Dreginn á asnaeyrunum

Greinar

Eftir lýsingum Clintons Bandaríkjaforseta í hita leiksins að dæma hefur Kína tekið við af Japan sem helzti bandamaður Bandaríkanna í Asíu. Jafnframt vill hann, að Taívan verði sameinað Kína, að vísu á friðsamlegan hátt. Loks telur hann Indland vonda kallinn í Asíu.

Kínaferðir fyrri forseta Bandaríkjanna hafa sumar fallið í gleymsku, þegar frá líður, og svo kann að verða um þessa. Markmið hennar er fyrst og fremst að komast í bandarískar fréttir fyrir annað en meint kvennafar og vafasöm fjármál. Það hefur tekizt bærilega.

Bandamaður Bandaríkjanna hefur efnahagsstyrk á stærð við Spán og fer illa með erlenda fjárfesta. Hann á eftir að ganga gegnum hremmingaskeið, sem fylgir innreið lýðræðis og ýmis önnur ríki hafa þegar gengið gegnum, svo sem Japan, Rússland og Indland.

Meðan Bandaríkjaforseti baðar sig í ljósi hins himneska friðar eru þessi ríki og fleiri að færa sig á taflborði heimsmálanna. Það gerist samkvæmt reglunni um, að leikur á einum stað leiði til mótleikja á öðrum stöðum. Bandalag við einn leiðir til árekstra við aðra.

Ekki er heil brú í bandalagi Bandaríkjanna og Kína, ekki hugmyndafræðibrú, ekki viðskiptabrú, ekki mannréttindabrú, ekki kjarnorku-afvopnunarbrú og alls ekki heimsveldisbrú. Kínaferð Clintons hefur skaðað hagsmuni Bandaríkjanna á öllum þessum sviðum.

Að sjálfsögðu lítur Rússland núna á sig sem innikróað af þessu bandalagi og sömuleiðis Indland. Japan telur sig hafa verið niðurlægt af Bandaríkjunum á erfiðum fjármálatíma gengislækkana og bankahruns. Þessi breyttu viðhorf kosta eitthvað á taflborði heimsvaldanna.

Sí og æ hafa Bandaríkin fallið fyrir þeirri freistingu að leggja lag sig við einræðisherra og harðstjóra af dálæti á friði og ró í ríkjum þeirra og af hræðslu við hverja höndina upp á móti annarri í öðrum ríkjum, sem hafa lagt í þrautagönguna á þrönga veginum í átt til lýðræðis.

Sí og æ hafa Bandaríkin lent í vanda, þegar einræðisherrarnir og harðstjórarnir hafa hrunið af valdastóli. Þannig hata Indónesar Bandaríkin fyrir Suharto og þannig hata Persar Bandaríkin fyrir Reza. Og þannig munu Kínverjar um síðir hata Bandaríkin fyrir Jiang.

Kínabandalagið er afleiðing minnisleysis. Langtímaminni skortir í bandaríska utanríkisstefnu, sem dettur sí og æ í sömu gryfjurnar. Þetta gerir ríkinu ókleift að reka skynsamlega heimsveldisstefnu að hætti rómversku og brezku heimsveldanna, sem stóðu um aldir.

Sumpart stafar þetta af áhugaleysi Bandaríkjamanna á utanríkismálum. Greiðslur á skuld við Sameinuðu þjóðirnar voru í vetur felldar á þingi með viðauka um fóstureyðingar. Þannig eru utanríkismálin fangi innanríkismála og Kínaferðin afleiðing meintra kvennamála.

Lík börn leika bezt, einnig í alþjóðamálum. Vesturlöndum kæmi bezt að efla tengsl við þau ríki þriðja heimsins, þar sem stjórnvöld sækja vald sitt til þjóðarinnar eins og á Vesturlöndum. Án lýðræðis verður markaðsbúskapur veikur og viðskipti áhættusöm.

Til langs tíma litið borgar sig að sinna betur ríkjum á borð við Rússland og Indland, Tyrkland og Persíu, þar sem stjórnir hvíla á lýðræðisgrunni, heldur en að leggja lag sitt við ríkisstjórnir, er sitja ofan á púðurtunnu almannavilja, sem enga fær eðlilega útrás.

Árangur Kínaferðar Clintons varð enn skelfilegri en óttazt var. Hann hefur þar látið draga sig fram og aftur á asnaeyrunum til að fá frið frá fréttum um konur.

Jónas Kristjánsson

DV

Ættfræðiáhuginn speglaður

Greinar

Der Spiegel mótar meira en nokkur annar fjölmiðill opinbera umræðu í Þýzkalandi. Vinna liggur niðri hjá flestum ráðamönnum stjórnmála, stjórnsýslu og stórfyrirtækja snemma á mándagsmorgnum, meðan þeir fletta blaðinu og leita að efni, sem getur varðað þá mikils.

Ísland er sjaldséður gestur í þessu þykka og þéttskrifaða tímariti. Í gær var sá þagnarmúr rofinn og birt löng grein um ráðagerðir Íslenzkrar erfðagreiningar. Greinin er gagnrýnin og mun efla þá, sem hafa áhuga á að fylgja eftir efasemdum sínum um fyrirtækið.

Greinin er síður en svo nein móðgun við Íslendinga eins og forstjóri Íslenzkrar erfðagreiningar hefur haldið fram. Gagnrýnin beinist eingöngu að honum og fyrirtæki hans, en ekki að Íslendingum í heild. Flest gagnrýnisatriðin eru raunar áður kunn hér á landi.

Við vitum sjálf, að ættfræðiáhugi okkar er meiri en flestra annarra þjóða, svo sem sést af ótal stéttatölum og niðjaritum. Það er engin móðgun við okkur, að Spiegel skuli vekja athygli á þessari staðreynd og tengja hana við stuðning okkar við Íslenzka erfðagreiningu.

Spiegel gerir hins vegar grín að þeirri endurteknu kenningu forstjóra Íslenzkrar erfðagreiningar, að óhætt sé að treysta fyrirtækinu, því að það mundi glata réttindum sínum og þannig tapa mestu sjálft, ef það færi óvarlega með persónulegar upplýsingar um fólk.

Spiegel bendir á losaralega meðferð upplýsinga, sem fóru milli SÁÁ og Íslenzkrar erfðagreiningar sem dæmi um, að kenning forstjórans sé marklaus. Raunar vitum við, að tvisvar sinnum á örstuttum ferli hafa eftirlitsaðilar talið sig þurfa að slá á putta Kára Stefánssonar.

Rökstuddar ástæður eru því til að óttast, að upplýsingar úr Íslenzkri erfðagreiningu geti lekið út og spillt stöðu fólks gagnvart atvinnurekendum og líftryggingafélögum. Við þá umræðu bætir Spiegel þeirri ábendingu, að upplýsingarnar þurfi ekki einu sinni að vera réttar.

Því má til dæmis beita í undirróðri gegn stjórnmálamanni, að heyrzt hafi, að komið hafi í ljós hjá Íslenzkri erfðagreiningu, að hann hafi í æsku verið hjá geðlækni vegna meints stuldar á klámspólum af myndbandaleigu og að ólögleg fíkniefni hafi þá mælzt í blóðinu.

Spiegel hefur eftir ónefndum viðmælendum sínum íslenzkum, að orðrómur af einhverju slíku tagi geti ráðið úrslitum um framtíð stjórnmálamannsins, því að menn trúi lekanum frá Íslenzkri erfðagreiningu, þótt hann sé meira eða minna rangfærður eða færður í stílinn.

Að öðru leyti er gagnrýnin í Spiegel kunnugleg þeim, sem hafa fylgzt með umræðunni hér heima fyrir. Gagnrýnendur vilja, að viðurkennt sé, að fólk eigi sjálft sjúkra- og persónuupplýsingar um sig og geti bannað, að þær verði settar í hrærivél gagnabankans.

