Ótraust miðlungsveldi

Greinar

Ósigur Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í nýjustu slagsmálunum við Saddam Hussein Íraksforseta er meiri en talið var í fyrstu. Hussein hefur tekizt að þurrka út njósna- og undirróðursstarfsemi bandarísku leyniþjónustunnar í bænum Arbil á verndarsvæði Kúrda.

Bandaríska leyniþjónustan hafði eytt meira en milljarði króna í þjálfun hundrað manna liðs og fullkominn tækni- og tölvubúnað. Hussein hefur náð búnaðinum á sitt vald og látið taka alla málaliða Bandaríkjanna af lífi. Bandaríkin eru aftur á upphafsreit í Íraksmálinu.

Sézt hefur, að her Íraka er orðinn öflugur á nýjan leik og er aftur orðinn hættulegur umhverfi sínu. Hussein er aftur orðinn ráðandi afl á verndarsvæðum Kúrda. Raunar hafði bandaríska hermálaráðuneytið ýkt tjón Írakshers í Persaflóastríðinu fyrir fimm árum.

Mestur ósigur Bandaríkjanna felst í að hafa skilið menn sína eftir til að deyja drottni sínum. Með því sendir Clinton Bandaríkjaforseti þau skilaboð til stuðningsmanna á hættulegum svæðum, að þeir hafi ekkert bakland hjá sér. Griðasvæði þeirra séu einskis virði.

Bandaríkin gengu að vísu lengra en bandamenn þeirra og skutu nokkrum sprengjum út í loftið til málamynda. Margir bandamenn voru ósáttir við aðgerðina og töldu betra að hafa ekki afskipti af málinu. Fremst var þar í flokki franska stjórnin, sem vill viðskipti við Írak.

Munurinn á Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra, einkum Bretlandi og Frakklandi, er þó sá, að síðarnefndu ríkin eru fyrir löngu hætt að vera heimsveldi. Þau gera ekki kröfu til þess. Þau hafa hins vegar reynt að vera evrópsk veldi, með hrapallegri niðurstöðu í Bosníu.

Umheimurinn er hættur að taka sérstakt mark á Bretlandi og Frakklandi sem evrópskum veldum. Þau eru bara orðin lönd eins og önnur lönd. En Bandaríkin urðu eina vestræna heimsveldið eftir síðari heimsstyrjöldina og eftir fall Sovétríkjanna urðu þau eina heimsveldið.

Að undanförnu hafa Bandaríkin verið að afsala sér þessum völdum. Það gerist af sjálfu sér, þegar ríki láta innanríkismál hafa forgang yfir utanríkismál. Bandaríkjamenn hafa gerzt innhverfir sem þjóð á undanförnum árum og vilja minna en áður af umheiminum vita.

Hver, sem vill, stendur uppi í hárinu á Bandaríkjunum. Ríki neita að lúta frumkvæði þeirra og beita gagnaðgerðum, er Bandaríkin hyggjast refsa útlendum fyrirtækjum fyrir að lúta ekki pólitískum vilja Bandaríkjanna í viðskiptum. Þetta magnar bandarísku innhverfuna.

Bandarískir kjósendur eru raunar áhugalitlir um utanríkismál og vilja ekki, að forsetar sínir séu of uppteknir af þeim. Þeir eru ánæðgir með Clinton, sem hefur alls enga stefnu í utanríkismálum aðra en þá að láta þau ekki trufla gang stjórnmálanna innanlands.

Clinton er hins vegar með gott lið markaðs- og ímyndunarfræðinga. Með hjálp þess hefur honum tekizt að telja kjósendum trú um, að hann sé fastur fyrir í utanríkismálum og hafi tök á þeim málaflokki. Kjósendur eru til dæmis ánægðir með sýndarsprengingarnar á Persaflóa.

Clinton sendi herlið til Bosníu til að blekkja kjósendur og dregur það senn til baka til að blekkja kjósendur. Hann lét sprengja til málamynda á Persaflóa til að blekkja kjósendur. Gerðir hans í utanríkismálum lúta hagsmunum hans í innanríkismálum á hverjum tíma.

Clinton hefur rýrt möguleika Bandaríkjanna til áhrifa á erlendum vettvangi hraðar en nokkur annar forseti. Hann hefur gert Bandaríkin að ótraustu miðlungsveldi.

Jónas Kristjánsson

DV

Myrkviður ímyndarfræða

Greinar

Meiri og betri upplýsingar í fjölmiðlum og víðar hafa ekki reynzt vera sá hornsteinn vestræns þjóðfélags, sem áður fyrr var vonað. Almenningur kærir sig ekki sérstaklega mikið um að nota sér aukið og bætt upplýsingaflæði í umhverfinu til að taka skynsamlegar ákvarðanir.

Á sama tíma hefur aukizt tækni þeirra, sem reyna að villa um fyrir fólki, til dæmis með því að selja því ímyndir fremur en innihald. Þetta á við um allt sviðið frá fótanuddtækjum á jólamarkaði til frambjóðenda í kosningum. Fólk lætur jafnan ginnast unnvörpum.

Fólk, sem fylgist með, ætti raunar að vita nógu mikið til að geta séð gegnum innihaldsrýrar auglýsingar, innihaldsrýrar fullyrðingar og innihaldsrýr loforð. Samt sem áður tekst seljendum ímynda oftar en ekki að komast inn fyrir varnir fólks, sem ætti að vita betur.

Bandarískir ímyndarfræðingar eru farnir að hlaupast undan merkjum og skrifa bækur um reynslu sína. Í fyndinni bók um störf sín fyrir nokkra stjórnmálamenn fullyrðir ímyndarfræðingurinn Ed Rollins til dæmis, að hægt sé að gabba alla alltaf, ef sjóðir séu nógu digrir.

Í hvert sinn sem lakari vara, þjónusta eða persóna er tekin fram yfir betri vöru, þjónustu eða persónu vegna harðari markaðssetningar, er dregið úr líkum á frekara framboði góðrar vöru, þjónustu eða persóna. Það vandaða heltist úr lestinni í sigurgöngu ímyndarfræðanna.

Ekki þarf annað en að fara í stórmarkað og horfa í innkaupakörfur fólks til að sannfærast um, að það sé tæpast með réttu ráði. Körfurnar eru fullar af mikið unnu, óhollu og rándýru ruslfóðri, en vönduð, holl, eðlileg og ódýr vara er skilin eftir í hillunum.

Fólk fer í sérverzlanir og kaupir þar merkjavöru á tvöföldu eða margföldu því verði, sem sama vara kostar án merkisins. Sumt fólk gengur í merkjavöru með áberandi vörumerkjum, þannig að það auglýsir beinlínis ósjálfstæði sitt í innkaupum. Og þykir vera fínt.

Alvarlegust er innreið ímynda á kostnað innihalds í stjórnmálunum. Í kosningum eftir kosningar eru valdir til áhrifa stjórnmálamenn, sem ekki eru að gæta almannahagsmuna, heldur sérhagsmuna af ýmsu tagi og vinna þannig beinlínis gegn almannahagsmunum.

Þekktasta dæmið um þetta eru höftin á búvöruverzlun, sem kosta skattgreiðendur marga milljarða króna á hverju ári og neytendur einnig marga milljarða króna á hverju ári. Ef þessi höft af mannavöldum væru afnumin, mundu almenn lífskjör í landinu stórbatna.

Öllum má þetta ljóst vera, ef þeir fylgjast með og nenna að leggja saman tvo og tvo. Sumir gera það að vísu, en taka ekki afleiðingunum. Þeir halda áfram að endurkjósa þá stjórnmálamenn, sem vitað er, að muni standa vörð um sérhagsmunina að baki haftakerfi búvöruverzlunar.

Annað dæmi er eignarhald fiskimiðanna og afgjald þeirra. Nánast allir þeir, sem flutt hafa rök í þeim málaflokki, hafa mælt með auðlindaskatti eða veiðileyfagjaldi. Samt komast stjórnmálamenn áfram upp með þrönga sérhagsmunagæzlu gegn almannahagsmunum.

