Að eiga kökuna og éta hana

Greinar

Mörgum Íslendingum finnst í lagi að reyna að hafa tekjur af hvoru tveggja í senn, hvalveiðum og hvalaskoðun. Meirihluti þjóðarinnar vill hefja hvalveiðar að nýju, þrátt fyrir boðaðar refsiaðgerðir umheimsins og þrátt fyrir sannaða tekjumöguleika af hvalaskoðun.

Menn virðast ekki gera sér grein fyrir, að fólkið, sem vill borga mikið fyrir að skoða hvali, vill líka leggja hönd á plóginn til að refsa ríkjum, sem leyfa hvalveiðar. Svo virðist sem Íslendingar séu reiðubúnir til að trúa því, að þeir geti hvort tveggja, átt kökuna og étið hana.

Norræni laxasjóðurinn, undir forustu Orra Vigfússonar, hefur lagt til við ríki Norður-Atlantshafsins, að þau komi sér upp sameiginlegum gæðastimpli fyrir sjávarafurðir, svo að þær verði að eins konar merkjavöru, sem seljist á hærra verði en aðrar sjávarafurðir.

Hugmyndin byggist á því, að settar verði harðar reglur um gæði og hreinlæti, um jafnvægi í lífríki sjávar, um hóflega veiði og umhverfisvæn veiðarfæri. Gæðastimpillinn þarf að vera trúverðugur til þess, að væntanlegir viðskiptavinir taki mark á honum.

Á sama tíma og menn gæla við hugmyndir Orra eru íslenzkir sjómenn að menga sjóinn út og suður. Vísað er frá kærumálum Hollustuverndar vegna losunar olíu og grútar, veiðarfæra og rusls. Refsiákvæði mengunarlaga eru losaraleg og áhugaleysi embættismanna algert.

Ráðamenn sveitarfélaga hafa svipuð viðhorf og sjómenn og telja, að lengi taki sjórinn við. Um helgina voru íbúar Grafarvogs í freyðibaði úr lækjum frá Ártúnshöfða. Margir sóðarnir ímynda sér samt, að Ísland geti verið með í markaðsátaki hreinna sjávarafurða.

Komið hefur í ljós, að mikill peningur er í lífrænum landbúnaði, sem er alþjóðlega skilgreint hugtak. Fólk er reiðubúið að kaupa matvöru hærra verði, ef hún er ræktuð án eiturefna og tilbúins áburðar. Hér er stunduð slík ræktun og rekin vottunarstofa á því sviði.

Bændasamtökin ofsækja þessa starfsemi og þykjast ætla að bjóða í staðinn upp á eitthvað, sem kallað er vistvænn landbúnaður, sem ekki er alþjóðlega skilgreint hugtak á borð við lífrænan landbúnað, og hefur ekkert sölugildi sem dýr og trúverðug merkjavara.

Þessi stefna bændasamtakanna er tilraun til að selja íslenzkan landbúnað eins og hann er, áður en hann hefur verið siðvæddur að hætti lífræns landbúnaðar. Fyrir kvartmilljarð króna af almannafé er búin til ímyndun vistvæns landbúnaðar til að spara fyrirhöfn.

Kökugeymsla og kökuát landsfeðranna fer fram með þeim hætti, að með annarri hendi skrifa þeir undir loforð um minnkun á losun skaðlegra efna út í andrúmsloftið og með hinni hendinni skrifa þeir undir samninga um stóriðju, sem eykur losun þessara efna.

Landsfeðurnir segjast hafa mikinn áhuga á umhverfisvernd og hafa búið til sérstakt embætti umhverfisráðherra, sem í rauninni er útibú frá landbúnaðarráðuneytinu og gætir stundarhagsmuna mengandi atvinnuvega, einkum og sér í lagi sauðfjárræktar.

Umhverfisráðuneytið stefnir markvisst að því að koma lögsögu hálendisins í hendur þeirra sveitarfélaga, þar sem sauðfé er ein helzta atvinnugreinin. Þetta er liður í tilraunum til að viðhalda atvinnu af ofbeit og uppblæstri, sem rannsóknir sýna, að eru á háu stigi.

Við héldum ranglega, að í senn mætti reka Mývatn sem kísilnámu og koma því á skrá helztu náttúruminja heims. Við höfum étið þá köku og eigum hana því ekki.

Jónas Kristjánsson

DV

Markaðslögmál kennara

Greinar

Meira en hundrað kennara vantar til starfa í skólum landsins í haust. Meira að segja vantar nærri tvo tugi kennara í Reykjavík, þar sem sjaldan hefur verið skortur á kennurum. Auglýsingar eftir kennurum bera keim vaxandi vantrúar á, að þær muni skila árangri.

Þetta minnir á stöðuna eins og hún var fyrir réttum áratug. Nú er þensla í þjóðfélaginu eins og þá og nú er auðvelt fyrir kennara eins og þá að fá aðra vinnu, betur borgaða. Þetta heita markaðslögmál og eru réttilega talin vera hreyfiafl efnahagslegra framfara.

Vel getur verið, að starfskröftum kennara sé betur varið í mikilvægum störfum utan skólanna. Þannig sé kennaraskorturinn þjóðhagslega hagkvæmur. En dæmið hlýtur þó að líta öðruvísi út frá sjónarmiði þeirra, sem bera ábyrgð á, að fræðsluskyldu sé haldið uppi.

Sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins reyna að halda kennurum og fá kennara með því að bjóða staðbundin kaupígildi í ýmsu formi. Svo langt gengur auglýsingamennskan, að grunnskólinn á Hellissandi auglýsir aðgang að orkunni frá Snæfellsjökli.

Að öllu samanlögðu veldur þetta launaskriði og eykur þrýsting á ríkisvaldið að láta meira en ella undan kröfum kennara um almennar kjarabætur. Svo vel vill til fyrir kennara, að núgildandi samningar renna út um næstu mánaðamót, þegar vetrarstarfið er að byrja.

Dæmið snýst aðeins að forminu til um, hvort kennarar eigi skilið hærri laun eða ekki, af því að störf þeirra séu svo mikilvæg fyrir þjóðfélagið eða ekki. Markaðsöflin hafa þegar tjáð sig um þetta mál og komizt að raun um, að freista þurfi fleiri til kennarastarfa.

Dæmið snýst ekki heldur um, hvort refsa eigi kennarastéttinni fyrir að hafa haldið uppi skólastarfi, sem skilar minni árangri en hliðstætt starf í öðrum löndum, einnig þeim sem hafa stærri bekkjardeildir, lægri rekstrarkostnað skóla og lægri kennaralaun.

Fjölþjóðlegar rannsóknir benda til, að lítið samhengi sé milli kostnaðarþátta skólastarfsins og árangurs nemenda í samræmdum prófum í ýmsum löndum. Þetta má orða á þann hátt, að lítið samhengi sé milli þess, sem lagt er í skólakerfið, og þess, sem kemur út úr því.

Þetta jafngildir því hins vegar ekki, að alveg sé sama hver kjör kennara séu í samanburði við aðrar stéttir í sama þjóðfélagi. Ef kjör þeirra eru slakari en annarra, verður atgervisflótti úr stéttinni. Það kemur niður á skólastarfi. Þannig starfa hin sjálfvirku markaðsöfl.

Þegar svo er komið, að hvorki er unnt að manna skólakerfið vel né illa, heldur mannast það alls ekki, hljóta ábyrgðarmenn kerfisins að taka afleiðingum þess og fara að bæta kjör kennara. Hér er ekki verið að tala um réttlæti, heldur eðlilega sjálfsvörn skólakerfisins.

Lengi var sagt, að laun kennara mættu vera lægri en ella vegna langrar sumarlokunar, mikilla fría um jól og páska og vegna lítils afkastaþrýstings í samanburði við almenna vinnumarkaðinn. Markaðsöflin hafa hins vegar úrskurðað, að þessi fríðindi vegi muninn ekki upp.