Áhrifamiklir læknar munu sjá til þess, að málin verði vel viðruð, þegar einkaréttarfrumvarp Íslenzkrar erfðagreiningar verður endurflutt á næsta þingi, væntanlega í breyttri og mildari mynd. Málum verður síðan fylgt eftir alla leið til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Mikilvægt er, að næsta vetur verði fundin leið, sem gætir hagsmuna minnihlutafólks gagnvart Stóra bróður um leið og hún gerir kleift að stofna hér á landi ættfræðilegan heilsufarsbanka, er leiðir af sér rannsóknir, sem eru til þess fallnar að bæta heilsu og líðan fólks.

Fráleitt er að afgreiða hina gagnrýnu Spiegel-grein sem móðgun við Íslendinga. Hún flækir hins vegar málið fyrir þeim, sem vilja láta hunza athugasemdir.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjálfseyðing góðærisins

Greinar

Þeir, sem gera það gott í góðærinu, kaupa of mikið af bílum, fara of mikið í utanlandsferðir og nota peningana yfirleitt of mikið í rekstur líðandi stundar. Þetta veldur geigvænlegum halla á utanríkisviðskiptunum, æsir til verðbólgu og grefur þannig undan sjálfu góðærinu.

Nauðsynlegt er, að ábyrgir og áhrifamiklir aðilar brýni sem mest fyrir fólki, sem er aflögufært, að það setji peninga góðu áranna í ávöxtun til notkunar á mögru árunum eða í ellinni. Það eyði ekki peningunum, heldur safni þeim og láti þá vinna fyrir sig.

Þetta eru auðvitað margtuggin sannindi langt aftur í Mósebók, en flytjast því miður ekki greiðlega milli kynslóða. Í andrúmslofti eyðslunnar verður hver ný kynslóð að læra að spara, því miður of oft af biturri reynslu. Langtímahugsun hefur ekki reynzt fólki auðveld.

Stjórnvöld hafa takmörkuð tæki til að hafa áhrif á þetta. Í tengslum við kjarasamninga hefur ríkisstjórnin lofað að lækka tekjuskattinn um 4% um næstu áramót og sturta þannig hálfum öðrum milljarði króna inn á sóunarmarkað bílakaupa og utanlandsferða.

Ekki er góð latína að ganga á bak orða sinna, þótt slíkt hafi jafnan komið fyrir ríkisstjórnir hér á landi. Slíkt grefur undan trausti og getur hæglega orðið kjósendum minnisstætt nokkrum mánuðum síðar, þegar þeir ganga að kjörborðinu í alþingiskosningum næsta árs.

Þess vegna neyðist ríkisstjórnin til að lækka skatta um áramótin, þótt hagfræðin segi, að við núverandi skilyrði sé nauðsynlegt að hækka skatta. Þess vegna verður að leita annarra úrræða við að þrýsta fólki til ákvarðana, sem eru í þágu þess sjálfs og þjóðarinnar í heild.

Það má gera með því að hækka vexti. Því hærri sem vextir eru, þeim mun líklegra er, að fólk leggi fyrir til að græða vexti og þeim mun líklegra er, að það tími ekki að lifa um efni fram. Hærri vextir dempa líka óhóflega framkvæmdaþrá og þenslu í atvinnulífinu.

Þessi aðferð er þeim annmarka háð, að útlánavextir eru hér hærri en í nágrannalöndunum og hefta samkeppnishæfni atvinnulífsins. Munurinn stafar einkum af lélegum bankarekstri og af herkostnaði við að halda Íslandi og krónunni utan við Evrópusamstarfið.

Auðvitað væri unnt að stokka upp bankakerfið, kasta út pólitísku kvígildunum og hefja ábyrgar lánveitingar. Og auðvitað væri unnt að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna sem gjaldmiðil. En þetta eru of stórar ákvarðanir fyrir ríkisstjórn lítilla sanda og sæva.

Þá er aðeins eitt eftir, sem getur dregið úr óhjákvæmilegri vaxtahækkun. Gera má ýmsan sparnað girnilegri fyrir fólk, þótt varhugavert sé að mismuna sparnaðarformum of of. Sérstaklega væri áhugavert að búa í haginn fyrir stóraukinn lífeyrissparnað fólks.

Ný lög gera fólki kleift að leggja til hliðar meira en þau 4+6%, sem flestir kjarasamningar gera ráð fyrir. Þau gera fólki einnig kleift að velja milli sameignar- og séreignasjóða í þeim lífeyrissparnaði, sem umfram er. Með skattfríðindum mætti þrýsta á þessa þróun.

Þjóðhagsstofnun spáði nýlega 24 milljarða viðskiptahalla á þessu ári. Sú spá mun reynast of væg, þegar hver stéttin á fætur annarri áttar sig á kúgunargildi þess að nota þensluna á vinnumarkaði og segir hreinlega störfum sínum lausum til þess að láta kaupa sig til baka.

Ef stjórnvöldum tekst ekki að búa í haginn fyrir minni viðskiptahalla, fer verðbólgan á skrið. Þá heldur rugl fyrri áratuga innreið sína í þjóðfélagið að nýju.

Jónas Kristjánsson

DV

Langþráð atkvæðagreiðsla

Greinar

Á landsfundi sínum er Alþýðubandalagið að reyna að segja skilið við skrautlega fortíð sína og hefja aðild að óvissri framtíð. Fæðingarhríðirnar hafa verið langvinnar, en nú er svo komið, að jafnvel Svavar Gestsson er að verða uppiskroppa með nothæfar frestanir.

Nokkrir þingmenn hafa einangrazt í andstöðunni, en grasrótin styður nánast öll sameiginlegt framboð með Alþýðuflokki og Kvennalista að tæpu ári. Að þessu sinni verður atkvæðagreiðslu ekki frestað, af því að þolinmæði sameiningarsinna er loksins þrotin.

Fylgi mun kvarnast úr köntunum. Hjörleifur Guttormsson stofnar flokk græningja og Steingrímur Sigfússon getur orðið framkvæmdastjóri hjá gjafakvóta-útgerðar-auðvaldinu á Norðausturlandi. En lífið í flokknum verður léttara, þegar búið er að taka á málinu.

Eftirsjá er í Hjörleifi, sem þekkir umhverfismál betur en nokkur annar Íslendingur og gæti gert gagn á því sviði, ef hann rækist í flokki. En hann er því miður ekki umhverfisvænn í pólitískri sambúð og hefur málað sig út í horn í ágreiningsmálum flokksins.

Sennilegast er, að úr ösku gömlu flokkanna rísi fyrirbæri sem líkist jafnaðarflokkum Evrópu. Það er eins konar vinstri flokkur, sem hlustar eftir því, hvað sé vinsælt. Slíkur flokkur mun ekki lengi láta gamlar stefnuskrár verða sér fjötur um fót á atkvæðaveiðum.

Meðan fyrrum formaður Alþýðubandalagsins er úti í heimi að mæla með stækkun Atlantshafsbandalagsins, geta gamlir flokksfélagar hans haldið áfram að muldra hver í barm annars um, að þeir séu enn á móti NATO. En þeir hafa áttað sig á, að enginn er að hlusta.

Gamli tíminn er liðinn og gömlu málin með honum. Gömlu hanarnir vekja ekki neinn til dáða. Orka nýja flokksins mun fara í að finna sinn Tony Blair eða sinn Felipo Gonzales. Hinn útvaldi verður síðan látinn sjá um kúrsinn meðan hann fiskar vel.

