Skaðleg friðaræfing

Greinar

Almannavarnaæfing Atlantshafsbandalagsins á Íslandi hefur aðeins táknrænt gildi. Hún leiðir saman hermenn frá löndum bandalagsins og löndum Varsjárbandalagsins sáluga, þeim sem hafa komizt eða vilja komast í Nató og hinum sem ekki hafa slíkt í hyggju.

Æfingin er táknræn fyrir það óvenjulega ástand, að í fyrsta skipti í margar aldir eru stórveldi Evrópu hvorki í stríði hvert við annað né að undirbúa slík stríð. Hún er táknræn fyrir, að loks er runnin upp öld friðar í Evrópu. Köldu stríði er lokið og heit stríð ekki á dagskrá.

Hér eftir verður ekki farið í stríð í Evrópu um fyrirsjáanlega framtíð. Ýmsar staðbundnar skærur verða áfram, sérstaklega á Balkanskaga, þar sem villiþjóðir vaða enn á súðum af orðlagðri grimmd. En liðin er sú tíð, að morð í Sarajevó kalli á styrjöld um Evrópu alla.

Vegna Balkanskaga má búast við, að áfram verði þörf fyrir samstarf Atlantshafsbandalagsins og ríkja Varsjárbandalagsins sáluga um lögregluaðgerðir og almannavarnir á leikvelli Serba, Króata og Albana. En hér eftir munu Balkanmálin sameina Evrópu en ekki sundra.

Eðlilegast er, að herir Evrópu æfi sig á Balkanskaga, þar sem eru raunverulegar aðstæður til æfinga. Þar er ákveðin landafræði og þar er ákveðið viðhorf fólks, hvort tveggja einstætt í sinni röð. Þar geta þeir reynt að bjarga fólki meðan annað skýtur á þá úr launsátri.

Það hefur sáralítið gildi fyrir verðandi verkefni Evrópuherja að æfa sig í almannavörnum á Íslandi. Herir Evrópu verða seint kallaðir til alvörustarfa á Íslandi, því að Íslendingar munu í neyð treysta sínum sveitum betur til almannavarna en tindátum Evrópuherjanna.

Raunar hefur því verið haldið fram af ábyrgum aðilum innan íslenzkra almannavarna, að æfing þessi sé ekki aðeins marklaus frá íslenzkum sjónarhóli, heldur skaði hún beinlínis almannavarnir með því að beina orku og tíma að táknrænu og marklausu gutli.

Enn fremur er æfingin á skaðlegum tíma. Hún spillir fyrir því, að fólk geti notið hálendisferða meðan hún stendur. Hún dregur þannig úr lífsgæðum okkar og margra ferðamanna, sem borga fyrir að koma hingað. Hún skaðar ferðaþjónustuna í landinu tvímælalaust.

Æfing Evrópuherjanna er einmitt haldin á þeim tíma, þegar hálendið er að opnast og líklegast er, að fólk vilji njóta þess. Meðal æfingaratriða er lágflug yfir helztu ferðamannastöðunum, þar á meðal Herðubreiðarlindum, Öskju, Sprengisandi og Þjórsárverum.

Það er von, að ferðafrömuðir spyrji, hvort íslenzkir embættismenn séu orðnir brjálaðir. Hitt mun þó sönnu nær, að þeir hafi leyft þetta fyrir sitt leyti, af því að þeir eru snobbaðir fyrir því að vera teknir gildir í samstarfi milli útlendinga. Þeir hafa einfaldlega ekki fullorðnazt.

Enn er tími til að banna fáránlegustu þætti æfingarinnar, svo sem sprengingar á hljóðmúrnum og lágflug á ferðamannastöðum. Það þjónar ekki þjálfun í almannavörnum að fljúga á ofurhraða í lágflugi eða að sprengja hljóðmúrinn. Slíkt eru bara fíflalæti flugmanna.

Tímabært er orðið að víttir verði þeir embættismenn utanríkisráðuneytisins, sem standa fyrir marklausum sandkassaleikjum, er skaða hagsmuni og lífsgæði okkar og viðskiptavina okkar. Ísland er enginn staður fyrir hávaðasama leiki til að hafa ofan af fyrir hermönnum.

Nató þarf sennilega sandkassaleiki til að halda upp á gott hernaðarástand í Evrópu. En almannavarnaæfing á hálendinu er ekki rétta leiðin til að fagna Evrópufriði.

Jónas Kristjánsson

DV

Nýir og þægir kjaradómsmenn

Greinar

Þegar dómarar í landinu tóku sér ómælda yfirvinnu í orlofi ekki alls fyrir löngu, tók Kjaradómur á því og úrskurðaði, að þetta skyldi ganga til baka. Þetta olli nokkurri gremju dómara Hæstaréttar og hugsuðu þeir þáverandi kjaradómsmönnum þegjandi þörfina.

Þegar kom að nýrri skipan Kjaradóms, rak Hæstiréttur fulltrúa þá, sem hann hafði áður skipað, og setti nýja og þægari í þeirra stað. Niðurstaðan er auðvitað sú, að í hinum nýja og illræmda úrskurði Kjaradóms er hlutur dómara gerður betri en annarra yfirstéttarmanna.

Í stað 6% launahækkana annars fólks í almennu kjarasamningunum í vetur fá dómarar nú 8,5% almenna kauphækkun, ennfremur 5% vegna meintrar aukningar á vinnuálagi þeirra, einnig 1,5% í endurmenntunarsjóð og loks aukinn fjölda vinnutíma í ómældri yfirvinnu.

Þetta endurspeglar tvennt. Annars vegar, að Hæstiréttur hefur skipað dómaravænni fulltrúa í Kjaradóm. Hins vegar, að Kjaradóm skipa fimm hæstaréttarlögmenn, sem eiga undir dómara að sækja, þegar þeir flytja mál sín. Hér er um hagsmunaárekstur að ræða.

Óeðlilegt er, að hæstaréttarlögmenn ákveði laun þeirra, sem eru prófdómarar í daglegum störfum þeirra. Betra er, að leitað sé út fyrir lögmannastéttina. Það gerir kerfið að vísu flóknara, en er nauðsynlegt í samfélagi, sem er svo spillt, að spillingin nær til Hæstaréttar.

Úrskurður Kjaradóms hefur vakið gremju og raunar máttlausa reiði formanna stéttarfélaga, sem nýlega hafa skrifað undir eina þjóðarsáttina enn, þar sem láglaunastéttirnar í landinu taka enn og aftur á sig ábyrgð á því, að verðbólga fari ekki af stað að nýju hér á landi.

Úrskurðurinn í heild sýnir yfirstéttarkerfi, þar sem launum yfirstéttar opinbera geirans er kippt úr almennu launasamhengi og ákvörðun þeirra falin hópi annarra yfirstéttarmanna, sem eru sérstaklega hallir undir dómsvaldið, af því að þar sitja prófdómarar þeirra.

Við ákvörðun launa yfirstéttar opinbera geirans er þess gætt, að hafa kerfið ógegnsætt. Taxtalaunin eru ekki höfð áberandi há, en vel smurt á þau í formi launa fyrir yfirvinnu, sem ekki er unnin, og margvíslegum öðrum fríðindum, sem ekki eru almenn í þjóðfélaginu.

Þegar fjölmiðlar reyna að lýsa inn í þokuna, hefur yfirstéttin hljótt um sig, en gefur aldrei eftir fríðindin. Þannig halda ráðherrar áfram að taka útlagðan kostnað og dagpeninga í senn á ferðalögum sínum, svo að úr verður svonefnt ferðahvetjandi launakerfi ráðherra.

Öllum er ljóst, að það er út af kortinu að taka í senn nógu háa dagpeninga fyrir öllum ferðakostnaði sínum og halda öllum þessum peningum fyrir sjálfan sig, en senda ríkinu síðan reikning fyrir öllum útlögðum kostnaði. Samt er þetta spillta kerfi enn í fullum gangi.

Tekjukerfi yfirstéttar opinbera geirans er gegnsýrt af feluleik af þessu tagi. Ríkisskattstjóri og ríkisskattanefnd hafa gerzt samsek í að meðhöndla ýmis fríðindi þessarar yfirstéttar á annan hátt en fríðindi annarra aðila í þjóðfélaginu og framleiða þannig stéttaskiptingu.

