Kolbítur úr öskustó

Greinar

Komið hefur í ljós, að nærri helmingur Breta tekur neikvæða afstöðu til auglýsinga, sem hann sér. Þetta skiptist þannig, að tæpum fjórðungi finnst auglýsingarnar uppáþrengjandi og fjandsamlegar og annar tæpur fjórðungur tekur alls ekkert mark á þeim.

Þetta þykja slæm tíðindi fyrir ímyndarfræðinga, sem starfa að auglýsingum og markaðsmálum. Þeim mun betri eru þau fyrir neytendur, þar sem þetta hlýtur að leiða til breytinga á eðli auglýsinga, þannig að þær falli betur að þörfum neytenda en þær hafa gert.

Núverandi auglýsingar, einkum þær sem birtast í sjónvarpi, benda til, að höfundar þeirra telji neytendur vera meiri háttar bjálfa, sem hlaupi á eftir tilbúnum og meira eða minna ímynduðum ímyndum eins og keppnishundar á eftir vélknúnum hérum á hringvelli.

Hegðun neytenda hefur hingað til bent til, að væntingar ímyndarfræðinganna séu á rökum reistar. Fólk kaupir furðulegustu megrunarvörur og fótanuddtæki. Það er jafnvel farið að klöngrast um á óeðlilega þungum skóm, af því að sagt er, að þetta sé tízkan í ár.

Einkum hefur borið á hlaupum eftir merkjum. Þannig tókst Pierre Cardin að færa tízkufatafrægð sína yfir á 800 aðrar vörutegundur á einu bretti. Þannig tekst Davidoff, sem eitt sinn seldi góða vindla frá Kúbu, að yfirfæra frægð sína á ilmvötn fyrir karla.

Tívolí og Disneylönd heimsins hafa verið að breytast í stórmarkaði og stórmarkaðir hafa verið að breytast í Tívolí og Disneylönd. Nike Towns eru ekki lengur búðir fyrir strigaskó, heldur afþreyingarmiðstöðvar, þar sem reiknað er með, að fjölskyldur eyði hálfum dögum.

Markaðsmenn eru farnir að tala um auglýsingar í símtölum og skólastofum, í lyftum og kennslubókum. Stórhuga forvígismenn eru farnir að tala um risastórar auglýsingar í órafjarlægð uppi í himingeimnum, “af því að þar er mikið af ónotuðu auglýsingaplássi”.

Tilraunir stjórnmálamanna og embættismanna til að stuðla að hagvexti ríkja fara fyrir lítið, af því að hagvöxturinn fer ekki í bætt lífskjör, heldur í uppfyllingu tilbúinna og ímyndaðra þarfa, sem auglýsingar og áróðursherferðir hafa framleitt. Batinn fer í súginn.

Svartsýnir söguskýrendur hafa sagt, að frjálsbornir borgarar, sem taki skynsamlegar ákvarðanir á pólitískum vettvangi, séu smám saman að breytast í eins konar neyzludýr, sem hlýði í blindni kalli ímyndarfræðinganna og kasti fé í tilboð markaðsfræðinganna.

Samkvæmt uggvænlegri framtíðarsýn þessarar söguskoðunar mun almenningur í vaxandi mæli hverfa af opinberum markaði pólitískra ákvarðana og snúa sér alfarið að draumaheimi neyzlunnar, samkvæmt fyrirmælum auglýsenda og áróðursmanna hverju sinni.

Við sáum fyrir okkur kolbíta framtíðarinnar, eyðandi frítímanum í hægindastólum framan við imbakassa, troðandi nasli og lituðu sykurvatni í andlit sér, horfandi á auglýsingabera spila með bolta innan um auglýsingaskilti í þáttum, kostuðum af auglýsendum.

Nú segir brezk rannsókn, að þetta sé ekki rétt. Útlitið sé ekki eins svart og söguskýrendurnir hafa sagt. Nærri helmingur fólks sjái gegnum ruglið og láti það annað hvort ekki á sig fá eða taki neyzluákvarðanir, sem stríði gegn ruglinu. Kolbíturinn sé að rísa úr öskustó.

Ef nógu margir neytendur kasta frá sér óþarfanum og slökkva á auglýsingunum, verða ímyndar- og markaðsöflin að snúa við blaðinu og fara að þjóna fólki.

Jónas Kristjánsson

DV

Sollurinn og íþróttafélögin

Greinar

Sveitarfélög styðja íþróttafélög eftir mætti, greiða mikinn hluta kostnaðar við gerð íþróttamannvirkja og auðvelda störf þeirra á ýmsan annan hátt. Stuðningur sveitarfélaga við íþróttafélög er yfirleitt miklu meiri og jafnvel langtum meiri en við aðrar tegundir félaga.

Sumpart getur verið, að sveitarfélög líti á íþróttafélög sem aðferð til markaðssetningar sveitarfélaga á svipaðan hátt og fyrirtæki gera. Hins vegar er óljóst, hver væri tilgangur slíkrar markaðssetningar af hálfu stofnana, sem ekki eru að selja neitt sérstakt.

Höfuðástæðan fyrir stuðningi sveitarfélaga er fremur sú, að íþróttafélög eru talin aðferð til að halda börnum og unglingum frá sollinum. Talið er, að líkamlega holl keppni og leikur dragi úr líkum á, að börn og unglingar lendi af iðjuleysi í áfengi og öðrum vímuefnum.

Þetta er raunar stutt af rannsóknum, sem benda til, að iðkun íþrótta fari saman við góðan árangur í námi og farsæla siglingu barna og unglinga framhjá freistingum umhverfisins. Heilbrigð sál í hraustum líkama er gamalt orðtak, sem reynist byggjast á staðreyndum.

Íþróttasamband Íslands er byrjað að undirbúa efnivið í vottunarkerfi, svipað því sem þekkist á öðrum sviðum, þar sem fyrirtæki fá óháðar vottunarstofur til að staðfesta, að afurðir þeirra standist tiltekna skilmála. Íþróttafélög gætu þá aflað sér hliðstæðra stimpla.

Frá sjónarhóli sveitarfélaga væri æskilegt, að vottunarkerfi íþróttahreyfingarinar fæli í sér mat á, hvort félögin standi undir væntingum um þátttöku í að halda börnum og unglingum frá sollinum. Vottun um slíkt gæti verið forsenda fjárframlaga sveitarfélaga.

Í rauninni kemur stundum fyrir, að íþróttafélög eru sjálfur sollurinn. Margir unglingar hefja drykkju og reykingar í keppnisliðum. Sumir þjálfarar hafa verið afar slæmt fordæmi. Jafnvel er dæmi um, að félag hafi verið rekið heim af landsmóti ungmennafélaga.

Þótt þetta séu frekar undantekningar en regla, er mikilvægt, að þær verði ekki þolaðar. Vottun íþróttafélaga getur orðið gott tæki í baráttunni gegn iðjuleysi og neyzlu tóbaks, áfengis og annarra fíkniefna. Því er ástæða til að fagna frumkvæði hreyfingarinnar.

Það var hins vegar köld gusa, sem samfélagið fékk frá ársþingi Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, þegar tveir áfengissalar stóðu fyrir því, að þingið felldi tillögu stjórnarinnar um áfengisneyzlu og áfengisauglýsingar. Það var hrikalegur álitshnekkir sambandsins.

Þingið felldi bann við áfengisneyzlu iðkenda, þjálfara og leiðtoga í keppnisferðum. Það felldi bann við neyzlu tóbaks, áfengis og annarra fíkniefna á skemmtunum íþróttafélaga. Það felldi bann við auglýsingum á tóbaki og áfengi á íþróttamannvirkjum og búningum.

Þannig sendi ársþing Íþrótta- og ólympíusambands Íslands þau skýru skilaboð til sveitarfélaga, að íþróttafélög teldu ekki hlutverk sitt að taka þátt í baráttu samfélagsins gegn sollinum. Þetta var umdeilt á þinginu, en meirihlutinn samþykkti hina skelfilegu niðurstöðu.

