Hafnlausar skoðanir

Greinar

Mörg þeirra mála, sem núna brenna heitast á okkur, eru þess eðlis, að annað sjónarmiðið á sér enga heimahöfn meðal stjórnmálaflokkanna. Kosningarnar í vor verða ekki neinn kostur í stöðu margra kjósenda, sem sjá hvergi tekið undir sín mál af neinni alvöru.

Margir eru þeir, sem vilja gerast aðilar að Evrópusambandinu, af því að þeir telja, að slíkt efli samkeppnishæfni íslenzkra fyrirtækja og bæti lífskjör fólks, magni réttlæti í landinu og dragi úr möguleikum vondra stjórnmálamanna innlendra að verjast þessu öllu.

Eftir samstöðu Alþýðuflokks og Alþýðubandalags er ekki lengur unnt að vænta heimahafnar fyrir þessi sjónarmið hjá Alþýðuflokknum. Samkvæmt málefnasamningi segja þessir flokkar sameiginlega pass í málefnum Evrópu. Heimahöfn Evrópukrata er horfin.

Margir eru þeir, sem vilja koma auðlindum hafsins aftur í þjóðareign og hefja uppboð á þeim takmarkaða aðgangi, sem að þeim er. Þeir telja þetta vera réttlætismál og leið heiðarlegs markaðsbúskapar, þegar skömmtun er óhjákvæmileg á takmörkuðum gæðum.

Enginn stjórnmálaflokkur eða samsteypa býður eindregið þennan kost í stöðunni, ekki einu sinni flokkurinn, sem segist vera lengst til vinstri og þá væntanlega mesti sameignarflokkurinn. Forustumaður þess flokks er raunar einn helzti málsvari sægreifanna.

Margir eru þeir, sem vilja hindra, að einni eða fleirum af helztu náttúruperlum landsins verði sökkt í miðlunarlónum orkuvera og lagðar raforkulínur um ósnortin víðerni landsins. Þeir vilja til dæmis, að Þjórsárver og Eyjabakkaver fái að halda sér eins og þau eru.

Enginn stjórnmálaflokkur eða samsteypa býður eindregið þennan kost í stöðunni, nema flokkur Hjörleifs Guttormssonar, en kjósendur hans verða þá í leiðinni að sætta sig við vaðmálssósíalisma í landbúnaði og stuðning við sægreifa gegn almannahagsmunum.

Margir eru þeir, sem vilja ekki, að lögmál markaðsbúskapar séu brotin með því að veita einu fyrirtæki sérleyfi á mikilvægum sviðum heilbrigðisrannsókna, og vilja ekki, að mannréttindi séu brotin með hættulegri krosstengingu persónuupplýsinga á einum stað.

Enginn stjórnmálaflokkur býðst til að lýsa því yfir, að hann vilji láta afturkalla forréttindin án þess að skaðabætur verði greiddar, af því að forustuliði forréttindafyrirtækisins sé kunnugt um, að pólitískur ágreiningur sé og muni verða um veitingu forréttindanna.

Hér hafa verið rakin fjögur dæmi um útbreidd sjónarmið, sem eiga hvergi heima í kosningabaráttunni. Til skamms tíma nutu sjónarmið af slíku tagi helzt skjóls hjá Alþýðuflokknum, sem jafnframt var þekktur sem valdaflokkur af ótryggum stuðningi við eigin stefnu.

Eftir samstöðu Alþýðuflokks og Alþýðubandalags hafa með öllu horfið haldlitlar væntingar um sérstöðu Alþýðuflokksins. Samstaðan er nokkurn veginn nákvæmlega eins og flokkur og tvíburaflokkur Framsóknar og Sjálfstæðis og býður því engan kost í stöðunni.

Því miður er ekki jarðvegur fyrir stjórnmálaflokk, sem setti mál af þessu tagi á oddinn. Þótt hægt væri að ná saman framboðsliði heiðarlegs og vel metins fólks, sem hefði náð árangri í starfi hvert á sínu sviði, þá mundu kjósendur aðeins gefa slíku framboði þrjú þingsæti.

Þessi íhaldssömu viðhorf kjósenda eru myllusteinn um háls þeirra sjálfra og valda því, að stjórnmál snúast í raun um fyrirgreiðslur í þágu pólitískra gæludýra.

Jónas Kristjánsson

DV

Tilkynningarskylda Framsóknar

Greinar

Formaður Sjálfstæðisflokksins upplýsti um helgina, að hann væri hinn ánægðasti með viðhorf formanns Framsóknarflokksins til Evrópusambandsins, enda hefði formaðurinn fyrirfram sýnt sér stefnuræðuna, sem hann ætlaði að flytja á flokksþingi sínu um helgina.

Tilkynningarskylda Framsóknarflokksins gagnvart Sjálfstæðisflokknum er eðlileg afleiðing af góðum takti í stjórnardansi flokkanna. Flokkarnir hafa nálgast hvor annan svo mjög, að erfitt er að greina milli þeirra, enda er sjálfgefið, að þeir starfi saman eftir kosningar.

Framsóknarflokkurinn staðfesti um helgina, að flokkarnir eru sammála um, að hálfs annars áratugar gömul ákvörðun um stórvirkjun á Austurlandi skuli standa, án þess að fram fari umhverfismat á sama hátt og skylt er að gera, áður en ráðizt er í aðrar virkjanir.

Flokkarnir eru sammála um að afgreiða málið með þessum tæknilega hætti og taka ekki tillit til þess málefnalega sjónarmiðs, að í þessu máli sem öðrum þurfi að reikna dýrar frádráttarhliðar inn í reikningsdæmi, sem fyrir fimmtán árum voru einhliða talin jákvæð.

Framsóknarflokkurinn staðfesti um helgina, að flokkarnir eru sammála um, að standa fast að baki fyrri ákvarðana um, að auðlindir hafsins hafi verið og séu enn eign nokkurra útgerðarfyrirtækja, en almenningur megi kaupa sig dýrum dómum inn í þessa eign.

Flokkarnir eru sammála um að drepa málefnakröfunni um þjóðareign auðlinda hafsins á dreif með því að fleygja til þjóðarinnar ruðum á borð við, að einhver hluti heimilda til aukningar á veiði frá því, sem nú er, geti farið framhjá eignaskiptum útgerðarfyrirtækja.

Framsóknarflokkurinn staðfesti um helgina, að eftir yfirlýsingu forsætisráðherra í sumar megi nú ræða um, hvort Ísland eigi að ræða við Evrópusambandið um möguleika á einhvers konar aðild, án þess að í því felist nokkur ákvörðun um að stefna að slíkri aðild.

Flokkarnir eru sammála um, að ótímabært sé að taka mark á Evrópusinnum, sem telja, að viðskiptahagsmunum og fjármálahagsmunum, vísindahagsmunum og menntunarhagsmunum, réttlætishagsmunum og velferðarhagsmunum okkar sé bezt borgið í sambandinu.

Framsóknarflokkurinn staðfesti um helgina, að flokkarnir eru sammála um, að stefna frjáls markaðsbúskapar skuli víkja fyrir óskum bandarísks fyrirtækis um sérleyfi á heilsugagnagrunni um Íslendinga, enda hefur flokknum alltaf liðið vel sem skömmtunarstjóra.

Flokkarnir eru sammála um, að ekki sé þörf á að hlusta á þau 95% fræðimanna á fjölmörgum sviðum, sem hafa kvatt sér hljóðs um gagnagrunninn og finna honum flest til foráttu. Flokksþingið át úr lófa ráðherranna á þessu sviði sem öðrum framangreindum sviðum.

Athyglisvert er, að þessir tveir hjartanlega sammála stjórnmálaflokkar eru einmitt þeir, sem harðast hafa staðið gegn kröfunni um, að flokkar opni fólki sýn inn í fjármál sín, svo að sjá megi, í hversu miklum mæli hvaða stórfyrirtæki standa undir rekstri þeirra.