Fólk hefur allar ytri aðstæður til að fylgjast með og taka sjálfstæðar ákvarðanir. Umhverfi fólks er fullt af gagnlegum og trúverðugum upplýsingum, sem það hirðir ekki um að nota sér. Í staðinn hlaupa flestir eins og sauðir á eftir klisjum og innihaldsrýrum ímyndunum.

Tækni ímyndarfræðinganna vex því miður miklu hraðar en vilji og geta almennings til að brjótast gegnum myrkvið ruglsins út í ljós og birtu upplýsingaaldar.

Jónas Kristjánsson

DV

Þyngdir ofbeldisdómar

Greinar

Í ræðu sinni við opnun nýs Hæstaréttarhúss óskaði dómsmálaráðherra eftir þyngri dómum í ofbeldismálum. Forseti Hæstaréttar tók síðan undir þetta í viðtali við DV og sömuleiðis dómstjóri Héraðsdóms Reykjaness. Yfirvöld eru farin að taka mark á almenningsálitinu.

Dómstjórinn á Reykjanesi sagðist raunar löngum hafa verið þeirrar skoðunar, að harðar sé tekið á fjármunabrotum en líkamsmeiðingabrotum. Þetta er það sama og nokkrum sinnum hefur verið bent á hér í blaðinu. Úrelt gildismat hefur of lengi ráðið ferðinni.

Gömul lög bera þess merki, að peningar hafa löngum verið taldir æðri lífi og limum fólks. Tímabært er, að Alþingi fari að endurskoða refsiákvæði laga með breytt gildismat í huga og gefi þannig dómstólum ábendingu um, að breyta þurfi réttarvenju í þjóðfélaginu.

Einkum eru það þó dómstólarnir, sem þurfa að taka sig á. Þeir hafa ekki notað svigrúm laga við ákvörðun refsingar í ofbeldismálum. Þeir hafa haldið sig við neðri jaðar svigrúmsins og þar á ofan fellt skilorðsbundna dóma í þremur tilvikum af hverjum fjórum.

Hæstiréttur hefur gefið tóninn að þessu leyti. Þegar forseti Hæstaréttar tekur undir orð þeirra, sem vilja breytingar, er ljóst, að breytingar verða. Hann varði einnig stofnun sína með því að benda á, að Hæstiréttur hefði að undanförnu þyngt refsingar í kynferðisafbrotum.

Forseti Hæstaréttar og ýmsir fleiri dómarar hafa tekið eftir aukinni tíðni ofbeldisglæpa og kröfum úr grasrót almenningsálitsins um harðari refsingar. Enda getur það ekki farið fram hjá neinum, að fólskulegt ofbeldi er skyndilega orðið daglegt brauð hér á landi.

Töluverður hópur manna stundar ofbeldi í síbylju. Þeir ráðast á hvern, sem fyrir verður. Yfirstéttin í landinu hefur lengi látið sér það í léttu rúmi liggja, en hrökk þó við, þegar ráðizt var upp úr þurru á sýslumanninn í Reykjavík. Sú árás færði ofbeldið nær yfirstéttinni.

Þrátt fyrir innantómar fullyrðingar lögreglunnar um, að ofbeldi sé með óbreyttum hætti, fer ekki framhjá neinum öðrum, að hættulegt ofbeldi er í örum vexti. Sérstaklega er áberandi, að ofbeldið er fólskulegra en áður og snýr meira en áður að óviðkomandi og óviðbúnu fólki.

Þyngri refsingar hafa meðal annars það hlutverk að losa þjóðina við ofbeldismenn af götunum, svo að fólk geti gengið um þjóðfélagið í friði. Tilvera ríkisvalds er beinlínis afsökuð með því, að það sé eins konar næturvörður og eigi að sjá um öryggi fólks á almannafæri.

Forseti Hæstaréttar og einn hæstaréttarlögmaður hafa samt varað við, að menn megi ekki vera of refsiglaðir. Vísa þeir vafalaust til þess, að lítið samband sé milli þyngdar refsingar og varnaðar hennar. En refsingar hafa ekki bara það hlutverk að vara fólk við glæpum.

Megintilgangur refsingar er ekki að vera misheppnuð tilraun til að bæta afbrotamann eða að vara menn við afbrotum. Samkvæmt orðsins hljóðan er refsing einfaldlega refsing. Hún hefur auk þess þá afar þægilegu hliðarverkun að taka hættulegt síbrotafólk úr umferð.

Þyngri refsingar kosta auðvitað meira rými til vistunar glæpamanna. Það kostar fleiri og stærri fangelsi að þyngja ofbeldisdóma. Þjóðfélagið er áreiðanlega tilbúið að taka þeirri aukaverkun, því að ofbeldisfólk hefur gengið fram af almenningi og núna einnig yfirvöldum.

DV hefur löngum hvatt til stefnubreytingar. Þegar dómsmálaráðherra og forseti Hæstaréttar taka í sama streng, má búast við, að hjólin fari að snúast.

Jónas Kristjánsson

DV

Góðærið er happdrætti

Greinar

Góðærið í þjóðfélaginu stafar af auknum árangri í úthafsveiðum sjávarútvegsins. Ef engin væri aukningin á því sviði, væri enginn hagvöxtur í landinu, heldur stöðnun. Þannig hefur það raunar verið áratugum saman, að góðæri fylgir aflabrögðum í sjávarútvegi.

Bjartsýnin í þjóðfélaginu stafar af þessu og af væntingum um nýja stóriðju. Framkvæmdir við orkuver og stóriðju hafa reynzt svipað happdrætti í þjóðarbúskapnum og skyndileg aflaaukning. Þær breyta náttúrulegri stöðnun gamaldags þjóðfélags í tímabundið góðæri.

Með vestrænum þjóðum er hagvöxtur með ýmsum hætti, en alltaf einhver. Stundum er hann mikill og stundum lítill. Stöðnun er þar nánast óþekkt fyrirbæri. Hún er ekki náttúrulegt ástand efnahagslífsins við staðnaðar ytri aðstæður eins og hún er hér á landi.

Þjóðfélag okkar er þeim annmarka háð að þurfa alltaf nýjan og nýjan happdrættisvinning til að fleyta sér af einu þrepi á annað. Fyrr á öldinni voru það blessaðar styrjaldirnar, sem færðu björg í bú. Síðar voru það útfærsla fiskveiðilögsögu og stóriðjuframkvæmdir.

Af eigin völdum hefur íslenzkt efnahagslíf ekki kraft til árviss hagvaxtar. Þegar engir eru happdrættisvinningar, staðnar allt og lífskjör versna. Eftir langvinna stöðnun erum við nú orðnir eftirbátar, sem auglýsum í útlöndum, að hér sé gott að fjárfesta í láglaunaríki.

Sumpart stafar þetta af fámenni og fjarlægð frá umheiminum, en að öðru leyti af frumstæðara þjóðfélagi. Við búum til dæmis við erfið landbúnaðarskilyrði, en höldum samt uppi hlutfallslega fjölmennari landbúnaði en samanburðarþjóðir okkar gera beggja vegna hafsins.

Við erum eftirbátar annarra í að leyfa markaðsöflum að ráða ferðinni. Við búum við einokun og fáokun á miklu fleiri sviðum en eðlileg eru talin í nágrannalöndunum. Samgöngur, tryggingar, olíuverzlun, landbúnaður, póstur og sími eru átakanleg dæmi um þetta.

Í stað markaðar leggjum við allt okkar traust á misvitra ráðherra. Við viljum að þeir séu sífellt að leysa mál með úrskurðum og reglugerðum, sem gjarna mega lyfta þrengstu sérhagsmunum þeirra, sem hæst væla hverju sinni. Við viljum skilningsríkan geðþótta.

Skilningsríkar fyrirgreiðslur voru nauðsynlegar á fyrri öldum, er þjóðin rambaði hvað eftir annað á barmi almennrar hungursneyðar. En viðhorfin, sem þá gerðu landið byggilegt, eru nú fjötur um fót, þegar við höldum í humátt á eftir öðrum inn í þriðja árþúsundið.

