Þrír frakkar

Veitingar

Sjávarútvegs- og verktakadeildir landssambands gemsaþræla hlæja hrossahlátri í hádeginu á Þremur frökkum, meðan ímyndardeildir sambandsins hvíslast á í Apótekinu. Hljómkviða gemsanna rennur saman við masið og drukknar í þröngum húsakynnum Þriggja frakka, þar sem hvert sæti er skipað. Á kvöldin er líka fullt, en þá er að mestu slökkt á gemsunum.

Húsakynnin eru franskt bistró, miðlægur bar, hliðarskonsur og litsterkir borðdúkar. Verðið í hádeginu er franskt bistró, 99,99 frankar. Stemningin er franskt bistró, þröng og glaðleg. Maturinn er fiskur og aftur fiskur með ívafi af hval og nauti, hráefnið ferskt og fjölbreytt og matreiðslan í góðu jafnvægi. Naut og hvalkjöt fást raunar tæpast betri annars staðar hér á landi.

Á Þremur frökkum fæst daglega allur fiskur nema ýsa. Oft fæst eitthvað óvenjulegt, svo sem makríll, kolmunni eða guðlax. Yfirleitt eru um átta nýir fiskréttir á boðstólum, t.d. þorskur, steinbítur, rauðspretta, lúða, skötuselur, tindabikkja, gellur og saltfiskur, sem hvergi er betri en hér, að ógleymdum plokkara með rúgbrauði, sem er hreint afbragð. Ostbökun er óþarflega mikið notuð, en þykk ostarjómasósa er sem betur fer heldur minna notuð en áður.

Svo oft hef ég komið hér, að ég er fyrir löngu orðinn leiður á tæru grænmetissúpunni, þótt hún sé hátt hafin yfir kremsúpur annarra íslenzkra veitingastaða. Tilbreyting væri í einföldu hrásalati eða sneið af kryddaðri fiskikæfu sem forrétti dagsins. Framþróun hefur skyndilega orðið í eftirréttum staðarins, því að nú fæst notalega létt og volg frönsk súkkulaðiterta og létt og fín ísterta, sem eru miklu betri en hversdagslegir fyrri eftirréttir staðarins.

Raunar er allur matur góður á Þremur frökkum, jafnvel kaffið, sem borið er fram með súkkulaðidropum staðarins. Meira máli skiptir, að matreiðslan er nánast alltaf eins, svo að hægt er að treysta henni. Úlfar Eysteinsson hefur fundið manneskjulega formúlu fyrir veitingastað og hefur úthald til að halda henni uppi ár eftir ár eftir ár. Þrátt fyrir ágæta nýjung og oft vandaðri matreiðslu í Tveimur fiskum Hafnarbúða eru Þrír frakkar ennþá Hið íslenzka fiskhús, þangað sem maður freistast til að fara með erlenda gesti.

Þjónustan er glaðleg og hlýleg og hugsar vel um gesti. Við pöntun er spurt um reyk eða reyklaust, einn fárra staða, sem hefur frumkvæði að slíku. Tvíréttað með kaffi kostar 1070 krónur í hádeginu og þríréttað með kaffi kostar 3500 krónur á kvöldin, hvort tveggja hóflegt á hérlendum mælikvarða. Þrír frakkar eru traustur klettur í ólgusjó og vaxandi sýndarveruleika íslenzkrar veitingamennsku.

Jónas Kristjánsson

DV

Mestur mannauður

Greinar

Okkur hefur gengið vel á undanförnum árum, raunar betur en flestum öðum þjóðum, sem við berum okkur saman við. Samkeppnishæfni þjóðarinnar hefur aukizt í samanburði við aðrar þjóðir. Við höfum á tveimur árum hækkað úr 19. sæti í 10. á heimslistanum.

Við erum aftur komin í flokk með þjóðum Norður-Evrópu og Norður-Ameríku, þar sem við viljum vera. Velgengni okkar hlýtur að vekja nokkra athygli og draga að okkur suma þá, sem vilja fjárfesta í mannauði og traustum innviðum rekstrarumhverfis.

Þetta eru þau atriði, sem valda mestu um góða stöðu okkar á heimslista Alþjóðastofnunar stjórnunarþróunar. Raunar erum við í efsta sæti listans í mannauði og hefur oft verið ástæða til að fagna af minna tilefni. Þetta er bezta auglýsingin, sem þjóðin getur fengið.

Hagnýtar rannsóknir hafa eflzt í atvinnulífinu, en grundvallarrannsóknir hafa setið á hakanum í samanburði við aðrar þjóðir, einkum vegna fjárskorts rannsóknastofnana á vegum ríkisins. Með því að leiðrétta þetta getum við tryggt stöðu okkar betur.

Þótt margt hafi batnað hjá okkur, eru enn til atriði, sem draga okkur niður í fjölþjóðlegum samanburði. Alþjóðavæðing atvinnulífsins er enn á lágu stigi, styrkleiki hagkerfisins ekki nógu mikill og stjórnun fyrirtækja er síður en svo nógu góð hér á landi.

Stjórnvöldum ber að gæta þess af alefli að hleypa verðbólgunni ekki aftur lausri. Á síðasta ári byrjaði sá draugur að láta á sér kræla á nýjan leik, en nýgerðir kjarasamningar ættu að geta vegið þungt á metaskálunum við að kveða gamla óvininn niður aftur.

Stjórnvöld þurfa einnig að greiða fyrir innkomu erlendra fyrirtækja í þeim geirum atvinnulífsins, þar sem samkeppni hefur breytzt í fákeppni og síðan í fáokun. Við höfum séð þessa óheillaþróun í bönkum, í flugi, í benzíni, í tryggingum og í neyzluvöru.

Hræringar í millilandaflugi eru jákvæð merki. Samvinnuferðir-Landsýn hafa tekið upp samkeppni og á leiðinni er brezkt lággjalda-flugfélag. Mikilvægt er, að innviðum laga og stjórnsýslu sé hagað á þann hátt, að það auðveldi innkomu nýrra fyrirtækja á markað.

Við verðum aldrei varanlega samkeppnishæf við samanburðarþjóðir fyrr en við höfum búið til trausta innviði og ramma fyrir alþjóðlega samkeppni á íslenzkum heimamarkaði. Erlend fyrirtæki flytja okkur aukna þekkingu og efla mannauðinn í landinu.

Jafn brýnt er, að íslenzk fyrirtæki haldi áfram að hasla sér völl í útlöndum eins og þau hafa verið að gera, þótt sums staðar hafi illa gengið. Ef íslenzk stjórnun verður ekki samkeppnishæf í fjölþjóðlegum samanburði, verður góð staða okkar ekki varanleg.

Eðlilegt er, að menn misstígi sig í fyrstu tilraunum til að starfa í erlendu rekstrarumhverfi. Smám saman byggist upp þekking og reynsla, sem gerir þessi skref markvissari og traustari. Raunar byggjum við á gamalli og góðri reynslu í fiskréttaverksmiðjum.

Við eigum í senn að stefna að miklum ítökum íslenzkra aðila í erlendu atvinnulífi og miklum ítökum erlendra aðila í innlendu atvinnulífi. Við eigum að standa á krossgötum í vestrænu samfélagi kaupsýsluþjóða og líta til allra átta eftir tækifærum.

Við skulum opna allar gáttir viðskipta og framleiðslu og leyfa íslenzkum mannauði að magnast og njóta sín til hagsbóta fyrir landið og landsmenn alla.

Jónas Kristjánsson

DV

Guðaveigar og sálarylur

Greinar

Endurteknir harmleikir afbrota minna okkur á, að hér á landi er allur þorri afbrota framinn undir áhrifum áfengis. Ólögleg fíkniefni og læknislyf koma oft við sögu, en áfengisneyzla er þó yfirleitt uppistaða afbrotanna. Auk þess er hún einn af helztu slysavöldum hér á landi.