Vinnan í málefnanefndum sameiningarinnar einkenndist af, að menn höfðu ekki nokkurn minnsta áhuga á að láta málefnin þvælast fyrir sér. Utanríkismálastefna nýja flokksins var fyrirhafnarlaust ákveðin á sárafáum fundum, sennilega ólesin af sumum.

Hjörleifur og Steingrímur skiluðu séráliti hvor í sinni nefnd, þegar menn nenntu ekki að hlusta á þá. Gömlu hanarnir munu fara mikinn á landsþinginu, en fáir nenna að eiga orðastað við þá. Tími umþóttunar er liðinn og nú verða atkvæðagreiðslur látnar ráða.

Fundurinn snýst ekki um, hvort greiða skuli atkvæði, heldur um að greiða atkvæði. Ef málamiðlun finnst, sem er annað en þunnt yfirvarp fyrir þá, sem lízt illa á þróunina, er sameiningarferlið orðið ónýtt. Slíkan kaleik geta sameiningarsinnar ekki sýnt áhorfendum.

Framundan er erfiður tími. Nýi flokkurinn þarf að velja sér talsmenn á öllum sviðum. Val þeirra kostar valdabaráttu, því að þeir verða ígildi eins konar ráðherra í skuggaráðuneyti. Síðan þarf að reyna að hindra að þeir tali óþarflega mikið í kross á almannafæri.

Bagalegastir verða þingmenn gamla tímans í aflögðu flokkunum. Þeir valda nýja flokknum tjóni, þótt þeir tali í tómarúmi. Á þessu þarf væntanleg forusta að taka, því að hefðbundin kosningabarátta fer að töluverðu leyti fram í þingsölum síðasta vetur kjörtímabils.

Því fyrr sem nýi flokkurinn finnur sinn Tony Blair eða sinn Felipo Gonzales, þeim mun meiri líkur eru á, að flokkurinn fái frambærilega ímynd hjá kjósendum.

Jónas Kristjánsson

DV

Argentína

Veitingar

Bæjarins bezta steikhús hefur dalað. Þótt nautakjötið á Argentínu sé enn af íslenzkum stofni, vel verkað og vel eldað, er það ekki alveg eins innanfeitt og safaríkt og það var áður fyrr, enda hafa bændasamtökin lengi verið að reyna að útrýma þessum bragðmikla stofni í þágu innfluttra nautakynja.

Þetta eru dýrustu og enn þá beztu nautasteikur landsins, seldar eftir þyngd og með vali milli fimm steikingartíma, bornar fram með bakaðri kartöflu og pönnusteiktu grænmeti, svo og fjórum sósum. Steikurnar kosta að meðaltali um 2.800 krónur og þríréttað með kaffi kosta þær um 4.600 krónur.

Nautasteikurnar góðu eru það eina, sem réttlætir verðlag, er jaðrar við Íslandsmet. Önnur matreiðsla er stöðluð og hversdagsleg, þótt hún sé traust. Þjónusta er góð, en hún er það líka víðast hvar í bransanum. Munnþurrkurnar eru úr pappír og duga ekki í viðureign við hrásalat, sem flýtur í sterkkryddaðri olífuolíu.

Sérkennileg aðkoma er að Argentínu um löng göng með hrjúfu gólfi inn að yfirbyggðum húsagarði. Þar er komið inn á þröngan bar með setustofum á annan veginn og veitingasal á hinn, þar sem gestir sitja í gæruskinnsklæddum básum og rýna í matseðla með hjálp vasaljósa í myrkrinu.

Dimman hæfir vel ljótum innréttingum úr groddalegu timbri og gervimúrsteinum. Við þekkjum formúluna frá argentínskum steikhúsum víða um heim og látum ekki hugfallast, því að undantekningarlítið glóir á góðar steikur á viðarkola-eldavél í salnum.

Maískökusneiðar á hrásalati voru bragðgóðar, salatið ferskt og olífuolían skemmtilega krydduð. Grillaður risahörpufiskur minnti hins vegar á surimi, bragðlaus og festulaus, eins í gegn, borinn fram með mildri chili-sósu. Bezti forrétturinn var kryddlegið andalæri, meyrt og gott, hóflega sykurgljáð, með plómusósu.

Lambahryggvöðvi með fáfnisgraskrydduðum sinnepsgjáa var miðlungi steiktur, þótt beðið væri um hann eins lítið steiktan og kjötið þyldi, borinn fram með steiktu grænmeti, sem hafði gleymzt á pönnunni. Sams konar grænmeti með nautakjöti við annað tækifæri var hins vegar snöggsteikt, stinnt undir tönn og gott.

Nautalundir eru bezta nautakjötið á staðnum, betri en piparsteikin, sem fylgir fast á eftir. Þótt kjötið sé nógu meyrt til að gera óþarfar sósurnar fjórar, er ekki hægt að skera það með gaffli eins og oft í gamla daga.

Eftirréttir, einkum ísar, eru minnisstæðir, en ekki merkilegir. Myndarlegur karamelluísturn var stinnt reðurtákn. Volg jarðarber voru borin fram með vanilluósu, sem dempuðu berjabragðið. Espresso-kaffi var þunnur þrettándinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Dæmið gengur ekki upp

Greinar

Nánast öll auðríki heims önnur en Bandaríkin leggja 8­10% landsframleiðslu sinnar til heilbrigðismála. Þetta eru sömu fjárhæðir á mann, því að ríkidæmi þjóðanna er svipað. Þar sem Ísland er í hópnum, ættu heilbrigðismál okkar að vera í eins konar jafnvægi.

Laun eru 65­70% af kostnaði heilbrigðisstofnana hér á landi eins og í hinum löndunum í sama flokki. Af því mætti ætla, að kjör starfsfólks sjúkrastofnana væru svipuð hér á landi og í nágrannalöndunum. En það dularfulla í málinu er, að svo er alls ekki.

Við búum við þrálátt styrjaldarástand í kjaramálum starfsfólks sjúkrastofnana, sem segir, að hliðstæð kjör séu mun hærri í löndum með sama tekjustig og sama hlutfall heilbrigðiskostnaðar af heildarkostnaði. Þessa dagana höfum við horft á einn slaginn í því stríði.

Einfaldast er að telja skýringuna felast í að kostnaður heilbrigðisstofnana dreifist á fleiri starfsmenn hér á landi en í nágrannalöndunum og minna komi því til skiptanna á hvern starfsmann. Meðan annað kemur ekki í ljós, er eðlilegt að hafa þetta fyrir satt.

Annaðhvort felur þetta í sér yfirmönnun á sumum heilbrigðisstofnunum eða þá að sumpart er verið að sinna öðrum og töluvert mannfrekari verkefnum en í nágrannalöndunum. Fróðlegt og nytsamlegt væri að rannsaka, að hve miklu leyti hvor skýringin stenzt.

Sums staðar úti á landi eru sjúkrahús notuð sem þáttur í byggðastefnu. Þar er fjölmennt starfslið við tiltölulega einfalda heilbrigðisþjónustu, sem í sumum þáttum rambar á jaðri elliheimilisrekstrar. Kostnaður á sjúkling eða legudag er óeðlilega hár á þessum stöðum.

Sums staðar í þjóðfélaginu er boðin einföld heilbrigðisþjónusta á tiltölulega lágu verði, 6.000 krónur á sjúkling á dag, svo sem á heilsustofnuninni í Hveragerði. Á sumum öðrum stöðum er ríkið að borga 10­20.000 krónur á sjúkling á dag fyrir svipaða þjónustu.

Það athyglisverðasta við þennan samanburð er, að heilbrigðisráðuneytið hefur ekki sýnt frambærilegan áhuga á að nýta sér sem mest þær stofnanir, sem minnst taka fyrir þjónustuna. Þrálátur fjárskortur hefur ekki eflt kostnaðarvitund þess hrjáða ráðuneytis.

