Endaspretturinn brást

Greinar

Hvorki getur það talizt eðlilegt né forsvaranlegt, að samband Íslands við umheiminn á netinu rofni tíu sinnum á tveimur mánuðum, svo sem nú hefur gerzt. Enn síður er frambærilegt, að það skuli taka fjórtán tíma að fá sambandið leitt framhjá bilun í Danmörku.

Meðan ástandið er svona er tómt mál að tala um þátttöku Íslands í upplýsingasamfélagi nútímans. Útilokað er að stofna fyrirtæki á Íslandi á þessu sviði með fjarvinnslu í huga, af því að sjálf umferðaræðin er í ólagi og getur hæglega komið rekstrinum á kaldan klaka.

Netsamband á Íslandi einkennist af miklum þrengslum og tíðum bilunum. Ef ástand netsins sjálfs væri ekki svona, hefðum við alla burði til að vera virkir aðilar að hátekjugreinum upplýsingatækninnar. Íslendingar eru nefnilega komnir þjóða lengst í að nota tölvur.

Fyrir mörgum árum urðum við fyrir því láni að komast hjá óhóflegum opinberum gjöldum á tölvur. Þær streymdu inn í landið, bæði í fyrirtæki og skóla. Við urðum skyndilega læs á tölvur og sáum fyrir okkur mikla nýsköpun í spánnýjum greinum atvinnulífsins.

Netið gat orðið punkturinn yfir i-ið í þessari hagstæðu þróun. Með því fékkst ódýrt samband, sem eyddi herkostnaðinum af að standa í alþjóðlegri samkeppni frá fjarlægri strönd norður í hafi. Við gátum keppt á jafnréttisgrundvelli við aðila í nöflum alheimsins.

Því miður hefur þetta ekki gerzt. Endasprettinn vantaði. Þröng og ótraust samgönguæð tölvuheimsins hefur stórskaðað íslenzk fyrirtæki í samkeppni við erlend og dregið hastarlega úr trú manna á, að það þýði að keppa við útlenda aðila á sviðum upplýsingatækni.

Póstur og sími hefur aldrei haft áhuga á netinu og raunar látið það fara í taugarnar á sér, enda hefur það rutt til hliðar stafrænum samgöngutækjum af miklu dýrara tagi, sem stofnunin taldi henta betur. Frá Pósti og síma er því ekki að vænta jákvæðra strauma.

Reynslan sýnir líka, að Póstur og sími sinnir með hangandi hendi öðru mesta nauðsynjamáli netsins, það er rekstrarörygginu. Og í verðlagningu segir stofnunin réttilega, að það sé ekki í hennar valdi að greiða niður ákveðna þætti símaþjónustunnar í landinu.

Ísnet er fyrirtækið, sem leigir bandbreidd á sæstreng af Pósti og síma til notkunar fyrir netið og leigir síðan notendum aðgang að bandbreiddinni. Til þess að halda verðlagningu á aðgangi að netinu í svipuðum farvegi og í útlöndum, hefur Ísnet ekki ráð á neinni vannýtingu.

Segja má, að jafnan sé fullnýtt sú bandbreidd, sem til ráðstöfunar er hverju sinni á netinu. Sí og æ er verið að auka bandbreiddina, en hún fyllist jafnóðum af notendum. Nokkrum sinnum á dag eru þrengsli og hægagangur áberandi á netinu vegna of mikils álags.

Pósti og síma má segja það til hróss, að hann hefur tryggt sér aðild að sæstrengjum með mikla flutningsgetu. Þess vegna getur hann fyrirvaralaust útvegað aukna bandbreidd, þegar á þarf að halda. En hann vill auðvitað fá eitthvað fyrir sinn snúð.

Ríkisvaldið getur komið að þessu máli með því að ábyrgjast leigu fyrir ákveðinn slaka á netinu, það er bandbreidd, sem enn nýtist ekki, en mun nýtast á næstu vikum eða mánuðum. Það er eins og að leggja umferðaræðar með tilliti til væntanlegrar framtíðarumferðar.

Ríkisvaldinu ber að líta á þetta verkefni eins og vegakerfið og leggja fram fé til að tryggja fullkomna afkastagetu og rekstraröryggi netsins innan lands og utan.

Jónas Kristjánsson

DV

Burma strikuð út

Greinar

Fyrir rúmri viku var hætt við að undirbúa framleiðslu á hollenzkum Heineken bjór og dönskum Carlsberg bjór í Burma. Hinir evrópsku framleiðendur töldu, að frekari undirbúningur gæti varpað skugga á ímynd vörumerkja sinna í heimalöndunum í Evrópu.

Vaxandi þrýstingur er nú á bandarísk og evrópsk fyrirtæki að hætta við fjárfestingar í Burma vegna óhugnanlegrar stjórnar herforingja þar í landi. Tillögurnar um viðskiptabann eru upprunnar hjá frelsishetju Burma, nóbelsverðlaunahafanum Daw Aung San Suu Kyi.

Röksemdir frúarinnar í Burma eru hinar sömu og Nelsons Mandela á sínum tíma, þegar hann hvatti til viðskiptabanns á Suður-Afríku. Slíkt bann stuðlar að falli harðstjóranna á staðnum. Það er æskilegt markmið, þótt það kosti almenning nokkrar fórnir um tíma.

Suu Kyi og Mandela hafa bæði sett fram rækilega röksemdafærslu gegn því sjónarmiði, að ekki skuli beita efnahagslegum refsiaðgerðum gegn ríkjum, af því að það komi þyngst niður á almenningi í landinu. Almennt hefur röksemdafærsla viðskiptabanns verið tekin gild.

Ýmis Asíufyrirtæki hlaupa í skarð bandarísku og evrópsku fyrirtækjanna, sem hafa gefizt upp á Burma. Asíufyrirtækin beita sömu röksemd og áður var beitt til stuðnings viðskiptum við Suður-Afríku og segja þar að auki, að jákvæð samskipti og viðskipti bæti ástandið.

Skemmst er frá því að segja, að sagnfræðileg reynsla er fyrir því, að jákvæð samskipti og viðskipti bæta ekki ástandið í ríkjum harðstjórnar, heldur gera þau illt verra. Þetta er til dæmis að koma í ljós um þessar mundir í Kína og þar á undan greinilega í ljós í Serbíu.

Þeir, sem stunda viðskipti við Burma, til dæmis með því að ferðast þangað, efla gjaldeyristekjur herstjórnarinnar og framlengja ævidaga hennar. Þetta gildir um íslenzka ferðalanga eins og aðra. Sérhver verður að eiga við sjálfan sig, hvort hann telur það við hæfi.

Segja má, að þetta gildi um ýmis önnur lönd, þar sem stjórnarfar er afleitt og stríðir gegn grundvallarlögmálum mannréttinda. En einhvers staðar verður að draga mörkin. Nægilegt er að beina athyglinni að nokkrum verstu ríkjunum í senn og líta mildari augum á önnur.

Ástand mannréttinda í Indónesíu er ekki eins slæmt og í Burma. Því getur það verið siðferðilega heilbrigt sjónarmið ferðamanns að skoða fremur fornfræg musteri í Indónesíu en í Burma, þótt bezt gerði hann í að skoða musteri í lýðfrjálsu ríki á borð við Indland.

Nokkur áhætta fylgir samskiptum við siðleysingja. Herstjórnin í Burma tók til dæmis höndum kjörræðismann Norðurlanda í landinu og pyndaði hann til bana. Henni gæti dottið í hug að taka ferðamenn í gíslingu, ef hún teldi það henta sér við einhverjar aðstæður.

Saddam Hussein Íraksforseti tók Vesturlandabúa í gíslingu og Karadzic, forseti Bosníu-Serba, gerði það líka. Hinum fyrrnefnda tókst ekki að ná árangri, en hinum síðarnefnda tókst það. Gestir í slíkum löndum verða að hafa í huga, að valdhafar þar taka skyndiákvarðanir.