Það eru bjór og brennivín, sem eru uppistaðan í þjóðarharmleik Íslendinga. Ungt fólk kemur út í lífið án þess að geta haft samskipti við aðra án þess að liðka fyrir þeim með bjór fyrst og síðan brennivíni. Þaðan liggur leiðin yfir í ólögleg fíkniefni og læknislyf til viðbótar.

Þetta ferli er stutt eindreginni áfengisdýrkun Íslendinga. Hún sést bezt á venjulegum mannamótum, sem fara öðru vísi fram hér á landi en í siðmenntuðum löndum. Á árshátíðum og þorrablótum verður hversdagslegt fólk um síðir blindfullt og slefar hvert í eyru annars.

Börnin venjast við, að foreldrar komi af og til heim á skallanum um miðja nótt og verji fyrri hluta næsta dags í timburmönnum. Drykkjuveizlur í heimahúsum efla boðskapinn um, að ótæpileg drykkja sé þjóðfélagslega viðurkennd aðferð til að sleppa fram af sér taumunum.

Hagsmunaaðilar framleiðslu, innflutnings og smásölu áfengra drykkja hafa öflug ítök í stjórnmálum, sérstaklega ungliðadeildum, og hafa sjálft Verzlunarráð Íslands sem múrbrjót í tilraunum til að auka aðgengi fólks að áfengi og draga úr opinberum gjöldum, sem lögð eru á það.

Hagsmunaaðilar framleiðslu kosta sýndarrannsóknir, sem sagðar eru benda til, að sumt áfengi, að minnsta kosti rauðvín, sé hollt fyrir heilsuna og hreinsi að minnsta kosti æðarnar. Sannleikskjarninn í þessum fullyrðingum er, að vínber eru holl, en þau fást án áfengis.

Drykkfelldum fjölmiðlungum er annt um að koma á framfæri hverri nýrri sýndarrannsókn á vegum hagsmunaaðila, sem sýni fram á, að einhvers konar áfengi hafi einhvers konar jákvæð áhrif á heilsuna. Hin raunverulegu dæmi heima og erlendis sýna hið gagnstæða.

Skilaboðin um nytsemi áfengis í félagslífi, siðmenningu og heilsufari dynja á ungu fólki, sem sumt hvert er af erfðafræðilegum og öðrum ástæðum í áhættuhópum áfengisfíknar. Sumir verða hvítflibbarónar, aðrir venjulegir rónar, sumir afbrotamenn, aðrir aka fullir.

Nóg er til af hlutfallstölum um tíðni áfengisfíknar hér á landi og oft er talað um, að 15­20% Íslendinga lendi í erfiðleikum vegna hennar. Að minnsta kosti er um að ræða fjölmennan minnihlutahóp, sem skiptir tugum þúsunda. Meðferð sjúkdómsins er oftast erfið og stundum ókleif.

Munurinn á Reykjavík annars vegar og London, Kaupmannahöfn og Amsterdam hins vegar er meðal annars sá, að hér er ekki hægt að ganga að næturlagi um Austurstræti eins og við getum áhyggjulaust á Leicester Square, Kongens Nytorv og Dam. Áfengi veldur mismuninum.

Löggæzlan hefur meira eða minna gefizt upp á að halda uppi lögum og rétti í miðborg Reykjavíkur og dómstólar nota áfengisneyzlu sem afsökun til að draga úr refsingum samkvæmt kenningunni: “Hann var fullur, greyið”. Þetta eru skilaboð yfirvalda um linkind gagnvart áfengi.

Það er sama, hversu oft við verðum vör við, að áfengi er ekki bara böl, heldur einkennisböl Íslendinga, sem virðast ekki geta litið framan í annað fólk án þess að vera undir áhrifum. Þvert ofan í staðreyndir eru skilaboðin í þjóðfélaginu þau, að áfengi sé heppilegt slökunarlyf.

Meðan skilaboðin eru þessi, munum við áfram frétta af nýjum og nýjum harmleikjum afbrota, sem eiga upphaf sitt í svokölluðum guðaveigum, sem lífgi sálaryl.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjávarútvegur göslara

Greinar

Fiskveiðar okkar eru því miður ekki sjálfbærar, þótt landsfeður og hagsmunaaðilar fullyrði stundum, að stjórnkerfi fiskveiða geri auðlindinni kleift að endurnýja sig eðlilega. Nánast allir nytjastofnar við landið eru á niðurleið, sumir ört og aðrir hægt og sígandi.

Þorskurinn er líka á niðurleið, þegar til langs tíma er litið, þótt hann sé oftast nefndur sem dæmi um velgengni kvótakerfisins. Þorskveiði jókst að vísu á síðari hluta síðasta áratugarins, en það bætti ekki upp samdráttinn, sem hafði orðið áratugina á undan.

Ef skammtíma bylgjusveiflur þorskveiða eru jafnaðar út, sést bein lína, sem stefnir niður á við. Fram á sjötta áratuginn var heildarafli þorsks á Íslandsmiðum um 500.000 tonn á ári. Á tíunda áratugnum var heildaraflinn kominn niður í um það bil 200.000 tonn á ári.

Karfaaflinn hefur hrunið um helming frá 1994, úr rúmlega 140 þúsund tonnum í tæplega 70 þúsund tonn. Grálúðan hefur hrunið úr tæplega 60 þúsund tonnum árið 1989 í rúmlega 10 þúsund tonn. Ufsaaflinn hefur hrunið úr 100 þúsund tonnum í 30 þúsund tonn.

Síðan rækjan fór að gefa sig 1997 og 1998 er ýsan eini mikilvægi nytjastofninn, sem hefur haldið stöðu sinni nokkurn veginn óbreyttri. Það er ekki merkilegur verndunarárangur af fiskveiðistefnu, sem sögð er vernda auðlindir hafsins betur en aðrar slíkar.

Tjón okkar af ofveiðinni er meira en tölurnar hér að ofan lýsa. Þær segja aðeins frá því beina fjárhagstjóni, sem þegar er orðið. Þær mæla hins vegar ekki óbeina tjónið, sem við eigum eftir að sæta í kjölfar þess að komast ekki í fjölþjóðlega gæðastjórnarklúbba.

Slíkir klúbbar verða mikilvægir í framtíðinni. Stærstu matvælafyrirtæki heims hafa undanfarið lagt mikla áherzlu á að afla sér ímyndar vörugæða, hreinlætis og sjálfbærrar umgengni við auðlindir á borð við fiskistofna. Unilever fer þar fremst í flokki.

Norsk Hydro hefur reynt að afla sér svipaðrar ímyndar á sviði stóriðju. Þegar ráðamenn þess áttuðu sig á, að Reyðarál mundi eyða þessari nýju ímynd, fóru þeir að tala í kross og hlupust síðan á brott frá lagsbræðrum sínum í hópi íslenzkra göslara.

Landsfeður Íslands og hagsmunaðilar leggja mikla áherzlu á að útmála vonzku þessara útlenzku sjónarmiða og stappa stálinu hver í annan að láta ekki deigan síga. Hetjuskapur þeirra minnir á Þorgeir Hávarsson, þar sem hann hékk í hvönninni.

Þessi sjálfseyðingarhvöt íslenzkra skrípakarla var ítrekuð á Fiskiþingi í vetur, þar sem hagsmunaaðilar sjávarútvegs í sögufrægasta vælukór landsins grétu sáran yfir vondum umhverfisvinum í útlandinu, sem ætluðu að banna Íslendingum að veiða fisk.

Þrjú ár eru síðan Orri Vigfússon lagði til, að Ísland yrði ekki eftirbátur annarra í sjávarútvegi nútímans, heldur tæki forustu í nýjum samtökum um óháðar vottunarstofur og gæðastýringu, sem fæli í sér áherzlu á vöruvöndun, hreinlæti og sjálfbærar fiskveiðar.

Unilever og World Wildlife Fund tóku hins vegar forustuna í sameiningu og eru að framkalla nýjan veruleika í sjávarútvegi, sem endar með því, að auglýst verður á umbúðum með stimpli frá vottunarstofum, að varan sé ekki frá íslenzkum göslurum.

