Fögnuður með fyrirvara

Greinar

Samkvæmt nýrri reglugerð landbúnaðarráðuneytisins verður næsta haust bannað að selja hér á landi tilbúinn áburð, sem hefur meira en 10 millígrömm af kadmíum á hvert kíló af fosfór. Hingað til hefur lágmarkið hér verið 50 millígrömm og 50­100 milliígrömm í Evrópu.

Þessi hertu mörk munu gera íslenzkan landbúnað vistvænni en hann hefur verið og afurðir hans hollari. Um leið fela þau í sér, að verið er að styðja innlendan áburðariðnað á kostnað landbúnaðarins, sem verður að greiða fyrir dýrari áburð en ella hefði verið.

Áburðarverksmiðjan hefur í vetur orðið að sæta samkeppni innflutnings á ódýrum áburði, sem stenzt gömlu 50 milliígramma kröfuna, en ekki nýju 10 millígramma kröfuna. Framleiðsla Áburðarverksmiðjunnar stenzt hins vegar nýju 10 millígramma kröfuna.

Deila má um, hvort vegi þyngra í landbúnaðarráðuneytinu, viljinn til að styðja innlenda iðnaðarframleiðslu eða viljinn til að gera innlenda búvöru hollari. Algengt er, að þetta fari saman og hefur það víða um heim orðið ágreiningsefni í viðskiptum ríkja og ríkjasamtaka.

Til dæmis er flókið að meta, hvort andstaða Evrópusambandsins við innflutning erfðabreyttra matvæla frá Bandaríkjunum sé fremur heiðarleg umhyggja fyrir heilsu Evrópubúa eða öllu heldur tilraun til að útiloka samkeppni ódýrs innflutnings að vestan.

Hitt er óhætt að fullyrða, að ekki munu rætast yfirlýstar væntingar ráðuneytisins um aukið svigrúm til útflutnings landbúnaðarafurða og betra verð þeirra. Þær reglur, sem ráðuneytið setur um vistvæna framleiðslu hafa nákvæmlega ekkert gildi utan landsteinanna.

Hins vegar eru alþjóðlegir og fjölþjóðlegir staðlar um lífræna framleiðslu, sem gefur hærra verð en venjuleg framleiðsla. Í lífrænni framleiðslu er tilbúinn áburður alveg bannaður. Ráðuneytið hefur ekki gert marktækar ráðstafanir til að hvetja til slíkrar framleiðslu.

Yfirvöld landbúnaðarins í ráðuneyti og bændasamtökum hafa reynt að bregða fæti fyrir viðurkennda og vottaða framleiðslu lífrænnar búvöru hér á landi, af því að hún kostar miklar breytingar á framleiðsluháttum og leyfir engar ódýrar og séríslenzkar undanþágur.

Í staðinn eru yfirvöld að reyna að byggja upp sérstakar reglur um það, sem þau kalla vistvænan landbúnað. Reglurnar eru klæðskerasaumaðar fyrir landbúnaðinn eins og hann er, svo að kostnaður verði hóflegur. En reglurnar gilda því miður bara fyrir Ísland.

Auðveldara væri að trúa góðum vilja ráðuneytisins um bætta sambúð landbúnaðar við landið, ef það væri ekki bara að finna ódýrar lausnir, heldur styddi einnig tilraunir til að gera landbúnaðinn þannig, að hann standist alþjóðlega staðla um úrvals framleiðslu.

Út af fyrir sig er gott, að minna kadmíum verði hér eftir í áburði, sem notaður er á Íslandi. Enn betra væri, ef það væri ekki sértæk aðgerð, miðuð við sértæka hagsmuni, heldur liður í víðtækum aðgerðum til að gera landbúnaðarafurðir hollari en þær eru núna.

Tíminn mun leiða í ljós, hvort sinnaskipti hafa orðið í ráðuneytinu, hvort það hafi raunverulegan áhuga á að bæta sambúð landbúnaðarins við landið, hvort það vill til dæmis styðja framleiðsluaðferðir, sem fjölþjóðlegt samkomulag er um að fái verðmæta gæðastimpla.

Gæðastimplar, sem íslenzk yfirvöld hyggjast veita, hafa einir út af fyrir sig ekki markaðsgildi og gera lítið annað en að tefja fyrir, að alvörustimplar fáist.

Jónas Kristjánsson

DV

Orð skulu standa

Greinar

Þótt margt hafi gott frá Evrópusambandinu komið og sumt frábært, einkum á sviði mannréttinda, er ekki skynsamlegt að setja allan Evrópupakkann í eins konar þýðingarvél og framleiða þar íslenzk lög og reglugerðir á færibandi án þess að hleypa að heilbrigðri skynsemi.

Dæmi um þetta eru ákvæði nýrra fjarskiptalaga um tilkynningaskyldu vegna hljóðritunar símtala. Áður en svona langsótt skylda verður að lögum, er rétt að kanna, hvort rétt sé þýtt upp úr evrópsku, hvort evrópskan sé rétt túlkuð og hver sé tilgangur ákvæðanna.

Þótt þýðingafæribandið sé ódýrt og þægilegt, þarf að hleypa að heilbrigðri dómgreind. Íslenzkur lagaprófessor hefur bent á, að það séu mannréttindi að fá að hljóðrita eigin samtöl. Hann spyr, hvers vegna þurfi að skipuleggja símtöl fólks að hætti fjarskiptalaganna.

Nýju lögin banna ekki hljóðritanir símtala, en binda þær tilkynningaskyldu, sem flækir málið og fælir fólk og fyrirtæki frá hljóðritun. Fólk þarf til dæmis að geta sett hljóðritun formálalaust af stað, þegar það heyrir dónaskap eða hótanir í síma eða býst við slíku.

Hljóðritanir símtala eru mikilvæg öryggistæki borgaranna. Þau skipta máli fyrir þá, sem sæta ofsóknum í síma, til dæmis umdeilda stjórnmálamenn. Þær eru svo sjálfsögð vörn gegn dólgum, að alls ekki á að takmarka notkun þeirra að hætti nýju fjarskiptalaganna.

Ýmsar tegundir stofnana nota hljóðritanir kerfisbundið, ýmis vegna öryggis eða nákvæmni. Samskipti lögreglu og samskipti í flugi þarf að hljóðrita af öryggisástæðum. Samskipti fjármálastofnana og samskipti fjölmiðla þarf að hljóðrita af nákvæmnisástæðum.

Hraði nútímans krefst þess, að unnt sé að taka fjárhagslegar ákvarðanir í símtölum milli fjármálastofnunar og viðskiptavina þeirra, svo að hægt sé að vísa í símtalið, ef ágreiningur kemur upp. Þetta er jafnt í þágu fjármálastofnana og viðskiptavina þeirra almennt.

Fjölmiðlar tryggja nákvæmni upplýsinga sinna með hljóðritun samtala við heimildarmenn. Hljóðritun er blaðamönnum eðlilegt vinnutæki til að tryggja, að þeir fari rétt með það, sem þeim er sagt. Þetta er í senn í þágu fjölmiðlanna og allra þeirra, sem tjá sig við þá.

Eftir gildistöku nýju fjarskiptalaganna þurfa allir þessir aðilar að gera ráðstafanir til að varðveita eðlilega notkun hljóðritunar. Það er til dæmis hægt að gera með því að spila sjálfvirka aðvörun á símsvara, áður en fólk nær sambandi við skiptiborð þessara stofnana.

Allar slíkar leiðir fela í sér tímasóun, sem hefur þann eina tilgang að fara í kringum vitlaus lög. Einfaldara væri að endurskoða lögin. Samgönguráðuneytið þarf að endurlesa evrópska textann og kanna, hvort hljóðritunarhöft séu í rauninni leið til mannréttinda.

Nútíminn er flókinn. Hann krefst hraða, öryggis og nákvæmni í samskiptum manna. Hann hefur tekið tveimur höndum stafrænni miðlun upplýsinga. Hljóðritun símtala er nauðsynleg aðferð til að koma töluðu máli í svipaðan farveg hraða, öryggis og nákvæmni.