Búast má við, að þjóðfélagið fari að gera vaxandi kröfur til skólakerfisins um mælanleg afköst, svo sem tíðkast í einkageiranum. Búast má við, að kennarafrí fari að dragast saman. Að einhverju leyti má nota slík atriði sem afsökun fyrir bættum kjörum kennara.

Allar rökræður af þessu tagi blikna fyrir þeirri staðreynd, að íslenzkir skólar fást ekki mannaðir að fullu, af því að þeir eru ekki samkeppnishæfir í kjörum.

Jónas Kristjánsson

DV

Indverska ævintýrið

Greinar

Þegar Bretar lögðu undir sig þau lönd, sem nú heita Indland, voru þar tugir konungsríkja, tugir tungumála og tugir trúarbragða. Þetta var eiginlega heil heimsálfa, sem síðan öðlaðist sjálfstæði fyrir fimm áratugum. Þá voru ekki margir, sem spáðu vel fyrir Indlandi.

Enn eru tugir tungumála og tugir trúarbragða í Indlandi. Enn er þar hver höndin uppi á móti annarri, svo sem við er að búast í svo sundurleitu ríki. En það er ennþá eitt og heilt ríki eins og við stofnunina. Og það hefur í samfellda fimm áratugi verið lýðræðisríki.

Sjálfstæðissaga Indlands er samfellt ævintýri. Þótt þar búi þjóðir, sem hver skilur ekki tungu annarrar né trúarbrögð annarrar, hefur ríkisheildin haldizt í fimm áratugi. Víða eru aðskilnaðarhreyfingar, sumar hverjar blóði drifnar, en áhrif þeirra fara þverrandi.

Enn furðulegra er, að Indland skuli hafa haldið leikreglum lýðræðisins allan þennan tíma. Aðeins einu sinni rambaði Indíra Gandhi á barmi einræðishneigðar, þegar hún gaf út tilskipun um neyðarlög, en varð síðan að lúta í lægra haldi fyrir leikreglum lýðræðisins.

Indverjar búa við dreifingu valdsins eins og við þekkjum hana á Vesturlöndum. Þeir hafa sjálfstæða dómstóla. Þeir hafa nánast einir þjóða í þriðja heiminum búið í ríki laga og réttar í samfellda fimm áratugi. Þetta er ekki síðra ævintýri en samheldni ríkisins.

Þriðja ævintýrið er, að hungursneyð er liðin tíð í Indlandi. Þótt mannfjölgun hafi verið þar gífurleg og íbúafjöldinn sé núna kominn upp í einn milljarð, getur ríkið brauðfætt fólkið í landinu af eigin landbúnaði. Hagvöxtur hefur verið hægur, en jafn og þéttur.

Mikil fátækt er að vísu í landinu. Margir eiga rétt til hnífs og skeiðar og fara á mis við lágmarksaðstæður í hreinlæti og öðru því, sem víðast telst til nauðsynja. Helmingur þjóðarinnar er ólæs. Óréttlæti og ójöfnuður er víða áberandi, en fer smám saman minnkandi.

Svo er komið um þessar mundir, að maður af flokki paría, lægstu stéttar landsins, er orðinn forsætisráðherra. Þannig hafa fornar siðareglur stéttaskiptingar smám saman vikið fyrir nútímanum. Börn fátæklinga eru komin í fremstu röð valdamanna í ríkinu.

Fornar hefðir hafa dregið úr hraða endurbóta í Indlandi. Útbreiddustu trúarbrögðin hafa verið þess eðlis, að þau hafa hamlað gegn endurbótum, til dæmis í réttlætismálum og heilbrigðismálum. Samt hefur Indverjum tekizt að staulast fram eftir framfaravegi.

Það spillti mjög fyrir hagþróun hins nýsjálfstæða ríkis, að flestir ráðamenn þess voru menntaðir í Bretlandi undir áhrifum félagsmanna í Verkamannaflokknum brezka, sem þá höfðu tröllatrú á ríkisrekstri og ríkisafskiptum og áttu eftir að valda miklum hagspjöllum.

Undir þessum áhrifum var komið upp umfangsmiklum ríkisrekstri og öðru ríkisrugli í Indlandi, sem enn er verið að vinda ofan af. Segja má, að áhrif brezka Verkamannaflokksins hafi áratugum saman legið eins og mara á Indlandi og drepið landshagi í dróma.

Samt eru Indverjar ágætir kaupsýslumenn og eiga auðvelt með að tileinka sér markaðslögmál nútímans, svo sem sjá má víða um heim. Því meira sem losað verður um hlekki ríkisafskipta, þeim mun meiri líkur eru á, að hagþróun verði ör og örugg í heimalandinu.

Með því að hafa í fimm áratugi lifað við kosti og galla lýðræðis eru Indverjar betur í stakk búnir en flestar þjóðir þriðja heimsins að mæta síbreytilegri framtíð.

Jónas Kristjánsson

DV

Til sölu: Orð og gerðir

Greinar

Bandaríska læknafélagið hefur gert samning við hrærivélafyrirtækið Sunbeam um að mæla með ýmsum vörum þess, svo sem blóðþrýstingsmælum, hitateppum, hitamælum og rakatækjum. Þetta er hrein fjáröflun og tengist ekki gæðum þessara tækja umfram önnur slík.

Bandaríska krabbameinsfélagið hefur á sama hátt mælt með Florida appelsínusafa, sem er engu hollari en aðrar tegundir appelsínusafa. Bandaríska tannlæknafélagið hefur mælt með Crest tannkremi, sem er engu gagnlegra en aðrar tegundir tannkrems.

Allt er þetta hrein fjáröflun félaganna, svipuð þeirri, er íþróttamenn mæla með ákveðnum merkjum íþróttavöru, leikarar með ákveðnum merkjum tóbaks og rithöfundar með ákveðnum tegundum áfengis. Fólk er að selja frægð sína í smáskömmtum fyrir peninga.

Um öll þessi meðmæli gildir, að það eyðist, sem af er tekið. Trúverðugleiki bandarísku læknasamtakanna, bandaríska krabbameinsfélagsins og bandaríska tannlæknafélagsins minnkar auðvitað við þessa augljósu misnotkun á nöfnum þeirra í skammvinnu ábataskyni.

Bandarískir læknar hafa verið að síga í áliti á heimavígstöðvum. Fólk er í auknum mæli farið að efast um gagnsemi þeirra og er farið að snúa sér að óhefðbundum lækningum af fjölbreyttasta tagi, sumum gagnlegum og öðrum ekki, eins og gengur og gerist.

Þetta er þáttur í stærra ferli, þar sem allt er orðið að söluvöru. Bezt sést þetta í bandarískum stjórnmálum, þar sem verðmiðar eru komnir á flesta hluti. Það kostar til dæmis ákveðna upphæð í kosningasjóð demókrata að fá að sofa í svefnherbergi Lincolns í Hvíta húsinu.

Þeim tíma er að ljúka, að fólk geti fengið aðgang að stjórnmálamönnum á annan hátt en gegn gjaldi. Þannig varði þjóðflokkur Cheyenne-Arapaho-indíána einum og hálfum árstekjum sínum fyrir sæti handa höfðingja sínum í hádegisverði með Clinton Bandaríkjaforseta.

Þetta siðleysi gengur svo langt, að beinir og óbeinir sendimenn erlendra ríkja, einkum í Suðaustur-Asíu greiða milljónir dollara fyrir að fá að sofa eina nótt í Hvíta húsinu, vera á hádegisverðarfundi með forsetanum eða spila með honum níu holur í golfi.

Spilling af þessu tagi er ekki bundin við Bandaríkin, þótt ný listform á því sviði sjái þar oftast fyrst dagsins ljós, af því að Bandaríkjamenn eru oft hugkvæmari en aðrir. Á sumum sviðum ganga aðrar þjóðir lengra, einkum í þágu utanríkisviðskipta við þriðja heiminn.

Í Þýzkalandi og Japan fá fyrirtæki skattafslátt af mútugreiðslum til erlendra fyrirtækja til að liðka fyrir viðskiptum, svo að viðskiptajöfnuðurinn við útlönd geti batnað. Þetta magnar spillingu í þriðja heiminum og dregur úr getu hans til að lyfta sér upp úr eymdinni.