Í sjávarútvegi og stjórn sjávarútvegsmála höfum við látið stjórnast af skammsýnum bjánum, sem eiga eftir að valda okkur enn meira tjóni en þegar er orðið.

Jónas Kristjánsson

DV

Tölur án innihalds

Greinar

Ef utanríkisráðuneytið semdi skýrslu um kosti og galla aðildar fólks að Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness, mundi það finna út 1.500 króna árlegan kostnað við aðildina og engar tekjur á móti, ekki einu sinni styrki handa íslenzkum landbúnaði og afskekktum byggðum.

Þótt ráðuneytið hefði allar krónutölur aðildar að stjörnuskoðunarfélaginu á hreinu, stæði ekkert í skýrslunni, sem máli skipti. Þar væri ekkert um aðgang félagsmanna að stjörnukíki, félagsheimili, fræðibókasafni og samvistum við aðra áhugamenn um sama málefni.

Þannig er skýrsla ráðuneytisins um aðild að Evrópusambandinu. Þar er allt á hreinu um átta milljarða kostnað af aðildinni á hverju ári og fimm milljarða endurgreiðslur, einkum til landbúnaðar og afskekktra byggða. En tölurnar segja lítið um innihald sambandsins.

Augljóst er, að peningar streyma í bandalaginu frá ríkum þjóðum til fátækra þjóða. Samt hafa ríkar þjóðir gengið inn, af því að þær hafa séð, að allar þjóðir hafa grætt á aðildinni, ekki sízt þær, sem ríkastar voru. Aðild að Evrópusambandinu reiknast ekki sem núllsumma.

Aðildin felur í sér aðild að stórum markaði, aðild að evrópskri mynt, aðild að evrópskum möguleikum, aðild að evrópskum stöðugleika, aðild að ákvörðunum, sem nú eru teknar að okkur forspurðum og síðan þýddar á íslenzku í ráðuneytum landsins til notkunar á Íslandi.

Einnig er augljóst, að fámennar þjóðir ráða minna í bandalaginu en fjölmennar. Samt hafa fámennar þjóðir gengið inn, af því að þær hafa séð, að allar þjóðir hafa grætt á aðildinni, ekki sízt þær, sem fámennastar eru. Evrópusambandið hefur reynzt smáþjóðum gullnáma.

Ennfremur er augljóst, að samkeppni vex við inngöngu í bandalagið. Matvælaiðnaður hefur verið nefndur sem dæmi. Höfðað er til hræðslu fólks við samkeppni, sem sé af hinu illa, þótt reynsla vestrænna þjóða segi skýrum stöfum að allir málsaðilar græði á aukinni samkeppni.

Sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins felur í sér, að réttur til staðbundinna veiða byggist á veiðireynslu á þeim slóðum. Í fiskveiðilögsögu Íslands hafa nánast eingöngu Íslendingar veiðireynslu og hafa því einir rétt til veiðanna samkvæmt sjávarútvegsstefnu bandalagsins.

Ef Íslendingar hefðu ekki haft pólitíkusa á borð við utanríkisráðherra að stjórnmálamönnum um langan aldur, værum við fyrir löngu gengnir í Evrópusambandið, ættum sjávarútvegsráðherra þess og hefðum allra þjóða mest áhrif á frekari framvindu fiskveiðistefnunnar.

Það þýðir hins vegar ekki að segja fólki, að skerðing fullveldis yfir fiskimiðum sé af hinu góða. Það þýðir ekki að segja fólki, að Evrópusambandið sé ekki núllsumma. Það þýðir ekki að segja fólki, að beztu liðina vanti í dæmi átta milljarða útgjalda og fimm milljarða tekna.

Af ýmsum slíkum ástæðum mun skýrsla utanríkisráðuneytisins styrkja Íslendinga í þeirri trú, að ekki sé ráðlegt að ganga í Evrópusambandið og bezt sé að fylgjast með framvindunni, helzt um aldur og ævi. Menn munu vitna í reikningsdæmið og sjávarútvegsstefnuna.

Vinnubrögð af þessu tagi hafa þegar leitt til þess, að við höfum setið af okkur möguleika á að eignast ráðherra í Evrópusambandinu. Við höfum setið af okkur möguleika á að koma gengisfestu í ferðaþjónustuna og auka þar með arðsemi hennar. Við munum sitja fleira af okkur.

Hnípin og kvíðin þjóð, sem óttast erlenda strauma og sér hættur í hverju horni, velur sér landsfeður við hæfi og fær um Evrópusambandið skýrslur, sem hæfa henni.

Jónas Kristjánsson

DV

Brunað suður göngin

Greinar

Jarðgöng hafa ekki hjálpað Flateyri, Siglufirði og Ólafsfirði. Atvinnulíf hefur oftast gengið treglega og fólki hefur fækkað hraðar en áður. Síðan göngin komu hafa menn getað flúið árið um kring. Og nú vilja Siglfirðingar önnur göng til viðbótar þeim, sem fyrir eru.

Við þekkjum að reynslunni, að opinber starfsemi hverfur smám saman af hagkvæmnisástæðum út fyrir göng. Embætti ríkisins flytjast til Ólafsfjarðar og Akureyrar, síðan skólarnir og loks bæjarstjórnin sjálf. Lítum bara á reynslu Flateyringa af göngunum fyrir vestan.

Gerð jarðgangna á það sammerkt með annarri byggðastefna hins opinbera, að hún stöðvar ekki þróunina og hægir ekki einu sinni á henni. Fólk hefur jafnt og þétt verið að flytjast suður alla tuttugustu öldina og mun halda áfram að flytjast suður á tuttugustu og fyrstu öld.

Áhrifasvæði jarðgangnanna á Vestfjörðum væri nánast komið í eyði, ef ekki hefði komið himnasending flóttamanna frá útlöndum, sem halda uppi vestfirzku atvinnulífi um þessar mundir. Innflutningur nýbúa er raunar eina byggðastefnan, sem hefur verkað hér á landi.

Reynsla okkar af göngum, öðrum en í Hvalfirði, bendir ekki til neinnar arðsemi af þeim. Hún sýnir ekki, að göng séu eign, sem unnt sé að meta til fjár eins og ýmsar aðrar eignir ríkisins, svo sem banka, landssíma og landsvirkjanir. Göng afskrifast þvert á móti umsvifalaust.

Þess vegna væri rangt að fara að tillögu samgönguráðherra um að nota tekjur af sölu ríkiseigna til að fjármagna jarðgöng. Slíkar tekjur á að nota til að greiða niður skuldir ríkisins. Ef reyta á verðmætar eignir af ríkinu er lágmarkskrafa, að skuldir þess minni að sama skapi.

Íslenzkir pólitíkusar eru vísir til að éta út eignir ríkisins og skilja það eftir slyppt, ef þeir komast gagnrýnislaust upp með að velja auðveldustu leiðina hverju sinni. Þess vegna er nauðsynlegt, að haldið verði uppi fræðilegri gagnrýni á veruleikafirrt hugmyndaflug þeirra.

Vegna eignastöðu ríkisins er óráðlegt að taka lán til að grafa göng og auka þannig skuldirnar án þess að arðbærar eignir komi á móti. Hins vegar mætti ríkið taka lán til að auka flutningsgetu helztu samgönguæða höfuðborgarsvæðisins, því að þjóðhagslegur arður er af slíku.

Þar sem arðsemismunur er á jarðgöngum í strjálbýli og samgöngubótum í þéttbýli, er skynsamlegt að fjármagna jarðgöng af aflafé ríkisins, þótt taka megi lán til að fjármagna aðgerðir, þar sem umferð er mikil. Svigrúmið er meira í framkvæmdum, sem gefa af sér arð.

Þar með höfum við íslenzka byggðastefnu í hnotskurn. Valið stendur milli arðlausra verkefna í þágu byggðastefnu og arðbærra verkefna í þágu almennrar hagþróunar landsins. Að venju verður fundin pólitísk millileið, sem blandar saman arðlausum verkum og arðbærum.