Á Vesturlöndum fara nú fram viðræður stjórnvalda um viðskiptabann á Burma. Ekki er ljóst, hver niðurstaðan verður. Hins vegar er ljóst, að margt baráttufólk mannréttinda vill gera Burma að sams konar sýnishorni viðskiptaþvingana og Suður-Afríka var á sínum tíma.

Fjölþjóðafyrirtæki með víðtæka ímyndarhagsmuni á Vesturlöndum eru að strika Burma af verkefnaskránni til að kalla ekki yfir sig refsiaðgerðir fólks.

Jónas Kristjánsson

DV

Ný tegund ferðaþjónustu

Greinar

Sumir ferðamenn vilja helzt flatmaga í sólskini í sumarleyfum og fara til sólarstranda. Aðrir ferðamenn vilja helzt kynnast sögufrægum minjum og fara til fornborga Evrópu. Enn aðrir vilja helzt sjá stórbrotna náttúru og fara vítt um álfur, meðal annars til Íslands.

Þannig eru áhugaefni ferðamanna margvísleg. Þeir, sem leggja land undir fót, eru misjafnir eins og mannfólkið í heild. Það, sem höfðar til eins, snertir ekki annan. En það eru ekki bara áhugaefnin, sem eru misjöfn, heldur einnig lífsstíllinn og þar með talinn ferðastíll.

Flestir ferðamenn, sem hingað koma, fara í skoðunarferðir, einkum í hópferðabílum, undir leiðsögn fróðra manna, sem útlista náttúrna og segja ef til vill lítillega frá sögunni, ef einhver hefur líka áhuga á henni. Þetta hafa hingað til reynzt okkur ágætir ferðamenn.

Takmörk eru þó fyrir útþenslu þessarar tegundar ferðamennsku. Margir ferðamenn hafa önnur áhugamál og annan lífsstíl. Og sumir áfangastaðir hefðbundinna ferðamanna sæta afar miklu álagi á þeim skamma tíma ársins, sem hin hefðbundna ferðavertíð stendur.

Til eru ferðamenn, sem ekki kæra sig um að sitja lengi í hópferðabílum eða láta leiðsögumenn teyma sig milli skoðunarstaða. Til dæmis er til margt af mjög vel stæðu fólki á fremur ungum aldri, sem kýs athafnir í sumarleyfum. Það vill gera eitthvað sjálft í fríinu.

Dæmigert er fólk á framabraut, sem skokkar eða fer í líkamsræktarstöð í hádeginu. Það flýgur til Sviss um lengda helgi til að bregða sér á skíði. Eða til Egyptalands til að bregða sér í tveggja daga ferð á arabískum hestum milli píramídanna við Gíza og Sakkara.

Auðvitað er þetta kraftmikla fólk í miklum minnihluta meðal ferðamanna, en eigi að síður áhugavert. Það hefur miklu meira fé milli handanna en annað ferðafólk og lætur sér ekki bregða, þótt hlutirnir kosti peninga. Það aflar þeirra hratt og eyðir þeim hratt.

Við höfum lengi séð sumt af þessu fólki í vikulöngum hestaferðum yfir hálendi Íslands. Við erum að byrja að sjá það í vélsleðaferðum á jöklum landsins. Við erum að byrja að sjá það í göngu á Laugaveginum á Fjallabaksleið og bráðum einnig á gönguleið Reykjanesvegar.

Unnt er að höfða til slíks fólks á fleiri sviðum. Kennsla í meðferð tryllitækja í sandgryfjum er einn möguleikinn af mörgum og nyti þeirrar frægðar, sem sandgryfjukeppni á Íslandi hefur öðlazt í útlöndum. Slík tegund ferðamennsku á að geta gefið mikið í aðra hönd.

Bezt væri, ef ferðaþjónusta fyrir athafnasama ferðamenn styddi hver aðra með sameinaðri aðstöðu og markaðssetningu. Á Nesjvöllum mætti til dæmis koma upp heilsuböðum með útsýnissundlaug í Hengli og hafa miðstöð hestaferða, vélsleðaferða og gönguferða.

Enn frekar en Bláa lónið bjóða Nesjavellir frábæra náttúru að sviðsmynd, án þess að álag aukist á hefðbundna skoðunarstaði. Þeir eru í nágrenni Reykjavíkur og geta nýtt innviði borgarinnar, svo sem lúxushótel, hágæða veitingahús og merkjavöruverzlanir.

Til þess að standa skynsamlega að nýtingu svæðis á borð við Nesjavelli til ferðaþjónustu þurfa aðilar frá borginni og áhugasamir einkaaðilar að stofna þróunarfélag til að tryggja skynsamlega hönnun mannvirkja, fjölbreytta þjónustu og samstarf um markaðssetningu.

Þetta er dæmi um, að ferðaþjónustan á ekki að einblína á talningu og fjölgun hausa og gistinátta, heldur velta fyrir sér auknum tekjum á hvern ferðamann á dag.

Jónas Kristjánsson

DV

Tíu þúsund morgunfyllirí

Greinar

“Eruð þið ekki hress” eru einkunnarorð sumra síkátra þátta- og skemmtistjóra í útvarpi og sjónvarpi. Auglýsingar snúast margar um meinta hressu og fjör markhópsins. Einkum á þetta við um mál, sem helzt eru ætluð ungu fólki, sem langar til að verða hresst.

Með þessu er óbeint verið að koma því inn hjá fólki, að það eigi alltaf að vera hresst, þótt slíkt ástand sé í hæsta máta óeðlilegt. Eðlilegt er, að fólk sé stundum hresst og stundum ekki. Lífið er blanda af blíðu og stríðu. Sársaukinn verður seint gerður útlægur með lyfjum.

Fólk telur sig þurfa að ná í geðbreytilyf til að fullnægja kröfu umhverfisins um síhressu. Kaupsýslumenn á Manhattan nota margir hverjir kókaín til að geta djöflazt áfram með bros á vör í svo sem einn áratug, áður en þeir hrynja niður og verða að grænmeti á hæli.

Brennivínið er hefðbundið geðbreytilyf Íslendinga. Með því tekst okkur að vera hress í samkvæmum um nokkurra ára eða áratuga skeið, unz kemur í ljós, að geðbreytilyfið er fíkniefni, sem kallar á meira og meira, en nær samt minna og minna af upprunalegum áhrifum.

Fyrir nokkrum áratugum taldi ungt fólk, að til væru vímuefni, sem ekki hefðu eins ömurlegar afleiðingar og áfengi. Eftir nokkurn tíma kom í ljós, að þessi efni fara mun hægar úr líkamanum en áfengið og eru því erfiðari viðfangs, þegar menn verða að reyna að hætta.

Á allra síðustu árum hefur læknadóp tekið við sem lausnarorð Íslendinga, einkum gleðipillan prozak og ýmsar útgáfur hennar. 20.000-30.000 landsmenn eru taldir nota þetta þunglyndislyf einhvern tíma á árinu. Á hverjum morgni taka 10.000 manns inn vímuefnið prozak.

Með hjálp lækna eru 10.000 manns komin á fyllirí strax að morgni á virkum degi. Notkun slíkra lyfja hefur tvöfaldazt hér á landi á fjórum árum og er nú tvöfalt meiri en á Norðurlöndunum, þar sem menn eru líka drjúgir við að þurfa lyf til að horfast í augu við daginn.

Aðstoðarlandlæknir telur sér trú um, að þessi nýju lyf séu án aukaverkana. Hann skilur ekki það eðli geðbreytilyfja, að þau eru fíkniefni, sem kalla á meira og meira magn um leið og áhrif þeirra fara minnkandi með langvinnri notkun. Aukaverkanir prozaks verða hrikalegar.

Eftir um það bil áratug verða meðferðarstofnanir fullar af fólki, sem hefur glatað jafnvægi vegna ofnotkunar á prozaki, nákvæmlega eins og þær eru núna fullar af fólki, sem er þar út af amfetamíni og hassi, og alveg eins og þær voru áður fullar af ofnotendum áfengis.

