Pútín er nýr Stalín

Greinar

Andrei Babitsky, fréttamaður Radio Liberty í Tsjetsjeníu hafði lengi farið í taugar Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands, af því að fréttir hans voru réttar og stungu í stúf við lygavefina, sem Pútín lét semja um stríðið. Því var Babitsky handtekinn á eftirlitsstöð 16. janúar.

Babitsky hefur ekki sézt síðan. Sennilega hafa menn Pútíns myrt hann. Þeir neituðu í tvær heilar vikur að hafa handtekið hann, unz þeir þóttust skyndilega hafa afhent hann skæruliðum Tsjetsjena 3. febrúar. Þeir sýndu greinilega falsaða mynd af þeim meinta atburði.

Allt er málið einkar stalínskt. Fyrst er maðurinn sagður ekki til og svo er hann afhentur. Hann er sagður afhentur Tsjetsjenum, af því að hann hafi sjálfur beðið um það. Allt er þetta sama gamla lygin og Stalín stundaði og nákvæmlega í gamla ósvífna stílnum hans.

Alexander Khinshtein, blaðamaður við Komsomolets, slapp naumlega 17. janúar, er menn komu að flytja hann nauðugan á geðveikrahæli. Sú aðferð var notuð af KGB á sínum tíma og hefur verið endurvakin af Pútín, sem er alinn upp í KGB og Stasi í Austur-Þýzkalandi.

Pútín hefur tekið upp fleiri siði úr gömlum kennslubókum. Hópi erlendra blaðamanna var sýnt friðsælt tölvuver í skóla í þeim hluta Tsjetsjeníu, sem rússneski herinn hafði náð á sitt vald. Eini gallinn við Pótemkín-tjaldið var, að ekkert rafmagn hafði verið lagt í skólann.

Eins og á tímum Stalíns mættu hópnum hópar af syngjandi Tsjetsjenum, sem dönsuðu þjóðdansa með hamingjusvip. Þannig er lygavefurinn spunninn af KGB, sem núna heitir FSB, nákvæmlega eins og hann var spunninn, þegar svart var hvítt í Sovétríkjunum sálugu.

Enginn vottur af sönnun hefur komið fram um, að Tsjetsjenar hafi valdið sprengingum í íbúðablokkum í Moskvu og víðar. Herferðin gegn þeim er því byggð á yfirvarpi. Hún heitir frelsun á máli Pútíns og manna hans, en varðar þó við alþjóðareglur um stríðsglæpi.

Einkennilegt er að frelsa fólk með því að sprengja hús þess, ræna eignum þess og myrða það af handahófi, pynda það og nauðga því í fangabúðum. Um þetta eru rækileg gögn hjá fjölþjóðastofnunum, en Pútín heldur áfram þeim sið Stalíns að sýna syngjandi dansflokka.

Aðgerðir Pútíns í Tsjetsjeníu eru skipulagt þjóðarmorð gegn fólki, sem formlega séð telst vera borgarar í Rússlandi. Þær sýna viðhorf stjórnvalda til borgara í eigin landi. Með Pútín hefur stjórnarfar í Rússlandi horfið aftur til Sovétríkjanna eins og það var á tímum Stalíns.

Áhugamál Pútíns komu greinilega í ljós á fundi svonefnds Sambands sjálfstæðra ríkja í lok janúar, þar sem hann vildi hvorki ræða fríverzlun né Tsjetjeníu, heldur eingöngu um aukið samstarf leyniþjónustanna í þessum arftakaríkjum Sovétríkjanna sálugu.

Sem betur fer eru Rússland og Samband sjálfstæðra ríkja efnahagslegir dvergar, sem geta lítið spillt fyrir úti í hinum stóra heimi. Rússland hefur þó mikið af kjarnorkuvopnum og nýjan Stalín á toppnum, sem gerir lífið í heiminum hættulegra en það var á tíma Jeltsíns.

Því miður eiga utanríkisþjónustur vestrænna stórvelda erfitt með að kyngja því, að dálæti þeirra á Jeltsín hefur leitt Pútín til valda. Þess vegna reyna þær að gera lítið úr þeirri staðreynd, að stjórnarfar í Rússlandi Pútíns siglir hraðbyri í átt til stjórnarfars Sovétríkja Stalíns.

Vesturlandabúar eiga strax að stöðva vestræn lán til Rússlands. Þau eru notuð til þjóðarmorða og annarra glæpa gegn mannkyninu á vegum hins nýja Stalíns.

Jónas Kristjánsson

DV

Flokkur gegn borg

Greinar

Mann fram af manni hafa samgönguráðherrar Sjálfstæðisflokksins lagt sig fram um að reyna að draga úr eða fresta gerð samgöngumannvirkja í Reykjavík, einkum mislægra gatnamóta, og standa í ýmiss konar þvargi þessu tengdu við borgarstjórann í Reykjavík.

Á næstsíðasta kjörtímabili mátti telja, að þetta væri bara eitt ruglið enn úr Halldóri Blöndal, sem síðan var settur af sem ráðherra. Því miður hefur komið í ljós, að arftakinn er öllu verri. Sturla Böðvarsson er þegar kominn á fulla ferð í stríð gegn Reykvíkingum.

Ekki er fótur fyrir þeirri fullyrðingu ráðherrans, að borgin sé vanbúin að hefja framkvæmdir með Vegagerðinni á þjóðbrautum í borginni. Þvælan virðist enda hafa þann eina tilgang að hlýja um hjartarætur róttækum andstæðingum Reykjavíkur í kjördæmi ráðherrans.

Smákóngar Sjálfstæðisflokksins í kjördæmum landsbyggðarinnar telja sér margir hverjir hag í að tala illa um Reykjavík og reyna að bregða fæti fyrir hagsmuni borgarinnar. Kjósendur í þessum kjördæmum kunni vel að meta auðsýnda óbeit á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki sést, að þingmenn flokksins í Reykjavík reyni að hafa hemil á róttæklingum á borð við Halldór og Sturlu. Ráðherrarnir Davíð Oddsson, Geir Haarde og Björn Bjarnason láta sér fátt um finnast, enda telja þeir, að kjósendur í Reykjavík muni ekki refsa sér fyrir það.

Vanhugsað væri að telja þetta réttu leiðina að hjarta borgarbúa. Kjósendur eru að vísu lítilsigldir, en áhættusamt hlýtur þó að vera að reyna að kúga Reykvíkinga til fylgilags við flokk, sem hvað eftir annað er staðinn að róttækri andstöðu við hagsmuni borgarinnar.

Töluvert er um það utan höfuðborgarsvæðisins, jafnvel á Suðurnesjum, þar sem menn ættu að vita betur, að öfundazt sé í garð borgarinnar og borgarbúa. Til dæmis hefur Hjálmar Árnason þingmaður varið Fljótsdalsvirkjun með skítkasti í fólk á höfuðborgarsvæðinu.

Við því er að búast, að skillitlir stjórnmálamenn á atkvæðaveiðum gæli við róttæklinga í röðum óbeitarmanna höfuðborgarsvæðisins. Hins vegar eru það hagsmunir stórra stjórnmálaflokka, að slíkar sálnaveiðar í gruggugu vatni valdi flokknum ekki beinum skaða.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar í fúlustu alvöru að láta menn á borð við umrædda samgönguráðherra taka flokkinn í gíslingu sem baráttutæki gegn hagsmunum höfuðborgarsvæðisins, er hugsanlegt, að kjósendur manni sig upp í að taka afstöðu gegn óvildarflokki sínum.

Kjósendur kunna fyrr eða síðar að átta sig á, að atkvæði greitt Davíð, Geir og Birni í Reykjavík nýtast til að koma róttæklingum á borð við Halldór og Sturlu fyrst á þing og síðan í ráðherrastóla, er þeir nota til að nudda sér utan í þá, sem öfunda suðvesturhornið.