Eðlilegt er, að sérhæfð sjúkahúsþjónusta kosti mikið, í sumum tilvikum meira en 20.000 krónur á dag. Þá er spurningin sú, hvort ákvarðanir um slíka þjónustu séu teknar hér á landi með öðrum og sjálfvirkari hætti en tíðkast í öðrum löndum á sama tekjustigi.

Þar sem sérhæfð sjúkrahúsþjónusta er umtalsverður og vaxandi hluti heilbrigðiskostnaðar þjóðarinnar, er eðlilegt, að einhvers staðar í kerfinu sé kannað, hvort við leyfum okkur meiri útgjöld á afmörkuðum sviðum heldur en menn leyfa sér í nágrannalöndunum.

Við lifum á tímum, þar sem tækni og efnafræði hafa fært okkur meiri tækifæri til sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu, en kerfið stendur undir. Þetta misræmi hefur leitt til þess, að nú verður að forgangsraða verkefnum. Við verðum að sætta okkur við að sumt sé of dýrt.

Forvígismenn í heilbrigðismálum hafa getað leyft sér að ræða þetta viðkvæma mál á ráðstefnum og gera ekkert í því. Nú er slíkt ekki lengur hægt, því að starfsfólk heilbrigðisstofnana hefur fundið leið til að minnka kjaramun Íslands og nágrannalandanna.

Ört vaxandi fjárskortur heilbrigðisgeirans hlýtur að þvinga ráðamenn til að finna, á hvaða sviðum hans við leyfum okkur meiri munað en aðrar auðþjóðir.

Jónas Kristjánsson

DV

Markaðslögmálið magnast

Greinar

Hjúkrunarfræðingar beita lögmáli framboðs og eftirspurnar til að ná betri kjörum. Meirihluti þeirra hefur sagt upp störfum og gengur út um mánaðamótin. Þannig stökkva ekki margir út í óvissuna, nema þeir hafi von um annað starf úti í bæ eða úti í heimi.

Lögmál framboðs og eftirspurnar er farið að virka á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum. Til lítils er fyrir opinbera starfsmenn að krefjast umtalsverðra kjarabóta, nema þeir hafi uppi í erminni, að þjóðfélagið eða umheimurinn vilji nota vinnu þeirra fyrir meira fé.

Sumpart stafar þessi kaupkröfutækni af auknum atvinnutækifærum í þjóðfélaginu almennt og sumpart af aukinni þörf fyrir fólk með menntun og reynslu hjúkrunarfræðinga. Sumpart stafar þetta af aukinni eftirspurn eftir hjúkrunarfræðingum í nágrannalöndunum.

Svo virðist sem notkun lögmálsins hafi þegar haft áhrif á gang viðræðna um lausn. Ljóst er, að kjör hjúkrunarfræðinga munu batna sem svarar nokkrum tugum prósenta. Um helgina var búið að saxa ágreininginn niður í hundrað milljónir króna samtals.

Sjúkrahúsin eru ekki búin að bíta úr nálinni, þótt samkomulag náist við hjúkrunarfræðinga. Uppsagnir hafa þegar borizt frá 150 læknariturum, lyfjatæknum, og matvælafræðingum, vafalaust einnig á þeim forsendum, að þeir sjái atvinnutækifæri í umhverfinu.

Hætt er við, að niðurstaðan leiði til niðurskurðar í þjónustu sjúkrahúsgeirans. Launakostnaður er meira en helmingur sjúkrahúskostnaðarins, sem er síðan hlutfallslega meiri hér á landi en í flestum vestrænum löndum. Því virðist sennilegt, að störfin séu of mörg.

Fyrir svo sem áratug virtust heilbrigðismál vera í góðum farvegi hér á landi. Menn væntu þess að fá góða og síbatnandi sjúkrahúsþjónustu, ef þeir þyrftu á henni að halda. Nú sjá menn fram á biðlista og forgangsröðun, þótt þjóðartekjur hafi aukizt á áratuginum.

Í heilbrigðiskerfinu og einkum sjúkrahúsgeiranum er innbyggð verðbólga, sem felst annað hvort í, að óbreytt þjónusta verður dýrari eða að óbreyttir peningar kaupa minni þjónustu. Eftir uppsögnum að dæma virðist innbyggða verðbólgan ekki stafa af of háu kaupi.

Innbyggða verðbólgan stafar sumpart af nýjum og dýrum lyfjum og nýrri og dýrri tækni, sem menn færa sér í nyt. Sumpart stafar hún af fjölgun stjórnenda á ýmsum stigum. Sjúkrahúsunum hefur láðst að festa hendur á þessari verðbólgu og hafa hemil á henni.

Heilbrigðiskerfið tekur núna um 8% af landsframleiðslunni, meira en í flestum nálægum löndum. Sjúkrahúsin eru þyngst á fóðrunum í þessum geira. Þess vegna er ótrúlegt, að unnt verði að halda uppi óbreyttri þjónustu, þegar núverandi deila hefur verið leyst.

Skoðanakönnun hefur verið beitt til að halda fram, að fólk vilji greiða meira fé til heilbrigðismála. Finna þarf, hvort þjóðin vilji borga meiri skatta í þessu skyni eða taka féð af öðrum póstum. Einnig þarf að finna, hvort dýrar skekkjur leynist í rekstri sjúkrahúsanna.

Þegar ríkisvaldið hefur tekið fjárhagslegum afleiðingum af innreið markaðslögmálsins á sjúkrahúsin, má reikna með, að það reyni að spara á móti með þeim eina hætti, sem sjáanlegur er í stöðunni, með því að minnka þjónustuna, með biðlistum og forgangsröðun.

Ríkið hefur reynt að spara með því að halda lögmáli framboðs og eftirspurnar fyrir utan sjúkrahúsin. Það hefur nú mistekizt, svo að leita verður nýrra leiða.

Jónas Kristjánsson

DV

Opnum gluggana

Greinar

Í þjóðhagslogninu, sem nú ríkir, er gott tækifæri til að undirbúa næstu skref lands og þjóðar fram á veg. Þótt vel ári í sjávarútvegi, er nú sem endranær nauðsynlegt að efla forsendur, sem geta gert okkur hæfari til að lifa og blómstra í umheimi vaxandi samkeppni.

Ekki er langt síðan talið var eðlilegt eða að minnsta kosti þolanlegt, að verðbólga á Íslandi væri meiri en í nágrannalöndunum og að hér mætti fella gengið nokkurn vegin árvisst. Nú dettur engum í hug, að verðbólga og gengislækkanir séu þolanleg fyrirbæri.

Lengi var það talið jafngilda náttúrulögmáli, að ekki þekktist hér á landi kerfislægt atvinnuleysi. Við komumst svo að raun um það á síðasta áratugi aldarinnar, að atvinnuleysi getur jafnan verið handan við hornið, ef bilun verður í nýsköpun í atvinnulífinu.

Með samanburði við nágranna getum við séð, hvar við stöndum vel að vígi og hvar við þurfum að bæta okkur. Á sumum sviðum erum við í fremstu röð þjóða, en á öðrum sviðum höfum við dregizt aftur úr. Það ætti að vera pólitískt forgangsmál að fjarlægja fótakeflin.

Sem stendur er atvinna góð, enda hefur langtímahagvöxtur numið 4% á ári að meðaltali. Menntunarstig þjóðarinnar er í betra lagi, svo að svigrúm er til að fara inn á nýjar brautir, þegar þær gefast, svo sem erfðagreiningu, hvalaskoðunarútgerð og hugbúnaðargerð.