Það er nefnilega ekki ókeypis að verða við kröfu umheimsins um að vera hress og helzt síhress. Geðbreytilyf eiga öll það sameiginlegt að vera fíkniefni, hvort sem þau heita alkóhól, amfetamín eða prozak. Fólk ánetjast geðbreytilyfjum og getur ekki hætt að nota þau.

Með öllum þessum lyfjum er verið að reyna að vinna gegn mannlegu eðli. Það er verið að framleiða hressu, sem ekki byggist á náttúrulegum orsökum. Það er verið að hjálpa fólki við að verða við kröfu umheimsins um að vera sífellt með bros á vör og til í fjörið.

Ef hægt væri til lengdar að stjórna geði fólks með prozaki eða fyrirrennurum þess, væri hægt að búa til hryllingsþjóðfélag, þar sem fólk gengur í leiðslu og lætur hvað sem er yfir sig ganga. En mannlegt eðli krefst þess að fá stundum að vera þunglynt og kvíðafullt.

Heilbrigðisyfirvöld leiða okkur í mikinn háska með stjórnlausri niðurgreiðslu nýjustu fíknilyfja án tillits til síðari kostnaðar við að brjótast undan fíkninni.

Jónas Kristjánsson

DV

Pólitísk örorka

Greinar

Pólitískt skipað tryggingaráð hefur verið staðið að misnotkun almannafjár með því að úrskurða svikahrappi örorku, þvert ofan í umsögn trúnaðarlæknis Tryggingastofnunar, sem hafði komizt að raun um, að meint örorka mannsins væri tilbúningur frá rótum.

Ríkissaksóknari er um þessar mundir að gefa út ákæru á hendur skjólstæðingnum og nokkrum félögum hans, sem eru sakaðir um að hafa sviðsett slys á Grindavíkurvegi og Hvalfjarðarvegi og haft milljónir króna út úr tryggingafélögunum og Tryggingastofnun ríkisins.

Skjólstæðingurinn var fluttur með þyrlu úr Hvalfirði í bæinn, lagður inn á sjúkrahús og fór síðan í endurhæfingu. Á þessari leið aflaði hann sér margvíslegra læknisvottorða, sem voru marklaus með öllu, enda er kunnugt, að læknar gefa út slík vottorð á færibandi.

Trúnaðarlæknir Tryggingastofnunar var um þessar mundir í fríi. Þegar hann kom til vinnu, rannsakaði hann skjólstæðinginn og komst að raun um, að allt málið var hreinn leikaraskapur. Niðurstaðan var sú, að hann mælti ekki með, að maðurinn fengi dagpeninga.

Maðurinn kærði þetta til tryggingaráðs, sem er skipað pólitískum kvígildum, er alls enga þekkingu hafa á tryggingalæknisfræði. Ráðið hafði að engu umsögn hins sérmenntaða trúnaðarlæknis og úrskurðaði manninum örorku á kostnað skattgreiðenda í landinu.

Síðan hafa kvígildi úr tryggingaráði og forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, sem líka er pólitískt kvígildi, reynt að taka trúnaðarlækninn á teppið og hvetja hann til að hafa samráð um niðurstöður af þessu tagi, það er að segja taka tillit til pólitískrar örorku.

Tryggingalæknirinn lætur sér það í léttu rúmi liggja, þótt kvígildin tuði. Hann segist hvort sem er vera að fara á eftirlaun, svo að þau geti ekki gert sér neitt, þótt hann segi sannleikann um sóðaleg og raunar glæpsamleg vinnubrögð tryggingaráðs og Tryggingastofnunar.

Spurningin er svo, hvað gerist, þegar hinn árvökuli trúnaðarlæknir hættir störfum. Munu þá ekki forstjóri Tryggingastofnunarinnar og tryggingaráð finna sér lækni, sem hefur langa reynslu af sjálfvirkri útgáfu vottorða, og tekur tillit til pólitískrar örorku?

Trúnaðarlæknir Tryggingastofnunarinnar telur raunar, að útgjöld stofnunarinnar hafi verið að aukast óeðlilega mikið á síðustu árum, enda sé stofnunin að breytast úr hreinni tryggingastofnun í eins komar félagsmálastofnun, sem skilgreini örorku á félagslegan hátt.

Mál þetta varpar ljósi á frumstætt og séríslenzkt ástand í stjórnkerfi landsins. Þar eru atvinnulitlir aumingjar á framfæri stjórnmálaflokka enn í stórum stíl skipaðir í ráð og stjórnir til að ráðskast með almannafé og misnota það eins og dæmi Tryggingastofnunarinnar sýnir.

Ef mál þetta kæmi upp í alvöruríki á borð við Bandaríkin, sæti tryggingaráð í heild og forstjóri stofnunarinnar á bak við lás og slá. En við lifum því miður í eins konar Kardimommubæ, þar sem stjórnmálaflokkar komast upp með nánast hvað sem er vegna eymdar kjósenda.

Meðan kjósendur sætta sig við, að stjórnmálaflokkarnir líti á ríkissjóð sem herfang, er sé til skiptanna, og noti hvert tækifæri til að búa til lög og reglugerðir, sem kalla á miðstýringu af hálfu pólitískra kvígilda, verður ekkert vestrænt nútímaþjóðfélag hér á landi.

Þegar grannt er skoðað, er þetta ekki ráðum og stofnunum að kenna eða stjórnmálaflokkunum að baki þeirra. Eymd Íslands er einfaldlega kjósendum að kenna.

Jónas Kristjánsson

DV

Verjum Hveravelli

Greinar

Með stuðningi landbúnaðar- og umhverfisráðherra hyggjast gróðafíknir Svínvetningar ryðja Ferðafélagi Íslands burt af Hveravöllum og koma þar sjálfir upp umsvifamiklum hótel- og veitingarekstri, sem felur í sér atlögu að einni af helztu náttúruperlum landsins.

Svínvetningar gera þetta í krafti þess, að Hveravellir eru eitt af svæðunum, sem þeir hafa misþyrmt með ofbeit áratugum saman. Vellirnir eru hluti Auðkúluheiðar, sem fræg varð, þegar sauðfé Svínvetninga át jafnóðum umtalsverðan hluta þjóðargjafarinnar frá 1974.

Þá átti að minnast ellefu alda afmælis Íslandsbyggðar með því að snúa vörn í sókn í gróðurbúskap landsins. Það var einkum gert með því að sáldra áburði og fræi á húnvetnskar heiðar, en um leið var sauðfé fjölgað á afréttunum og þjóðargjöfin étin upp til agna.

Guðmundur Bjarnason, landbúnaðar- og umhverfisráðherra, er ætíð tilbúinn að styðja ýtrustu sérhagsmuni í landbúnaði gegn almannahagsmunum, svo sem ótal dæmi sanna. Í þessu máli hefur hann úrskurðað, að Svínavatnshreppur fari með skipulag á Hveravöllum.

Hæstiréttur hefur nokkrum sinnum fjallað um eignarhald á hálendi landsins og ævinlega hafnað öllum kröfum um eignarhald á því. Svínvetningar eiga því ekki Hveravelli, þótt ef til vill megi segja, að þeir hafi sögulegan rétt á að misþyrma landinu með ofbeit sauðfjár.

Brýnt er, að þjóðin láti nú í sér heyra, því að landbúnaðar- og umhverfisráðherra er að vinna að því að koma eignarhaldi á hálendinu í hendur þeirra sveitarfélga, sem nota afréttina og bera ábyrgð á ofbeitinni. Koma verður í veg fyrir það skipulega og markvissa slys.

Sveitarfélögin, sem liggja að hálendinu, eiga ekki að hafa neinn rétt á hálendinu umfram þau sveitarfélög, sem fjær liggja. Enda er áratuga reynsla fyrir því, að ábyrgðarmenn ofbeitarinnar eru sízt allra færir um að gæta almanna- og umhverfishagsmuna í máli þessu.

