Allt er óbreytt í bönkunum

Greinar

Fyrir nokkrum árum var úrskurðað, að kona nokkur gæti vegna hagsmunaárekstra ekki í senn verið starfsmaður verðbréfasjóðs og stjórnarmaður Landsbankans. Forsætisnefnd Alþingis fékk skrifstofustjóra sem lögfræðing til að kanna málið. Þetta var niðurstaða hans.

Nú skipar viðskiptaráðherra starfsmann sama verðbréfasjóðs sem stjórnarmann sama banka. Hann hefur ekki einu sinni fyrir að afla sér nýs lögfræðiálits, sem segi okkur, að skrifstofustjóri og forsætisnefnd Alþingis séu ekki marktækir álitsgjafar í bankamálum.

Skipan bankaráða vekur líka athygli fyrir þá sök, að viðskiptaráðherra telur heppilegt, að saman fari seta þar og störf við að afla stjórnmálaflokkum peninga. Væntanlega stafar það af, að þá getur sami maðurinn lofað fyrirgreiðslu um leið og hann tekur við skattinum.

Bankar á Íslandi hafa yfirleitt verið illa reknir, einkum Landsbankinn, sem ríkið bjargaði frá gjaldþroti fyrir nokkrum árum. Þeir hafa sóað milljörðum í geðveikislegar fyrirgreiðslur, ekki sízt til ýmissa gæludýra, sem hafa verið í nánum tengslum við pólitíkina.

Viðskiptaráðherra skipar samt í bankaráðin menn, sem með annarri hendinni taka við framlögum gæludýranna til stjórnmálaflokkanna og mæla með hinni hendinni með afbrigðilegum fyrirgreiðslum til gæludýranna. Breytingar hans felast í að hafa ástandið óbreytt.

Ein mikilvægasta breytingin, sem viðskiptaráðherra hafði boðað, var sparnaður og samþjöppun ábyrgðar með því að fækka bankastjórum úr þremur í einn í hvorum banka. Niðurstaðan var auðvitað sú, að breyting ráðherrans felst í að hafa ástandið óbreytt.

Ekkert nýtt er í breytingum viðskiptaráðherra. Ekkert er gert til sparnaðar eða skilvirkari yfirstjórnar. Ekkert er lært af útlánatjónum áratugarins, heldur skipaðir sömu menn og sams konar menn til að sukka. Breytingar hans felast einkum í orðaleikjum.

Ríkisbankarnir verða áfram fyrst og fremst helmingaskiptafélög ríkisstjórnarflokkanna tveggja. A-flokkarnir eru þó gerðir samábyrgir með því að bjóða hvorum þeirra einn stól í hvoru bankaráði. Þannig sáir viðskiptaráðherra til friðar á Alþingi um hneyksli sitt.

Í alvöruþjóðfélagi væri reynt að bæta rekstur bankanna með því að losa þá við bankastjóra og bankaráðsmenn, sem hafa staðið fyrir slíku sukki með peninga í óráðsútlánum, að helzti banki þjóðarinnar væri orðinn gjaldþrota, ef ríkið hefði ekki hlaupið undir bagga.

Hafa ber þó í huga, að breytingar til bóta eru sagðar væntanlegar. Verða þær lofaðar, þegar þær eru í húsi. Þar á meðal er afnám ríkisábyrgðar á bönkunum og sala bankanna í áföngum. Þegar bankarnir verða orðnir frjálsir af ríkinu, verða þeir frjálsir af flokkaspillingu.

Slík breyting hefur ekki gerzt. Viðskiptaráðherra hefur framlengt fyrra ástand og hrókað mönnum milli reita. Hann hefur raunar magnað fyrri spillingu með því að ganga þvert á niðurstöðu skrifstofustjóra og forsætisnefndar Alþingis um skipan bankaráðsmanna.

Að baki gerða ráðherrans er sú óþægilega staðreynd, að skammvinnu tímabili siðvæðingar í stjórnmálum er lokið að sinni. Um tíma héldu pólitíkusar að þeir yrðu að rifa spillingarseglin, en hafa nú komizt að raun um, að kjósendur láta sér fátt um spillingu þeirra finnast.

Þess vegna mun Ísland enn um sinn verða rekið sem Kardimommubær, þar sem ekki gilda siðareglurnar, sem móta nágrannaþjóðir okkar í austri og vestri.

Jónas Kristjánsson

DV

Límið í þjóðfélaginu

Greinar

Í frystihúsi á Vestfjörðum var nýlega farið að hengja upp á töflu tvisvar á dag niðurstöður tölvumælingar á mætingu starfskvenna, vinnsluhraða þeirra, fjölda galla, og lengd kaffitíma þeirra. Í töflufréttum þessum var ekki fjallað á hliðstæðan hátt um karlana í frystihúsinu.

Ef vinnubrögð af þessu tagi breiðast út í fiskvinnslu, verður ekki hægt að búast við, að margar konur fýsi að starfa að henni. Það verður helzt hægt í afskekktum sjávarplássum, þar sem ekki er völ á annarri vinnu meðan fólk er að leita tækifæra til að flýja suður.

Hugsunarhátturinn að baki vinnubragðanna breiðist víðar út en í Bolungarvík. Í fræðum atvinnurekstrar hefur komið til sögunnar ný hugmyndafræði, sem lítur á skjóttekinn arð sem eina markmiðið. Hún telur starfsfólk vera eins konar hilluvöru, er megi nýta og kasta.

Af þessum toga eru tilraunir til að ráða starfsfólk sem verktaka, svo og uppsagnir starfsfólks til að ráða það að nýju á lakari kjörum. Af sama toga eru hreinsanir, sem taldar eru gulls ígildi, því að þær spari í rekstri og rækti ótta starfsfólks um, að vinnan sé ekki örugg.

Kennisetningar þessar koma frá Bandaríkjunum, þar sem gengið hefur bylgja arðhyggju og mannfyrirlitningar. Litið er á starfsfólk, sem hálfgerða þræla, er píska skuli sem mest og kasta síðan burt að nokkrum tíma liðnum. Sagt er, að þetta auki velmegun í þjóðfélaginu.

Staðreyndin er hins vegar sú, að mikil hagþróun í Bandaríkjunum hefur eingöngu gert hina ríku ríkari, en skilið hina fátæku eftir í skítnum. Þeir hafa staðið í stað í tvo áratugi. Munurinn á ríkum og fátækum þar vestra er aftur orðinn eins mikill og hann var árið 1920.

Í vaxandi mæli býr efsti fimmtungur bandarísku þjóðarinnar í afgirtum og vöktuðum hverfum, þar sem óboðnum er ekki hleypt inn. Innan hverfisins er fagurt umhverfi og fyrirtaks þjónusta á öllum sviðum. Utan veggjar er hins vegar allt í sóðaskap og niðurníðslu.

Almannaskólar drabbast niður og einkaskólar blómstra. Almannasamgöngur drabbast niður og einkasamgöngur blómstra. Almannasorphreinsun drabbast niður og einkasorphreinsun blómstrar. Almannasjúkrahús drabbast niður og einkasjúkrahús blómstra.

Þessi skipting í yfirstétt og undirstétt er ekki eins langt frá ströndum Íslands og við höfum hingað til haldið. Við sjáum hana í ýmsum myndum, svo sem í frystihúsi í Bolungarvík og við sjáum hana í hugmyndum um, að fólk geti keypt sig upp eftir biðlistum sjúkrahúsa.

Stéttaskiptingin í Bandaríkjunum er á hraðri leið í átt til þess, sem hún er í þriðja heiminum. Þótt af þessu skapist mikill skammtímaarður, er hann ekki ókeypis frekar en hádegisverður Hannesar. Hann kostar rotnun samfélagsins að innan. Límið í þjóðfélaginu gefur sig.

Lýðræðislegt nútímaþjóðfélag stenzt ekki til lengdar, ef límið gefur sig. Þá fara hóparnir hver í sína átt. Ríka fólkið flýr inn í afgirt hverfi og fátæklingarnir flýja inn í glæpi og fíkniefni. Ef þetta ferli verður ekki stöðvað, getur það ekki endað öðru vísi en með byltingu.

