Forseta ber að forðast deilur

Greinar

Sem forseti Íslands gagnrýndi Vigdís Finnbogadóttir ráðamenn frjálsu kvennaráðstefnunnar í Kína fyrir þremur árum fyrir að setja Kínastjórn úrslitakosti um að fara að reglum Sameinuðu þjóðanna um slíkar ráðstefnur. Forsetinn taldi þetta vera stríðsyfirlýsingu.

Þessi gagnrýni forsetans var röng og bar vitni um dómgreindarbrest, enda var hún gagnrýnd í leiðara þessa blaðs og víðar. Forsetinn hafði gengið fram fyrir skjöldu í viðkvæmu deilumáli á alþjóðavettvangi og lagt lóð sitt á vogarskál gegn mannréttindum.

Forseti Íslands var á þessum tíma aðili að víðtækum undirlægjuhætti ráðamanna á Íslandi gagnvart Kínastjórn, þar sem í fararbroddi voru þáverandi utanríkisráðherra og núverandi forsætisráðherra okkar. Þá höfðu menn fengið glýju í augun af stærð og veldi Kína.

Afskipti þáverandi forseta Íslands af kvennaráðstefnunni í Kína mörkuðu þáttaskil í viðhorfum til hennar sem forseta. Sumir, sem jafnan höfðu stutt kosningu og endurkosningu hennar, sögðu, að nú væri hún búin að sitja of lengi. Enda bauð hún sig ekki fram aftur.

Nú hefur nýr forseti gengið fram fyrir skjöldu í viðkvæmu deilumáli um Íslenzka erfðagreiningu. Á Hólahátíð þjóðkirkjunnar á sunnudaginn sagði Ólafur Ragnar Grímsson frumvarp ríkisstjórnarinnar um einkarétt þess fyrirtækis vera “þröngt og ófært einstigi”.

Fyrrverandi forseti fór í slaginn til stuðnings valdhöfum okkar, en núverandi forseti fer í hann gegn valdhöfunum. Fyrrverandi forseti hafði efnislega rangt fyrir sér, en núverandi forseti hefur efnislega rétt fyrir sér. Að öðru leyti eru málin af svipuðum toga.

Til langs tíma er skaðlegt, að sjálft sameiningartákn þjóðarinnar taki þátt í umræðu um viðkvæm deilumál, hvort sem þeir hafa rétt eða rangt fyrir sér og hvort sem þeir styðja valdhafana eða ganga gegn þeim. Slík málsaðild skaðar stöðu forsetans í þjóðfélaginu.

Auðvelt var að komast að þessari niðurstöðu á sínum tíma, þegar forsetinn var hlaupinn í björg með tröllum. Það er erfiðara nú, þegar forsetinn er að vara okkur við tröllunum. Eigi að síður verður að hafna aðstoð forsetans í frumvarpsmáli Íslenzkrar erfðagreiningar.

Þetta er ekki spurning um, hver hafi vald á málinu og hver ekki. Óumdeilanlegt er, að við búum við þingstýrt ráðherralýðræði, þar sem forsetinn tekur engar ákvarðanir, sem máli skipta. Þetta er spurning um, hvort forsetinn geti verið þátttakandi í opinberri umræðu.

Fyrstu forsetar Íslands gættu þess vel að halda einingu um embættisfærslu sína með því að lýsa ekki persónulegum skoðunum á umdeildum málum. Afskipti fyrrverandi forseta af kvennaráðstefnunni í Kína voru alger og óskiljanleg undantekning frá þeirri reglu.

Núverandi forseti hefur áður þreifað á þátttöku í opinberri umræðu, meðal annars með því að hvetja til aukinna útgjalda til vegagerðar í Barðastrandarsýslu. Nú hefur hann stigið skrefinu lengra og er kominn á miðjan vígvöll helzta ágreiningsefnis þjóðarinnar.

Verst er fordæmisgildið. Með því að bjóða ágreining um embættisfærslu forsetans er verið að breyta því í framtíðinni, hverjir sækist eftir embætti forsetans og hvernig þeir gegni því. Það er til langs tíma verið að gera embættið pólitískara en það hefur verið.

Þótt þjóðin vilji nú samkvæmt skoðanakönnunum hlaupast í björg með tröllum, er það ekki hlutverk forsetans að snúa henni á slóðina til byggða.

Jónas Kristjánsson

DV

Einkaleyfi og útboð

Greinar

Liðin er sú tíð, að einu fyrirtæki var gefið einkaleyfi á smásölu mjólkur og mjólkurvöru í Reykjavík. Þessi kreppuarfur var lagður niður, þegar hversdagsleg hagfræði hélt innreið sína í þjóðmálin og menn áttuðu sig á, að einkaleyfi eru þjóðhagslega óhagkvæm.

Þannig hafa einkaleyfi í farþegaflugi verið lögð niður, bæði innanlands og milli landa. Afnám þeirra var enn harðsóttara en í mjólkinni, því að stjórnmálamenn allra flokka gættu hópum saman sérhagsmuna einkaleyfishafans og neituðu að gæta almannahagsmuna.

Enn eru til leifar einkaleyfa. Til dæmis eru sérleyfi veitt til fólksflutninga með áætlunarbílum, þótt hagfræðin segi, að þau leiði til hærri fargjalda. Slík sérleyfi yrðu aldrei tekin upp nú á tímum, en skrimta enn, af því að erfitt er að losna við gamla hagsmunagæzlu.

Stundum hafa fjölþjóðlegir samningar og samtök komið íslenzkum almannahagsmunum til hjálpar gegn sérhagsmunum. Þannig neyddust ráðamenn þjóðarinnar til að afnema einkaleyfi í farþegaflugi og þannig verður barizt gegn einkaleyfi Íslenzkrar erfðagreiningar.

Einkaleyfum er stundum skipt upp milli margra aðila eftir ákveðnum reglum. Sérleyfi áætlunarbíla og leigubíla eru gömul dæmi um það. Þekktasta dæmið er kvótinn í sjávarútvegi, þar sem auðlindum hafsins var skipt upp og þær gefnar þröngum hópi útgerðarfyrirtækja.

Innan ýmissa stjórnmálaflokka er vaxandi andstaða við þetta framsal auðlinda, stofnuð hafa verið samtök gegn því og boðað nýtt stjórnmálaafl með andstöðu við kvótann að hornsteini. Engum blöðum er um að fletta, að einkaleyfi kvótakerfisins á í vök að verjast.

Svo snýst dæmið snögglega við. Ráðamenn þjóðarinnar hafa ákveðið að gefa afkvæmi bandarísks fyrirtækis einkaleyfi til að reka miðlægan gagnagrunn heilbrigðismála. Þar á ofan gerist það enn furðulegra, að almenningur styður gjöfina samkvæmt skoðanakönnun.

Þetta einkaleyfi er í ætt við hin gömlu og úreltu einkaleyfi, sem rakin voru hér að ofan og jafngildir því, að ríkið taki upp afturhvarf til fortíðar og veiti til dæmis einum aðila einkaleyfi til rekstrar útvarps og sjónvarps. Enda stenzt einkaleyfið tæpast fjölþjóðareglur.