Líkur benda til, að íþróttahreyfingin geti klórað sig út úr þeirri undarlegu stöðu að vera orðin að leppríki áfengissala og komist aftur í þá stöðu, að félögin geti farið að bera höfuðið hátt, þegar þau fara næst að reyna að kría peninga út úr sveitarfélögum landsins.

Það eru hins vegar hreinar línur, að félög, sem styðja afgreiðslu ársþings íþróttasambandsins á ofangreindum tillögum, eiga ekki skilinn stuðning sveitarfélaga.

Jónas Kristjánsson

DV

Asísku gildin voru íslenzk

Greinar

Áður en bankar, hlutabréf og gengi hrundu í Suðaustur-Asíu í nóvember hafði árum saman verið í tízku að tala um austræn gildi, sem væru betri en vestræn. Ritaðar voru lærðar bækur, þar sem því var haldið fram, að Asíulönd hefðu betri skipan þjóðfélagsmála.

Fremstir í flokki fóru ráðamenn sumra þessara ríkja, sem sögðu það aðal síns fólks að kunna að vinna saman í stað þess að keppa. Og að hlýða yfirboðurum sínum í stað þess að sérhver hefði sérskoðanir á öllu. Þeir röktu velgengni þjóða sinna til kenninga Konfúsíusar.

Ekki þarf að hverfa aftur til fyrri alda til að finna fordæmi fyrir efnahagskerfi svokallaðra efnahagstígrisdýra í Suðaustur-Asíu. Þegar upp var staðið í hruninu, kom í ljós, að þarna hafði verið rekið hagkerfi, sem minnti mjög á íslenzkt hagkerfi eftirstríðsáranna.

Við þekkjum leyndarstefnuna. Stjórnvöld í ríkjum Suðaustur-Asíu reyndu að halda gerðum sínum og fyrirætlunum leyndum fyrir almenningi. Stjórnendur fyrirtækja gerðu hið sama gagnvart hluthöfum og lánardrottnum. Og bankarnir gagnvart eigendum sparifjár.

Fjölmiðlunina þekkjum við líka. Austrænir fjölmiðlar gerðu sitt til að rugga ekki bátnum. Þar hafa ráðamenn fjölmiðla jafnan verið inni á gafli hjá stórhvelum stjórnmála, efnahagsmála og fjármála. Þeir voru aðilar að þagnarbandalagi hinna austrænu gilda.

Í nafni hinnar heilögu samvinnu að hætti Konfúsíusar var þagað um alla hluti, samsæri stjórnvalda og fyrirtækja gegn almenningi, samsæri stjórnvalda og banka gegn eigendum sparifjár og samsæri stjórnvalda og fjölmiðla gegn vestrænni upplýsingaskyldu.

Sterkustu samlíkinguna við Ísland sjáum við hjá bönkum Suðaustur-Asíu. Þeir hafa meira eða minna verið undir áhrifavaldi stjórnvalda, sem hafa hvatt þá til að lána gæludýrum stjórnmálanna ótrúlegustu fjárhæðir, sem núna eru að mestu farnar í súginn.

Þetta minnir á uppgang og hrun Sambands íslenzkra samvinnufélaga. Gæludýrin höfðu óheftan aðgang að fjármagni og gátu síðan ekki staðið undir því, þegar kom að skuldadögunum. Fyrirtækin hrundu í báðum tilvikum og ríkisvaldið kom bönkunum til hjálpar.

Íslenzk stjórnvöld björguðu Landsbankanum með því að dæla í hann gjafafé, svo að hann gæti skriðið upp úr gjaldþroti Sambands íslenzkra samvinnufélaga og annarra pólitískra gæludýra, sem bankinn hafði lánað, af því að stjórnvöld höfðu sagt honum að gera það.

Svipað hafði gerzt í Bandaríkjunum fyrir tæpum áratug, er margir sparisjóðir hrundu og fengu stuðning ríkisins til að halda lífi. Þannig hafa skattgreiðendur verið látnir hlaupa undir bagga stuttbuxna-kapítalista í Bandaríkjunum, í Suðaustur-Asíu og á Íslandi.

Reynslan frá Vesturlöndum hafði þannig sýnt, að hin svonefndu asísku gildi eru þar ekki óþekkt fyrirbæri. Þau hafa skotið upp kollinum í Bandaríkjunum og verið fyrirferðarmikil á Íslandi. Við þekkjum hin asísku gildi og þau eru ekki asísk frekar en íslenzk minkabú.

Asísk gildi er fínt orðbragð um ríkisstýrða spillingu yfirstéttarinnar, leyndarhjúp gagnvart fjölmiðlum, fjármálasukk, einkavinavæðingu og ódýr lán handa gæludýrum kerfisins. Tígrisdýrin í austri reyndust að lokum ekki vera annað en hver önnur pappírstígrisdýr.

Markaðshagkerfi stenzt nefnilega ekki án hinna gamalkunnu gilda Vesturlanda, þar sem mestu máli skipta upplýsingaskylda, þjóðfélagsgagnrýni og valddreifing.

Jónas Kristjánsson

DV

Niðurlæging Íslands í Kyoto

Greinar

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja ekkert með sér á samningaborð loftmengunarfundarins í Kyoto. Hún er ekki með nein tilboð í farangrinum. Hún hefur ákveðið, að Ísland geri ekkert í því að koma málum sínum á hreint, heldur óski hvarvetna eftir undanþágum.

Nánast öll ríki og ríkjasamtök hins vestræna heims eru með tilboð í farangrinum. Lengst ganga ríki Evrópusambandsins, sem vilja samkomulag um töluverða minnkun loftmengunar á næsta áratug. Ísland verður yfirlýstur skítapjakkur í samanburði við Evrópu.

Af skrifum og tali umhverfisráðherra í sumar mátti ætla, að ríkisstjórnin hygðist gæta sóma landsins á sviði loftmengunar. Hann vakti sérstaka athygli á, að fyrirhuguð stóriðja stæðist ekki skuldbindingar, sem Ísland hefur þegar tekið á sig í eldri samningi frá Ríó.

Núna hefur ráðherrann étið allt umhverfishjal ofan í sig. Hann er hættur að segja, að Ísland verði að standa að niðurstöðu Kyoto-fundarins til þess að sæta ekki samskiptaerfiðleikum við umheiminn. Núna er hann farinn að gera ráð fyrir, að Ísland skrifi ekki undir.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að gefa ekki hið minnsta eftir í stóriðjunni, heldur heimta undanþágur út á notkun endurnýjanlegra orkugjafa. Hún ætlar ekkert að gera til að minnka mengun frá fiskiskipaflotanum, heldur heimta undanþágu til að auka hana enn frekar.

Þannig hefur Ísland þá sérstöðu meðal auðþjóða heims á loftmengunarfundinum í Kyoto, að taka engan þátt í tilboðum um minnkaða mengun og heimta þess í stað undanþágur til að menga enn meira en nú er gert. Þannig niðurlægir ríkisstjórnin Íslendinga.

Umheimurinn mun ekki fallast á óskhyggju ríkisstjórnarinnar um undanþágur til aukinnar mengunar. Þvert á móti munu menn lýsa í Kyoto og eftir Kyoto yfir undrun sinni á þröngsýni Íslendinga og skammsýnu sérhagsmunapoti þeirra. Ísland fer á svörtu listana.

Þannig fer fyrir fólki, sem skortir reisn. Þannig fer fyrir fólki, sem sér ekki út fyrir nef sér. Þannig fer fyrir fólki, sem áttar sig ekki á, að framtíð fiskveiðiþjóðar felst í að taka umhverfisforustu og skapa sér orðstír sem framleiðandi hreinnar og ómengaðrar vöru.

Í staðinn hrekjumst við út í að þurfa að reyna að þvo íslenzku stimplana af matvælaframleiðslu okkar. Við neyðumst til að reyna að selja afurðirnar undir útlendum merkjum til að vekja síður athygli útlendinga á því, að varan sé frá íslenzka sóðabælinu.