Reynt hefur verið að mæla spillingarkostnað í ýmsum löndum. Talið er, að hann sé víða um 5% landsframleiðslunnar í þriðja heiminum, sums staðar um 10% í Suðaustur-Asíu og um 20% í Indónesíu. Í því landi er spillingarkostnaðurinn tvöfaldur launakostnaðurinn.

Samanlagt dregur þessi víðtæka spilling úr getu lýðræðiskerfisins til að standa undir hlutverki sínu. Fjármagni er veitt á annarlegan hátt gegn straumum markaðarins. Traust fer minnkandi, þegar almenningur áttar sig á, að orð og gerðir flestra eru til sölu.

Þegar læknasamtök eru gegn greiðslu farin að mæla með hrærivélafyrirtæki, er þjóðfélagið orðið svo gegnsýrt af spillingu, að hún er orðin að afli allra hluta.

Jónas Kristjánsson

DV

Víðerni allra landsmanna

Greinar

Tafirnar, sem orðið hafa á friðlýsingu vatnasviðs þjóðgarðsins á Þingvöllum, stafa af hagsmunagæzlu fjögurra sveitarfélaga, sem liggja að svæðinu. Þær eru forsmekkur vandamálanna, sem munu skapast, ef aðliggjandi sveitarfélög fá lögsögu á miðhálendi Íslands.

Miðhálendið er ein helzta auðlind þjóðarinnar og samkvæmt dómsúrskurðum að mestu leyti ekki í eigu neins aðila, ekki ríkis, ekki sveitarfélaga og ekki einstakra bújarða. Umhverfisráðherra stefnir að því, að fjörutíu sauðfjár-sveitarfélög fái lögsögu yfir þessu svæði.

Hagsmunir sveitarfélaganna fjörutíu hafa lengst af tengst upprekstri sauðfjár og ofbeit á þessu svæði. Þeir eru algerlega andstæðir þjóðarhagsmunum, sem fyrst og fremst tengjast nýtingu hins ósnortna víðernis sem uppsprettu endurnæringar og gjaldeyristekna.

Ferðamannaþjónusta skiptir okkur meira máli en sauðfjárrækt. Ferðamenn skapa verðmæti, en sauðfé eyðir þeim. Erlendir ferðamenn eru svo mikilvægir, að tekjur af núverandi og fyrirhugaðri stóriðju og orkuverum tengdum þeim blikna í samanburði við þá.

Enn er tími til að koma í veg fyrir lögsögu sveitarfélaganna fjörutíu. Alþingismenn stjórnarflokkanna verða að fara að átta sig á skaðræðisáhrifum núverandi umhverfisráðherra og byrja að vinda ofan af þeim, áður en kemur að skuldaskilum í næstu þingkosningum.

Bezt væri, ef kjósendur í Reykjavík og í Reykjanesumdæmi stilltu þingmönnum sínum upp við vegg og segðu við þá: “Þið hafið löngum leyft ótrúlegustu dreifbýlishagsmunum að vaða uppi. Nú er nóg komið. Við sem kjósendur segjum ykkur öllum upp störfum.”

Fyrirhuguð lögsaga fjörutíu sauðfjár-sveitarfélaga á miðhálendinu er kjörið tækifæri fyrir kjósendur í öðrum sveitarfélögum til að byrja að segja: “Nei, takk, nú verður ekki gengið lengra.” Mismununin í máli þessu er svo augljós, að ekki verður unnt að verja hana.

Við væntanlega og nauðsynlega stefnubreytingu er brýnt, að miðhálendið verði gert að sameign þjóðarinnar allrar, en ekki fjörutíu sveitarfélaga. Það verður bezt gert með lögsögu ríkisins, sem er eini aðilinn í landinu, sem hefur umboð fyrir alla landsmenn.

Ennfremur er brýnt, að ráðamenn fari að átta sig á, að tekjur þjóðarinnar af margvíslegu raski á miðhálendinu vegna orkuvera og stóriðju eru ekki nema hluti af tekjum þjóðarinnar af ferðamönnum, sem fremur vilja sjá ósnortið víðerni en stíflugarða og raforkulínur.

Hingað til hefur Landsvirkjun hagað sér eins og hún eigi miðhálendið. Hún hefur lagt þar línur kruss og þvers. Hún hefur búið til steindauð miðlunarlón með breytilegu vatnsyfirborði og viljað kaffæra alþjóðlega viðurkennd náttúruundur á borð við Þjórsárver.

Frá því að Landsvirkjun var fyrst leyft að leika lausum hala hefur tvennt gerzt í senn. Í fyrsta lagi hefur orðið hugarfarsbreyting, sem felur í sér, að fólk tekur ósnorið víðerni fram yfir stóriðju. Í öðru lagi hafa menn áttað sig á, að tekjudæmið er annað en ætlað var.

Við þetta bætist, að íslenzka ríkið hefur tekið á sig fjölþjóðlegar skuldbindingar um minnkaða losun skaðlegra lofttegunda á borð við þær, sem koma frá stóriðju. Erfitt verður að standa við skriflegu loforðin nema kúvending verði í umhverfismálum landsins.

Undanfarin ár hefur orðið veruleg hugarfarsbreyting þjóðarinnar í umhverfismálum. Þeirrar breytingar þarf nú að fara að sjá stað í stjórnsýslu og lagasetningu.

Jónas Kristjánsson

DV

“Lengi tekur sjórinn við”

Greinar

Óhæfur ríkissaksóknari er ein af orsökum þess, að kærur Hollustuverndar vegna mengunar sjávar hafa verið látnar niður falla hjá embætti hans. Fimm sinnum hefur Hollustuvernd reynt að vekja embættið til aðgerða og jafnoft hefur embættið komið sér hjá aðgerðum.

Óhæft umhverfisráðuneyti er önnur orsök þess, að íslenzkir sjómenn komast upp með að menga hafið, jafnvel í vitna viðurvist. Ráðuneytið hefur ekki stutt sem skyldi við kærumálin, sem Hollustuvernd hefur sent til meðferðar embættis ríkissaksóknara.

Ennfremur hefur ráðuneytið látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að skýrari lögum og reglugerðum, þar sem refsingar séu margfalt harðari en nú gilda. Þær eru nú svo vægar, að ríkissaksóknari getur vísað til þess, að ekki taki því að fá brotamenn dæmda.

Þetta tengist auðvitað þeirri dapurlegu staðreynd, að einn helzti andstæðingur umhverfismála er sjálfur ráðherra umhverfismála, sem jafnframt hefur það hlutverk sem landbúnaðarráðherra að vernda þau gífurlegu umhverfisspjöll, sem enn eiga sér stað í landbúnaði.

Með framgöngu sinni hafa ráðuneyti og ríkissaksóknari látið þau boð út ganga, að það sé í lagi að menga hafið. Það sé í lagi að fleygja grúti í sjóinn. Það sé í lagi að fleygja vírum í sjóinn. Það sé í lagi að skilja net eftir í sjó. Og það sé í lagi að nota eitraða skipamálningu.

Um leið er verið að segja útlendingum, að Íslendingum sé ekki treystandi til að taka þátt í fjölþjóðlegu átaki um verndun hafsins fyrir mengun, svo að það megi hér eftir sem hingað til verða gullkista hollra matvæla. Það er verið að segja, að við séum ólæknandi sóðar.

Auðvitað eru Íslendingar sóðar. Það sést af meðferð úrgangs frá mörgum þéttbýlisstöðum landsins. Um hann gildir hin hefðbundna, íslenzka meginregla: “Lengi tekur sjórinn við”. Meðferð skipstjórnarmanna á úrgangi og rusli er þáttur í þessari íslenzku skaphöfn.

Þótt sjórinn taki lengi við, eru eigi að síður mælanleg áhrif af menguninni. Ólögleg skipamálning, sem er vinsæl hér á landi, hefur þegar skaðað lífríki sjávar hér við land. Með því að fyrirlíta lífsbjörgina með þessum hætti, munum við smám saman eyðileggja gullkistuna.

