Eldhúsið

Veitingar

Fegnastur varð ég, þegar Eldhúsið gleymdi mér og tók ekki niður matarpöntun. Eftir hóflega bið hafði ég löglega afsökun fyrir því að standa upp og rölta niður rúllustigann til Hard Rock Café og fá mér almennilega að borða á lægra verði.

Eldhúsið er mötuneyti og steikhús, en fyrst og fremst vönduð pakkning án markverðs innihalds. Umbúðirnar eru rustalega smart og minna á leikhús. Skilrúm eru úr frauðplasti, útveggir eru úr gleri með árituðum spakmælum. Opið er inn í eldhús og lagnakerfið er ekki falið með fölsku lofti. Á palli yfir miðjum sal er annexía með setustofu.

Við erum sett til borðs á tréstóla með sessum við tréplötur á steypujárnsfæti og fáum matseðil, sem ekki er síður töff en hönnun staðarins. Þar eru endalausir listar rétta og verðlagið er uppi í skýjunum. Meðalverð þríréttaðrar máltíðar með kaffi er 4.100 krónur á mann.

Í hádeginu er mikil og alþýðleg aðsókn og reyklausi hlutinn jafnan fullsetinn. Þá virðast flestir gestir önnum kafnir og skófla markvisst í sig af hlaðborði á 950 krónur með súpu, sem gerir 1.150 krónur með kaffi. Á hlaðborðinu reyndist vera lítt girnileg mötuneytisfæða, sitt lítið af salatefnum í litlum skálum og nokkrir heitir réttir í hitakössum, svo og ágætlega þunn sveppasúpa, sem bar af öðrum réttum hlaðborðsins. Heitu réttirnir voru brúnaðar risakartöflur, ólystugar svínakótilettur, dauft kryddaður pottréttur og hörpufisk-tómatsósu-pasta, sem ekki var árennilegt.

Þeir fáu, sem koma á kvöldin, eru skuggalegri og fá sér fremur hamborgara eða langlokur á heilar 1.200 krónur en einhvern réttanna af langa seðlinum. Spönsk bruschetta reyndist vera langskorið snittubrauð með tómabitum, osti og feiknamiklu af olífum, sem yfirgnæfðu í bragði. Sashimi var betri forréttur, fjórar tegundir af ferskum og hráum fiski á hrísgrjónakúlum. Beztur var djúpsteiktur smokkfiskur, ágætlega meyr og fagurt upp settur, með sinneps- og hvítlaukssósu.

Aðalréttir voru lakari. Bakaður saltfiskur bragðdaufur var borinn fram í djúpri pönnu, mest tómatbitar, dálítið af þistilhjörtusneiðum og bræddum osti, en minnst af fiski. Hunangssteinbítur var mun betri, ágætlega meyr, eldaður upp á japönsku með engifer fremur en hunangi. Kolagrilluð keila með yfirgnæfandi tómatsósu var sjálf ágæt, en borin fram með upphitaðri kartöflu og brenndum grænmetisræmum. Hunangssteiktur kjúklingur var afar þurr, enda þarf víst nú orðið að elda af nokkurri grimmd úr honum kamfýluna.

Flest var sparað til að tryggja, að kúnninn fengi ekki of mikið fyrir háa verðið. Kotroskinn gutti í móttökunni var úti að aka, þjónusta ólærð og munnþurrkur úr pappír. Þetta er mötuneyti í hádeginu og á kvöldin tómatsósu-steikhús, sem dreifir um sig olífum, en tekst ekki að minna á Miðjarðarhafið. Eldhúsið í Kringlunni er dæmigerður sýndarveruleiki nýrrar aldar, sóun á fjármunum viðskiptamanna og hlýtur því að dafna vel.

Jónas Kristjánsson

DV

Schengen og flóttamenn

Greinar

Eftir slæma framkomu Íslendinga við flóttamenn af gyðingaættum fyrir síðustu heimsstyrjöldina, hafa viðhorf okkar til nýbúa að mestu verið sómasamleg, allt frá því að þýzkar flóttakonur gerðust bústólpar víða um sveitir landsins eftir lok heimsstyrjaldarinnar.

Flóttafólk frá Víetnam og svartir íþróttamenn hafa samt fundið fyrir, að stutt er í kynþáttahatur, einkum hjá illa gefnu og illa menntuðu fólki, svo sem títt er víða um lönd. Slíkir fordómar megna hér ekki að fá skipulagða útrás í stjórnmálaflokkum að evrópskum hætti.

Það hjálpar okkur, að Rauði krossinn og stjórnvöld hafa lagt áherzlu á að reyna að gera nýbúum kleift að verða virkir aðilar að þjóðfélaginu, svo að þeir einangrist ekki í skuggahverfum atvinnuleysis. Yfirleitt hafa nýbúar ekki síður en innfæddir orðið nýtir þjóðfélagsþegnar.

Það hjálpar okkur líka, að nánast alla þessa áratugi hefur full atvinna ríkt í landinu. Þar af leiðandi hefur ekki komið upp öfund á borð við þá, sem við sjáum víða um heim, þegar illa gefnir og illa menntaðir heimamenn missa atvinnu í hendur framsækinna nýbúa.

Raunar er litið á nýbúa sem þátt í byggðastefnu í sumum byggðum, er hafa búið við fólksflótta. Þær hafa keppzt um að bjóða stjórnvöldum aðstæður til að auðvelda aðlögun þeirra. Má segja, að frekar ríki hér á landi umframeftirspurn en offramboð á þessu sviði.

Matargerðarlist má nefna sem dæmi um framlag víetnamskra flóttamanna til auðgunar íslenzkri menningu. Innfæddir Íslendingar hafa lært að kynnast austrænni matreiðslu, sem áður var okkur framandi, en er nú orðinn hluti af aukinni fjölbreytni í íslenzkri hefð.

Skemmtilegasta dæmið um sátt heimamanna og nýbúa er hin árlega þjóðahátíð, sem haldin er á Vestfjörðum í tilefni af alþjóðadegi Sameinuðu þjóðanna. Þar koma saman Vestfirðingar af 44 þjóðum, sem leggja hver sitt af mörkum til margþættrar og auðugrar dagskrár.

Nýbúar eru orðnir 7% allra Vestfirðinga, án þess að komið hafi til neinna sjáanlegra vandræða. Það bendir til, að við getum áfram haldið að auðga þjóðina víðar um land á þennan hátt, án þess að lenda í sömu ógöngum og ýmsar vestrænar þjóðir, sem verr voru undirbúnar.

Verkefni aðlögunar nýbúa fær nýja vídd, þegar Ísland verður aðili að Schengen-samkomulagi flestra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins um sameiginleg ytri landamæri. Aukið svigrúm fólksflutninga innan Evrópu er ávísun á aukna strauma ólöglegra flóttamanna um álfuna.

Óþægindin af aukinni og óskipulagðri aðsókn erlends fólks geta hæglega vakið upp fordóma, sem áreiðanlega blunda með Íslendingum eins og öðrum. Þess vegna er brýnt, að undirbúningur Schengen-aðildar taki á því, hvernig hægt sé að aðlaga óvænta flóttamenn.

Sérstaklega er brýnt að koma í veg fyrir innreið skipulagðra glæpaflokka, sem reynsla annarra Evrópuríkja sýnir, að eiga auðveldast allra með að framvísa peningum, farseðlum, skilríkjum og öðrum gögnum. Með öllum tiltækum ráðum þarf að kæfa mafíur í fæðingu.

Reynslan af erlendum mafíum á drjúgan þátt í uppgangi öfgaflokka gegn nýbúum í mörgum löndum Evrópu, til dæmis í Austurríki, þar sem öfgaflokkur útlendingahaturs er kominn í ríkisstjórn. Við megum alls ekki framleiða hliðstæðan stjórnmálavanda hér á landi.

Um leið og við göngum í Schengen, verðum við að efla víddir aðlögunar erlendra flóttamanna að leikreglum og siðvenjum, svo að við getum haldið áfram að taka við.