Skammtímaarður dugir ekki sem markmið. Mannleg sjónarmið eru mikilvægari. Þau gefa betri útkomu, þegar til langs tíma er litið. Vesturlönd voru lengi á réttri leið, en misstu velferðarkostnaðinn úr skorðum og fóru þá að gæla við öfgana á hinum kantinum.

Aldrei má ganga svo langt í arðhyggju, að það leiði til, að þjóðfélag fari að skiptast í afmarkaðar stéttir á nýjan leik. Við skulum víkja af þeirri braut í tæka tíð.

Jónas Kristjánsson

DV

Vetnisbúskapur á Íslandi

Greinar

Flest rök hníga að því, að vetni muni á næstu öld leysa olíu og benzín af hólmi sem orkugjafi hreyfanlegra tækja, svo sem bíla, skipa og flugvéla. Vetni muni bægja frá mannkyni vofu samfélagshruns, þegar takmarkaðar olíu- og gaslindir ganga smám saman til þurrðar.

Því meira sem gengur á olíulindir, þeim mun meiri líkur eru á, að olía og benzín hækki í verði í skjóli lögmálsins um framboð og eftirspurn. Ekki bætir úr skák, að mikið af olíulindum er í ríkjum, þar sem ríkisstjórnir eru hvimleiðar, illa útreiknanlegar og árásarhneigðar.

Vetni er tiltölulega umhverfisvænn orkugjafi. Brennsla þess leiðir ekki til losunar hættulegra efna út í andrúmsloftið. Olíu- og benzínbrennsla framleiðir hins vegar koltvísýring, sem veldur gróðurhúsaáhrifum og leiðir síðan til hækkunar á yfirborði sjávar.

Hér á landi stafa tveir þriðju hlutar allrar koltvísýringsmengunar af brennslu á olíu og benzíni í skipum og bílum. Breyting frá þessum orkugjöfum yfir í vetni mundi gera Íslendingum kleift að standa við skuldbindingar sínar á alþjóðavettvangi um minni mengun.

Með færslu yfir í vetni mundi einnig skapast svigrúm til að reisa hér fleiri stóriðjuver, til dæmis til framleiðslu áls og magnesíums, án þess að brjóta Ríó-sáttmálann um minnkun mengunar. Það væri óneitanlega afar þægileg útkoma í annars vonlausu reikningsdæmi.

Stóriðja veldur yfirleitt mengun. Nýjar verksmiðjur og stækkaðar verksmiðjur hér á landi valda því, að Ísland nálgast ekki loforð sín frá Ríó, heldur fjarlægist þau. Við erum í þessum skrifuðum orðum að brjóta samninginn og að lækka gengi íslenzkra loforða.

Áhugi manna á meiri stóriðju hér á landi hlýtur að leiða til aukins þrýstings á aukna notkun vetnis sem mótvægis á vogarskálum mengunar. Um leið má virkja áhuga erlendra aðila til samstarfs um að nota íslenzka orku fallvatna og jarðhitasvæða til vetnisframleiðslu.

Það mundi enn bæta stöðu okkar og draga úr innri andstöðu gegn stóriðju, ef stjórnvöld tækju upp borubrattari stefnu í mengunarmálum iðjuvera í stað þess að slá af kröfum um mengunarvarnir. Með betri frágangi iðjuvera má stórminnka mengun af völdum þeirra.

Ýmsir aðilar víða um heim vinna nú ötullega að gerð véla, sem henti betur vetni sem eldsneyti en núverandi benzín- og olíuvélar. Sú þróun er stöðug og mun fyrr eða síðar leiða til, að vetni verði álitinn fjárhagslega hagkvæmari kostur en hinir hefðbundnu orkugjafar.

Mikilvægt er, að stjórnvöld og atvinnulíf taki saman höndum um að rækta skilyrði til vetnisnotkunar sem orkugjafa hér á landi. Það má til dæmis gera með samstarfi við þá, sem vinna að hönnun véla til brennslu á vetni. Þeir gætu gert tilraunir sínar hér á landi.

Allt, sem hér hefur verið sagt, er hrein framtíðarsýn. Hún gæti orðið að veruleika, en verður það ekki, af því að íslenzk stjórnmál gera ekki ráð fyrir þeim möguleika, að horft sé fram á veginn. Menn vilja heldur dunda sér við að leysa brýnustu vandamál sín frá degi til dags.

Í fyrra bjó ríkisstjórnin til heildstæða og skynsamlega stefnu í tölvusamgöngum. Litprentaður var fagur bæklingur um stefnuna. Síðan hefur ekki verið unnið eitt einasta handarvik til að framkvæma hana. Hér á landi endar framtíðarsýnin í litmyndum af ráðherrum.

Hið sama verður uppi á teningnum, ef ríkisstjórnin tæki mark á því, sem hér hefur verið sagt, og léti færustu menn framleiða opinbera stefnu í vetnisbúskap.

Jónas Kristjánsson

DV

Myndfundir í stað ferða

Greinar

Of snemmt er að spá, hvort tilraun til myndfundar, sem gerð var í gærmorgun á vegum Evrópuráðsins að tilhlutan Tómasar Inga Olrich, muni leiða til, að farið verði almennt að gefa kost á slíkum fundum. En það er greinilega í þágu okkar hagsmuna, að svo verði.

Íslendingar taka þátt í margvíslegu fjölþjóðlegu samstarfi. Oft kostar um þriggja daga vinnutap og 150­200 þúsund krónur á hvern mann að skreppa á fundi, sem eru mikilvægur þáttur samstarfsins. Þetta er mikill kostnaður og dregur úr líkum á íslenzkri þátttöku.

Afleiðingin er oft, að farið er bil beggja. Lagt er í mikinn kostnað við að sækja sem svarar öðrum hverjum fundi. Fyrir bragðið verður þátttakan að fálmi. Menn eiga erfitt með að vinda ofan af breytingum, sem orðið hafa milli fundanna, sem þeir hafa fé til að sækja.

Nefndastörf og fundir eru auðvitað misjafnlega nytsamleg fyrirbæri. Ef hins vegar menn telja, að þátttaka í fundaferli skipti íslenzka hagsmuni máli, er vont að þurfa að taka þátt í því með annarri hendi. Betra er að vera alveg með eða ekki en að vera með að hálfu.

Stundum hefur komið fyrir, að íslenzkir hagsmunir hafa verið fyrir borð bornir vegna skorts á peningum til mætinga á fundi í útlöndum. Skemmst er að minnast, er séríslenzkir bókstafir voru næstum dottnir út úr fyrstu og beztu töflu hins alþjóðlega staðals fyrir tölvur.

Svo vel vill til, að tölvu- og símatækni nútímans gerir ferðalögin, tímatapið og kostnaðinn úrelt fyrirbæri. Myndfundir eru farnir að ryðja sér til rúms í atvinnulífinu, enda er einkaframtakið venjulega fyrst til að tileinka sér tækni til sparnaðar og hagræðingar.

Evrópuráðið kom hins vegar af fjöllum, þegar Tómas benti á þessa nýju tækni sem leið til að auka virka þátttöku fulltrúa frá fjarlægum ríkjum. Ráðamenn þess fengust þó eftir fortölur til að láta framkvæma í gærmorgun tilraun, sem vonandi festir sig í sessi.

Ef Evrópuráðið tekur upp þessa tækni, aukast líkur á, að fjölþjóðlegar stofnanir fáist til að feta í sporin. Mikilvægt er, að íslenzkir aðilar, sem geta haft áhrif á slíkan gang mála, láti hendur standa fram úr ermum við að gæta íslenzkra fjarlægðarhagsmuna á þessu sviði.

Myndfundir koma ekki nema að hluta í stað hefðbundinna funda. Í sumum tilvikum er nauðsynlegt, að menn hittist persónulega. Það gildir bæði um atvinnulífið og opinberar stofnanir. En mikið af fundum er þess eðlis, að myndfundir eiga að geta leyst þá af hólmi.

