Framsókn skrapar botninn

Greinar

Fylgi Framsóknarflokksins mældist í sögulegu lágmarki í skoðanakönnun DV fyrir helgina, rúmlega 14% fylgi, sem svarar til níu þingmanna í stað þeirra tólf, sem flokkurinn fékk í kosningunum. Flokkurinn má muna fífil sinn fegri frá 20­25% fylgi fyrri áratuga.

Flokkurinn hefur í haust tapað fylginu, sem formaður hans náði með því að ljúga því ítrekað, að flokkurinn mundi setja milljarð í fíkniefnavarnir. Hann hefur í haust tapað fylginu, sem formaðurinn náði með því að ljúga því, að sátta yrði leitað um Eyjabakka.

Framsóknarflokkurinn hefur ekki lengur neitt grænt fylgi og sáralítið þéttbýlisfylgi. Hann er þekktur sem baráttuflokkur sægreifakerfisins með kvótaerfingja í formannsstóli. Hann er þekktur fyrir að hafa gefið bandarísku fyrirtæki sjúkraskýrslur þjóðarinnar.

Eftir sitja þeir, sem telja sig hafa hag af flokknum sem spilltum miðjuflokki, er situr nánast alltaf í ríkisstjórn og hefur aðstöðu til að hlúa að einkavinum sínum, allt frá heilum stéttum eða byggðum niður í að gera gamla tugthúslimi að háttsettum embættismönnum.

Framsóknarflokkurinn notaði flokka langmest fé í kosningabaráttunni, um 60 milljónir króna. Það er að minnsta kosti 40 milljónum meira en flokkur af hans stærð getur aflað sér án þess að fara út í kaup og sölu á aðstöðu sinni sem áskrifanda að ríkisstjórn.

Spillingin ein dugar til að halda flokknum í um það bil 10% fylgi, því að margir eru reiðubúnir til að láta atkvæði sitt í skiptum fyrir raunverulega hagsmuni, meinta hagsmuni eða von í hagsmunum. Spillingarþráin gildir jafnvel um hluta heilla stétta og byggða.

Þótt Framsóknarflokkurinn haldi áfram að tapa og sígi niður í spillingarfylgið eitt, þá getur hann áfram haldið aðstöðu sinni sem miðjuflokkur, er semur til hægri eða vinstri eftir því, hvað væntanlegt stjórnarsamstarf er líklegt til að gefa flokknum mikil færi á að skaffa.

Þetta minnir á, hversu brýnt er orðið, að fjármál íslenzkra stjórnmálaflokka verði gerð gegnsæ á sama hátt og tíðkast annars staðar á Vesturlöndum, þar sem upplýst er einu sinni eða oftar á ári hverju um greiðslur og greiðsluígildi allra hagsmunaaðila.

Jónas Kristjánsson

DV

Fram í rauðan dauðann

Greinar

Líkurnar á, að hér á landi hafi verið geymd kjarnavopn árin 1956­1959 hafa aukizt lítillega við birtingu ritskoðaðra gagna úr bandaríska hermálaráðuneytinu, en ekki svo mjög, að sannað megi teljast. Deilan heldur því áfram, meðan ráðuneytið ritskoðar gögn sín.

Ísland er að vísu líklegt land milli Haiwai og Japans í stafrófsröðinni, en ætti ekki að vera á þeim lista, heldur á lista yfir Evrópulönd. Áhugaleysi fræðimannanna, sem grófu upp gögnin, á þessum þætti málsins vekur efasemdir um, að þeir hafi vald á viðfangsefninu.

Hitt skiptir svo alls engu í máli þessu, hvað stjórnvöld fullyrða hér á landi eða vestan hafs. Að trúa því, sem stjórnvöld segja í viðkvæmum málum, sem varða almenning, er álíka barnalegt og að trúa því, sem ráðuneytisstjórinn segir í þáttunum: “Já, ráðherra”.

Við höfum nýlegt dæmi um slíkt. Á þriðjudaginn í þessari viku kom í ljós, að lyf, sem hermönnum í Persaflóastríðinu var gefið til varnar hugsanlegu eiturgasi, hafði varanlegar aukaverkanir, sem fela í sér syfju, vöðvaþreytu, minnistap og svefntruflanir.

Fljótlega eftir Persaflóastríðið 1991 komu upp grunsemdir um þetta, studdar fræðilegum athugunum. Bandarísk stjórnvöld neituðu þessum skoðunum staðfastlega og harðlega og hafa meðal annars látið framleiða fyrir sig rannsóknir, sem “afsanna” ásakanirnar.

Efasemdarmenn héldu samt áfram að stinga prjónum í málið. Það endaði með, að á þriðjudaginn voru birtar niðurstöður rannsókna, með aðild hermálaráðuneytisins, sem sýna á óyggjandi hátt, að 250.000­300.000 hermenn við Persaflóa voru látnir nota skaðlegt lyf.

Bandarísk stjórnvöld hafa fram í rauðan dauðann neitað að viðurkenna þetta og eru raunar enn að malda í móinn af veikum mætti, enda eiga þau yfir sér málshöfðun tugþúsunda hermanna, sem biðu varanlegan skaða af völdum lyfsins pyridostigmine bromide.

Vinnubrögð þessi eru engan veginn bundin við Bandaríkin. Heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi, Belgíu og Frakklandi hafa beðið varanlegan hnekki af uppljóstrunum þessa árs um, að þau hafi látið undir höfuð leggjast að segja almenningi frá hættulegum matvælum.

Fyrir bragðið er ekki lengur neinu trúað, sem heilbrigðisyfirvöld segja um hollustu eða óhollustu matvæla í löndum þessum. Til dæmis mundi ekki þýða að segja Evrópumönnum, að geisluð matvæli séu hættulaus, enda eru evrópsk stjórnvöld hætt að fullyrða slíkt.

Við þekkjum hér á landi, að heilbrigðisnefndir og yfirdýralæknir hafa með óbeinni aðstoð nýs landlæknis og Hollustuverndar ríkisins reynt að gera lítið úr sprengingu í kamfýlusýkingum á þessu ári og reynt í staðinn að gæta sunnlenzkra byggðahagsmuna.

Við vitum því hér á landi, að viðeigandi yfirvöld hafa tilhneigingu til að taka sérhagsmuni fram yfir heilsufar almennings. Þetta er hluti alþjóðlegs fyrirbæris, sem hefur verið sett fram á skiljanlegan hátt í ýktu formi í þáttaröðinni um brezka ráðuneytisstjórann.

Staðreyndin er einfaldlega sú, að algengt er um allan heim, að embættismenn telji það siðferðislega skyldu sína að ljúga að almenningi. Þegar upp kemst um þá, yppta þeir bara öxlum og snúa sér að næstu blekkingum. Embættismenn verða því aldrei nothæf heimild.

Það svarar því engum spurningum um kjarnavopn á Íslandi, þótt bandarísk stjórnvöld lýsi yfir, að nafn Íslands sé ekki á tilteknum, ritskoðuðum lista.

Jónas Kristjánsson

DV

Einangrun og ofurtortryggni

Greinar

Bandaríska öldungadeildin hefur rýrt friðarlíkur í heiminum og aukið einangrun landsins með því að hafna alþjóðasamningnum um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn. Þessi samningur var gerður að undirlagi Bandaríkjanna sjálfra og með ærinni fyrirhöfn.

Öldungadeildin hefur gefið grænt ljós á frekari tilraunir Indverja, Pakistana og annarra þeirra, sem vilja gera sig breiða í hermálum. Hún hefur lýst frati á alla helztu bandamenn Bandaríkjanna í öryggismálum og ögrað Rússum og Kínverjum að ástæðulausu.