Um leið erum við að koma óorði á útflutt matvæli sjávarútvegsins. Einhvern tíma kann að koma að því, að valdamiklar stofnanir í útlöndum komi auga á kæruleysi og auðnuleysi Íslendinga í umhverfismálum og leggi stein í götu viðskipta okkar við útlönd.

Alþingi ber í haust að taka á þessari alvarlegu vanrækslu. Setja þarf skýr og hörð lög um mengun sjávar, með ákvæðum um háar sektir og varðhald. Við þurfum í eitt skipti fyrir öll að koma lögum yfir sóða og vernda þannig útflutningshagsmuni okkar til langs tíma.

Ennfremur þarf að breyta stjórnsýslunni á þann veg, að ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar geti ekki haft umhverfisráðuneytið í vasanum í þágu skammtímasjónarmiða. Sérstaklega er mikilvægt, að ráðherra mengunarráðuneytis sé ekki jafnframt umhverfisráðherra.

Einn þáttur þessa séríslenzka blygðunarmáls leysist af sjálfu sér. Núverandi ríkissaksóknari mun láta af völdum í haust og við taka annar, sem væntanlega telur ekki utan verkahrings síns að fylgja eftir kærum út af brotum á lagaákvæðum um spjöll á umhverfinu.

Mestu máli skiptir, að þjóðin fari að komast til þroska og fari að átta sig á, að spakmælið: “Lengi tekur sjórinn við”, er í raun áfellisdómur þjóðarinnar um sjálfa sig.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrefað um mannréttindi

Greinar

Mannréttindi og vestrænn hroki eru leiðarorð í þrefi, sem oft má sjá í samskiptum ríkisstjórna á Vesturlöndum og í þriðja heiminum. Í kjölfar stjórnarskipta í Bretlandi og breytinga á stjórn Bandaríkjanna hafa magnazt vestrænar kröfur um mannréttindi í öðrum álfum.

Nú eru það ekki lengur harðstjórar Afríku, sem eru í fylkingarbrjósti andstöðunnar gegn hinum vestrænu kröfum. Það eru ríkisstjórnir nýríkra landa í Suðaustur-Asíu, sem andmæla Vesturlöndum og beita yfirvegaðri málflutningi, en áður tíðkaðist í þessum efnum.

Til skamms tíma var notuð röksemdin um, að íbúar hvers þróunarríkis yrðu að standa saman til að þróa landið. Þeir hefðu ekki efni á sundrungunni, sem fylgdi vestrænu lýðræði, heldur bæri þeim að fylkja sér um hinn sterka leiðtoga, er mundi leiða þær fram á veg.

Ljóst var, að kenningin var ekkert annað en yfirvarp á tilraunir harðstjóra þriðja heimsins til að fá að vera í friði við að kúga þjóðir sínar, ræna verðmætum þeirra og koma illa fengnum peningum á bankareikninga í Sviss. Kenningin hefur enda lengi legið dauð og grafin.

Ríkisstjórnir Suðaustur-Asíu vísa hins vegar í menningararf í þeim heimshluta, sem sé öðru vísi en hinn vestræni. Ekki sé þar hefð fyrir því, að einstaklingurinn sé þungamiðja heimsins, heldur sé það samfélagið. Þar sé fólki eðlilegt að vera þegnar fremur en borgarar.

Um nokkurra ára skeið hafa valdhafar í Singapúr verið helztu hugmyndafræðingar andófsins gegn mannréttindakröfum, valdhafar í Malasíu helztu slagsmálamenn hennar, valdhafar í Indónesíu helztu fýlupokar hennar og valdhafar í Kína helztu dólgar stefnunnar.

Með vaxandi efnahagsgengi slíkra ríkja hefur ráðamönnum þeirra vaxið sjálfstraust til að standa uppi í hárinu á ráðamönnum Vesturlanda, þegar þeir eru að amast við mannréttindabrotum í harðstjórnarríkjum á borð við Indónesíu, Kambódsíu, Kína og Burma.

Þessi og önnur ríki Suðaustur-Asíu skáka óþarflega mikið í skjóli viðskiptahagsmuna vestrænna fjárfesta, sem vilja ekki, að Vesturlönd séu að efna til úlfúðar við góð fjárfestingarríki. Einnig láta þessi ríki bera fé í bandaríska kosningasjóði til að kaupa sér frið.

Ráðherrar í Malasíu segja, að sáttmálar Sameinuðu þjóðanna hafi verið orðaðir á tíma, þegar Vesturlönd réðu þar lögum og lofum. Þeir endurspegli vestræn viðhorf, sem ekki séu algild. Sáttmálar þessir yrðu orðaðir á allt annan veg, ef nú væri verið að semja þá.

Hugmyndafræðingar Vesturlanda segja hins vegar það vera algilt lögmál, að fólk eigi að vera frjálst sem einstaklingar. Menn eigi að fá óttalaust að segja meiningu sína, taka þátt í hvers konar samtökum, eiga aðgang að fjölbreyttum upplýsingum og stunda trú sína.

Ýmsir aðrir menningarheimar en hinn vestræni eru sammála þeim sjónarmiðum, sem ráðherrar í Malasíu og Singapúr segja vestræn. Sjónarmiðin í Indlandi eru svipuð hinum vestrænu og sama má segja um Japan, þótt þar vilji menn sízt af öllu styggja nágranna sína.

Það einkennir einmitt heimssögu síðustu ára, að þjóðir Austur-Evrópu og Suður-Ameríku hafa í stórum stíl varpað af sér oki harðstjóra og skipað mannréttindum til hásætis að nýju. Í þeim heimshlutum eru slík sjónarmið ekki talin bara vestræn, heldur algild.

Vesturlönd eiga ekki að slá af mannréttindakröfum. Hugmyndafræði þeirra er á sigurbraut, enda er hún forsenda langvinnrar hagsóknar og annarra framfara.

Jónas Kristjánsson

DV

Pólitíkusar verja gæludýrin

Greinar

Viðskiptaráðherra hefur ekki skoðun á, hvort það séu óeðlilegir viðskiptahættir olíufélaganna að bjóða annars vegar öll sama benzínverð upp á eyri og hins vegar að rýma hvert fyrir öðru á Austurlandi og Norðausturlandi, þannig að eitt félag verði eftir á hverjum stað.

Viðskiptaráðherra telur raunar líklegast, að um eðlilega hagræðingu sé að ræða. Samt eru aðgerðir olíufélaganna þess eðlis, að þær eru til þess fallnar að draga úr þörfum olíufélaganna á hagræðingu til að geta boðið viðskiptamönnum sínum lægra verð en áður.

Þótt ekki sé ljóst, um hvers konar hagræðingu ráðherrann er að tala, þá er það örugglega ekki sú hagræðing, sem felst í, að þjóðarhagur batni með lægra benzínverði. Til dæmis er ekki um að ræða ódýrari yfirbyggingu, sem ætlað er að skila sér í lægra vöruverði.

Formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis er enn kátari en ráðherrann, því að hann telur aukna samkeppni hafa leitt til minni samkeppni. Olíufélögin séu að loka benzínstöðvum til að spara kostnað á móti öðrum kostnaði, sem þau hafi orðið fyrir í harðri keppni.

Hann telur ekki vera um skipulega markaðsskiptingu að ræða, þótt olíufélögin rými hvert fyrir öðru og kaupi jafnvel eigur hvert annars í því skyni, að einungis eitt olíufélag verði eftir á hverjum stað. Raunar hafnar hann algerlega kenningunni, að um samráð sé að ræða.

Í ofanálag telur formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, að mikil samkeppni sé milli olíufélaganna um viðskipti, þótt benzínverðið sé hið sama. Vísar hann til punktakorta þeirra, sem Neytendasamtökin hafa gagnrýnt og bönnuð hafa verið á Norðurlöndum.

Formaðurinn telur semsagt, að aukin samkeppni felist í sjónhverfingum, sem stjórnvöld á Norðurlöndum telja fjandsamlegar samkeppni. Hann telur aukna samkeppni felast í sjónhverfingum, sem Neytendasamtökin hafa fordæmt sem óhagstæðar fyrir valfrelsi neytenda.