Okkar viðhorf og áhugamál snúast um fyrirgreiðslur, reglugerðir, pólitískar ráðningar, almenna velferð, vinsamlegt handafl, það er að segja um almennt jákvæðan geðþótta. Ríkjandi viðhorf í vestrænum ríkjum hafa hins vegar færzt í átt til ópersónulegra markaðsafla.

Meðan við höldum okkur við gömlu gildin, getum við ekki reiknað með hagvexti, nema þegar við fáum happdrættisvinninga í formi aflabragða og stóriðjuframkvæmda. Í annan tíma verðum við að sætta okkur við að dragast aftur úr og verða láglaunaþjóð.

Það er ekkert yfirvald, sem hefur ákveðið, að svona skuli þetta vera. Almenningur er hlynntur opinberu handafli og millifærslum. Hann er ýmist hlutlaus í garð markaðsafla eða beinlínis andvígur þeim. Þetta kemur fram í gengi manna og viðhorfa í stjórnmálunum.

Það væri ekki létt verk að gera Ísland óháð utanaðkomandi happdrættisvinningum. Það mundi kosta hugarfarsbyltingu, sem ekki er sjáanleg um þessar mundir.

Jónas Kristjánsson

DV

Sýndarveruleiki í Bosníu

Greinar

Að undirlagi vesturveldanna stendur til að hafa þing- og forsetakosningar í Bosníu um miðjan þennan mánuð. Brugðizt hefur hver einasta forsenda fyrir þessum kosningum, sem verða hreinn skrípaleikur. Samt heldur sjónarspilið áfram eins og ekkert hafi í skorizt.

Ætlunin var upphaflega, að kosningarnar yrðu áfangi í að steypa Bosníu saman í eitt ríki. Áhrifin eru hins vegar þveröfug. Enn frekari þjóðahreinsanir hafa farið fram sem liður í kosningaundirbúningi til þess að tryggja, að á hverjum stað sé einlit hjörð eins málsaðila.

Fyrir innrás Atlantshafsbandalagsins í Bosníu var talað um þjóðahreinsun í landinu, mest af hálfu Serba. Eftir innrásina og sýndarveruleikann, sem vesturveldin hafa komið á fót, er talað í háði um kosningahreinsun, sem er eins konar framhald þjóðahreinsunar.

Víðtækt kjörskrársvindl hefur farið fram og er öllum ljóst nema sýndarveruleikagengi Atlantshafsbandalagsins og Sameinuðu þjóðanna. Serbar láta afskrá sig í þorpum, sem eru í öruggum höndum og láta skrá sig í þorpum, sem áður voru byggð íslömum eða Króötum.

Undanfarið hafa Króatar í Mostar skipulega hrakið íslama úr íbúðum á vesturbakka árinnar til að tryggja, að þeir geti ekki komið á kjörstað. Mostar er raunar gott dæmi um, að sýndarveruleiki vesturveldanna gengur ekki einu sinni upp, þar sem Serbar eru ekki.

Allir vita, sem vita vilja, að væntanlegar kosningar verða ekki lýðræðislegar. Í þeim hlutum landsins, sem íslamar ráða, eru stjórnarandstæðingar barðir, en í hlutum Serba og Króata eru þeir hreinlega drepnir. Hver hluti landsins fyrir sig verður einræðisríki.

Ein helzta forsenda kosninganna var upphaflega, að þær yrðu lýðræðislegar. Önnur helzta forsenda þeirra var, að frjáls og óháð fjölmiðlun fengi að blómstra, svo að kjósendur fengju að sjá fleiri en eina hlið á hverju máli. Sú forsenda hefur líka brugðizt hrapallega.

Harðstjórum íslama hefur nokkurn veginn tekizt að koma í veg fyrir alla fjölmiðlun, sem ekki heyrir beint undir Flokkinn. Harðstjórum Króata og Serba hefur alveg tekizt að koma í veg fyrir slíka fjölmiðlun. Í öllum fjölmiðlum utan Sarajevo ríkir einhliða heift.

Umboðsmenn Atlantshafsbandalagsins hafa ekki gert neitt til að hafa hendur í hári eftirlýstra stríðsglæpamanna, sem eiga að mæta fyrir dóm í Haag. Herforingjar á staðnum segja, að slíkt væri framkvæmanlegt, ef fyrirskipun kæmi, en hún hefur bara alls ekki komið.

Í Bosníu ganga stríðglæpamenn lausir. Þar er hvorki málfrelsi né prentfrelsi. Þar er ekki frelsi til að mynda félög eða flokka. Þar er ekki frelsi til að ferðast um. Þar er ekki frelsi til að kjósa í upprunalegri heimabyggð. Þar er enginn grundvöllur fyrir lýðræðislegar kosningar.

Kosningarnar eru ekki haldnar af því að hálft eða eitt skilyrðanna hafa verið uppfyllt, heldur af því að Clinton Bandaríkjaforseti vill halda sýndarveruleikanum gangandi vegna forsetakosninganna heima fyrir. Hann vill geta kallað flesta hermennina heim fyrir kosningar.

Þetta er svipaður sýndarveruleiki og þegar bandaríska hermálaráðuneytið segist hafa gert loftárásir á Írak í refsingarskyni fyrir brot Saddams Husseins á vopnahléssamningi. Árásirnar voru ekkert annað en nokkrar eldflaugar, sem skotið var stefnulaust út í loftið.

Það er eitthvað meira en lítið að sjálfsvirðingu Vesturlanda, þegar misheppnaðar tilraunir til sýndarveruleika eru orðnar að sjálfum hornsteini hermálastefnu þeirra.

Jónas Kristjánsson

DV

Opinber verndun kláms

Greinar

Fyrir svo sem tveimur áratugum komst sú kenning á kreik, að klám væri fremur hagstætt, af því að það héldi órunum á ímyndunarstigi og minnkaði líkur á, að þeir brytust út á öfgafullan hátt og sköðuðu annað fólk. Þetta var eins og hver önnur kenning, sem reis og hneig.

Dönsk stjórnvöld tóku kenninguna fremur alvarlega fyrir tveimur áratugum og fóru að leyfa klámviðskipti af ýmsu tagi. Miðbær Kaupmannahafnar fylltist af klámbúðum, þar sem seldar voru bækur og tímarit, hljóðsnældur og myndbönd, svo og kynóratól af ýmsu tagi.

Niðurstaðan var ekki sú, sem ætluð var. Kynferðisglæpum fjölgaði, þegar frá leið. Miðbær Kaupmannahafnar varð fremur fráhrindandi á tímabili. Síðan hurfu Danir frá kenningunni og ástandið hefur aftur færzt í það horf, sem var fyrir misheppnuðu byltinguna.

Svo virðist sem síðari tíma frumvarpshöfundar á Íslandi hafi verið við nám í Kaupmannahöfn við upphaf klámtímans, flutzt síðan heim til Íslands og frosið hér inni með úrelta kenningu um gagnsemi kláms. Þessa sér stað í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um barnaklám.

Frumvarpið greinir á milli grófs barnakláms, sem eigi að vera ólöglegt, og löglegs barnakláms, sem sé ekki eins gróft. Dómsmálaráðuneytið fylgist lítið með því, sem er að gerast og hyggst leggja frumvarpið fram að nýju í haust, þrátt fyrir daufar viðtökur í vor.

Í ruglingslegri greinargerð frumvarpsins segir: “Því hefur verið haldið fram, að í einstaka tilvikum geti efni með barnaklámi, sem kynferðislega misþroska menn hafa í vörzlu sinni, hugsanlega að einhverju leyti komið í veg fyrir kynferðisafbrot gagnvart börnum.”

Þetta er lítt sannfærandi texti, sem vísar í óskilgreindar fullyrðingar um einstaka tilvik og einhvers konar hugsanlegar hömlur, sem felist í klámi. Sem röksemdafærsla fyrir ríkisstjórnarfrumvarpi um aukið klám er hún ónothæf með öllu og raunar forkastanleg.