Hljóðritanir stuðla að framgangi hins forna spakmælis, að orð skuli standa. Þær slípa gangverkið í þjóðfélaginu og auka traust í samskiptum, sjálft stoðkerfi lýðræðisins. Leiða má sterk rök að því, að lýðræði og mannréttindi hafi einmitt eflzt við tilkomu hljóðritana.

Samgönguráðuneytinu og Alþingi ber að finna leið úr ógöngunum, svo að leiða megi hljóðritanir að nýju til þess virðingarsætis, sem þeim ber í nútíma samfélagi.

Jónas Kristjánsson

DV

Einleikur gegn verðbólgu

Greinar

Seðlabankinn getur lítið gert annað í vaxandi verðbólgu en að hækka vextina enn einu sinni í veikri von um, að það slái á hóflitla athafnasemi þjóðarinnar. Þetta er það stjórntæki, sem bankinn hefur til umráða í einmanalegri baráttu sinni gegn verðbólgu í landinu.

Hins vegar eru takmörk fyrir þessum einleik bankans. Vextir hans eru orðnir helmingi hærri en hliðstæðir vextir á Vesturlöndum. Vextir bankans hækkuðu um 0,4% í febrúar í fyrra, um 0,5% í júlí í fyrra, um 0,6% í september í fyrra og loks um 0,8% núna í janúar.

Tölurnar sýna, að Seðlabankinn telur sig þurfa að stíga stærri skref í hvert sinn, sem hann grípur til aðgerða. Enda hefur verðbólgan vaxið ört á tímabilinu og er komin upp í um það bil 9% hraða í janúar. Á sama tíma er verðbólga um það bil 1,5% á Vesturlöndum.

Verðbólgan í fyrra stafaði einkum af þremur þáttum, bensíni, húsnæði og mat. Bensínið lýtur að mestu erlendum verðsveiflum utan valdsviðs stjórnvalda. Aukinn húsnæðiskostnaður er hins vegar bein afleiðing hóflítillar athafnasemi, sem ríkið tekur sjálft þátt í.

Matarhækkanir eru athyglisverðar. Þær sýna, að liðin er sú tíð, að samkeppni í matvöruverzlun sé helzti bandamaður ríkisvaldsins í baráttu gegn verðbólgu. Með hringamyndun hefur myndazt fáokun í matvöruverzlun, sem veldur óeðlilegum verðhækkunum á mat.

Ríkisstjórnin hefur ekki sýnt málinu mikinn áhuga. Fjármálaráðherra segir meira að segja, að ofangreind talnasaga skipti ekki máli, heldur frekari framvinda talnanna á næstu mánuðum. Þessi viðhorf benda til, að ríkisstjórnin verði fremur sein til gagnaðgerða.

Saman hafa ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir á Alþingi nýlega afgreitt fjárlög fyrir þetta ár. Þá var gott tækifæri til að spyrna gegn verðbólgunni, sem allir vissu að var komin á skrið, en það var ekki gripið. Þetta tómlæti þrengir möguleika stjórnvalda til aðgerða.

Að vísu er mikið af tekjum ríkisins af sölu eigna notað til að lækka skuldir þess. Líta má á það sem eins konar viðnám. En samt ber að hafa í huga, að í öllum rekstri er eðlilegt að sölu eigna fylgi jafnmikil lækkun skulda. Að öðrum kosti er fyrirtækið að éta eignir sínar.

Ríkið hefði átt að nota allar tekjur af sölu eigna til að lækka skuldir sínar, einkum erlendar skuldir, en ekki nota eina einustu krónu af þeim tekjum í reksturinn. Með því að lækka erlendar skuldir eru peningarnir teknir úr innlendri umferð og valda ekki verðbólgu.

Ekki verður betur séð en ríkið verði nú að nýsamþykktum fjárlögum að endurskoða þessi sömu fjárlög og lækka útgjöld eða hækka tekjur. Heppilegasta leiðin til þess er að hefja uppboð á kvótum í sjávarútvegi og nota tekjurnar til að greiða niður erlendar skuldir.

Ýmis fleiri dæmi eru um, að skammtaður sé aðgangur að takmörkuðum auðlindum eða að takmörkuðum markaði. Kvótakerfi eru víðar en í sjávarútvegi og fela öll í sér tekjufæri fyrir ríkisvaldið. Uppboð kvóta fela í sér meiri sanngirni en núverandi kvótaskömmtun.

Fjármálaráðherra fer með rangt mál, er hann segir gagnrýnendur ekki hafa bent á leiðir til úrbóta. Sumar hafa verið nefndar hér og aðrar verið nefndar annars staðar. Það vekur heldur ekki traust, að hann skuli gera lítið úr 9% verðbólguhraða þessa mánaðar.

Viðskiptalönd okkar hafa um það bil 1,5% verðbólgu. Við höfum skaða af allri verðbólgu, sem er umfram það. Ríkisstjórnin þarf að taka hana fastari tökum.

Jónas Kristjánsson

DV

Afturvirkni aðgerðaleysis

Greinar

Sjávarútvegsráðherra Evrópusambandsins væri Íslendingur, sennilega Halldór Ásgrímsson, ef Ísland væri aðili að sambandinu. Þegar Ísland gerist aðili, fær það ekki ráðherra, af því að reglur um ráðherra frá smáríkjum breytast með stækkun bandalagsins til austurs.

Þegar íslenzk stjórnvöld neyðast til að kanna, hver geti orðið niðurstaða samkomulags um aðild að Evrópusambandinu, munu andstæðingar aðildar nota skortinn á aðgangi að ráðherraembætti sem eina helztu röksemd sína gegn aðild Íslands að sambandinu.

Þetta er dæmi um, að gerðir eða aðgerðaleysi stjórnvalda geta breytt aðstæðum á þann veg, að sú leið, sem stjórnvöld hafa valið, virðist í tímans rás ekki vera eins óhagstæð og hún var, þegar ákvörðun um hana var tekin. Aðgerðaleysi framkallar sína eigin réttlætingu.

Forsætisráðherra hefur nýlega ítrekað, að ekki sé vit í að semja um aðild að Evrópusambandinu. Rökin eru hin sömu og áður, að samkomulag um fiskveiðar yrði okkur óhagstætt. Svo viss er hann í hinni sök, að ekki má einu sinni kanna, hvaða samkomulag næst í raun.

Um svipað leyti lýsti forsætisráðherra því yfir á eindreginn og raunar ofsafenginn hátt, að landauðn yrði, ef Hæstiréttur staðfestir túlkun nýgengins héraðsdóms um jafnari rétt manna til aðgangs að fiskveiðikvótum en gert er ráð fyrir í núverandi kvótareglum.

Sameiginlegt með þessum tveimur sjónarmiðum forsætisráðherra er, að hann lítur óvenjulega þröngt á málin í samanburði við sjónarmið margra annarra. Hin þröngu sjónarmið hans styðja hvort annað, því að þau byrgja honum sýn á sameiginlega lausn málanna.

Með uppboðum á leigukvótum, sem forsætisráðherra vill ekki heyra nefnd, má verða við þeim ítrekuðu ábendingum dómstóla, að fiskveiðistjórn verði að haga á betra grundvelli jafnræðis borgaranna. Þá eiga allir jafnan rétt, án þess að fórnað sé arðsemiskröfum.

Uppboð á leigukvótum leysa líka ágreining Evrópusambandsins og Íslands um veiðiheimildir í fiskveiðilögsögunni. Þegar þjóðfélagið tekur sitt á þurru í leigugjaldi og setur skilyrði um löndun, má verða við óskum um erlenda hlutdeild í aðgangi að kvótauppboðum.

Uppboð á leigukvótum færa eignarhald á fiskinum í sjónum ótvírætt í hendur íslenzka samfélagsins, einnig á þeim fiski, sem erlend veiðiskip fá að veiða á grundvelli tilboða sinna í kvóta og á grundvelli tilheyrandi greiðslu þeirra á leigugjaldi til íslenzka ríkisins.