Þetta eru einmitt flokkarnir, sem áratugum saman hafa ýmist bitizt um misjafnan aðgang kolkrabbans og smokkfisksins að ríkiskötlunum eða gert með sér helmingaskiptafélag um aðganginn. Þetta eru flokkar útvalinna sérhagsmuna gegn almannahagsmunum.

Þar sem auðugu sérhagsmunirnir í þjóðfélaginu eru farnir að renna í einn og sama farveg, munu flokkarnir tveir geta unnið saman um ófyrirsjáanlega framtíð.

Jónas Kristjánsson

DV

Sami gamli flokkurinn

Greinar

Um helgina mun Framsóknarflokkurinn staðfesta á flokksþingi sínu, að hann sé ekki umhverfisvænn stjórnmálaflokkur. Að hefðbundnum sið mun hann ítreka, að staðbundnir sérhagsmunir skuli ráða, hvernig og hvenær íslenzkri náttúru skuli verða misþyrmt.

Áður einkenndi andúð Framsóknarflokksins á náttúru landsins, að hann studdi jafnan af mikilli hörku óheft sauðfjárhald og vaxandi ofbeit á hálendi. Þessi ofbeit var úrslitaatriði í flóknu samspili náttúrunnar og olli mestu gróðurspjöllum, sem þekkjast í Evrópu.

Þótt hin eindregna ofbeitarstefna Framsóknarflokksins hafi hrunið vegna þeirra ytri aðstæðna, að lambakjöt seldist ekki, þá hefur enn ekki tekizt að snúa vörn í sókn í gróðurdæmi landsins. Rannsóknir sýna, að náttúran er enn á undanhaldi fyrir mannanna verkum.

Þegar eldgos og hvassviðri voru ein um hituna, var Ísland viði vaxið milli fjalls og fjöru og landnámsmenn gerðu til kola á Kili. Örlagavaldurinn í mestu gróðureyðingu Evrópu er því sauðfjárræktin, sem nú er í andarslitrunum eftir faðmlög Framsóknarflokksins.

Hamslaus stórvirkjana- og stóriðjustefna hefur nú tekið við af stefnu hamslausrar sauðfjárræktar hjá þeim stjórnmálaflokki, sem um langt skeið hefur farið með völd í öllum helztu valdastofnunum landeyðingar, landbúnaðar-, iðnaðar- og umhverfisráðuneytunum.

Helztu ráðamenn flokksins tala í fúlustu alvöru um að umturna gróðri hálendisins með stíflugörðum og að mynda þar uppistöðulón, sem hlutverks síns vegna verða með breytilegri vatnshæð og geta því ekki myndað gróðursæla bakka eins og venjuleg vötn gera.

Helztu ráðamenn flokksins hafa varpað fram hugmyndum um kaup og sölu á heimskunnum náttúruperlum, til dæmis að fórna Eyjabökkum til að varðveita megi Þjórsárver. Þetta eru óforbetranlegir fjandmenn náttúru landsins, sannir Framsóknarmenn.

Ráðamenn flokksins munu á þinginu flagga óraunhæfu mati Landsvirkjunar á þjóðhagslegum áhrifum stóriðju, þar sem allt of lítið og nánast ekkert tillit er tekið til herkostnaðarins. Þeir munu mála á vegginn engilbjarta mynd af framtíð austfirzkra hagsmuna.

Það sem skilur stóriðju frá öðrum atvinnuvegum nútímans, svo sem tölvuvinnslu og ferðaþjónustu, er annars vegar, að hún krefst gífurlegrar fjárfestingar að baki hvers atvinnutækifæris, sem hún skapar, og hins vegar, að hún á erfitt með að laga sig að aðstæðum.

Þetta gildir jafnt um orkuverin eins og iðjuverin, svo sem við höfum séð af virkjun Blöndu, þar sem óheftir stóriðjudraumar andstæðinga íslenzkrar náttúru leiddu til gífurlegrar fjárfestingar, sem skilaði engum arði árum saman og bar jafnframt mikla vaxtabyrði.

Stóriðjudraumarnir hunza hagsmuni ferðaþjónustu, sem munu aukast á næstu árum eins og þeir hafa gert á undanförnum árum. Engin vitræn úttekt hefur farið fram á afleiðingum stóriðjudrauma ráðamanna Framsóknarflokksins á afkomu í ferðaþjónustu.

Alvarlegasti þáttur málsins er skorturinn á reisn, sem einkennt hefur stjórn Framsóknarflokksins á málaflokkunum, sem snerta risavaxna skuld þjóðarinnar við náttúru Íslands. Ráðamenn flokksins tala eins og við enn þann dag í dag aumingjaþjóð á hungurmörkum.

Flokksþing Framsóknar um helgina mun staðfesta, að ekkert hafi breyzt. Flokkurinn sé enn eins fjandsamlegur náttúrunni og hann hefur jafnan verið.

Jónas Kristjánsson

DV

Íslenzk veitingahús

Veitingar

Íslenzkum veitingahúsum hefur farið aftur á síðasta áratug aldarinnar eftir stöðnun á síðari hluta níunda áratugarins. Hveitisúpurnar hafa fest sig í sessi; fita flýtur um diska; rjómi, smjör og ostur eru enn töfralausn margra matreiðslumanna.

Um og upp úr 1980 varð bylting í matargerð á Íslandi. Á nokkrum stöðum, einkum í Grillinu og á Holti og síðar í Arnarhóli heitnum leysti létta, nýfranska línan af hólmi hina þungu, dönsku matreiðsluhefð millistríðsáranna. Á skömmum tíma tóku íslenzk veitingahús forustu í matargerðarlist Norðurlanda og öfluðu sér fjölþjóðlegrar viðurkenningar, sem þau eru enn að éta út.

Vafasamt er, að orðsporið haldist endalaust. Bandaríkjamenn eru fjölmennastir í hópi þeirra erlendu ferðamanna, sem notfæra sér þjónustu vandaðra veitingahúsa hér á landi. Þeir munu smám saman átta sig á, að íslenzkir matreiðslumeistarar standast ekki lengur samanburð við það, sem þeir þekkja heima fyrir.

Nánast ekkert hefur gerzt í matargerðarlist Íslendinga í tæpa tvo áratugi. Til viðbótar við nýfranska “cuisine nouvelle” á Grilli, Holti og Arnarhóli kom þó snemma jarðbundið “cuisine terroir” á veitingahúsinu við Tjörnina, í kjölfar hliðstæðra breytinga í Frakklandi, höfuðvígi matargerðarlistarinnar.

Hljómgrunninn vantaði fyrir þessar framfarir. Viðskiptavinirnir héldu áfram að biðja um rjómabættar sveppasúpur og meira magn af rjómabættum sveppasósum út á steikurnar. Matreiðslumenn hrökkluðust frá hreinni útgáfu hinna nýju matreiðsluhefða til þess að taka tillit til gamaldags þarfa heimamarkaðarins.

Á sama tíma hafa báðar nýfrönsku línurnar fest sig í sessi í umheiminum. Beztu matreiðslumenn Norðurlanda hafa tekið þær upp og farið fram úr íslenzkum starfsbræðrum sínum, sem enn berjast við að vinna sigur í matreiðslusýningum á sviði afturhaldssamrar matargerðarhefðar.

Sigur “cuisine nouvelle” og “cuisine terroir” hefur hvergi orðið eindregnari en í Bandaríkjunum, þar sem vel stætt fólk er almennt meðvitað um nauðsyn þess að losna við óþarfa fitu og óþarft kólesteról úr mat. Þeir ferðamenn frá Bandaríkjunum, sem hafa ráð og áhuga á að koma hingað, eru margir orðnir vanir léttu mataræði.

Góð veitingahús á Manhattan bera af góðum veitingahúsum í Reykjavík eins og gull af eiri. Þar nota matreiðslumeistarar ekki hveiti, rjóma, smjör eða ost í matreiðslu. Þeir nota jurtaolíur og fara sparlega með þær. Hitaeiningafjöldi er minni og kólesteról minna en hér. Eðlisbragð hráefnisins fær að njóta sín.