Myndfundatæknin nýtist við allar aðstæður, þar sem fólk þyrfti ella að koma úr ýmsum áttum á einn stað. Þeim mun dreifðari, sem menn eru venjulega og þeim mun meiri, sem fjarlægðir eru, þeim mun meiri líkur eru á, að myndfundir geti borgað sig.

Almenn útbreiðsla myndfundatækni sparar ferðalög innan lands og utan, nýtir tíma fólks betur og leiðir til almennari þátttöku í fundum, sem skipta máli. Menn munu þó áfram hafna myndfundum í samstarfi á borð við það norræna, þar sem veizlur eru aðalatriðið.

Samgöngutækni fólks er alltaf að breytast. Bíllinn leysti hestinn af hólmi og flugvélin leysti skipið af hólmi. Síminn leysti bréfið af hólmi og nú er stafrænn póstur að ryðja sér til rúms. Sjónvarpið sýnir okkur atburði um leið og þeir gerast hinum megin á hnettinum.

Okkur ber að vera fljót að nýta tækni myndfunda og hvetja samstarfsaðila til hins sama. Til sögunnar er komið nýtt og öflugt samgöngutæki, sem skilar arði.

Jónas Kristjánsson

DV

Alvörumjólk í augsýn

Greinar

Svo getur farið, að þéttbýlisfólk geti aftur fengið að drekka alvörumjólk, sem ekki hefur verið misþyrmt í verksmiðju með því að gerilsneyða hana og fitusprengja. Kristján Oddsson, bóndi á Neðra-Hálsi í Kjós, er að stofna eigið mjólkurbú og reyna að afla opinberra leyfa.

Kristján hefur lengi haft áhuga á framleiðslu lífrænt ræktaðra landbúnaðarafurða og hefur í tæpan áratug ræktað lífrænt grænmeti, einkum gulrætur. Hann hefur nú fengið vottun frá vottunarstofunni Túni um, að mjólkurframleiðslan standist kröfur um lífræna ræktun.

Lífrænt ræktaða mjólkin frá Neðra-Hálsi fer til Mjólkursamsölunnar og blandast annarri mjólk. Nú hyggst bóndinn setja upp eigið mjólkurbú og selja þaðan undir eigin merki lífrænt ræktaða mjólk, sem ekki hefur verið fitusprengd og ætti því að fara betur í marga.

Gerilsneyðingin er stærri biti í hálsi. Samkvæmt lögum er skylt að gerilsneyða mjólk. Kristján vonar, að hann fái undanþágu eða að lögum verði breytt, svo að hringnum verði lokað og aftur verði hægt að fá á almennum markaði mjólk í eðlilegu upprunaástandi.

Gerilsneyðing og fitusprenging komu til sögunnar, þegar hreinlæti og aðstæður til hreinlætis voru lakari til sveita en nú. Þær voru einnig þáttur í að losa landbúnaðinn við samkeppni Thors Jensens á Korpúlfsstöðum, sem lét flytja sína mjólk beint í hendur neytenda.

Ef einstakir bændur geta framleitt sérstaka mjólk undir eigin merkjum, standa þeir auðvitað og falla með orðsporinu, sem fer af vörunni. Þeir verða því að vanda til hreinlætis og annarra gæða, en geta á móti yfirleitt fengið hærra verð fyrir mjólkina sem sérvöru.

Reynslan sýnir, að neytendur vilja kaupa og borga meira fyrir lífrænt ræktaða vöru. Það hefur leitt til hægfara fjölgunar bænda, sem fylgja alþjóðlegum stöðlum um slíka vöru og afla sér vottunar um slíkt frá vottunarstofunni Túni. Einkum eru þetta grænmetisbændur.

Bændasamtökin hafa lagt steina í götu þessarar þróunar, sem stríðir gegn þeirri hugmyndafræði, að öll framleiðsla bænda fari í einn pott. Ýmis teikn benda þó til, að andstaða samtakanna sé að linast, enda kalla vandræði landbúnaðarins á fjölbreyttara vöruúrval.

Neytendur eru að venjast því að sjá stimplanir um lífræna vottun á umbúðum matvæla, einkum grænmetis. Um skeið hefur lífrænt ræktuð AB-mjólk einnig verið á boðstólum. Ráðagerðir Kristjáns á Neðra-Hálsi eru svo eitt skrefið enn á þróunarbraut heilsuræktar.

Á tímum fullkomnustu tækni í hreinlætismálum er kominn tími til að hverfa aftur til upprunans og byrja að framleiða vörur og selja í náttúrulegu ástandi. Lífrænt ræktuð mjólk, sem hvorki er fitusprengd né gerilsneydd væri mikilvægur áfangi á framfarabrautinni.

Svo langt gengur spilling mjólkur í mjólkurbúum, að ekki er aðeins skaðað ónæmiskerfi fólks með gerilsneyðingu, heldur er einnig örvuð sykurfíkn þess með því að dæla strásykri í mjólk og kalla hana síðan söluhvetjandi nöfnum á borð við skólajógúrt og skólaskyr.

Í því ástandi standa mjólkurvörur ekki undir núverandi auglýsingum um hollustu mjólkur. Ef hins vegar væri liðkað til fyrir náttúrulegri framleiðslu á merkjavöru í mjólk og mjólkurafurðum, væru meiri líkur á, að varan stæði undir fullyrðingum auglýsinga.

Menningarsjúkdómar nútímans stafa sumpart af neyzlu verksmiðjufóðurs. Endurheimt náttúrulegra afurða mun bæta heilsu þeirra, sem nota slíkar vörur.

Jónas Kristjánsson

DV

Verkin bíða biskups

Greinar

Nýr biskup yfir Íslandi tekur við vandasömu hlutverki. Þjóðkirkjan hefur átt við fjölbreytt og vaxandi vandamál að stríða. Innan hennar og milli hennar og umheimsins hefur ríkt misklíð. Það verður meginverk biskups að finna stýrið á þessari hröktu skútu.

Fráfarandi biskup kvartaði réttilega yfir stjórnarandstöðu innan kirkjunnar. Eftir kjör nýs biskups kvaðst hann óska nýjum biskupi þess, að hann þyrfti ekki að fást við slíka andstöðu. Hvatti hann kennimenn til að slíðra sverðin í tilefni biskupsskiptanna.

Vandræði kirkjunnar hafa magnað andstöðu í þjóðfélaginu við núverandi hjónaband ríkis og kirkju. Samkvæmt skoðanakönnunum eru þeir nú komnir í meirihluta, sem vilja aðskilnað ríkis og kirkju. Á sama tíma hefur fjölgað úrsögnum manna úr þjóðkirkjunni.

Stundum virðist svo sem ýmsir kennimenn séu kantaðri sem persónur en gengur og gerist. Það sýna útistöður sumra þeirra við safnaðarnefndir og annarra við fólk, sem reynir að skjóta sér undan eignarhaldi þeirra á prestsverkum innan meints lénssvæðis þeirra.

Þetta blandast deilum um, hvort þjóðkirkjan eigi að þróast sem safnaðarkirkja eða sem kennimannakirkja. Meðal presta gætir vaxandi fylgis við síðari kostinn. Það hefur þær afleiðingar, að áhugi safnaðarins minnkar og þjóðkirkjan einangrast í fílabeinsturni kennimanna.

Enn kraumar líka í deilum um kennisetningar og messuhald, þar sem prestar sökuðu hver annan ýmist um að trúa á drauga eða vera kaþólskir. Um þetta sögðu orðvarir menn utan kirkjunnar, að það væru deilur milli hreintrúarmanna og breiðtrúarmanna.

Fráfarandi biskup var að ýmsu leyti seinheppinn og átti þátt í að kalla yfir sig stjórnarandstöðu innan kirkjunnar. Vegna persónulegra hremminga átti hann erfitt með að taka á sumum málum, enda hafa sumir kennimenn verið óstýrilátir og ekki tekið mark á honum.

Ekki bætti úr skák að standa í misheppnuðum málaferlum út og suður, annars vegar í meiðyrðamálum gegn konum, sem höfðu ekki fögur orð um biskup, og hins vegar gegn fimmaurabröndurum nokkurra spaugara, þar sem kirkjan gegndi algeru aukahlutverki.

