16% hengingaról

Greinar

“Þú velur, hversu stóran hluta af mánaðarúttektinni þú greiðir um hver mánaðamót”, segir í bréfi eins bankans til viðskiptamanna sinna. Allir bankarnir bjóða núna þessa nýju aðferð við að lifa hátt á líðandi stund gegn því að síðar komi tímar og síðar komi ráð.

Hvergi er þess getið í bréfinu, sem mestu máli skiptir, að vextir happafengsins eru 16%. Það eru óhagstæðustu vextir, sem völ er á. Þeir eru verri en dráttarvextir. Þeir eru sannkallaðir okurvextir á tímum 2­3% verðbólgu. Þeir eru bein leið til fjárhagslegrar glötunar.

Í auglýsingum og bréfum bankanna er höfðað til óraunsæis fólks, sem vill telja sér trú um, að engin vandamál séu önnur en þau, sem eru í núinu, að engin mánaðamót skipti máli önnur en yfirvofandi mánaðamót. Þetta er kókaínsprauta eyðslufíkilsins.

Þessi siðlausa, en löglega aðferð bankanna við að hneppa viðskiptamenn sína í þrælahald eyðslufíkninnar mun leiða til gjaldþrota miklu fleira fólks, en ella hefði orðið. Bankarnir hafa fundið létta og ljúfa leið fyrir fólk til að telja sér trú um, að núið eitt skipti máli.

Óforbetranlegir eyðslufíklar geta gengið milli bankanna og fengið sér nokkur kort til að láta eina milljón hverfa í súginn í einu sukki. Síðan velja þeir, samkvæmt orðalagi bankanna, “hversu stóran hlut af mánaðarúttektinni þú greiðir um hver mánaðamót”.

Svipaðar aðferðir tíðkast í útlöndum til að fá fólk til að sólunda fjármunum, sem það á ekki. British Airways býður fólki 175.000 króna ferðalán, ef það bara kemur í einhverja söludeild flugfélagsins og kaupir sér farseðil. Ekki er tilviljun, að þar eru vextir líka 16%.

Komið er úr tízku, að ríkið telji sér skylt að hafa með handafli vit fyrir fólki. Samkvæmt nútíma markaðslögmálanna er hver sinnar gæfu smiður. Ríkið hefur eigi að síður hagsmuna að gæta, því að nýja sukkið mun magna innflutning, gjaldeyrishalla og verðbólgu.

Nýju hengingarólar bankanna valda því, að stjórnvöldum mun ekki takast það markmið sitt að halda vöxtum í skefjum og stöðva gjaldeyrisþurrðina. Þess vegna ætti ríkið að auglýsa á móti og senda fólki bréf með áherzlum á atriði, sem bankarnir þegja um.

Skuldir íslenzkra heimila eru geigvænlegar, milli 400 og 500 milljarðar króna og hafa vaxið um 40­50 milljarða króna á ári. Nýju plastkortalánin munu auka hraðann á þessu sjálfsmorðsferli og valda fólki miklum þjáningum, þegar linnir sæluvímu líðandi sukkstundar.

Það er sameiginlegt hagsmunamál ríkis og þjóðar, að fólk átti sig á, að lán með 16% vöxtum eru ekki leið þess til bjargálna. Þess vegna ber ríkinu að fletta ofan af feluleiknum í auglýsingum bankanna og auglýsa á móti, að fólk sé að kaupa sér fjárhagslega hengingaról.

Fleiri dæmi eru um, að höfðað sé til óraunsæis fólks. Happdrætti Háskólans auglýsir á myntamottum í verzlunum, að lausn á þeim vanda fólks, að endar nái ekki saman um mánaðamót, felist í að kaupa sér happdrættismiða. Lengra er ekki hægt að komast í ruglinu.

Því miður eru Íslendingar að meðaltali auðveld bráð fyrir bóndafangara. Við trúum, að happdrættismiðar láti enda ná saman. Við trúum, að ný plastkort gefi okkur sukkfæri, sem við höfðum ekki áður. Íslendingar hafa þúsundum saman hrifsað upp 16%-vaxtakortin.

Það er ekki fögur iðja að magna veruleikafirringu fólks. Þótt löglegt sé, er það ljótt af bönkum og sparisjóðum að gera sér veika lund þjóðarinnar að féþúfu.

Jónas Kristjánsson

DV

Vesturveldin hjálpa Milosevic

Greinar

Milosevic Serbíuforseta er að takast að losna við albanska íbúa Kosovo til að rýma fyrir Serbum. Meirihluti Kosovara er þegar flúinn úr landi og fleiri eru á leiðinni. Með flutningi fólksins til annarra landa eru Vesturlönd að staðfesta og styðja þennan sigur Milosevics.

Þar sem ætlunarverk Milosevics er langt komið, er hann farinn að veifa sjónhverfingu vopnahlés í því skyni að vinna tíma til að festa núverandi stöðu í sessi. Á næstunni mun hann lofa ýmsu til viðbótar, enda er hann sérfræðingur í að gefa loforð án nokkurs innihalds.

Honum mun takast þetta, af því að Vesturveldin hafa ekki bein í nefinu til að taka Kosovo af Serbíu og gefa héraðinu frelsi. Hann mun notfæra sér, að Vesturveldin hafa trú á friðhelgi landamæra og vilja frekar niðurstöðu, sem víkst undan breytingum á þeim.

Milosevic er að takast margt fleira í leiðinni. Honum hefur tekizt að grafa undan stjórninni í Svartfjallalandi, sem neitaði að taka þátt í þjóðarhreinsun hans og hefur orðið að taka við miklum fjölda flóttamanna, sem munu þrengja kost heimamanna og valda andúð þeirra.

Ennfremur hefur honum tekizt að grafa undan stefnu þjóðafriðar í Makedóníu. Flóttamannastraumurinn þangað er að magna andúð þarlendra Serba, svo að þeir munu eins og Serbar í Svartfjallalandi halla sér að þjóðernissinnuðum leiðtogum á borð við Milosevic.

Stríðið gerir Milosevic að óumdeildum leiðtoga allra Serba á Balkanskaga. Hann losnar við stjórnarandstæðinga heima fyrir og kemur stuðningsmönnum sínum til valda í Svartfjallalandi og Makedóníu, eins og honum tókst áður á sjálfstjórnarsvæði Serba í Bosníu.

Það skiptir Milosevic engu, þótt Serbía verði að greiða þessa Stór-Serbíu dýru verði í loftárásum. Hann mælir ekki velgengni sína í steypu og tæknibúnaði, heldur í landi og fólki, sem dýrkar harðstjórann. Hann fagnar raunar loftárásum, ef þær þjappa fólkinu um hann.

Vesturveldin eru farin að styðja þjóðarhreinsunina með því að flytja flóttamennina frá Kosovo út um öll Vesturlönd. Þótt sá flutningur sé til bráðabirgða í orði kveðnu, eru menn þegar búnir að sætta sig við, að mikill hluti flóttafólksins muni ekki snúa til baka.

Þannig hefur Milosevic tekizt að framleiða flóttamannavanda um gervöll Vesturlönd, sem taka á sinn kostnað við tugum þúsunda fólks og öllum þeim vanda, sem hingað til hefur reynzt fylgja í kjölfar fjölmennra hópa af nýbúum, sem aðlagast sumir seint og illa.

Milosevic stefnir að stöðu, þar sem hlutföllin í Kosovo eru ekki lengur níu Albanir á móti hverjum Serba, heldur einn á móti einum, og formleg yfirráð svæðisins verði í höndum Serbíu, þótt Vesturveldin skilji eftir gæzlumenn. Hann finnur síðar leið til að losna við þá.

Betri kostur væri að fara nú þegar með landher um Kosovo, hrekja brott dólga Milosevics og hjálpa flóttamönnunum við að endurbyggja heimili sín. Þetta átti raunar að gera fyrir tveimur vikum. Það var Vesturlöndum ódýrari kostur en sá, sem nú blasir við.

