Sumir heilsa nítjándu öldinni

Greinar

Því nær sem dregur að áramótum, þeim mun áleitnari verður spurningin um aldamót og árþúsundamót. Hvort þetta séu þau mót eða hvort menn séu að taka forskot á sæluna einu ári of snemma. Raunveruleg aldamót og árþúsundamót komi ekki fyrr en eftir rúmt ár.

Almenningur lætur þessar hugleiðingar sig litlu varða. Í upphafi næsta árs hefst ártalið á tölustafnum tveimur í stað tölustafsins eins. Þessi stórfellda útlitsbreyting ártala nægir flestum til að líta svo á, að nýtt tímabil sé hafið. Talan 2 hefur tekið við af tölunni 1.

Þegar tímatal okkar var tekið upp, var núllið ekki komið til sögunnar á Vesturlöndum. Menn reiknuðu frá I upp í X. Núllið kom til Evrópu með aröbum og varð síðar hornsteinn stærðfræðinnar, en við sitjum enn uppi með tímatal, sem er arfur frá frumstæðara stigi.

Þeir, sem lifðu við upphaf tímatals okkar, höfðu ekki hugmynd um, að svo væri. Þeir reiknuðu árin út frá mikilvægum atburðum, svo sem valdaskeiðum konsúla. Það var ekki fyrr en löngu seinna, að farið var að reikna tímann aftur á bak og telja mínusár aftur fyrir Krist.

Þá var talan 1 fyrir Krist næsta ár á undan 1 eftir Krist. Ekkert ár var til, sem kalla mætti 0-ár. Þar með varð árið ekki fullnustað fyrr en að því loknu. Þetta er helzta röksemdin fyrir því, að fólk sé ári of snemma að undirbúa hátíðahöld í tilefni næstu árþúsundamóta.

Fyrst og fremst er þetta leikur að tölum, því að óvissa í tímamælingum yfir þúsundir ára veldur því, að aldrei er hægt að segja með fullri nákvæmni, hvað langt sé frá atburðum, sem gerðust t.d. 334 árum fyrir tímatal okkar. Sjálft fæðingarár Krists er raunar með öllu óvíst.

Forfeður okkar héldu upp á síðustu aldamót á mótum áranna 1900 og 1901. Samt þurfum við ekki að hafa samvizkubit út af því að ætla að halda upp á aldamót og árþúsundamót á mótum áranna 1999 og 2000. Við getum til öryggis endurtekið hátíðahöldin ári síðar.

Miklu merkilegri er sú staðreynd, að einungis hluti þjóðarinnar fer inn í 21. öldina um næstu áramót, að vísu meirihluti hennar. Eftir sitja margir á 20. öldinni og sumir verða í þann mund að fara inn í 19. öldina. Eru þar fremst þeir, sem eru enn að iðnvæða Ísland.

Rétt eins og iðnbyltingin kom til sögunnar í lok 18. aldar og einkenndi 19. öldina, þá hefur þekkingarbyltingin verið að koma til sögunnar í lok 20. aldar og mun einkenna þá 21. Á hverju ári margfaldast atvinna Íslendinga af ótrúlegasta þekkingariðnaði af ýmsu tagi.

Eftir sitja ýmsir byggðastefnumenn, verkalýðsforingjar, helztu afturhaldsmenn stjórnmálanna og ýmsir síðbúnir iðnbyltingarmenn. Þeir vilja reisa álver og orkuver á Héraði, gulltrygg taprekstrarfyrirtæki, niðurgreidd af rafmagnsnotendum og lífeyrissjóðum.

Söngkonan Björk og Guðjón í Oz vita, að Norsk Hydro selur álverinu hráefnið, kaupir afurðir þess, flytur hagnaðinn til sín og ræður alveg, hvað íslenzkir lífeyrissjóðir fá fyrir eignaraðildina. Nútímafólk skilur, að á þekkingaröld þrífast álver helzt í þriðja heiminum.

Á sama tíma og þekkingarfólkið er að fara inn í 21. öldina, sitja Halldór, Finnur og Siv á ofanverðri 18. öld og eru að búa sig undir iðnbyltinguna og 19. öldina. Það hefur því hver sín aldamót til að halda upp á um næstu áramót, hver eftir sínu stigi í þróunarbrautinni.

Tíminn, hann er fugl, sem flýgur hratt. Hann flýgur kannski úr augsýn þér í nótt. Hann er fyrir löngu floginn frá þeim, sem eru enn að troða sér inn í 19. öldina.

Jónas Kristjánsson

DV

Hvorki hefnd né lækning

Greinar

Fólk er ekki á einu máli um, hversu þungir dómar eigi að vera. Algengast er, að kvartað sé um, að of vægt sé tekið á afbrotum. Refsingar séu of lágar, enda liggi niðurstöður dómstóla oft í lægri jaðri svigrúmsins, sem löggjafarvaldið hefur markað í lögum frá Alþingi.

Hafa verður í huga, að það er ekki hlutverk refsinga að lækna afbrotamenn. Dómstólar og fangelsi eiga ekki að leika hlutverk sálfræðinga, geðlækna eða meðferðarfulltrúa. Slíkt leiðir þessar stofnanir í gíslingu afbrotamanna, sem verðu fljótt meðferðarsérfræðingar.

Algengasta orsök afbrota hér á landi er neyzla vímuefna, einkum áfengis, en einnig læknalyfja og ólöglegra fíkniefna. Sumir hallast að því að segja: “Jón greyið, hann var fullur”, rétt eins og stjórnleysi áfengisneyzlunnar losi mann undan ábyrgð á gerðum sínum.

Menn bera áfram ábyrgð á sjálfum sér, þótt þeir hafi misst stjórn á sér, til dæmis vegna ættgengrar fíknar, sem þeir ráða ekki við og mundu ekki ráða við, hversu viljasterkir, sem þeir væru. Reynt er að bjóða þeim meðferð, en það breytir ekki hlutverki refsinga.

Ekki er heldur hlutverk refsinga að hefnast á þeim, sem trufla gangverkið í þjóðfélaginu, þótt slíkt sé heit ósk margra þeirra, sem verða fyrir barðinu á afbrotamönnum. Við erum komin fram úr Gamla testamentinu og heimtum ekki einu sinni tönn fyrir tönn.

Þegar fyrst var farið að skrá lagabálka, þótti eðlilegt að vana kynferðisglæpamenn, handhöggva þjófa og hálshöggva ofbeldismenn. Þetta tíðkast ekki lengur. Enn eimir þó eftir af þeirri hugsun, að markmið refsinga sé að fæla aðra frá því að feta í fótspor afbrotamanna.

Fátt bendir til, að lengd eða harka refsinga fæli fólk frá afbrotum, allra sízt í þjóðfélagi, þar sem meirihluti afbrota er framinn af ungum körlum, sem hafa misst stjórn á sér af völdum löglegrar áfengisneyzlu. Við fækkum ekki glæpamönnum með því að herða dóma.

Raunverulegt hlutverk refsinga er fyrst og fremst að losa þjóðfélagið undan þjáningunni af umgengni við síbrotamenn. Með refsingum er verið að taka þá úr umferð í samræmi við það grundvallarhlutverk ríkisins að gæta lífs og lima borgaranna, öryggis og eigna þeirra.

Í mörgum tilvikum eldast afbrotin af mönnum, en í öðrum tilvikum ekki. Afbrot fylgja gjarna ungum karlmönnum, sem ekki eru búnir að festa ráð sitt. Sumir þeirra vaxa aldrei upp úr rugli sínu. Í báðum tilvikum ber ríkinu að sjá um, að þeir skaði ekki aðra.