Með framgöngu sinni grafa málsaðilar undan trausti þjóðarinnar á valdastofnunum sínum, ríkisstjórn, ráðuneytum og ekki sízt dómstólum, sem einnig á annan hátt vekja ítrekaða athygli á sér með furðulegum dómum og ævintýralegum drætti á uppkvaðningu dóma.

Nýleg hreinsun Hæstaréttar á Kjaradómi og skjót viðbrögð hins nýja Kjaradóms með ótrúlegum kjarabótum handa dómurum sýnir vel þetta hættulega ástand.

Jónas Kristjánsson

DV

Sömu fréttir ­ sama niðurstaða

Greinar

Fátt nýtt hefur komið fram við aðra atrennu Hæstaréttar að Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Vitað var um harðræði fangavarða og aðra annmarka fyrri rannsóknar, þegar Hæstiréttur kvað upp þann dóm, sem nú hefur árangurslaust verið reynt að fá tekinn upp að nýju.

Fróðlegt hefði að vísu verið að taka með í reikninginn niðurstöður lygaprófs, sem síðar heimsþekktur sérfræðingur á því sviði lagði fyrir sakborning. Þær voru aldrei lagðar fram sem réttarskjöl, hvorki við flutning málsins á sínum tíma né við flutning upptökumálsins.

Í þetta sinn hafnaði sækjandi upptökumálsins notkun niðurstaðna lygaprófsins sem málsskjals, þegar settur verjandi kerfisins vildi fá að sjá þær. Þannig getur tvískinnungurinn snúist við á löngum tíma eftir þeim hagsmunum, sem hver málsaðili hefur hverju sinni.

Málinu er nú lokið á innlendum vettvangi. Vandséð er, að umboðsmaður Alþingis sjái flöt á afskiptum af því. En leita má frekari réttar út fyrir landsteinana, svo sem töluvert hefur verið gert á síðustu árum, oft með ágætum árangri og vanvirðu fyrir íslenzka réttarkerfið.

Hæstiréttur nýtur af gefnum tilefnum ekki mikillar virðingar, en hún breytist ekki við endurmeðferð hans á Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Hæstiréttur hefur löngum stutt kerfið í landinu. Oft hefur hann farið meira offari í ríkisdýrkuninni en einmitt í þessu máli.

Miklu alvarlegri mál eru, hvort dómarar í Hæstarétti geti orðið vanhæfir með pólitískum afskiptum utan vettvangs réttarins og hvort helzti embættismaður réttarkerfisins sé svo fjárhagslega háður öðrum, að hann geti ekki tekið afstöðu til mála, sem varða þessa aðila.

Samkvæmt áliti sérfróðra manna í Danmörku er íslenzka réttarkerfið á hálum ís í alvörumálunum. Ennfremur hefur komið í ljós við meðferð fjölþjóðlegra dómstóla, að úrskurðir Hæstaréttar eru oft óeðlilega hallir undir ríkið og fjandsamlegir réttindum borgaranna.

Einn þekktasti lögmaður landsins hefur raunar ritað bók um Hæstarétt, þar sem hann rekur ýmis dæmi um veikleika réttarins, einkum stuðning hans við hagsmuni ríkisvaldins. Bókin endurspeglar vantrú margra lögmanna á, að rétturinn geti tekið eðlilega á málum.

Ef taka ætti upp öll þau mál, þar sem Hæstiréttur hefur í meira mæli verið á gráu svæðunum og dökkgráu svæðunum heldur en í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, væri ekki annað gert á Íslandi næstu árin. Niðurstaðan yrði þar á ofan alltaf staðfesting fyrri niðurstöðu.

Sem betur fer kemur endanlegt réttlæti okkar að utan eins og margt annað gott. Bruxelles, Strasbourg og Haag hafa tekið við af Niðarósi og Kaupmannahöfn sem verndarborgir litla mannsins á Íslandi, svo er Evrópusambandinu og fjölþjóðasamningum fyrir að þakka.

Hér hafa verið rakin nokkur dæmi um bága siðferðisstöðu íslenzka kerfisins og Hæstaréttar sérstaklega til þess að hafa þau atriði í myndinni, þegar jafnframt er stutt það sjónarmið Hæstaréttar, að ekki sé ástæða til að taka Guðmundar- og Geirfinnsmálið upp að nýju.

Deilan um upptöku málsins byggðist á gömlum lummum, sömu upplýsingunum og voru tiltækar, þegar dómar voru kveðnir upp á sínum tíma. Sumt ungt fólk virðist hins vegar ímynda sér, að í þetta sinn hafi rétturinn verið með nýjar upplýsingar í höndunum.

Hafi þessar upplýsingar leitt Hæstarétt til ákveðinnar niðurstöðu á sínum tíma, er eðlilegt að þessar sömu upplýsingar leiði hann til að hafna upptöku málsins nú.

Jónas Kristjánsson

DV

Sykursæt þjóð

Greinar

Hnallþórustefna íslenzkra húsmæðra sætir ágjöf um þessar mundir. Rannsóknir Helga Valdimarssonar prófessors benda til, að sveppaóþol stafi einkum af geri og sykri og að losna megi við sjúkdóminn með því að hætta að nota vörur, sem auknar hafa verið þessum efnum.

Rannsóknir í Bandaríkjunum á þessum áratug hafa leitt í ljós, að boðefnaruglið í heilanum, sem einkennir fíkn í efni á borð við alkóhól og heróín, kemur einnig í ljós við fíkna notkun sykurs. Þannig er sykurinn loksins kominn í flokk skæðra fíkniefna, þar sem hann á heima.

Þetta skýrir auðvitað, hve erfitt margt fólk á með að hemja neyzlu sína á vörum með viðbættum sykri. Það stafar af, að sykur er fíkniefni. Notkun hans kallar á meiri notkun hans, af því að dópamínið í heilanum kallar fram öfug viðbrögð við það, sem heilbrigt má teljast.

Ofát og offita er eitt helzta heilbrigðisvandamál Íslendinga eins og flestra annarra vestrænna þjóða. Þótt fólk reyni af góðum og miklum vilja að stöðva ofát sitt og láta offituna hjaðna, ræður það ekki við málið, einfaldlega af því að sykur er fíkniefni, sem ánetjar fólk líkamlega.

Þáttur sykurs í sveppaóþoli og offitu bætist við það, sem fyrir var vitað um sykur, að hann veldur tannskemmdum, sykursýki og skaðlegum sveiflum í blóðsykri. Að öllu samanlögðu er um að ræða einn mesta örlagavaldinn meðal menningarsjúkdóma nútímans.

Íslendingar eru önnur mesta sykurneyzluþjóð heimsins, næst á eftir Bandaríkjamönnum. Meðalmaður innbyrðir 1 kíló af viðbættum sykri á viku hverri, auk þess sykurs, sem af eðlilegum ástæðum er í ýmsum matvælum. Þetta er hátt yfir því, sem venjulegur líkami þolir.

Sykurneyzla okkar er einna alvarlegust í taumlausu þambi gosdrykkja, sem eru meira en 99% sykur að þurrefnum. En sykurinn leynist víðar, meðal annars í vörum, sem haldið er að fólki sem hollum mat, svo sem ýmsum mjólkurvörum og morgunkorni.

Sykri er bætt í ýmsar mjólkurvörur, svo sem skólaskyr og skólajógúrt. Viðbættur sykur er 6-10% af þyngd algengra mjólkurvara, auk þeirra 4%, sem eru í þessum vörum af náttúrulegum ástæðum. Sem morgunmat mætti alveg eins gefa börnum súkkulaði.

Sykri er miskunnarlaust bætt í mikið auglýst og vinsælt morgunkorn, sem logið er inn á foreldra sem sérstakri heilsubótarvöru fyrir börn. Viðbættur sykur fer upp í 47% af sumu morgunkorni. Sem morgunmat mætti alveg eins gefa börnum brjóstsykur.