Okkar mönnum ber að vakna, þegar fiskur og annað sjávarfang er orðið að meginþætti matargerðarlistarinnar á Manhattan. Þar er hráefnið nærri eins gott og hér á landi, en matreiðslan heldur nærfærnari og fjölbreytnin margfalt meiri en hér. Þeir þurfa ekki lengur að koma til Íslands til þess að fá góðan fisk.

Á góðum veitingahúsum á Manhattan er fiskur kominn upp fyrir nautasteikur í verðlagi og á eftir að fara mun hærra eins og reynslan hefur orðið í Frakklandi og Suður-Evrópu. Því er mikil framtíð fólgin í aðgangi að góðu sjávarfangi og kunna að fara með það að hætti þeirra nútímamanna, sem fylgjast með þróun matreiðsluhefða.

Þess vegna er kominn tími fyrir íslenzka veitingamenn og matreiðslumeistara að hætta að sofa á lárviðarsveigum atburða, sem gerðust fyrir tæpum tveimur áratugum. Þeir beztu þurfa að hlaupa í bátana og róa lífróður á eftir þeim, sem hafa verið að sigla fram úr þeim á síðasta áratug aldarinnar.

Þar sem almenningsálitið er fornt í sniðum á þessu sviði hér á landi, er nauðsynlegt fyrir þá að taka forustu um að breyta því. Þeir geta leitað samstarfs við líkamsræktarfólk, útivistarfólk og aðra þá, sem líklegastir eru til að vilja matargerðarlist í samræmi við nýjan lífsstíl.

Eftir að hafa í tæpa tvo áratugi hvatt Íslendinga til að fara út að borða á góðum veitingahúsum er satt að segja hart að sjá engan árangur og þurfa að fara til Manhattan til að hafa gaman af að fara út að borða.

Jónas Kristjánsson

DV

Lögreglustjóri ofsóttur

Greinar

Í leiðurum þessa blaðs hefur stundum verið lýst megnri óánægju með máttlausa og geðlausa embættisfærslu lögreglustjórans í Reykjavík, einkum í málum, sem varða ölæði og ofbeldi á almannafæri og einnig þeim, sem varða ólöglegar auglýsingar á áfengi.

Blaðið hefur jafnframt fagnað frumkvæði nýs varalögreglustjóra gegn ölæði og ofbeldi á almannafæri, en ekki séð neina breytingu á friðhelginni, sem ólöglegar auglýsingar áfengis njóta hjá embættinu. Hinir nýju vindar mættu blása meira, ef vel ætti að vera.

Dómsmálaráðuneytið hefur á ýmsan hátt reynt að blása lífi í embætti lögreglustjórans í Reykjavík og fá tekin þar upp alvarlegri vinnubrögð, meiri stjórnsemi og aðhald af hálfu yfirmanna. Sem dæmi má nefna viðbrögð við dularfullu hvarfi fíkniefna úr vörzlu lögreglu.

Ráðuneytið þarf þó að fara að leikreglum í þessu sem öðru. Aðgerðir þess gegn lögreglustjóranum í Reykjavík hafa margar hverjir verið á gráu svæði, svo að ekki sé meira sagt. Meðal annars hafa þær falið í sér leka á völdum upplýsingum úr skýrslum um starfsemina.

Fjölmiðlar geta ekki treyst leka ráðuneytisins, því að þar hefur ekki komið fram allur sannleikur málsins, heldur einungis þættir, sem slitnir úr samhengi við önnur atriði gætu orðið til þess að niðurlægja og fjarlægja máttlausan en um leið vammlausan lögreglustjóra.

Dómsmálaráðuneytið hafði frumkvæði að lögum um sérstakt embætti ríkislögreglustjóra til þess eins að draga úr valdi lögreglustjórans í Reykjavík. Það setti sérstakan varalögreglustjóra til höfuðs honum. Og nú hefur það smíðað skipurit til að gera hann valdalausan.

Áratugum saman hefur ekki sést neitt annað dæmi um svona langvinnar og þrautseigar tilraunir til að grafa undan embættismanni, sem hefur ekki gert annað af sér en að vera linur yfirmaður. Þessar tilraunir gefa greinargóða lýsingu á hugarfari dómsmálaráðherra.

Með hreinni og beinni aðferðum hefði verið unnt að knýja fram virkari stjórn á lögreglunni í Reykjavík og spara persónulegar ofsóknir, sem grafa ekki aðeins undan einstaklingum, heldur starfsemi lögreglunnar í heild. En undirferlið hentar ráðherranum betur.

Það nær ekki nokkurri átt, að til tímabundinna þæginda séu lög og skipurit sérsniðin að tilvist ákveðinna einstaklinga, en ekki að langtímaþörfum stofnana, sem halda áfram að lifa, löngu eftir að farnir eru þeir, sem lögin og skipuritin voru upphaflega sniðin að.

Dómsmálaráðherra hefur sjálfur óspart beitt pólitískum ráðningum kvígilda á borð við þá, sem varð, þegar forveri hans réð hæglátan sýslumann úr röðum framsóknarmanna sem lögreglustjóra í Reykjavík. Þannig er fullt af linum embættismönnum í kerfinu.

Það er óviðurkvæmilegt að taka einn slíkan embættismann og ofsækja hann með þeim hætti, sem dómsmálaráðherra hefur gert árum saman. Sá verknaður allur verður honum til lítillar sæmdar, þegar metinn verður pólitískur ferill hans, sem senn er á enda.

Yfirleitt er hrollvekjandi að hugsa til þess, að einn hatursfullur ráðherra skuli geta misnotað sjálft innanríkisráðuneytið til ofsókna gegn einstaklingum. Ef hægt er að beita því gegn lögreglustjóranum, er þá ekki líka hægt að beita því gegn almenningi yfirleitt?

Það eru fleiri en framsóknarmenn, sem hafa óbragð í munninum við að horfa upp á undirferli og ofsóknir af hálfu dómsmálaráðuneytisins og ráðherra þess.

Jónas Kristjánsson

DV

Skilaboð pílagrímanna

Greinar

Yfirstétt Alþýðubandalagsins er nýkomin úr vel auglýstri skemmtiferð og kurteisisheimsókn til Kúbu, þar sem einræðisherrann Castro hefur lengi hindrað eðlilega efnahagsþróun með því að halda dauðahaldi í nánast útdauðar kennisetningar Sovétríkjanna sálugu.

Með í för íslenzku pílagrímanna voru nokkrir þekktir kaupsýslumenn, sem sagðir eru hafa áhuga á að koma upp viðskiptasamböndum við ríkisrekin fyrirtæki Kúbu. Feta þeir í fótspor annarra, sem hafa ræktað drauma um viðskipti við alræðisstjórnir í Víetnam og Kína.

Sameiginlegt einkenni þessara ríkja er, að þar eru við völd alræðisflokkar, sem stjórna með geðþóttaákvörðunum. Vestrænar leikreglur gilda þar ekki, hvorki í ákvörðunum stjórnvalda né í niðurstöðum dómstóla, svo sem vestræn fyrirtæki hafa mátt þola í Kína.

Sameiginlegt einkenni ríkjanna er, að bjartsýnir iðjuhöldar og kaupsýslumenn frá Vesturlöndum tapa þar fjárfestingum sínum í hömlulausum tilraunum til að auka markaðshlutdeild sína í heiminum. Þannig eru vestrænar fjárfestingar í Kína orðnar rústir einar.

Þá sjaldan að Vesturlandabúum tekst að koma ár sinni fyrir borð í viðskiptum við ríkisfyrirtæki alræðisríkja, lenda þeir í að hafa verið öfugum megin við sagnfræðina, þegar alræðinu er vikið frá völdum og við taka aðrir, sem refsa kaupahéðnum fyrir stuðning við alræðið.