Í kjölfarið hefur Rússland þegar hafnað ósk Bandaríkjanna um breytingu á sáttamála þjóðanna um eldflaugavarnir og mun hafna vestrænum ráðum um friðsamlegri framgöngu í Tsjetsjeníu. Kína mun herða truflanir sínar á hernaðarlegu jafnvægi í austanverðri Asíu.

Verst er, að öldungadeildin hefur sýnt stjórnvöldum um allan heim, að engum tilgangi þjóni að gera skriflega samninga við Bandaríkin, af því að þingið muni ekki virða þá. Allt alþjóðlegt samningaferli verður erfiðara en áður, til dæmis á sviði heimsviðskipta og tolla.

Í nóvember hefst ný lota í alþjóðaviðræðum á vegum Heimsviðskiptastofnunarinnar um lækkun tolla og annarra viðskiptahafta til eflingar velmegunar í heiminum og ekki sízt í Bandaríkjunum, sem jafnan hafa staðið sig vel í framleiðslu fyrir alþjóðlegan markað.

Þessi lota er nú orðin marklaus, af því að málsaðilar sjá, að einangrunarsinnar og verndarsinnar á Bandaríkjaþingi muni koma í veg fyrir staðfestingu hvaða samnings, sem gerður yrði. Samningamönnum hafa því fallizt hendur nokkrum vikum áður en lotan hefst.

Bandaríkjaþing hefur árum saman komið í veg fyrir, að landið standi við skuldbindingar sínar um greiðslur til Sameinuðu þjóðanna. Er nú réttilega komið að því í lok þessa árs, að Bandaríkin missi atkvæðisrétt sinn hjá samtökunum og rýri áhrif sín á alþjóðavettvangi.

Vaxandi einstefna, einangrunarstefna og ofurtortryggni Bandaríkjaþings á sér hljómgrunn meðal kjósenda, sem telja utanríkismál litlu skipta og telja þar á ofan, að útlendingar séu jafnan að reyna að hafa fé af Bandaríkjunum, oft með lævíslegum hætti.

Þeirri skoðun eykst fylgi, að Bandaríkin eigi að hætta afskiptum af deilumálum úti í heimi og breyta sér í lokað virki undir kjarnorkuregnhlíf. Kjósendur og þingmenn virðast ekki gera sér grein fyrir, hvað einangrunin muni kosta bandaríska útflutningsatvinnuvegi.

Kjósendur og þingmenn í Bandaríkjunum lifa í óraunverulegum heimi, þar sem bæði er hægt að eiga kökuna og éta hana. Slík viðhorf eru að vísu algeng um allan heim, en hafa hvergi á Vesturlöndum fengið eins mikinn byr undir báða vængi og í Bandaríkjunum.

Völdum á heimsvísu fylgja tækifæri til að treysta viðskiptahagsmuni, svo sem sölu á kvikmyndum og tölvubúnaði. Einstefna, einangrun og ofurtortryggni leiða hins vegar til þess, að önnur ríki og ríkjasamtök hefta bandarísk útflutningstækifæri og loka þeim.

Allir tapa á þeim viðhorfum, sem hér hefur verið lýst og Bandaríkjamenn sjálfir tapa mest. Verst er þó, að Vesturlönd sem heild veikjast af þessum völdum og hafa minni möguleika en áður á að framkalla friðsamlegt svigrúm til lýðræðis og viðskipta sem allra víðast.

Í kjölfar bandaríska virkisins rís evrópska virkið og hliðstæð virki víðar um heim. Veröld okkar mun verða hættulegri en hún hefur verið síðustu áratugi.

Jónas Kristjánsson

DV

Í gróðurhúsi ríkisvaldsins

Greinar

Ríkisvaldið verndar ekki íslenzk dagblöð með því að leggja steina í götu erlendra dagblaða. Það tollar ekki erlend dagblöð og skammtar ekki innflutning þeirra eftir þeim dögum, sem innlend dagblöð koma ekki út. Það hefur engin afskipti af þessum frjálsa markaði.

Ríkisvaldið verndar hins vegar íslenzkt grænmeti með því að leggja steina í götu erlends grænmetis. Það ofurtollar erlent grænmeti og skammtar innflutning þess eftir árstíðum. Innlent grænmeti er ekki frjáls markaðsvara, heldur ríkisrekin landbúnaðarafurð.

Allir geta keypt erlend dagblöð eins og raunar erlend tímarit og erlendar bækur á sömu kjörum af hálfu ríkisins og innlend dagblöð, innlend tímarit og innlendar bækur. Dagblöð eru hluti af frjálsu markaðshagkerfi, þar sem neytandinn getur valið það, sem hann vill.

Verðlag dagblaða ræðst af markaði, þar sem dagblöð keppa innbyrðis og við erlend dagblöð, við aðra fjölmiðla á borð við útvarp og sjónvarp. Ef verðlag innlendra dagblaða fer úr skorðum að mati notenda, geta þeir snúið sér í auknum mæli að öðrum fjölmiðlum.

Verðlagi grænmetis er hins vegar fyrst og fremst stjórnað af ríkisvaldinu, sem setur því ramma með ofurtollum. Síðan tekur markaðsráðandi heildsali við valdinu og fyllir verðlagsrammann. Neytendur geta ekki snúið sér neitt annað með grænmetiskaup sín.

Reynsla áranna og áratuganna sýnir, að notkun dagblaða er mikil og jöfn hér á landi. Kaup og lestur á íslenzkum dagblöðum er með því mesta, sem gerist í heiminum og hefur haldizt þannig um langan aldur. Verðlag dagblaða er því í markaðslegu jafnvægi.

Til dæmis má nefna, að lestur DV hefur frá upphafi mælinga verið nokkurn veginn óbreytt hlutfall af mannfjölda. Sveiflan milli lágmarks og hámarks hefur verið innan við 5%. Þetta sýnir markað, sem er í meira jafnvægi en almennt gerist við frjálst verðlag.

Reynslan sýnir hins vegar, að ríkisreksturinn, ofurtollarnir og okurverðið á grænmeti hefur leitt til mun minni neyzlu grænmetis hér á landi en í nokkru öðru landi, sem vitað er um. Íslendingar eru hálfdrættingar á við siðmenntaðar þjóðir á þessu mikilvæga sviði.

Grænmeti er helmingi minni þáttur í mataræði Íslendinga en hann ætti að vera að mati Alþjóðlegu heilbrigðisstofnunarinnar í París. Það stafar auðvitað af því, að fólk sparar það. Verðlag grænmetis er ekki í markaðslegu jafnvægi eins og verðlag dagblaðanna.

Fyrr eða síðar springur blaðran, sem íslenzk garðyrkja lifir í. Fyrr eða síðar neyðist hún til að búa við sama rekstrarumhverfi og íslenzk dagblöð og nánast öll önnur vara í landinu. Það endar með, að erlend ríki neita að kaupa af okkur fisk, ef við opnum ekki markaðinn.

Það er óhollt fyrir innlenda garðyrkju að lifa í gerviheimi, sem getur opnast fyrir erlendum vindum, þegar hagsmunir utanríkisviðskipta knýja ríkisvaldið til að hætta afskiptum af grænmetismarkaði, knýja það til að leggja niður innflutningsskömmtun og ofurtolla.

Dagblöðin hafa hins vegar ekkert að óttast, því að þau hafa alltaf lifað við opna glugga, þar sem erlendir vindar blása, rétt eins og meirihluti innlenda hagkerfisins. Þau hafa lagað sig að samkeppnisaðstæðum, meðan innlend garðyrkja felur sig í gróðurhúsi ríkisvaldsins.

Almenningur veit, að markaðshagkerfið framleiðir velmegun. Fólk lætur ekki gabbast af áróðri þeirra, sem vilja fá að sofa áfram utan þessa hagkerfis.