Algengt magn af sykri í kexi er um 17-29% og í kökum 21-28%. Þetta er sá matur, sem Íslendingar hafa lengi borðað milli mála og reikna með að bjóða gestum og gangandi. Ennfremur er varla til sú dós, glas eða pakki í matvöruverzlunum, að ekki sé þar viðbættur sykur.

Því miður er ekki skylt að tilgreina viðbættan sykur á umbúðum matvæla hér á landi, enda eru hagsmunir neytenda jafnan látnir víkja. Hjá Námsgagnastofnun má þó finna bækling um næringargildi matvæla, þar sem fram koma upplýsingar um viðbættan sykur.

Því miður er engin stofnun til á Íslandi, sem telur sér skylt að hafa eftirlit með því, að upplýsingar á umbúðum um innihald matvæla hafi við rök að styðjast. Þetta er einkum bagalegt gagnvart innlendri framleiðslu, þar sem ekki er við erlendar mælingar að styðjast.

Úrelt er að tala um sykur sem eins konar krydd í tilverunni. Hann er orðinn að uppistöðu í skaðlegum lífsstíl og hlýtur að víkja fyrir nýjum og heilbrigðari lífsstíl.

Jónas Kristjánsson

DV

Sigla þöndum seglum

Greinar

Flest teikn eru hagstæð okkur í efnahagsmálum, þótt víða leynist hættur. Kjarasamningarnir í vetur hafa farið vel í atvinnulífið og ekki leitt til teljandi verðbólgu í afurðum þess. Það bendir til, að samkeppni sé töluverð á markaðnum, þrátt fyrir fákeppni á ýmsum sviðum.

Verðbólgan verður samt nokkru meiri á þessu ári en var í fyrra og meiri en Seðlabankinn heldur. Nýjustu verðbólgutölur eru óeðlilega lágar vegna skammtíma verðlækkunar á grænmeti, sem á eftir að ganga til baka, og vegna einnota lækkunar á innlendum flugfargjöldum.

Verðbólguhraðinn um þessar mundir er því nær þremur prósentum en þeim tveimur prósentum, sem Seðlabankinn heldur. Þetta jafngildir því, að verðbólguástandið hér sé ekki með því bezta á Vesturlöndum, heldur séum við þar í miðjum flokki skussanna.

Mikilvægt er, að áfram verði dregið úr verðbólgu hér á landi, svo að hún haldist til langs tíma við 2% markið. Þetta þarf að gera við skilyrði, er sumpart hvetja til verðbólgu, svo sem vaxandi atvinna í kjölfar góðra aflabragða og samninga um virkjanir og stóriðju.

Samningar vetrarins um virkjanir og stóriðju eru úti á yztu nöf jafnvægis. Þótt slík iðja veiti í rekstri tiltölulega litla atvinnu í hlutfalli við fjárfestingu, veldur hún mjög mikilli atvinnuþenslu á byggingartímanum. Hún er þess vegna sveiflumagnandi þáttur í efnahagslífinu.

Óráðlegt er því að fara hratt í frekari stóriðjusamninga. Við hvern slíkan samning þarf að huga vel að áhrifum hans á hagsveiflur og verðbólgu. Þess vegna verður ekki endalaust unnt að byggja hagvöxtinn á eins konar sífelldum happdrættisvinningum af slíku tagi.

Við það bætist, að við erum í vondum málum vegna Ríó-samningsins um takmörkun mengunar. Við höfum þegar farið hátt yfir mengunarmörk samningsins og munum gera það enn frekar, ef við sjáum ekkert annað en stóriðjulausnir í efnahagsmálum okkar.

Á sama tíma hafa stjórnvöld enn ekki lyft litla fingri til að framkvæma eigin stefnuskrá frá því í fyrra á sviði tölvumála, þar sem gert var ráð fyrir að búa til hagstæð uppvaxtarskilyrði mengunarlausra tölvu- og hugbúnaðarfyrirtækja. Á því sviði eru vannýttir möguleikar.

Hagvöxtur verður líklega á bilinu 3­4% á þessu ári og hinu næsta. Þetta er meiri vöxtur en sem nemur meðaltali aðildarríkja Efnahagsþróunar-stofnunarinnar. Hann bætir fyrir það ástand, sem var fram eftir þessum áratug, þegar hagvöxtur var hér minni en annars staðar.

Afkoma ríkissjóðs er svo góð á þessu ári, að hugsanlegt er, að hagnaður verði, þegar upp er staðið. Það eru óvenjulegar fréttir og merkilegar. Neikvæða hliðin er svo, að afkoman byggist á óeðlilega miklum innflutningi og geigvænlegum halla utanríkisviðskipta.

Hagstaða okkar er að öllu samanlögðu nokkuð góð. Víða leynast hættur og sumir þættir eru neikvæðir, svo sem vöruskiptajöfnuðurinn, þótt aðrir séu jákvæðir. Einhæfni atvinnulífsins er lakasti þátturinn, enda sjá stjórnvöld enn lítið annað en sjávarútveg og stóriðju.

Jákvæðu þættirnir felast einkum í nýjum kjarasamningum til langs tíma og lágri verðbólgu, traustum hagvexti á allra næstu árum, fullri atvinnu þjóðarinnar og góðri afkomu ríkissjóðs. Jákvæðu þáttunum getur fjölgað, ef áfram lækka hinir háu vextir atvinnulífsins.

Mestu skiptir, að bjartsýni hefur leyst svartsýni af hólmi. Í stað þess að draga saman seglin og verjast áföllum sigla menn þöndum seglum á vit nýrra tækifæra.

Jónas Kristjánsson

DV

Ábyrgð tekin á eigin heilsu

Greinar

Í sjúkdómageira ríkisins er innbyggð verðbólga, sem veldur því, að kostnaður við sjúkdóma eykst hraðar en sem nemur gæðaaukningu þjónustunnar. Gizkað hefur verið á, að innbyggða verðbólgan nemi um 2% á ári. Það er árlegur kostnaðarauki af óbreyttu þjónustustigi.

Verðbólgan stafar af ýmsum ástæðum, en mest af framboði nýrra og dýrari tækja og nýrri og dýrari lyfja. Vegna velferðarstefnunnar hefur hingað til verið talið æskilegt að taka slík tæki og lyf í notkun hér ekki síðar en í ríkjunum, sem við berum okkur saman við.

Við þetta bætist, að stjórnmálamenn setja stundum lög af góðvilja sínum og ráðherrar setja síðan reglugerðir af sama góðvilja. Þessar gerðir víkka sjúkdómaþjónustuna til nýrra sviða og valda erfiðleikum við að gegna fyrri skyldum með svipuðum hætti og áður.

Ennfremur er þjóðin að eldast. Árlega verður hlutfallsleg aukning í hæstu aldursflokkunum, einmitt þeim, sem mest nota sjúkdómaþjónustu hins opinbera. Þessi þáttur á eftir að magnast svo á næstu árum, að ríkið mun ekki lengur geta haldið óbreyttu þjónustustigi.

Í gamla daga neyddist fólk sjálft til að taka ábyrgð á heilsu sinni. Annað hvort var það heilsuhraust eða það dó fyrir aldur fram. Þetta var harður heimur, þar sem hinir fátækustu áttu minnsta möguleika. Velferðarkerfinu var komið á fót til að jafna og bæta stöðuna.

Með velferðarkerfinu hefur sá misskilningur grafið um sig, að ríkið taki ábyrgð á heilsu manna. Þeir geti hagað sér eins og þeim þóknast, drukkið eða reykt, streðað við peninga eða hangið í sjónvarpssófa eða lifað á ruslfæði. Ríkið muni taka ábyrgð á afleiðingunum.

Samt er vitað, að sjúkdómar og slys eru sjálfskaparvíti að hálfu eða meira. Fólk hagar sér á þann hátt, að það verður veikt eða slasast. Það veit í mörgum tilvikum, hvernig það á að haga sér, en gerir það samt ekki. “Það góða, sem ég vil, geri ég ekki”, sagði Páll postuli.

Sumir áhættuþættir eru utan valdsviðs fólks. Okkur er af arfgengum ástæðum mishætt við ýmsum sjúkdómum, svo sem hjartasjúkdómum, krabbameinssjúkdómum og fíknarsjúkdómum. Óviðráðanleg umhverfisáhrif valda ennfremur sumu fólki meiri áhættu en öðru.