Stjórn kirkjunnar á kirkjugörðum, einkum í Reykjavík, hefur verið með endemum. Fyrst sætti hún dómi fyrir ólöglega viðskiptahætti og tregðaðist síðan við að haga sér í samræmi við dóminn. Þar á ofan verndar hún okur í skjóli einkaréttar ljósaskreytinga í görðunum.

Ímynd presta hefur verið að breytast. Sumir sjá í þeim blýantsnagara ríkiskerfisins, sem hafi aðallega áhuga á að ræða um kaupið sitt. Aðrir sjá í þeim þrasara, sem séu í sífelldum útistöðum við söfnuð og safnaðarnefndir, aðra presta og einkum þó og sér í lagi við biskup sinn.

Málin eru ýmist stór eða smá. Þess má vænta, að nýr biskup taki á þeim af myndarbrag. Setja þarf niður deilur um hreintrú og breiðtrú. Einnig þarf að finna, hvort kirkjan vill vera safnaðarkirkja eða kennimannakirkja. Hún þarf að taka á innri ágreiningi af slíku tagi.

Stóra málið er svo staða kirkjunnar í þjóðfélaginu. Sá tími er liðinn, að kirkjan geti litið á núverandi stöðu sem sjálfsagða og varanlega. Erfitt er að standa gegn rökum um, að núverandi ástand setji skorður við trúfrelsi og stríði á þann hátt gegn mannréttindum.

Skilnaður og eignaskiptasamningur ríkis og kirkju er stærsta álitamálið af mörgum á borði hins nýja biskups. Hann mun velja þjóðkirkjunni götuna fram eftir vegi.

Jónas Kristjánsson

DV

Móðir Teresa

Greinar

Raunveruleg hetja er látin. Móðir Teresa lézt á föstudaginn í hárri elli. Hún helgaði líf sitt fátæku fólki í Indlandi og rak þar meira en fimm hundruð heimili í áttatíu borgum landsins. Fyrir framlag sitt til mannkyns hlaut hún friðarverðlaun Nóbels árið 1979.

Milli móður Teresu og vinsælasta frægðarfólks nútímans er himinn og haf. Hún var fræg af stórvirkjum sínum, rétt eins og Winston Churchill og Halldór Laxness, hvert þeirra með sínum hætti. Hún var ekki bara fræg fyrir að vera fræg eins og Díana prinsessa.

Leiðir nunnunnar og prinsessunnar lágu einu sinni saman. Þá gaf nunnan sér stundarfjórðungs frí frá mikilvægum störfum sínum og prinsessan gaf sér stundarfjórðungs vinnu frá tilgangslausum frístundum sínum. Nunnan var að safna fé og prinsessan að safna frægð.

Fyrir stundarfjórðungs vinnu í þágu fátækra í Indlandi jók prinsessan við frægð sína og vinsældir. Hún var góð, segir fólk og grætur. Mun færri sýna tilfinningar við andlát móður Teresu, sem var raunveruleg hetja, raunverulegur mannvinur, raunveruleg persóna.

Móðir Teresa var ekki fullkomin fremur en aðrir. Hún var sögð kaþólskari en páfinn, það er að segja afturhaldssöm í trúmálum og þjóðmálum. En hún var ekki álitsgjafi í þessum efnum, heldur hélt hún sér við þá grein, sem hún kunni til fulls, fátækrahjálpina.

Saga móður Teresu er bjart ljós í grimmum heimi. Hún sýndi, að mannfólkið er ekki aðeins duglegt til illvirkja, heldur einnig til góðverka. Hún var mörgum fyrirmynd og áreiðanlega betri fyrirmynd en þorrinn af prinsessum og öðru frægðarfólki nútímans.

Nútíminn dáir innantómt fólk, svo sem Elvis Prestley, sem dó úr ólifnaði, eða Michael Jackson, sem er að deyja úr andlitslyftingum. Fólk dreymir um að vera sjálft í sporum fólks, sem er frægt fyrir að vera frægt, en dreymir ekki um að vera í sporum móður Teresu.

Samt var prinsessan jafn óhamingjusöm og nunnan var hamingjusöm. Bros nunnunnar var margfalt fegurra, enda skein þar innri maðurinn í gegn. En nútímafólk á erfitt með að skilja, að hamingja felist í öðru en endalausum frístundum og samneyti við glaumgosa.

Sennilega á flest fólk erfitt með að skilja, að hamingja geti falizt í þrotlausu erfiði og að óhamingja geti falizt í þrotlausum frístundum. Þetta má einmitt hafa til marks um firringu nútímafólks, er leitar fyrirmynda í sýndarveruleika þeirra, sem eru frægir fyrir að vera frægir.

Blaðalesendur og sjónvarpáhorfendur hafa alltaf viljað vitað meira um skútulíf Jacqueline Kennedy með Onassis og um glaumagosastúss dönsku prinsanna, heldur en um Winston Churchill og Halldór Laxness og hvað þá móður Teresu, sem aldrei fór í næturklúbb.

Móðir Teresa fæddist í Makedóníu af albönsku foreldri. Hún ákvað ung að gerast nunna og fluttist til Írlands, þar sem hún sat í klaustri Loreto-reglunnar. Síðan fór hún á vegum reglunnar til Darjeeling í Indlandi og var þar lengi kennari við klausturskóla.

Á miðjum aldri fékk móðir Teresa köllun um að sinna fátækum í Indlandi. Henni varð vel ágengt. Nunnur flykktust til hennar og voru orðnar um 3.000, þegar húm lézt. Nútíminn má eiga það, að hann kunni að meta verk hennar og studdi þau með vaxandi fjárframlögum.

Móðir Teresa sýndi, að hamingja getur falist í að ná sambandi við sinn innri og æðri mátt og gera það, sem samvizkan býður, en hafna eftirsókn eftir vindi.

Jónas Kristjánsson

DV

Stjarnan og kóngafólkið

Greinar

Almannaharmur er meiri í Bretlandi og víðar en hann var við andlát og jarðarfarir Viktoríu Bretlandsdrottningar og Winstons Churchills. Díana prinsessa var stjarna, sem stendur nær hjarta almennings en frægustu og merkustu persónur aldarinnar í Bretlandi.

Viktoría var um aldamótin talin helzta þjóðargersemi Breta og Churchill hélt uppi brezkri sjálfsvirðingu í síðari heimsstyrjöldinni. Hún var vinsælust kóngafólks og hann var vinsælastur mikilmenna. Í gamla daga var fræga fólkið af öðrum hvorum þessara toga.

Nútíminn hefur búið til nýja tegund frægðarfólks, stjörnurnar. Fyrstar voru kvikmyndirnar og hljómplöturnar og síðan tók sjónvarpið við. Af þessum toga frægðarfólks voru Marilyn Monroe og Elvis Presley, sem gerðu það merkast um ævina að höfða til almennings.

Fólk sér sig og speglar sig miklu fremur í Öskubuskum, sem verða prinsessur heldur en í kóngafólki og mikilmennum. Viktoría og Churchill voru talin til hinna, það er að segja yfirstéttarinnar, en Díana er talin hafa verið ein af okkur, það er að segja almennings.

Staðreyndin er að vísu sú, að Díana fæddist með silfurskeið í munni og lifði alla tíð fjarri veruleika almennings. Hún var ung dregin úr heimi auðbarna inn í mölétinn kóngaheim Windsoranna og flúði síðan þaðan inn í heim glaumgosanna eins og Jacqueline Kennedy.

Windsorarnir voru berskjaldaðir fyrir sjónvarpstækni Díönu. Karl prins reyndi að vísu að feta í fótspor hennar með opinskáu persónuviðtali í sjónvarpi, en var of grunnmúraður í formfastri, stilltri og allt að því dauflegri framgöngu til að halda til jafns við stjörnuna.