Þannig getur víð sýn á fleiri en eitt mál í senn leitt til hagstæðrar niðurstöðu í þeim öllum, en þröng sýn á sömu mál leiðir til, að menn sjá ekki möguleika á lausn. Hin þrönga sýn framkallar svo aðgerðaleysi, sem smám saman lokar fyrri möguleikum á lausn mála.

Þessa sömu stjórnunarhætti aðgerðaleysis sjáum við í ráðagerðum um Austfjarðavirkjun. Með því að framkvæma ekki lögformlegt umhverfismat á tilsettum tíma, framleiðir ríkisstjórnin tímahrak, sem hún notar til að hindra slíkt mat, sem hún telur verða óhagstætt.

Þegar henni hefur tekizt að spilla stærsta ósnortna víðerni álfunnar og grafa undan tekjum af ferðaþjónustu, getur hún notað þá útkomu til að rökstyðja ákvörðun sína afturvirkt með því að segja ferðatekjur af hálendinu ekki vera eins miklar og vondir menn hafi fullyrt.

Aðferðir forsætisráðherra henta vel í þjóðfélagi, þar sem langtímaminni fólks spannar tíu daga. Við slíkar aðstæður virðist hann oft hafa haft á réttu að standa.

Jónas Kristjánsson

DV

Ringulreið landsföðurins

Greinar

Margir hafa tjáð sig um nýjasta kvótadóminn og fáir talið hann setja efnahagslífið úr skorðum. Flestir hafa tillögur um, hvernig megi haga fiskveiðistjórn á þann hátt, að hún falli ekki hvað eftir annað fyrir dómstólum landsins. En ríkisstjórnin vill ekki lesa dómana.

Illa getur þó farið, ef ekkert er lært af dómsúrskurðum. Heimsendakenning forsætisráðherra yrði skiljanlegri, ef hann bætti framan við hana orðunum: “Ef ég geri ekkert í málinu”. En slík málsmeðferð er vandamál forsætisráðherra fremur en fiskveiðistjórnar.

Á sama hátt neitaði ríkisstjórnin að fallast á lögformlegt umhverfismat vegna Fljótsdalsvirkjunar og notaði síðan sitt eigið aðgerðaleysi sem rök fyrir því, að ekki væri tími til að framkvæma matið, því að þá væri hætt við að Norsk Hydro færi að leiðast þófið.

Aðferðin felst í að gera ekkert í málunum og stefna þeim þannig í slíkt óefni, að möguleikunum fækki í stöðunni. Þannig rekur ríkisstjórnin stefnu Fljótsdalsvirkjunar og þannig rekur hún fiskveiðistjórnarstefnu kvótaerfingjans og utanríkisráðherrans frá Hornafirði.

Svo þunnt er þetta roð, að þingflokksformaður Framsóknarflokksins sagði nýjasta kvótadóminn vera skýran og ekki flækja málin neitt. Það er leitun að mönnun utan ríkisstjórnar og stjórnar Landssambands íslenzkra útvegsmanna, sem stinga höfðinu í sandinn.

Nýjasti dómurinn hlýtur að minna menn enn einu sinni á þá aðferð að halda óbreyttu kvótakerfi, en bjóða kvótann upp til nokkurra ára í senn. Sú leið mun efla arðsemi núverandi kvótakerfis og gefa öllum þeim, sem bjóða mega, jafna möguleika á að ná sér í kvóta.

Formaður útvegsmanna fordæmir þessa leið á þeirri forsendu, að kvótinn muni smám saman safnast til fárra aðila, ef uppboðsleiðin sé farin. En það hefur einmitt verið að gerast í núverandi kerfi. Með kaupum og sölum hefur kvótinn verið að færast á æ færri hendur.

Yfirleitt má segja það um öll arðbær kerfi, að þau valdi samþjöppun í atvinnulífinu. Og það hlýtur að vera hagstæðara, að slík samþjöppun gerist í leigukvótakerfi heldur en í eignarkvótakerfi. Kenning formanns útvegsmanna hittir því fyrir hans eigið hjartans kerfi.

Ef menn vilja líta til annarra sjónarmiða en arðseminnar, til dæmis til félagslegra þátta, þá er unnt að breyta hluta kvótans í byggðakvóta, hvort sem notað er núverandi kerfi eða uppboðskerfi. Í síðara tilvikinu væri hluti kvótans háður skilyrðum um löndunarhöfn.

Uppboðskerfið hefur þann kost umfram núverandi kerfi, að kostnaður byggðastefnunnar verður gagnsær. Sá hluti kvótans, sem háður væri skilyrðum, mundi fara á lægra verði en óháði hlutinn. Mismunurinn væri herkostnaðurinn af byggðastefnu, sýnilegur öllum.

Byggðakvóti er frábær leið til að sýna fram á haldleysi byggðastefnu. Sveitarfélög hafa farið þannig með sinn hlut, að öllum má ljóst vera, að núverandi byggðakvóti er ávísun á botnlausa spillingu við úthlutun. Á endanum er kvótinn seldur úr héraði og síðan vældur út nýr.

Án þess að dregið sé í efa, að ýmsar aðrar breytingar á núverandi kerfi muni vernda arðsemi útgerðar og fylgja lögum og stjórnarskrá, þá sýnist uppboð tímabundinna kvóta vera öflugasta og einfaldasta leiðin, ágætlega rökstudd af innlendum og erlendum sérfræðingum.

Eina ringulreiðin í stöðunni er sú, sem landsfaðirinn og kvótaerfinginn geta framleitt með því að lesa ekki dómsúrskurði og gera ekkert til að laga málin.

Jónas Kristjánsson

DV

Mismunað í skattheimtu

Greinar

Senn fer að koma að því, að menn skrái, hvað gjalda beri keisaranum. Ríkið heimtir mikið fé af fólki og gefur um leið færi á ýmsum undanþágum. Mikils er um vert að átta sig á, hvar tækifæri eru til lækkunar eigin skatta og að hafa aðstöðu til að nýta sér það.

Hlutur hinna ríku hefur farið batnandi í hlutfalli við aðra. Tekjur af vinnu þola hærri álagningu en tekjur af peningum og pappírum. Eignir í steypu þola hærri álagningu en eignir í peningum og pappírum. Ójafnvægi milli tekjuleiða og sparnaðarleiða hefur aukizt.

Skattkerfið bætir stöðu þeirra, sem eiga miklar eignir umfram íbúðir sínar, í samanburði við meðalfólk, sem á ekki miklar eignir umfram íbúðirnar. Af eigin húsnæði greiða menn bæði eignaskatt og fasteignaskatt. Kerfið refsar mönnum þannig fyrir að eiga steypu.

Þróunin ætti að vera í hina áttina, til aukins jafnræðis milli sparnaðarforma. Almenn ættu skattar að vera með sem minnstum og helzt engum undantekningum, því að þannig verður skattprósentan lægst. Á því græða allir, sem hafa lítil færi á skattalegum útúrdúrum.

Þjóðfélagið væri í senn réttlátara og arðsamara, ef hér væri 18% flatur virðisaukaskattur, 25% flatur tekjuskattur og 1% flatur eignaskattur. Þetta væri hægt, ef undantekningar væru afnumdar. Ríkið fengi raunar meiri tekjur en áður, því að undanbrögð mundu minnka.

Einnig væri gagnlegt, ef horfið yrði frá því að nota skatta sem tæki til tekjujöfnunar í þjóðfélaginu og þeir einskorðaðir við tekjuöflunina. Tekjujöfnun á að reka á annan hátt, einkum með greiðslum á vegum Tryggingastofnunar til skilgreindra velferðarhópa.

Tekjujöfnun ríkisins á að felast í ellilaunum, örorkulaunum, barnalaunum og atvinnuleysislaunum. Þjóðfélagið á að ákveða, hver eiga vera kjör þeirra, sem ekki hafa fullar eigin tekjur, og reka þá kjarajöfnun í sérstöku launakerfi, en ekki rugla með því skattkerfið.

Þegar hér er talað um flata skatta, er átt við eina prósentutölu í hverjum skatti, án tillits til upphæðar og án tillits til uppruna. Þannig ættu tekjur af peningum að skattleggjast eins og tekjur af vinnu og eign í pappírum að skattleggjast eins og eign í steypu.