Af fjölþjóðlegum samanburði má þó sjá, að Ísland er aðeins í þrítugasta sæti í samkeppnishæfni. Við stöndum lakar að vígi en flestar Evrópuþjóðir. Kunnar eru flestar orsakir þess, að við náum ekki ofar á listann, en við gerum bara of lítið til að ryðja þeim úr vegi.

Aðstaða vísinda og tækni er léleg hér á landi. Einkaframtakið lætur sitt eftir liggja á því sviði, ef frá er skilið fyrirtæki Kára Stefánssonar. Ríkið er eini stóri kostunaraðili vísinda og er raunar stöðugt að reyna að spara með því að skera niður útgjöld til vísinda.

Vextir eru um tveimur prósentustigum hærri hér á landi en í nálægum löndum. Sumpart stafar það af óhóflegri þörf lélegra banka og annarra fjármálastofnana fyrir vaxtamismun. Sumpart stafar það af fjárfestingarlegri einangrun landsins og of litlum sparnaði fólks.

Í fjölþjóðlega samanburðinum er það liðurinn alþjóðavæðing, sem er okkur óhagstæðastur. Við tökum minni þátt í efnahagslegu fjölþjóðasamstarfi en nágrannarnir, einkum með því að vera ekki í Evrópusambandinu og taka ekki þátt í evrópska gjaldmiðlinum.

Með þátttöku í Evrópu og evrunni mundum við auðvelda okkur að fást við ýmis önnur vandamál okkar, svo sem of litla fjárfestingu í vísindum og tækni, of háa vexti, of veikburða fjármálaþjónustu, of litlar fjárfestingar af hálfu útlendinga og of mikið vægi frumframleiðslu.

Til að tryggja betur framtíð barna okkar þurfum við að létta af stefnu einangrunar og einstefnu á hefðbundna atvinnuvegi, slípa flæði peninga með því að láta krónuna víkja fyrir evrunni og síðast en ekki sízt með því að ganga í Evrópusambandið, þar sem hlutirnir gerast.

Fyrir Íslandi hefur um langt skeið farið ríkisstjórn hægfara íhaldsmanna og einangrunarsinna, sem einblína á sjávarútveg, neita yfirleitt að ræða hugsanlega aðild að Evrópusambandinu og eru raunar eins og fiskar á þurru landi, þegar þeir stíga á land erlendis.

Við þurfum að brjótast úr þessum viðjum íhalds og einangrunar, opna gluggana til umheimsins og hleypa inn þeim straumum, sem gefast öðrum þjóðum bezt.

Jónas Kristjánsson

DV

Vinir Keikós bera ábyrgðina

Greinar

Málum Keikós verður að haga þannig, að Íslandi eða Íslendingum verði ekki kennt um mistök, til dæmis í staðsetningu sjókvíarinnar. Ekki má verða hægt að segja, að allt hafi verið í lagi, meðan hann var fyrir vestan, en síðan hafi allt farið úrskeiðis hér á landi.

Þessi mál eru þannig vaxin, að málefni hafa jafnan og munu áfram víkja fyrir tilfinningum. Sem veiðimannaþjóð höfum við jafnan og munum áfram vanmeta ofsafengnar tilfinningar almennings, einkum vestan hafs, í garð hvers konar hvala, stórra og smárra.

Þótt við séum meira eða minna ekkert nema áhorfendur að sjónarspili Íslandsferðar háhyrningsins, getur reiði almennngs í útlöndum vegna ótímabærs dauða hans hæglega beinzt gegn landinu, sem tók við honum og sem þekkt er að hvalveiðistefnu.

Þess vegna er nauðsynlegt að ganga rækilega frá öllum forsendum. Láta verður aðstandendur Keikós undirrita gögn um, að þeir einir taki alla ábyrgð á ákvörðunum, sem þeir einir hafa tekið, þar á meðal þeirri, að koma háhyrningnum fyrir í Klettsvík.

Óhætt er að segja, að fyrirhuguð staðsetning sjókvíarinnar við innsiglinguna í Vestmannaeyjahöfn hafi komið kunnugum á óvart. Menn óttast, að stórbrotið umhverfi Klettsvíkur hafi ráðið því, að skyndilega skiptu vinir Keikós um skoðun og hættu við Eskifjörð.

Tugir skipa sigla um innsiglinguna á hverjum sólarhring, nótt sem nýtan dag. Af því leiðir hávaða og mengunarhættu, auk þess sem árekstarhætta verður, ef einhverjir vinir Keikós frá útlöndum eru að spóka sig við víkina á kajökum, gúmbátum eða jullum.

Mengun getur einnig stafað frá skipum og öðru athafnalífi hafnarinnar í Eyjum, svo og frá skolpi bæjarins, sem rennur því miður óhreinsað í sjó. Íslendingum verður kennt um, ef einhver mengun af slíku tagi gerir frægasta háhyrningi heimsins lífið leitt.

Nauðsynlegt er, að íslenzkir málsaðilar í Stjórnarráðinu og bæjarstjórninni dragi saman upplýsingar um efasemdir af þessu tagi og ýmsar fleiri, svo sem hættuna á fárviðri á þessu svæði, og láti aðstandendur Keikós skrifa undir, að þeir hafi kynnt sér þær.

Engin ástæða er til að efast um, að vinir Keikós séu af heilum hug að reyna að búa honum bærilegar aðstæður. Enginn veit hins vegar, hvað upp á kann að koma, ef illa fer og hver reynir að bjarga sér sem bezt hann getur frá reiði fáfróðs almenningsálits.

Við þurfum líka að gæta okkar á, að eitt skref leiði ekki til annars á þann hátt, að niðurstaðan verði önnur en reiknað var með í upphafi. Sitjum við ef til vill uppi með áhorfendapalla upp eftir öllum Heimakletti, áður en við vitum, hvaðan á okkur stendur veðrið?

Allt mál Keikós er samofin flækja heitra tilfinninga og kaldrifjaðrar peningahyggju. Margir fá glýju í augun, ef þeir sjá sér færi á að taka þátt í að græða á hræsninni, sem jafnan fylgir slíkum þverstæðum. Glýjan sú getur villt mönnum sýn og rænt þá ráði.

Að flestu leyti hafa íslenzkir málsaðilar brugðizt rétt við hugmyndinni um heimflutning hins víðförla háhyrnings. Sjálfsagt er og eðlilegt að reyna að greiða fyrir málinu eins og hægt er að gera innan ramma laga og heilbrigðrar skynsemi. Það hefur verið gert.

Við þurfum bara að hafa skjalfest á hreinu, að þeir, sem einir taka lykilákvarðanir í máli þessu, taki líka einir á sig ábyrgðina af þeim lykilákvörðunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Lækjarbrekka

Veitingar

Juan Mari Arzak í San Sebastian í Baskalandi tókst að gera mér gott úr saltfiski með súkkulaðisósu, en Lækjarbrekku heppnaðist ekki eins vel karfi með ávaxtasultu, sem kölluð var ávaxtasalat á matseðli. En karfinn var hóflega eldaður, hrísgrjónin fínt krydduð og fráhvarf frá hefðinni vel þegið.

Gestur utan af landi talaði hátt eins og í símann í gamla daga og þakkaði sérstaklega vel fyrir súpu dagsins, sem var uppbökuð hveitisúpa með miklu magni af fennikku, kölluð blaðlaukssúpa. Þetta er þjóðarsúpan sjálf, hvort sem hún heitir sveppasúpa eða eitthvað annað, sérkennileg leðja, sem menn hafa vanizt.

Þannig er matreiðslan í Lækjarbrekku, rambandi út og suður, góð, frambærileg eða vond eftir atvikum. Með annarri hendinni eru gerðar forvitnilegar tilraunir, en með hinni er farið eftir verstu hefðum.