Það er gömul saga og ný, að fáir læra af reynslu annarra. Þess vegna voru þekktir kaupsýslumenn í föruneyti Alþýðubandalagsins á Kúbu að láta sig dreyma um, að þeir gætu haft peninga upp úr einhvers konar viðskiptum við Kúbu og jafnvel fjárfestingum þar.

Yfirstétt Alþýðubandalagsins með formanninn og þungavigtarmanninn í broddi fylkingar, Margréti Frímannsdóttur og Svavar Gestsson, telur merkilega þróun hafa átt sér stað á Kúbu. Castro sé síður en svo nokkurt nátttröll, enda leyfi hann erlenda fjárfestingu.

Raunar er orðið hefðbundið, að formaðurinn fari árlega til Kúbu eins og fyrirrennarar hennar fóru árlega til Sovétríkjanna. Kúba er þannig tekin við sem hin eina og sanna sovét-fyrirmynd, síðan það skammlífa þjóðskipulag leið undir lok í öðrum ríkjum heims.

Castro vildi að vísu ekki hitta forustusveit og kaupsýslumenn Alþýðubandalagsins, enda telur hann líklega meiri fjárhagslegan slæg í utanríkisráðherra Spánar, sem var þar í kurteisisheimsókn á sama tíma. Urðu Íslendingarnir að skoða útimarkaði í staðinn.

Gera verður ráð fyrir, að hin vel auglýsta pílagrímsferð hafi ekki verið meðvitundarlaus, heldur sé tilgangur hennar að senda íslenzkum kjósendum og væntanlegum samstarfsaðilum einhver skilaboð frá Alþýðubandalaginu nokkrum mánuðum fyrir kosningar.

Skilaboðin eru hins vegar svo undarleg, að erfitt er að skilja þau. Er Margrét að segja væntanlegum kjósendum klofningsframboðsins, að Alþýðubandalagið sé enn sama gamla Alþýðubandalagið þrátt fyrir A-flokka-framboðið? Er hún að senda Alþýðuflokknum þessi skilaboð?

Alþýðubandalagið er nánast í rúst um þessar mundir. Heilu félögin hafa horfið á braut eða verið lögð niður. Það er orðin stór spurning, hvort Alþýðubandalagið leggi yfirleitt svo mikið fylgi með sér inn í A-flokka-framboðið, að það taki því að hafa fyrir slíku samstarfi.

Skilaboðin frá Kúbu eru á þessu stigi ekki til þess fallin að auka traust óráðinna kjósenda á A-flokka-framboðinu. Pílagrímarnir þurfa að túlka þau betur.

Jónas Kristjánsson

DV

Aumt er Ísland

Greinar

Ísland er eina vestræna ríkið, sem ekki hefur skrifað undir Kyoto-bókunina um takmörkun á losun efna, sem valda loftslagsbreytingum. Bandaríkin urðu fyrir helgina síðust annarra ríkja til að undirritað bókunina og skilja Ísland eitt eftir í yfirlýstum flokki sóða.

Vegna erfiðra samskipta framkvæmdavalds og löggjafarvalds í Bandaríkjunum er líklegt, að forseti þeirra treystist ekki til að knýja undirritunina gegnum þingið fyrr en að liðnum næstu kosningum eftir tvö ár. Tímann mun hann nota til að undirbúa framkvæmdina.

Tregða Íslands stafar ekki af ósanngjarnri meðferð áhugamála landsins á alþjóðafundum í Kyoto og Buenos Aires um loftmengun. Samkvæmt Kyoto-bókuninni má Ísland auka losun mengunarefna lítillega, þótt önnur vestræn ríki taki á sig að minnka hana hjá sér.

Tregða Íslands stafar ekki af minni möguleikum okkar en annarra á að draga úr mengun. Við getum endurskoðað stefnu okkar í stærð og afli fiskiskipa og veiðarfæra. Við getum einnig unnið að breyttri orkunotkun skipavéla yfir í hreinni olíu og síðar yfir í vetni.

Við getum fylgzt betur með tilraunum til að taka upp nýja orkugjafa í bílum, svo sem vetni eða rafmagn. Síðast en ekki sízt þurfum við að reikna upp á nýtt kostnaðar- og tekjudæmi stóriðju, þannig að við teljum okkur ekki lengur trú um, að öll stóriðja sé arðbær.

Orkuver og orkuveitur valda umhverfisspjöllum, sem við þurfum að reikna gjaldamegin í dæminu vegna skaðlegra áhrifa þeirra á ferðaþjónustu, sem er miklu arðvænlegri búgrein heldur en stóriðjan og veitir margfalt fleira fólki vinnu á hvern milljarð í fjárfestingu.

Verðið fyrir orku til stóriðju hefur alltaf verið lágt og er svo óhagstætt í nýjustu samningum, að það er ríkisleyndarmál. Við megum ekki vita, hvað rafmagnið kostar til nýja álversins við Grundartanga og við megum ekki vita, hvað Norsk Hydro fæst til að borga.

Vegna verðsveiflna eru stóriðjuver og einkum álver svo áhættusöm fjárfesting, að erlendis hafa sum hver snögglega orðið gjaldþrota og skilið orkusala og starfsmenn eftir með sárt ennið. Minni rekstrareiningar eiga auðveldara með að mæta sveiflum í umhverfinu.

Ástæðan fyrir því, að ríkisstjórnin, undir forustu Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra, berst svo hart gegn aðild að Kyoto-bókuninni, er draumurinn um risavaxið álver Norsk Hydro á Austurlandi, sem mun valda mikilli mengun og eyðileggja náttúruperlur.

Sérstaða Íslands gegn Kyoto-bókuninni er orðin óþægilega áberandi eftir að Bandaríkin skrifuðu undir hana. Ísland er skyndilega komið í sviðsljósið sem mesti sóðinn meðal vestrænna ríkja og mun verða að taka langvinnum afleiðingum af illu umtali umheimsins.

Sérstaðan skaðar hagsmuni okkar í ferðaþjónustu og sjávarútvegi á svipaðan hátt og sjálfseyðingarhugsjón hvalveiða mun gera, ef hún verður að veruleika. Við eigum á hættu, að öflugir hópar á sviði umhverfismála beini geiri sínum gegn íslenzkum hagsmunum.

Miklu hagkvæmara væri fyrir okkur að taka forustu í sjónarmiðum umhverfisverndar og afla okkur ímyndar sjálfbærrar umgengni við auðlindir sjávar og lands, meðal annars í samræmi við tillögur Orra Vigfússonar hjá Laxveiðisjóði Norður-Atlantshafsins.

Því miður er okkur stjórnað af þröngsýnum búrum, sem eru svo fastir í flórnum, að þeir sjá ekki ljósið og halda áfram að skaða umhverfi okkar og efnahag.

Jónas Kristjánsson

DV

New York

Veitingar

Ekki mundu mörg íslenzk veitingahús standast samanburð, ef þau væru flutt til Manhattan. Í þeim hópi væru örugglega Listasafnið á Holti, Þrír Frakkar og Laugaás, hvert í sínum flokki verðs og gæða. Líklega einnig Tjörnin og Primavera, en ekki miklu fleiri, kannski Rex og Játvarður á Akureyri. Þótt fleiri séu góð, þá stæðust þau ekki samkeppnina fyrir vestan, þar sem margir berjast um hituna á hverju sviði.

Skemmtilegra er að fara út að borða í New York en Reykjavík, af því að fjölbreytnin er meiri í gæðum og verði, hefðum og andrúmslofti. Raunar er borgin við Hudson tekin við af borginni við Signu sem heimsins mesta gósenland matgæðinga, af því að París er sérfrönsk, en Manhattan suðupottur heimskringlunnar allrar, þar á meðal fjarlægra Austurlanda, sem geta kennt okkur margt í matargerðarlist.