Við eigum við allt önnur vandamál að stríða á þessu sviði en skort á klámi. Augljósi vandinn er, að dómstólar í landinu taka ekki mark á forskriftum laga um þyngd dóma við kynferðisglæpum. Niðurstöður þeirra hafa oftast verið nálægt vægari enda lagarammans.

Refsingar við kynferðisglæpum eiga að vera þungar, þótt vitað sé, að þær hafi sjaldan mannbætandi áhrif. Tilgangur refsinga er í rauninni allt annar, eins og sést af orðsins hljóðan. Þær hafa líka þann kost að taka hættulegt fólk úr almennri umferð um tíma.

Mikilvægt er, að ríkisstjórnir sem flestra landa taki saman höndum um gagnkvæmt upplýsingaflæði um framleiðslu og sölu barnakláms og annars afbrigðilegs kláms, svo að unnt sé að elta glæpamennina uppi. Þetta má gera á vegum lögreglustofnunarinnar Interpol.

Fjölþjóðlegt samstarf er orðið mikilvægara núna en áður, af því að dreifing kláms er að færast í stafrænt form. Tæki á borð við símann og netið eru notuð til að komast framhjá landamærum. Íslenzk lög ná ekki til þeirra, sem gera barnaklám aðgengilegt á netinu.

Hins vegar er hægt að rekja, hvaðan klámið á netinu kemur og hvetja viðkomandi yfirvöld til að grípa í taumana. Þannig er unnt að hrekja klámið úr einu víginu í annað og einangra þau ríki, sem halda verndarhendi yfir því. Þessar varnir eru enn ekki hafnar.

Gott væri, að dómsmálaráðuneytið íslenzka hætti að vernda klám og færi í staðinn að hafa frumkvæði að alþjóðlegu samstarfi um verndun fólks gegn klámi.

Jónas Kristjánsson

DV

Bandarískt valdaafsal

Greinar

Saddam Hussein Íraksforseti leikur Bill Clinton Bandaríkjaforseta jafn grátt og hann lék George Bush forseta á sínum tíma. Bush glutraði á sínum tíma niður sigri í Persaflóastríðinu og nú tvístígur Clinton dögum saman, þegar Saddam Hussein rýfur vopnahléið.

Saddam Hussein varð langlífari í embætti en Bush og getur orðið langlífari en Clinton, ef bandarískir kjósendur sjá gegnum ímyndarþokuna, hversu lélegur forseti hann er, og neita honum um endurkjör í vetur. Ekkert fararsnið er hins vegar á kaldrifjuðum Íraksforseta.

Hann sendi um helgina tugþúsundir hermanna inn á sérstakt griðasvæði Kúrda, sem hann samdi um við Bandaríkin og bandamenn þeirra í lok Persaflóastríðsins. Bandaríkin og bandamenn þeirra bera auðvitað ábyrgð á, að íbúarnir njóti verndar á griðasvæðinu. Eftir miklar loftárásir hefur her Saddams Husseins tekið borgina Arbil og fleiri staði á griðasvæðinu. Mikill fjöldi íbúa fórst í árásunum. Aðrir voru svo skipulega teknir af lífi af morðsveitum forsetans, sem ganga hús úr húsi í Arbil. Þetta er öll vernd Bandaríkjanna.

Sá, sem lofar vernd, en stendur ekki við hana, er auðvitað ómerkingur. Það kemur ekki í staðinn fyrir vernd að segjast hafa sett hermenn í viðbragðsstöðu. Harmleikurinn heldur áfram í Arbil þrátt fyrir viðbragðsstöðuna. Svik Bandaríkjanna eru orðin öllum átakanlega ljós.

Segja má, að það jafngildi dauðadómi að þiggja vernd vesturveldanna. Þannig fer nú fyrir Kúrdum í Arbil og þannig fór fyrir íslömum í Srebrencia í Bosníu í fyrra, þegar Sameinuðu þjóðirnar höfðu að undirlagi vesturveldanna lýst borgina sérstakt griðasvæði.

Í gamla daga var það talið vera meira mál að ráðast á verndarsvæði. Þegar Hitler réðst á Pólland, fóru vesturveldin í stríð við hann. Þau töldu sér skylt að framfylgja yfirlýsingum sínum. Núna stendur ekki steinn yfir steini í vestrænum hótunum um gagnaðgerðir.

Leiðtogar Serba í Serbíu og Bosníu hafa árum saman haft leiðtoga vesturveldanna að háði og spotti. Stundum skrifa Serbar undir samninga, sem þeir brjóta jafnóðum í öllum atriðum. Vesturveldin hóta í sífellu öllu illu, en sjaldnast verður neitt úr framkvæmdum.

Hér í blaðinu hefur margoft verið bent á, að það kann ekki góðri lukku að stýra, er harðstjórar og glæpaforingjar um allan heim fylgjast með eymd og volæði vesturveldanna í samskiptum þeirra við aðra harðstjóra og glæpaforingja. Slíkt hefur slæmt fordæmisgildi.

Saddam Hussein hefur lesið stöðuna rétt. Hann hefur fylgzt með hraðri hnignun vesturveldanna í Bosníudeilunni og hefur fylgst með kosningabaráttu Clintons Bandaríkjaforseta. Hann taldi sig geta komist upp með svipuð griðrof og Karadzic og Mladic í Bosníu.

Clinton Bandaríkjaforseti telur það mundu skaða sig í kosningabaráttunni að þurfa að knýja með hervaldi framgang samningsins um vopnahlé við Persaflóa. Hann veit, að kjósendur hafa lítinn áhuga á utanríkismálum og kæra sig ekki um mannfall á fjarlægum slóðum.

Þegar forseti og kjósendur í heimsveldi eru sammála um slík viðhorf, hættir ríkið að vera heimsveldi. Í fjarlægum löndum hætta menn að taka mark að slíku heimsveldi eins og menn hættu fyrir nokkrum áratugum að taka sérstakt mark á svokölluðu bresku heimsveldi.

Sjálfhverfan mun valda Bandaríkjunum ýmsum óþægindum. Ekki er bæði hægt að halda og sleppa. Sá, sem segir af sér völdum, missir fríðindi valdanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Óvinir þjóðarinnar

Greinar

Hér á landi hefur fólk á hverjum degi greiðan aðgang að tugum dagblaða af margs konar gerðum. Ef það sættir sig ekki við verð eða gæði innlendra dagblaða, getur það keypt útlend dagblöð í bókabúðum eða lesið úr þeim á netinu. Markaður dagblaða er frjáls hér á landi.

Ríkið leggur ekki stein í götu innfluttra dagblaða. Það skattleggur þau ekki umfram innlend dagblöð. Sami virðisaukaskattur er á erlendum og innlendum dagblöðum. Þetta ástand er kallað frjáls markaður og er almennt talið vera hornsteinn ríkidæmis Vesturlanda.

Þegar markaður er frjáls, þurfum við enga reiknimeistara til að segja okkur, hvort vara eða þjónusta sé of dýr eða ekki. Sjálfvirkni markaðarins finnur jafnvægi, sem er nærtækara og sanngjarnara en ákvarðanir þeirra, sem taka sér vald til að ákveða verðlag.

Um grænmeti eins og tómata og gúrkur gilda hins vegar ekki markaðslögmál eins og um dagblöð og flestar aðrar vörur. Tómatar og gúrkur njóta sérstakrar verndar ríkisvaldsins eins og aðrar garðyrkjuvörur sem og raunar aðrar afurðir innlends landbúnaðar.

Við getum hvorki valið milli innlendra og erlendra tómata né keypt innflutta tómata á tollfrjálsu verði eins og innflutt dagblöð. Það eru voldugir aðilar í landbúnaðarráðuneytinu og hagsmunasastofnunum landbúnaðarins, sem taka um þetta ákvarðanir fyrir okkur.

Ákveðið er að ofan, hvenær erlendir tómatar mega fást á Íslandi og hve miklir ofurtollar eru lagðir á þá. Þetta er angi af þeim fjötrum, sem stjórnmálamenn og aðrir hagsmunagæzlumenn landbúnaðarins hafa bundið íslenzkum neytendum og skattgreiðendum.