Í forrétti eru boðnar ágætis lundasneiðar og hráar hangikjötssneiðar, en út á meðfylgjandi rauðlaukssalat var sett rauðrófusósa, sem sló réttunum út í rautt. Beðið var í aðalrétt um mildilega steikt lambakjöt, en það kom grátt á borð, of þurrt og of saltað, rétt eins og tíðkaðist fyrir áratugum á þjóðvegi númer eitt.

Vel heppnað var humarrisotto með vel fersku salati. Ofnbakaður saltfiskur var of saltur að hætti Íslendinga, undir stinna kartöfluflöguþakinu, sem kokkar læra í skóla, en sem betur fer ekki borinn fram með stökku grænmeti matseðilsins, heldur fersku salati, svo og tvenns konar olífumauki bragðmiklu.

Allir eftirréttir staðarins eru með ís, nema osturinn og skyrið. Þannig var meira að segja heitur crème brûlèe sykurskorpu-appelsínubúðingur borinn fram með súkkulaðiís og rann saman í ljóta blöndu. Skyrið var afar létt og gott, nánast eins og þeyttur rjómi, borið fram með of þéttu bláberja-ískrapi.

Pappírsþurrkur og álsmjör fylgja lágu hádegisverði hveitisúpu og aðalréttar á 1090 krónur, en tauþurrkur og tvenns konar smjör fylgja háu kvöldverði, þar sem þrír réttir og kaffi kosta um 4.070 krónur á mann.

Þjónusta er góð og lærð í Lækjarbrekku, velkist ekki í vafa um, hver hafi pantað hvað. Andrúmsloftið er notalegt, undir stjórn Borgundarhólmsklukku, sem slær á kortérs fresti og vekur upp angurværa fortíðarþrá, þegar slíkar klukkur ólu fólk upp fyrir einni öld í fullvissu þess, að heimurinn væri í föstum skorðum. Sem hann reyndist ekki vera.

Vinalegt hús á bezta stað bæjarins freistar útlendinga, sem verða ekki fyrir vonbrigðum, þegar þeir koma í gamlan og notalegan aðalsal, sem snýr að Bakarabrekkunni, með trégólfi og trélofti, þægilegum húsbúnaði og tilviljanaskreytingum.

Gerviblóm og græn vatnsglös á glerplötum yfir hekluðum dúkum eru hér við hæfi, alveg eins og ómerkar myndir og stórir speglar í svifstílsrömmum úr gylltum pappa. Of hávær dósatónlist spillir þessu andrúmslofti, en í horninu þegir flygill, sem orðinn er að skrautbar með heimsins bezta brennivíni, fínasta calvados.

Jónas Kristjánsson

DV

Torgið, Taívan og Tíbet

Greinar

Rómverjar og Bretar kunnu að varðveita heimsveldi um aldir. Rómverjar deildu og drottnuðu með því að styðja önnur ríki gegn keppinautum sínum. Bretar gerðu það sama með því að styðja öflug Evrópuríki gegn ríkinu, sem var þeim erfiðast á hverjum tíma.

Þannig studdu Bretar Prússa fyrst gegn Habsborgaraveldi Austurríkis, þegar það hafði teygt sig um Ítalíu, Spán og Niðurlönd og síðan gegn Napóleonsveldi Frakklands, þegar það hafði teygt sig austur og suður um alla Evrópu. Bretar borguðu heilu stríðin fyrir Prússa.

Ef Kína er á eins mikilli stórveldissiglingu og menn Clintons Bandaríkjaforseta vilja vera láta, ættu þeir að efla samskipti við öflug ríki á borð við Sovétríkin, Indland og Japan, sem þurfa að rýma til fyrir áhrifum Kína, fremur en að hvetja Kínastjórn til aukinna afskipta.

Ofan á það, sem sagnfræðin ætti að geta kennt fávísu liði Clintons, bætist sú augljósa staðreynd, að Sovétríkin, Indland og Japan eru eins konar lýðræðisríki, þar sem flokkar skiptast á um völd, en Kína er alræðisríki, sem vinnur gegn bandarískri hugmyndafræði.

Bandaríkin hafa ekki aðeins truflað valdajafnvægi Asíu með Kínagælum sínum, heldur einnig með gælum við alræðisríkið Pakistan, sem studdi Talebana til valda í Afganistan. Með bandarískum peningum, sem fóru um Pakistan, var komið á hryllingsstjórn í Afganistan.

Þegar Indverjar sáu þann kost í herkví Kínverja og Pakistana að gera tilraunir með kjarnorkuvopn, ætlaði allt vitlaust að verða í Bandaríkjunum. Nú beita þau Indland efnahagslegum refsiaðgerðum, meðan Kína nýtur beztu kjara í viðskiptum, þrátt fyrir sínar tilraunir.

Komið hefur í ljós, að stuðningur Bandaríkjanna við japanska jenið í síðustu viku var ekki liður í samkomulagi um fjármálaúrbætur í Japan, svo sem venja er við slíkar aðstæður. Þetta var pólitísk ákvörðun, sem tekin var af mönnum Clintons í þágu Kínastjórnar.

Ef japanska jenið hefði fallið, hefði kínverska júanið og dollarinn í Hong Kong fallið líka. Það hefði verið áfall fyrir Kína eftir nýlega gengislækkun þar árið 1995. Kínastjórn hvatti Bandaríkjastjórn til að styðja jenið, svo að röðin kæmi ekki næst að eigin gjaldmiðlum.

Kínastjórn hefur Clinton og menn hans að fíflum í hverju málinu á fætur öðru. Hún fékk ferð Clintons færða fram á afmæli ofbeldisins á Torgi hins himneska friðar og fékk hann til að skoða torgið. Hvort tveggja er táknræn framganga samkvæmt kínverskri hefð.

Dagskrá ferðar Clintons undirstrikar, að Bandaríkin hafi fallizt á atburðina á Torgi hins himneska friðar, rétt eins og villimennsku Kínastjórnar gegn sérkennilegum menningarheimi Tíbets og sífelldar tilraunir hennar til að grafa undan stjórnvöldum eyríkisins Taívans.

Kínastjórn notar fávísi og siðleysi Clintons til að efla kröfu sína um, að Kína taki við af öxli Bandaríkjanna og Japans sem Asíuveldið mikla. Þessa efldu stöðu mun hún nota til að láta vestræna hugmyndafræði víkja fyrir hugmyndafræði kínverska kommúnistaflokksins.

Samt er Kína ekkert stórveldi í raun. Stærð efnahagsins er sama og Spánar. Erlendar fjárfestingar eru svipaðar og í Brasilíu, ef frá eru taldir brottfluttir Kínverjar. Fjárhagsleg þátttaka Kína í vörnum gegn gengishruni gjaldmiðla í Asíu er einn tíundi af framlagi Japans.

Samt hafa menn Clintons Bandaríkjaforseta ákveðið að líma sig á ráðamenn Kína og vaða eldinn til að þjónusta þá sem bezt í stórveldisdraumum þeirra.

Jónas Kristjánsson

DV

Þriðji foringjaflokkurinn

Greinar

Þótt ótrúlegt megi virðast, eru vinstri flokkarnir að skauta á góðu rennsli í átt til sameiginlegs framboðs í alþingiskosningunum að ári. Allar málefnanefndir flokkanna þriggja, nema utanríkismálanefnd, hafa þegar skilað drögum að stefnu hins sameiginlega framboðs.

Flest bendir til, að allra hörðustu vaðmálssinnar Alþýðubandalagsins, með Hjörleif Guttormsson í broddi fylkingar, verði skildir eftir. Aðrir armar flokkanna þriggja geti náð saman, í sumum tilvikum um það, sem Hjörleifur kallar “hinn minnsta samnefnara”.

