Ævilöng útlegð frá völdum

Greinar

Aðstandendur samfylkingar jafnaðarmanna fljóta sofandi að feigðarósi. Þeir eru lítilþægir í kröfum til sjálfs sín um árangur tilraunarinnar. Þeir horfa sljóum augum á lítið fylgi í hverri skoðanakönnun á fætur annarri og algert fylgisleysi meðal ungra kjósenda.

Það er engan veginn frambærilegur árangur sögulegrar sameiningar Alþýðuflokks og Alþýðubandalags að geta skrapað saman 20% fylgi kjósenda og aðeins 8% fylgi meðal yngstu kjósendanna, þeirra sem eru 18­24 ára. Þetta gefur fáa þingmenn og daufa framtíð.

Stefnuskráin er hluti vandans. Hún er misheppnuð tilraun til að fara bil beggja í ýmsum sjónarmiðum, sem ekki gefa færi á neinni millileið. Hún byggist á ofmati á gildi svonefndrar normaldreifingar, þar sem flestir eru taldir vera nálægt miðju, en fáir á jöðrunum.

Pólitíski veruleikinn er hins vegar fjölvíður og felst í þyrpingum fólks á ýmsum stöðum, en eyðum á milli. Þannig voru að minnsta kosti tvær þyrpingar augljósar í Alþýðubandalaginu, bæjarradikalar á höfuðborgarsvæðinu og vaðmálssósíalistar á landsbyggðinni.

Bæjarradikalarnir eru tiltölulega sáttir við sameininguna, enda höfundar hennar. Vaðmálssósíalistarnir eru hins vegar að hverfa á braut, enda hafa þeir óbeit á Alþýðuflokknum og standa nálægt Framsóknarflokknum og hefðbundnum atvinnuvegum til sjávar og sveita.

Svipaða sögu er að segja í Alþýðuflokknum. Þar eru annars vegar tiltölulega sáttir bæjarradikalar, sem eru höfundar sameiningarinnar, og frjálshyggjufólk, sem er að hverfa á braut, enda hefur það óbeit á Alþýðubandalaginu og styður eindregið vestrið og nútímann.

Þetta er einfölduð mynd af flóknara mynztri, en nægir til að skýra, hvernig fylgið hrynur af fylkingu, sem hefur samið sér stefnuskrá á línum bæjarradikala, þar sem vaðmálssósíalistar og frjálshyggjumenn sjá fátt við sitt hæfi. Stefnan er ekki, þar sem fólkið er.

Annar hluti vandans er forustuliðið, forna dæmið um gamalt vín á nýjum belg. Þetta eru ekki leiðtogar frá náttúrunnar hendi. Það getur ekki hrifið með sér fólk inn á nýjar brautir. Það getur ekki rofið gamlar hömlur hefðbundinna þyrpinga pólitískra skoðana.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur í tvígang getað þetta fyrir félagshyggjufólk í Reykjavík. Davíð Oddsson hefur á sama hátt getað haldið saman sundurleitum Sjálfstæðisflokki og þanið hann út. Samfylkingu jafnaðarmanna skortir slíkt fólk með kröftugt aðdráttarafl.

Þótt sæmileg sátt sé um, að Margrét Frímannsdóttir sé hæfust forustufólksins til að verða formaður samfylkingarinnar, þá hefur henni ekki tekizt að verða segull, sem sogar til sín misjafnar þyrpingar jafnaðarmanna. Hún er bara skásti kosturinn af gömlu lummunum.

Hún er eins konar Oscar Lafonteine í flokki, sem vantar Gerhard Schröder. Hún er eins konar Neil Kinnock í flokki, sem vantar Tony Blair. Til þess að verða söluhæf vara á kjósendamarkaði þarf samfylking jafnaðarmanna töluvert kröftugra aðdráttarafl.

Nútíminn er þannig, að stilla þarf saman söluhæfum leiðtoga og almennt orðaðri stefnuskrá, sem fjallar um jöfnuð og félagshyggju og lætur sér ekki verða fótaskortur á nákvæmum útfærslum, sem gera ekkert annað en að stuða einhverja þyrpingu kjósenda.

Meðan samfylkingin horfist ekki í augu við kröfur kjósenda, verður hún einn af smáflokkunum með 15 þingmenn á Alþingi og ævilanga útlegð frá völdum.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrengdur kostur illmenna

Greinar

Flest okkar vilja hafa frelsi til að fara þangað, sem okkur langar til að fara, þegar við höfum tíma og peninga. Við viljum ekki, að okkur sé meinað að heimsækja staði, sem aðrir fá að koma til. Þetta gildir ekki sízt um þá, sem hafa nóg af tíma og fé til umráða.

Langflestir staðanna, sem fólk vill fara til, eru innan marka Evrópusambandsins. Þar eru London og París, Kaupmannahöfn og Amsterdam, Róm og Aþena. Þar eru Costa del Sol og Costa Brava, Mallorca og Kanarí, Algarve og Lignano. Þar eru skíðalöndin í Ölpunum.

Ef handtaka hryðjuverkamannsins Pinochets í London leiðir til, að hann verði framseldur til Spánar, þar sem sem hann er eftirlýstur fyrir morð, er stigið mikilvægt skref í þá átt, að illmenni heimsins þori ekki að stíga fæti á umráðasvæði Evrópusambandsins.

Fjársterkir óþokkar hafa ýmsar ástæður til að sakna þess að geta ekki lengur komizt til Evrópu. Sumir vilja leita sér þar lækninga eins og Pinochet. Aðrir vilja komast í næturklúbba og fínimannsklúbba. Einhverjir þeirra vilja sjá sögufræga staði með eigin augum.

Aukin áherzla á mannréttindi er ein afleiðing þess, að vinstri miðjan hefur tekið völdin um nærri alla Evrópu. Thatcher eða Mayor hefðu látið Pinochet í friði. En það gerði Blair ekki. Hann lét taka einræðisherrann höndum og framselur hann vonandi fljótlega til Spánar.

Ekki er einungis sanngjarnt, að Pinochet mæti örlögum sínum á Spáni. Ekki er síður mikilvægt, að öðrum fúlmennum heimsins séu send þau skilaboð, að þeir skuli ekki hætta sér í þann heimshluta, sem flestir vilja heimsækja, ef þeir hafa til þess tíma og fé.

Pinochet er einn þeirra, sem telur eðlilegt að láta kvelja og drepa þúsundir manna, af því að þeir hafa aðrar skoðanir á pólitík en hann. Hann er rakinn óþverri eins og raunar margir fleiri, en var svo ógætinn, að láta nokkra Spánverja fylgja Chilemönnum í dauðann.

Erfitt er að hamla gegn því, að nótar Pinochets taki völd á ýmsum stöðum í þriðja heiminum. Reynslan sýnir, að efnahagslegar þvinganir ná takmörkuðum árangri og koma fremur niður á saklausum almenningi en glæpamönnunum, sem verið er að reyna að siða.

Viðskiptaþvinganir á Írak draga til dæmis ekkert úr prjáli og eyðslu Saddams Husseins, en færa almenningi í landinu ómældar hörmungar. Þessa leið má aðeins fara að vel athuguðu máli og með vel skilgreindum markmiðum, sem líklega er unnt að þvinga fram.

Persónulegar þvinganir á hendur óbótamönnunum sjálfum, nánustu ættingjum þeirra og samstarfsmönnum, eru hins vegar auðveldar í framkvæmd og hafa engar sjáanlegar aukaverkanir í för með sér. Heft ferðafrelsi skerðir lífsgæði þeirra, sem eiga það skilið.