Ríkisstjórn Íslands hefur ekki fremur en Íslendingar yfirleitt áttað sig á, að straumhvörf hafa orðið í umheiminum. Umhverfisvernd er ekki lengur eitthvað, sem síðskeggjaðir sérvitringar mæla með, heldur er hún orðin að opinberri stjórnarstefnu á Vesturlöndum.

Umheimurinn er farinn að átta sig á, að um líf og dauða er að tefla í umhverfismálunum. Skítapjakkar eins og Íslendingar verða teknir í bakaríið. Viðskiptaþjóðir okkar munu setja okkur stólinn fyrir dyrnar og hreinlega refsa okkur fyrir smásálarskapinn.

Íslendingar eru þjóða mest háðir utanríkisviðskiptum. Þess vegna munum við neyðast til að fylgja þeim mannasiðum, sem ákveðnir verða í útlöndum, til dæmis á fundum á borð við Kyoto. Við getum valið um að hafa sjálfir frumkvæði eða láta kúga okkur til aðgerða.

Erindisbréf fulltrúa Íslands á Kyoto-fundinn felur í sér yfirlýsingu um, að Ísland sé þrýstihópur sóðaskaparins. Það felur í sér niðurlægingu okkar allra.

Jónas Kristjánsson

DV

Auðlindagjald er auðvelt

Greinar

Auðlindagjaldsnefnd Verzlunarráðsins gat ekki reiknað skynsamlega, hvert ætti að vera auðlindagjald í sjávarútvegi, af því að hún sá ekki mikilvægasta lið dæmisins. Hún áttaði sig ekki á, að frjálsi markaðurinn hefur þegar ákveðið helztu forsendur útreikningsins.

Þeir, sem kaupa og selja kvóta, leigja hann eða taka á leigu, ákveða á frjálsum markaði, hvað rekstur sjávarútvegsins ber. Þeir, sem taka kvóta á leigu, þurfa að greiða leiguna af tekjum á leigutíma. Þeir, sem kaupa, þurfa að fjármagna kaupverðið af tekjum á afskriftatíma.

Skattur þessi er til, þótt hann renni ekki til ríkisins, heldur til þeirra, sem selja eða leigja kvóta. Þeir eru að selja eða leigja verðmæti, sem ríkið hefur búið til með því að setja á fót skömmtun á aðgangi að kvóta. Með skömmtun hefur ríkið gert fiskveiðar arðbærar.

Ef ríkið skammtaði ekki aðgang að auðlindinni, væru fiskistofnar meira eða minna úr sögunni. Sjávarútvegur væri fyrir löngu orðinn gjaldþrota. Það er eingöngu fyrir tilstilli skömmtunar ríkisins, að svo er ekki. Þannig hefur ríkið framleitt skattleggjanleg verðmæti.

Skatturinn er þegar greiddur, en rennur til rangra aðila. Hann rennur fyrst milli aðila í sjávarútvegi, síðan út úr sjávarútveginum og loks til útlanda. Hann verður skilnaðargóss og erfðagóss og endar síðan ævina í lystihúsum, sem menn kaupa sér við Karíbahaf.

Leiguverð kvóta sýnir í stórum dráttum, hvert er verðgildi skömmtunarkerfis ríkisins. Stundum getur það að vísu verið hærra en eðlilegt markaðsverð, af því að við vissar aðstæður getur það verið jaðarverð, það er að segja aukið arðsemi rekstrar, sem fyrir er.

Með því að taka söluverð kvóta inn í myndina og afskrifa það á hefðbundinn hátt, fæst annað mat á verðgildi skömmtunarkerfis ríkisins, sem getur í ýmsum tilvikum verið lægra en það, sem leiguverðið sýnir. Auðlindagjald ætti að taka tillit til þessa.

Með einföldum og auðreiknanlegum fyrirvörum af þessu tagi við einföld og auðreiknanleg reikningsdæmi er hægt að sjá, hvernig frjálsi markaðurinn verðleggur skömmtunarkerfi ríkisins. Þannig kemur verðgildi auðlindarinnar í ljós á náttúrulegan markaðshátt.

Með þessu er sagt, að stór hluti sjávarútvegsins greiðir nú þegar auðlindagjald, en að það renni bara í rangan vasa. Gjaldið hefur þegar verið ákveðið á frjálsum markaði, en rennur ekki í vasa þess, sem kom með skömmtun fiskveiða í veg fyrir hrun sjávarútvegs.

Það er því markleysa, þegar nefnd á vegum Verzlunarráðs er að reyna að meta, hvað sjávarútvegurinn beri hátt auðlindagjald ofan á það auðlindagjald, sem hann ber nú þegar. Málið felst ekki í meiri skattlagningu, heldur í að finna réttan viðtakanda auðlindagjalds.

Núverandi auðlindagjald er ávísun á misrétti og sporðaköst í þjóðfélaginu. Það leiðir til upplausnar í sjávarplássum, þegar kvótar eru seldir burt eða erfingjar ákveða að eyða ævinni við strendur Karíbahafs eða fela peningana í hendur mannvinarins Moons.

Ef auðlindagjaldið rennur til ríkisins, verður síður misrétti og upplausn. Peningarnir haldast líka miklu fremur inni í landinu og nýtast að nokkru til að halda uppi byggðastefnu. Þeir eiga einnig að geta dregið úr skattlagningarþörf ríkisins á öðrum sviðum.

Bezt er, að frjáls markaður ákveði auðlindagjald til ríkisins eins og hann ákveður nú kvótaverð. Rétt auðlindagjald finnst einfaldlega á opnum uppboðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Hin nýja undirstétt

Greinar

Vörukerrur viðskiptavina við kassana í matvöruverzlunum á föstudögum benda margar hverjar ekki til, að innkaup séu vel grunduð á öllum bæjum. Í kerrunum ægir saman rándýru ruslfæði, tilbúnum verksmiðjuréttum, lituðu sykurvatni og alls óþörfu dóti.

Þetta vekur blendnar tilfinningar. Annars vegar er ánægjulegt, að þjóðin skuli vera orðin svo rík, að fjöldi manns getur verzlað í blindni. Hins vegar er eftirsjá í lífskjörunum, sem fara forgörðum, þegar þúsundkallarnir fjúka fyrir lítið í föstudagsinnkaupum.

Óþægilegust er vitundin um, að fólk kýs eins og það kaupir. Það heldur sig við mikið auglýstar vörur og tekur svo sem ekki neina afstöðu til innihaldsins. Töluverður hluti þjóðarinnar hagar sér eins og viljalaust rekald, hvort sem er við kjörkassa eða búðarkassa.

Framleiðendur vöru og þjónustu á borð við stjórnmál hafa náð vaxandi tökum á sölutækni, en varnargeta þeirra, sem standa handan kassans, hefur ekki aukizt að sama skapi. Enda er svo sem ekki krafizt menntunar og reynslu til að vera neytendur og kjósendur.

Í matvörubúðum eru framleiðendur farnir að kaupa hillupláss og staðsetningu í hillum. Þeir sjá jafnvel um að raða í hillurnar, sem þeir “eiga”. Það er ekki veltan, sem kallar á hillupláss og staðsetningu, heldur er það hilluplássið og staðsetningin, sem kallar á veltuna.

Innan um bílstjóra frá framleiðendum eru fulltrúar annarra matvörubúða að skrá verð, svo að tryggt sé, að búðirnar séu ekki að keppa í verði, heldur haldist á nokkurn veginn sama róli. Sárafáir matvörukaupmenn á Íslandi bjóða raunverulega samkeppni í vöruverði.

Á síðustu árum hafa verið slípaðar aðferðir til að fá fólk til að halda tryggð við tegundir vöru og þjónustu, framleiðendur og kaupmenn, burtséð frá því, hvernig verð og gæði þróast í umhverfinu. Þúsundir manna eru uppteknar af því að safna til tryggðarverðlauna.

