Skjaldborg kamfýlumanna

Greinar

Kamfýlugerlamálið er einfalt dæmi um, að staðbundnir og pólitískir hagsmunir eru teknir fram yfir almannahagsmuni. Kjúklingabúinu að Ásmundarstöðum hefur ekki verið lokað og sýkingarsvæðið hreinsað, og ekki hefur lögreglan rannsakað vinnuferli Holtakjúklings.

Málið er einfalt. Um 40 manns sýktust af kamfýlugerli á ári hverju fram eftir áratugnum. Árin 1996 og 1997 tvöfölduðust tilvikin upp í um 90 á ári. Í fyrra tvöfölduðust þau aftur og urðu alls 220. Í ár hafa þau enn tvöfaldazt og eru komin í 255 sýkingar á miðju ári.

Áður var kamfýlugerill lítt þekktur hér á landi eins og í Noregi og í Svíþjóð. Á fáum árum hefur sprenging orðið í skráðum veikindum af völdum hans hér á landi, án þess að heilbrigðisyfirvöld hafi tekið af festu á málinu. Raunar hefur sýkingunum verið haldið leyndum.

Könnun í fyrrahaust benti til, að ástandið hjá Holtakjúklingi væri alvarlegt. Tveir þriðju hlutar mældra kjúklinga höfðu kamfýlugeril, allir frá því fyrirtæki. Samt gerðist ekkert og hefði ekki gerzt, ef Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hefði ekki tekið á sig rögg í sumar.

Að mati pólitískt skipaðrar Heilbrigðisnefndar Suðurlands er frumkvæði starfsmanna Heilbrigðiseftirlits Suðurlands nógu alvarlegt til að krefjast lögreglurannsóknar á frumkvæðinu, þótt ekki sé talin ástæða lögreglurannsóknar á Holtakjúklingi og Ásmundarstaðabúinu.

Einn alþingismaður, Hjálmar Árnason, sem ætlar að bjóða sig fram í kjördæmi Rangárvallasýslu í næstu kosningum, hefur sagt, að starfsmenn eftirlitsins hafi brotið lög um þagnarskyldu. Alþingismaðurinn hefur hins vegar ekki neinar áhyggjur af heilsu neytenda.

Umhverfisráðuneytið, hinn nýi landlæknir og Hollustuvernd ríkisins segja ekki ástæðu til að verða við kröfu Neytendasamtakanna um að innkalla vörur frá Ásmundarstaðabúinu. Landlæknir segir þó, að búast megi við fleiri tilvikum kamfýlusýkingar á næstunni.

Héraðsdýralæknir, heilsugæzlulæknir og heilbrigðisnefndarformaður svæðisins, allir í sama fínimannsklúbbnum, bera blak af Holtakjúklingi. Héraðsdýralæknirinn hefur miklar tekjur af fyrirtækinu og segir starfsmenn heilbrigðiseftirlitsins hafa farið offari.

Forstjóri Holtakjúklings hefur áður lent í svipuðu máli, þegar hann var stjórnarformaður annars fyrirtækis, sem olli illræmdri sýkingu af völdum kjúklinga í Búðardal. Ítrekuð ástæða er því til að spyrja, hvort hann sé fær um að stjórna fyrirtæki í matvælaiðnaði.

Holtakjúklingur hefur áður lent í fréttum fyrir sóðaskap, þegar DV upplýsti, að úrgangi kjúklingasláturhússins á Hellu var formálalaust veitt út í Rangá. Þá var blaðið sakað um að fara offari, en ráðamenn neyddust til að knýja sláturhúsið til úrbóta í frárennslismálum.

Við höfum þannig reynslu af röð vandamála, sem tengjast einni persónu og einu fyrirtæki. Við sjáum hvernig ráðamenn í héraði og landsstjórn slá skjaldborg um fyrirtækið og saka fjölmiðla og starfsmenn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands um ofsóknir gegn því.

Skelfilegast við þetta mál er, að það er tilviljun, að við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands starfa tveir menn, sem taka starf sitt alvarlega. Ef þeir hefðu ekki samið skýrslu um ástandið á Ásmundarstöðum án vitundar ráðamanna í héraði, vissu neytendur ekki enn um gerilinn.

Mál þetta sýnir, að ráðamönnum í héraði og landsstjórn er skítsama um heilsu neytenda og vilja ná sér niðri á þeim, sem komu upp um sóðaskapinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Borgarstjórn skaðar Laugardal

Greinar

Umhverfisslys borgarstjórnar Reykjavíkur í Laugardal minnkar ekki við, að stjórnmálaandstæðingar hafi í vetur verið samþykkir því að mestu eða að forverar þessara andstæðinga hafi fyrir aldarþriðjungi sett það inn á borgarskipulagið við allt aðrar aðstæður.

“Þeir voru ekkert skárri en ég”, er borgarstjóri að segja, þegar hún afsakar sig með tilvísun til fyrrverandi og núverandi pólitíkusa borgarinnar. Röksemdafærsla borgarstjórans hefur frá ómunatíð fylgt billegum pólitíkusum, sem ekki nenna að verja málstaðinn.

Á sama hátt beita ráðherrar ríkisstjórnarinnar því fyrir sig, að forverar þeirra hafi á sínum tíma samþykkt virkjun, sem færir Eyjabakka í kaf. “Ekki benda á mig”, segja Halldór, Finnur og Siv, alveg eins og Ingibjörg Sólrún. Lélegir pólitíkusar vísa frá sér ábyrgð.

Umhverfisslysin hófust snemma í Laugardal. Fyrsta stórslysið varð, þegar leyft var að byggja í Skeifunni og Fenjunum í stað þess að búa til beina tengingu milli gróðurvinjanna í Laugardal, Elliðaárdal og Fossvogsdal. Á þeim tíma skildu fáir gildi opinna svæða.

Lungu borgarinnar skipta miklu, hvort sem þau eru notuð til útivistar eða ekki. Þau skapa víddir, draga úr innilokunarkennd og bjóða útivistarkosti, sem síðar meir verða mikils metnir af fólki, þegar áhugi á náttúru og útivist hefur aukizt enn frá því, sem nú er.

Sú plága hefur löngum fylgt borgaryfirvöldum að telja sig þurfa að þétta byggðina til að ná fram meiri hagkvæmni. Þetta varð einkum til vandræða á fyrra valdaskeiði vinstri flokkanna í Reykjavík og hefur aftur verið sett á oddinn af ráðamönnum Reykjavíkurlistans.

Afleiðingarnar hafa ekki bara orðið umhverfisslys, heldur einnig umferðarslys. Hanna hefur orðið ný umferðarmannvirki á dýran, óhagkvæman og hættulegan hátt, af því að svigrúm þeirra er of lítið. Þannig var til dæmis byggt ofan í núverandi Höfðabakkabrú.

Skipulagsfræðingar hafa aldrei getað svarað einfaldri spurningu: Hvers vegna þarf að skipuleggja allt núna, í stað þess að leyfa hlutunum að dankast, svo að eitthvað sé eftir fyrir afkomendur okkar að skipuleggja, þegar aðstæður eru orðnar allt aðrar en þær eru núna?

Í Laugardal er afar vinsæl borgarstofnun, Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn, vinsæll áningarstaður barnafólks. Hvorn garð um sig þarf að þrefalda að stærð til að mæta kröfum náinnar framtíðar. Grasgarðinn þarf líka að vera hægt að stækka, þegar tímar líða fram.

Með því að leyfa byggingu Landssíma- og skemmtihúsa á þessu gróðursæla svæði er borgarstjórinn í Reykjavík að þakka fyrir kosningapeninga og hindra umtalsverða stækkun hinna vinsælu garða, þrengja þróunarkosti og skaða langtímahagsmuni.

