrir hagkvæmniskenninguna.

Í hörðum tölum jókst fylgi Alberts um 2,9 stig og Péturs um 6,5 stig, meðan fylgi Vigdísar minnkaði um 5,2 stig og Guðlaugs um 4,0 stig. Þetta er prósentubreyting síðustu tveggja mánaðanna, allt frá fyrstu könnun blaðsins til sjálfra úrslita forsetakosninganna.

Á aðfaratímanum vildu sumir æstustu stuðningsmenn Alberts og Péturs kenna könnunum um, að þeir væru frystir í botnsætunum og athyglin beindist öll að Vigdísi og Guðlaugi. Reynslan staðfesti þetta ekki, jafnvel þótt hagkvæmnishugsun hefði getað ráðið úrslitum.

Nú eru aðstæður að því leyti ólíkar, að skoðanakannanir sýna enga raunverulega samkeppni milli tveggja efstu manna. Því er ólíklegra nú en var fyrir sextán árum, að stuðningsmenn þriggja lægri frambjóðendanna muni nota hagkvæmniskenninguna í kjörklefanum.

Skoðanakannanir sýna ekki heldur neinn flutning fylgis frá þremur lægri frambjóðendunum til tveggja hærri frambjóðendanna. Þvert á móti hefur hið sama gerzt og 1980, að fylgi hinna fyrrnefndu hefur að mestu farið hækkandi eftir því sem kosningarnar nálgast.

Þarft er að rifja þetta upp núna, því að enn eru komnar á kreik kenningar um óviðeigandi áhrif skoðanakannana á fyrirætlanir kjósenda. Þessar kenningar fara oft saman við kenningar um, að það sé í þágu lýðræðis að banna kannanir, að minnsta kosti fyrir kosningar.

Flestir eru þó sammála um, að niðurstöður skoðanakannana, sem vel eru framkvæmdar, séu staðreyndir. Flestir stjórnmálamenn eru svo sannfærðir um nákvæmni kannana, að þeir velta vöngum yfir breytingum eða mun, sem er innan skekkjumarka þessara kannana.

Aldrei hefur verið unnt að rökstyðja á sannfærandi hátt, hvers vegna ætti að setja hömlur á staðreyndir, sem eru nytsamlegar kjósendum. Fremur ætti að fjölga en fækka staðreyndum, sem kjósendur hafa sér til halds og trausts í innihaldsrýrum áróðurshríðum baráttunnar.

Jafnvel þótt skoðanakannanir hefðu þau áhrif að færa fylgi til þeirra, sem mesta hafa möguleikana, er ekki auðvelt að sjá, hvers vegna ætti að taka þann áhrifavald sérstaklega fyrir og fordæma hann. Og þar á ofan virðast áhrifin alls ekki vera þau, sem kenningin segir.

Málið snýst raunar um, að skoðanakannanir eru blóraböggull þeirra, sem þurfa að leita óvinar í gremju sinni yfir, að þeirra frambjóðanda gengur ekki sem skyldi.

Jónas Kristjánsson

DV

Betur má, ef duga skal

Greinar

Íslenzkir stjórnmálamenn hafa loks vaknað til vitundar um þjóðlega og siðferðilega nauðsyn þess, að íslenzka ríkið taki til höndum í forræðismáli Sophiu Hansen og dætra hennar. Mál hennar vinnst ekki með fjársöfnunum almennings og þrautseigri lögmennsku eingöngu.

Málsefni eru ljós. Fyrir fjórum árum var Sophiu dæmt forræði yfir dætrum sínum. Deiluaðilar og málsaðilar voru allir íslenzkir ríkisborgarar og því var farið með málið að íslenzkum lögum. Tyrklandi ber samkvæmt fjölþjóðasamningum að virða þennan lögmæta úrskurð.

Fyrir sex árum rændi faðirinn dætrunum og hefur síðan einhliða mótað viðhorf þeirra eins og þau hafa komið fram og munu koma fram fyrir dómstólum í Tyrklandi. Í 63 skipti hefur hann brotið úrskurð dómstóls í Tyrklandi um rétt Sophiu til að umgangast börnin.

Réttarfarslega er meðferð málsins í Tyrklandi skrípaleikur einn. Er þar ekki eingöngu að sakast við héraðsdóminn í Istanbúl, sem aldrei hefur þorað að dæma eftir tyrkneskum lögum af ótta við hefndaraðgerðir ofsatrúarmanna, sem fara ekki dult með hótanir sínar.

Hæstiréttur Tyrklands er ekki síður sekur í málinu. Í stað þess að úrskurða hreint og beint í málinu hefur hann hvað eftir annað vikið sér undan með því að vísa því til baka á tæknilegum forsendum og þannig framlengt hinn réttarfarslega skrípaleik.

Mesta og þyngsta ábyrgð ber þó ríkisstjórn Tyrklands, sem hefur árum saman látið undir höfuð leggjast að framkvæma fjölþjóðlegar skuldbindingar sínar, sem felast í að hafa hendur í hári mannræningjans og frelsa stúlkurnar með valdi úr greipum ofsatrúarmanna.

Það er fyrst með tilkomu Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra, að íslenzk stjórnvöld eru farin að taka af festu á þessu augljósa broti Tyrklands á fjölþjóðasamningum, sem það er aðili að. En betur má, ef duga skal, þar sem aðstæður í Tyrklandi fara versnandi.

Djúpstæður klofningur er kominn milli veraldlegu stjórnmálaflokkanna, sem hafa ráðið ríkjum í Tyrklandi og reynt að gera landið evrópskt. Nú biðla þeir til flokks ofsatrúarmanna, sem vill færa landið og þar með réttarfar þess frá Evrópu nútímans í átt til miðalda.

Þegar slíkar hræringar eru í stjórnmálum, dregur það úr áhuga veraldlegu stjórnmálaflokkanna að stuðla að framkvæmd evrópskra hugmynda um lög og rétt, þegar þær stangast á við hugmyndir ofsatrúarmanna, sem verið er að ræða við um aðild að ríkisstjórn.

Við þurfum því að taka upp tyrkneska mannréttindahneykslið á víðara vettvangi en í tvíhliða viðræðum eingöngu. Utanríkisráðuneytið þarf að taka málið upp á öllum þeim vettvangi, sem er sameiginlegur okkur og Tyrklandi, svo sem í Evrópuráði og Atlantshafsbandalagi.