Í Reykjavík væri ekki markaður fyrir Kóreustað á borð við Hangawi, þar sem gestir sitja á sokkaleistunum á gólfinu og snæða grænmetisrétti í nánast guðrækilega austrænu umhverfi. Og hér heima er aðeins boðið upp á daufa eftirlíkingu af japönsku sushi, undursamlegum smáréttum úr hráu sjávarfangi, svo sem fást í annarri hverri þvergötu í miðri Manhattan. Hér eru ekki vel stæðir Kóreumenn og Japanir á hverju strái til að halda slíkum stöðum uppi.

Verð er ekki miklu hagstæðara en í Reykjavík. Algengt er á góðum stöðum að þríréttað með kaffi kosti um 36 dali eða 2.500 krónur á mann, en hér færi hliðstætt verð yfir 3.000 krónur. Dýrustu staðir bandarískrar matreiðsluhefðar halda sér á 54 dala eða 3.700 króna verði, sem er lægra en hæsta verð í Reykjavík. Það eru aðeins allra dýrustu frönsku og japönsku húsin, sem sleikja 72 dali eða 5.000 krónur á mann, svipað og allra dýrstu matsalir Reykjavíkur.

Hér er ferskara sjávarfang, en þar er fjölbreytnin meiri. Hér eru menntaðri þjónar og kokkar, en stundum íhaldssamari. Vestan hafs forðast góðir kokkar fitu og feitar sósur og leggja meiri áherzlu á fersk og falleg salöt. Í New York er harðlega bannað að reykja á veitingahúsum, en hér sjást víða ekki einu sinni reyklaus svæði, heldur er tóbaksreyk leyft að spilla matarilmi um allan sal í trássi við reglugerðir.

Ekki þarf að leita uppi sérstaklega dýr veitingahús á Manhattan til að fá betra lambakjöt en okkar bragðdaufa fóðurkálskjöt, sem við ímyndum okkur gott. Og auðvitað er nautakjöt betra á góðum stöðum vestan hafs en á hliðstæðum stöðum hér á landi. Bandarísk steikhús eru enn sem fyrr kapítuli út af fyrir sig.

Veitingahús eru sterkur þáttur í lífi íbúa New York. Þeir borða meira en helming máltíða sinna úr mat, sem eldaður er annars staðar en heima. Þeir fara út að borða oftar en þrisvar í viku að meðaltali og borga meira en 30 dali eða 2.100 krónur í hvert sinn á mann. Þeir halda því betri aga á bransanum heldur en Íslendingar, sem vilja gera annað fyrir peningana sína en borða fyrir þá.

Hástig bandarískrar matreiðslu er á nokkrum stöðum á Manhattan, sem eru að skapa bandaríska klassík, leita víðar fanga en í Frans, losa sig undan franskri formfestu, létta yfirbragð og andrúmsloft, án þess að hvika neitt frá gæðum matreiðslunnar. Þetta er önnur þróun en í Kaliforníu, sem orðin er uppspretta veitingastaða með umbúðir í stað innihalds.

Topparnir eru notalegir staðir á borð við Union Square Café, Gotham Bar & Grill og Grammercy Tavern, sem eru unaðslegri heim að sækja heldur en dýrari draumastaðir á borð við Lucas Carton, Taillevent og Grand Vefour í París. Þess vegna er við hæfi að segja, að Manhattan sé að verða Mekka matargerðarlistar.

Bandarískt kaffi er jafn þunnt og vont sem fyrr, en gott espresso fæst á öllum góðum veitingahúsum. Þunnt gervi-espressó úr hnappavél, sem boðið er víðast hvar í Reykjavík, hef ég ekki séð á veitingastöðum á Manhattan.

Jónas Kristjánsson

DV

Rex

Veitingar

Ég bjóst við vondum mat í hönnuðu umhverfi fyrir markhópa, þar sem fræga og fagra fólkið póserar og aðrir stara, en enginn hugsar um matinn, enda yrði kokkurinn rekinn, ef hann truflaði þjóðfélagslega ímynd staðarins með ætum mat.

Rex í Austurstræti kom mér á óvart með góðri, fjölbreyttri og oftast vandaðri matreiðslu, með áherzlu á einföld og falleg salöt, misjafnt eldaðar pöstur og hæfilega eldaða fiskrétti. Hér má fá marga rétti sem ekki fást annars staðar í bænum.

Matreiðslan bregzt í ýkjunum, svo sem í skerandi grunnlitum, blóðrauðu kúskusi og fagurgrænni kartöflustöppu. Samt er hún huglaus í hugrekkinu, þegar kemur að heillandi fjarlægum nöfnum á borð við tandoori og satay og cajun. Bragðdaufu útgáfurnar hér eiga fátt sameiginlegt með upprunalegu réttunum annað en uppskriftir að sósum. Meira að segja espresso-kaffið er þunnt.

Rex er snjóhvítur og silfurgrár, kaldur og harðneskjulegur, með risastórum gluggum út að vetrarveðrum stormgjárinnar fyrir utan og gæti verið notalegur í 35 stiga hita. Búnaður og skraut er úr silfurgráu áli og gamla gifsflúrið er einnig silfrað. Breið og glansandi steinflísabraut liggur frá anddyri að baklýstum bar. Meðfram þverveggjum eru silfraðir og óþægilegir sófar og á móti þeim silfraðir og þægilegir álstólar við þétta röð smáborða.

Þjónusta var undantekningarlaust fagleg og góð, látlaus og mundi, hver hafði pantað hvað. Tauþurrkur eru á borðum jafnt í hádegi sem að kvöldi. Vínlistinn er fjölbreyttur og djarfur, felur meðal annars í sér Chateau Musar frá bjartsýnismanninum Serge Hochar í Líbanon.

Salöt voru flest góð, byggð á ítölsku rosa, með feta-osti og tómötum. Með einu þeirra komu þó þurrir og daufir kjúklingabitar, en ekki stífkryddaðir og grillaðir á spjóti eins og ætla hefði mátt af matseðlinum. Bezta salatið var fallegt Rex-salat með góðum og heitum linsubaunum og kryddlegnu hrásalati. Andasúpa var tær og góð, með hörpudiski, sem hæfði ekki öndinni og varð torkennilegur í bragði.

Falafel reyndust vera baunabollur, harðar að utan og mjúkar að innan, réttilega, en þó feimnislega kryddaðar með kóríander, ómur frá arabískum heimi. Hrísgrjónablandaður humar, vafinn í lárviðarblöð, var góður, borinn fram með ávaxtasalati og blóðrauðum kúskus-sívalningi úr sprengdu hveiti, skemmtilegur réttur.

Steikt og dimmgrænt spaghetti, basilikum-kryddað með kjúklingi var fullmikið eldað, en eigi að síður gott. Ljósgrænar tagliatelle-ræmur með hörpuskel, sköfnum parmiggiano-osti og svörtum pipar voru nákvæmlega rétt eldaðar og bragðgóðar eftir því.

Grillaður koli var hæfilega eldaður, með fínni og tærri saffransósu og ítölsku hrásalati, fallegur og góður matur. Cajun lúðan var líka hæfilega elduð og einkar bragðgóð, en var of dauft krydduð til að vera cajun, borin fram með fagurgrænni og basilikum-kryddaðri kartöflustöppu.

Kjúklingur var kallaður tandoori, misheppnaður og þurr, húðaður, en ekki brenndur með sósu. Réttinum bjargaði frábær blanda af hrísgrjónum og lime.

Mikado-ís var borinn fram með volgum spergli og jarðarberjum, óvenjulegur eftirréttur. Ostakakan reyndist vera mjúkt ostakrem á hörðum kökubotni, þakið ostaþráðum, áhugaverður réttur.

Tvíréttað í hádeginu kostar 1.200 krónur. Á kvöldin er meðalverð aðalrétta 1525 krónur og þríréttuð máltíð fer í 3.600 krónur. Gestir voru fáir og litu út fyrir að vera venjulegt fólk.