Þótt menn hafi árið 1962 ekki séð þörfina fyrir opin svæði í Laugardal, er hægt að sjá hana árið 1999. Þess vegna ber borgaryfirvöldum að fella úr gildi úrelt skipulagsákvæði og samþykkja ný, sem taka tillit til, að ýmsu getur farið fram í borgarlífinu á aldarþriðjungi.

Því ber að afturkalla skaðlegar hugmyndir borgaryfirvalda um byggingu símahúss og skemmtihúss í Laugardal og leyfa afkomendum okkar að ráða, hvað verður gert við svæðið. Á meðan má einfaldlega hafa þar tún og beitiland fyrir húsdýr og hesta.

Fólk má ekki bíta sig í gamlar ákvarðanir frá frumstæðari tímum. Tíminn er fugl, sem flýgur hratt og flytur okkur ný gildi með nýjum kynslóðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Reynt að stela innviðunum

Greinar

Flestum finnst eðlilegt, að samfélagið eigi sjálft helztu innviði sína, svo sem samgöngumannvirki á borð við vegi, hafnir og flugvelli, þótt aðrir eigi tækin, sem nota innviðina, svo sem bíla, skip og flugvélar. Slík mannvirki eru raunar einn af hornsteinum ríkisvaldsins.

Sárafáar undantekningar eru til. Hvalfjarðargöng voru talin áhættusöm framkvæmd og því var hún afhent einkaaðilum með þeim skilmálum, að mannvirkið rynni til ríkisins að liðnum ákveðnum úreldingartíma fjárfestingarinnar. Göngin verða því ríkiseign að lokum.

Stundum gleyma menn, að símakerfi landsins er að hluta samgöngumannvirki á borð við vegi, hafnir og flugvelli. Burðarlínur símakerfisins eru raunar engu ómerkari en helztu mannvirki annarra samgönguþátta. Þær ætti ekki að láta í hendur fyrirtækja úti í bæ.

Ljósleiðarakerfi landsins er burðarás síma, tölvusamskipta og sjónvarps. Það var að meirihluta kostað af varnarliðinu á Keflavíkurvelli til að tengja völlinn við eftirlitsstöðvar í öllum landshornum og er þannig um leið sjálft æðakerfið í öryggismálum landsins.

Landssíminn er öðrum þætti þjónustufyrirtæki, sem notar ljósleiðarana í samkeppni við önnur fyrirtæki, sem vilja veita þjónustu í síma, tölvusamskiptum eða sjónvarpi. Þetta er það, sem þarf að skilja í sundur, þegar þjónustuhlutverk Landssímans verður einkavætt.

Við þurfum að eiga sérstaka ríkisstofnun utan um ljósleiðarana, þótt við gefum allt frjálst í umferðinni um þá, rétt eins og ríkið á vegina og veitir öllum frjálsan aðgang að þeim. Við megum ekki vera upp á einkavædda einokun komin á þessu mikilvæga samgöngusviði.

Landssímann má alls ekki selja sem einn einokunarpakka. Skilja verður milli ólíkra rekstrarþátta hans og selja símaþjónustuna sér og margmiðlunina sér, en halda stofnæðakerfinu eftir í sérstakri stofnun, sem hefur samgöngu- og öryggisskyldur ríkisins á herðunum.

Ástæða er til að óttast, að ríkisstjórnin sé höll undir hugmyndir um söluferli, sem leiði til þess, að ríkiseinokun breytist í einkaeinokun. Stofnaður hefur verið sérstakur Íslandssími, sem ekki keppir í þjónustu, heldur bíður færis að kaupa sig inn í Landssímann.

Einn helztu ráðamanna Íslandssíma sat í framtíðarnefnd Landssímans og nú hefur stjórnarmaður Íslandssíma verið gerður að framkvæmdastjóra Landssímans. Við sjáum þegar fyrir okkur ferli, þar sem Landssíminn verði einkavinavæddur upp á rússnesku.

Ef ráðagerð þessi tekst, verður það meiriháttar framsal landsréttinda í hendur einkaaðila og minnir helzt á framsal auðlinda sjávar í hendur sægreifanna. Munurinn er sá, að auðlindaframsalið var margra ára ferli, en símann hyggjast menn fá með einum hælkrók.

Þjóðin er svo upptekin af brauði og leikjum, að hún hefur ekki mátt til að skipta sér af þessu. Hún reynist í skoðanakönnunum vera andvíg framsali auðlinda sjávar í hendur sægreifanna, en hefur ekki burði til að taka afleiðingum skoðana sinna í einrúmi kjörklefans.

Einkavinir ríkisvaldsins hafa tekið eftir auðnuleysi íslenzkra kjósenda, sem láta allt yfir sig ganga, ef þeir fá bara brauð og leiki. Kolkrabbinn gengur því hreint til verks að þessu sinni og ætlar sér að eignast og einoka ljósleiðarakerfi landsins með einu pennastriki.

Enn er tími til að átta sig á nýrri birtingarmynd einokunarinnar og rísa gegn framsali landsréttinda í samgöngum eins og í auðlindum lands og sjávar.

Jónas Kristjánsson

DV

Guðsþakkaverk ráðherra

Greinar

Hafa má til marks um afturhaldssemi íslenzka stjórnkerfisins, að enn tíðkast, að hver ráðherra hafi að meðaltali um átta milljónir króna á ári til að gefa húsgangsmönnum fyrir sálu sinni, rétt eins og höfðingjar fyrri alda, sem dreifðu skildingum til beiningamanna.

Þannig gefur forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar aura til að klifra fjallið Ama Dablam, landbúnaðarráðherra aura til alþjóðlegrar ráðstefnu samkynhneigðra í Hollandi og menntamálaráðherra aura til minningarathafnar um Allen Ginsberg í New York.

Sameiginlegt einkenni allra guðsþakkaverka ráðherranna er, að tilviljun ræður, hver verður fyrir mildi höfðingjans. Ein björgunarsveit fær aura, en ekki hinar 20. Ein ráðstefna fær aura, en ekki hinar 200 Ein minningarathöfn fær aura, en ekki hinar 2000..

Þannig var þetta fyrr á öldum, þegar höfðingjar fóru um stræti og létu þjóna sína dreifa skildingum til brots af þeim bágstöddu, sem urðu á vegi þeirra. Ekki var spurt, hverjir væru verðastir gjafanna, því að þetta voru guðsþakkaverk, sem gerðu höfðingjana hólpna.

Það sem skilur lýðræðisþjóðfélag nútímans frá þjóðfélögum fyrri tíma er samt einmitt andstæðan við þessa gömlu guðsþakkaaðferð við að dreifa peningum um þjóðfélagið. Geðþóttaákvarðanir fyrri tíma hafa verið leystar af hólmi af fastmótuðum leikreglum réttarríkisins.

Til að jafna aðstöðumun í þjóðfélaginu eru sett upp form og reglur, sem farið er eftir. Þannig eru kerfisbundnir afslættir í skattakerfinu og öllum útveguð skólaganga og heilsugæzla nánast ókeypis. Þeir, sem fullnægja ákveðnum skilyrðum njóta jöfnunarinnar.

Í lýðræðisþjóðfélagi er reynt að finna leikreglur, sem segja, hvernig skuli dreifa peningum til björgunarsveita, svo að úthlutunin geti verið helzt sjálfvirk með öllu, en að öðrum kosti byggð á faglegu mati. Úrelt er, að ráðherrar mismuni björgunarsveitunum persónulega.

Við búum við afdankað kerfi guðsþakkaverka ráðherranna, af því að lýðræðishugsun hefur ekki náð að skjóta rótum. Það gleður hjarta ráðherranna að finna þakklæti hinna heppnu, sem lofa og prísa hann fyrir gjafmildina, rétt eins og ölmusumenn og aumingjar fyrri alda.