Stórir stjórnmálaflokkar eru dæmdir til að reyna að sigla milli skers og báru í viðkvæmum málum eins og þeirri tilfinningu sumra íbúa landsbyggðarinnar, að íbúar höfuðborgarsvæðisins hafi ylinn af kjötkötlunum, og taka af festu á öfundinni, sem oft fylgir þessu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur vikizt undan að hemja róttæklingana og fyrir bragðið lent í þeirri gíslingu, sem hér hefur verið rakin og sem ætti að öllu eðlilegu að leiða til þess, að kjósendur í væntanlegum þremur höfuðborgarkjördæmum hafni forsjá flokksins.

Það getur ekki endalaust verið ókeypis, að óvandaðir samgönguráðherrar Sjálfstæðisflokksins hagi sér eins og íbúar höfuðborgarsvæðisins séu óvinaþjóð.

Jónas Kristjánsson

DV

Molar hrjóta ekki af borðum

Greinar

Ekkert af stórauknum þjóðartekjum Bandaríkjamanna í fyrra skilaði sér til launafólks, sem sætti örlítilli tekjurýrnun upp á 1%. Þetta sýnir misbrest á hagfræðikenningunni um, að molar af borðum hinna ríku hrjóti niður á gólf til hinna fátæku.

Ekkert sjálfvirkt samband þarf að vera milli velmegunar atvinnulífsins og lífskjara launafólks og enn síður milli almennrar velmegunar og lífskjara þeirra, sem minnst mega sín. Þetta samband er að nokkru leyti handvirkt og ræðst af pólitískum sjónarmiðum.

Eins og í Bandaríkjunum hefur bilið milli ríkra og fátækra aukizt hér á landi. Það kemur fram í ýmsum myndum, svo sem aukinni ásókn í aðstoð félagsmálastofnana, auknum kvörtunum frá samtökum aldraðra og í nýrri skýrslu Rauða krossins um fátækt á Íslandi.

Umfang vandans er hins vegar hlutfallslega minna hér á landi en í mörgum öðrum löndum, að Norðurlöndum frátöldum. Ekki er dýrt fyrir þjóðfélagið að beita handvirkum aðferðum til að gæta þess, að bilið milli ríkra og fátækra minnki frekar en að það aukist.

Afnám tekjutengingar bóta almannatrygginga er pólitískt handafl, sem mundi bæta stöðuna, ef ráðamenn landsins kærðu sig um. Hækkun bóta almannatrygginga til jafns við útreiknaðar meðalkjarabætur launafólks er líka pólitískt handafl, sem mundi halda óbreyttu bili.

Sérstakar ráðstafanir í þágu þeirra, sem hafa lítinn eða engan lífeyrissjóð og þurfa að lifa á ellilífeyri, eru handvirk aðgerð, sem hefur þann kost, að hún er ekki til langframa, af því að sífellt fjölgar þeim, sem njóta lífeyrissjóða, og greiðslur sjóðanna batna stöðugt.

Stöðu barna hjá einstæðum mæðrum og í fjölmennum fjölskyldum láglaunafólks má bæta með því að auka barnabætur og afnema tekjutengingu þeirra. Slíkar aðgerðir eru enn eitt pólitíska handaflið, sem mundi efla velferðarkerfið, ef ráðamenn landsins kærðu sig um.

Kjarni málsins er, að ekki er sjálfvirkt samband milli góðæris í þjóðfélaginu og velferðar þeirra, sem minnst mega sín. Kenningin um, að brauðmolum rigni yfir fátæklingana eins og endurnar á Tjörninni, hefur verið hrakin af hagtölum hér á landi sem og erlendis.

Velferðin er handvirk ákvörðun pólitískra stjórnvalda. Þau geta að vísu ákveðið að koma upp sjálfvirkni á einstökum sviðum, svo sem í tengingu bóta við breytingar á ýmsum hagtölum, en önnur stjórnvöld geta síðar komið til skjalanna og breytt tengingunum.

Ef forsætisráðherra fer í fýlu út af skýrslu Rauða krossins um fátækt á Íslandi, þýðir það í raun, að hann hefur ákveðið, að ríkisstjórn hans skuli ekki hafa áhuga á að beita pólitískum aðferðum við að halda óbreyttu bili milli ríkra og fátækra, hvað þá að minnka bilið.

Ekki gildir lengur gömul klisja hátíðlegra stunda, að íslenzkt þjóðfélag sé stéttlaust. Þjóðin er að skiptast í lög eftir aðstöðu, tekjum og eignum. Bilið milli fólks er að breikka á öllum þessum sviðum. Það er pólitísk ákvörðun, hvort hamla eigi gegn þessu eða ekki.

Hér er ekki verið að tefla um mikla fjármuni í samanburði við annað pólitískt handafl stjórnmálanna, svo sem gríðarlegan áhuga ráðherra og þingmanna á að verja nokkrum milljörðum króna á hverju ári til að grafa jarðgöng víða um land og halda uppi kindum.

Í samræmi við áhugamál okkar höfum við valið okkur landsfeður, sem hafa ákveðið, að í lagi sé, að bilið milli ríkra og fátækra breikki sjálfvirkt í góðærinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Herkostnaður við þétta byggð

Greinar

Ástæða er til að hafa áhyggjur af þolgæði samtakanna Betri byggðar við þróun ráðagerða um 20.000 manna byggð á Reykjavíkurflugvelli og 20.000 manna byggð úti í sjó við Akurey og Engey. Viðvörunarbjöllur hringja, þegar borgarapparatið sjálft er farið að taka þátt.

Við höfum slæma reynslu af skipulagsskrifstofu borgarinnar og getuleysi pólitískra fulltrúa til að hafa stjórn á henni. Einna alvarlegast hefur verið vanmat borgarapparatsins á þörf helztu umferðaræða borgarinnar fyrir gott svigrúm og mislæg gatnamót.

Svo illa var þrengt að Miklubraut og Vesturlandsvegi, að reisa varð flóknar og dýrar götuljósabrýr við Höfðabakka og Skeiðarárvog í stað þess að geta komið þar fyrir einfaldari og ódýrari brúm með fullkomnum vegaslaufum til að tryggja viðstöðulausa umferð.

Enn vitlausari var sú ákvörðun að hætta við mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, þar sem umferðin stefnir í öngþveiti, auk þess sem mengun eykst mjög við að stöðva þarf bíla við umferðarljós, hafa þá þar í hægagangi og koma þeim á ferð aftur.

Ljóst má vera, að ekki verður reist 40.000 manna byggð vestan Snorrabrautar og Öskjuhlíðar án þess að margfalda álagið á Miklubraut, er einnig þarf að mæta þeirri aukningu, sem reynslan sýnir, að verður af öðrum ástæðum. Þessi mikla byggð er ávísun á martröð.

Dæmið gengur ekki upp nema fjórar akreinar verði í hvora átt á Miklubraut og öll gatnamót hennar verði mislæg. Og komið verði upp Fossvogsbraut fyrir vallarbyggðina fyrirhuguðu og endurbætt Sæbraut fyrir eyjabyggðina, hvor um sig með mislægum gatnamótum.

Tvöföldun íbúa Reykjavíkur vestan Elliðaáa kollvarpar fyrra mati á innviðum stofnlagna, allt frá götum yfir í vatnsæðar og skolpleiðslur. Kostnað við breytta innviði stofnkerfa samgangna og annarrar þjónustu þarf að taka með í reikningsdæmi 40.000 manna byggðar.

Óvíst er, að borgarbúar kæri sig um mikla Fossvogsbraut og mikla Sæbraut, hvora um sig með mislægum gatnamótum, ofan á núverandi þörf fyrir mislæg gatnamót við þvergötur Miklubrautar. Slíkt mundi rýra gildi búsetu í næsta nágrenni þessara gatna.

Ef taka á tillit til hagsmuna núverandi byggðar vestan Elliðaáa og reyna að hafa hemil á hljóð- og sjónmengun, verður ekki séð, að komizt verði hjá að setja umferðarholræsin nýju ofan í stokka eða göng, sem hleypir upp kostnaði við tvöföldun íbúafjöldans á svæðinu.