Bezti kostur Vesturveldanna væri að koma Milosevic frá völdum, dauðum eða lifandi, og færa forustusveit Serba í tugthúsið hjá stríðsglæpadómstólnum í Haag. Ekki verður hægt að byrja að reyna að leysa vandræði Balkanskaga fyrr en búið er að losna við óþverrann.

En tómt mál að tala um slíkt meðan Vesturlönd keppast hver um önnur þver við að taka við flóttamönnum frá Milosevic og fullnusta þannig áform hans.

Jónas Kristjánsson

DV

NATÓ er að tapa stríðinu

Greinar

Hörmulegt er sjá gamlan vin liggja í eymd og volæði fyrir hunda og manna fótum og þola spörk frá hvaða dólgi sem er. Verra er, þegar vinurinn afneitar ástandi sínu og þykist vera brattur í ræsinu. Þannig bregzt Atlantshafsbandalagið við spörkum Milosevics.

Nató er að tapa stríðinu. Bandalagið hefur ekki heft hernaðargetu Serbíu til að hrekja íbúana úr Kosovo. Bandalagið hefur ekki bætt ástand Kosovara, sem eru almennt komnir á flótta. Bandalagið hefur ekki reynzt vera trúverðugt, því enginn treystir raupi þess.

Með því að draga Kosovara að samningaborðinu í Rambouillet og láta þá skrifa undir samkomulagið um Kosovo, hefur Atlantshafsbandalagið tekið ábyrgð á velferð hins nýja skjólstæðings án þess að standa við hana. Meira að segja hafa samningamenn verið myrtir.

Flóttamenn eru orðnir tæp milljón í Makedóníu og Albaníu. Ríki Atlantshafsbandalagsins verða á sinn kostnað að taka við fólkinu, sjá því fyrir matvælum og heilsusamlegum aðstæðum. Milosevic er að takast að hreinsa Kosovo af níu af hverjum tíu íbúum landsins.

Á fimmtíu ára afmæli Atlantshafsbandalagsins er stefna þess í Kosovo bókstaflega í rjúkandi rústum. Samt var allt fyrirsjáanlegt, sem þar hefur gerzt. Til dæmis var í leiðurum DV fyrir nokkrum árum sagt nokkrum sinnum, að Bosnía yrði endurtekin í Kosovo.

Dálkahöfundar víðar um heim hafa spáð harmleiknum í Kosovo og getuleysi Atlantshafsbandalagsins til að taka á málinu. Bent hefur verið á, að loftárásir á hernaðarlega mikilvæga staði mundu ekki fá Milosevic Serbíuforseta til að víkja frá þjóðarhreinsuninni í Kosovo.

Ráðamönnum Atlantshafsbandalagsins hefur margsinnis verið bent á, að annað hvort yrði að láta Milosevic eiga sig eða tefla fram hundrað þúsund manna landher, studdum hernaðarþyrlum. Loftárásir mundu einar sér ekki tryggja framgang markmiða bandalagsins.

Persóna Milosevics hefur verið skýrð og borin saman við persónu Saddams Husseins. Þjóðarmarkmið Serba um hreinsun annarra þjóða hefur verið augljóst öldum saman. Tilgangsleysi loftárása einna sér hefur víða komið í ljós og nú síðast í Tsjetsjeníu og Írak.

Tekizt hefur að sprengja innanríkisráðuneytið í Belgrað, nokkrar brýr á Dóná og tefja fyrir umferð skipa um ána. Að flestu öðru leyti hafa loftárásirnar verið marklitlar. Þær hafa stundum legið niðri vegna veðurs og á góðviðrisdögum hefur hittni verið léleg.

Ógæfusemi er einkenni ráðamanna bandalagsins og ráðamanna utanríkisráðuneyta og hermálaráðuneyta aðildarríkjanna. Þeir lesa ekki sagnfræðina, þeir hlusta ekki á ráð og þeir hafa ekki greind til að skilja stöðuna. Þeir hafa rekið gagnslausan lofthernað í tvær vikur.

Úr því sem komið er, neyðist bandalagið til að fara með landher inn í Kosovo, gera loftárásir á Milosevic sjálfan, stjórnarbyggingar og hermálaráðuneyti hans, draga þúsundir brjálaðra Serba fyrir nýja stríðsglæpadómstólinn í Haag og lýsa yfir sjálfstæði Kosovo.

Eftir meðferð Milosevics á Nató er ekki lengur hægt að sæta samkomulagi um sjálfstjórn Kosovara innan ríkjasambands Júgóslavíu. Ekki er heldur lengur hægt að sæta því, að Milosevic sé áfram við völd í Serbíu. Glæpir Serba í Kosovo hafa breytt stöðunni.

En því miður hafa ráðamenn vestursins og bandalags þess hvorki þekkingu né greind til að skríða upp úr eymd og volæði sínu á fimmtíu ára afmæli Nató.

Jónas Kristjánsson

DV

Esja

Veitingar

Esja venst vel. Vandaðar innréttingar hafa haldizt óbreyttar og lítið slitnað með árunum, þrátt fyrir mikið álag. Þykkt teppi temprar ferðamannaglauminn og lágstillt dósatónlist truflar engan. Mild ljós, mildir litir og speglar með hengiplöntum tempra hinar ströngu og þéttu mötuneytisraðir borðanna. Þótt Esjan sé ópersónuleg, er hún um leið næsta hlýleg.

Þríréttað val af fastaseðli kostar 3600 krónur með kaffi, sem er allt of mikið. Okrið er temprað með súpu dagsins og sjávarréttahlaðborði, sem kosta 1100 krónur í hádeginu og 1900 krónur á kvöldin, svo og tveimur seðlum dagsins á 1200 og 1900 krónur. Þjónusta er góð og veit hver pantaði hvað, jafnvel við fjölmenn borð.

Af lítt breytilegu og leiðigjörnu sjávarréttahlaðborði geta ferðamenn kynnt sér sýnishorn ýmissa fisktegunda og matreiðsluaðferða. Þar voru í hitakössum ufsi, karfi, ýsa, blálanga og steinbítur. Þar var djúpsteikt, súrsætt, smjörsteikt, kryddlegið, svo og fiskibollur og plokkari. Í kalda hlutanum voru nokkrar verkanir á síld og laxi, rækjur og lax í hlaupi og ýmislegt til salatgerðar. Þetta var fróðleg kynning, en ekki bragðgóð.

Súpur voru flestar hveitilausar og frambærilegar, þar á meðal tær tómatsúpa dagsins með grænmeti, þunn lauksúpa með brauðskorpuþaki og þykk fiskisúpa úr humarsoði með rækjum og stórum hlunkum af lúðu og laxi.

Í sveiflukenndri eldamennsku bar nokkuð á löngum eldunartímum. Það sem heitir snöggsteikt á matseðli var yfirleitt ofeldað. Ofsteiktur (“snöggsteiktur”) risahörpufiskur var með of sterkri saffransósu og grænmeti í tartalettu. Ofsteiktir (“snöggsteiktir”) sjávarréttir voru með of sterku karrí, bornir fram með rækjum, hnetum, hrísgrjónum og eins konar laufabrauði.

Rjómasoðinn karfi var hæfilega eldaður, borinn fram með rækjum og hæfilega mildri gráðostsósu. Glóðaður lax var lítillega ofeldaður, með þykkri og rauðri paprikusósu, heilum sesamfræjum og brenndu grænmeti.

Léttsteiktur lambahryggur var bezti rétturinn, meyr og góður, borinn fram með fínu hvítlauks- og rósmarínseyði, léttsteiktu grænmeti og bökuðum tómötum með osti og raspi. Ofsteikt gæs með ofsteiktu grænmeti, eplum og villisveppasósu var hins vegar ekki merkilegur matur.