Þessi glæpsamlega iðja er þjóðhættulegri í grænmetisverzlun en í öðrum þáttum landbúnaðarins, af því að hún heldur niðri neyzlu á grænmeti, sem Íslendingar borða allt of lítið af samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum stöðlum. Ríkið heldur þjóðinni frá neyzlu grænmetis.

Til að bæta gráu ofan á svart hindrar ríkið, að íslenzkir neytendur geti utan innlenda uppskerutímans neytt þess grænmetis, sem hollast er, það er lífrænt ræktaðs grænmetis. Slíkt grænmeti er dýrt í innkaupi og margfaldast svo í verði vegna ofurtolla ríkisins.

Með innflutningshöftum og ofurtollum á grænmeti spilla ráðamenn landsins heilsu landsmanna og magna upp ýmsa sjúkdóma. Forustuna hefur Guðmundur Bjarnason landbúnaðar- og umhverfisráðherra, sem hefur reynzt óvenjulega forhertur hagsmunagæzlumaður.

Ríkið er þessa dagana er að kikna undir kostnaði við sjúkrahús og aðra þætti veikindageirans. Það ætti að leggja áherzlu á forvarnir með því að tryggja algert markaðsfrelsi þeirra matvæla, sem bezt áhrif hafa á heilsuna, svo að ódýrt og gott grænmeti fáist allt árið.

Íslenzk garðyrkjusamtök hafa heimtað innflutningshöft og ofurtolla ríkisins og bera á þeim fulla ábyrgð. Þau bera jafnframt fulla ábyrgð á kostnaðaraukanum, sem þetta hefur valdið íslenzkum heimilum, og heilsutjóninu, sem stafað hefur af neyzlustýringu þessari.

Þeim hæfir vel að nota hluta af illa fengnum gróða til að framleiða nafnlausa auglýsingu, sem kastar ríkisreknum tómötum í þá framleiðendur, sem keppa við erlenda framleiðslu án nokkurra innflutningshafta eða tolla af hálfu ríkisins, það er að segja innlend dagblöð.

Ekki verður dregin fjöður yfir svívirðilegt ástand í vöruúrvali og verðlagi grænmetis af völdum samsæris stjórnmálamanna og garðyrkjusamtaka gegn þjóðinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Forsetar dæmdir

Greinar

Tveir fyrrum forsetar Suður-Kóreu hlutu í vikunni dóma fyrir alvarleg afbrot í starfi, annar tveggja áratuga fangelsisdóm fyrir milljarðastuldi og hinn líflátsdóm fyrir milljarðastuldi og fjöldamorð á óbreyttum borgurum. Dómarnir marka tímamót í stjórnmálasögu nútímans.

Báðir komust þeir til valda sem hershöfðingjar og notuðu þau til að gera það, sem slíkir eru vanir, til að drepa fólk og raka að sér peningum. Glæpamenn í einkennisbúningi hafa verið og eru enn ein algengasta tegund forráðamanna lands og lýða víðast hvar um heim.

Er þeir hafa sums staðar hrökklazt frá völdum, hafa þeir ekki verið látnir standa reikningsskil gerða sinna. Það var aðeins gert í Þýzkalandi og Japan eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Síðan hafa menn komizt upp með ótrúlegasta athæfi án þess að bera á því ábyrgð.

Tilraunir til að koma lögum yfir þá hafa hingað til verið vægar. Oft hefur verið gripið til heildarnáðunar þeirra og handbendanna. Þannig var það í Argentínu. Annars staðar ganga glæpamennirnir lausir og halda jafnvel opinberum embættum, svo sem Pinochet í Chile.

Mest hefur verið um þetta í löndum rómönsku Ameríku, sem löngum hafa sveiflazt milli herforingja- og lýðræðisstjórna. Afríka er ekki komin á það stig enn. Þar eru yfirleitt glæpamenn enn við völd. Suðaustur-Asía er nú í sviðsljósinu vegna dómanna í Suður-Kóreu.

Þjóðir megna ekki að koma sér í hóp vestrænna lýðræðisríkja og ná fram varanlegum markaðsbúskap í atvinnulífi, nema farið sé að lögum og rétti og gerðar upp sakirnar við fortíðina. Traustar leikreglur í lagaramma eru forsenda þess, að markaðsbúskapur blómstri.

Suður-Kórea er komin yfir vatnaskilin. Dómarnir yfir forsetunum fyrrverandi eru staðfesting þess. Landið er að gera upp reikningana við fortíðina og feta sömu slóð og Vesturlönd á síðustu öld. Geðþótti einstaklinga verður að víkja fyrir formlegum leikreglum, skráðum á blað.

Vel er við hæfi, að íslenzk viðskiptanefnd er einmitt í Suður-Kóreu um þessar mundir. Reikna má með, að slakað verði á innflutningshöftum þar í landi. Valdamenn þar munu átta sig á að gengi landsins fer eftir gagnkvæmri aðild þess að frjálsum heimsviðskiptum.

Suður-Kórea er eins líklegur viðskiptavinur Íslands í náinni framtíð og einræðis-, spillingar- og ofbeldisríkið Kína er ólíklegur viðskiptavinur. Stjórnvöld Íslands hafa nuddað sér mikið utan í Kína, en þeir, sem hafa reynt að reka þar viðskipti, hafa lent í ótal hremmingum.

Kaupsýslumenn hneigjast til að rangtúlka harðhent stjórnvöld sem áreiðanleg. Sagan sýnir hins vegar að menn tapa fremur fé á viðskiptum við ríki harðstjóra en á viðskiptum við losaraleg lýðræðisríki, þar sem sumt rekur á reiðanum og annað gengur á afturfótunum.

Mikilvægt er, að land sé byggt á lögum en ekki á geðþótta. Ekki er síður mikilvægt, að gerð sé upp fortíðin. Það gerðu Þjóðverjar rækilega eftir síðari heimsstyrjöldina, enda hefur þeim farnazt vel. Þannig mun Suður- Kóreumönnum einnig farnast vel í framtíðinni.

Rafmagnað andrúmsloft var í Seoul, er dómarnir höfðu verið kveðnir upp. Fólk áttaði sig skyndilega á, að lýðræði var komið til að vera þar í landi. Stelsjúkir og morðhneigðir valdhafar um allan heim fundu til réttmæts ótta um að hljóta einnig makleg málagjöld.

Vonandi minna dómarnir vestræna ráðamenn á, að verstu glæpamennirnir í Bosníu og Serbíu ganga enn lausir, þótt unnt sé að hafa hendur í hári þeirra.

Jónas Kristjánsson

DV

Létta ljúfa leiðin

Greinar

Ríkisstjórnin hefur valið þægilegu leiðina við gerð góðærisfrumvarps til fjárlaga. Hún ætlar að leyfa ríkisrekstrinum að sigla með öðrum þáttum þjóðlífsins. Þannig slakar hún á spennunni, sem stafað hefur af fyrri tilraunum hennar til niðurskurðar á velferðarríkinu.

Tekjur ríkisins aukast umfram áætlun um þessar mundir, af því að tekjur í þjóðfélaginu fara ört vaxandi og skila sér að hluta í auknum skattgreiðslum til ríkisins. Þennan tekjuauka getur ríkið notað á ýmsa vegu, til að lækka skatta, auka velferð eða jafna halla.

Ríkisstjórn hyggst ekki láta allt laust. Hún reynir að halda í þann sparnað, sem náðst hefur með fyrri niðurskurði, en ætlar ekki að leggja í ný átök við hagsmunaaðila um viðbótarsparnað. Hún hyggst fyrst og fremst nota gróðann til að jafna hallann á ríkisrekstrinum.

Heilbrigðismálin eru gott dæmi um létta og ljúfa stefnu hins nýja fjárlagafrumvarps. Kostnaður við þau á að aukast um einn milljarð króna, úr 50 milljörðum í 51 milljarð. Í heild mun því sá málaflokkur nokkurn veginn fylgja tekjuaukningunni í þjóðfélaginu.