Þess vegna ber að taka vægt á fyrsta afbroti og hækka gjaldskrána síðan, þegar afbrotunum fjölgar og fara að lokum upp í efri jaðar heimilda um refsingar. Mikilvægt er, að refsing komi fljótt eftir fyrsta brot, en menn safni ekki upp hundrað afbrotum fyrir fyrstu afplánun.

Jafn mikilvægt er, að dómstólar veiti ekki neins konar magnafslætti af afbrotum, til dæmis með því að slengja mörgum afbrotamálum í einn pakka og líta á þau sameiginlega sem eitt brot. Slíkt hvetur afbrotamenn til að vera sem afkastamestir á sem stytztum tíma.

Ekki þýðir að fórna höndum og haga sér eins og refsingar séu tilgangslausar, þegar menn gerast síbrotamenn. Ríkinu ber skylda til að taka slíka menn úr umferð og því ber ekki síður skylda til að taka þá úr umferð ævilangt, ef þeir hætta ekki afbrotaferli sínum.

Tilgangur ríkisins er að gæta öryggis borgaranna og gangverksins í þjóðfélaginu. Refsingar eiga að miðast við það og fela því hvorki í sér hefnd né lækningu.

Jónas Kristjánsson

DV

Frumskylda ríkisvaldsins

Greinar

Það stingur í augu í fréttum af hótunum handrukkara og fíkniefnasala við foreldra og aðra ættingja fíkniefnaneytenda, hversu lítinn stuðning fólk hefur af lögreglunni. Hún kemur seint og illa á vettvang og fylgir ekki slóðinni frá handrukkurum til fíkniefnakónga.

Tökum dæmi af drengnum, sem varð að sæta pyndingum, meðan bróðir hans varð að bíða eftir lögreglunni í 20­30 mínútur í bíl fyrir utan. Nokkrum dögum síðar neitaði lögreglan að hjálpa yngri bræðrum drengsins milli húsa undan hótunum ofbeldismanna.

Tökum dæmi af lögreglunni, sem fékk játningu tveggja handrukkara og sleppti þeim síðan, í stað þess að óska eftir gæzluvarðhaldi til að geta rakið slóðina til þeirra, sem gera þá út. Það er eins og lögreglan á Íslandi átti sig takmarkað á samhengi ofbeldis og fíkniefnasölu.

Marklaust er að segja fólki, að það eigi að kæra handrukkara, þegar það verður þeirra vart. Hver er vörn þessa fólks, sem fær hótanir um, að eignir þeirra verði skemmdar og það jafnvel limlest sjálft? Hvaða ábyrgð tekur lögregla á málum, sem kærð eru til hennar?

Lítt stoðar að vísa til takmarkaðra fjárráða lögreglustöðva. Í þessum efnum er hægt að forgangsraða eins og öðrum. Til dæmis er unnt að fækka fyrirsátum lögreglu til að koma upp um ýmsar ömmur í þjóðfélaginu, sem keyra 15 kílómetrum á klukkustund of hratt.

Hér á landi verður ekki þrengt að möguleikum fíkniefnakónga og handrukkara þeirra, nema lögreglan standi af fullum þunga með þeim, sem kæra. Að öðrum kosti verða það einungis nokkrar hetjur, sem kæra. Hinir borga í kyrrþey og leyfa þjóðfélaginu að grotna.

Ekki tekur betra við hjá dómstólunum. Sá, sem skipulagði ofangreindar pyndingar, slapp við dóm, því að hann var skilgreindur sem vitni, en ekki sem gerandi. Og svo langt gengur ruglið í dómstólunum, að menn fá því vægari dóma, sem brot þeirra verða fleiri.

Í síðustu viku hlutu tveir síbrotamenn lágmarksdóm fyrir rán, þótt þeir hafi verið inni og úti í heilan áratug. Í stað þess að herða dóma við ítrekuð brot, eru dómarnir við neðri mörk lagaákvæða. Þess eru líka dæmi, að dómum sé slengt saman í eins konar afsláttarpakka.

Lögreglu og dómstóla vantar ekki lög eða refsiákvæði. Hvorugt er nýtt til fulls. Alþingi verður ekki sakað um að hafa vanrækt að búa til ramma, sem framkvæmda- og dómsvaldið á þessum sviðum geti farið eftir. Ábyrgðin er hjá þeim, sem forðast að nýta þessa ramma.

Lögreglan veit af tugum handrukkara í fullu starfi. Henni ber skylda til að handsama þá og heimta úrskurði um langvinnt og framlengt gæzluvarðhald, sem verði notað til að fá upplýsingar um fíkniefnasalana, sem hafa þá í vinnu. Lögreglan hefur ekkert betra að gera.

Dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóra ber skylda til að taka yfirmenn lögreglu á teppið og lesa þeim pistilinn. Sömuleiðis er ekki vanþörf á að senda dómurum landsins afrit af lögum, þar sem strikað er undir ákvæði um refsiramma í fíkniefnasölu og handrukkun.

Ríkisvaldið hefur tekið að sér ótal og sum hver illskiljanleg verkefni, en virðist eiga erfitt með að sinna frumskyldu sinni, sem felst í að gæta öryggis borgaranna. Fráleitt er, að ríkisvald, sem veltir 200.000.000.000 krónum á ári, geti ekki sinnt frumskyldu sinni.

Óbótamenn eiga erfitt með að fela sig innan um fámenna þjóð, ef hún ákveður, að þetta gangi ekki lengur. Kominn er tími til að taka þá ákvörðun.

Jónas Kristjánsson

DV

Kamfýlan blómstrar

Greinar

Hollustuvernd ríkisins og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga sátu nýlega á lokuðum fundi og úðuðu í sig Holtakjúklingi til að sýna þjóðinni fram á, að kamfýlugerlar væru ekki banvænir. Þótt 80% kjúklinganna væru sýkt, skyldi fólk halda ró sinni og sjóða vel og lengi.

Síðan hefur komið í ljós, að heimsmetið frá í vor hefur haldizt óbreytt fram á vetur. Af hálfu Hollustuverndar og heilbrigðisnefnda hefur alls ekkert verið gert til að draga úr kamfýlunni. Hinn íslenzki heimsmethafi er enn með 80% sýkingu á kjúklingum í verzlunum.

Svona rétt til samanburðar má benda á, að Norðmenn loka kjúklingavinnslu, ef kamfýla fer yfir 10%. Hér er hins vegar ekki lokað, þótt hún haldizt mánuðum saman í 80%. Það er eins og umhverfisráðherra og forstjóri Hollustuverndar lifi í heimi Lísu í Undralandi.

Forstjóri Hollustuverndar lýsti því raunar yfir á átfundinum fræga í haust, að hann liti á hlutverk sitt sem sáttasemjara. Hann hlýtur að hafa átt við, að hann ætlaði að sætta niðurstöður fræðimanna annars vegar og þrönga sérhagsmuni kjúklingabúa hins vegar.

Maður sér forstjórann fyrir sér fá inni í Karphúsinu hjá sáttasemjara ríkisins og hlaupa þar milli herbergja til að bera gagntilboð milli málsaðila. “Ég býð 50% sýkingu”, segir annar málsaðilinn. “Ég býð 20% snyrtingu á niðurstöðum rannsókna”, segir hinn.

Við vitum af mörgum öðrum málum, að nýi umhverfisráðherrann er verri en fyrirrennarar hennar. Aðgerðaleysi hennar kemur því ekki á óvart. Hins vegar er athyglisvert, að forstjóri risavaxinnar Hollustuverndar við Ármúla skuli líta á sig sem stjórnmálamann.

Hollustuvernd er til húsa á tveimur hæðum í stórhýsum við Ármúla. Þar verður ekki þverfótað fyrir starfsfólki. Skrímslið getur samt ekki séð til þess, að kamfýla fari niður fyrir 10% hjá þeim búum, sem mesta hafa sýkingu, eins og gert er í nágrannalöndunum.