Einkaleyfi Íslenzkrar erfðagreiningar er óskylt einkaleyfum þeim, sem uppfinningamenn geta sótt um hjá þar til gerðum einkaleyfastofum hins opinbera. Íslenzk erfðagreining hefur ekki sótt um einkaleyfi af því tagi, enda er ekki um neina uppfinningu að ræða.

Ef ráðamenn þjóðarinnar telja, að veiting einkaleyfis geri miðlægan gagnagrunn heilbrigðismála verðmætari en ella, geta þeir reynt að bjóða út leyfið og afhent þeim, sem bezt býður. Það er algild aðferð markaðshagkerfisins til að finna, hvert sé verðgildi hlutanna.

Útboð eru eina hagfræðilega rétta aðferðin til að finna hversu verðmætar ríkis- eða þjóðareigur eru. Þannig er skynsamlegt að bjóða út veiðikvótann og gagnagrunninn, svo og að haga útboðsreglum þannig, að sem allra flestir geti boðið í hann sem allra hæst verð.

Hitt er svo annað mál, hvort ríkið á það, sem það hyggst gefa gæludýri sínu frá Delaware í Bandaríkjunum, en ætti að bjóða út. Samkvæmt lögum frá í fyrra eiga sjúklingar upplýsingar í sjúkraskrám sínum, en ekki hinar opinberu stofnanir, sem geyma skrárnar.

Sé um að ræða verðmæta eign, sem ríkið má ráðskast með, er ekkert vit í öðru en að efna til útboðs gagnagrunnsins á þann hátt, að sem allra hæst tilboð berist.

Jónas Kristjánsson

DV

Pasta Basta

Veitingar

Meyr smokkfiskbelgur fylltur mildri krabbakjötsblöndu og síðan sneiddur, borinn fram á undurljúfum risotto-hrísgrjónagraut, var dæmi um góð tilþrif í eldhúsi Pasta Basta við Klapparstíg. Annað dæmi var einfalt og ljúft risotto með gráðostssnerpu í bragði, borið fram með fallegri salatskreytingu.

Hrísgrjón mynda samt ekki einkennisrétti staðarins, heldur óteljandi tilbrigði af góðum pöstum sem lagaðar eru á staðnum. Sedani-pastarör voru skemmtilega hóflega soðin upp á ítölsku, með bragðsterkum kryddpylsubitum, papriku, sveppum og vorlauk í óhóflega mikilli ólífuolíu.

Pastahrósið nær ekki til 890 króna hlaðborðsins í hádeginu, sem byggist á ferns konar köldum pöstum með blönduðum sjávarréttum, með túnfiski, tómati og rauðlauk, með kjúklingum og sveppum og með kryddlegnu hrásalati. Betra var að halla sér að fersku og skrautlegu blaðsalati með balsam-olíusósu og hlutlausu fiski-risotto með parmiggiano-osti. Hlaðborðinu fylgdi líka tær tómatsúpa, sérkennilega og skemmtilega skarpt krydduð með blóðbergi, basilikum og estragon.

Þríréttað tilboð dagsins kostar 2.380 krónur. Það fól í sér áðurnefnt gráðosts-risotto á undan og þrenns konar ís í stökkri pönnuköku með berjasósu á eftir. Aðalréttur þess var hunangsgljáð kjúklingabringa, of mikið elduð og ekki nógu meyr, borin fram ofan á ómerkilegum bauna- og grænmetisgraut, fljótandi á miklu magni af brúnni sósu og með skúffusteiktum kartöfluþynnum og einföldu hrásalati á hliðardiski.

Snöggsteikt hörpuskel var meyr, borin fram á afar ljúfu sítrónu- og hunangs-risotto. Kryddlegið nautafillet á salati, með furuhnetum og hindberja-ediksolíu, var tæpast nógu mikið legið, borið fram með fallegri salatskreytingu. Feneysk ostakaka skúffulöguð var góð að venju, en borin fram með miklu magni af óþarfri súkkulaðisósu volgri. Franskar vatnsdeigsbollur profiteroles með vanillukremi og sömu volgu súkkulaðisósunni voru þær beztu, sem ég hef fengið í bænum.

Fyrir mat er boðið ágætt og volgt brauð, bakað á staðnum. Snöggtum lakara var harðristað hvítlauksbrauð. Réttir af fastaseðli eru yfirleitt dýrir, pöstu á 1520 krónur og þríréttað með kaffi á 3.610 krónur. Þrátt fyrir verðlagið eru notaðir afgangar af mislitum og and-ítölskum pappírsþurrkum úr barnaboðum. Lítt skólað þjónustufólk er sumt hvert of uppáþrengjandi, truflar samræður gesta með sífelldri spurningu um hvernig maturinn sé.

Umgerð staðarins hefur lítið breytzt. Fremst er þröngur, groddalegur og notalegur kjallari framan við opið eldhús, með messingi milli bása, landakortum í stað veggfóðurs, ýmsu rusli til skrauts á veggjum og nýlegum örljósum í lofti. Inn af er glerskáli sem orðinn er notalegur síðan gróðurhafið náði sér upp. Innst er svo tjaldskáli sem tekur við reykingafólki, sjálfhverfum leiklistarspírum og öðru yfirfalli staðarins.

Jónas Kristjánsson

DV

Aukið afskiptaleysi

Greinar

Vaxandi afskiptaleysi fólks af slysum og ofbeldisverkum er angi breytinga á þjóðfélaginu, ein af skuggahliðum þess, að ópersónulegt þéttbýlissamfélag leysir persónulegt strjálbýlissamfélag af hólmi. Í stað þess að allir skipti sér af öllum, skiptir enginn sér af neinum.

Sama fólkið hagar sér á misjafnan hátt eftir því, hvort það er statt í fjölmenni eða í fámenni. Fólk kemur öðrum til hjálpar í einrúmi, en lætur kyrrt liggja, ef það sér aðra verða vitni að sams konar atburðum. Fálætið er ekki innbyggt, heldur fer oft eftir aðstæðum hverju sinni.

Hætta er á ferðum, þegar glæpamenn gera ráð fyrir að geta stundað fíkniefnasölu eða ofbeldi í fjölmenni án afskipta annarra aðila. Þegar samhjálp borgaranna fer að bila, er hætt við, að glæpahringir taki völd á þeim svæðum, þar sem afskiptaleysi almennings er mest.

Til að hamla gegn glæpum í fátækrahverfum erlendis hefur með góðum árangri verið gripið til þess ráðs að útvega eftirlaunafólki íbúðir með góðu útsýni yfir götur. Fíkniefnasala og ofbeldi á erfiðar uppdráttar í umhverfi, þar sem borgarar vaka hver yfir hagsmunum annars.

Löggæzlumenn og sveitarstjórnir geta hvatt til samstarfs fólks um nágrannavörzlu á viðkvæmum stöðum og kennt fólki að láta lögregluna vita símleiðis án þess að leggja sjálft sig í hættu. Útbreidd notkun þráðlausra síma auðveldar slíka nágrannavörzlu.

Þetta nær svipuðum árangri og myndavélar, sem settar hafa verið og settar verða upp á afbrotasvæðum miðborga, þar sem lítið er um, að fólk á bak við glugga verði vitni að atburðum. Þjóðfélagið verður að halda uppi slíkum vörnum á tímum vaxandi ópersónuleika.