Það er hluti af íslenzku þjóðfélagi, að ráðherrar fái hver átta milljón króna sjóð á hverju ári til að gefa fyrir sálu sinni. Annars staðar í heiminum færi slík úthlutun fram eftir fyrirfram skilgreindum reglum á vegum faglegs aðila eða væri helzt sjálfvirk með öllu.

Hér ákveður menntamálaráðherra hins vegar persónulega, að meiri þörf sé á ritun bókar um sögu Loftleiða og Flugleiða í Luxemborg en annarra bóka á íslenzku og að nokkrir fjölbrautarskólanemar frekar en aðrir Íslendingar fari í heimsókn til Evrópusambandsins.

Einna skrautlegust eru guðsþakkaverk iðnaðarráðherra, sem tíðkar að gefa nýsköpunarstyrki til þeirra, sem lengst ganga í að apa það eftir, sem aðrir voru búnir að gera styrkjalaust. Styrkir ráðherrans ættu að heita eftiröpunarstyrkir, en ekki nýsköpunarstyrkir.

Fyrir utan átta milljónir á hvern ráðherra hafa ráðuneytin ýmsa óskipta liði til guðsþakkaverka framhjá lögum og reglum þjóðfélags, sem stærir sig af jafnrétti borgaranna. Þetta gerir ýmsum lykilmönnum ráðuneyta kleift að baða sig í lofi og prísi stafkarla.

Þannig starfar staðnað afturhaldsþjóðfélag, sem af og til er knúið gegn vilja sínum til framfara og aukins lýðræðis með tilskipunum frá Evrópusambandinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Kvikmyndir ógna okkur

Greinar

Kvikmyndagerð er orðin að meiri háttar ógnun við vestrænt nútímasamfélag. Erfitt er að komast undan linnulausum ofbeldissýningum, sem meira að segja er lætt að okkur í auglýsingum innan í friðsælum fréttatímum, þar sem fólk á bara von á Kosovo-fréttum.

Kvikmyndastjórar í Hollywood hafa um langt skeið reynt að yfirkeyra hver annan og sínar fyrri kvikmyndir með firrtara ofbeldi en nokkru sinni fyrr. Heimsmynd margra kvikmynda, sem auglýstar eru sjónvarpi, er ekki í neinu samhengi við veruleika daglegs lífs.

Draumaverksmiðjan er í vaxandi mæli að breytast í verksmiðju martraða, þegar ekki er unnt að komast hjá þeirri áleitnu hugsun, að geðveikt fólk sé að sníða kvikmyndir fyrir geðveikt fólk. Staðreyndin er hins vegar, að markaðurinn kallar á þessar gerðir kvikmynda.

Ógeðið er inni á gafli hjá fólki í kvikmyndasýningum og kvikmyndaauglýsingum í sjónvarpi, sem hefur tekið við uppeldishlutverki heimilanna. Ómótuð börn sitja lon og don fyrir framan nýja uppeldistækið og eru þá ekki að trufla önnum kafna foreldra á meðan.

Lengst af var erfitt að sýna fram á bein tengsli milli ofbeldis í kvikmyndum og afsiðunar fólks. Í seinni tíð hafa rannsóknir þó bent til, að ofbeldiskvikmyndir séu þáttur í flóknu orsakasamhengi, þar sem vopnaeign, fíkniefni og félagslegt samhengi skipta líka máli.

Fjöldamorð í bandarískum menntaskólum eru ein afleiðing vítahrings, þar sem ofbeldiskvikmyndir eru einn þátturinn af mörgum. Kvikmyndir, sem sýna afsiðaðan gerviheim á myndrænan hátt, stuðla að afsiðun hins raunverulega heims vestrænna lýðræðisríkja.

Þjóðskipulag okkar stendur og fellur með leikreglum, sem meðal annars fela í sér, að lög og réttur koma í stað ofbeldis. Þegar þjóðfélagið afsiðast smám saman, meðal annars fyrir áhrif kvikmynda, holast leikreglurnar að innan og síðast fellur þjóðskipulagið sjálft.

Norðmenn hafa gengið þjóða lengst í að reyna að verjast ásókn martraðanna frá Hollywood. Þeir hafa harðskeytt kvikmyndaeftirlit, sem klippir kvikmyndir og bannar. Enn harðari er Óslóborg, sem á sjálf tæplega þriðjung af öllu sætaframboði bíóa í landinu.

Á Íslandi hefur verið reynt að fara meðalveg, sem er algengur á Vesturlöndum. Kvikmyndir eru merktar með aldurstakmörkunum, sem óbeint minna á viðvaranir á tóbaksumbúðum og áletranir um erfðabreytingar, sem Evrópusambandið er að láta setja á matvæli.

Hins vegar vantar jarðveginn fyrir merkingar af slíku tagi. Börnin læra hvorki heima hjá sér né í skólum að lesa innihaldslýsingar og viðvaranir á umbúðum. Það gildir um þetta eins og önnur svið neyzlu, að almenningur er að mestu leyti viljalaus leiksoppur seljenda.

Ástæða er til að ætla, að háar tölur í aldursbanni hvetji suma frekar en letji til notkunar á ógeðslegum kvikmyndum. Bezt væri raunar að banna þær alveg, en það er ekki raunhæft, af því að þær munu smjúga um gervihnetti gegnum möskva siðalögreglunnar.

Neyzluþjóðfélög Vesturlanda munu drukkna í ofbeldiskvikmyndum, fíkniefnum og annarri kaldrifjaðri framleiðslu, nema þeim takist að ala upp neytendur, sem eru færir um að velja og hafna af allsnægtaborðinu, sem otað er að þeim af mikilli og vaxandi markaðstækni.

Að óbreyttu munu Vesturlönd hljóta sömu örlög og Rómaveldi og önnur heimsveldi fyrri tíma, að ná hátindi veldis út á við, en grotna að innan og hrynja.

Jónas Kristjánsson

að er að þeim.

DV

Nóttin verður löng í Serbíu

Greinar

Slobodan Milosevic er ekki stóra vandamálið í arfaríkjum Júgóslavíu á Balkanskaga. Engan vanda leysir að leggja fimm milljónir dollara til höfuðs honum. Hann er að vísu með afbrigðum kaldrifjaður, en ýmsir aðrir helztu stjórnmálamenn Serba eru enn verri.

Við vitum af langri og biturri reynslu, hvar við höfum Milosevic. Slægð hans er orðin öllum opin bók, jafnvel ráðamönnum Vesturveldanna, sem árum saman ímynduðu sig vera að semja við hann um hitt og þetta. Menn vita, að hann mundi roðna, ef hann segði satt.

Stjórnarandstæðingurinn Vuk Draskovic er raunar enn þjóðernissinnaðri en Milosevic, ákaflega tækifærissinnaður, ýmist innan eða utan stjórnar, síður en svo traustvekjandi. Zoran Djindjic er talinn í húsum hæfur á Vesturlöndum, en nýtur sáralítils fylgis í Serbíu.

Sjálfur hefur Milosevic um 20% fylgi í Serbíu, sama fylgi og fyrir stríðið í Kosovo. Uppþot víða um landið sýna, að margir landa hans eru honum reiðir, en það er ekki fyrir brjálaða framgöngu manna hans í Kosovo, heldur fyrir að láta herinn leggja á flótta.

Í stríðslok var vígamáttur Serbahers nánast óskertur. Sem dæmi má nefna, að einungis þrettán skriðdrekar höfðu verið eyðilagðir í loftárásum Vesturveldanna. Mannfall var sáralítið í hernum fram á allra síðustu daga. Hann hefði vel getað varizt lengi enn.