Þessir ásköpuðu og ytri áhættuþættir losa fólk ekki við ábyrgðina á eigin heilsu. Þeim mun veikari, sem staða fólks er gagnvart slíkum áhættuþáttum, þeim mun meiri ástæðu hefur það til að taka stjórn mála í eigin hendur og haga sér í samræmi við áhættuna.

Það er einkum þrennt, sem fólk getur gert til að taka ábyrgð á heilsu sinni. Það getur tekið upp hollt mataræði. Það getur stundað einfaldar og ódýrar íþróttir á borð við göngu, hlaup, sund eða hjólreiðar. Og það getur gefið sér góðan svefn og stundað slökun huga og líkama.

Mikilvægi þessa mun aukast hratt á næstu árum, því að sjúkdómakerfi ríkisins er í þann mund að springa. Ríkið treystir sér ekki lengur til að taka ábyrgð á heilsu manna. Það er farið að spara í sjúkdómageiranum og á eftir að reyna að spara miklu meira á næstu árum.

Fólk verður að reikna með, að ríkið geti ekki aukið kostnað sjúkdómageirans umfram aukningu þjóðartekna. Vegna áðurnefndrar verðbólgu í geiranum mun sjúkdómaþjónusta ríkisins fara minnkandi á næstu árum, fyrst í stað hægt, en síðan hraðar og hraðar.

Eina vörn fólks er að taka áskoruninni, sem felst í nútímaþekkingu á heilbrigðu lífi. Fólk getur tekið ábyrgð á eigin heilsu og er í auknum mæli farið að gera það.

Jónas Kristjánsson

DV

Íþróttir fyrir drykkjurúta

Greinar

Stjórnendur landsmóts ungmennafélaganna í Borgarnesi héldu rétt á málum, þegar rónalæti á mótssvæðinu komu þeim í opna skjöldu. Þeir sendu verstu drykkjurútana heim til Grindavíkur og höfðu vit fyrir hinum, sem voru móttækilegir fyrir leiðbeiningum.

Drykkjuvandræði íþróttahreyfingarinnar komu skýrt í ljós á landsmótinu í Borgarnesi. Í allt of miklum mæli eru íþróttafélög ekki lengur varðstöðvar gegn neyzlu geðbreytilyfja á borð við áfengi, heldur beinlínis orðin að uppeldisstöðvum í drykkjuskap, orgi og ælu.

Íslenzkir unglingar eiga erfiða daga. Í heimahúsum horfa þeir upp á helgardrykkjuskap fullorðins fólks, sem virðist segja eitt allsherjar pass í uppeldismálum. Margir foreldrar virðast halda, að uppeldi sé einhver óviðkomandi atburður, sem sennilega eigi sér stað í skólum.

Skólarnir eru ekki í stakk búnir til að sinna uppeldisskyldum foreldranna. Þeir hafa raunar ekki reynzt geta sinnt fræðslu til jafns við skóla í útlöndum. Þeir eru andvígir uppeldi, því að þeir láta börnin að mestu leika lausum hala í samræmi við hugmyndafræði agaleysis.

Á sumrin eru börnin send í svonefnda vinnuskóla, sem eru í raunninni kennslustofnanir í hangsi og kæruleysi og vinnusvikum. Engin von er til þess, að íslenzkir unglingar komist klakklaust og óbrenndir á hugarfari frá þessum sérkennilegu geymslustofnunum.

Íslenzkir foreldrar og skólamenn hafa meðtekið nútímann með þeirri skekkju, að frelsi skuli koma í stað uppeldis. Þess vegna elst fólk upp hér á landi án þess að kunna að haga sér. Það elur hvað annað upp og ákveður sjálft, að það sé smart að liggja í svínastíunni.

Ýmis kerfi á Íslandi, svo sem ríki og sveitarfélög, hafa litið á íþróttahreyfinguna sem tæki til að koma í stað mistaka þjóðarinnar í uppeldismálum. Kenningin er sú, að börnin læri heilbrigt samstarf og heilbrigða samkeppni í leik og þjálfun innan íþróttafélaga.

Í þessu skyni verja opinberu kerfin gífurlegum fjármunum til stuðnings íþróttum. Bæjarfélög greiða mestan hluta mannvirkjanna, sem notuð eru til íþrótta. Tugir milljóna liggja á lausu til íþrótta í bæjarfélögum, sem ekki eiga til hnífs og skeiðar á öðrum sviðum.

Ekkert bannar, að opinberu kerfin með digru sjóðina setji sér einhver markmið um að fá eitthvað annað í staðinn en linnulausar boltakeppnir, sem tröllríða heilum bæjarfélögum svo, að þar eru menn tæpast viðmælandi um framfarir og gengi bæjarfélagsins.

Sum íþróttafélög og sumar deildir innan íþróttafélaga reyna að sinna uppeldishlutverki. Önnur félög láta sig slíkt engu skipta og sums staðar er beinlínis unnið að spillingu æskulýðsins, svo sem sýnir dæmið frá Grindavík, þar sem verið er að framleiða drykkjurúta.

Eðlilegt er, að auknar verði kröfur um, að íþróttafélög vinni fyrir hinum opinbera stuðningi með því að taka þátt í uppeldisþörfum þjóðfélagsins og reyni meðal annars að sýna ungmennum fram á andstæður heilbrigðra íþrótta og meðvitundarlítils drykkjuskapar.

Þótt við höfum á þremur kynslóðum stokkið aftan úr miðöldum inn í vestrænan nútíma, hefur okkur tekizt að læra að þrífa okkur, halda á hníf og gaffli og laga okkur á ýmsan hátt að siðum þjóða. Við getum alveg eins lært að hætta að orga og æla af völdum drykkjuskapar.

Mikilvægt skref í þá átt felst í, að íþróttahreyfingin taki sér tak og komi þeim skilaboðum á framfæri til félagsmanna sinna, að mannasiðir séu prýðilegir.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir neita sér um aflaspákerfi

Greinar

Klúðrað hefur verið ágætu tækifæri til að auka þekkingu í fiskveiðum við Ísland og gera skipstjórnarmönnum kleift að ná meiri afla með minni tilkostnaði. Vegna misskilnings og greindarskorts hefur verið stöðvuð vinna við þróun athyglisverðs aflaspákerfis.

Sökin er jöfn annars vegar hjá Hafrannsóknastofnun, Sjávarútvegsstofnun háskólans og Radíómiðun, sem hafa þróað spákerfið, og hins vegar Landssambandi íslenzkra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, sem komu í veg fyrir framgang málsins.

Misskilningurinn byrjaði að leika lausum hala eftir sjávarútvegssýninguna í fyrra, þar sem aðstandendur aflaspákerfisins settu árangur þróunarstarfsins fram í hinum hefðbundna ýkjustíl, sem allt of oft einkennir framsetningu sölumanna á afurðum sínum.

Skipstjórnarmenn töldu, að Hafrannsóknastofnun hefði afhent utanaðkomandi aðilum aðgang að afladagbókunum, sem þeir hafa afhent stofnuninni sem trúnaðarskjöl. Þannig yrði sérþekking þeirra og þjálfun gerð aðgengileg óviðkomandi samkeppnisaðilum.

Þegar misskilningurinn var kominn á flot, var reynt að bæta úr skák með því að kynna málið fyrir útvegs- og skipstjórnarmönnum. Útskýrt var, að frumgögn afladagbóka voru ekki notuð, heldur síaðar safntölur, sem ekki ljósta upp um veiðistaði einstakra skipstjóra.

Vegna greindarskorts ráðamanna í samtökum útvegsmanna og skipstjórnarmanna tókst ekki að koma útskýringunum til skila. Samtökin fóru fram á, að þróun aflaspákerfisins yrði hætt. Orðið var við óskinni og tölunum skilað aftur til Hafrannsóknastofnunar.

Í málflutningi ráðamanna í samtökum útvegsmanna og skipstjórnarmanna kemur fram mikið af illskiljanlegri þvælu. Eitt stendur þar upp úr sem gild röksemd, að afladagbækurnar eru trúnaðarmál og Hafrannsóknastofnun þarf að fara gætilega með efni þeirra.