Menn eru að gamna sér við þéttingu byggðar í þjóðfélagi ásóknar í einbýli við aðstæður nægs landrýmis, hvort sem litið er til svæðisins milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar eða til svæðisins milli Mosfellssveitar og Borgarness. Hver er þessi þörf fyrir þéttingu?

Er ekki ódýrara að grafa göng undir Hellisheiði og bæta Árborg við höfuðborgarsvæðið? Er ekki hægt að beita draumórum um innilokaða byggð að hætti stríðshrjáðra og innimúraðra Evrópuborga einhvers staðar utan við mjótt nes hinnar gömlu Reykjavíkur?

Gott er að taka saman höndum um að losna við flugvöllinn, sem af fjárhagslegum ástæðum á hvergi heima nema á Keflavíkurvelli. En má ekki bara endurheimta óskipulagða Vatnsmýri í stað þess að reisa þar átta hæða byggð, sem er ljótust allra byggða í útlöndum?

Ekki eru nein merki þess, að þjóðin eða borgararnir sækist með vaxandi velmegnun eftir færi á að búa í þéttum röðum átta hæða kastala milli umferðarholræsa.

Jónas Kristjánsson

DV

Hér talar “óvinur bænda”

Greinar

Hagur sauðfjárbænda væri nú annar og betri, ef fyrir nokkrum áratugum hefði verið tekið mark á þeim, sem sögðu, að heppilegast væri að nota ríkisstyrkina til að borga mönnum fyrir að hætta fjárbúskap, svo að hinir, sem eftir sætu, gætu haft þolanlega afkomu.

Fyrir nokkrum áratugum var séð fyrir, að neyzla lambakjöts mundi minnka með auknu fæðuúrvali og lögun íslenzks matarsmekks að erlendum fyrirmyndum. Einnig, að sókn á erlendan markað mundi ekki takast, því íslenzkt kjöt væri ekki samkeppnishæft.

“Óvinir íslenzkra bænda” voru þeir kallaðir, sem spáðu rétt um framvinduna. Kerfið hamaðist um á hæl og hnakka á kostnað skattgreiðenda og neytenda, en allt kom fyrir ekki. Tugum milljarða var sóað til einskis og fátækir sauðfjárbændur urðu sífellt fátækari.

Þessu ferli er ekki lokið. Þjóðin mun verða enn fráhverfari lambakjöti á næstu árum, enda eru sífellt að bætast við kynslóðir, sem aldar eru á pítsum og pöstum. Reikna má með, að neyzla lamba- og kindakjöts fari niður fyrir 15 kíló á mann á ári á allra næstu árum.

Kominn er tími til, að menn viðurkenni þessa staðreynd og hagi sér samkvæmt því. Enn fremur er kominn tími til, að menn viðurkenni, að mistekizt hefur hver tilraunin á fætur annarri til að sækja fram með þessa vöru í útlöndum, allt fram á þennan dag.

Samt er rúm fyrir sauðfjárrækt hér á landi í framtíðinni, helmingi minni framleiðslu en hún er í dag. Til þess að ekki fari allir sauðfjárbændur á höfuðið í einum pakka er brýnt að færa allan stuðning við greinina í farveg uppkaupa ríkisins á framleiðslurétti.

Slík greiðsla fyrir að hætta verður að vera háð því skilyrði, að sauðfjárbóndinn færi sig ekki yfir í aðra búvöru, sem einnig er að meira eða minna leyti á framfæri ríkisins. Stuðningurinn verður á endanum að koma að fullu fram í samdrætti í búvöruframleiðslu.

Líklega mun markaðsjafnvægi nást með um 500 sérhæfðum sauðfjárbændum. Því færri, sem þeir verða, þeim mun betri verður afkoma þeirra. Þetta er bara markaðslögmál, sem landbúnaðarkerfið hefur lengi hunzað og þar með skaðað skjólstæðinga sína.

Markaðurinn þolir því meiri sauðfjárrækt, sem hún verður fjölbreyttari. Rúm er fyrir framleiðslu lífræns lambakjöts í samræmi við fjölþjóðlega staðla. Áhugi neytenda á slíkri búvöru vex hratt með hverju árinu. En bændakerfið hefur haft horn í síðu slíkra staðla.

Í staðinn hefur kerfið reynt að búa til nýja skilgreiningu, sem kosti bændur minna, til dæmis svokallaða vistvæna framleiðslu, sem því miður nýtur hvorki fjölþjóðlegra staðla né annarrar viðurkenningar markaðarins. Slík hliðarspor hamla gegn lífrænni ræktun.

Einnig er rúm fyrir sölu lambakjöts undir vottuðum vörumerkjum tilgreindra staða eins og í frönsku rauðvíni. Vinna má sérmarkaði fyrir lambakjöt, sem ræktað er á sérstöku landssvæði við sérstakar beitaraðstæður, til dæmis Laufskálaheiðarlömb eða Svalbarðslömb.

Svigrúm til framleiðslu lambakjöts er til, en það er takmarkað, eins og svonefndir “óvinir bænda” sögðu fyrir nokkrum áratugum. Menn verða að laga sig að þessum raunveruleika og haga stefnunni þannig, að bændur verði fáir, en hafi sómasamlega afkomu.

Einnig er orðið tímabært að gera helztu “óvini bænda” að heiðursfélögum í samtökum bænda fyrir að hafa aldrei vikizt undan að segja bændum sannleikann.

Jónas Kristjánsson

DV

Gróðafíkn í grasrótinni

Greinar

Sala almennings á heimild til nota á sjúkraskrám sínum í gagnagrunn deCode hefur ekkert með siðalögmál að gera. Þetta er bara tilraun til að láta markaðslögmál nútímans gilda í þágu fleiri en þeirra, sem hafa þægilega aðstöðu hafa til að græða mikla peninga.

Samkvæmt markaðslögmálunum hljóta að felast verðmæti í rétti fólks til að banna innsetningu skjala um sig. Hver einstaklingur fyrir sig hefur einokun á sínum þætti og getur reynt að gera sér mat úr því. Ef allir notuðu slíkan rétt, yrði enginn gagnagrunnur.

Ekki þýðir hins vegar fyrir hvern fyrir sig að skreppa inn í deCode og reyna að selja aðganginn að sínum gögnum. Það þýðir örugglega ekki heldur fyrir 5.000 manns að láta gera það fyrir sig sameiginlega. En tvær grímur kynnu að renna á menn, ef þeir væru 20.000.

Bandaríkjamenn eru sérfræðingar í að láta alla vinna fyrir einn og einn fyrir alla. Frægust hafa orðið prófmálin, sem rekin hafa verið fyrir hönd tugþúsunda manna gegn tóbaksframleiðendum og ýmsum öðrum, sem framleiða skaðlega vöru undir fölsku flaggi.

Fólk virðist ekki þurfa að taka neina áhættu með því að taka þátt í aðgerðinni. Engin fjárútlát eru boðuð. Menn þurfa bara að undirrita beiðni um úrsögn úr gagnagrunninum og umboð handa lögmönnum til að gera sem mest úr hugsanlegum verðmætum.

Eins og í Bandaríkjunum taka lögmenn prósentu af því sem kann að innheimtast, en vinna að öðrum kosti ókeypis. Þessi aðferð er vinsæl í Bandaríkjunum eins og dæmin sanna, en fróðlegt verður að sjá, hvort menn kveikja á þessu á sama hátt hér á landi.

Ef deCode stendur andspænis því að missa 20.000 manns úr grunninum af hugmyndafræðilegum ástæðum og aðra 20.000 af peningalegum ástæðum, munu ráðamenn fyrirtækisins fara að byrja að reikna kosti og galla þess að semja við umboðsmenn hópsins.

Til að byrja með mun deCode neita öllum samningum og saka umboðsmennina ýmist um öfund eða illgirni, eins og forstjórinn hefur raunar þegar gert. Áfram munu ráðamenn deCode stinga við fótum, þangað til kemur að einhverjum töfrafjölda, sem fær þá til umþóttunar.

Eftir er að sjá, að Íslendingar líkist Bandaríkjamönnum og taki sig saman tugþúsundum saman um að búa til stórt sameiginlegt verðgildi úr mörgum smáum. Fyrri reynsla af samstöðu manna í hagsmunamálum bendir ekki til, að ástæða sé til að vænta mikilla afreka.