Rússar fengu Milosevic til að gefast upp með því að segja honum, að hann væri með framgöngu sinni búinn að koma sér úr húsi hjá þeim og ætti þaðan engrar hjálpar að vænta. Serbía stóð ein í heiminum, með stuðningi nokkurra rómantískra sagnfræðinga á Íslandi.

Serbar sjálfir eru vandamál Balkanskaga. Þeir hafa komið sér upp sagnfræði, sem réttlætir allar gerðir þeirra. Þeir styðja til valda ofstækis- og ofbeldismenn og eru upp til hópa sannfærðir um, að fólkið í Kosovo hafi flúið undan loftárásum Atlantshafsbandalagsins.

Hættulegt er að gæla við hugmyndir um valdarán í Serbíu að undirlagi Vesturveldanna. Jarðvegurinn í landinu er með þeim hætti, að upp úr honum rísa nánast eingöngu óbótamenn í stjórnmálum. Þegar Milosevic fer, er líklegt, að eftirmaðurinn verði engu skárri.

Óráðlegt er að hafa önnur afskipti af innanríkismálum Serba en að koma í veg fyrir, að ofbeldishneigð þeirra komi niður á Ungverjum á sjálfstjórnarsvæðinu Vojvodina og Svartfellingum. Enn þarf að verja nánasta umhverfi þjóðarinnar fyrir Íslandsvininum Arkan.

Ekki er síður óráðlegt að fara að ráðum Martti Ahtisaari Finnlandsforseta og styrkja endurreisn innviða og atvinnulífs landsins. Engin ástæða er til að byrja á neinu slíku fyrr en Serbar hafa sem þjóð horfzt í augu við glæpina, sem framdir hafa verið í nafni þeirra.

Vesturveldin hafa nóg að gera og borga við að byggja upp innviði og atvinnulíf þeirra svæða, sem Serbar hafa rústað í Bosníu og Kosovo, svo og til að treysta lýðræði í löndunum í kring, Makedóníu, Albaníu, Búlgaríu og Ungverjalandi, sem studdu stríð Vesturveldanna.

Óformlegt bandalag ríkja Balkanskaga gegn Serbíu hefur gefið Vesturveldunum góðan jarðveg til að efla samstarf við þau og stuðla að varanlegu lýðræði og efnahagsframförum á skaganum, á svipaðan hátt og gerðist í Mið-Evrópu eftir andlát Varsjárbandalagsins.

En að sinni er enginn jarðvegur fyrir vestrið í Serbíu, þar sem lærðir og leikir ásaka Milosevic fyrir það eitt að hafa tapað Kosovo í hendur villutrúarmanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Samkeppnisráð fann töfrabil

Greinar

Samkvæmt niðurstöðum Hæstaréttar og Samkeppnisráðs er til eitthvert þröngt töfrabil, þar sem fyrirtæki eða samsteypur fyrirtækja verða markaðsráðandi og þar af leiðandi áhyggjuefni. Sé komið upp fyrir þetta bil, er ekki lengur tilefni til aðgerða af opinberri hálfu.

Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð Samkeppnisstofnunar gegn yfirtöku Flugfélags Íslands á Flugfélagi Norðurlands á þeim forsendum, að markaðshlutdeild fyrrnefnda félagsins hefði verið orðin 85­90% fyrir samrunann og það því búið að verða markaðsráðandi áður.

Samkeppnisráð hefur nú þrengt túlkun Hæstaréttar með því að úrskurða að yfirtaka Baugs á 10-11 verzlunarkeðjunni stríði ekki gegn samkeppnislögum, af því að Baugur hafi fyrir samrunann verið orðinn markaðsráðandi með um það bil 50% af smásölumarkaðinum.

Samkvæmt þessu vitum við, að einhvers staðar vel innan við 50% markaðshlutdeildar er til eitthvert töfrabil, þar sem fyrirtæki brjóta í bága við 18. grein samkeppnislaga, ef þau gleypa annað fyrirtæki. Þetta gæti verið einhvers staðar á bilinu 30­40%.

Við getum ekki ímyndað okkur, að fyrirtæki með 20% markaðshlutdeild sé markaðsráðandi. Algengt er hér á landi, að fyrirtæki séu með 20% markaðshlutdeild án þess að vera stærsta fyrirtækið á markaðinum.Töfrabilið hlýtur því að vera 30­40% markaðshlutdeild.

Ef fyrirtæki á einokunarbraut hefur komið sér upp úr þessu þrönga bili, er það orðið stikkfrí fyrir Samkeppnisráði, svo sem dæmið sannar. Þetta þrengir að sjálfsögðu svigrúmið til að beita samkeppnislögum og gerir þau að ónýtu tæki gegn einokunarhneigð.

Freistandi er að álykta 85­90% niðurstöðu Hæsaréttar vera léttgeggjað rugl og 50% niðurstöðu Samkeppnisráðs vera botnlaust rugl. Samt verður að viðurkenna, að orðalag 18. greinar samkeppnislaga kann að vera svo villandi, að það geri lögin máttlaus með öllu.

Ef Alþingi er þeirrar skoðunar að samkeppnislög séu nauðsynlegur hemill á einokunartilburði, þarf það að flýta sér að laga 18. greinina í haust. Í nýrri grein þarf að skilgreina, á hvaða bili markaðshlutdeildar er ástæða til að hafa áhyggjur af einokunarhneigð fyrirtækja.

Þótt ábyrgðin sé á endanum Alþingis, verður ekki hjá því litið, að Samkeppnisráð hefur farið frjálslega með niðurstöðu Hæstaréttar. Þótt einokun sé að mati dómstólsins fullnustuð við 85% markaðshlutdeild, þýðir það ekki, að hún sé einnig fullnustuð við 50%.

Samkeppnisráð hefur sjálft ákveðið að spila sig stikkfrí í einokun og getur ekki falið sig á bak við dóm Hæstaréttar. Ráðið hefur teygt og togað sérlunduðu rökfræðina í dómi réttarins langt út fyrir gráa svæðið og gert hana að hreinum og séríslenzkum skrípaleik.

Við getum orðað þetta svo, að dómur Hæstaréttar kann að standast skoðun æðri og betri dómstóla úti í Evrópu, en úrskurður Samkeppnisráðs mun ekki standast neina skoðun. Dómstóllinn er byrjaður að laga sig að umheiminum, en ráðið er það engan veginn.

Kjarni málsins er, að Samkeppnisstofnun hefur ekki nennt að taka efnislega afstöðu til málsins eða verið knúið til að gera það ekki, nema hvort tveggja sé. Tilvísun ráðsins til dóms Hæstaréttar er yfirklór til að réttlæta niðurstöðu, sem fengin er á annan hátt.

Sú óbeina niðurstaða Samkeppnisráðs, að einokun sé fullnustuð við 30­40% markaðshlutdeild, kann svo að verða Pandórukistill, sem gaman væri að hvolfa úr.

Jónas Kristjánsson

DV

Ekta hestar og Camembert

Greinar

Nýr landbúnaðarráðherra okkar vill fá lækkaða tolla á íslenzkum hestum í útlöndum í kjölfar fréttar í DV um, að þýzka tollgæzlan sé að rannsaka meint tollsvik í innflutningi þeirra. Mikið er í húfi, því að hestar eru eina arðbæra útflutningsafurð landbúnaðarins.

Evrópskir tollar á íslenzkum hestum og eftirlit af hálfu tollgæzlu eru nákvæm endurspeglun íslenzkrar landbúnaðarstefnu. Þýzkir framleiðendur íslenzkra hesta njóta stuðnings yfirvalda við að vernda atvinnu sína nákvæmlega eins og íslenzkir bændur njóta.