Hitt má svo ljóst vera, að jarðgöng eiga það sammerkt með annarri fjárfestingu í byggðastefnu, að þau hindra fólk ekki í að flytjast þangað, sem það vill flytjast. Allir milljarðarnir, sem sáð er á hverju ári í byggðastefnu, falla í grýtta jörð. Fólk sogast áfram í átt til tækifæra.

Unga fólkið sér ekki framtíðartækifæri sín við færibönd fiskvinnslunnar. Það sér þau heldur ekki við bræðslupotta álveranna. Eins og í öðrum vestrænum löndum verða það einkum flóttamenn frá enn verra ástandi, sem munu sætta sig við færibönd og bræðslupotta.

Hvar sem göng verða grafin, mun unga fólkið bruna gegnum þau alla leið suður, þar sem það væntir tækifæra í tengslum við hátækni tuttugustu og fyrstu aldar.

Jónas Kristjánsson

DV

Gott á ykkur

Greinar

Dómur Hæstaréttar í Vatneyrarmálinu sendir þau skilaboð til ykkar, að þið berið sjálf fulla ábyrgð á gerðum ykkar og aðgerðaleysi, en getið ekki vænzt þess, að kæruglaðir sérvitringar og dómskerfið hlaupi í skarðið. Þjóðin fái þau lög, sem hún eigi skilið.

Þótt úrskurðurinn verði kærður til fjölþjóðlegra dómstóla, er óvíst, að það breyti miklu. Þeir kunna að komast að sömu niðurstöðu og Hæstiréttur, að fiskveiðistjórnarlögin rúmist innan ramma réttlætis, enda er algengt, að lög og reglur skekki jafnræði borgara.

Hefð er fyrir byggðastefnu, sem stríðir gegn jafnræði. Komið hefur verið á fót greiðsluhlutdeild notenda ýmissar þjónustu ríkisins, sem leiðir til þess, að fátæklingar nota þjónustuna síður en efnafólk. Einkavæðing hefur oft reynzt vera einkavinavæðing.

Ýmis fleiri dæmi má rekja um, að margs konar mismunun rúmast innan ramma þjóðskipulagsins, þótt erlendir dómstólar hafi í öðrum tilvikum þrengt að möguleikum löggjafarvalds og framkvæmdavalds til að taka sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni.

Í hinum vestræna heimi ríkir sífelld barátta milli sérhagsmuna og almannahagsmuna, þar sem hinir fyrrnefndu eru studdir góðu skipulagi og miklum fjármunum. Dæmi um það er yfirburðastaða framleiðenda handvopna og tóbaks í Bandaríkjunum.

Ef kjósendur eru eins sannfærðir um nauðsyn réttlætis og jafnræðis í fiskveiðistjórnun og ítrekaðar skoðanakannanir benda til, geta þeir einfaldlega látið þá sannfæringu stjórna gerðum sínum, þegar þeir taka þátt í kosningabaráttu og kjósa sér fulltrúa.

Fyrir síðustu kosningar var meira eða minna ljóst öllum þeim, sem skilja vildu, hvaða stjórnmálamenn og hvaða stjórnmálaflokkar styddu núverandi yfirburðastöðu sérhagsmuna í fiskveiðistjórnun og hverjir ætluðu að láta þá víkja fyrir almannahagsmunum.

Eyjabakkamálið er enn alvarlegra dæmi um vannýtta möguleika kjósenda á að hafa áhrif á gang mála. Fyrir síðustu kosningar var meira eða minna ljóst öllum þeim, sem höfðu skilningarvitin opin, hverjir ætluðu að bera umhverfissjónarmiðin ofurliði.

Það voru ekki kjósendur, sem stöðvuðu fórnfæringar Fljótsdalsvirkjunar. Að hluta voru það umhverfisvinir, sem skutu Norsk Hydro skelk í bringu, en að stærstum hluta voru það peningalegar staðreyndir brostinna gróðavona, sem tóku fram fyrir hendur Alþingis.

Í báðum þessum tilvikum var eindreginn vilji þjóðarinnar í annarri metaskálinni fyrir og eftir alþingiskosningarnar í fyrra, en kjósendur ákváðu samt að leggja lóð sitt í hina metaskálina. Það þýðir svo ekki að koma á eftir og kvarta yfir alþingismönnum.

Ef kjósendur vilja láta helztu hjartans mál sín, eins og þau mælast í skoðanakönnunum, ná fram að ganga, verða þeir að láta þau njóta forgangs fram yfir önnur sjónarmið, þegar þeir velja sér stjórnmálaflokka og alþingisfulltrúa. Þetta hafa þeir ekki gert.

Dómur Hæstaréttar í Vatneyrarmálinu er þörf áminning til kjósenda um, að enginn getur fjarlægt pólitíska ábyrgð þeirra á réttlæti og ranglæti, jafnræði og mismunun. Hæstiréttur hefur staðfest fullveldi Alþingis, sem starfar á vegum kjósenda sjálfra.

Erlendis refsa kjósendur stundum flokkum og fulltrúum sérhagsmuna á kjördegi, en hér fá þeir að ólmast að vild. Þið eruð ykkar eigin gæfu smiðir.

Jónas Kristjánsson

DV

Tveir fiskar

Veitingar

Loksins er kominn til skjalanna veitingastaður, sem hefur eitthvað fram að færa til viðbótar því, sem fyrir er. Tveir fiskar í Hafnarbúðum er vandaður sjávarréttastaður með ágætum hráfiski að japönskum hætti, yfirlætislaus og siðmenntaður, ólíkur flestum matstofum, sem opnaðar hafa verið undanfarna mánuði.

Að vísu eru Tveir fiskar mjög dýrir. Þríréttuð máltíð með kaffi kostar að meðaltali 2890 krónur í hádeginu og 4340 krónur á kvöldin. Stundum er í boði fast verð á matseðli með vali milli einstakra rétta og þá hefur þríréttað með kaffi kostað 2100 krónur í hádeginu og á kvöldin, sem er frábært verð. Eina leiðin til að vita, hvenær háa verðið gildir og hvenær frábæra verðið, er að spyrja áður í síma 511 3474 og haga seglum eftir því.

Hafnarbúðir eru upphaflega illa hannaðar, svo að útsýnið er ekki út á höfnina til smábátanna, heldur austur eftir Geirsgötu til Arnarshóls. Anddyrið er fremur tómlegt, en innrétting veitingasalarins sjálfs er hins vegar góð. Þar ræður að mestu ríkjum japönsk naumhyggja, berir veggir, með brúnni leirflísarönd sjávaraflamynda á aðra hönd og bláum postulínsflísum á hina. Framan við bláu flísarnar sker í augu sushi-skenkur úr massífum og grófum burðarviðum.

Við skenkinn stendur kínversk matmóðir með þjálfuðu handbragði og býr til marga tugi tegunda af japönskum hráfiski, sushi-hrísgrjónaklatta, maki-hrísgrjónarúllur og sahsimi án hrísgrjóna. Þessi matreiðsla á staðnum ber eins og gull af eiri af verksmiðjuframleiddu sushi, sem borið er fram á flestum nýju veitingastöðunum. Hún er raunar merkasta framlagið til menningarárs Reykjavíkur, sem ég veit um.

Fimm stykki af hráfiski eru í forrétti og tíu í aðalrétti. Það geta verið sex hrísgrjónaklattar með smálúðu, karfa, hörpuskel, túnfiski, humri og lax og fjórar hrísgrjónarúllur með surimi, túnfiski, ál og osti. Ekki eru síðri kaup í sérpöntuðum hráfiski, svo sem hrísgrjónaklöttum með ölduskel og ál og hrísgrjónarúllum með loðnuhrognum og krabbakjöti.