Viðhorf viðskiptaráðherra og formanns efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis endurspeglar viðhorf tveggja stærstu stjórnmálaflokka landsins, sem áratugum saman hafa gætt hagsmuna olíufélaganna og varðveitt þau fyrir innrás heilbrigðra markaðslögmála.

Röksemdir ráðherrans og formannsins eru botnlaus þvæla, sem vonandi vekur athygli neytenda á þeirri óeðlilegu stöðu, að stjórnmálaflokkarnir eru í leyni fjármagnaðir af stórfyrirtækjum, sem þiggja að launum vernd stjórnmálanna og stuðning til fáokunar.

Mistekizt hafa allar tilraunir til að setja lög um opið bókhald og opnar viðskiptamannaskrár stjórnmálaflokkanna, af því að slík opnun mundi sýna kjósendum fram á samhengið milli gjafmildi nokkurra stórfyrirtækja og pólitískra ákvarðana, sem eru þeim í hag.

Þjónustulund stjórnmálamanna á borð við formann efnahags- og viðskiptanefndar og viðskiptaráðherra endurspeglast síðan hjá ýmsum stofnunum, sem reynzt hafa hallar undir bræðralag fyrirgreiðslukerfisins. Þannig lætur Samkeppnisstofnun olíufélögin í friði.

Samkeppnisstofnun sá ekkert athugavert við, að Olíufélagið keypti Olíuverzlunina og hefur ekkert gert í kæru Neytendasamtakanna vegna verðlagningar olíufélaganna á benzíni, sem er hin sama upp á eyri. Hún er ekkert að flýta sér, þegar um gæludýrin er að ræða.

Viðbrögð stjórnmálamanna og eftirlitsstofnunar segja skýra sögu um þriðja heims þjóðfélag, sem er gegnsýrt af fyrirgreiðslum í þágu gæludýra kerfisins.

Jónas Kristjánsson

DV

Ísraelsmenn vilja blóð

Greinar

Ástandið í Palestínu verður að versna, áður en það byrjar að batna. Framferði Ísraelsmanna á hernumdu svæðunum þarf að byrja að ganga fram af Bandaríkjamönnum, eins og það er farið að ganga fram af Evrópumönnum. Bandarískri fjármögnun Ísraels þarf að linna.

Hingað til hefur Ísrael verið haldið hernaðarlega og efnahagslega á floti með bandarísku fé. Stuðningurinn stafar af, að bandarískir fjölmiðlar eru hallir undir Ísrael og að bandarískir pólitíkusar hafa slæma reynslu af að ögra þrýstihópum stuðningsmanna Ísraels.

Jafnframt þurfa Palestínumenn að losna við Arafat sem leiðtoga. Komið hefur í ljós, að hann getur ekki stjórnað Palestínu vegna spillingar í hirð hans, vegna hirðuleysis hennar um hefðbundinn embættisrekstur og vegna óbeitar hans á nauðsynlegri valddreifingu.

Ófriðarferlið í Palestínu stefnir í rétta átt. Opinskár ofbeldismaður í stjórnmálum hefur tekið við af lævísum samningamanni sem forsætisráðherra Ísraels. Netanyahu hefur tekið við af Peresi og stefnir ótrauður að blóðugu uppgjöri milli Ísraela og Palestínumanna.

Netanyahu hefur brotið flest ákvæði samkomulagsins í Ósló um friðarferli í Palestínu. Hann hefur reynt að ögra Palestínumönnum sem mest hann má, meðal annars með því að endurnýja landnám Ísraelsmanna á hernumdu svæðunum, gegn mótmælum umheimsins.

Enn fremur heldur hann fyrir stjórn Palestínumanna veltusköttum, sem stjórn hans hefur innheimt á hennar vegum. Þetta kemur ofan á endurtekið viðskiptabann og hefur rústað fjárhag Palestínu, sem var þó bágur fyrir, einkum vegna efnhagshryðjuverka Ísraelsstjórnar.

Mestu máli skiptir þó, að hann er að reyna að beygja Arafat í duftið. Það gerir hann með hertum kröfum um, að Arafat sjái um, að almennt verði hafðar hendur í hári stuðningsmanna Hamas-hreyfingarinnar, sem hefur stutt hryðjuverk af hálfu einstakra Palestínumanna.

Þetta getur Arafat ekki, enda er ástandið þannig, að hryðjuverk eru ofur skiljanleg og eðlileg viðbrögð langkúgaðrar þjóðar gegn hernámsliði helzta fasistaríkis nútímans. Ef Arafat lætur handtaka stjórnarandstæðinga holt og bolt, er hann búinn að vera sem þjóðarleiðtogi.

En Arafat er hvort sem er búinn að vera. Hann hefur gert samninga við hernámsríki, sem það hefur ekki staðið við. Hann stendur uppi sem hálfgerður leppur Netanyahus. Í vaxandi mæli styðst hann við hirð sína og leyniþjónustu, en ekki við almenningsálitið í landinu.

Búast má við, að Hamas-hreyfingin taki smám saman við sem málsvari Palestínu. Hún mun mæta Likud-hreyfingu Netanyahus á nótum, sem hún skilur. Það verður ofbeldi gegn ofbeldi. Þegar það ferli hefur verið leitt til enda, getur friðarferli loksins hafizt að nýju.

Arafat dugði aðeins, þegar við Peres var að semja. Þar stóð samningarefur gegn samningaref. Ef þeir hefðu fengið tækifæri til að halda áfram að þrúkka um málið, hefði Palestínumálið hugsanlega fengið farsælan endi. En það vildu kjósendur í Ísrael ekki. Þeir kusu blóð.

Með því að velja opinskáan ofbeldismann sem forsætisráðherra valdi Ísrael ófriðarferli, sem enn er rétt að byrja. Hryðjuverkum á eftir að fjölga á báða bóga. Arafat mun smám saman missa tökin og Netanyahu mun halda áfram að niðurlægja hann og þjóð hans.

Þetta mun smám saman leiða til styrjaldar eða ígildi styrjaldar. Að því blóðbaði loknu verða menn loksins orðnir svo þreyttir, að nýtt friðarferli getur hafizt.

Jónas Kristjánsson

DV

Sykur er fitandi fíkniefni

Greinar

Nýjar rannsóknir í Bandaríkjunum benda til, að sykur sé vanabindandi fíkniefni, sem valdi svipuðu boðefna- rugli í heilanum og önnur fíkniefni. Þeir, sem ánetjast sykri finnst sig vanta því meiri sykur sem þeir borða meiri sykur. Þetta er vítahringur fíkniefnanna.

Þetta styður fyrri kenningar um, að sykur sé einn helzti orsakavaldur offitu, sem er að verða eitt dýrasta heilbrigðisvandamál nútímans. Á mörgum meðferðarstofnunum offitu í Bandaríkjunum er farið að líta á stöðvun sykurneyzlu sem lykil að góðum árangri.

Offita er ekki það eina, sem sykurinn hefur á samvizkunni. Rannsóknir Helga Valdimarssonar prófessors benda til, að sykur sé veigamikill þáttur í sveppaóþoli, sjúkdómi, sem hefur valdið langri píslargöngu manna milli ótal sérfræðinga, sem ekki hafa skilið vandann.

Lengi hefur verið vitað, að sykur skemmir tennur. Þeir, sem hafa séð tennur tærast upp í glasi með gosi, geta í framhaldi af því spurt sjálfa sig að því, hvort ekki sé líklegt, að svona öflugt tæringarefni geti haft áhrif víðar í líkamanum en á tennurnar einar.

Þessi heilsuvandamál og ýmis önnur af völdum sykurs blikna við hlið hinna nýju upplýsinga um, að hann sé fíkniefni ofan á annað. Framleiðendur ýmissa matvæla hafa þó lengi ekki velkzt í neinum vafa um, að það auki viðskiptin að bæta sykri í matvælin.