Það verður áfall fyrir úrhrök mannkyns, ef þau verða formlega eftirlýst í einstökum löndum Evrópusambandsins og síðan framseld, hvar sem til þeirra næst á þessu mikilvæga svæði heimsins. Þessi hefting ferðafrelsis er refsing á tungumáli, sem þau skilja.

Í framhaldi af réttmætri handtöku Pinochets í London og væntanlegu framsali hans til Spánar er mikilvægt, að lönd evrópska efnahagssvæðisins taki þessa aðferð upp á arma sína og setji um hana fastar reglur, svo að pólitískum hryðjuverkamönnum séu þær ljósar.

Handtaka Pinochets sýnir breytt gildismat með nýjum tímum og nýjum herrum. Hún er dæmi um, að þjóðum heims tekst stundum að stíga spor fram eftir vegi.

Jónas Kristjánsson

DV

Kínamúrinn

Veitingar

Kínamúrinn er notaleg matarhola, sem líður fyrir afleitt veitingahús með sama nafni, sem um hríð var rekið á þessum stað. Þetta nýja er miklu betra, býður sómasamlegan mat við vægu verði, eitt fárra frambærilegra hér á landi, sem kenna sig við austræna matreiðslu.

Við ramman reip er að draga við Hlemmtorg, þótt staðurinn sé áberandi. Reynslan sýnir, að í þessum húsakynnum hefur hver veitingastaðurinn á fætur öðrum lagt upp laupana: Kráin, Mamma Rosa, Zorba, Alex, Rauði sófinn og Prag, sumir hverjir betri en sá, sem nú storkar örlögunum.

Veitingasalurinn er óbreyttur frá fyrri tilvistarstigum, einfaldur vinkill umhverfis skenkinn, hóflega búinn Kínaskrauti og lágværum Austurlandahljómum í seinni tíð. Þjónusta er austræn og viðkunnanleg, í meira lagi undirgefin í samanburði við íslenzka hefð.

Í hádeginu fæst súpa og val milli nokkurra aðalrétta á 580 krónur að meðaltali. Á kvöldin er mest byggt á fjögurra og fleiri rétta syrpum á 1880 krónur að meðaltali. Hvort tveggja hlýtur að teljast notalegt fyrir viðskiptavini og gefur ekki tilefni til listrænna tilþrifa í eldhúsi.

Súpur eru misjafnar. Blönduð sjávarréttasúpa var tær og fremur þunn rækju- og fiskisúpa. Eggjadropuð sjávarréttasúpa var betri rækju- og skötuselssúpa. Blandaðir réttir kaldir reyndust vera spjótgrillað lambakjöt, pönnusteikt nautakjöt og fátækleg gúrka, sem gekk undir nafninu sjávarréttur.

Pönnusteiktur smokkfiskur var seigur, svo sem búast má við á austrænum veitingastað, gerólíkur hinni meyru matreiðslu hans á góðum Vesturlandastöðum. Pönnusteiktur koli var hins vegar milt eldaður, borinn fram með mildri sojasósu. Djúpsteiktur humar var í miklum, en léttum hjúp, góður á bragðið, borinn fram með súrsætri sósu.

Kong Pau-kjúklingur með hnetum var ekki heldur ofeldaður og ágætlega bragðsterkur, rétt eins og og Szechuan-pönnusteikt nautakjöt með sterkum pipar í sósunni. Milt var hins vegar snöggsteikt lambakjöt. Yfirleitt voru betri gætur hafðar á eldunartíma en tíðkast á austrænum veitingahúsum hér á landi.

Pönnusteikt grænmeti, sem fylgir næstum öllum réttum, fiski jafnt sem kjöti, er fremur staðlað, bambus, blaðlaukur, laukur, kínakál og gulrætur. Það bendir til, að kunnáttusvið kokksins sé í þrengsta lagi.

Sú kenning fékk byr undir báða vængi, þegar beðið var um sæta vorrúllu með þeyttum rjóma samkvæmt matseðli. Ekki var hægt að fá hana, heldur sæta vorrúllu með ís, þeyttum rjóma og súkkulaðisósu. Ekki var hægt að fá sleppt ísnum og sósunni, svo að sennilega kemur rétturinn fullgerður og frosinn í hús.

Djúpsteiktar eplakúlur voru góðar, bornar fram með vanilluís og þeyttum rjóma. Jasmín-te var ekki fáanlegt, sem bendir til, að metnaði staðarins sem Austurlandahúss sé í hóf stillt.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrælahald flutt inn

Greinar

Technopromexport er rússneskt ríkisfyrirtæki, sem hvergi starfar á Vesturlöndum, nema hér og í Grikklandi, þar sem fjármálaspilling er mikil samkvæmt nýlegri fjölþjóðaúttekt. Félagið starfar í nokkrum löndum þriðja heimsins, þar sem mannréttindi eru lítil.

Landsvirkjun ber alla ábyrgð á þessu fyrirtæki. Af tilboði þess í framkvæmdir hér á landi mátti strax ráða, að það mundi nota rússneska þræla í stað íslenzkra starfsmanna til þess að ná verkinu. Með því að taka tilboðinu tók Landsvirkjun á sig ábyrgð af þessu.

Starf fyrirtækisins á vegum Landsvirkjunar felur í sér tilraun íslenzka samstarfsaðilans til að ná niður virkjunarkostnaði hér á landi með því að brjóta á bak aftur löggilda kjarasamninga. Það skýrir, hversu dauflega Landsvirkjun hefur tekið á málinu.

Síðan hefur bætzt við samábyrgð lélega mannaðra eymdarstofnana á borð við heilbrigðiseftirlitið á Suðurlandi og vinnumálaeftirlit félagsmálaráðuneytisins. Þessar stofnanir hafa horft á hneykslið magnast án þess að manna sig upp í að gera neitt af viti í málinu.

Framganga og fullyrðingar fulltrúa hinna rússnesku verktaka hér á landi hafa verið með slíkum endemum, að fyrir löngu hefði verið búið að reka þá úr landi annars staðar á Vesturlöndum. Hér hanga þeir hins vegar í skjóli máttvana og örvasa ríkisstofnana.

Opinberi geirinn hefur reynzt gersamlega ófær um að gæta laga og réttar við þetta verk. Það var eingöngu fyrir hatramma framgöngu nokkurra verkalýðsfélaga, að upplýstar hafa verið skuggahliðar á vanheilögu hjónabandi Landsvirkjunar og Technopromexport.

Eftir að ótal yfirlýsingar fulltrúa rússneska fyrirtækisins hér á landi hafa ekki reynzt hafa við rök að styðjast, er félagsmálaráðherra enn að tuða um, að hann hafi ekki ástæðu til að vantreysta mönnunum. Þessi yfirlýsing hans er auðvitað mesta fjarstæða.

Nánast öll verktaka í Rússlandi og fylgiríkjum þess er rekin á mafíugrunni eins og raunar mestur hluti atvinnulífsins þar eystra. Þessi mafíukapítalismi, sem tók við af gamla ríkisrekstrinum, hefur á örskömmum tíma rúið þessa fjölmennu þjóð inn að skinni.

Gjaldþrot blasir við verktökum í Rússlandi um þessar mundir, af því að ríkið getur ekki lengur borgað neitt. Technopromexport er því í samstarfi við einkafyrirtækið Elektrosevkavmontaj um lagningu Búrfellslínu. Þetta verk er liður í að ná fótfestu í auðugum ríkjum.

Ódýrir þrælar eru það eina, sem þessi fyrirtæki hafa að bjóða umfram vestræn fyrirtæki, svo sem fram hefur komið hér á landi. Ef þrælahöldurum tekst að ryðjast inn á íslenzkan markað í skjóli ódýrs vinnuafls, er búið að brjóta löglega kjarasamninga á bak aftur.

Við þurfum að læra af þessari reynslu eins og annarri. Við þurfum framvegis að hafa gætur á stjórnendum Landsvirkjunar, sem hafa haldið verndarhendi yfir mafíósum í gleði sinni yfir að geta sniðgengið kjarasamninga til að ná niður virkjunarkostnaði.

Við höfum við búið við næg vandræði af hálfu Landsvirkjunar, svo sem eyðingu náttúruverðmæta til að geta selt niðurgreidda orku til stóriðju á kostnað almennings, þótt ekki bætist við, að þessi óvinveitta einkaleyfisstofnun reyni að brjóta niður löglega kjarasamninga.

Mál þetta hefur gefið bláeygum Íslendingum örlitla innsýn í skuggalega harmaveröld rússnesks þrælahalds, sem við megum alls ekki flytja inn í landið.

Jónas Kristjánsson

DV

Carpe Diem

Veitingar

François Fons ætti að stofna sérstaka matstofu fyrir sína skemmtilegu sérvizku, sem oft er bragðgóð. Hann hefur jafnan verið með fyrstu kokkum til að taka upp franskar nýjungar, svo sem nýfrönsku, léttu eldamennskuna fyrir tæpum tveimur áratugum og þá sveitafrönsku fyrir einum áratug. Hann getur áreiðanlega náð í viðskiptavini, ef hann rífst ekki of mikið við þá.

Fons hefur rekið inn nefið á ýmsum veitingastöðum og ekki alltaf staðið lengi við. Þess vegna er erfitt að benda á hann sem aðdráttarafl fyrir Carpe Diem. Hann getur verið farinn annað þegar þessi texti er lesinn. Auk þess er hann eðlilega ekki alltaf við. Í slíku tilviki kom dapurleg matreiðsla mér óþægilega á óvart.

Bourride-fiskisúpa hafði ekki snefil af fiskibragði og bragðaðist raunar eins og kokkurinn hefði misst saffran-staukinn ofan í súpuna, á jaðri þess að vera óæt. Skötuselur “að hætti François Fons” var eldaður sundur og saman, bragðlaus og borinn fram í ólystugum meðlætishaug. Lauksúpa “að hætti Halles” var mild og hversdagsleg laukssúpa með ristarbrauðsþaki. Betra var ofnsteikt íslenzkt grænmeti í eigin safa og balsamediki, kaldur og skemmtilegur forréttur. Góður var einnig meyr smokkfiskur með papriku og hvítlauk í góðri sósu þurrkaðra tómata.

Saltfiskur var fínn, borinn fram með olíuleginni sítrónu, bragðsterkri bökusneið kaldri og skinkubitum, baunagraut og ljósgulum, litlum baunum. Pönnusteiktar steinbítsræmur voru góðar, bornar fram með miklu af perlulauk og sveppum í brúnni og yfirgnæfandi Búrgundarsósu góðri. Hunangsgljáð og rósmarínkrydduð kjúklingabringa var meyr, borin fram í óviðkunnanlegum meðlætishaug með kartöfluþynnum og brúnni sósu. Verri var ofnsteiktur, grár og feitur lambahryggur á pönnusteiktum kartöfluþynnum undir haug af brúnni sósu.

Tatin-tertan var heit, en ekki köld og fólst í hálfum, bökuðum eplum, en nánast engu deigi og minnti lítið á uppskriftina. Karamellukrem var vanillubúðingur án karamellubragðs og karamellumarineraðar appelsínur voru súrar appelsínusneiðar án karamellubragðs.

Rauða og gula þemað í innréttingum Carpe Diem hefur verið eflt til að reyna árangurslaust að gera staðinn hlýlegri. Vélsmiðjuskreytingarnar hafa verið dempaðar, meðal annars með því að fjarlægja járnsoðinn vínrekk á miðju gólfi. Samt er þetta enn kaldur og stemmningarsnauður hótelsalur.

Hátt verðlag, 3.600 krónur fyrir þríréttað með kaffi, hæfir ekki tilviljanakenndri og brokkgengri matreiðslu staðarins og freistar ekki einu sinni embættismanna utanríkisráðuneytisins handan götunnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Góð málamiðlun

Greinar

Eðlilegt er, að þingmenn, sem sækja fylgi sitt einkum til gömlu kjördæmanna, sem náðu yfir einstakar sýslur, séu ekki sáttir við, að þær sýslur verði litlir og minni hlutar af allt öðrum kjördæmum en áður. Þess vegna er Páll Pétursson ráðherra óánægður þessa dagana.

Sérstök nefnd áhrifamanna allra þingflokka hefur orðið sammála um tillögur að nýjum kosningalögum og nýrri kjördæmaskipan, sem fela meðal annars í sér miklar breytingar á mörkum kjördæma til þess að tryggja, að enginn hafi minna en hálfan atkvæðisrétt.

Til þess að ná þessu hálfa réttlæti eru Húnavatnssýslur skildar frá Norðurlandi og settar með Vesturlandi og Vestfjörðum; Austur-Skaftafellssýsla skilin frá Austurlandi og sett með Suðurlandi; og Suðurnes skilin frá Reykjaneskjördæmi og sett með Suðurlandi.

Svo virðist sem Hornfirðingar séu ekki alveg andvígir því að flytjast frá Austurlandi til Suðurlands. Suðurnesjamenn eru meiri efasemdamenn í málinu, en verða þó svo fjölmennur hluti hins stækkaða Suðurlandskjördæmis, að þeir eiga að geta sætzt á málið.

Helzt eru það Húnvetningar, sem eiga erfitt með að vera slitnir úr hefðbundnu Norðurlandssamhengi og vera settir sem áhrifalítill minnihluti með Vestlendingum og Vestfirðingum. Þess vegna hefur Páll Pétursson á Höllustöðum orðið höfuðandstæðingur tillagnanna.

Í þjóðfélaginu og flestum stjórnmálaflokkunum er hörð andstaða gegn algerri jöfnun atkvæðisréttar. Tillaga, sem felur í sér minnkun mismunar niður í eitt atkvæði á dreifbýliskjósanda og hálft atkvæði á þéttbýliskjósanda, er skynsamleg málamiðlun í stöðunni.

Skýrari línur fengjust auðvitað, ef komið yrði á fót einmenningskjördæmum eða allt landið gert að einu kjördæmi. Fyrri aðferðin mundi leiða til meira misvægis atkvæðisréttar, meira misvægis á þingfylgi flokka og efla stöðu smákónganna, hvers í sínu héraði.

Sanngjarnast væri eitt kjördæmi fyrir eina þjóð í einu landi. Þá væri atkvæðisréttur þjóðarinnar jafn og þingstyrkur flokkanna í samræmi við kjörfylgi þeirra. Samgöngur innan slíks kjördæmis eru auðveldari en samgöngur voru í litlum kjördæmum gamla tímans.

Þar sem hvorki er stuðningur við einmenningskjördæmi né eitt kjördæmi, varð að finna málmiðlum um leið á borð við þá, sem kjördæma- og kosningalaganefndin hefur valið sér. Sem málamiðlun er tillagan mun einfaldari og betri en núverandi fyrirkomulag.