Jónas Kristjánsson

DV

Taplið nöldrar á Fiskiþingi

Greinar

Sumir líta á framtíðina sem verkefni, en aðrir sem vandamál. Sumir mæta örlögunum á þann hátt, að þeir snúa þeim sér í hag, en aðrir telja sig dæmda til að sitja eftir í tapliðinu. Oft þarf opinn huga og djarfa hugsun til að sjá leiðir til vinnings í óþægilegri taflstöðu.

Fyrir hálfu þriðja ári lagði Orri Vigfússon til, að þjóðir Norður-Atlantshafs mynduðu gæðabandalag um fisk og kæmu sér upp virtu og viðurkenndu vörumerki, sem ábyrgðist gæði, hreinlæti og viðnám gegn ofveiði á grundvelli áreiðanlegs og heiðarlegs vottunarkerfis.

Orri taldi, að staðlar vottunarkerfisins ættu að ná til gæða og hreinlætis við fiskvinnslu, svo og þess, að fiskurinn væri hvorki veiddur úr ofveiddum stofnum né með veiðarfærum, sem valda spjöllum. Hann vildi aðild hófsamra umhverfissamtaka að þessum stöðlum.

Hugmyndin er til þess fallin að framkalla smám saman í hugum neytenda víða um heim ímynd hreinnar og góðrar framleiðslu, sem beri af öðrum vörum í heimi mengunar og óhollustu. Orri vildi, að við yrðum á undan öðrum að laga okkur að nýjum aðstæðum.

Íslendingar báru ekki gæfu til að taka þetta merki upp fyrir hálfu þriðja ári. Umheimurinn stóð hins vegar ekki í stað. Framtakið kom frá stærsta kaupanda sjávarafurða í heiminum, Unilever, og stærstu náttúruverndarsamtökum heimsins, World Wildlife Fund.

Nú er þessi hugmynd komin miklu lengra. Stofnað hefur verið Marine Stewartship Council, MSC, sem gæðastimplar sjávarafurðir, óháð stjórnvöldum og hagsmunaaðilum í sjávarútvegi. Óþarfi er að spyrja, hvort Íslendingar séu með í þessu vinningsliði framtíðarinnar.

Þar sem íslenzkur sjávarútvegur stenzt flestar, en ekki allar kröfur nýju vottunarstofunnar, hefur MSC hvatt Íslendinga til að taka upp kerfið. Engin viðbrögð hafa komið fram af íslenzkri hálfu, enda sjá menn svart, ef útlendingar ætla að hafa afskipti af okkar málum.

Á Fiskiþingi, sem haldið var í síðustu viku, kom fram hjá ræðumönnum, að ríkisstofnanir og samtök í sjávarútvegi hafa ákveðið að vera í tapliðinu og horfa með skelfingu á, að hataðir umhverfissinnar úti í heimi fari að stjórna því, hvort fólk borði fisk héðan.

Í stað þess að hlíta forsjá Orra og vera fremstir í vinningsliðinu með þann fisk, sem þekktastur verður í heiminum fyrir alþjóðlegan gæðastimpil, þá hafa Íslendingar ákveðið að hafa allt á hornum sér og verða illræmdir fyrir að geta ekki fengið að nota gæðastimpilinn.

Þetta er skortur á aðlögunarhæfni. Ráðamenn í stofnunum og samtökum eru svo blindaðir af óbeit á umhverfissamtökum og útlendum reglum, að þeir draga lappirnar sem mest þeir geta og munu áður en yfir lýkur valda íslenzkum sjávarútvegi stórfelldu markaðstjóni.

Úti í heimi keppast aðrir við að vera í vinningsliðinu og snúa örlögunum sér í hag. Í þeim hópi eru umsvifamikil heildsölu- og dreifingarfyrirtæki í sjávarútvegi og keðjur stórmarkaða. Stuðningur við stimpilinn er “tilfinnanlegur” eins og það var orðað á Fiskiþingi.

Formaður Vélstjórafélagsins útmálaði fyrir Fiskiþingi, að vond umhverfissamtök úti í heimi væru að ráðast á íslenzkan sjávarútveg. Þetta er nákvæmlega það, sem Íslendingar vilja heyra. Menn vilja gráta örlög sín og kenna vondum útlendingum um, hvernig komið sé.

Himinn og haf er milli Orra Vigfússonar og Helga Laxdal; þeirra, sem líta á framtíðina sem verkefni og hinna, sem líta á hana sem vandamál.

Jónas Kristjánsson

DV

Það er þér að kenna

Greinar

Nú eru síðustu forvöð fyrir áhugafólk um verndun Eyjabakka að reyna að hafa þau áhrif á þingmenn, að Fljótsdalsvirkjun fari í lögformlegt umhverfismat, sem þýðir, að umhverfisþættir orkuversins verði metnir á sama hátt og um nýskipulagða virkjun væri að ræða.

Auðvitað er umhverfissinnum sjálfum að kenna, ef þeir beita ekki öllum tiltækum ráðum til að hafa áhrif á þingmenn kjördæmis síns eða flokks síns. Þótt þingmenn séu hallir undir flokksaga, þykir þeim samt óþægilegt að troða illsakir við kjósendur og samflokksmenn.

Ljóst er, að ríkisstjórnin ætlar að knýja virkjunina í gegn á Alþingi með einfaldasta hætti. Iðnaðarráðherra hyggst leggja fram einfalda þingsályktunartillögu um málið og láta hana fara til skoðunar í iðnaðarnefnd en ekki í umhverfisnefnd, þar sem fyrirstaða er meiri.

Með þessari tæknilegu brellu er ráðherrann í leiðinni að segja kjósendum, að deilumálið um Eyjabakka sé iðnaðarmál, en ekki umhverfismál. Það segir auðvitað meira um ráðherrann og stuðningsmenn hans á Alþingi en sagt hefur verið í löngu máli í fjölmiðlum.

Meirihluti ríkisstjórnarinnar er svo mikill, að hún hefur efni á að eitt og eitt þingmannsatkvæði kvarnist úr kantinum, þegar þingsályktunartillagan verður afgreidd. Sjálfstæðisflokkurinn mun taka ábyrgð á málinu til jafns við Framsóknarflokkinn, sem forustuna hefur haft.

Þegar hefur komið fram í stefnuræðu forsætisráðherra, að hann telur umhverfissinna vera öfgamenn. Úr sögunni er því draumur margra sjálfstæðismanna, að hann mundi einhvers staðar í ferli málsins segja við iðnaðarráðherra sinn: Svona gerir maður ekki.

Ef umhverfissinnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sauma nú ekki svo um munar að þingmönnum kjördæma sinna, verður ekkert lögformlegt umhverfismat. Þar með færist víglínan frá umhverfismatinu að virkjuninni sjálfri, því að stríðið heldur áfram.

Austfirzkir umhverfissinnar leika lykilhlutverk í þeirri stöðu. Þeir hafa sýnt fram á og geta haldið áfram að sýna fram á, að áhugi á umhverfismálum sé ekkert einkamál þeirra Íslendinga sem búa utan keisaradæmis öfgasinnaðasta umhverfisóvinar ríkisstjórnarinnar.

Einnig er brýnt, að umhverfissinnar beini athygli sinni í meira mæli að norska ríkisfyrirtækinu Norsk Hydro, sem þykist vera umhverfisvænt heima fyrir, en stuðlar hér að umhverfisspjöllum með því að setja tímaþrýsting á viðmælendur sína í Landsvirkjun.

Meðan eitt ráðuneytið í Noregi kostar það tölublað Arctic Bulletin hjá World Wildlife Fund, sem snýst að mestu um verndun Eyjabakka, þá er annað ráðuneyti að leyfa ríkisfyrirtæki að stunda þau umhverfisspjöll á Íslandi, sem því er bannað að stunda í Noregi.