Ekki eru allir reiðubúnir að bretta upp ermar og lenda í átökum. Með áróðri má hvetja vegfarendur til að nota bílsíma og gemsa til að koma upplýsingum á framfæri við rétta aðila, án þess að fólk leggi sig sjálft í hættu við að hafa bein afskipti af atburðum, sem það sér.

Erlendis gengur flóttinn inn í afskiptaleysið sums staðar svo langt, að efnafólk reisir sér heimili í afgirtum hverfum með varðmönnum og sækir vinnu í afgirta skrifstofuturna með varðmönnum, en innri og fátækari borgarhverfi lúta óformlegri stjórn glæpamanna.

Þjóðfélagsbreytingar kalla á aukna fræðslu um skyldur borgaranna hver við annan. Foreldrar, sem aldir eru upp í annars konar þjóðfélagi, eru margir hverjir vanbúnir að fræða börn sín um þetta. Skólakerfið hefur ekki áttað sig á þessari nýju þörf, en getur gert það.

Skyldur borgara hver við annan ná lengra en til nauðsynlegustu varna gegn útbreiðslu ofbeldis og annarrar lögleysu. Borgaralegt þjóðfélag leggur líka þær skyldur á herðar öllum, að þeir hafi almennt afskipti af öðrum málum en sínum eigin, þar á meðal pólitískum.

Lýðræðiskerfi nútímans stenzt ekki til lengdar, ef afskiptaleysi þéttbýlisins heldur innreið sína í stjórnmálin. Ef menn hætta að líta á það sem skyldu sína að hafa afskipti af opinberum málum, taka mafíósar völdin í pólitíkinni eins og á götum fátækrahverfa.

Áhuga- og afskiptaleysi af opinberum málum, öðrum en hreinni hagsmunagæzlu, fer vaxandi meðal ungs fólks. Minna en áður er um, að ungt fólk reyni að bæta umheiminn, en meira um, að það reyni að laga sig að ytri aðstæðum eins og þær eru hverju sinni.

Eitt af lykilorðum nútímans er afskiptaleysi, afleiðing breyttra þjóðfélagshátta, en ekki endilega óhjákvæmileg afleiðing þeirra, ef vörnum verður við komið.

Jónas Kristjánsson

DV

Bing Dao

Veitingar

Kínversku veitingahúsi var fyrir fáum árum djarflega skákað inn á aldamótagömul pakkhúsloft Gránufélagshúsanna frá aldamótunum við Strandgötuna utanverða á Akureyri. Ég minnist þess að hafa fengið góðan mat snemma á ferli þess. Nú rífst kokkurinn svo hátt á íslenzku inni í eldhúsi að það heyrist fram í sal.

Hreinsað hefur verið út af loftinu svo að burðarvirki og fulningur norræns kaupskaparhúss sést. Vandað timburgólf hefur verið lagt og síðan komið fyrir hálfum gámi af Kínalugtum og -blævængjum milli stoða, bita og skástífa. Niðurstaðan er Bing Dao, svo fáránleg, að hún jaðrar við að vera skemmtileg.

Andstæðurnar skerptust enn, þegar spariklæddur og fagmenntaður þjónn af íslenzkum víkingaættum vísaði kurteislega til sætis við græna dúka og bleikar tauþurrkur undir litlum gluggum, sem veittu útsýni yfir snyrtilega strandlengju til skemmtiferðaskipa á Pollinum. Staðan í skákinni byrjaði ekki að gliðna fyrr en komið var að kínverska matnum.

Fyrst kom á borð ristað brauð með frosnum smjörkúlum. Tim Yum súpa var sterkt kryddsoð með grænmeti, ekki merkilegt. Léttsteikt grænmeti með indversku karríi var válegur fyrirboði aðalrétta, ljótur réttur undir miklu magni þykkrar hveitisósu.

Við annað tækifæri var kokkurinn ljúfari. Þá hvítlauksristaði hann meyran hörpufisk, sem borinn var fram á salatbeði með hörðum og stökkum hrísgrjónanúðlum. Enn fremur léttsteikti hann meyran smokkfisk á hrísgrjónabeði með sterkri ostrusósu.

Kjúklingar eiga að henta kínverskri matreiðslu. Heldur mikið eldaður kjúklingur í sterkri apríkósu- og karrísósu var betri en þurrir kjúklingabitar í mikilli og þykkri hnetu-hveitisósu með kínverskum sveppum, ljótur réttur. Líklega er til of mikils mælzt, að íslenzkur kokkur skilji kínverska matreiðslu.

Samt tók ekki steininn úr fyrr en kom að valinu úr kafla íslenzkra rétta á matseðlinum. Grillaðar lambalundir voru gráar og seigar, nánast harðar, bornar fram með saffrankryddaðri eggjasósu og ofsteiktu grænmeti. Kokkurinn hafði yfirgefið Vesturlönd án þess að hafa fundið Austurlönd.

Ískrem reyndist vera bráðinn vanilluís, borinn fram með ferskum ávaxtabitum. Ostakaka hússins var hin þéttasta sem ég man eftir að hafa fengið. Kaffi var í lagi.

Tapskákirnar á Bing Dao voru ekki gefnar. 3450 krónur greiðast að meðaltali fyrir þríréttað. Í hádeginu fæst hlaðborð með súpu, heitum réttum og köldum á 790 krónur, sýnu vænlegri kostur, sem ég hef ekki prófað.

Jónas Kristjánsson

DV

Ekkert lært endalaust

Greinar

Vesturveldin hafa í þrítugasta skipti á þessu ári sagt Milosevic Serbaforingja, að yfirgangur hans í Kosovo verði ekki þolaður, rétt eins og þau sögðu honum þrjú hundruð sinnum, að yfirgangur hans í Bosníu yrði ekki þolaður. Þetta voru og eru hótanir án innihalds.

Vesturveldin hafa í tíunda skipti á þessu ári sagt Milosevic, að hann megi búast við hernaðaríhlutun vegna yfirgangs hans í Kosovo, rétt eins og þau sögðu honum hundrað sinnum, að hann mætti búast við hernaðaríhlutun vegna yfirgangs hans í Bosníu.

Þegar hernaður Serbaforingjans hófst í Kosovo, sögðu fulltrúar Vesturveldanna, að þeir hefðu lært af reynslunni frá Bosníu og mundu grípa í taumana, áður en af hlytust stríðsglæpir og þjóðarmorð. Þrátt fyrir þessa fullyrðingu hafa þeir ekkert lært af reynslunni.

Það er grundvallaratriði í ágreiningi ríkja eins og fólks yfirleitt, að innihaldslausar hótanir duga í mesta lagi einu sinni eða tvisvar, en verða síðan ekki bara gagnslausar með öllu, heldur verri en engar. Slík eru einmitt áhrif sífelldra hótana í garð Serbaforingjans.

Full reynsla er fyrir því, að Milosevic gengur jafnan fram á yztu nöf. Full reynsla er fyrir því, að hann lítur á eftirgjafir af hálfu viðsemjenda sinna sem ávísun á að stíga feti framar. Samskipti við hann eru að þessu leyti mjög svipuð samskiptum við Íraksforingja.

Samskipti Vesturveldanna við Serbíu eru gott dæmi um almennan greindarskort í utanríkisþjónustu og hernaðarstjórn vestrænna ríkja og samtaka þeirra, svo sem Atlantshafsbandalagsins. Þessir aðilar hafa árum saman verið úti að aka og ekkert lært af reynslunni.