Hin séríslenzku vandræði á þessu sviði stafa beinlínis af, að umhverfismál hafa í rauninni verið gerð að undirdeild í landbúnaði, þótt þau séu formlega séð í öðru ráðuneyti. Þess vegna er umhverfismálum þjóðarinnar stýrt af þröngsýnum hagsmunagæzlumanni landbúnaðar.

Þjóðin verður að fara að rísa upp gegn þessum óvinum sínum og koma í veg fyrir afskipti þeirra af hálendinu. Ekki er nóg að hafna eignarhaldi þeirra á hálendinu, heldur einnig rétti þeirra til misnotkunar þess. Tími er kominn til að skrúfa alveg fyrir ofbeit sauðfjár.

Skipulag hálendisins á að vera hjá ríkinu en ekki hinum hættulegu sveitarfélögum, sem hafa farið illa með náttúru landsins. Gott væri að geta notað tilefni Hveravalla til að vekja Alþingi til meðvitundar um að grípa þarf skjótt til nýrra laga um skipulag hálendisins.

Á Hveravöllum hefur Svínavatnshreppur sýnt tennurnar, svo að ekki verður um villzt. Hreppurinn ætlar að bola Ferðafélagi Íslands af svæðinu og koma þar upp okurbúlum ofan í hverasvæðinu. Ef þjóðin grípur ekki strax til varnarvopna, er voðinn vís þar efra.

Á endanum verður það Alþingi eitt, sem getur stöðvað ráðherrann og sveitarfélögin. Þingmenn eru hræddir við kjósendur og taka oft mark á því, sem þeir segja. Þeir, sem áhyggjur hafa af málinu, ættu að tala við þingmenn í sínu kjördæmi og ekki skafa utan af skoðun sinni.

Ef þjóðin notfærir sér Hveravallamálið, getur hún markað þáttaskil í varðveizlu helztu fegurðarauðlinda landsins og tryggt heildarhagsmuni þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Þreyttir á þjóðkirkjunni

Greinar

Sóknarprestur Langholtssóknar upplýsti nýlega á fundi Prestafélags Íslands, að hann væri ekki hommi, hórdómsmaður, þjófur eða fyllibytta og ætti því skilið stuðning starfsbræðranna og -systranna. Hann fékk stuðninginn, ef til vill á ofangreindum forsendum.

Óneitanlega er það sérkennilegt siðferðismat að slengja saman í einn pakka ólíkum og óskyldum atriðum, sem sum hver eru að mestu líkamleg, samkynhneigð og ofdrykkju; og atriðum, sem varða brot á siðferðilegum eða lögskráðum reglum, hórdómi og þjófnaði.

Áður hefur komið fram, að sóknarpresturinn hefur á fleiri sviðum sérkennilegar skoðanir og framgöngu, sem veldur því, að leiðir hans og safnaðarins fara ekki að öllu leyti saman. Ágreiningurinn hefur orðið efniviður langdreginnar framhaldssögu í fjölmiðlunum.

Fleiri prestar eiga í útistöðum við söfnuði sína eða hluta þeirra. Skemmst er að minnast hjónavígslu, sem fór fram fyrir utan Möðruvallakirkju í Eyjafirði, af því að sóknarpresturinn vill ekki, að neinn annar prestur en hann sjálfur fái að vinna prestsverk í kirkjunni.

Sóknarpresturinn á Möðruvöllum hefur á prestastefnun flutt tillögur um, að prestar séu ekki að troða hver öðrum um tær með því að vilja vinna prestverk í kirkjum hver annars. Þær hafa ekki náð fram að ganga, en sýna samt, hvað er til umræðu hjá prestastéttinni.

Ekki eru til hreinar línur um samband prests og safnaðar, enda er um flókið mál að ræða, þegar sumir telja, að presturinn eigi að stýra söfnuðinum, og aðrir telja, að presturinn eigi að þjóna söfnuðinum. Ekkert samkomulag er um, hver eigi að stjórna hverjum.

Í veruleikanum er oftast farið bil beggja og ræðst það oftast af hefðum, sem skapast í hverri sókn fyrir sig. Sums staðar eru prestar mjög virkir og annars staðar sóknarnefndir. Yfirleitt er samkomulagið þolanlegt, ef málsaðilar kunna eitthvað í mannlegum samskiptum.

Ef prestur og sóknarnefnd hafa harðar skoðanir á því, hver eigi að ráða í samskiptunum, er augljóst, að allt fer í bál og brand, svo sem dæmin sanna. Þess vegna væri gott, ef línur yrðu dregnar og úr því skorið, hvort þjóðkirkjan sé safnaðarkirkja eða kennimannakirkja.

Þessi augljósi vandi tengist stöðu þjóðkirkjunnar sem ríkiskirkju og embættismannakirkju. Ef sú skoðun verður ofan á, að í þjóðkirkjunni skuli prestar stjórna, er eðlilegt, að ríkið þvoi hendur sínar, skilið verði milli ríkis og kirkju og hvor aðili fari sína leið.

Á síðari árum hefur vaxið umræða um aðskilnað ríkis og kirkju. Sífelldar uppákomur innan kirkjunnar, einkum þær er varða samskipti kennimanna við annað fólk, hafa magnað umræðuna. Raunsætt er þó að gera ráð fyrir, að svona róttæk breyting gerist á löngum tíma.

Á meðan er nauðsynlegt að löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið líti gagnrýnum augum á tillögur, sem koma frá stofnunum kirkju og prestastéttar, svo að ekki leki inn reglur, sem annað hvort magna ófrið stéttarinnar við leikmenn eða þrengja möguleika á aðskilnaði.

Sem stofnun verður þjóðkirkjan meira eða minna lömuð í hálft annað ár vegna sérkennilegrar stöðu biskups. Fulltrúar þjóðarinnar geta notað þennan tíma til að sporna gegn tilraunum presta til valdatöku og til að haga málum á þann veg, að skilja megi sundur ríki og kirkju.

Raunar hafa uppákomur innnan þjóðkirkjunnar verið slíkar á undanförnum misserum, að margir eru orðnir nokkuð þreyttir á henni sem ríkisstofnun.

Jónas Kristjánsson

DV

Hann skaðar sína kjósendur

Greinar

Guðmundur Bjarnason landbúnaðar- og umhverfisráðherra eykur samgönguerfiðleika landsbyggðarinnar með því að flytja Landmælingar Íslands úr Reykjavík til Akraness. Landsbyggðarfólk getur síður rekið erindi sín í einni borg í nágrenni Reykjavíkurflugvallar.

Sérþjónusta Landmælinganna er einkum veitt kaupstöðum og hreppsfélögum, bændum og upprekstrarfélögum, það er að segja landeigendum. Þessa þjónustu verður að sækja til Akraness eftir breytinguna, þótt sölubúð venjulegra ferðakorta verði áfram í Reykjavík.Almennt er til þæginda fyrir landsbyggðina að hafa alla opinbera þjónustu á einum stað. Flutningur ríkisstofnana úr Reykjavík hefur að vísu farið fram undir merkjum byggðastefnu, en raunverulegu áhrifin felast í auknum kostnaði og tímahraki aðila á landsbyggðinni.

Sum þjónusta er þó meira en önnur miðuð við þarfir landsbyggðarinnar. Flutningur innanlandsflugs frá Reykjavík til Keflavíkur væri til dæmis alvarlegt áfall fyrir landsbyggðarfólk, miklu frekar en fyrir Reykvíkinga. Landmælingarnar eru dæmi um slíka þjónustu.

Viðurkennt er, að engar efnahagslegar eða fjárhagslegar forsendur eru fyrir flutningi Landmælinganna til Akraness. Það er ekkert annað en pólitísk ákvörðun landbúnaðar- og umhverfisráðherra, sem telur sig munu fá klapp á bakið frá kjósendum sínum á landsbyggðinni.

Athyglisvert er, að ráðherra telur sig geta slegið pólitískar keilur á norðausturhorni landsins fyrir flutning stofnana milli sveitarfélaga á suðvesturhorninu. Það sýnir, að hann telur umbjóðendur sína ekki skilja tjónið, sem hann veldur þeim með þessari tegund dreifbýlisstefnu.