Auðvitað er ekki stórbrotin stefna í samstarfsmálum Evrópu að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu. Á sömu forsendum gæti flokkur haft þá stefnuskrá að fylgja jafnan því, sem vinsælast er í skoðanakönnunum á hverjum tíma.

Jóhann Hafstein vitnaði í Biblíuna og sagði: “Í húsi föður míns eru margar vistarverur.” Hann var að tala um Sjálfstæðisflokkinn. Og ætli flokkar sér að verða jafn fjölmennir og sá flokkur, þurfa þeir að geta skautað létt yfir margvíslega mismundi sjónarmið innanflokks.

Erfiðast er að skilja, hvernig íhald og framsókn sameinast í pólitík. Grunnágreiningur hefur alltaf verið um, hvort varðveita eigi hið gamla eða hlúa að hinu nýja. Alþýðubandalagið hefur verið helzti íhaldsflokkurinn og Alþýðuflokkurinn helzti framsóknarflokkurinn.

Málin hljóta að verða snúin, þegar farið er að fjalla um mál á borð við landbúnað og jafnvægi í byggð landsins, náttúruvernd og virkjun fallvatna, erlendar fjárfestingar og gjafakvóta í fiskveiðum. Allt eru þetta mál, þar sem stangast á verndun hins gamla og sókn í hið nýja.

En Sjálfstæðisflokknum hefur tekizt ágætlega að rúma allar þessar þverstæður og fleiri til. Þar á ofan líður honum bezt í helmingaskiptum við annan flokk, sem rúmar líka þetta allt og meira til. Hvor stjórnarflokkurinn um sig er í senn íhalds- og framsóknarflokkur.

Því skyldi sameinaður stjórnmálaflokkur á vinstri vængnum ekki getað skautað jafn léttilega yfir málefnaágreining milli þeirra? Því skyldu frjálshyggjudeild Alþýðuflokksins og vaðmálsdeild Alþýðubandalagsins ekki geta skautað saman til valda í alþingiskosningum?

Alls staðar í kringum okkur eru flokkar að breytast úr skýrt skilgreindum málefnaflokkum í foringjaflokka, sem aðeins í blæbrigðum eru málefnalega öðru vísi en hinir. Því skyldi ekki rísa hér flokkur Ingibjargar Sólrúnar eins og flokkur Davíðs og Halldórs?

Minnkað hefur áhugi kjósenda á skýrt skilgreindum málefnaágreiningi. Þeim mun meiri áhuga hafa þeir á sterkum foringja, sem þeir telja í aðalatriðum vera á réttum nótum. Liðinn er tími hvassra málefna og skýrs ágreinings að hætti Hjörleifs Guttormssonar.

Þannig hafa allir náð saman í málefnanefndunum, stundum með aðferð hins minnsta samnefndara, nema Hjörleifur, sem fer í sérframboð á Austfjörðum, nær þar ekki kjöri og mundi einangrast á þingi, þótt hann næði kjöri. Tími hans aðferða er einfaldlega liðinn.

Fólk styður ekki lengur hugsjónamenn, sem vilja ná völdum til að framkvæma langan málefnalista. Fólk styður atvinnumenn, sem vilja ná völdum til að hafa völd. Hjörleifur mun vafalaust spyrja, hvers vegna fólk styðji slíka, enda er eðlilegt, að spurt sé: “Til hvers?”

Kjósendur hafa engin svör á reiðum höndum. En undir niðri telja margir, að sterkir atvinnumenn séu farsælli en hugsjónamenn á skautasvelli stjórnmálanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Keikó bjargar hvölunum

Greinar

Flutningur Keikós höfrungs til Íslands táknar endanlegan sigur hvalavina yfir hvalveiðisinnum á Íslandi. Með þessari frábæru leikfléttu mun bandarískum hvalavinum takast að fá Íslendinga endanlega ofan af hvalveiðihugsjónum sínum og það með góðu.

Veitingamenn í Vestmannaeyjum geta ekki haft hvalkjöt á matseðlinum, þegar útlendir hvalavinir eru farnir að flykkjast til Eyja og flagga gullkortunum sínum. Þegar til kastanna kemur, mun hugsjón peninganna verða yfirsterkari hugsjón hvalveiðanna.

Nú þegar leggja hvalaskoðunarferðir meira til þjóðarbúsins en hvalveiðar mundu gera, ef þær yrðu leyfðar að nýju. Nokkur sveitarfélög við sjávarsíðuna hafa gert hvalaskoðun að helzta vaxtarbroddi atvinnulífsins og fleiri munu feta gróðaslóð hvalavináttunnar.

Hugsjón hvalveiða hefur verið á tveggja áratuga skipulegu undanhaldi hér á landi. Fundnar voru upp “veiðar til innanlandsneyzlu” og “vísindaveiðar”, unz Japanir þorðu ekki lengur að kaupa hvalaafurðir héðan af ótta við refsiaðgerðir Bandaríkjamanna.

Allan þennan tíma hefur meirihluti þjóðarinnar stutt hvalveiðar í skoðanakönnunum. Þjóðernishugsjón hvalveiðanna hefur aldrei bilað, þótt smám saman hafi á tveimur áratugum verið að koma í ljós, að hún væri bæði óframkvæmanleg og ákaflega dýrkeypt.

Lengi ímynduðu menn sér, að unnt væri að sameina hugsjón og peningadýrkun með því að selja útlendingum hvalaafurðir. Komið hefur í ljós, að svo er ekki. Ekki þora einu sinni Japanir, sem nú í vikunni voru peningalega dregnir í land af Bandaríkjunum.

Enn ímynda Íslendingar sér, að unnt sé að selja mönnum hvalaskoðunarferðir og selja þeim síðan hvalkjöt í kvöldmatinn. Þegar vinum Keikós verður svo boðin amma hans í matinn, munu þeir bara taka hugsjónakokkinn og fleygja honum í sjóinn.

Hin einfalda staðreynd þessa máls er, að peningarnir tala. Þegar sjávarsíðan er farin að hafa miklar tekjur af hvalavináttu og Vestmannaeyjar eru orðnar að heimkynnum frægasta höfrungs heims, verður ekki aftur snúið. Sögu íslenzkra hvalveiða er endanlega lokið.

Helztu aðmírálar hins hægfara undanhalds hafa verið ráðherrarnir Halldór Ásgrímsson og Þorsteinn Pálsson. Sá síðarnefndi sá hættuna, sem stafaði af heimferð Keikós og svaraði umsókninni neitandi. Hann tók fram, að slíkum umsóknum yrði framvegis neitað.

Davíð Oddsson veit hins vegar, að hvorki er hægt að éta kökuna og eiga hana, né að éta hvalinn og eiga hann. Hann hefur feiknarlega lítið álit á Þorsteini hugsjónamanni og flýtti sér að taka fram fyrir hendur hans, þegar heimferð Keikós var orðin að alvörumáli.

Halldór Ásgrímsson hefur í tvo áratugi slegið ódýrar keilur innanlands á þrautseigju sinni við að framleiða lokleysur í fjölþjóðastofnunum til stuðnings vonlausum hvalveiðum. Gaman verður að fylgjast með, hvernig hann meltir stöðuna, sem nú er komin upp.

Engu máli skiptir, hvort hvalastofnar þoli hvalveiðar eða ekki. Þetta mál hefur fyrir löngu yfirgefið slóðir raka og rökleysu, en flýgur á þöndum vængjum tilfinninga. Með því að taka við Keikó hefur íslenzka ríkið endanlega beygt sig fyrir einfaldri staðreynd.