Það er ófært, að Tyrkland komist upp með að virða að vettugi aðild sína að margs konar samningum og sáttmálum á fjölþjóðavettvangi, allt frá fjöldamorðum á Kúrdum og háskalegum hernaðaraðgerðum á Eyjahafi yfir í ofsóknir Tyrklands gegn Sophiu Hansen.

Þess vegna þarf að fara fram á öllum vígstöðvum í senn, með tvíhliða og marghliða þrýstingi. Utanríkisráðuneytið þarf að koma upp fastri skrifstofu í Tyrklandi og skipuleggja um leið harðar aðgerðir í ýmsum fjölþjóðasamtökum, þar sem heitt er undir Tyrkjum.

Síðast en ekki sízt þarf íslenzka ríkið að sanna sig með því að taka snöggtum meiri fjárhagsþátt í þessu mikilvæga prófmáli mannréttinda, laga og réttar.

Jónas Kristjánsson

DV

Nató klúðraði Bosníu

Greinar

Eftir að hafa farið vel af stað í vetur og komið með handafli á friði í Bosníu, er Atlantshafsbandalagið nú að klúðra verkefninu. Því hefur mistekizt að sjá um, að deiluaðilar uppfylli skilmála friðarsamningsins frá því í nóvember, og engin teikn eru á lofti um slíkt.

Samkvæmt samkomulagi vesturveldanna á 60.000 manna lið bandalagsins að hverfa frá Bosníu fyrir áramót, að loknum frjálsum kosningum í landinu, þar sem hver geti kosið í sinni heimabyggð. Bandaríkjastjórn vill, að þetta takist fyrir forsetakosningarnar vestra.

Utanríkisráðherra Sviss er formaður stofnunar, sem á að úrskurða, hvort skilyrði friðarsamningsins hafi verið uppfyllt og kosningar geti farið fram í Bosníu. Bandaríkjastjórn hefur ítrekað heimtað, að hann geri þetta, en hann er sagður neita að taka mark á rugli.

Sannleikurinn er sá, að nákvæmlega ekkert hefur verið gert til þess að tryggja, að kosningar geti farið fram með umsömdum hætti og að friður haldist í landinu í framhaldi af brottför setuliðsins. Það verður því annað hvort að vera áfram eða vesturveldin játa uppgjöf sína.

Eins og jafnan áður eru Serbar erfiðastir viðureignar. Þeir hafa ekki leyft íbúum annarra þjóðerna að hverfa til sinna heimahaga og hafa hrakið þá á brott, sem það hafa reynt. Setulið Atlantshafsbandalagsins hefur ekki lyft litla fingri til að sjá um efndir á þessu sviði.

Enn fremur hafa Serbar ekki gert neina tilraun til að afhenda stríðsglæpadómstóli Sameinuðu þjóðanna eftirlýsta menn. Setulið Atlantshafsbandalagsins hefur ekki lyft litla fingri til að sjá um efndir á þessu sviði og hefur raunar markvisst forðast að vita um tilvist þeirra.

Fleiri en Serbar hafa lagt stein í götu friðarferilsins, svo sem sýnir framferði Króata í Mostar. Þeir hafa þó framselt stríðsglæpamann eins og íslamar hafa gert. Raunar er íslamska stjórnin í Sarajevo eini málsaðilinn, í Bosníu, sem hefur reynt að efna friðarsamninginn.

Hinn sænski stjórnmálamaður Carl Bildt, sem er yfir borgaralegum þáttum málsins, missti strax í upphafi tök á þeim og hefur ekki náð þeim aftur. Hann fyllir flokk stjórnmálamanna á borð við David Owen og Thorvald Stoltenberg, sem steytt hafa illa á skeri Serba.

Einhver óskhyggja virðist hafa ráðið gerðum þessara stjórnmálamanna eins og raunar hinna vestrænu herforingja, sem hafa komið að málinu. Af fyrri reynslu mátti þó vita, að vestrænar samningareglur gilda alls engar í samskiptum við Serba. Þeir skilja þær alls ekki.

Þegar Bandaríkjastjórn lamdi hnefanum í borðið í vetur, kom í ljós, að Serbar skildu það og skrifuðu undir friðarsamninga. Samt hafa umboðsmenn Vesturlanda síðan haldið áfram að haga sér eins og Serbar skilji eitthvað annað en ofbeldi og hótanir um ofbeldi.

Afleiðing vestræns ræfildóms er nú að koma í ljós. Stríðsglæpamenn Serba ganga lausir og engar alvörukosningar verða á yfirráðasvæðum Serba í náinni framtíð. Bandaríkjastjórn vill fara eins að og hún gerði í Víetnam, lýsa yfir sigri og flýja með allt á hælunum.

Líklega munu bandamenn hafa Bandaríkjastjórn ofan af fyrirætlunum um brottflutning setuliðs fyrir bandarísku forsetakosningarnar, þannig að um 20.000 manna vestrænt setulið verði áfram í Bosníu. En ekki verður séð, að því fylgi neitt annað friðarferli í Bosníu.

Þótt Atlantshafsbandalagið hafi farið vel af stað í Bosníu í vetur, er staðan nú sú, að mestar horfur eru á, að það bíði þar niðurlægjandi ósigur að lokum.

Jónas Kristjánsson

DV

Stytting vinnutíma

Greinar

Hluti launa af landsframleiðslu er hinn sami hér og í Danmörku, 63%, og örlitlu hærri en gengur og gerist á Vesturlöndum, þar sem hann er að meðaltali 61%. Athyglisvert er, að sneið launagreiðslna af þjóðarkökunni skuli vera svipuð í þessum margvíslegu löndum.

Annaðhvort hafa samtök launamanna sýnt sama árangur með mismunandi aðferðum í mismunandi löndum eða þá, að hlutdeildin er líkari náttúrulögmáli, sem helzt óbreytt, þótt hagsmunaaðilar togist á um hana. Sennilega eiga báðar skýringarnar þátt í 61-63% niðurstöðunni.

Hlutfallstölurnar nást sums staðar með háum krónutölum eða jafngildi þeirra í öðrum myntum, samfara meiri verðbólgu, og annars staðar með lágum krónutölum, samfara minni verðbólgu. Sums staðar nást þær með vinnufriði og annars staðar með verkföllum.