Í veikindageiranum verður eigi að síður rekið upp ramakvein út af þessum tölum. Þessi geiri er orðinn að peningalegum fíkniefnasjúklingi, sem þarf alltaf meira og meira dóp til að komast í vímu og fær hörð fráhvarfseinkenni, ef síaukið peningaflæði er truflað.

Með strangari aga á fjármálunum hefði ríkisstjórnin getað notað góðærið til að ná tekjuafgangi í ríkisrekstrinum, eins og fyrirtæki gera í einkarekstrinum, og notað hann til að grynnka á skuldum ríkisins, sem hafa orðið óþægilega og hættulega miklar á síðustu árum.

Með algeru agaleysi í fjármálunum, svo sem tíðkast á kosningaárum, hefði ríkisstjórnin getað notað góðærið til að auka umsvif ríkisins og halda óbreyttum halla á ríkisrekstrinum. En kosningar eru ekki fyrirsjáanlegar á næsta ári og því er farið bil beggja í þenslunni.

Ríkisstjórnin gefur sem minnstan höggstað á sér með því að velja léttu ljúfu leiðina milli hinna ýmsu sjónarmiða. Þannig er fjárlagafrumvarpið ein af birtingarmyndum hagnýtrar stjórnarstefnu, sem ekki miðast við hugmyndafræði, heldur hagar seglum eftir vindi.

Alls engin hugmyndafræði er í fjárlagafrumvarpinu. Ekki er hægt að segja, að það sé til hægri eða vinstri. Allir hugmyndafræðingar hljóta að vera andvígir því, hver á sínum forsendum. Raunverulegir hægri menn og raunverulegir vinstri menn munu sjá á því annmarka.

Stjórnmálin eru smám saman að afklæðast hugmyndafræði. Enginn veit lengur, hvort Sjálfstæðisflokkurinn er vinstra megin við Alþýðubandalagið eða ekki. Helzt vita menn, að Alþýðuflokkurinn sé hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn, miðað við næstsíðustu stjórn.

Stjórnmálamenn selja sig í auknum mæli sem farsæla forstjóra, sem ekki freistist til að reyna að gera stóra hluti til góðs eða ills, heldur sigli fremur lygnan sjó. Þess vegna verður hugmyndafræðilaus meðalvegur yfirleitt fyrir valinu, svo sem í fjárlagafrumvarpinu.

Oft hefur verið lagt til, að fjárlagadæmið verði stokkað upp og hugsað á nýjan leik. Það eigi ekki að vera eins konar náttúrulögmál, að rekstrarfé ríkisins skiptist í nokkurn veginn óbreyttum hlutföllum frá ári til árs milli málaflokka og jafnvel milli undirliða í málaflokkum.

Fjárlagafrumvarpið felur í sér þá stefnu, að bezt sé að hafa hlutföllin eins og þau hafa alltaf verið og að sigla jafnan þá leið, sem léttust er og ljúfust hverju sinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Hafnarfjarðarbrandarinn

Greinar

Hafnarfjörður ætti að vera ríkur. Hann hefur skatta af heilu álveri umfram önnur sveitarfélög í landinu. Stóriðja er fengur, sem sveitarfélög bítast um, þótt dæmi Hafnarfjarðar sýni, að fengur þarf ekki að vera happafengur, ef bæjaryfirvöld kunna lítið með fé að fara.

Sterk bein þarf til að þola góða daga. Miklar tekjur Hafnarfjarðar hafa gert bæjarfélagið að eins konar peningafíkli, sem jafnóðum eyðir umframtekjunum, einkum í fyrirgreiðslur af ýmsu tagi. Því hefur þar á ofan tekizt að verða eitt af skuldugustu bæjarfélögum landsins.

Nýi miðbærinn í Hafnarfirði er dæmi um ógætilega meðferð fjármuna. Fyrir fjórum árum átti hann að verða bæjarstolt, en er nú orðinn að martröð, sem hefur þegar gleypt tugi milljóna af bæjarbúum og fer sennilega nálægt 250 milljóna króna tjóni, þegar upp er staðið.

Þáverandi bæjarstjóri og síðar skammlífur fyrirgreiðsluráðherra hafði frumkvæði að því að knýja fram miðbæinn. Hann sá þar fyrir sér víðtæka þjónustu, svo að bæjarbúar gætu sinnt þar allri þörf sinni fyrir þjónustu og jafnvel gist þar á hóteli, “sem bráðvantar”.

Stórhugurinn minnti á fræga listahátíð, sem haldin var á valdatíma þessa bæjarstjóra. Hún var að mörgu leyti góð, en hafði svart gat, þar sem fjármálin áttu að vera. Til dæmis var endurprentaður bæklingur, af því að þar vantaði litmynd af bæjarstjóranum.

Er kynntar voru teikningar af miðbænum fyrir fjórum árum, mótmæltu 5356 Hafnfirðingar, sem töldu hin fyrirferðarmiklu mannvirki spilla útliti bæjarins. Lítið mark var tekið á mótmælunum, enda töldu bæjarfeður sig vera að reisa sjálfum sér ódauðlegan minnisvarða.

Fyrir þremur árum var strax orðið ljóst, að dæmið var hrunið. Bærinn hafði orðið að veita 120 milljón króna ábyrgðir, kaupa hlut í húsnæðinu fyrir 60 milljónir og fella niður lóðagjöld upp á 50 milljónir króna. Samt voru fyrirtæki og eru treg til að setjast þar að.

Fyrir ári voru svo skuldir miðbæjarins orðnar 475 milljónir króna, 55 milljónir króna umfram eignir. Afleiðingin varð þá sú, að bærinn keypti hluta hússins, hótelturninn, fyrir 260 milljónir króna og tók að sér að ljúka framkvæmdum. Það hefur bænum ekki enn tekizt.

Nú er miðbærinn gjaldþrota. Bæjarstjórinn hefur samþykkt nauðasamninga og afskrifað 90% af kröfum bæjarins. Þannig er miðbæjarævintýri og -martröð Hafnarfjarðar um það bil að komast á rökréttan og fyrirsjáanlegan leiðarenda sem stóri Hafnarfjarðarbrandarinn.

Miðbærinn í Hafnarfirði er dæmi um bæjarmálastefnu, sem leggur áherzlu á fyrirgreiðslu, einkum við verktaka. Bærinn hefur á sama tíma tapað tugum milljóna af vinsemd við verktaka, sem situr sjálfur í bæjarstjórn og tekur þar þátt í að halda uppi meirihluta.

Bæjarmálastefnan náði hámarki á valdaferli áðurnefnds bæjarstjóra, sem síðar varð skammlífur fyrirgreiðsluráðherra. Sem bæjarstjóri lét hann greiða vildarmönnum miklar fjárhæðir umfram laun og útvega öðrum ýmiss konar fríðindi, svo sem ódýrt húsnæði.

Hafnarfjarðarbrandarinn hefur framlengzt hjá eftirmönnunum, sem eru aldir upp í sama sljóleikanum gagnvart peningum. Þeim hefur tekizt að gera brandarann að sérstöku flokksmáli Alþýðuflokksins í Hafnarfirði og þjappa sér saman gegn meintum ofsóknum umhverfisins.

Ástandið hefði líklega aldrei orðið svona alvarlegt í Hafnarfirði, ef bærinn hefði ekki unnið álver í happdrætti og látið það gera sig að peningafíkli.

Jónas Kristjánsson

DV

Lloyds kemur til bjargar

Greinar

Félag íslenzkra bifreiðaeigenda hefur unnið þrekvirki og fengið þekktasta tryggingafélag heimsins, Lloyds, til að hefja samkeppni við íslenzku fáokunarfélögin í bílatryggingum. Er reiknað með, að tryggingagjöld bíla hér á landi muni lækka um fjórðung við komu Lloyds.

Þetta er hægt, af því að fimm þúsund af nítján þúsund félagsmönnum FÍB hafa ákveðið að vera með í sameiginlegu tryggingaútboði félagsins. Þannig er með samtakamætti hinna smáu hægt að skáka innlendu risunum, sem allt of lengi hafa misnotað markaðsaðstöðuna.