Fiskur hefur undantekningarlaust verið nákvæmlega og nærfærnislega eldaður að nýfrönskum hætti með höfuðáherzlu á eðlisbragð hráefnisins. Þar á meðal var pönnusteikt tindabikkja með rauðvínssósu, afar góðum olífum og grilluðum kartöfluþráðum. Ennfremur grilluð keila með fínasta mauki seljustöngla og epla og með balsamik-olíusósu. Einnig smjörsteiktur karfi með soðsósu og sprengdu hveiti. Ekki sízt ofnbakaður þorskur með smjörsteiktum grænmetisþráðum, kúskus og smásöxuðum og ristuðum og mikið pipruðum eplum.

Forréttir voru til fyrirmyndar. Frábær var frönsk fiskisúpa tær með mörgum tegundum fisks í þunnum sneiðum, svo og kræklingi í skelinni. Litlu síðri var tær graskersúpa, óvenjulegur réttur. Ennfremur hráar túnfiskþynnur með balsamik-olíusósu, laxahrognum, blaðsalati og furuhnetum. Næstum eins góð var risahörpuskel á tómatgrunni með steiktum eggaldinþynnum. Indæll var kryddleginn og léttsteiktur svartfugl með soja og sætri og fínni rauðrófusósu. Mögnuð og ilmrík voru steikt hrísgrjón með villisveppum og risarækjum.

Eina feilnótan í matreiðslunni var seig andabringa krydduð með engifer og sesam, of lengi elduð, borin fram með rófubitum. Sítrónuterta var einföld og létt, borin fram með þrenns konar ferskum berjum. Kaffi var gott, bæði espresso og pressukaffi.

Hér er drifhvítt í dúkum og þurrkum. Hér er borðbúnaður hvorki ferkantaður né marglitur, heldur einlitur og siðmenntaður. Hér er fjölbreyttur og fínn vínlisti, með ýmsu góðu víni hússins. Hér er þjónusta fagleg og vinsamleg, stundum seinleg, þegar mikið er að gera. Hér koma vatn og volgar brauðkollur á borð eftir þörfum. Þetta er menningarauki.

Jónas Kristjánsson

DV

Samsæri gegn ungu fólki

Greinar

Byggðagildrur taka á sig ýmsar myndir. Ríki og sveitarfélög beita margvíslegum ráðum til að frysta liðna tíma í atvinnuháttum og búsetu. Á hverju ári er milljörðum varið í byggðagildrur, án þess að árangur hafi verið eftirtektarverður. Unga fólkið lætur ekki ánetjast.

Ríkið, stofnanir þess og sjóðir borga láglaunafyrirtækjum fyrir að starfa í byggðagildrum. Sveitarfélög byggðagildranna brenna sameiginlegum peningum íbúanna í hlutafé hallærisfyrirtækja, meðan önnur sveitarfélög geta notað sína peninga óskerta í þjónustu fyrir íbúana.

Með múgæsingu smábyggða-þjóðernis er almenningur í þessum sveitarfélögum fenginn til að leggja hlutafé í staðbundið sukk og fallast á síðbúnar og lágar launagreiðslur. Íbúarnir fara því sjálfir fjárhagslega halloka í samanburði við þá, sem ekki búa í byggðagildrum.

Staðbundnir lífeyrissjóðir bregðast trúnaði við félagsfólk og sóa lífeyri þess í staðbundna erfiðleika atvinnulífsins. Þannig er ekki bara ráðizt að nútíð íbúa byggðagildranna, heldur er framtíð þeirra fórnað líka. Þeir geta ekki notið áhyggjulauss ævikvölds til jafns við aðra.

Einna alvarlegast er samsærið gegn unga fólkinu. Það er hvatt til að hafa skólagöngu stutta og koma heldur til starfa við færibönd láglaunafyrirtækisins. Það er hvatt til að byggja sér verðlaust íbúðarhús, borga vinnuveitandanum hlutafé og láta lífeyrissjóðinn sóa sparifénu.

Meðan stór hluti þjóðarinnar er kominn á fulla ferð inn í 21. öldina, reynir byggðagildran að frysta 19. öldina á eins konar byggðasöfnum hér og þar um landið. Stórfenglegasta afturhaldsemi af þessu tagi er byggðagildra Fjarðarbyggðar og félagsins Afl fyrir Austurland.

Ráðamenn sveitarfélagsins og hugsjónafélagsins reyna að tromma upp múgæsingu heimamanna til stuðnings því, að álver verði reist á Reyðarfirði til að koma í veg fyrir, að unga fólkið afli sér menntunar til starfa 21. aldar hvar sem er í landinu og hvar sem er í heiminum.

Þeir sjá fyrir sér trygga vaktavinnu unga fólksins við að kraka í bræðslupottum álvers á Reyðarfirði á heldur hærra kaupi en það hefði haft við færibönd fiskvinnslunnar, en neiti sér um tækifærin, sem nútíminn veitir æskunni umfram þá, sem voru ungir í gamla daga.

Það vita allir, sem vita vilja, að unga fólkið dreymir hvorki um færibönd né bræðslupotta. Þess vegna ber Fjarðabyggð annaðhvort að gera staðinn gildandi í atvinnugreinum 21. aldar eða gefa unga fólkinu frelsi til að leita þeirrar aldar á framfarasinnaðri slóðum.

Í álvers-offorsi sínu lætur Fjarðabyggð hjá líða að búa í haginn fyrir atvinnugreinar 21. aldar, til dæmis með því að leggja mikla áherzlu á menntun unga fólksins í hugbúnaðargreinum og með því að bjóða hugbúnaðarfyrirtækjum lága húsaleigu og góðar tengingar við netið.

Svo langt gengur ruglið, að kennari fyrir austan var sakaður um að mennta unga fólkið burt af svæðinu. Sú ásökun sýndi byggðagildruna í sinni svæsnustu mynd. Menn líta á unga fólkið eins og ánauðuga lénsbændur og ráðast á þá, sem vilja veita því frelsi til að velja sjálft.

Byggðagildra er glæpur og byggðagildra Fjarðabyggðar er mikill glæpur. Hún er glæpur gegn ungum og ófæddum Austfirðingum, tilraun til að draga úr vilja þeirra til að nýta sér tækifæri nútímans. Hún er glæpur vælukjóa, sem hafa gefizt upp á baráttunni fyrir betra lífi.

Samsærið gegn ungum Austfirðingum hefur sem betur fer sprungið. Byggðagildrumönnum hefur ekki tekizt að dæma þá til lífstíðar-ánauðar við bræðslupottana.

Jónas Kristjánsson

DV

Sameining er böl

Greinar

Hrollvekjandi hefur verið að sjá fögnuð ráðherra og ráðunauta út af fyrirhugaðri sameiningu Landsbankans og Búnaðarbankans. Þeir halda fram í fúlustu alvöru, að sameiningin muni hafa í för með sér lægri vexti og lægri þjónustugjöld hjá viðskiptamönnum bankanna.

Þegar fjöldi fyrirtækja í hverri atvinnugrein er kominn niður fyrir ákveðið lágmark, er frekari sameining ekki viðskiptamönnum til hagsbóta. Þetta höfum við séð í olíuverzlun og tryggingum, matvöruverzlun og farþegaflugi. Samkeppni breytist í fákeppni, sem breytist í fáokun.

Fjármálastofnanir eru orðnar svo fáar hér á landi, að sameining þeirra verður viðskiptamönnum til bölvunar. Vandinn er tiltölulega lítill í sameiningu Íslandsbanka og Fjárfestingarbankans, af því að síðari bankinn starfar nánast ekkert á markaði einstaklinga og einyrkja.

Þeim mun meira er böl almennings af sameiningu Landsbankans og Búnaðarbankans, sem báðir eru fyrirferðarmiklir á almennum markaði. Bönkum á slíkum markaði fækkar úr þremur í tvo við slíka sameiningu, ef staðbundnir sparisjóðir eru ekki taldir með.

Sérstakt áhyggjuefni er að sjá fögnuð stjórnmálamanna, sem ættu stöðu sinnar vegna að reyna að gæta hagsmuna almennings. Nýi bankaráðherrann fer þar fremstur og gefur þar með litlar vonir um, að hún gæti hagsmuna almennings við frekari framvindu bankasameiningar.