Við getum tekið dæmi af ostinum Camembert, sem fundinn var upp í Frakklandi árið 1791. Innan Evrópusambandsins má enginn annar nota þetta heiti um eftirlíkingar af ostinum, en utan sambandsins er mikið um falsaðan Camembert, þar á meðal á Íslandi.

Nú má flytja til Íslands raunverulegan Camembert frá Frakklandi, en þá er settur á hann nokkur hundruð prósenta tollur til að verja eftirlíkinguna, sem framleidd er hér á landi. Við þurfum því ekki að verða hissa, þótt Evrópumenn geri slíkt hið sama við íslenzka hesta.

Munurinn á Íslandi og Evrópusambandinu er aðeins sá, að þar nema tollarnir nokkrum tugum prósenta, en ráðuneyti Guðna Ágústssonar lætur leggja á tolla, sem nema nokkrum hundruðum prósenta. Ísland er tíu sinnum harðskeyttara en Evrópusambandið.

Við eðlilegar aðstæður í heiminum mundu þeir vera látnir um að framleiða vöruna, sem bezt kunna á hana. Við eðlilegar aðstæður fengju allir að kaupa ekta Camembert án verndartolla og að kaupa ekta Íslandshesta, ræktaða á Íslandi, án verndartolla.

Stefna íslenzkra stjórnvalda á liðnum áratugum og í nútímanum hefur hins vegar stuðlað að því ástandi, að erlendir ræktendur íslenzkra hesta eru orðnir sjálfum sér nógir og vilja hafa heimamarkaðinn í friði fyrir þeim, sem streitast við að flytja hesta frá Íslandi.

Þetta er sjálfsþurftarstefnan, sem við þekkjum einstaklega vel hér á landi. Við eigum að vera sjálfum okkur nóg í framleiðslu búvöru, segja íslenzkir talsmenn kerfisins, sem nú er að drepa hrossaræktina. Þetta er nákvæmlega það, sem erlendir hrossaræktendur vilja.

Við skulum hafa alveg á hreinu, að það er Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra persónulega og allir hans nótar, sem bera ábyrgð á því, að útflutningur íslenzkra hesta er orðinn að fórnardýri stefnunnar, sem þeir hafa rekið áratugum saman og reka enn.

Það bylur því í ráðherranum eins og tómri tunnu, þegar hann grætur tolla á íslenzkum hrossum í útlöndum. Við hann sjálfan er að sakast, en ekki við þau ríki eða ríkjasambönd, sem við höfum samið við um gagnkvæma verndun innlendra landbúnaðarafurða.

Það er íslenzk landbúnaðarstefna, sem hindrar, að eina marktæka útflutningsafurð íslenzks landbúnaðar fái að njóta sín eins og hún á skilið. Um allan heim er mikill og ört vaxandi markaður fyrir íslenzka hesta á góðu verði, en útlendingar hirða markaðinn.

Íslenzkir hestar, ræktaðir við náttúrulegar aðstæður á Íslandi, eru betri en hestar sömu ættar, sem ræktaðir eru við aðrar aðstæður í útlöndum, til dæmis fótvissari og frjálslegri. En þeir eru þó fyrst og fremst ekta, rétt eins og franskur Camembert er ekta vara.

Herferð þýzka tollsins gegn hestum frá Íslandi er bein afleiðing þeirrar skaðlegu og íslenzku stefnu, að hver þjóð skuli vera sjálfri sér nóg í framleiðslu búvöru.

Jónas Kristjánsson

DV

Stjórnlausir sniglar

Greinar

Vegamálastjóri og borgarverkfræðingur hafa valdið íbúum höfuðborgarsvæðisins og öðrum þeim, sem þar eiga erindi, gífurlegum kostnaði í eldsneyti og töfum vegna umferðarteppu, einkum á leiðum úr Borgarholti, Mosfellssveit og utan af landi til Reykjavíkur.

Ekki er unnt að sjá, að embættismennirnir hafi tekið neitt tillit til óþæginda notenda við skipulag og útboð framkvæmdanna. Á hverjum stað standa þær yfir mánuðum saman og valda reglubundnum töfum á helztu álagstímum sólarhringsins og vikunnar.

Á sunnudaginn keyrði óreiða embættismanna um þverbak, þegar biðröðin á leiðinni til Reykjavíkur náði upp að Hvalfjarðargöngum. Sú klukkutíma töf er þó smælki í samanburði við samanlagðar tafir fólks, sem daglega þarf að þola ástandið á leið í og úr vinnu.

Ekki er unnt að verja þetta með því að segja, að stórframkvæmdir taki tíma. Í Bandaríkjum eru umferðarbrýr reistar á einum degi. Þar er steypan forunnin og ekki látin harðna á staðnum. Þar er unnið dag og nótt alla daga vikunnar, þegar mikið liggur við.

Í Bandaríkjunum eru brúarstöplar reistir og brúargólf lögð, án þess að þrengja að umferð fyrir neðan. Þannig hefði með hæfilegri forvinnu verið hægt að reisa Skeiðarvogsbrú yfir Miklubraut án þess að fækka á meðan akreinum á Miklubraut úr þremur í tvær.

Auðvitað þarf að hanna mannvirki með tilliti til tækni og tíma við úrvinnsluna. Hönnun verður flóknari og framkvæmd verður dýrari, þegar taka þarf tillit til fólks. En kostnaðaraukinn skilar sér margfalt til þjóðfélagsins, þegar þjónustulund fær að ráða ferðinni.

Hvernig ætla vegamálastjóri og borgarverkfræðingur að fara að, þegar þeim verður falið að hanna og bjóða út mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, þar sem umferðin er þyngst á höfuðborgarsvæðinu? Ætla þeir að senda þjóðina í sumarfrí í tvö ár?

Ábyrgðin á óhæfum embættismönnum hvílir að sjálfsögðu á pólitískum yfirmönnum þeirra, samgönguráðherra og borgarstjóra. Þeir eiga að taka í lurginn á starfsmönnum, sem skaða umbjóðendur hinna pólitísku leiðtoga með getuleysi, þekkingarleysi og áhugaleysi.

Erfitt er að flýta þeim framkvæmdum, sem þegar hafa verið boðnar út á forsendum snigilsins og eru unnar samkvæmt þeim. En samgönguráðherra og borgarstjóri geta veitt embættismönnum sínum skriflega og opinbera áminningu og beðizt afsökunar fyrir þeirra hönd.

Embættismenn fara ekki að þjóna fólki fyrr en þeir byrja að fá opinberar ákúrur fyrir skipulagsóreiðu. Fram að þeim tíma hrærast þeir og starfa í tómarúmi, þar sem hönnun framkvæmda lýtur engum utanaðkomandi hömlum neins raunveruleika utan tómarúmsins.

Eftir hrapallega reynslu af stórframkvæmdum ársins í vegagerð á höfuðborgarsvæðinu er mikilvægt, að svona verði aldrei aftur staðið að skipulagi slíkra framkvæmda. Senda verður menn til Bandaríkjanna til að læra, hvernig forðast megi óþægindi almennings.

Þar vestra og raunar víðar í heiminum eru margfalt stærri umferðarmannvirki reist á broti af íslenzkum framkvæmdatíma og með broti af íslenzkum umferðartöfum. Að baki liggur hugsun og tækni, sem íslenzkir vegaverkfræðingar verða að tileinka sér.

Fílabeinsturna vegamálastjóra og borgarverkfræðings þarf að rífa. Bjóða ber út hönnun mannvirkja og gera kröfu um, að framkvæmdir tefji ekki fyrir fólki.

Jónas Kristjánsson

DV

Tímans þungi niður

Greinar

Þingeyri var fram eftir þessari öld eitt grónasta og öflugasta sjávarpláss landsins, en rambar nú á barmi fólkseyðingar eftir aðeins fimmtán ára undanhald. Allt fram á þetta ár þurfi tugi erlends fiskvinnslufólks til þjóna færiböndunum, sem nú hafa hljóðnað.