Athyglisvert er, að í nýjustu kamfýlutalningu kemur í ljós, að Ísfugl hefur aðeins 5% sýkingu og Fossgerði hvorki meira né minna en 0% sýkingu. Samt er leitun að afurðum þessara búa í venjulegum stórmörkuðum, þar sem 80% sýktir kjúklingar eru í stórum stöflum.

Umhverfisráðherra og forstjóri Hollustuverndar geta því huggað sig við, að spámenn markaðskerfisins telja viðskiptavini sína hallast að kamfýlu, svo framarlega sem tilboðsverð sé á henni, og að íslenzkir neytendur staðfesta þessar spár með því að úða henni í sig.

Fátt er kannski við það að athuga, að neytendur fái alla þá ódýru kamfýlu, sem þeir vilja og að stórmarkaðir þjóni þeirri þörf. Í ljósi þess er í stíl, að Hollustuvernd ríkisins sé stikkfrí í málinu og að fræðimenn sleppi naumlega við að vera reknir fyrir að finna kamfýlu.

Nú hefur komið í ljós, að salmonella hefur aftur stungið sér niður á kjúklingabúum eftir meira en tveggja ára hlé. Tveimur kjúklingabúum var lokað á sínum tíma á kostnað ríkisins, en það virðist ekki hafa dugað, enda er greinilegt, að hreinlætishefðum er ábótavant.

Enn fremur hefur komið í ljós, að kamfýla takmarkast ekki eingöngu við kjúklinga. Hún er einnig hlaupin í aliendur og kalkúna, enda eru þær afurðir meðhöndlaðar í sýktu vinnslustöðvunum. Og það er sama sagan, menn yppta öxlum og segja fólki að sjóða bara lengur.

Allt þetta ferli er í samræmi við veruleikafirringu drottningarinnar í bókinni um Lísu í Undralandi og hentar vel þjóðfélagi, sem er sjálft veruleikafirrt.

Jónas Kristjánsson

DV

Taprekstur á orkuveri

Greinar

Gífurlegur taprekstur verður á fyrirhugaðri Fljótsdalsvirkjun, ef miðað er við núverandi álverð á heimsmarkaði. Reikna má með, að tapið geti numið yfir 10 milljörðum króna á ári, áður en byrjað er að reikna með mengunargjaldi og verðgildi Eyjabakkasvæðisins.

Forstjóri Landsvirkjunar hefur óbeint viðurkennt, að þetta sé rétt, en telur, að álverð og þar af leiðandi orkuverð muni hækka nægilega á næstu árum til að brúa bilið. Þetta getur varla talizt girnilegt veganesti fyrir orkuver, sem meirihluti þjóðarinnar vill feigt.

Skýrsla Landsvirkjunar um málið er fátæklegri en óttazt hafði verið. Hún er samfelld varnarræða, sem afgreiðir ekki út af borðinu neina af röksemdunum gegn byggingu orkuversins. Hún er til þess fallin að styrkja lesendur í þeirri trú, að Fljótsdalsvirkjun sé óráðleg.

Skýrslan gefur engar sannfærandi skýringar á þeirri spá, að orkuverð frá Fljótsdalsvirkjun verði mun hærra en orkuverð til annarrar stóriðju, sem fyrir er í landinu. Fyrirhuguðu álveri á Reyðarfirði mun þó fylgja nýstárlegur kostnaður af tilheyrandi mengunarkvóta.

Hvort sem álverið borgar þennan mengunarkvóta eða ríkið tekur á sig að greiða hann með því að neita sér um hann á einhverju öðru sviði, þá er hann kostnaður, sem lendir á þjóðinni með einhverjum hætti. Nú þegar er hægt að meta, hvaða upphæðir þetta verða.

Með fjölþjóðasamningum gegn mengun mun senn hefjast kaup og sala á rétti til að menga umhverfið. Markaðslögmálin munu fljótlega finna verðlag á þessum kvóta eins og öðrum kvóta. En óhætt er að spá því nú þegar, að kostnaðartölur mengunarkvóta verða háar.

Íslendingar lifa ekki í lausu lofti. Við erum háðari umheiminum en flestar aðrar þjóðir, af því að útflutningur er óvenjulega stór hluti þjóðarframleiðslunnar. Við neyðumst því til að fara að fjölþjóðlegum viðskiptareglum, ef við ætlum áfram að selja sjávarafurðir.

Það er sama, hversu miklar undanþágur við fáum frá mengunarkvóta. Undanþágur hafa sama verðgildi og kvótinn. Hver einasta framkvæmd, sem framkallar mengun, tekur af kvótanum eða undanþágunni og þarf að gera ráð fyrir því í arðsemisútreikningum.

Í ljósi mengunarkvótans er í hæsta máta óráðlegt að gera ráð fyrir, að kaupandi orkunnar fyrir austan geti borgað miklu hærra verð en stóriðja greiðir á Íslandi um þessar mundir. Og þá er enn alveg eftir að meta verðgildi Eyjabakkasvæðisins sem einstæðrar náttúruperlu.

Ekkert samkomulag er um þessar mundir um verðgildi Eyjabakka. Í skýrslu Landsvirkjunar er gert ráð fyrir, að Eyjabakkar kosti ekki krónu. Jón Kristjánsson alþingismaður mundi kannski verðleggja þá upp á túkall og aðrir fara hærra, sumir upp í tugi milljarða.

Til þess að hægt sé að meta arðsemi Fljótsdalsvirkjunar þarf að krónusetja fórnarkostnaðinn af Eyjabökkum. Menn þurfa hreinlega að verðleggja, hvað það kosti að eyðileggja óafturkræft þessa eign afkomenda okkar, sem núverandi kynslóðir hafa fengið til varðveizlu.

Þegar sýnt hefur verið fram á, að upprennandi mengunarkvóti hindri, að Landsvirkjun fái hærra verð fyrir þessa orku en aðra, sem hún hefur á boðstólum, og að Eyjabakkar séu mikils virði í krónum talið, stendur eftir, að árlegt tugmilljarðatap er í uppsiglingu.

Enda er Fljótsdalsvirkjun ekki ætluð arðsemi, heldur er hún leifar af gamalli byggðastefnu í stíl við skurðina, sem grafnir voru á kostnað skattborgaranna.

Jónas Kristjánsson

DV

Svarað út í hött

Greinar

Utanríkisráðuneytið hefur spurt brezka og rússneska utanríkisráðuneytið um kafbáta þessara ríkja á þeim slóðum, þar sem Suðurlandið fórst fyrir þrettán árum. Það hefur auðvitað fengið þau marklausu svör, að engir slíkir kafbátar hafi verið á þessum stað og tíma.

Annað hvort er utanríkisráðuneyti okkar úti að aka eða að það heldur, að þjóðin sé úti að aka. Menn fá upplýsingar með aðgangi að gögnum, en ekki með því að spyrja þá, sem hafa atvinnu af því að segja ósatt. Allur spurningaleikur ráðuneytanna er því út í hött.

Tilgangslaust er að spyrja innlenda eða erlenda stjórnmálamenn eða embættismenn að því, hvort eitthvað sé satt. Þeir svara bara því, sem hagkvæmt er að svara í það skiptið og hafa ekki einu sinni fyrir því að skoða, hvað segir í gögnum, sem þeir hafa í fórum sínum.

Annað hvort verða menn að fá aðgang að gögnum eða trúa því, sem þeir vilja. Því hafa lýðræðissinnar lengi krafizt, að stjórnkerfið verði gert gegnsætt, svo að menn sjái sjálfir, hvað þar hefur verið að gerast. Liður í því er að opna aðgang að gömlum stjórnvaldsskjölum.