Nytsamlegt er samt, að málið sé prófað. Við lifum í þjóðfélagi, þar sem hinir auðugu og voldugu nota markaðslögmálin hiklaust til að bæta stöðu sína á kostnað hinna. Það er engan veginn siðlaust, að smælingjarnir geri sameiginlega tilraun til slíks hins sama.

Þótt illa hafi gengið að fá menn til samstöðu til aðgerða gegn bensínhækkunum, verður að hafa í huga, að fjárhagslegur ávinningur hvers og eins var ekki áþreifanlegur. Dæmi er hins vegar um, að menn hafi tekið við sér, ef væntanlegur gróði þeirra sjálfra var augljós.

Mikil þátttaka í kennitölubraski vegna útboða á hlutafé í bönkum bendir til, að margir Íslendingar séu tilbúnir að hafa örlítið fyrir því að ná sér í aukapening fyrir ekki neitt. Munurinn var þó sá, að þá gat sérhver framkvæmt verkið án samstarfs við aðra í stórum hópi.

Ef nógu öflugur hópur myndast um þetta mál, hefur fengizt staðfesting á, að markaðslögmál gildi að fullu hér á landi. Gróðafíknin sé komin í grasrótina sjálfa.

Jónas Kristjánsson

DV

Decaux yfirborgarstjóri

Greinar

Reykjavíkurborg hefur gert dularfullan samning við danska fyrirtækið Decaux um auglýsingar á biðskýlum og skiltum. Samningurinn minnkar þjónustu við borgarbúa, rýrir umferðaröryggi, eykur lagna- og orkukostnað borgarinnar og skerðir beinlínis fullveldi hennar.

Nýju og glæru biðskýlin koma í stað rauðu verðlaunaskýlanna, sem voru falleg og vindheld í senn. Þau nýju eru ekki vindheld vegna breiðra raufa við jaðar glersins og veita því minna skjól. Borgin hefur þannig minnkað þjónustu sína við notendur strætisvagnanna.

Í kaupbæti hefur borgin veitt Decaux leyfi til að setja upp 43 frístandandi auglýsingaskilti á eftirtakanlegum stöðum. Staðsetning allra skiltanna fer eftir undanþáguákvæði í svokallaðri skiltareglugerð borgarinnar og fá ekki aðrir en Decaux að njóta slíkrar undanþágu.

Til að bæta gráu ofan á svart, hefur borgin samið um að bera sjálf kostnað við lagnir að skiltunum og borga rafmagnið. Þannig hefur borgin kostnað af skiltunum, en engar tekjur á móti. Þetta samningsatriði mun fara í kennslubækur sem dæmi um fábjánaleg viðskipti.

Auglýsingarnar fjölga slysum, því að margir fipast í akstri við að reyna að lesa textann eða skoða myndirnar. Ekkert fær borgin í staðinn fyrir skert umferðaröryggi, svo að þetta atriði eitt var næg ástæða til að gera ekki skiltasamninginn við danska fyrirtækið Decaux.

Raunar hefur borgin neitað öðrum um að setja upp skilti á þessum stöðum, beinlínis vegna neikvæðra áhrifa slíkra skilta á umferðaröryggi. Svör borgarinnar við slíkum beiðnum fela beinlínis í sér yfirlýsingu um, að samningurinn við Decaux ógni öryggi fólks.

Ofan á allt þetta klúður virðist fullveldi borgarinnar hafa verið skert. Samkvæmt honum hefur Decaux frumkvæði að vali staða fyrir skiltin, en nefndir á vegum borgarinnar geta gert rökstuddar athugasemdir við staðarvalið. Borgin þarf að þrúkka við fyrirtækið.

Decaux kaus að setja skiltin niður á þeim stöðum, sem mest bar á, þar á meðal fyrir framan stjórnarráðið og skrifstofu forseta lýðveldisins. Borginni tókst að fá þessi tvö skilti færð yfir götuna, en önnur skilti eru á þeim stöðum, sem danska fyrirtækið hefur ákveðið.

Ráðamenn fyrirtækja og stofnana, sem lenda í skugga skiltanna, hafa kvartað, enda var ekkert samráð haft við þá. Þeir segja, að skiltin skyggi á útstillingarglugga og valdi þrengslum á gangstéttum framan við verzlanir sínar. Borgin svarar slíkum kvörtunum ekki.

Ráðmenn borgarinnar hafa sýnt furðulegan skort á dómgreind í viðskiptum sínum við Decaux. Þeir hafa óhreinkað og vanhelgað eftirtektarverðustu staði borgarinnar með auglýsingum án þess að fá neitt fyrir borgina og borgarana í staðinn, nema aukinn kostnað.

Með samningnum við Decaux hafa ráðamenn borgarinnar orðið að athlægi, skapað sér óvild margra og gefið stjórnarandstöðunni kjörið tækifæri til að hossa sér á dómgreindarleysi meirihlutans. Samningurinn er svo fúll, að annarleg sjónarmið hljóta að hafa ráðið.

Málið er eins ófarsælt og slík mál geta orðið. Skiltin skera í augu um alla borg, upplýst á kostnað almennings allar götur til næstu kosninga, þegar meirihlutanum verður velt upp úr vitleysunni og hann spurður um baksamninga, sem hljóta að vera orsök ógæfunnar.

Skiltin eru lýsandi dæmi um, að ráðamenn Reykjavíkurlistans hafa tapað áttum og eru með sama framhaldi dæmdir til að tapa borginni í næstu kosningum.

Jónas Kristjánsson

DV

Þorsteinn og þjóðnýtingin

Greinar

Hagfræðikennari við háskólann hefur óbeint varpað fram þeirri spurningu í blaðagrein, hvort Þorsteinn Vilhelmsson í Samherja hafi tapað tveimur milljörðum króna á því að selja rúmlega fimmtung fyrirtækisins fyrir þrjá milljarða króna en ekki fimm milljarða.

Samkvæmt sölunni verðleggja Þorsteinn og Kaupþing, kaupandi bréfanna, fyrirtækið og veiðiheimildir þess á fjórtán milljarða króna. Hagfræðikennarinn hefur hins vegar reiknað út, að verðmæti veiðiheimildanna einna sé tuttugu til tæplega þrjátíu milljarðar króna.

Ef miðað væri við verð á markaði, væri verðgildi heimildanna tæplega fjörutíu milljarðar króna. Reiknimeistarinn telur slíkt jaðarverð hins vegar ekki raunhæft og lækkar verðgildið um nærri helming, en fær samt út misræmi milli þess og sölu bréfa Þorsteins.

Af þessu ályktar greinarhöfundurinn Þórólfur Matthíasson, að kaupverðið endurspegli það álit hlutafjármarkaðarins, að senn verði farið að taka gjald fyrir not af auðlindum sjávar. Þorsteinn og Kaupþing hafi verið sammála um, að miða verð hlutabréfanna við það.

Markaðurinn hefur gnægð tækifæra til að átta sig á, að blómaskeið gjafakvótans í sjávarútvegi mun fyrr eða síðar hníga til viðar, þrátt fyrir harðskeyttan stuðning beggja flokka ríkisstjórnarinnar. Svo mörg vötn falla í farveg endurskoðunar, að viðnámið mun bila.

Í fyrsta lagi er meirihluti þjóðarinnar andvígur gjafakvótanum samkvæmt hverri könnuninni á fætur annarri. Í öðru lagi eru héraðsdómar og dómar í Hæstarétti farnir að falla á þann veg, að gjafakvótakerfi ríkisstjórnarinnar standist ekki stjórnarskrána.

Í þriðja lagi hafa tillögur um annars konar stjórn fiskveiða orðið slípaðri og girnilegri. Pétur Blöndal alþingismaður hefur lagt til, að öllum veiðiheimildum verði dreift til allra landsmanna og áhugahópur þekktra borgara hefur lagt fram tillögur um uppboð heimilda.

