Snúið út úr kvótadómi

Greinar

Ef ríkisstjórnin og meirihluti Alþingis túlkar á réttan hátt kvótadóm Hæstaréttar, var óþarfi að vera jafnframt með fýlu í garð réttarins. Ef Hæstiréttur vildi efla og útvíkka einkaeign manna á þjóðarauðnum, þurftu stuðningsmenn einkaeignar ekki að kvarta og kveina.

Ríkisstjórnin og meirihluti Alþingis hafa ákveðið að túlka kvótadóminn sem tæknilegan aðskilnað veiðileyfa og veiðiheimilda. Alþingi er að afgreiða frumvarp, þar sem skip og eignarhald á skipum eru eins og áður grundvöllur fiskveiða. Sægreifaveldið er eflt í sessi.

Þar sem þessir stjórnmálamenn voru áður búnir að velja Hæstarétti hin verstu orð, má fullyrða, að kvótadómurinn hafi ekki verið þeim eins hagstæður og ætla mætti af tæknibreytingum nýja lagafrumvarpsins. Þeir hafi bara ákveðið að kúga Hæstarétt til hlýðni.

Með setningu nýju laganna deyfir Alþingi fyrri ákvörðun um, að fiskimiðin séu þjóðareign. Alþingi er löggjafarvaldið í landinu og getur orðað ný lög á þann hátt, að það víki til hliðar orðalagi fyrri laga. Með nýju lögunum er skákað brott fyrra ákvæði um þjóðareign.

Hingað til hefur Hæstiréttur haft skjól af orðalagi fyrri laga um þjóðareign á fiskimiðunum. Eftir nýja túlkun meirihluta Alþingis hefur rétturinn ekki lengur sama skjól af þessu orðalagi. Hann verður hér eftir að vísa til stjórnarskrárinnar, ef hann vill halda frekara andófi.

Alþingismenn hafa fengið tækifæri til að skjótast heim í héruð yfir hátíðarnar. Þeir vita því sjálfsagt, hvað þeir geta boðið kjósendum rétt fyrir kosningar. Þeir telja greinilega, að kjósendur séu sáttir við afnám þjóðareignarinnar eins og hún birtist í nýja lagafrumvarpinu.

Samt eru sífellt að berast fréttir af flutningi kvóta milli hafna og héraða. Útgerðarfélög ganga kaupum og sölum. Hér eftir mun kvótaréttur á trillum ramba á sama hátt um landið. Fólk mun hér eftir sem hingað til vakna upp við, að frystihúsi og fiskvinnslu hefur verið lokað.

Þótt frumvarpið geri ráð fyrir, að örlítill kvóti verði tekinn frá handa sveitarfélögum, sem hafa farið illa út úr tilflutningum kvóta, breytir það ekki meginstraumi þróunarinnar, að kvóti safnast smám saman á færri hendur og flytzt úr fámennum plássum.

Sennilega hefur stuðningsmönnum sægreifakerfisins tekizt að telja kjósendum í sjávarplássum trú um, að kerfið þjóni hagsmunum þeirra, jafnvel þótt augljóst sé, að kvóti, sem bundinn er við sægreifa, flytzt með sægreifum, hvert á land sem þeir flytja reksturinn.

Einn daginn er Djúpivogur fórnardýrið, annan er það Breiðdalsvík. Einn daginn er Flateyri fórnardýrið, annan daginn er það Patreksfjörður. Smám saman skríður kvótinn til stærri byggðarlaga og endar hjá nokkrum stórum útgerðarfélögum, sem flytja til Reykjavíkur.

Hins vegar skiptir raunveruleikinn ekki máli, heldur það, sem fólk ímyndar sér eða fólki er talin trú um. Þannig skiptir máli, að þingmenn stjórnarflokkanna hafa komizt að raun um það heima í héraði, að þeir geta leyft sér að treysta og víkka sægreifakerfi fiskveiða.

Þetta endar með því, að Hæstiréttur getur ekki sótt hagsmuni þjóðar, sem vill ekki sækja þá. Ef fólkið í sjávarplássunum er svo fávíst, að það heldur sig geta haldið sægreifum hjá sér til eilífðarnóns, verður það bara að fá að reka sig á kaldan raunveruleikann.

Með sama áframhaldi mun ríkisstjórn og meirihluta Alþingis takast að snúa út úr kvótadómi Hæstaréttar og flytja okkur enn fjær þjóðareign á fiskimiðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Heimur versnandi fer

Greinar

Sjaldgæft er að sjá einhvern undir fimmtugu í fiskbúðum Reykjavíkur. Svipað er að segja um sérverzlanir í kjöti, en slæðingur af ungu fólki sést í bakaríum. Meðan eldra fólk borðar venjulegan mat, fær yngra fólkið sér skyndibita upp úr pökkum frá stórmörkuðum.

Þetta er auðvitað alhæfing, sem einfaldar flókinn veruleika. Sú staðreynd breytir því ekki, að meira er um, að eldra fólk fái eðlilegan mat án geymsluefna og annarra viðbótarefna, og að meira er um, að yngra fólk hlaði sig upp af fylgifiskum pakkavörunnar.

Samt hefur nútíminn fært okkur meiri frístundir. Fólk hefur meiri tíma en áður til að matreiða frá grunni í stað þess að opna pakka og stinga í örbylgjuofna. Menn nota bara ekki viðbótartímann til þessa né heldur til ýmissa annarra gamalkunnra lífsins gæða.

Óbrenglaður matur er eitt af nokkrum dæmum um lífsgæði, sem margt ungt fólk fer á mis við. Annað dæmi er þögnin, sem margt eldra fólk kann að meta og sækist eftir. Hjá yngra fólki má hins vegar víða sjá merki þess, að þögn vekur því tómleika og taugaveiklun.

Tæpast er unnt að sækja ýmsa þjónustu, sem beinist fremur að yngra fólki en eldra. Líkamsrækarstöðvar ganga fyrir grenjandi hávaða, sem dugar til að vega upp á móti heilsubatanum. Viðskiptavinirnir eru orðnir svo háðir hávaða, að þeir geta ekki verið án hans.

Gaman væri að prófa heilsuræktarstöð, sem beindist jafnt að líkama og sál og gæfi notendum kost á heilsurækt í þögn. Svo virðist sem menn þurfi að fara í önnur sveitarfélög til að finna svo sérvizkulegan stað, að hann gefi fólki kost á þekktri sálarnautn þagnarinnar.

Yngra fólk aflar sér upplýsinga á annan hátt en eldra fólk. Sameiginlegt einkenni nýrra leiða í fréttamiðlun er, að þær eru formlega séð ókeypis fyrir notandann, en eru ekki söluvara eins og gömlu leiðirnar. Pappírsmiðla kaupa menn en fá sjónvarps- og veffréttir ókeypis.

Svo virðist sem ungt fólk leiði ekki hugann að því, að enginn hádegisverður er ókeypis, svo að notað sé þekkt slagorð frjálshyggjunnar. Það er einhver, sem borgar fyrir fréttirnar, ef notendur þeirra gera það ekki í áskrift eða lausasölu. Og sá, sem borgar, ræður ferðinni.

Skýrast sést þetta af upplýsingum, sem fólk sækir á veraldarvefinn. Yfirleitt eru þetta lakari, gagnminni og ónákvæmari upplýsingar en þær sem fá má á prenti, til dæmis í ýmsum sérhæfðum tímaritum, og of oft beinlínis villandi upplýsingar af hagsmunaástæðum.

Margir, sem venja sig á að nota vefinn sem heimild, hirða ekki um að spyrja sig, hver sé hliðvörður upplýsinganna og hvort hann líti á sig sem umboðsmann notenda upplýsinganna eða umboðsmann þess aðila, sem borgar fyrir að hafa upplýsingarnar á vefnum.

Áður tíðkuðust skýr mörk milli auglýsinga annars vegar og frétta og annarra upplýsinga hins vegar. Með innreið sjónvarps fóru þessi mörk að verða óskýrari og á vefnum hafa þau alveg horfið. Þar með tapast lífsgæði, sem fólust áður fyrr í hinum skýru mörkum.

Rýrnun lífsgæðanna birtist ennfremur í, að erlend símafyrirtæki eru farin að búa sig undir að bjóða neytendum ókeypis símanotkun gegn því, að fluttar verði auglýsingar í upphafi símtals og síðan með reglubundnum hætti innan langdreginna símtala,

Heimur versnandi fer og lífsgæði rýrna, með skyndibitum í stað matar, hávaða í stað þagnar og ókeypis þjónustu í stað þeirrar, sem menn hafa greitt fyrir.

Jónas Kristjánsson

DV

Bandaríkin einangrast

Greinar

Fyrirferð einkamála Bandaríkjaforseta í stjórnmálum landsins er dæmi um bilunareinkenni heimsveldis. Í vaxandi mæli er það að hrekjast úr meginstraumi alþjóðlega samfélagsins inn á sérvizkulegar brautir, sem lítinn hljómgrunn hafa með fyrrum bandamönnum þess.

Íraksdeilan er eitt margra dæma um hnignun Bandaríkjanna. Í stað þess að ljúka Flóabardaga með því að hrekja flokk Saddams Husseins frá völdum, var honum hlíft til að nota hann sem mótvægi við Persíu, sem Bandaríkin hafa lengi haft að höfuðandstæðingi.

Enda tókst þeim ekki að fá með sér önnur ríki en Bretland í nýrri atlögu að Hussein í lok síðasta árs. Loftárásir atlögunnar fóru að mestu fyrir ofan garð og neðan. Hernaðarmáttur Husseins er meiri en hann var fyrir Flóabardaga. Hann ögrar heimsveldinu áfram.

Bandaríkin hafa lagt mikinn kostnað í að reyna að friða Norður-Kóreu, sem er enn fátækara og aumara ríki en Írak. Samt heldur smáríkið uppteknum hætti, undirbýr framleiðslu hryðjuverkavopna og hótar að beita þeim gegn Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra.

Einna undarlegust er stinamýkt og fyrirgreiðsla Bandaríkjanna gagnvart Kína, sem enn stelur hugviti og hernaðarleyndarmálum heimsveldisins, peningum bandarískra fjárfesta og ofsækir andófsmenn fyrir fylgilag við “höfuðóvin” sinn, það er Bandaríkin.

Önnur ríki hafa ekki staðið sig betur, en þau gera heldur ekki kröfu til að teljast heimsveldi. Vestur-Evrópa og Bandaríkin hafa beðið sameiginlegt skipbrot í styrjöldum Balkanskagans og geta ekki einu sinni borgað gjaldþrota Rússlandi fyrir að halda sér á mottunni.

Í kjölfar alls þessa kemur svo evran og ryður dollar úr sessi heimsmyntar án þess að setjast þar sjálf í staðinn. Í stað einnar reikningsmyntar í heiminum eru þær orðnar tvær. Strax á fyrstu dögum evrunnar hefur komið í ljós, að hún nýtur ekki minna trausts en dollarinn.

Ríki, fyrirtæki og einstaklingar um allan heim munu fljótlega draga úr dollaraeign sinni og dreifa gengisáhættunni með því að flytja hluta gjaldeyrisforðans yfir í evrur. Þannig missa Bandaríkin hluta valdastöðu sinnar sem seðlaprentunarvél fyrir alla heimsbyggðina.

Bandaríkin hafa að undanförnu í vaxandi mæli farið sínar eigin leiðir í fjölþjóðlegum samskiptum. Þau hafa eitt fárra ríkja ekki enn staðfest hafréttarsáttmálann og helztu umhverfissáttmála síðustu ára. Þau brjóta að geðþótta sáttmálann um Heimsviðskiptastofnunina.

Sameinuðu þjóðunum hafa Bandaríkin sýnt sérstakan yfirgang. Þau neita að borga gjöld sín, þótt þau séu lægri á hvern íbúa en gjöld margra ríkja Vestur-Evrópu og bera því við, að samtökin mæli með fóstureyðingum! Samt vilja Bandaríkin ráða ferð samtakanna.

Hvað eftir annað hafa Bandaríkin einangrazt í atkvæðagreiðslum í Sameinuðu þjóðunum, oft með ofbeldissinnuðu smáríki, Ísrael, sem hefur verið til mikilla vandræða í Miðausturlöndum á þessum áratug. Þetta veldur spennu í samskiptum vesturs og íslams.

Öldungis er óvíst, að önnur ríki stæðu sig betur í hlutverki eina heimsveldisins, ef þau væru af stærðargráðu Bandaríkjanna. En þau eru eina heimsveldið, sem við höfum og ættu að geta staðið sig betur í því hlutverki, ekki sízt eftir gleðilegt fráfall Sovétríkjanna.

Heimsveldi kemst ekki lengi upp með að vera upptekið af innanlandsmálum og allra sízt ef það eru óskiljanleg deilumál á borð við framhjáhöld ráðamanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Að fá eitthvað fyrir ekkert

Greinar

Fólk skrifar sig fyrir hlutabréfum í bönkum, selur þau aftur og fær nokkur þúsund krónur upp úr krafsinu. Þetta er sú mynd, sem einkavæðingin hefur tekið á sig, þótt tilgangurinn hafi upphaflega verið, að fólk héldi hlutabréfum sínum og biði eftir arðgreiðslum.

Sumum reynist þetta vera kennsla í þætti hlutabréfa í almennum sparnaði, en öðrum reynist þetta vera ný útgáfa keðjubréfanna gömlu, sem áttu að gera menn ríka fyrir ekki neitt. Dæmin sanna, að það höfðar til margra Íslendinga að geta fengið eitthvað fyrir ekkert.

Sumir hugsa sem svo, að ekki sé nema mátulegt, að þeir sjálfir hagnist svolítið á hlutabréfaútboði, úr því að einkavinir stjórnvalda hafa hagnazt enn meira á einkavæðingu ríkiseinokunar. Þeim finnst þeir verða sjálfir ofurlitlir aðilar að hinni eftirsóttu spillingu.

Margir hafa það eitt út á spillingu að setja að komast ekki í hana sjálfir. Þeir stjórnast af öfund fremur en réttlæti. Í þeirra augum eru það sárabætur að geta fengið eitthvað ókeypis út á kennitöluna. Þannig stuðlar útboð hlutabréfa í bönkum að friði í þjóðfélaginu.

Á svipaðan hátt hafa margir sótzt eftir aðild að kvótakerfinu í fiskveiðum í kjölfar dóms Hæstaréttar. Þeir telja hugsanlegt, að sægreifastandið verði víkkað út til þeirra, sem hafi vit á að vera með sníkjuhattinn sinn á réttum stað og réttum tíma í ráðuneytinu.

Það er von, að menn haldi þetta, úr því að einn þekktasti lagaprófessor landsins telur, að fyrsta grein kvótalaganna sé marklaus, þótt hún sé eina grein laganna, sem fékk rækilega umfjöllun á Alþingi. Þetta er greinin, sem segir, að þjóðin eigi fiskinn í sjónum.

Þessi grein var ekki hugsuð sem ávísun á ókeypis aðgang fólks að tekjum einkavinavæðingar. Hún er bara sett í lögin til að skera úr um, að sægreifarnir eigi ekki fiskinn í sjónum, heldur þjóðin. Þar með er átt við þjóðina alla, en ekki eitt þúsund kvótaumsækjendur.

Siðferðileg forsenda þessarar fyrstu greinar laganna er, að stjórnvöld hafa fyrir hönd þjóðarinnar framleitt auðlindina með því að setja reglur um þröngan aðgang að henni. Ef reglurnar hefðu ekki verið settar, væri búið að ofveiða stofnana og auðlindin væri þorrin.

Samkvæmt stjórnarskrá og lögum er fiskurinn í sjónum sameign þjóðarinnar, en ekki séreign núverandi sægreifa, væntanlegra sægreifa úr hópi umsækjenda, sjómanna, fiskverkafólks, fiskvinnslustjóra, sveitarfélaga á höllum fæti eða einhvers annars sérhagsmunahóps.

Þegar Hæstiréttur hefur með öðrum dómi staðfest gildi fyrstu greinar laganna, geta stjórnvöld brugðizt við með því að láta alla umsækjendur hafa kvóta eða með því að senda kvóta í pósti til allra kennitalna. Það er aðferð, sem minnir á hlutafjárútboð bankanna.

Stjórnvöld geta líka brugðizt við á ábyrgari hátt með því að láta kvótann fara á leiguuppboð, þar sem allir hafa rétt til aðildar, en þeir bjóða bezt, sem hagstæðastar hafa forsendur til að veiða fiskinn. Þannig væri öllu réttlæti og allri markaðshagfræði sinnt í senn.

Að undanförnu hafa misvísandi skilaboð verið send til almennings með kennitöluæðinu. Því hefur óbeint verið komið á framfæri, að markaðsvæðing hagkerfisins feli í sér ókeypis hlutaveltu með engum núllum, en ekki langtímasparnað þeirra, sem vilja kaupa pappíra.

Það er gott að leggja niður einokun, hvort sem hún er ríkis, sægreifa, Kára eða annarra gæludýra. En það er engan veginn sama, hvernig ríkið heldur á spilunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Örlagamál á tímamótaári

Greinar

Á síðasta ári tuttugustu aldar stöndum við á tímamótum í mörgum málum, sem varða okkur miklu. Viðhorf til kvóta í atvinnulífi, mannvirkja á hálendi og til ýmissa þátta einkavæðingar, einkavinavæðingar og einkaleyfavæðingar hafa verið að mótast og breytast.

Þetta er líka kosningaár, sem kann að gefa kjósendum færi á að segja álit sitt á þessum málum í deiglunni. Hitt er þó líklegra, að ryki verði af gömlum vana varpað framan í kjósendur og að þeir kæri sig ekki heldur um að axla sjálfir ábyrgð á framvindu deilumála.

Fólk fagnar því, að Hæstiréttur hefur slegið á fingur valdhafa og veitenda gjafakvóta í sjávarútvegi. Það ætlast til, að rétturinn staðfesti þá stefnu í frekari málaferlum. En það verður tregt til að taka sjálft á slíkum málum í vor við val fulltrúa sinna á Alþingi.

Samt er ljóst, að innleiða má réttlæti í kvótakerfið með því að bjóða kvótana út á almennum markaði, þar sem allir megi leggja fram tilboð. Þar með eru allir jafnir fyrir lögunum. Bjóða má kvótana út til fimm ára í senn í fimm jöfnum hlutum á fimm ára tímabili.

Þetta er ein leið af mörgum, sem nefndar hafa verið í umræðunni að undanförnu. Hún hefur þann kost, að hún mildar áhrif breytingarinnar á núverandi handhafa gjafakvóta og mildar einnig áhrif hennar á umfang markaðarins með því að dreifa sölunni á nokkur ár.

Vaxandi meirihluti er fyrir því, að valdhafar fari að gá að sér í misþyrmingu ósnortins víðernis í þágu stóriðju. Fólk vill ekki, að Þjórsárver og Eyjabakkar fari undir dauð uppistöðulón með breytilegri vatnshæð. Fólk telur sig hafa ráð á að varðveita fágætar náttúruperlur.

Hitt er svo önnur saga, að fólk er tregt til að taka afleiðingum þessara sjónarmiða sinna í vali á fulltrúum sínum á Alþingi. Það vill frekar væla utan í ótraustum fulltrúum sínum heldur en að hafna því beinlínis að velja ótrausta fulltrúa til að setja lög um þessi mál.

Endurheimt þjóðareignar á fiskimiðum og varðveizla ósnortins víðernis eru skýr dæmi um mál, þar sem meirihluti fólks hefur snúizt á sveif með öðrum málstaðnum og getur beitt sér í alþingiskosningum ársins, en mun samt tæpast notfæra sér þá aðstöðu.

Flóknari er málaflokkurinn, sem snýst um orðið “einka”. Þar er um að ræða þá þverstæðu, að í senn er verið að einkavæða sum ríkisfyrirtæki, einkavinavæða önnur og einkaréttarvæða enn önnur svið. Einstakir þættir framvindunnar stangast á við aðra.

Það væri verðugt verkefni þjóðarinnar á þessu kosningaári og síðasta ári aldarinnar að ákveða, hvert skuli stefna með orðið “einka”. Á að einkavæða eða á að einkavinavæða? Á að hefja að nýju útgáfu einkaleyfa eða á að afturkalla öll ný og gömul einkaleyfi?

Ljóst er, að siðferðilegur og markaðslegur munur er á einkavæðingu og einkavinavæðingu. Ennfremur er ljóst, að himinn og haf er á milli einkavæðingar og veitingar einkaleyfa. Kjósendur geta ákveðið að taka sér vald til að fá botn í þetta, en þeir munu tæpast nenna því.

Við getum, ef við viljum, notað lokaár aldarinnar til að knýja fram skynsamlega stefnu í stíl við breyttan tíðaranda á öllum þessum sviðum og ýmsum fleiri. Spurningin er hins vegar, hvort við séum menn til að taka á þessu eða látum landsfeðurna eina um hituna.

Spurningin er sennilega sú, hvort við viljum yfirleitt vera borgarar, sem standa á tímamótum, eða hvort við viljum vera þegnar, sem látum aðra ráða ferð.

Jónas Kristjánsson

DV

Evru-bylting áramótanna

Greinar

Vextir lækka á meginlandi Evrópu um áramótin, þegar evran hefur göngu sína sem sameiginlegur gjaldmiðill flestra ríkja Evrópusambandsins. Lægri vextir lækka framleiðslukostnað og gera fyrirtæki svæðisins samkeppnishæfari og kraftmeiri í átaksverkefnum sínum.

Flest bendir til, að evran verði Evrópu enn hagstæðari en áður hafði verið gert ráð fyrir. Hún verður til dæmis víða notuð meðfram heimamyntinni í ríkjum, sem ekki eru aðilar að henni, svo sem í Danmörku og Noregi. Af því má ráða aðdráttarafl nýju myntarinnar.

Sama vara hefur hingað til verið seld á misjöfnu verði í ríkjum bandalagsins. Með evrunni verður auðveldara fyrir neytendur að átta sig á slíkum verðmun. Það veldur þrýstingi í átt til jöfnunar á verði á lægri nótum þess. Verðhjöðnun verður því ein afleiðing evrunnar.

Sem dæmi um þetta má nefna rakvél, sem kostar 6300 krónur á Spáni, 7210 krónur í Hollandi, 8260 krónur í Þýzkalandi og 8680 krónur í Frakklandi. Verð slíkrar rakvélar mun hafa tilhneigingu til sameinast nálægt lægri brún þessa verðsviðs, neytendum til góðs.

Neytendur munu líka smám saman átta sig á heimatilbúnum vandamálum, sem fylgja því, ef eitt ríkir leyfir sér að leggja á hærri virðisaukaskatt en hin og hækkar þannig vöruverð í evrum umfram það, sem er í nágrannalöndunum. Þetta hvetur til skattalækkana.

Neytendur munu líka átta sig smám saman á öðrum heimatilbúnum vandamálum, sem fylgja sérstökum íþyngingarreglum eða samkeppnishömlum eins og þeim, að lyf eru í Þýzkalandi aðeins seld í lyfjabúðum og þá á hærra verði en í öðrum löndum bandalagsins.

Í kjölfar evrunnar verða framleiðsla og sala straumlínulagaðri í Evrópu en áður var. Fyrirtæki auka framleiðni sína til að geta staðlað verð sitt á lægri brún verðsviðsins. Ríkisstjórnir lækka skatta og fella niður samkeppnishindranir til að styggja ekki neytendur.

Evran mun frá fyrsta degi hennar bæta lífskjör í Evrópusambandinu. Fleira fólk mun hafa ráð á að kaupa sér lúxusvörur á borð við íslenzkan fisk. Gott efnahagsástand í Evrópu styrkir því markað fyrir afurðir okkar og bætir óbeint efnahagsástandið hér á landi.

Við förum hins vegar á mis við framleiðnihvetjandi og samkeppnishvetjandi afleiðingar evrunnar og munum dragast aftur úr nágrönnum okkar í samkeppnishæfni. Við fáum ekki sömu tæki í hendurnar til að bæta verðskyn okkar og skyn okkar á skatta og ríkishömlur.

Banka- og gjaldeyriskostnaður verður áfram hár hér á landi og vextir verða töluvert hærri en á meginlandi Evrópu. Þetta er fórnarkostnaður okkar af þeirri stefnu, að við séum svo sérstök þjóð með svo sérstakt atvinnulíf, að við þolum ekki aðild að Evrópusambandinu.

Þetta er gamalkunn minnimáttarstefna. Einu sinni fannst okkur, að við þyrftum að hafa margfalda gengisskráningu meðan aðrar þjóðir höfðu eitt gengi. Einu sinni fannst okkur, að við þyrftum að nota skömmtunarseðla eftir að aðrar þjóðir höfðu kastað þeim.

Við teljum okkur vera svo mikla álfa út úr hól, að við þurfum sérstaka vitringa á borð við Finn Ingólfsson og Þorstein Pálsson og Halldór Blöndal til að hugsa fyrir okkur og miðstýra meginþáttum atvinnulífs og viðskipta í stað þess að láta sjálfvirkni markaðarins ráða ferð.

Við missum því af lestinni, þegar þjóðir Vestur-Evrópu leggja frá sér mörk og franka og taka upp evru, mikilvægustu kaflaskil síðustu áratuga í álfunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Myndbirtingar báknsins

Greinar

Fyrirbærið, sem við köllum stundum báknið og stundum kerfið, tekur oft á sig óvenjulegar myndir, stundum skemmtilegar og annars leiðinlegar, stundum jákvæðar og annars neikvæðar. Myndbirtingar kerfisins eru fréttaþyrstum fjölmiðlum sífellt umræðuefni.

Ein ánægjulegasta myndbirtingin undir lok ársins var sýknudómur Héraðsdóms Suðurlands í máli manns, sem hafði ölvaður ekið slasaðri konu úr óbyggðum til byggða, þaðan sem hann gat hringt í lögregluna. Dómstóllinn taldi, að nauðsyn hefði verið lögum æðri í tilvikinu.

Sektardómur hefði ekki eflt löghlýðni fólks og síður en svo aukið virðingu þess fyrir lögunum. Með því að sveigja niðurstöðuna frá formfestu að mannlegum og réttlátum sjónarmiðum hefur Héraðsdómur Suðurlands sýnt óvænta og jákvæða hlið á réttarkerfi okkar.

Sorglegasta myndbirting báknsins voru aðgerðir utanríkisráðherra og sýslumannsins á Keflavíkurvelli til að hindra, að Friði 2000 tækist að koma rétta boðleið jólagjöfum til írakskra barna, þótt jólagjafirnar hefðu tilskilda pappíra frá sjálfum Sameinuðu þjóðunum.

Hatrið blindar mönnum sýn. Þannig hefur utanríkisráðherra blindazt af ásökunum forstöðumanns Friðar 2000 út af óbeinni aðild ráðherrans að óbeinum ofsóknum Vesturlanda gegn írökskum almenningi. Þess vegna misbeitti hann valdi gegn jólagjöfum til barna.

Undarlegasta myndbirting kerfisins var skýrsla, sem trausti rúinn ríkisendurskoðandi afhenti Alþingi um fyrirtækið Stofnfisk, hluta af einkavinavæðingu stjórnvalda. Í skýrslunni voru birt sum málsgögn og ekki önnur. Og birtu málsgögnin voru sumpart yfirstrikuð.

Áður hafði komið fram í máli Landsbankans, að stjórnarandstaðan getur ekki treyst núverandi ríkisendurskoðanda, sem er einn af “strákunum” og lítur á það sem skyldu sína að vernda hagsmuni stjórnvalda, á milli þess sem hann reynir að hamstra sér aukatekjur.

Steininn tekur úr, þegar hann ræðst með tússpenna á skýrslu og gerir hana ólæsilega, áður en hún er prentuð og afhent Alþingi. Hann þurfti ekki nema eitt tússpennastrik til að eyðileggja traust embættisins, en lét sig ekki muna um marga tugi slíkra tússpennastrika.

Flutningur ríkisendurskoðunar til Alþingis átti að vera aðferð til að auðvelda löggjafarvaldinu að heimta hluta af eftirlitshlutverki sínu úr gíslingu framkvæmdavaldsins. Þessi tilraun hefur gersamlega mistekizt, svo að Alþingi þarf nýtt tæki til eftirlits með bákninu.

Ánægjulegustu fréttir úr bákninu undir áramót fólust í margs konar töku fíkniefna í stórum stíl. Þær benda til, að þeir, sem hafa það hlutverk að hindra innflutning og dreifingu fíkniefna, hafi náð betri tökum á starfinu og séu orðnir færir um að draga úr eiturflóðinu.

Raunar hefur til skamms tíma verið áhyggjuefni, hversu lítið hefur verið um, að taka fíkniefna hjá neytendum hafi leitt til að löggæzlan hafi getað lesið sig eftir þráðum upp til stórdreifenda og lykilmanna fíkniefnaheimsins. Þetta er núna vonandi að breytast.

Bjartsýnasta fréttin úr bákninu er, að ríkið hefur ákveðið að gefa 7,5 milljónir króna til slátrunar 1.600 hrossa fyrir Rússa, svo að hrossamarkaðurinn rétti sig af. En hrossastofninn verður búinn að ná fyrri stærð löngu áður en Rússar eru búnir að borga fyrir kjötið.

Að lokum má ekki gleyma garminum henni Örnefnanefnd, sem hefur látið frá sér fara enn einn sinna frægu úrskurða. Nú má Ölfusið ekki heita Ölfus.

Jónas Kristjánsson

DV

Heiðin, veraldleg og kristin

Greinar

Nikulás biskup af Amsterdam hefur fyrir löngu verið gerður að rauðklæddum gosdrykkjasveini og sendur til Finnlands, þar sem hann stundar leikfangasmíðar utan annatímans. Mörg erlend börn vita svo mikið um biskupinn, að þau kunna nöfnin á hreindýrum hans.

Hér á landi þekkja börnin ekki finnsku hreindýrin, enda hefur Nikulás samlagast heiðnum og skrítnum leppalúðum innlendum, sem ösla snjóinn fótgangandi, ef þeir eru ekki komnir á jeppa. Undir rauðri skikkju leynist heiðinn trúður með lélega söngrödd.

Íslenzkri þjóðtrú hefur tekizt að breyta útlendum alvörukörlum í trúða. Íslenzki jólasveinninn hoppar og híar umhverfis jólatré, Lykla-Pétur varð að vitgrönnum verði Gullna hliðsins og skrattinn sjálfur varð að lélegum hagyrðingi, sem fór halloka fyrir kraftaskáldum.

Heiðin náttúrudýrkun jólanna leynir sér ekki í jólatrjám og jólasveinum, þótt jólakötturinn sjálfur sé löngu fyrir bí. Heiðnin hefur þó látið undan síga fyrir veraldlegum þætti jólanna, sem endurspeglast mest og bezt í ljósadýrð, sem nú hefur slegið fyrri met.

Rafmagnstækni nútímans hefur fært okkur ódýrari leiðir til að lýsa upp skammdegið og fagna því, að stytztur dagur er að baki og að framundan er löng röð daga, þar sem sérhver er lengri en sá, sem á undan fór. Framar öllu eru jólin veraldleg hátíð ljósanna.

Þjóðum norður undir heimskautsbaug er brýnt að stytta sér skammdegið með jólum. Það gerðu þær löngu fyrir kristni, mest í mat og drykk, bæði fyrr og síðar. Lútum við nú leiðsögn valinkunnra brandarakarla, sem gæfu hangikjöti sex stjörnur, ef þær væru til.

Tilstand jólanna rýfur skammdegið, þegar það er svartast, lýsir umhverfið fögrum ljósum og leyfir okkur að stunda þá erfðasynd, sem við kunnum eina að nokkru gagni, ofátið. Þannig er þunglyndi vikið úr vegi, þegar lotunni lýkur upp úr áramótum og farið að birta.

Að baki alls þessa leynast kristnir þættir, bæði kaþólskir og lúterskir. Fyrsta má telja helgisiðina, sem einkum eru framdir í kirkjum og fullvissa okkur um, að allt sé í sömu skorðum og áður var og verði svo um ókomna tíð. Ytri formin vekja okkur traust og vissu.

Hér er innihald líka að baki, þótt það tengist aðeins óbeint helgihaldi í kirkjum. Þjóðin hefur öldum saman verið eins kristin að innræti og hver önnur þjóð á Vesturlöndum, þótt munklífi eða helgra manna háttur hafi ekki fallið að skaplyndi okkar á síðustu öldum.

Hinn vestræni nútími er svo nátengdur vestrænni kristni, að margir fræðimenn efast um, að austurkristnum þjóðum og þjóðum annarra trúarbragða takist fyllilega að feta í auðsældarfótspor Vesturlanda. Rússland og arabaríkin eru höfð til marks um þennan vanda.

Vestræn siðalögmál nútímans, sem hafa nýtzt frábærlega í viðskiptum og öðrum samskiptum, eru að vísu hugsanleg án kristni og voru til fyrir kristni, en í raun hafa þau orðið nátengd trúnni og öðlast meiri dýpt og meiri útbreiðslu fyrir aldalangt tilstilli hennar.

Að baki trúar á huldufólk og álfa, tröll og jólasveina, innan um forspár okkar í kaffibollum og samtöl okkar við látna á miðilsfundum, glittir víða í einfalda barnatrú, sem hefur reynst mörgum betri en ýmis hálmstrá og jafnvel reynst bezta haldreipi, þegar gefur á bátinn.

Þannig höldum við um þessar mundir ekki aðeins heiðin og veraldleg jól, heldur einnig kristin jól. Megi sá þáttur verða allra þátta drýgstur í jólahaldi okkar.

Jónas Kristjánsson

DV

Kónginum fylgir árferðið

Greinar

Skoðanakannanir í Bandaríkjunum og á Íslandi hafa á þessu ári sýnt, að helztu valdamenn þjóða geta orðið því vinsælli sem meira og almennar er deilt á vinnubrögð þeirra. Ekki má á milli sjá, hvor er vinsælli heima fyrir, ríkisstjórn Íslands eða Bandaríkjaforseti.

Ríkisstjórn Íslands sætir þungum ákúrum fyrir að gefa Hæstarétti langt nef, fyrir einkavinavæðingu og úthlutun sérleyfa til gæludýra sinna, fyrir árásir á ósnortin víðerni landsins og margt fleira. Bandaríkjaforseti sætir þungum ákúrum fyrir lygar um kvennafar sitt.

Meðan ósköpin dynja yfir, rísa vinsældir beggja í skoðanakönnunum. Hér gengur þetta svo langt, að flokkar ríkisstjórnarinnar eru nálægt svo rúmum meirihluta, að þeir gætu fengið færi á að breyta stjórnarskránni, svo sem utanríkisráðherra sægreifanna hefur hótað.

Bandarískir og íslenzkir kjósendur láta skammir á þingi og í fjölmiðlum sem vind um eyru þjóta. Þeir eru hugsanlega sammála einhverju af því eða öllu því, sem ráðamönnum landanna er álasað fyrir. En þeir láta það ekki hafa áhrif á fyrirætlanir sínar í kjörklefanum.

Kjósendur miða við eitthvað annað en umdeild mál, jafnvel þann málstað, sem þeir eru sammála. Skoðanakannanir sýna, að Bandaríkjamenn eru ósáttir við lygar forsetans og að Íslendingar eru ósáttir við gjafakvóta sægreifanna og árásirnar á ósnortin víðerni.

Kjósendur ætlast nefnilega ekki til, að ráðamenn sínir fari eftir því, sem stjórnarandstaðan vill, sem greinahöfundar fjölmiðla vilja, sem almenningur sjálfur vill. Þeir vilja hins vegar, að landsfeður skaffi. Þeir vilja búa við góðæri og þeir vilja búa við traust góðæri.

Íslenzkir kjósendur eru fullvissir um, að væntanlegir forustumenn samfylkingar jafnaðarmanna geti ekki skaffað. Þeir sjá, að vikum saman geta þeir ekki einu sinni náð samkomulagi um fyrirkomulag á röðun framboðslista. Þeir sjá þá stinga hver annan í bakið.

Íslenzkir kjósendur vilja og virða, að sumir stjórnarandstæðingar séu vel að sér um mál eða harðir ræðunaglar, en þeir ætla ekki að kjósa Hjörleif eða Steingrím eða Svavar. Þeir vilja heldur Davíð eða Halldór, sem þeir telja, að muni geta skaffað áframhaldandi góðæri.

Góðærið er óumdeilanlegt, þótt það hafi farið hjá þeim fáu, sem eru verst settir. Góðærinu fylgir bæði hátt kaup og atvinnuöryggi. Ríkisstjórnarflokkarnir njóta góðærisins, hvort sem það kemur frá þeim eða stafar af utanaðkomandi ástæðum eða sennilega sitt lítið af hvoru.

Stjórnarflokkarnir hafa gefið í skyn, að þeir geti vel hugsað sér að starfa saman eftir kosningar. Þetta kunna kjósendur vel að meta og sjá fyrir sér framhald á góðæri. Þeir vilja fá nokkra stjórnarandstæðinga til að rífast á þingi og veita landsfeðrum aðhald, en bara nokkra.

Kjósendur eru sáttir við, að hávaðasöm stjórnarandstaða hafi það hlutverk að knýja fram minni háttar breytingar á kvótalögum, erfðagreiningarlögum, virkjanalögum og öðrum lögum, sem Alþingi afgreiði að öðru leyti samvizkusamlega eins og ríkisstjórnin býður.

Kjósendur eru jafn sáttir við, að ríkisstjórnin fái að rétta aukabita að gæludýrum sínum, hvort sem þau eru sægreifar, Kárar, Landsvirkjun eða einstakir armar kolkrabbans, bara ef hún sér um að góðærið haldist og fleiri og betri molar hrynji niður til kjósenda sjálfra.

Málefni eru áhugaverð í pólitík, en ráða ekki gerðum kjósenda. Þar kemur til skjalanna eldforn tilfinning þeirra fyrir því, hvaða kóngur skaffi gott árferði.

Jónas Kristjánsson

DV

Gagnslausar loftárásir

Greinar

Íraks-kökkurinn festist í hálsi Vesturlanda, er George Bush, þáverandi forseti Bandaríkjanna, ákvað skyndilega í miðjum Flóabardaga að lýsa yfir sigri og senda hermennina heim, áður en þeim tókst að ná Bagdað á sitt vald og hrekja Saddam Hussein frá völdum.

Að baki mistaka Bush leyndist það ranga stöðumat, að hóflega sterkur leiðtogi í hóflega sterku Íraksríki væri nauðsynlegt mótvægi við Íran, sem þá var talið ekki síður hættulegt hagsmunum Bandaríkjanna. Þess vegna var Saddam Hussein ekki brotinn á bak aftur.

Síðar kom raunar í ljós, að Flóabardagi hafði ekki gengið eins vel og fullyrt hafði verið. Upplýsingar bandaríska hermálaráðuneytisins voru sumpart uppspuni frá rótum, svo sem fréttir af árangri Patriot-eldflauga, sem raunar hittu ekki eitt einasta skotmark.

Enda kom á daginn, að Saddam Hussein var fljótur að rétta úr kútnum. Þrátt fyrir vopnasölubann gat hann á undraverðum tíma komið hernaðarmætti sínum í svipaða stöðu og fyrir Flóabardaga. Það hefði hann ekki getað gert, nema af því að tjónið hafði verið ýkt.

Við höfum lært af Flóabardaga að taka ekki mark á fréttum bandaríska hermálaráðuneytisins. Loftárásir undanfarinna daga hafa geigað að venju og sumpart hitt fyrir vitlaus lönd, en tæpast komið í veg fyrir, að Saddam Hussein verði áfram til vandræða.

Hann mun strax að loftárásum loknum taka upp fyrri iðju við að framleiða sýklavopn og efnavopn, sem miða að því að flytja stríðið fyrr eða síðar til Bandaríkjanna sjálfra. Þetta verður ekki hindrað með loftárásum, heldur aðeins með hefðbundnum landhernaði.

Auðvelt er að sjá fyrir framhaldið á þessum menúett. Þegar búið er að sprengja nógu mikið í loftárásum, fellst Saddam Hussein á endurnýjað eftirlit. Síðan mun hann koma í veg fyrir, að eftirlitið skili árangri. Það mun svo leiða til vítahrings nýrra loftárása, ad absurdum.

Eina leiðin til að leysa vandann er að hertaka Írak, handtaka Saddam Hussein og helztu menn hans, koma á fót leppstjórn í Bagdað og ausa fjármunum í uppbyggingu til að snúa almenningsálitinu á sveif með sigurvegurunum. En þetta er of stór biti fyrir Bill Clinton.

Þegar Bandaríkin gátu safnað saman mörgum bandamönnum í stríð við Írak, misnotaði þáverandi forseti þeirra tækifærið. Sá liðsafnaður verður ekki endurtekinn, enda eru margir þáverandi bandamenn orðnir fráhverfir frekara stríði við Saddam Hussein.

Það hefur nefnilega komið í ljós, að ákvörðunin um að nota Saddam Hussein sem mótvægi við klerkana í Íran hefur gert það að verkum, að þolendur refsiaðgerða eru saklausir Írakar, en ekki forseti landsins. Víða á Vesturlöndum sætta menn sig ekki við þetta.

Viðskiptabannið á Írak brestur fyrr eða síðar. Núverandi loftárásir flýta fyrir endalokum þess. Stríðsaðgerðir, sem ekki hrekja núverandi valdhafa Íraks frá völdum, eru til þess eins fallnar að auka vestræna samúð með hörmungum almennings í Írak.

Sigurvegari Flóabardaga var ekki George Bush, heldur Saddam Hussein. Sigurvegari bardagans, sem nú stendur yfir, verður ekki Bill Clinton, heldur Saddam Hussein. Írakskur almenningur verður fyrir hremmingum og samstaða Vesturlanda bíður hnekki.

Af þessu má ráða, sem dæmin voru raunar áður búin að sanna, að Bill Clinton er engu hæfari en George Bush til að stýra ferð Vesturlanda inn í nýja öld.

Jónas Kristjánsson

DV

Grillið

Veitingar

Því meira sem hlutirnir breytast, því meira eru þeir eins. Sömu veitingahús tróna nú á tindi íslenzkrar matargerðarlistar og fyrir tveimur áratugum, Holtið og Grillið. Aðrir staðir hafa risið og hnigið og Grillið verið brokkgengt á köflum síðustu árin, en í góðu formi síðustu vikur.

Grillið hefur árum saman verið í sama hefðarhamnum, glæsilegur útsýnissalur milliklassahótels með virðulegri og alúðlegri þjónustu, samfara einum allra dýrasta matseðli landsins. Þríréttað með kaffi kostar 4.600 krónur á mann áður en kemur að borðvíni. Slíkt verðlag gefur ekki kost á neinum mistökum.

Villusvigrúmið er takmarkað enn frekar með því að hafa fáa rétti á boðstólum, alla fasta og aðeins þrjá fiskrétti. Þetta má hafa til marks um, að við erum í hótelsal, en ekki ævintýrasal matargerðarlistar. Matseðillinn rambar raunar á barmi faglegrar fátæktar. Það er ekki spennandi að borða oft í Grillinu.

Með smjöri og þrenns konar brauði var borið fram svokallað papenade, ágætur grautur úr ansjósum, olífum og sólþurrkuðum tómötum. Fiðluleikari kom upp í salinn úr jólahlaðborðinu á jarðhæðinni og spilaði svo vel fyrir gesti, að messufall varð í borðhaldi um sinn. Þetta var fallega hugsað, en út úr stíl.

Forréttir voru undantekningarlaust minnisstæðir. Risahörpufiskur í sítrónukrydduðu hvítasmjöri var meyr og fínn. Næfurþunnar laxa- og lúðuþynnur á japanska vísu með kryddlegnu grænmeti voru vel heppnaðar. Skelflettur humar á spínatbeði með eplabitum í trjónuberjagljáa og jarðsveppaolíu var glæsilegur réttur með humri, sem bráðnaði á tungu.

Andabringukjöt var rautt, meyrt og gott, með ljúflega rjómasoðnu byggi, kumquat sítrusávaxtasósu og andapylsu, skemmtilegt og nútímalegt frávik frá hefðbundinni og hunangsgljáðri andakjötsmatreiðslu staðarins frá fyrri árum, sem hafði náð fullkomnun, en var orðin þreytt.

Gott linsubaunamauk ofan á pönnusteiktum kartöfluþráðum fylgdi rauðri, mildri og mjúkri villibráðarþrennu staðarins, gæs, rjúpu og hreindýri. Þetta var mun betri þrenna en sú, sem ég fékk hér fyrir tveimur árum, en samt ekki bezta villibráð bæjarins.

Sítrónuterta minnti á sítrónubúðing með brenndri sykurskorpu, nánast crème brûlée, bragðsterk, létt í maga og frískandi, borin fram með ískrapi og laufum úr þremur sítrusávöxtum, fyrirtaks endir á góðri og traustri máltíð, sem var hófleg að metnaði og sigldi með löndum. Kaffi var gott, en espresso þunnt.

Jónas Kristjánsson

DV

Víkkað verksvið bandalags

Greinar

Bandaríkjastjórn hefur lagt til, að verksvið Atlantshafsbandalagsins verði víkkað og látið ná til varna gegn hættum, er hafa tekið við af kalda stríðinu sem helzta ógnunin við öryggi vestrænna ríkja. Ber þar hæst neðanjarðarstarfsemi og hryðjuverk af ýmsu tagi.

Vestur-Evrópuríkin hafa yfirleitt staðbundnari áhugamál og hafa verið treg til að flækja sig í víðtækari mál. Þau hafa hins vegar ekki getað bent á, hver skuli vera tilgangur Atlantshafsbandalagsins, þegar óvinurinn sjálfur er horfinn af sjónarsviðinu fyrir áratug.

Raunar hefur komið í ljós, að allt frumkvæði í Atlantshafsbandalaginu kemur frá Bandaríkjunum. Evrópuríkin voru með japl og jaml og fuður í málefnum Bosníu fyrst og síðar Kosovo. Það voru Bandaríkin, sem loksins tóku af skarið og fengu hina í lið með sér.

Samt eru Bosnía og Kosovo á jaðri Vestur-Evrópu, en ekki Bandaríkjanna. Meðal sparnaðarsinna í bandarískum stjórnmálum hefur heyrzt, að endurskoða þurfi þátt Bandaríkjanna í kostnaði við hernaðarbandalag með daufgerðum ríkjum, sem tími varla að verjast.

Grundvallarspurningin er, hvort ástæða sé til að halda með miklum tilkostnaði uppi hernaðarbandalagi, þegar kalda stríðið er búið. Bandaríkjastjórn hefur flutt tillögu að svari við þessari spurningu, en evrópska áhugaleysið mundi að lokum leiða til andláts bandalagsins.

Mörg ríki eru nú að vinna að smíði kjarnavopna, efnavopna og veiruvopna. Pakistan og Indland hafa nýlega sprengt í tilraunaskyni. Samkvæmt síðustu fréttum safnar Persía til sín atvinnulausum vísindamönnum frá Rússlandi á sviðum efna- og veiruvopna.

Bandarískir hernaðarfræðingar hafa fjallað um hættuna af útbreiðslu slíkra vopna. Bent hefur verið á, að hryðjuverkamenn geti flutt þau á laun til einhvers vestræns ríkis og hótað að beita þeim, ef ekki verði fullnægt einhverjum pólitískum skilyrðum.

Á hinn bóginn má líka benda á, að mestur hluti þessarar hættu stafar frá íslömskum ríkjum og hópum, sem hafa óbeit á Bandaríkjunum vegna eindregins stuðnings þeirra við erkióvin íslams, Ísrael, sem meðal annars þverbrýtur alþjóðareglur um hernám landsvæða.

Miklu einfaldara væri og öruggara fyrir vestrænar þjóðir, ef Bandaríkin hættu stuðningi við ofbeldishneigt ofsatrúarríki gyðinga og Vesturlönd tækju upp gott samstarf við ríki íslams heldur en að setja upp flókið varnarkerfi gegn íslömskum hryðjuverkamönnum.

Áhyggjur í Vestur-Evrópu út af hugmyndum Bandaríkjastjórnar um víkkað athafnasvið Atlantshafsbandalagsins stafa meðal annars af því, að menn vilja ekki taka þátt í sérhæfðum áhugamálum Bandaríkjanna, sem stangast beinlínis á við vestræna hagsmuni.

Víkkun Atlantshafsbandalagsins til nýrra sviða er skynsamleg, ef hún felur um leið í sér fráhvarf Bandaríkjanna frá eindregnum stuðningi við Ísrael, svo að unnt verði að byggja upp einlægan og varanlegan frið milli hinna vestrænu og íslömsku menningarheima.

Öryggismál Vesturlanda eru orðin meira pólitísk en hernaðarleg. Hjálpa þarf orþódoxu austri til að komast í félag með kaþólsku vestri eftir hrun Sovétblokkarinnar. Varðveita þarf hinn góða frið við japanska menningarheiminn og taka meira mark á risavöxnu Indlandi.

Í heimi misjafnra menningarblokka er samt líka þörf fyrir útvíkkað Atlantshafsbandalag, er hefur skilgreind og afmörkuð markmið, sem aðildarríkin samþykkja.

Jónas Kristjánsson

DV

Ófriður á elliheimilinu

Greinar

Framvinda samfylkingar jafnaðarmanna hefur verið eins og nokkrum sinnum hefur verið spáð í leiðurum þessa blaðs. Söguleg sátt er að verða um krataflokk með Margréti Frímannsdóttur og Svavari Gestssyni á tindinum, um eins konar öfugan Héðin Valdimarsson.

Vegna þurrðar á þingsætum getur samfylkingin ekki staðið við heiðursmannasamkomulag við Kvennalistann og er að ýta honum út úr samfylkingunni, enda á sá flokkur lítið erindi inn í sögulega sátt tveggja elliflokka, sem báðir kenna sig við alþýðu gamla tímans.

Samfylkingin hefur þegar misst frá sér róttæklinga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sem vafalaust fylkja sér um Ögmund Jónasson, og róttæklinga náttúrufriðunar, sem vafalaust verða samferðamenn Hjörleifs Guttormssonar. Og Möðruvellingarnir fara heim.

Alþýðubandalagið er raunar orðið að rúst. Margrét og Svavar flytja fátt annað með sér í búið en hina sögulegu sátt eina saman. Fyrir opnum tjöldum eru vaðmáls-sósíalistar og fífilbrekku-sósíalistar farnir annað, svo og semínaristar, kvótagreifar og Möðruvellingar.

Einnig hefur kvarnast úr Alþýðuflokknum, þótt hljóðar hafi farið. Ljóst er af skoðanakönnunum, að Sjálfstæðisflokkurinn dregur um þessar mundir til sín allt það fylgi, sem hingað til hefur rambað eftir aðstæðum og pólitísku veðurfari milli hans og Alþýðuflokksins.

Eftir situr mild og öldruð samfylking bæjarradikala og hófsamra verkalýðsleiðtoga, sem sker sig frá öðrum flokkum fyrir að hafa nánast ekkert fylgi meðal yngstu kjósendanna, 18­24 ára. Það er skelfilegt veganesti nýs flokks að höfða alls ekkert til nýrra kjósenda.

Í síðustu kosningum höfðu samfylkingarflokkarnir samanlagt fylgi um þriðjungs allra kjósenda. Nú er fylgið komið niður í fimmtung á landsvísu, eins og hjá Framsóknarflokknum einum. Þessu er hægt að lýsa þannig, að kjósendur hafi gefið samfylkingunni langt nef.

Samfylking jafnaðarmanna hefur aðgang að glæsilegum málefnum, verndun ósnortinna víðerna, endurheimt kvótans úr höndum sægreifa, afnám sérleyfa og einkaleyfa handa gæludýrum stjórnarflokkanna. Enginn flokkur veður í betri málefnum en samfylkingin.

Þetta nýtist henni ekki, sennilega af því að þátttakendur í skoðanakönnunum og væntanlega einnig kjósendur fara ekki mikið eftir málefnum, heldur meira eftir mönnum. Fólk forðast stjórnmálamenn, sem hafa ekki einu sinni burði til að koma sér saman um framboð.

Það er ekki nóg af hafa málefni, ef leiðtogaefnin eru svo heillum horfin, að þau standa í langvinnum og ótraustvekjandi illdeilum um skipun framboðslista. Þau hafa gert sig ber að því að vera hræðslubandalag nokkurra þingmanna, sem eru að verja atvinnu sína.

Því getur farið svo, að flokkarnir, sem standa að nauðgun náttúrunnar, framsali gjafakvótans í hendur sægreifa, veitingu sérleyfa og einkaleyfa í þágu gæludýra sinna, muni fara með svo mikinn sigur af hólmi í vor, að þeir geti farið að krukka í stjórnarskrána.

Ef til vill kemur síðar eitthvað gott úr samfylkingunni annað en söguleg sátt á elliheimili stjórnmálanna. Áfallið í þingkosningunum í vor kann að leiða til, að spilin verði stokkuð að nýju í von um betri mannspil. Sáttin getur orðið sterkara afl í kosningum ársins 2003.

En það er tímaskekkja að vera að hreinsa upp gamalt ósætti þreyttra stjórnmálaflokka, þegar stjórnmálin snúast um, hvernig við eigum að feta inn í nýja öld.

Jónas Kristjánsson

DV

Vestræn þrískipting valdsins

Greinar

Þrískipting valdsins hefur að mestu verið marklítið form hér á landi, innflutt frá vestrænum þjóðum, sem fyrir tveimur öldum töldu sig þurfa að gera upp reikningana við forréttindastéttir sínar. Hún var þar vel heppnuð tilraun til að hindra handhafa framkvæmdavaldsins í að ná alræðisvaldi í þjóðfélaginu.

Hér hafa löggjafarvaldið og dómsvaldið verið minni máttar í samskiptum við framkvæmdavaldið, bæði embættismenn og ríkisstjórn. Alþingi hefur afgreitt lagafrumvörp úr ráðuneytum á færibandi og dómstólar hafa jafnan dregið taum framkvæmdavaldsins.

Þótt innihald valddreifingar hafi verið svona slappt, hefur formið verið harðara. Meðal annars er Hæstarétti skylt að standa vörð um stjórnarskrána í úrskurðum sínum, þegar ráðherrar láta atkvæðavélar sínar á Alþingi samþykkja lög, sem brjóta gegn henni.

Þetta hefur skyndilega breytzt. Hæstiréttur hefur úrskurðað, að afgreiðsla ráðuneytis á máli hafi verið röng, af því að lögin, sem afgreiðslan byggðist á, hafi strítt gegn stjórnarskránni. Þetta hefur glætt vonir um, að Ísland sé farið að feta sig í átt til vestrænna ríkja.

Orsök stefnubreytingar Hæstaréttar kemur að utan. Með aðild okkar að fjölþjóðlegum samtökum og sáttmálum, einkum á vettvangi Evrópu, höfum við meðal annars skuldbundið okkur til að fylgja ákveðnum forsendum og að hlíta úrskurðum af þeim vettvangi.

Þetta hefur á síðustu árum leitt til þess, að einstaklingar, sem telja sig ekki hafa náð réttlæti hjá íslenzkum dómstólum, hafa sótt mál sín til evrópskra dómstóla og unnið þau. Þar með hefur Hæstiréttur orðið sér til minnkunar, sem hann sættir sig ekki lengur við.

Dómur Hæstaréttar í kvótamálinu bendir til, að hann hafi ákveðið að læra af biturri reynslu allra síðustu ára og fara að taka meira tillit til hinnar vestrænu stjórnarskrár okkar, þótt það kunni að espa einræðisherra í ríkisstjórnum og atkvæðavélar þeirra á Alþingi.

Í kjölfar úrskurðarins hefur Hæstiréttur mátt sitja hljóður undir margendurteknum dónaskap einræðishneigðra ráðherra, sakaður um þokukennda röksemdafærslu, niðurrifsstarfsemi, efnahagsleg hryðjuverk, fjarlægð frá veruleikanum og tilraun til valdaráns.

Ekki stenzt ein einasta af ásökunum ráðherra í garð Hæstaréttar. Þau vandræði, sem nú hafa skapazt, eru ekki afleiðing úrskurðarins, heldur hinnar undarlegu túlkunar, sem felst í nýju lagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Það er hún, sem er hryðjuverkamaðurinn.

Ríkisstjórnin gat lagt fram frumvarp með nýju skömmtunarkerfi aðgangs í takmarkaða auðlind, sem ekki bryti gegn jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar. Þar með hefði kúrsinn verið leiðréttur, lögin samræmd stjórnarskránni og fiskistofnanir varðveittir.

Með því að ögra Hæstarétti með frumvarpi, sem engu breytir efnislega, framleiðir ríkisstjórnin vandræði. Þau leiða til málaferla, sem vafalaust enda í Hæstarétti og síðan áfram úti í Evrópu, ef einræðishneigðum ráðherrum tekst að kúga Hæstarétt til undirgefni.

Stjórnvaldskreppunni linnir ekki fyrr en stjórnarflokkarnir ná annaðhvort nægu meirihlutafylgi til að breyta stjórnarskránni í þágu gæludýra sinna og segja um leið skilið við vestrænt samfélag eða sætta sig við þrískiptingu valdsins og vestrænar leikreglur.

Þetta uppgjör getur tekið langan tíma. Það er eigi að síður nauðsynlegt og leiðir vonandi á endanum til þess, að Íslandi verður tryggt sæti í vestrænu samfélagi.

Jónas Kristjánsson

DV

Tæknidómur eða efnisdómur

Greinar

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að túlka veiðiréttardóm Hæstaréttar svo þröngt, að hann hafi eingöngu fjallað um lagatæknilegt atriði, en ekki efnislega um jafna stöðu borgaranna fyrir lögunum. Þar með hafi öll umræðan um dóminn verið stormur í vatnsglasi.

Um leið segir ríkisstjórnin óbeint, að ýmsar hugleiðingar í dómnum um núverandi fiskveiðistjórnarkerfi séu óviðkomandi niðurstöðunni og hafi dottið þar inn fyrir einhvern misskilning eða óra. Enda hafa helztu ráðherrarnir fjallað um Hæstarétt sem moðhaus.

Raunar sagði utanríkisráðherra, að svo gæti farið, að breyta þyrfti stjórnarskránni, ef dómur Hæstaréttar fæli í sér þá efnislegu niðurstöðu, að óheimilt væri að úthluta auðlindum hafsins til lokaðs hóps. Væntanlega þarf þá að taka úr henni mannréttindaákvæðin.

Til þess að þurfa ekki að breyta stjórnarskránni til að verja gjafakvótakerfið hefur ríkisstjórnin ákveðið að segja okkur, að það sé í rauninni allt í lagi með dóminn. Hæstiréttur hafi bara verið að gamna sér við lagatæknilegt atriði og farið um leið ógætilega með orð.

Ekki kemur á óvart, að ríkisstjórn, sem svo hastarlega varðveitir ókeypis einkaleyfi til fiskveiða, skuli berjast ákaft fyrir nýju einkaleyfi til smíða og reksturs gagnagrunns og vera að undirbúa þriðja einkaleyfið til leitar og rannsókna á örverum á háhitasvæðum.

Öll þessi mál falla í farvegi sameinaðrar hugsjónar stjórnvalda og gæludýra þeirra um að taka sameiginleg verðmæti þjóðarinnar og ráðstafa þeim í þágu gæludýranna, hvers eðlis sem þessi verðmæti eru. Þetta getur ekki verið annað en hreint hagsmunabandalag.

Ríkisstjórnin áttar sig á, að með lagafrumvarpinu er hún að kalla á ný málaferli, sem munu enda í Hæstarétti, er verður að ákveða, hvort hann hafi sjálfur rambað ógætilega í orðavali um lagatæknilegt atriði eða hafi verið að fjalla um efnisatriði málsins.

Í versta falli vinnur ríkisstjórnin tíma fram yfir kosningar, því að tefja má nýju málin nógu lengi til að ekki verði dæmt í þeim í Hæstarétti fyrr en á næsta hausti. Um framhaldið má nota gömul einkunnarorð stjórnmálamanna um, að komi tímar, komi ráð.

Eftir frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingu á margumtalaðri fimmtu grein laganna um stjórn fiskveiða er ljóst, að engu verður að sinni breytt í þeim atriðum, sem mestum átökum hafa valdið í þjóðfélaginu. Slíkt verður að bíða nýrrar dómsniðurstöðu.

Jafnframt heldur lífið áfram. Menn geta á meðan haldið áfram að rífast um, hvort það sé í samræmi við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og sáttmála, sem ríkið hefur gert á fjölþjóðavettvangi, að réttur til veiða í sameiginlegri auðlind sé afhentur þröngum hópi.

Á annarri síðu DV í gær fjölluðu þrír kunnir lögmenn um dóminn og lagafrumvarpið, einn sem styður ríkisstjórnina og tveir, sem telja Hæstarétt hafa verið að fjalla um efnisatriði. Í þessum þremur viðtölum kristallast sjónarmiðin, sem til umræðu eru í málinu.

Einn þremenninganna er Hörður Einarsson, sem sagði nýlega í blaðagrein, að vandinn gæti ekki falizt í mannréttindum, heldur í forréttindum. “Þegar lögbundin forréttindi stangast á við stjórnarskrárbundin mannréttindi, hljóta forréttindin að víkja”, sagði Hörður.

Tímans straumur er hægur, en þungur. Með skipulegu andófi mun ríkisstjórninni aðeins takast að tefja en ekki að hindra framgang mannréttinda

Jónas Kristjánsson

DV