Jónas Kristjánsson

DV

Markaðurinn er mettaður

Greinar

Smáhvelin, sem fiskiskip landa í skjóli nætur, nægja til að fullnægja eftirspurn. Innlendur og erlendur markaður fyrir hvalkjöt er þegar mettaður. Engan fjárhagslegan tilgang hefur að leyfa hvalveiðar formlega á nýjan leik, því að engir kaupendur eru að afurðunum.

Þótt þorri þjóðarinnar sé fylgjandi endurreisn íslenzkra hvalveiða, byggist sú skoðun ekki á neinum efnahagslegum rökum. Hvalveiðar eru Íslendingum trúar- og tilfinningaatriði. Menn vilja ekki láta grænfriðunga og bandarískar kerlingar stjórna sér.

Engin markaðsrök eru á færi þingmanna á borð við Guðjón Guðmundsson, sem reyna að slá ódýrar pólitískar keilur á stuðningi við hvalveiðar. Þeir hafa ekki sagt okkur og geta ekki sagt okkur, hverjir eigi að standa undir kostnaðinum með því að kaupa afurðirnar.

Sér til þæginda hafa menn gleymt hrakför síðasta hvalkjötsgámsins um erlendar hafnir, þar sem honum var hvarvetna úthýst og á endanum hrakinn heim til Íslands aftur. Þannig mun fara um frekari tilraunir Íslendinga til að koma hvalafurðum sínum í verð.

Meira að segja Japanir hafa fyrir löngu beygt sig fyrir staðreyndum lífsins og hafa árum saman ekki þorað að kaupa svo mikið sem eitt gramm af hvalaafurðum. Úr því, að Japanir vilja ekki kaupa af okkur, hverjir eiga þá að gera það. Kannski Guðjón Guðmundsson?

Nú liggja Japanir í efnahagskreppu og eru háðir fjárhagslegum björgunaraðgerðum Vesturlanda. Þeir munu því á næstu árum enn síður en áður láta sig dreyma um að fara að kaupa hvalkjöt á nýjan leik. Þeir verða framvegis sem hingað til að halda að sér höndum.

Allur þorri íslenzku þjóðarinnar vill þannig leggja út í kostnað við hvalveiðar, án þess að nokkrar tekjur komi á móti. Ekki er það gæfuleg rökhyggja, enda minnir hún á Mosfellinga í Innansveitarkróníku Laxness, þegar þeir ályktuðu út og suður um kirkjustað sveitarinnar.

Þar segir Halldór meðal annars, að Íslendingar séu svo frábitnir rökbyggju, að þá setji hljóða, hvenær sem komið sé að kjarna máls. Þetta er nákvæmlega það, sem þeir gera, þegar þeir eru spurðir að því, hver eigi að borga kostnaðinn af fyrirhuguðum hvalveiðum.

Látum vera, þótt lélegustu þingmennirnir telji henta sér að elta vitleysuna. Sorglegri er frammistaða þeirra, sem betur mega sín. Ef viti bornir menn tækju saman höndum um að segja fólki sannleikann um hvalveiðidrauminn, mætti reyna að kveða hann niður.

Hvaða þýðingu hefur það til dæmis fyrir Þorstein Pálsson sjávarútvegsráðherra að flytja mörgum sinnum á hverju ári í átta ár þungorðar ræður um, að það sé forgangsverkefni sitt að hefja hvalveiðar að nýju. Hvers vegna segir hann ekki þjóðinni staðreyndir?

Davíð Oddsson nýtur svo miklar hylli fólks, að menn vilja í öllu lúta vilja hans, jafnvel gefa erlendu fyrirtæki ókeypis sérleyfi til að reka krosstengdan gagnagrunn í heilbrigðismálum. Getur hann ekki notað þungavigt sína til að játa bitran veruleikann fyrir fólki?

Hvað með þessar löngu lestir hagsmunastjóra útflutningsatvinnuveganna, sem hafa gert sér erindi upp í ráðuneyti til að grátbiðja um, að hvalveiðar verði ekki hafnar að nýju, svo að önnur utanríkisviðskipti megi áfram blómstra? Af hverju þora þeir ekki að blása?

Hvalveiðistefna Íslendinga er eins og vitlausraspítali, þar sem gæzlumennirnir þora ekki að segja sjúklingunum annað en það, sem þeir vilja heyra.

Jónas Kristjánsson

DV

Creole Mex

Veitingar

Formúlan er líkleg til árangurs, tveir eigendur, annar í eldhúsi og hinn í sal, og fókusinn á matreiðsluhefðum skilgreinds svæðis, í þessu tilviki suðurstrandar Bandaríkjanna, Louisiana, Texas og Nýju-Mexíkó. Útkoman er falleg, bragðgóð og matarmikil í Creole Mex á Laugavegi 178, þar sem einu sinni var Smárakaffi, síðan Halti haninn, svo Gyllti haninn, þá Gullni haninn og loks Safari, áður en núverandi myndbirting kom til skjalanna í vor.

Innréttingar eru frá tíð Gullna hanans, viftur, speglar og tréverk í lofti, veggbogarið milli hálfsúlna, viðarpanill upp eftir veggjum, plastplötur og trérammar á berum borðum, vandaður húsbúnaður. Inn í þetta hefur verið komið fyrir mexikóskum skreytingum, höttum, vefnaði og ljósmyndum, svo og mexíkóskri músík, einnig kaktusum, gerviblómum og rómantískum kertaljósum.

Eina ómerkilega atriði matreiðslunnar var súpa dagsins, uppbökuð hveitisúpa að dönsk-íslenzkum hætti millistríðsáranna. Hún var þáttur í tveggja rétta hádegistilboði á 795 krónur. Annars kosta aðalréttir um 1560 krónur og þríréttað með kaffi 3.000 krónur. Allt er þetta hóflegt á íslenzkum mælikvarða.

Í hádegistilboðinu er val milli nokkurra aðalrétta. Fallegur og bragðgóður réttur fólst í Creole-krydduðum kjúklingavængjum með hrísgrjónum og salati. Enn betri var Chinichanga frá Mexíkó, stór tortilla-kaka úr maísmjöli, vafin utan um kjúklingabita, borin fram á glæsilegan hátt með djúpsteiktum og stökkum brauðræmum efst, pönnukökunni næst og blöndu af hrísgrjónum og steiktu grænmeti neðst.

Glæsilegur og góður forréttur var lárperusalat með góðri sjávarréttablöndu ofan á djúpsteiktu brauði. Mjög bragðsterkar voru Nachos, djúpsteiktar brauðræmur með jalapeno-pipar, papriku, osti og lárperumauki. Slökust var Quesadilla, fremur bragðsterk, djúpsteikt kaka, fyllt osti og chilli-pipar, með salsa og sýrðum rjóma.

Gamalkunnur aðalréttur frá Hard Rock var Fajitas, sem kom á þremur diskum, pönnukökur í kökuboxi, snarkandi kjúklingabitar á pönnu og í þriðja lagi meðlæti, einkum hrásalat. Þetta var gott, rétt eins og mjúka Burrito tortillan, vafin utan um kjöt- og baunahakk.

Bezti aðalrétturinn var nákvæmlega hæfilega eldsteikt silungsflak, borið fram á hvolfi, með uppbrettu roði til hálfs, ofan á hrísgrjónum og ristuðu grænmeti, með sítrónublandaðri eggjasósu. Betri gerist matreiðslan ekki í beztu sjávarréttahúsum.

Ágætir voru þrír pílárar af súkkulaði-lagköku með ávaxtasalati og þeyttum rjóma og enn betri var hunangs-engiferís með myntu-súkkulaðibitum og þeyttum rjóma. Vonandi verður þessi staður langlífari en fyrirrennararnir á staðnum.

Jónas Kristjánsson

DV

Sátt um gagnagrunn

Greinar

Kominn er tími og komnar eru forsendur til að ná sáttum í deilunum um rekstur krosstengds gagnagrunns í heilbrigðismálum. Flokkadrættirnir eru farnir að skaða þjóðina, svo sem sést af, að hefnigjarn heilbrigðisráðherra velur landlækni með hliðsjón af deilunni.