Ennfremur er hér átt við, að ekki sé sett gólf á skattstofna, heldur byrji skattar að telja frá fyrstu krónu. Þannig borgi menn sama tekjuskatt af öllum sínum tekjum og öllum tegundum tekna, en njóti á móti mun lægri skattprósentu en menn þurfa nú að þola.

Flestir mundu vilja borga 18% virðisaukaskatt í stað 24,5%, 25% tekjuskatt í stað 40% og 1% eignaskatt í stað 1,45%, þótt á móti komi afnám undantekninga, sem hér hefur verið rakið. Kerfið yrði einfaldara og réttlátara, arðsamara og gegnsærra, venjulegu fólki til góðs.

Skattar eru ekki vinsælir. Nauðsynlegt er, að fólk finni, að allir séu jafnir fyrir þeim. Því hlutlausari sem skattar eru, þeim mun minni óbeit hafa menn á þeim. Sérstaklega er mikilvægt, að fólk finni, að ekki sé verið að hygla sérhópum á kostnað alls almennings.

Öll frávik frá flötum og hlutlausum skattprósentum eru um leið frávik frá eðlilegum markaðsbúskap hagkerfisins. Þau fela í sér tilraun stjórnvalda til að deila og drottna, umbuna sumum á kostnað annarra. Þau eru afurð stjórnlyndis, sem hagfræði nútímans hafnar.

Fyrir löngu er orðið úrelt, að ríkisvaldið sé að reyna að stýra þróun með hvatningu hér og hindrun þar. Bezt er að láta markaðsöflin sjálf um að velja sér farvegi.

Jónas Kristjánsson

DV

Seðlabankastjóri

Greinar

Seðlabankastjórar alvöruríkja eru yfirleitt hálærðir menn, en ekki aflóga pólitíkusar. Þetta kom greinilega fram í skrá yfir erlenda seðlabankastjóra, sem birtist hér í fjölmiðlum snemma vetrar. Þeir koma ekki blóðugir upp að öxlum úr persónupólitíkinni.

Í mestu alvöruríkjunum er seðlabankastjórinn aðeins einn. Svo er til dæmis í Bandaríkjunum, þar sem traust manna á algerlega sjálfstæðum seðlabankastjóra skiptir efnahagslífið og einkum þó verðbréfamarkaðina meira máli en traust manna á sjálfum forseta landsins.

Með því að gera ráð fyrir auglýsingum eftir umsóknum um starf seðlabankastjóra gerir íslenzki löggjafinn ráð fyrir, að einhvers konar úrval eigi sér stað fyrir opnum tjöldum, svo að traust manna á embættinu megi vera mikið, eins og þar er til dæmis í Bandaríkjunum.

Ef veitendur embættisins velja eigi að síður úr eigin hópi mann, sem stendur öðrum umsækjendum langt að baki, er lausnin ekki sú, að breyta lögum á þann hátt, að óþarft sé að auglýsa starfið og hin séríslenzka spilling kotríkisins öðlist eins konar opinbera viðurkenningu.

Forsætisráðherra hefur talað eins og það sé eitthvert náttúrulögmál, að seðlabankastjórar komi úr hópi aflóga stjórnmálamanna. Þetta er rangt. Forsætisráðherra er ekki handbendi örlaganna, heldur hefur hann skipunarvaldið og getur beitt því í samræmi við góða siði.

Forsætisráðherra er ekki stikkfrí í málinu. Hann valdi Finn Ingólfsson í starfið sem hluta af samkomulagi stjórnarflokkanna um helmingaskipti í aðgangi að kjötkötlum ríkisins. Hann ber sjálfur ábyrgð á, að maður, sem ekki nýtur trausts, er orðinn seðlabankastjóri.

Iðnaðarráðaherrann hafði verið með harðskeyttustu stjórnmálamönnum landsins, hafði olnbogað sig upp valdastiga Framsóknarflokksins með því að valta yfir þekkt flokksfólk. Er hann var orðinn ráðherra, rak hann sjálfan ráðuneytisstjórann umsvifalaust úr starfi.

Slíkt er einsdæmi og hafði ráðuneytisstjórinn raunar ekki unnið sér neitt til saka. Finnur Ingólfsson vildi hins vegar skapa sér betra svigrúm í ráðuneytinu og sveifst einskis til þess. Hann gekk lengra en nokkrum ráðherra hefur dottið í hug á síðustu áratugum stjórnmálanna.

Eftir alla framgöngu sína segir ráðherrann, að sér hafi fundizt næða of mikið um stjórnmálamenn í síðustu kosningum! Hann telur sig sem sagt sjálfur mega fara fram með ofbeldi, en fer síðan að væla, þegar gerð er hríð að honum og formanni flokksins í kosningum.

Seðlabankinn er enginn staður fyrir pólitíska slagsmálahunda og ekki heldur fyrir aflóga eintök af því tagi. Að vísu er frábært að losna við iðnaðarráðherrann úr stjórnmálunum og koma honum fyrir á stað, þar sem ekki er svigrúm til pólitískra ofbeldisverka.

Eðlilegra hefði samt verið að maður á aldri ráðherrans færi út á vinnumarkaðinn og reyndi þar fyrir sér, þótt ekki nema til að sýna fram á, að hann sé ekki orðinn aflóga fyrir miðjan aldur. Með sama framhaldi verður fljótlega þurrð á feitum embættum í ríkiskerfinu.

Sem seðlabankastjóra á að ráða valinkunna og varkára, óumdeilda og virðulega háskólakennara, stjórnendur fjármálastofnana eða yfirmenn úr Seðlabankanum sjálfum, svo að þjóðfélagið telji embættið skipta miklu máli og að það sé engin skiptimynt í hrossakaupum.

Ferill ráðherrans og skipun hans í stöðu seðlabankastjóra með handafli forsætisráðherra er skýrt dæmi um, að kjósendur hafa gert Ísland að bananalýðveldi.

Jónas Kristjánsson

DV

Ómar Ragnarsson

Greinar

Fram eftir tuttugustu öldinni skilgreindu tunga og saga okkur sem þjóð og voru hornsteinn tilveru okkar. Þetta var okkur innprentað í kennslubókum, einkum Íslandssögu Jónasar frá Hriflu, eindregið stutt af flestum, sem telja mátti til menningarvita og athafnamanna.

Þegar leið á öldina, fóru þessi tengsl að dofna, meðal annars vegna framfara og auðsældar í landinu. Íslendingar fóru að trúa á mátt sinn og megin og töldu sig margir hverjir ekki þurfa hækjur úr fortíðinni. Þjóðernislegt rótleysi var fylgifiskur breytinganna.

Nú við aldarlok hefur snögglega aftur komizt á eins konar ómeðvitað samkomulag menningarvita og athafnamanna um, að þjóðin hafi hornstein. Þennan hornstein finna þeir í ósnertri náttúru hálendisins, sem tekið hefur á sig dulúðugan helgiljóma landvættanna.

Ein birtingarmynd þessa samkomulags er fyrirhafnarmikill gerningur listamanna, sem settu niður texta fyrsta erindis þjóðsöngsins, greyptan í steina, á fyrirhuguðu stíflusvæði Eyjabakkalóns. Á táknrænan og myndrænan hátt voru Eyjabakkar teknir í fóstur þjóðarinnar.

Vel stæðir athafnamenn standa nú fyrir söfnun tugþúsunda undirskrifta, studdir þekktustu nöfnum þjóðarinnar. Nánast allir vilja skrifa undir, nema þá bagi austfirzkur uppruni eða flokkspólitískur tilvistarvandi. Þjóðin hefur sameinazt í stuðningi við óséð landsvæði.

Ferðahópar hálendisins styðja hin ósnortnu víðerni, hvort sem þeir fara þangað í flugvélum eða jeppum, vélsleðum eða hestum eða bara á eigin fótum. Þessir afar ólíku ferðahópar eiga fátt annað sameiginlegt en tilfinninguna fyrir dularmagni íslenzkra óbyggða.