Til þess að gera mjólkurvörur seljanlegri er bætt í þær 5­10% sykri ofan á þann mjólkursykur, sem fyrir er í vörunni. Slíkar fíkniefnablöndur mjólkur eru kallaðar fínum og sakleysislegum nöfnum á borð við skólajógúrt, skólaskyr, ávaxtajógúrt og ávaxtaskyr.

Til þess að gera morgunkorn seljanlegra er bætt í það sykri, allt að 47% af innihaldi pakkanna í algengum tegundum morgunkorns. Þetta er auðvitað ágætis aðferð til að gera fólk að fíkniefnaneytendum strax á barnsaldri, löngu fyrir aldur tóbaks, áfengis og amfetamíns.

Foreldrar, sem gefa börnum sínum þessar mjólkurvörur með þessu morgunkorni, gætu alveg eins gefið þeim brjóstsykur út á súkkulaði í morgunmat. Sykurmagnið er svipað og óhollustan svipuð. Þannig stuðla foreldrar óafvitandi að offitu og öðrum sykursjúkdómum barna.

Í matvörubúðum á Íslandi er leitun að pakkavöru, dósavöru eða glasavöru, sem inniheldur viðbættan sykur í minna magni en 1%. Yfirleitt er innihaldið margfalt meira. Það þýðir, að sykurinn er ekki lengur notaður bara sem krydd, heldur er hann hluti vörunnar.

Verst af öllu er gosið, sem er meira en 99% sykur að þurrefni. Neyzla á gosi hefur þrefaldazt hér á landi á þremur áratugum. Algengt er orðið, að sjá börn ganga um götur með heils og hálfs lítra flöskur af gosi á sama hátt og fyrirrennarar þeirra gengu um með sígarettur.

Ef frá er dreginn sykur, sem notaður er í útflutningsiðnaði og sykur, sem af náttúrulegum ástæðum er í mjólkurvörum og ávöxtum, notar hver einstaklingur eitt kíló af viðbættum sykri á viku. Sumir nota miklu meira, því börn og gamalmenni eru meðtalin.

Þessi mikla notkun á viðbættum sykri þýðir, að Íslendingar eru í öðru sæti í heiminum í ofneyzlu sykurs, næstir á eftir Bandaríkjamönnum. Í báðum þessum löndum eru offita og offitusjúkdómar eitt alvarlegasta og dýrasta heilbrigðisvandamál líðandi stundar.

Aukin þekking á afleiðingum notkunar á fíkniefninu sykri mun vafalítið leiða til stórtækra og víðtækra gagnaðgerða á Vesturlöndum á allra næstu árum.

Jónas Kristjánsson

DV

Með fjárreiður undir borði

Greinar

Djarfar tilraunir olíufélaganna til að skipta markaðinum milli sín með því að víkja hvert fyrir öðru á Austfjörðum vekja lítil viðbrögð embættismanna og stjórnmálamanna. Það stafar ekki aðeins af sofandahætti, heldur af gamalgróinni velvild í garð gjafmildra.

Stjórnmálaflokkar hér á landi, með Sjálfstæðisflokkinn í broddi fylkingar, eru mjög háðir beinum og óbeinum framlögum stórfyrirtækja. Oft hefur verið reynt að fá upplýsingar um þessi mál upp á borðið, en ekki tekizt vegna eindreginnar andstöðu flokkanna.

Við erum eftirbátar annarra vestrænna þjóða á þessu sviði. Í löndum á borð við Bandaríkin og Þýzkaland eru reikningar og viðskiptamannayfirlit flokkanna opin skjöl, sem allir mega sjá. Þetta er þar talið vera eðilegur þáttur í gegnsæju þjóðfélagi markaðsbúskapar.

Í vestrænum ríkjum er talið eðlilegt, að stjórnmálaflokkar séu styrktir, þar á meðal af stórfyrirtækjum. Skilyrði fyrir slíku er hins vegar, að þessi fjárhagslegu hagsmunatengsli séu ekki falin undir borði, heldur séu þau uppi á borði, öllum sýnileg, sem sjá vilja.

Hér er verið að tala um bein framlög og óbein framlög á borð við kaup á happdrættismiðum, útvegun á aðstöðu, afslátt af viðskiptum, ef þetta er í stórum stíl, en ekki verið að eltast við lágar upphæðir, sem stjórnmálaflokkanir fá frá venjulegum einstaklingum.

Þetta er raunar brýnna hér á landi, þar sem markaðskerfið er skemmra á veg komið og þar sem stjórnmálaflokkarnir hafa fleiri tækifæri til að misnota aðstöðuna í þágu sinna beztu vina. Við búum enn við einkaleyfi, sérleyfi, kvóta og aðra pólitíska ofanstýringu.

Andstaða íslenzkra stjórnmálaflokka gegn opnu bókhaldi byggist eingöngu á ótta við, að fólk sjái samhengi milli beins og óbeins fjárstuðnings annars vegar og einkavinavæðingar, sérhannaðrar mismununar, sérleyfa og annarrar séríslenzkrar spillingar.

Af sama toga er andstaða flokkanna við aðild landsins að Evrópusambandinu. Því meira, sem landið dregst inn í almennar heilbrigðisreglur markaðarins, þeim mun minni séríslenzka spillingu er unnt að stunda. Þannig hafa flugfarseðlar orðið miklu ódýrari en þeir voru.

Engar slíkar framfarir í atvinnulífinu og í stöðu neytenda eru frá íslenzkum stjórnmálaflokkum runnar, heldur er umbótunum beinlínis þröngvað upp á þá í krafti fjölþjóðlegra skuldbindinga, sem ríkisvaldið neyðist til að taka á sig í samfélagi evrópskra ríkja.

Því meira sem við bindumst Evrópu, þeim mun meira þrengist svigrúm íslenzkra stjórnmálaflokka til að misnota lög og reglugerðir og opinberar stofnanir til að sinna gæludýrum kerfisins. Þess vegna eru flestir helztu stjórnmálamenn landsins andvígir aukinni Evrópuaðild.

Meðan íslenzkir kjósendur láta ekki hart mæta hörðu og refsa ekki stjórnmálaflokkum með lokað bókhald og lokaðar viðskiptamannaskrár, munu flokkarnir halda gögnum þessum lokuðum. Meðan kjósendur vilja éta það, sem úti frýs, verða þeir látnir éta það, sem úti frýs.

Engin efnisleg svör hafa verið gefin við gagnrýni á lokaða kerfið. Eina vörnin er, að það sé ljótt af mönnum að treysta ekki stjórnmálaflokkunum til góðra verka. Engin skýring fæst á því, hvers vegna ekki má haga fjárreiðum flokkanna í stíl við það, sem gerist erlendis.

Meðan kjósendur leyfa flokkunum að hafa fjármál sín í felum, geta gjafmild stórfyrirtæki komið sér saman um að brjóta siðalögmál markaðsbúskaparins.

Jónas Kristjánsson

DV

Austfjörðum skipt upp

Greinar

Olíufélögin þrjú eru farin að skipta landinu milli sín með því að hliðra hvert fyrir öðru á Austfjörðum. Þannig hefur þeim fækkað úr þremur í eitt á Vopnafirði, í Neskaupstað, á Eskifirði og á Fáskrúðsfirði. Á hverjum stað situr eftir félagið, sem þar hefur mesta veltu.

Augljóst er, að þjónusta við neytendur minnkar, þegar olíufélögum fækkar úr þremur í eitt. Þetta er eitt af helztu lögmálum markaðarins og kemur ekkert við því, hvort ráðamenn félaganna séu góðir í sér eða ekki. Olíufélögin eru að auka leti sína á kostnað neytenda.

Samkvæmt lögmálum markaðarins eru olíufélögin ekki að hagræða með þessu. Þau eru þvert á móti að spara sér hagræðingu með því að koma upp einokun á fleiri stöðum á landinu. Með einokun þurfa þau ekki að gæta sama aðhalds í rekstri og þau þyrftu ella að gera.

Olíufélögin hafa komið á fót einokun á fjórum stöðum á Austfjörðum, þrátt fyrir vaxandi umræðu um fáokun félaganna og einokunarhneigð þeirra. Það segir þá sögu, að forráðamenn þeirra hafa ekki umtalsverðar áhyggjur af umræðunni og telja sig munu geta gengið enn lengra.