Framferði Norsk Hydro hlýtur að verða viðkvæmt hjá Norðmönnum, ef þeir átta sig á, hvað er að gerast í nafni Noregs. Því er augljóst, að beina þarf meiri athygli þeirra að málinu, til dæmis með mótmælaaðgerðum í Osló hjá viðkomandi ráðuneyti og hjá Norsk Hydro.

Hvort sem um er að ræða þrýsting á innlenda stjórnmálamenn eða virkjun almenningsálits í Noregi gegn áformum Norsk Hydro, þá er málið í höndum fólksins sjálfs. Annaðhvort lætur það ríkisstjórnarflokkana valta yfir sig eða það tekur til hendinni.

Ef vilji meirihluta þjóðarinnar verður hunzaður í máli þessu, er það sofandahætti meirihluta þjóðarinnar að kenna, en ekki bara Finni, Halldóri og Siv.

Jónas Kristjánsson

DV

Hagkvæmni og fáokun

Greinar

Nú vilja allir ná svokallaðri hagkvæmni stærðarinnar. Í öllum geirum atvinnulífsins hafa fyrirtæki verið að sameinast eða éta hvert annað til að stækka. Eftir fleiru er að slægjast en hagkvæmninni einni, því að einokun er framtíðardraumur þeirra, sem berjast á markaði.

Lengst af sáldrast hagnaðurinn af samruna fyrirtækja út í þjóðfélagið, einkum í lægra vöruverði og hærri sköttum stækkuðu fyrirtækjanna. Að lokum snýst dæmið við, því að stækkuðu fyrirtækin verða ráðandi á markaði og hagnýta sér þá stöðu til hins ýtrasta.

Á nokkrum árum hefur markaðurinn þrengst svo hér á landi, að litlar líkur eru á, að smáfiskar geti ógnað veldi stórhvelanna. Ekki tókst að stofna hér nýtt olíufélag, þótt miklir peningar væru að baki, og ekki tekst heldur að stofna hér nýtt tryggingafélag.

Kanadískt olíufélag skoðaði málin vel, en treysti sér að lokum ekki til að ryðjast inn á markaðinn. Fyrirtæki á vegum Llyods hefur lyktað af markaði bílatrygginga á vegum Félags íslenzkra bifreiðaeigenda, en virðist ekki telja mikla framtíð vera í þeim viðskiptum.

Ekki hafa rætzt vonir um, að erlendir bankar setji hér upp útibú til að græða á að geta boðið upp á minni vaxtamun en íslenzku bankarnir beita viðskiptamenn sína í skjóli fáokunar. Viðskipti á Íslandi eru svo lítil, að útlendir bankar nenna ekki að standa í þeim.

Við sitjum því í súpunni. Annars vegar þurfa íslenzk fyrirtæki að stækka til að verða jafn hagkvæm og hliðstæð fyrirtæki í útlöndum. Hins vegar fá íslenzku fyrirtækin ekki samkeppni að utan, af því að útlend fyrirtæki hafa ekki tíma til að sinna litlum markaði.

Við þurfum hér á landi að þola færri og stærri fyrirtæki án þess að njóta þess hagræðis, að annað hvort úr grasrótinni eða að utan komi ný samkeppni til skjalanna til að halda verðandi fáokurum og einokurum í skefjum. Hörð samkeppni breytist því hratt í fáokun.

Ef við lítum yfir atvinnulífið í heild, sjáum við, að fáokun ríkir á flestum sviðum. Samgöngur í lofti og á láði hafa lengi lotið lögmálum fáokunar og hún hefur tekið yfir vöruflutninga á landi. Fáokun í bönkum, tryggingum og olíuverzlun hvílir á gömlum merg.

Að undanförnu hefur fáokun verið að rísa í smásölu matvæla og í heildsölu grænmetis. Slík fáokun hefur frá gamalli tíð ríkt í annarri heildsölu landbúnaðarafurða. Framleiðslufyrirtæki og sölufélög í sjávarútvegi eru sem óðast að sameinast og lyfjaverzlun enn hraðar.

Erlend markaðshagfræði segir, að hagkvæmni stærðarinnar sáldrist út í þjóðfélagið. Hún gerir ráð fyrir, að upp komi ný samkeppni að utan eða að neðan, ef fyrirtæki hafi stækkað svo og þeim hafi fækkað svo, að þau geti kippt markaðslögmálunum úr sambandi.

Hins vegar þarf töluverða trúgirni til að halda, að hér muni rísa nýtt skipafélag, nýtt flugfélag, nýtt vöruflutningabílafélag, nýtt tryggingafélag, nýtt olíufélag, ný stórmarkaðakeðja eða nýtt dreifingarfélag innlendra matvæla á borð við mjólkurvörur, kjöt og grænmeti.

Sumpart kemur ríkið í veg fyrir þessa möguleika, til dæmis með innflutningsbanni og ofurtollum á matvælum. Sumpart stuðlar það að fákeppni, til dæmis með því að reyna að sameina ríkisbanka í þágu helztu fáokunarhópanna, kolkrabbans og smokkfisksins.

Alvarlegasta orsök fákeppni er þó, að gömlu fáokunarhóparnir eru umbjóðendur íslenzkra stjórnmála og sjá um fjárhagslegan rekstur ríkisstjórnarflokkanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Atlaga að hag og heilsu

Greinar

Þeir, sem halda uppi verði á innlendu grænmeti, hafa oft verið sakaðir um að urða hluta framleiðslunnar til þess að halda uppi verðlaginu. Þeir hafa jafnan neitað slíku harðlega. Eigi að síður hefur oft komizt upp um þá og myndir hafa verið birtar því til sönnunar.

Einokunarhringur grænmetisdreifingarinnar hefur áreiðanlega látið urða grænmeti á afskekktum stöðum í skjóli nætur að þessu sinni eins og áður. Aðstæðurnar eru ákjósanlegri en nokkru sinni fyrr, því að samkeppni er gersamlega horfin og einokun orðin alger.

Sjálfur viðurkennir landbúnaðarráðherra að gríðarleg fákeppni sé í grænmetisverzlun, en vill kenna samruna stórmarkaða um það. Því er svarað til, að raunverulega einokunin sé hjá Sölufélagi garðyrkjumanna, sem hefur 90% af heildsölu innlendu framleiðslunnar.

Lokaða kerfið er allt skipulagt að ofan í landbúnaðarráðuneytinu. Á þess vegum eru settir breytilegir tollar á innflutt grænmeti. Þeir byrja að rísa rétt áður en innlent grænmeti kemur á markaðinn og ná síðan mörg hundr-uð prósentum, jafnvel yfir þúsund prósentum.

Innan þessa lokaða kerfis leikur einokunarhringur grænmetisdreifingarinnar lausum hala. Með ofurtollum er hann verndaður fyrir samkeppni að utan. Framleiðendum grænmetis er refsað, ef þeir reyna að dreifa framleiðslunni utan hins lokaða söluhrings.

Afleiðingarnar eru ljósar og hafa verið mældar. Síðustu árin hefur grænmetisverð hækkað langt umfram vísitölu neyzluverðs. Kílóverð einstakra tegunda er komið upp fyrir kílóverð á kjöti og fiski. Hversdagsgrænmeti á borð við papriku kostar oft yfir 700 krónur í búð.

Grænmeti, sem nágrannar okkar líta á sem mat, flokkast hér sem skraut ofan á mat, af því að fólk hefur ekki ráð á að kaupa það sem mat. Þannig má flokka 700 króna papriku, sem oft er til sýnis í verzlunum til að ögra smælingjum, sem ekki hafa ráð á grænmeti.

Neytendur svara ofurtollunum og einokuninni með því að spara við sig grænmeti. Þessi afleiðing hefur einnig verið mæld. Komið hefur í ljós, að grænmetisneyzla Íslendinga er helmingi minni en nágrannaþjóðanna og helmingi minni en ráðlagt er í útlöndum.