Einn maður stendur öðrum fremur að baki þessara nýju viðhorfa. Það er Ómar Ragnarsson fréttamaður, sem hefur í heilan áratug verið að sýna okkur hálendið og lýsa því fyrir okkur á tungumáli, sem flestir skilja, hvar í framangreindum hópum sem þeir standa.

Sífelldar ferðasögur Ómars hafa síazt inn í þjóðarvitundina. Hann hefur ekki verið að prédika neitt, bara verið að rabba við fólk á máli, sem það skilur. Frásögn hans hefur í vaxandi mæli einkennzt af djúpri virðingu fyrir óbeizluðum krafti og fagurri birtu íslenzkra öræfa.

Nýútkomin bók Ómars, Ljósið yfir landinu, gefur okkur samþjappaða innsýn í áhrifamátt frásagna hans, allt frá tæknilegum smáatriðum ferðamennskunnar yfir í lýsingar hans á fegurð og ógn hinnar ósnortnu víðáttu. Fornir landvættir eru þar hvarvetna á stjái.

Ómar hefur ekki einn og óstuddur breytt grundvallarsjónarmiðum Íslendinga og fært okkur nýjan hornstein, nýja viðmiðun. Margir hafa átt hlut að máli. En þáttur Ómars er langsamlega stærstur. Hann er aldamótamaður nútímans og eins konar spámaður nýrrar aldar.

Seint og um síðir hafa gæzlumenn úreltra hagsmuna í ríkissjónvarpi Sjálfstæðisflokksins áttað sig á, hversu hættulegur er spámaðurinn. Vinsæl sjónvarpsþáttaröð Ómars um þjóðgarða og víðerni í Bandaríkjunum og á Íslandi hefur því verið fryst í miðjum klíðum.

Vegna fréttaþátta Ómars erum við farin að átta okkur á, að við eigum ekki Eyjabakka og getum ekki veitt Alþingi umboð til að fara með slíkt eignarhald. Eyjabakkar eru eign ófæddra afkomenda okkar. Hlutverk okkar er það eitt að skila þeim ósnortnum til framtíðarinnar.

Eftir tímabil rótleysis getum við aftur skilgreint okkur. Nú eru það landvættir, er hafa tekið við hlutverki, sem hafði reynzt vera tungu og sögu um megn

Jónas Kristjánsson

DV

Illindi leysa sættir af hólmi

Greinar

Síðustu ár tuttugustu aldar hefðu átt að geta verið pólitískt friðsæl hér á landi. Fennt hafði yfir ýmsan ágreining, sem varð tilefni núverandi flokkaskipunar í stjórnmálum. Hugtök á borð við hægri og vinstri höfðu dofnað og eru núna varla nema svipur hjá fyrri sjón.

Fjórflokkurinn varð til fyrir mörgum áratugum og er við beztu heilsu undir lok aldarinnar. Samt eru grundvallaratriði skipulagsins meira eða minna grafin í gleymsku. Þótt flokkarnir hafa misjafna afstöðu í sumum málum, eru það ekki hefðbundnu ágreiningsefnin.

Að baki eru ýmsar deilur, sem áður klufu þjóðina. Kalda stríðinu er lokið. Afstaðan til Atlantshafsbandalagsins skiptir fólki ekki lengur í fylkingar. Deilur um utanríkismál eru sáralitlar aðrar en um viðhorfið til Evrópusambandsins, sem er nýlegt fyrirbæri.

Lokið er þorskastríðum og lagðar af landhelgisdeilur við Breta og Norðmenn. Samningaferill og tæknilegar útfærslur skiptu þjóðinni stundum í fylkingar fyrr á árum og áratugum. En þjóðin lifir núna í sátt við niðurstöður þessara mála og hyggst gera það áfram.

Almenni vinnumarkaðurinn er hættur að vera verksvið átaka. Forustumenn stéttarfélaga hafa tekið trú á stöðugleikann sem hornstein lífskjara félagsmanna sinna og vilja sízt af öllu rugga bátnum. Þeir kvarta um tillitsleysi stjórnvalda, en gera ekkert í málunum.

Almennt má segja um hvort tveggja, grundvallaratriði flokkaskipulagsins og síðari tíma sérmál, að sátt hefur náðst í þjóðfélaginu og tekið broddinn úr deilunum. Menn hafa þjarkað fram og aftur og fundið millileiðir, sem eru eitt helzta einkenni lýðræðisríkja nútímans.

Samt logar allt í illdeilum í þjóðfélaginu undir lok aldarinnar. Ný mál hafa komið til sögunnar og klofið þjóðina í fylkingar. Meðal þeirra eru gjafakvóti, Kárabanki og Eyjabakkar, allt saman dæmigerð sérmál, sem áður kölluðu á pólitíska lagni við lausn deilna.

Meirihluti þjóðarinnar hefur verið andvígur gjafakvóta í fiskveiðum og eyðingu Eyjabakka og mjög stór og rökfastur minnihluti hefur verið andvígur því, að sjúkraskrár þjóðarinnar væru gefnar. Áður fyrr hefðu svona fjölmenn og öflug sjónarmið leitt til millileiða.

Með auknum aflaheimildum hefði verið hægt að úthluta viðbótinni í samræmi við gagnrýni á gjafakvótann, bjóða hana upp eða afhenda sjávarplássum. Verðleggja hefði mátt sjúkraskrár, svo að þjóðfélagið fengi beinan hagnað af því að afhenda verðmæti til afnota.

Bent hefur verið á ýmsar millileiðir í málum Eyjabakka, allt frá virkjun jarðhita yfir í verðlagningu umhverfisþátta. Ekki hefur verið stiginn millimetri til móts við slíkar hugmyndir, ekki einu sinni fallizt á, að Norsk Hydro væri gefið færi á að skýra tvísagnir.

Sá er nefnilega munur núverandi ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og allra annarra ríkisstjórna í manna minnum, að þær fyrri voru hallar undir málamiðlanir og sættir í ágreiningsefnum, en þessi ríkisstjórn nærist og dafnar beinlínis af spennu og illindum í þjóðfélaginu.

Sumpart stafar þetta af, að stjórnmálamenn hafa áttað sig á, að menn taka sem kjósendur ekkert mark á eigin skoðunum sem borgarar. Flokksmenn halda áfram að kjósa foringja sína, þótt þeir taki ekkert tillit til skoðana þessara flokksmanna. Málefni kljúfa ekki flokka.

Þar sem nógu margir Íslendingar hafa þörf fyrir að láta kúga sig, fá þeir leiðtoga, sem uppfylla þessa þörf. Þess vegna ríkja illindi í þjóðfélaginu, en ekki friður.

Jónas Kristjánsson

DV

Eintal um Eyjabakka

Greinar

Áður lífleg umræða um eyðingu Eyjabakka hefur breytzt í eintal þeirra, sem eru andvígir ýmsum eða öllum þáttum Fljótsdalsvirkjunar og álvers á Reyðarfirði. Stuðningsmenn framkvæmdanna láta lítið á sér bera, enda hafa þeir rækilega verið kveðnir í kútinn.

Að undanförnu hafa engir málsmetandi menn og nánast eingöngu hagsmunaaðilar tekið til máls til stuðnings framkvæmdunum. Það er Landsvirkjun og starfsmenn hennar, sveitastjórnarmenn í Fjarðabyggð og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar á Alþingi.

Af hálfu stuðningsfélags virkjunarinnar fyrir austan hafa andstæðingarnir verið skilgreindir. Það eru snobbar og grænmetisætur í þéttbýli, þeir sem eru kunnir erlendis fyrir list eða kaupsýslu á sviði þekkingargreina og annað fólk, sem hefur misst átthagatengsl.

Eyjabakkamálið er raunar einstakt fyrir þá sök, að á annan veg tala nánast allir, sem óvenjulega miklum árangri hafa náð í menningu og sérþekkingu á ýmsum sviðum, en hinn flokkinn skipa starfsmenn hagsmunaaðila og nokkrir ölmusumenn af Austurlandi.

Þessi staða skiptir Alþingi auðvitað engu máli. Langt er síðan ljóst var, að staðfesting framkvæmdanna yrði samþykkt þar með nánast öllum styrk stjórnarflokkanna. Þingmenn hafa gengisfallið, en að öðru leyti heldur flokksbundið líf Alþingis sinn vanagang.