Vegna eignarhalds Olíufélagsins í Olíuverzluninni er tæpast unnt að tala um, að félögin séu meira en tvö og hálft hér á landi. Þau reka aðeins tvö dreifikerfi og aðeins eina heildsölu á gasi. Samráð þeirra eru víðtæk og hafa farið ört vaxandi, svo sem sést á Austfjörðum.

Með óbeinni aðstoð Samkeppnisstofnunar komu þau í veg fyrir, að kanadískt olíufélag haslaði sér völl hér á landi. Eini opinberi aðilinn, sem reyndi að verja heilbrigða samkeppni við það tækifæri var Reykjavíkurborg, sem lofaði kanadíska félaginu benzínstöðvalóðum.

Fyrir daga Reykjavíkurlistans höguðu félögin sér eins og þau ættu borgina. Sem dæmi um það má nefna benzínstöð Skeljungs í Öskjuhlíð, sem átti að grafa inn í landið, svo að hún skyggði ekki á það. Voldug, gul ljósarönd á súlum tryggir hins vegar, að stöðin æpir í landslaginu.

Borgin gerði ekkert við þessu augljósa broti á skilmálum, enda lifir Sjálfstæðisflokkurinn á peningum frá fyrirtækjum á borð við olíufélögin. Raunar má líta á fleiri stjórnmálaflokka sem pólitískan arm þeirra fyrirtækja, sem standa undir miklum hallarekstri flokkanna.

Skýrasta dæmið um samráð olíufélaganna gegn hagsmunum neytenda, gegn hagræðinu og gegn heilbrigðri samkeppni er verðið á benzíni, sem er eitt og hið sama hjá félögunum öllum. Tölfræðilega er útilokað, að slíkt geti gerzt, án þess að um náin samráð sé að ræða.

Samkeppnisstofnun hefur hingað til ekki lagt til atlögu við þennan einokunarhring. Hún er langtímum saman að fúska við skoðun á benzínverði og getur ekki svarað fyrirspurnum um, hvar á vegi sú skoðun sé. Hún er einfaldlega hrædd við pólitísk völd olíufélaganna.

Þjóðhagsleg áhrif samráðs olíufélaganna eru, að þau þurfa ekki að megra sig í heilbrigðri samkeppni, heldur fita reksturinn í skjóli fáokunar og einokunar. Þannig verður framleiðni olíuverzlunar minni en hún væri ella. Þetta hefur neikvæð áhrif á landsframleiðnina í heild.

Sorglegast við þetta er, að það er þjóðin sem hefur valið sér það ástand í olíuverzlun, sem hún á skilið. Þjóðin styður til dæmis stjórnmálaflokka, sem neita að birta reikninga sína, af því að þar kemur fram, að þeir lifa að mestu á stórfyrirtækjum á borð við olíufélögin.

Olíusala á Íslandi er þáttur í vítahring umfangsmikils spillingarvefs, sem ekki fengi staðizt, ef íslenzkir kjósendur væru ekki kúgaðir og værukærir aumingjar.

Jónas Kristjánsson

DV

Illskárri vansæmdarhátíð

Greinar

Útihátíðahöld fóru ekki eins illa fram um þessa verzlunarmannahelgi og undanfarin ár. Þau fóru ekki vel fram, en minna var um alvarlegustu þættina, svo sem líkamsmeiðingar og nauðganir. Enn eru þau samt blettur á þjóðinni allri, sem lætur þau yfir sig ganga.

Áður fólust útihátíðahöld þessarar helgar einkum í drykkjuskap. Nú hefur bætzt við neyzla fíkniefna, sem framar öðru einkenndi helgina. Hvort tveggja ber að sama brunni. Það eru tilraunir til að deyfa heilann og komast í meint sæluástand, sem felst í minnisleysi.

Þótt barsmíðum hafi blessunarlega fækkað um verzlunarmannahelgina, heldur fólk áfram að skríða um á fjórum fótum í spýju sinni og halda að lokum heim í ömurlegum timburmönnum, hafandi skilið eftir dýran farangur sinn á tvist og bast um mótssvæðið.

Á mörgum hátíðasvæðum hafa yfirvöld lært af reynslu fyrri ára og lögðu nú hart að sér við að draga úr verstu afleiðingum hátíðahaldsins. Það breytir ekki því, að kjarni vandans er hinn sami og áður, að Íslendingar telja brýnt að afklæðast persónuleikanum.

Í alþjóðlegum samanburði er sérkennilegt, að Íslendingar séu svo innilokaðir persónuleikar, að þeir þurfi að missa ráð og rænu til að telja sig hafa skemmt sér. Slíkt er víðast hvar svo sjaldgæft, að erlendis er skrifað um Íslendinga sem sérkennilega bjánaleg fyrirbæri.

Deyfilyf á borð við áfengi og fíkniefni hafa fyrst áhrif á heilann og síðan á hreyfingar. Vegna skertrar dómgreindar telja neytendur þessara deyfilyfja sig fljótlega vera afar skemmtilega og í miklu stuði, þótt allsgáðir áhorfendur sjái ekki annað en aumkunarverð slytti.

Meðal frumstæðra þjóða hefur tíðkazt, að börn væru vígð inn í heim fullorðinna með því að þola skipulagða þraut og pín. Hér á landi virðast drykkjuhátíðir hafa eins konar hlutverk manndómsprófraunar. Allir verða að hafa lifað af eina hátíð til að geta talizt fullorðnir.

Markmið hátíðahalda verzlunarmannahelganna er að græða peninga á persónulegum vanmætti ungs fólks. Heimamenn á stöðum á borð við Akureyri og Vestmannaeyjar þola þessar hátíðir, af því að þær valda mikilli kaupsýslu á svæðinu. Gróðafíknin ræður ferð.

Þegar upp er staðið, reyna aðstandendur hátíðahaldanna að breiða yfir staðreyndir málsins. Þeir leggja áherzlu á, að í þetta sinn hafi betur tekizt til en áður, þótt eingöngu sé um að ræða misjafnlega vondar hátíðir, öllum þeim til skammar, sem nálægt komu.

Undantekningar eru á þessu eins og öðru, einkum þar sem hátíðahöld eru beinlínis fyrir vímuefnalaust fólk. Þangað sækja raunar margar fjölskyldur til að fá að vera í friði með sig og sína fyrir vesalingunum, sem telja sig vera afar skemmtilega og jafnvel í rosalegu stuði.

Vandi verzlunarmannahelgarinnar er auðvitað í þjóðararfleifðinni. Kynslóð eftir kynslóð er talið vera í lagi, að fólk sé illa drukkið heima hjá sér, þar sem börnin horfa á. Um allar helgar er lögreglan á þönum milli húsa til að stilla til friðar milli drukkinna hjóna.

Íslendingar hafa á þremur kynslóðum skotizt út úr þjóðháttum miðalda inn í tæknivæddan nútíma. Okkur hefur ekki tekizt að laga okkur að breytingunni til jafns við aðrar þjóðir, sem fengu meiri tíma. Ein afleiðinga þessa er, að við höfum ekki lært að umgangast áfengi.

Ráðamönnum landsins ber að taka saman höndum með skynsömu fólki til að breyta okkar eigin viðhorfum, svo að umheimurinn hætti að líta niður á Íslendinga.

Jónas Kristjánsson

DV

Sveigjanlegt forsetaembætti

Greinar

Vonandi dettur ráðamönnum Walt Disney aldrei í hug, að gera teiknimynd í Pocahontas-stíl um Snorra Þorfinnsson, sem fæddist á Vínlandi og fluttist árinu síðar til Grænlands. Þeir yrðu þó ekki í vandræðum með að þenja fyrsta æviárið hans upp í ofurvæmna sögu.

Pocahontas-teiknimyndin fer í öllum atriðum með sagnfræðilega rangt mál. Ef svipuð mynd væri gerð um Snorra, yrði sagnfræðinni ekki síður kastað fyrir róða. Ef myndin yrði síðan fræg, yrðum við í ofanánlag að lifa okkur inn í gerbreytta söguskoðun úr Hollywood.