Ostaterta var hefðbundin og létt, með mikilli sultu og þeyttum rjóma. Crème caramel reyndist vera léttur vanillubúðingur með þunnri karamellusósu. Charlotta með koníaksfyllingu og ávaxtasósu reyndist vera hörð kaka utan um ís, borin fram með jarðarberjum og þeyttum rjóma. Kaffi kom úr sjálfsala.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjálfbærir sjóðir

Greinar

Íslendingar safna betur til ellinnar og hugsanlegrar örorku en allar þjóðir heims aðrar en Hollendingar og Bretar. Ríkisvaldið þarf lítið að koma til skjalanna hér á landi, af því að fólk hefur meira eða minna safnað fyrir þessu sjálft með aðild sinni að lífeyrissjóðum.

Við búum ekki við gegnumstreymissjóði, þar sem starfsfólk nútíðarinnar safnar handa starfsfólki fortíðarinnar og starfsfólk framtíðarinnar safnar handa starfsfólki nútíðarinnar. Hér safnar hver kynslóð sínum lífeyri og sjóðirnir eru því sjálfbærir á hverjum tíma.

Undantekningar eru á þessu. Þannig safna opinberir starfsmenn á Íslandi ekki sjálfir fyrir sínum lífeyri nema að hluta og láta skattgreiðendur framtíðarinnar sjá um afganginn. Þessa ósiðlegu álagningu á afkomendur okkar þarf að afnema og gera þessa sjóði sjálfbæra.

Ennfremur hafa sumir sjóðir ekki verið nógu vel reknir til að eiga fyrir skuldbindingum sínum. Þeim fer fækkandi, eftir því sem rekstur sjóða batnar og þeir sameinast í færri og öflugri sjóði, sem hafa aðgang að margfalt fjölbreyttari fjárfestingarkostum en áður.

Þótt við höfum staðið okkur betur í lífeyrismálum en aðrar þjóðir, búum við engan veginn við fullkomið ástand. Alvarlegast er, að félög vinnumarkaðarins hafa lengst af ekki samið um að leggja til hliðar hærri upphæðir til lífeyris en sem nemur sultartekjum.

Til að koma þessum málum í gott horf, þurfa lífeyrisgreiðslur að miða við, að fólk fái á elliárum eða við örorku tvo þriðju af raunteknum sínum í fullu starfi, en ekki tvo þriðju af töxtum, sem oftast hafa verið lægri en rauntekjur og í sumum tilvikum mun lægri.

Hækkun skyldutryggingar úr 10% í 12,2% er mikilvægt skref til að koma lífeyrissparnaði kynslóðanna í sjálfbært horf. Ný sparnaðarleið hefur opnazt með því að gefa fólki kost á að leggja viðbótina í nýja séreignarsjóði eða séreignadeildir gömlu sameignarsjóðanna.

Æskilegt er, að frekari hlutfallshækkun lífeyrissparnaðar frá því, sem nú er, verði fremur í formi séreignar en sameignar, af því að hún gefur sparendum betra svigrúm til að nýta sparnað sinn meira á fyrri árum ellinnar, þegar útgjaldaþörfin er meiri en síðar verður.

Fyrir samfélagið er gott að hafa tvöfalt kerfi af þessu tagi. Það þýðir, að sameignarsjóðirnir sjá um, að fólk komist ekki á vonarvöl, og séreignarsjóðirnir sjá um, að það hafi mannsæmandi lífskjör. Ríkisvaldið þarf ekki nema að litlu leyti að koma til skjalanna.

Auðvitað eru og verða áfram undantekningar á þessu, þótt lífeyrissjóðirnir eflist, fái hærri prósentu af tekjum og nái til fleiri en áður. Vegna atvinnuskorts safna sumir minni lífeyri en aðrir og sumir alls engum. Þessum tilvikum fækkar ört, en þau verða áfram til.

Mikilvægt er, að ríkið komi betur til skjalanna á þessu sviði og hækki ellilífeyri almannatrygginga frá því sem nú er. Ekki ber að lasta, þótt skref í þá átt séu stigin í taugaveiklun ríkisstjórnar, sem horfir of mikið og of snemma á skoðanakannanir um kjörfylgi flokka.

Í sjálfbæru kerfi hvílir mikil ábyrgð á lífeyrissjóðunum. Mikið er í húfi, að þeir standi sig vel, ávaxti peninga sjóðsfélaga eins vel og unnt er, án þess að taka of mikla áhættu. Skelfilegt væri, ef einstakir lífeyrissjóðir yrðu gjaldþrota vegna ógætni stjórnendanna.

Ef hægt er að hafa hemil á lélegum fjárfestingum ávöxtunarþyrstra lífeyrissjóða, erum við með sjálfbært lífeyriskerfi, sem verður mjög gott á næstu árum.

Jónas Kristjánsson

DV

Borg

Veitingar

Gamlir og sögufrægir hótelveitingasalir eru víða við aðaltorg gamalla borga í Evrópu, gamlir og sögufrægir, rykfallnir og þreytulegir. Borgin við Austurvöll var fyrir nokkrum árum gerð upp í gamla stílnum, með bleikum veggjum og grænum tjöldum, gömlum og þægilegum húsbúnaði. Yfirþyrmandi afgreiðslubar var bætt við á miðju gólfi og varðveitt korkgólf, sem hefur séð fífil sinn fegri.

Borgin dregur ekki að sér gesti á kvöldin, þegar þar sitja nánast eingöngu hótelgestir við glerplötuborð. Í hádeginu er hins vegar líflegt vegna staðsetningarinnar og sögufrægðarinnar. Þá má líta hér sams konar fólk og á systurstöðum meginlandsins, ráðsettar frúr að skiptast á kjaftasögum um leið og þær njóta góðrar fagþjónustu og tilþrifalítillar matargerðar nútímans að hætti íslenzkra miðlungsstaða.

Maturinn á Borginni var löngum fremur vondur, en hefur batnað með árunum og verið frambærilegur í seinni tíð. Fiskur hefur loksins haldið innreið sína löngu á eftir öðrum matstöðum. Mikið er um endurtekningar þess, sem er til í miklu magni í eldhúsinu. Polenta maískökur birtust með ólíklegustu réttum, tvenns konar hrísgrjón, svo og dísætar biscotta grjótkökur.

Forréttir voru ágætir. Hin gamalkunna gulrótarsúpa dagsins var snarpheit, fremur bragðgóð og ekki of þykk, með fljótandi brauðteningum. Heit Maryland-krabbakaka var fínleg og bragðgóð, með smásöxuðu og stökku grænmeti og ítölsku rauðsalati. Kryddlegið og pönnusteikt grænmeti var líka gott, borið fram með grjótkökum, ítölsku salati, ólífum og kotasælu. Kryddjurtagrafinn nautahryggvöðvi með engiferlegnum sveppum og sinnepskremi hafði skemmtilegan anískeim.

Gufusoðinn lax var skemmtilega upp settur í kúf utan um fiskifroðu ofan á grænmetisteningum og tvenns konar stinnum hrísgrjónum. Þrátt fyrir tilþrifin var laxinn ekki ofsoðinn og naut sín vel með ítölsku blaðsalati. Wok-pönnusteiktir sjávarréttir reyndust vera rækja, hörpudiskur og smátt skorinn fiskur og smásaxað grænmeti, svo og tvenns konar hrísgrjón, allt með sojabragði úr hófi fram.

Hörpuskel og lax voru hæfilega pönnusteikt, með maísköku, ætiþistli og vatnagrasasósu. Skemmtilega sinnepsristaður þorskhnakki var lítillega of þurr, sat ofan á grænmetisblönduðum hrísgrjónum og borinn fram með of þykkri humarsósu. Appelsínubökuð andabringa var fremur meyr, borin fram með áðurnefndri maísköku og ágætri sósu úr appelsínum og engifer.