Tillögur hópsins eru nánast samhljóða tillögum, sem oft hafa verið viðraðar í leiðurum þessa blaðs. Þær gera ráð fyrir, að núverandi aflaheimildir rýrni um 20% á ári og mismunurinn boðinn út á opnum markaði. Þannig verði uppboðskerfi til í áföngum á fimm árum.

Þessi tillaga kemur heim og saman við mat Þorsteins Vilhelmssonar og Kaupþings á raunverulegu verðgildi núverandi veiðiheimilda. Aðlögunartíminn gæti auðvitað verið styttri eða lengri. Í tillögu Péturs Blöndal er gert ráð fyrir 20 árum eða 5% aðlögun á hverju ári.

Munurinn á tillögu Péturs og áhugahópsins felst aðallega í, að Pétur vill, að afgjald auðlindarinnar renni beint til almennings, en hópurinn vill, að það renni til ríkissjóðs, hugsanlega til að draga úr annarri skattlagningu hins opinbera eða til að lækka skuldir þess.

Tillögurnar fela ekki í sér neinar breytingar, sem draga úr núverandi kostum kvótakerfisins í varðveizlu og viðgangi fiskistofna og í leit sjávarútvegsins að eins mikilli hagkvæmni í rekstri og kostur er á. Allt tal bananakónga um heimsendatillögur er hreint bull.

Nánast má líta á það sem kaldhæðni óumflýjanlegra örlaga, að nánast samtímis leggur hópur þekktra borgara fram tillögu um þjóðnýtingu auðlindarinnar á fimm árum og einn helzti kvótakóngur landsins semur við hlutabréfafyrirtæki um verð, sem endurspeglar þetta.

Hvort þetta gerist hratt eða hægt fer eftir því, hvort Hæstiréttur staðfestir Vatneyrardóminn í ár eins og hann staðfesti Valdimarsdóminn í fyrra.

Jónas Kristjánsson

DV

Lýðræði bananalýðveldis

Greinar

Lýðræði felst ekki í því einu að fá að endurkjósa fjórflokkinn á fjögurra ára fresti, þótt margir haldi, að hér eigi milli kosninga að ríkja eins konar ráðherraveldi, þar sem samkór meirihluta alþingismanna staðfesti allar gerðir ríkisstjórnar og einstakra ráðherra.

Kosningaréttur er bara einn þáttur af miklu reipi lýðræðis, eins og það var skilgreint í bandarísku og frönsku byltingunum fyrir rúmlega tveim öldum og er enn skilgreint af vestrænum ríkjum og samtökum þeirra. Einn er þessi þáttur lítils virði og framleiðir ekki lýðræði.

Réttlæti er annar þáttur lýðræðisins. Það felst í vel skilgreindum leikreglum, sem ná til allra borgara, einkum í stjórnarskrá og lögum. Þessi þáttur hefur styrkzt hér á landi, fyrst vegna styttingar biðlista fyrir dómstólum og síðan vegna afskipta evrópskra dómstóla.

Íslenzkir dómstólar og jafnvel Hæstiréttur eru farnir að dæma með hliðsjón af viðhorfum dómstóla í Strasborg og Bruxelles. Þetta sparar fólki í mörgum tilvikum fé og tíma og gerir fleirum kleift að njóta þess réttlætis, sem erlend réttlætiskennd hefur fært okkur.

Erlend afskipti af íslenzkum dómum hafa líka eflt þriðja þátt lýðræðisins, sem er afnám forréttinda á borð við kvóta, einkaleyfi og sértækar aðgerðir stjórnvalda. Íslenzkir dómstólar og jafnvel Hæstiréttur þora ekki annað en að dæma með hliðsjón af útlendum siðum.

Dómar í kvótamálum eru frægasta dæmið um upplausn þeirra forréttinda, sem kjörnir fulltrúar og ríkisstjórn deila til þeirra, sem eru í náðinni. Einkaleyfi á rekstri gagnagrunns er hins vegar dæmi um mál, þar sem menn verða áfram að sækja réttlæti úr suðri.

Ef frá er skilinn ótti íslenzkra dómstóla við æðri dómstóla í útlöndum er afar veikur sá hlekkur lýðræðis hér á landi, sem lýtur að afnámi forréttinda. Ráðherrar og atkvæðavélar þeirra á þingi telja enn, að stjórna beri með sértækum aðgerðum, kvótum og einkaleyfum.

Fjórði þáttur lýðræðis er skoðanafrelsið, sem hér er í góðu lagi. Allir tjá hug sinn og hafa aðgang að hugsunum annarra. Fjölmiðlar eru nógu margir til að gefa fjölbreytta mynd af lífinu og tilverunni. Ný tækni tölvusamskipta virðist munu efla þennan þátt enn frekar.

Fimmti þáttur lýðræðisins er jöfnuður borgaranna, en deilt er um, hversu langt hann eigi að ganga. Annars vegar fara þeir, sem telja velferð eiga að vera sem mesta og hins vegar þeir, sem telja velferð líðandi stundar verða að víkja fyrir aukinni arðsemi atvinnulífsins.

Íslenzka velferðarríkið er í sæmilega góðu jafnvægi milli þessara tveggja túlkana á því, hver eigi að vera jöfnuður borgaranna. Í erlendum samanburði má þó fullyrða, að Ísland skipar sér í þann kant vestrænna ríkja, sem mesta áherzlu leggja á velferðarríkið.

Þannig er íslenzkt lýðræði ofið úr fleiri þáttum en kosningarétti, sumum sterkum og öðrum veikum. Vandi okkar felst í, að við höfum almennt ekki tileinkað okkur lýðræðishyggju, heldur höfum við meðtekið kerfið að mestu leyti að utan, sumpart vegna þrýstings.

Þetta veldur því, að of margir þingmenn og ráðherrar telja, að lýðræði felist í, að alvaldir ráðherrar stjórni með tilskipunum, undanþágum, kvótareglum, sértækum aðgerðum, einkaleyfum, stöðuveitingum flokksmanna og ýmsu öðru ofbeldi, sem þingmenn staðfesta síðan.

Þegar forsætisráðherra veitir Hæstarétti föðurleg ráð um, hvernig dæma skuli í kvótamálum, er það ein birtingarmynd ástands, sem kallast bananalýðveldi.

Jónas Kristjánsson

DV

Norskir leika tveim skjöldum

Greinar

Norsk Hydro hefur framkvæmdastjórann Eyvind Reiten til að segja, að fyrirtækið hætti ekki við álver á Reyðarfirði, þótt frekari umhverfisathugana verði krafizt, og upplýsingafulltrúann Thomas Knutzen til að segja, að slík frestun málsins gerbreyti forsendum þess.

Norsk Hydro hefur framkvæmdastjórann Eyvind Reiten til að segja, að síðari stækkun álversins á Reyðarfirði sé forsenda framkvæmda við fyrsta áfanga þess, og upplýsingafulltrúann Thomas Knutzen til að segja, að fyrirtækið hafi engar tryggingar fyrir slíkri stækkun.

Norsk Hydro leikur skipulega tveim skjöldum í tilraunum sínum til að fá Íslendinga til að reisa álver á Reyðarfirði, enda segir Knutzen, að Ísland sé eina Evrópulandið, sem geti hýst 480 þúsund tonna álver. Á íslenzku þýðir þetta, að Ísland eitt vilji slíkt álver.

Framlag Norsk Hydro til álversins fyrir austan á fyrst og fremst að vera þekking og reynsla. Innan við 10% af heildarhlutafénu verður í peningum. Norsk Hydro ætlar einnig að leggja álverinu til hráál til úrvinnslu og selja umheiminum álið, sem frá því kemur.

Norsk Hydro hyggst taka sitt á þurru sem eigandi alls framleiðsluferilsins frá báxítinu til fullunninna afurða, svo og sem eigandi þekkingar og reynslu í áliðnaði. Afkoma fyrirtækis á Reyðarfirði, sem Norsk Hydro á að litlu leyti, skiptir litlu máli í heildarsamhenginu.