Jónas Kristjánsson

DV

Frá haga til maga

Greinar

Skaðlegar eru hugmyndir landbúnaðarráðherra um að færa matvælaeftirlit úr umhverfisráðuneytinu í landbúnaðarráðuneytið, sem er gamalgróin hagsmunagæzlustofnun landbúnaðarins og mun sem slík draga fjöður yfir vandamálin og ekki gæta hagsmuna neytenda.

Kamfýla og salmonella hafa komið upp í kjördæmi ráðherrans, af því að embættismenn í landbúnaðargeiranum stóðu sig ekki sem skyldi. Það voru hins vegar vökulir starfsmenn heilbrigðiseftirlits Suðurlands, sem blésu í aðvörunarlúðra, þegar átti að þagga málin niður.

Sveitarstjóri Rangárvallahrepps gagnrýndi þessa embættismenn heilbrigðiseftirlitsins hér í blaðinu í gær og sagðist vilja, að þeir störfuðu í kyrrþey og létu almenning ekki vita af málum, heldur reyndu að koma þeim á framfæri við rétta málsaðila fyrir luktum dyrum.

Skoðanir landbúnaðarráðherrans og sveitarstjórans eru nákvæmar eftirlíkingar af þeim skoðunum, sem hafa sett allt á annan endann í heilbrigðiseftirliti víða um Evrópu. Embættismenn og stjórnmálamenn hafa þar reynt að halda leyndum vandræðum á borð við kúariðu.

Þegar málin loksins komust upp, varð af stórtjón, af því að menn höfðu glatað trausti á yfirlýsingar embættismanna og stjórnmálamanna. Fólk trúði engu, sem þeir sögðu. Þess vegna trúa menn ekki núna, þegar sömu embættismenn segja erfðabreyttan mat vera í lagi.

Reynslan sýnir, að heilbrigðiseftirlit þarf að starfa fyrir opnum tjöldum til þess að fólk beri traust til þess. Ef farið er að draga leyndarhjúp yfir vandamálin, meðan þau eru í uppsiglingu, munu svik komast upp um síðir og fólk hætta að trúa yfirlýsingum um, að allt sé í lagi.

Landbúnaðarráðuneytið er eindregið sérhagsmunaráðuneyti með langa sögu óvildar við neytendur að baki sér og getur aldrei orðið samnefnari fyrir traust milli kerfis og neytenda. Matvælaeftirlit á vegum hlutdrægs landbúnaðarráðuneytis verður haft í flimtingum.

Raunar er ekki heldur til fyrirmyndar að hafa matvælaeftirlitið í sveitarstjórnageira umhverfisráðuneytisins. Sveitarstjórnir hafa staðbundinna hagsmuna að gæta eins og kom í ljós á Hellu í fyrrasumar og hafa síðan verið ítrekaðir í málflutningi sveitarstjórans á Hellu.

Hella er svo lítið pláss, að það skiptir miklu máli, að góð sala sé í afurðum fyrirtækis, sem hefur tugi manna í vinnu. Ef salan bregzt vegna ótta neytenda við vöruna missa menn atvinnu. Þess vegna vildu ráðamenn á Hellu koma í veg fyrir að kamfýlan kæmist í hámæli.

Matvælaeftirlit er fyrst og fremst heilbrigðismál og á heima í heilbrigðisráðuneytinu. Ef komið verður upp samræmdu kerfi matvælaeftirlits “frá haga til maga” eins og landbúnaðarráðherra hefur orðað það, á að koma því eftirliti fyrir í heilbrigðisgeiranum sjálfum.

Við höfum kennslubókardæmin allt í kringum okkur, bæði hér heima og erlendis. Við vitum af dæmum, að sérhagsmunatengdir aðilar eiga erfitt með að gæta almannahagsmuna. Við vitum af dæmum, að eftirlit þarf að starfa fyrir opnum tjöldum, en ekki fyrir luktum dyrum.

Á vegum forsætisráðuneytisins hefur nefnd um nýskipan matvælaeftirlits starfað fyrir luktum dyrum og kynnt ráðherrum sjónarmið sín. Ástæða er til að hafa áhyggjur af þessu ferli, alveg eins og ástæða er til að hafa áhyggjur af yfirlýsingum landbúnaðarráðherra.

Matvælaeftirlit mun ekki njóta trausts, fyrr en því verður komið fyrir hjá hagsmunalausum aðilum í heilbrigðisgeiranum, sem starfa fyrir opnum tjöldum.

Jónas Kristjánsson

DV

Bölvuðufjöll

Greinar

Blaðamaðurinn Rorbert Carver hefur skrifað átakanlega bók, Bölvuðufjöll, um Albaníuferð árið 1996 þegar alræðisflokkur kommúnista hafði verið hrakinn frá völdum, frjálsar kosningar voru komnar í móð og trúarbragðastríð á Balkanskaga voru rétt að byrja.

Albanía hafði ekki flutzt til vestræns nútíma með nýjum stjórnarháttum, heldur horfið inn í balkanskt myrkur ættbálkarígs og blóðhefnda. Nærri allt atvinnulíf hafði verið rústað, hvergi fannst heil rúða í verksmiðjum og enga heiðarlega vinnu var að hafa.

Fólk lifði á molum af borði spillingar valdhafa, á ránum og efnahagsaðstoð, á smygli og vændi. Til fjalla stunduðu menn kvikfjárrækt og gengu vopnaðir með kindum sínum. Annars staðar töldu menn það fyrir neðan virðingu sína að leggja hönd að verki.

Þetta var þá land ýmissa trúarbragða. Flestir voru íslamskir, en margir kaþólskir. Hvergi verður þess vart í allri vargöldinni, sem bókin lýsir, að neinn hafi haft minnsta áhuga á trúarbrögðum, hvað þá að þeir hafi valið sér andstæðinga með tilliti til trúarbragða.

Trúarstríðin, sem síðan einkenndu Balkanskaga, voru því ekki náttúruleg, heldur tilbúin af mannavöldum. Glæpamenn í röðum stjórnmálamanna mögnuðu upp trúardeilur og breyttu þeim í stríð til að efla valdastöðu sína og græða fé á misnotkun hennar.

Á þessum slóðum felst framtak í að verða sér úti um vestræna efnahagsaðstoð. Albanía, Bosnía og Kosovo lifa á henni og Makedónía og Svartfjallaland vonast til að geta lifað á henni. Það á ekki að koma neinum á óvart, þótt endurreisn svæðisins gangi ekki neitt.

Verra er, að skipulagðir og óvenjulega harðsvíraðir glæpaflokkar af þessum svæðum eru farnir að ryðja sér til rúms í Vestur-Evrópu og jafnvel í Norður-Ameríku. Þeir leggja stund á fíkniefnasölu og vændi, gripdeildir og smygl, svo og fjárkúgun kaupsýslumanna.

Hernámsliði Vesturlanda hefur gersamlega mistekizt að koma á lögum og rétti í Bosníu og Kosovo. Það er eins og vestrænt fólk eigi erfitt með að skilja, að bak við hvítar skyrtur og snyrtilegt hálstau leynist frumstæð ofbeldishugsun ættbálkarígs og blóðhefnda.

Fráleitt er, að nauðsynlegt andóf vestrænna ríkja gegn ofbeldi og útþenslu Serbíu þurfi að leiða til öfga á hinn veginn, að Vesturlönd verði að fjárhagslegum bakhjarli glæpalýðs í nágrannalöndum Serbíu, sem grefur beinlínis undan lögum og rétti á Vesturlöndum.

Mikilvægast er að hætta draumórum um friðsamlega sambúð fólks í fjölþjóðaríkjum. Einfaldast er að lýsa yfir landamærum og hjálpa mönnum til að forða sér yfir þau, ef þeir búa vitlausu megin þeirra. Síðan geta Vesturlönd takmarkað sig við að gæta landamæra.