Svokölluð eplaterta var ekki terta, heldur nokkrir soðnir eplabátar á fyrrnefndri grjótköku, bornir fram með hlutlausum vanilluís og kanilblandaðri karamellusósu, alls ómerkur eftirréttur. Líkjörvættur crème brulêé búðingur var bragðbetri, en einkenndist einnig af grjótköku. Frambærilegust var sívöl tiramisu ostaterta í kunnuglegum stíl með kaffisósu og jarðarberjasósu. Kaffi var í lagi, borið fram með konfekti.

Þríréttað með kaffi kostaði 4100 krónur á mann, en súpa dagsins og fjölbreytt úrval aðalrétta kostuðu að meðaltali 1200 krónur í hádeginu.

Jónas Kristjánsson

DV

Marklausar loftárásir

Greinar

Langvinnar loftárásir Bandaríkjahers á Írak hafa ekki skilað tilætluðum árangri. Loftárásir Atlantshafsbandalagsins á Serbíu munu ekki heldur bera tilætlaðan árangur. Slobodan Milosevic mun eigi að síður halda áfram að drepa Kosovara og stökkva þeim úr landi.

Afskipti Vesturveldanna og Atlantshafsbandalagsins af Kosovo einkennast af því að valdamenn vestursins fylgjast hvorki með fréttum né draga lærdóm af sögunni. Alvarlegast er þó, að þeir hafa litla hugmynd um hugsanaferil andstæðings á borð við Slobodan Milosevic.

Hann hefur sömu grundvallarhugsjón og Saddam Hussein Íraksforseti. Hann er fyrst og fremst að tryggja sér völd innanlands gegn hugsanlegum arftökum. Hann notar aðgerðir Vesturlanda til að þjappa þjóðinni um sig og hreinsa alla, sem hann grunar um drottinsvik.

Milosevic heldur völdum með því að höfða til rótgróins og sjúklegs þjóðernisofstækis Serba. Því meira sem þeir verða að fórna í mannslífum og efnislegum verðmætum, þeim mun trylltara verður viðhorf þeirra og þeim mun meira eflast völd forsetans.

Serbía gengur hvorki fyrir mannréttindum né peningum. Eftir langvinnar refsiaðgerðir ætti ríkið samkvæmt vestrænum hagfræðilögmálum að vera orðið gjaldþrota fyrir löngu. En Serbía gengur fyrir viljastyrk þjóðar, sem vill ryðja sér til rúms sem stórveldi Balkanskaga.

Fyrirlitning á málamiðlunum er annar þátturinn í skaphöfn Slobodans Milosevics og Saddams Husseins. Þeir prútta ekki. Þeir líta ekki á gagntilboð mótherjans sem kröfu um gagntilboð á móti. Þeir líta á það sem ávísun á að auka kröfurnar, hækka verðið.

Þeir eru meðteknir af mótsögn styrkleika og veikleika. Ef einhver gefur eftir, líta þeir á það sem yfirlýsingu um veikleika, sem beri að svara með yfirlýsingu um styrkleika. Þess vegna hefur Slobodan Milosevic aldrei tekið neitt minnsta mark á tilboðum Vesturlanda.

Eins og áður í Bosníu hafa Vesturlönd í meira en ár verið að gefa eftir í Kosovo. Fyrst var hótað hernaði, ef Serbíuher færi til Kosovo. Síðan var hótað hernaði, ef ekki yrði skrifað undir friðarsamninga. Loks var hótað hernaði, ef Serbar hæfu sókn í Kosovo.

Eftir fyrstu hótun sendi Slobodan Milosevic Serbaher til Bosníu. Eftir aðra hótun neitaði hann að skrifa undir friðarsamninga. Eftir þriðju hótun hóf hann stórsókn í Kosovo. Í öllum tilvikum gekk hann í berhögg við hótanirnar og niðurlægði lífsþreytt Atlantshafsbandalag.

Þessu hyggst bandalagið mæta með tempruðum loftárásum, sem eiga að veikja hernaðarmátt Serba nógu mikið til þess að þeir geti ekki útrýmt Kosovörum, en samt ekki svo mikið, að Kosovarar útrými serbneska minnihlutanum í Kosovo. Þetta er grátlegt rugl.

Tempruð stefna ellimóðs Atlantshafsbandalags er eins og allur ferill þess í málinu. Í fyrsta lagi átti aldrei að hóta neinu, sem ekki átti að standa við. Í öðru lagi á að eyða meininu, en ekki gutla í tempruðum stríðsleik, sem er dæmdur til að hámarka hörmungarnar.

Ferill bandalagsins hefur leitt til þess, að Slobodan Milosevic flýtir sér sem mest hann má til að hrekja Kosovara úr þorpum sínum og reka þá, sem ekki eru drepnir, yfir landamærin til Makedóníu og Albaníu. Tempraðar loftárásir magna þessar hörmungar.

Annað hvort ber að hefja loftárásir á Milosevic sjálfan og senda síðan landher til höfuðs honum sjálfum og glæpaflokki hans eða láta Kosovo-málið afskiptalaust.

Jónas Kristjánsson

DV

Veiðileyfagjald og byggðakvóti

Greinar

Veiðileyfasinnar hafa sigið hægt og bítandi fram úr gjafakvótasinnum og eru komnir í öruggan meirihluta meðal þjóðarinnar samkvæmt nýjustu skoðanakönnun DV. Veiðileyfasinnar eru í meirihluta í öllum stjórnmálaflokkum landsins nema Framsóknarflokknum.

Stuðningsmenn flokks utanríkisráðherrans og fyrrverandi sjávarútvegsráðherrans, tákngervings kvótakerfisins, eru orðnir einir á báti í stuðningi við núverandi kerfi. Kjósendur Sjálfstæðisflokks hafa snúið við blaðinu og styðja veiðileyfagjaldið í hlutföllunum 61-39.

Umræður á landsfundi sjálfstæðismanna báru merki umskiptanna, þótt ályktun fundarins endurspegli þau ekki. Býsna erfitt er orðið fyrir forustu flokksins að beita sér af hörku gegn breytingum, sem njóta stuðnings eindregins meirihluta kjósenda flokksins.

Einkum verður núverandi spenna erfið fyrir Sjálfstæðisflokkinn ef á grundvelli hans rís annar flokkur, til viðbótar við flokk Sverris Hermannssonar, með trúverðuga frambjóðendur og stefnu veiðileyfagjalds og sækir fylgi sitt til hefðbundinna kjósenda Sjálfstæðisflokksins.

Kjósendur flokkanna tveggja, sem hafa tekið við fylgi Alþýðubandalagsins, styðja veiðileyfagjald, einkum kjósendur Samfylkingarinnar, þar sem hlutföllin eru 77-23. Núverandi gjafakvóti hefur því hvergi lengur skjól nema í Framsóknarflokknum, þar sem hlutföllin eru 40-60.

Tilfærsla kvóta frá fámennum sjávarplássum til fjölmennari byggða hefur orðið til þess, að byggðastefnumenn sjá ekki lengur vörn í gjafakvótanum gegn tillögum um að tengja markaðslögmál með einhverjum hætti við réttinn til aðgangs að takmarkaðri auðlind.

Þeir, sem ekki aðhyllast markaðsstefnu í sjávarútvegi, hafa í vaxandi mæli hneigzt að byggðakvóta, þótt dæmin sýni, að byggðakvóti hefur einnig lekið brott. Fyrir skammgóðan vermi hafa menn selt fjöregg sjávarplássanna og staðið eftir jafnslyppir og snauðir.

Hugsanlegt er, að sátt náist milli sjónarmiða veiðileyfagjalds og byggðakvóta með því að veiðileyfagjaldið renni að hluta til þeirra byggða, sem standa höllum fæti í baráttunni um réttinn til að veiða það takmarkaða magn, sem leyft er að veiða hverju sinni.

Einnig er hugsanlegt, að afhenda megi þessum sjávarplássum hluta kvótans fram hjá veiðileyfagjaldi. Hagfræðilega séð eru slíkar lausnir allar vondar, en þær kunna að eiga rétt á sér sem pólitísk lausn á viðkvæmu deilumáli um misjafna stöðu fólks eftir byggðum.