Sums staðar nást hlutfallstölurnar með heildarsamningum, sem ná meira eða minna til alls þjóðfélagsins eða umtalsverðra geira þess. Annars staðar nást þær með samningum fámennra hópa, sem geta verið ólíkir innbyrðis, annaðhvort fagfélög eða vinnustaðafélög.

Í allmörg ár hefur hér á landi ríkt skilningur á, að einhvers konar þak sé á þessari hlutdeild og að hákrónusamningar fyrri áratuga hafi ekki gefið neitt í aðra hönd. Þessi skilningur hefur leitt til þess, að leitað hefur verið annarra leiða til að bæta lífskjör launafólks.

Ein aðferðin felst í þjóðarsáttum aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins, þar sem síðastnefndi aðilinn leggur fram svonefndan félagsmálapakka, sem ætlað er að auka velferð fólksins og þar með bæta lífskjör þess, án þess að það komi fram í sjálfum launagreiðslunum.

Önnur aðferð felst í að reyna að hækka meira laun þeirra, sem minna mega sín, en hinna, sem betur mega sín. Þetta hefur ekki tekizt sem skyldi, því að hálaunahóparnir hafa lag á að fara í kringum þessar tilraunir. Mismunur hálauna og láglauna hefur ekki minnkað.

Ekkert bendir til, að mismunur hálauna og láglauna sé annar hér en á Vesturlöndum almennt eða í Danmörku sérstaklega. En fróðlegt væri að fá eins greinargóða skýrslu um það efni og við höfum nýlega fengið frá Þjóðhagsstofnun um lífskjör á Íslandi og í Danmörku.

Sú skýrsla bendir til þess, að samtök launafólks eigi að mestu ónotaða eina aðferð við að bæta lífskjörin án þess að ögra náttúrulögmálinu um 61-63% hlutdeild launa í landsframleiðslu. Það er aðferð, sem drepið hefur verið á í sumum kjaraviðræðum á allra síðustu árum.

Aðferðin byggist á kenningunni um, að summa daglegrar vinnu sé hin sama, hvort sem hún sé unnin í dagvinnu eða með yfirvinnu að auki. Reynslan af ýmsum yfirvinnubönnum hefur bent til þess, að svo sé. Spurningin er, hvort unnt sé að afnema yfirvinnu að mestu.

Atvinnurekendur eru að sjálfsögðu hræddir við að semja um, að yfirvinna færist inn í tímakaup, af því að þeir sjá ekki í hendi, hvernig framleiðni vinnustundarinnar muni aukast að sama skapi, þótt nefnd séu einstök dæmi um, að sú hafi einmitt orðið raunin.

Lykillinn að styttingu vinnutíma að óbreyttu heildarkaupi felst einmitt í, að báðir aðilar vinnumarkaðarins fái sama hlut og áður, en vinnutíminn hafi bara stytzt og að í því felist lífskjarabati, sem ekki reynir að raska náttúrulögmálinu um 61-63% hlutdeild launa í kökunni.

Ekki er auðvelt að finna leiðir til að skapa trúnað málsaðila í kjarasamningum á gildi þessarar leiðar. Það gæti verið spennandi viðfangsefni á næstu árum.

Jónas Kristjánsson

DV

Kortlagning lífskjara

Greinar

Danir hafa að meðaltali 97% hærra tímakaup en Íslendingar, samkvæmt skýrslu Þjóðhagsstofnunar. Með því að vinna 50 tíma á viku í stað 39 og með því að hafa fleiri fyrirvinnur í hverri fjölskyldu, minnka Íslendingar muninn í 39% hærri fjölskyldutekjur í Danmörku.

Þegar búið er að taka tillit til hærri skatta í Danmörku, eru ráðstöfunartekjur orðnar 15% hærri í Danmörku en hér á landi. Þannig gefur Þjóðhagsstofnun kost á þrenns konar tölum um kjaramun Dana og Íslendinga, 97%, 39% og 15%, allt eftir því, hvernig á málið er litið.

Fólk lítur misjöfnun augum á lengd vinnutíma. Ef við gefum okkur, að styttri vinnutími og lengri frítími séu almenningi meira virði en langur vinnutími, en jafngildi þó ekki að fullu betri lífskjörum, má til dæmis meta styttri vinnutíma Dana að hálfu til betri lífskjara.

Fólk lítur líka misjöfnun augum á skatta og samneyzlu á vegum opinberra aðila. Ef við gefum okkur, að félagsleg þjónusta sé betri en engin, en nýtist þó ekki að fullu í betri lífskjörum, er heldur ekki fráleitt að meta meiri samneyzlu í Danmörku að hálfu til betri lífskjara.

Með slíkum slumpareikningi má gizka á, að kjaramunur Dana og Íslendinga sé mitt á milli 97% og 15%, það er að segja 56%. Þetta er gífurlegur munur og hefur á undanförnum árum freistað margra til að koma sér fyrir í Danmörku og öðrum löndum, sem hafa svipuð lífskjör.

Auðvitað lítur kjaramismunur Danmerkur og Íslands stærst út í augum þeirra, sem mesta áherzlu leggja á stuttan vinnutíma og mikla opinbera velferð, en minnst í augum hinna, sem sætta sig vel við langan vinnudag og minni velferð af hálfu hins opinbera.

Það verður að vera keppikefli okkar að reyna að brúa þennan mun milli okkar og nánasta umhverfis okkar til þess að tryggja betur framtíð sjálfstæðs þjóðfélags á Íslandi. Slíkt er þó ekki hægt að gera með pennastriki, því að mikill munur er á framleiðni okkar og Dana.

Hlutur launa í landsframleiðslu er 63% hér á landi, nákvæmlega eins og í Danmörku og örlitlu hærri en meðaltalið á Vesturlöndum, sem er 61%. Ekki er því hægt að segja, að óeðlilega mikill hluti verðmætasköpunar á Íslandi renni til annars en launagreiðslna.

Lágu launin á Íslandi endurspegla því lága framleiðni á Íslandi. Þessi lága framleiðni stafar ekki af leti Íslendinga til vinnu, heldur af ýmsum aðstæðum, sem teljast mega séríslenzkar. Við leggjum til dæmis of mikla áherzlu á atvinnuvegi, sem gefa lítið af sér.