Reglur eru um slíkt í flestum löndum. Í sumar voru opinberuð 40 ára gömul bandarísk gögn, sem sýna, hvar kjarnorkuvopn voru erlendis á þeim tíma. Af meintum ástæðum, sem varða öryggi ríkisins, var strikað yfir nokkur nöfn á listunum, sem voru í stafrófsröð.

Nokkrir sérfræðingar hafa leitt rök að því, að strikað hafi verið yfir nafn Íslands í stafrófsröðinni og aðrir sérfræðingar hafa leitt rök að því, að Ísland hafi átt að vera á allt öðrum lista, en ekki verið þar. Deilan byggist á, að útstrikun nafna gerði allt málið ógegnsætt.

Sá, sem stóð fyrir útstrikuninni, getur ekki síðan fullyrt, að eitthvert annað nafn en Ísland hafi verið strikað út, en því miður geti hann ekki upplýst, hvaða land það sé. Fullyrðingar hans um slík atriði hafa ekkert gildi annað en að færa sönnunarbyrðina til hans sjálfs.

Almennt gildir sú siðaregla, að menn séu saklausir unz sekt þeirra sé sönnuð. Í tilvikum sem þessum gildir hins vegar allt öðru vísi siðaregla. Hún segir, að þeir, sem liggja á upplýsingum, séu sekir, unz sakleysi þeirra sé sannað, væntanlega með birtingu gagnanna.

Þannig geta framkvæmdastjórar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins ekki sagt, svo trúað sé, að Íslenzk erfðagreining hafi ekki greitt þessum flokkum 15-20 milljónir króna hvorum fyrir sig fyrir að sjá um, að ríkið gefi fyrirtækinu sjúkraskrár landsmanna.

Framkvæmdastjórar flokkanna liggja nefnilega sjálfir á gögnunum, sem sanna eða afsanna málið. Stjórnmálaflokkarnir hafa sjálfir séð um, að fjármál þeirra eru lokuð bók, þótt slíkar bækur hafi verið opnaðar í flestum vestrænum löndum beggja vegna Atlantshafsins.

Við vitum, að kosningabarátta Framsóknarflokksins í vor kostaði 60 milljónir króna. Engin leið er að reikna eðlilegan fjárstuðning við flokkinn upp í meira en 20 milljónir króna. Eftir standa 40 milljónir króna, sem eru greiðslur fyrir óeðlilegan aðgang að ríkisvaldinu.

Marklaus eru svör við fyrirspurnum um kafbáta, kjarnorkuvopn og mútur til stjórnmálaflokka. Við höfum rökstuddan grun fyrir sannleika, því að þeir, sem andmæla, liggja sjálfir á gögnum, sem skýra málið. Það segir sína sögu, að þeir skuli liggja á gögnunum.

Gegnsæi í stjórnmálum og stjórnsýslu með birtingu skjala er leið, sem önnur vestræn ríki eru farin að feta til að byggja upp trúnaðartraust í þjóðfélaginu.

Jónas Kristjánsson

DV

Hæstiréttur yfirstéttarinnar

Greinar

Þegar meirihluti Hæstaréttar sýknaði háskólaprófessor af kæru um gróft kynferðisofbeldi gegn dóttur hans, voru dómararnir að gæta hagsmuna yfirstéttarbróður síns. Þeir létu orð hans standa gegn orði dótturinnar og hirtu ekki um framburð annarra vitna.

Sjaldan hafa atvik verið eins ljós í sifjaspellsmáli og í þessu. Þriðju aðilar báru vitni um afbrotin, svo að meirihluti Hæstaréttar þurfti ekki að velja milli vitnisburðar prófessorsins og dóttur hans. Hann gat tekið mark á framburði vitna, en kaus að gera það ekki.

Röksemdafærsla verjanda prófessorsins til varnar meirihluta Hæstaréttar eftir niðurstöðuna, er bull og þvæla, því að hann einangrar málið við orð eins gegn orði annars. Sú einföldun gefur ranga mynd af málinu í heild. Árásirnar á Hæstarétt voru því sjálfsagðar.

Hæstiréttur hefur almennt ekki verið í góðum málum, síðan hinn sami verjandi skrifaði skammabók um dómstólinn. Hann hefur hvað eftir annað verið sneyptur af betri og æðri dómstólum úti í heimi. Og nú síðast er hann frægur af að hafa sýknað Kio Briggs.

Svo ógeðfellur er Hæstiréttur, að fyrir þremur árum kvað hann upp málamyndadóm yfir margföldum nauðgara og gaf honum stóran afslátt út á, að hann hefði á nauðgunartímanum skaffað fórnardýrinu mat og húsnæði. Slíkir dómarar eru tæpast með réttu ráði.

Þegar Hæstiréttur ýtir lýsingum vitna út af borðinu og talar um prófessorinn sem einhvern einfaldan og skaðlítinn gluggagægi, er hann að misþyrma staðreyndum málsins. Engin skýring er á því önnur en sú, að prófessorinn sé of fínn pappír til að hljóta kynóradóm.

Hér verður ekki farið út í lýsingar vitna á ógeðslegum háttum og atferli prófessorsins, sem er skjólstæðingur meirihluta Hæstaréttar, því að þær eru ekki prenthæfar. Hið sama má raunar segja um sannleikann um meirihluta Hæstaréttar, að hann er ekki prenthæfur.

Því er hér í þessum leiðara aðeins fjallað almennum og fjarlægum orðum um þá staðreynd, að Hæstiréttur hefur til varnar þekktum yfirstéttarmanni nauðgað stúlkunni andlega ofan á þá líkamlegu nauðgun, sem hún hefur mátt þola af hálfu föður síns.

Meirihluti Hæstaréttar hefur nauðgað fleirum en dóttur prófessorsins með stuðningi sínum við prófessorinn. Með dóminum hefur verið hindrað, að fleiri sifjaspell verði kærð hér á landi. Hæstiréttur hefur sagt, að ekki hafi neina þýðingu að kæra slík mál.

Með því að taka mál, þar sem atvik voru óvenjulega skýr, og láta það leiða til sýknunar, er Hæstiréttur að segja öllum þeim, sem á eftir hefðu viljað koma, að leið laga og réttar sé ekki kleif þolendum stórbrotamanna á sviði sifjaspells. Þeir verði að leita annarra leiða.

Staða íslenzkra sifjaspellsmála hefur hingað til verið þannig, að tíundi hluti þeirra hefur verið kærður og tíundi hluti kærðra mála endað með sakfellingu. Það er um það bil einn hundraðasti raunverulegra sifjaspella. Nú mun þetta hlutfall lækka niður í 0,0%.

Hæstiréttur hefur frá öndverðu verið hallur undir yfirvöldin í landinu og yfirstéttina. Sýknudómur meirihlutans í sifjaspellsmálinu er einfalt dæmi um, að Hæstiréttur fer meiri silkihönzkum um prófessora en börn. Hæstiréttur er tæki í höndum yfirstéttarinnar.

Dómur meirihluta Hæstaréttar í sifjaspellsmáli prófessorsins er svo fráleitur, að hann verður ekki skýrður á annan hátt en sem einföld hagsmunagæzla.

Jónas Kristjánsson

DV

Vanhugsuð vinsældaþrá

Greinar

Heimsviðskiptastofnunin nýja á við næg vandamál að stríða, þótt Kína verði ekki aðildarríki hennar að sinni. Skaðlegar tilraunir Bandaríkjanna til að draga þetta kröfuharða vandræðaríki inn í glervörubúðina eru til þess eins fallnar að gera illt ástand enn verra.

Reynslan ætti að hafa kennt vestrænum stjórnmálamönnum fyrir löngu, að sumir eru þess eðlis, að ekki borgar sig að smjaðra fyrir þeim og mæla upp í þeim vitleysuna. Slíkt verður bara til þess að auka kröfuhörku og yfirgang þeirra. Kína er gott dæmi um þetta.