Toppurinn á sölutækni nútímans felst í, að kaupendur eru fengnir til að ganga um stræti og torg skrýddir vörumerkjum, sem þeir kaupa dýrum dómum. Þannig fá framleiðendur og seljendur merkjavöru ókeypis auglýsingu ofan á yfirverðið, sem jafnan er á slíkri vöru.

Í gamla daga hafði vara og þjónusta innihald, sem leiddi til ímyndar hennar. Nú á tímum hefur ímyndin hins vegar öðlazt sjálfstætt líf án tillits til innihalds. Um ímyndina hefur risið fræðigrein, sem menntar markaðsfólk til að spila á veikar varnir neytenda.

Sameiginlegt einkenni neytenda og raunar kjósenda er, að þeir taka ekki saman höndum til varnar. Sumpart vita þeir ekki betur, sumpart nenna þeir ekkert að gera í málinu og sumpart eru lífskjör þeirra svo góð, að neyzluaðgát er ekki forgangsmál í lífi þeirra.

Smám saman er að verða til undirstétt viljalítils fólks, sem hefur sómasamlegar tekjur, en drepur frítímann við sjónvarps- og myndbandagláp, sykurvatn og snakkpoka. Þetta eru eins konar neyzluvélar, sem taka ekki sjálfstæðan þátt í lífinu í kringum sig.

Þessi stækkandi hópur bætist við þá, sem af öðrum og eldri ástæðum segja pass við lífinu. Samanlagt grefur þetta fólk undan markaðsþjóðfélaginu og lýðræðinu, því að meintar þarfir þess verða sífellt fyrirferðarmeiri í augum markaðsmanna í stjórnmálum og viðskiptum.

Ef skólakerfið kenndi borgaraleg fræði, þar sem nemendur ættu kost á að sjá gegnum ímyndir stjórnmála og annarrar söluvöru, mundi misvægið minnka.

Jónas Kristjánsson

DV

Spennandi verkefni

Greinar

Erfitt en óhjákvæmilegt verður fyrir Íslendinga að taka þátt í niðurstöðu Kyoto-fundarins um takmörkun á losun efna, sem valda loftslagsbreytingum. Ef samkomulag verður, má búast við, að þjóðir mikilla utanríkisviðskipta eigi erfitt með að neita að taka þátt.

Loftslagsfræðingar deila minna en áður um áhrif efnalosunar á loftslagið. Hinir bjartsýnu í hópi þeirra telja, að hitinn muni hækka um tvö stig á næstu áratugum. Það dugar til að bræða ísþekjur, breyta hafstraumum og hækka yfirborð sjávar. Því þarf að grípa í taumana.

Gagnaðgerðir eru sérstaklega mikilvægar fyrir fiskveiðiþjóð í strandríki. Fiskigöngur tengjast mótum kaldra og heitra hafstrauma. Ef þeir færast til, getur ördeyða orðið á fengsælum fiskimiðum. Ennfremur spillast hafnir og mannvirki, ef sjór gengur á land.

Verkefni okkar á Kyoto-fundinum getur því ekki falizt í að fara undan í flæmingi með því að styðja metnaðarlítil markmið, frestanir og undanþágur. Við eigum hagsmuna okkar vegna að vera í hópi þeirra þjóða, sem lengst vilja ganga til að sporna gegn loftmengun.

Hingað til hafa aðgerðir okkar á þessum sviðum verið fremur ódýrar. Við höfum að mestu flutt notkun okkar á rafmagni, ljósum og hita yfir í tiltölulega vistvæna orkugjafa. Við eigum hins vegar eftir að fást við mengandi útblástur bíla, skipa og stóriðjuvera.

Áþreifanlegasta vandamálið er, að fyrirhuguð stóriðja á Íslandi mun auka loftmengun á Íslandi á sama tíma og við skuldbindum okkur til að minnka hana. Flestir eru sammála um, að ekki sé ástæða til að ætla, að Kyoto-fundurinn gefi okkur svigrúm til undanbragða.

Stóriðjusinnar verða annað hvort að leggja drauma sína að meira eða minna leyti til hliðar eða útvega stóriðju, sem ekki mengar. Ekki er nóg að semja reglur um mengunarvarnir, heldur sjá um að þær séu ekki þverbrotnar eins og í sóðaverinu á Grundartanga.

Önnur leið til að koma orku landsins í verð er að leiða hana í rafmagnskapli á hafsbotni til Evrópuríkja, sem tækju þá á sig stóriðjuvandræðin og kostnaðinn við þau. Þessi leið hefur lengi verið til umræðu og verður raunar álitlegri með hverju árinu, sem líður.

Á Kyoto-fundinum verður ekki stefnt að óbreyttum útblæstri mengandi lofttegunda, heldur beinlínis að minnkun. Evrópusambandið vill til dæmis minnka mengunina um 15% árin 1990­2010. Til þess að ná slíku marki, þurfum við að taka á fleiru en stóriðjunni.

Við komumst ekki hjá að gera dýrar ráðstafanir til að minnka mengun af völdum véla í bílum og skipum. Stjórnvöld verða að taka forustu á því sviði. Sennilega verður að taka upp koltvísýringsskatt, er renni til þeirra aðila, sem koma sínum málum á hreint.

Notkun vetnis sem eldsneytis í vélum skipa og bíla getur gerbreytt erfiðri stöðu Íslands. Tilraunir og rannsóknir á því sviði hafa gengið svo vel, að full ástæða er til að ætla, að vetni fari senn að verða hagkvæmur orkugjafi. Þar þurfum við að verða í fararbroddi.

Að svo miklu leyti sem vandkvæði verða á notkun vetnis í samgöngum á landi, þeim mun meiri ástæða er til að beina sjónum okkar að rafmagnsbílum og rafmagnssporbrautum. Fyrsta skrefið er að gefa slíkum tækjum afslátt af núgildandi innflutningsgjöldum.

Þetta eru ekki vandamál, heldur spennandi verkefni. Ef við viljum, getum við náð Kyoto-markmiðunum, hver sem þau verða. Og það er í okkar eigin þágu.

Jónas Kristjánsson

DV

Bandaríkin einangrast

Greinar

Bandaríkjamenn náðu ekki samstöðu með fyrri bandamönnum um aðgerðir gegn stjórn Saddams Husseins Íraksforseta. Aðeins Bretar fylgdu þeim skilyrðislítið að málum, en aðrir bandamenn vildu friðsamlegri viðbrögð. Flestir vilja nú auka viðskipti við Írak.

Afleiðingin er, að Bandaríkjamenn treystu sér ekki til átaka að þessu sinni. Saddam Hussein vann enn einu sinni hálfa lotu í langvinnum þvergirðingi gegn tilraunum Sameinuðu þjóðanna til að framfylgja vopnahléssamningnum frá lokum Persaflóastríðsins.

Bandalagið gegn Saddam Hussein byrjaði að bila, þegar Bandaríkjamenn stóðu skyndilega upp í miðju Persaflóastríði, lýstu yfir sigri og flúðu heim. Þannig skildu þeir eftir Saddam Hussein ósigraðan og létu framtíðinni eftir að fást við óleysanleg vandræði.

Ekki dugir endalaust að beita viðskiptaþvingunum, sem greinilega losa ekki um veldistauma Saddams Husseins, heldur valda saklausum almenningi gegndarlausum hörmungum. Leið viðskiptaþvingana kemur ekki í staðinn fyrir úthald í alvörustyrjöld.

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings varpaði handsprengju inn á fund öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir helgina, þegar stjórn Bandaríkjanna var að reyna að safna liði gegn Saddam Hussein. Deildin felldi greiðslu upp í skuld ríkisins við Sameinuðu þjóðirnar.

Bandaríkjamenn þurfa ekki að borga meira á mann til Sameinuðu þjóðanna en Vestur-Evrópumenn gera. Munurinn er sá, að hinir síðarnefndu greiða yfirleitt gjöld sín til samtakanna á réttum tíma, en Bandaríkjamenn eru orðnir meðal hinna allra skuldseigustu.