Auðvitað hefur sameining hliðstæðra fyrirtækja hagræðingu í för með sér. Unnt er að fækka afgreiðslustöðum og segja upp starfsfólki. Þessi hagræðing er til að byrja með notuð til að auka arðsemi hlutafjár í þessum bönkum og kemur hluthöfum þeirra einum að gagni.

Þegar fram í sækir, eflist fáokunin hins vegar og stofnanir fáokunar fara að semja um markaðinn sín á milli. Við brottfall samkeppninnar minnkar hagræðingin aftur, en arðsemisþörf hluthafanna ekki, og viðskiptamennirnir verða enn einu sinni sem oftar látnir borga brúsann.

Öll samkeppni stefnir að einokun. Fyrirtæki, sem vel gengur, bola öðrum úr vegi eða kaupa þau. Smám saman fækkar fyrirtækjum og fyrri samkeppnislögmál hverfa í skuggann. Sérstaklega er hætt við þessu hér á landi, þar sem allur markaður er lítill og fyrirtæki yfirleitt fá.

Við höfum bezt séð þetta í þróun matvöruverzlunar síðustu áratugi. Með tilkomu Hagkaups og síðar Bónuss fór vöruverð í landinu lækkandi, verðbólga minnkandi og hagur almennings batnandi. Verzlanir þessar gerðu á sínum tíma meira fyrir fólk en samanlögð stéttarfélögin.

Þegar sameining í matvöru náði ákveðnu stigi, snerist þetta við. Það byrjaði í hittifyrra og ágerðist í fyrra, að vöruverð fór hækkandi á nýjan leik. Þær fáu keðjur, sem eftir voru, komu sér fyrir í ákveðnum hillum á markaðinum og leyfðu verðinu smám saman að stíga.

Áhugamenn um arðsemi fyrirtækja og hag hluthafa geta fagnað þessari þróun, sem fjarlægir áhættuna og gerir lífið þægilegt. Þeir, sem hins vegar hafa atvinnu af því að gæta hags almennings, hafa litla ástæðu til að fagna og forsætisráðherra hefur ekki dulið gremju sína.

Í ljósi erlendrar og innlendrar reynslu er furðulegt, að hér skuli dögum saman verið sunginn fagnaðaróður fyrirhugaðrar sameiningar Landsbanka og Búnaðarbanka. Eru ráðherrar svona heimskir eða eru þeir svona forstokkaðir? Eða eru það ráðgjafar, sem stjórna ruglinu?

Bankasameining breytir fákeppni í fáokun og saumar fjárhagslega að þeim viðskiptamönnum, sem ekki hafa burði til að sækja bankaþjónustu til útlanda.

Jónas Kristjánsson

DV

Frekjur haltra af velli

Greinar

Það kemur ekki á óvart, að fjárfestar í Reyðaráli hafa áttað sig á, að þeir væru á villigötum með þrepabyggt álver á Reyðarfirði og Fljótsdalsvirkjun með uppistöðulóni á Eyjabökkum. Þeir voru síðastir allra til að átta sig á, að dæmið gekk alls ekki upp fjárhagslega.

Um og eftir áramótin hafa opinberlega komið fram skýr gögn og útreikningar, sem sýna, að hvort tveggja er óhagkvæmt, 120 þúsund tonna álver á Reyðarfirði og Fljótsdalsvirkjun með Eyjabakkalóni. Baráttumenn framkvæmdanna hafa ekki átt svör við þessu.

Norsk Hydro var þar að auki viðkvæmt fyrir gagnrýni í Noregi á aðild fyrirtækisins að mesta umhverfisslysi nútímans hér á landi. Forráðamenn þess voru fyrir löngu byrjaðir að draga í land með sífellt dauflegri yfirlýsingum um fjárhagslega hlutdeild sína.

Á endanum var málið komið í þá stöðu, að ráðamenn lífeyrissjóða landsmanna áttu að bera fjárhagslega höfuðábyrgð á framkvæmdum, sem hefðu rústað væntingar sjóðfélaganna um áhyggjulaust ævikvöld. Þeir sáu ljósið síðastir allra og sögðu að lokum pass.

Á þessum tímamótum er lærdómsríkt að líta yfir furðulegan feril málsins, frekjuna og offorsið, sem einkenndi það allan tímann. Ástæða er til að undrast, að Landsvirkjun skuli hafa varið milljörðum til undirbúnings framkvæmda, sem fjárfestar hafa nú hafnað.

Í ljós kom, að Landsvirkjun hefur ekki hæfa reiknimeistara til að meta fjárhagshliðar ýmissa virkjunarkosta. Starfsmenn stofnunarinnar, sem tóku þátt í umræðunni í vetur, urðu sjálfum sér og stofnuninni til skammar. Eitthvað mikið er að á þeim bæ.

Ekki er minni ástæða til að efast um dómgreind ríkisstjórnar, sem ólmaðist eins og naut í flagi, hafnaði öllum málamiðlunartilraunum, keyrði út á yztu nöf á gráu svæðunum, hafnaði lögformlegu umhverfismati og klauf þjóðina í tvær andstæðar fylkingar.

Sérstaklega er athyglisverð staða Framsóknarflokksins, sem er systurflokkur mjög grænna, norrænna miðflokka landsbyggðarinnar. Hér hefur þessi flokkur hins vegar gerzt and-grænn, nánast svartur, og er sem óðast að tapa fylgi sínu yfir til vinstri grænna.

Hvaða dómgreindarskortur knúði þrjá ráðherra Framsóknarflokksins, utanríkisráðherra, umhverfisráðherra og fyrrverandi iðnaðarráðaherra til að smíða sér pólitískar líkkistur á þennan hátt? Hvernig gat kjördæmispot eins þeirra leitt þá í slíkar ógöngur.

Raunar varð ósigur þeirra ljós um leið og þáverandi iðnaðarráðherra lagðist beinlínis niður í sína pólitísku líkkistu og lét flytja sig á elliheimili pólitíkusa í Seðlabankanum. Samt héldu hinir tveir áfram að þylja gömlu klisjurnar í vaxandi vonleysi.

Eftir meira en þriggja milljarða króna útgjöld Landsvirkjunar er málið komið aftur á byrjunarreit. Eyjabakkalónið er endanlega úr myndinni og allar framkvæmdir verða að sæta lögformlegu umhverfismati, sem ríkisstjórnin hafði svo mikið fyrir að hindra.

Fram undan er önnur borgarastyrjöld í umhverfismálum og í það skiptið um verndun stærsta ósnortna víðernis í Evrópu. Þjóðin á eftir að taka afstöðu í þeirri deilu, en nú þegar er ljóst, að í þeim umgangi neyðast stjórnvöld til að fara eftir settum leikreglum.

Þeir, sem nú hafa verið staðnir að peningaaustri, röngu fjármunamati, kjördæmispoti og pólitískri frekju, munu koma haltrandi til þeirrar styrjaldar.

Jónas Kristjánsson

DV

Café Bleu

Veitingar

Café Bleu felur í sér hvert rýmið á fætur öðru í U utan um nokkra skyndibitastaði á veitingasvæði Kringlunnar. Inngangurinn er um annan endann á u-inu, þar sem er kaffiborða- og tágastólasvæði með útsýni yfir neðri hæðina. Í hinum endanum á u-inu er stórt og dimmt glerbúr, eins konar reyksalur með mörgum litlum borðum. Milli endanna er reyklaust svæði, vinkillaga rangali með föstum básum. Hver stíllinn tekur við af öðrum, ef stíl skyldi kalla.

Þjónusta er vakandi og jákvæð og bætir upp losarabrag hönnunarinnar. Vel er séð fyrir nógu vatni og meiru af góðu kryddbrauði, án þess að beðið sé um það. Með brauðinu fylgir ágætis kryddolía í stað smjörs, til heilsusamlegrar fyrirmyndar. Lúxus er lítill, engir dúkar á borðum og munnþurrkur úr pappír. Staðurinn er oft fullsetinn í hádeginu.