Þingmannafjöldi kjördæmanna verður svipaður og úthlutun jöfnunarsæta verður þess vegna tiltölulega einföld. Til dæmis verður ekki þörf fyrir flakkarann, sem er eins konar jóker í núverandi kerfi. Nýja kerfið er í heild gegnsærra og þess vegna heilbrigðara.

Nefnin gerir af sanngirni ráð fyrir, að flokkar geti fengið jöfnunarþingmenn, þótt þeir hafi ekki kjördæmakosna þingmenn, ef þeir ná 5% fylgi yfir landið í heild. Þetta felur í sér, að 5% fylgi er talið skilja milli kraðaks annars vegar og lýðræðis hins vegar.

Í tillögunum er gert ráð fyrir, að lagðar séu í kerfið einfaldari leiðir en nú til að breyta mörkum kjördæma eða þingmannafjölda kjördæma, ef misvægi atkvæðisréttar vex að nýju upp fyrir eitt atkvæði á móti hálfu. Minna ætti því að verða um kollsteypur í reglum.

Ef frá eru taldar ófullkomnar tillögur um röðun fólks á framboðslista og breytingar á þeirri röð, eru niðurstöður nefndarinnar góð málamiðlun í stöðunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Auðlindamáli drepið á dreif

Greinar

Hugmynd forsætisráðherra í eignarhaldsmálum auðlinda hafsins er, að vel stæðir borgarar, sem flestir eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins, geti keypt sig inn í hluta auðlindarinnar og að þessi kaup verði niðurgreidd, annaðhvort af ríkinu eða af fyrirtækjum sægreifa.

Þetta er uppvakning gamallar umræðu um almenningshlutafélög, sem Eyjólfur Konráð Jónsson alþingismaður hóf endur fyrir löngu, en náði þá ekki eyrum margra. Forsenda hugmyndarinnar var, að æskilegt væri, að sem flestir væru óbeinir aðilar að rekstri.

Almenningshlutafélög Eykons eru hið bezta mál og eiga framtíðina fyrir sér, þótt varlega beri að fara í niðurgreiðslur á hlutafé. Þetta framfaramál er samt óviðkomandi núverandi umræðu um, hvernig þjóðin geti endurheimt auðlindirnar úr höndum sægreifa.

Sú hugmyndfræði er á allt öðru sviði en hugmyndafræði almenningshlutafélaga, þótt þær stangist alls ekki á og geti að sumu leyti skarast. Krafan um endurheimt auðlindanna er krafa um réttlæti og krafa um eðlilegt markaðsgengi á aðgangi að auðlindum hafsins.

Með því að skammta aðgang að auðlindunum hefur ríkið skapað sumum forgang fram yfir aðra. Með þessari takmörkun á aðgangi hefur tekizt að lífga fiskistofna við, svo að til verða gífurleg aflaverðmæti, sem ekki fengjust, ef aðgangur hefði ekki verið skammtaður.

Eðlilegt er, að ríkið fái fyrir hönd þjóðarinnar eitthvað í sinn hlut fyrir að hafa endurreist fiskistofna og gert útgerð hagkvæma á nýjan leik. Einnig er eðlilegt, að sægreifar hafi engan forgang umfram aðra að því að hagnast á aðgangs-skömmtun almannavaldsins.

Einfaldasta lausnin er, að ríkið staðfesti þjóðareign á auðlindunum og bjóði upp þann aðgang, sem skömmtunarkerfið leyfir. Þar með finnst markaðsgengi á þessum aðgangi, alveg eins og að um þessar mundir er að finnast markaðsgengi á Landsbankanum.

Áður en ákveðið var að finna markaðsgengi Landsbankans á frjálsum markaði voru kallaðir færustu sérfræðingar til að meta verðgildi bankans. Þeir mátu auðvitað verðgildið vitlaust, eins og menn gera alltaf, þegar þeir neita að láta markaðinn um hituna.

Auðvitað væri samt framkvæmanlegt að reikna verðgildi aðgangsins að auðlindunum. Munurinn á útreiknuðu verði og uppboðsverði er markaðsfræðilegur munur, rétt eins og munurinn á fámennum hlutafélögum og almenningshlutafélögum er hagfræðilegur munur.

Útboð og almenningshlutafélög eru gagnleg hagstjórnartæki, sem varða sjávarútveg ekki sérstaklega, þótt þau nýtist honum eins og öðrum þáttum þjóðfélagsins. Fólk hefur hins vegar ekki verið að tala um hagstjórnartæki í umræðunni um eignarhald auðlinda.

Annaðhvort misskilur forsætisráðherra þessa umræðu eða þá, sem líklegra er, að hann vilji misskilja hana. Tilgangur hans er þá væntanlega að drepa málinu á dreif með því að beina áhuga kjósenda Sjálfstæðisflokksins með sjónhverfingu inn á aðrar brautir.

Þar sem kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru margir hverjir meðteknir af því, sem formaður þeirra segir þeim að trúa hverju sinni, má búast við, að forsætisráðherra takist að snúa umræðunni um eignarhald auðlinda að nokkru leyti yfir í umræðu um hlutafélagaform.

Þess vegna verða aðrir aðilar umræðunnar að muna, að hún snýst um, að þjóðin endurheimti eign, sem stjórnmálamenn stálu og afhentu sægreifum.

Jónas Kristjánsson

DV

Hóflegur ríkisrekstur

Greinar

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar endurspeglar ráðherraskipti fjármála. Það er betra en frumvörp síðustu ára, enda gerir það ráð fyrir, að góðærið verði ekki notað til að auka hlut ríkisbúsins af þjóðarbúinu, heldur notað til að grynnka á skuldum ríkissjóðs.

Heildarskuldir hins opinbera eru um þessar mundir byrjaðar að lækka eftir langt hækkunartímabil. Þær eru komnar niður fyrir 50% af landsframleiðslu og munu fara niður undir 40% á næsta ári, ef fjárlagafrumvarpið stenzt. Ríkið er þannig hætt að lifa um efni fram.

Allt frá árinu 1985 hafa útgjöld ríkisins verið meiri en tekjur þess. Það þýðir, að rekstrarkostnaði samfélagsins var að hluta velt yfir á herðar afkomenda okkar með vöxtum og vaxtavöxtum. Ein króna af hverjum tíu hefur farið í að greiða vexti af þessum skuldum.

Þótt skuldasöfnun af þessu tagi hafi löngum þótt ásættanleg víðar á Vesturlöndum en hér, er ekki til neitt lögmál, sem segir, að annað megi gilda um fjármál ríkissjóðs en fjármál heimilanna. Sérhverri kynslóð ber að skila eigum, en ekki skuldum, til afkomendanna.

Fjárlagafrumvarpið gerir ekki ráð fyrir, að tekjur af sölu eigna ríkisins, til dæmis í bönkum, verði notaðar í reksturinn, heldur notaðar til að minnka skuldirnar. Með sölu stóreigna hefur ríkið fengið tækifæri til óráðsíu, sem ríkisstjórnin hyggst ekki nota sér.

Á kosningaárum hefur ríkisstjórnum fyrri tíma reynzt auðvelt að kaupa sér frið og vinsældir með frjálslegum fjárlögum, sem fela í sér skuldasöfnun. Í þetta sinn lætur ríkisstjórnin tvöfalt tækifæri fram hjá sér fara, annars vegar góðærið og hins vegar einkavæðinguna.