Íslendingar munu ekki ná staðli Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar um hlutfall grænmetis í mat meðan lokað kerfi landbúnaðarráðuneytisins er við lýði. Afleiðingin af því kemur fram í röngum neyzluvenjum, óþarflega mikilli offitu og of miklu heilsuleysi fólks.

Ofurtollar landbúnaðarráðuneytisins eru kjarni vandans, studdir hinum meginþættinum, sem er einokun heildsölunnar, sem áfram er studd af fáokun í stórmörkuðum. Sameiginlega felur þetta kerfi í sér stórfellda árás kerfisins á pyngju og heilbrigði almennings.

Urðun grænmetis er toppventill kerfisins, framin á afskekktum stöðum í skjóli nætur, nauðsynleg til að upp gangi atlaga landbúnaðarráðuneytisins að fjárhag og heilsufari þjóðarinnar. Það er mjög við hæfi, að með urðun grænmetis sé farið eins og mannsmorð.

Ríkisvaldið kemur fram í afskræmdri mynd í máli þessu. Það víkur frá því meginhlutverki sínu að vernda þjóðina fyrir innri og ytri hættum og skipuleggur í staðinn samsæri gegn hag hennar og heilsu. Svona lagað kallast á íslenzku skipulögð glæpastarfsemi.

Að þetta kerfi skuli lifa og dafna áratugum saman má hafa til marks um botnlausan ræfildóm íslenzkra kjósenda, sem hafa látið umboðið í hendur forstokkaðra.

Jónas Kristjánsson

DV

Vestræn gildi sækja fram

Greinar

Vestrænt gildismat er á nýjan leik í sókn í heiminum eftir nokkurt hlé gagnsóknar af hálfu leiðtoga í fjarlægum Austurlöndum, sem óttast, að vestræn gildi grafi undan alræðisvaldi þeirra. Vestræn gildi eru enn á ný sett fram sem almenn mannkynsgildi.

Mannréttindi eru einkunnarorð vestræna gildismatsins. Undir merkjum mannréttinda er sótt að harðstjórum, sem áður gátu farið sínu fram í skjóli þess, að vestræn mannréttindastefna ætti ekki heima utan Vesturlanda og fæli í sér afskipti af innanríkismálum.

Um þessar mundir er hin vestræna stefna mannréttinda að vinna land á Austur-Tímor. Hersveitir Indónesíu hafa flúið af vettvangi eftir óheyrileg grimmdarverk, en skilið eftir hluta af dauðasveitum sínum til að reyna að grafa undan innrásarliði Ástralíumanna.

Við valdaskiptin á Austur-Tímor hefur komið í ljós, að dauðasveitirnar voru að mestu leyti skipaðar hermönnum Indónesíu, sem skiptu um hlutverk í frístundum. Enn fremur hefur með símahlerunum komið í ljós, að yfirmenn hersins stjórnuðu dauðasveitunum.

Það kemur ekki á óvart á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, að valdhafar austrænna ríkja skuli slá skjaldborg um herinn í Indónesíu til að koma í veg fyrir, að efnt verði til stríðsglæpadómstóls að vestrænum hætti til að fjalla um voðaverkin á Austur-Tímor.

Ekki kemur heldur á óvart, að valdhafar þessara ríkja kvarta um, að Ástralíumenn gangi alltof hart fram við að afvopna dauðsveitir Indónesíuhers á Austur-Tímor. Þeir segja þetta vera nýtízkulegt dæmi um aldagamlan yfirgang hvíta mannsins í þriðja heiminum.

Ráðamenn Austurlanda eru að verja rétt sinn og sálufélaga sinna til að ofsækja heilar minnihlutaþjóðir ofan á ofsóknir gegn trúflokkum, stjórnarandstöðu, fjölmiðlum og yfirleitt öllum, sem þeir telja standa í vegi sínum. Þeir eru að verja brot gegn mannkyninu.

Austrænir ráðamenn hafa gert vestrænu gildismati greiða með því að stilla andstæðunum upp sem mun á austri og vestri. Þegar siðferðisforsendur austræna gildismatsins bresta, verður fall þess mikið. Vestrænu gildin eiga þá greiðari leið að heimsyfirráðum.

Ráðamenn á Vesturlöndum eru í auknum mæli að átta sig á, að valddreifð réttarríki að vestrænum hætti í þriðja heiminum eru líklegri en önnur til að verða efnahagslega sjálfbær og friðsöm. Þróunaraðstoð beinist í auknum mæli til ríkja, sem þróast í vestræna átt.

Ráðamenn á Vesturlöndum eru í auknum mæli að átta sig á, að bezta leiðin til að stækka svæði friðar og kaupsýslu í heiminum og fækka heimspólitískum vandamálum er að styðja ríki til að taka ekki aðeins upp vestræn form, heldur einnig vestræn gildi.

Ráðamenn á Vesturlöndum eru í auknum mæli að átta sig á, að taprekstur er og verður á vestrænum stuðningi við harðstjóra þriðja heimsins. Komið hefur í ljós, að borgaraleg réttindi að vestrænum hætti eru jarðvegur kaupsýslu og friðsamlegrar sambúðar ríkja.

Eftir japl og jaml og fuður ákváðu Vesturlönd að sýna tennurnar í Kosovo. Nú hafa þau gert hið sama á Austur-Tímor, einnig með nokkurri tregðu. Í báðum tilvikum vanmátu harðstjórarnir getu Vesturlanda til að láta hunzaðar umvandanir leiða til hernaðaraðgerða.

Hrollur fer nú um harðstjóra þriðja heimsins, þegar þeir hópa fulltrúa sína saman á vettvangi Sameinuðu þjóðanna til að tefja framgang mannréttinda.

Jónas Kristjánsson

DV

Samfylkingin sefur og sefur

Greinar

Samfylkingin þarf strax að taka sig í gegn, koma straumlínulagi á málefni sín og velja sér nýja forustu. Lýðræðið gerir ráð fyrir, að stjórnarandstaða sé virk og geti veitt stjórnvöldum aðhald, en Samfylkingin liggur meira eða minna í dvala vikum og mánuðum saman.

Vandi Samfylkingarinnar felst ekki í, að fólk og fjölmiðlar tali um þetta og furði sig á niðurlægingu hennar. Vandi hennar felst í niðurlægingunni sjálfri, en ekki í umtali annarra um hana. Því miður er algengt, að fólk og félög í afneitun rugli þessu tvennu saman.

Samfylkingin er í afneitun. Forustusveit hennar og virkir félagsmenn neita að horfast í augu við raunveruleikann og kenna öllum öðrum um, hvernig fyrir henni er komið. Fjölmiðlarnir eru sagðir vondir við hana og ekki sýna henni næga biðlund og skilning.

Ekklar og ekkjur geta komizt upp með sálgæzluþvælu af þessu tagi, en stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn kemst ekki upp með að velta sér upp úr skorti á biðlund og skilningi annarra. Ríkisstjórnin er í ýmsum vondum málum, sem kalla strax á virka stjórnarandstöðu.

Formaður Samfylkingarinnar var vel látin og vinsæl, en hefur greinilega ekki heilsu og úthald til að standa í daglegri varðstöðu og eftirliti. Vikum saman er hún meira eða minna frá vinnu og hefur þess á milli lítið frumkvæði, svarar bara spurningum fjölmiðla.

Samfylkingin hefur sem stjórnmálaafl nánast óheftan aðgang að fjölmiðlum. Hún þarf talsmann, sem heldur daglega uppi umræðu og andófi. Núverandi ástand er með öllu óþolandi og hefur þegar leitt til, að Græna vinstrið er tekið við sem eiginleg stjórnarandstaða.

Seinagangur Samfylkingarinnar við að ganga frá skipulagsmálum sínum og forvera sinna er öllum ljós, sem á horfa. Flokkar og fyrirtæki eiga ekki að tala um biðlund og skilning, heldur taka til hendinni. Annars koma aðrir og taka upp merkið. Þannig er lífið.

Það gengur ekki, að sveitir gamalla forustumanna úr hálfdauðum og dauðum stjórnmálaflokkum vafri um í nafni Samfylkingarinnar og tali út og suður um málefni hennar og þjóðarinnar, hver með sínu kreddunefi. Fólk missir trú á pólitík, sem birtist á þennan hátt.

Stjórnarandstaða felst í mörgu fleiri en þátttöku í málfundum Alþingis hluta úr ári. Allt árið þarf daglega að koma sjónarmiðum á framfæri í fjölmiðlum og á fundum um allt land. Þegar Alþingi situr ekki, á að vera góður tími til að sinna slíkum þáttum stjórnarandstöðu.

Samfylkingin hefur sóað tíma sínum í ársþriðjung. Hún hefur hreinlega legið í dvala í allt sumar. Hún virðist engu nær um samræmingu sjónarmiða og hún virðist engu nær um það, hver eigi að taka að sér að leiða hana og hafa forustu um stjórnarandstöðu.

Á meðan lekur niður traust fólks á öllum, sem koma að forustu Samfylkingarinnar eða eru orðaðir við hana. Margrét Frímannsdóttir er komin í mínus í könnunum, sömuleiðis Jóhanna Sigurðardóttir og hillingin mikla í eyðimörkinni, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Annað forustufólk Samfylkingarinnar kemst ekki á blað, jafnvel ekki það, sem er á kaupi hjá ríkinu sem stjórnmálamenn árið um kring. Fundarsalir og fjölmiðlar eru lausir árið um kring. Lífið í landinu leggst ekki í dá. Það er bara Samfylkingin sem sefur og sefur.

Sumir áhrifamenn í Samfylkingunni hafa séð þetta, en tala fyrir daufum eyrum þeirra, sem eru svo ánetjaðir afneituninni, að þeir sjá ekki eymdina og volæðið.

Jónas Kristjánsson

DV

Saumað að tóbaki

Greinar

Þriggja áratuga rannsókn á rúmlega tuttugu þúsund Íslendingum hefur sýnt, að reykingar eru ein helzta dánarorsök landsmanna. Samanburður reykingafólks og reykleysingja sýnir, að tóbak veldur ekki aðeins krabbameini, heldur líka hjarta- og æðasjúkdómum.

Rannsóknin sýnir, að reykingar margfalda líkur á ótímabærum dauða. Þær auka einnig líkur á ömurlegum aðdraganda dauðans, þar á meðal uppskurðum, lyfjameðferðum og langlegum, því að sjúkdómarnir, sem tóbakið framkallar, eru ekki lambið að leika sér við.

Sagan um glataða soninn í Biblíunni fær byr undir báða vængi í rannsókninni. Þeir, sem hætta að reykja, hreinsast að innan og bæta mörgum heilbrigðum árum við ævi sína. Þetta gildir um alla aldurshópa, en græddu árin eru því fleiri, sem menn hætta fyrr að reykja.

Hins vegar er hægar sagt en gert að hætta að reykja eins og margir þekkja. Nikótínið í tóbaki er eitt allra skæðasta fíkniefni, sem þekkist. Það ánetjar menn hratt og heldur fast í þá. Alkóhól og ýmis ólögleg fíkniefni eru ekki eins vanabindandi og tóbakið.

Krabbameinsfélagið, Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði og ýmsir aðrir halda námskeið fyrir þá, sem vilja hætta að reykja. Sjálfsagt er fyrir fólk að fá sérfræðilega aðstoð af slíku tagi, ef reynslan sýnir, að ekki ganga upp tilraunir þess til að hætta að reykja af eigin rammleik.

Umburðarlyndi umhverfisins gagnvart tóbaki fer ört minnkandi. Á flestum vinnustöðum má ekki lengur reykja. Víða eru heilu húsin reyklaus og sums staðar má ekki heldur reykja á lóðunum. Fólk er farið að tala opinskátt um vondu lyktina af reykingafólki.

Bannað er að auglýsa tóbak hér á landi, en nýliðar komast í tæri við erlendar auglýsingar, sem sýna glansmynd af Marlboro-manninum, er síðan dó kvalafullum dauða úr krabbameini. Þannig fylla nýir tóbaksþrælar skörð þeirra, sem hætta eða veslast upp.

Í Bandaríkjunum hafa verið lögð fram rækileg og fjölbreytt gögn, sem sýna, að tóbaksframleiðendur hafa áratugum saman vitað um skaðsemi tóbaks og meira að segja haft samráð um að auka nikótínið í tóbakinu til að fíknin nái sem fyrst tökum á nýliðum í reykingum.

Með stórfelldum greiðslum til stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna hefur tóbaksfyrirtækjum til skamms tíma tekizt að stunda glæpi sína í skjóli stjórnmálanna, einkum í Bandaríkjunum, en einnig í Evrópu. Nú eru teikn á lofti um, að múturnar dugi ekki lengur.

Með rúmlega 200 milljarða dollara dómsátt hefur tóbaksfyrirtækjunum tekizt að forða sér frá dómi í máli, sem samtök ríkja í Bandaríkjunum höfðuðu gegn þeim. Einstaklingar og samtök einstaklinga eru farin að vinna tugmilljóna dollara skaðabætur í málaferlum.

Nú er sjálf Bandaríkjastjórn komin á vettvang og krefst skaðabóta fyrir útlagðan heilbrigðiskostnað af völdum reykinga. Þar er um að ræða 500 milljarða dollara kostnað á aldarfjórðungi. Því er að þrengjast hringurinn um fíkniefnagreifa tóbaksiðnaðarins.

Stjórnvöld á Vesturlöndum geta varla vikizt undan almennu banni við tóbaksauglýsingum. Á endanum komast þau ekki heldur hjá því að sækja ráðamenn tóbaksfyrirtækjanna til persónulegrar ábyrgðar fyrir eindreginn brotavilja þeirra, skjalfestan í gögnum.

Hér á landi vakna spurningar um málsaðild ríkisvaldsins, sem hefur heildsölu eins eitraðasta fíkniefnis veraldar að meiriháttar tekjulind ríkissjóðs.

Jónas Kristjánsson

DV

Ógnvaldur beygir sig

Greinar

Forsætisráðherra varð að beygja sig. Fjárfestingarbanki atvinnulífsins verður seldur í opnu útboði, þar sem hver aðili eða hópur skyldra aðila má ekki kaupa meira en 6%. Þetta þýðir, að fleiri aðilar en kolkrabbinn einn geta tekið þátt í að bjóða í hlutabréfin.

Forsætisráðherra hafði sagt, að skammta bæri aðgang að kaupunum með forvali og að selja bæri 51% bankans til samstæðs hóps. Þetta var ávísun á, að kolkrabbinn einn, undir forustu Eimskipafélagsins, hefði burði til að bjóða í bréfin. Þetta var gamla einkavinavæðingin.

Skoðun forsætisráðherra var sett fram sem viðbrögð við sölu Kaupþings og sparisjóðanna á fjórðungi bankans til fyrirtækja utan kolkrabbans. Forsætisráðherra var að segja fjármálafólki, að hann gæti með handafli stýrt einkavæðingunni í farveg einkavinavæðingar.

Það eina, sem situr eftir af innrás forsætisráðherra í bankageirann, er ákvörðun um að selja afganginn af Fjárfestingarbanka atvinnulífsins í einu lagi. Áður hafði verið gert ráð fyrir, að það yrði gert í áföngum til að fjölga bjóðendum og hækka tilboð þeirra.