Í rauninni eru hótanir hinna greindarskertu fyrst og fremst misheppnuð tilraun til að friða fólk heima fyrir, þar sem almenningur hefur lesið í blöðum um og horft í sjónvarpi á voðaverk Serbaforingjans og manna hanns, fyrst í Króatíu, síðan í Bosníu og loks í Kosovo.

Vesturveldin þurfa að gera upp við sig, hvort þau hafa bein í nefinu til að standa við hótanir sínar. Ef þau hafa það ekki, eiga þau að láta Milosevic í friði og ekki reyna að telja ofsóttu og brottreknu fólki trú um, að einhverrar hjálpar sé að vænta frá lýðræðisríkjum vestursins.

Milosevic stjórnar bláfátækri þjóð, sem býr af hans völdum við þrengri kost með hverju árinu. Til að dreifa huga fólksins frá bágindum þess beitir hann þjóðernislegum órum um Stór-Serbíu og hefndir fyrir meintar misgerðir Tyrkja og annarra fyrir mörgum öldum.

Milosevic hefur tekizt að trylla meira en hálfa þjóð til að styðja útþenslu Serba með þjóðahreinsunum. Þær felast í, að annað fólk er með ofsóknum hrakið á brott, svo að Serbar geti setzt að í staðinn. Þetta tókst að nokkru í Bosníu, þar sem Serbar náðu miklu landi.

Útþensla Serba í Kosovo byrjaði með því, að Milosevic tók sjálfstjórnina af íbúunum og setti landið undir stjórn Serba. Síðan hóf hann menningarlegar ofsóknir gegn íbúunum og loks hernaðarlegar. Þær hafa aukizt í takt við loforð Serbíuforingjans um hið gagnstæða.

Tilgangslaust er að reyna að sveigja Milosevic og hinn tryllta meirihluta Serba til hlýðni með efnahagslegum refsiaðgerðum. Lifibrauð er ekki efst á óskalista fólks, sem hefur það að hugsjón að nauðga fólki, pynda það og drepa til þess að hræða ættingja þess í burtu.

Annaðhvort neyðast Vesturveldin til að kosta flóttamannabúðir í Albaníu fyrir allan þorra íbúa Kosovo eða þau hunzkast til að fara í síðbúið stríð við Serbíu.

Jónas Kristjánsson

DV

Ópera

Veitingar

Ekki veit ég hvers vegna hvítlauksristaður, frekar þurr, en ekki beinlínis seigur skelfiskur heitir Brak og brestir á matseðli Cafés Óperu. Þetta voru rækjur, hörpudiskur og kræklingur, sem bjargað var fyrir horn með ágætlega krydduðu og rjómuðu skelfisksoði. Undarlegir stælar af ýmsu tagi einkenna oft veitingahús, þar sem takmarkaður áhugi er á matreiðslu.

Salat Lyonnaise er skólabókaræfing, sem ætti að gefa möguleika, en hér var það einfalt jöklasalat með ristuðum brauðteningum, eggi og agnarögn af reyktu fleski, næsta ómerkur forréttur. Betri var rifinn hrálax með jöklasalati, eggjarauðu, rauðrófu og kapers, nákvæm og eðlileg stæling á buff tartar.

Ekki veit ég, hvers vegna steinasteik með humar og grófskornu grænmeti heitir Brim og boði á matseðlinum. Hins vegar veit ég, að gestir eiga auðvelt með að sigla í strand, þegar þeir hafa ekki einu sinni hliðardisk til að reyna að jafna steikartíma í tveggja tíma borðhaldi. Rétturinn ætti að heita Of og van í senn. Hráefnið er raunar meyrt og ferskt, en ókryddaður Galloway er bragðlaus.

Steinasteikin hefur árum saman hentað athafnafíklum, sem vilja heldur borga 2.890 krónur á steikina og 4.460 krónur á þríréttaða máltíð fyrir að fá að steikja undir þaki í miðborginni í stað þess að þurfa að grilla ókeypis í roki og rigningu úti í garði heima hjá sér. En hafa verður í huga, að verðlagið er nálægt Íslandsmeti.

Fiskur er ekki í náðinni í eldhúsinu. Þunnar sneiðar af grillaðri stórlúðu voru einstaklega þurrar, greinilega frystar, bornar fram með miklu af rækjum, grænmeti á teini, bakaðri kartöflu og ágætri hvítlaukssósu. Grimmdarsteiking var líka á andakjöti í sterkri og svartri sósu, sem hét glóaldinsósa, en meðfylgjandi grænmeti var hóflega steikt.

Eftirréttir voru ekki merkilegir. Þurr terta með ostarönd var kölluð bakaður ostamarmari, borin fram með tvenns konar súkkulaðisósu, ljósri og dökkri. Epli var hóflega djúpsteikt með óvenjulega þéttum ávaxtaís og mangósósu. Minnissstæðast, frumlegast og bezt var súkkulaðihúðað spaghetti, sem dempaði sætubragðið af sósunni.

Á löngum og hægum hnignunartíma matreiðslunnar hefur Ópera jafnan verið vel sótt. Krárstemning er oftast góð í þægilegum tréstólum við glansandi viðarlíki í borðum. Umgerðin er notaleg á efri hæð gamla hússins á horni Lækjargötu og Austurstrætis. Lítillega ofhlaðnar rustaskreytingar hæfa gömlu húsi, marrandi trégólfi, bitalofti og rómantískum smágluggum með fortíðarútsýni til Bernhöftstorfunnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Fiðlarinn

Veitingar

Lengi lifði Fiðlarinn á þaki Akureyrar á glæsilegu útsýni til þriggja átta og til þeirrar fjórðu af barnum út fjörðinn. Matreiðslan stóð ekki undir háu verði en nú hefur hún batnað. Þjónustan var alltaf góð og er það enn hjá yfirþjónum en of mikið er treyst á lærlinga.

Háir gluggar, viðarloft, glerkúluljós og rauðir litir í teppi, stólum, dúkum og gluggatjöldum, veita virðulegt yfirbragð, sem hangandi píanó og fiðla í lofti hlaða listrænni spennu. Nokkrar gerðir árgangspúrtvíns í löngum vínlista gefa í skyn, að hér sé alvara á ferð. Þetta er hæfileg umgerð um 4.450 króna skýjareikning fyrir þríréttað með kaffi.

Kjúklingalifrarkæfa var sérkennilega römm og minnisstæð, með furuhnetum og rúsínum í ediksolíu, fyrsta flokks tilraun. Fjórar risahörpuskeljar á trépinna voru bragðlausar út af fyrir sig en skemmtilega kryddaðar sítrónugrasi, hvítlaukssmjöri og mórillusveppum, bornar fram með bragðmiklum hrísgrjónum.

Skemmtilegar en ofkeyrðar andstæður voru í sterklega saffran- og sítrónukryddaðri kræklingasúpu, sem sýndi eins og lifrarkæfan tilþrif og frískleika í eldhúsi.

Fiskur er ekki spennandi á matseðli, engin breyting frá degi til dags, heldur hefðbundið lágmarksframboð fjögurra fisktegunda, sem auðveldast er að geyma í frysti, svo sem eldislax og skötusels. Betra er að halla sér að kjötinu á Fiðlaranum, en fara í Smiðjuna, ef maður vill fisk á Akureyri.