Íslenzkir lífeyrissjóðir og þar með gamlingjar framtíðarinnar á Íslandi eiga að taka áhættuna af því, hvort sjálft álverið verði rekið með samkeppnishæfum hagnaði. Landsvirkjun og þar með raforkunotendur framtíðarinnar á Íslandi eiga að taka sams konar áhættu.

Álver, sem kaupir þekkingu og reynslu af Norsk Hydro, kaupir hráál af Norsk Hydro og selur Norsk Hydro álstykki er ekki annað en þræll Norsk Hydro, þótt keðjubréfastjórar íslenzkra fjárfestingarbanka reyni að telja fjárfestum trú um þolanlega afkomu.

Norsk Hydro er að misnota Ísland með blekkingum og hafa fé af vitleysingum. Þetta gerir fyrirtækið sem norskt ríkisfyrirtæki í fullu samráði við norsk stjórnvöld, sem einnig leika tveim skjöldum í framgöngu sinni gagnvart Íslandi og í slíkum málum almennt.

Norsk stjórnvöld kosta útgáfu Arctic Bulletin, tímarits World Wildlife Fund, til að kaupa sér frið í umhverfismálum. Stjórnendur Norsk Hydro halda fundi með trúgjörnum fulltrúum sömu samtaka til að segja þeim það, sem þeir vilja heyra um álverið á Reyðarfirði.

Með margvíslegum tvískinnungi af slíku tagi drepa norsk stjórnvöld og Norsk Hydro á dreif andstöðu umheimsins við fyrirhugað álver á Reyðarfirði og hvika hvergi frá fyrri ákvörðunum. Markmiðið er að eignast viðskiptaþræl, sem á sér engrar undankomu auðið.

Það er rétt sem Thomas Knutzen segir. Annað eins álver verður hvergi reist í Evrópu. Það stafar af, að þar vilja engir slíkt álver. Svisslendingar hafa losnað við öll sín álver. Þjóðverjar eru að losa sig við sín, þar á meðal losnuðu þeir við eitt gamalt og lélegt til Íslands.

Fyrir milligöngu íslenzkra stjórnmálamanna eiga íslenzkir ellilaunamenn og raforkunotendur að verða bjálfarnir fyrir vagni Norsk Hydro og norskra stjórnvalda. Með því að leika tveim skjöldum hefur þessum aðilum tekizt að sigla málinu framhjá ýmsum skerjum.

Þótt yfirmönnum Norsk Hydro takist með blekkingum og tvískinnungi að koma sér upp viðskiptaþræl á Íslandi tekst þeim ekki að fela staðreyndir málsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Keðjubréfabankar

Greinar

Hefðbundin keðjubréf mundu blómstra hér á landi, ef þau væru lögleg. Við þurfum þó ekki að sakna þeirra, því að þau blómstra í nýrri mynd hjá bönkum og verðbréfadeildum þeirra og hjá sjálfstæðum verðbréfafyrirtækjum, sem spila með væntingar síðbúinna fjárfesta.

Ýmsar slíkar stofnanir og ráðamenn þeirra benda á miklar hækkanir, sem orðið hafa á verðgildi ýmissa hlutabréfa. Í huganum framlengja síðbúnir fjárfestar hækkunarþróun fortíðarinnar inn í framtíðina og freistast til að taka þátt í keðjubréfafaraldri nútímans.

Seinheppnir fjárfestar hafa aðgang að varnaðarorðum þeirra, sem benda á, að verðmæti hlutabréfa sé í sumum tilvikum komið upp fyrir eðlilegar væntingar um arðgreiðslur á næstu árum. Seinheppnir þátttakendur keðjubréfa voru líka varaðir við á sínum tíma.

Happdrættisárátta fólks lætur ekki að sér hæða. Fólk hlustar ekki á úrtölur, heldur stekkur ósynt út í sjóinn til hákarlanna og væntir þess, að hlutabréfa-verðþróun næstu vikna, mánaða og ára verði alveg hin sama og hún var á síðustu vikum, mánuðum og árum.

Síðbúnir fjárfestar öfunda þá, sem sagðir eru hafa keypt hlutabréf í deCODE genetics fyrir tíu dögum og selt þau aftur með milljónahagnaði í gær. Þær upplýsingar falla í skuggann, að fyrirtækið þyrfti að vera rekið með tugmilljarðahagnaði til að standa undir væntingum.

Einn háskólakennari sagði í viðtali við DV á laugardaginn, að fyrirtækið, sem nú er rekið með miklu tapi, þurfi að skila 25 milljarða hagnaði á ári, ef það byrjar nú þegar að græða, og 150 milljarða hagnaði á ári, ef það byrjar ekki að græða fyrr en eftir 15 ár.

Þetta skiptir að vísu ekki öllu máli. Aðalatriðið er, að einhverjir fjárfestar séu enn síðbúnari en ég. Það sé að minnsta kosti ein umferð eftir í keðjubréfafaraldrinum. Á væntingum af því tagi byggist verðþróun hlutabréfa hér á landi sem annars staðar í heiminum.

Lykilstarfsmenn keðjubréfastofnana nútímans kynda undir faraldrinum, enda eiga þeir sjálfir hlutabréf í töfrafyrirtækjunum. Menn hafa velt vöngum yfir því á opinberum vettvangi, hvort slíkt sé löglegt, en siðferðilega minnir það á gömlu keðjubréfafyrirtækin.

Markaðslögmálin gera ráð fyrir, að menn sjái fótum sínum forráð. Við búum hins vegar við svo ungan og ófullkominn hlutabréfamarkað í þjóðfélagi langvinns góðæris og hagvaxtar, að menn eiga erfitt með að skilja, að sápukúlur geti sprungið, þegar sízt varir.

Reynslan sýnir, að ráðamenn fjármálastofnana halda sig sem mest á gráu svæðunum. Strangari lög um fjármálastofnanir og virkara eftirlit með þeim mundu því milda vaxtarverki hlutabréfamarkaðarins og halda aftur af keðjubréfakóngunum, sem þar ráða ríkjum.

Við sjáum þó frá Bandaríkjunum, að gamall og gróinn hlutabréfamarkaður hindrar ekki hátt gengi hlutabréfa í fyrirtækjum á borð við netbókaverzlunina Amazon, sem ætíð hefur verið rekin með miklu tapi og verður sennilega rekin með auknu tapi á næstu árum.

Í heimi tækifæranna hljóta að vera hættur við hvert fótmál. Opinberar aðgerðir geta ekki hindrað, að síðbúnir fjárfestar þurfi að fjármagna gróða keðjubréfastofnana og keðjubréfakónga nútímans. Peningar leita alltaf burt frá þeim, sem ekki kunna með þá að fara.

Aðalatriðið er, að einhverjir nenni að segja fólki, að bankar og verðbréfafyrirtæki nútímans verðskuldi svipað vantraust og keðjubréfafyrirtækin gömlu.

Jónas Kristjánsson

DV

Væntingar síðbúinna fjárfesta

Greinar

Verð hlutabréfa var til skamms tíma metið eftir formúlum um hlutföll stærða, sem koma fram í ársreikningum fyrirtækjanna. Reiknað var með, að rekstur þeirra, einkum hlutföll hagnaðar og hlutafjár, segðu til um, hversu góður fjárfestingarkostur þau væru.

Í nokkur ár hefur þetta ekki nægt, því að reynslan sýnir, að betra er að miða við væntanlegan rekstur en undanfarinn rekstur. Fyrirtæki rísa og hníga. Þau eru misjafnlega vel staðsett til að mæta aðstæðum, sem verða á þeim tíma, þegar fjárfestingin á að skila arði.

Þess vegna hafa menn fjárfest í áhættusömum framtíðarfyrirtækjum á borð við netvafrafyrirtækið Netscape, netbókaverzlunina Amazon og netþjónustuna America Online. Og þess vegna hafa menn fjárfest hér á landi í fyrirtækjum á borð við DeCode Genetics.

Á skömmum tíma hefur komið í ljós, að ekki nægir að spá um framtíðarhag þessara fyrirtækja, heldur verða fjárfestar fremur að gera sér grein fyrir væntingum þeirra fjárfesta, sem á eftir þeim koma. Spurningin er, á hvaða verði munu þeir síðar kaupa bréfin mín.