Athyglisvert er, að togstreitan um aðferðafræði einkavæðingarinnar snýst ekki um, hvernig megi fá sem mesta peninga í ríkiskassann, heldur hvernig megi haga handafli á þann hátt, að sumir hafi betri aðstöðu en aðrir til að bjóða í hlutina. Þannig er Ísland enn.

Forsætisráðherra hefur í vaxandi mæli leikið hlutverk ógnvalds. Hann vill hafa neitunarvald um skipun mikilvægustu starfa atvinnulífsins og geta skipað fyrirtækjum landsins til sætis við veizluborð leifanna af skömmtunarkerfi fyrri áratuga. Annars reiðist hann.

Margir skjálfa af tilhugsun um reiði forsætisráðherra. Þeim fer þó fjölgandi, sem kæra sig kollótta um, hvort þeir séu í náðinni eða ekki. Atvinnulífið er orðið svo fjölbreytt, að einn kolkrabbi og einn forsætisráðherra geta ekki lengur ráðið ferðinni í stóru og smáu.

Samkvæmt skoðanakönnunum er almenningur ánægður með núverandi forsætisráðherra, sem sameinar hlutverk landsföður og ógnvalds. Þess vegna er ekkert því til fyrirstöðu, að Davíð Oddsson geti skipað þetta virðingarsæti eins lengi og hann kærir sig um.

Þjóðfélagið hefur hins vegar breytzt svo mikið, að allt vald er ekki lengur á einum stað. Landsfeður geta ekki lengur skammtað aðgang að öllum kjötkötlum, sem máli skipta. Þeir geta ekki stýrt umræðunni í þjóðfélaginu. Þeir geta bara ráðið vini sína í opinber embætti.

Hlutfallslegt vægi ríkisvaldsins hefur minnkað. Menn geta leyft sér að sitja ekki og standa eins og forsætisráðherra skipar fyrir. Auðvitað reiðist hann, þegar valdið sáldrast niður milli fingra hans og hótanir um handafl ganga ekki lengur upp. En lífið heldur áfram.

Valddreifingin í þjóðfélaginu minnkar ekki einokun og fáokun á hverju sviði fyrir sig. En hún dregur þræðina úr höndum hinna fáu útvöldu og dreifir þeim á fleiri hendur. Lýðræði skánar og þjóðarhagur eflist við fjölgun á miðstöðvum valda og ákvarðana í þjóðfélaginu.

Opið útboð og reglur um hámarkskaup skyldra aðila í sölu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins er dæmi um, að stjórnmálin eru að missa tökin á fjármálunum og að hugsanlegt er orðið, að einkavinavæðingin breytist smám saman í einkavæðingu að útlendum hætti.

Menn hafa heyrt hótanir landsföðurins um beitingu handafls og dregið sínar ályktanir. Þegar brestir hlaupa í ógnvaldið, hljótast af því keðjuverkanir.

Jónas Kristjánsson

DV

Verðbólguspár eldast illa

Greinar

Í upphafi þessa árs spáðu Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun um 2,5% verðbólgu á árinu öllu. Þá þegar taldi DV í leiðara þessar spár vera rangar, sagði verðbólguna örugglega mundu fara mun hærra, hugsanlega yfir 5%. Nú er ljóst, að verðbólgan fer yfir 6% á þessu ári.

Í leiðara DV var sagt, að Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun væru húsbóndahollar stofnanir, sem ekki vildu valda ríkisstjórninni erfiðleikum í aðdraganda alþingiskosninga. Þjóðhagsstofnun svaraði gagnrýninni fullum hálsi, en svör hennar hafa reynzt vera ómerk orð.

Samfylkingin reyndi að gera verðbólguna og innflutningshallann að kosningamáli í vor, en uppskar ekki annað en aðhlátur úr Háskólanum, þar sem helzti brandarakarlinn hefði mátt vita betur. Enginn vildi frekar en venjulega hlusta á boðbera válegra tíðinda.

6% verðbólga í umheimi 2% verðbólgu er mjög alvarlegt mál, þótt sumum henti pólitískt að loka augunum fyrir því. Eftir áramótin hefjast kjarasamningar að nýju og þá munu forkláruðustu bjartsýnismenn sjá, að óhófleg verðbólga hleður upp óþægilegum vandamálum.

Það eina, sem hefur farið öðruvísi en sjá mátti fyrir í janúar þessa árs, er hækkun benzínverðs á alþjóðamarkaði. Sú hækkun er þó ekki meiri en svo, að hún nemur ekki einu sinni mismuninum á 5% og 6% hækkun. Ríkissjóður hefur hins vegar magnað hana með skatti.

Fyrir utan benzín- og fasteignaverð sker verðhækkun matvæla í augu. Þau hafa hækkað um 6% á einu ári. Sú hækkun var fyrirsjáanleg, enda hefur DV nokkrum sinnum varað við því í leiðurum, að aukin fákeppni á matvörumarkaði mundi magna verðbólguna í landinu.

Samráðin í fákeppni matvörumarkaðarins felast í að halda prósentubilum milli tegunda verzlana eftir þjónustustigi þeirra, en ýta öllu verðlaginu svo hægt upp á við, að enginn taki eftir því meðan það er að gerast. Þannig hefur matvara hækkað um 6% á einu ári.

Forsætisráðherra hefur af annarlegum ástæðum tekið undir þessa lýsingu á ástandi matvörumarkaðarins. Það hentar honum að sjá með röntgenaugum, þegar meintir óvinir eru að maka krókinn, en setja kíkinn jafnan fyrir blinda augað, þegar kolkrabbinn þarf að fita sig.

Þjóðhagsstofnun og Seðlabankinn áttu í ársbyrjun að geta séð fram á meginhluta fasteignaverðbólgunnar, alla matvöruverðbólguna og hluta benzínverðbólgunnar. Verðbólguspár þessara stofnana í upphafi árs stöfuðu annað hvort af fáfræði eða húsbóndahollustu.

Nú er fyrri forstjóri kominn aftur til Þjóðhagsstofnunar og eðlilegri hljóð farin að heyrast þaðan. Þar og annars staðar eru menn sammála um, að verðbólgan sé orðin svo grafalvarleg, að stjórnvöld þurfi að grípa til aðgerða til að hægja á framkvæmdagleði þjóðarinnar.

Þegar er ljóst, að fyrirhuguð Fljótsdalsvirkjun og Reyðarfjarðarálver verða eins og eldur á olíu núverandi verðbólgu. Þessar framkvæmdir eru því þjóðhagslega óhagkvæmar um þessar mundir, burtséð frá kenningum um, að þær séu almennt séð úreltar og ekki vistvænar.

Vextir eru óhjákvæmilega farnir að hækka og munu halda áfram að hækka, þótt vaxtastig sé hér þegar komið himinhátt yfir það, sem þekkist í nágrenninu. Með háum vöxtum á að dempa framkvæmdagleðina. Þetta er gamalkunnugt lyf, sem hefur miklar aukaverkanir.

Við verðum á næstu misserum að borga brúsann af of lágum verðbólguspám í byrjun kosningaárs og tilheyrandi frestun aðgerða fram í óefni líðandi stundar.

Jónas Kristjánsson

DV

Áður óþekktar óvinsældir

Greinar

Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðisráðherra má vel við una þessa dagana. Óvinsældir hennar sem stjórnmálamanns eru að vísu töluverðar, en hafa á síðustu misserum algerlega horfið í skugga feiknarlegra óvinsælda tveggja annarra ráðherra Framsóknarflokksins.

Finnur Ingólfsson orkuráðherra og Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra búa við meiri óvinsældir en áður hafa þekkzt í skoðanakönnunum. Álit fólks á þeim er nærri eingöngu neikvætt. Þau eru ekki umdeild eins og Davíð Oddsson, heldur hreinlega afskrifuð.