Byggðakvótinn hefur þann kost að njóta stuðnings þjóðarinnar í hlutföllunum 74-26 samkvæmt nýjustu skoðanakönnun DV. Hann nýtur raunar meiri stuðnings en einstakar aðferðir við veiðileyfagjald, allt frá þjónustugjöldum á útgerðir yfir í uppboð á kvóta.

Þótt veiðileyfagjald og byggðakvóti séu tvær ólíkar leiðir, eiga þær það sameiginlegt, að fylgið við þær byggist á réttlætistilfinningu, annars vegar fyrir jafnrétti borgaranna og hins vegar fyrir tilverurétti byggðanna, enda hafa margir bæði sjónarmiðin í senn.

Stuðningsmenn veiðileyfagjalds þurfa að finna aðferð, sem hægt er að fá sem flesta til að sameinast um. Með því að blanda slíkri aðferð saman við byggðakvóta er kominn pakki, sem líklegt er að afli sér víðtækari samstöðu fólks en aðrar leiðir til lausnar málsins.

Kjósendur telja sennilega ekki vera hlutverk sitt að kafa dýpra í hlutina en að heimta réttlæti og vilji heldur fela sérfróðum aðilum hina tæknilega útfærslu.

Jónas Kristjánsson

DV

Óbreytt stjórnarsamstarf

Greinar

Stjórnarflokkarnir réttu sig af í skoðanakönnun DV, sem birtist í gær, en stjórnarandstöðuflokkarnir misstu flug. Breytingarnar voru samt litlar og Samfylkingin með 20 þingsæta fylgi er mun öflugra framboð en Framsóknarflokkurinn með 12 þingsæta fylgi.

Sjálfstæðisflokkurinn með 26 þingsæta fylgi gæti samkvæmt tölum könnunarinnar myndað stjórn hvort sem er með Framsóknarflokknum eða Samfylkingunni, en samstjórn Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar mundi hanga á bláþræði 32 þingmanna.

Sennilega yrðu þeir flokkar tveir að ná samstarfi við Græna vinstrið með 4 þingsæta fylgi til að geta myndað stjórn með traustum þingmeirihluta. Þriggja flokka stjórnarmyndun er mun erfiðari en tveggja flokka stjórnarmyndun og hlýtur að teljast ótrúlegri.

Þótt breytingar séu litlar milli kannana, nægja þær samt til þess að magna líkur á framhaldi núverandi stjórnarmynzturs. Samkvæmt tölunum stendur valið milli stjórnar Sjálfstæðisflokks með Framsóknarflokki eða Samfylkingunni. Niðurstaða þess vals er ljós.

Þótt ráðamenn stjórnarflokkanna segist hafa óbundnar hendur, hafa þeir ekki verið ómyrkir í máli um, að þeir séu ánægðir með núverandi samstarf og vilji halda því áfram. Jafnframt hafa þeir valið Samfylkingunni hvassyrði, sem ekki stuðla að opnun í þá átt.

Skoðanakönnunin bendir ekki heldur til, að Framsóknarflokkurinn tapi svo miklu fylgi, að hann þori ekki að vera í óbreyttu samstarfi í eitt kjörtímabil í viðbót. Hnignun úr 23% fylgi í 19% fylgi nægir ekki til þess, að flokkurinn telji sig þurfa að fara í valdafrí.

Ef niðurstaða kosninganna verður sú, að annar stjórnarflokkurinn vinnur einn þingmann og hinn tapar þremur þingmönnum, en þingmeirihlutinn er áfram tryggur, er ekki hægt að segja slíkt vera augljósa ávísun á uppstokkun aðildar flokka að ríkisstjórn.

Skoðanakönnunin sýnir 40% fylgi Sjálfstæðisflokks, 31% fylgi Samfylkingar, 19% fylgi Framsóknarflokks og 6% fylgi hjá Grænu vinstri. Þetta er gamla fjögurra flokka kerfið með þeirri breytingu, að Samfylkingin hefur náð öðru sæti af Framsóknarflokknum.

Auðvitað er þetta bara skoðanakönnun. Enn eru sjö vikur til kosninga. Fylgissveiflur verða áfram, þótt þær verði mun minni en á undanförnum tíma prófkjöra og landsfunda. Hér eftir mun fylgi aðeins leka í smáum stíl milli framboða í hinni eiginlegu kosningabaráttu.

Meira máli skiptir, að 30% kjósenda eiga enn eftir að gera upp hug sinn. Ótrúlegt er, að þeir raðist á framboðin í alveg sömu hlutföllum og þeir, sem þegar hafa ákveðið sig. Kosningabaráttan mun fyrst og fremst snúast um að ná eyrum þessa síðbúna hóps kjósenda.

Kosningaskjálfti framboðanna leynir sér ekki. Yfirboð eru komin á fulla ferð og munar ekki mikið um milljarðinn í þeirri sláturtíð. Skiptir þar engu, hvort loforðsmenn hafi áður hrósað sér af gætni í fjármálum. Gætni í loforðum er altjend fokin út í veður og vind.

Grundvallarmunur sést þó í ýmsum veigamiklum atriðum, þar sem sumir lofa hreinum og klárum breytingum, en aðrir leggja áherzlu á, að áherzla verði lögð á áherzluatriði, svo að notað sé bráðskemmtilegt orðfæri eins þekktasta pistlahöfundar þjóðarinnar.

Við vitum nú, hvernig staðan er við upphaf hinnar raunverulegu kosningabaráttu. Svo er að sjá, hvernig framboðin spila úr kortunum, sem þau hafa á hendi.

Jónas Kristjánsson

DV

Askur

Veitingar

Askur við Suðurlandsbraut tjuggutjuggar eins og gömul eimlest, sem ekki fæst til að gefa upp öndina, af því að tækin voru svo vel smíðuð í gamla daga, þegar hún varð til sem millistig veitingahúss og skyndibitastaðar, heimaland kokkteilsósunnar. Allt er enn eins og ævinlega á Aski, þar á meðal matseðillinn. Svo langt er síðan staðurinn steinrann, að óþarfi er að gera veður út af því núna.

Á sunnudögum hefur verið steikarskurður í hádeginu og aðra daga frekar ólystugt hlaðborð, sem einkenndist af mjögsoðnu grænmeti, djúpsteiktri ýsu og miklum sósum, en bjargaðist fyrir horn með beikonfylltum kartöflum, meyru svínafleski og góðri rauðsprettu með þrenns konar papriku.

Aðgangur að óvenjulegum salatbar fylgir öllum aðalréttum staðarins. Barinn státaði af tveimur og þremur tegundum af olífum, ýmsum baunategundum, hnetum, sultuðum og kryddlegnum lauk, gráfíkjum og niðursoðnum ætiþistli, fyrir utan ýmislegt af hefðbundnara tagi, en engum sveppum. Þar voru sósur og tvenns konar edik, en engin olífuolía. Einnig súpa dagsins, uppbökuð hveitisúpa af skárra taginu, en ekki alltaf nákvæm að heiti, því að brokkálssúpa með syndandi brokkáli var eins og sveppasúpa á bragðið. Ágætt brauð fylgdi.

Stórlúða dagsins var hæfilega elduð, greinilega fersk og bragðgóð, borin fram með kryddsmjöri, fjölbreyttu og fallegu grænmeti léttsteiktu, og bakaðri kartöflu, sem er einkennistákn staðarins. Smjörsteikt rauðsprettuflak var snarpheitt og meyrt, jóðlandi í smjöri, með milt elduðu blómkáli og brokkáli, svo og sveppum og tvenns konar papriku og auðvitað bakaðri kartöflu. Sú breyting hefur raunar smám saman orðið á Aski, að fiskur er orðinn sterkasta hlið eldhússins og fer vel á því.