Væntingar síðbúinna fjárfesta eru reikningsdæmið, sem hefur tekið við af reikningsdæminu um tekjur og gjöld í ársreikningum. Þannig kemst verðgildi fyrirtækja langt upp fyrir ítrustu væntingar um gengi fyrirtækjanna sjálfra í náinni eða fjarlægri framtíð.

Hlutabréf í Amazon voru til skamms tíma á stjarnfræðilegu verði, þótt fyrirtækið hefði frá upphafi verið og er enn rekið með himinháu tapi, sem fyrirsjáanlegt er, að fari fremur vaxandi en minnkandi í framtíðinni. Menn fjárfestu í væntingum síðbúinna fjárfesta.

Til þess að fá sómasamlegan arð af hlutabréfum, sem nú eru seld í DeCode, sem er verðlagt á 135 milljarða króna, þarf fyrirtækið að hafa tíu milljarða króna arð á ári frá þeim degi, sem bréfin eru keypt. Fyrirtækið er hins vegar rekið með gífurlegu tapi.

Menn kaupa ekki hlutabréf í DeCode á grundvelli arðsins eða tapsins, heldur á grundvelli væntinga sinna um væntingar síðbúinna fjárfesta, sem muni að lokum eignast pappírana. Þetta er afar flókin hugsun, sem tæpast er á færi nema harðskeyttra pókerspilara.

Þessi hlutabréfaleikur hefur þjóðhagslegt gildi, því að hann sogar sparifé til nútímalegra atvinnugreina, þar sem vísindi og rannsóknir, tölvutækni og veftækni eru í fyrirrúmi. Þessar atvinnugreinar ættu erfitt uppdráttar, ef fagfjárfestar væru enn að fletta ársskýrslum.

Þar sem meirihluti áhættufyrirtækja nær hvorki stóra vinningnum né getur teflt sér í þá stöðu að vera gleypt af öðru áhættufyrirtæki, glata margir fjárfestingu sinni. Það er herkostnaðurinn við tilfærslu fjármuna úr gamaldags farvegum yfir í hátæknifarvegi nútímans.

Fólk á undir engum kringumstæðum að taka lán til að kaupa hlutabréf í slíkum tízkufyrirtækjum, sem hafa gert aðra moldríka. Það á ekki heldur að fórna sparnaði til elliáranna í sama skyni. Það á eingöngu að nota til þess peninga, sem það getur sætt sig við að glata.

Fjárfesting í áhættusömum töfrafyrirtækjum er fyrst og fremst verkefni atvinnumanna, sem kunna að reikna út væntingar síðbúinna fjárfesta og hafa vita á að losa sig við pappíranna eða selja fyrirtækið á réttu andartaki. Nútíma hlutabréfaviðskipti minna á keðjubréf.

Við munum fljótt reka okkur á, að það er skammgóður vermir að telja allt munu endalaust rísa, einnig verðgildi bréfanna, sem risu brattast í gær og í fyrradag.

Jónas Kristjánsson

DV

Bylting gefur fordæmi

Greinar

Nýgerður kjarasamningur verzlunarmanna er bylting. Í fyrsta skipti í sögu vinnumála hér á landi er samið um 90.000 króna lágmarkslaun, 36 stunda vinnuviku og 14% greiðslur í lífeyrissjóð. Samningurinn mun vekja eftirtekt og öfund langt út fyrir raðir verzlunarfólks.

Viðsemjendur annarra stéttarfélaga segja auðvitað, að samningur verzlunarmanna hafi ekki fordæmisgildi. Það er innantómt slagorð, því að samningurinn veldur þrýstingi á samningamenn launþega, sem án efa mun hafa áhrif á niðurstöður annarra kjarasamninga.

Áður námu greiðslur í lífeyrissjóð 10% af launum, þar af 6% frá atvinnurekendum. Samkvæmt samningi verzlunarfólks nema greiðslur í lífeyrissjóð þeirra hér eftir 14%, þar af 8% frá atvinnurekendum. Viðbótin rennur í hina nýju séreignadeild lífeyrissjóðsins.

Áður voru greiðslur í séreignasjóði og séreignadeildir heimilar, en nú eru þær umsamdar hjá verzlunarmönnum. Lífeyriskerfi með 10% greiðslu í sameignarsjóð og 4% greiðslu í séreignasjóð hlýtur í tímans rás að gerbreyta lífsskilyrðum fólks á eftirlaunaaldri.

Einn af hornsteinum velferðar er eftirlauna- og örorkukerfi með uppsöfnun peninga, sem tryggir fólki mannsæmandi lífskjör, þótt hlutfall vinnandi fólks af heildarmannfjölda fari ört lækkandi. Slíkt öryggi fæst ekki í eftirlaunakerfum flestra vestrænna ríkja.

Með samningi fjölmennasta stéttarfélags á Íslandi um stóraukið lífeyrisöryggi hefur Ísland tekið hreina og klára forustu Vesturlanda á einu mikilvægasta sviði velferðar almennings. Það er fordæmi, að góðærið er notað til að tryggja fólki áhyggjulaust ævikvöld.

36 stunda vinnuvika verzlunarfólks er einnig bylting. Loksins er stigið stórt skref í átt til þeirra drauma, að vísindi og tækni, hagvöxtur og öryggisnet færi fólki aðgang að auknum frístundum. Fjögurra daga vinnuvika er loksins komin í augsýn hér á landi.

Það er ein harðasta kenning markaðssinnaðra hagfræðinga, að þjóðir geti ekki leyft sér að stytta vinnuvikuna vegna samkeppni annarra þjóða með lengri vinnuviku. Frakkar hafa undanfarið verið átaldir fyrir að hafa frumkvæði að því að rjúfa 40 stunda múrinn.

Ekki hafa rætzt hrakspár um erfitt gengi Frakka. Þvert á móti er rífandi gangur í atvinnulífi Frakka, meiri en hjá öðrum stórþjóðum Evrópu. Stytting vinnuvikunnar hefur ekki reynzt vera sá skratti, sem markaðssinnaðir hagfræðingar hafa málað á vegginn.

Í stað gömlu taxtanna koma nú 90.000 króna lágmarkslaun verzlunarmanna og frjálsir samningar þar fyrir ofan. Þetta eru markaðslaun með gólfi, sem lyftir lægst launuðu hópunum. Þekkt krafa úr þjóðmálunum er orðin að raunveruleika hjá verzlunarfólki.

Með kjarasamningi verzlunarmanna er staðfest, að gegn ráðum markaðssinnaðra hagfræðinga verður komið á fót gólfi, sem skilgreinir lágmark mannsæmandi lífskjara. Þetta munu önnur stéttarfélög áreiðanlega telja vera fordæmi, hvað sem atvinnurekendur segja.

Félagsmenn annarra stéttarfélaga eru smám saman að átta sig á byltingunni í kjarasamningi verzlunarfólks. Þeir munu þrýsta umboðsmönnum sínum í sömu átt, hvort sem viðsemjendum af hálfu atvinnurekenda líkar betur eða verr. Þannig virkar fordæmisgildið.

Dæmin, sem hér hafa verið rakin, sýna, að byltingin í kjarasamningi verzlunarmanna mun óhjákvæmilega enduróma um allt þjóðfélagið á næstu mánuðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Lífeyrissjóðir fjárfesti erlendis

Greinar

Fjárfesting íslenzkra lífeyrissjóða í innlendum fyrirtækjum hefur hættur í för með sér, sem eru svipaðs eðlis og fjárfesting staðbundinna lífeyrissjóða í fyrirtækjum staðarins. Í báðum tilvikum felst vandamálið í, að sjóður og fyrirtæki eru sömu megin á sveiflunni.

Hér í blaðinu og víðar var gagnrýnt í fyrra, að Lífeyrissjóður Vestfjarða og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja höfðu fjárfest í staðbundnum fyrirtækjum, sem síðan féllu í verði eða fóru á hausinn. Fólk missti í senn atvinnuna og varð fyrir skerðingu á lífeyri sínum.