Auðvitað dettur engum þetta í hug, enda ráða önnur sjónarmið ráðagerðum teiknimyndaframleiðenda en símtöl frá forsetum Bandaríkjanna eða Íslands. En málið sýnir þó, að forseti okkar hefur svo góðan virðingarkvóta, að menn grínast ekki að honum fyrir það.

Að öðru leyti hefur Ólafur Ragnar Grímsson verið í essinu sínu á heimavelli í útlöndum. Ferðalög til erlendra stórmenna liggja miklu nær eðli hans en ferðalög til kjósendanna utan Reykjavíkursvæðisins. Hann verður til fyrirmyndar sem yfirsendiherra þjóðarinnar.

Þannig bætir frambærilegur forseti stöðu landsins gagnvart útlöndum, þegar aðrir ráðamenn landsins reynast fremur litlir fyrir sér á erlendum vettvangi. Forsetinn talar aldrei upp til neins og hefur lag á að ræða alvörumál kumpánlega og af festu í senn.

Fyrir Íslendinga er þetta fyrst og fremst tækifæri til að nýta hæfileika manns, sem ekki er aðeins fyrirmannlegur í allri framgöngu, heldur ræktar af natni sambönd við aðra fyrirmenn úti um allan heim og hefur alla sína tíð unnið heimavinnuna sína upp á tíu komma núll.

Óneitanlega skyggir framtak forsetans óbeint á utanríkisráðherra, sem að undanförnu hefur einnig mátt sæta því, að forsætisráðherra fjallaði í auknum mæli um utanríkismál. Segja má því, að nú sé sótt að verksviði utanríkisráðherra úr tveimur áttum í senn.

Athyglisvert er, að forsetinn hitti forseta og varaforseta Bandaríkjanna í einkaheimsókn, en ekki í opinberri heimsókn, skipulagðri í utanríkisráðuneytinu við Hverfisgötuna. Þetta hefur valdið sárindum í ráðuneytinu, sem ekki hefur þvílík sambönd í útlöndum.

Forsætisráðherra hefur ákveðið að styðja framgöngu forseta Íslands í Washington, þótt hún sé hvorki hönnuð við Hverfisgötu né Lækjartorg. Ráðherrann veit af greind sinni, að forsetinn þekkir utanríkisstefnuna og kann nógu vel til verka til að fara ekki út af sporinu.

Ef ríkisstjórnin ber gæfu til að nýta hæfileika Ólafs Ragnars Grímssonar sem yfirsendiherra þjóðarinnar, hefur hún tækifæri til að láta gæta betur en ella hagsmuna þjóðarinnar í margvíslegum utanríkismálum, sem hafa verið að steðja að, einkum frá Evrópu.

Við þurfum greinilega að ná betri tökum á endurteknum hagsmunaárekstrum okkar við Norðmenn og við þurfum sífellt að gæta hagsmuna okkar í flóknum samskiptum við Evrópusambandið. Aðferðir ráðuneytis og ráðherra hafa dugað skammt að undanförnu.

Þetta er ekki spurning um, hver skyggir á hvern, heldur hvernig ólíkir hæfileikar nýtast á mismunandi hátt við fjölbreyttar aðstæður. Eftir frægðarför forsetans til Bandaríkjanna kemst ríkisstjórnin raunar ekki hjá því að gera forsetann að yfirsendiherra þjóðarinnar.

Forsetaembættið er svo skemmtilega loðið, að jafnan er unnt er að laga framkvæmd þess að sérstökum hæfileikum þess, sem því gegnir á hverjum tíma.

Jónas Kristjánsson

DV

Stóriðja er úrelt

Greinar

Stjórnvöld hafa gert hlé á tilraunum sínum til að draga stóriðju inn í landið. Þetta hefur ekki fallið í kram heimamanna á ýmsum stöðum, sem taldir eru líklegir til stóriðju, einkum á Reykjanesskaga. Þeir reyna að þrýsta stjórnvöldum til að endurskoða hægaganginn.

Þótt stóriðja beri yfirleitt björg í bú, eru á henni ýmsir vankantar, sem hafa þarf í huga, sérstaklega þegar uppgangur er í atvinnulífinu. Engan veginn er öruggt, að stóriðja sé við allar aðstæður sú búbót, sem áhugamenn og baráttumenn stóriðju vilja vera láta.

Skiljanlegur er áhugi heimamanna á skjótum framgangi ráðagerða um stóriðju í héraði. Fyrst veldur undirbúningur stóriðjunnar miklum uppgripum heimamanna og síðan veitir rekstur hennar trausta vinnu og útsvör, sem skipta máli í fámennum sveitarfélögum.

Á landsvísu eru áhrifin ekki svona hagstæð. Byggingu stóriðjuvera fylgir bygging orkuvera. Samanlagt valda framkvæmdirnar sveiflu í atvinnulífinu. Skyndilega verður mikið framboð atvinnutækifæra, sem minnkar síðan jafn skyndilega aftur. Þetta hvetur verðbólguna.

Þar á ofan sýnir reynslan, að stóriðja verður seint náttúrulegur þáttur atvinnulífsins. Hún tengist lítt öðrum þáttum þess. Hún stendur að mestu utan víxlverkana atvinnulífsins og situr ein út af fyrir sig í fílabeinsturni fjarlægra fjölþjóðafyrirtækja.

Einn helzti galli stóriðjunnar er, að hún á sér ekki rætur í þjóðfélaginu eða markaðshagkerfinu. Hún verður ekki til fyrir tilverknað markaðsafla í frjálsu hagkerfi. Hún verður til fyrir staðfestingu Alþingis á samningum ríkisstjórnar við erlend fjölþjóðafyrirtæki.

Stóriðjan kemur að ofan með vinnubrögðum frönsku kaupauðgisstefnunnar frá átjándu öld. Hún er þáttur í úreltu hagkerfi ríkisforsjár, sem hefur lifað lengur hér á landi en annars staðar vegna stjórnmálaflokka, sem allir eru kreppuflokkar í stíl Framsóknarflokksins.

Stjórnvöld á Vesturlöndum sækjast ekki lengur eftir stóriðju. Hún er eftirlátin þriðja heiminum, þar sem menn eru svo örvæntingarfullir, að þeir líta fram hjá hliðarvandamálum. Vesturlönd vilja fremur sinna atvinnuvegum á borð við hátækni og tölvutækni.

Þar að auki samrýmist stóriðjan oft illa ýmsum markmiðum, sem vestræn ríki hafa sett sér í mengunarvörnum. Þess vegna er verið að rífa stóriðjuver á Vesturlöndum og setja þau að nýju saman í fátæku löndunum, þar sem mengun er ekki enn orðin að hugtaki.

Þannig er rifið álver í háþróuðu ríki á borð við Þýzkaland og sett upp að nýju í þróunarríki á borð við Ísland. Það er ekki fyrr en eftir slíka samninga, að íslenzkir ráðherrar byrja að klóra sér í höfðinu vegna vanefnda sinna á mengunarmarkmiðum sínum frá Ríó-fundinum.

Framganga íslenzkra stjórnvalda í stóriðjumálum minnir á ríki, sem ramba á jaðri norðurs og suðurs í þróuninni. Öðrum þræðinum keppast þau við að selja landið sem lóð undir stóriðju. Hinum þræðinum eru þau farin að átta sig á, að stóriðja er ekki ókeypis.

Á uppgangstíma næstu ára mun stóriðja eiga undir högg að sækja. Fólk mun auka umhverfiskröfur og þrýsta stjórnmálamönnum til að gæta betur að umhverfinu en áður. Og fólk mun öðlast meiri trú á lausnir frjálsa markaðarins en lausnir stóriðjusamninga.

Af þessum ástæðum hefur nú verið gert hlé eftir umdeilda ákvörðun um flutning gamals álvers til Grundartanga. Þetta lofsverða hlé má standa lengi.

Jónas Kristjánsson

DV