Hvað sem segja má um þessa ríkisstjórn á öðrum sviðum, verður ekki hægt að saka hana um ábyrgðarlausa fjármálastefnu á kosningaári. Þótt æpt sé úr öllum áttum á aukin fjárframlög, hefur hún ákveðið að spyrna við fótum af fullri fjárhagslegri ábyrgð og einurð.

Hér er eingöngu verið að hrósa niðurstöðutölum fjárlaga, en ekki innihaldi þeirra að öðru leyti. Í einstökum liðum er illa farið með peninga, svo sem í heilbrigðisráðuneytinu, sem fær í sinn hlut 7­8% landsframleiðslunnar, en er samt að missa allt niður um sig.

Hér er ekki heldur verið að hrósa öðrum þáttum stjórnarstílsins en fjárlagafrumvarpinu einu. Ríkisstjórnin hefur enga burði til að taka á neinu af þeim málum, sem heitast munu brenna á þjóðinni á næsta kjörtímabili, öðrum en fjármálum ríkisins.

Ríkisstjórnin er ekki að endurmeta afstöðu landsins til viðskiptalanda okkar á meginlandi Evrópu og til sameiginlegs gjaldmiðils þeirra. Hún er ekki að endurmeta verðgildi ósnortins víðernis og víkja frá efnahagslega úreltum virkjana- og stóriðjudraumum.

Ríkisstjórnin er ekki að endurmeta eignarhald þjóðarinnar á auðlindum hafsins og endurheimta það úr höndum sægreifanna. Hún er ekki að endurmeta fábjánalegt og endurgjaldslaust framsal erfðafræðilegra upplýsinga í hendur amerísks ævintýrafyrirtækis.

Með þessari gagnrýni er ekki verið að segja, að einhver önnur stjórnmálaöfl í landinu muni bjóða þjóðinni betri lausnir og trúverðugar lausnir á þessum mikilvægu framtíðarverkefnum. Fátt bendir raunar til, að skynsamlegir kostir verði í boði á næsta vori.

Og ríkisstjórnin hefur það umfram aðra flokka og flokkasamsteypur, að henni er heldur betur treystandi til að hafa áfram hóf á ríkisfjármálunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Kínahúsið

Veitingar

Á síðustu árum hef ég komið oftar í Kínahúsið við Lækjargötuna en nokkurt annað veitingahús. Margt er það, sem dregur, matreiðsla, verðlag og andrúmsloft, sem samanlagt gera Kínahúsið að einni af helztu matarvinjum miðbæjarins. Þar er framreiddur bezti Kínamatur landsins á hóflegu verði.

Stemningin er samt minnisstæðust, vingjarnleg og friðsæl, studd mildri tónlist austrænnar ættar að tjaldabaki. Einföld salarkynni lifna við vandaðar Kínaskreytingar á borð við ljósakrónur, útskorna tréskerma og skelplötumyndir. Vestræn þjónusta er hlýleg og látlaus.

Í hádeginu kostar rækjuréttur 575 krónur og þríréttað með súpu 675 krónur. Á kvöldin fást fimm smáréttir saman á 1375 krónur og ýmsar aðrar réttasyrpur á 1975 krónur að meðaltali. Meðalverð á þríréttuðu að frjálsu vali af löngum seðli með kaffi er 2.165 krónur.

Matreiðslan er vönduð og traust, alltaf eins, dag eftir dag og ár eftir ár. Djúpsteikingar eru hóflegar og eldunartímar skammir. Hér er sérstaklega eldað fyrir hvern og einn, en ekki ausið pottréttum upp úr hitakössum, svo sem víða tíðkast í veitingahúsum, sem sögð eru kínversk eða austræn.

Súpur eru yfirleitt matarmiklar, flestar eggjablandaðar, svo sem mild sjávarréttasúpa, sterk Pekingsúpa með andakjöti og sterk karríkrydduð andakjötsúpa. Bezt slíkra var humarsúpa með stórum og meyrum humarbitum. Súpa dagsins hefur verið tær og mild hvítkálssúpa, ekki áhugaverð.

Rækjur hafa reynst mér vel í ótal útgáfum. Algengastar og þó lakastar eru milt hjúpaðar, djúpsteiktar rækjur í súrsætri sósu. Betri voru pönnusteiktar rækjur með cashew-hnetum og rækjur í karrí með grænmeti. Aðrir sjávarréttir voru líka góðir, svo sem meyr og fínn hörpudiskur með sterkri ostrusósu. Of seigur var þó smokkfiskur með grænni papriku og bambusspírum.

Kjúklingar hæfa matreiðslu af þessu tagi, svo sem bragðsterkur Szechuan-kjúklingur með rauðri sósu, meðalsterkur kjúklingur í karrí eða mildur kjúklingur með grænmeti. Andakjöt er lakara og sízt er Pekingönd. Lambakjöt var sæmilegt með ostrusósu, sveppum og bambus. Vorrúllur hafa alltaf reynzt sérstaklega góðar, þunnar og stökkar, greinilega gerðar á staðnum.

Af eftirréttum er áhugaverðust eplarúlla, djúpsteikt pönnukaka með eplasultu. Jasmínte drekkum við með matnum og milt kaffi á eftir, ef tími vinnst til. Hingað fer ég oftast, þegar ég nenni ekki að elda.

Jónas Kristjánsson

DV

Illa rekið ráðuneyti

Greinar

Svo mikið fé fer til heilbrigðismála hér á landi, að unnt á að vera að reka heilbrigðiskerfið á sómasamlegan hátt, þannig að biðlistar sjúkrahúsa styttist frekar en lengist, fátækt fólk treystist til að nota þjónustuna og árleg tölfræði sýni batnandi heilsu þjóðarinnar.

Innbyggð verðbólga í kerfinu veldur því hins vegar, að óbreytt magn þjónustu hækkar í kostnaði milli ára. Þannig stækkaði sneið heilbrigðismálanna af landsframleiðslunni frá ári til árs, unz náð var svo stórri sneið, að þjóðfélagið hefur ekki treyst sér til að gera betur.

Síðan hefur flest verið á hverfanda hveli í heilbrigðisgeiranum. Ríkinu hefur ekki tekizt að halda uppi óbreyttri þjónustu á óbreyttu verði. Fjárveitingar til sjúkrastofnana hafa verið skornar niður, deildum lokað, og tekin upp þátttaka sjúklinga í ýmsum kostnaði.

Heilbrigðisráðuneytið hefur ekki reynzt vandanum vaxið. Því hefur til dæmis ekki tekizt að skilgreina, hvers vegna hér eru sífelldar kjaradeildur í heilbrigðisgeiranum, þótt kostnaður hans og hlutdeild launa í kostnaðinum sé hinn sami og á Norðurlöndum.

Heilbrigðisráðuneytinu hefur ekki heldur tekizt að forgangsraða verkefnum í geiranum á þann hátt, að sómasamlega sé staðið að þeim verkefnum, sem hann á annað borð tekur að sér. Í staðinn hefur komið flatur niðurskurður, sem sýnir uppgjöf ráðuneytisins.

Víða úti á landi eru elliheimili rekin undir yfirskini sjúkrastofnana og á kostnað heilbrigðisgeirans, þótt slík starfsemi eigi heima annars staðar. Þetta er gert að undirlagi óprúttinna pólitíkusa, sem eru að reyna að hlaða framkvæmdum og rekstri í kjördæmi sín.