Freistandi er að líta til lífeyrissjóða sem tækis til að lyfta atvinnulífi, rétt eins og fyrrum voru þeir taldir tæki fólks til að koma þaki yfir höfuðið. Hvorugt er hlutverk lífeyrissjóða. Þeir eiga ekki að gera annað en að varðveita lífeyri félagsmanna og ávaxta hann sem bezt.

Í sumum sjávarplássum hafa lífeyrissjóðir sogazt inn í vítahring deyjandi fyrirtækja, þar sem starfsfólk, sveitarfélög og lífeyrissjóðir hafa hlaupið undir bagga með þeim afleiðingum, að fyrirtækið andaðist ekki eitt, heldur hrundi allt samfélagið á staðnum með því.

Mörgum mun finnast undarlegt, að nú sé fitjað upp á þessu aftur og reynt að túlka það á landsvísu, einmitt þegar flestir virðast telja, að kaup á hlutabréfum feli undantekningarlaust í sér gróða. En á tímum feitu áranna sjö þurfa menn að muna eftir mögru árunum sjö.

Álag á lífeyrissjóði er minna í góðæri en í hallæri. Til dæmis nýta menn síður til fulls möguleika sína til að fá metna örorku, sem þeir gera hins vegar, þegar harðnar á dalnum og vinna verður stopulli. Lífeyrissjóðir þurfa að vera sterkastir, þegar atvinnulífið er veikast.

Ef skynsamlegt er, að staðbundnir lífeyrissjóðir dreifi áhættunni með því að fjárfesta á landsvísu, þá hlýtur einnig að vera skynsamlegt fyrir lífeyrissjóði á landsvísu að dreifa áhættunni með því að fjárfesta á vestræna vísu, það er að segja í Evrópu og Bandaríkjunum.

Ef atvinnulífið á Íslandi gengur almennt betur en atvinnulífið gengur almennt á Vesturlöndum, þá verður lífeyrisþrýstingur minni en hann væri, ef atvinnulífið gengur lakar á Íslandi en á Vesturlöndum. Erlend fjárfesting lífeyrissjóða vinnur á móti sveiflunni.

Svo lokaðir eru menn fyrir rökhyggju, að skammt er síðan einn seðlabankastjórinn ávítaði lífeyrissjóði, sem voru að byrja að fjárfesta í útlöndum. Miklu nær hefði verið að hrósa þeim, sem höfðu frumkvæði að því að treysta stöðu lífeyrissjóðanna til langframa.

Nú er einmitt tími og tækifæri til að vekja athygli á þessum staðreyndum. Peningar fljóta um þjóðfélagið og fjármálastofnanir berjast um skuldarana. Því er minni hætta en ella á því, að fjárskortur í þjóðfélaginu valdi því, að menn renni gráðugum augum til lífeyrissjóða.

Innlendar fjárfestingar reyndust vel á síðari hluta síðasta áratugar. Lífeyrissjóðirnir náðu flestir 6­8% raunávöxtun á ári, sem er sambærilegt við fjárfestingu í útlöndum. Ekki er hins vegar ráðlegt að búast við, að öll pappírsdæmi gangi upp á nýbyrjuðum áratug.

Í vaxandi mæli eru hlutabréf ekki keypt á verðgildi núverandi árangurs fyrirtækja, heldur á ímynduðum væntingum síðbúinna fjárfesta um hugsanlegt verðgildi fyrirtækjanna langt inni í framtíðinni. Hlutabréfamarkaðurinn er sumpart orðinn að eins konar póker.

Við slíkar aðstæður er rétt fyrir lífeyrissjóði að dreifa áhættu sinni út fyrir landsteinana og fjárfesta í þeirri vissu, að Vesturlöndum í heild muni vegna vel.

Jónas Kristjánsson

DV

Það gerist ekki hér

Greinar

Fáir hefðu trúað fullyrðingum fyrir þremur mánuðum um, að landsfaðir Þýzkalands í sextán ár, 1982­1998, persónugervingur trausts manna á þýzka markinu og þýzku efnahagslífi, sjálfur Helmut Kohl, væri sekur um athæfi, sem getur kostað hann fimm ára fangelsi.

Nú er svo komið, að annan hvern dag birtast nýjar upplýsingar um stórfellt fjármálamisferli Kohls og helztu samstarfsmanna hans á sextán ára valdatíma. Þær snúast um mútur og þakkargreiðslur vopnasala og stóriðjumanna til frammámanna kristilegra demókrata.

Wolfgang Hüllen, formaður fjármálanefndar þingflokksins, hefur framið sjálfsvíg. Manfred Kanther, fyrrum innanríkisráðherra, hefur sagt af sér þingmennsku. Wolfgang Schäuble, arftaki Kohls sem formaður flokksins, hefur beðizt afsökunar í þýzka þinginu.

Þingið hóf í fyrradag umfangsmikla rannsókn á peningaþvotti, leynisjóðum og mútugreiðslum á vegum kristilegra demókrata. Búizt er við, að rannsóknin taki allt að tveimur árum. Áður var hafin venjuleg lögreglurannsókn á trúnaðarbresti Helmuts Kohl.

Lítill vafi er á, að sextán ára ríkisstjórn Helmuts Kohl var til sölu. Vopnasalar á borð við Karlheinz Schreiber og stóriðjuhringir á borð við Elf-Aquitaine gátu keypt þjónustu hennar með peningum, sem notaðir voru til að halda úti starfi flokks kristilegra demókrata.

Talin er hætta á, að fyrir flokki kristilegra demókrata í Þýzkalandi fari eins og samnefndum flokki á Ítalíu, sem leystist upp í frumeindir og hvarf, þegar saksóknarar ríkisins fóru að beina spjótum sínum að spillingu hans og samböndum við hættulegustu glæpaöfl landsins.

Mál Helmuts Kohl hefur verið að vinda upp á sig í tvo mánuði. Það hefur orðið landi og þjóð að tímabundnum álitshnekki, en mun til lengdar sýna fram á, að stjórnkerfi landsins malar örugglega, þótt það mali hægt. Þjóðverjar hafa burði til að moka sinn pólitíska flór.

Svipaðar hundahreinsanir hafa átt sér stað víða um Vestur-Evrópu. Öllum er kunnur uppskurðurinn á ítölskum stjórnmálum og fall valdamikilla stjórnmálamanna á Spáni og í Belgíu, þar sem fyrrverandi framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins hrundi.

Mikilsverðasta dæmið um opnun leyndardóma evrópskra stjórnmála var afsögn allra ráðherra Evrópusambandsins á síðasta ári vegna misferlis með peninga, annarra afglapa og aðgæzluleysis í starfi. Vestrænt lýðræði sigrast smám saman á misnotkun pólitísks valds.

Allar hljóta þetta að vera undarlegar fréttir norður í bananalýðveldinu Íslandi, þar sem ekki eru einu sinni lög á borð við þau, sem Helmut Kohl braut og stökktu Bettino Craxi úr landi. Hér segja menn bara eins og Kohl “treystið mér” og komast léttilega upp með það.

Óhætt mun vera að fullyrða, að atburðir á borð við þá, sem hafa verið að gerast í Þýzkalandi, munu ekki gerast á Íslandi í náinni framtíð, ekki af því að íslenzkir stjórnmálamenn taki Helmut Kohl fram að siðgæði, heldur af því að lýðræðislegt aðhald virkar ekki hér á landi.

Hér komast fjármálastjórar stórfyrirtækja upp með yfirlýsingar um lítinn og engan stuðning þeirra við stjórnmálaflokka án þess að nokkur tilraun sé gerð til að prófa innra sannleiksgildi þeirra eða hvort verið sé að snúa út úr sannleikanum með orðalagi um formsatriði.

Hér á landi er ekki til neitt opinbert ferli til að rannsaka, hvort innlend og erlend stórfyrirtæki geti keypt sér pólitíska hlýju, einkaleyfi og sértækar fyrirgreiðslur.

Jónas Kristjánsson

DV