Vestrænir stjórnmálamenn eiga erfitt með að komast út úr vinsældaþrá sinni, þegar þeir etja kappi við annars konar stjórnmálamenn á borð við Jiang Zemin eða Saddam Hussein, sem ekki hugsa á sömu nótum og telja sérhverja eftirgjöf verða tilefni aukinnar frekju.

Þetta á ekki frekar við um bandaríska landsfeður en evrópska. Illt var að sjá evrópska landsfeður bugta sig og beygja fyrir sendimanni Kína, sem bætti gráu ofan á svart með því að gefa þeim einkunn fyrir dugnað við að þagga niður í andófsmönnum á götum úti.

Heimsviðskiptastofnunin þarf að gefa sér tíma til að ná áttum í þríhliða viðskiptabardögum Bandaríkjanna, Evrópu og þriðja heimsins, áður en fílar eru leiddir inn í glervörubúðina. Stofnunin þarf að reyna að varðveita ótryggan árangur, sem náðst hefur í viðskiptafrelsi.

Heimsviðskiptastofnunin þarf að fá tíma til að finna, hvernig grænir þjóðhagsreikningar breyta myndinni, sem menn höfðu áður af viðskiptahömlum og viðskiptafrelsi. Stofnunin þarf að finna sér stað í tilverunni, í stað þess að eyða tíma og orku í kínverska landsfeður.

Miklu betra er að bíða eftir hruni stjórnkerfisins í Kína. Kommúnistaflokkur landsins hefur glatað hugmyndafræðinni ekki síður en kommúnistaflokkur Sovétríkjanna á sínum tíma og er ófær um að glíma við nýja hugmyndafræði, sem breiðist út meðal almennings.

Það er ekki að ástæðulausu, að stjórnvöld í Kína ganga berserksgang gegn þarlendum sértrúarsöfnuðum á borð við Falun Gong, sem starfa utan stjórnmála og hafa öðlast það, sem kommúnistaflokkurinn hefur glatað, tiltrú venjulegs og friðsams fólks í öllum stéttum.

Einn góðan veðurdag hrynur stjórnkerfið í Kína eins og það hrundi um daginn í Indónesíu og fyrir áratug í Sovétríkjunum. Þegar þar að kemur, verður vont fyrir vestræna stjórnmálamenn að hafa verið staðnir að því að nudda sér utan í lítt geðuga alræðishyggjumenn.

Það er alveg út í hött að sóa góðum og vestrænum peningum í að fjármagna styrjöld Jeltsíns Rússlandsforseta við óbreytta borgara í Tsjetsjeníu, rétt eins og það var alveg út í hött að sóa amerískum peningum í glæpaherforingja í Indónesíu, Chile og Pakistan.

Með því að ausa peningum um Pakistan í hendur Talebana í Afganistan, tókst Bandaríkjastjórn að framleiða ógnarstjórn í Afganistan, sem tekur flestu fram að viðurstyggð, sem áður hefur sést. Um leið tókst Bandaríkjastjórn að magna Pakistan sem stórvandræðamál.

Í ljósi reynslunnar er óskiljanlegt, að vestrænir landsfeður skuli enn telja heimspólitískt hagkvæmt að ganga erinda alls konar slúbberta og styðja ógnarstjórn þeirra, þótt vitað sé, að þeir láta ekkert af hendi í staðinn og að fyrr eða síðar kemur að skuldadögunum.

Engin vitleysa af þessu tagi er verri en sífelldar tilraunir til að sefa ráðmenn Kína og klóra yfir glæpi þeirra gegn mannkyninu og menningarsögunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Þráhyggja um þétta byggð

Greinar

Stjórnendur skipulags höfuðborgarsvæðisins ganga enn með þá meinloku, að þétta þurfi byggð. Samt eru þéttingarslys fyrir allra augum. Nýleg hús hefta þróun Reykjanesbrautar. Mislæg gatnamót við Höfðabakka- og Skeiðarvogsbrýr varð að hanna í keng af sömu ástæðu.

Byggð höfuðborgarsvæðisins er of þétt, en ekki of strjál. Hún liggur til dæmis of þétt að brautunum, sem voru orðnar yfirlýstar meginæðar höfuðborgarsvæðisins löngu áður en byggt var ofan í þeim. Skipuleggjendur skortir svigrúm til að leiðrétta fyrri mistök sín.

Af svipuðum toga er krafa Sjálfstæðisflokksins um, að Geldinganes verði ekki tekið frá til hafnargerðar, þar sem ekki verði þörf á viðbótum við höfnina næstu tvo til þrjá áratugina. Samt er vitað, að saman eru Eiðsvík og Geldinganesið eina náttúrulega höfnin á svæðinu.

Auðvitað ber borginni að gera ráð fyrir Eiðsvík sem eðlilegu framhaldi hafnarinnar í Kleppsvík og taka Geldinganes frá fyrir hafnarstarfsemi. Ef það verður ekki gert, þarf að gera það annars staðar með miklu meiri tilkostnaði og alls ekki minni strandlengjuspjöllum.

Raunar er sérkennilegt, að það skuli vera framlag stjórnarandstöðunnar í Reykjavík til skipulagsmála borgarinnar að frekar skuli byggja höfn við Álfsnes, þar sem eru fágætar leirur, sem ber að varðveita, en alls ekki moka upp með ærnum og óþörfum tilkostnaði.

Með Kleppsvík og Eiðsvík er vel séð fyrir hafnarþörf Reykjavíkur alla næstu öld. Stutt er í stórskipahafnir í Straumsvík og á Grundartanga. Höfuðborgarsvæðið verður hvort sem er búið að tengja anga sína norður og suður fyrir þær hafnir á fyrstu áratugum aldarinnar.

Svo langt gengur þráhyggjan um þéttingu byggðar, að myndað hefur verið sérstakt hugsjónafélag um að byggja turnhýsi í Vatnsmýri og úti í sjó fyrir Örfirisey. Þessar hugmyndir eru ávísun á umferðaröngþveiti á Miklubraut og aukna þörf fyrir nýjar brautir úti í sjó.

Ágætt er að hafa þétta byggðarpunkta á nokkrum stöðum, einkum í fyrirhuguðum byggðakjörnum höfuðborgarsvæðisins. Sambyggð verzlunar- og þjónustusvæði undir íbúðaturnum gera mörgum kleift að fara flestra sinna ferða í góðu skjóli fyrir veðri og vindum.

Höfuðborgarsvæðið þarf að geta boðið íbúum sínum þennan búsetukost, sem hentar mörgum, um leið og það býður líka upp á strjálli byggð, sem hentar öðrum. Og það er ódýrara að þétta strjála byggð en að rífa þétta byggð, ef þarfir svæðisins breytast á löngum tíma.

Höfuðborgarsvæðið hefur gott svigrúm til vaxtar og þarf ekki að þétta byggðina umfram eðlilegar þarfir fyrir þétta byggð. Reykjavík hefur aðgang að miklu byggingarlandi á Álfsnesi og Kjalarnesi og Hafnarfjörður ekki síðri aðgang að landi allt suður fyrir Straumsvík.

Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu, að byggðin á suðvesturhorninu verði um síðir eins og perlur á festi, allt frá Reykjanesbæ í Borgarnes, svo framarlega sem fjarlægðin frá Kvosinni í Reykjavík til endimarkanna verði ekki meiri en klukkutími á góðri hraðbraut.

Náttúrulegar aðstæður kalla á perlufestarbyggð á þessu svæði. Ekki er hægt að byggja inn í land vegna vatnsbúskapar og veðurfars. Þess vegna ber að fara varlega í ráðagerðir um að byggja inn á Hólmsheiði. Betra er að nýta fegurð og andrými strandlengjunnar.