Það þýðir ekki í neinu samstarfi að reyna að skipa öðrum fyrir og rífa síðan kjaft, þegar á að fara að taka þátt í kostnaðinum við samstarfið. Þess vegna mun ákvörðun fulltrúadeildar Bandaríkjaþings flýta fyrir vaxandi einangrun Bandaríkjanna í umheiminum.

Við sjáum einangrunina vaxa á öðrum sviðum. Bandaríkjamenn neituðu að taka þátt í samkomulagi heimsbyggðarinnar um bann við jarðsprengjum. Þeir eru ekki fáanlegir til að taka á sig svipaðar byrðar af mengunarvörnum og Vestur-Evrópmenn vilja gera.

Einna alvarlegust er einangrun Bandaríkjanna af völdum öxulsins, er þeir hafa myndað með hryðjuverkaríkinu Ísrael, sem er orðið að illkynjuðu æxli í Miðausturlöndum. Bandaríkjamenn láta þennan tryllta bandamann sinn komast upp með nánast hvað sem er.

Svik Ísraels og Bandaríkjanna við Óslóarsamninginn um friðarferli í Palestínu magna andstöðu íslamskra þjóða og ríkja við Vesturlönd yfirleitt og Bandaríkin sérstaklega. Meðal annars hafa íslamskir bandamenn Vesturlanda úr Persaflóastríðinu snúið við blaðinu.

Það er heimssöguleg nauðsyn eftir lok kalda stríðsins að halda áfram friðarferli milli menningarheima og draga úr spennu milli Vesturlanda og ríkja Íslams. Öxull Bandaríkjanna og Ísraels hefur þveröfug áhrif. Hann magnar spennuna og mun leiða til átaka í framtíðinni.

Bandaríkjamenn geta ekki stjórnað heiminum í krafti peninga. Þeir segjast ekki einu sinni hafa ráð á að taka þátt í kostnaði við stækkun Atlantshafsbandalagsins. Þeir geta ekki lengur stjórnað í skjóli hervalds. Þeir flúðu frá Víetnam, Líbanon, Sómalíu og Írak.

Á innanlandsmarkaði bandarískra stjórnmála er einangrunin túlkuð sem vanþakklæti útlendinga. Viðbrögðin eru í stíl fulltrúadeildarinnar: Meiri einangrun.

Jónas Kristjánsson

DV

Hætt verði við hækkun símans

Greinar

Enn eitt málið bættist við langa afbrotaskrá Pósts & síma fyrir helgina, þegar Samkeppnisráð úrskurðaði, að farsímatilboð fyrirtækisins til félagsmanna Félags íslenzkra bifreiðaeigenda fæli í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu fyrirtækisins á farsímamarkaði.

Póstur & sími er góðkunningi Samkeppnisstofnunar á sama hátt og raðglæpamenn eru kallaðir góðkunningjar lögreglunnar. Á fáum árum hefur hlaðizt upp fjölbreyttur afbrotaferill fyrirtækisins, þannig að Samkeppnisstofnun hefur hvað eftir annað gripið í taumana.

Fyrirtækið hefur á þessu árabili misnotað aðstöðu sína á fjölbreyttan hátt; í fjarskiptabúnaði, við innritun blaða og tímarita, í fjárhagslegu samkrulli rekstrarþátta, við notkun öryggisbúnaðar á símstöðvum, við póstdreifingu, í internetþjónustu og í læsingu gagnagrunns.

Ellefu sinnum hefur fyrirtækið verið kært fyrir Samkeppnisstofnun. Aldrei hefur verið úrskurðað því í hag. Níu sinnum hefur fallið úrskurður gegn fyrirtækinu. Breiðbandskæran er enn fyrir Samkeppnisráði og gjaldskrárhækkunin illræmda er alveg nýtt mál.

Stjórn Pósts & síma fundaði um stöðuna í lok síðustu viku og taldi sig finna, hvað væri að. Fyrirtækið ætti við ímyndarvanda að stríða. Laga þyrfti ímyndina, en ekkert var minnst á innihaldið. Þannig hefur fyrirtækið ekkert lært og engu gleymt á afbrotaferli sínum.

Ekki er hægt að reikna með, að fyrirtækið lagist neitt á næstunni. Þeir, sem ekkert hafa lært og engu hafa gleymt, hafa fengið traustsyfirlýsingu ráðherra og beiðni um að halda áfram störfum, svo að þeir geti fundið út, hvernig megi breyta ímynd með óbreyttu innihaldi.

Ríkisvaldið hefur klúðrað allri einkavæðingu sinni eins og hún leggur sig. Ekkert dæmi er til um, að einkavæðing ríkisstofnana hafi verið til góðs. En allt bendir til, að einkavæðing Pósts & síma verði hrikalegasta dæmið á öllum einkavæðingarferli ríkisins.

Stundum hefur ríkið einkavinavætt í stað þess að einkavæða. Það hefur látið gæludýr stjórnmálanna hafa ríkisfyrirtæki, þrátt fyrir hærri tilboð annarra. Oftast hefur ríkið þó einkavætt einokunina, þannig að meðferð hennar hefur orðið gráðugri en hún var hjá ríkinu.

Póstur & sími er dæmi um síðari aðferðina. Fyrsta verkið eftir einkavæðingu var að hækka laun forstjóranna og halda þeim leyndum. Síðan hefur öll rekstrarsaga fyrirtækisins falizt í tilraunum til að misnota varanlega og tímabundna einokunaraðstöðu.

Póstur & sími hefur fengið nokkurn veginn gefins ljósleiðara vegna viðskipta varnarliðsins og þarf því ekki að borga hann niður. Ljósleiðarinn gerir fyrirtækinu kleift að hafa símtöl á innanbæjarverði um allt land. Ástæðulaust var því að hækka innanbæjartaxta á móti.

Í Bandaríkjunum taka einkafyrirtæki í símaþjónustu ekki skrefagjald af fólki. Litið er svo á, að skrefakostnaður símkerfa nútímans sé nánast enginn, þegar búið er að greiða niður stofnkostnað. Hér á landi ætlar Póstur & sími hins vegar að lifa á skrefagjöldum.

Tómt mál er að tala um, að fyrirtækið eigi að skila ríkinu svo og svo miklum arði. Það hefur enga tilraun gert til að hagræða í rekstri. Það sér enga leið til arðsemi aðra en þá að hækka á viðskiptavinunum, þótt reynsla annarra sé, að meiri arður fáist af hagræðingu.

Ekki er nóg að slá af skrefahækkunum í kjölfar kastljóssins á innviði Pósts & síma. Sanngjarnt er, að skrefagjöld hækki alls ekki. Annað væri ósigur notenda.

Jónas Kristjánsson

DV

Mútur breiðast út á Íslandi

Greinar

Útgefendur vildarkorta og fríkorta múta starfsmönnum stofnana og fyrirtækja til að gera óhagkvæm innkaup. Fólk flýgur til dæmis með Flugfélagi Íslands í stað Íslandsflugs og það flýgur á Sögu-farrými í stað almenns farrýmis til að afla sér persónulegra punkta.

Ekkert samband er milli þess, hver greiðir vöruna eða þjónustuna og hver fær punkta fyrir að kaupa hana eða nota. Þannig geta þeir, sem kaupa inn fyrir stofnanir og fyrirtæki, látið setja punktana á fríkort sitt. Sama er að segja um flugfarþega, sem ekki borga sjálfir.

Vegna andvaraleysis fjármálaráðuneytisins er ríkið stærsta fórnardýr mútukerfisins. Það lætur undir höfuð leggjast að semja við flugfélög um meðferð punktakerfa og annarra vildarmála og að neita viðskiptum við þá aðila, sem ekki vilja semja um málið.

Ríkið er einnig fórnardýr að því leyti, að punktarnir fara allir fram hjá skatti. Þetta eru tekjur, sem ekki eru taldar fram og eru því verðmætari fyrir mútuþegann en aðrar tegundir tekna. Ríkisskattstjóri er þó vaknaður af værum blundi og farinn að hugleiða málið.