Nú kvartar almenningur um, að kóngafólkið sé svo harðbrjósta, að því vökni ekki um auga við andlát og útför prinsessunnar. Þetta er þó fólk, sem hefur verið kennt að gráta ekki undir neinum kringumstæðum, heldur bera höfuðið hátt með stífri efri vör að brezkum hætti.

Á skammri ævi tókst prinsessunni að rústa virðingu brezku Windsoranna. Vinsældir konungdæmisins hröpuðu í sama mæli og vinsældir hennar jukust. Áður vildu þrír af hverjum fjórum Bretum varðveita konungdæmið, en núna vill það tæpast annnar hver Breti.

Af reynslunni má ráða, að það sé í senn of freistandi og of hættulegt fyrir kóngafólk að tengjast stjörnudómi nútímans. Bezt er fyrir það að halda sig til hefðbundins hlés, svo sem gert hefur verið í Hollandi, Noregi og Svíþjóð, en fara ekki að taka þátt í að leika stjörnur.

Við höfum séð hvernig fór fyrir Grimaldi-ættinni í Mónakó, þegar það fékk stjörnu í sínar raðir. Við sjáum hvernig dönsku prinsarnir eru að sökkva í glaumgosalíf, sem veldur vinsældum til skamms tíma, en býður hættunni heim. Stjörnustand hentar ekki kóngafólki.

Brezkur almenningur bar virðingu fyrir Viktoríu og Churchill, en dýrkaði þau ekki. Fólk dýrkar hins vegar prinsessuna og grætur fögrum tárum við fráfall hennar. Þrátt fyrir uppruna sinn og ævi var hún talin vera ein af fjölskyldunni og raunar einn nánasti ættingi fjöldans.

Stjörnudómur er merkilegt og lítt rannsakað fyrirbæri. Það er nánast ævintýralegt, að óhamingjusamur glaumgosi skuli geta fengið eftirmæli, sem fela í sér, að hún hafi verið John Fitzgerald Kennedy, Iknaton faraó og heilög Jóhanna af Örk í einni og sömu persónu.

Ef til vill var það hin augljósa óhamingja prinsessunnar, sem olli því, að almenningur sá hana í spegli sápuóperanna og saknar hennar sem spegils síns.

Jónas Kristjánsson

DV

Fjármál og feimnismál

Greinar

Meðan utanríkisráðuneytið er að stuðla að ættfræðilegri skrásetningu 200 þúsund Vestur-Íslendinga er Tölvunefnd að leita leiða til að ritskoða hefðbundin ættartöl og stéttartöl og leyfa einstaklingum beinlínis að bannna, að nöfn þeirra séu birt í slíkum ritum.

Meðan forsætisráðuneytið leggur mikla vinnu við að fá samþykkt og að kynna almenningi ný upplýsingalög, sem gera ráð fyrir mun greiðari aðgangi að skjölum er fjármálaráðuneytið að leita nýrra leiða til að takmarka enn frekar en áður aðgang að álagningarskrám skatta.

Vinstri höndin í kerfinu veit ekki hvað hin hægri gerir. Annars vegar er verið að opna kerfið og auka útbreiðslu þekkingar. Hins vegar er verið að loka kerfinu og takmarka útbreiðslu þekkingar. Á síðara sviðinu starfa einkum Tölvunefnd og fjármálaráðuneytið.

Lokunarsinnar vilja túlka einkamál svo vítt, að það nái til feimnismála og fjármála, þar á meðal skatta, sem greiddir eru opinberum aðilum. Svo langt gengur þetta, að ætla mætti, að fyrirtæki séu sálir, sem hafi persónur og einkalíf, sem beri að vernda fyrir hnýsni að utan.

Fjármálaráðuneytið hefur gert nokkrar tilraunir til að loka álagningarskrám skatta. Það sættir sig ekki við landslög og gaf í fyrra út ólöglega reglugerð um lokun þessara skráa. Eftir gagnrýni Alþingis var reglugerðin dregin til baka. En ráðuneytið gafst samt ekki upp.

Það hefur skipað nefnd til að smíða nýjar reglur, sem fela í sér, að álagningarskrám verði lokað, en í staðinn opnaðar skattskrár, sem veita tveggja ára gamlar upplýsingar. Slíkar skrár eru þeim mun gagnminni sem þær eru eldri, enda er það markmið ráðuneytisins.

Enginn aðili í kerfinu fer þó meiri hamförum gegn opnun þess en Tölvunefnd, sem er að kanna möguleika til afskipta af ættfræði. Var þó Vilmundur Jónsson landlæknir í eitt skipti fyrir öll búinn að brjóta þá múra, þegar hann birti eyðurnar frægu í fyrsta Læknatali.

Nokkrir menn reyndu að koma í veg fyrir, að Vilmundur birti nöfn líffræðilegra foreldra kjörbarna. Hann leysti málið með því að taka nöfnin út, en skilja eftir nákvæmlega mældar eyður, þar sem þær æptu framan í lesendur og auglýstu það, sem ekki mátti sjá.

Þannig mun einnig fara fyrir tilraunum Tölvunefndar til afskipta af þjóðaríþrótt Íslendinga. Eyðurnar munu skera í augu og þögnin mun æpa. Enda er nefndin komin langt á villigötur í sjónarmiðum sínum á landamærum opinberra upplýsinga og einkamála.

Barneignir utan hjónabands eru ekki einkamál, ekki heldur lágar einkunnir embættismanna á háskólaprófum og enn síður fjármál fyrirtækja og skattgreiðslur manna til sameiginlegra þarfa þjóðfélagsins. Þetta geta verið feimnismál, en eru ekki einkamál.

Sem dæmi um þetta er tjónaskrá bíla. Tjón geta verið feimnismál, en eru ekki einkamál, þegar bíll er til sölu. Þá er tjónasagan mikilvægt gagn fyrir kaupandann, svo að viðskiptin séu heiðarleg. En Tölvunefnd hefur reynt að takmarka aðgang almennings að tjónaskránni.

Sjónarmið fjármálaráðuneytisins og Tölvunefndar stríða gegn anda hinna nýju upplýsingalaga og miða að því að gera þjóðfélagið ógegnsætt. Þau rugla fjármálum og feimnismálum saman við einkamál. Þau draga úr möguleikum borgaranna til að átta sig á þjóðfélaginu.

Mikilvægt er, að jafnan sé fylgzt vel með afturhaldsöflum kerfisins og tilraunum þeirra til að varpa leyndarhjúp einkamála yfir fjármál og feimnismál.

Jónas Kristjánsson

DV

Sameining framsóknarflokka

Greinar

Einfaldara er að sameina Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn heldur en Alþýðuflokkinn og Alþýðubandalagið. Annars vegar eru tveir flokkar, sem hafa svipuð sjónarmið í stjórnmálum og hins vegar tveir flokkar, sem hafa þverstæð sjónarmið í stjórnmálum.

Það er engan veginn fráleit hugmynd að sameina Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk. Stefnuskrárnar eru keimlíkar og hagsmunagæzlan svipuð. Eini munurinn er, að Framsóknarflokkurinn gætir hagsmuna Smokkfisksins og Sjálfstæðisflokkurinn Kolkrabbans.

Þessi munur í hagsmunagæzlu var mikilvægari á fyrri áratugum en hann er núna í lok aldarinnar. Smokkfiskurinn varð undir í baráttunni við Kolkrabbann, tók upp búskaparhætti hans og er núna eins konar litli bróðir hans í markaðsskiptingu og fáokun.

Meginmarkmið beggja flokka er að varðveita ráðherratign marskálkanna, gæta hagsmuna gæludýranna, útvega stöður fyrir liðsforingjana og stóla fyrir herforingjana. Annað meginmarkmiðið er, að lítið gerist í stjórnmálum og stöðugleiki ríki í efnahagsmálum.

Hér er um að ræða tvo framsóknarflokka, sem af sagnfræðilegum ástæðum bjóða fram hvor í sínu lagi, en koma málefnalega fram sem einn flokkur í ríkisstjórn. Þeir eru sammála um óbreytt ástand í viðkvæmum málum á borð við kvóta, landbúnað og evrópskt samstarf.