Umhugsunarvert er, að ráðherra kærir sig kollóttan um, þótt hann raski högum starfsmanna Landmælinganna, sem verða að segja upp störfum eða flytja búferlum. Röskun á högum fólks er ómerk í hans augum, ef hún varðar ekki sjálfvirka byggðaröskun í landinu.

Ráðherrann getur annað veifið haft grátstafinn í kverkunum út af mannlegri röskun, sem fylgir tilfærslu byggðar í landinu af völdum breyttra atvinnuhátta, og lagt milljarðaálögur á neytendur og skattgreiðendur til að hamla gegn eðlilegri búsetuþróun í landinu.

Hitt veifið er honum hjartanlega sama um, þótt annað fólk verði fyrir röskun, sem ekki fylgir neinni atvinnuþróun, heldur stafar af hreinu handafli stjórnmálaafla, sem fara offari í að búa til vonlausa varnargarða gegn því að Reykjavík eflist sem þjónustumiðstöð.

Vel er við hæfi ráðherrans, að hann hefur á undanförnum árum fengið Alþingi til að samþykkja viðamikla sérhönnun og endurbætur á húsnæði Landmælinganna í Reykjavík fyrir rúmlega fimm milljónir króna, sem ekki koma til baka, þegar ríkið þarf að selja húsnæðið.

Daginn, sem lokið var við þessar dýru og sérhæfðu innréttingar, ákvað ráðherrann að hafa þær að engu og flytja stofnunina á brott. Honum er greinilega hjartanlega sama um peninga hins opinbera, alveg eins og honum er sama um starfsmenn þess á höfuðborgarsvæðinu.

Fyrir tveimur árum mælti Hagsýsla ríkisins gegn flutningi Landmælinganna frá Reykjavík. Árið áður hafði sjálf Byggðastofnun, merkisberi byggðastefnunnar, varað við slíkum flutningi, einmitt vegna mikilla samskipta landsbyggðarfólks við stofnanir af þessu tagi.

Þessi aðgerð landbúnaðar- og umhverfisráðherra er fyrsta flokks dæmi um sukk og svínarí, rugl og ráðleysi, sem kjósendur umbera ónýtum stjórnmálamönnum.

Jónas Kristjánsson

DV

Aukin óvissa í Rússlandi

Greinar

Sigur Jeltsíns í forsetakosningunum í Rússlandi er hvorki neinn sigur lýðræðisins þar í landi né merki þess, að traust stjórnmála- og efnahagsástand verði í landinu. Sigurinn hefur þvert á móti í för með sér framhald á óstjórn og tilheyrandi einræðistilhneigingum.

Enginn þeirra þriggja frambjóðenda, sem lengst náðu í forsetakosningunum, getur talizt neinn lýðræðissinni og markaðsbúskaparmaður á vestræna vísu. Sá fulltrúi slíkra sjónarmiða, sem lengst komst í fyrri umferð kosninganna, fékk ekki nema 7% atkvæða kjósenda.

Jeltsín hefur gróflega misnotað forsetavaldið til að tryggja endurkjör sitt. Hann beitti ríkisfjölmiðlunum óspart í sína þágu í kosningabaráttunni og rústaði fjárhag ríkisins í umfangsmiklum atkvæðaveiðum. Hvort tveggja gefur eftirmönnum hans afar slæmt fordæmi.

Í tíð Jeltsíns hefur land ekki verið með lögum byggt, svo sem tíðkast á Vesturlöndum, heldur hefur hann stjórnað með tilskipunum að austrænum hætti. Tilskipanir hafa verið tilviljanakenndar, hafa stangazt hver á annarrar horn eða hafa hreinlega dagað uppi.

Önnur jákvæða fréttin frá Moskvu barst milli tveggja umferða kosninganna. Það var brottrekstur nokkurra harðlínumanna úr hirð Jeltsíns og endurreisn hagfræðingsins Tsjúbai, sem er síðasti Móhíkaninn úr sveit vestrænt hugsandi manna í föruneyti forsetans.

Hin jákvæða fréttin barst eftir síðari umferðina. Það var tilkynning Jeltsíns um, að Tsjernomyrdin forsætisráðherra mundi halda embætti sínu. Það er fremur traustur miðjumaður, sem gerir enga stóra hluti og reynir af varfærni að halda sjó í lífsins ólgusjó.

Hafa verður þó í huga, að Tsjernomyrdin hefur lítinn skilning á vestrænu markaðshagkerfi og að Tsjúbai hefur ekki fengið ráðherraembætti að nýju. Því má reikna með, að afturhvarfið frá vestrænum markaðsbúskap verði ekki hægara en það hefur verið að undanförnu.

Til að tryggja sig í síðari umferð kosninganna fékk Jeltsín til liðs við sig hershöfðingjann Alexander Lebed, sem náði þriðja sæti í fyrri umferðinni. Lebed er núna orðinn öryggisráðherra og einn valdamesti maður ríkisins. Hann á eftir að valda vandræðum.

Lebed minnir á suðurameríska einræðisherra úr röðum herforingja. Hann ber ekki gramm af skynbragði á efnahagsmál og gefur lítið fyrir kjaftavaðalinn og seinvirknina, sem oftast fylgir lýðræði. Hann er fullur fordóma og hefur lýst ímugust á vestrænni menningu.

Ekki eru horfur á, að Jeltsín geti hamið þennan hættulega bandamann sinn. Jeltsín er heilsulaus, svo sem títt er um rússneska ofdrykkjumenn á hans aldrei. Hann er langtímum saman frá störfum eða kemur fram þrútinn af drykkju eða náfölur og stífur af veikindum.

Ef Jeltsín fellur frá, er Tsjernomyrdin formlega séð eftirmaður hans. Hins vegar má búast við, að valdshyggjumaður á borð við Lebed reyni að nota millibilsástandið til að sölsa undir sig aukin völd. Það væri mjög í stíl valdafíkinna hershöfðingja í þriðja heiminum.

Kosningaúrslitin í Rússlandi sýna fyrst og fremst, að almenningur hefur algerlega hafnað vestrænum umbótum. Afturhvarfið var raunar byrjað á síðustu misserum fyrra kjörtímabils Jeltsíns og mun halda áfram á næsta kjörtímabili undir áhrifum Tsjernomyrdins og Lebeds.

Einkum marka kosningaúrslitin aukna óvissu og örari tilskipanir, svo sem oft má sjá, er valdafíknir hirðmenn berjast um að stýra hendi fárveiks foringja.

Jónas Kristjánsson

DV

Vestræn sneypuferð

Greinar

Atlantshafsbandalagið er búið að missa tökin á Bosníudeilunni eins og spáð var hér í blaðinu fyrir tæpum mánuði. Bandalagið hefur endurtekið mistök forverans í friðarhlutverkinu, Sameinuðu þjóðanna, enda missa liðsmenn þess í buxurnar, ef þeir sjá Serba.

Sænski stjórnmálamaðurinn Carl Bildt leikur sama sorgarhlutverkið á vegum Vesturlanda í vitleysunni í Bosníu og Bandaríkjamaðurinn Cyrus Vance, Bretinn David Owen og Norðmaðurinn Thorvald Stoltenberg höfðu áður leikið á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Undarlegast er við þá sneypuferð, sem nú stendur yfir, að hún felur eingöngu í sér endurtekið efni. Reynt er að þvæla Serbum til að skrifa undir hitt og þetta og síðan lýst yfir árangri. Samt er gömul 100% reynsla fyrir því, að ekki er neitt að marka undirskriftirnar.

Þótt Carl Bildt sé aumkunarverður í Bosníu, er þó hlutur Bills Clintons Bandaríkjaforseta hálfu aumari. Hann barði saman svokallað Dayton samkomulag, sem núna er svo gersamlega hrunið, að ekki stendur steinn yfir steini, þrátt fyrir hernámið á Bosníu.