Uppáhald fjárbóndans var sagt vera grillað lambafillet, en mér fannst það vera innralæri, vel kryddað villijurtum og borið fram með mikið steiktum lauk og grimmt elduðu káli, svo og bakaðri kartöflu. Lakasti aðalrétturinn var barbeque blanda svínarifja og kjúklingalæra. Rifin voru sæmileg, en kjúklingurinn þurr og frönsku kartöflurnar gervilegar.

Sæmilegasta eplabaka með vanilluís og þeyttum rjóma kom á borð með súkkulaðisósu. Ostaterta var nánast ostlaus, eins og Royal búðingur að áferð og bragði, borin fram með jarðarberjum og blæjuberjum. Kaffivatn að amerískum hætti var frambærilegt sem slíkt.

Hádegishlaðborð kostar 1090 krónur, salatbarinn 870 krónur, réttur dagsins með súpu 1290 krónur og þríréttað af matseðli kostar 2370 krónur. Þetta höfðar til stórfjölskyldna á ferðalagi utan af landi, vel stæðra einstaklinga, sem ekki nenna að elda, og slæðings af ferðamönnum.

Húsakynni hafa lengi verið óbreytt og fremur kuldaleg, en barnavæn. Langsófar eru með veggjum, stólar á móti og á milli þeirra hentug tveggja manna borð, sem slá má saman að vild. Dósatónlist er stundum með háværara móti. Sennilega er þjónustufólk á of lágu kaupi og hættir fljótt, því að sífellt voru að birtast ný andlit, sem kunnu enn lítið til verka.

Jónas Kristjánsson

DV

Sigur Evrópusambandsins

Greinar

Hrun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er það bezta, sem komið hefur fyrir sambandið frá upphafi. Loksins verður hreinsað til í stjórnkerfi þess og komið á vestrænum reglum um jafnvægi valdanna og um ábyrgð ráðherra á því, sem fram fer í ráðuneytum þeirra.

Hér eftir verða völd þings Evrópusambandsins meiri og völd framkvæmdastjórnarinnar minni. Hér eftir neyðast framkvæmdastjórarnir til að kynna sér það, sem er að gerast í embættismannakerfi þeirra og sjá um, að góðir siðir og góðar vinnureglur séu á oddinum.

Þetta þýðir, að Evrópusambandið verður lýðræðislegra en áður. Það verður líkara stjórnarháttum á Bretlandseyjum, Norðurlöndum og Þýzkalandi. Mandarínar að frönskum hætti eiga ekki lengur upp á pallborðið og allra sízt frekjuhundar á borð við Judith Cresson.

Raunar varð það framferði Cresson, sem felldi framkvæmdastjórnina. Hún hefur allan feril málsins verið persónugervingur hins ýkta hroka og stjórnlausu einkavinavæðingar, sífellt reiðubúin til að bregða fæti fyrir eftirlit og lýsa yfir hreinu borði hjá sjálfri sér.

Frábært er að losna við Jacques Santer, formann framkvæmdastjórnarinnar. Hann hefur hvorki reynzt hafa burði né siði til að gegna stöðu sinni. Hann lét innra eftirlit sitja á hakanum og sýndi ekki framtak, fyrr en hann rak endurskoðandann, sem hafði kjaftað frá.

Brottrekstur endurskoðandans var kornið, sem fyllti mælinn. Þau hrokafullu mistök sýndu, að Jacques Santer hafði ekki hugmynd um, hvaða eldar voru að brenna, og ímyndaði sér, að hann gæti áfram rambað ábyrgðarlaus um valdasali Evrópusambandsins.

Að vísu var sáð til vandamálsins áður en Santer kom til skjalanna. Það var hinn viljasterki Jacques Delors, sem lengst af mótaði skipulag Evrópusambandsins og kom þar á stjórnarháttum mandarína að frönskum hætti. Þeir stjórnarhættir verða ekki endurreistir.

Sumir framkvæmdastjóranna verða endurráðnir, en enginn þeirra, sem gagnrýndir voru í skýrslunni, er varð stjórninni að falli. Þing Evrópusambandsins, sem kosið er beinni kosningu í löndum bandalagsins, mun herða eftirlit og taka meira frumkvæði í sínar hendur.

Með nýrri skipan mála í hundahreinsuðu Evrópusambandi má búast við, að stjórnarhættir þess batni verulega og vegur þess vaxi í almenningsálitinu. Þannig mun sambandið mæta nýrri öld með traustum og lýðræðislegum innviðum og veita Evrópu örugga forustu.

Evran er byrjuð að stíga sín fyrstu skref sem gjaldmiðill allrar Evrópu, þar á meðal ríkjanna utan bandalagsins. Viðræður eru hafnar við ríki Mið-Evrópu um stækkun bandalagsins til austurs. Hvort tveggja mun ganga betur, þegar búið er að hreinsa til í Bruxelles.

Þar sem Evrópusambandið hefur snögglega færst frá frönskum stjórnarháttum í átt til engilsaxnesk-skandinavísk-þýzkra stjórnarhátta, er það orðinn mun girnilegri kostur fyrir Ísland og Noreg. Þau eru hluti hins pólitíska menningarheims, sem hefur orðið ofan á í Evrópu.

Sambandið er samt ekki orðið fullkomið allt í einu. Það er enn merkisberi verndarstefnu gæludýra atvinnulífsins á kostnað evrópskra neytenda og kemur sem slíkt fram í deilum á alþjóðavettvangi um frjálsa verzlun. Það styður til dæmis ríkisstyrki til sjávarútvegs.

Hrun merkantílistanna í framkvæmdastjórninni bendir þó til, að í náinni framtíð muni bera meira á markaðshyggju í voldugustu efnahagsstofnun Evrópu.

Jónas Kristjánsson

DV

Senn hefst háreysti

Greinar

Línurnar hafa skýrzt svo vel átta vikum fyrir kosningar, að óhætt er að spá sama stjórnarmynztri á næsta kjörtímabili. Formaður Sjálfstæðisflokksins lét landsfundarmenn flokksins ekki velkjast í vafa um, að hann teldi óbreytta stöðu farsælasta fyrir flokk og þjóð.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur burði til að velja um að starfa með Framsóknarflokknum eða Samfylkingunni, sem formaðurinn gagnrýndi harðlega. Framboð Sverris Hermannssonar og nokkurra andstæðinga kvótakerfisins mun ekki veikja flokkinn, svo um muni.

Fylgið mikla, sem Samfylkingin fékk beint í kjölfar stóru prófkosninganna á Suðvesturhorninu, hefur haldizt óbreytt, svo að ljóst má vera, að hún er annað stærsta stjórnmálaaflið, af stærðargráðu Sjálfstæðisflokksins. Eigi að síður hafnar formaður hans Samfylkingunni.

Eini markverði óvissuþátturinn í þessu dæmi er veik staða Framsóknarflokksins. Sótt er að fylgi hans úr öllum áttum um þessar mundir. Hann stendur langt að baki stóru öflunum tveimur og getur hæglega farið svo illa út úr kosningunum, að það leiði til bakþanka.

Ljóst er, að hugur formanns Framsóknarflokksins er á svipuðum nótum og formanns Sjálfstæðisflokksins. Raunar virðist anda köldu frá honum til helztu forustumanna stjórnarandstöðunnar. Ef hann þorir, mun hann halda áfram núverandi stjórnarsamstarfi.

Söguleg rök eru fyrir, að Framsóknarflokkurinn gefist upp á hægra samstarfi, þegar fylgishrun hans er orðið nógu mikið. Að þessu sinni mundi slíkt ekki leiða til þreifinga Framsóknarflokksins í aðrar áttir, heldur mundi flokkurinn draga sig í hlé og sleikja sár sín.

Lokamynztur slíkrar stöðu væri eins konar þjóðarsátt Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Erfitt er samt að sjá, hvernig þessi tvö öfl geti náð saman um sæmilega starfhæfa ríkisstjórn eftir hatrammar deilur undanfarinna missera um ýmis viðkvæmustu þjóðmálin.