Af því að heilbrigðisráðuneytið er veikt ráðuneyti, hefur það ekki hamlað gegn slíkri misnotkun á peningum til heilbrigðismála. Raunar hefur ekkert komið í ljós, sem bendir til, að ráðuneytið hafi reynt að marki að verjast þessu, enda er það meira eða minna meðsekt.

Mikilvægast er, að ráðuneytið geti tekið frumkvæði í málum og sé ekki sífellt að berjast við afleiðingar fyrri ákvarðana. Varnarstríð í tímahraki leiðir til, að það neitar að horfast í augu við staðreyndir og heimtar bara flatan niðurskurð á síðustu mánuðum ársins.

Úr því að hæfileikar til skipulags og rekstrar eru ekki á lausu í ráðuneytinu, þarf að kaupa til sérfræðiþjónustu, svo sem víða er gert. Skilgreina þarf, hvaða þjónustu ríkið vill veita í heilbrigðismálum og hvaða verð það er að borga fyrir ýmiss konar þjónustu.

Ef sambærileg þjónusta er dýrari á einum stað en öðrum, er eðlilegt, að þar séu seglin dregin saman, en fremur aukin starfsemin á hinum stöðunum, þar sem tekst að framkvæma sömu þjónustu með minni tilkostnaði. Þannig má beita markaðslögmálum af skynsemi.

Ráðuneytið hefur hins vegar ekki hugmynd um, hvað markaðslögmál eru. Það hefur ekki tök á neinum þeim vopnum, sem einkareksturinn hefur til að minnka kostnað og auka hagnað. Það er varnarlaust fórnardýr reglunnar um innbyggða verðbólgu kerfisins.

Þetta leiðir til gerræðislegra neyðarráðstafana, sem væru óþarfar, ef heilbrigðisráðuneytið hefði skilgreind og framkvæmanleg markmið, vissi um misjafnan kostnað við sömu þjónustu og beitti allri þessari þekkingu og tækni til að ná tökum á sökkvandi skipi sínu.

Dæmigert er svo, að þetta lélega ráðuneyti skuli ekki geta undirbúið ráðherra sinn til að koma sómasamlega fram fyrir hönd þess, þegar mikið liggur við.

Jónas Kristjánsson

DV

Skákmenn hossa mafíósa

Greinar

Kirsan Iljíumzhínov, forseti sjálfstjórnarhéraðsins Kalmykíu í Rússlandi, er mafíósi, sem ræður héraðinu í skjóli þess, að veikur armur rússneskra stjórnvalda nær ekki lengur til úthéraða. Helzta áhugamál þessa mafíósa er að gera héraðið að skákmiðstöð heimsins.

Í sumar lét Iljíumzhínov myrða Larisu Judinu, 53 ára gamla ömmu, af því að hún hafði skrifað um ýmsa spillingu og lögleysu í héraðinu. Hann hafði áður komið í veg fyrir, að blað hennar væri prentað þar, en hafði ekki getað hindrað, að það væri prentað utanhéraðs.

Rannsóknarlögreglumenn frá Moskvu könnuðu málið. Niðurstaðan var sú, að Sergei Stepashin, þáverandi innanríkisráðherra Rússlands, sagði, að þetta væri dæmigerður mafíuglæpur. Og Jeltsín Rússlandsforseti sagði, að lögreglunni í Kalmykíu væri ekki treystandi.

Iljíumzhínov komst til valda á kosningaloforðum um að gera Kalmykíu að eins konar Kúveit, þar sem hver íbúi ætti gemsa. Síðan hefur hann hagað sér gerræðislega, látið myrða þá, sem standa í vegi hans, rænt öllu steini léttara í héraðinu og fengið sér sex Rollsa.

Eitt af áhugamálum ódæðismannsins er að láta birta um sig teiknimyndasögu í Batman-stíl. Annað áhugamál hans er, að gera Kalmykíu að skákveldi. Með mútum hefur honum tekizt að verða forseti Alþjóða skáksambandsinsins og halda ólympíuskákmót í Kalmykíu.

Iljíumzhínov er skrípamynd af hinum gamalkunna Campomanesi, sem varð ríkur af því að stela fé á Filippseyjum í skjóli Marcosar, þáverandi forseta og stórtækasta þjófs aldarinnar, og notaði peningana til að kaupa sér atkvæði í forsetaembætti skáksambandsins.

Skákmenn hafa löngum látið sig hafa það, að forsæti Alþjóða skáksambandsins gengi kaupum og sölum. Þetta varð þeim álitshnekkir á valdatíma Campomanesar, sem var þó bara þjófur, en er orðið verra núna, þegar ruglaður mafíósi og morðingi er orðinn sambandsforseti.

Til þess að geta haldið ólympíuskákmót í Elista, höfuðborg sjálfstjórnarhéraðsins, hefur Iljíumzhínov stolið öllu fé, sem átti að fara til rekstrar barnaheimila, skóla og sjúkrahúsa. Fyrir þá peninga er íslenzka ólympíusveitin nú komin til Kalmykíu að tefla skák.

Margar vestrænar skáksveitir sátu heima frekar en að óhreinka sig á ránsfé mafíósans. Það gerðu íslenzkir skákmenn hins vegar ekki, enda sáu þeir sér færi á að komast í efra sæti á mótinu, ef betri skákþjóðir mættu ekki til leiks. Þetta eru menn lítilla sanda og sæva.

Margir hafa þá skoðun, þegar það hentar skammtímahagsmunum þeirra, að ekki beri að skipta sér af því, sem þeim komi ekki við. Íslenzka skáksambandið hefur á þessum grundvelli ákveðið, að siðalögmál þurfi ekki að hindra íslenzka skákmenn í að fara til Kalmykíu.

Ef almennt væri hugsað svona á Vesturlöndum, væri illt í efni. Það er einmitt aðallega fyrir margs konar þrýsting frá Vesturlöndum, að þjófar og morðingjar á borð við Iljíumzhínov hafa hrökklazt frá völdum í þriðja heiminum og líðan fólks þar orðið bærilegri.

Þess í stað eru íslenzkir skákmenn orðnir hluti af skrautsýningu austur í Elista. Ólympíumótið nær þó ekki því markmiði að fella í gleymsku óhæfuverk á borð við morðið á Larissu Judínu. Það þvær ekki mafíósann, en óhreinkar þá, sem taka þátt í sýningunni.

Við munum ekki klappa, þegar Íslendingarnir koma heim og guma af að hafa náð góðum árangri í skjóli þess, að betri skákmenn höfðu ekki lyst á að mæta.

Jónas Kristjánsson

DV

Gagnagrunns-skaðabætur

Greinar

Skynsamlegt er að horfa til Bandaríkjanna, þegar við viljum öðlast sýn inn í framtíðina. Algengt er, að þar vestra sjáist fyrst merki þess, sem síðar heldur innreið sína austan hafs, þar á meðal á Íslandi. Nýjungar til góðs og ills eiga gjarna upptök sín í Bandaríkjunum.

Þar vestra hrannast nú upp dæmi þess, að tryggingafélög neiti heilbrigðu fólki um tryggingar vegna meingena í forfeðrum þess. Einnig hrannast þar upp dæmi þess, að fyrirtæki neiti heilbrigðu fólki um atvinnu, nema það reynist í erfðaprófi vera án meingena.