Almenningur borgar líka fyrir mútukerfið. Það má til dæmis sjá af því, að Íslandsflug gafst upp á lágum fargjöldum, þegar farþegar vildu heldur láta borga fyrir sig dýr fargjöld til þess að fá vildarpunkta. Íslandsflug er því að ganga í Vildarklúbbinn og hækka fargjöld sín.

Þjóðfélagið í heild tapar á mútukerfinu. Til er alþjóðlegt hagfræðilögmál, sem segir, að beint samband sé milli spillingar og slæms gengis í efnahagsmálum. Mútukerfi soga til sín orku fólks og leiða þróun efnahagsmála og flæði peninga inn á óhagkvæmar brautir.

Með mútukerfi vildarkorta og fríkorta eru þar á ofan sett enn ein mörkin milli þeirra, sem aðstöðu hafa og hinna, sem hana hafa ekki. Múturnar eru á þann hátt illkynjað æxli í þjóðarlíkamanum og valda því, að minni samstaða er með þjóðinni en ella væri og vera þarf.

Mörkin eru líka sett milli hinna heiðvirðu, sem geta notað sér múturnar, en gera það ekki, og hinna, sem láta múta sér. Skilaboðin til þjóðarinnar eru þau, að það borgi sig ekki að vera heiðarlegur á Íslandi í lok 20. aldar. Heilsteyptur heiðarleiki sé sama og heimska.

Af öllum þessum ástæðum er brýn ástæða fyrir þjóðfélagið að skera upp meinsemd vildarkorta og fríkorta. Eyða þarf mútuþætti kortanna, skattleggja punktana og fjármagna neytendafræðslu um skuggahliðar fríðindaverzlunar og annarra bellibragða af þessu tagi.

Skattlagningin er einföldust. Hún fæst með því að skylda útgefendur punktakerfa til að senda skattstjórum skrár yfir úthlutaða punkta. Þetta þarf að gera með reglugerð nú þegar, svo að ráðamenn þjóðarinnar verði ekki sakaðir um hagsmunagæzlu fyrir mútugjafa.

Neytendafræðsla er fyrirbyggjandi langtímamál. Skýra þarf, hvernig vildarkort og fríkort eru angi víðtækra sjónhverfinga, sem í vaxandi mæli taka við af hefðbundnum og heiðarlegum magnafsláttum, sem byggjast á, að ódýrara er að selja mikið en lítið.

Að mútuþættinum má ráðast með því að gera kröfur um beint samband milli þess, sem raunverulega greiðir vöruna og þess, sem fær afsláttinn fyrir að kaupa hana. Það gerist með því að banna vildarkort og fríkort og benda í staðinn á leið hefðbundinna magnafslátta.

Vildarkortin og fríkortin eru ný og stórfelld meinsemd hér á landi. Þau fela í sér, að mútur læðast um þjóðfélagið, eitra það og grafa undan innviðum þess.

Jónas Kristjánsson

DV

Marklausi prédikarinn

Greinar

Seðlabankinn fer í haustprédikun sinni að venju mildum höndum um stjórnendur íslenzkra efnahagsmála. Hann segir flest vera innan rammans, þenslu ekki óbærilega, halla ríkisrekstrar ekki óbærilegan og viðskiptahalla gagnvart útlöndum ekki óbærilegan.

Smám saman hafa menn vanizt að taka lítið mark á mati Seðlabankans á stöðu mála. Hann hefur áratugum saman reynzt vera hallur undir ríkisstjórnir hvers tíma. Hann hefur ekki sinnt aðhaldsskyldu sinni í þeim mæli, sem menn ætlast erlendis til af seðlabönkum.

Góðærið sparar ríkisstjórninni að halda vel á spöðunum og hylur veruleikann fyrir Seðlabankanum. Því eru litlar líkur á, að þjóðin komi úr góðærinu betur búin til að fást við verkefni mögru áranna, sem jafnan fylgja góðærum í sveifluþjóðfélagi á borð við okkar.

Skynsamlegt er að fleygja skýrslu Seðlabankans og meta heldur efnahagslegan og peningalegan árangur þjóðfélagsins út frá skilgreinanlegum markmiðum á borð við, hvort við nálgumst eða fjarlægjumst þau markmið, sem nágrannaríki okkar hafa sett sér.

Hvort sem við viljum eða viljum ekki taka þátt í evrópsku myntbandalagi, þá er okkur hollt að setja svipuð peningamarkmið og nágrannarnir. Því miður erum við að fjarlægjast skilyrðin á sama tíma og þjóðir Vestur-Evrópu eru smám saman að nálgast þau.

Fjárlagahalli og ríkisskuldir eru á sæmilegu róli hjá okkur, enda er hér beitt sömu brögðum og víða annars staðar að selja eigur ríkisins upp í afborganir og vexti af skuldum þess. Ríkið étur út eigur sínar og kallar það einkavæðingu til að gefa því hagfræðistimpil.

Verðbólga fer vaxandi hér á landi, úr 1,8% á þessu ári í 2,7% á því næsta. Það stafar af, að ríkið hirðir ekki um að grípa til aðgerða, sem komi í veg fyrir hækkun verðlags í kjölfar mikilla launahækkana. Hún situr með hendur í skauti og kennir öðrum um vandann.

Verðbólga hefur haldizt lág að undanförnu, af því að losað hefur verið um samkeppnishömlur. Frjálsari markaður spillir möguleikum fyrirtækja til að velta launahækkunum út í verðlagið í stað þess að hagræða rekstri sínum þannig, að hann melti hækkanirnar.

Ríkisvaldið á enn ónotuð ýmis tækifæri á þessu sviði. Verðlag ýmissa matvæla er óeðlilega hátt hér á landi vegna verndarstefnu í þágu landbúnaðarins. Lækkandi verð landbúnaðarafurða mundi vega upp á móti þenslu vegna launahækkana af völdum kjarasamninga.

Vextir haldast háir hér á landi á sama tíma og þeir fara lækkandi í nágrannalöndunum. Munurinn er núna talinn nema um og yfir 2%. Þetta er gífurleg skattlagning á fólk og fyrirtæki, sem stafar eingöngu af því að íslenzkar lánastofnanir eru ferlega illa reknar.

Í stað þess að stokka upp afdankaða stjórnmálagengið í bankastjórnum og bankaráðum hefur ríkisvaldið endurráðið alla gömlu sukkarana. Samt hafa þeir verið staðnir að því að brenna milljörðum í rekstraræfingum gæludýranna í pólitíska samtryggingarkerfinu.

Afdankaða stjórnmálagengið stjórnar líka Seðlabankanum. Þess vegna er bankinn mjúkmáll í haustskýrslu sinni, í stað þess að berja í borðið og segja: Niður með vaxtamun inn- og útlána! Og: Niður með samkeppnishindranir á innlendum markaði!

Þess í stað bullar bankinn í hefðbundnum stíl um að halda verði uppi vöxtum á þenslutíma og um líkur á að launakostnaði fyrirtækja verði velt út í verðlagið.

Jónas Kristjánsson

DV

Staðið föstum fótum í fortíðinni

Greinar

Á landsfundi sínum um helgina nálgaðist Alþýðubandalagið lítt þau sjónarmið sem koma fram í nýrri stefnuskrá Grósku, sameiningarfélags vinstri manna. Samflotssigur Margrétar formanns hafði lítið sem ekkert málefnalegt innihald til að varða veginn.

Himinn og haf er milli sjónarmiðanna í stefnuskrá Grósku og samþykktanna á miðstjórnarfundi Alþýðuflokksins um helgina annars vegar og sjónarmiðanna á landsfundi Alþýðubandalagsins hins vegar. Þar náðist ekki einu sinni samkomulag um auðlindagjald.

Að vísu eru stuðningsmenn Margrétar formanns fjölmennari í nýrri miðstjórn Alþýðubandalagsins en í hinni gömlu. Ný miðstjórn getur reynzt formanninum gott jafnvægi gegn andsnúnum þingflokki þegar hún fer að vinna úr vandamálum sem vísað var til hennar.