Atlantshafsbandalagið er með fjölmennan her í Bosníu og gæti haft þar tögl og hagldir. Serbar eru búnir að átta sig á, að þetta er sami puntudúkkuherinn og áður var þar á vegum Sameinuðu þjóðanna, og eru löngu hættir að taka nokkurt mark á Dayton-samkomulaginu.

Carl Bildt og erindrekar Bandaríkjastjórnar eru af og til með marklausar hótanir, til dæmis um að endurnýja viðskiptabann á Serbíu. Allir vita, og bezt þessir auðnuleysingjar Vesturlanda, að Serbar taka ekkert mark á þessum hótunum, af því að þær eru kunnuglegar.

Þessa dagana eru Serbar og Bosníu-Serbar að grínast með Bildt út af formsatriðum í kringum völd stríðsglæpamannsins Radovans Karadzic í Bosníu. Bildt greyið reynir að teygja og toga túlkanir sínar í þá átt, að einhvern veginn sé Karadzic við minni völd en áður var.

Um svipað leyti eru eigendur herja Atlantshafsbandalagsins búnir að ákveða, að kosningar verði í Bosníu, eins og ekkert hafi í skorizt, þótt Öryggisstofnun Evrópu hafi formlega komizt að raun um, að ekkert skilyrðanna fyrir frjálsum kosningum hafi verið uppfyllt.

Á sama tíma eru að koma fram upplýsingar hjá Stríðsglæpadómstólnum í Haag, sem sýna, að stríðsglæpir Serba í Bosníu eru miklu meiri og hrikalegri, en áður hefur komið fram í fjölmiðlum. Þessir glæpir eru svo voðalegir, að ekki er lengur prenthæft að fjalla um þá.

Einnig hefur komið fram, að sumir glæpanna voru beinlínis framdir á verndarsvæðum Sameinuðu þjóðanna og með vitund fulltrúa samtakanna. Liggur nú beinast við að ætla, að Sameinuðu þjóðirnar verði kærðar fyrir samábyrgð á sumum stríðsglæpum vitfirrtra Serba.

Flest bendir nú til þess, að sveitir Atlantshafsbandalagsins leggi á flótta frá Bosníu öðrum hvorum megin við áramótin, þegar Serbar hafa náð þeim árangri, sem þeir stefndu að, og ekkert stendur eftir af þeim markmiðum, sem Vesturlönd settu sér með afskiptum sínum.

Síðan munu stjórnmálaleiðtogar og herforingjar Vesturlanda reyna að gleyma, hvernig þeir endurtóku nákvæmlega sömu mistökin á vegum Atlantshafsbandalagsins og starfsbræður þeirra höfðu áður framið á vegum Sameinuðu þjóðanna nokkrum mánuðum áður.

Bosnía er orðin að minnisvarða um siðferðilegt, atgervislegt og hernaðarlegt hrun þeirra stofnana, sem hafa talizt hornsteinar vestrænnar menningar.

Jónas Kristjánsson

DV

Persónusigur

Greinar

Í skoðanakönnuninni, sem næst fór úrslitum forsetakosninganna, könnun DV, var einnig spurt um fylgi við D- og R-lista í Reykjavík. Könnunin sýndi í senn yfirburðafylgi Ólafs Ragnars sem forseta og endurheimt meirihlutafylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Þetta sýnir, að alls ekki er unnt að tala um vinstri sveiflu í forsetakosningunum, þótt tveir frambjóðendur, sem hafa verið í félagshyggjupólitík, hafi samtals fengið rúmlega tvo þriðju atkvæða í forsetakosningum. Það vantar alveg önnur merki um slíka sveiflu.

Ef einhverjir kjósendur telja sig vera að senda aðvörun til yfirstéttarinnar í landinu með ráðstöfun atkvæðis síns í forsetakosningum, þá hlýtur sú aðvörun að lenda á daufum eyrum. Skoðanakannanir sýna yfirstéttinni nefnilega, að fylgi flokkanna er í föstum skorðum.

Miklu fremur sýna úrslitin, að sterkir einstaklingar geta náð langt, þrátt fyrir pólitíkina. Fylgi Ólafs Ragnars náði langt út fyrir núverandi fylgi Alþýðubandalagsins og fylgið, sem bandalagið gæti hugsanlega haft vonir um í framtíðinni. Fylgi Ólafs var persónufylgi.

Raunar er líklegt, að brottför hans veiki Alþýðubandalagið. Árum saman stjórnaði hann því með harðri hendi, en síðan hafa innanflokkserjur verið að magnast þar að nýju. Þegar ekki vofir lengur yfir, að hann snúi aftur til valda, mun enn magnast ófriður milli smákónganna.

Ef frambjóðendur ná frambærilegri niðurstöðu í forsetakosningum án þess að ná kjöri, er hugsanlegt, að þeir geti nýtt sér stundarfrægðina til að safna um sig liði, sem nýtist til stjórnmálaþátttöku. Slíkra hugleiðinga hefur gætt í stuðningsliði Guðrúnar Agnarsdóttur.

Jafnvel er talað um, að Guðrún Pétursdóttir, sem hætti við framboð í miðjum klíðum, muni eiga fremur greiða leið til þingsetu, sennilega á vegum Sjálfstæðisflokksins. Áherzlan er hér á orðinu “sennilega”, af því að það er aukaatriði, hvaða flokkur yrði valinn.

Kaldhæðnislegast í þessu er, að sigurvegari forsetakosninganna er eini frambjóðandinn, sem sjálfkrafa dettur út úr stjórnmálum. Hann neyðist til að stunda fínimannsleik á Bessastöðum, meðan keppinautar hans í stjórnmálum ráðskast með fjöregg þjóðarinnar.

Í ljósi þessa er fyndinn smásálarskapurinn, sem felst í augljósum sárindum örfárra pólitískra andstæðinga nýkjörins forseta. Umhugsunin um virðingu hans veldur einum þeirra merkjanlegri þjáningu og hefur knúið hann til að bola forsetaskrifstofunni í skyndi úr húsi.

En nýkjörni forsetinn kann fagið betur en forsætisráðherrann og segist vera hinn ánægðasti með flutning skrifstofunnar út á Sóleyjargötu. Þar verði gott að hafa skrifstofu, en sjálfur muni hann einkum starfa að Bessastöðum. Þannig hefur hann strax skorað fyrsta markið.

Inn á við verður Ólafur Ragnar hefðbundinn forseti, sem mun halda sig skýrt innan marka vanans. Ef forsætisráðherra finnst óbærilegt að fara vikulega út á Bessastaði til að gefa skýrslu, mun forsetinn yppta öxlum, enda væri stílrofið þá ráðherranum að kenna.

Nýkjörinn forseti mun annars ekki eyða miklu púðri á þá, sem á sínum tíma fundust berin súr. Hugur hans mun stefna út fyrir landsteinana, þar sem hann mun reyna að prjóna vefi úr þráðum, sem hann var áður byrjaður að spinna. Þar getur hann haslað sér völl.

Embætti framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna er torsótt. En hvað um framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins? Væri það ekki skemmtilegt þrep?

Jónas Kristjánsson

DV

Týnda þjóðin kaus

Greinar

Þegar úrslitaleikir eru á Wembley og Wimbledon, er sagt koma í ljós, að tvær þjóðir búi í Englandi. Önnur sé upptekin af fótbolta og viti varla, að tennis sé til. Hin sé upptekin af tennis og viti varla, að fótbolti sé til. Þannig er alhæft um endurspeglun enskrar stéttaskiptingar.

Komið hefur í ljós, að á Íslandi er stéttaskipting, sem gefur skemmtileg og um leið hættuleg tilefni til alhæfingar. Þessi stéttaskipting þarf ekki að fylgja tekjum í þjóðfélaginu, aldri, búsetu eða kynjum. En alténd eru stjórnmálaskýrendur flestir sömu megin þils í skiptingunni.

Snemma á árinu var viðkvæði stjórnmálaskýrenda, að þjóðin gerði í forsetakosningum uppreisn gegn stjórnmálamönnum og veldi í staðinn vammlaust fólk úr menningargeiranum, svo sem alþýðlega fornleifafræðinga og leikhússtjóra, svo sem dæmin voru sögð sanna.