Við höfum til dæmis allt of margt starfsfólk í landbúnaði og raunar hlutfallslega miklu fleira en er í löndum, sem búa við betri skilyrði til landbúnaðar. Í þessa stórfelldu landbúnaðarhugsjón okkar fórnum við á bilinu frá tíu til tuttugu milljörðum króna á ári hverju.

Í öðru lagi er fámenni á Íslandi slíkt, að víða í atvinnulífinu hefur myndazt fáokun og einokun. Við slíkar aðstæður dregur skortur á samkeppni úr rekstrarhagkvæmni fyrirtækja og stuðlar að lakari lífskjörum á Íslandi en er í löndum, þar sem samkeppni er meiri.

Þriðja ástæðan fyrir lágri framleiðni á vinnustund er hin sérízlenzka yfirvinnuhefð. Hún er eins konar vítahringur, sem erfitt er að losna úr. Einstök dæmi benda til, að dagsafköst minnki ekki, þótt yfirvinna sé lögð niður. Dagsafköst séu lítt eða ekki háð lengd vinnutíma.

Þetta eru þrjú atriði af ýmsum, sem valda lágri framleiðni og lélegum kjörum okkar. Engin öfl í landinu sinna enn því pólitíska verkefni að lagfæra slík atriði.

Jónas Kristjánsson

DV

Pappírsfrek viðskipti

Greinar

Þegar tvö fagtímarit eru keypt með greiðslukorti í bókabúð, eru gefin út þrjú skjöl. Sérstakur innsláttur fer fram á hverju þessara skjala og tvö þeirra eru heft saman á handvirkan hátt. Þannig kynnist íslenzkur neytandi handvirku pappírsfargani kerfisins á upplýsingaöld.

Eitt skjalanna kemur úr posavél og varðar greiðsluþátt viðskiptanna. Annað kemur úr kassavél og varðar staðfestingu þeirra gagnvart skattakerfinu. Hið þriðja kemur úr samlagningarvél og sundurliðar verð tímaritanna, af því að sundurliðun vantar á hin skjölin.

Til þess að allt fari fram eftir settum reglum, er viðskiptavinurinn spurður, hvaða kennitölu eigi að setja á staðgreiðslunótuna. Samt liggur rétt kennitala þegar að baki kortanótunnar, en þessi handvirka kennitala úr búðinni er sú eina, sem skattakerfið tekur gilda.

Þessi handafls- og pappírsfreki bjálfaháttur er framkvæmdur þúsundum saman á degi hverjum í þjóðfélagi, sem á hinn bóginn hamast við að skipa opinberar nefndir til að gera ályktanir um að koma landinu í pappírslaus viðskipti og aðra undraheima upplýsingaaldar.

Nettenging stofnana og pappírslaus viðskipti voru hornsteinn í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í apríl 1995. Allt er það endurtekið og nánar útfært í stefnuyfirlýsingu fjármálaráðuneytisins í desember 1995. Þriðja nefndin og sú fjölmennasta er nú í sama knérunni.

Á sama tíma og nefndasérfræðingar ríkisins endurtaka sama sannleikann tvisvar á ári og fá hann viðurkenndan sem stefnu ríkis og þjóðar, gerist ekki nokkur skapaður hlutur í málinu. Hver opinber stofnun húkir í sínum ranni og vill sín sérstöku gögn í hendurnar.

Tollurinn og skatturinn eru verstu stofnanirnar. Ef þær yrðu kvaldar með handafli til að viðurkenna upplýsingabyltinguna, væri þjóðin þegar komin hálfa leið út í upplýsingaöld. En það gerist ekki nema þar séu settir inn stjórar, sem afnema gamla ruglið með pennastriki.

Vinnan við pappírsfrek viðskipti dregur úr framleiðni okkar og stuðlar að lakari lífskjörum, verri samþjónustu og lengri vinnudegi en í nágrannalöndunum. Við erum þúsundum saman upptekin við að slá sömu upplýsingarnar aftur og aftur inn á vél og prenta þær út.

Samt er þjóðin svo opin fyrir viðskiptum nútímans, að 70% allra viðskipta í smásölu fara fram með greiðslukortum og 95% þessara viðskipta fara fram á stafrænan hátt. Hér eru bæði krítarkort og bankakort. Myntkort, sem minna á símakort, verða prófuð á þessu ári.

Myntkortin koma í staðinn fyrir peningaseðla. Þau henta þeim, sem ekki vilja nota neina tegund greiðslukorta. Og þau henta líka, þegar greiðsluupphæðir eru lágar. Að þeim innleiddum er í rauninni ekki lengur nein þörf á að gefa út peningaseðla í landinu.

Fulltrúar ríkisins þurfa að setjast niður með fulltrúum bankanna, skattsins og tollsins og annarra aðila, sem málið varðar, og finna á tilgreindum fjölda mánaða einfalda leið, sem samræmir hinar ýmsu bókhaldsþarfir stofnana og fyrirtækja án innsláttar og pappírs.

Ef viðskipti kalla á kennitölu, á undantekningarlaust að lesa hana stafrænt af korti, en ekki slá hana inn í samræmi við sjón eða heyrn. Ef upphæð er slegin inn í einum tilgangi, á ekki að slá hana aftur inn í öðrum tilgangi og í þriðja sinn í þriðja tilganginum.

Samræming er einföld og fljótleg. Hana má framkvæma fyrir áramót og hætta skipun nýrra blaðurnefnda um pappírslaus og stafræn framtíðarviðskipti.

Jónas Kristjánsson

DV

Breytilegt lífsgæðamat

Greinar

Íslendingar eru á helmingi lægra tímakaupi en Danir. Samt lifum við dýrara lífi en þeir og raunar dýrar en nærri allar þjóðir heims. Við eigum fleiri og stærri bíla, fleiri litsjónvarpstæki og myndbandstæki en nokkur önnur þjóð og næststærstu íbúðir í heimi.

Þessi þverstæða er rakin í ágætri skýrslu Þjóðhagsstofnunar, sem samin er vegna mikillar umræðu um lífskjaramun í Danmörku og Íslandi. Samanburðurinn er mikilvægur, þar sem margir Íslendingar hafa einmitt flúið land og hafið störf í fiskvinnslu á Jótlandi.