Rómverjar reyndu fyrir rúmum tveimur árþúsundum að koma upp rómverskum friði á Balkanskaga. Kommúnistar reyndu eftir síðari heimsstyrjöldina að koma upp júgóslavneskum friði á Balkanskaga. Hvorugt tókst, af því að móttökuskilyrði skorti hjá fólki.

Efnahagsaðstoð kemur ekki að neinu gagni, ef fólk kærir sig ekki um að vinna, af því að það sé fyrir neðan virðingu þess. Miklu nær er að nota aðstöðu Vesturlanda til að grafa kringum rætur glæpahringa, sem eiga upptök sín í forneskju Balkanskagans.

Ófært er, að alls konar ólöglegt athæfi skuli blómstra í skjóli vestræns hervalds og vera þar á ofan eina útflutningsafurð svæðisins til Vesturlanda.

Jónas Kristjánsson

DV

Laugaás

Veitingar

Eftir dýfuna fyrir ári hefur Laugaás tekið sér tak og eldað betur í vetur en nokkru sinni fyrr, að vísu á mun hærra verði. Hann hefur skilið við verðlagsbotninn og er kominn í flokk með Pottinum og pönnunni, Tilverunni, Jómfrúnni og Kínahúsinu. Þríréttuð máltíð með kaffi hefur hækkað úr 1.500 krónum í hittifyrra í 1.800 krónur í fyrra og núna í 2.200 krónur. En góðærið hefur náð til viðskiptavinanna, sem sækja staðinn eins ótrauðir og áður.

Matreiðslan hefur snarbatnað. Ánægjulegastir eru þriggja rétta tilboðsseðlar, sem náðu hámarki fyrir jólin, þegar velja mátti milli villigæsar, langvíu, sels, nautasteikur og lúðu á 2.000 krónur, rjúpu á 2.300 og hreindýrs á 2.500 krónur, allt með súpu og eftirrétti. Undanfarið hafa tilboðin verið hversdagslegri og ódýrari, en í öllum tilvikum með hagstæðum hlutföllum verðs og gæða.

Á tímabili var súpa dagsins meira að segja stundum tær grænmetissúpa, en ekki uppbökuð hveitisúpa. Þær hafa þó reynzt vera of mikill klassi fyrir viðskiptavinina, svo að þykku súpurnar eru komnar aftur, lífseigasti minnisvarði hinna myrku áratuga í íslenzkri matargerð. Meðal góðra grænmetissúpna voru sterk tómatsúpa og tómat- og paprikusúpa.

Laugaás er því miður hættur að vera fiskréttastaður með fjölbreyttu tilboði dagsins. Réttir dagsins hafa að undanförnu aðeins verið þrír hverju sinni, tveir fiskréttir og einn pastaréttur, sem kosta hver 1.090 krónur með súpu og rifnu hrásalati. Val á milli steinbíts og rauðsprettu dagsins er harla lítilfjörlegt í landi, þar sem fiskbúðir eru fullar af fjölbreyttum tegundum.

Pönnusteiktur steinbítur með pastaræmum og tómatsmjöri var hæfilega eldaður. Ostbökuð rauðsprettuflök með rækjum og grænmeti voru líka hæfileg. Kjúklingur með skrúfupasta var hins vegar í þurrara lagi og hvítlaukssósa í mildara lagi, ekki merkilegur réttur.

Villigæsakjöt var rautt, meyrt og vel úti látið, með eplabitum í þeyttum rjóma, einhver bezta gæsasteik, sem ég hef fengið hér á landi. Nautalund var líka meyr og fín, mikið pipruð, með mildri rauðvínssósu og ýmist fersku eða léttsteiktu grænmæti. Langvía og önd hafa ekki heldur brugðist mér. Enginn kjötrétta Laugaáss í vetur hefur verið lakari en þeir, sem hafa fengizt á dýrustu matstöðum landsins.

Eftirréttir dagsins eru yfirleitt léttir búðingar með ferskum berjum og fagurlitum ávaxtasósum. Venjulegt kaffi er gott.

Háværar glerplötur á borðum eru sorgleg afturför frá harðplasti með innfelldum múrsteinum, sem voru í gamla daga. Að öðru leyti hefur Laugaás verið sjálfum sér líkur í tvo áratugi.

Jónas Kristjánsson

DV

Skipbrot þjónkunar

Greinar

Hótanir Kínastjórnar í garð Taívans eru ekki innantómar. Ætlunin er að þröngva stjórn eyríkisins til viðræðna og undirritunar samninga um innlimun þess í Kína meginlandsins. Hótunin snýst ekki um innrás, heldur um skyndiárás á hernaðarmannvirki Taívans.

Kínverski herinn leggur ofurkapp á skammdrægar eldflaugar. Fyrir fimm árum átti hann fjörutíu, en eftir fimm ár mun hann eiga átta hundruð slíkar eldflaugar. Þá mun hann geta þurrkað út loftvarnir, flugvelli, fjarskipti og flota Taívana á 45 mínútum án þess að hiksta.

Bandarísk hermálayfirvöld hafa engin svör við þessu. Áætlanir þeirra gera ráð fyrir hefðbundinni innrás Kínverja. Þau gera ekki ráð fyrir, að Kínverjar hafi lært af aðferðum Atlantshafsbandalagsins, sem lagði til atlögu gegn Serbíu úr lofti, án þess að gera innrás.

Að loknu leifturstríði munu Taívan og Bandaríkin standa andspænis gerðum hlut. Þá verður sem fyrr freistandi að fara leið Neville Chamberlains, sem hélt, að hann gæti friðað Hitler með eftirgjöfum, en uppskar í staðinn aukna framhleypni hans og nýjar kröfur.

Í uppnámi eru meginþættir Kínastefnu Bandaríkjanna allt frá dögum Nixons fram á daga Clintons. Hún felst í að friðmælast við Kínastjórn og reyna að juða henni inn í hefðbundin milliríkjasamskipti að vestrænum hætti. Kínastjórn lítur á allt slíkt sem vestræna linku.

Þegar kínverski herinn ógnaði Taívan fyrir síðustu kosningar á eynni með því að skjóta flugskeytum í þá áttina, reyndu bandarísk hermálayfirvöld að friða Kínverja með því að frysta vopnasölu til Taívans. Þess vegna telur Kínastjórn, að ógnanir sínar skili góðum árangri.

Sagnfræði 20. aldar á að hafa kennt okkur, að eftirgjafir af tagi Chamberlains og Clintons leiða ekki til friðar, heldur til styrjaldar. Sagnfræði Kínaveldis um aldir og árþúsundir á að hafa kennt okkur, að stjórnvöld í Kína munu ekki hætta, þegar þau hafa gleypt Taívan.

Þau hafa augastað á öllu hafinu milli Filippseyja, Malasíu og Víetnams og telja raunar Víetnam eiga að vera hluta Kínaveldis sem og smáríki á borð við Bútan, Nepal og Mongólíu. Þessi útþenslustefna er mesta ógnunin við jafnvægi og frið í heiminum við upphaf 21. aldar.

Innri ólga er mikil og vaxandi í Kína. Meðal annars eru að aukast ofsóknir gegn friðsömu trúfólki, svo sem hugleiðslufólki í Falun Gong, kristnum mönnum og búddistum. Aukin iðnvæðing kallar á sjálfstæða hugsun, sem alræðisflokkur kommúnista á erfitt með að hemja.

Lausnin á vandamálum innri ófriðar hefur löngum verið að framleiða vandamál ytri ófriðar og sameina þjóðir um hann. Þannig hefur Pútín tryggt sér sigur í forsetakosningum í Rússlandi með því að sameina þjóðina í stuðningi við sóðalega innrás hans í Tsjetsjeníu.

Ágreiningur er innan valdaklíku kommúnista í Kína. Jiang Zemin forseti fer fyrir harðlínumönnum, sem hafa ráðið ferðinni að undanförnu. Meðan harðlínan leiðir til eftirgjafa erlendra ríkja mun hún eflast í sessi, en riða til falls, ef erlend ríki segja: Hingað og ekki lengra.