Café Bleu er ódýrastur af hefðbundnum matstöðum fullrar þjónustu á þessu svæði. Þríréttað með kaffi á kvöldin kostar þar 3.200 krónur, 3.600 í Hard Rock og 4.100 í Eldhúsinu. Í hádeginu er tilboð dagsins 790 krónur án súpu í Café Bleu, en 950 krónur með súpu í Hard Rock og Eldhúsinu.

Matseðillinn er tilraun til að geðjast sem flestum, blendingur þekktra rétta úr ýmsum áttum, sitt lítið frá Indlandi og Kína, Thailandi og Japan, Rússlandi og Norður-Afríku, en mest frá Ítalíu og Frakklandi, svo og franskar og bökuð frá Ameríku og kremsúpa frá Íslandi. Espresso-kaffi er ekta og danskt kaffi gott, en vondur er langi saltbrauðsstauturinn, er fylgir nánast öllum réttum sem einkennistákn staðarins.

Tærar súpur dagsins voru ágætar, mild gulrótarsúpa og hæfilega sterk tómat- og blaðlaukssúpa. Kremsúpa dagsins var blessunarlega þunn sem slík, mild og notaleg tómatfiskisúpa án sterka humarskeljabragðsins, sem víða er keyrt upp í veitingahúsum hér á landi.

Sushi er svipað og víðast annars staðar í bænum, líklega úr fabrikku úti á landi, í algerri þversögn við hugmyndafræði þessarar matreiðslu í Japan. Pönnusteikt og bragðdauf rispahörpuskel var losaraleg og virtist vera úr surimi-fabrikku, borin fram með fallegu salati og litskrúðugum sósum.

Ágæt voru grilluð eggaldin með kúskus, hrásalati, ostbökuðum tómati og sesamkryddaðri olíu. Eldislax var góður matur, hæfilega grillaður, brenndur utan og mjúkur að innan. Í annað skiptið lá hann undir ofsöltuðum, djúpsteiktum kartöfluþráðum og ofan á sveppasteiktum hrísgrjónum og þurrkuðum tómötum. Í hitt skiptið var engifer stungið í rifur í roðinu og laxinn borinn fram með mildu súrkáli og maukuðum seljustönglum, fyrirmyndar réttur.

Lakari var lúðan, sem var þurr og bragðdauf, greinilega úr frysti, borin fram með parma-osti, sólþurrkuðum tómötum, jóðlandi í olífuolíu og maukuðu spínati. Sinnepsgljáðar grísalundir voru líka of þurrar og bragðdaufar, bornar fram með eins konar káljafningi í sýrðum rjóma. Bezti kjötrétturinn var óvenjulega bragðsterkur, indverskur tandoori-kryddaður kjúklingur, afar meyr og safaríkur, með fullsaltri skorpu, borinn fram með smásöxuðu og pönnusteiktu grænmeti.

Matreiðslan á Café Bleu var aldrei vond og stundum nokkuð góð. Þar er hver stíllinn á fætur öðrum eins og í innréttingunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Indland er bandamaður

Greinar

Ferð Clintons Bandaríkjaforseta til Indlands og Pakistans markar tímamót í alþjóðapólitík. Vandræðaríkinu Pakistan hefur verið skipt út sem bandamanni og það látið víkja fyrir fjölmennasta lýðræðisríki jarðarinnar, Indlandi, sem loksins hlýtur vestrænan sess við hæfi.

Indland er eðlilegur bandamaður Vesturlanda. Það hefur áratugahefð lýðræðislegra stjórnarhátta, þrískiptingar ríkisvaldsins, eðlilegra stjórnarskipta, málfrelsis og mannúðar og hefur á síðustu árum eflt markaðsbúskap í stað ríkisforsjár með góðum árangri.

Indland er síður en svo vandamálalaust ríki, enda er það eiginlega heil heimsálfa með milljarði íbúa, ótal tungumálum og ævafornri stéttaskiptingu. En landið hefur lengi verið klettur í hafi ótryggrar Asíu og mjakast hægt og örugglega götuna fram eftir vegi.

Menningarheimur Indlands er að því leyti líkur menningarheimi Japans og Rússlands og ólíkur menningarheimi Íslams og Kína, að hann fellur að hugmyndafræði vestræns lýðræðis og markaðsbúskapar. Þetta mun skipta máli í átökum menningarheimanna á 21. öld.

Pakistan er hins vegar dæmi um veruleg aðlögunarvandamál margra íslamskra ríkja. Þar skiptast á um völd lýðræðislega kjörnir þjófar og valdaránsmenn hersins, enda er flest á fallanda fæti í landinu, þjóðartekjur fara minnkandi og fjárhagslegt gjaldþrot blasir við.

Nú er við völd valdaránsmaður úr hernum, Pervez Musharraf, sem lengst gekk fram í fyrra við að stofna til vandræða innan landamæra Indlands í Kasmír. Hann ofsækir stjórnarandstæðinga og hefur rekið hæstaréttardómara fyrir að vilja ekki sverja sér trúnaðareiða.

Clinton Bandaríkjaforseti varði fimm dögum í glaumi og gleði í Indlandi og varði síðan dagparti í Pakistan eins og hann væri í óvinaríki, neitaði að láta mynda sig með Musharraf og flutti sjónvarpsávarp um, að stjórn hans yrði að skipta um stefnu eða einangrast ella.

Skyndilega er liðinn sá tími, þegar Pakistan var hálfgert leppríki Bandaríkjanna, teflt fram gegn óformlegu sambandi Indlands og Sovétríkjanna sálugu. Nú er kalda stríðið fyrir löngu að baki og fyrir jafn löngu tímabært að skipta út bandamönnum á þessu svæði.

Um leið sjást þess merki í bandaríska þinginu, að menn eru að átta sig á, að misráðnar hafa verið langvinnar gælur Bandaríkjanna við Kína og að endurskoða þurfi ráðagerðir um aðild alræðisríkisins að alþjóðlegum félagsskap markaðsbúskapar í Heimsviðskiptastofnuninni.

Kína er ekki ríki laga og réttar, heldur geðþótta, þar sem vestrænir fjárfestar hafa glatað og munu áfram glata fé sínu. Kínastjórn er útþenslusinnuð, ofbeldishneigð og siðlaus, hefur í frammi styrjaldarhótanir, sem engum öðrum ríkisstjórnum heimsins mundi detta í hug.

Kínastefna bandarískra stjórnvalda er feilnóta, ættuð frá Nixon og Kissinger, sem þóttust ranglega hafa vit á alþjóðapólitík. Nú er færi á að losna við þessa pólitík, sem skaðar hagsmuni Vesturlanda, og efla í þess stað sambúð við lýðræðisríki markaðsbúskapar í Asíu.

Indland er næstum eins fjölmennt ríki og Kína og verður vænlegri bandamaður í upphafi nýrrar aldar, traustari aðili í fjárhagslegum samskiptum og ólíklegt til að reka rýtinginn í bak Vesturlanda. Þess vegna ber Vesturlöndum að efla Indland til forustu í Asíu.

Það er gömul saga, að pólitískt og fjárhagslega er farsælast að eiga samskipti við þá, sem hugsa svipað og hafa svipaðar leikreglur og maður þekkir sjálfur.

Jónas Kristjánsson

DV

Ekki teflon-húðaður

Greinar

Forsætisráðherra er ekki teflon-húðaður, þrátt fyrir öll fyrri merki þess. Eftir margar atrennur hefur Davíð Oddssyni loksins tekist að verða óvinsæll. Atlaga hans að auglýsingum öryrkja var fjöðrin, sem réð úrslitum á vegasaltinu. Kvóti Davíðs reyndist vera takmarkaður.

Auglýsingar öryrkja voru ekki eina umræðuefnið, sem var forsætisráðherra andstætt í vetur. Umræðan um fjárreiður stjórnmálaflokka hefur í heild sinni verið stjórnarflokkunum öndverð og mest þeim, sem héldu uppi vörnum, forsætisráðherra og fjármálaráðherra.

Á einum ársfjórðungi hafa óvinsældir forsætisráðherrans fjórfaldast og vinsældirnar minnkað um fjórðung. Þetta er í fyrsta skipti á ferli hans, að óvinsældirnar eru meiri en vinsældirnar. Svona getur farið, þegar ósigrandi hetjur storka örlögunum einu sinni of oft.

Hnekkir Davíðs skiptir máli, ekki aðeins sem viðvörun fyrir hann sjálfan, heldur einnig þá meðreiðarmenn hans, sem hafa upp á síðkastið reynt að stæla vinnubrögð hans í hroka og yfirgangi gagnvart umhverfi sínu, einkum þó fjármálaráðherrann og krónprinsinn Geir Haarde.

Svo langt hefur geðleysi stuðningsmanna hetjanna gengið, að farið var að tala um sjálfspyndingarþörf, þótt raunin sé sú, að stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins telja það verkefni forustumanna sinna en ekki sjálfs sín að hafa skoðanir á hlutunum og framkvæma þær.

Þar sem töfraljómi forsætisráðherra hefur dofnað í myrkri örorkunnar, er hugsanlegt, að kjósendur fari að átta sig á, að ekki er allt, sem sýnist. Það er ekki Framsóknarflokkurinn einn og hinir ógæfusömu ráðherrar hans, sem bera ábyrgð á rangri stjórnarstefnu.

Ráðamenn Sjálfstæðisflokksins eru hornsteinar gjafakvóta sægreifanna í sjávarútvegi, milljarðasukksins í landbúnaði, ofbeldis ríkisvaldsins gegn ósnortnum víðernum landsins og einkavinavæðingar alla leið á yztu nöf ókeypis afhendingar á sjúkraskrám landsmanna.

Geðlausir stuðningsmenn sættu sig við allt þetta, meðan þeir töldu, að forsætisráðherra skaffaði okkur góðæri. Nú er hins vegar svo komið, að Þjóðhagsstofnun og Seðlabanki vara við verðbólgu, sem ekki er lengur hin sama og í nágrenninu, heldur þreföld á við hana.

Á þessum ársfjórðungi, sem álit manna á forsætisráðherra hefur hrunið, hefur Samfylkingin reytt af Sjálfstæðisflokknum fylgi, sem nemur sex­sjö þingmönnum. Ef Samfylkingin er að ná vopnum sínum eftir heils árs formannsleysi, er flokkur allra stétta kominn í vanda.

Ef sú staða verður nú varanleg í könnunum, að stjórnarandstaðan haldi til jafns við ríkisstjórnarflokkana, má búast við, að ríkisstjórnin fari að gæta betur að sér. Ef hún keyrir vondu málin af minna offorsi en áður, hefur þjóðin haft nokkurt gagn af sinnaskiptum vetrarins.

Við megum þá kannski eiga von á, að varlegar verði farið í ofbeldið gegn ósnortnum víðernum landsins, að einkavæðingin feli síður í sér afhendingu einokunar í hendur einkavina og að linað verði á skjaldborg stjórnvalda um gjafakvótann í sjávarútvegi.

Hitt vitum við, að hvorki munu eldur né brennisteinn knýja stjórnarflokkana til að koma upp sömu reglum um fjárreiður stjórnmálamanna og -flokka og gilda í öðrum vestrænum löndum. Það sem eftir er af jarðvist Framsóknarflokksins byggist á núverandi leyndarhjúp.

Aðalatriðið er þó, að teflon-húðin er brostin, enda er hún til lengdar engum holl, ekki þeim, sem hana ber, og enn síður værukærum og geðlitlum kjósendum.

Jónas Kristjánsson

DV

Hausaveiðar

Greinar

Tölvufyrirtækið Oz hyggst fjölga starfsmönnum sínum hér á landi um 150 og rúmlega tvöfalda mannafla sinn og mannauð. Það ætlar að greiða starfsmönnum sínum verðlaun fyrir að gerast hausaveiðarar á markaði hæfileikafólks í margs konar tölvutækni.

Í skólum, sem útskrifa fólk á þessu sviði, hefur einnig orðið vart við hausaveiðara, sem bjóða nemendum afbragðs kjör fyrir að koma til starfa hjá fyrirtækjum þeirra eftir lokapróf. Þessi aðferð hefur lengi tíðkazt við beztu háskólana vestan hafs.

Það er nýtt hér á landi, að nám og þekking séu svo verðmæt í sjálfu sér, að fyrirtæki séu með útsendara á sínum vegum til að ná í þá, sem skara framúr. Breytingin sýnir, að hér á landi er til fjárhagslega verðmætur mannauður, sem nýtist til arðbærra verka.

Ráðamenn menntamála hafa stundum gortað af, að mikil áherzla hafi verið lögð á tölvutækni í menntakerfi þjóðarinnar. Reynslan sýnir þó, að betur má, ef duga skal. Feiknarlegur mannauður er enn óbeizlaður vegna skorts á margs konar menntun við hæfi.

Við erum síður en svo eina þjóðin, sem á erfitt með að fylgjast með tímanum í menntunargeiranum. Þýzka ríkisstjórnin hefur nýlega ákveðið að stuðla að innflutningi 20.000 manns á sviðum margs konar tölvutækni til að bæta upp skort á innfæddum.

Fyrirgreiðsla þýzkra stjórnvalda felst væntanlega í fjárhagslegri fyrirgreiðslu við flutninga til landsins og í flýtimeðferð við veitingu ríkisborgararéttar. Ríkisstjórnir fleiri vestrænna ríkja íhuga að fylgja í kjölfarið til að efla samkeppnishæfni ríkja sinna.

Eitt af því kostulega við hin nýju hátekjustörf hjá hátæknifyrirtækjum nútímans er, að nám og starf kosta tiltölulega lítið í búnaði. Á nýjum sviðum nýrrar aldar er fremur fjárfest í hálaunum og mannauði heldur en í láglaunum og dýrum búnaði gamla tímans.

Á sama tíma og hátæknifyrirtæki, sem bjóða gull og græna skóga, leita í örvæntingu að mannauði við hæfi, eru ráðamenn þjóðarinnar eins og útspýtt hundskinn við að reyna að útvega niðurgreidd láglaunastörf við að kraka í bræðslupottum álvers á Reyðarfirði.

Á sama tíma og gæfusamur hluti þjóðarinnar stendur þegar föstum fótum í atvinnulífi 21. aldar og sér fyrir sér bjarta hátekjuframtíð, er annar hluti þjóðarinnar undir forustu ríkisvaldsins enn að ösla mýrar 19. aldar undir merkjum stóriðju og smábyggðastefnu.

Á sama tíma og ríkið borgar milljónir króna á hverju ári á hvert starf í landbúnaði og reynir að ná saman fjárfestingu, sem kostar tugi milljóna á hvert starf í stóriðju, getur það ekki séð af nokkrum tugþúsundum króna til að framleiða hvert starf í hátækni.

Ef öll sú pólitíska orka, sem nú fer í að hamla gegn 21. öldinni, sem nú fer í smábyggðastuðning við atvinnuvegi 19. aldar, færi í að efla menntun og þjálfun í atvinnugreinum 21. aldar, ætti engin þjóð í heiminum betri fjárhagslega framtíð en Íslendingar.

Allt ber að sama brunni. Unga fólkið vill fremur háar tekjur en lágar, hátækni fremur en landbúnað og stóriðju. Fyrirtæki í tölvutækni þyrstir í mannauð og halda úti hausaveiðurum til að geta stækkað hraðar og hraðar. 21. öldin hvíslar ekki, heldur kallar hátt.

Tímabært er, að ráðamenn okkar snúist fremur á sveif með þessari þróun heldur en að sóa fé okkar og fyrirhöfn í fen, sem þóttu fín í þeirra ungdæmi.

Jónas Kristjánsson

DV