Fullyrt hefur verið, að tímakaup sé helmingi hærra í Danmörku en hér á landi. Rannsókn Þjóðhagsstofnunar staðfestir þetta, en sýnir líka, að þessi staðreynd segir ekki alla söguna. Með lægri sköttum og meiri aukavinnu náum við að minnka aðstöðumuninn í tímakaupi.

Danir vinna að meðaltali 39 tíma í viku, en við 50 tíma. Síðan borga Danir tvöfalt hærri skatta en við gerum, þannig að ráðstöfunartekjur Dana eru 15% hærri en Íslendinga, þegar allt er saman dregið. Það er því ekki sama, hvað miðað er við í samanburði landanna.

Þeir, sem telja langan vinnudag á Íslandi vera skaðlegan, vilja miða við strípuð dagvinnulaun, en hinir, sem telja langan vinnudag eðlilegan, vilja miða við heildarlaun með yfirvinnu. Þannig fer það eftir gildismati, hvaða augum menn líta á silfrið í samanburðinum.

Þeir, sem telja öryggisnet þjóðfélagsins skipta miklu, vilja miðað við heildartekjur, en hinir, sem minna álit hafa á því, vilja miða við strípaðar tekjur að frátöldum sköttum. Þannig fer það enn eftir gildismati áhorfandans, hvernig hann metur tölur Þjóðhagsstofnunar.

Athyglisvert er þó, að hlutar velferðarkerfisins eru ekki lakari á Íslandi en í Danmörku, þrátt fyrir lægri skatta. Til dæmis er heilsufar heldur betra á Íslandi en í Danmörku, ungbarnadauði minni og ævilíkur meiri. Það bendir til, að sumpart nýtist fé betur hér.

Þegar margar staðreyndir eru dregnar saman í einn pott eins og gert er í skýrslu Þjóðhagsstofnunar og í ljós kemur, að veruleikinn er ekki svartur og hvítur, heldur mismunandi grár eftir sjónarhóli hvers og eins, er auðveldara að átta sig á ýmsum breytingum á þjóðfélaginu.

Þegar landflótti eykst og menn sækja í danska fiskvinnslu, stafar það ekki að öllu leyti af því, að lífskjaramunur landanna hafi aukizt. Það stafar í miklu meira mæli af breyttu gildismati, þar sem fleiri en áður hafa hóflega lengd vinnudags ofar á óskalista sínum.

Landflóttinn stafar líka af því, að þættir velferðarkerfisins eru öflugri í Danmörku en hér á landi. Fleiri en áður taka tillit til slíkra öryggisatriða, þegar þeir eru að stofna heimili og koma sér fyrir í lífinu. Atvinnuleysisbætur eru til dæmis mun öflugri í Danmörku en hér.

Þegar gildismatið breytist með nýjum kynslóðum á þann hátt, að menn eru síður en áður tilbúnir til að þreyja langan vinnudag og telja sig þurfa að taka meira tillit en áður til hættu á atvinnumissi, rýrnar staða Íslands í samanburði við lönd á borð við Danmörku.

Til skamms tíma fól gildismatið í sér, að fólk gat talið sig vera jafnsett Dönum og talið sér til hags að eiga fleiri bíla og litsjónvarpstæki. En almenna gildismatið er að breytast hinum séríslenzku aðstæðum í óhag. Stjórnendur þjóðfélagsins þurfa því að endurmeta stöðuna.

Sífellt þarf að breyta áherzlum landsfeðra í rekstri þjóðfélagsins, svo að Ísland sé samkeppnishæft við önnur lönd í lífsgæðum eins og þau eru metin á hverjum tíma.

Jónas Kristjánsson

DV

Tölvunefnd er skaðleg

Greinar

Vilmundur Jónsson landlæknir kunni ráð við þeim úrskurði Hæstaréttar, að hann mætti ekki í Læknatali sínu birta nöfn líffræðilegra foreldra kjörbarna gegn vilja þeirra. Hann tók nöfnin út, en skildi eftir eyðurnar, svo að allir máttu skilja, hvað um var að ræða.

Síðan hefur engum dottið í hug að amast við þeirri þjóðaríþrótt Íslendinga að rekja ættir fólks fram og til baka. Á erfiðum tímum virðisaukaskatts eru ættfræðirit ein fárra greina bókaútgáfu, sem standa með blóma. Nú dugar ekki minna en mörg þykk bindi um hverja ætt.

Undarlegasta nefnd á Íslandi hefur þó ákveðið að kanna, hvort hægt sé að koma í veg fyrir, að nöfn tveggja kvenna, maka þeirra og barna verði birt gegn vilja þeirra í ættfræðiriti, sem nú er í undirbúningi. Er þó ættfræði formlega skilgreind utan verksviðs nefndarinnar.

Ef hinni undarlegu nefnd tekst að koma í veg fyrir þessa meintu árás á friðhelgi nokkurra einstaklinga, er kjörið tækifæri fyrir aðstandendur bókarinnar að fylgja fordæmi hins gamla landlæknis og skilja eftir eyðurnar, svo að allir megi sjá þær og hafa gagn og gaman af.

Á sama tíma og hin undarlega nefnd er að leika hlutverk Stóra bróður er utanríkisráðuneytið að vinna þarfara verk. Það kostar skrásetningu sem flestra Vestur- Íslendinga. Það er mikið verk, því að talið er, að þar búi nú rúmlega 200 þúsund manns af íslenzkum ættum.

Þannig veit vinstri hönd ríkisins ekki, hvað hin hægri er að gera. Annars vegar er ríkið að verja peningum til að afla heimilda, sem falla vel að þjóðaríþrótt Íslendinga og færa henni nýja vídd. Hins vegar starfrækir ríkið nefnd, sem reynir að stöðva nytsamar upplýsingar.

Frægust er tölvunefnd fyrir að biðja fjármálaráðuneytið um að banna fjölmiðlum að vinna upplýsingar úr skattskrám, nota við það hættulegar aðferðir á borð við samlagningu og frádrátt, margföldun og deilingu, og birta síðan óhroðann á prenti, svo að allir megi sjá.

Þetta hafa íslenzkir fjölmiðlar einmitt gert frá ómunatíð, lesendum til gagns og gamans, en nokkrum einstaklingum til mæðu. Þeir telja þetta vera brot á friðhelgi einkalífs síns og hafa fengið stuðning Tölvunefndar, sem hyggst nú koma í veg fyrir framhald þessara skrifa.