Hafrannsóknastofnunin átti að hafa samráð við höfunda afladagbókanna um notkun efnis úr þeim. Sjávarútvegsstofnun háskólans og Radíómiðun áttu að fara með löndum í kynningu málsins. Samtök útvegs- og skipstjórnarmanna áttu að lokum að taka sönsum.

Niðurstaðan verður því sú, að Ísland dregst aftur úr í fiskveiðitækni. Eftir að hafa verið áratugum saman fremstir í tæknivæðingu, verðum við nú að horfast í augu við, að japanskir og bandarískir skipstjórnarmenn, en ekki íslenzkir, geta hagnýtt sér aflaspákerfi.

Slíkt kerfi hefði verið eitt tækið enn í brúnni, gert sókn íslenzka fiskiskipaflotans markvissari, sparað olíukostnað, dregið úr olíumengun og á ýmsan annan hátt gert skipstjórum kleift að nýta betur almenna veiðireynslu sína og sérþekkingu á góðum veiðistöðum.

Verstur er hlutur félagsmálaberserkja, sem af völdum greindarskorts lögðu ekki nógu mikið af mörkum til að sýna félagsmönnum sínum fram á, að ekki væri verið að ráðast gegn hagsmunum þeirra, heldur halda áfram að bæta tækjum í vopnabúr þeirra í lífsbaráttunni.

Mál þetta minnir á, að þjóðin getur ekki leyft fámennum og misvitrum hópi manna að ráðskast með fiskimiðin sem sína persónulegu eign, svo sem Alþingi hefur gert með lögum um veðsetningu aflaheimilda. Þjóðin verður að endurheimta eignarhald sitt á auðlindum hafsins.

Þegar samtök útvegs- og skipstjórnarmanna standa stjörf gegn hagþróun í landinu, rennir það nýjum stoðum undir kröfuna um þjóðareign á auðlindum hafsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Eftirlegukind frá haftatímanum

Greinar

Evrópusambandið hefur gert Íslendingum meira gagn með einfaldri og ófrávíkjanlegri kröfu um flugfrelsi innanlands heldur en Samkeppnisráð hefur gert á löngum ferli, fyrst sem Verðlagsráð. Við sjáum áhrif Evrópusambandsins í fargjaldahruni á innanlandsleiðum.

Samkeppnisráð hefur þó verið að færast í aukana á síðustu árum. Það hefur nú úrskurðað, að samningur Eimskipafélagsins og Samskipa um Ameríkusiglingar brjóti í bága við samkeppnislög. Af hefðbundinni mildi veitir ráðið þó félögunum þriggja ára undanþágu.

Samkeppnislög segja skýrt, að samstilltar aðgerðir fyrirtækja á sama sölustigi séu bannaðar, þegar þeim er ætlað að hafa áhrif á skiptingu markaða. Það gerðu Eimskip og Samskip einmitt nákvæmlega, þegar þau tóku upp samstarf í Ameríkusiglingum um áramótin.

Ráðið veitir undanþáguna á gamalkunnum forsendum haftakerfisins gamla. Það segir, að flutningar hafi farið minnkandi, flutningsgeta hafi ekki verið nýtt og félögin hafi sýnt fram á tap. Í framhaldi bullar forneskjulegt ráðið um jákvæð áhrif af hömlum á samkeppni.

Villan í hugmyndafræði haftakerfisins felst í að taka núverandi ástand tilkostnaðar framleiðanda og reikna verðgildi vörunnar eða þjónustunnar út frá honum. Verðgildi vöru og þjónustu fer hins vegar ekkert eftir fyrirhöfninni, sem liggur að baki á hverjum tíma.

Verðgildi vöru og þjónustu, hvort sem það eru Ameríkusiglingar, innanlandsflug eða eitthvað annað, felst í því verði, sem frjáls og óheftur markaður vill borga fyrir hana. Í þessu felst grundvallarmunur markaðsbúskapar og haftabúskapar að hætti Samkeppnisráðs.

Samkvæmt markaðshagfræðinni eru áhyggjuefni Samkeppnisráðs marklaus með öllu. Við sjáum það líka í raunveruleikanum, að allt í einu er hægt að lækka fargjöld innanlands um helming, eftir áratuga samfelldan grát Flugleiða út af meintu tapi á innanlandsflugi.

Ef ráðið hefði komið nálægt ákvörðuninni um innlent flugfrelsi, hefði það einmitt hindrað frelsið með hliðstæðri tilvísun til þess, að úttekt hefði leitt í ljós, að tap væri á innanlandsflugi og að flutningsgeta væri meiri en næg fyrir þann markað, sem væri “til skiptanna”.

Ráðið fúskaði raunar lítils háttar við sameiningu innanlandsflugs Flugleiða og Flugfélags Norðurlands í eitt Flugfélag Íslands. Það gerði kröfu til ýmissa ytri formsatriða, sem áttu að dylja einokunina, svo sem kröfu um, að fulltrúar eigendafélaganna sætu ekki beint í stjórn.

Málsaðilar vældu dálítið út af þessum kröfum og sögðu þær sumpart kjánalegar, sem þær raunar voru. Engu að síður gátu þeir farið kringum þær og haldið áfram fyrirhugaðri einokun í skjóli Samkeppnisráðs. Ef Evrópusambandið hefði ekki komið til skjalanna.

Helzti galli ráðsins er, að það starfar enn að nokkru eins og það gerði, þegar það hét Verðlagsráð. Breytingar á gömlu vinnubrögðunum frá haftatímanum hafa verið svo feimnislegar og hægfara, að það treystir sér ekki einu sinni til að fara eftir nýju samkeppnislögunum.

Undanþágan í Ameríkusiglingunum sýnir vel, að ráðið hefur ekki enn áttað sig á nýjum lögum og nýjum tíma. Það er enn að nudda haftastírurnar úr augunum og veit raunar ekki, hvaðan á sig stendur veðrið, þegar reynt er að segja því, að ný hagfræði ráði ríkjum.

Vegna þessa hefur Samkeppnisráð brugðist vonum samkeppnissinna. Markaðsframfarir hér á landi koma enn að utan, samkvæmt kröfum Evrópusambandsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Skapgerðarbrestur þjóðarinnar

Greinar

Útlendingar eru seinþreyttir að verða hissa á drykkjulátum Íslendinga. Þau eru til dæmis til umræðu í alþjóðlegum spjallþáttum sálfræðinga á Netinu. Þeir furða sig til dæmis á, að þjóð, sem innbyrðir óvenjulega lítið áfengi, skuli eigi að síður drekka sér til óbóta.

Húsadalshelgi Austurleiða í Þósmörk um helgina er orðin að árvissum þætti hins merkilega og einstæða fyrirbæris, sumardrykkjuferða unglinga. Þær ná venjulega árlegu hámarki um verzlunarmannahelgi, þegar óharðnað fólk veltist organdi um í eigin spýju.

Þáttur unglinga í ölæði Íslendinga er ekki meiri en annarra. Hann er hins vegar meira áberandi, af því að hann fer fram úti á götum í miðbæjum og á fjöldasamkomum til sveita. Eldra fólk veltist frekar organdi um í spýju sinni heima hjá sér bak við luktar dyr.

Unglingarnir hafast það að úti á malbiki eða grasi, sem þeir sjá hina fullorðnu gera á teppum og parketti. Þetta er gamla sagan um, að það, sem höfðingjarnir hafast að, hinir halda sér leyfist það. Drykkjuvolæði Íslendinga er alls ekki sérhæft unglingavandamál.

Flestir Íslendingar haga sér eins og annað fólk. En ölæðisfólkið er hlutfallslega fjölmennara hér á landi en í öðrum löndum, til dæmis á Norðurlöndum og Bretlandseyjum. Það gefur tóninn í meira mæli og vekur því sérstaka athygli gesta, sem ber að garði.

Við þurfum að fara að taka á þessu vandamáli, ekki vegna útlendinganna, sem hingað koma, heldur vegna sjálfsvirðingar þjóðarinnar. Við þurfum að losa okkur sem þjóð við skapgerðarbrestinn, sem brýtur persónuna niður í ósjálfbjarga slytti, er veltist um á jörðinni.