Búast má við, að fáokunarfélögin reyni að mæta innrás Lloyds með því að lækka iðgjöld bíleigenda. Þau hafa ráð á því, enda hafa þau haft digra sjóði af viðskiptamönnum sínum á undanförnum árum. Skyndilega munu þau finna út, að þau hafi efni á að lækka iðgjöld sín.

Hingað til hafa innlendu tryggingafélögin þótzt tapa á bílatryggingum. Sannleikurinn mun hins vegar koma í ljós, þegar Lloyds tekur til starfa. Þá mun skyndilega koma í ljós, að tryggingafélögin hafa hingað til farið með ósannindi um slæma afkomu sína af bílatryggingum.

Félag íslenzkra bifreiðaeigenda setti sér það markmið fyrir ári að ná innlendum bílatryggingum niður um 20%. Samkvæmt samningunum við Lloyds, sem nú eru á lokastigi, mun árangurinn verða nokkru betri, eða 25%. Þetta verða háar krónutölur hjá hverjum og einum.

Enn meira máli skiptir, að FÍB hefur ekki samið við neitt einnar nætur tryggingafélag, heldur þekktasta tryggingafélag heims, sem íslenzku tryggingafélögin endurtryggja hjá, þegar áhættan verður of mikil. Lloyds hefur því úthald í samkeppni við okurfyrirtækin.

Nú reynir á Íslendinga, sem áratugum saman hafa orðið að sæta skilmálum fáokunarhrings tryggingafélaganna. Ýmis dæmi eru um, að við séum þýlyndari en borgarar í nágrannaríkjunum og látum vaða yfir okkur án þess að grípa til sameiginlegra gagnaðgerða.

Frægt er, þegar bíleigendur ætluðu um árið í eins dags akstursverkfall til að mótmæla hækkun benzínverðs. Aðgerðin fór út um þúfur, af því að bíleigendur voru ekki nógu harðir af sér til þess að standa saman. Vonandi verður annað uppi á teningnum í þetta sinn.

Íslendingar eru íhaldssamir eins og klárinn, sem vill vera þar sem hann er kvaldastur. Ef kvalarar þeirra í bílatryggingum lækka iðgjöldin til að mæta nýrri samkeppni, munu margir þeirra halda tryggð við kvalarana í stað þess að flytja sig til þess, sem braut ísinn.

Þannig vilja menn njóta óbeins góðs af framtaki annarra, en kæra sig ekki um að taka sjálfir neinn þátt í frumkvæðinu. Ef allir hugsuðu svona, væri aldrei hægt að brjóta neinn ís. Frumkvöðlar gæfust upp og fáokun héldist með sama hætti og hefðbundin er í landinu.

Tryggingafélögin eru í góðri aðstöðu til að halda sauðahjörðinni saman. Þau hafa safnað digrum sjóðum í skjóli fáokunar. Vextirnir einir af sjóðunum nema tíu þúsund krónum á hverju ári á hvern bíleiganda í landinu. Þau lána fólki úr sjóðunum og hafa gert það háð sér.

Ástæða er til að vona, að ekki fari í þetta skipti eins og stundum áður. Gegn fáokuninni stendur nú þekktasta tryggingafélag heimsins og öflug samtök bíleigenda. Uppreisnarliðið hefur því úthald til langvinnra átaka við eigendur sauðahjarðanna, innlendu tryggingafélögin.

Þetta er eitt bezta tækifærið, sem þjóðin hefur fengið til að losna á einu sviði úr langvinnri ánauð kolkrabba og smokkfisks. Nú reynir á hana sem sjaldan fyrr.

Jónas Kristjánsson

DV

Leiga Almannagjár

Greinar

Þótt eðlilegt sé að leyfa kvikmyndatökufólki að nota náttúru Íslands sem bakgrunn að kvikmynda- og sjónvarpsefni, er ekki forsvaranlegt að leigja þeim Almannagjá og loka henni um leið fyrir innlendum og erlendum ferðamönnum. Það voru mistök hjá Þingvallanefnd.

Alþingi þjóðveldisaldar var háð í eða við Almannagjá. Hún er þungamiðja Þingvallasvæðisins og helgur staður í þjóðarsögunni. Enginn staður á landinu er friðhelgari en hún. Íslenzkir borgarar mega aldrei koma að henni lokaðri, af því að hún hafi verið leigð út.

Eftir lýsingum að dæma var Almannagjá notuð sem óþekkjanlegur bakgrunnur fyrir vélframleidda þoku. Margir hamraveggir eru til á Íslandi, sem henta vel til slíkrar kvikmyndagerðar, þótt íslenzkir aðstandendur kvikmyndarinnar virðist hafa verið ófróðir um þá.

Þeim hefði verið gerður greiði með því að benda þeim á aðra hamraveggi, svo sem Tröllagjá eða Ásbyrgi, sem ekki eiga jafn helgan sess í þjóðarsögunni. Engan veginn verður séð, að Almannagjá sé neitt heppilegri bakgrunnur fyrir vélframleidda þoku í auglýsingamynd.

Málsaðilar telja ekkert athugavert við þetta. Þeir hampa 350.000 silfurpeningum Þingvallanefndar og reikna óbeinar gjaldeyristekjur af kvikmyndaliðinu og aðstoðarfólki þess. Þeir hafa slitnað úr tengslum við þjóðarsöguna og hugsa eins og hverjar aðrar hórur.

Í leiðindamáli þessu kemur einnig fram landlægur undirlægjuháttur og minnimáttarkennd Íslendinga gagnvart útlendingum og sú landlæga hugsun, að skjótfengnir peningar séu upphaf og endir alls. Þessi árátta virðist lítið lagast með aukinni lífsreynslu þjóðarinnar.

Skynsamlegt er að greiða götu innlendra og erlendra kvikmyndagerðarmanna. Flestir eru ekki fyrirferðarmiklir á vettvangi og skilja ekki eftir neinn óþrifnað. Rangt er að reyna að hafa fé af þeim sérstaklega umfram aðra ferðamenn vegna notkunar landslags.

Hitt er svo annað mál, að svo getur farið, að selja þurfi aðgang að hálendinu eða ákveðnum stöðum þess vegna of mikils og ört vaxandi álags. Það fé yrði þá innheimt af öllum, innlendu og erlendu fólki, með og án kvikmyndavéla, og færi í kostnað við verndun staðanna.

Ef haldið verður áfram að reyna að ná til landsins þeirri tegund ferðamanna, sem helzt vill fara til staða á borð við Þingvöll, Gullfoss, Geysi, Þórsmörk, Landmannalaugar, Hveravelli og Herðubreiðarlindir, er ljóst, að taka verður sérstaklega á því vandamáli.

Erfitt er að hugsa sér, að slíkum stöðum sé lokað um tíma og sízt vegna þess, að einhver aðili hafi leigt sér einkaaðgang að honum vegna kvikmyndatöku eða af öðrum ástæðum. Hitt er líklegra, að skammtaður verði aðgangur með útgáfu aðgöngumiða að slíkum stöðum.

Sennilega mundi þó síðast af öllu verða seldur aðgangur að Almannagjá, jafnvel þótt álagið þar margfaldist. Söguleg staða hennar er slík, að hún hentar verr sem söluvara en annað landslag. Flestir mundu heldur vilja greiða kostnað af verndun hennar af almannafé.

Þannig eru mistökin tvenn í umræddu máli, annars vegar að veittur var einkaaðgangur að gjánni, og hins vegar að tekið var óbeint gjald fyrir aðganginn.

Jónas Kristjánsson

DV

Ofbeldi: Frjálst val

Greinar

Á tveimur árum hefur morðum í New York fækkað um 40%. Það er mest þakkað lögreglustjóranum William Bratton, sem var rekinn úr starfi í vor fyrir að skyggja á borgarstjórann sjálfan. Bratton ferðast nú um heiminn og veitir ráðgjöf um aðgerðir gegn glæpum.

Þótt Reykjavík sé engin New York, eru ofbeldisglæpir þó of tíðir í borginni og hafa verið að harðna upp á síðkastið. Lögreglustjórinn í Reykjavík getur því lært mikið af vinnubrögðum Brattons, enda yrði hann tæpast rekinn, þótt hann skyggði á dómsmálaráðherrann.