Fjármálaráðherra varð við tilmælum nefndarinnar og gaf út reglugerð í vor, sem æ síðan verður við hann kennd. Hann hefur að sjálfsögðu verið hafður að háði og spotti, innan og utan Alþingis, og þá enn frekar, þegar til kastanna kemur að beita reglugerðinni í sumar.

Auðvitað dettur engum í hug, að lög eða reglugerðir um Tölvunefnd og reglugerðir, sem byggjast á þeim pappírum, skáki stjórnarskránni, enda eru nú blessunarlega komnir til sögunnar dómstólar úti í heimi, sem geta tekið íslenzka reglugerðasmiði og pokadómara í nefið.

Tölvunefnd heldur þó áfram að puða í hlutverki Stóra bróður. Henni tókst á sínum tíma að koma í veg fyrir nothæfa sundurliðun símreikninga með því að heimta, að fyrstu tölustafir símanúmera birtust ekki. Næst gæti henni dottið í hug að reyna að banna símaskrána.

Nefndin vill koma í veg fyrir, að Íslendingar geti nýtt sér upplýsingatækni nútímans eins vel og þau lönd, sem lengst eru komin á því sviði. Hún reynir til dæmis að koma í veg fyrir samkeyrslu á skrám, sem oft leiða í ljós nákvæmari og betri upplýsingar en menn höfðu áður.

Landhreinsun væri að afnámi hinnar skaðlegu Tölvunefndar, sem reynir að koma í veg fyrir, að þjóðfélagið verði gagnsærra og auðskildara öllum almenningi.

Jónas Kristjánsson

DV

Frá smámálum til stórmála

Greinar

Samkeppnisstofnun er farin að líta upp úr smámálum og veita stórmálum athygli. Hafin er þar rannsókn á tveimur fákeppnismörkuðum, annars vegar flugi og hins vegar greiðslukortum. Rannsókn á benzíni og bönkum, tryggingum og landbúnaði kemur vonandi í kjölfarið.

Í upphafi ársins 1995 gaf stofnunin út skýrslu um stjórnunar- og eignatengsl í atvinnulífinu. Niðurstaða hennar sýndi skýr einkenni um fákeppni hér á landi. Rannsókn á flugi og greiðslukortum er fyrsta skref stofnunarinnar til að bregðast við þessum veruleika.

Flugið er ljóst dæmi um óeðlilegt markaðsástand. Eitt fyrirtæki ber þar ægishjálm í skjóli opinberra sérleyfa og eindregins stuðnings samgönguráðuneytisins. Þessa sérstöðu hafa Flugleiðir notað til að ryðja sér til rúms á skyldum sviðum, svo sem í hótelum og bílaleigu.

Þegar flugvélar Flugleiða eru að lenda á Keflavíkurvelli, er í hátalarakerfinu mælt með hótelum og bílaleigu fyrirtækisins. Þannig myndast lóðrétt kerfi, þar sem ofurstaða á einu meginsviði er notuð til að halda ferðamanninum einnig undir væng fyrirtækisins á jörðu niðri.

Þannig flétta Flugleiðir net niður á við, alveg eins og þær eru þáttur í stærra neti, sem hefur Eimskipafélagið að miðju og hefur á allra síðustu árum teygt þræði sína um vöruflutninga á landi. Þannig er að myndast ein ofurfyrirtækjasamsteypa í samgöngum og ferðamálum.

Kortafyrirtækin tvö eru að mestu í eigu bankanna og samkeppnin hefur dofnað með árunum. Nú er svo komið, að þau nenna ekki að gæta hagsmuna viðskiptamanna sinna, til dæmis með því að þrýsta niður miklu álagi, sem þeir borga víða ofan á staðgreiðsluverð.

Skiljanlegt er, að Samkeppnisstofnun geti ekki fengizt við meira en tvo málaflokka í einu, ef hún vill gera það af fullum þunga. Hinu er þó ekki að leyna, að olíufélögin tvö og hálft hefðu kunnað einkar vel við sig í þessum upphafshópi Flugleiða, Eurocard og Visa.

Þegar Irvin-feðgar ætluðu að setja hér upp olíufélag, vöknuðu fákeppnisaðilarnir af dvalanum, fóru að sækja um lóðir út og suður og komu á fót sjálfsafgreiðslu með ódýrara benzín. Þannig komu þau í veg fyrir, að Irvin- feðgar sæju sér nægilegan hag í markaðinum.

Meðan Irvin-málið var í gangi, var lítið um benzínhækkanir. Þegar þeir höfðu hætt við, fór benzín skyndilega að hækka. Ekki má svo verða hreyfing upp á við í verði í Rotterdam, að það endurspeglist ekki umsvifalaust hér. En niðursveiflan gleymist oftast.

Neytendasamtökin hafa sérstaklega beðið Samkeppnisstofnun um að rannsaka benzínhækkanirnar að undanförnu og samhengi þeirra við verðsveiflur á markaði í útlöndum. Einnig hafa þau óskað eftir árangri í verði af hagræðingu vegna fækkunar oktantegunda benzíns.

Tryggingafélögin eru enn eitt dæmi um fákeppni, sem bezt lýsir sér í frækilegri og sameiginlegri aðför þeirra að slösuðu fólki, þar sem þau nutu stuðnings þess meirihluta, sem Sjálfstæðisflokkurinn myndar hverju sinni á Alþingi, ljúflegast þó með Framsóknarflokknum.

Félag íslenzkra bifreiðaeigenda er að gera tilraun til að brjótast undan ofurvaldi tryggingafélaganna. Það stendur í viðræðum við tryggingafélag á vegum Lloyd’s í London. Væntingar eru um, að þetta rjúfi skarð í hinn séríslenzka múr fáokunar gegn markaðslögmálum.

Íslenzkt atvinnulíf er vegna smæðar, einangrunar og ríkisverndaðrar fákeppni ekki samkeppnishæft við erlent. Rannsókn á þessu ástandi er einkar vel þegin.

Jónas Kristjánsson

DV

Mælt með auðmannafæði

Greinar

Holur hljómur er í góðviljaðri herferð nokkurra samtaka og stofnana fyrir aukinni neyzlu grænmetis. Fyrirstaðan er nefnilega ekki lengur óbeit almennings á grænmeti, heldur ofurtollar stjórnmálaflokkanna, sem halda fólki frá neyzlu þessa nauðsynlega fæðuflokks.