Finnur Ingólfsson hefur unnið fyrir óvinsældum sínum á löngum tíma með gegndarlausri stóriðjuþrjózku, sem senn mun leiða til mesta umhverfisslyss aldarinnar hér á landi. Hann starfar í skjóli flokksformannsins, sem beitir honum fyrir sig í Fljótsdalsvirkjun.

Siv Friðleifsdóttir siglir hins vegnar inn í sviðsljósið beint á botninn. Hún keypti ráðherradóminn því verði að skipta um skoðun á umhverfismati Fljótsdalsvirkjunar. Hún má varla opna munninn án þess að tapa fylgi, svo ógætin er hún í innantómum fullyrðingum.

Svo óvinsæl eru þau tvö, að samanlagðar óvinsældir annarra stjórnmálamanna komast ekki í hálfkvisti við þau tvö. Er þá undanskilinn Davíð Oddsson, enda falla miklar óvinsældir hans í skugga enn meiri vinsælda, sem eru hinum megin á vogarskálunum.

Vinsældakönnun DV skiptir íslenzkum stjórnmálamönnum í fjóra flokka. Davíð Oddsson er einn og sér í flokki sem umdeildur landsfaðir. Halldór Ásgrímsson, Steingrímur J. Sigfússon og Geir H. Haarde eru saman í flokki þeirra, sem njóta töluverðs álits.

Síðan koma fyrirlitnu framsóknarmennirnir þrír, Finnur og Siv á botninum og Ingibjörg í humátt á eftir þeim. Í fjórða flokki er forustulið Samfylkingarinnar, fremur óvinsælt, en ekki áhugavert að mati kjósenda. Í fimmta flokki eru svo hinir, sem engu máli skipta.

Halldór Ásgrímsson er einn þeirra, sem kallaðir hafa verið teflon-menn í útlöndum. Hann hefur kvóta í þanþoli kjósenda. Honum er ekki legið á hálsi fyrir að vera frumkvöðull umhverfisslyssins á Austurlandi, heldur er öðrum ráðherrum flokksins kennt um það.

Þótt Halldór njóti þess að geta farið sínu fram í flokknum, telst hann ekki í hópi þeirra mikilhæfu manna, sem rækta eftirmenn og sá þannig til framtíðar. Umhverfis hann í ráðherrastólunum eru fyrirlitnir jámenn, sem kjósendur munu ekki treysta til forustu.

Vont er fyrir stjórnmálaflokk að hafa aðeins einn frambærilegan mann á toppnum og víðáttumikla eyðimörk allt í kring. Verra er fyrir stjórnmálaflokk, þegar toppmaðurinn leggur sig fram við að gæta þess, að sjálfstætt hugsandi fólki sé ýtt til hliðar í flokknum.

Þótt framsóknarmönnum hafi þótt og þyki enn sem þeir séu vel settir með óumdeildan formann, er hætt við, að sagnfræðin fari hrjúfari höndum um Halldór Ásgrímsson í framtíðinni, þegar komið hefur í ljós, að hann mun skilja flokk sinn eftir í rjúkandi rúst.

Áratugum saman var Framsóknarflokkurinn í milliþungavigt. Undir forustu Halldórs og hinna óvinsælu jámanna hans hefur flokkurinn krumpast niður í smáflokksstærð og mælist í skoðanakönnunum á svipuðu róli og Samfylkingin og Græna vinstrið.

Engum íslenzkum flokksformanni hefur tekizt að safna með sér í ríkisstjórn slíku einvala-botnliði óvinsældafólks, sem Halldóri Ásgrímssyni hefur tekizt.

Jónas Kristjánsson

DV

Fjandmenn fallast í faðma

Greinar

Jarðskjálftarnir í Tyrklandi og Grikklandi hafa breytt gagnkvæmum viðhorfum þjóðanna. Grikkir sendu hjálparsveitir til Tyrklands og síðan sendu Tyrkir hjálparsveitir til Grikklands. Tyrki hefur boðið slösuðum Grikkja nýra sitt og annað boð farið í hina áttina.

Grikkir og Tyrkir eru aldagamlir fjandmenn, enda ráða Tyrkir hinum forna Miklagarði og miklu landi í Anatólíu, sem áður tilheyrði honum. Snemma á þessari öld var hatrið svo mikið, að fram fóru gagnkvæmar þjóðahreinsanir beggja vegna landamæranna.

Kýpurdeilan hefur verið óleyst áratugum saman og oft verið ófriðlegt í sundunum milli eyja Grikkja og meginlands Tyrkja. Nató hefur löngum haft áhyggjur af þessum aðildarríkjum sínum. Og Grikkir hafa brugðið fæti fyrir inngöngu Tyrkja í Evrópusambandið.

Ísinn var brotinn fyrir nokkrum árum, þegar gríska leikkonan Melina Mercouri heimsótti Miklagarð sem menntaráðherra Grikkja í tilefni alþjóðaþings ritstjóra. Fram að þeim tíma höfðu ráðamenn ríkjanna ekki stundað gagnkvæmar kurteisisheimsóknir.

Með nýjum valdamönnum fraus ástandið á nýjan leik, þótt ekki syði upp úr. En jarðskjálftarnir hafa sýnt, að undir frostinu var jarðvegurinn reiðubúinn til sáningar. Hafnar eru gagnkvæmar birtingar greina ritstjóra og dálkahöfunda um samskipti þjóðanna tveggja.

Komið hefur í ljós, að hjá almenningi er jafn auðvelt að rækta ást og hatur. Er ráðamenn á ýmsum sviðum fara af annarri sveifinni og leggjast á hina, fylgir fólkið með. Sameiginlegt skipbrot á borð við hörmungar jarðskjálfta kemur svo friðarferli á fljúgandi skrið.

Allt er þetta brothætt. Til valda geta komizt stjórnmálamenn á borð við Milosevic í Serbíu, sem nærist á því að magna þjóðernisofstæki og nágrannahatur kjósenda. Við sjáum af því dæmi, hversu auðvelt er að trylla heila þjóð til brjálæðislegra ódæðisverka.

Grikkir og Tyrkir hafa verið heppnari en Serbar, þótt ýmis ljón hafi verið á vegi þeirra. Grikkir hafa stutt óhæfuverk Serba gegn Albönum í Kosovo, en Tyrkir hafa stutt varnir Albana. Þá hafa Tyrkir stundað grimmdarlegar ofsóknir gegn minnihlutahópi Kúrda.

Hvorug þjóðin getur talizt til engla, nema síður sé. Samt hefur verið jarðvegur fyrir hina skyndilegu þíðu milli þjóðanna, þegar þær eru farnar að hjálpast að í erfiðleikum sínum, rétt eins og Norðurlandaþjóðir mundu gera. Hið góða blundar undir vetrarfrosti.

Mikilvægt er, að önnur ríki Atlantshafsbandalagsins stuðli að þessu með því að sýna, að friður borgi sig frekar en ófriður. Það hefur um skeið og verður enn um sinn höfuðverkefni bandalagsins að tryggja evrópskan frið um allan Balkanskaga og alla Anatólíu.

Með betri samskiptum verður síðan hægt að gera pólitísk hrossakaup um stöðu Kúrda í Tyrklandi annars vegar og aðild Tyrkja að Evrópusambandinu hins vegar. Slík hrossakaup mundu marka þau tímamót, að loksins yrði varanlegur friður um gervalla Evrópu.

Ýmis Evrópuríki, einkum Spánverjar, hafa mikla og góða og nýlega reynslu af sáttum við minnihlutahópa í landinu. Slíka reynslu ættu Tyrkir að geta notfært sér í samskiptum við Kúrda og fengið þar með hinn eftirsótta aðgöngumiða að forríku Evrópusambandi.

Ekkert er svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott. Jarðskjálftarnir í Tyrklandi og Grikklandi hafa opnað leið til evrópsks friðar og vestrænnar farsældar.

Jónas Kristjánsson

DV