Heilsteikt nautalund var meyr og bragðlaus, sennilega úr Hrísey, ekki merkileg út af fyrir sig, en haldið uppi af perlulauk, sveppum og höm að Búrgundarhætti, svo og ágætlega kryddaðri kartöflustöppu.

Lambalundir voru bezti réttur staðarins, innbakaðar í ristuðum kartöflum, fallega upp settar í þremur turnum, bornar fram með rósmarínsósu og góðu salati. Þetta var dæmi, sem gekk upp, Stradivarius Fiðlarans.

Eftir risið kom hnig eftirréttanna, sem voru eingöngu ísar. Vanilluís með jarðarberjum var vanilluís með jarðarberjum, en maple-ís með sítrónubúðingi og hindberjasósu var sér á parti, fallegur og hressandi.

Jónas Kristjánsson

DV

Tuttugu nægja ekki

Greinar

Kjósendur hafa enn ekki orðið hugfangnir af sameiginlegu framboði vinstri manna. Stuðningurinn við það takmarkast við flesta stuðningsmenn flokkanna þriggja, sem standa að framboðinu. Samkvæmt skoðanakönnun DV getur framboðið vænzt tuttugu þingmanna.

Á þessu verður að hafa þann fyrirvara, að saman er reiknað fylgi nýja framboðsins og gömlu flokkanna, sem að því standa. Þannig er gert ráð fyrir, að þeir, sem nú segjast styðja Alþýðuflokk og Alþýðubandalag, styðji sameinaða framboðið, þegar ekki er kostur á hinu.

Með enn meiri velvilja er unnt að líta á tuttugu manna þingstyrk sem sómasamlega stöðu við þær aðstæður, að sameiginlegt framboð hefur nýlega verið samþykkt og fylgi þar með kvarnast úr köntunum, einkum úr landbúnaðar- og útgerðarkanti Alþýðubandalagsins.

Minni hætta er á brottfalli kjósenda úr stéttarfélagakantinum. Ögmundur Jónasson hefur einn minna vægi en samanlagðir verkalýðsleiðtogar flokksins, sem nánast allir styðja eindregið nýja framboðið. Og Steingrímur J. Sigfússon verður seint maður verkalýðsins.

Hugsanlegt er, að Ögmundur og Steingrímur og einhverjir fleiri, jafnvel Svavar Gestsson, nái saman á grundvelli vinstri hreintrúar, sem hafni útvatnaðri breiðfylkingu. En erfitt verður að skilgreina, hver sú kaþólska sé og enn erfiðara að markaðssetja hana.

Enginn stjórnmálamaður á vinstri vængnum hefur gerzt persónugervingur hins nýja framboðs. Næst því kemst Margrét Frímannsdóttir, sem nýtur mikilla og vaxandi vinsælda í skoðanakönnum DV og hefur þá sérstöðu, að nánast engir fetta fingur út í hana.

Það sem helzt háir Margréti sem foringjaefni vinstra framboðsins er, að reynslan bendir ekki til, að hún hafi orkufrekt úthald til sífelldra og fyrirvaralausra pólitískra slagsmála upp úr þurru, svo sem hefðbundið er, að krafizt sé af leiðtogum stórra flokka.

Þeir, sem áhyggjur hafa af skorti á bardagagleði, benda á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Jón Baldvin Hannibalsson, sem bæði magnast í eldlínunni. Gallinn við þessar ábendingar er, að hvorugt þeirra er í framboði og að ekkert bendir til, að þau verði tilleiðanleg.

Kosningabaráttan í vetur mun snúast um þann þriðjung kjósenda, sem annaðhvort vill ekki svara í skoðanakönnunum eða segist ekki hafa gert upp hug sinn. Þetta pólitíska lausagöngufólk hefur lengi rambað milli framboðslista og ráðið úrslitum alþingiskosninga.

Pólitíska lausagöngufólkið er næmara fyrir meintum persónum stjórnmálamanna en málefnum þeirra. Hugtök eins og Vilmundur, Albert og Sverrir skipta meira máli í hugum þess en meira eða minna ósannaðar kennisetningar um, hvernig reka skuli þjóðfélagið.

Því gildir enn, sem áður hefur verið sagt, að örlög sameiginlegs framboðs á vinstri væng ráðast hvorki í málefnanefndum, sem samþykkja stefnuskrá, né á landsfundum, sem samþykkja sameiginlegt framboð, heldur ráðast örlögin af því, hver verður foringi.

Þótt sameiginlegt framboð vinstri manna hafi að undanförnu komizt yfir þröskulda málefnanefnda og landsfunda, er stærri hindrun enn í vegi þess. Hún felst í þeirri margtuggnu staðreynd, að leiðtogi og lausafylgis-veiðari nýja flokksins hefur ekki fundizt enn.

Núverandi staða dugar framboðinu í fjórtán til tuttugu þingmenn, sem jafngildir ósigri. Til þess að verða gjaldgengt í pólitík þarf nýja framboðið mun fleiri.

Jónas Kristjánsson

DV

Bankar seldir Pétri og Páli

Greinar

Ekki er sama hvernig ríkisbankarnir verða seldir. Við höfum víti einkavinavæðingar að varast, svo sem SR-mjöl, Kögun, Bifreiðaskoðun og Lyfjaverzlun Íslands. Gæludýr stjórnarflokkanna hafa erft einokunarstöðu ríkisins í krafti forgangs, mismununar eða aðstöðu.

Pétur Blöndal alþingismaður hefur lagt til, að tækifærið verði notað til að efla þátttöku almennings í rekstri atvinnulífsins. Hverjum borgara verði gert kleift að kaupa bankahlutabréf í áskrift fyrir 5.000 krónur á mánuði. Þannig verði meirihluta eignaraðildarinnar dreift.

Minnihluti hlutafjárins verði síðan settur á uppboð, þar sem Pétur býst við, að hlutirnir fari á háu verði. Á aðalfundum geti fjölmenn samtök úr hópi almennings att til kapps við fjársterku aðilana, sem venjulega sitja einir að kötlunum, þegar ríkisfyrirtæki eru seld.

Samanburður við útlönd hefur sýnt, að íslenzkir bankar og sjóðir eru mun verr reknir en aðrir. Heimskuleg útlán hafa leitt til mikilla afskrifta sem fjármálastofnanirnar hafa neyðzt til að bæta sér upp með óeðlilega miklum mismun innláns- og útlánsvaxta.

Síðan hefur komið í ljós, að sumir bankastjórar ríkisbankanna hafa verið of uppteknir af að koma sér í fríar laxveiðar og fríar utanlandsferðir, að þeir hafa ekki haft sinnu á að passa upp á útlánin. Ríkisrekstur viðskiptabankanna verður því ekki lengur varinn.

Bankarnir eru svo risavaxin fyrirtæki, að hættulegt er að selja þá í of stórum skömmtum. Þá mun of mikill hluti eftirspurnarinnar takmarkast við helztu fáokunarfyrirtæki landsins, sem mesta peninga hafa til umráða, og verðið taka mið af takmarkaðri eftirspurn.