Tryggingafélög vilja ekki viðskiptavini og atvinnurekendur vilja ekki starfsmenn, sem tölfræðilega eru líklegri en aðrir til að fá ýmsa arfgenga sjúkdóma. Þar sem flestir algengustu og dýrustu sjúkdómar nútímans eru að nokkru leyti arfgengir, er mikið talið vera í húfi.

Enginn vafi er á, að þessi ameríkanisering mun flytjast hingað eins og önnur. Hér verður hins vegar ljóst, hvaðan þær upplýsingar koma, sem leiða til, að tryggingafélög framtíðarinnar munu neita fólki um tryggingu og atvinnurekendur neita því um atvinnu.

Það verður líka deginum ljósara, að þeir, sem fyrir þessu verða, munu sækja skaðabætur í hendur ríkisins, sem hyggst á næstu mánuðum veita bandarísku fyrirtæki sérleyfi til að setja saman miðlægan gagnagrunn með ógrynni erfða- og ættfræðilegra upplýsinga.

Þetta gerir ekki gagnagrunninn endilega skaðlegan. Þetta þýðir samt, að málsaðilar þurfa þegar í upphafi að gera sér grein fyrir líklegum kostnaði vegna skaðabótaskyldu. Ríkið kann að þurfa að borga fórnarlömbum mikið fyrir að hafa veitt deCode Genetics leyfi.

Þar með hefur þriðja spurningin bætzt við þær tvær fyrri, sem enn kalla á svör stjórnvalda. Hinar tvær spurningarnar eru um veitingu sérleyfis og um útstrikunarrétt fólks. Þær hafa komið fram í ýmsum útgáfum og þeim ekki svarað á frambærilegan hátt.

Staðan er enn sú, að ríkið hyggst veita sérleyfi og gefa það, þótt hvort tveggja sé hagfræðilega úreltur gerningur. Staðan er enn sú, að ríkið hyggst leggja frumkvæðiskröfu að útstrikunum á herðar þeirra lifandi og látnu, sem ekki vilja hafa neitt um sig í gagnabankanum.

Þverstæðan í öllu þessu er, að það eru einmitt upplýsingar um látið fólk, sem geta orðið afkomendum þeirra að fótakefli löngu síðar. Þess vegna er nauðsynlegt, að stjórnvöld átti sig á, að hér er um að ræða viðkvæmar og verðmætar upplýsingar en ekki gjafavöru.

Umbylta þarf gagnagrunns-frumvarpinu. Koma þarf betur en áður til móts við sjónarmið úr umræðunni um persónuvernd. Samtengdar upplýsingar í miðlægum gagnagrunni eru hundraðfalt viðkvæmari en stakar skýrslur, sem legið kunna að hafa á glámbekk.

Aðganginn að sjúkraskýrslunum á síðan að selja eða bjóða upp, af því að eðlilegt afgjald að mati markaðarins á jafnan að koma fyrir afhendingu verðmæta. Ríkisvaldið getur notað peningana til að bæta stöðu heilbrigðismála og til að eiga fyrir síðari skaðabótakröfum.

Umræðan um gagnagrunnsfrumvarpið er orðin mikil og hafa gagnrýnendur þess haft fullan málefnasigur. Stjórnvöld hafa enga afsökun fyrir því að leggja það fram eftir mánaðamótin án þess að breyta því fyrst til samræmis við samfelldan áfellisdóm umræðunnar.

Vont var að stjórnvöld skyldu gefa íslenzkum sægreifum auðlindir hafsins. Verra er, ef þau gefa bandarísku fyrirtæki auðlindir erfða- og ættfræðinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Iðnó

Veitingar

Iðnó er notalegast í björtu sumarveðri, þegar stórir og þétt settir bogagluggar veita útsýni yfir Tjörnina, en einnig þægilegt við kertaljós að kvöldi. Salurinn er smekklega gamaldags án þess að höfða til fortíðarþrár, gulbrúnn að lit, skreyttur panil neðan og veggsúlum á eina langhlið.

Lítið er um aðskiljanlegt dót, nema fuglastyttur í gluggum. Fyrst og fremst er allt vandað og stílhreint, borð og stólar, ísaumaðir dúkar undir glerplötum, tauþurrkur í hádegi sem að kvöldi og íhaldssamt borðstell. Að hætti evrópskra millistríðshótela eru pálmaplöntur á miðju gólfi.

Þessu fylgir traust og góð þjónusta og matreiðsla, sem stundum fer sínar eigin slóðir, en nær sjaldan hæstu hæðum. Enginn réttur var að neinu leyti misheppnaður, en fáir minnisstæðir. Með klofningi Tjarnarinnar í tvo veitingastaði hafa báðir erfingjarnir lækkað flugið í átt til meðalmennskunnar.

Frá systurstaðnum er ættuð kryddnotkunin, sem er helzti styrkleiki eldhússins, í mildri sesam- og balsamsósu með léttreyktri villigæsabringu, í saffran- og engiferblandaðri tómatsósu með hörpuskelfiski, í möndlublandaðri portvínssósu með silungi, og í hvítlauks- og fáfnisgrasasósu með lambarifjasteik.

Þetta kemur líka fram í súpunum, magnaðri tómatsúpu dagsins með steinselju og tómatbitum, og hvítvínslagaðri tómatsúpu með kræklingum í skelinni. Ljúflega eldaður hörpuskelfiskur var nærri eins góður og skemmtilega kryddaður humar að hætti hússins, borinn fram með rauðlauk og steiktum kartöfluræmum.

Sízti aðalrétturinn var ofeldaður silungur, skemmtilega húðaður smásöxuðum möndlum. Betri var olíusteiktur saltfiskur með hvítlauk og basilikum, undir hatti af kartöflustöppu og með rauðlauk til hliðar.

Kanínukjöt er á boðstólum, mitt á milli kjúklinga og grísakjöts og heldur betra, með blóðbergi og rauðvínssósu. Góð var hæfilega fituskorin og nákvæmlega elduð lambarifjasteik, fallega upp sett með kryddlegnum gulrótum. Bezti aðalrétturinn var eggjaspínatbaka fyrir grænmetisætur.

Svokölluð eplakaka var sívalt frauð án eplabragðs á litlum brauðbotni, með þeyttum rjóma, gulri kanilsósu og rauðri berjasósu. Hefðbundin var súkkulaðiterta með koníakssósu, tvenns konar berjum og þeyttum rjóma. Kaffi var gott.

Iðnó er heldur dýrara en systurhúsið, 4.100 krónur á mann fyrir þríréttað með kaffi og 1.600 krónur fyrir súpu og aðalrétt í hádeginu. Verðlagið vekur spurninguna, hvort ekki sé komið nóg af dýrum sæmdarstöðum, sem líkjast hver öðrum.

Jónas Kristjánsson

DV

Hagsýni heimilanna

Greinar

Þúsundkallarnir fjúka fyrir lítið í föstudagsinnkaupum sumra heimila, ef dæma má af því, sem fólk hefur í vörukerrum sínum við kassana í matvöruverzlunum. Svipaða vangá má sjá á götunum af nýkeyptum bílum af bilanagjörnum og endingarlitlum tegundum.

Samanlögð endurspeglast eyðslan í rúmlega 400 milljarða skuldum heimilanna, sem hafa aukizt um rúma 40 milljarða frá sama tíma í fyrra. Þetta þýðir, að fólk hefur ekki bara lagt út sem nemur allri 8% kaupmáttaraukningunni, heldur 12% skuldasöfnun að auki.