Tollaheimildum landbúnaðarráðuneytisins hefur verið beitt til hins ýtrasta af ráðherrunum Halldóri Blöndal og Guðmundi Bjarnasyni, sem telja sig vera í vinnu hjá þröngum sérhagsmunum og víla ekki fyrir sér að ráðast gegn heilsufari allrar þjóðarinnar í því skyni.

Tollarnir koma harðast niður á vandaðri grænmetisframleiðslu, sem er tiltölulega dýr í innkaupi, þótt hún sé á því stigi ódýrari en ýmsir aðrir fæðuflokkar, sem við notum of mikið af. Verðtollurinn leggst á innkaupsverðið og hækkar vöruna út fyrir allan þjófabálk.

Lífrænt ræktað grænmeti er sá hluti þessa mikilvæga fæðuflokks, sem líklegast er, að sé laus við ýmis aukefni, sem allt of mikið eru notuð sums staðar í erlendum landbúnaði. Í verzlunum hér á landi er kílóverð lífræns grænmetis á bilinu frá 500 í 1000 krónur.

Almenningur telur sig ekki hafa ráð á að kaupa hollustuvöru á þessu verði. Því má vinsamlega benda hinum góðviljuðu samtökum og stofnunum á að snúa sér til stjórnmálaflokka þjóðarinnar, hinna raunverulegu ábyrgðaraðila rangs mataræðis þjóðarinnar.

Afleiðing verðstefnunnar, sem áður var rekin af Halldóri Blöndal og nú af Guðmundi Bjarnasyni, er sú, að nærri eingöngu er flutt inn allra ódýrasta grænmetið, það sem ræktað er með mestri notkun vaxtaraukandi aukefna. Þetta óholla grænmeti fyllir búðirnar.

Það er ábyrðgarhluti góðviljaðra samtaka og stofnana að hvetja til neyzlu á vöru, sem verður til með gífurlegri notkun eiturefna af ýmsu tagi. Miklu nær væri fyrir þessa aðila að beita áhrifamætti sínum til lækkunar verðs á hollu grænmeti úr eðlilegri ræktun, helzt lífrænni.

Góðviljaða fólkið, sem skrifað hefur greinar í blöð um nauðsyn þess, að við aukum grænmetisneyzlu okkar upp í svonefnda fimm skammta á dag, virðist búa við veruleika, sem peningalítill almenningur þekkir ekki, eða þá að það lítur framhjá misjafnri hollustu grænmetis.

Þegar verð venjulegrar papriku fer yfir 1000 krónur á kílóið og eðlilega ræktaðrar papriku enn hærra, er miklu nær fyrir þetta góðviljaða fólk að fara í mótmælagöngur, mótmælasetur og mótmælaskrif gegn glæpaiðju landbúnaðarráðuneytisins og stjórnmálaflokkanna allra.

Með því að stýra neyzlu almennings annars vegar frá vönduðu grænmeti til óvandaðs grænmetis og hins vegar frá grænmeti til ofnotaðra fæðutegunda eru ráðuneytið og flokkarnir að skaða heilsu þjóðarinnar. Verðstýring yfirvalda er ekkert annað en glæpur gegn þjóðinni.

Afleiðing skelfilegrar verðstefnu er, að við borðum lakara grænmeti og minna af grænmeti en nokkur önnur þjóð á Vesturlöndum og erum lengst þessara þjóða frá því að ná þeirri hlutdeild grænmetis, sem mælt er með af hálfu fjölþjóðlegra heilbrigðisstofnana.

Í þessari stöðu væri skynsamlegast, að áhugasamtök um heilsufar tækju saman höndum við áhugasamtök um efnahag fólks, svo sem neytendasamtök, um að beina þrýstingi sínum að þjóðhættulegum stjórnmálaflokkum, þingmönnum þeirra, ráðherrum og embættismönnum.

Herferð áhugasamtakanna er ekki raunhæf, meðan hún lætur í friði hina raunverulegu orsakavalda, sem hafa gert hollustuvöru að auðmannafæði.

Jónas Kristjánsson

DV

Líkt við fótboltabullu

Greinar

Undir fyrirsögninni: “Geðveikt, slæmt og hættulegt” segir brezka tímaritið Economist í síðasta forsíðuleiðara, að framganga Johns Major forsætisráðherra í kúariðumálinu kunni að verða áliti Bretlands í útlöndum jafn skaðleg og framferði brezkra fótboltabullna.

Economist hefur lengst af verið hallt undir Major, en hefur nú snúið við blaðinu. Það segir, að jákvæðasta túlkunin á stríðsyfirlýsingum forsætisráðherrans gegn Evrópusambandinu sé sú, að hún sé örvæntingarfullt áhættuspil ríkisstjórnar, sem sé að dofna og hverfa.

John Major hefur ákveðið að Bretland taki ekki þátt í samstarfi innan Evrópusambandsins fyrr en lönd þess leyfi á nýjan leik innflutning á brezku nautakjöti. Hefur hann skipað sérstakt “stríðsrekstrarráðuneyti” í hefndarskyni til að vinna hermdarverk á samstarfinu.

Raunar getur brezka ríkisstjórnin sjálfri sér kennt um innflutningsbann nágrannaríkjanna. Hún reyndi lengi að halda leyndum upplýsingum um útbreiðslu kúariðunnar og vanrækti að gera sannfærandi ráðstafanir til að tryggja heilsu og hagsmuni neytenda.

Skoðanakannanir í Bretlandi benda til, að meirihluti kjósenda átti sig á, að það er brezka ríkisstjórnin, en ekki Evrópusambandið, sem hefur klúðrað kúariðumálinu. En þær sýna líka, að meirihluti kjósenda styður stríðsyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í málinu.

Hugsanlegt er, að gersamlega ábyrgðarlaust framferði Majors og ríkisstjórnar hans geti vakið upp dvínandi fylgi kjósenda með stuðningi gulu pressunnar, sem virðist vera að endurlifa upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar. Þar með kæmist bjálfasvipur á þjóðina í heild.

Það skaðar alla aðila og mest Breta sjálfa, ef Bretland einangrast vegna þröngsýns stuðnings þjóðernissinnaðs almennings við forsætisráðherra, sem er orðinn innikróaður og pólitískt hættulegur umhverfi sínu, af því að hann fer hamförum við að reyna að halda embættinu.