Með áskriftarsölu til almennings gerir Pétur ráð fyrir, að meiri slagur verði milli fáokunarfyrirtækjanna um afganginn af hlutafénu, þannig að hagnaður ríkissjóðs verði ekki minni, þótt almenningur fái sinn hlut á undirverði, á hálfvirði samkvæmt tillögu Péturs.

Hann vill, að fólki verði bannað að selja pappírana fyrstu tvö eða þrjú árin, svo að það venjist við að eiga hlutabréf og fylgjast með breytingum á verðgildi þeirra. Þannig verði unnt að efla áhuga margra á að halda lengi í bréfin, svo að þau leki ekki inn í fáokunina.

Gott væri að gefa starfsfólki líka tækifæri til að kaupa í áskrift ákveðið magn hlutafjár á föstu undirverði, þannig að forgangsflokkarnir væru tveir, áður en kæmi að hákörlunum, sem berðust á endanum um fjórðung hlutafjárins. Slíkt væri tilbrigði við tillögu Péturs.

Slíkar leiðir hefta getu stjórnmála- og embættismanna og gæludýra þeirra í fáokunarfyrirtækjunum til að misnota einkavæðinguna og breyta henni í einkavinavæðingu. Með slíkum leiðum næst sátt í þjóðfélaginu um annars óvinsæla einkavæðingu ríkisfyrirtækja.

Breyting ríkisfyrirtækja í almenningshlutafélög er aðeins hálf lausnin. Samhliða þarf að haga málum á þann veg, að fyrirtækin haldi ekki áfram að vera einokunarfyrirtæki. Þegar Landssíminn og Íslandspóstur verða seldir, þarf um leið að lina tök þeirra á markaðinum.

Sala ríkisbanka er brýnasti og umfangsmesti þáttur einkavæðingar ríkisfyrirtækja. Mikið er í húfi, að vel takist til. Við höfum tvenns konar víti að varast, víti hörmulegs rekstrar bankanna, og vítin, sem við höfum séð í sölu annarra ríkisfyrirtækja á liðnum árum.

Tillga Péturs felur í sér skynsamlega leið til að dreifa sölunni á langan tíma og efla getu almennings til að keppa við fáokunarfyrirtækin um stjórnartaumana.

Jónas Kristjánsson

DV

Eiðfaxi og Ljónshjarta

Greinar

Löngu eftir að bandaríska hefur rutt íslenzku úr vegi og Íslendingar aflagðir sem sérstök þjóð munu íslenzk nöfn lifa góðu lífi vítt um lönd í nöfnun tugþúsunda og jafnvel hundraða þúsunda íslenzkra hesta. Hvarvetna verða til Brúnkur og Gránar, Sörlar og Eiðfaxar.

Tæplega hundrað þúsund íslenzkir hestar með íslenzkum nöfnum eru nú til utan landsteinanna. Tugþúsundir erlendra fjölskyldna hafa íslenzka hestinn að þungamiðju tómstunda sinna og mynda um þær þúsundir klúbba, sem saman mynda öflug samtök.

Á sama tíma og barizt er um að halda sjávarútvegssýningu, sem laðar 500 útlendinga til landsins, er í inndölum norður í landi haldin hrossasýning, sem dregur til sín meira en 2.500 útlendinga, er kæra sig kollótta um sjúkdómsfréttir og harkalegar veðurspár.

Af umræðum á Netinu má ráða, að erlendir eigendur íslenzkra hesta líti með fögnuði til þess, að landsmót íslenzkra hesta verði hér eftir haldin á tveggja ára fresti í stað fjögurra áður. Þess vegna má búast við metaðsókn þeirra á landsmótið í Reykjavík árið 2000.

Landsmót eru ótrúleg gjaldeyrislind í samgöngum og ferðaþjónustu. Þau er þó bara toppurinn á ísjakanum, sem einnig felur í sér hestaferðir um óbyggðir, hrossasölur, reiðtygjaverzlun og útgáfu bóka og myndbanda. Tugir íslenzkra þjálfara eru á þönum milli landa.

Birtingarmyndir þessa vaxandi æðis eru margar. Á landsmóti íslenzkra hesta í Hollandi stígur glæsileg kona og álverseigandi úr Rolls Royce og kveður einkabílstjórann. Hún er með íslenzka hunda í för, er klædd íslenzkri lopapeysu og er á gúmmískóm.

Þannig hefur íslenzki hesturinn breytt lífsstíl þúsunda manna. Erlendir ræðumenn á markaðsþingi hrossamála í Eyjafirði á mánudaginn sögðu hver á fætur öðrum sömu söguna af því, hve djúpstæð og varanleg breyting yrði á lífi eigenda íslenzkra hesta.

Milli 2.000 og 3.000 hestar eru fluttir út árlega. Fjöldinn takmarkast fyrst og fremst af, að ekki tekst að rækta fleiri hesta, sem henta þessum markaði. Þýzki ræðumaðurinn á markaðsþinginu sagði þetta stafa af röngum áherzlum í vali ræktunarhrossa.

Erlendi markaðurinn vill þæga og skapgóða, en ekki lata fjölskylduhesta, ganghreina og taumlétta töltara. Slíkir hestar mótast bezt í hestaleigum og hestaferðalögum. Aldrei er nóg framboð af slíkum hestum, meðan flóknir og örgeðja keppnishestar seljast hægt.

Sala á hrossum til útlanda er aðeins upphafið af viðskiptum, sem hlaða utan á sig. Menn telja sig þurfa að koma til Íslands og fara í hestaferðir. Menn kaupa íslenzk reiðtygi, föt, bækur og myndbönd. Menn semja við þjálfara og reyna að leita uppi gúmmískó.

Þótt aldagömul hefð sé fyrir, að hrossakaupin sjálf séu utan við lög og rétt og skatta, eru allir aðrir þættir þessara viðskipta uppi á borðinu og leggja drjúgt með sér til sameiginlegra þarfa þjóðarinnar. Gróðinn af hestamennsku flyzt þannig um allt þjóðfélagið.

Bílaflotinn á landsmóti hestamanna í Eyjafirði var dýrasti floti, sem saman hefur verið kominn á einn stað í landinu fyrr og síðar. Drekarnir með kerrurnar báru vitni um, að hestamennska í víðtækum skilningi er að ryðja sér til rúms sem meiri háttar atvinnuvegur.

Nokkrir Bandaríkjamenn, sem ekki áttu heimangengt, notuðu landsmótstímann til að skeggræða á Netinu, hvort nota megi Ljónshjarta sem hestsnafn.

Jónas Kristjánsson

DV

Játvarður

Veitingar

Lifnað hefur yfir matargerð á Akureyri meðan Reykjavík hefur árum saman staðið í stað. Fiðlarinn hefur batnað og kominn er til sögunar Játvarður á horni Strandgötu og Glerárgötu, skemmtilega hannaður staður með fínlegri matreiðslu, ef sneitt er hjá fiski, svo og elskulegri þjónustu, sem getur svarað spurningum um matinn.

Játvarður er þrauthannaður niður í smáatriði á borð við stílhreinan matseðil og framsetningu rétta á diski. Fallegur vínrekkur blasir við anddyri. Veitingasalurinn er allur á mjóddina til beggja hliða, skiptur að endilöngu með súlnaröð og svörtum skermum. Grófar flísar í gólfi og fínleg örljós í lofti falla að smekkvísi heildarinnar.