Græna vinstrið gegnir engu hlutverki í mynztrinu að þessu sinni, þótt það kunni að fá nokkra þingmenn. Línurnar í pólitíkinni eru þær, að líkur eru á þrenns konar möguleikum á tveggja flokka stjórn, áður en menn fara að gæla við eitthvert þriggja flokka mynztur.

Innviðir og valdakjarnar allra flokkanna eru sæmilega traustir. Sjálfstæðisflokkurinn hefur losnað við umdeildan fyrrverandi formann úr pólitíkinni og stendur því í fyrsta sinn óskiptur að baki formanni sínum. Og flokkurinn hefur loksins fengið langtíma-varaformann.

Staða formanns Framsóknarflokksins er veikari, svo sem sást af því, að hann treysti sér ekki til að fá nýjan ráðherra í stað þess, sem hvarf úr ríkisstjórninni. En fylgistapið þarf samt að verða mikið á þeim bæ, áður en hróflað verður við helztu valdamönnum flokksins.

Samfylkingin er svo ný, að hún hefur ekki mótað boðleiðir milli ráðamanna sinna. Til skamms tíma mun það há henni, ef hún lendir í viðræðum um stjórnarmyndun, en til langs tíma litið ætti hún að vera í sæmilegum málum, enda er þar sáttahljóð í fólki inn á við.

Stórorrusturnar eru að baki. Allir stjórnmálaflokkarnir hafa komist gegnum erfiðleika, sem gjarna fylgja skipan framboðslista, og ganga sæmilega heilir til kosninga. Stóru fylgissveiflurnar eru að baki. Nú tekur við tími hægfara fylgisbreytinga fram að kosningum.

Senn hefst háreysti og vopnaglamm. Eftir kosningar mun svo hið gamalkunna koma í ljós, að því meira, sem hlutirnir breytast, þeim mun meira eru þeir eins.

Jónas Kristjánsson

DV

Markaðurinn einn er réttlátur

Greinar

Deilan um veiðigjald í sjávarútvegi snýst ekki um, að sjávarútvegurinn greiði fyrir þjónustuna, sem hann fær hjá samfélaginu. Ágreiningurinn er annar og djúpstæðari en svo, að hann verði leystur með því að hækka opinber þjónustugjöld greinarinnar eða finna ný.

Lausn málsins felst ekki heldur í sátt milli þeirra, sem hafa, og hinna, sem hafa ekki. Slík sátt milli óréttlætis og réttlætis finnst ekki í spilunum. Gagnrýnendur núverandi kerfis vilja ekki lappa upp á það, heldur láta greiða sanngjarnt gjald fyrir aðgang að auðlind.

Baráttan milli núverandi kerfis ókeypis kvóta og ýmissa hugmynda um veiðigjald er barátta um vald til að verja kerfið eða breyta því. Með því að nýtt kerfi hafi breiðara fylgi en núverandi kerfi næst að vísu meiri sátt í þjóðfélaginu, en það er ekki sátt milli deiluaðila.

Skoðanir þeirra, sem vilja breyta kerfinu, eru að falla í færri og öflugri farvegi. Merkasta skrefið á þeirri leið var stofnun hóps áhugamanna um, að ríkið setji allan kvóta á markað. Þannig látum við markaðskerfið segja okkur, hvert sé sanngjarnt verð fyrir aðganginn.

Ef allur kvóti fer á markað, greiða þeir, sem veiða vilja, það sem þeir treysta sér til að borga, en verða ekki að sæta því uppsprengda jaðarverði, sem nú tíðkast. Núverandi markaðsverð á jaðarkvóta segir ekkert um, hvert markaðsverð verði á kvótanum í heild.

Kjarni málsins er, að ríkið eitt hefur framleitt verðgildi kvótans með því að færa út fiskveiðilögsöguna í áföngum og setja strangar reglur um aðgang að fiskveiðum. Ef ríkið hefði ekki gert þetta, væri ördeyða á miðunum og verðgildi aðgangsins nánast ekkert.

Vegna þessara aðgerða ríkisins á það að fara með kvótann fyrir hönd þjóðarinnar og taka við tekjunum af auðlindinni fyrir hönd hennar. Slíkt er hins vegar ekki hlutverk þeirra, sem upphaflega fengu kvóta frítt eða hafa síðan aflað sér hans dýrum dómum.

Með fimm ára aðlögunartíma milli núverandi forréttindakerfis og væntanlegs markaðskerfis geta núverandi handhafar kvótans afskrifað hann. Slík aðlögun er einkar þægileg á þessum tíma aukinnar fiskgengdar, því að þá getur ríkið sett alla viðbótina í markaðskerfið.

Ekkert réttlæti fólst í að afhenda eigendum skipa einkarétt á ókeypis aðgangi að takmarkaðri auðlind á sínum tíma. Þótt þetta óréttlæti hafi síðan gengið kaupum og sölum, er það ekki orðið að neinu réttlæti. Markaðskerfið eitt felur í sér fullt réttlæti.

Athyglisvert er, að þau pólitísku öfl í þjóðfélaginu, sem mestan áhuga segjast hafa á markaðsbúskap í hagkerfinu, skuli í raun hafa mestan áhuga á að viðhalda í sjávarútvegi forréttindum, er stríða gegn markaðslögmálum Chicago-hreyfingar hagfræðinga.

Sátt getur náðst um aðlögunartíma milli núverandi óréttlætis og væntanlegs réttlætis, en engin sátt næst um að lappa upp á núverandi kerfi, sem hefur rækilega komið sér út úr húsi hjá þjóðinni. Sáttin verður ekki milli þeirra, sem hafa, og hinna, sem hafa ekki.

Sátt getur náðst um, að kalt réttlæti markaðskerfisins verði mildað með því að heimila sveitarfélögum og ríkinu að taka þátt í uppboðum til að ýta hluta af kvótanum til byggða, sem eiga í vök að verjast. Slíkt væri eins konar félagslegur markaðsbúskapur.

Kjarni málsins er, að sáttin, sem næst, verður milli hinna ýmsu sjónarmiða um fyrirkomulag veiðigjaldsins en ekki sátt milli þjóðar og forréttindahópa.

Jónas Kristjánsson

DV

Hádegið

Veitingar

Hádegið frá mánudegi til föstudags er hagkvæmasti tíminn til að fara út að borða, ef fólk getur komið því við fyrir önnum. Þá gilda allt önnur verð en aðra daga, sumpart gjafverð, til dæmis á sumum af beztu veitingahúsum landsins, svo sem í Listasafninu á Holti, Humarhúsinu, Primavera og Þremur Frökkum.

Þetta truflar að vísu lífsstílinn, ef fólk er vant að borða almennilega á morgnana og kvöldin og að fá sér aðeins snarl á hlaupum í hádeginu. Viðskiptamálsverðir, sem voru vinsælir fyrr á árum, eru vegna tímaskorts að mestu úr sögunni. Þetta kann að vera skýringin á, hversu illa veitingahús eru sótt í hádeginu og hversu langt þau ganga mörg hver í tilboðum sínum.

Listasafnið í Holti við Bergstaðastræti býður úrvals þjónustu og breytilegan þriggja rétta matseðil með vali í öllum þáttum fyrir tæpar 1800 krónur. Fyrir þetta verð er boðin matreiðsla, sem að gæðum gefur ekki eftir því, sem boðið er á kvöldin, landsins bezta matreiðsla um þessar mundir, frönsk cuisine nouvelle með ferskum hráefnum, nettum eldunartímum, lítilli fitu og engu hveiti, áherzlu á fisk og grænmeti.

Þriggja rétta matseðill með vali í öllum þáttum er einnig í boði á Primavera við Austurstræti fyrir 1350 krónur. Þar er eldað upp á eins konar ítalska cucina novella, sem er svipuð þeirri frönsku, en einfaldari í sniðum. Primavera er þó ekki eins stílhreint í matargerðarlist og Listasafnið og rambar stundum út af línunni.