Meðan þjóðfélagið verður flóknara með hverju árinu, hefur þekking og kunnátta almennings í viðskiptum aukizt hægar en þekking og kunnátta í sölumennsku og markaðssetningu. Í sumum tilvikum er farið með neytendur eins og viljalaus reköld innkaupafíkla.

Þeir, sem minnst mega sín í lífinu, sýna oft minnsta aðgæzlu í umgengni sinni við peninga. Þeir hafa ekki frekar en aðrir hlotið neina neytendafræðslu í skólum og nýta sér síður en aðrir gagnlegar upplýsingar, sem birtast á neytenda- og viðskiptasíðum dagblaðanna.

Þeir, sem lengi hafa fylgzt vel með slíkum fréttum, vita, að mikla kaupmáttaraukningu má hafa af aðgát í viðskiptum. Lesendur bílasíðna DV vita til dæmis margir hverjir, að rannsóknir sýna, að bílategundir endast mismunandi lengi og bila mismunandi mikið.

Lesendur DV og forvera þess hafa áratugum saman haft aðgang að neytendasíðum, þar sem gerður er samanburður á verði og gæðum og fjallað um margvíslega aðra hagsmuni neytenda. Frá upphafi hefur þetta efni verið einn meginstólpanna í sérstöðu DV.

Hingað til hafa neytendasíður mest fjallað um matvæli, aðrar heimilisvörur og -þjónustu, en minna um kaup og rekstur á eignum, svo sem húsnæði og bílum og minnst um verðmæta pappíra af ýmsu tagi, sem gegna vaxandi hlutverki í fjármálum alls almennings.

Á þessu verður breyting í dag. Til viðbótar við neytendasíður, sem birtast hversdagslega í blaðinu, verður á fimmtudögum fjögurra síðna samfelldur efnisflokkur, þar sem fjallað er um tilboðsverð, um mat og heimilisvörur, um fastar og lausar eignir og um pappíra.

Verðkannanir verða þungamiðjan, verðkannanir á einstökum vörum og vöruflokkum, þjónustu og þjónustuflokkum. Við berum saman seljendur og förum stundum út fyrir landsteinana af því tilefni. Með gæðakönnunum fyllum við svo myndina enn betur.

Í dag er verðkönnun á gemsum. Einnig er fjallað um innkaupavenjur Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra og benzínsparnað Þórarins Sigþórssonar tannlæknis. Ennfremur um misjöfn áhrif kreppunnar í Austurlöndum á eign fólks í ýmsum verðbréfasjóðum.

Svo að upplýsingarnar komist sem bezt til skila, er efnið gert myndrænt. Þannig viljum við stuðla betur en áður að því gamla hlutverki DV að auðvelda lesendum sínum lífsbaráttuna og hjálpa þeim við að taka betri og yfirvegaðri þátt í lífskjarabyltingu nútímans.

Við reiknum með, að þetta leiði ekki aðeins til bætts fjárhags þeirra, sem notfæra sér efnið, heldur hafi líka þau óbeinu áhrif, að auglýsingar og önnur markaðssetning verði fólki gagnlegri með því að gera meira en áður ráð fyrir, að neytendur séu viti borið fólk.

Nútíminn færir okkur auknar flækjur og aukin tækifæri. Með þekkingunni öðlumst við betri tækifæri til að gera það, sem okkur langar til að gera.

Jónas Kristjánsson

DV

Aðför að forseta

Greinar

Áður en bandaríski þingmaðurinn og nefndarformaðurinn Henry Hyde tók forustu í þinginu um að auglýsa einkamál Clintons forseta hafði hann sjálfur haldið framhjá með giftri konu og eyðilagt hjónaband hennar. Clinton hafði þó aðeins verið að dufla við ógiftar konur.

Þingmaðurinn var í senn hórkarl og hjónadjöfull og er að því leyti verri en forsetinn. Það má hafa til marks um dæmigerðan bjálka í eigin auga. Tæplega helmingur nýrra þingmanna hefur skilið vegna framhjáhalds og má einnig hafa það til marks um grjótkast úr glerhúsi.

Enginn minnsti vafi er á, að rannsóknardómarinn Starr og meirihluti repúblikana í þinginu eru að reyna að koma höggi á demókratann í forsetastóli. Með milljarða kostnaði hefur ekki tekizt að sýna fram á neitt annað en að forsetinn hefur logið til um framhjáhald.

Flestir reyna að fela framhjáhald sitt og grípa til lyginnar, þegar í harðbakkann slær. Það þýðir ekki, að þeir hinir sömu séu slíkir lygarar að eðlisfari, að þeir séu ófærir um að gegna ábyrgðarstörfum. Gamalt máltæki segir, að allt sé leyfilegt í ástum og stríði.

Að vísu vill svo til, að forsetinn hefur á stjórnmálaferli sínum sýnt eindreginn vilja til að fegra sögu sína og stöðu, svo að mörgum finnst líklegt, að ósannindi hans í einkamálum endurspegli grundavallarbrest í skaphöfn hans, sem geri hann óhæfan til embættis síns.

Forsetinn liggur því vel við höggi repúblikana. Eftir því sem sögurnar verða nákvæmari og myndrænni, þeim mun fleiri komast á þá skoðun, að hann sé eða hafi verið gerður óhæfur um að gegna embættinu. Völdin í landinu munu þá færast meira í hendur þingsins.

Sá hængur er þó á ráðagerðinni, að Gore varaforseti mun taka við, ef Clinton verður hrakinn frá völdum. Varaforsetinn er flekklaus í einkamálum sínum og fær í forsetastóli svo vænt forskot á keppinautinn um sætið, að Gore má heita öruggur um að hljóta kosningu.

Repúblikanar veðja hins vegar á, að það sé eðli Clintons að gefast aldrei upp, enda hafi hann á ferli sínum tekið trú á mikla þrautseigju og lagni sína við að koma sér úr vondum klípum. Þeir vona, að hann haldi fast í stólinn og bíði eftir kraftaverki, sem ekki komi.

Þótt þetta gangi eftir, eru repúblikanar ekkert betur settir en demókratar í næstu forsetakosningum. Þeir verða sagðir ófærir um að skipa embætti, sem þeir hafa markvisst niðurlægt og eyðilagt. Þeir verða sakaðir um að hafa gert forsetaembættið varanlega óvinnufært.

Repúblikanar hafa enga langtímasýn yfir afleiðingar aðfararinnar að forsetanum og forsetaembættinu. Þeir eru aldir upp í þjóðfélagi skammtímalausna, þar sem fyrirtæki verða að sýna mikinn og batnandi árangur í uppgjöri tvisvar eða fjórum sinnum á ári.

Sérfræðingar skammtímalausna telja, að röð slíkra lausna jafngildi langtímalausn. Þeir geti á hverjum tíma leyst þau mál, sem upp komi. Hitt er þó líklegra, að sigur í einu máli framkalli ófyrirséðar hliðarverkanir, sem geri sumar skammtímalausnir verri en engar.

Bandarískir kjósendur ákveða svo auðvitað að lokum, hver græðir til skamms og langs tíma á aðför repúblikana að forsetanum og forsetaembættinu. Munu kjósendur haga sér eftir því, sem ætlast er til af grjótkösturum úr glerhúsi og sérfræðingum í pólitísku skítkasti?

Kjósendur vestra eru tvístígandi. Niðurstaðan verður sú sem jafnan, að þeir fá til langs tíma þá stjórnmálamenn, þingmenn og forseta, sem þeir eiga skilið.

Jónas Kristjánsson

DV