Klifrað yfir girðingar

Greinar

Í fagurprentuðum áróðursbæklingum frambjóðenda Samfylkingar jafnaðarmanna í Reykjaneskjördæmi má sjá sömu nöfn meðmælenda með ýmsum frambjóðendum í ýmsum flokkum. Það er eins og eina og sama vottunarstofan sé að gæðastimpla margs konar vöru.

Í flokksbundnu prófkjöri framsóknarmanna í Reykjavík fyrir skömmu var smalað nokkur hundruð manns, sem annað hvort voru utan flokka eða í öðrum stjórnmálaflokkum. Menn virtust ekki hafa neinar áhyggjur af að vera í mörgum flokkum samtímis.

Í prófkjöri Samfylkingarinnar á Norðurlandi vestra ætla að fjölmenna framsóknarmenn úr Vestur-Húnabyggð til ná því fram, sem þeim mistókst innan eigin flokks, að ná frambjóðanda úr sveitarfélaginu í öruggt sæti á framboðslista í kosningunum í vor.

Smölun af slíku tagi er gamalkunn hér á landi. Félagsmönnum íþróttafélaga er smalað á prófkjörstað til að styðja einhvern, sem er í félaginu eða talinn hlynntur því. Í kosningunum sjálfum nýtast þessi atkvæði ekki, því að þau eru einnota fyrirbæri í prófkjörsslag.

Með stækkun kjördæma hefur svæðisbundin smölun í prófkjörum orðið algengasta og fyrirferðarmesta greinin á þessum meiði. Menn sameinast þá þversum gegnum flokka til að styðja frambjóðendur, sem eru af svæðinu eða taldir fulltrúar þess af öðrum ástæðum.

Í mörgum þessarar tilvika eru menn að styðja einhvern í prófkjöri, sem þeir ætla alls ekki að styðja í kosningum. Þeir hafa óeðlileg afskipti af skipun framboðslista, sem þeir hafa ekki í hyggju að kjósa. Þeir eru haldnir hreinum og klárum siðferðisbresti.

Annað einkenni þessa klifurs yfir girðingar er, að stjórnmálaflokkar eru almennt ekki hjartkær fyrirbæri í hugum fólks. Menn skipta um þá eins og föt, ef það þjónar öðrum hagsmunum. Menn geta jafnvel hugsað sér að vera í öllum stjórnmálaflokkunum samtímis.

Sumpart stafar þetta af kunningskap við einstaklinga, en oftar þó af hagsmunum. Sumir telja henta sér persónulega að hafa gott veður á ýmsum stöðum í pólitíkinni, af því að íslenzka kerfið er enn svo frumstætt og valdaþjappað, að pólitísk sambönd skipta miklu.

Oftar er þó um svæðisbundna hagsmuni að ræða. Menn líta á pólitískt kjörna fulltrúa sem tæki til að skaffa peninga, í flugvöll, höfn, veg, álver, varnargarð, kvóta, niðurgreiðslu, menningarhús og svo framvegis. Sveitarfélag án þingmanns er sigrað sveitarfélag.

Þessi svæðisbundna spilling stafar af sömu forsendu og persónulega spillingin. Kjósendur telja, að stjórnmál snúist um aðgang að jötunni, en ekki um framfarir og framgang þjóðarinnar. Þeir hafa rétt fyrir sér, af því að íslenzka kerfið er frumstætt og valdaþjappað.

Það er alþjóðlega viðurkennd hagfræði, að pólitísk spilling skaðar þjóðir efnahagslega. Hún beinir straumum fjármagns og fyrirhafnar úr eðlilegum farvegum. Þess vegna er reynt á Vesturlöndum að opna þjóðfélög, svo að straumar geti runnið eðlilega.

Ísland er svo afskekkt land, að stjórnmálamenn hafa talið sér kleift að stinga við fótum og reyna að varðveita ýmiss konar hindranir og skömmtun, sem freista manna. Þess vegna telja svona margir kjósendur á Íslandi, að stjórnmál snúist um aðgang að jötunni.

Stuðningur fólks við prófkjörsframbjóðanda, sem þeir ætla síðan ekki að styðja sem kosningaframbjóðanda, er einfalt dæmi um frumstætt og siðlítið þjóðfélag.

Jónas Kristjánsson

DV

Austur-Indíafélagið

Veitingar

Austur-Indíafélagið við hlið Regnbogans við Hverfisgötu er bezti matstaður austrænnar matargerðar hér á landi, snyrtilegur staður með kórréttri, en tilþrifalítilli matreiðslu, sem stundum á það til að láta þurran Tandoori-kjúkling frá sér fara.

Tandoori-kjúklingur er kryddleginn í jógúrt og karríi áður en hann er bakaður í leirofni, einkennisréttur norðurhéraða Indlands. Hann er bragðljúfur, en nýtur sín ekki, nema hann sé meyr, sem á að vera auðvelt. Þeim mun meiri eru vonbrigðin, þegar þetta bregzt.

Flest annað var gott, til dæmis meyr og bragðsterkur Bagdað-kjúklingur í kókossósu með döðlum og þurrkuðum ávöxtum, sem gáfu réttinum sætubragð, bezti aðalrétturinn. Skemmtilega eldsterkt var Vindaloo-lambakjöt frá Goa með kartöflum og tómötum, einn þekktasti réttur suðurhéraða Indlands.

Papad eða Poppadum, grillaðar og stökkar brauðflögur, fóru vel við Raita, ídýfu úr sýrðum rjóma og smásaxaðri gúrku. Einnig hæfðu þær þrenns konar sultu, mildri úr koríander, sterkri úr tamarind og millisterkri úr lauk.

Chiche Sheeh Kabab var nafn á aflangri, mjúkri og bragðgóðri kjúklingapylsu, kryddaðri með engifer, hvítlauk og koríander, borin fram með paprikuþráðum í sérstakri skál. Bezti forrétturinn voru djúpsteiktar pagórur úr söxuðum lauk og léttkrydduðu kjúklingabaunadeigi, bornar fram með mildri koríander-sultu.

Smáatriðin voru flest vönduð. Nan-brauð var bakað á staðnum, þynnra og betra en það, sem selt er í stórmörkuðum. Pulao-hrísgrjón voru hæfilega elduð. Hins vegar fólst grænmeti dagsins í ómerkilegum, sykurbrúnuðum kartöflubitum. Indverskt kaffi var gott, með kardimommukeim.

Matsalurinn er léttari og bjartari en áður, enda hefur verið dregið frá gluggum. Slæðubreiður eru enn í lofti, en skipt hefur verið um indverskar veggskreytingar til bóta, málverk og tréstyttur. Húsbúnaður er vandaður, einkum renndir tréstólar, fínt parkett og ljósir viðarbásar á miðju gólfi. Kuldalegar glerplötur eru enn á borðum, blúnduþurrkur eru úr taui.

Austur-Indíafélagið er staður meðalverðs. Aðalréttir kosta um 1700 krónur og þríréttað með kaffi kostar 3200 krónur. Staðurinn er eingöngu opinn á kvöldin.

Þjónusta var góð, en umbúnaður hennar lakari en áður. Heitir andlitsdúkar komu ekki lengur eftir mat og reikningurinn var handskrifaður. Róandi indversk músík var, þegar við komum, en vestræn graðhestamúsík, þegar við fórum.

Jónas Kristjánsson

DV

Verðbólgan er hafin að nýju

Greinar

Verðbólga má ekki vera meiri hér en í helztu viðskiptalöndum okkar. Umframverðbólga veldur slakari samkeppnisstöðu atvinnuvega og þrýstir upp vöxtum, sem spilla samkeppnisstöðunni enn frekar, svo að úr verður vítahringur ótraustra efnahagsmála.

Um þessar mundir er verðbólga lítil í umheiminum, innan við 2% í viðskiptalöndum okkar. Annars vegar er lítil verðbólga hefðbundin í Bandaríkjunum og hins vegar hefur Vestur-Evrópa náð verðbólgu niður með markvissum aðgerðum til að koma á fót evrunni.

Við höfum ekki agann af evrunni og erum þar á ofan að sigla inn í kosningaár með tilheyrandi losi á bremsum stjórnvalda. Verðbólga verður hér örugglega yfir 3% á árinu og getur hæglega farið yfir 5%. Þetta kemur fram í spám ýmissa stofnana, erlendra sem innlendra.

Að venju eru Þjóðhagsstofnun og Seðlabanki húsbóndahollar stofnanir, sem ekki vilja valda ríkisstjórninni hugarangri. Þær hafa látið frá sér fara allt of lágar verðbólguspár út í hött og framkalla þannig beinlínis verðbólgu með því að svæfa stjórnvöld á verðinum.

Það er sérstaklega ámælisvert, að íslenzki Seðlabankinn skuli ekki haga sér eins og óháður seðlabanki, svo sem hefur verið í Bandaríkjunum og Þýzkalandi og nú síðast í Bretlandi, eftir að Tony Blair komst til valda. Háður seðlabanki er hættulegur seðlabanki.

Þenslan er orðin svo mikil hér á landi, að vaxtastigið er orðið óraunhæft. Nauðsynlegt að hækka vexti sem allra fyrst og það verulega, en skaða má þjóðina enn frekar með því að fresta hækkuninni fram yfir kosningar til þess að valda ekki óróa á viðkvæmum tíma.

Verðbólgan á Íslandi stafar af ýmsum ástæðum. Einna veigamest er sveiflan af velgengni sjávarútvegs, sem bylgjast um allt þjóðfélagið. Kvótasölu-gróðakerfið magnar sveifluna enn frekar með því að draga peninga til verðbólguhvetjandi fjárfestingar af ýmsu tagi.

Stóriðjudraumar ríkisstjórnarinnar stuðla að óhóflegum athafnavilja. Bjartsýnir slá lán til framkvæmda og vélakaupa. Þeir reikna með að fyrirhuguð stóriðju- og stórvirkjanavelta fleyti sér út úr skuldunum. Almenningur smitast af þessu og sukkar meira en ella.

Margt fleira leggst á sömu sveif. Hagkerfið er lokaðra en vestræn hagkerfi og býður upp á óhagkvæma spillingu. Þannig kemst Eimskip upp með að niðurgreiða pappír fyrir Skeljung í símaskrána og Landssíminn með að afhenda prentsmiðjunni Odda verkið án útboðs.

Í skjóli ríkisrekstrar og innflutningshafta hefur landbúnaðinum tekizt að hækka afurðir sínar í vetur og stuðla þannig að verðbólgu. Þetta fyrirkomulag getur eitt út af fyrir sig komið í veg fyrir, að Ísland taki sæti með alvöruríkjum verðfestu og trausts efnahags.

Ríkisstjórnin hefur ekki hagað málum sjávarútvegs og landbúnaðar á þann hátt, að þaðan komi ekki verðbólga inn í þjóðfélagið. Hún hefur klúðrað ýmsum þáttum einkavæðingar á þann hátt, að einokun hefur haldizt og verðlag einkavinavæðingar hefur hækkað.

Ríkisstjórnin er uppiskroppa með ýmsar aðrar verðbólgubremsur, sem hafa gefizt henni vel á undanförnum árum. Hún bilar núna, þegar röðin ætti að koma að frjálsræðisaðgerðum í sjávarútvegi og landbúnaði og málefnum, sem varða hagsmuni kolkrabbans.

Í slíkri stöðu er afleitt, að helztu stofnanir efnahagsmála skuli vera svo vanþróaðar, að þær taka tillitssemi við ríkisstjórn fram yfir heiðarlegar efnahagsspár.

Jónas Kristjánsson

DV

Samfylking eðalkratans

Greinar

Alþýðuflokkurinn gleypti Alþýðubandalagið og Þjóðvaki gleypti Alþýðuflokkinn í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Þjóðvaki er kominn heim og raðaði sér í efstu sæti framboðslistans, en Alþýðubandalagið staðfesti, að það er að niðurlotum komið í pólitík.

Nú kljúfa forverar Alþýðubandalagsins ekki lengur Alþýðuflokkinn og skipta um nafn. Alþýðuflokkurinn hefur snúið taflinu við, klýfur Alþýðubandalagið og skiptir um nafn. En hann er áfram Alþýðuflokkurinn og hefur valið sér týnda eðalkratann í efsta sæti framboðslistans.

Samfylkingin getur ekki vikið sér undan forustu eina eðalkratans í þingmannssætum listans, Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún var um tíma hrakin úr áttavilltum flokki sínum, en beið síns tíma og er nú komin heim með feiknarlegt fylgi og pálmann í höndunum.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur reynzt öðruvísi en aðrir stjórnmálamenn íslenzkir. Hún er málefnaföst fremur en samningalipur. Sem ráðherra tók hún ekki þátt í lúxusleikjum kolleganna. Sem leiðtogi stjórnarandstöðunnar mun hún egna ferska storma gegn ládeyðunni.

Fyrirhuguð formennska Margrétar Frímannsdóttur í Samfylkingunni er snögglega úr sögunni. Jóhanna Sigurðardóttir er hinn raunverulegi leiðtogi, enda mun væntanlegt prófkjör í Reykjaneskjördæmi staðfesta, að Alþýðuflokkurinn er allsráðandi í Samfylkingunni.

Alþýðubandalagið hefur raunar átt erfitt með að manna sæti sín á sumum framboðslistum Samfylkingarinnar í öðrum kjördæmum. Og væntanlegir þingmenn úr röðum flokksins munu sóma sér vel í útvíkkuðum Alþýðuflokki undir róttækri forustu Jóhönnu.

Með prófkjörinu er Alþýðuflokkurinn loksins kominn heim til sín sem eðalkrataflokkur Jóhönnu Sigurðardóttur. Hann verður að vísu að skipta um nafn og kalla sig Samfylkingu jafnaðarmanna til að minna á, að hann sé breiðfylking íslenzkrar stjórnarandstöðu.

Þótt margir Alþýðubandalagsmenn séu ósáttir við útkomuna og sumir þeirra hverfi á vit annarra framboða, er ljóst, að prófkjörið í Reykjavík markar þau tímamót, að samfylkingin er ekki lengur höfð að háði og spotti og getur farið að afla sér fylgis óákveðinna kjósenda.

Fram að prófkjörinu birtist samfylking jafnaðarmanna almenningi sem hópur hagsmunagæzlufólks, sem þjarkaði endalaust um hólf og sæti á framboðslistum. Nú er það svartnættisskeið að baki. Samfylkingin er komin með kunnuglegan svip, sem getur aflað fylgis.

Núverandi ríkisstjórnarflokkar vilja gjarna halda áfram samstarfi sínu eftir kosningar. Eftir prófkjörið í Reykjavík er útvíkkaði krataflokkurinn undir stjórn Þjóðvaka orðinn að sterkri stjórnarandstöðu, sem hefur burði til að velgja ríkisstjórninni undir uggum.

Ekki er enn hægt að sjá, hvort samfylking jafnaðarmanna verður að hliðstæðu afli og jafnaðarflokkar víða um Vestur-Evrópu. Fyrir prófkjör var tómt mál að tala um slíkt, en nú er skyndilega unnt að leika sér að hugmyndum um eitthvert slíkt ferli hér á landi.

Fá eða engin dæmi þess eru hér, að eitt prófkjör valdi slíkum straumhvörfum sem þetta. Fyrirfram var vitað, að í því mundi felast sögulegt uppgjör tveggja stjórnmálaflokka um arfleifð upphaflega Alþýðuflokksins, en útkoman var eindregnari en menn bjuggust við.

Alþýðuflokkurinn hefur gleypt Alþýðubandalagið og Þjóðvaki hefur gleypt Alþýðuflokkinn. Til valda í samfylkingunni hefur brotizt sjálfur eðalkratinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Vondur félagsskapur

Greinar

Ferðaskrifstofa ráðherra gerir víðreist um þessar mundir og leitar sambanda í ýmsum afkimum jarðarinnar. Einkum verða fyrir valinu lönd á borð við Mexíkó, Malasíu og Mósambík, þar sem stjórnarfar er frumstætt, spilling mikil og efnahagur á undanhaldi.

Þótt við getum aldrei ræktað nógu vel allt of stóra markaði okkar í Vestur-Evrópu, Bandaríkjunum og Japan, þar sem menn eru borgunarmenn fyrir skuldum sínum, er sífellt verið að leita nýrra markaða á furðulegustu stöðum, þar sem enginn borgar neitt.

Helzti túristinn í hópi ráðherranna var heppinn í fyrra, þegar frestað var opinberri heimsókn hans til mesta stórþjófs aldarinnar næst á eftir Markosi sáluga á Filippseyjum. Í millitíðinni var Súhartó velt úr sessi í Indónesíu og ráðherrann hætti þá við ferðina.

Í staðinn hefur hann beint augum sínum til Mósambík, sem er einhvers staðar afskekkt í Afríku og alveg á kúpunni. Þar vill hann opna sendiráð í sameiginlegu húsnæði Norðurlanda og senda þangað diplómat, væntanlega til að selja þangað íslenzka lúxusvöru.

Íslenzkar afurðir eru svo dýrar og eiga að vera svo dýrar, að ekki hafi aðrir efni á að kaupa þær en Evrópumenn, Bandaríkjamenn og Japanir. Að öðrum kosti hrynur útflutningsverðlagið og kreppa heldur innreið sína hér eins og í ferðalöndum ráðherranna.

Ef opna þyrfti sendiráð í Afríku, sem samanlögð hefur ekki nema 1% heimsviðskiptanna, væri eðlilegra að gera það í fjölmennum ríkjum á borð við Egyptaland eða Suður-Afríku heldur en í afskekktum og týndum ríkjum á borð við Mósambík, Malaví eða Malí.

Ráðherrar feta einnig í fótspor forseta Íslands, sem löngum hefur ræktað samskipti við röð glæpamanna, sem hafa áratugum saman ráðið Mexíkó í skjóli umfangsmikillar spillingar og ofbeldisverka. Forsetinn og ráðherrar hvetja til fjárfestingar á þessum stað.

Er menn taka áhættu af löndum á borð við Kína, Víetnam eða Mexíkó, þar sem íbúar eiga óuppgerðar sakir við stjórnvöld, er hætt við, að fjárfestingar í spillingu fari fyrir lítið, þegar byltingin kemur. Þannig gufuðu verðmæti upp í byltingunni í Indónesíu.

Nú er ráðherra á leið til Malasíu, þar sem er við völd Mahatir bin Mohamad, er hefur það að sérstökum áhugamálum að saka Vesturlönd um allt, sem aflaga fer í landinu, og að saka pólitíska andstæðinga ranglega um að þröngva samræði upp á aðra karlmenn.

Vafalaust fær íslenzki ráðherrann að frétta margt af vonzku Vesturlanda og óbeizlaðri kynhneigð óþægra stjórnmálamanna. Hitt verður að draga í efa, að fjárfestingar borgi sig í landi, þar sem ráðamenn telja sig geta fryst þær fyrirvaralaust eftir hentugleikum.

Svo ruglaðir eru túristar ríkisins orðnir af umgengni við vafasama pappíra á afskekktum stöðum, að utanríkisráðherra lét sér detta í hug að láta gamlan kollega og Malaví-fara í sendiráðinu í Washington hafa bréfleg áhrif á dómara í þágu Eimskips.

Dómarinn endursendi auðvitað bréfið ólesið og sagðist ekki mega vera að því að standa í bréfaskiptum við menn úti í bæ meðan hann væri að dæma í málum. Þannig hefur ráðherra okkar réttilega verið stimplaður sem þriðja heims ráðherra í Malasíu-stíl.

Bréfið til bandaríska dómarans sýnir, að nú þarf að stöðva túrisma íslenzkra ráðherra á fjarlægum stöðum, þar sem vondur félagsskapur er á hverju strái.

Jónas Kristjánsson

DV

Humarhúsið

Veitingar

Bezta ástæðan til að sækja Humarhúsið heim kemur ykkur ekki á óvart, frábær humar, einkum í einfaldri matreiðslu, hvítvínsvættur og hvítlaukskryddaður og síðan grillaður hæfilega skamman tíma. Á boðstólum eru raunar ellefu mismunandi matreiðsluaðferðir á humri.

Löngum og hugmyndaríkum matseðli fylgir matreiðsla í hæsta gæðaflokki hér á landi. Stíllinn er þó ekki hreinn, því að mikið er kaffært í sósum og meðlæti er staðlað. Hvergi urðu þó bein mistök nema í hálfhráum, feitum og seigum andakjötssneiðum.

Lítið og notalegt humarhúsið er gamaldags og stílhreint að vönduðum antíkbúnaði. Á kvöldin glitra víðir málmdiskar og fagur borðbúnaður á hvítum dúkum í birtu léttra messingskróna. Fegurri veitingasalur er ekki til í landinu.

Hér er góður og fjölbreyttur, en ekki árgangamerktur vínlisti, sem leitar víða fanga í fjarlægum löndum, Ástralíu og Nýja-Sjálandi, Chile og Líbanon, þótt hefðbundin Ítalía og Frakkland séu í fyrirrúmi.

Verðlagið er hagstætt í hádeginu, þegar tær súpa og val milli þriggja fiskrétta fæst á 1190 krónur. Að kvöldi er þetta hins vegar einn af dýrustu matstöðum landsins. Þá kostar þríréttað með kaffi um 4.400 krónur á mann.

Hádegissúpan reyndist vera tær gæsasúpa með strimlum af gæsakjöti og grænmeti, frábær hvíld frá þykku hveitilímssúpunum, sem fást um alla borg. Til fyrirmyndar var bragðmildur saltfiskur í lögum, með kampavínssósu, einföldu hrásalati og steinselju í olíu. Meyr og fín var sesamhjúpuð risahörpuskel með maískornum, grænmetis-smábitum og baunaspírum.

Gott var sítrus- og kryddgrafið lamb með balsam-olíu og sesamfræjum. En bezti forrétturinn var rósmarínkrydduð og léttsteikt rjúpubringa með fjallagrösum og rauðvínssoðnum eplakúlum.

Pönnusteikt keila var hæfilega elduð, borin fram með þunnri piparsósu með grænum piparkornum heilum, fallegu hrásalati með miklum rauðlauk. Ristaður steinbítur var einnig hæfilega eldaður og fallega fram borinn með óvenjulega maukuðu og rjómuðu risotto með stórum og meyrum krabbabitum.

Andabringusneiðar á beini voru of léttsteiktar og fremur seigar, bornar fram með hindberjasósu, perlulauksultu og léttsteiktu grænmeti stöðluðu. Mun betra var léttsteikt lambafillet, fínt og meyrt, með döðlum, stórum sveppum, papriku, rifsberjum, bakaðri kartöflu og anís, en flaut í of mikilli rósmarínsósu.

Blönduð og gratineruð ber voru góð, sömuleiðis mjúk karamellu- og mokkaterta á stökkum hnetubotni, svo og hvítt og bragðmilt súkkulaðifrauð á ferskri hindberjasósu. Kaffi var gott.

Jónas Kristjánsson

DV

Ímynduð álver eru góð álver

Greinar

Ímyndað álver Norsk Hydro á Reyðarfirði gegnir sama hlutverki í stórhuga sjónhverfingum ráðherranna Halldórs Ásgrímssonar og Finns Ingólfssonar og ímyndað álver Atlantsáls, sem aldrei birtist á Keilisnesi, gegndi í sjónhverfingum ráðherrans Jóns Sigurðssonar.

Í báðum tilvikum er þingmaður að reyna að afla sér fylgis í kjördæmi sínu og iðnaðarráðherra að reyna að bæta við afrekaskrána. Jón Sigurðsson gegndi báðum hlutverkunum, en hinir gegna hvor sínum hluta þess, Halldór fyrir austan og Finnur í ráðuneytinu.

Munur málanna tveggja er, að ráðamenn Atlantsáls sögðu jafnan ja og humm, ef þeir voru spurðir, en ráðamenn Norsk Hydro segja nei og humm, ef þeir eru spurðir. Fyrir löngu er orðið ljóst, að ráðamenn Norsk Hydro hafa engan áhuga á reyðfirzku álveri.

Halldór er lentur í þeirri lítt öfundsverðu stöðu að reyna að túlka nei og humm Norsk Hydro sem ja og humm fyrir umbjóðendum sínum fyrir austan. Hann lýsir stefnu Norsk Hydro sem eins konar sjávarföllum, þar sem stundum komi flóð með gæs í öldufaldinum.

Til skamms tíma lék enginn vafi á, að þeir félagar mundu undir vorið framleiða ímyndun nýs flóðs með gæs, sem grípa megi, ef verða mætti til þess að hjálpa mönnum til að ákveða sig í kjörklefanum. Nú er komið babb í bátinn, því að þjóðarviljinn er að snúast.

Komið hefur í ljós, að meirihluti þjóðarinnar og stór minnihluti Austfirðinga vill ekki uppistöðulón á Eyjabökkum. Þar að auki hefur verið sáð efasemdum hjá Austfirðingum um gagnsemi fámenns álvers, sem gæti skaðað aðra og meiri atvinnuhagsmuni á svæðinu.

Eins og Steingrímur Hermannsson lýsti á flokksþingi Framsóknar í nóvember þá er lítill skilningur á umhverfismálum í þeim flokki. Könnun sýnir, að Framsóknarflokkurinn er eini flokkur landsins, þar sem meirihluti er enn fyrir uppistöðulóni á Eyjabökkum.

En framsóknarmenn eiga auðvelt með að skipta um skoðun. Utanríkisráðherra er byrjaður að gefa í skyn, að virkja megi fyrir austan án miðlunarlóns við Eyjabakka. Og upp úr skúffu hefur Landsvirkjun dregið áætlun um miðlun við Kárahnjúka í stað Eyjabakka.

Forsætisráðherra hefur skotið inn í umræðuna skondinni hugmynd um, að nýtt umhverfismat megi fara fram á Eyjabökkum, ef firð verður í áhuga Norsk Hydro, en ekki ef flóð verður í áhuganum. Nei og humm þýðir umhverfismat og ja og humm þýðir ekki umhverfismat.

Samkvæmt þessari hugmynd fer það ekki eftir málefnalegum aðstæðum á Eyjabökkum sjálfum, hvort þar fer fram nýtt umhverfismat, heldur eftir aðstæðum hjá fyrirtæki úti í Noregi. Þetta sýnir stöðu umhverfismála í virðingarstiga áhugamála forsætisráðherrans.

Smám saman eru mál að falla í þann farveg, að herkostnaður umhverfisverndar verði tekinn inn í stórvirkjanakostnað sem eðlilegur þáttur hans. Þegar loksins verður virkjað fyrir austan, verður almennt talið sjálfsagt að varðveita mikilvægar náttúruvinjar.

Einu sinni töluðu verkfræðingar í alvöru um að virkja mætti Hvítá framhjá Gullfossi og hleypa síðan vatni á fossinn fyrir ferðamenn á sunnudögum. Til skamms tíma töluðu menn af sama bjánaskap um Dettifoss. Nú er hins vegar farið að fjara undan slíkum skoðunum.

Ímynduð álver á Keilisnesi og í Reyðarfirði eru líklega orðin beztu álverin, þau sem hafa þann eina tilgang að sýna kjósendum, að ráðamenn séu í vinnunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Ekki er sopið kálið í ausu Kára

Greinar

Pyrrhus kóngur í Epírus komst að raun um, að kálið er ekki sopið, þótt í ausuna sé komið. Hann vann hverja orrustuna á fætur annarri, en tapaði samt stríðinu. Hvenær sem hann hafði sigur, mögnuðu Rómverjar gegn honum nýja herflokka og ný vandræði.

Sigur bandaríska fyrirtækisins deCode Genetics á Íslendingum er ekki fyllilega í höfn, þótt stjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafi á Alþingi knúið í gegn lög um einkarétt fyrirtækisins á fjölvíðum gagnagrunni heilbrigðismála.

Stofnað hefur verið félag til að kynna þjóðinni, hvernig menn geti á einfaldan hátt komið í veg fyrir, að nafn þeirra og kennitala komist inn í fjölvíðan gagnagrunn Stóra bróður í Delaware og til að fylgjast með aðgerðum Landlæknis til að virða vilja þessa fólks.

Undirróður af þessu tagi fær stöðuga næringu frá umræðunni úti í heimi, sem haldið hefur áfram, þótt málinu sé formlega lokið hér á landi. Eitt mesta áfall gagnagrunnsmanna er grein í New York Times eftir fremsta erfðafræðing heims, Lewontin í Harvard.

Það verður hvellur í Harvard og vísindaheiminum almennt, þegar búið er að þýða á ensku, að forstjóri deCode Genetics telur Lewontin vera þekktan öfgamann og strengbrúðu íslenzks fræðimanns. Hætt er við, að þetta magni enn frekari vandræði úti í heimi.

Gagnagrunnur deCode Genetics er orðinn að meiri háttar umræðuefni í ýmsum þekktustu prentfjölmiðlum heims, New York Times og Washington Post, Le Monde og The New Yorker, Newsweek og Guardian. Að meðaltali er umræðan gagnagrunninum stórlega í óhag.

Hvorki umræðan í heild né grein Lewontins sérstaklega er móðgun við Íslendinga, þótt Kári Stefánsson haldi slíku fram. Móðgunin er eldri og felst í samþykkt gagnagrunnslaganna á Alþingi. Öll umræðan síðan í útlöndum er ekki annað en eftirmáli við móðgunina.

Á liðnu hausti risu vonir um, að sættir mundu takast í gagnagrunnsmálinu um brottfall sérleyfis og aukna persónuvernd. En deCode Genetics og umboðsmenn þess í landsstjórninni vildu, þegar á reyndi, ekki sætta sig við annað en fullan sigur í frumvarpsbardaganum.

Þegar valtað er yfir andstæðinga eins og gert hefur verið í gagnagrunnsmálinu hér á landi, er ekki auðvelt að meta, hvort sigurinn er varanlegur eða aðeins stundarfriður. Eftir sigra í orrustum í Heraclea og Asculum varð Pyrrhus að bíða lægri hlut í Beneventum.

DeCode Genetics hefði grætt mikið á að fara með löndum í málinu, fallast á tilgangsleysi sérleyfisins og samþykkja harðari persónuvernd. En forstjórinn vildi ekki annað en fullan sigur og þarf því að sæta linnulausri andstöðu þeirra, sem hann valtaði yfir.

Það eru fleiri seigir en Rómverjar. Svo er um þá, sem standa í Mannvernd að baki Sigmundi Guðbjarnasyni, fyrrum háskólarektor. Svo er einnig um þá, sem standa í Harvard að baki Lewontin erfðafræðingi. Svo er einnig um stóru alvörufjölmiðlana úti í heimi.

Það er hægt að hafa ráðamenn Íslands og meirihluta Íslendinga að fífli. Það er hægt að halda fram hverju sem er í deilum innan okkar vasaútgáfu af þjóðfélagi foringjadýrkunar. En það er ekki hægt að hafa alla Íslendinga að fífli og enn síður frjálsa umheiminn.

Forstjóri deCode Genetics í Delaware þarf sífellt að ná vopnum sínum og á af ýmsum slíkum ástæðum erfitt með að súpa kálið, sem komið er í ausu hans.

Jónas Kristjánsson

DV

East Side og Arnarnesið

Greinar

Íbúar höfuðborgarsvæðisins leggjast ekki í hverfi eftir stéttum eins og sjá má víðast hvar erlendis. Forustufólk í stjórnmálum, fjármálum og embættissýslu býr ekki í aðskildum hverfum, heldur hér og þar á svæðinu innan um fólk, sem hefur minni völd og peninga.

Þótt Íslendingar séu sagðir ameríkaniseraðir og þótt höfuðborgarsvæðið sé dreift skipulagt, þá gildir ekki sú regla hér á landi, að menn búi því lengra frá borgarkjarnanum, sem þeir megi sín meira, og helzt í sérbyggðum og meira eða minna lokuðum hverfum.

Í Bandaríkjunum hafa gamlar miðborgir lagzt í auðn og yztu og yngstu úthverfin blómstað. Hér hafa menn haldið áfram að búa á gömlu stöðunum, þótt þeir hafi komizt í álnir eða til mannvirðinga. Þetta kom fram í úttekt, sem birtist í Fókusi, fylgiriti DV, í gær.

Flest er fyrirfólkið á Melunum, í gamla vesturbænum og í gamla austurbænum. Þótt húsakynni séu þrengri og húsaskipan þéttari en annars staðar, heldur fólk tryggð við rætur sínar. Margir búa þar í sambýlishúsum, þótt þeir hafi ráð á einbýlishúsum úthverfanna.

Fyrir tveimur áratugum voru gömlu hverfin að breytast í þreytuleg ellihverfi, meðan barnafólkið byggði á hæðunum í kring. Um langt skeið hefur þetta verið að snúast við. Ungt fólk hefur gert upp litlu íbúðirnar í þröngu götunum og gætt hverfin lífi að nýju.

KR var á sínum tíma að fjara út vegna skorts á börnum og unglingum í vesturbænum. Nú er félagið farið að blómstra á nýjan leik. Nýir skólar hafa hreinlega verið reistir í vesturbænum til að rúma aukningu barna og unglinga á skólaskyldualdri.

Þannig hefur dregið úr aldursskiptingu hverfa. Ekki er lengur eindregið, að ungar barnafjölskyldu komi sér upp húsnæði í nýjustu hverfunum og gamla fólkið ráfi einmana um stássstofur sínar í gamla bænum. Aldurshóparnir eru farnir að blandast meira.

Athyglisvert er, að ekki hafa tekizt tilraunir til að hanna sérstök glæsihverfi handa fyrirfólki. Arnarnesið er bezta dæmið. Þar gekk lengi illa að selja lóðir. Handhafar auðs og valds kærðu sig ekki um að flytja þangað, svo að úr varð gott millistéttarhverfi.

Með því að skipuleggja lóðir fyrir stór einbýlishús hefur Garðabæ að vísu tekizt að draga til sín betri skattgreiðendur en sem nemur meðaltali höfuðborgarsvæðisins. En bænum hefur ekki tekizt að magna þessa sveiflu með því að fá fyrirmenn til að draga aðra að.

Vafalaust eru margar ástæður þessarar sérstöku og athyglisverðu íbúaþróunar á höfuðborgarsvæðinu. Miklu máli skiptir, að Reykjavíkurborg keypti markvisst allt land og skipulagði hverfi blandaðrar íbúðabyggðar, þar sem dýrar íbúðir og ódýrar eru saman í hverfi.

Svo virðist líka sem virðingarfólk á höfuðborgarsvæðinu sækist ekki eftir ytri táknum velgengni sinnar á sama hátt og hliðstætt fólk í lokuðu úthverfunum í Bandaríkjunum. Hér eru menn sáttir við þröngar götur, gömul hús og hófleg þægindi innan dyra.

Ein afleiðingin og kannski ekki síður orsök um leið, er, að þjóðfélagið er jafnara en önnur þjóðfélög. Stéttirnar búa ekki í aðskildum lögum eins og mismunandi þjóðir. Hér er hvorki að finna Harlem né East Side. Hverfin eru ekki svört og hvít, heldur mismunandi grá.

Þegar ráðherrann getur gengið í vinnuna og heilsað fólki á förnum vegi, er þjóðfélagið sennilega betur statt en ýmis önnur, sem kenna sig við lýðræði.

Jónas Kristjánsson

DV

Caruso

Veitingar

Þvert á íslenzka veitingahefð hefur hinn rustalega notalegi Caruso batnað og orðið ódýrari með aldrinum. Í verði og gæðum er hann kominn í hóp annarra hálfítalskra veitingastaða borgarinnar, Pasta Basta og Ítalíu, sem eru á sömu slóðum í miðbænum.

Þetta er groddastaður að umbúnaði. Setið er á sæmilegum málmstólum á viðargólfi við vönduð tréborð, dúklaus. Í hálfrökkrinu má greina hvíta veggi, rauðan múrstein og brún burðarvirki. Þægilegast og bjartast er að sitja í viðarskálanum úti við Bankastræti, þar sem hægt er að lesa matseðilinn við birtu frá götuljósunum.

Verðið er íslenzkur miðlungur, 3.700 krónur fyrir þríréttað með kaffi og í hádeginu tvenns konar val tvíréttað fyrir 990 krónur. Fyrir þetta fáum við óskólagengna þjónustu vinsamlega, þunnar pappírsþurrkur og smjör í álpappír, svo og jöklasalat og alfaspírur sem staðlað hrásalat með nánast öllum forréttum og eftirréttum.

Matreiðsluhefðin er að grunni ítalskrar ættar, með rísottum, pöstum og pítsum, en gælir eindregið við íslenzkan hvítlauksbrauða-smekk skyndibitafólks. Sjálf matreiðslan er hin sterka hlið staðarins, fremur traust og fyrirsjáanleg og einstaka sinnum áhugaverð, einkum í ítölskum hrísgrjónaréttum og grænmetissúpum, en síður í íslenzkum fiskréttum.

Beztir voru forréttir, svo sem magnað sjávarrétta-risotto með hörpufiski, rækjum, sveppum og lauk. Einnig ítölsk og tær grænmetissúpa með agnarsmáum grænmetisteningum, fjölbreyttum að lit, skemmtilega fram borin í víðri og pottlaga skál.

Bragðgóðir voru fylltir sveppahattar með miklum gráðaosti, eldaðir í hvítlaukssmjöri. Sama er að segja um matarmikið hrásalat kokksins, með stórum rækjum, eggjabitum, feta-osti, tvenns konar ólífum og þurrkuðum tómötum, svo og sinnepssósu til hliðar.

Spaghetti carbonara var eins og við mátti búast, ítalska útgáfan af eggjum og beikoni engilsaxa. Beikonvafin hörpuskel með sýrðum hvítlauksrjóma var meyr og fín, borin fram með ágætlega sveppablönduðum hrísgrjónum. Fiskitvenna var of mikið elduð, ýsan meira en laxinn, borin fram með sterkri gráðaostsósu og seigri kartöflu, upphitaðri.

Lambafillet var léttsteikt, smurt sinnepi og borið fram með maukgrillaðri kartöflu í stökku hýði og harðsteiktum, ostfylltum chili-pipar, eins konar mexíkönsku quesadilla.

Mjúk gulrótarterta með rjómaostsósu var bragðgóð, sem og hvítt súkkulaðifrauð á hindberjasósu. Espresso-kaffi var oftast gott, en einu sinni einkennilega þunnt, líklega úr röngum baunum.

Þótt Caruso sé frambærilegur, á hann það sammerkt með ótal öðrum matsölustöðum borgarinnar, að fyrir svipað verð er betra að borða á Primavera eða Tjörninni.

Jónas Kristjánsson

DV

Nató er gaggandi hæna

Greinar

Aldrei skal hóta neinu, sem ekki er ætlunin að standa við. Þessi grundvallarregla gildir í pólitískum samskiptum ríkja eins og í póker. Ef mótspilarar átta sig á, að þú segir digurbarkalega án þess að hafa annað en hunda á bak við sagnirnar, láta þeir þig jafnan sýna þá.

Mörgum sinnum hefur verið bent á hér í blaðinu, að fáránlegt er, að hernaðarbandalag á borð við Atlantshafsbandalagið sé að hóta ríkjum út og suður án þess að meina neitt með því. Þetta hefur hvatt Slobodan Milosevic og Saddam Hussein til að fara sínu fram.

Þegar hernaðarbandalög verða fyrir áreiti, á að vera tilbúin áætlun um, hvers konar áreiti leiði til hvers konar gagnaðgerða. Ekki dugir að byrja á að hóta öllu illu og hlaupa svo eins og gaggandi hænur út og suður til að reyna að leita að samkomulagi um aðgerðir.

Áður hefur mörgum sinnum komið fram í viðbrögðum Atlantshafsbandalagsins í málefnum arftakaríkja Júgóslavíu sálugrar, að ráðamenn þess eru greindarskertir og ófærir um að læra af reynslunni, þótt þeir segi hver um annan þveran, að þeir þurfi að gera það.

Bjánalegar fullyrðingar ráðamanna bandalagsins framkalla hörmungar. Kúgaðar undirþjóðir á borð við Bosníumenn og Kosovomenn í fyrrverandi Júgóslavíu og Kúrdar og sjítar í Írak taka fullyrðingarnar meira eða minna trúanlegar og æsa kúgarana til óhæfuverka.

Þegar fjöldamorðin hefjast, byrjar Nató að gagga og því hærra, sem hraðari verður framvinda þeirra. Þegar hörmungarnar eru orðnar nógu hrikalegar, hefst undirbúningur loftárása, sem smám saman leiðir til, að Milosevic gerir tímabundið hlé á fjöldamorðunum.

Þegar þetta hefur leitt til þess, að undirbúningi loftárása er hætt í bili, hefja þeir félagar aftur fjöldamorð og fá nokkrar vikur eða mánuði til að magna þau, áður en þeir verða enn að gera hlé. Þannig ná þeir markmiðum sínum í mörgum, markvissum áföngum.

Stefna Milosevic hefur árum saman verið skýr. Hann vill hrekja 90% íbúa Kosovo úr héraðinu, svo að þar verði ekki eftir aðrir en Serbar. Hvort meirihlutinn flýr ofsóknir eða fellur í fjöldamorðum, skiptir hann engu. Hann er kvörn, sem malar hægt, en örugglega.

Ráðamenn Atlantshafsbandalagsins verða að gera sér grein fyrir, hvort þessi ráðagerð fjöldamorðingjans kemur bandalaginu við og þá hvernig. Ef ekki er samkomulag í bandalaginu um að ganga milli bols og höfuðs á stjórn Milosevics, á að láta villidýr Serba í friði.

Ef hins vegar ráðamenn bandalagsins telja, að því sé skylt stöðu sinnar vegna að grípa til aðgerða, er tilgangslaust að miða aðgerðirnar við að sannfæra Milosevic um eitthvað. Hann er ekki sú manngerð. Aðgerðirnar verða að hrekja hann og menn hans alveg frá völdum.

Augljóst er af reynslu síðustu ára, að bandalagið er ófært um að deila og drottna á Balkanskaga. Það getur ekki ákveðið að koma Milosevic fyrir kattarnef og veita Kosovomönnum sjálfstæði. Þess vegna á það að halda að sér höndum og láta vera að synda í djúpu lauginni.

Gaggið í yfirmönnum Nató staðfestir það, sem áður var vitað, að bandalagið hefur glatað hlutverki sínu við fall járntjaldsins og lok kalda stríðsins. Það er orðið að vestrænum fínimannsklúbbi, sem hvorki mun víkka verksvið sitt né finna sér neitt nýtt að föndra við.

Bandalagið á að halda sér til hlés og hlífa okkur við þjáningum, sem fylgja því að horfa á það niðurlægt af hverjum þeim dólgi, sem nennir að sparka í það.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjóðin hefur ákveðið sig

Greinar

Þjóðin hefur tekið skýra afstöðu í tveimur deilumálum líðandi stundar. Þrír fjórðu hlutar hennar eru andvígir viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við kvótadómi Hæstaréttar. Tveir þriðju hlutar hennar eru andvígir uppistöðulóni í Eyjabökkum vegna orkuöflunar fyrir stóriðju.

Ríkisstjórnin hefur ekki einu sinni getað sannfært stuðningsmenn sína í þessum tveimur málum. Meirihluti stuðningsmanna beggja flokka er andvígur flokksforustunni í kvótamálinu og meirihluti Sjálfstæðisflokksins er einnig andvígur uppistöðulóni í Eyjabökkum.

Ríkisstjórnin kemst hins vegar upp með að ganga gegn vilja þjóðarinnar og stuðningsmanna sinna, af því að kjósendur setja ekkert samasemmerki milli skoðana sinna á ýmsum málum og afstöðu sinnar í kjörklefanum. Ríkisstjórnin nýtur áfram yfirburðafylgis kjósenda.

Þetta þýðir, að ríkisstjórnin fær traustan meirihluta í kosningunum í vor til þess að framkvæma kvótastefnu og virkjanastefnu sína. Kjósendur munu ekki taka sjálfir neina pólitíska ábyrgð á þessum tveimur ágreiningsmálum, þótt þeir hafi á þeim eindregna skoðun.

Þótt afnumin verði þjóðareign á fiskistofnun og sérstæðum náttúruvinjum drekkt í uppistöðulónum, er nokkur sárabót að vitneskjunni um, að þjóðin lætur þetta ekki alveg meðvitundarlaust yfir sig ganga. Hún lýsir andstöðu sinni, þegar hún er beinlínis spurð.

Gæzlumenn sérhagsmuna skáka stundum í því skjóli, að þeir séu óbeint hagkvæmir fyrir þjóðfélagið og þjóni þannig almannahagsmunum um leið. Í Bandaríkjunum var í gamla daga sagt, að það, sem væri gott fyrir General Motors, væri gott fyrir Bandaríkin í heild.

Þetta á engan veginn við í málunum tveim, sem hér eru til umræðu. Hægt er að halda uppi verðgildi fiskistofnanna með því að takmarka aðgang að þeim, þótt eigendur fiskiskipa einoki ekki aðganginn. Hagkvæmnin næst með því að setja kvótana á opið uppboð.

Orkuver í þágu stóriðju bera lítinn arð um allan heim og einnig hér á landi, enda er orkuverðið svo lágt, að það er feimnismál. Rekstur orkuveranna og stóriðjunnar sker sig úr öðrum atvinnugreinum í lítilli mannaflaþörf í samanburði við þær greinar, sem rutt er til hliðar.

Þannig munu Austfirðingar geta haft margfalt meiri og traustari tekjur af þróun ferðaþjónustu í fjórðungnum en af orkuverum og stóriðju. Margfalt fleiri geta haft lifibrauð sitt af ferðaþjónustu, sem fær að þroskast á eðlilegan hátt, en kemur ekki og fer í einum rykk.

Framkvæmdir við orkuver og stóriðju valda mikilli sveiflu, þar sem mikinn mannskap þarf á skömmum tíma. Atvinnuauðn blasir síðan við, þegar framkvæmdum linnir og menn hafa vanrækt að byggja í fjórðungnum upp heilbrigða atvinnuvegi í sátt við landið.

Því fer fjarri, að andstaða við núverandi kvótakerfi og fyrirhugað uppistöðulón í Eyjabökkum sé eingöngu tómstundahugsjón vel stæðra þéttbýlisbúa. Þessi andstaða við framgang sérhagsmuna á sér einnig hagkvæmnisforsendur. Hún er beinlínis í þágu almannahagsmuna.

Langvinnar deilur hafa staðið um kvótann og uppistöðulónin. Málflutningi er meira eða minna lokið, þjóðin hefur tekið afstöðu og er andvíg hvoru tveggja. Það skortir aðeins, að þjóðin taki afleiðingum skoðana sinna með því að kúga stjórnarflokkana til hlýðni.

Þegar meirihlutinn hefur sagt álit sitt á ótvíræðan hátt hlýtur að vera hægt að víkja til hliðar gæzlumönnum sérhagsmuna í stærstu stjórnmálaflokkunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Tvíeggjuð prófkjör

Greinar

Prófkjör eru tvíeggjað vopn, sem getur og hefur reynzt stjórnmálaflokkum ágæt aðferð til að afla sér meira fjöldafylgis en ella hefði orðið. Almennt finnst þáttakendum í prófkjöri þeir hafa fengið aukinn aðgang að mikilvægum ákvörðunum í stjórnmálum.

Prófkjör hafa rutt sér til rúms, af því að flokkar, sem nota prófkjör, fá með því tæki til að draga til sín fylgi frá öðrum flokkum. Þótt ekki sé krafizt flokksaðildar og stundum ekki einu sinni stuðningsyfirlýsingar, eru þátttakendur siðferðilega skuldbundnir flokknum.

Prófkjör eru þar á ofan mikilvæg aðferð til að skera úr djúpstæðum ágreiningi um menn og málefni innan flokks, án þess að hann leiði til fylgisrýrnunar eða klofnings. Þeir, sem verða undir í prófkjöri, sætta sig oftast við lýðræðislega niðurstöðu þess.

Engin rós er án þyrna. Prófkjör framkalla ýmis vandamál. Þau valda stundum sárindum, sem seint gróa, til dæmis þegar stuðningsmönnum annarra flokka er smalað til þátttöku eða þá að persónulegum dylgjum og rógi er beitt gegn frambjóðendum í hita leiksins.

Enn fremur baka prófkjör frambjóðendum mikinn kostnað í sumum tilvikum. Þetta er hreinn viðbótarþáttur í stjórnmálakostnaði þjóðarinnar og getur hæglega valdið spillingu gagnkvæmrar greiðasemi. Aldagömul reynsla er fyrir því, að æ sér gjöf til gjalda.

Óþægilegt er til þess að hugsa, að menn safni saman milljónum króna til að kosta vonina um þingsæti, sem ekki gefur nema þrjár milljónir króna í árstekjur. Við siglum að þessu leyti í kjölfar Bandaríkjanna, þar sem menn kaupa sér hreinlega þingsæti fyrir morð fjár.

Aðstæður ýmissa stjórnmálaflokka á ýmsum tímum eru misjafnar. Stundum kalla þær á prófkjör og stundum ekki. Til dæmis telur Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík sig vera í svo góðum málum með fáa frambjóðendur og gott fylgi, að víkja megi frá prófkjöri að þessu sinni.

Reglur um prófkjör eru misjafnar eftir flokkum, kjördæmum og kosningum. Þau eru misjafnlega opin eða lokuð, með eða án girðinga, með númeruðum sætum eða opnum. Þetta sýnir, að enn hefur ekki verið fundin ein leið til að halda prófkjör, svo öllum líki.

Draga má úr vandamálum, sem fylgja prófkjörum, með því að festa framkvæmd þeirra í lög, þar sem ákveðinn sé sameiginlegur prófkjörsdagur og -staður þeirra flokka, sem ætla að hafa prófkjör, þannig að hver kjósandi greiði aðeins atkvæði hjá einum þeirra.

Bezta leiðin er að flytja prófkjörin hreinlega inn í kosningarnar sjálfar með því að hafa framboðslista óraðaða og láta hlutkesti ráða, hvar í stafrófsröðinni nafnalistarnir byrja. Þetta minnkar innanflokksátök og dregur úr kostnaði, sem annars fylgir prófkjörum.

Margir sakna persónutengdra einmenningskjördæma og finnst framboðslistarnir vera fjarlægir og ópersónulegir. Með óröðuðum listum má fella þennan kost einmenningskjördæmanna að nokkru inn í listakjördæmin og gera val þingmanna persónulegra en áður.

Sameiginlegt átak flokka þarf til að koma á fót einum prófkjörsdegi og -stað eða til að láta kjósendur raða frambjóðendum í sjálfum kosningunum. Það gerist ekki nema menn gefi sér góðan tíma til undirbúnings málsins, þegar yfirvofandi kosningar raska ekki ró.

Fréttir af ágreiningi um framkvæmd prófkjörs Framsóknarflokksins í Reykjavík og á Norðurlandi eystra minna á, að prófkjörsleiðin kallar á betri lausn.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjanghæ

Veitingar

Fátt er minnisstætt frá Sjanghæ, sem að útliti og innihaldi er eins og þúsundir annarra austrænna staða á Vesturlöndum, hvorki lakari né betri. Til dæmis voru djúpsteiktur rækjur hveitiþykkar og álíka ólystugar og á Asíu neðar við Laugaveginn. Ánægjulegast man ég eftir efnismiklum pappírsþurrkum og heitum dúkum, sem gestir fá eftir matinn.

Matreiðslan í Sjanghæ er austur-indísk fremur en kínversk, ættuð frá Indónesíu eða Vietnam, með þykkum sósum, þótt hún jóðli ekki beinlínis í þeim eins og á áðurnefndri Asíu og sé ekki heldur í hreinum pottréttastíl eins og á Bing Dao á Akureyri, botni tilverunnar. En hún er snöggtum lakari en kínverska matreiðslan þurra og ekta í Kínahúsinu við Lækjargötu, sem þar að auki er mun ódýrari staður.

Sjanghæ er innréttað í ferðamannastíl, mikið hólfað niður með reitagrindverki, skreytt upp á kínversku með reitalofti, rauðu teppi, Kínalugtum, blævængjum og kínverskum styttum í glerskápum. Þjónustan er sumpart góð og sumpart fáfróð, en jafnan elskuleg.

890 króna hádegishlaðborð bjó yfir smáum og þunnum vorrúllum ágætum, en var að öðru leyti ómerkilegt pottréttaborð með gríðarlega djúpsteiktum rækjum. Á kvöldin er boðið upp á margréttað fyrir 1980 krónur að meðaltali. Af seðli kostar þríréttað með kaffi um 3000 krónur.

Kjúklingur var yfirleitt frambærilegur. Svonefndur stökkur kjúklingur var fínlega djúpsteiktur með hnausþykkri sósu súrsætri til hliðar. Satay kjúklingur var tamarind-kryddaður í kókosmjólk. Gufusoðinn sapor kjúklingur, borinn fram í potti, var blandaður kasjú hnetum og sterkkrydduðu grænmeti.

Eggjadropasúpa var vel heit, þykk og matarleg. Skásti rétturinn var Gado Gado, steikt grænmeti, sem þó var með allt of mikilli hnetusósu, er minnti á kókosmjöl. Grænmeti með öðrum mat var yfirleitt staðlað og gott, brokkál, gulrót, laukur og sveppir, oftast blandað niðursoðnum ananas.

Gufusoðin sapor ýsa, borin fram í potti, var ekki nógu fersk. Pönnusteikt ýsa að hætti Malasíubúa var þurr af ofeldun, svo sem hættir til á austurlenzkum veitingahúsum hér á landi. Betri voru snöggsteiktar lambakjötsþynnur með hvítlauk. Ennfremur piparkryddaðar toban-svínakjötsþynnur, bornar fram í pönnunni.

Blandaðir ávextir fólu í sér mikið úrval austur-asískra ávaxta úr dósum, með ís og rjóma. Bezti eftirrétturinn var wan tan, djúpsteikt hveitiumslög utan um döðlur, borin fram með þeyttum rjóma. Kaffi var nothæft.

Jónas Kristjánsson

DV

Því meira eru þeir eins

Greinar

Því meira sem hlutirnir breytast, því meira eru þeir eins. Á næsta Alþingi að hausti verður að nýju komið hefðbundið fjögurra flokka kerfi eftir tímabundnar gælur þjóðarinnar við fimm og sex flokka kerfi. Þetta er ein merkasta niðurstaða skoðanakönnunar DV.

Það er seigla í gömlum mynztrum stjórnmálanna. Ný framboð hafa risið og hnigið og stöku sinnum haldizt á floti í nokkur kjörtímabil. Gömlu stjórnmálaöflin eiga góða og slæma daga í kosningum, en til langs tíma litið verður þeim ekki haggað að neinu ráði.

Sjálfstæðisflokkurinn er með öflugasta móti um þessar mundir. Hann hefur meira fylgi í skoðanakönnuninni en í hliðstæðum könnunum á svipuðu stigi í fyrri kosningabaráttum. Þótt hann nái ekki hreinum meirihluta í vor, er fátt, sem getur hindrað mikinn sigur hans.

Í sömu könnun kemur í ljós eindregin andstaða kjósenda gegn viðbrögðum Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnar hans í kjölfar kvótadóms Hæstaréttar. Þótt kjósendur séu andvígir helzta máli flokksins eru þeir meira en lítið fúsir til að styðja hann í kosningum.

Þorri íslenzkra kjósenda lítur ekki á það sem hlutverk sitt að fylgja eftir málefnum. Þeir óttast jafnvel, að málefni geti spillt fyrir þeirri fagmennsku, sem felst í að halda þjóðarskútunni í lygnum sjó góðæris. Kjósendur vilja ekki láta hugmyndafræðinga stjórna sér.

Framsóknarflokkurinn er með veikasta móti um þessar mundir, svo sem hefðbundið er, þegar hann hefur lengi verið í helmingaskiptastjórn með Sjálfstæðisflokki. Hann mun bíða ósigur í kosningunum, en ekki nógu mikinn til að segja skilið við stjórnarsamstarfið.

Eftir miklar hrókeringar stjórnmálaflokka utan ríkisstjórnar hefur risið svipað mynztur og í flestum ríkjum Vestur-Evrópu. Við fáum breiðan krataflokk samfylkingarinnar og hreinan græningjaflokk, þann síðarnefnda með svipuðu fylgi og í nágrannaríkjunum.

Græn framboð með 5­8% fylgi hafa rutt sér til rúms víða um Evrópu á síðustu árum í kjölfar meiri áhuga meðal kjósenda á sjálfbærri umgengni fólks við umhverfið og aukinnar tilfinningar margra þeirra fyrir ýmsum verðmætum, sem mölur og ryð fá ekki grandað.

Íslenzkir kratar sameinaðir verða hins vegar veikari en trúbræður þeirra í nálægum ríkjum, enda er illt að afla trausts kjósenda í kjölfar langvinns skæklatogs um prófkjörsreglur. Kratar gera ekki meira að þessu sinni en að ná sögulegum sáttum innan sinna vébanda.

Sögulegu sættirnar eru aðgerð inn á við. Þær eru sagnfræðilega mikilvægar, en gera samfylkinguna tímabundið ófæra um að taka þátt í stjórnmálum út á við. Þegar líður á næsta kjörtímabil, kunna kratar að ná vopnum sínum og eyrum kjósenda á nýjan leik.

Skoðanakönnunin sýnir, að loksins hafa síðustu kjósendur Alþýðuflokks og Alþýðubandalags áttað sig á, að þessir flokkar eru ekki lengur í framboði. Þeir eru horfnir af sjónarsviði kjósenda eins og frjálslyndu flokkarnir tveir, sem ekki munu ná manni inn á þing.

Hafa má til marks um þverstæður íslenzkra stjórnmála, að ekki tekst að ná saman trúverðugum flokki til stuðnings því hugsjónamáli, sem þjóðin styður eindregið og stjórnarflokkarnir hafna eindregið, það er að segja endurheimt þjóðareignar úr höndum sægreifa.

Eftir kosningarnar munum við búa við hefðbundið fjögurra flokka kerfi, sumpart undir nýjum fánum. Því meira sem hlutirnir breytast, því meira eru þeir eins.

Jónas Kristjánsson

DV