Hér er milliverð á matseðli, aðalréttir á 1.610 krónur að meðaltali og þríréttað með kaffi á 3.150 krónur. Undir sefandi tónum Frankie Boy og Bing Crosby gátum við því sætt okkur við glerplötu, óbrjótanleg vatnsglös og pappírsþurrkur ofan á dúklögðu borði.

Fagrir og fínir forréttir nutu sín vel á kryddlegnum grænmetisþráðum. Pönnusteiktur humar og skötuselur rann á tungu með fínlega kryddaðri hvítlaukssósu þunnri. Sama var að segja um ristaða hörpuskel með sterkri sojasósu og eldsteikta snigla með bragðmildri hvítlauks- og engifersósu.

Lárperu og fetaost skorti að mestu í jöklasalat, sem kallað var ferskt sumarsalat, en þurrkaðir tómatar og hæfileg edikolía björguðu réttinum næstum fyrir horn. Lakasti rétturinn var harðsteiktur karfi í smjöri, borinn fram með mildri mandarínusósu og langsteiktum kartöflum. Raunar er ekki auðvelt að fá góðan fisk utan Reykjavíkur.

Aðra og betri sögu er að segja af kjötréttunum. Afar gott var ofnbakað og mjúkt kálfainnanlæri með mildri salvíusósu og milt hvítvínsoðnu grænmeti. Sama var að segja um feitar og safaríkar lambahryggsneiðar með þunnri og sterkri rósmarínsósu. Léttsteiktar og rósrauðar svartfuglsbringur voru í svipðum gæðaflokki, með þunnri og bragðmildri sólberjasósu.

Ostadiskur var ómerkilegur eftirréttur. Góður var hins vegar léttur súkkulaðifroðuturn með skógarberjasósu og og góð var sæt konfektterta með ferskum ávöxtum og ástríðualdinsósu. Kaffi var gott.

Játvarður er í steyptri jarðhæð, sem varð til við að tékka upp tvílyft timburhús. Hann er upplyfting í bókstaflegri merkingu eins og í menningu og matargerð.

Jónas Kristjánsson

DV

Postularnir Páll og Sverrir

Greinar

Efnahagsleg stjórnmálastefna Sverris Hermannssonar er ekki ný af nálinni. Hún er hin sama og lengi hefur verið mælt með hér í blaðinu, uppboð á kvótum í sjávarútvegi og afnám stuðnings við þá, sem bezt mega sín. Þetta er góð stefna, sem enginn flokkur fylgir í raun.

Spurningin er hins vegar, hvort rétti maðurinn til að fara fyrir þessari stefnubreytingu sé sá, sem var þingmaður auðmannavinaflokksins; kommissar mestu sukkstofnunar lýðveldisins; ráðherra í ríkisstjórn, sem fann upp kvótann; og annálaður sukkari sem bankastjóri.

Ef til vill getur Sverrir kjaftað sig frá þessu, rétt eins og hann þykist nú ætla að berjast fyrir jafnrétti kynjanna, hafandi nýlega sýnt í fréttaviðtali í sjónvarpi þá mestu kvenfyrirlitningu, sem þar hefur sést árum saman. En allt er þetta þó í meira lagi ótrúverðugt.

Sverrir er að ýmsu leyti vel fallinn til pólitískra sálnaveiða. Hann er með orðheppnari Íslendingum, hefur fjölbreyttari orðaforða en aðrir stjórnmálamenn og bezt vald þeirra á íslenzkri tungu. Þar á ofan er hann kjaftfor með afbrigðum, stundum á einkar gamansaman hátt.

Páll postuli var slíkur skörungur og átti skuggalega fortíð eins og Sverrir. Páll fékk vitrun á heiðinni eins og Sverrir á biðlaunatímanum, hætti að ofsækja sannleikann og fór að boða hann vítt um keisaradæmið. Hann breytti fámennri kristni í heimstrúarbrögð.

Munurinn á þeim Páli og Sverri er þó sá, að Páll sá og skildi villu síns vegar, en Sverrir virðist ekki hafa hugmynd um, að hann eigi yfirleitt neina fortíð á þeim pólitísku sviðum, sem hann fjallaði um á fundi sínum með væntanlegum stuðningsmönnum vestur á Ísafirði.

Jarðvegurinn var undir kristni búinn á tíma Páls postula og undir afnám forréttinda á tíma Sverris postula. Einhver hlýtur að taka upp merkið, hvort sem Sverrir gerir það eða einhverjir aðrir. Alþýðuflokkurinn segist raunar þegar hafa þá stefnu, sem Sverrir boðar.

En Alþýðuflokkurinn er ekki trúverðugur fremur en kommissarinn fyrrverandi. Sá flokkur er fyrst og fremst þekktur fyrir að gleyma góðum málum, þegar hann kemst í ríkisstjórn. Og í samstarfi við Alþýðubandalagið verður hann ekki duglegri við afnám forréttinda.

Alþýðubandalagið hefur hingað til verið málsvari sérhagsmuna-forréttinda á borð við kvóta í sjávarútvegi og landbúnaði. Eftir hjónaband þess og Alþýðuflokks verður erfiðara en áður fyrir Ágúst Einarsson og aðra málsvara efnahagslegs réttlætis að breyta kerfinu.

Þörfin er mikil. Stærstu tveir stjórnmálaflokkarnir eru eindregnir stuðningsmenn sérréttinda fyrir þá, sem bezt mega sín. Þeir styðja forréttindi markaðsráðandi stórfyrirtækja. Þeir styðja gjafakvóta handa útgerðarfyrirtækjum. Þeir styðja ríkisrekstur landbúnaðarins.

Það er kjósendum að kenna, að stjórnmálaflokkarnir skuli komast upp með að haga sér eins og þeir gera. Ef Sverri Hermannssyni tekst að vekja marga kjósendur til vitundar um sjálfskaparvítið, getur hann eins og Páll bætt fyrir brot sín sem eins mesta kerfiskarlsins.

Þótt kjósendur hafi keypt margt um dagana og sumt óséð, eru þeir tæpast ginnkeyptir fyrir leiðtogaefni í gömlum stjórnmálamanni, er boðar þeim nýja trú, sem gengur þvert á allt, sem hann áður gerði, án þess að hafa beðizt neinnar afsökunar á skrautlegri fortíð sinni.

Við höfum reynslu af postulum Alþýðuflokksins og postulanum Sverri. Það verða einhverjir aðrir, sem leiða kjósendur til himnaríkis hins pólitíska réttlætis.

Jónas Kristjánsson

DV

Ítalía

Veitingar

Við vorum komin hálfa leið til Ítalíu. Veitingamaðurinn á Laugavegi 11 stóð við skenkinn og vakti traust með því að kallast í síma á við birgjana, svo að ómaði um allan sal. Ítalska og íslenzka víxluðust á ýmsa vegu með hæfilegum úða af perfetto og ciao .

Eignarhaldið er ítalskt, kokkarnir eru ítalskir, gæðaþjónustan er hálfítölsk, vel valið vínið er að mestu ítalskt og tilviljanalegar veggskreytingar eru ítalskar. Það, sem tæpast hékk í ítölskunni, var matreiðslan, sem þætti í slöku meðallagi heima fyrir. Bakaðar kartöflur og amerískar pítsur eru raunar einkennistákn hennar.