Öðru máli gegnir um Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkinn. Annars vegar er flokkur, sem skarar vinstri væng Framsóknarflokksins og hins vegar er flokkur, sem skarar hægri væng Sjálfstæðisflokksins. Þeir eru ósammála í flestum viðkvæmum þjóðmálum.

Spennandi verður að sjá, hver verður stefna fyrirhugaðs Jafnaðarmannaflokks í kvótum, landbúnaði, evrópsku samstarfi og vestrænu hernaðarsamstarfi. Sennilegt er, að niðurstaðan verði mjög svipuð því, sem hún er hjá framsóknarflokkunum tveimur í ríkisstjórn.

Með Jafnaðarmannaflokknum verða framsóknarflokkarnir orðnir þrír og spanna væntanlega fylgi 95% íslenzkra kjósenda. Eftir það mun Framsóknarflokkurinn ýmist mynda stjórn með Sjálfstæðisflokki eða Jafnaðarmannaflokki og þindarlaus stöðugleiki ríkja í pólitík.

Samkvæmt skoðanakönnum mun fylgi Alþýðubandalagsins og Alþýðuflokksins skila sér vel inn í Jafnaðarmannaflokkinn, en ekki fylgi annarra flokka, svo sem Kvennalistans. Það ætti því að vera óhætt fyrir A-flokkana tvo að breytast í þriðja framsóknarflokkinn.

Með sameiningu A-flokkanna búa þeir til trúverðugan kost fyrir Framsóknarflokkinn að starfa með í ríkisstjórn á milli stjórnartímabila hans með Sjálfstæðisflokknum. Það þýðir, að marskálkar A-flokkanna komast oftar í ríkisstjórn, en Sjálfstæðisflokksins sjaldnar.

Þetta mynztur er gerólíkt mynztri Reykjavíkurlistans, þar sem kvótar, landbúnaður, evrópskt samstarf og vestrænt hernaðarsamstarf flækjast ekki fyrir. Þar gátu fjögur stjórnmálaöfl sameinazt um meirihluta og mjúku málin. Slíkt mynztur væri miklu flóknara á landsvísu.

Að vori verður líklega reynt að halda mynztri Reykjavíkurlistans og útfæra það í kosningum fleiri sveitarfélaga. Slíkt verður hins vegar tæpast endurtekið í þingkosningunum, sem verða ári síðar. Þá mun afmörkuð sameiningarviðleitni A-flokkanna hafa skilað árangri.

Engu skiptir, hver sameinast hverjum á landsvísu. Niðurstaðan verður ævinlega nýr framsóknarflokkur með stíl og stefnu gömlu framsóknarflokkanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Leitað að sökudólgi

Greinar

Við venjulegar aðstæður er ekki deilt um, að drukkinn ökumaður, sem ekur á 150 km hraða í miðri stórborg, beri ábyrgð á dauðaslysi, sem leiðir af þessu háttalagi. Gildir þá einu, hvort í kjölsoginu séu nokkrir hnýsnir ljósmyndarar, sem eru á vegum slúðurfjölmiðla.

En slysið í París um helgina var ekki venjulegt dauðaslys, heldur var fórnardýr þess ein helzta goðsagnapersóna nútímans. Fórnardýr hins gálausa ölvunaraksturs var prinsessan, sem brezka konungsfjölskyldan kastaði frá sér, þegar hún hafði notað hana til undaneldis.

Saga prinsessunnar hefur öll verið hjartnæm. Eftir skilnaðinn við krónprins Breta hefur hún tekið virkan þátt í fjölmiðlastríði við brezku konungsfjölskylduna og meðal annars beitt fyrir sig þeim slúðurfjölmiðlum, sem löngum hafa sótzt eftir persónumyndum af henni.

Prinsessan var orðin hluti af lífi margs fólks, eins konar fjölskylduvinur. Sumt af þessu fólki krefst annarra sökudólga en hins drukkna ökumanns og hefur fundið þá í ljósmyndurunum á vettvangi. Það telur þá hafa í rauninni drepið prinsessuna með því að elta hana.

Sennilega eru þessir sjö ljósmyndarar siðferðilega meðábyrgir. Þeir eiga siðferðilega aðild að málinu, hvers svo sem lagaleg staða þeirra er í Frakklandi. Þeir voru þátttakendur í atburðarás, sem fékk hörmulegan endi. Reiði fólks beinist fyrst og fremst að þessum mönnum.

Erfitt er fyrir Íslendinga að gera sér grein fyrir hlutverki slúðurljósmyndara. Hér á landi er ekki fylgzt með framhjáhaldi frægs fólks og glaumgosa. Hér er ekki kannað, hver borði með hverjum á veitingahúsi eða hver liggi við hlið hvers á baðströnd eða skútuþilfari.

Hér snúast deilur um friðhelgi einkalífs fólks fyrst og fremst um, hversu langt megi ganga í birtingu ættfræðilegra upplýsinga í uppsláttarritum og hversu langt megi ganga í birtingu upplýsinga úr skattskrám. Raunverulegt einkalíf Íslendinga er ekki notað til birtingar.

Einkalíf frægs fólks er hins vegar opið í löndum á borð við Bretland. Þar eru beinlínis gefnir út fjölmiðlar, sem nærri eingöngu snúast um einkalíf frægs fólks. Þessir fjölmiðlar eru seldir í milljónum eintaka, meðan hefðbundnir fjölmiðlar seljast í hundruðum þúsunda.

Þessir fjölmiðlar byggjast á firringu almennings, sem tekur sýndarveruleika fræga fólksins fram yfir sinn eigin nöturlega hversdagsleika. Einu vinirnir, sem þetta fólk á, er fræga fólkið í slúðurfjölmiðlunum. Þetta fólk fylgist ekki með fréttum, það fylgist bara með slúðri.

Sumar sjónvarpsstöðvar og dagblöð á borð við Sun og Mirror gera út á þetta fólk. Í þessum fjölmiðlum eru alls engar fréttir í venjulegum skilningi. Þeir birta bara slúður. Þeir kaupa ljósmyndir, sem hnýsnir ljósmyndarar taka af frægu fólki, yfirleitt af skemmtanalífi þess.

Fræga fólkið notar svo þessa sömu fjölmiðla til að halda uppi sýndarveruleika frægðarinnar. Þannig hafa talsmenn prinsessunnar hringt í slúðurfjölmiðlana til að koma á framfæri slúðri, sem þeir töldu vera henni til framdráttar í deilunum við konungsfjölskylduna.

Í sýndarveruleikanum snúast hnýsnir ljósmyndarar, stjórnendur og eigendur slúðurfjölmiðla, notendur slúðurfjölmiðla og svo auðvitað fræga fólkið, sem beitir sömu fjölmiðlum frægð sinni til framdráttar. Í þessum vítahring vísar hver ábyrgðinni á hendur hinum.

Í hinum raunverulega heimi utan þessa sýndarveruleika er slysið hins vegar áminning um, að fólk eigi ekki að aka drukkið og ekki á þreföldum hámarkshraða.

Jónas Kristjánsson

DV

Jaðarbyggðir láta undan síga

Greinar

Á Hornströndum má víða sjá, hvar fólk hefur búið fyrr á öldum í einangrun undir fjalli og við opnu hafi. Annað jarðnæði var ofsetið og fólk varð að bjarga sér sem bezt það gat. Þegar tækifæri efldust, einkum á tuttugustu öldinni, fóru þessar jaðarbyggðir í eyði.

Jaðarbyggðir hafa alla þessa velmegunaröld verið á undanhaldi. Það hefur einkum komið niður á dreifbýli til sveita, en síður á sjávarplássum. Nokkurn veginn samfelld gróska í sjávarútvegi hefur haldið verndarhendi yfir annars tæpum jaðarbyggðum sjávarsíðunnar.

Ýmislegt hefur verið gert til að treysta varnir sjávarplássa. Áhrifamest er byltingin í samgöngum á landi og í lofti. Vegir eru víðast færir árið um kring, flug er víða reglubundið og sums staðar eru jarðgöng farin að tengja saman byggðir og styrkja þær sameiginlega.