Bilunareinkenni Þingeyrar byrjuðu að koma í ljós árið 1983, þegar Sléttanesið var smíðað á Akureyri fyrir helmingi meiri peninga en áætlað hafði verið. Aðild Kaupfélags Dýrfirðinga að þjóðrembu íslenzkra skipasmíða var upphafið að undanhaldi staðarins.

Nýkomnir raunvextir á Íslandi hindruðu, að skuldir gufuðu upp. Kaupfélögin og samband þeirra höfðu haft óvenjulega greiðan aðgang að gjafalánum fyrri tíma og áttu erfitt með að fóta sig í heilbrigðu vaxtakerfi. Þannig varð Sléttanesið að myllusteini Þingeyrar.

Kvótakerfið hélt innreið sína um svipað leyti. Eins og fleiri stjórnendur á Vestfjörðum áttu stjórnendur sjávarútvegsins á Þingeyri erfitt með að laga sig að breytingunni. Þeir kunnu ekki að hagræða með því að kaupa og selja kvóta eftir aðstæðum hverju sinni.

Íbúar staðarins tóku þátt í einum dýrasta þætti byggðagildrunnar árið 1995 með því að slá saman í hlutafé til að bjarga útgerð Sléttanessins. Byggðagildra er íslenzkt fyrirbæri, sem felur í sér, að staðbundnu krabbameini er dreift um allt bæjarfélagið.

Sveitarfélög nota útsvarsfé í hlutabréf í stað þjónustu við bæjarbúa. Skólarnir versna og koma unga fólkinu ekki til mennta. Íbúarnir safna saman í hlutafé í stað þess að spara. Lífeyrissjóðir fjárfesta í lélegum heimafyrirtækjum í stað þess að varðveita lífeyri fólks.

Göng til Ísafjarðar og aðild að nýju sveitarfélagi urðu Þingeyri ekki til hjálpar. Reksturinn flutti í nokkrum áföngum til Ísafjarðar og sumpart til Eyjafjarðar. Fólkið sat eftir og vildi ekki sækja vinnu til Ísafjarðar, þótt Hafnfirðingar sæki vinnu til Reykjavíkur.

Þótt Þingeyringar hafi um fimmtán ára skeið fallið í flestar gryfjur byggðaröskunar, hefur verið nóg að gera í plássinu fram á þetta ár. Sjötíu Pólverjar voru í hópi þeirra, sem urðu atvinnulausir, þegar erfiður rekstur Rauðsíðu var stöðvaður í síðasta mánuði.

Fólkið situr eftir með uppgufaðan sparnað í verðlausum húsum og hlutabréfum og börnin eru vanmenntuð til að taka þátt í atvinnuævintýrum nútímans. Opinberir sjóðir munu koma til skjalanna, en þeir lækna ekki mein þeirra, sem eru bitrir og fastir í fortíðinni.

Þjóðfélagið gerir ráð fyrir, að nýjar hátekjugreinar fyrir sunnan leysi færibandavinnu sjávarplássa af hólmi. Það gerir ráð fyrir, að kvótinn safnist á færri hendur og endi allur að lokum í kvosinni í Reykjavík. Þjóðfélagið hefur sagt skilið við lífshætti sveita og sjávarsíðu.

Þeir, sem eru fljótir að átta sig á þessu og hafa sveigjanleika til að flytja sig inn í sólskinið, ná forskoti fyrir sig og afkomendur sína, meðan aðrir streitast í byggðagildrunni og brenna verðmætum. Segullinn fyrir sunnan er Íslandssaga tuttugustu aldar í hnotskurn.

Þetta ferli hefur ekki verið framleitt af vondum stjórnmálamönnum með vonda vexti og vondan kvóta. Það hefur verið eins konar náttúrulögmál, óhjákvæmileg afleiðing þess, að Íslendingar hafa viljað fylgja nágrannaþjóðum sínum á siglingu frá fortíð til framtíðar.

Örlagavaldurinn í óláni Þingeyrar er atvinnusagan sjálf, þar sem sumir berjast og brotna, en aðrir láta sig berast með straumnum til áður óþekktra tækifæra.

Jónas Kristjánsson

DV

Herforingjar ganga lausir

Greinar

Flug rússneskra sprengjuflugvéla umhverfis Ísland löngu eftir lok kalda stríðsins vekur grunsemdir um, að yfirvöld í Rússlandi hafi ekki stjórn á herforingjum sínum. Flugið stríðir gegn anda núverandi samstarfs vesturveldanna og Rússlands í öryggismálum Evrópu.

Flugið minnir á hraðferð nokkur hundruð rússneska hermanna frá Bosníu um Serbíu til flugvallarins í Pristina í Kosovo. Ferðalagið kom utanríkisráðherra Rússlands og öðrum samningamönnum Rússa jafnmikið á óvart og það kom ráðamönnum vesturveldanna.

Síðar hefur komið í ljós, að rússneskir herforingjar ætluðu að nota flugvöllinn til að taka á móti fjölmennu herliði rússnesku. Ráðagerðin hrundi, af því að fyrrverandi fylgiríki Sovétríkjanna sálugu neituðu flugher Rússa um leyfi til að nota lofthelgi sína.

Þessi krókur á móti bragði lokaði rússnesku hermennina frá Bosníu inni í greni þeirra á flugvellinum. Þeir fengu hvorki liðsauka né birgðir úr lofti og urðu loks að leita á náðir Breta um vistir. Á meðan hafa hermenn vesturveldanna komið sér fyrir um alla Kosovo.

Víðar um heim valda athafnasamir herforingjar stjórnvöldum sínum vandræðum. Alvarlegasta dæmið um það er innrás nokkur hundruð hermanna frá Pakistan inn á yfirráðasvæði Indlands í Kasmír-fjöllum, sem auðveldlega gæti leitt til kjarnorkustríðs.

Á Vesturlöndum er ekki tekið mark á fullyrðingum Pakistana um, að þetta séu sjálfstæðir skæruliðar. Raunar er talið, að herforingjar í Pakistan hafi verið að skipuleggja aðgerðina á sama tíma og leiðtogar Indlands og Pakistans hittust í vetur til að efla frið landanna.

Sem betur fer hafa indverskir ráðamenn tekið af æsingslausri festu á málinu, svo að vandinn hefur ekki stigmagnazt. En Pakistan hefur orðið sér til minnkunar á alþjóðlegum vettvangi og mun hér eftir eiga erfitt með að ljúga út efnahagsstuðning frá vesturveldunum.

Indónesía er þriðja dæmið um, að óeirnir herforingjar gangi lausir. Stjórnvöld landsins ákváðu að leyfa íbúum Austur-Tímor að greiða atkvæði um aðild að Indónesíu eða sjálfstæði. Herinn í Indónesíu hefur leynt og ljóst reynt að grafa undan þessari ákvörðun stjórnvalda.

Herinn hefur vopnað glæpasveitir landnema og horfir aðgerðalaus á, þegar þær vaða um með brennum og morðum. Hann hefst ekki einu sinni að, þegar ráðist er á samþykktar eftirlitsstöðvar Sameinuðu þjóðanna og einn fulltrúi þeirra meira að segja drepinn.

Herinn í Indónesíu er að reyna að hindra samstarf stjórnvalda landsins við Sameinuðu þjóðirnar um Tímor. Herinn í Pakistan er að reyna að hindra landamærasamstarf við Indland. Herinn í Rússlandi er að reyna að hindra samstarf við vesturveldin í öryggismálum.

Í öllum þremur ríkjunum eru stjórnvöld veikburða, einkum vegna spillingar og efnahagserfiðleika. Herforingjar nota sér vesaldóm borgaralegra stjórnvalda og fara sínu fram án samráðs við þau og í trássi við tilraunir þeirra til að efla frið við umheiminn.

Svo aum geta stjórnvöld orðið, að Jeltsín forseti þykist eftir á hafa vitað um kappakstursmálið og verðlaunar herforingjann með auknum titlum. Ef hann hefði beðið í nokkra daga, hefði hann komizt að raun um, að ævintýramennska hersins færi út um þúfur.

Það rýrir öryggi jafnvel hér langt norður í höfum, að herforingjar gangi í auknum mæli lausir og tefli tapskákir sínar þvert á skákir borgaralegra stjórnvalda.

Jónas Kristjánsson

DV

Jafnvægi milli kynslóða

Greinar

Við söfnum sjálf til elliáranna hér á landi, ólíkt flestum öðrum þjóðum, sem annað hvort búa við ótryggt ævikvöld eða treysta meira eða minna á gegnumstreymi lífeyris á vegum opinberra aðila. Unga fólkið á Íslandi er ekki lengur að safna lífeyri fyrir gamla fólkið.

Málin hafa fallið hratt í þennan farveg, síðan farið var að miða lífeyrisgreiðslur við raunverulegar tekjur, en ekki strípaða taxta; síðan lífeyrisprósentan var hækkuð um 2,2 stig; og síðan farið var að bæta séreignasjóðum og séreignadeildum ofan á eldra sameignarkerfi.

Gegnumstreymi er algengt lífeyriskerfi á Vesturlöndum. Tekið er af þeim, sem eru á atvinnualdri, til að greiða þeim, sem eru hættir að vinna. Þetta gengur vel, þegar aldursskipting þjóðar er þannig, að hlutfall eftirlaunafólks af heildarmannfjölda er fremur lágt.

Eftir því sem þjóðir eldast, svo sem gerzt hefur hratt á Vesturlöndum, minnka líkur á, að starfandi fólk geti staðið undir eftirlaunum aldraðra. Opinbera lífeyriskerfið sligast að lokum hreinlega undir þunga gegnumstreymis, sem virtist svo ódýrt og þægilegt í fyrstu.

Hollendingar og Bretar hafa gengið þjóða lengst í að reka lífeyriskerfið á raunverulegum sparnaði liðins tíma. Við komum í þriðja sæti, næst á undan Svíum og Írum. Þetta eru þær þjóðir, er búa við traustan lífeyri, sem mun standast ágjöf breyttrar aldursskiptingar.

Mikill og raunverulegur lífeyrissparnaður að okkar hætti safnar enn fremur lausu og dreifðu fjármagni í öfluga sjóði, sem taka þátt í að efla atvinnulífið. Íslenzki hlutabréfamarkaðurinn hefur á síðustu árum einkennzt af mikilli og öflugri þátttöku lífeyrissjóða.

Mikilvægt er þó, að lífeyrissjóðir gangi ekki of langt í eltingaleik við skammtímahagsmuni. Samkeppni um arðsemi má ekki leiða til áhættusamra fjárfestinga, sem stríða beinlínis gegn þeirri grundvallarforsendu lífeyrissjóða að skila höfuðstólnum langt inn í framtíðina.

Við uppsöfnunarkerfi lífeyrismála okkar bætist svo, að fyrir löngu var hætt að niðurgreiða byggingalán. Fólk getur ekki lengur reist sér húsnæði fyrir lánsfé, sem brennur upp. Við erum fyrir löngu hætt að velta vandamálum neikvæðra vaxta inn í framtíðina.

Uppsöfnun lífeyris og jákvæðir húsnæðisvextir stuðla beint og óbeint að jafnvægi milli kynslóða á mælikvarða svokallaðra kynslóðareikninga. Við erum nokkurn veginn hætt að senda ungu fólki og ófæddum börnum reikninginn fyrir að lifa sjálf um efni fram.

Árið 1995 hefðu skattar okkar þurft að vera 5% hærri til að núverandi kynslóðir standi sjálfar undir opinberum rekstri. Talan hefur síðan lækkað og er líklega í núlli um þessar mundir. Það þýðir, að við erum hætt að senda reikninga til ófæddra barna og barnabarna.

Fáar þjóðir hafa borið gæfu til að draga úr þessu gegnumstreymi skatta milli kynslóða. Írar, Bretar og Danir, Nýsjálendingar, Ástralir og Kanadamenn eru í álíka góðum málum og við í opinberum rekstri, nálægt hinu eftirsóknarverða núlli í kostnaðarjafnvægi kynslóðanna.

Hér eftir verður erfiðara fyrir skammtímasinnaða stjórnmálamenn að sukka í samneyzlu og opinberum fjárfestingum eins og tíðkaðist fyrr á áratugum. Við erum orðin meðvituð um, að halli á ríkisbúskapnum jafngildir álögum á ófædda afkomendur okkar.

Í fornöld seldi fólk börn sín í ánauð til að afla brauðs. Við mætum hins vegar nýrri öld með hreinu borði. Við erum hætt að hlaða byrðum á afkomendur okkar.

Jónas Kristjánsson

DV

Mömmubílskúrinn

Greinar

Sagt er, að pabba-bílskúrar séu fullir af rusli, en mömmu-bílskúrar séu auðir og hreinir. Þess vegna séu hinir síðarnefndu kjörnir staðir til að stofna bílskúrsfyrirtæki ungra tölvuáhugamanna. Þannig hafa undrafyrirtæki verið stofnuð í Ameríku og á Íslandi.

Miklar fjárfestingar eru ekki lengur forsenda vaxtar í atvinnulífinu. Gömlu, vélvæddu atvinnugreinarnar eru á undanhaldi fyrir hávaxtargreinum, þar sem fátt er áþreifanlegt. Tveggja manna bílskúrsfyrirtæki verður á fjórum árum að 140 manna hálaunafyrirtæki.

Danir eru gott dæmi um þjóð, sem á lítið af auðlindum, öðrum en þeim, sem búa í höfði fólksins í landinu. Þeir hafa í staðinn skarað fram úr í hugmyndaauðgi og kaupsýslu. Áður fyrr seldu þeir danska hönnun og nú selja þeir danska forritun af miklum krafti.

Kaupsýsla er kjarni málsins. Hún hefur sígildið umfram vaxtargreinar hvers tíma. Hún selur bíla, þegar þeir eru vaxtargreinin; tæknihönnun, þegar hún er vaxtargreinin; tölvuforritun, þegar hún er vaxtargreinin; umhverfisvernd, þegar hún er vaxtargreinin.

Þjóð, sem sameinar kaupsýslu og framleiðslu huglægra verðmæta í vaxtargreinum hvers tíma, er ofan á í lífinu. Þjóð, sem heldur verndarhendi yfir gömlum og úreltum atvinnugreinum á borð við landbúnað, fiskvinnslu og áliðnað er á undanhaldi í tilverunni.

Við sjáum af hreyfingu fyrirtækja milli landa, hvar stöðnunin er að halda innreið sína. Lélegar eru greinar, sem flýja frá Vesturlöndum til Japans. Verri eru greinar, sem flýja frá Japan til Suður-Kóreu. Verstar eru greinar, sem flýja frá Suður-Kóreu til Malasíu.

Þannig eru skipasmíðar og áliðnaður meðal þeirra greina, sem gefa minnst af sér, þótt fjárfesting sé mikil. Slíkar greinar flytjast til þróunarlandanna. Framleiðsla vélbúnaðar fer bil beggja og flyzt til nýríku þjóðanna. En framleiðsla hugbúnaðar er vestræn sem fyrr.