Tveir þingmenn Suðurnesja hafa beðið siðferðishnekki. Annar er formaður iðnaðarnefndar Alþingis, Hjálmar Árnason, sem hindraði, að Norsk Hydro fengi tækifæri til að útskýra fyrir nefndinni, hvað fyrirtækið ætti við með misvísandi yfirlýsingum sínum.

Hinn er Kristján Pálsson, sem notaði stuðning sinn við Eyjabakka sérstaklega til að koma sér inn á þing í vor, en hefur að fengnum stuðningi kjósenda snúið við blaðinu og það án þess að fá 30 silfurpeninga ráðherradóm að launum eins og Siv Friðleifsdóttir fékk þó.

Málið hefur skýrzt. Gífurlegur taprekstur verður á orkuverinu með tilheyrandi verðhækkunum hjá almennum notendum. Norsk Hydro ætlar enga ábyrgð að taka á rekstri álversins, en hafa velferð þess í hendi sér með því að sjá því bæði fyrir aðföngum og afurðasölu.

Framkvæmdirnar verða olía á eld ört vaxandi verðbólgu í landinu og grafa undan margvíslegum öðrum og arðbærum athöfnum, sem krefjast efnahagslegs stöðugleika. Framkvæmdirnar eru ekkert annað en hefðbundin byggðastefna í ýktu og áður óþekktu magni.

Andófið mun halda áfram, þótt Alþingi fallist á framkvæmdirnar. Norsk Hydro mun í auknum mæli koma upp um sig og standa í eldlínunni, enda hefur fyrirtækið leikið tveimur skjöldum og gefið misvísandi yfirlýsingar, sem henta aðstæðum hverju sinni.

Andófið mun sennilega einnig beinast að íslenzkum lífeyrissjóðum, sem hyggjast fara með sparifé sjóðfélaga inn í spilavítið hjá Norsk Hydro og leyfa því að ákveða áhrif hækkana í hafi á gengi hlutabréfa í álverinu. Aðild lífeyrissjóðanna er glórulaus trúgirni og einfeldni.

Atkvæðagreiðslan á Alþingi er kjósendum þung áminning. Svona fer, þegar kjósendur taka ekki atkvæðisrétt sinn alvarlega og taka ekki afleiðingum eigin skoðana. Búið verður að eyðileggja Eyjabakka, þegar tækifæri gefst til að refsa skillitlum þingmönnum.

Engu máli skiptir, þótt með rökum sé valtað kruss og þvers yfir ölmusumenn og aðra gæzlumenn hagsmuna. Eyðing Eyjabakka færist óðfluga nær veruleikanum.

Jónas Kristjánsson

DV

Ný tilraun til sjónhverfinga

Greinar

Bændasamtökin hafa sóað kvartmilljarði af skattfé og sjóðapeningum á fimm árum til að komast hjá alþjóðlegum stöðlum um lífræna ræktun. Átaki þessu lýkur um áramótin án nokkurs árangurs annars en að níða skóinn niður af bændum í vottfestri lífrænni ræktun.

Hugmyndafræðin var að fá allt fyrir ekkert. Erlendis selst lífræn búvara á verði, sem er tugum prósenta hærra en sambærileg búvara, og söluaukningin nemur tugum prósenta á hverju ári. Bændasamtökin vildu komast án fyrirhafnar í þessa góðu framtíðarstöðu.

Þau lentu hins vegar í gíslingu hugmyndafræðings, sem bjó til hugtak vistvænnar framleiðslu, er ekki hefur alþjóðlega staðla að baki sér og selst þar af leiðandi ekki á sambærilegu verði. Hugmyndafræðingurinn sóaði kvartmilljarðinum í vonlausa markaðssetningu.

Ætlunin var, að íslenzk landbúnaðarframleiðsla fengi almennt vottun á vegum Bændasamtakanna fyrir að vera vistvæn og bændur spöruðu sér fyrirhöfnina við að breyta vinnubrögðum sínum til að ná vottun fyrir lífræna framleiðslu samkvæmt alþjóðlegum stöðlum.

Hugmyndafræðingurinn beitti yfirþyrmandi krafti Bændasamtakanna til að reyna að fæla bændur frá því að afla sér vottunar fyrir lífræna framleiðslu og draga þá í staðinn inn í skýjaborgir um að fá vottun fyrir vistvæna framleiðslu út á óbreytta framleiðsluhætti.

Þetta tókst ekki, en tafði fyrir breytingu íslenzkra búskaparhátta í lífrænt horf. Á fimm árum hefur lítil sem engin þróun orðið á þessu sviði hér á landi, þótt lífræn ræktun og sala lífrænna afurða hafi margfaldazt í nágrannalöndum okkar beggja vegna Atlantshafsins.

Bændasamtökin eru enn í gíslingu hugmyndafræðingsins og eru að leita leiða til að afla nýs kvartmilljarðs í tilraunir til að fá eitthvað fyrir ekkert. Í stað vistvænnar framleiðslu er nú farið að tala um lífræna framleiðslu með séríslenzku sniði, utan erlendra staðla.

Ætlunin er að skilgreina íslenzkan landbúnað eins og hann er sem lífrænan og setja um það séríslenzka staðla, svo að bændur þurfi lítið að leggja á sig í kostnaði og vinnu við að verða lífrænir. Þetta er ný sjónhverfing, sem verður ekki miklu farsælli en hin fyrri.

Séríslenzkir staðlar Bændasamtakanna öðlast ekki gildi í útlöndum. Þvert á móti munu menn sjá í þeim glæpsamlega tilraun til að komast hjá alþjóðlegum stöðlum. Því verða íslenzku vörurnar bannaðar, ef þær sjást, með vondum áhrifum á ímynd íslenzkra afurða.

Í krafti stöðu sinnar geta Bændasamtökin þvingað slíkum stöðlum upp á innlenda markaðinn, en hann mun ekki svara með því að borga meira fyrir vöruna. Þeir, sem nú kaupa lífrænt vottaða framleiðslu, munu ekki kaupa vöru, sem vottuð er með sjónhverfingum.

Sem oftar áður í landbúnaði gleyma menn að gera ráð fyrir neytendum. Menn spyrja ekki, hvað markaðurinn biðji um, heldur hvernig hægt sé að afsetja þá vöru, sem til er. Nýja átakið er fyrirfram dæmt til að mistakast, enda ætlað að verja atvinnu hugmyndafræðingsins.

Sorglegast við þetta er, að Bændasamtökin hefðu getað tekið lífræna ræktun upp á sína arma fyrir fimm árum og notað kvartmilljónina til að auka hana, í stað þess að níða hana niður vegna þess eins, að hún var þrándur í götu sjónhverfinga hugmyndafræðingsins.

Áður en samtökin brenna öðrum kvartmilljarði ættu þau að losa sig úr gíslingunni og hefja aðstoð við lífræna ræktun eins og hún er skilgreind um heim allan.

Jónas Kristjánsson

DV

Við bíðum eftir aðhaldinu

Greinar

Efnahags- og framfarastofnunin OECD spáir 5,2% verðbólgu á Íslandi á næsta ári, meira en þrefaldri verðbólgu ríkja Evrópusambandsins, þar sem spáð er um 1,5% verðbólgu á næsta ári. Meðan verðbólga lækkar í nágrannalöndunum hækkar hún hér á landi.

Í fyrra vorum við á svipuðu róli og aðrar þjóðir Vestur-Evrópu með rúmlega 2% verðbólgu og höfðum þá búið við langvinnt góðæri lágrar verðbólgu. Í ár hafa leiðir skilið. Evran var tekin upp á meginlandinu og skilaði sér þar í strangari stjórn efnahags- og fjármála.

Við tókum hins vegar strikið upp á við, sumpart vegna ofhitnunar í gufukötlum efnahagslífsins, sumpart vegna gjafmildi stjórnvalda gagnvart kjósendum og starfsfólki á kosningaári og sumpart vegna aukinnar fákeppni í verzlun, svo sem forsætisráðherra hefur bent á.