John Major hefur áður sýnt, að hann er ábyrgðarlaus tækifærissinni. Það kom fram í viðbrögðum hans við tillögu Mitchell-nefndarinnar um lausn deilnanna í Norður- Írlandi. Þessi nefnd, sem hann átti þátt í að skipa, lagði til samhliða afvopnun og viðræður í áföngum.

Tillögurnar birtust í janúar og vöktu almenna velþóknun. John Major taldi sig hins vegar þurfa á að halda atkvæðum róttækra sambandssinna í Norður-Írlandi til að verja ríkisstjórnina falli. Hann hafnaði tillögunum og kastaði sjálfur fram umdeildum sprengjuhugmyndum.

Um þetta leyti voru ábyrgir fjölmiðlar í Bretlandi farnir að átta sig á, hversu ómerkilegur forsætisráðherrann var. Þeir hefðu þó átt að vera búnir að sjá það fyrir fjórum árum af japli hans, jamli og fuðri í Bosníudeilunni, að hann var ekki bógur til að ráða fyrir ríkjum.

Máttvana, tækifærissinnuð og örvæntingarfull vinnubrögð hans eru gerólík stjórnarháttum forverans, Margaret Thatcher, sem hafði heilsteypta heimsmynd og bein í nefinu til að framfylgja henni. Nýju vinnubrögðin hafa komið illu af stað og hafa skaðað Bretland.

Fjölmiðlar á meginlandi Evrópu hafa lýst furðu sinni á framferði brezka forsætisráðherrans . Æruverðug blöð tala sum um “klikkun” og önnur um “vitfirringu”. Þessi viðbrögð rýra auðvitað vilja ráðamanna á meginlandinu til að hliðra til fyrir brezkum sjónarmiðum.

Illa er komið fyrir gömlu heimsveldi að vera smám saman að breytast í einangrunarsinnað, illa lynt og fyrirlitið gamalmenni, sem fær hvergi vilja sínum framgengt.

Jónas Kristjánsson

DV

Könnuður á hálum ís

Greinar

Eitt fyrirtækið, sem stundar skoðanakannanir, spurði um daginn fyrir félagsmálaráðuneytið, hvort menn vildu auka völd almennra félagsmanna í stéttarfélögum á kostnað valdamanna í þeim félögum “eins og lagt er til í nýju frumvarpi um stéttarfélög og vinnudeilur”.

Vandinn við þessa villandi og leiðandi spurningu er sá, að ekki er samkomulag um, hvort nýja frumvarpið auki völd almennra félagsmanna eins og fullyrt er í síðari hluta spurningarinnar. Það fer eftir hugsanabrautum hvers fyrir sig, hvort hann telur svo vera eða ekki.

Í leiðurum þessa blaðs hefur frumvarpið fengið stuðning. Ráðamenn stéttarfélaga eru því hins vegar afar andvígir og fullyrða, að andstaðan stafi ekki af því, að þeir missi völd til almennra félagsmanna. Röksemdir þeirra eru ekki traustvekjandi, en þær eru samt til.

Stjórnendur Gallup halda því fram, að orðalag spurningarinnar komi því ekkert við, að það var félagsmálaráðuneytið, sem borgaði fyrir spurninguna og taldi niðurstöðu hennar henta sér vel. Þetta getur svo sem verið rétt, en breytir því ekki, að spurningin er leiðandi.

Könnunarfyrirtæki er á hálum ís, þegar það leggur fram spurningu, er felur í sér fullyrðingu, sem er umdeild á þann hátt, að hópur manna telur hana ranga, að vísu á veikum forsendum, og þegar það fær á þann hátt niðurstöðu, sem er í þágu umbjóðandans.

Með spurningunni gaf Gallup-fyrirtækið ekki aðeins höggstað á sér, heldur einnig á öðrum stofnunum og fyrirtækjum, sem fást við að kanna hugi og skoðanir fólks. Það skaðar þessa aðila, þegar unnt er að kasta almennt rýrð á skoðanakannanir vegna augljósra mistaka.

Traust fólks á skoðanakönnunum hefur byggzt upp á löngum tíma. Áratugum saman hafa niðurstöður síðustu kannana fyrir kosningar verið bornar saman við niðurstöður kosninganna sjálfra. Samanburðurinn hefur stuðlað að eflingu og viðhaldi þessa almenna trausts.

Raunar er ekki örgrannt um, að traust stjórnmálamanna á slíkum könnunum keyri um þverbak, þegar þeir eru farnir að velta fyrir sér tilfærslum, sem eru innan skekkjumarka, sem birt eru með niðurstöðutölunum. En þetta traust byggist á langri og góðri reynslu.

Auðvitað fer það í taugar þeirra, sem áratugum saman hafa staðið fyrir ábyrgum skoðanakönnunum, þegar til skjalanna koma viðskiptafíknir menn, sem höggva í þetta gróna traust með vinnubrögðum, er samræmast ekki góðum og gildum hefðum á þessu viðkvæma sviði.

Nauðsynlegt er að gera skarpan greinarmun á könnuðum, sem fara hefðbundnar leiðir, og hinum, sem spyrja spurninga, er fela í sér forsendur, sem kunna að vera umdeildar. Síðari hópurinn fær auðvitað í bili viðskipti þeirra aðila, sem vilja panta sér niðurstöður.

Þetta hefnir sín svo auðvitað, þegar allt dæmið er vefengt, svo sem gert hefur verið í þessu tilviki. Félagsmálaráðuneytið hefur ekki fengið þá útkomu, sem það sóttist eftir, því að það hefur verið sakað um aðild að óvísindalegum vinnubrögðum. Spurning þess ónýttist með öllu.

Til langs tíma litið er affarasælast fyrir alla, að gömlu hefðunum sé fylgt og menn hætti sér ekki út á þann hála ís, sem hér hefur verið gerður að umræðuefni. Heildarviðskipti þjóðfélagsins við skoðanakönnuði hljóta að fara eftir trúverðugleika greinarinnar í heild.

Eins og skoðanakannanir hafa hingað til verið, gera þær oftast gagn með því að auka þekkingu almennings á innviðum þjóðfélagsins og gangverki þjóðlífsins.

Jónas Kristjánsson

DV