Meirihluti þjóðarinnar verður senn að kyngja hetjuskap sínum og hugsjón sinni, því að glóandi peningarnir hafa talað og greitt atkvæði með hvölunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Naustið

Veitingar

Naustið er í þykjustuleik, hamborgarastaður frá þjóðvegi eitt, sem hefur rambað á vitlausan stað í notalegar og sögufrægar innréttingar við neðanverða Vesturgötu og þykist vera enn fínni en Holtið. Verðlagið er sama og á Holti og matseðillinn telur nærri hundrað rétti, þar á meðal fasana og elg, rétt eins og hér sé eitthvert Maxim’s.

Framboð sautján tegunda villibráðar er hluti af órunum. Á matseðlinum er tekið fram, að villibráðin sé háð árstíðabundnu framboði, en ekki hefur fengizt upplýst, hvenær árstíð fasana og elgs verður í Naustinu.

Stórkarlaleg matreiðsla var einkenni staðarins, nánast tilfinningalaus fyrir samsetningum í bragði eða lit. Hún lagði áherzlu á bragðsterkar sósur og kryddmokstur. Tómatsósa yfirgnæfði glóðarsteiktan silung og kryddjurtasósa yfirgnæfði lambalundir. Villibráðarsósa með svartfugli reyndist vera uppbökuð hveitisósa, þykk og ólystug.

Nöfn rétta og lýsingar eru af handahófi á matseðli. Kjötseyðið reyndist vera þunn sojasósa í ætt við japanska miso, en bragðsterkari og bragðverri. Það, sem heitir íslenzk skelfisksúpa í enska textanum, heitir suðurevrópsk Baskasúpa í íslenzka textanum.

Grafin gæs á stökku blaðsalati var sérkennilegur og ljótur réttur, þar sem ofkryddaðar gæsaræmur lágu ofan á haug af alfaspírum, en alls engu blaðsalati, svo og nokkrum bláberjum. Ofreykt hámeri var líka ofkrydduð, borin fram á mosagrænni sósu.

Kjötstrimlar að mexikóskum hætti reyndust vera þjóðvegar-eitt-gúllas af þykkum og seigum kjötbitum, eins og það var áður en Íslendingar lögðust í pylsur og borgara til að spara tennur og hraða meltingunni.

Svartfugl var borinn fram með soðnum grænmetishaug, sem í hafði verið stungið langri smjördeigssveðju með grænum sykurleka niður eftir annarri hliðinni. Þetta getur hafa átt að vera nútímalistaverk, ljótt og ólystugt.

Vínlistinn er óvenjulegur, byggist að mestu á fjölbreyttu framboði frá fáum framleiðendum og lítt þekktum, eins og konar vínkynning, þar sem tilraunadýrin borga fyrir sig.

Gaman væri að vita, hvað býr að baki stöðugum straumi ferðamanna í Naustið. Einhverjir hljóta að mæla með staðnum og væntanlega á einhverjum forsendum. Ekki er það vegna matarins og ekki út af verðinu, sem er rúmlega 4.200 krónur fyrir þrjá rétti og kaffi.

Tæpast getur það verið vegna þjónustunnar, sem er ættuð frá hamborgarastöðum við þjóðveg eitt og er ágæt sem slík. Maturinn er borinn rösklega á borð, en lítið sinnt um gesti þess á milli. Að ná auga þjóns er nánast útilokað, jafnvel þegar ekkert er að gera.

Miklu hefur verið breytt í innréttingum, meðal annars í aðalsalnum, þar sem nú er gengið niður sjávarmegin eftir krókaleið úr anddyri. Beina leiðin úr anddyrinu liggur hins vegar upp á loftið, þar sem innréttaður hefur verið salur, sem hentar vel, ef heilu rúturnar villast af þjóðvegi eitt.

Jónas Kristjánsson

DV

Spurningum sópað af borði

Greinar

Forsætis-, utanríkis- og bankaráðherra hafa hnýtt endahnút á bankamál. Afsögn Sverris og félaga í Landsbankanum verður látin nægja. Ráðamenn Búnaðarbankans munu fá að vera í friði og það sama gerist í Seðlabankanum, þegar svipað sukk kemur þar í ljós.

Málin eru komin í farveg Ríkisendurskoðunar, sem mun komast að raun um, að það sama gildi um Búnaðarbankann og Seðlabankann, að bókhaldslög hafi ekki verið brotin og að bankaráðin séu einfær um að halda uppi nauðsynlegum aga á bankastjórum.

Aðeins eitt mál er í farvegi Ríkissaksóknara, sem mun komast að raun um, að refsivert athæfi hafi ekki verið framið í málefnum Lindar. Það sé ekki refsivert að vera meðvitundarlaus. Það sé ekki refsivert að sukka. Það sé ekki refisvert að stunda óráðsíu í fjármálum.

Niðurstaða hvellsins verður, að mál bankanna verða látin niður falla. Sverri og félögum hefur verið fórnað til að friða fólkið í landinu, en hindruð verður frekari uppstokkun í helmingaskiptafélagi bankakerfisins. Öldurnar mun lægja og allt verða eins og áður var.

Engin tilraun verður gerð til að búa til leikreglur um, hvernig skuli fara með svokallaða gleymsku, sem lýsir sér í vantalningu á sjálftekt eigin hlunninda. Því munu embættismenn áfram gefa rangar upplýsingar. Séu þeir staðnir að verki, segja þeir bara: “Æ, ég gleymdi.”

Engin tilraun verður gerð til að búa til leikreglur um, hversu meðvitundarlitlir eða -lausir mega vera eftirlitsmenn eigenda, svo sem bankaráðsmenn. Þeim mun áfram geta verið algerlega ókunnugt um sukk og óráðsíu í fyrirtækjunum, sem þeir eiga að líta eftir.

Engin tilraun verður gerð til að fá botn í, hvers vegna Ríkisendurskoðandi lætur flest kyrrt liggja, sem ekki varðar beinlínis við bókhaldslög, og hvers vegna honum finnst í lagi, að ofan á laun sín þiggi hann persónulega greiðslur frá fyrirtækjunum, sem hann fylgist með.

Engin tilraun verður gerð til að kanna, hvort bankaráðherra hafi bakað sér siðferðilega ábyrgð með því að gefa Alþingi villandi upplýsingar um stöðu Lindar fyrir tveimur árum og hindra þannig uppljóstrun eins grófasta sukk- og óráðsíumáls áratugarins.

Engin tilraun verður gerð til að kanna þá frétt Sverris Hermannssonar, að reynt hafi verið að koma á samráði milli Eimskipafélags Íslands og hluta af stjórnendum Landsbankans um að gera Samskip gjaldþrota eins og Hafskip höfðu verið áður gerð gjaldþrota.

Engin tilraun verður gerð til að kanna, hvort stjórnmálaflokkar, önnur samtök eða svonefnd gæludýr af ýmsu tagi hafi fengið óeðlilegar fyrirgreiðslur í bönkunum. Enginn botn fæst í, hvernig bankarnir gátu tapað tugum milljarða í útlánum á þessum áratug.

Allt eru þetta dæmigerð verkefni sérstakrar rannsóknarnefndar Alþingis, einnar eða fleiri, að venju vestrænna lýðræðisríkja. Slík nefnd getur fengizt við mál á gráa svæðinu, þar sem bókhaldslögum sleppir og mat á góðum siðum og vinnureglum tekur við.

Slík rannsóknarnefnd Alþingis að vestrænum hætti verður ekki skipuð, af því að ráðherrarnir þrír hafa úrskurðað, að hún sé ólýðræðisleg. Þar með hefur öllum ofangreindum málum verið sópað út af borðinu og ábyrgðin skilin eftir hjá stjórnarflokkunum tveimur.

Enda mundi hrikta í þjóðfélaginu, ef almenningur fengi til dæmis að vita, hvernig pólitískt tengdum bönkum tókst að tapa tugum milljarða á fáum árum.

Jónas Kristjánsson

DV