Stjórnvöld hafi takmarkaða möguleika á að ráða við suma þætti verðbólgunnar. Keppinautar hafa uppgötvað þægindin af auknum samráðum og minnkandi samkeppni. Með samruna fyrirtækja hefur samkeppni verið breytt í fákeppni og fákeppni breytt í fáokun.

Verðbólga mun enn aukast, ef bankar sameinast og breyta fákeppni sinni í fáokun. Þetta væri þolanlegt, ef erlendir bankar tækju upp þráðinn með útibúum hér á landi, en því miður virðist Ísland ekki áhugaverður markaður á þessu sviði fremur en ýmsum öðrum.

Stjórnvöld geta reynt að opna hagkerfið betur og laða hingað erlenda keppinauta á ýmsum sviðum, í bankaviðskiptum, tryggingum, olíuverzlun, flugi og á öðrum þeim sviðum, þar sem 80% markaðarins eru í höndum örfárra fyrirtækja, sem kunna að sameinast þá og þegar.

Stjórnvöld hafa takmarkaða möguleika á að ráða við almenna kjarasamninga, þótt þau geti sjálfum sér kennt um að hafa gefið tóninn með gífurlegum hækkunum til stjórnmála- og embættismanna ríkisins og nokkrum hækkunum til sumra hópa ríkisstarfsmanna.

Stjórnvöld geta samt haft óbein áhrif með því að haga málum á þann hátt, að samtök launafólks sjái hag í að fara með löndum í kröfum. Það gerist til dæmis með því að sýna fram á trúverðugar aðgerðir á öðrum sviðum til að koma verðbólgunni niður í evrópska staðla.

Efnahags- og framfarastofnunin hvetur til meira aðhalds stjórnvalda í ríkisfjármálum. Slíkt aðhald felst ekki í að selja ríkiseignir til að halda uppi óbreyttum dampi á ríkisútgjöldum. Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar bendir því miður til freistinga af slíku tagi.

Ríkisvaldið þarf í stóru og smáu að hafa mikið hóf á fjárfestingum sínum á næsta ári. Mest munar um að hætta við ýmsar stórframkvæmdir ríkisins og að hleypa ekki heldur Fljótsdalsvirkjun í gang, því að hún ein er ávísun á hrikalega spennu í efnahagslífinu.

Beina þarf athyglinni frá atvinnuþróun, sem felur í sér gífurlegan fjárfestingarkostnað af hverju atvinnutækifæri, og að atvinnuþróun, sem felur í sér lágan fjárfestingarkostnað af hverju atvinnutækifæri. Falla ber frá áliðjudraumum og efla heldur þekkingariðnað.

Verkefnið er ekki lítið. Koma þarf verðbólgunni úr hinum spáðu 5,2% niður í þau 1,5%, sem spáð er í Vestur-Evrópu almennt. Við megum ekki missa af jafnvæginu, sem felst í að búa við svipaða festu í fjármálum og efnahagsmálum og aðrar þjóðir Vesturlanda.

Brýnt er, að ríkisstjórnin fari sem allra fyrst að láta í sér heyra um, hvaða leiðir hún hyggst fara til að tryggja sömu festu hér á landi og í viðskiptalöndum okkar.

Jónas Kristjánsson

DV

Hlutverk og völd

Greinar

Umhverfisráðherra segist hafa orðið að falla að stefnu ríkisstjórnarinnar til að ná áhrifum í stjórnmálum. Á mæltu máli þýðir þetta, að hún hafi orðið að skipta um skoðun í umhverfismálum til að geta orðið umhverfisráðherra á átakatímum Eyjabakkavirkjunar.

Umhverfisráðherra ruglar saman hlutverkum og áhrifum. Fólk kemst til metorða á ýmsum forsendum, flestir til að leika ákveðin hlutverk og fæstir til að hafa völd. Meirihluti stjórnmálamanna hefur engin völd, þótt þeir hafi komizt til metorða og mannaforráða.

Áhrif og völd eru atriði, sem fylgja ekki metorðum á sjálfvirkan hátt. Áhrif og völd eiga sér ýmsar rætur. Góður árangur í starfi og virðingin, sem af því hlýzt, getur leitt til valda, sömuleiðis vilji til að beita afli, andlega eða líkamlega. Jafnvel handrukkarar hafa völd.

Í Framsóknarflokknum hafa Ólafur Örn Haraldsson og Sigmar B. Hauksson meiri völd en umhverfisráðherra. Þeir hafa völd, af því að þeir hafa ekki látið mikinn þrýsting beygja sig og eru því taldir meiri persónuleikar en það fólk, sem leikur hlutverk eftir aðstæðum.

Formaður Framsóknarflokksins hefur líka völd, en ákaflega misjöfn. Hann hefur völd til að halda heilli ríkisstjórn og meirihluta Alþingis í gíslingu út af Eyjabakkavirkjun, en hann getur hvað eftir annað ekki höggvið á hnúta valdabaráttu innan flokksins.

Þegar formaður getur ekki sagt flokksmönnum sínum, hvern hann vilji í stjórn flokksins eða embætti félagsmálaráðherra, hlýtur hann að rýra áhrif sín. Halldór Ásgrímsson er dæmi um stjórnmálamann, sem eyðir öllu sínu púðri í eitt kjördæmismál og fellur með því.

Sterkustu stjórnmálamenn landsins geta gefið eftir og gera það, ef það hentar þeim. Þannig hefur forsætisráðherra stundum áminnt samráðherra sína og sagt, sem frægt er orðið, að svona geri maður ekki. Og þannig hefur borgarstjóri hætt við byggingar í Laugardal.

Þetta eru voldugir stjórnmálamenn, af því að þeir skaffa og af því að fólk virðir þá og óttast jafnvel. Óttinn við Davíð Oddsson er svo landlægur í Sjálfstæðisflokknum, að menn leita ráða hans um skipan manna og mála á póstum, sem varða valdsvið hans ekki neitt.

Forsætisráðherra getur kúgað menn til hlýðni, ef hann finnur á þeim veikan blett. Hann getur látið breiða út þær upplýsingar, að óþægðarmaður í flokknum sé ævintýralega skuldugur og þannig knúið hann til að biðjast vægðar og draga verulega úr óþægðinni.

Völd hans eru svo mikil, að einn góðan veðurdag getur hann sagt, að bezt sé að slá Eyjabakkavirkjun á frest. Þúsundir flokksmanna, sem nú þora ekki að æmta eða skræmta, munu andvarpa feginsamlega og öðlast meiri tröllatrú á formanni sínum en nokkru sinni fyrr.

Valdamenn breyta gangi veraldarsögu, landssögu, héraðssögu eða sögu stofnana og fyrirtækja með einu lausnarorði, af því að nógu margir vilja sitja og standa eins og þeir vilja. Hinir eru ekki valdamenn, sem fá metorð út á að sitja og standa eins og valdamenn vilja.

Þannig er það misskilningur umhverfisráðherra, að hún hafi náð í eitthvert horn af völdum í landinu. Þvert á móti hefur hún stimplað inn vitneskju um, að af hreinni metorðagirnd leiki hún þau hlutverk, sem þurfi að leika hverju sinni. Hún er valdalaus með öllu.

Völd og áhrif eru ekki öllum gefin. Þau eru gefin þeim, sem menn óttast eða virða, nema hvort tveggja sé. Þau fást allra sízt af því að leika rulluna sína.

Jónas Kristjánsson

DV

Höfuðhögg í Seattle

Greinar

Seattle-fundur Heimsviðskiptastofnunarinnar fór út um þúfur, áður en hann hófst. Uppþotin við fundarstaðinn eru aðeins eftirmáli, sem staðfestir, að stofnunin er ekki fær um að mæta nýjum aðstæðum, sem fylgja breyttu gildismati margra nútímamanna.

Allur vindur var úr stofnuninni, áður en fundurinn hófst. Í stað þess að leggja á borð raunhæfar tillögur um aukið frelsi í milliríkjaviðskiptum, notuðu flest ríki íslenzku hugmyndina, sem felst í að þú lækkir tolla og aðrar hömlur, en ég hækki hins vegar hvort tveggja.