Bratton lagði áherzlu á tvö meginatriði. Í fyrsta lagi rak hann lögregluna eins og nútíma fyrirtæki. Hann dreifði ábyrgð til hverfastöðva, setti þeim skilgreind markmið um fækkun glæpa og veitti lögreglumönnum frelsi til frumkvæðis án samráðs við yfirboðara.

Í öðru lagi tók hann upp svokallaða núllstefnu í umburðarlyndi. Lögreglumenn fóru að handtaka fólk fyrir minni háttar afbrot, svo sem að kasta af sér vatni eða drekka áfengi á almannafæri. Þetta kom þeim skilaboðum á framfæri, að alls engin afbrot væru leyfð.

Við það að litlu afbrotin hurfu af götunum, hurfu líka stóru afbrotin. Heilu göturnar og raunar heilu hverfin voru í stórum dráttum hreinsuð af glæpum með því einu að byrja á smámálum. Lögreglan varð meira sýnileg en áður og naut stuðnings venjulegra hverfisbúa.

Fíkniefnalögreglan í Reykjavík er að feta þessa sömu slóð með því að vera sífellt að ónáða fólk í fíkniefnabælum, taka það til yfirheyrslu og trufla þannig markað fíkniefnasala. Beinn árangur í töku efna er lítill, en skilaboðin eru hins vegar sterk: Minna umburðarlyndi.

Svipað mætti gera á nóttunni um helgar, þegar fólk kemur út af skemmtistöðum. Þá getur lögreglan handtekið fólk í stórum stíl fyrir að brjóta lögreglusamþykkt, svo sem með því að kasta af sér vatni, drekka áfengi úti á götu eða með því að abbast upp á annað fólk.

Auðvitað kostar þetta að koma verður upp geymslustöðvum fyrir hina handteknu. Í Vestmannaeyjum var á þjóðhátíð komið upp gámum, þar sem fólk var látið sofa úr sér vímuna. Slíkum gámum verður sennilega að koma fyrir í portum, sem óviðkomandi komast ekki inn í.

Ef lögreglan er mjög sýnileg og fjarlægir jafnóðum áberandi drykkjurúta og hasshausa, spillir hún jafnframt andrúmsloftinu, sem ofbeldisglæpir þrífast í. Engin ástæða er til að efast um, að slíkum glæpum hríðfækki eins og á tveggja ára ferli Brattons í New York.

Ýmsum finnst hart aðgöngu að skilja ekki eftir grátt svæði milli umburðarleysis og umburðarlyndis. En umfang gráa svæðisins hlýtur að fara eftir mati manna á umfangi vandamálanna. Á sviðum, þar sem vandamál eru fá, getur samfélagið verið umburðarlynt.

Almennt séð þarf þjóðfélagið að vera umburðarlynt og geta þolað, að fólk sé ekki steypt í sama mót. En það þarf líka að geta verið ósveigjanlegt, ef það þarf á því að halda, svo sem til að koma á lögum og reglum á afmörkuðum sviðum, sem varða lífsgæði þjóðarinnar.

Nætursukkið í Reykjavík og ofbeldið, sem því fylgir, er ekki lítið vandamál, heldur stórt vandamál, sem er í örum vexti. Það gefur ekki tilefni til hins hefðbundna umburðarlyndis í þjóðfélaginu, heldur kallar það á algert og áhrifaríkt umburðarleysi að hætti Brattons.

Harðnandi ofbeldi í Reykjavík er ekki náttúrulögmál, sem hefur sinn gang. Gæzlumenn laga og réttar geta ákveðið, hvort það fær að þrífast eða ekki.

Jónas Kristjánsson

DV

Jákvæð helgi

Greinar

Reykjavíkurhelgin var frábær og raunar ólík sjálfri sér. Borgin hafði allt annan og betri svip um þessa helgi en hún hefur venjulega. Nærri tveir tugir þúsunda sóttu menningarnóttina og um þrjú þúsund manns tóku þátt í ýmsum greinum maraþonhlaupsins daginn eftir.

Síðasta helgi sýnir, hvernig Reykjavík getur verið, þegar hún vill. Hún er öðrum þræði borg menningar og borg heilsuræktar, þótt hinum þræðinum sé hún borg drykkjuláta og ofbeldis. Miklu máli skiptir, hvað gefur tóninn, og það gerðu jákvæðu atriðin um helgina.

Ef vel er að gáð, sjáum við fjölda manns skokka í borginni um helgar og eftir vinnu á virkum dögum. Vaxandi fjöldi fólks hugsar um heilsuna á þennan eða annan hátt. Menningarviðburðir njóta líka mikillar aðsóknar, miklu meiri en búast mætti við eftir íbúafjölda.

Þessar jákvæðu hliðar eru oft í skugga hinna neikvæðu, sem hafa gert borgina fræga utan landsteina. Hinar neikvæðu eru til dæmis þær, sem margir ferðamenn sjá, svo sem rónalíf á Austurvelli á daginn og ólýsanlegt volæði með ívafi ofbeldis um helgarnætur.

Spurningin er, hvað gefur tóninn hverju sinni. Venjulega er það drukkið og vímað fólk, sem tekur völdin í miðbænum. Um helgina var það hins vegar venjulegt fólk, sem átti miðbæinn. Það kom, sá og sigraði. Það gaf rugli og eymd ekki tækifæri til að komast að.

Það er ekki rétt, að drykkjan og ofbeldið þurfi að hafa sinn gang og muni birtast annars staðar, ef það verður gert útlægt frá miðbæ Reykjavíkur. Summa lastanna er ekki jöfn, heldur fer hún eftir því, hvað er látið viðgangast. Íslendingar hafa ekki náð áttum á því sviði.

Lögreglan hefur tekið upp þann góða sið að láta fíkniefnasölu ekki í friði. Hún ræðst sífellt til inngöngu í sölubælin. Þetta truflar markaðinn hastarlega, þótt lítið finnist af fíkniefnum. Lögreglan getur líka náð aftur völdum af drykkjurútum í miðbænum að næturlagi um helgar.

Með því að trufla sífellt það neikvæða er það neytt til að halda sig meira til hlés. Það fær minni tækifæri en ella til að gefa tóninn og heildarmagn þess minnkar. Þetta lærði lögreglan í New York fyrir nokkrum árum og hefur náð frábærum árangri á stuttum tíma.

Við þurfum raunar að breyta sjálfsmynd þjóðarinnar. Við þurfum að koma inn hjá fullorðnum og unglingum, að það sé ekki flott, heldur niðurlægjandi að vera greinilega undir áhrifum áfengis eða annarra fíkniefna. Við þurfum að koma á nýjum og harðari siðareglum.

Við neyðumst auðvitað líka til að stórauka varanlegt geymslupláss fyrir síbrotamenn á sviði ofbeldis, svo að venjulegt fólk geti aftur farið að ganga um miðbæinn á hvaða tíma sólarhringsins sem er, svo sem þykir sjálfsagt í miðbæjum höfuðborga um öll Vesturlönd.

Við þurfum að gera það sjálfsagt og hversdagslegt, að fjölskyldur geti farið að næturlagi um miðbæinn og átt þar aðgang að öðru en volæði og barsmíðum. Við þurfum að efla næturmenningu og nætursiði, sem gefa nýjan tón í stað hins ömurlega, sem hingað til hefur ríkt.

Öll samfélög manna hafa jákvæðar og neikvæðar hliðar. Við þurfum að gefa hinum jákvæðu þáttum betra tækifæri til að gefa tóninn, meðal annars í borgarlífinu. Það tókst með ágætum um helgina. Menningarnóttin og maraþondagurinn efldu jákvæða sjálfsmynd okkar.

Þrýstingur samfélagsins er mikilvægur. Þjóðin er sinnar gæfu smiður á þessu sviði sem mörgum öðrum. Þjóðarsátt um vilja er raunar allt, sem þarf.

Jónas Kristjánsson

DV