Þráhyggja um þéttingu byggðar hefur þegar takmarkað skipulagskosti og valdið miklum framkvæmdakostnaði. Þessari þráhyggju má gjarna fara að linna.

Jónas Kristjánsson

DV

Engu var treystandi

Greinar

Röngum upplýsingum hefur löngum verið beitt til að efla stuðnings almennings við styrjaldir ráðamanna. Fréttafalsanir Atlantshafsbandalagsins í Kosovo-stríðinu hafa leitt til fullkomins vantrausts af hálfu fjölmiðla að mati Patrick Bishop hjá Daily Telegraph í London.

Á sínum tíma var fólki talin trú um, að þýzkir hermenn köstuðu belgískum smábörnum á byssustingjum. Í annan tíma var fólki talin trú um, að írakskir hermenn tækju kúveitska nýbura úr öndunarkössum og fleygðu þeim á gólfið. Hvort tveggja var algerlega rangt.

Fyrirfram býst fólk við, að varast beri fullyrðingar, sem koma frá heimsfrægum lygurum á borð við Milosevic Serbíuleiðtoga. Við erum hins vegar trúgjarnari á það, sem kemur frá eigin varnarbandalagi, jafnvel þótt Persaflóastríðið hefði átt að vara okkur við.

Talsmenn sögðu Nató hafa eyðilagt 122 skriðdreka Serba í Kosovostríðinu. Eftir stríðið kom í ljós, að þeir voru bara þrír. Hins vegar hafði Nató eyðilagt 20 sjúkrahús, 30 heilsugæzlustöðvar, 200 skóla, drepið 2.000 óbreytta borgara og sært 6.000 óbreytta til viðbótar.

Margir þekktir Kosovar, sem talsmenn Nató sögðu hafa verið myrta, svo sem Fehmi Agani, birtust síðan við góða heilsu. Arkan hinn hræðilegi var sagður stunda þjóðahreinsun í Kosovo meðan hann var í blaðaviðtölum í Belgrað. Hús Rugova var sagt hafa verið brennt.

Nató neitaði fyrst að hafa skotið á hóp flóttamanna og sagði Serba hafa gert það, viðurkenndi næst að hafa hitt einu skoti, en Serbar hefðu valdið mestu tjóni, viðurkenndi þar næst að hafa kastað níu sprengjum á tvo hópa flóttamanna, sem hafi virzt vera hermenn.

Síðan hefur verið upplýst, að margar sprengjuflugvélar Atlantshafsbandalagsins hnituðu þrjá eða fjóra hringi yfir þessum flóttamönnum og gerðu hverja árásina á fætur annarri, án þess að flugmenn sæju nein merki þess, að um óvinahermenn gæti verið að ræða.

Tveir þjóðarleiðtogar á Vesturlöndum lögðu sérstaka áherzlu á, að Atlantshafsbandalagið framleiddi lygasögur í fjölmiðla. Það voru Bill Clinton Bandaríkjaforseti og Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, svo og aðstoðarmenn þeirra, Jonathan Prince og Alastair Campbell.

Rangfærslurnar voru einkum miðaðar við sjónvarpsstöðvar, sem margar hverjar líta á fréttir sem hvern annan varning og þurftu eitt gott “hljóðbit” á dag og eina góða myndræmu af loftárás, sem stundum var framleidd í tölvu eins og tíðkaðist í Persaflóastríðinu.

Daglega vall flaumur rangfærslna í stóru og smáu á fréttamannafundum í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins. Efahyggjumenn í hópi fjölmiðlunga reyndu að standast þetta gerningaveður og beztu fjölmiðlarnir fóru varlega í notkun upplýsinga bandalagsins.

Jafnvel mestu efahyggjumenn í hópi fjölmiðlunga hafa orðið að játa, að síðari vitneskja um fyrirferð fréttafalsana Atlantshafsbandalagsins hafi komið þeim á óvart. Þess vegna verður ekki eins auðvelt næst fyrir bandalagið að telja fólki trú um nánast hvað sem er.

Á vegum Alþjóðasambands ritstjóra hefur nú verið gefin út massíf þungavigtarbók um samskipti fjölmiðla við áróðursmeistara Kosovo-stríðsins og um naflaskoðun fjölmiðlunga víðs vegar um heim í framhaldi þess, að þeir játa, að hafa látið bandalagið hafa sig að fífli.

Það er uggvænlegt og ófært með öllu, að herstjórar geti áfram framleitt stuðning heilla þjóða við styrjaldir með því að framleiða óheftar lygasögur á færibandi.

Jónas Kristjánsson

DV

Hin nýja Róm er risin

Greinar

Páfakirkjan og Lúterskirkjan hafa náð saman eftir tæpra fimm alda aðskilnað. Í Augsburg á sunnudaginn undirrituðu fulltrúar beggja kirkjudeilda samkomulag um samræmda túlkun kennisetninga, sem voru tilefni mótmæla, er Lúter festi á kirkjudyr árið 1517.

Til að innsigla samkomulag um brottfall ágreinings um kennisetningar stigu kaþólskir og lúterskir klerkar prósessíu frá hinni kaþólsku kirkju heilags Úlriks til hinnar lútersku kirkju heilagrar Önnu og sungu messur á báðum stöðum. Róm hefur sameinazt að nýju.

Gott samband kaþólsku og lútersku þykir ef til vill ekki merkileg frétt á Íslandi, þar sem áhugi er lítill á kennisetningum og þar sem friðsæld hefur ríkt um langt skeið í trúarlegum efnum. Og hugsanlegt er, að hinar sögulegu sættir stafi sumpart af trúardofa fólks.

Þótt trúin sé á hliðarspori í heimi evrópsks nútímafólks, er atburðurinn táknrænn fyrir sameiningu Evrópu um þessar mundir. Hið heilaga rómverska keisaradæmi miðalda er risið að nýju með miðstöð í Bruxelles, borginni á landamærum páfadóms og mótmælenda.

Fyrir örfáum áratugum var Vestur-Evrópa tvískipt í framfarasinnaða og auðuga Norður-Evrópu og íhaldssama og fátæka Suður-Evrópu. Meira eða minna af völdum Evrópusambandsins hefur þessi munur lagzt af og öll Vestur-Evrópa er orðin framsækin og forrík.

Spánverjar, sem áður voru svartastir allra kaþólikka, hafa lagt niður gamla rannsóknaréttinn og sett upp nýjan, sem skelfir gamla og blóði drifna herforingja í Suður-Ameríku. Spánn hefur tekið siðferðilega og menningarlega forustu fyrir sinni gömlu nýlenduálfu.

Ef til vill koma þeir tímar, að Grikkir geri það sama fyrir arfinn, sem forðum daga fluttist frá Aþenu til Miklagarðs og síðan til Moskvu. Grikkir eru eini fulltrúi orþódoxra þjóða í Evrópusambandinu og eina þjóðin af þeim merg, sem talizt getur til vestræns nútíma.

Síðan páfinn og arfar Lúters lögðu á sunnudaginn niður landamæri norðurs og suðurs í Evrópu, eru bara ein umtalsverð landamæri í Evrópu. Þau liggja milli austurs og vesturs. Þau skilja Rússland, Úkraínu, Hvíta-Rússland og Serbíu frá hinu vestræna meginlandi.

Vestan við mörkin ríkja lýðræði, valddreifing, lög og réttur, hvers kyns frelsi og ríkidæmi. Í heimi orþódoxra austan markanna mun enn um sinn ríkja þjófræði, valdþjöppun, lögleysa og réttleysi, hvers kyns ófrelsi og síðast en ekki sízt botnlaus og endalaus fátækt.