Nýkomið og rækilegt álit Lagastofnunar háskólans getur orðið grundvöllur sátta í málinu. Þar koma fram hugmyndir um, hvernig breyta megi frumvarpi ríkisstjórnarinnar, svo að það standist íslenzk lög og stjórnarskrá og lög og reglur Evrópska efnahagssvæðisins.

Áður hefur oftar en einu sinni komið fram, að mikill meirihluti þjóðarinnar vill, að gagnagrunninum verði komið upp og vill láta honum í té upplýsingar um sig. Þetta vegur þungt á móti vel rökstuddum kenningum fræðimanna um, að persónuvernd hans sé ótrygg.

Lagastofnun bendir á ýmis atriði, sem betur megi fara og skýrar megi segja í frumvarpinu. Skynsamlegt er af Alþingi að taka þessi atriði upp, svo að síður komi til langvinnra eftirmála fyrir evrópskum dómstólum, sem neyðst hafa til að taka við hlutverki Hæstaréttar.

Í áliti Lagastofnunar er rækilega fjallað um einkaréttinn eða sérleyfið, sem minna hefur verið fjallað um en persónuverndina. Þar kemur fram, að nauðsynlegt er að setja svo strangar reglur um sérleyfið, að vafasamt er, að það henti erfðagreiningarfyrirtækinu að fá það.

Hér í blaðinu hefur nokkrum sinnum verið bent á, að sérleyfi er óþarft. Uppfinningar og hugvit eru varin með íslenzkum, evrópskum og alþjóðlegum lögum um skráningu einkaleyfa og um höfundarétt. DeCode Genetics getur notað þessar varnir eins og aðrir frumkvöðlar.

Heppilegast væri, að Kári Stefánsson viðurkenndi þennan sannleika og félli frá kröfunni um sérleyfi. Að öðrum kosti þarf að breyta frumvarpinu í samræmi við álit Lagastofnunar og setja þær skorður við misnotkun á sérleyfinu, sem raktar eru rækilega í álitinu.

Lagastofnun segir, að allir verði að hafa jafnan aðgang að upplýsingum úr grunninum á sömu kjörum, ekki megi mismuna rekstraraðilum, þar á meðal ekki sérleyfishafanum sjálfum. Það þýðir, að DeCode Genetics má ekki njóta betri viðskiptakjara en aðrir notendur.

Reglur um magnafslætti verði að vera gegnsæjar. Ennfremur þurfi DeCode Genetics að skilja fjárhagslega milli rekstrar gagnagrunnsins og annarrar starfsemi sinnar. Til greina komi að banna sérleyfishafanum hreinlega að gera annað en að reka gagnagrunninn sjálfan.

Þetta eru nokkur mikilvægustu atriðin, sem Lagastofnun háskólans telur, að breyta þurfi, svo að lagafrumvarpið um krosstengdan gagnagrunn standist 54. grein samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem bönnuð er misnotkun á markaðsráðandi stöðu.

Þótt meirihluti Alþingis sé fús til að gera hvað sem er til að þjónusta vilja forsætisráðherra og forstjóra DeCode Genetics, þá verður ekki séð, að stjórnvöldum henti að knýja frumvarpið fram í núverandi formi, ef síðan verða endalausir eftirmálar fyrir dómstólum úti í heimi.

Betra er að nota álit Lagastofnunar til þess að endurbæta frumvarpið. Slíkt mun afla málinu stuðnings margra þeirra, sem annars hefðu sig í frammi í kærumálum. Allra bezt væri svo, að frumvarpið fæli í sér opinbera gjaldtöku fyrir aðgang að sérleyfi.

Síðan mætti selja forstjóra DeCode Genetics sjálfdæmi um, hvort hann þurfi yfirleitt sérleyfi, ef ekki fæst annars konar sérleyfi en það, sem heiðarlegt má teljast.

Jónas Kristjánsson

DV

Fámenni og fáokun

Greinar

Stigið hefur verið skref í átt til fáokunar í heildsölu á nýlenduvöru. Verzlunarkeðjan 10-11 er farin að kaupa pakkavörur sínar hjá Aðföngum, sem er innkaupafyrirtæki Hagkaups, Nýkaups og Bónusar. Fleiri verzlanir eru á sömu leið inn í hlýjuna hjá þeim stóra.

Samruni hefur verið hraður í nýlenduvöruverzlun á undanförnum árum. Myndast hafa öflugar keðjur, þær sem nefndar voru hér að ofan og auk þess Nóatún, 11-11 og Nettó. Þessar keðjur hafa barizt af hörku og sameiginlega haldið niðri vöruverði í landinu.

Samkeppnin í smásölunni hefur átt umtalsverðan þáttí að halda verðbólgu í skefjum hér á landi á allra síðustu árum og hefur jafnvel leitt til verðhjöðnunar á sumum tímabilum. Þetta hefur bætt lífskjör almennings og auðveldað ríkisvaldinu efnahagsstjórnina.

Því miður er endanlegt markmið allrar samkeppni að komast í einokun. Það er eins og að setjast í helgan stein eftir stormasama ævi og láta peningana velta til sín fyrirhafnarlaust. Með samkeppni stefna fyrirtæki að því að fækka keppinautum og sitja ein eftir á fleti.

Spurningin er, hvenær þetta ferli hættir að vera neytendum til hagsbóta og fer að verða þeim skaðlegt. Fólk hrökk við, þegar helztu keppinautarnir, Bónus og Hagkaup, féllust í faðma, sameinuðust fyrst um aðföng og rugluðu síðan hreinlega saman reytum sínum.

Fátt hefur enn komið fram, sem bendir til, að stofnun Baugs og síðan Aðfanga hafi þrengt kosti neytenda. Enn er hörð samkeppni í vöruverði í smásölu. Enn eru verzlunarkeðjur í fararbroddi þeirra, sem bæta lífskjör þjóðarinnar og efla þjóðhagslegt jafnvægi.

Að vísu hefur nokkuð borið á, að góðar vörur hafi horfið úr hillum og lakari komið í staðinn, sennilega vegna þeirrar yfirburðastöðu, sem Aðföng hafa náð í heildsölunni. Enginn getur keppt við aðila, sem hefur forgang að viðskiptum allra stærstu keðjanna.

Við vitum ekki, hvort viðskipti 10-11 keðjunnar við Aðföng verða skurðpunkturinn, sem snýr samkeppnisdæminu við. Við vitum ekki, hvort þrengd fákeppni í heildsölunni hefur neikvæð áhrif á verðlag í smásölu. Við getum ekki dæmt þennan einstaka atburð.

Hitt er ljóst, að dæmið hlýtur fyrr eða síðar að snúast við. Með vaxandi samruna og myndun ráðandi viðskiptablokka á afmörkuðum sviðum kemur að lokum að því, að neytendur hætta að græða og fara að tapa. Þetta er ekki séríslenzkt, heldur alþjóðlegt vandamál.

Með lögum um einokun og hringa hafa stjórnvöld á Vesturlöndum reynt að hindra, að hagstæð samkeppni breytist í óhagstæða fáokun. Sums staðar hefur verið bannaður samruni, sem felur í sér, að markaðshlutdeild á afmörkuðu sviði fari yfir ákveðna prósentu.

Slík lög hafa verið umdeild, enda er erfitt að meta í tölum, á hvaða punkti samkeppni breytist í fáokun. Fáokun felst líka í fleiru en samruna og hærri markaðshlutdeild. Hún felst til dæmis líka í myndun viðskiptablokka, sem ná yfir röð samliggjandi viðskiptasviða.

Flugleiðir eru til dæmis í netmiðju kerfis, sem spannar erlenda ferðamenn, hvort sem þeir nota flug, bílaleigur, hópferðabíla, ferðaskrifstofur, hótel eða veitingahús. Á hverjum stað er ferðamanninum vísað á önnur fyrirtæki innan keðjunnar, en ekki á hin fyrir utan.