Útlendingar eru aðeins nefndir í þessu samhengi, að þeir eru vitni að atburðunum og segja frá þeim, þegar heim er komið. Vegna þessa vitnisburðar, sem birtist sí og æ í erlendum fjölmiðlum, er ekki hægt að afneita því, að ofurölvun er séríslenzk þjóðarmeinsemd.

Í engilsaxneskum löndum er mikið drukkið. Þar er hins vegar viðurkennd hefð, að fólk reynir í lengstu lög að halda höfði. Þar er talið niðurlægjandi að verða áberandi ölvaður. Menn reyna að hætta drykkju, þegar þeir eru farnir að missa stjórn á boðkerfum líkamans.

Hér á landi hefur ekki mótast slík hefð. Fólki finnst það einfaldlega vera í lagi að missa stjórn á sér af völdum ofdrykkju. Þessi skoðun endurspeglast síðan í öðrum vandamálum, þar á meðal í unglingadrykkju, en einnig í ofbeldisglæpum, sem framdir eru undir áhrifum.

Ísland væri nánast glæpafrítt land, ef ekki væru ölæðisglæpirnir. Það eru ekki bara ofbeldisverkin, sem framin eru undir áhrifum, heldur flest auðgunarbrotin einnig. Allur þorri þeirra, sem dæmdir eru til fangavistar, flokkast sem áfengis- eða eiturefnasjúklingar.

Mikilvægt er að taka í löggæzlunni og í dómskerfinu á birtingarmyndum vandamálsins. Refsingar við glæpum þarf að herða. Stemma þarf stigu við ölæði á almannafæri, hvort sem er á fjölmennum samkomum eða á götum úti í hjarta miðborgar Reykjavíkur.

Mestu máli skiptir þó að grafast fyrir rætur meinsins. Finna þarf, hvað það er í hugarfari Íslendinga, sem gerir okkur ólíka öðrum þjóðum, þótt skyldar okkur séu. Við þurfum að einangra skapgerðarbrestinn og skapa nýja hefð um, að menn skuli ávallt halda höfði.

Við þurfum að byrja á uppeldi hinna fullorðnu, foreldra, skólamanna, íþróttaþjálfara og annarra æskulýðsleiðtoga. Þar finnum við fyrirmyndir unglinganna.

Jónas Kristjánsson

DV

Fámennisstjórn auðkýfinga

Greinar

Ráðamenn Kína geta mikið lært af Hong Kong eftir yfirtökuna, ef þeir kæra sig um. Þar eru háþróaðar nútímastofnanir, sem hingað til hafa tryggt samfellda velgengni Hong Kong, svo sem frjáls kauphöll, frjálst réttarkerfi, frjáls fjölmiðlun og frjálst kosið þing.

Ráðamenn Kína geta spurt sig, hvers vegna íbúum Hong Kong hefur vegnað efnahagslega miklu betur og hraðar en íbúum meginlandsins. Þeir geta raunar einnig spurt sig, hvers vegna kínverskum íbúum Taívans og annarra nágrannalanda yfirleitt hefur vegnað betur.

Óþarfi að gera mikið veður út af flýti Kínastjórnar við að senda her og skriðdreka til Hong Kong. Ráðamenn Kína eru fyrst og fremst að sýna mátt sinn og megin, svo sem gjarnt er um þá, er skortir sjálfsöryggi. Þeir eru ekki að efna til blóðbaðs á friðartorgunum í Hong Kong.

Hitt er ills viti, að lýðræðislega kjörið þing í Hong Kong hefur verið sent heim og í þess stað skipað nýtt þing samkvæmt nafnalista frá Beijing. Það bendir til, að Kínastjórn muni ekki sætta sig við, að fólkið í Hong Kong geti átölulaust fengið að segja hug sinn.

Kínastjórn hefur komið á fót sérstæðri tegund fámennisstjórnar í Hong Kong. Það er ekki fámennisstjórn flokksleiðtoga, heldur auðkýfinga, sem sækja afar íhaldssama og almennings-fjandasmlega hugmyndafræði sína miklu fremur til Singapúr en til Beijing.

Búast má við, að auðkýfingarnir vilji fremur réttaröryggið og siðavendnina í Singapúr en réttaróvissuna og spillinguna í Kína. Þeir munu þó að hætti Singapúrs vilja hafa lögin ströng, sérstaklega þau, sem lúta að gagnrýni á stjórnvöld og viðurlögum við henni.

Erfiðara verður að koma slíku á í Hong Kong en í Singapúr. Íbúar fyrri staðarins hafa vanizt því að fá að segja hug sinn, mynda með sér félög að eigin geðþótta og geta valið úr ótal fjölmiðlum með fjölbreytilegar skoðanir. Hong Kong er miklu vestrænni en Singapúr.

Líklegast er, að í fyrstu verði spennan í Hong Kong fyrst og fremst milli vestrænt hugsandi lýðræðissinna og fámennisstjórnar auðkýfinganna, sem óttast lýðinn, fremur en milli stjórnarinnar í Hong Kong annars vegar og yfirstjórnarinnar í Beijing hins vegar.

Að vísu er engin sérstök sagnfræðileg ástæða til að reikna með, að Kínastjórn láti auðkýfingana í Hong Kong ráða ferðinni. Þeir hafa vanizt því að vera íhlutunarsamir, enda búa þeir við hugmyndafræði, sem segir, að smáu sem stóru skuli stjórnað frá valdamiðjunni.

Ennfremur sýnir reynslan, að stjórnin í Beijing er mjög íhlutunarsöm við landamærin. Hún gerði innrás í Tíbet og innlimaði það. Hún gerði innrás í Indland og náði þar nokkrum héruðum. Hún gerði innrás í Víetnam, en varð undan að láta við lítinn orðstír.

Kínastjórn hefur verið með yfirgang gagnvart Taívan og gagnvart ríkjum, sem eiga lönd að Kínahafi. Hún gerir tilkall til óbyggðra eyja, sem eru miklu nær ströndum annarra landa. Hún gerir tilkall til Mongólíu og héraða í Rússlandi. Hún er ófriðleg á öllum landamærum.

Óhjákvæmilegt var, að Kína tæki völdin í Hong Kong. Bretland hefur ekki innri kraft til að verja fjarlægar leifar heimsveldis síns. Betra er, að valdaskiptin fari fram á friðsamlegan hátt en með blóðsúthellingum. Ef illa fer fyrir Hong Kong, er ekkert við því hægt að gera.

Því miður er líklegt, að óttinn við, að áhrifin frá Hong Kong grafi undan kerfinu á meginlandinu, verði yfirsterkari lönguninni til að læra af ríkidæmi borgarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Kaflaskil í hagblindusögu

Greinar

Furðulegum kafla lýkur í hagblindusögu Íslendinga á þriðjudaginn, þegar þeir geta valið sér flugfélag milli staða innanlands. Frá og með þeim degi verða sérleyfi lögð niður í innanlandsflugi. Samkeppni hefst að nýju eftir áratuga hlé og frjálst verð tekið upp á farseðlum.

Hagblinda hélt innreið sína í hagstjórn ríkisins snemma í kreppunni miklu á fjórða áratug aldarinnar. Hún lá eins og mara á þjóðinni í þrjá áratugi og byrjaði ekki að sjatna fyrr en með Viðreisn. Leifar hagblindunnar sjást t.d. í skömmtun í samgöngum og fjölmiðlun.

Enn eimir eftir af hagblindu hugarfarsins. Enn reikna margir verðgildi hluta og þjónustu út frá fyrirhöfninni, sem fer í að búa hlutina til eða sinna þjónustunni. Þeir hafa ekki áttað sig á, að í markaðskerfi er ekki beint orsakasamband milli fyrirhafnar og tekna af henni.

Í markaðskerfi ræðst verðlag af því, sem markaðurinn vill borga, en ekki af útreiknuðum fjölda vinnustunda margfölduðum með tímakaupi og af útreiknuðu verðgildi fjárfestinga deilt með afskriftatíma þeirra. Það er ekki til neitt verð, “sem kostar að gera hlutina”.