Ef stjórnmálaskýrendur hefðu verið spurðir, hvort Ólafur Ragnar Grímsson ætti möguleika í forsetakosningum, hefðu allir svarað neitandi. Í fyrsta lagi væri hann virkur stjórnmálamaður og í öðru lagi einn umdeildasti og óvinsælasti stjórnmálamaður landsins.

Þeir hefðu bent á, að fáir stjórnmálamenn væru eins harðvítugir í pólitískum slagsmálum og hann, svo sem ljóst væri úr fréttum og þingtíðindum. Þeir hefðu bent á, að skoðanakannanir sýndu, að fleiri landsmenn væru andvígir honum en nokkrum öðrum stjórnmálamanni.

Svo fór Ólafur Ragnar í framboð, fór beint á toppinn í skoðanakönnunum og hélt því sæti á leiðarenda. Aðrir stjórnmálamenn hættu að gæla við framboð og vöktu um leið athygli á, að þetta væri valdalaust kurteisisembætti, alls ekki fyrir pólitíska vígamenn.

Á lokaspretti kosningabaráttunnar tóku sig saman nokkrir þekktir menn, sem töldu sig eiga um sárt að binda vegna pólitískrar ofkeyrslu Ólafs Ragnars. Þeir fengu birtar í Morgunblaðinu frægar auglýsingar, sem þjöppuðu fólki enn fastar um frambjóðandann.

Í auglýsingunum var forsetaefnið elt uppi af þeirri fortíð, sem stjórnmálaskýrendur höfðu sagt, að yrði því að falli. Þeir þekktu ekki kjósendur, sem létu sér fátt um finnast og bættu svo sem einu prósenti ofan á fylgi hans, svo sem til að hella salti í sár andstæðinganna.

Ýmsir stjórnmálaskýrendur höfðu í millitíðinni reiknað út, að fylgi Guðrúnar Pétursdóttur mundi af pólitískum ástæðum að mestu renna til Péturs Hafstein og minnka bilið milli tveggja efstu frambjóðendanna. Í staðinn rann fylgi hennar til Guðrúnar Agnarsdóttur.

Þannig sitja stjórnmálaskýrendur eftir með sárt ennið og þurfa að skilgreina kjósendur að nýju. Straumar forsetakosninga liggja engan veginn eins og áður var talið og engum er lengur ljóst, hvað kjósendur hafa í huga, þegar þeir eru að velja úr hópi frambjóðenda.

Hugsanlega er verið að senda skilaboð til kolkrabbans, það er að segja þess nána sambands, sem er milli nokkurra helztu fyrirtækja landsins og sem hefur Sjálfstæðisflokkinn að pólitískum málsvara. Andstaða Ólafs Ragnars við þessi öfl sé færð honum til tekna.

Ef þetta er rétt, er ekki hægt að skilja, af hverju þessi sama þjóð gengur aftur og aftur til alþingiskosninga og kýs kolkrabbann yfir sig, þegar um raunveruleg völd er að tefla. Ef um viðvörun er að ræða í forsetakosningum, er hún því marklaus, þegar til kastanna kemur.

Stjórnmálaskýrendur munu næstu árin puða við að skilgreina og flokka þjóðina að nýju og reyna að alhæfa, hver sé Wembley-þjóðin að baki Wimbledon-þjóðinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Merkiskosningar

Greinar

Vottur af spennu komst í forsetakosningarnar í vikulokin, þegar skoðanakannanir sýndu hver á fætur annarri, að fylgi frambjóðenda var að jafnast. Lengst af baráttunnar vantaði þessa spennu vegna yfirburðafylgis eins frambjóðanda, Ólafs Ragnars Grímssonar.

Fylgi Ólafs hefur hægt og sígandi dalað í skoðanakönnunum DV. Í upphafi mánaðarins var hann með nærri 50% fylgi, en var í gær kominn niður í 40% fylgi. Þetta hefur þó ekki komið Pétri Hafstein til góða, því að hann hefur staðið í stað, en Guðrún Agnarsdóttir rokið upp.

Tölurnar úr könnunum DV 8., 20. og 27. júní tala sínu máli. Ólafur byrjaði mánuðinn í 49,4, lak í 46,8 og loks enn frekar í 40,4%. Pétur byrjaði í 25,1, reis í 30,8 og seig svo til baka í 29,6%. Guðrún var hástökkvarinn, byrjaði í 12,3, stökk í 19,4 og stökk svo aftur í 27,5%.

Þetta gerir það að verkum, að lítið verður um hentistefnu kjósenda í kjörklefanum. Þeir, sem eru svo mikið á móti Ólafi Ragnari, að þeir vilja kjósa hvern þann, sem mesta möguleika hefur gegn honum, vita ekki lengur, hvort sá frambjóðandi heitir Pétur eða Guðrún.

Reynsla fyrri kosninga bendir ekki til, að menn færi atkvæði sitt milli frambjóðenda til að stuðla að kosningu hins næstbezta, þegar sá bezti á samkvæmt skoðanakönnunum ekki möguleika. Þetta kom eindregið í ljós í forsetakosningunum 1980 og verður staðfest í dag.

Upp á síðkastið hefur kosningabaráttan einkum snúizt um Ólaf Ragnar, sumpart vegna þess að hann hefur lengst af verið langefstur í skoðanakönnunum, en ekki síður af því að margir eru afar ósáttir við hann. Ýmsir telja sig raunar eiga honum grátt að gjalda.

Þannig er meiri hiti og undiralda í kosningabaráttunni en áður hefur þekkzt í forsetakosningum. Myndazt hafa andstæðar fylkingar Ólafs Ragnars og Péturs, sem geta ekki hugsað sér hinn frambjóðandann sem forseta. Guðrún hefur á síðustu dögum hagnazt á þessari spennu.

Þegar upp er staðið, fæst niðurstaða, sem allir verða að sætta sig við. Hún fæst með lýðræðislegum hætti og verður ekki vefengd. Sennilega mun taka lengri tíma en áður að slíðra sverðin og sameinast um þann, sem nær kjöri. Nauðsynlegt er, að það gerist sem fyrst.

Kosningabaráttan hefur sumpart rambað út á yztu nöf velsæmis og auk þess verið of dýr. Það er umhugsunarefni, að áhugamenn um framboð ákveðinna einstaklinga og gegn framboðum annarra skuli samanlagt verja 155 milljónum króna til að reyna að hafa sitt fram.

Einnig er umhugsunarvert, hversu mikið er fjallað um pólitísk atriði í kosningaumræðu og -áróðri, rétt eins og verið sé að kjósa til pólitískra valda. Sigurvegari kosninganna mun þó hafa litla möguleika á að skilja eftir sig spor á þessum umtöluðu framfarasviðum.

Athyglisvert er, að úr lestinni hefur helzt sá frambjóðandi, sem einn lagði áherzlu á, að forseti ætti bara að vera forseti, en ekki hugmyndafræðingur. Svo virðist því, sem frambjóðendur og kjósendur séu hamingjusamlega sammála um að misskilja forsetaembættið.

Kjósendur virðast vilja auka völd forsetans og þar með auka völd einstaklings, sem kjósendur telja vera yfir stjórnmál og flokka hafinn. Sá böggull fylgir þessu skammrifi, að það eykur áhuga stjórnmálamanna og flokka á yfirtöku þessa embættis sem annarra.

En hver sem niðurstaðan verður í nótt, þegar talið er upp úr kössunum, þá mun hún áreiðanlega verða óspámannlegum stjórnmálaskýrendum ærið umfjöllunarefni.

Jónas Kristjánsson

DV

Átján mánaða lömun

Greinar

Átján mánaða starfslok biskupsins yfir Íslandi leysa ekki eitt þungbærasta vandamálið, sem biskupinn nefndi í afsagnarræðu sinni á prestastefnunni í fyrradag. Þessi langdregnu starfslok framlengja stjórnarandstöðuna í þjóðkirkjunni og lama starfshæfni hennar.