Bandaríkjaþing getur fellt viðskiptasamninginn, sem Clinton hefur látið gera við Kína, Evrópa getur hafnað upptöku viðræðna um viðskiptasamning við Kína, ekki verði boðin aðild að Heimsviðskiptastofnuninni og loftvarnir verði efldar í nágrannaríkjum Kína.

Kosturinn við nýjustu hótun Kína er, að hún hefur opinberað, að þjónkunarstefna bandarískra stjórnvalda gagnvart stjórnvöldum í Kína hefur beðið skipbrot.

Jónas Kristjánsson

DV

Teppalagning auðræðis

Greinar

George Bush hefur slæman feril í umhverfismálum sem ríkisstjóri í Texas. John McCain hefur hins vegar góðan feril í umhverfismálum sem þingmaður. Samt voru auglýsingar í umhverfismálum meðal þess, sem varð McCain að falli í stóru prófkjörshrinunni í síðustu viku.

Tveir auðugir vinir Bushs stofnuðu samtök, sem borguðu teppalagningu auglýsinga gegn McCain, þar sem haldið var fram, að hann hefði ekki staðið sig í umhverfismálum. Enginn þeirra, sem stóðu að samtökunum, hafði áður sýnt neinn feril til stuðnings umhverfismálum.

Þetta sýnir, hvað hægt er að gera, ef nóg er til af peningum og ófyrirleitni. Þá er hægt að segja með árangri, að svart sé hvítt og að hvítt sé svart. Sumir sáu gegnum áróðurinn og aðrir ekki, en meðalniðurstaðan varð, að fleiri urðu fráhverfir McCain en snerust til hans.

Það er gamalkunn staðreynd, að margir fara að trúa lyginni, ef hún er endurtekin nógu oft. Þar sem lygin á í samkeppni við sannleikann, hafa menn hingað til verið hræddir við að teppaleggja kosningabaráttu með öfugmælum. Í bandarísku forkosningunum var sá múr rofinn.

Þar sem menn hafa nú séð, að teppalagning lyganna ræður úrslitum um, hver verður forsetaefni annars af stóru flokkunum í Bandaríkjunum, má búast við, að fjandinn verði laus í framtíðinni. Hann mun líka koma til Íslands, því að hér læra menn fljótt nýjabrumið.

Kjósendur á Íslandi eru ekkert ólíkir kjósendum í Bandaríkjunum eða annars staðar í heiminum. Þeir hafa að meðaltali ekki þroska til að sjá gegnum lygina. Þótt hún fæli suma frá, eru þeir fleiri, sem hlaupa eftir henni, jafnvel þótt aðgangur sé að réttum upplýsingum.

Stjórnmálaskýrendur í Bandaríkjunum tala nú í auknum mæli um, að auðræði sé að leysa lýðræði af hólmi. Bush varði 5,2 milljörðum íslenzkra króna til að sigra McCain og fékk að auki milljarðastuðning í óbeinum auglýsingum á borð við ofangreinda teppalagningu.

Ástandið er engan veginn alvont í Bandaríkjunum. Hvergi í heiminum er meira gegnsæi í þjóðmálunum. Nánast allt er vitað um, hvaðan peningar koma í kosningabaráttu og hvert leið þeirra liggur. Þess vegna er hægt að kortleggja vandann þar, vega hann og meta.

Hér á Íslandi eru hins vegar engin lög til að vestrænum hætti um fjárreiður stjórnmálaflokka og kosningabaráttu einstaklinga og flokka. Ríkisstjórnarflokkarnir eru andvígir gegnsæi. Þess vegna höfum við ekki sömu varnir gegn auðræðinu og Bandaríkjamenn hafa þó.

Við sáum það þegar í fyrra, að flokkur, sem ekki getur útvegað sér meira en tíu milljónir króna í kosningabaráttu með eðlilegum hætti, ver sextíu milljónum króna til hennar. Við höfum sterkan grun um, hvernig Framsóknarflokkurinn er rekinn, en getum ekki sannað það.

Með vaxandi auðsæld íslenzkra stórfyrirtækja má búast við, að peningar frá þeim streymi í auknum mæli til stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka, sem eru þessum fyrirtækjum að skapi. Með innleiðingu auðræðis verður áróður ósvífnari og þéttari en hann hefur verið.

Ef kjósendur væru næmari fyrir rökum og raunveruleika, gæti lýðræðið staðið sig gegn innreið auðræðis og staðreyndir staðið sig gegn teppalagningu lyginnar. En fréttirnar að vestan tala sínu máli. Nógu margir kjósendur eru nógu blindir til að grafa undan lýðræðinu.

Kosningabarátta Bushs gegn McCain sýnir, að ástandið er orðið þannig, að með auðmagni er hægt að ná árangri í að segja, að svart sé hvítt og að hvítt sé svart.

Jónas Kristjánsson

DV

Gegnsæi í fjárreiðum

Greinar

Milljarðafyrirtæki getur slett einni milljón króna í kosningabaráttu stjórnmálaflokks, sem ekki er þóknanlegur, og hælzt um af því, ef umræða um flokkastyrki verður óþægileg, en látið þóknanlegan flokk frá tvo tugi milljóna og jafnframt haldið fram, að hann hafi ekkert fengið.

Styrkir til flokka og pólitíkusa eru ekki aðeins bein framlög fyrirtækjanna. Þau geta líka látið flokka og menn hafa aðstöðu, sem sparar þeim peninga. Þannig má fela í bókhaldi fyrirtækja reikninga fyrir vörur og þjónustu, sem þau nota ekki sjálf, heldur láta flokkum og mönnum í té.

Í bókhaldi milljarðafyrirtækis má fela húsaleigu, símaleigu, tækjaleigu og hvers kyns aðra þjónustu fyrir stjórnmálaflokka og jafnvel launagreiðslur á vegum þeirra. Það mundi kosta nákvæma lögreglurannsókn að finna slíka fyrirgreiðslu og kerfið hefur enga lyst á slíku.

Raunverulega mætti reka alla starfsemi stjórnmálaflokks og alla kosningabaráttu hans innan bókhalds óviðkomandi fyrirtækja. Það takmarkast að vísu af, að skrýtið þætti, að flokkur hefði alls engan rekstur. Hann verður því að sýna fram á einhvern rekstur í bókhaldi sínu.

Forstokkaður eða ófróður talsmaður milljarðafyrirtækis getur því kotroskinn haldið fram, að fyrirtæki hans hafi styrkt Samfylkinguna um heila milljón króna, en Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafi ekki fengið krónu, enda hafi þeir ekki farið fram á slíkt.

Þess vegna nægir ekki að setja lög um birtingu reikninga stjórnmálaflokka og birtingu á skrám yfir styrktaraðila umfram einhverja lágmarksupphæð. Lögin þurfa líka að ná til óbeinnar fyrirgreiðslu í þágu flokka og pólitíkusa, sem falin er í reikningum óviðkomandi fyrirtækja.

Auðvelt er að fara í kringum lagaákvæði um birtingu upplýsinga um óbeina fyrirgreiðslu. Því þarf að gera ráð fyrir stikkprufum samkvæmt tilviljanaúrtaki og ströngum viðurlögum við brotum, ef þau komast upp. Annars verða lög um fjárreiður stjórnmálanna bitlaus með öllu.

Nánast öll vestræn ríki önnur en Ísland hafa komið sér upp lögum um fjárreiður stjórnmálaflokka. Lögum þessum er yfirleitt ekki ætlað að torvelda stuðning við flokka, heldur að gera þann stuðning gegnsæjan, svo að kjósendur viti, hverjir séu í innilegustu ástarsambandi við flokkana.

Helmut Kohl, fyrrverandi kanzlari Þýzkalands, braut slík lög. Fyrir það hefur hann og flokkur hans, Kristilegi demókrataflokkurinn, sætt ámæli, fylgistapi og opinberum rannsóknum. Þýzkaland er nefnilega vestrænt lýðræðisríki, þar sem farið er að ströngum leikreglum.

Að undirlagi kjósenda er Ísland hins vegar bananalýðveldi, þar sem ekki tekst að koma á lögum um gegnsæi stjórnmálaflokka, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Jóhönnu Sigurðardóttur alþingismanns. Bananakóngurinn afgreiðir slíkt jafnhraðan út af borðinu sem hræsni.

Gegnsæi er ein af helztu forsendum lýðræðis og markaðsbúskapar. Atriði, sem máli skipta, eiga ekki að vera falin fyrir borgurum, kjósendum, fjárfestum, starfsmönnum og almenningi yfirleitt. Þannig eru tryggðar heiðarlegar leikreglur í stjórnmálum, viðskiptum og fjármálum.

Það sker Ísland frá hinum vestræna heimi, að kjósendur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks láta sér vel líka, að flokkar þessir standi ár eftir ár gegn lögum um gegnsæi í fjárreiðum stjórnmálaflokka. Íslenzkir kjósendur hafa einfaldlega ekki þroska til að halda uppi lýðræði.

Þetta er einn af mörgum þáttum í mynztri, sem veldur því, að stjórnmál á Íslandi verða bezt skilin með því að líta á þau sem sýndarveruleika í bananalýðveldi.

Jónas Kristjánsson

DV

Apótekið

Veitingar

Þótt matarverð í Apótekinu á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis sé í hæsta flokki, tímir staðurinn ekki að veita gestum faglega þjónustu, heldur ræður fálmkennt fólk af leiklistarskólum og líkamsræktarstöðvum til að pósera með stælum í Armaní-fötum á strigaskóm.

Hér þýðir ekki að biðja um reyklaust borð, því að ekki er tekið mark á lögum og reglugerðum, “það þýðir lítið”. Þú ert settur niður við borð, þar sem hvolft hefur verið úr öskubakkanum og hann skilinn eftir óþveginn á eikarborðplötunni handa næsta gesti.

Staðurinn er vel hannaður og hæfir húsakynnum. Eftir miðju salarins er lágt skilrúm með sófum á báða bóga, litlum borðum og stólum á móti, en við háa glugga eru stærri borð með hefðbundnu sniði. Hátt og hvítt er til lofts og veggja og gott skyggni um stóra glugga til eldhúss og vínskápa.

Þetta er fín stæling á hönnun Conrans á Mezzo við Wardour Street í London, enda er gestagangur mikill. Það er stemning og samfelldur kliður, sem skapar Apótekið, ungir og líflegir gestir af auglýsingastofum og markaðsdeildum, sem tala mikið í gemsa við borðin og hafa lítið vit á mat, en geta slegið um sig með tilvísunum í innantómt slagorð “fusion”-matreiðslu.

Hér kostar 4.200 krónur á mann að borða þríréttað með kaffi á kvöldin, áður en kemur að víni. Þetta er verðlag, sem markaðurinn virðist bera, þótt betri staðir bíði hálftómir eftir gestum. Hagstæðari matseðill er í hádegi og fram til kl. 18:30, þegar hægt er að borða þríréttað með kaffi fyrir 2.210 krónur og tvíréttað með kaffi fyrir 1.810 krónur. Vínlistinn er ágætur og hóflega verðlagður.

Matseðillinn er hvorki spennandi né markviss. Þar er sitt lítið af hverju, frá japönsku sushi yfir í lambahrygg með kantarellu-sveppum og beikon-kartöflum, en heildarsvipurinn er óljós og þemað ekki neitt. Helzti kostur matreiðslunnar er nærfærni í eldunartíma, sem skiptir raunar mestu, en kryddnotkun er stundum kjarklítil.

Góður forréttur var ítalskt blaðsalat með grilluðu grænmeti, paprikusósu og hummus-klatta, vöfðum í salatblöð. Einnig þunnsneidd hörpuskel, nánast hrá, afar meyr og bragðfín með bragðlausum graslauk og djúpsteiktum tómati í deigi. Ennfremur Capri-salat með nokkrum lögum þunnra sneiða af tómati, mozzarella og rochet-salati. Lakari var bragðsterk sjávarréttasúpa með reyktri ýsu, kræklingi og grænmetisþráðum.

Sushi og sashimi staðarins var verksmiðjulegt, gervikrabbi úr surimi, fjórar fisktegundir á hrísgrjónabollum, bragðsterkar og bragðvondar kryddpylsur í hrísgrjónarúllu, allt framleitt löngu fyrir framreiðslu. Lambahryggurinn skartaði rifjum út í loftið og glæsilegum beikonfána og bjó yfir rósrauðu og ágætlega meyru, en bragðdaufu kjöti, sem hvarf í skugga sósu með beikonbragði og bakaðs klatta úr kartöflum og beikoni.

Kartöfluklattar eru vinsælir í eldhúsinu. Blandaður spínati var slíkur klatti undir hæfilega eldaðri en ekki nógu ferskri rauðsprettu steiktri, með miklu af perlulauk og dálitlu af ætiþistlum. Harður kartöfluklatti, var undir graskersmauki, sem fylgdi rósrauðri og seigri andabringu. Betri aðalréttur var afar næmt grillaður lax, með brenndri skorpu og meyr að innan, í för með bragðdaufum þráðum af pasta og grænmeti og svokallaðri austurlenzkri kryddsósu bragðdaufri.

Ýmis ber með múskat-krapís voru borin fram í hafsjó af jarðarberja-dósasafa. Sérstaklega smart voru þrjár tegundir af crème brûlée skorpubúðingi og plómumauk í fjórum litlum skálum. Svokallað espresso-kaffi var bragðdauft, en venjulegt kaffi var nothæft.

Apótekið er einkum fyrsta flokks hönnun og markaðssetning, ímynd og umbúðir fremur en innihald.

Jónas Kristjánsson

DV

Í sátt við land og þjóð

Greinar

Ýmsir forustumenn í landbúnaði hafa komið auga á brýn verkefni, sem áður voru ekki hátt skrifuð í greininni. Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra vill bæta hreinleikaímynd landbúnaðarins, sem hann telur hafa beðið hnekki á undanförnum mánuðum.

Ari Teitsson, formaður Bændasamtakanna, sagði á Búnaðarþingi, að landbúnaðurinn yrði að starfa í sátt við umhverfi sitt. Vandamál mengunar, jarðvegseyðingar, hormónanotkunar og fleiri þátta megi ekki skaða umhverfið og rýra traust almennings á greininni.

Sumir aðrir forustumenn eru hins vegar forstokkaðir sem fyrr. Aðalsteinn Jónsson, formaður Samtaka sauðfjárbænda, sagði í gær, að ekki væri ofbeit á hálendi Íslands og að raunar væri alls engin ofbeit í landinu. Um leið kaus hann að gagnrýna þá, sem vilja vernda villigæsir.

Þannig hafast menn ýmislegt að. Sumir reyna að byggja upp traust, sem aðrir eru að eyða á sama tíma. Fræðimenn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Landgræðslunnar eru sammála um, að ofbeit eigi víða þátt í gróðureyðingu og að víða þurfi að friða hálendi.

Nánar tiltekið þarf á Suðurlandi að friða hálendi Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu og á Norðurlandi þarf að friða hálendi Þingeyjarsýslna, Eyjafjarðarsýslu og Skagafjarðar. Vísindamenn í landbúnaðargeiranum telja þessi svæði óhæf til beitar.

Mikilvægur er nýfenginn skilningur ýmissa ráðamanna í landbúnaði á, að greinin þurfi að starfa í sátt við land og þjóð. Þessum skilningi þarf að beita víðar en í friðun lands. Hann nýtist líka til að koma í veg fyrir, að stofnanir landbúnaðarins reyni að svindla á gæðakröfum.

Það er ekki séríslenzkt fyrirbæri, að stofnanir landbúnaðarins reyni að skekkja hugtök til að spara vinnu og kostnað. Þannig hefur landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna lengi reynt að skilgreina lífrænan landbúnað á þann hátt, að hann nái til erfðabreyttra matvæla.

Nú hefur bandaríska ráðuneytið gefizt upp á þessu og viðurkennt, að alþjóðlegi markaðurinn hefur án afskipta ríkisvalds komið sér upp skilgreiningu á lífrænum landbúnaði, sem er grundvöllur trausts almennings og hærra markaðsverðs á búvöru, sem fær lífræna stimplinn.

Það, sem bandaríska ráðuneytinu tókst ekki, með mátt heimsveldis að baki sér, mun íslenzku ráðuneyti smáríkis ekki takast. Enginn sátt verður við þjóðina og enn síður við alþjóðlega markaðinn um séríslenzkar reglur um lífrænan eða vistvænan eða sjálfbæran landbúnað.

Vegna óbeitar á ströngum alþjóðareglum um lífræna ræktun hafa íslenzkar stofnanir landbúnaðarins viljað búa til séríslenzkar og ríkisreknar reglur, sem séu þannig lagaðar að íslenzkum aðstæðum, að það kosti litla vinnu og litla peninga að laga landbúnaðinn að þeim.

Í framhaldi af skynsamlegum yfirlýsingum ráðherra og bændaformanns á Búnaðarþingi geta stofnanir landbúnaðarins nú hætt að reyna að framleiða opinbera gæðastimpla fram hjá alþjóðareglum og viðurkennt alþjóðareglur eins og bandaríska ráðneytið hefur gert.

Næsta ljóst má vera, að aldrei fæst nein lífræn, vistvæn eða sjálfbær vottun á lambakjöti, sem framleitt er við aðstæður ofbeitar. Vottanir um slíkt á vegum ríkisstofnunar munu aldrei öðlast það traust, sem ráðherra og bændaformaður segjast vilja afla landbúnaðinum.

Þegar topparnir eru farnir að skilja nauðsyn þess, að greinin starfi í sátt við land og þjóð, er stigið fyrsta skrefið í átt til skynsamlegs landbúnaðar á Íslandi.

Jónas Kristjánsson

DV

Markaðsstyrkir í listum

Greinar

Þær fjórar íslenzku kvikmyndir, sem mesta aðsókn hafa fengið um dagana, eru Með allt á hreinu eftir Ágúst Guðmundsson, Dalalíf eftir Þráin Bertelsson, Land og synir eftir Ágúst Guðmundsson og Óðal feðranna eftir Hrafn Gunnlaugsson, með yfir 95.000 áhorfendur hver.

Athyglisvert er, að þessar kvikmyndir voru sáralítið styrktar af opinberu fé, fengu á núvirði rúmlega tvær milljónir króna hver að meðaltali. Þær tölur eru alger skiptimynt í samanburði við þá styrki, sem nú eru veittir og nema oft yfir tuttugu milljónum króna á mynd.

Þær myndir, sem einna minnsta aðsókn hafa hlotið, 3.000-6.000 áhorfendur, hafa einmitt fengið yfir tuttugu milljón krónur hver að meðaltali í opinberum styrkjum. Út úr þessu má lesa, að öfugt samhengi sé milli áhuga áhorfenda og úthlutunarnefnda á kvikmyndum.

Erfitt er að halda fram í alvöru, að Með allt á hreinu, Dalalíf, Land og synir og Óðal feðranna séu ómerkari kvikmyndir en Myrkrahöfðinginn, Hin helgu vé, Draumadísir og Ein stór fjölskylda. Að minnsta kosti voru gagnrýnendur sáttir við fyrrtöldu kvikmyndirnar.

Það hlýtur að vera erfitt fyrir úthlutunarnefndir að ákveða, hvaða verkefni í kvikmyndagerð séu þess verðug að fá mikla styrki og hvaða verkefni séu aðeins lægstu styrkja virði. Sagan reynist úthlutunarnefndum jafnan harður dómur, þótt þær reyni að fara eftir reglum.

Niðurstaðan af þrotlausu erfiði úthlutunarnefnda og ómældu fjármagni þeirra er, að þær myndir, sem ganga bezt, mundu hafa náð endum saman án aðildar úthlutunarnefndanna, og að þær myndir, sem ganga verst, ná ekki endum saman þrátt fyrir nefndir og tapstyrki.

Nokkrum sinnum hefur verið bent á leið úr þessum vanda. Hún felst í, að úthlutunarnefndir spari sér erfiðið og afhendi áhorfendum valdið til að ákveða, hvaða myndir eigi að styrkja, svo að hér á landi séu framleiddar sem flestar myndir, er falla í kramið hjá áhorfendum.

Þannig sé líklegast, að hér á landi séu framleiddar kvikmyndir, sem þjóðin vilji fremur sjá en innfluttar kvikmyndir. Þannig sé innlendur kvikmyndaiðnaður styrktur til að halda uppi samkeppni við það vinsælasta, sem framleitt er af slíku tagi á erlendum vettvangi.

Ef menn segja, að með slíkri aðferð væri verið að styrkja lágkúru, sem félli í kramið hjá skrílnum, verða menn jafnframt að halda fram, að Með allt á hreinu, Dalalíf, Land og synir og Óðal feðranna séu lágkúra, en fyrrnefndar botnmyndir séu hins vegar göfug list.

Þar sem ekki er hægt að sjá neinn gæðamun milli kvikmynda með háa og lága styrki, er einfaldara að vísa málinu til áhorfenda, svo að kvikmyndastjórar séu hvattir til að búa til kvikmyndir, sem fólk vill sjá. Styrkjakerfið sé beinlínis notað til að ýkja lögmál markaðarins.

Aðferðin felst í að borga kvikmyndagerðarmanninum fasta krónutölu í meðgjöf með hverjum seldum aðgöngumiða. Sömu aðferð má raunar nota til að styrkja rithöfunda, tónlistarmenn, myndlistarmenn og aðra listamenn, sem selja almenningi aðgang að verkum sínum.

Það væri kvikmyndagerðarmanni mikil hvatning til góðra verka að vera öruggur um að fá í styrk 1.000 krónur ofan á hvern seldan miða. Eins væri það rithöfundi sambærileg hvatning að vera öruggur um að fá í styrk 500 krónur ofan á ritlaun af hverju seldu eintaki.

Aldrei hefur verið sýnt fram á það með rökum, að markaðsvæðing styrkjakerfa í listum hefði rýrara menningargildi en núverandi fálm úthlutunarnefnda.

Jónas Kristjánsson

DV

Dapurt óperuball

Greinar

Árlega óperuballið í Vínarborg í fyrradag var aðeins svipur hjá fyrri sjón. Erlend stórmenni Evrópu létu ekki sjá sig. Austurríkismenn urðu að sætta sig við bananakónginn Nursultan Nazarbayev frá Kazakhstan og Ludmillu Kuchma, eiginkonu bananakóngsins í Úkraínu.

Vestrænir stjórnmálamenn, sem áður höfðu tekið boðinu, drógu sig í hlé eftir stjórnarskiptin í Austurríki. Sama gerðu stórfyrirtæki, sem höfðu tekið á leigu óperustúkur fyrir rúma milljón króna stykkið. Catherine Deneuve og Claudia Cardinale neituðu að koma.

Yfirstéttin í Austurríki reytir hár sitt í örvæntingu. Sendiherrar landsins fá ekki lengur að taka þátt í matarboða-sirkusum utanríkisráðuneyta og fína fólksins á Vesturlöndum. Landið er í selskapslegri einangrun eftir innreið útvatnaðra nýnazista í ríkisstjórn.

Þótt ýmsir segi, að Evrópusambandið og ráðamenn í sumum vestrænum löndum hafi farið offari í viðbrögðum við stjórnarskiptunum í Austurríki, sjást engin merki þess, að frystingunni linni. Þvert á móti hefur hún fallið í fastan farveg, sem meðal annars lýsti sér á óperuballinu.

Á margan hátt er Austurríki hentugur blóraböggull. Nazisminn átti þar rætur sínar. Eftir stríðið spöruðu Austurríkismenn sér heilaþvottinn, sem Þjóðverjar tóku á sig. Austurríkismenn hafa aldrei horfzt í augu við fortíð sína, meðan Þjóðverjar hafa gert upp sakirnar við hana.

Flokkur Jörgs Haider er sem útvatnaður nýnazistaflokkur alvarlegra fyrirbæri en útvatnaður nýfastistaflokkur Gianfrancos Fini, sem komst um tíma í ríkisstjórn á Ítalíu. Ítalski fasisminn var mun vægara tilfelli en austurríski nazisminn og var til dæmis lítið fyrir kynþáttahatur.

Því er eðlilegt, að viðbrögðin við stjórnarskiptunum í Austurríki séu nú harðari en þau voru við stjórnarskiptunum á Ítalíu fyrir hálfum áratug. Þau snerta viðkvæmari strengi í stjórnmálalífi Evrópu, afstöðu almennings til innflytjenda frá fátækum og fjarlægum löndum.

Með frystingu Austurríkis eru vestrænir stjórnmálamenn og Evrópusambandið að senda skilaboð til almennings í eigin löndum. Verið er að segja öfgasinnuðum Belgum og Frökkum, Dönum og Þjóðverjum að gæta sín. Stuðningur við öfgaflokka geti skaðað viðkomandi þjóðir.

Eftir uppistandið út af öfgaflokki Haiders geta menn ekki lengur gamnað sér við, að taka megi vesturevrópska öfgaflokka í ríkisstjórnir. Gefið hefur verið fordæmi, sem ekki gefur mikið svigrúm til undanbragða. Flokkar kynþáttahaturs hafa varanlega verið settir í frystikistuna.

Vesturlönd verða jafnframt að taka á vandamálum, sem eru uppspretta fylgisaukningar slíkra flokka. Innflytjendur eiga víða erfitt með og vilja helzt ekki aðlagast nauðsynlegu lágmarki af siðum og hefðum þeirra þjóða, sem sýna þeim gestrisni. Þeir mynda undirheima, stundum hættulega.

Vesturlönd þurfa að verja miklu meiri orku og fé í að gera innflytjendum grein fyrir, hver sé lágmarksaðlögun að siðum og hefðum hvers umhverfis, og gera þeim kleift að öðlast þessa lágmarksaðlögun, til dæmis með starfsfræðslu, félagsfræðikennslu og tungumálanámi.

Með þessum fyrirvara verður ekki séð, að Evrópusambandið og ráðamenn ýmissa aðildarríkja þess séu á hálum ís í aðgerðunum gegn Austurríki. Þær takmarkast við selskapslíf og mannleg samskipti innan ríkjasambands, sem hefur æðri markmið en flokkur Jörgs Haider.

Aðgerðirnar gegn Austurríki voru ekki stundaræði, heldur markviss aðgerð á takmörkuðu sviði til að brjóta brýr að baki Vesturlanda í baráttu gegn kynþáttahatri.

Jónas Kristjánsson

DV

Þér var nær

Greinar

Enn einu sinni hefur nýr keppinautur á markaði orðið að lúta í lægra haldi fyrir þeim, sem fyrir var. Íslandsflug hefur hætt samkeppni við dótturfélag Flugleiða, sem gat í skjóli móðurfélagsins þolað samkeppni um verð, því að of margir flugfarþegar tóku ekki þátt í leiknum.

Þegar Íslandsflug kom til skjalanna, lækkaði verð í innanlandsflugi. Þegar það er horfið af samkeppnisleiðum, má búast við, að verð fari smám saman að hækka aftur. Fljótlega verður dýrara að fljúga innanlands en til útlanda, þar sem samkeppni er hafin á nýjan leik.

Við höfum oft séð þetta gerast. Nýir aðilar koma til skjalanna í ástandi einokunar eða fáokunar og bjóða niður verð, almenningi til hagsbóta. Gamli aðilinn notar auð sinn til að jafna verðið og bíður síðan þolinmóður eftir því, að samkeppnisaðilinn gefist upp.

Leikurinn jafnast ekki, af því að Íslendingar láta ekki nýja aðilann njóta þess, að hann leiddi inn lága verðið. Þeir fagna því, að gamla fyrirtækið þurfi að lækka verðið og halda áfram að skipta við það. Þetta leiðir til þess, að þeir fá gamla, háa verðið í hausinn aftur.

Áður hafa misheppnazt tilraunir til samkeppni í innanlandsflugi og millilandaflugi, í vöruflutningum á landi og á sjó, í tryggingum og olíuverzlun. Það stafar af því, að Íslendingar halda tryggð við kvalara sína og gera þeim kleift að sitja af sér tímabundna samkeppni.

Þar sem borgaraleg hugsun er ákveðnari en hér, svo sem í Bandaríkjunum, neita menn að gerast þrælar gamalla stórfyrirtækja. Þar tekst nýjum fyrirtæknum oft að ryðja sér til rúms með lágu verði, af því að þar flytja hlutfallslega miklu fleiri viðskipti sín en gerist hér.

Í þetta blandast byggðastefna úti á landi og þjóðleg stefna í þéttbýli. Dæmigerð er Akureyri, sem er fræg fyrir að hafna fyrirtækjum að sunnan, er flytja með sér lágt verð. Þau fá lítil viðskipti og flýja af hólmi, en Akureyringar sitja eftir með háa og heimagerða verðið.

Ísland er svo lítið hagkerfi, að óeðlilega mikill hluti verzlunar og þjónustu er á gráu svæði milli fákeppni og fáokunar, þar sem þrjú eða færri fyrirtæki skipta með sér nærri öllum markaði á hverju sviði. Fákeppni breytist í fáokun og fáokun breytist í einokun.

Á síðustu misserum hefur fákeppni í smásöluverzlun verið að breytast í fáokun. Fyrirtæki hafa sameinazt og blokkirnar hafa tekið upp samráð um verð. Þetta heftur leitt til þess, að verðbólga hefur látið á sér kræla á nýjan leik og er nú orðin tvöföld á við evrópska verðbólgu.

Stjórnvöld hafa engin tæki til að grípa inn í og gæta hagsmuna almennings. Menn verða að læra af reynslunni að bjarga sér sjálfir. Aðeins lítill hluti fólks tekur þátt í að halda uppi samkeppni og halda niðri verði með að flytja viðskipti sín til nýrra aðila með lágt verð.

Aðferðin gegn fáokun og einokun er einföld. Rómverska og brezka heimsveldið beittu henni. Hún felst í að deila og drottna, styðja þá litlu gegn hinum stóra. Ef einhver hinna litlu verður stærstur, færist aðferðin yfir á hann. Þetta er leiðin til að halda uppi virkri samkeppni.

Aðferðin felst í, að menn styðja alltaf þá, sem eru nýir og minni máttar, og hafna viðskiptum við þá, sem eru ráðandi á hverjum markaði hverju sinni. Þannig héldu Bretar jafnvægi á meginlandi Evrópu öldum saman og þannig halda neytendur uppi sívirkri samkeppni.

Íbúar Akureyrar, Vestmannaeyja, Egilsstaða og svæðanna umhverfis höfðu í hendi sér að halda uppi samkeppni í flugi, en neituðu sér um það. Þér var nær.

Jónas Kristjánsson

DV

Vara og fíkniefni í senn

Greinar

Frá sjónarhóli viðskipta og hagfræði er verzlun með áfenga drykki eins og hver önnur verzlun, sem eigi að fylgja lögmálum markaðarins, svo sem afnámi einkasölu. Dreifing áfengis megi vera á vegum allra, sem hafa leyfi til að reka verzlun með aðrar vörur fyrir neytendur.

Frá sjónarhóli læknisfræða nútímans er áfengi hættulegt fíkniefni, sem reynist mörgum um megn, einkum vegna erfðafræðilegra orsaka og vegna illviðráðanlegra umhverfisáhrifa. Samkvæmt skilgreiningu fræðanna líkist áfengissýki hverjum öðrum sjúkdómi.

Viðskiptasjónarmið ráða ferð Evrópusambandsins í verzlunarmálum áfengis. Litið er á hindranir gegn slíkri verzlun sem hverjar aðrar viðskiptahindranir, sem beri að ryðja úr vegi innan evrópska markaðarins. Sambandið hefur beitt Norðurlönd þrýstingi í þessa átt.

Svíar, sem hafa einkasölu eins og við, hafa farið undan í flæmingi og beitt fyrir sig læknisfræðilegum sjónarmiðum og þá ekki síður hinum félagslegu, því að ofneyzla áfengis hefur feiknarleg áhrif í þjóðfélaginu og stýrir meðal annars flestum glæpum og slysum.

Ótal rannsóknir hafa sýnt, að áfengisneyzla fylgir aðgangi að áfengi. Því greiðari og ódýrari sem aðgangurinn er, þeim mun meiri er neyzlan, þeim mun líklegra er, að fólk ánetjist fíkniefninu og þeim mun fleiri verða glæpirnir og slysin. Sænska stefnan vill hafa vit fyrir fólki.

Vegna mikilla áfengisvandamála kusu íslenzk stjórnvöld á sínum tíma að fara sænsku leiðina og reyna að hafa vit fyrir fólki. Aðferðirnar hafa mildazt með áratugunum og felast nú einkum í, að smásala áfengis er í sérverzlunum ríkisfyrirtækis, sem tollar vöruna óspart.

Forsjárhyggjan á Íslandi byggist aðeins á þjóðfélagslegum sjónarmiðum, en alls ekki hinum læknisfræðilegu. Hvorki Hæstiréttur né Stjórnarráðið viðurkenna áfengissýki sem sjúkdóm, þótt það sé gert hjá Alþjóða heilbrigðisstofnuninni og styðjist við ótal rannsóknir.

Áratugum saman hafa vísindamenn erlendis vitað, að áfengissýki er sumpart arfgengur sjúkdómur, sumpart tengdur illviðráðanlegum umhverfisáhrifum og sumpart nokkurs konar sjálfskaparvíti. Að öllu þessu leyti er áfengissýki alveg eins og hjartamein og krabbamein.

Áfengissýki lýsir sér líkamlega eins og aðrir sjúkdómar, breytir starfi boðefna og ruglar starfsemi heilans. Erfitt er að snúa við, ef vandinn hefur fengið að þróast. Rétt eins og úrræði gegn hjartameini og krabbameini gagnast úrræði gegn áfengismeini ekki öllum.

Ef læknisfræðilegu sjónarmiðin næðu fram að ganga hér á landi, mundi aukast fyrirstaða gegn auknum aðgangi að áfengi. Auðvelt er að framreikna kostnaðinn af sjúkdómi, sem ánetjar 15­20% þjóðarinnar svo hastarlega, að batalíkur eru töluvert innan við helming tilvika.

Kostnaður við meðferð áfengissýki er barnaleikur í samanburði við kostnað af glæpum og slysum af völdum áfengis. Allur þorri glæpa og flest slys, að sjálfskaparvíti íþróttaslysa frátöldu, byggjast á neyzlu áfengis, stundum í bland við hættuleg læknislyf eða ólögleg fíkniefni.

Eðlilegt væri að merkja áfengi aðvörunarmiðum eins og tóbak. Möguleikar forsjárhyggju takmarkast að öðru leyti af möguleikum fólks til að brugga sjálft og smygla og af hagsmunum, sem við höfum af móttöku erlendra ferðamanna, sem margir vilja óheftan aðgang að áfengi.

Núverandi skipan verðlags og sölu áfengis er dæmigerð millileið milli forsjárhyggju og markaðshyggju. Hún er heiðarleg tilraun til að sætta ósættanleg sjónarmið.

Jónas Kristjánsson

DV

Síðasti bærinn í dalnum

Greinar

Frumkvöðlar og kaupsýslumenn nútímans hér á landi hafa áttað sig á, að velsæld þjóðarinnar í náinni framtíð felst ekki í að framkvæma gamla drauma um álver og stórvirkjanir, heldur í að rækta menntun og hugvit þjóðarinnar á mestu framfarasviðum hvers tíma.

Dæmi um auðlindir nýrrar aldar eru hugbúnaðargerð og önnur tölvutækni, erfðarannsóknir og líftækni. Slíkar greinar kosta fyrst og fremst fjárfestingu í menntun og hugviti, en síður í áþreifanlegum mannvirkjum, svo sem verksmiðjum, orkuverum og stíflugörðum.

Ef þjóðfélag hyggst standast samkeppni við forustuþjóðir heimsins, verður það að unga út hæfu fólki á þenslusviðum hvers tíma. Aðrar auðlindir hverfa algerlega í skugga þessarar kröfu og gera lítið annað en að flækjast fyrir því, að þjóð komist í fararbrodd.

Mannvirki kosta gríðarlega peninga. Fjárfesting í gamaldags atvinnuvegum á borð við raforkuvinnslu og álvinnslu er gríðarleg á hvern starfsmann og gefur lítinn arð í samanburði við þær greinar, sem eru í fararbroddi efnahagsþróunar Vesturlanda á hverjum tíma.

Fjárfesting í auðlindum menntunar og hugvits kostar miklu minna á hvern starfsmann og getur gefið ótrúlegan arð, sem Íslendingar eru fyrst núna að átta sig á, að sé innan seilingar, þegar íslenzk fyrirtæki á slíkum sviðum hafa lyfzt úr engu til feiknarlegra verðmæta.

Við búum því miður við pólitísk stjórnvöld, sem eru frosin í gömlum tímum og hafa því ekki getað leikið það eftir stjórnvöldum nágrannalandanna að vísa stórvirkjunum og stóriðju til þriðja heimsins og nota sparnaðinn til að búa í haginn fyrir þekkingariðnað.

Slagurinn um Fljótsdalsvirkjun og Reyðarál er síðasti slagur fortíðar og framtíðar í atvinnu- og efnahagslífi Íslands. Þar er á ferðinni gamall og úreltur draumur, sem hefur breytzt í martröð byggðastefnu, er stefnir í taprekstur á hvoru tveggja, orkuveri og stóriðju.

Stjórnvöld leggja ofurkapp á, að takmörkuðu fjármagni og lánsfjármöguleikum þjóðarinnar sé veitt í farveg martraðarinnar á Austurlandi í stað þess að snúa sér í átt til framtíðarinnar og leggja sömu peninga í hugbúnað og tölvutækni, erfðarannsóknir og líftækni.

Vandinn er auðvitað sá, að þjóðin lifir á þremur öldum í senn. Meðan hluti þjóðarinnar hefur sótt inn í 21. öldina, lifa aðrir enn á 19. öldinni. Hinir síðarnefndu sjá sér þá von bjartasta í lífinu að komast í tæri við atvinnuvegi, sem voru vaxtarbroddur 19. aldar.

Í stað þess að mennta austfirzk ungmenni til aðildar að veruleika 21. aldar eru ráðamenn nokkurra sveitarfélaga á Austurlandi að berjast fyrir því, að orku þessara ungmenna verði beint að því að skaka á venjulegu skítakaupi í bræðslupottum á Reyðarfirði.

Á sama tíma eru ýmsir aðrir foreldrar í landinu að búa börn sín undir tíma, þar sem árlegar bónusgreiðslur einar eru hærri en árslaun við bræðslupotta á Reyðarfirði. Ungmenni á höfuðborgarsvæðinu búa ekki við dragbíta á borð við sveitarstjórnir á Austfjörðum.

Hvort sem Fljótsdalsvirkjun og Reyðarál verða að veruleika eða ekki, marka þau þáttaskil í atvinnusögu okkar. Þau eru síðasti bærinn í dal fortíðarinnar, áður en við tekur nýr tími, þar sem heilabúið í mannfólkinu verður eina auðlindin, sem máli skiptir.

Þjóðin mun láta herkostnaðinn við martröðina sér að kenningu verði. En hún á enn kost á að spara sér alveg þetta morð fjár og læra samt af reynslunni.

Jónas Kristjánsson

DV