Annað hefur orðið til að grafa undan byggðunum. Fiskveiðar eru í auknum mæli stundaðar um borð í frystitogurum, sem geta landað afla sínum hvar sem er. Þá hefur fyrirkomulag kvótakerfisins leitt til stórfelldra flutninga á fiskveiðiréttindum milli sjávarplássa.

Sjávarútvegurinn er raunar smám saman að verða óháður sjávarplássunum. Ekkert er til dæmis því til fyrirstöðu, að kvótar og frystitogarar safnist til Reykjavíkur og Akureyrar, ef sjávarútvegsfyrirtækin á þeim stöðum eru betur rekin en önnur slík fyrirtæki.

Þetta hefur ekki enn komið niður á atvinnu í jaðarbyggðum við sjávarsíðuna, svo að ótímabært er að kenna kerfisbreytingum í sjávarútvegi um fólksflóttann. Slíkar breytingar eru hins vegar yfirvofandi og hafa áhrif á væntingar fólks, sem hugsar sér til hreyfings.

Fyrst og fremst eru það félagsleg og hugarfarsleg atriði, sem valda því, að fólk flytzt nú tugum saman frá sumum sjávarplássum Vestfjarða. Fólk yfirgefur mikla atvinnu, af því að það sækist eftir betri félagslegum aðstæðum og meira öryggi fyrir náttúruöflunum.

Engin vafi er á, að snjóflóðin á Vestfjörðum hafa markað þáttaskil. Fólk er allt í einu sinni farið að átta sig á, að íbúðir þess eru á hættusvæðum. Það hættir skyndilega að loka augunum fyrir hættunni og ákveður í staðinn að taka á henni í eitt skipti fyrir öll.

Flestir eru sammála um, að skólar hafi mikið að segja. Vitað er, að í jaðarbyggðum, til dæmis á Vestfjörðum, eru skólar lakari en landsmeðaltalið. Auk þess er dýrt að gera út námsmenn í aðrar byggðir. Foreldrar flytja sig hreinlega þangað sem börnin sækja skóla.

Sjaldan er þó talað um sterkasta áhrifavaldinn. Það er sjálfur nútíminn, sem breytir hugarfari og væntingum. Í Reykjavík er ógrynni af kaffihúsum og börum, þar er úrval kvikmyndahúsa og tónleika. Þar er ilmurinn af hinni stóru og víðu veröld nútímans úr sjónvarpinu.

Varnarbarátta jaðarbyggðanna endar vafalaust á því að flestir Íslendingar búa innan klukkutíma fjarlægðar frá Austurvelli. Þessi þróun jafngildir eins konar náttúruafli. Hún hefur malað hægt og örugglega alla þessa öld. Hún eyddi sveitum og mun eyða sjávarplássum.

Félagslegu miðsóknarafli fylgir jafnan líka miðflóttaafl, þótt í veikara mæli sé. Meðan hinir mörgu sækja í Reykjavíkurglauminn munu hinir fáu sækja í fásinnið í jaðarbyggðunum, þar sem fólk “fer heim til sín í hádeginu”, eins og auglýst var í blaði um daginn.

Stóra spurningin er svo, hvort Reykjavík verði ætíð endastöð sóknar fólks út í hina stóru og víðu veröld eða hvort það tekur upp á því að sækja enn lengra.

Jónas Kristjánsson

DV

Íslenzka heilsubyltingin

Greinar

Ánægjulegasta breytingin, sem orðið hefur á lífsháttum Íslendinga síðustu árin, er aukin áherzla á heilsurækt. Með hverju árinu fjölgar þeim verulega, sem taka sjálfir ábyrgð á heilsu sinni og rækta með sér lífsstíl, sem stuðlar að langri, góðri og vandræðalítilli ævi.

Mest ber á þessu í almenningsíþróttum. Ódýrastar og gagnlegastar eru ganga, skokk, sund og hjólreiðar. Sund hefur áratugum saman verið mikið stundað, en ganga, skokk og hjólreiðar eru nýrri af nálinni og farin að setja svip sinn á götulífið víða á höfuðborgarsvæðinu.

Mun dýrari og ekki eins gagnlegir, en afar gagnlegir þó, eru tækjasalirnir, sem hafa sprottið upp á síðustu árum. Þeir gagnast vel við sértæk verkefni, svo sem sjúkraþjálfun, og þjóna þar á ofan því eindregna áhugamáli margs ungs fólks að taka sig vel út.

Þótt útlit sé oft skylt innihaldi, er þó nauðsynlegt að gera greinarmun á líkamsrækt, sem stefnir að góðu útliti, og heilsurækt, sem stefnir að góðri heilsu. Þessir tvö áhugamál tengjast hvort öðru og styðja hvort annað, en eiga sér eigi að síður misjafnar forsendur.

Mikilvægasti þáttur heilsuræktar er mataræðið, sem oft er talið spanna um helming þeirra möguleika, sem fólk hefur til að laga eða bæta heilsu sína. Svo vel vill til, að fræðimenn og stofnanir um heim allan eru á nokkurn veginn einu máli um, hvað sé gott og hollt mataræði.

Fólk á að stórminnka neyzlu á sykri og sykruðum vörum og á fitu og fituríkum vörum, einkum dýrafitu og hertri fitu. Fólk á að minnka neyzlu á kjöti og auka neyzlu á fiski. Það á að stórauka neyzlu á grænmeti og ávöxtum. Það á að taka hýðiskorn fram yfir hreinsað.

Þetta er formúla Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar. Ýmsir læknar, sem síðustu árin hafa skrifað vinsælar bækur um varnir gegn menningarsjúkdómum á borð við hjartasjúkdóma og krabbamein, eru róttækari og mæla með hreinu grænmetis- og ávaxtafæði, lífrænt ræktuðu.

Um mataræðið gildir eins og hreyfinguna, að á hverju ári fjölgar þeim mjög, sem taka ábyrgð á eigin heilsu og skipta um lífshætti. Verzlanir með lífrænt ræktaðar heilsuvörur skjóta upp kollinum, heilsuhorn eru farin að sjást í stórmörkuðum og hollustufélög hafa eflzt.

Hár þröskuldur er samt í vegi frekari framfara á þessu sviði. Það eru ofurtollar ríkisins á innfluttu grænmeti, er sérstaklega koma hart niður á lífrænt ræktuðu grænmeti, sem er dýrt í innkaupi. Grænmetisstefna stjórnvalda er ávísun á sjúkdóma og kostnað.

Þriðji meginþáttur heilsuræktar er góð slökun, sem nýtur vaxandi vinsælda hér á landi eins og góð hreyfing og gott mataræði. Slökun getur verið margs konar. Allar aðferðirnar eiga rætur að rekja til indverskrar aðferðafræði og kenningakerfis, sem kallað er jóga.

Þetta getur verið líkamsrækt á borð við teygjuæfingar og öndunaræfingar. Það getur líka verið hugleiðsla, sálræn eða andleg. Einnig getur það verið trúariðkun eða vitsmunarækt. Aðferðir í jóga og slökun eru afar fjölbreyttar, svo að flestir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Þrenning hreyfingar, mataræðis og slökunar er gullið tækifæri fyrir nútímafólk til að afla sér góðrar og langvinnrar heilsu og draga úr líkum á, að það þurfi mikið að vera háð dýrri heilbrigðisþjónustu hins opinbera, sem raunar rambar núna á barmi gjaldþrots.

Enginn þarf að fara á mis við nýja lífshætti. Til eru áhugafélög, þjálfarar, læknar og aðrir sérfræðingar, sem geta hjálpað fólki til að stíga fyrstu skrefin.

Jónas Kristjánsson

DV

Nató á villigötum í Bosníu

Greinar

Hersveitir Atlantshafsbandalagsins í Bosníu er farnar að hafa afskipti af innanþjóðarátökum Serba. Þær draga taum forseta Serba gegn þingi Serba. Þær senda lið til stuðnings sveitum forsetans, þegar þær eru að reyna að komast yfir vopn og tæki sveitanna, sem styðja þingið.