Það er rétt hjá biskupi, að einkum er það eins konar stjórnarandstaða í röðum presta, sem hefur þrengt að honum. Andstaðan er eldri en fréttir af þeim gömlu málum, sem urðu biskupi að lokum að falli, en kunna að hluta að stafa af vitneskju presta um þau.

Andstæðingar biskups meðal presta eru yfirleitt meiri harðlínumenn í trúmálum en hann. Þeir eru heldur ekki sáttir við veraldlegar áherzlur hans og bera hann saman við meiri kennimenn í röðum forvera hans. Þessi atriði og önnur slík skýra þó ekki alla andstöðuna.

Efasemdir ýmissa presta um málstað biskups í áreitnismálunum bætast ofan á annan ágreining og valda því, að hann nýtur ekki lengur víðtæks trausts. Þetta gerir honum ókleift að leysa óskyld ágreiningsmál innan kirkjunnar, svo sem dæmi Langholtssóknar sýnir.

Biskup varð fyrir því óláni að fá til liðs við sig þekktan slagsmálalögmann að amerískum hætti. Það varð til þess, að biskup braut í fyrsta lagi trúnað við Langholtssóknarfólk og höfðaði í öðru lagi andvana meiðyrðamál gegn konunum, sem höfðu kært hann innan kirkjunnar.

Biskupinn varð að biðjast afsökunar á trúnaðarbrotinu og dró til baka kæruna fyrir meiðyrði. Eftir það tvennt mátti ljóst vera, að honum væri ekki lengi sætt í embætti. Hann hefur nú tekið þeim afleiðingum, en gefið sér um leið átján mánaða starfslokatíma.

Ekki þarf að hafa neina efnislega skoðun á neinum þeim málum, sem hafa orðið biskupi að falli, til að sjá, að hagsmunum þjóðkirkjunnar er bezt borgið með því að biskupinn greini milli sinna eigin hagsmuna og hagsmuna kirkjunnar. Á því hefur orðið mikill misbrestur.

Með átján mánaða frestun framlengir biskup tímann, sem þjóðkirkjan er lítt starfhæf. Hann mun sigla gegnum formsatriði embættisins, en ekki setja niður neinar deilur, af því að kirkjunnar menn hlusta því aðeins á hann, að þeim þóknist það hverju sinni.

Í leiðurum þessa blaðs var í fyrra í tvígang kvartað yfir uppivöðslusemi og orðbragði nokkurra presta í garð biskups. Það var áður en áreitnimálið, Langholtsdeilan og slagsmálaglaði lögmaðurinn gerðu hann óstarfhæfan og röskuðu stöðu þjóðkirkjunnar í samfélaginu.

Fjölmiðlar hafa yfirleitt farið varlega í fréttaflutningi af málum biskups, einkum vegna virðingar við biskupsembættið sem slíkt. Samt vandar biskup þeim ekki kveðjurnar að lokum og staðfestir um leið hið fornkveðna, að heppilegt er að kenna sögumanni um ótíðindin.

Staða þjóðkirkjunnar verður veik á starfslokatímanum. Ekki bætir úr skák, að margir prestar vilja skerpa yfirráð kennimanna yfir safnaðarmálum á borð við þau, sem hafa einkennt Langholtssókn. Þjóðkirkjan hneigist að breytingu úr safnaðakirkju í kennimannakirkju.

Vandamál þjóðkirkjunnar ýta málum í átt til þeirrar rökréttu niðurstöðu, að skilið verði milli ríkis og kirkju, svo að þjóðfélagið axli ekki lengur ábyrgðina.

Jónas Kristjánsson

DV

Aðstoð við aðsókn

Greinar

Aðsókn að íslenzkum kvikmyndum hefur hríðfallið á allra síðustu árum. Áður fyrr nutu þær meiri aðsóknar en erlendar, en nú er gengi þeirra fallið niður fyrir þær útlendu. Af tölunum að dæma hafa kvikmyndaneytendur í stórum dráttum hafnað innlendri kvikmyndagerð.

Hrunið var einkum átakanlegt í afrakstri kvikmyndagerðar ársins 1995. Þá voru teknar átta stórar kvikmyndir, sem flestar gengu illa eða mjög illa. Þetta var fjárhagslegt og andlegt áfall fyrir greinina og leiðir til þess, að í ár verður líklega aðeins tekin ein kvikmynd.

Þegar aðsókn að vinsælustu, innlendu kvikmyndunum er komin niður fyrir 20.000 manns og aðrar eru aðeins sýndar í nokkra daga eða vikur, er vandinn orðinn hrikalegur. Eðlilegt er, að áhugamenn um innlenda kvikmyndagerð vilji fá meiri aðstoð frá opinberum aðilum.

En ekki er sama, hvernig aðstoðin er veitt. Hingað til hafa nefndir dreift peningunum, sumpart eftir listrænu mati og sumpart eftir persónulegum kynnum, svo sem tíðkazt hefur á íslenzkum skömmtunarstofum. Stundum eru styrkir beinlínis veittir til að greiða niður tap.

Við úthlutun fjár til íslenzkra kvikmynda er sjaldan hugsað um, að íslenzk kvikmyndagerð er í samkeppni við erlenda og hefur farið halloka í þeim samanburði, það er að segja frá sjónarmiði neytenda. Skömmtunin stuðlar ekki að gerð samkeppnishæfra kvikmynda.

Þegar sambandslaust er milli aðsóknar að einstökum íslenzkum kvikmyndum og þeirra fjármuna, sem einstakar kvikmyndir fá frá hinu opinbera, er stuðlað að gerð kvikmynda, sem eru fremur stílaðar til úthlutunarnefnda og skömmtunarstjóra en almennings.

Ágætis aðferð við að útiloka skuggahliðar skömmtunarinnar, svo sem geðþótta, kunningsskap og sérhæft listamat, er að leggja skömmtunina sem slíka niður og láta markaðslögmálin um úthlutunina. Það gerist með því að styrkja mest þær kvikmyndir, sem bezt eru sóttar.

Bezt væri að nota opinbert kvikmyndafé til að greiða óbeint niður miðaverð íslenzkra kvikmynda. Í hvert sinn sem neytandi greiddi atkvæði með íslenzkri kvikmynd með því að kaupa miða, legði hið opinbera fram á móti aðra upphæð til kvikmyndagerðarmannsins.

Þannig fengi kvikmynd með 20.000 áhorfendur helmingi meiri styrk en kvikmynd með 10.000 áhorfendur. Þannig væri kerfið notað til að hvetja til gerðar kvikmynda, sem geta í aðsókn keppt við erlendar kvikmyndir á markaðinum. Stuðlað væri að samkeppnishæfni.

Margir munu segja, að betra sé að styrkja þær kvikmyndir, sem taldar eru listrænar að mati úthlutunarnefnda, heldur en að styrkja þær kvikmyndir, sem falla almenningi bezt í geð. En núverandi kerfi ræktar bara sérvizku og einangrun íslenzkrar kvikmyndagerðar.

Sjálfvirkar greiðslur, sem miða við aðsókn, ganga hins vegar út frá þeirri forsendu, að æskilegt sé að framleiða hér á landi kvikmyndir, sem almenningur vill sjá. Stuðningnum væri þá eingöngu ætlað að vega upp á móti fámenni þjóðfélagsins og smæð markaðarins.

Ekki má heldur gleyma, að sjálfvirkar greiðslur í hlutfalli við aðsókn mundu um leið hvetja til töku kvikmynda, sem gætu fallið erlendum almenningi í geð eins og íslenzkum. Aðsóknargreiðslur mundu þannig auka líkur á erlendum tekjum af íslenzkum kvikmyndum.

Að öllu samanlögðu er hér lagt til, að opinber stuðningur við íslenzka kvikmyndagerð verði ekki bara aukinn, heldur einnig greiddur í hlutfalli við aðsókn.

Jónas Kristjánsson

DV