Þótt ekki þurfi að blása í herlúðra út af viðskiptum 10-11 við Aðföng sérstaklega, er almennt gott, að fólk haldi vöku sinni á fámennum og fáokunarhneigðum markaði.

Jónas Kristjánsson

DV

Lítt skipulagður flótti

Greinar

Öðruvísi væri um að litast í landbúnaði, ef tekið hefði verið mark á kenningum, sem settar voru fram í leiðurum forvera þessa blaðs fyrir aldarfjórðungi og síðan ítrekaðar mörgum sinnum á hverju ári. Þá væri afkoma bænda ekki eins dapurleg og hún er nú.

Stjórnvöld hafa á síðustu árum og allt of seint byrjað að gera sumt af því, sem auðveldara hefði verið fyrir aldarfjórðungi. Þau hafa dregið úr framlögum til landbúnaðar og notað hagnaðinn til að kaupa framleiðslurétt af bændum til að auðvelda þeim að bregða búi.

Með því að fresta aðgerðum í tvo áratugi töldu stjórnvöld bændum trú um, að þeir þyrftu ekki að laga sig að markaðsaðstæðum. Þau bjuggu jafnframt til hrikalegt kostnaðardæmi, sem dró úr getu ríkissjóðs til að auðvelda bændum að laga sig að aðstæðum.

Fyrir aldarfjórðungi var augljóst, að landbúnaðurinn gæti ekki og mundi ekki geta selt afurðir sínar úr landi, af því að verndarstefna gildir með fleiri þjóðum en okkur. Þá var einnig augljóst, að innanlandsmarkaðurinn mundi dragast saman með breyttum lífsháttum.

Hér í blaðinu var spáð, að markaður til langs tíma yrði fyrir um það bil 2.000 bændur. Þeir voru þá nærri 5.000. Síðan hefur þeim fækkað niður í 3.000 og á enn eftir að fækka um 1.000. Það eru einkum sauðfjárbændur, sem eru enn alltof margir miðað við markaðinn.

Vandræði bænda byggjast einkum á því óláni að standa sífellt öfugum megin í markaðslögmáli framboðs og eftirspurnar. Verðlag þrýstist niður, þegar framleiðsla er meiri en eftirspurn. Þetta er eitt af þessum einföldu lögmálum, sem margir eiga erfitt með að skilja.

Með því að borga bændum fyrir að búa áfram og framleiða sem mest voru stjórnvöld áratugum saman að framlengja ójafnvægi, sem hefur alltaf verið bændum í óhag, þótt fæstir þeirra hafi viljað skilja það. Þeim væri í hag að finna nýtt jafnvægi sem allra fyrst.

Enn hafa stjórnvöld aðeins tekið á þeim hluta vandans, sem snýr að lokuðum innanlandsmarkaði. Enn hefur ekki verið horfzt í augu við þá augljósu framtíð, að markaðurinn mun opnast fyrir erlendri búvöru vegna fríverzlunarsamninga, sem ríkið verður að gera.

Titölulega fáir, öflugir og sérhæfðir bændur eru miklu betur í stakk búnir að mæta síðari hluta vandans heldur en margir og skuldugir bændur með fjölbreyttan búskap, einkum ef hann er af hefðbundnu tagi. Þeir, sem nú þegar lepja dauðann úr skel, hafa litla von.

Loðdýramenn og hrossaræktendur eru dæmi um sérhæfða bændur, sem geta mætt ótryggri framtíð, ef þeim fjölgar ekki um of. Þeir hafa fundið glufur á erlendum markaði, sem geta gefið góðar tekjur, ef menn gæta þess að hefja ekki eitt offramleiðsluæðið enn.

Lífrænir bændur eiga líka möguleika, ef menn falla ekki í þá gryfju að ímynda sér, að unnt sé að ljúga því að útlendingum, að íslenzkur landbúnaður sé meira eða minna lífrænn eins og hann er núna. Blekkingar verða til þess eins, að markaðurinn hrynur.

Fáir aðrir en loðdýra-, hrossa- og lífrænir bændur eiga færi í útflutningi. Aðrir verða að sæta innlendum markaði, sem mun áfram minnka, hægt og sígandi í mjólkurvörum og hraðar í kjötafurðum, einkum af sauðfé. Áróðursherferðir munu áfram mistakast.

Fyrir aldarfjórðungi tóku menn illa ráðum af þessu tagi. Þess vegna varð undanhaldið ekki skipulegt, heldur hröktust menn slyppir úr einu víginu í annað.

Jónas Kristjánsson

DV

Madonna

Veitingar

Það kemur spánskt fyrir sjónir, að Spánarvín skuli vera kjölfesta vínlistans á veitingahúsi, sem kallar sig “ristorante” og “í ítölsku umhverfi”. Og ekki er mikill Ítalíusvipur á að bjóða þunnt kaffi úr sjálfsala og kalla það espresso.

Gervimúrsteinn og gervimarmari, gervisúlur og gervibitar, vafnir gerviblómahafi, og dauflega kertalýst myrkur um miðjan dag eiga að höfða til ástarævintýra með contessum við hrundar hallir á hæðunum við Flórens, en virka í raun eins og leiksvið.

Þegar kjörþyngdarfólk hefur troðið sér í bakháa bekki og hinir hafa setzt í stólana fyrir framan, kemur í ljós, að þetta er notaleg og næstum rómantísk veitingastofa með góðri þjónustu og frambærilegum Ítalíumat fyrir lægsta verð, sem þekkist hér á landi.

Hér borga menn í hádeginu 785 krónur fyrir súpu og pöstu og 885 fyrir súpu og fiskrétt. Annars kosta níu tomma pítsur 950 krónur, pöstur 1050 krónur, alvöruréttir 1590 krónur og þríréttað með kaffi 3100 krónur. Þetta verð er til fyrirmyndar.

Gengið er þröngan gang inn að þröngum skenk með reyksal til hægri og reyklausan til vinstri, þar sem öflugar loftviftur halda góðu lofti. Lágvær óperutónlist hefur í seinni tíð vikið fyrir lágværu jarmi í Eurovision-stíl, sem hverfur í kliðinn við borðin, þar sem jafnan er setinn bekkurinn.

Rjómuð og rauðleit humarsúpa, þakin þeyttum rjóma, var meyr og matarmikil, borin fram með hvítlauksbrauði, sem fylgir mörgum réttum staðarins. Ítalskt salat með ólífum, pepperoni, skinku, túnfiski og rækjum reyndist vera heil máltíð. Gott var ferskt og fjölbreytt grænmetissalat með ostasósu.

Meira spennandi forréttir voru hvítlauksristaðir og meyrir sniglar með mikilli hvítlauksrjómasósu ofan á beði jöklasalats. Og smávaxinn hörpuskelfiskur, örlítið of mikið pönnusteiktur í mildu raspi og sterkri freyðivínssósu.

Góð var pitsa Veneziana með eggjum, beikoni og lauk, svo og hæfilega brakandi kanti. Pöstur voru enn betri, nákvæmlega soðnar, svo sem fettucini með humri í skelfisksósu. Spaghetti carbonara var líka léttsoðið, en hins vegar ofhlaðið grana-osti og skorti alveg skinku og harðsoðin egg.

Mildilega pönnusteikt ýsa í mildu karríi var frambærileg, en benti til, að fiskur kæmi ekki daglega í húsið. Hæfilega smjörsteiktur skötuselur í hvítvínssósu var líka góður, en pönnusteikt grænmeti með honum stakk í stúf. Bökuð kartafla virtist fylgja öllum fiskréttum.

Súkkulaðifrauð var létt og hlutlaust, með þeyttum rjóma. Ostakaka var hæfilega mjúk og góð, en ofhlaðin ávöxtum, þeyttum rjóma og aðallega sultu. Það er vel hægt að hugsa sér að koma hér aftur.

Jónas Kristjánsson

DV