Við eigum að haga skólamálum okkar í samræmi við það, sem við höfum séð gerast í heiminum og sjáum vera að gerast. Við eigum að stórauka fræðslu á sviðum kaupsýslu og forritunar, hönnunar og umhverfismála, því að þetta eru vaxtargreinar nánustu framtíðar.

Því miður er skólakerfi okkar staðnað í fúski og leikjum Piagets, eins og komið hefur fram í fjölþjóðlegum samanburði. Með einkarekstri skóla eða með öðrum þeim hætti, sem hristir upp í skólakerfinu, þarf að gera skóla hæfa til að búa fólk undir líf í framtíðinni.

Við þurfum skóla, er skila frá sér fólki, sem þekkir kaupsýslu upp á sína tíu fingur; leysir forritunarvandamál eins og ekkert sé; hannar áþreifanlega og óáþreifanlega hluti á þann hátt, að allir vilja eiga; og kann að varðveita einstætt vistkerfi okkar fyrir stóriðju.

Með einni snjallri hugmynd er rifið upp úr engu fyrirtæki, sem veitir jafnmörgum vinnu og eitt stykki álver; borgar tvöfalt meira kaup en álverið; notar lítið af takmörkuðum auðlindum; kostar enga milljarða í fjárfestingu; og heimtar ekki, að Eyjabökkum sé fórnað.

Með vel menntuðu fólki í kaupsýslu og forritun hafa verið rifin og verða rifin upp úr engu ótal fyrirtæki, sem eru margfalt verðmeiri en samanlagðir villtustu stóriðjudraumar hættulegustu stjórnmálamanna landsins, sem vilja halda þjóðinni á frumframleiðslustigi.

Ódýrasta og arðbærasta leiðin inn í óvissa framtíð er ungt fólk, sem kann til verka í nýjum atvinnugreinum og hefur aðgang að ígildi mömmubílskúrs.

Jónas Kristjánsson

DV

Pirringsgildi óþekktarorma

Greinar

Leiðtogar vesturveldanna og einkum Bandaríkjanna leggja mikla áherzlu á að sleikja fýluna úr ráðamönnum Rússlands með því að fjölyrða um mikilvægi landsins og leiðtoga þess í heimsmálunum. Þeir hafa gert Rússland að heiðursfélaga í klúbbi sjö helztu iðnríkja heims.

Rússland hefur ekki efnahagsburði til að verða áttunda ríkið í þessum hópi. Það hefur raunar ekki lengur burði til að vera heimsveldi, því að vígvélar þess hafa lamazt vegna þjófnaðar og skorts á viðhaldi. Rússland hefur breytzt í betlara fyrir dyrum alþjóðabanka.

Rússland getur ekki einu sinni komið hermönnum til Kosovo, af því að fyrrverandi leppríki þess í Varsjárbandalaginu sáluga neita því um rétt til yfirflugs. Rússland varð að flytja 200 hermenn frá Bosníu til Kosovo til að geta sagt, að Rússland væri með á taflborðinu.

Landinu er stjórnað af fársjúkum fyllirafti, sem magnar óreiðuna með því að ráða og reka ráðherra í tíma og ótíma. Glæpamenn hafa komizt yfir eignir ríkisins og mestan hluta þróunaraðstoðarinnar. Rússneska þingið er málfundaklúbbur, sem setur ekki lög.

Samt heimtar Rússland virðingu og fær hana í orði kveðnu. Það er ekki virðing af völdum ógnar, heldur virðing af völdum pirrings. Rússland ógnar ekki lengur neinum, en getur valdið ýmsum vandræðum, sem aðrir vilja forðast. Þetta heitir pirringsgildi á fagmáli.

Vesturveldin vilja, að Rússar reyni að hafa áhrif á Serba, þótt reynslan sýni, að það eru fremur Serbar, sem stjórna Rússum. Vesturveldin vilja, að Rússar styðji Rómarfrið nútímans og auðveldi vesturveldunum að innleiða vestræn gildi víðs vegar um heim.

Vesturveldin vilja draga úr biturð og reiði Rússlands með því að efla þess hag og sýna því virðingu. Hingað til hefur þetta ekki gengið upp. Rússland verður fátækara með hverjum deginum sem líður. Biturð Rússlands og reiði vex í sífellu og þar með pirringsgildi þess.

Heiðra skaltu skálkinn, svo að hann skaði þig ekki, segir spakmælið, sem vesturveldin hafa að leiðarljósi í samskiptum við Rússland og ýmis önnur lönd, sem eru til vandræða, til dæmis Pakistan, sem hvað eftir annað hefur efnt til ófriðar á landamærum Indlands.

Til langs tíma litið kunna að gagnast þessar aðferðir við að beita sálgæzlu í heimsmálunum. Það hlýtur að minnsta kosti að vera markmiðið, því að skammtímagagnið hefur ekki reynzt vera mikið. Ef til vill verða menn smám saman fínir menn af fínimannsleik.

Slíkri sálgæzlu má líka beita við smærri lönd, sem hafa pirringsgildi. Norður í Atlantshafi er til dæmis stórauðugt eyríki, sem heimtar að fá að menga heiminn meira, þegar bláfátæk ríki lofa að menga hann minna, og æsir önnur ríki til að sýna hliðstætt ábyrgðarleysi.

Að hætti vesturveldanna má reyna að sýna slíku ríki með pirringsgildi þá virðingu að taka kvótaerfingjann, sem vill menga heiminn í þágu meintra austfirzkra stóriðjuhagsmuna, og gera hann að stjórnarformanni Evrópuráðsins í þeirri von, að mannasiðirnir leki inn.

Þegar óþekktarormurinn er orðinn háður fínimannsleik í ljóma sjónvarpsvéla, er hægt að reyna að breyta leiknum í raunverulega fínimennsku og segja honum, að eitt auðríkja heims geti ekki hagað sér gagnvart náttúrunni eins og það rambi á hengiflugi gjaldþrots.

Hvar sem skálkar eru heiðraðir, svo að þeir skaði ekki umheiminn, er brýnt, að þess sé sífellt krafizt, að þeir sýni fram á, að þeir séu virðingar verðir.

Jónas Kristjánsson

DV

Laugaás

Veitingar

Sögufrægur Laugaás er farinn að éta viðskiptavildina. Matreiðslu hefur hrakað og verð hækkað um 23% frá sama tíma í fyrra. Nú kostar 1600 krónur að borða í stað 1300 króna áður. Samt flykkist leiðitamt fólk á staðinn.

Matseðillinn dofnaði í vetur og hefur verið óbreyttur síðan í marz. Villibráð og saltfiskur eru horfin, fiskréttum hefur fækkað, en kjöti og pöstum fjölgað. Kokkarnir fyrirverða sig og eru hættir að bera sjálfir fram aðalrétti. Þjónusta lætur fólk komast upp með að reykja í reyklausa hlutanum og á sumpart erfitt með að muna, hvað fólk hefur pantað.

Tvennt hefur batnað. Vínlistinn er lengri og hveitigrautur víkur stundum fyrir tærri grænmetissúpu sem súpa dagsins. Hins vegar hefur hveitigrautur magnazt svo í sumum sósum, að þær hníga varla undir skáninni. Komið hefur fyrir, að skammtar séu þriðjungi minni að magni en áður var. Eldunartímar hafa lengzt, einkum á fiski, kjúklingi og grænmeti. Og ýsan var í eitt skiptið ekki ný.

Glerplötur á borðdúkum undirstrika, að Laugaás er ekki lengur hefðbundin bistró að evrópskum hætti, heldur nýmóðins aðferð við að hagræða í atvinnulífinu. Staðurinn er nú kallaður: “Café Restaurant” til að minna á horfna daga.

Þrátt fyrir verðhækkunina heldur hann fjórum blómum, því að enn er hann tiltölulega ódýr.

Jónas Kristjánsson

DV