Í markaðskerfi er spurt, hvers virði varan eða þjónustan sé fyrir þann, sem vill eða vill ekki nota hana, en ekki hvers virði fyrirhöfnin var fyrir þann, sem býður vöruna eða þjónustuna. Íslendingar hafa átt vestrænna þjóða erfiðast með að skilja þetta grundvallarlögmál.

Samt er lögmálið ekki ný bóla. Markaðshyggjan hefur verið mannkyninu eðlileg frá örófi alda. Skömmtunarhagfræðin var hins vegar tiltölulega ný bóla, sem á skömmum tíma sannaði undraverða hæfni við að leggja heilar þjóðir að velli í efnahagsmálum.

Einna sterkust er hagblinda Íslendinga í landbúnaði. Þar eru framdir flóknir útreikningar á kostnaði og síðan fundið út, hvað neytendur og skattgreiðendur eigi að borga til að reikningsdæmin gangi upp. Þar er þó að renna upp fyrir mönnum, að útreikningarnir dugi ekki.

Árum saman höfum við heyrt og lesið, að tap sé á innanlandsflugi, að tekjur af því svari ekki kostnaði. Þetta hefur verið notað sem rök gegn endurheimtu frelsi á flugleiðum innanlands og sem rök með framhaldi forsjárhyggju á vegum reiknimeistara ríkisins.

Árum saman hefur farþegum í innanlandsflugi verið talin trú um, að verið sé að gefa með 14 þúsund króna farseðli fram og til baka milli Akureyrar og Reykjavíkur. Frá og með þriðjudeginum gefst fólki kostur á að borga helminginn, 7 þúsund krónur, fyrir þessa leið.

Nú er viðurkennt eins og fyrr á öldum, að það sé ekki hlutverk ríkisins að hafa vit fyrir athafnamönnum, sem vilja bjóða lægra verð fyrir vöru sína og þjónustu. Hlutverk ríkisins sé þvert á móti að setja leikreglur, sem ryðji samkeppnishindrunum úr vegi markaðarins.

Ein af leikreglunum er, að ríkið varðveiti tryggingafé til að nota til aðstoðar farþegum, sem annars yrðu strandaglópar, ef illa fer fyrir kappsömum athafnamönnum. Þannig tryggir velferðarríki nútímans, að óheft samkeppni komi ekki niður á óheppnum notendum hennar.

Fullur sigur er ekki unninn, þótt tvö fyrirtæki stundi innanlandsflug. Skemmst er að minnast þess, að nýlega var með sameiningu lögð niður samkeppni tveggja fyrirtækja á nokkrum flugleiðum. Hugsanlegt er, að Flugfélagið og Íslandsflug verði einhvern tíma sameinuð.

Ef nýja samkeppnin dofnar, er mikilvægt, að leikreglur ríkisins séu jafnan slíkar, að ekki sé lagður steinn í götu annarra, sem vilja hlaupa í samkeppnisskarðið.

Jónas Kristjánsson

DV

Samanburðarfræði hagkerfa

Greinar

Samanburðarfræði ýmissa afbrigða vestrænna hagkerfa er í tízku um þessar mundir, bæði vegna ánægju Bandaríkjamanna af eigin árangri í efnahagsmálum og vegna umræðna um áhrif sigurs vinstri flokka í tveimur af stærstu ríkjum Evrópu, Bretlandi og Frakklandi.

Breiddin í afbrigðum vestrænna hagkerfa er mikil. Í öðrum kantinum eru Bandaríkin, þar sem markaðsöflin eru frjálsari en annars staðar og í hinum kantinum er Frakkland, þar sem ríkisstýring er meiri innan markaðskerfisins en hjá öðrum vestrænum stórveldum.

Bandaríkjamenn benda á mikinn hagvöxt, stöðugt verðlag og mikla atvinnu sem dæmi um yfirburði bandarísku útgáfunnar. Frakkar benda hins vegar á, að mælingar á lífsgæðum almennt, ekki bara peningum, sýni, að sú sé hamingjan mest að búa í Frakklandi.

Alvarlegir gallar eru á báðum þessum útgáfum. Í Frakklandi er mikið atvinnuleysi og af þess völdum mikið þjóðfélagsrót, sem tengist spennu milli fasista og nýbúa. Vinnuafl er lítt sveigjanlegt og lagast afar hægt að náttúrulegum breytingum á atvinnuháttum.

Í Bandaríkjunum skilar hagvöxturinn sér aðeins að litlu leyti til almennings. Láglaunafólk býr við skertan kost í góðærinu og sætir þar á ofan vaxandi takmörkun á persónulegu svigrúmi á vinnustað vegna hertra aðgerða stjórnenda við að auka framleiðni fyrirtækjanna.

Norrænu ríkin eru ekki þau fyrirmynd, sem þau voru áður. Sameiginlegt einkenni þeirra er að hafa ofkeyrt þanþol velferðarkerfisins. Í nokkur ár hafa þau verið að draga í land og reyna að setja velferðinni skorður til að endurheimta samkeppnishæfni gagnvart útlöndum.

Þýzkaland er að ýmsu leyti í svipaðri stöðu og Norðurlönd. Þar hefur frá tímum Adenauers og Erhardts verið rekin stefna félagslegs markaðsbúskapar, sem hefur leitt til þess, að lífskjör fólks hafa farið töluvert framúr getu atvinnulífsins til að standa undir þeim.

Bretland hefur verið hálfgerð tilraunastofa allt frá valdaskeiði Thatcher, sem færði hagkerfið frá franska kantinum að hinum bandaríska. Það virðist hafa gefið nógu góðan hagvöxt til þess, að vinstri stjórnin nýja hyggst ekki hrófla mikið við kerfi járnfrúarinnar.

Það eru þó tvö önnur og smærri lönd í Evrópu, sem öðrum fremur hafa vakið athygli fyrir að sameina mikinn hagvöxt, mikla atvinnu, litla verðbólgu, gott réttlæti og mikla festu í innviðum þjóðfélagsins. Þetta eru Írland og Holland, sem margir leita nú fyrirmynda hjá.

Einkum þykir Hollendingum hafa tekizt vel, þótt þeir státi raunar ekki af litlu atvinnuleysi. Þeir hafa í senn reynt að leyfa markaðsöflunum að leika sem mest lausum hala, en hafa til mótvægis haldið uppi öflugri velferð með miklum millifærslum á vegum skattakerfisins.

Að mörgu leyti minnir hollenzkt hagkerfi á íslenzkt hagkerfi allra síðustu ára. Bæði löndin einkennast af þjóðarsáttum um kaup og kjör og góðu skipulagi á hægfara eflingu lífskjara innan ramma stöðugs verðlags svo og af félagslegu réttlæti og sveigjanleika vinnuafls.

Frá sjónarmiði markaðsbúskapar eru Hollendingar þó okkur fremri. Þeir hafa í meira mæli hafnað ríkisrekstri og tekizt betur að koma í veg fyrir fáokun í atvinnulífinu. Þeir reka til dæmis sinn landbúnað eins og atvinnuveg en ekki eins og félagsmálastofnun.

Viðfangsefni vestrænna þjóða hefur ekkert breytzt um langan aldur, þrátt fyrir tilraunastarfsemi. Þær eru sí og æ að reyna að sætta markaðshyggju og félagshyggju.

Jónas Kristjánsson

DV

26 milljarða skaðsemi

Greinar

Samningur bandarísku tóbaksfyrirtækjanna við fjörutíu ríki í Bandaríkjunum hefur fordæmisgildi og samsvarar ímynduðu 26 milljarða króna samkomulagi þeirra við íslenzka ríkið, ef miðað er við íbúafjölda. Það eru um 100.000 krónur á hvern núlifandi Íslending.

Samkomulagið í Bandaríkjunum nær aðeins yfir það tjón, sem áætlað er, að tóbaksfyrirtækin hafi valdið þar vestra. Það nær ekki til tjóns af völdum þeirra á Íslandi. Þess vegna er eðlilegt, að íslenzk stjórnvöld taki upp þráðinn í framhaldi af bandaríska samningnum.