Jómfrúin við Lækjargötu er indælt afturhvarf til fortíðar og býður nokkra rétti dagsins að hætti gamaldags danskra frokost-veitingahúsa á tæpar 900 krónur að meðtaltali og enn fjölskrúðugra úrval smurbrauðsneiða að hætti Idu Davidsen á 750 krónur heilar og 475 krónur hálfar.

Aðrir góðir matreiðslustaðir hafa minna úrval í hádegistilboðinu. Þrír Frakkar, í notalegum húsakynnum við Baldursgötu, bjóða ágæta og tæra súpu og fjölbreytt val af vel matreiddum fiskréttum á tæpar 1000 krónur að meðtali.

Humarhúsið við Lækjargötu er í þessum flokki með góða og tæra súpu og val milli nokkurra aðalrétta á tæpar 1200 krónur að meðaltali. Staðurinn sameinar góða og stílhreina matreiðslu og þægileg og stílhrein húsakynni.

Lækjarbrekka í sömu húsaröð við Lækjargötu býður þykka hveitisúpu að íslenzkum hætti og fjölbreytt val misjafnt eldaðra aðalrétta á tæpar 1100 krónur. Þótt eldamennska sé brokkgeng, er þjónusta góð og aðstæður notalegar.

Tilveran við Linnetstíg í Hafnarfirði býður svipaðan kost, þykka hveitisúpu og nokkra aðalrétti á tæpar 900 krónur að meðaltali. Laugaás við Laugarásveg var á svipuðum nótum í stíl og gæðum, en hefur því miður ekki borið sitt barr að undanförnu. Þar kostar súpa og val milli aðalrétta 1300 krónur að meðaltali.

Kínamúrinn við Hlemmtorg hefur léttari matreiðslu og býður súpu og val milli nokkurra aðalrétta á tæpar 600 krónur. Lægra verður tæpast komizt í verðlagi. Kínverska matreiðslan er raunar betri í Kínahúsinu við Lækjargötu, þar sem er boðinn fastur rækjuréttur á tæpar 600 krónur.

Af stöðum með engu eða þröngu vali í hádeginu ber fremsta að nefna Tjörnina við Templarasund, þar sem súpa og fiskur dagsins fást á 1000 krónur. Þarnæst Rex við Austurstræti, þar sem val milli tveggja rétta kostar 1200 krónur. Síðan Iðnó við Tjörnina, þar sem súpa og fiskur dagsins kosta 1600 krónur.

Creole Mex efst við Laugaveg býður súpu dagsins, og val milli nokkurra aðalrétta á tæpar 800 krónur. Caruso við Bankastræti er með tvenns konar val tvíréttað á tæpar 800 krónur. Ítalía við Laugaveg og Hard Rock í Kringlunni bjóða súpu og aðalrétt á 750 krónur. Í Madonnu við Rauðarárstíg kosta súpa og aðalréttur tæpar 800 krónur og á Amigos við Tryggvagötu tæpar 900 krónur.

Góð salatborð eru á nokkrum stöðum, einkum hjá Eika við Fákafen og Pósthússtræti á tæpar 800 krónur, Pottinum og pönnunni við Nóatún á tæpar 900 krónur og á Aski við Suðurlandsbraut.

Yfirleitt eru þetta staðir, sem hafa fengið jákvæða umsögn í veitingarýni DV á undanförnum mánuðum. Fleiri staðir eru á lágum nótum í hádegisverði, en státa ekki af svo frambærilegri matreiðslu, að hægt sé að mæla með þeim.

Jónas Kristjánsson

DV

Atkvæðisréttur keyptur

Greinar

Að tilhlutan nefndar um kjördæmabreytingar hefur verið lagt til, að landsbyggðin fái einn milljarð á ári næstu árin fyrir aukinn atkvæðisrétt íbúa Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis. Þetta er umfangsmesta verzlun með atkvæðisrétt, sem átt hefur sér stað hér á landi.

Til þess að ná sátt í kjördæmanefndinni um jöfnun atkvæðisréttar var samþykkt í henni að fá skipaða aðra nefnd um vanda landsbyggðarinnar. Sú nefnd hefur nú skilað áliti, sem felur í sér milljarð á ári í sérstakar aðgerðir til að jafna búsetuskilyrði í landinu.

Þegar formaður nefndarinnar segir bláeygur, að ekkert innra samhengi sé í þessu ferli og að engin verzlun hafi átt sér stað, er hann vísvitandi að fara með rangt mál og niðurlægja sjálfan sig sem vitsmunaveru. Verzlunin er uppi á borðum og í allra augsýn.

Skynsamlegt getur verið að kaupa framfarir á þennan hátt til þess að fá um þær meiri sátt. Hrossakaup geta verið eðlileg aðferð til að koma málum fram, þegar ekki er verið að fela neitt fyrir fólki. Því er óþarfi að vera með ólíkindalæti út af niðurstöðu nefndanna tveggja.

Landsbyggðin hefur haft frumburðarrétt umfram þéttbýlið í vægi atkvæða. Hún er nú að selja megnið af þessum frumburðarrétti fyrir peninga. Menn gátu ekki staðið gegn jöfnun atkvæðisréttar, en heimtuðu að fá nokkra milljarða fyrir sinn snúð og munu fá þá.

Húshitunarkostnaður verður jafnaður á þann hátt, að hann verði “hvergi meiri en hjá meðaldýrum hitaveitum”, eins og það er fágætlega orðað í tillögunni. Markaðslögmálum verður kippt úr sambandi, svo að þau hvetja ekki lengur til sparnaðaraðgerða í húshitun.

Framlög verða aukin til námskostnaðar dreifbýlisfólks og afsláttur veittur af endurgreiðslum þeirra, sem setjast að á landsbyggðinni að námi loknu. Munu þeir greiða 3,75% af útsvarsstofni í stað 4,75%. Ennfremur verður aukin endurgreiðsla á ferðakostnaði sjúklinga.

Þar sem fækkun íbúa hefur verið mest verða vegaframkvæmdir auknar, þar á meðal borun fjalla. Jafnframt eiga sveitarfélög á þessum svæðum að fá meira af sameiginlegu skattfé, án þess að heildarskattheimta aukist, sem þýðir, að önnur sveitarfélög fái minna.

Þetta er verzlun, sem ekki þarf að rökstyðja á annan hátt en sem verzlun, þar sem hluti landsmanna fær atkvæðisrétt, sem hann sækist eftir, og annar hluti fær fé og þjónustu, sem hann sækist eftir. Marklaust er að halda fram, að þetta sé líka þjóðhagslega hagkvæmt.

Samt rennur bullið upp úr formanni nefndarinnar, sem segir sveitarfélög í þéttbýli spara 3­5 milljónir á hverjum þeim, sem ekki flytst þangað. Þá tekur hann ekki tillit til útsvars og annarra gjalda, sem nýir íbúar sveitarfélaga leggja af mörkum eins og aðrir.

Þjóðhagslega er hagkvæmt, að byggðin í landinu þjappist saman og njóti sparnaðar af aukinni nálægð fólks. Fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu er þar að auki til þess fallin að draga úr fólksflótta til útlanda og er þannig eina raunhæfa byggðastefnan hér á landi.

Þótt þjöppun byggðar sé þjóðhagslega hagkvæm, þarf hún þar með ekki að vera pólitískt hagkvæm. Meiri sátt er milli manna í landinu í heild, ef reynt er að setja upp byggðagildrur til að fá fólk ofan af því að flytja úr litlum plássum í stærri. En það eru samt byggðagildrur.

Fulltrúar dreifbýlisins vilja halda kjósendum sínum í gíslingu og fulltrúar þéttbýlisins vilja aukinn atkvæðisrétt kjósenda sinna. Um þetta hefur nú verið verzlað.

Jónas Kristjánsson

DV