Litli brandarinn var svo blaðafundur Eyjabakkajarls Íslands og fulltrúa World Wildlife Fund um sjávarútvegsmál. Halldór sat þar á palli með hinum hræðilegu umhverfisverndarsinnum, gæsaskyttum, borgarbúum og grænmetisætum, sem Austfirðingar hafa varað við.

Ráðuneyti aðildarríkja Heimsviðskiptastofnunarinnar eru full af hagfræðingum og öðrum sérfræðingum, sem vita ósköp vel, að allir græða á lækkun tolla og annarra viðskiptahafta og að þeir græða mest, sem lengst ganga í átt til frelsis, jafnvel þótt þeir geri það einhliða.

Í stað þess að selja þjóðum heims þessi sannindi, fer orka hinna lærðu manna í að ræða um gagnkvæmni í afnámi viðskiptahindrana á þann hátt, að báðir aðilar “gefi eftir”. Orðalagið að gefa eftir þýðir, að þú sættir þig við þinn eigin gróða af því að minnka hömlur.

Meðan ekki er meiri kraftur en þetta í sannfæringunni um frjálsa verzlun, mun hún ekki hafa frekari framgang í heimsviðskiptum. Víða verða gerðir tvíhliða samningar um gagnkvæmt smotterí, en ekki einu sinni um íslenzka hesta og norskar kartöfluflögur sællar minningar.

Á sama tíma og siðferðiskrafturinn hefur hrunið í hugmyndafræði frjálsrar verzlunar, hafa komið í ljós hliðaverkanir af áður auknu frelsi. Það hefur framkallað vandamál, sem eru ofarlega í hugum fólks og samtaka fólks, svo sem sjá má af óeirðunum í Seattle.

Heimsviðskiptastofnunin hefur engin svör við nýjum straumum í náttúruvernd, sem meðal annars berjast gegn sölu erfðabreyttra matvæla frá Bandaríkjunum til Evrópu. Í fullkominni blindni samþykkti stofnunin að refsa Evrópusambandinu fyrir viðskiptahömlur.

Heimsviðskiptastofnunin hefur ekki heldur nein svör við fullyrðingum um versnandi stöðu smælingja um allan heim vegna óbeinnar skerðingar á fullveldi ríkja í þágu fjölþjóðafyrirtækja, sem færa sig til, þegar félagslegar stjórnvaldsaðgerðir valda þeim óþægindum.

Þegar þar á ofan er farið að tala um að gefa Kína tækifæri til að koma illu af stað innan Heimsviðskiptastofnunarinnar, er fokið í flest skjól fyrir henni, sem átti að gera okkur öll rík, en skortir hugmyndafræðilegt bein í nefinu til að halda sómasamlegan fund í Seattle.

Eigi að síður römbuðu fulltrúar meira en 100 ríkja til Seattle án neinnar dagskrár og án neinnar vitneskju um, hvernig hún yrði búin til. Þeir eru núna á hlaupum milli einkafunda, hundeltir af verkalýðs- og náttúruverndarsinnum og jafnvel svonefndum grænmetisætum.

Ef nokkru sinni hefur verið haldinn fundur án takmarks og tilgangs, þá er það fundur Heimsviðskiptastofnunarinnar í Seattle. Fundurinn var orðinn að meiriháttar álitshnekki, áður en hann hófst og að allsherjar siðferðishruni eftir táragas á sjónvarpsskjám.

Fundurinn sýnir, að valdamenn og vísir menn frá hundrað löndum geta ráfað um stefnulaust, án þess að hafa hugmynd um, hvernig þeir fengu höfuðhöggið.

Jónas Kristjánsson

DV

Norsk Hydro fíflar Íslendinga

Greinar

Hagur af álverum byggist á að hafa tök á öllu ferlinu frá vinnslu málmgrýtisins til framleiðslu nytjahluta úr áli. Sá, sem á bara álver til að vinna málm úr grjóti með raforku, er eins og báta- og kvótalaus fiskverkandi, sem þarf að bjóða í fisk á hverfulum markaði.

Alusuisse hafði ítök í markaðinum báðum megin við álverið í Straumsvík og gat hagrætt verðlagi í hafi eins og frægt varð á sínum tíma. Norsk Hydro hefur sömu stöðu gagnvart álveri á Reyðarfirði, selur því málmgrýti og kaupir álið, sem framleitt var úr því.

Norsk Hydro mun stjórna afkomu álversins á Reyðarfirði. Þar sem hagsmunir fyrirtækisins eru eindregnari af rekstri, sem er allur í þess eigu, heldur en af rekstri, sem er að minnihluta í eigu þess, mun það haga bókhaldinu í þágu þeirra hagsmuna, sem meiri eru.

Ætlunin er að ginna íslenzka lífeyrissjóði til að verða hornsteinn fjármögnunar álversins á Reyðarfirði. Það stafar af, að í stjórnum lífeyrissjóða er mikið af fólki, sem þekkir takmarkað til rekstrar fyrirtækja og hefur tæpast meira vit á peningum en hver annar.

Lífeyrissjóðirnir eru nú hver um annan þveran vistaðir hjá verðbréfasjóðum og öðrum fjármálafyrirtækjum, sem freistast til að nota lífeyrissjóðina til að hjálpa sér við skemmtilegar æfingar í kaupum og sölu pappíra. Þar á meðal er fyrirhugað álver á Reyðarfirði.

Þar sem lífeyrissjóðir eru tiltöluleg nýkomnir í tízkubraskið, hefur ekki enn orðið neitt skammhlaup af þess völdum. Þess verður þó tæpast langt að bíða, að einhver lífeyrissjóðurinn gerist ófær um að sinna skuldbindingum sínum vegna ógætilegrar fjárvörzlu.

Nú halda menn, að þeir eigi í lífeyri sínum trygga eign til elliáranna. Svo er því miður ekki. Lífeyrissjóðir eru farnir að taka þátt í braski, sem stefnir öryggi sjóðfélaga í hættu. Eitt af því er þátttaka í álveri, sem ekki hefur tök á kaupum á aðföngum og sölu á afurðum sínum.

Þeir, sem hafa áhyggjur af lífeyri sínum og telja, að lífeyrissjóðir eigi að halda sig við áhættuminni fjárfestingar, ættu sem fyrst að hafa samband við stjórnarmenn lífeyrissjóða sinna og lýsa efasemdum um, að það sé í þágu sjóðfélaga að fara í spilavítið hjá Norsk Hydro.

Áliðnaður er gömul og gróin atvinnugrein, sem siglir í átt til lítillar arðsemi og jafnvel taprekstrar, rétt eins og skipasmíðar. Þróuð ríki eru að reyna að losna við áliðnað sinn og koma honum til þriðja heimsins, þar sem ráðamenn eru margir enn með álglýju í augum.

Svisslendingum hefur tekizt að losna við öll álver úr landinu, meðal annars með því að byggja eitt á Íslandi. Þjóðverjar losnuðu við eitt álver til Íslands. Og nú er Norsk Hydro að komast í vanda heima fyrir og vill láta íslenzka lífeyrissjóði borga fyrir sig álver í staðinn.

Enginn mun græða á álverinu á Reyðarfirði nema Norsk Hydro. Íslenzkir lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar munu tapa. Landsvirkjun mun tapa, því að orkuverð þyrfti að hækka um 70% til að kosta virkjun, sem fær ókeypis að eyðileggja Eyjabakka og Miklugljúfur.

Þar sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa ákveðið að láta slag standa, eru ekki eftir margar aðrar leiðir í stöðunni en að reyna að hafa vit fyrir íslenzkum lífeyrissjóðum og draga kjark úr Norsk Hydro og norska iðnaðarráðuneytinu, sem fer með meirihlutaeign í fyrirtækinu.

Ráðamenn Norsk Hydro eru að vísu enn svo forstokkaðir, að þeir vilja ekki einu sinni hlusta á Steingrím Hermannsson. Þeir eru óvinir þjóðarinnar númer eitt.

Jónas Kristjánsson

DV