Landsfundur Alþýðubandalagsins hlýtur þó að valda stuðningsfólki Grósku málefnalegum vonbrigðum. Á fundinum fór ekkert fyrir nýju hugmyndunum, sem eru kjarninn í stefnuskrá hennar og voru hugsaðar til að sameina kjósendur á vinstri væng stjórnmálanna.

Auðvitað er það umhugsunarefni, hversu erfitt Alþýðubandalagið á með að taka nýjum hugmyndum. Flokkurinn er enn að tuða um hernaðarbandalag, sem öll Austur-Evrópa heimtar að fá að ganga í, þar á meðal arftakaflokkar gömlu kommúnistaflokkanna.

Meðan öll Austur-Evrópa vill komast í Nató, er Alþýðubandalagið frosið fast. Meðan Gróska heimtar þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu, er Alþýðubandalagið hart á móti. Þannig fer lest heimsins hjá, án þess að bandalagið fáist til að hoppa upp í.

Helfrosin andstaða Alþýðubandalagsins við aðild að Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu er sömu ættar og getuleysi flokksins við að taka upp félagshyggjustefnu í auðlindamálum þjóðarinnar. Þessi viðhorf spegla ótta fortíðarfólks við ótrygga framtíð.

Af sama toga er runninn eindreginn stuðningur Alþýðubandalagsins við sem allra mest fjárútlát skattgreiðenda til varðveizlu hefðbundins landbúnaðar. Þótt þessi útgjöld lami getu ríkisins til félagslegra útgjalda vill Alþýðubandalagið auka þau sem mest má verða.

Alþýðubandalagið horfir máttvana á breytingarnar í kringum sig. Flokksmenn eru orðnir vanir ágjöf og telja undir niðri að heimur versnandi fari. Allt nýtt, sem rekur á fjörur taparanna, er fyrirfram talið grunsamlegt og hugsanlega lævíslegt tiltæki sigurvegaranna.

Þetta er það, sem stundum hefur verið kallaður vaðmálssósíalismi. Hann er svo sterkur í Alþýðubandalaginu, að flokkurinn getur ekki einu sinni tekið á landsfundi einarða afstöðu gegn framsali auðlinda þjóðarinnar í hendur fámennum hópi útgerðarmanna.

Alþýðubandalagið er yfirleitt andvígt breytingum á núverandi ástandi, hvert sem það er á hverjum tíma. Það óttast nýjar hugmyndir, sem það telur vera sprottnar af rótum ógnarvalds frjálshyggjunnar. Alþýðubandalagið er í rauninni rótgróið svartasta íhald.

Landsfundur Alþýðubandalagsins beygði sig fyrir hinu ytra byrði kröfunnar um sameiningu vinstri manna, en hafnaði innihaldi hennar. Með þessu er bandalagið að kaupa sér frið. Það er að reyna að mæta kröfum fólks, sem það á enga samleið með.

Vaðmálshyggja er ekki vinstri stefna og varðveizla sérhagsmuna er ekki jafnaðarstefna. Þess vegna á Alþýðubandalagið ekki samleið með biðlum sínum.

Jónas Kristjánsson

DV

Verndun fátæktar og fortíðar

Greinar

Svonefnt jafnvægi í byggð landsins kostar skattgreiðendur rúmlega þrjátíu milljarða króna á hverju ári. Það eru um þrjú hundruð þúsund á ári á hvern íbúa landsbyggðarinnar. Þetta segja útreikningar, sem birtir hafa verið á vegum Aflvaka og Reykjavíkurborgar.

Deila má um, hvaða útgjaldaliðir eigi að teljast með í dæmum af þessu tagi. Til dæmis er ekki auðvelt að meta, hversu miklu dýrari á hvern mann vegagerð er í strjálbýli heldur en í þéttbýli. Aðrir liðir eru auðveldari, svo sem landbúnaður, Byggðasjóður og jöfnunargjöld.

Ekki þarf hins vegar að deila um, hvort byggðastefnan nær árangri. Fólk streymir frá dreifbýli til þéttbýlis og mest frá þeim landshlutum, sem mest njóta aðgerða til að koma á jafnvægi í byggð landsins. Fólk flýr unnvörpum frá Vestfjörðum, sem mests stuðnings njóta.

Athyglisvert er raunar, að meðaltekjur manna eru hæstar á Vestfjörðum og atvinna mest. Þar verður að kalla í útlendinga til að manna frystihúsin. Samt nam fólksflóttinn frá Vestfjörðum tæpum tólf prósentum frá miðjum síðasta áratug til miðs þessa áratugar.

Við vitum ekki, hvort byggðaröskun hefði orðið meiri, ef ekki hefði verið varið milljörðum króna á hverju ári til að stöðva hana. Verið getur, að tafið hafi verið fyrir þróuninni. En ekki er þó hægt að segja, að marktækur árangur hafi náðst með þessum fjáraustri.

Einnig verður að hafa í huga, að peningar, sem þjóðfélagið ver í vonlítið varnarstríð af þessu tagi, nýtast því ekki til sóknartækifæra á öðrum sviðum. Millifærslur til verndar fortíðinni draga úr getu þjóðarinnar til að fjármagna atvinnuvegi framtíðarinnar.

Hér í blaðinu hefur oft verið sagt, að raunveruleg byggðastefna eigi að miða að því, að byggð haldist í landinu yfirleitt. Vitlegra sé að verja fjármagni til að draga úr fólksflótta frá landinu heldur en að verja því til að draga úr flutningum fólks milli svæða á landinu.

Landið hefur smám saman verið að tapa fólki til umheimsins. Fleiri flytjast á brott af landinu en þeir, sem í staðinn koma. Á sama tíma og offramboð er á illa borguðum störfum við færiböndin, hrekst hálaunafólkið til útlanda, þar sem tækifærin eru meiri.

Það jafngildir náttúrulögmáli, að störf við landbúnað og færibönd af ýmsu tagi einkenna fátæku löndin í vaxandi mæli, meðan ríku löndin snúa sér að arðbærari verkefnum. Verndun starfa við landbúnað og færibönd felur í sér verndun fortíðar og fátæktar.

Hinn hefðbundni landbúnaður á Íslandi er þrautræddur vandi, sem flestir gera sér grein fyrir. Færri átta sig á þversögninni, sem felst í, að færibandaiðnaður sjávarplássanna sætir taprekstri á sama tíma og hann er ekki samkeppnishæfur í launum og vinnuskilyrðum.

Ísland hefur aldrei staðið og fallið með því, hvort byggð héldist á Hornströndum. Hún bara hvarf. Landið mun hins vegar standa og falla með því, hvort hér tekst að skipta nógu hratt yfir í atvinnutækifæri í greinum, sem eru í fararbroddi nýsköpunar í heiminum.

Í stað þess að verja þrjátíu milljörðum króna á hverju ári til jafnvægis í byggð landsins ætti þjóðfélagið að verja upphæðinni til að kenna færibandafólki frystihúsanna til dæmis á tölvur og styðja það til að flytja sig til svæða, þar sem hálaunagreinar hafa haslað sér völl.

Lífið í heiminum heldur áfram og breytingar gerast með vaxandi hraða. Þær þjóðir missa af lestinni, sem eru uppteknar af verndun fortíðar og fátæktar.

Jónas Kristjánsson

DV

Auðlindagjaldi vex ásmegin

Greinar

Gróska styður auðlindagjald samkvæmt nýútkominni stefnuskrá. Orðalagið er almennt og nær yfir meira en fiskinn í sjónum. Hins vegar getur það varla talizt loðið. Ef samruni verður á vinstri væng stjórnmálanna, má ljóst vera, að auðlindagjald verði innan borðs.

Í stefnuskrám flokka er algengt að tala óljóst um viðkvæm ágreiningsefni, sem ganga þvert á hefðbundnar flokkslínur. Þannig segir Gróska pass í Evrópumálunum með því að hafa þá þægilegu skoðun eina á stefnuskrá, að þjóðaratkvæðagreiðsla verði um málið.

Það skýrir línur, þegar viðkvæm deilumál verða að flokksmálum. Auðlindagjald í sjávarútvegi hefur meira eða minna klofið alla flokka nema Alþýðuflokkinn og Bandalag jafnaðarmanna. Telja má þó líklegt, að allur þorri kjósenda Kvennalistans sé sama sinnis.

Framsóknarflokkurinn er kjarnaflokkur afsals auðlinda þjóðarinnar í hendur útgerðarfyrirtækjum. Með því að setja auðlindagjald á oddinn er Gróska að búa til áþreifanlegan mun á stefnu hins væntanlega vinstri flokks annars vegar og Framsóknar hins vegar.

Góð er þróun, sem skýrir línur. Hún auðveldar jaðarfólki flokka að flytjast milli þeirra. Steingrímur Sigfússon og aðrir stuðningsmenn núverandi kerfis geta farið yfir í Framsóknarflokkinn, þar sem þeir eiga heima, og aðrir komið í staðinn til baka úr Framsókn.

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki í þessari mynd, þar sem stefnuskrár eru lítill þáttur í tilveru hans. Hann hefur þá skoðun á auðlindagjaldi eins og Evrópu, að Davíð eigi að sjá um það. Flokkurinn er eins og íþróttafélag, sem ræður þjálfara og liðsstjóra til að hugsa og stjórna.

Meðan Davíð er framsóknarmegin á götunni verður flokkur hans það líka. Þess vegna mun Sjálfstæðisflokkurinn í orði hafa loðið orðalag um skipan sjávarútvegs, en á borði styðja þá stefnu formanns Framsóknarflokksins, að útgerðarfyrirtæki skuli eiga auðlindina.

Þetta gefur Grósku tækifæri til að veiða í stuðningsmannaliði Sjálfstæðisflokksins. Þar eru margir sárlega ónægðir með núverandi kerfi og eiga þar á ofan erfitt með að sætta sig við, að einn hugsi fyrir alla. Alþýðuflokkurinn hefur stundum hrært í þessu liði.

Stefnuskrá Grósku bendir til, að hún vilji, að nýr flokkur taki við því hlutverki Alþýðuflokksins að vera skjól óánægðra sjálfstæðismanna. Skráin er margorð um einstaklingsfrelsi og aðra fagra hnappa, sem valda sjálfvirkum viðbrögðum meðal framtakssinna.

Auðlindagjald nýtur vaxandi stuðnings með þjóðinni. Velgengni Grósku í sameiningarmálum og veiðiskapur nýs flokks á miðum Sjálfstæðisflokksins getur markað þau þáttaskil, að þjálfarinn og liðsstjórinn vilji skipta um skoðun og mynda stjórn án Framsóknar.

Þessar hugleiðingar eru þeim annmarka háðar, að þær gera ráð fyrir, að Alþýðubandalagið snúist á sveif með sjónarmiðum Grósku í sjávarútvegsmálum. Slíkt er engan veginn öruggt, þótt þróunin hafi verið ör í þá áttina, meðal annars í landsbyggðarkjördæmum.

Línur Alþýðubandalagsins skýrast á landsfundinum, sem hefst í dag og stendur næstu daga. Þar verður tekizt á um stefnu Margrétar flokksformanns, sem styður málstað Grósku, og stefnu nokkurra þingmanna, sem vilja í stórum dráttum óbreytta stefnu.

Útspil Grósku þrýstir á Alþýðubandalagið og er mikilvægur áfangi í endurheimt auðlindar, sem stjórnmálamenn voru búnir að afsala í hendur útvalinna.

Jónas Kristjánsson

DV

Minnisstæð óskammfeilni

Greinar

Tilraun Pósts og síma til að hafa aukið fé af fólki var ekki stöðvuð af stjórnarmönnum fyrirtækisins, sem skipaðir eru af stjórnmálaflokkunum. Hún var hvorki stöðvuð af samgönguráðherra, sem studdi hana af kappi, né af viðskiptaráðherra, sem lét sér fátt um finnast.

Sem oftar var það forsætisráðherra, sem varð að taka fagráðherrann á beinið og segja honum, að svona geri maður ekki. Forsætisráðherra hefur enn einu sinni orðið að taka að sér að segja ráðherrum sínum, hvað fólk sé að hugsa fyrir utan fílabeinsturninn þeirra.

Minnisstæðast við snöggan bardaga þjóðar og einokunarfyrirtækis var óskammfeilni aðstandenda hækkunarinnar og hroki þeirra, þegar á hólminn var komið í fjölmiðlum. Búast má því við, að í skjóli einokunar verði leitað annars lags til að hafa fé af fólki.

Blaðurfulltrúi Pósts og síma hrósaði opinberlega happi yfir því, að fjölmiðlar hefðu ekki forsendur til að vefengja lygar fyrirtækisins, þar sem það neitaði að láta af hendi útreikninga að baki hækkunar á símgjöldum á þeim forsendum, að þeir væru viðskiptaleyndarmál.

Fulltrúinn gerðist um leið gamansamur og sagði, að menn yrðu bara að trúa Pósti og síma. Það var auðvitað það síðasta, sem mönnum datt í hug. Utan einokunarkerfisins gengu menn réttilega að því sem vísu, að talsmenn Pósts og síma færu jafnan með rangt mál.

Ekki er hægt að bera viðskiptaleynd einokunarfyrirtækis saman við viðskiptaleynd fyrirtækja á samkeppnismarkaði. Póstur og sími var enn einu sinni að hækka gjöld í skjóli einokunar og gat ekki vikizt undan því að leyfa þjóðinni að skoða útreikningana að baki.

Hroki blaðurfulltrúans og forstjóra hans var til þess fallinn að hella olíu á eldinn. Fólk fékk innsýn í hugarfarið að baki hækkunarinnar og því líkaði ekki það, sem þar sást. Seinþreyttir til vandræða streymdu menn meira að segja á útifund til að mótmæla.

Póstur og sími hafði hækkað venjuleg símgjöld hvað eftir annað undanfarin misseri til þess að mjólka einokunarmarkaðinn og afla þannig fjár til að taka upp óheiðarlega samkeppni á öðrum sviðum. Þetta er vel þekkt fyrirbæri í hinum séríslenzka einokunarbransa.

Yfirmenn Pósts og síma töldu samgönguráðherra trú um, að í Eyjafirði græddu menn á hækkuninni, þótt menn töpuðu á henni í Reykjavík. Ráðherranum finnast slíkar fréttir jafnan góðar, en þær voru að þessu sinni rangar. Eyfirðingar vissu, að þeir töpuðu líka.

Halldór Blöndal ráðherra hefur alltaf stutt einokun gegn samkeppni. Í hans augum táknar einkavæðing, að ríkisfyrirtæki geti leikið lausum hala í skjóli einokunaraðstöðu. Hann ber ábyrgð á að hafa leyft Pósti og síma að ganga berserksgang í verðhækkunum.

Gegn slíkri framsóknarhyggju frá kreppuárunum höfum við mesta vörn í samningum okkar við fjölþjóðlegar stofnanir um viðskiptafrelsi. Einkum hefur ráðið úrslitum aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu, sem færir okkur mola af frelsisborði Evrópusambandsins.

Samkvæmt reglum, sem við höfum játazt undir, verða ráðamenn þjóðarinnar að sætta sig við, að frelsi sé aukið í viðskiptum. Þannig munu erlend símafélög vonandi hasla sér völl á svipaðan hátt og útlent bílatryggingafélag hefur þegar sparað þjóðinni hundruð milljóna.

Þá mun Pósti og síma hefnast fyrir að búa sig rangt undir framtíðina. Í stað þess að hagræða í rekstri ákvað fyrirtækið að mjólka aðstöðuna meðan sætt væri.

Jónas Kristjánsson

DV