Fullmikið elduð pöstu og hrísgrjón gátu ekki talizt stinn upp á ítölsku og bezt gæti ég trúað, að pastað væri úr pökkum. Hvort tveggja var þó gott á mælikvarða íslenzkrar hefðar. Pítsur staðarins voru gallalausar, jafnar og mjúkar, með hæfilega hörðum kanti.

Ítölsk matreiðsla er eðlisgóð, einföld og eðlileg, hættir sér ekki í franskar flækjur og ofgerir ekki. Íslenzk áhrif valda því hins vegar, að Ítalía við Laugaveginn víkur af sporinu með óhóflegum sósum og olíum, sem deyfa aðalbragðið og sjónmenga réttina.

Sjávarrétta-spaghetti leið fyrir þetta, flaut miður kræsilega í mildri tómatsósu, en var eigi að síður bragðgott. Betur tókst til með tómatsósulaust sjávarrétta-risotto, þar sem góða, steikta hrísgrjónabragðið náði fram að koma.

Yfirþyrmandi ostaþak á fiski dagsins skyggði á góða smálúðubragðið. Spínatgrunnurinn var hins vegar góður, átti vel við fiskinn og fól í sér hæfilegt meðlæti að ítölskum hætti. Bakaða kartaflan var utangátta.

Of mikið olíuvætt árstíðarsalat með blönduðum sjávarréttum var ofviða þunnum pappírsþurrkum. Blaðsalatið var þó ljómandi ferskt og sjávarréttirnir meyrir og bragðgóðir. Pönnusteiktu, hvítlaukskrydduðu og snarpheitu sveppirnir voru betri og einfaldari forréttur, en bornir fram með heilhveiti-geymslubrauði.

Annar bezti rétturinn var eldbökuð og mintukrydduð lambakóróna, bleik og mjúk, borin fram að bandarísk-íslenzkum hætti með hrásalati og gettu nú: Bakaðri kartöflu. Hinn bezti rétturinn var feneysk tiramisu, kaffi- og kakókrydduð ostakaka, hæfilega þurr, með þeyttum rjóma og vínberjum.

Súpur eru staðarsómi, indæl hvíld frá íslenzkum kremsúpum. Jafnvel linsubaunasúpa reyndist vera góð, matarleg og létt í senn, tómatlöguð grænmetissúpa. Súpa dagsins með aðalrétti dagsins fæst á góðu verði í hádeginu, 750 krónur. Annars er verðlagið fremur hátt, tæpar 3.800 krónur að meðaltali þríréttað með kaffi.

Ítalía hefur frá upphafi verið vinsæl meðal ungs sporgöngufólks og ferðamanna, sem sitja þröngt og sátt í gerviblómahafi og drekka vín úr eftirréttaskálum. Andrúmsloftið er fjörlegt og gott, en ég sakna Ítalíu.

Jónas Kristjánsson

DV

Vaðmálsflokkur í burðarliðnum

Greinar

Þrír af hverjum tíu fulltrúum á landsfundi Alþýðubandalagsins studdu tillögu, sem var andstæð tillögunni um sameiginlegt framboð vinstri flokkanna í þingkosningunum að ári. Búast má við, að svona stór minnihluti muni láta að sér kveða á einhvern hátt.

Sumir minnihlutamenn munu sætta sig við að hafa lent í minnihluta og ekki segja skilið við meirihlutann, enda gerir lýðræði ráð fyrir, að minnihlutar beygi sig. Aðrir munu ekki telja sig geta verið áfram á báti með meirihluta, sem hafi gerbreytt forsendum aðildar.

Stuðningur við sameiginlegt framboð er eindregnastur meðal ungra flokksmanna í þéttbýlinu og baráttufólks stéttarfélaga í einkageiranum. Þessi tvö öfl hafa löngum reynt að knýja fram þá niðurstöðu, sem hafði sigur á landsfundi Alþýðubandalagsins um helgina.

Sameiningarsinnar stefna að flokki, sem minnir á brezka Verkamannaflokkinn og krataflokka víðs vegar um Norður- og Vestur-Evrópu. Slíkur flokkur hentar ekki hluta af fylgismönnum Alþýðubandalagsins, sem munu leita pólitískrar útrásar utan hans.

Fylgismenn núverandi gjafakvótakerfis í sjávarútvegi, einkum á Norðausturlandi og Austfjörðum vilja ekki taka þátt í flokki, sem telur kerfið siðlaust og vill ná auðlindinni úr höndum úrgerðarmanna. Kvótasinnar munu fylkja sér um nýjan flokk Steingríms J. Sigfússonar.

Auðvelt verður fyrir þetta fólk að ná sambandi við fylgismenn ríkisrekna kvótakerfisins í landbúnaði, sem vilja ekki efla framgang hugmynda Alþýðuflokksins á því sviði. Þannig verður hægt að mynda varnarbandalag um ríkjandi hagsmuni í fiskveiðum og landbúnaði.

Steingrímur er sjálfkjörinn foringi þessara hópa, enda mun hann þar á ofan ná til gömlu kommanna, sem enn eru á móti Atlantshafsbandalaginu og jafnvel Evrópusambandinu. Úr öllu þessu verður heilsteyptur íhaldsflokkur, sem uppnefndur verður vaðmálsflokkur.

Víða um Evrópu eru áhrifalitlir flokkar af slíku tagi á jaðri stjórnmálanna. Á jaðrinum eru líka flokkar græningja, sem ekki hafa fundið samleið með krataflokkum Evrópu. Hjörleifur Guttormsson er sjálfkjörinn leiðtogi slíks flokks hér á landi, ef hann kærir sig um.

Þótt ekki sé augljóst samhengi milli vaðmálssinna og græningja, er ekkert sem bannar, að málsaðilar geti búið til hagkvæmnisbandalag um einn jaðarflokk, sem héldi uppi vörnum fyrir allt gamalt og gróið, náttúruna, bændurna, útgerðarmennina og einangrun landsins.

Steingrímur og Hjörleifur hafa hvor sitt bakland, sem þeir gætu samnýtt. Óljósara er bakland þriðja uppreisnarmannsins, Ögmundar Jónassonar, formanns opinberra starfsmanna. Ekki hafa sézt nein merki þess, að opinberir starfsmenn vilji hlíta pólitískri leiðsögn hans.

Ögmundur er hins vegar fulltrúi þeirra sjónarmiða, að betra sé að hafa lítinn flokk með skýrar línur en stóran flokk með óskýrar línur. Hann gæti lagt með sér eitthvert þéttbýlisfylgi hreintrúarmanna, sem sætta sig ekki við hina nýju breiðtrúarstefnu meirihlutans.

Smám saman mun koma í ljós, hvort hinar ýmsu tegundir óánægju ná saman og hversu sterkt afl þær verða sameiginlega eða hver í sínu lagi. Það ræðst raunar mest af því, hversu sannfærandi framhaldið á ferli meirihlutans í yfirvofandi A-flokka samstarfi verður.

Frumkvæðið er að því leyti enn í höndum meirihlutans, að gengi minnihlutans mun á næstu mánuðum ráðast mest af því, hvernig meirihlutanum tekst til.

Jónas Kristjánsson

DV