Forseti Serba í Bosníu er Biljana Plavsic, þekkt stríðsglæpakona, sem var engu vægari í samskiptum við Bosníumenn og Króata en hinn illræmdi Radovan Karadzic, sem meira bar á í blóðbaðinu, af því að hann hafði krumpað gaman af að rífa kjaft í erlendum fjölmiðlum.

Ekki verður séð, að neitt umboð eða neinn tilgangur sé með stuðningnum við Plavsic. Hún leysti upp þingið af því að það var henni mótdrægt. Hún braut þannig eitt helzta grundvallaratriði lýðræðis. Ástæðulaust er að koma nálægt henni á annan hátt en með töngum.

Sá munur er að vísu á Plavsic og Karadzic, að hún lifir á eðlilegum tekjum, en hann lifir á smygli og stuldi á fjármunum ríkis og borgara. En þau lögbrot hans eru innanríkismál, sem koma Atlantshafsbandalaginu ekkert við. Sakir hans eru allt aðrar og meiri.

Atlantshafsbandalagið hefur misserum saman haft það hlutverk í Bosníu að hafa hendur í hári Karadzics og nokkurra sálufélaga hans til að koma þeim í hendur stríðsglæpadómstólsins í Haag. Þetta hlutverk hefur bandalagið gersamlega vanrækt og vanrækir enn.

Það kann að friða slæma samvizku foringja hjá Atlantshafsbandalaginu að bæta sér upp aðgerðaleysið með því að taka afstöðu gegn Karadzic í minni háttar málum. Það breytir ekki því, að þeir eru aumingjar að geta ekki sinnt raunverulegu hlutverki sínu.

Undir forustu stjórnar Bandaríkjanna og með stuðningi stjórna Bretlands og Frakklands var á sínum tíma undirritaður samningur deiluaðila í Bosníu um skiptingu landsins, heimferðir flóttafólks og margvísleg önnur skref á leið landsins aftur til eðlilegs ástands.

Atlantshafsbandalaginu var falið að sjá um, að staðið yrði við samninginn. Skemmst er frá því að segja, að deiluaðilar hafa tregðazt við efndir og Bosníu-Serbar hafa skipulega hunzað öll atriði samningsins. Atlantshafsbandalagið hefur látið þetta kyrrt liggja.

Nú liggur fyrir, að ekki stendur steinn yfir steini samningsins um Bosníu og að Atlantshafsbandalagið hefur hvorki kjark né siðferðilegt bolmagn til að sinna hlutverki sínu á staðnum. Þá taka sveitir bandalagsins upp á því að fara að skipta sér af allt öðrum málum.

Afskiptasaga Vesturlanda af málefnum Bosníu er orðin slík eymdar- og hrakfallasaga, að ekki er á hana bætandi. Samt eru 350 hermenn bandalagsins sendir til að skipta sér af málum, sem koma samningnum um Bosníu ekkert við. Það er eins og mönnum sé ekki sjálfrátt.

Hvað varðar Atlantshafsbandalagið um, hvort eitt fúlmennið í Bosníu hleri síma annars fúlmennis? Hvað varðar bandalagið um meintar fyrirætlanir eins glæpamanns í garð annars glæpamanns? Af hverju getur bandalagið ekki sinnt skyldustörfum sínum?

Ekkert eitt mál hefur valdið Vesturlöndum eins miklum álitshnekki í umheiminum og getuleysi þeirra til að fylgja eftir Bosníusamningnum. Um allan heim sjá fantar og fól, að það er hið bezta mál að standa uppi í hárinu á Vesturveldunum og rjúfa alla gerða samninga.

Þannig eru og verða framleidd skrímsli á borð við Karadzic í Bosníu og Saddam Hussein í Írak. Auðvitað á að taka Karadzic höndum og það í grænum hvelli.

Jónas Kristjánsson

DV

Kísiliðja á náttúruminjaskrá?

Greinar

Einu sinni voru tíu álver í Sviss. Nú er þar ekkert álver. Svisslendingar ákváðu í millitíðinni að vilja ekki álver og flæmdu þau brott. Þess vegna varð Alusuisse að hasla sér völl í þriðja heiminum, þar á meðal Íslandi, þar sem álveri var tekið sem sendingu af himnum ofan.

Nú eru Þjóðverjar byrjaðir að losa sig við álver. Eitt álveranna, sem rifið var þar í landi, hefur verið sett í pakka til útflutnings til Grundartanga, þar sem þriðja heims þjóðin tekur við því sem himnasendingu. Svona breytileg geta sjónarmið þjóðanna verið.

Við stöndum á mörkum iðnríkjanna og þriðja heimsins. Sem þriðja heims þjóð þráum við það, sem iðnríkin eru farin að hafna. Sem þriðja heims þjóð áttum við okkur ekki heldur á verðgildi ósnortinna víðerna, þjóðgarða og vandlega varðveittra náttúruminja.

Þess vegna höfum við áratugum saman sætt okkur við, að Landsvirkjun legði loftlínur út og suður um auðnir landsins. Þess vegna höfum við áratugum saman sætt okkur við, að Landsvirkjun reisti í auðnunum lífvana miðlunarlón með breytilegri vatnshæð.

Nú eru viðhorf þjóðarinnar byrjuð að breytast. Þeim fjölgar, sem átta sig á, að reikningsdæmi stóriðjunnar hafa verið meira eða minna vitlaus og standast ekki samjöfnuð við reikningsdæmi ferðaþjónustunnar annars vegar og reikningsdæmi almennra lífsgæða hins vegar.

Kísiliðjan við Mývatn stendur á þessum krossgötum. Hún er ekki beinlínis stóriðja, en er verksmiðja af sama toga. Hún átti lengi fjárhagslega erfitt uppdráttar, en hefur um langt skeið verið öflugt fyrirtæki, sem safnað hefur í kringum sig notalegu íbúðahverfi við Mývatn.

Þar í sveit hefur alla tíð verið deilt um Kísiliðjuna. Hún hefur því alltaf staðið ótraustum fótum í almenningsálitinu, enda hefur hún takmarkað starfsleyfi, sem ætlunin er að renni út, ef fræðilega er talið líklegt, að hún skaði lífríki Mývatns og Mývatnssveitar.

Á sama tíma hafa menn þar í sveit og víðar á landinu vaknað til vitundar um verðgildi Mývatnssvæðisins sem auðlindar í ferðaþjónustu. Liður í eflingu verðgildis svæðisins sem slíks var tilraun til að koma því á alþjóðlega skrá yfir örfáar helztu náttúruminjar heimsins.

Mývatn verður heimsfrægt, ef það kemst á slíka skrá. Fulltrúar náttúru- og ferðatímarita munu í auknum mæli leggja leið sína þangað og erlendar ferðaskrifstofur taka í auknum mæli upp ferðir þangað. Tekjuaukinn af slíkum áhuga yrði á við margar Kísiliðjur.

Sóttur var hingað maður til að afgreiða það, sem talið var nánast formsatriði, staðfestingu á réttmætri stöðu Mývatns sem einstæðs fyrirbæris. Maðurinn fór til Mývatns og sá það, sem heimamenn sáu ekki. Hann sá fyrst og fremst Kísiliðjuna og hristi bara hausinn.

Hann upplýsti einfaldlega, að tilgangslaust væri að tala um, að Mývatn færi á einhverjar náttúruminjaskrár, meðan þar væri eldspúandi verksmiðja í sviðsljósinu. Hugsanlega mætti taka upp málið síðar, þegar Kísiliðjan væri örugglega horfin á vit feðra sinna.

Áhugamenn um verndun gamalla verksmiðja sjá nú þá leið úr ógöngunum við Mývatn, að gleyma náttúruminjamálinu og stæla fremur Bláa lónið, þar sem ferðatekjur stafa af annarri ástæðu, meintri heilsulind. Þeir vilja búa til lón undir veggjum Kísiliðjunnar.

Þetta eru dæmi um vandræði, sem fólk lendir í, er það stendur ótraustum fótum í tilverunni og veit til dæmis ekki, hvort það er enn í þriðja heiminum eða ekki.

Jónas Kristjánsson

DV