Evrópusambandið er að tosa hina kaþólsku Austur-Evrópu, það er að segja Pólland, Tékkland, Ungverjaland, Slóveníu, Eystrasaltsríkin, Slóvakíu, og ef til vill nokkur fleiri lönd inn í birtu Vesturlanda. Orþódoxu löndin sitja hins vegar eftir að sinni og bíða sinnar upprisu.

Meðan heimssögulegir atburðir eru að gerast á meginlandi Evrópu, hímum við norður í eylandi okkar og teljum okkur trú um, að framtíð okkar sé utan valdasviðs Evrópusambandsins. Við höfum þegar setið af okkur ýmis tækifæri til að komast þar til áhrifa.

Það er eins og Íslendingar og stjórnmálamennirnir, sem endurspegla þjóðarsálina, búi í öðru sólkerfi en þjóðirnar, sem hafa af biturri reynslu ákveðið að falla frá fornri landamærahyggju og standa heldur saman um vegferð sína inn í velmegun og lífsgæði næstu aldar.

Róm hefur verið endurreist með höfuðstöðvum í Bruxelles. Prósessía sunnudagsins í Augsburg táknaði, hvernig Vestur-Evrópa hyggst sigla inn í nýtt árþúsund.

Jónas Kristjánsson

DV

Rússar fremja þjóðarmorð

Greinar

Rússneski herinn hefur haldið landamærum Tsjetsjeníu og Ingushetíu lokuðum í rúma viku. Hann hefur komið í veg fyrir, að flóttafólk, aðallega konur og börn, færu yfir landamærin. Um leið hefur verið ráðizt á flóttafólkið úr lofti, jafnvel á bílalest Rauða krossins.

Vladimir Shamanov, hershöfðingi Rússa, hefur sakað flóttafólkið, aðallega konur og börn, um að hafa valdið sprengingum í íbúðablokkum í Moskvu og öðrum borgum Rússlands. Af því má ráða, að loftárásir á konur og börn eru hefndaraðgerð af hálfu Rússlands.

Herinn beitir ónákvæmum eldflaugum gegn bæjum og þorpum í Tsjetsjeníu, einkum höfuðborginni Grozny. Þær lenda jafnt á íbúðum sem öðrum skotmörkum. Markmið þeirra er greinilega að hrekja íbúana burt og koma þeim á vergang, þar sem þeir veslist upp.

Á Vesturlöndum væri óhugsandi, að nokkur ríkisstjórn hagaði sér á svona brjálæðislegan hátt gagnvart minnihlutaþjóð. Svona framferði jafngilti þar yfirlýsingu um, að yfirþjóðin hefði glatað öllum rétti til að ráðskast með málefni minnihlutaþjóðarinnar.

Á Vesturlöndum væri óhugsandi, að her væri beitt inn á við gegn borgurum ríkisins. Í Rússlandi er hins vegar litið á Tsjetsjeníu sem óvinaríki og Tsjetsjena sem óvinaþjóð. Þess vegna hefur Rússland glatað öllum rétti til yfirráða þar, alveg eins og Serbar í Kosovo.

Um 170.000 flóttamenn frá Tsjetsjeníu höfðu komizt til Ingushetíu, áður en landamærunum var lokað. Erfitt er að hjálpa þeim þar, því að Ingushetar eru aðeins 340.000 manna þjóð. Rússar hafa ekkert hjálpað flóttafólkinu og raunar reynt að hindra vestræna aðstoð.

Því miður reka Rússar þetta stríð fyrir vestræna peninga. Rússland væri orðið gjaldþrota, ef því væri ekki haldið uppi af vestrænum ráðamönnum, einkum bandarískum, sem hafa ímyndað sér, að peningaaustur mundi færa Rússland nær vestrænum stjórnarháttum.

Samt er fyrir löngu orðið ljóst, að lítið er hægt að treysta á drykkjurút, er smám saman hefur safnað um sig óþjóðalýð, sem rænir landið og ruplar og kennir öllum öðrum um það, sem aflaga fer. Lágmarki náði stjórnarfarið með skipun Pútíns sem forsætisráðherra.

Fyrir löngu var kominn tími til að hætta vestrænu fjáraustri í hendur ráðamanna Rússlands, sem stela sjálfir mestum hluta peninganna og nota afganginn til ofbeldis gegn ýmsum þeim, sem minna mega sín. Rússland er orðið verra en ríki Suður-Ameríku urðu verst.

Stríðið við fólkið í Tsjetsjeníu er því miður stutt af kjósendum í Rússlandi og markar tímamót siðferðishruns þjóðarinnar. Rússar hafa ekki getað komið sér upp vestrænum háttum og hafa látið óskipulagða ofbeldisstjórn leysa skipulagða ofbeldisstjórn af hólmi.

Sovétríkin sálugu voru tiltölulega áreiðanleg, af því að ofbeldishyggja þeirra var tiltölulega skipulögð og útreiknanleg. Rússland er hins vegar óáreiðanlegt, af því að ofbeldishyggja þess er tiltölulega óskipulögð og óútreiknanleg. Rússland líkist drykkjurútnum Jeltsín.

Vesturlöndum ber nú að skrúfa fyrir fjárausturinn til Moskvu og nota peningana í staðinn til að treysta öryggi þeirra ríkja Varsjárbandalagsins sáluga, sem vilja taka upp vestrænt lýðræði, en er ógnað af óútreiknanlegri ofbeldishyggju stjórnar, hers og þjóðar í Rússlandi.

Með stríði rússneska hersins við fólkið í Tsjetsjeníu hefur Rússland sýnt umheiminum eðli sitt sem hættulegs og ofbeldishneigðs vanstillingarríkis.

Jónas Kristjánsson

DV

Gengissig skipstjóra

Greinar

Enginn nýr skipstjóri útskrifast á þessu ári, sumpart vegna breytinga á skipstjóranámi, en einnig vegna þess, að skipstjórn höfðar ekki eins mikið til ungra manna og hún gerði áður fyrr, þegar skipstjórar voru í manna mestum metum í flestum sjávarplássum landsins.

Nálægðin við valdið var meiri í þá daga, þegar unglinga dreymdi um að verða skipstjórar. Þá gerðust sumir landsfrægir aflakóngar og áttu stóra hluti í skipum sínum. Útgerðarfélög voru rekin um einstök skip, svo að skipstjórar voru hornsteinar fyrirtækjanna.

Nú er eignarhald í sjávarútvegi að safnast á fárra hendur. Fyrst mynduðust fyrirtæki í hverju plássi um fleiri en eitt skip og fiskvinnslu að auki. Síðan færðist eignarhaldið yfir til hluthafa í stærri kaupstöðum og á endanum lendir eignarhaldið á höfuðborgarsvæðinu.

Kvótakerfið hefur hraðað þessu ferli. Heimild til verzlunar með kvóta hefur leitt til, að upprunalegir eigendur eða erfingjar þeirra hafa tekið út kvótaauðinn eins og hvern annan happdrættisvinning, sóað honum eða fjárfest hann syðra eða jafnvel í Karíbahafinu.

Kvótinn hefur smám saman safnast á hendur fárra, einkum í Reykjavík, á Akureyri og í Eyjum og mun nánast allur enda á Reykjavíkursvæðinu. Fjarlægð valdsins frá fólkinu í sjávarplássunum hefur aukizt og skipstjórar eru ekki eins miklir menn og þeir voru áður.

Gengissig skipstjóra er mikilvægur þáttur í gengissigi íslenzkra sjávarplássa. Unga fólkið við sjávarsíðuna sér ekki framtíðina í sama ljósi og áður. Í hugum þess breytist plássið í átthagafjötur, sem stendur í vegi þess, að það geti farið suður eða utan og sigrað heiminn þar.

Við getum valið um að líta á þetta sem vandamál eða sem náttúrulögmál, stutt af kvótakerfinu. Fyrra viðhorfið er til lítils gagns, því að vandamálið hverfur ekki, þótt peningum sé kastað í það. Byggðastefna má sín lítils gegn hugsunum fólks sem horfir til Reykjavíkur.

Annað dæmi sýnir gagnsleysi þess að kasta peningum í meint vandamál. Sauðfjárrækt hefur áratugum saman verið á undanhaldi vegna markaðsbrests í útlöndum og minnkandi neyzlu innanlands. Mörgum milljörðum hefur á hverju ári verið kastað í þetta náttúrulögmál.

Margir hafa notað tækifæri kvótakerfisins og selt rétt sinn til sauðfjárræktar. Eigi að síður er sauðfé enn allt of margt og sauðfjárbændur allt of margir. Enn verra er, að flestir þeirra búa við bágan og síversnandi fjárhag. Sjálfsvirðing sauðfjárbóndans hefur beðið hnekki.

Þannig hrynja hefðbundnar atvinnugreinar og þannig hrynur hefðbundin búseta. Gengissig atvinnuhátta og búsetu gerist í hugum fólks. Það gerist, þegar hugsun og ráðagerðir hætta að snúast um þessi atriði og beinast að nýjum atvinnugreinum í öðrum landshlutum.

Íslenzk stjórnmál snúast að töluverðu leyti um þetta náttúrulögmál, sem stjórnmálamenn kjósa almennt að tala um sem vandamál. Þeir blaðra án afláts um skort á jafnvægi í gengissignum byggðum landsins og heimta, að meira fé verði fleygt í vandamálið úr ríkissjóði.

Öll er þessi viðleitni dæmd til að mistakast. Hún einbeitir sér að afleiðingum og lítur fram hjá orsökum, sem er að leita í hugarfari fólks. Byggðastefnan birtist fólki sem byggðagildra, er reynir að koma í veg fyrir, að það brjótist úr átthagafjötrum byggðastefnunnar.

Langt er síðan ungt fólk hætti að vilja gerast sauðfjárbændur. En gengissig byggðanna er langt gengið, þegar það vill ekki einu sinni gerast skipstjórnarmenn.

Jónas Kristjánsson

DV

Frelsi flytur fólk og fé

Greinar

Því frjálsari sem flutningar fólks og fjármagns verða á Vesturlöndum, þeim mun brýnna verður, að Ísland haldi áfram að vera samkeppnishæft land. Ögrun þróunarinnar magnast enn frekar af völdum vaxandi hlutdeildar þekkingariðnaðar, sem spyr ekki um landamæri.

Ísland þarf að vera samkeppnishæfur kostur í fjárfestingu. Töluvert af kvótagróða síðustu ára hefur lekið til útlanda og allt of lítið verið um freistingar fyrir erlent fjármagn. Með vaxandi auðsöfnun í þjóðfélaginu þarf að efla betri leiðir til ávöxtunar peninga innanlands.

Ísland þarf líka að vera samkeppnishæfur kostur í lífsgæðum. Töluvert hefur verið um þekkingarflótta frá landinu á undanförnum árum. Sumir sækjast eftir meiri tekjum, aðrir eftir kalifornísku loftslagi og flestir eftir nánu samfélagi við þekkingarmiðstöðvar heims.

Ísland býður samt lífsgæði. Ósnortin víðerni eru meiri hér en víðast hvar á Vesturlöndum, en stjórnvöld eru því miður fjandsamleg sem fyrr. Enn eru þó færi á að hindra, að Eyjabökkum verði fórnað í þágu stóriðju, sem Vesturlönd hafa sem óðast verið að losa sig við.

Höfuðborgarsvæðið er varnar- og sóknarlína átakanna um, hvort Ísland verður yfirleitt byggilegt á næstu öld. Á höfuðborgarsvæðinu veltur fjármagnið og þar starfar fólkið í þekkingargreinum framtíðarinnar. Í öðrum landshlutum er allt með hefðbundnari hætti.

Samþjöppun er mikil í eignarhaldi í sjávarútvegi eins og í öðrum greinum. Kvótinn er smám saman að leka suður, og þeir, sem seldu kvótann, eru smám saman að flytja suður eða jafnvel ennþá lengra. Spurningin er bara, hvort og hvar tekst að stöðva þessa strauma.

Ef einhver hluti Íslands getur orðið samkeppnishæfur við útlönd, þá er það höfuðborgarsvæðið. Það er nógu fjölmennt til að halda uppi ýmsum þægindum, sem menn hafa síður úti á landi. Þar er menning, skemmtun, þjónusta og fjölbreyttur félagsskapur við hæfi flestra.

Byggðavandinn á Íslandi felst ekki í, hvort þjóðin flytur suður eða ekki. Hann felst í, hvort þjóðin flytur af höfuðborgarsvæðinu til útlanda eða ekki. Víglína byggðavandans er ekki um Holtavörðuheiði eða Skeiðarársand. Hún liggur um Kvosina og Keflavíkurflugvöll.

Fjármagn og fólk verður ekki hindrað í að flytja til útlanda, ef hagar sýnast vera grænni þar en á suðvesturhorni landsins. Ekki hefur tekizt að hindra fjármagn og fólk í að flytja suður, þótt gríðarlegu fjármagni hafi verið varið til smábyggðastefnu af ýmsum toga.

Ögrun þróunarinnar verður ekki svarað með pólitísku handafli. Spurningin er bara, hvort hægt er að búa svo í haginn á höfuðborgarsvæðinu, að straumur fólks og fjármagns stöðvist þar, en flæði ekki áfram til útlanda. Þessari spurningu er er enn ekki hægt að svara.

Sveitarfélögin á suðvesturhorni landsins munu gegna lykilhlutverki í byggðastefnu næstu aldar. Þau þurfa að geta boðið fólki lífsgæði í búsetu og þjónustu, skemmtun og menningu, sem valda því, að fólk langi ekki til að flytjast búferlum til útlanda, þótt það geti það.

Landsstjórnin gegnir enn stærra hlutverki. Hún má hvorki íþyngja fólki né fjármagni. Hún þarf að vera jákvæð í garð nýrra fyrirtækja og tækifæra á nýjum sviðum utan hefðbundinna greina. Og hún verður að efla lífsgæði, sem felast í lofti og vatni og víðáttum.

Fljótlega upp úr aldamótum mun koma í ljós, hvort við höfum burði til að standast ögrun nútímafrelsis og getum eflt búsetu manna á höfuðborgarsvæðinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Rússagullið staðfest

Greinar

Fundizt hafa rússnesk skjöl frá sovéttímanum, sem staðfesta, að sendiráð Sovétríkjanna greiddi forvera Alþýðubandalagsins, Sameiningarflokki alþýðu, Sósíalistaflokknum nokkrum sinnum töluverðar fjárhæðir, samtals yfir tuttugu milljónir króna að núvirði.

Sósíalistaflokkurinn var því á mála hjá Sovétríkjunum á tímum kalda stríðsins, þegar þáverandi útþenslustefna hins austræna veldis ógnaði öryggishagsmunum Vesturlanda og þar á meðal Íslands, sem var óþægilega berskjaldað á siglingaleiðum frá sovézkum flotahöfnum.

Mikilvægt er að reyna að koma á samstarfi við rússneska aðila um frekari rannsókn fylgiskjala til að leiða í ljós, hverjir sóttu um mútuféð með hvaða hætti, hvernig það var afhent hverjum í sendiráðinu og hvernig það var síðan notað í þágu Sósíalistaflokksins.

Mál þetta minnir líka á, hversu brýnt er orðið, að fjármál íslenzkra stjórnmálaflokka verði gerð gegnsæ á sama hátt og tíðkast annars staðar á Vesturlöndum, þar sem upplýst er einu sinni eða oftar á ári hverju um greiðslur og greiðsluígildi allra hagsmunaaðila.

Jónas Kristjánsson

DV