Tóbaksfyrirtækin gera ráð fyrir að geta fjármagnað samkomulagið með því að auka tekjur sínar af tóbakssölu erlendis um hærri fjárhæð en þá, sem þau verða að greiða bandarískum aðilum. Þau telja sig samkvæmt þessu áfram hafa veiðileyfi á útlendinga.

Erlend ríki ráða auðvitað, hvort þau veita slíkt veiðileyfi. Þau hafa hagsmuna að gæta fyrir hönd borgaranna og einnig sem einn helzti fjármögnunaraðili sjúkdómakerfisins. Þeim ber að rísa upp til varna í framhaldi af sameinuðu framtaki bandarísku ríkjanna 40.

Fyrir löngu er orðin vísindaleg staðreynd, að tóbak er óvenju sterklega vanabindandi eitur, sem veldur ótímabærum sjúkdómum og dauða, svo og gífurlegum sjúkrakostnaði af völdum sjúkdómanna. Ljóst má vera, að það er ábyrgðarhluti að framleiða og selja slíkt eitur.

Komið hefur í ljós, að ráðamenn tóbaksfyrirtækjanna hafa lengi vitað um nikótínfíknina og hafa meira að segja hagrætt nikótíninnihaldi tóbaks til að efla fíkn fórnardýranna. Þeir eru því engu betri pappírar en þeir, sem selja hefðbundin fíkniefni í skúmaskotum.

Einnig hefur komið í ljós, að þeir hafa lengi vitað um geigvænleg áhrif tóbaks á heilsufar. Þeir hafa því vitandi vits árum saman verið að framleiða og selja eitur, sem hefur skelfilegar afleiðingar í formi óvenjulega illvígra og sársaukafullra sjúkdóma fórnardýranna.

Raunar eru margir hissa á því, hve vel fíkniefnabarónar tóbaksfyrirtækjanna sleppa í samningnum. Meðal annarra hefur Clinton Bandaríkjaforseti lýst efasemdum sínum um ágæti hans. Í fjölmiðlum er dregið í efa, að bandaríska þingið muni staðfesta hann óbreyttan.

Engin ástæða er fyrir Íslendinga að sætta sig við, að erlendir eiturlyfjasalar geti óátalið látið dreifa fíkniefnum sínum á öðru hverju götuhorni landsins. Vandinn er hins vegar sá, að svo margir eru ánetjaðir eitrinu, að erfitt væri að framfylgja annars sanngjörnu sölubanni.

Hægt er þó að taka tóbakið úr almennum búðum og flytja það í sérstakar verzlanir, svo sem áfengisútsölur eða lyfjabúðir, enda á það heima innan um önnur fíkniefni. Ennfremur þarf að efla um allan helming aðgerðir til að hjálpa fólki til að forðast að ánetjast tóbaki.

Árlegar tekjur ríkisins af tóbaki nema tíunda hluta bandarísku skaðabótanna, ef þær væru færðar yfir til íslenzkra aðstæðna. Af þessum tíunda hluta skilar ríkið aðeins til baka einum hundraðasta hluta til tóbaksvarna, 34 milljónum króna af 3 milljörðum króna.

Íslenzka ríkið er þannig samsekt bandarísku eiturlyfjaframleiðendunum. Það hagnýtir sér eins og þeir, að tóbaksnotendur eru háðir fíkninni og geta ekki hætt. Þess vegna breytist tóbaksnotkun lítið við verðbreytingar. Fíkniefni fylgja ekki markaðslögmálum.

Á sama hátt og íslenzka ríkið á skaðabótakröfu á hendur bandarísku tóbaksfyrirtækjunum, þá ber því einnig að nota sinn hluta illa fengins fíkniefnagróða til tóbaksvarna og lækninga á sviði tóbakssjúkdóma.

Jónas Kristjánsson

DV

Það góða sem ég vil geri ég ekki

Greinar

Frá upphafi núverandi útgerðar Helgarpóstsins hefur ritstjórinn einmitt gert það, sem hann sýknt og heilagt varaði aðra við. Hann hefur búið við 40% eignaraðild áhrifamikils aðila úti í bæ, útgáfufélags Alþýðubandalagsins, þess sem rekur Vikublaðið fyrir flokksstyrkinn.

Í ofanálag héldu málsaðilar eignarhaldinu leyndu fyrir lesendum Helgarpóstsins og félögum Alþýðubandalagsins og svo auðvitað þjóðinni allri um leið. Þingmenn Alþýðubandalagsins hafa komið af fjöllum og hafa misjafnar skoðanir á þessari ráðstöfun verðmæta.

Athyglisverðast í þessu samhengi er, að það hefur verið ein helzta fjölmiðlunarkenning Helgarpóstsins, að eignarhald hafi mikil áhrif á innihald fjölmiðla, jafnvel þótt það sé aðeins einn tíundi hluti þess, sem útgáfufélag Alþýðubandalagsins átti í Helgarpóstinum sjálfum.

Það góða, sem ég vil, geri ég ekki, sagði nafngreindur postuli fyrir tveimur árþúsundum. Það er því hefð fyrir, að misræmi sé milli góðs vilja og góðra verka. Hins vegar lagði fyrri postulinn ekki í vana sinn að væna einmitt aðra um það athæfi, sem hann stundaði ákafast sjálfur.

Ritstjóri Helgarpóstsins hefði ekki litið það mildum augum, ef þeir, sem hann setti ofan í við, hefðu reynt að verja sig með því, að þeir væru svo góðir í sér, að þeir létu eigendur ekki hafa áhrif á sig. Honum finnst hins vegar frambærilegt að segja þetta sjálfur um sjálfan sig.

Ritstjóri Helgarpóstsins hefði ekki litið það mildum augum, ef þeir, sem hann setti ofan í við, hefðu reynt að verja sig með því að segjast ætla að reyna að bæta ráð sitt á allra næstu mánuðum. Honum finnst hins vegar frambærilegt að segja þetta sjálfur um sjálfan sig.

Nú eru uppi ráðagerðir um, að ritstjóri og starfsfólk blaðsins kaupi hlut útgáfufélags Alþýðubandalagsins og að stjórnarmenn í því útgáfufélagi taki skellinn persónulega, ef það endurheimtir ekki þriggja milljóna króna hlutafé sitt. Batnandi postulum er bezt að lifa.

Það breytir hins vegar því ekki, að málinu var mánuðum saman haldið leyndu fyrir öllum þeim, sem hefðu viljað vita um eignarhald blaðsins, þegar þeir lásu innihald þess. Það breytir ekki því, að nýju loforðin fögru stafa af, að glöggir menn komu upp um strákinn Tuma.

Sú síðbúna skýring heldur ekki vatni, að peninga, sem átt hafi að fara í samstarf Vikublaðsins og Helgarpóstsins um ýmsa framleiðsluþætti, hafi dagað uppi sem hlutafé hjá Helgarpóstinum og legið þar í átta mánuði, af því að Vikublaðið hafi misst áhuga á samstarfinu.

Það er ekki augljós aðferðafræði við samstarf um framleiðsluþætti að leggja fram 40% af hlutafé samstarfsaðilans, missa síðan áhuga á samstarfinu og láta loks hlutaféð liggja eins og ekkert hafi í skorizt. Sú vörn annarra hefði ekki staðizt gagnrýni Helgarpóstsins.

Ljóst er, að hugmyndafræði blaðsins mun breytast að samsetningu í kjölfar uppljóstrunarinnar. Framvegis verður minna um samsæriskenningar þess, þar sem dularfullar og glæpsamlegar hneigðir og fyrirætlanir eru taldar standa að baki smávægilegum eignarhlutum.

Málið skaðar um leið aðra fjölmiðla. Það spillir fyrir öllum hinum, þegar þeir taka málsmetandi menn á beinið og prédika yfir þeim góða siði. Á næstunni verður slíku svarað með því að segja, að postularnir og prédikararnir séu ekki barnanna beztir, svo sem dæmin sanni.

Taka mun langan tíma að fá menn til að viðurkenna, að leyndarmál Helgarpóstsins sé einstakt leyndarmál, sem segi alls ekkert um aðra fjölmiðlun í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV