Vanhelgað og varnarlaust kerfi

Greinar

Kvótakerfið hefur beðið varanlegan hnekki í almenningsálitinu. Gegn því hafa verið stofnuð félög og tveir stjórnmálaflokkar. Hagsmunaaðilar hafa bundizt samtökum um að ná sér í spón úr askinum og hóta ólöglegum aðgerðum til að sýna mátt sinn og megin.

Til skamms tíma var kvótakerfinu haldið uppi með því að telja fólki trú um, að það væri í þágu sjávarplássa og sjómanna. Nú hefur komið í ljós, að kvótinn flögrar um eftir hagfræðilögmálum og fer ekki að neinu leyti eftir meintum þörfum sjávarplássa og sjómanna.

Þar með hefur bilað lím, sem áður sameinaði landsbyggðina í stuðningi við kvótakerfið. Staðbundnir hagsmunir í sjávarplássunum hafa risið gegn kerfinu um leið og hugsjónir í þéttbýlinu hafa risið gegn því á allt öðrum forsendum, kröfunni um jöfnuð og réttlæti.

Í vörninni gegn áhlaupi hugsjóna og hagsmuna hefur stjórnvöldum ekki tekizt að sýna fram á gildi kvótakerfisins, þótt margt megi færa fram því til ágætis. Meginmáli skiptir, að það hefur glatað lögmæti sínu í augum þjóðarinnar og verður því ekki varið með lögum.

Öngþveiti er í uppsiglingu og það er ekki Hæstarétti að kenna. Það er þvert á móti þeim að kenna, sem neita að fallast á dóm Hæstaréttar og telja sig geta snúið út úr málinu með tæknibrellum. Það eru stjórnvöld, er hafa sáð til þeirra vandræða, sem nú eru í aðsigi.

Kvótakerfinu þarf að breyta á þann hátt, að það fullnægi stjórnarskránni og tilfinningu fólks fyrir því, hvað sé réttlátt og sanngjarnt. Ef ekki næst sátt við hugsjónir fólks, mun kerfið lúta í gras. Þetta er mál, sem ekki verður leyst með tæknilegum sjónhverfingum.

Þjóðfélagið stendur og fellur með almennri sátt um grundvallaratriði. Lögin í landinu standa ekki og falla með löggæzlu, heldur með því, að fólkið standi annaðhvort með þeim eða móti. Ekki er lengi hægt að framkvæma lög, sem þjóðin er almennt orðin andvíg.

Því fyrr sem stjórnvöld láta af tæknibrellum og byrja að taka mark á innihaldi hæstaréttardómsins í kvótamálinu og á almannarómi í landinu, þeim mun fyrr verður aftur unnt að koma á lögum og rétti í fiskveiðum. Þeim mun fyrr verður þjóðfélagið aftur sátt.

Því miður eru ráðamenn okkar margir hverjir allt of þrjózkir. Þeir telja sig vita betur en allir aðrir og hafa hingað til verið ófáanlegir til að hlusta. Þeir tala ekki bara niður til þjóðarinnar, heldur líka niður til Hæstaréttar. Slíkt dramb getur endað með falli.

Landsfeðurnir ganga að þessu leyti illa undirbúnir til kosninganna í vor. Þeir héldu fram eftir vetri í hroka sínum, að þeir gætu sannfært fólk um, að þeir vissu betur en aðrir. Nú eru þeir hins vegar að komast að raun um, að rök þeirra verða ekki tekin gild.

Enginn hörgull er á góðum hugmyndum um, hvernig kvótakerfinu verði breytt. Því fyrr sem tekið verður mark á einhverjum slíkum hugmyndafræðilegum tillögum, þeim mun minni líkur eru á, að hagsmunaaðilar geti í sína eigin þágu brotið kerfið á bak aftur.

Tillögur eru um að afskrifa núverandi kvóta á nokkrum árum og taka upp byggðakvóta eða almenningskvóta eða uppboðskvóta. Leiðirnar eru margar, en að baki þeim öllum er sannfæring höfundanna um, að misnotkun núverandi kerfis hafi vanhelgað það.

Það er raunar mergurinn málsins. Kvótakerfið hefur vanhelgazt og verður ekki varið. Því fyrr, sem nýtt kerfi rís á rústum þess, þeim mun betur farnast okkur.

Jónas Kristjánsson

DV

Jómfrúin

Veitingar

Amma mín gaf mér bolsíur og aura fyrir bílæti og eldaði upp á dönsku frikadeller, hakkebøf og ribbensteg. Í minningunni finnst mér það hafa verið merkari matur en kjötbollur, hakk og svínarif, sem ég kynntist síðar í Múlaköffum og mötuneytum nútímans sem svokölluðum íslenzkum heimilismat.

Jómfrúin í Lækjargötu gælir við nostalgíuna með því að staðfesta þetta. Þar er notað kjötsoð, en ekki uppbökuð hveitisósa. Eldunartímar eru hafðir fremur hóflegir. Eftir margra áratuga eyðimerkurgöngu Íslendinga getum við nú aftur fengið danskan frokost í Reykjavík og andað að okkur ilminum úr Store-Kongensgade.

Frikadellur Jómfrúarinnar voru dæmigerðar fyrir þetta, betri, þéttari og betur kryddaðar en kjötbollur, bornar fram með hvítum kartöflum og köldu meðlæti, rauðkáli, sýrðri gúrku og sultutaui, svo og kjötsoði í sérstakri skál, svo að það flæddi ekki um matinn.

Ribbensteg með stökkri og harðri pöru hossaði hins vegar ekki fortíðarþrá minni eins mikið, borin fram með hvítum kartöflum, sýrðri gúrku, rauðrófu og rauðkáli, svo og kjötsoði. Betri var hæfilega pönnusteikt bleikja á þunnri og sítrónublandaðri heslihnetusósu með rúgbrauði og sýrðum rjóma.

Þetta var meðal þess, sem oft er á boðstólum á fimm rétta krítartöflu við diskinn. Aðalsmerki staðarins eru þó ekki hefðbundnir frokostréttir danskir, heldur tuttugu tegundir af dönsku smørrebrød að hætti Oscars og síðar Idu Davidsen, þar sem Jakob Jakobsson var í læri.

Minnisstæðast smurbrauða er alveg mátulegur gorgonzola-ostur með tómati og hrárri eggjarauðu á fransbrauði. Fínlega og bragðgóða lifrarkæfu með stökkri, en ekki harðri pöru, á rúgbrauði ber næsthæsta í minningunni, ýmist með rauðkáli, djúpsteiktri steinselju eða púrtvíni og piparrót. Vandlega byggður píramídi af furðanlega meyrum úthafsrækjum á fransbrauði er líka minnisstæður, svo og ljúf lambalifur á rúgbrauði, með steiktum lauk, soðnum eplabátum og sultutaui.

Heitir réttir kosta um 890 krónur, hálfsneiðar um 475 krónur og heilar smurbrauðssneiðar um 750 krónur. Hálf önnur sneið í hádegismat kostar um 1200 krónur. Staðurinn er á sumrin opinn á kvöldin og þá mundi þríréttað með kaffi kosta um 1800 krónur.

Jómfrúin líkist raunar ekki hefðbundnum og huggulegum dönskum frokostsstöðum á borð við Slotskælderen, Sankt Annæ eða Kanal Caféen, heldur ber hún norrænan fúnkissvip frá Idu Davidsen. Jómfrúin er löng og mjó, björt og smart, með viðarþiljum í lofti og stórum gluggum inn í garð, stífri röð Tívolí-plakata á langvegg og gervi-tréstólum við reitadúkuð borð. Fremst er skenkur, þar sem skoða má sýnishorn af smurbrauðinu.

Í gestum mælt er þetta er fínasta veitingahús landsins. Meðfram langvegg sitja þekktir menn á miðjum aldri við nærri fullt hús í hádeginu og nikka hver til annars, stjórnmálamenn, fréttamenn, sendiherrar og kverúlantar, en alls engir uppar, sem vita ekki einu sinni, hvað frokost er. Starfsfólk er jafn alúðlegt við gestina og það er við þröngt svið matargerðarlistar staðarins.

Hér vantar ekkert nema rødgrød med fløde í eftirrétt.

Jónas Kristjánsson

DV

Fyrir hunda og manna fótum

Greinar

Síðan nöldrið í austri andaðist úr uppdráttarsýki, hefur eftirlifandi maki legið fyrir hunda og manna fótum. Að horfnu Varsjárbandalagi hefur Atlantshafsbandalagið legið ellimótt í ræsinu og látið sparka í sig, í stað þess að leita athvarfs í vernduðu umhverfi fyrir aldraða.

Þrjúhundruð sinnum sagði Atlantshafsbandalagið við Slobodan Milosevic, að yfirgangur hans í Bosníu yrði ekki þolaður. Þrjátíu sinnum sagðist það mundu berja á honum, ef hann stigi feti lengra. Milosevic tók aldrei neitt mark á innantómum hótunum gamlingjans.

Hundrað sinnum hefur Atlantshafsbandalagið sagt við Slobodan Milosevic, að yfirgangur hans í Kosovo verði ekki þolaður. Tíu sinnum hefur það sagzt munu berja á honum, ef hann stígi feti lengra. Milosevic er samt ekki enn byrjaður að taka mark á neinu af þessu.

Milli Bosníu og Kosovo var mikið hópefli stundað í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Bruxelles. Líkt og ungir menn sungu “Kristsmenn, krossmenn” í gamla daga, hafa herforingjar og utanríkisráðherrar sungið í kór, að þeir skuli nú aldeilis læra af reynslunni.

Þegar aðgerðir Milosevic hófust í Kosovo, var nákvæmlega vitað, að þær yrðu og hvernig þær yrðu. Í fjölmiðlum um allan heim og meðal annars í DV var búið að segja, að Kosovo yrði næst, það mundi gerast hratt og að atburðarásin yrði hin sama og í Bosníu.

Samt var Atlantshafsbandalagið óviðbúið. Það hafði ekkert lært af reynslunni. Það hótar á hótun ofan og allt kemur fyrir ekki. Það hagar sér eins og pókerspilari, sem segir djarft á tóma hunda, lætur skoða fyrir sér spilin í hvert einasta sinn og tapar jafnan pottinum.

Það hefur komið í ljós, að engar áætlanir voru til um, hvað gera skyldi í þessu eða hinu tilvikinu. Í hvert skipti, sem Milosevic herti á skrúfstykkinu, þustu herforingjar og utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins eins og gaggandi hænur út um allar trissur.

Skrítnast var, þegar stuttbuxnadrengir á borð við utanríkisráðherra Bretlands og Frakklands töldu sig geta tekið frumkvæði og leyst málið með nýjum hótunum á samningafundum í Rambouillet. Þeir hættu sér út í djúpu laugina og reyndust ekki kunna að synda.

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna kom til að hnykkja á hótunum, en allt kom fyrir ekki. Viðræðurnar fóru út um þúfur og Milosevic hóf fyrir alvöru að safna liði í Kosovo. Þannig er staðan þessa dagana og enginn veit neitt í sinn haus í Atlantshafsbandalaginu.

Eftir nokkrar vikur ætlar gamlinginn að halda upp á fimmtugsafmæli sitt og skoða medalíurnar úr kalda stríðinu. Bandaríkjamenn munu flagga nýlegri tillögu sinni um, að bandalagið víkki verksvið sitt í hernaðaraðgerðum frá vettvangi Evrópu út um allan heim.

Tillagan er undarleg, ef höfð er hliðsjón af líkamlegu og andlegu ástandi Atlantshafsbandalagsins, sem hefur ekki getað tekið á heilu sér, síðan Varsjárbandalagið varð bráðkvatt. Evrópa getur ekki einu sinni tekið til í eigin álfu, hvað þá úti í hinum stóra heimi.

Það er grundvallaratriði í samskiptum manna og ríkja, að aldrei má hóta neinu, sem menn treysta sér ekki til að standa við. Þetta grundvallaratriði rauf At-lantshafsbandalagið nokkur hundruð sinnum í Bosníu og er aftur að brjóta nokkur hundruð sinnum í Kosovo.

Fyrir aldurs sakir og kölkunar er Atlantshafsbandalagið orðið ófært um að læra af reynslunni og ætti að útvega sér pláss á elliheimili fjarri heimsins amstri.

Jónas Kristjánsson

DV

Undarleg Japansferð

Greinar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri og Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi lugu fullum hálsi að fjölmiðlum, þegar þau fullyrtu, að ferð þeirra, ásamt Jónu Gróu Sigurðardóttur borgarfulltrúa, til Japans væri ekki á vegum túrbínuframleiðandans Mitsubishi.

Fjölmiðlar hafa náð í dagskrá ferðarinnar, sem er gefin út af umboðsaðila Mitsubishi á Íslandi og á blaðhaus hans. Hún sýnir, að ferðin snýst um túrbínufyrirtækið, þótt vinum þess sé gefinn smátími til að spjalla við borgarstjórn Tokyo um ljósleiðara í holræsum.

Í fundargerðum borgarráðs, borgarstjórnar og Orkuveitunnar er hvergi að finna stafkrók um, að borgin eða Orkuveitan samþykki að kosta þessa Japansferð. Þetta vakti grun um óheilindi, því að slíkra bókana er þörf, þegar farið er í ferðalög á vegum þessara aðila.

Í reglum borgarinnar er beinlínis bannað, að menn þiggi ferðir á vegum viðskiptaaðila borgarsjóðs og Orkuveitunnar. Borgarstjóri, fulltrúar meirihlutans og minnihlutans eru að brjóta reglur, sem settar hafa verið til að reyna að hamla gegn spillingu hjá borginni.

Mitsubishi hefur selt veitunni tvær túrbínur og hefur fengið í hendur viljayfirlýsingu um þá þriðju án útboðs. Eftirlitsstofnun Efnahagssvæðis Evrópu hefur sent hingað til lands fyrirspurn og kvörtun. Það er fyrsta skref stofnunarinnar í málarekstri gegn spillingu.

Þegar upplýst varð, hvernig lá í málinu, hætti Jóna Gróa Sigurðardóttir við túrbínuferðina til Japans, enda er ekki lengur hægt að verja hana. Gögnin liggja á borðinu og þau sýna öll, að ferðin er á vegum fyrirtækis, sem stundar vafasöm viðskipti við borgarstofnun.

Til að forðast hagsmunaárekstra er það almenn viðskiptaregla á Vesturlöndum, að vinnuferðir stjórnenda séu greiddar af viðkomandi fyrirtæki eða stofnun, en ekki af viðskiptaaðilum, sem tefla um mikilvæga hagsmuni í samningum við fyrirtækið eða stofnunina.

Athyglisverðast við mál þetta er, hversu reiprennandi stjórnmálamennirnir lugu að fjölmiðlum, þótt þeir hefðu mátt vita, að hið sanna mundi koma í ljós. Þetta sýnir, hvernig hrokinn getur slegið fólk blindu, þegar það er búið að vera lengur við völd en hæfilegt er.

Kannski verður reynt að bakfæra kostnaðinn yfir á Reykjavíkurborg til mæta gagnrýni, sem hér kemur fram og víðar úti í bæ. Það breytir ekki því, að skjölin sýna, að ferðin er farin á vegum viðskiptaaðilans samkvæmt dagskrá, sem gefin er út á bréfsefni hans.

Það breytir ekki heldur því, að ferðin er farin án fjárhagslegs samþykkis þar til bærra stofnana borgarinnar og átti því ekki að vera á kostnað þeirra, þótt hinum spilltu snúist hugur, þegar þeir hafa verið staðnir að því að þiggja Japansferð úr hendi viðskiptaaðila.

Borgarfeður og -mæður hafa verið í sviðsljósinu að undanförnu vegna skorts á lóðum í Reykjavík. Úthlutun lóða er orðin að takmörkuðum gæðum, sem hafa fengið skömmtunargildi. Slíkt kallar á spillingu, svo sem endranær, þegar menn geta farið að úthluta.

Þetta minnir allt á stjórnarhætti, sem tíðkuðust fyrr á árum hjá borginni, þegar sami flokkurinn hafði verið við völd áratugum saman. Eini munurinn er sá, að spillingin hefur haldið innreið sína heldur hraðar hjá núverandi valdhöfum en búast hefði mátt við.

Hitt verður svo öllum til góðs, að framvegis taki fjölmiðlar og borgarbúar mátulega alvarlega fullyrðingar þeirra, sem hafa það, sem hentugast þykir.

Jónas Kristjánsson

DV

Hornið

Veitingar

Stóru ljósaskermarnir eru horfnir, en að öðru leyti hefur Hornið á Pósthússtræti og Hafnarstræti verið eins frá upphafi. Í tvo áratugi hefur þetta rólega og litla Ítalíuhorn með stórum gluggum einskis útsýnis staðizt umbyltingar veitingabransans og er hvorki betra né verra en áður.

Hæð risaglugganna frá götu og pottaplöntur í gluggunum valda því, að gestir eru ekki berskjaldaðir, þegar þeir sitja fyrir innan á nettum kaffihúsastólum á grófu flísagólfi við kringlóttar marmaraplötur á stálfæti. Þetta er notalegt reykhús með timburveggjum, gifsskreytingum og bláum lit á súlum og bitum.

Tóbaksfnykurinn er inngróinn, enda fjölmenna hér í hádeginu kvennaþing, þar sem allar reykspúa í takt, en á kvöldin fjölmenna smábarnafjölskyldur og reykja ekki. Staðurinn er ekki bara fjölskylduvænn, heldur líka einstaklingavænn, því að hér sitja menn einir og lesa dagblöðin úr blaðagrindinni.

Þjónustufólk er gott eins og venjulega hér á landi, man hver pantaði hvað, setur vatn í karöflum og volgar brauðkollur með álsmjöri á borð. Pappírsþurrkur eru eins þunnar og hægt er, án þess að sjáist í gegn. Matreiðslan byggist á pítsum og vel gerðum pöstum og kann ýmislegt fleira með sóma, en er þó gefin fyrir að hrúga ýmsu kraðaki á diska. Bökuð kartafla fylgir öllum aðalréttum og mjúkt hvítlauksbrauð mörgum þeirra.

Súpur dagsins reyndust vera aðall staðarins, til dæmis ítölsk grænmetissúpa tær, falleg og góð, með fjölbreyttu grænmeti. Einnig indversk grænmetissúpa, svipuð að gerð, en karríkrydduð. Gott hrásalat með fetaosti, þrenns konar hnetum og tvenns konar ólífum var of mikið olíuvætt. Eggjakaka með ristuðu brauði var einnig góð.

Hæfilega skammt elduð var tagliatelle-pasta dagsins með sjávarréttum, ýsu, kræklingi, hörpudiski og rækjum, en ýsan var ofelduð. Spaghetti Orientale var líka hæfilega eldað, hóflega karríkryddað, með rækjum og grænmeti.

Skelfisk-risotto var ekki síður gott, í mótaðri köku á miðjum diski, með kræklingi í skelinni, hörpudiski, rækjum og sóltómötum í kring, svo og fallegu hrásalati á hliðardiski. Fiskitvenna var lakari, lúðan að vísu fín, en karfinn þurr, með bakaðri kartöflu, sem stakk í stúf.

Terta hússins reyndist vera brún djöflaterta með súkkulaðikremi og þeyttum rjóma. Það, sem kallað var tiramisú á matseðli, reyndist vera skrítin lagterta með tveimur dísætum kremlögum, en ekki minnsta votti af ostbragði, furðulegt fyrirbæri og engan veginn gott. Báðar terturnar voru með þeyttum rjóma. Kaffi var gott, sérstaklega espresso, eitt hið allra bezta í bænum.

Þriggja rétta máltíð með kaffi kostar hér 3.400 krónur og pasta í hádeginu kostar 985 krónur.

Jónas Kristjánsson

DV

Einmana búraþjóð vestræn

Greinar

Öll ríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar, nema Ísland, hafa ritað undir Kyoto-sáttmálann um minni losun skaðlegra efna út í andrúmsloftið. Ísland er eina vestræna ríkið, sem ekki tekur þátt í þeim metnaði mannkyns að skila afkomendum okkar vistlegri hnetti.

Sum vestræn ríki eru orðin svo vistvæn, að þau hafa miklar tekjur af þeirri stefnu sinni. Svisslendingar hafa eflt stöðu sína sem ferðamannaland með því að leggja niður öll álver í landinu og Þjóðverjar hagnast á framleiðslu og sölu umhverfisvænna véla af ýmsu tagi.

Þegar menn og þjóðir setja sér háleit markmið, eru þau hvati til að gera betur en ella. Þeir, sem ná markmiðunum fyrr en aðrir, hafa yfirleitt hag af að selja þekkingu sína og verkkunnáttu til annarra, sem skemmra eru á veg komnir. Þannig hafa Þjóðverjar farið að.

Íslendingar hafa mikla möguleika á að fara á undan með góðu fordæmi og góðum arði. Bezta dæmið um það eru þýzk-íslenzku tilraunirnar til að knýja skip og bíla með vetni. Við getum orðið þjóða fyrstir til að hverfa frá notkun olíu og benzíns og selja öðrum þekkinguna.

Skipti úr olíu og benzíni yfir í vetni verður væntanlega stórtækasta aðgerð mannkyns til að minnka losun skaðlegra efna út í andrúmsloftið. Þjóðirnar, sem taka forustu í því efni, munu ekki eiga í neinum vandræðum með að standa við háleit markmið sín.

Íslenzka ríkisstjórnin kýs að fara ekki þessa leið. Hún neitar að rita undir Kyoto-sáttmálann, ein vestrænna ríkisstjórna. Hún vekur alþjóðlega athygli á okkur með því að neita að setja sér svipuð markmið og ríkisstjórnir annarra vestrænna ríkja hafa gert.

Fremstur í metnaðarleysinu fer helzti óvinur íslenzkrar náttúru, Framsóknarflokkurinn, með ráðherra utanríkismála og orkumála í broddi fylkingar, formann og varaformann flokksins. Þeir hafa frosið inni með kosningaloforð um vanhugsað álver á Reyðarfirði.

Þetta verða tveir síðustu Íslendingarnir, sem falla frá órum um uppistöðulón í Eyjabökkum. Engum, sem hefur séð myndir og kvikmyndir frá svæðinu, blandast hugur um, að þarna verður aldrei leyft neitt uppistöðulón, hvað sem fjandmenn náttúrunnar bölsótast.

Svo frosnir eru metnaðarleysingjarnir að þeir hafa að undanförnu verið að reyna að túlka orð og gerðir ráðamanna Norsk Hydro um, að álver á Reyðarfirði verði ekki á dagskrá á næstu árum, sem eins konar yfirlýsingu um, að álverið sé samt á dagskrá Norsk Hydro.

Sorglegt er að búa við ríkisstjórn og ráðherra af þessu tagi. Það er niðurlæging fyrir þjóðina í heild á alþjóðavettvangi, að utanríkisráðherra skuli ekki vilja setja þjóðinni sömu markmið í framfaramálum og aðrar vestrænar þjóðir. Það setur okkur á þriðja heims stig.

Túristar ríkisstjórnarinnar hafa verið að gæla við Mexíkó og Malasíu, Mósambík og Malaví. Þeir hafa meira að segja látið sér detta í hug að koma upp sendiráði á slíkum stöðum, eins og þeir séu að reyna að flytja Íslendinga yfir í ömurlega sveit þriðja heimsins.

Samt höfum við dæmin í kringum okkur, sem sanna, að Vesturlönd auðgast hraðar en þriðji heimurinn og að forusturíki umhverfismála hagnast beinlínis á því að setja sér háleit markmið, sem kostar fyrirhöfn að standa við, en framkalla um leið seljanlega þekkingu.

Himinhrópandi er munur viðhorfa framsýnna ráðamanna Þjóðverja og skammsýnna ráðamanna Íslendinga til þeirra mála, sem varða framtíð okkar á jörðinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Tyrkland er boðflenna

Greinar

Við þekkjum tvískinnung Tyrklands af viðskiptum Sophiu Hansen við réttarkerfi, sem er vestrænt á ytra borði og austrænt að innihaldi. Í senn sækir Tyrkland um aðild að stofnunum vestursins á borð við Evrópusambandið og færist í átt til austrænnar fortíðar.

Ofsóknir Tyrklands á hendur minnihlutaþjóð Kúrda hafa aukizt með árunum, þótt þær brjóti allar reglur um aðild að vestrænu samfélagi. Svona haga til dæmis Spánverjar sér ekki gegn Böskum. Fara þarf til Serbíu og Íraks til að finna meiri grimmd en þá tyrknesku.

Kúrdar mega ekki tala tungu sína opinberlega. Þeir mega ekki skrifa á henni og ekki heldur kenna hana í skólum. Stjórnmálamenn og blaðamenn, sem segja frá atburðum í Kúrdistan eða lýsa samúð með málstað þeirra, eru umsvifalaust dæmdir til fangavistar.

Sem dæmi um ástandið í Tyrklandi má nefna, að hvergi í heiminum er eins mikið um, að blaðamenn séu ofsóttir, drepnir og fangelsaðir fyrir að sinna störfum sínum. Samt er þetta ríki inni á gafli í vestrænu samfélagi með aðild sinni að Atlantshafsbandalaginu.

Endalausar tilraunir hafa verið gerðar til að gera Tyrki húsum hæfa á Vesturlöndum. Reynt hefur verið að leiða þeim fyrir sjónir, hvernig vandi minnihlutaþjóða hefur verið minnkaður í Evrópu og hvernig Vesturlönd leysa ágreining sín á milli án hernaðaraðgerða.

Tyrkland lét aðild að Atlantshafsbandalaginu ekki aftra sér frá innrás í Kýpur í skjóli Bandaríkjanna, sem löngum hafa litið á Tyrkland sem bandamann gegn Sovétríkjunum sálugu. Innrásin í Kýpur er eina dæmið, sem til er um hernað Natoríkis gegn öðru Natoríki.

Að undirlagi Mústafa Kemal Ataturk gerði tyrkneski herinn snemma á öldinni tilraun til að gera Tyrkland evrópskt. Tekið var upp latínuletur og vestrænn klæðaburður, stjórnkerfið lagað að evrópskum formum og lagt bann við ýmsum myndum róttækrar íslamstrúar.

En herinn náði bara formsatriðunum, ekki innihaldinu. Tyrkneskir herforingjar hafa aldrei skilið, að vestrið er ekki bara form, heldur einnig innihald, svo sem mannréttindi. Þeir hafa til dæmis aldrei skilið, að pólitísk vandamál leysast ekki með íhlutun hersins.

Hvað eftir annað hefur tyrkneski herinn steypt löglega mynduðum ríkisstjórnum, ef þær hafa staðið sig illa eða gælt við íslamstrú. Þar með hefur herinn komið í veg fyrir, að þarlendir stjórnmálamenn taki út vestrænan þroska með því að bera ábyrgð á gerðum sínum.

Turgut Özal var sá forsætisráðherra og forseti, sem ákafast þóttist vera vestrænn og harðast reyndi að koma Tyrklandi inn í Evrópusambandið. Samt gerði hann enga tilraun til að lina þau sérkenni, sem hafa alltaf komið í veg fyrir, að Tyrkir væru taldir í húsum hæfir.

Tyrkir kvarta sáran undan, að Evrópusambandið ástundi misrétti í vali aðildarríkja og taki önnur ríki fram fyrir í biðröðinni. Evrópumenn spyrja á móti, hvernig gangi að koma vestrænu innihaldi í tyrknesk form og fá engin nothæf svör, því að ekkert gerist.

Allt frá dögum Ataturk hefur Tyrkland rambað á landamærum austurs og vesturs. Það hefur ekki getað ákveðið, hvar það á heima. Á valdatíma Özal hófust þó gælur við íslam, sem benda til, að smám saman muni Tyrkland finna sér stað í samfélagi íslamskra þjóða.

Tyrkland hefur hunzað ótal tækifæri til að koma til móts við innra eðli vestræns samfélags. Það er boðflenna, sem ekki á heima í Atlantshafsbandalaginu.

Jónas Kristjánsson

DV

Illa undirbúnar hvalveiðar

Greinar

Á tíðum ferðum um heiminn hafa íslenzkir ráðherrar víða þreifað á viðbrögðum við endurnýjun íslenzkra hvalveiða og hvarvetna fengið fálegar viðtökur. Þennan kalda veruleika hafa forsætis- og utanríkisráðherra verið að reyna að segja sjávarútvegsnefnd Alþingis.

Það er ekki nægur undirbúningur hvalveiða, að ráðherrar boði fagnaðarerindið í Mexíkó og Malasíu, Mósambík og Malaví. Það er heldur ekki nóg að efna til enn einnar skoðanakönnunarinnar og leita að þessu sinni álits helztu viðskiptamanna okkar erlendis.

Í skoðanakönnunum erlendis hefur komið í ljós munur á viðbrögðum eftir orðalagi spurninganna. Óundirbúnir eru flestir Vesturlandabúar andvígir hvalveiðum, en geta með ákveðnum skilyrðum, sem tilgreind eru í spurningunni, fallizt á takmarkaðar hrefnuveiðar.

Ef menn heyra þær röksemdir, að hrefnustofninn sé ekki í hættu, heldur telji eina milljón dýra, að kjötið fari til manneldis, að veiðarnar séu hluti þjóðmenningar, að Alþjóða hvalveiðiráðið ákveði aflakvóta og tryggi stærð stofnsins, fara hinir spurðu að verða jákvæðari.

Yfirveguð viðhorf af slíku tagi ráða hins vegar ekki ferðinni. Ef við hefjum hvalveiðar að nýju án þess að hafa breytt viðhorfum fólks í viðskiptalöndum okkar, munum við verða fyrir dýrkeyptum hliðarverkunum, sem hvalveiðitekjur munu ekki standa undir.

Ef það er í alvöru ásetningur þings og þjóðar að hefja hvalveiðar að nýju, er nauðsynlegt að efna til stórfelldrar herferðar í viðskiptalöndum okkar, þar sem reynt verði að sýna fram á, að röksemdir okkar í málinu eigi að vega þyngra á metunum en tilfinningasemin.

Til sparnaðar er brýnt að hafa um þetta samráð við aðra aðila, sem hafa svipaðra hagsmuna að gæta, til dæmis í Noregi. Eðlilegt er, að hugsjónaöfl hvalveiða, með meirihluta þjóðanna að baki, efni til fjársöfnunar til að standa undir slíkri herferð á Vesturlöndum.

Eðlilegt er, að ríkin taki einhvern þátt í þessum kostnaði, sem fyrst og fremst ætti þó að hvíla á herðum hugsjónaafla hvalveiðanna. Fyrsta skynsamlega skrefið í átt til hvalveiða felst í að tryggja fjármögnun slíkrar herferðar á hendur almenningálitinu á Vesturlöndum.

Þegar skoðanakannanir hafa leitt í ljós, að tekizt hafi að milda þetta álit nægilega, er hægt að fara að stíga næstu skref, en fyrr ekki. Það er til dæmis óráðlegt að vera með miklar yfirlýsingar um hvalveiðar, meðan viðhorfin eru eins neikvæð og raun ber vitni.

Einnig ber hinum hyggnari í röðum hvalveiðisinna að láta minna bera á fyndnum kenningum róttæklinga um, að veiðar á 250 hrefnum úr 1.000.000 dýra stofni muni létta veiðimönnum samkeppnina við hvalinn og auka aflaverðmæti okkar um milljarða króna á ári.

Þegar reynt verður að hafa vit fyrir útlendingum með upplýsingum og áróðri, er mikilvægt að velja sér vopn rökhyggju og raunhyggju, en skilja fyndnustu fullyrðingarnar eftir heima, því að dreifing þeirra á alþjóðamarkaði mun ekki flýta fyrir hvalveiðum.

Það sýnir innihaldsleysi hinnar árvissu æfinga alþingismanna á sviði þingsályktana um hvalveiðar, að málið skuli ekki vera lagt fyrir eins og hér hefur verið lýst. Það sýnir, að billegir þingmenn eru að gæla við fávísa kjósendur sína, án þess að meina neitt með því.

Við höfum áður lent í að fórna hagsmunum hvalveiða fyrir meiri hagsmuni og munum áreiðanlega lenda í því aftur, ef jarðvegurinn hefur ekki verið undirbúinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Potturinn og pannan

Veitingar

Einn af ódýrustu alvörustöðum borgarinnar býður eitt bezta og ferskasta salatborðið, með fallegum og hæfilega þroskuðum sveppum, rauðlauk og eggjum, blaðlauk, tvenns konar papriku og ýmsu öðru góðu hráefni, svo og margs konar brauði, en litlu af blönduðu gumsi. Þar voru líka ávextir handa þeim, sem ekki kæra sig um ís og niðursoðna ávexti með sykursósum í eftirrétt. Að kvöldi var reyktur og grafinn lax á borðinu.

Alþýða og útlendingar hafa löngum hallað sér að Pottinum og pönnunni, sem næst gengur sögufrægum Lauga-ási að hófsemi í verðlagi. Salatborð með súpu og kaffi kostar 890 krónur. Með aðalrétti að auki fer verðið í 1.600 krónur og má þá velja milli sjö rétta.

Í hádeginu voru heitir réttir innifaldir í verði salatborðsins, flestir fremur vondir, einkum þurr fiskur og þurrt kjöt. Ætar voru kartöflur, saltkjöt og eggjakaka með skinku.

Súpurnar voru frambærilegar hveitisúpur, með miklu af blómkáli, spergli eða hverju því innihaldi, sem gaf súpunni nafn hverju sinni. Brauð var undantekningarlaust gott og smjörið í snyrtilegum kúlum, en ekki vafið í álpappír að hætti flugfélaga.

Hveiti og egg voru óspart notuð í sósur og mikið magn notað af klassískum sósum, svo sem hollandaise og béarnaise, sem skafa má af til að gera matinn lystugri. Algerlega staðlað meðlæti, hvort sem snæddur var fiskur eða kjöt, var bökuð kartafla með smjörklípu og fjölbreytt grænmeti, hóflega pönnusteikt.

Grillaður karfi var merkilega mjúkur, betri en víða annars staðar í bænum, borinn fram með möndlublandaðri hveitisósu bragðsterkri. Rauðspretta var einnig ágætlega elduð, með hvítlaukssósu. Fiskiþrenna með rauðsprettu, skötusel og hörpudiski var nokkru lakari, svo sem venja er um slíkar þrennur. Tvær gerðir af sósu í miklu magni runnu hvor í bland við hina og spilltu réttinum.

Grillaður lambavöðvi var hæfilega eldaður, meyr en bragðlaus, svo sem títt er um íslenzkt lambakjöt. Gamalkunn béarnaise-sósa og fallegir sveppir bættu réttinn. Hægt var að tína saman góðan eftirrétt úr melónu, graskeri og döðlum af salatborði. Kaffi var frambærilegt.

Innréttingar staðarins hafa verið óbreyttar frá ómunatíð, en eru ekki þreytulegar, því að viðhald er í lagi og snyrtimennska til sóma. Staðurinn er vel hannaður og notalegur, með salatborð sem þungamiðju. Gestir sitja sumpart á bekkjum í tiltölulega þægilegum básum og sumpart á góðum stólum úti á gólfi. Gegnheil viðarborð eru dúklaus, vatnsglös á fæti eru fín, en pappírsþurrkur rytjulegar.

Þjónusta var öflug og ágæt, en dálítið kammó, þegar karlar á sextugsaldri voru kallaðir “strákar” upp á amerísku. Og dósatónlistin var stundum hátt stillt.

Jónas Kristjánsson

DV

Bakslag í prófkjörum

Greinar

Prófkjör Samfylkingar jafnaðarmanna í kjördæmum Norðurlands heppnuðust eins illa og prófkjör hennar heppnuðust vel á suðvesturhorninu. Í stað þess að styrkja Samfylkinguna verða þau til þess að veikja hana. Þau verða vatn á myllu annarra stjórnmálaflokka.

Sérstaklega er alvarlegt, að samanlögð þátttaka Siglfirðinga í prófkjörum Framsóknarflokks og Samfylkingarinnar skuli vera meiri en sem nemur öllum kjósendafjölda í bænum. Sjá má, að margir Siglfirðingar ætla ekki að kjósa í kosningunum eins og í prófkjörinu.

Siglfirðingar misnotuðu prófkjörsreglur Samfylkingarinnar til að ná í þingmann á kostnað hennar. Þeir fæla um leið skagfirzka og húnvetnska kjósendur frá Samfylkingunni og sömuleiðis fæla þeir burt alþýðubandalagsmenn, sem eru fleiri en kratar í kjördæminu.

Þetta er hagsmunastríð Siglfirðinga á kostnað annarra svæða í kjördæminu og á kostnað fylgis Samfylkingarinnar í kjördæminu. Þingmaður Siglufjarðar verður eins konar sníkjudýr á kjördæminu og Samfylkingunni í skjóli misnotkunar á prófkjörsreglum.

Hvernig sem reynt verður að verja þessa framgöngu, verður ekki hjá því litið, að óheiðarlegt er að taka þátt í prófkjöri flokka, sem menn ætla ekki að kjósa í kosningunum. Því miður sanna ótal önnur dæmi, að þessi óheiðarleiki er landlægur víðar en á Siglufirði.

Svipaða sögu er að segja úr hinu kjördæminu, þar sem smalað var úr íþróttafélögum fólki, sem ekki ætlar að kjósa Samfylkinguna í kosningunum í vor. Þannig tókst að fella reyndan þingmann, sem hefur góðan orðstír og var eitt af ráðherraefnum Samfylkingarinnar.

Augljóst er, að eftir prófkjörið býður Samfylkingin á Norðurlandi eystra ekki upp á neitt ráðherraefni. Þar á ofan er ljóst, að prófkjörið styrkir önnur framboð, einkum græna vinstrið, skaðar þannig Samfylkinguna og dregur úr meðbyr hennar á landsvísu.

Enn má nefna, að smölunin í kjördæmum Norðurlands varð til þess að fella tvær konur úr fyrstu sætum væntanlegra framboðslista og einu þingmannssætum þeirra. Þetta eyðir góðu áhrifunum af velgengni kvenna í prófkjörum Samfylkingarinnar á suðvesturhorninu.

Stundum takast tilraunir til að fá utanflokksfólk til að taka í prófkjöri þátt í að búa til framboðslista og laða það þannig til fylgis við listann, en stundum takast þær ekki. Þær virðast hafa tekizt hjá Samfylkingunni á suðvesturhorninu en síður en svo á Norðurlandi.

Enn má nefna, að sameiginlega opin prófkjör Alþýðuflokks og Alþýðubandalags skekkja hlutföll flokkanna, þar sem auðveldara er að smala fólki úr öðrum flokkum til fylgis við framjóðendur úr Alþýðuflokknum en úr Alþýðubandalaginu. Þetta skaðar innra samstarf.

Sé miðað við úrslit síðustu kosninga, verða ekki nema sjö þingmenn úr Alþýðubandalaginu og þrír úr Þjóðvaka á vegum Samfylkingarinnar á næsta kjörtímabili. Það jafngildir hruni Alþýðubandalagsins og staðfestingu þess, að Samfylkingin er Alþýðuflokkurinn.

Því er formanni Alþýðuflokksins ekki orðið um sel. Eftir prófkjör suðvesturhornsins sagði hann, að þau væru ekki sigur Alþýðuflokksins. Eftir prófkjörin fyrir norðan sagði hann í sárabætur, að formaður Alþýðubandalagsins yrði talsmaður Samfylkingarinnar.

Eftir bakslagið fyrir norðan er ljóst, að prófkjör, þótt oft séu góð, eru ekki alltaf allra meina bót, því að útbreitt siðleysi Íslendinga lætur ekki að sér hæða.

Jónas Kristjánsson

DV

Landvinningar Reykjavíkur

Greinar

Hollendingar hafa reist sinn aðalflugvöll á landi, sem áður var sjávarbotn og Japanir hafa nýlega gert slíkt hið sama. Það er því þekkt aðferð að nota einskismannsland undir flugvöll í þéttbýlum löndum, þar sem hver fermetri lands er þegar nýttur á annan hátt.

Hugmyndin um flugvöll í Skerjafirði byggist ekki á eins brýnum forsendum og hinar erlendu hliðstæður. Hér er verið að losa um landrými nálægt borgarmiðju til þess að nýta hana betur. Íbúðir í Vatnsmýrinni eru til þess fallnar að efla höfuðborgarmiðju í Kvosinni.

Margs þarf að gæta á landi og sjó, þegar ráðizt er í framkvæmdir af þessu tagi. Ekki er gott að breyta Skerjafirði í eins konar skipaskurði milli flugbrauta. Gæta þarf hagsmuna þeirra íbúa, sem hafa fyrir augunum opið svæði Skerjafjarðar eins og hann er nú.

Borgin þarf að svara spurningum um álag á samgöngumannvirki, til dæmis á Miklubraut, Hringbraut, Snorrabraut og Sóleyjargötu, ef heill Kópavogur á að rísa í Vatnsmýrinni. Verður ríkið lipurt við að kosta mislæg gatnamót og fleiri akreinar á götum sem þessum?

Flugvöllur í Skerjafirði er ekki eina hugmyndin, sem snögglega hefur komizt í tízku. Ráðagerðir eru um að vinna land á hafsbotni út af Örfirisey og koma þar fyrir íbúðabyggð. Væri það í fyrsta skipti hér á landi, að nýtt landflæmi er framleitt undir vistarverur fólks.

Tvær spurningar hljóta að vakna, þegar hugmyndir um landvinninga á hafi úti eru komnar á þetta stig. Önnur er, hvort landþrengsli séu orðin hér. Er mikil goðgá, þótt byggja verði með ströndum fram út frá Reykjavík, upp á Kjalarnes og suður með sjó?

Þarf Reykjavík að stækka inn í sig? Hver er hugmyndafræðin á bak við þéttingu byggðar? Við vitum, að hún hefur skaðað borgina í mörgum tilvikum í fortíðinni, svo sem þegar útivistartengsli Laugardals og Elliðaársdals voru slitin með iðnaðarhverfi í Skeifunni.

Er nokkuð við það að athuga, að íbúafjölgun höfuðborgarsvæðisins verði í auknum mæli í nágrannasveitarfélögunum í landnámi Ingólfs eða jafnvel í sveitarfélögum norðan Hvalfjarðarganga og austan Þrengsla? Við búum ekki við hollenzk og japönsk landþrengsli.

Hin spurningin er, hvort menn hafi gert sér grein fyrir, að yfirborð hafs hefur öldum saman verið að hækka á höfuðborgarsvæðinu og að spár um útblástur gróðurhúsalofttegunda í heiminum gera ráð fyrir, að haf gangi á land með stórauknum hraða á næstu áratugum.

Við alla mannvirkjagerð og einkum við byggingu íbúða á hafi úti er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir, hvað það muni kosta að verja þessi verðmæti gegn eins metra hækkun yfirborðs sjávar, tveggja metra hækkun og enn frekari hækkun, sem er í spilunum.

Þetta eru ekki órar, því að ríki heimsins hafa viðurkennt vandann með því að senda umboðsmenn sína á viðamiklar ráðstefnur í Ríó og Tokyo til þess að rita undir sáttmála um aðgerðir til að reyna að hamla gegn eða hægja á hækkun hitastigs af mannavöldum.

Við skulum því ekki rasa um ráð fram í tilraunum til landvinninga á kostnað hafsins. Við höfum meira rými á landi en Hollendingar og Japanir. Við þurfum að huga að öllum kostnaðarliðum og áhættuþáttum fyrirhugaðra framkvæmda, sérstaklega íbúðabyggða úti í sjó.

Flugvöllur í Skerjafirði er nógu stór biti í hálsi, þótt ekki bætist við fjölmenn íbúðabyggð úti á Sundum. Við skulum ekki gleypa meira en við getum kyngt.

Jónas Kristjánsson

DV

Límið hættir að virka

Greinar

Guggan var keypt 1997 frá Ísafirði til Akureyrar til að ná kvótanum. Nú er því hlutverki lokið og Guggan hefur verið seld úr landi. Fyrst missti ísfirzkt fiskverkafólk vinnuna og nú hafa ísfirzkir sjómenn einnig misst vinnuna. Þetta er saga kvótakerfisins í hnotskurn.

Um leið er þetta angi af stærri sögu, sem hófst vestanhafs og er að breiðast um heiminn. Stjórnendur fyrirtækja einbeita sér að því að fullnægja kröfum hluthafa um ársfjórðungslegan arð og eru sem óðast að leggja niður fyrri áherzlu á stöðu fyrirtækisins í samfélaginu.

Klassíska hagfræðin hefur sagt okkur margt viturlegt. Hún segir okkur, að bezt sé, að hver skari eld að sinni köku innan ramma laga og réttar. Þannig verði meðalávinningur allra sem mestur. Vesturlönd hafa raunar orðið auðug á því að beita klassískri hagfræði.

Tjón ísfirzks fiskverkafólks, ísfirzkra sjómanna og Ísafjarðar sem bæjarfélags verður vegið upp með hagnaði annars fiskverkafólks, annarra sjómanna og annarra bæjarfélaga. Klassíska hagfræðin heimtar beinlínis byggðaröskun til að efla lífsgæði og framfarir.

Áður fyrr var Reykjavík talin endapunktur byggðaröskunarinnar. Þangað mundu peningar og hálaunafólk streyma, þótt leifar útræðis yrðu í nokkrum Dritvíkum og Dagverðareyrum nútímans. En nú fara menn að átta sig á, að Kvosin er ekki endastöð röskunarinnar.

Fyrirtækjum, sem bezt vegnar, opnast leiðir til að setja upp útibú í Stokkhólmi og Los Angeles eða fara beint stytztu leiðina og setja upp aðalstöðvar í Delaware. Eigendur kvóta og hlutafjár setjast að í Eyjahafi eða Karíbahafi, fjarri láréttum Íslandsveðrum.

Klassíska hagfræðin hefur kortlagt margt, en hún leysir ekki margvísleg viðfangsefni utan hagfræðinnar. Með opnun fjölþjóðlegra viðskipta og fjármagnsflutninga hafa myndazt fjölþjóðleg fyrirtæki, sem komast meira eða minna út fyrir lögsögu einstakra ríkja.

Við búum í vestrænum heimi, þar sem samkomulag er um, að ríkisvaldið eitt hafi einkarétt á allri valdbeitingu. Fjölþjóðastofnanir á borð við Evrópusambandið hafa verið að seilast í þetta vald, en eru samt enn mjög veikburða að völdum í samanburði við ríkin.

Fjölþjóðafyrirtækin ganga úr greipum ríkisvaldsins. Þau haga seglum eftir vindi, flytja fjármagn þangað sem það fær að vera í friði og flytja atvinnu þangað sem hlutfall kaups og vinnuframlags er hagstæðast. Þetta setur þjóðir félagslegs markaðsbúskapar í vanda.

Í Bandaríkjunum eru laun forstjóra margfölduð, ef þeir skera niður starfsmannafjöldann um tugi prósenta. Verksmiðjur eru lagðar niður og lifibrauð heilla sveitarfélaga er lagt í rúst af hagræðingarástæðum. Vinnan flytzt til þriðja heimsins, þar sem kaupið er lágt.

Þar sem sveigjanleiki fólks er mestur í heiminum, í sjálfum Bandaríkjunum, hafa menn látið sig hafa þetta og flutt sig um set eftir aðstæðum hverju sinni. En sveigjanleikinn er takmörkunum háður. Menn eiga erfitt með að flytjast í láglaunastöður til Mexíkó.

Bandaríkin eru komin út á haf, þar sem sjókort klassísku hagfræðinnar nýtast ekki lengur. Við erum að leggja út á sama haf. Á þessu ókannaða hafi sinna fyrirtækin ársfjórðungsgróðanum einum og þjóðfélagskerfið byrjar að safna glóðum elds að höfði sér.

Sala Guggunnar er dæmi um, að límið í þjóðfélaginu hættir að virka. Ráðþrota fórnardýr breytinga fá smám saman óbeit á kerfinu og ófriður magnast að innan.

Jónas Kristjánsson

DV

Perlan

Veitingar

Dýrasti og glæsilegasti veitingasalur landsins býður vandaða, en gerilsneydda matreiðslu. Engir dagsréttir eru á stuttum matseðli Perlunnar, ekki einu sinni fiskur dagsins, enda mundu frávik sennilega trufla einbeitingu í eldhúsi. Í flókinni matreiðslu er lögð meiri áherzla á glæsibrag en bragðgæði. Sumir forréttir og eftirréttir eru listaverk að útliti, en að öðru leyti ekki minnisstæðir.

Karíbahafssalat var fagurt blaðsalat, allt of mikið sítrónuvætt, með góðri mangó- og lárperublöndu í sérstakri skál. Meyrar og bragðgóðar andabringu-ræmur voru bezti forrétturinn, klæddar sesamfræjum, bornar fram í spínati, sem virtist sykrað. Gulrótakæfa með karsa, graslauk og sýrðum rjóma var mild og hlutlaus.

Góður var grillaður barri, en skorti eðlisbragð, borinn fram á pönnuköku, með fyrirtaks humri og ágætum villispergli. Risahörpuskel var eins góð og annars staðar, með bragðsterku grænmetismauki. Vel heppnaður var ofnbakaður eldislax undir spergilþaki, borinn fram með mildri engifersósu.

Lambahryggvöðvi var ekki eins léttsteiktur og sagt var á matseðli, of mikið kryddaður og ekki nógu meyr, með steiktum grænmetisteningum, sveppum og sinnepsblandaðri rósmarínsósu. Andakjöt var gott, enda einfalt, með grænpiparsósu, andalifur og mauki mangós og epla.

Vel heitt crème brûlèe var óvenjulega gott, með þunnri skorpu og ekki of harðri. Heitt súkkulaðifrauð var bragðsterkt, fallegt og gott, með chartreuse-líkjör og vanillukremi. Mangó-krapís var sterkur og góður. Of eindregið sítrónubragð var að sítrónutertu. Kaffi var fyrsta flokks, bæði pressukaffi og espresso.

Öguð og fumlaus þjónusta veit nákvæmlega hver pantaði hvað, bezta þjónusta í landinu, laus við óþarfa afskiptasemi eða ótímabærar spurningar, sem tröllríða íslenzkum veitingahúsum. Volgir dúkar komu eftir aðalrétt. Þjóðleg og rómantísk tónlist var of hávær á köflum. Vínlisti er fjölbreyttur og svo vandaður, að húsvínið er fyrsta flokks.

Perlan er heljarmikið og yfirþyrmandi geimskip, glæsilegt leiksvið, þar sem góðærismenn og erlendir gestir þeirra borða þríréttað með kaffi fyrir 4.700 krónur á mann, áður en kemur að víni. Út um raufar milli gildvaxinna gluggapósta má sjá borgarljós, sem minna fremur á stjörnuþokur en sorg og gleði borgarlífsins. Þetta er ekki útsýnisstaður, heldur magnaður innsýnisstaður, griðastaður þeirra, sem næga hafa seðlana.

Jónas Kristjánsson

DV

Marklaust þjark um heitt vatn

Greinar

Erfitt er að sjá, að það komi Hafnarfjarðarbæ neitt við, hvað Orkuveita Reykjavíkur gerir við tekjur sínar af heitavatnssölu í Hafnarfirði, hvort hún greiðir eiganda sínum meiri eða minni arð, hvort hún reisir Perlur fyrir þær eða hvort yfirmennirnir drekka þær bara út.

Samningurinn frá 1973 um heitt vatn í Hafnarfirði frá þáverandi Hitaveitu Reykjavíkur var gerður að frumkvæði Hafnarfjarðar, sem vildi fá ódýrara heitt vatn og spara sér að leggja heitavatnsæðar í bæinn. Samið var um að fá þetta allt á silfurfati frá Reykjavík.

Gáfulegra hefði verið fyrir Hafnarfjörð að kaupa heita vatnið í heildsölu frá Reykjavík og eiga lagnirnar sjálfur, svo að auðveldara væri að slíta viðskiptunum, ef mál þróuðust á þann veg, að samningurinn yrði talinn óhagstæður við nýjar aðstæður aldarfjórðungi síðar.

Skynsamlegt væri fyrir Hafnarfjörð að semja við Orkuveitu Reykjavíkur um að kaupa af henni lagnirnar í Hafnarfirði og öðlast þannig betri stöðu til að bjóða út heitavatnsviðskipti, annaðhvort frá Reykjavík eða Svartsengi eða frá nýjum borholum í Hafnarfirði.

Gagnvart Hafnarfirði kom þáverandi Hitaveita Reykjavíkur fram sem fyrirtæki, er tók að sér ákveðna fjárfestingu og rekstur gegn gjaldi, sem átti að vera sama og hjá gamalgrónum viðskiptamönnum hitaveitunnar í Reykjavík. Þetta var vel boðið hjá hitaveitunni.

Hitaveitan og síðan Orkuveitan hafa staðið við þennan samning í aldarfjórðung. Þessum fyrirtækjum er, eins og öðrum fyrirtækjum í landinu, heimilt að ákveða sjálf, hvernig þau ráðstafa tekjum sínum. Þau eru fjárhagslega ábyrg gagnvart eigendum, ekki viðskiptamönnum.

Ábyrgð gagnvart viðskiptamönnum er af allt öðrum toga. Í samkeppnisástandi ræður markaðurinn verði og gæðum þjónustunnar. Í einokunarástandi er oft samið um að miða við verð og gæði þjónustu á öðrum vettvangi, í þessu tilviki á heimavellinum í Reykjavík.

Þjónustukaupi hefur engan rétt umfram aðra til afskipta af innri málum þjónustusala. Honum kemur við, hvort þjónustan er samkeppnishæf í verði og gæðum, en ekki, hvort sukkað er með tekjurnar af þjónustunni eða þær notaðar til að greiða eigendunum arð.

Á sama hátt á það ekki að koma heilbrigðisráðuneytinu við, hvort heilsustofnanir, sem það gerir þjónustusamning við, nota tekjurnar til að borga læknum eða hjúkrunarfólki meira eða til að borga eigendunum meiri arð. Verð og gæði eiga hins vegar að skipta máli.

Ráðamenn Hafnarfjarðar virðast haldnir sömu efnahagslega skaðlegu áráttunni og ráðamenn heilbrigðisráðuneytisins. Þeir telja sig eiga að hafa afskipti af innviðum fyrirtækja, sem þeir skipta við, fremur en að einbeita sér að samanburði í útkomunni.

Reykjavíkurborg hefur svarað Hafnarfjarðarbæ í sömu mynt með útreikningum um, að hitaveituverð í Hafnarfirði hefði þurft að vera 80% hærra en það er og að tekjurnar frá Hafnarfirði hefðu þurft að vera meira en milljarði króna hærri til að standa undir kostnaði.

Þessir útreikningar Reykjavíkur eru eins marklausir og útreikningar Hafnarfjarðar. Hvor aðili getur endalaust framleitt tölur upp úr eigin poka. Meintur framkvæmda- og rekstrarkostnaður þjónustusala er ekkert innlegg í umræðu um söluverð þjónustunnar.

Það eru ekki innviðir dæmisins, sem skipta máli, heldur útkoman; hvort markaðurinn eða eitthvert markaðs-ígildi ráða verði og gæðum þjónustunnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Engin er rós án þyrna

Greinar

Í flestum tilvikum gagnast prófkjör flokkunum, sem standa að þeim, svo sem sést af dæmum síðustu tveggja helga. Ef barátta milli einstaklinga verður ekki neikvæð og niðurstaðan ekki óþægileg frá svæða- eða kynjasjónarmiðum, er betur af stað farið en heima setið.

Sagan kennir okkur að vísu, að ekki er unnt að setja samasemmerki milli niðurstöðu í prófkjöri og stuðnings í kosningum. Nokkur dæmi eru um það, til dæmis hjá Alþýðuflokknum, að fleiri hafa tekið þátt í prófkjöri en síðan hafa stutt flokkinn í kosningunum á eftir.

Þetta stafar af, að flokksleysingjar og allra flokka kvikindi taka óspart þátt í opnum prófkjörum eins og þau tíðkast flest og meira að segja líka í lokuðum prófkjörum eins og hjá Framsóknarflokknum. Menn ganga í flokka eftir þörfum eins og að skipta um jakka.

Prófkjör vekja athygli. Þau sýna líf og fjör. Frambjóðendur fá tækifæri til að beina kastljósinu að sér persónulega fremur en að sameiginlegum málefnum framboðslistans. Persónur höfða meira en málefni til fólks. Með prófkjörum verður pólitíkin persónulegri.

Þeir, sem sigra í prófkjöri, fá forskot á athygli, sem kemur framboðslista þeirra að gagni í sjálfri kosningabaráttunni. Samtök jafnaðarmanna hafa eflt ímynd helztu frambjóðenda sinna í Reykjavík og á Reykjanesi og snúið óþægu almenningsáliti sér í hag.

Af Suðurlandi er Árni Johnsen gott dæmi. Sumir hafa skemmt sér við að gera grín að honum. Eftir mikinn sigur í risavöxnu prófkjöri er ekki lengur hægt að líta á hann sem léttadreng. Hann er orðinn að þungavigtarmanni með öflugt landshlutafylgi að baki sér.

Framsóknarflokkurinn lenti í minni háttar erfiðleikum í prófkjörinu á Norðurlandi vestra, þegar Vestur-Húnvetningar náðu ekki manni á blað. Þá eiga konur erfitt uppdráttar í prófkjörum þess flokks og Sjálfstæðisflokksins. Annars hafa prófkjör gengið vel.

Það skaðar Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík að etja kappi við lista Framsóknarflokksins og Samtaka jafnaðarmanna, sem byggðir eru upp af prófkjöri. Kosningavélin er lakar smurð, stemningin minni og frambjóðendur ópersónulegri en hjá keppinautunum.

Í lofræðu um prófkjör má ekki líta fram hjá miklu og vaxandi vandamáli kostnaðar. Frambjóðendur eru úr eigin vasa, vina og kunningja að leggja út milljón krónur á mann eða meira til að ná sér í vinnu, sem gefur ekki af sér nema þrjár-fjórar milljónir á ári í tekjur.

Samtök jafnaðarmanna á Reykjanesi reyndu að halda kostnaði í hófi með hömlum á auglýsingar. Þau gáfu líka út sameiginlegan bækling fyrir alla. Samt varð baráttan einstaklingunum dýr sem annars staðar. Fleiri en einn hafa vafalítið farið yfir eina milljón í tilkostnað.

Vel heppnuð prófkjör leiða til fjölgunar prófkjöra í framtíðinni og enn meiri útgjalda frambjóðenda sjálfra. Kostnaðarvandamálið þarf að taka fastari tökum, áður en það fer gersamlega úr böndum í spilltum sníkjuherferðum, svo sem dæmin sýna frá Bandaríkjunum.

Þeir vita bezt um þetta, sem hafa aflað sér þingsætis í erfiðum prófkjörum. Þeir ættu að ræða saman þverpólitískt um vandamálið og kanna, hvort ekki er hægt að hamla betur gegn kostnaði í framtíðinni og koma niðurstöðum sínum á framfæri við flokkana.

Engin er rós án þyrna. Að öllu samanlögðu eru prófkjör ágæt og lífleg aðferð til að auka pólitískan áhuga, dreifa valdi til fólks og efla lýðræði í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV