Amsterdam

Veitingar

Rijsttafel í Amsterdam
Ég skal játa, að mér finnst ég eiga dálítið í indónesíska matstaðnum Sama Sebo í Amsterdam. Þegar leiðsögubók mín um borgina kom út í fyrstu útgáfu árið 1984, setti ég hann á stall sem uppáhaldsstað minn í borginni. Þá var Sama Sebo óþekktur staður, en er nú kominn í öll leiðsögureit, þar á meðal rauða Michelin. Sérgrein staðarins var og er Rijsttafel, sem er veizluborð um það bil tuttugu smárétta frá Indónesíu.

Indrapura er ný stjarna
Vegna þessarar forsögu er mér þungbært að viðurkenna, að Sama Sebo hefur ekki þolað frægðina. Á allra síðustu árum hefur hann orðið að sálarlausri verksmiðju með lélegri matreiðslu og ruddalegri þjónustu. Nú orðið fer ég ekki þangað til að fá mér Rijsttafel, heldur í veitingahúsið Indrapura, sem er notalegur staður vandaðrar matreiðslu frá Indónesíu, vel í sveit settur við Rembrandtsplein 42, sími 623 7329. Rijsttafel-veizla með öllu kostar um 85 gyllini á mann.

Pönnukökur Upstairs
Það má nánast teljast til helgisiða í hverri heimsókn til Amsterdam að klifra upp þröngan hænsnastigann í pönnukökuhúsið Upstairs við Grimburgwal 2, rétt við Rokin. Þar komast ekki nema tólf manns fyrir í einu og sitja þröngt. Risastór engifer-pönnukaka að hollenzkum hætti kostar 13 gyllini, en hægt er að fá ótal umfangsmeiri fyllingar.

Café American og Mata Hari
Annar pílagrímastaður er Art Nouveau kaffistofan á jarðhæð American hótelsins við Leisekade 97, rétt við Leidseplein, þar sem haldin var brúðkaupsveizla njósnakvendisins Mata Hari. Þetta er einn helzti stefnumótastaður miðborgarinnar, kjörinn til að fá sér kaffi og tertu og virða fyrir sér aldargömlu innréttingarnar, frostglerjaðar ljósakrónur, víðfeðm bogarið og steinda glugga. Kaffi og terta kosta 12 gyllini.

Hefbundinn Oesterbar
Beztu sjávarréttastaðirnir í Amsterdam eru enn hinir sömu og þeir voru í bókarútgáfunni frá 1992. Beztur er líflegur og berangurslegur Oesterbar, þægilega vistaður við Leidseplein 10, sími 626 3463, að vísu með heldur grófari þjónustu en áður. Miklar vinsældir hafa hins vegar ekki skaðað matreiðsluna neitt.

Sólflúra og þykkvalúra
Í Oesterbar er hægt að fá hina ljúfustu fiska og sjávardýr, sem ekki veiðast hér við land, svo sem ostrur, sólflúru og þykkvalúru. Bezt er að panta einfalda matreiðslu, til dæmis grillun, því að þá er eldunartíminn undantekningarlaust hárnákvæmur. Matur kostar um 120 gyllini á mann, en getur farið upp í 200 gyllini, ef menn fá sér dýra rétti á borð við humar.

Jónas Kristjánsson

DV

Perlan, Carpe Diem

Veitingar

Perlan er sólkerfi
Perlan á Öskjuhlíð er meira en geimstöð. Hún er sólkerfi, þar sem svigrúmið um hvert borð er veröld út af fyrir sig og fyrir utan glugga glittir í önnur sólkerfi, hugsanlega með lífi á einhverjum hnöttum. Þetta er þáttur aðdráttarafls Perlunnar, dýrasta, fínasta og sérstæðasta matsalar landsins, þar sem fólk nýtur afbragðs móttöku og þjónustu og fær fyrirtaks forrétti og eftirrétti.

Biluð smáatriði
Eins og oftar áður eru það smáatriði í aðalréttum, sem bila í Perlunni og spilla heildarmyndinni. Með glóðaðri nautalund var borinn fram þurr og harður kjötkökkur, tæplega tomma á kant, sem virðist hafa heitið uxabrjóst á matseðlinum. Ef honum hefði verið sleppt, hefði rétturinn í heild verið frábær. Undir andabringu var hörð plata af brenndum kartöfluþráðum. Ef henni hefði verið sleppt, hefði rétturinn í heild verið frábær.

Minnisstæðir réttir
Fínlegt villisvepparisotto með spínati og parma-osti bráðnaði á tungu. Bleik laxahrogn á rússneskum blini-pönnukökum voru annar góður forréttur. Mangókrap í freyðivíni var fínt og flott. Klassiskur eftirréttur er créme brûlèe búðingur með karamelluskorpu, betur gerður en víðast annars staðar. Enginn vandi var að fá blandaða ávexti og ber með rjóma fyrir þá, sem reyna að forðast sykurfyllerí eftirrétta.

Bocuse gabbar kokkana
Þrátt fyrir góða kosti Perlunnar vekur hún mér ekki þá kennd, að of langt sé síðan ég kom þar síðast. Mér finnst hún vera köld umgerð um skrautlega rétti að hætti Bocuse, sem er snjall auglýsingamaður í dulargervi kokks í úthverfi Lyon. Ég hef tvisvar borðað þar og nenni því ekki aftur. En hann er duglegur við að búa til Bocuse-verðlaun og aðra markaðssetningu og gabb, sem íslenzkir matreiðslumenn hlaupa á eftir. Af hverju fóru þeir ekki í myndlistarskóla?

Fisklykt á Carpe Diem
Sérstætt er, að veitingahús skuli geta boðið gestum þídda og gamla ýsu í senn. Frystingin á að varðveita ferskleikann, þótt hún eyðileggi ýsubragðið, og á að geta komið í veg fyrir, að fiskur verði svo gamall, að hann fari að lykta svo, að karrísósan megnaði ekki að milda lyktina. En þetta tókst eldhúsinu á Carpe Diem í Hótel Lind við Rauðarárstíg 18 í hádeginu um daginn. Þar á ofan voru ofbökuðu kartöflurnar upphitaðar.

Fínlegt umhverfi
Aðrir þættir á Carpe Diem sýndu ekki merki slóðaskaparins í eldhúsinu. Allt var uppdúkað og fínt í hádeginu, jafnvel tauþurrkur á borðum og tindrandi fín vatnsglös, sem eiga að hæfa fínum hótelsal. Salatborðið var að vísu lítið, en stóð ekki öðrum slíkum á sporði í fjölbreytni. Ég gat því bætt mér upp ýsuna og kartöflurnar með hollustufæði. En grænmetissúpan virtist hveitileg, svo að ég lagði ekki í hana, og brauðið var bara hvítt snittubrauð.

Jónas Kristjánsson

DV

Byggt í hækkandi sjó

Greinar

Ekki var skrifstofa borgarverkfræðings fyrr búin að reikna, að flugvöllur á uppfyllingu á Lönguskerjum væri langsamlega dýrasti kostur innanlandsflugs en skipulagsstofa Reykjavíkur leggur fram hugmynd um 1.200 íbúða byggð og einn menntaskóla úti í sjó við Eiðisgranda.

Áður var bæjarstjórn Garðabæjar farin að gæla við hugmyndir um uppfyllingu fyrir íbúðabyggð í Arnarnesvogi. Allar þessar tillögur og hugmyndir eru hluti þess álits sumra skipuleggjenda, að byggð sé ekki nógu þétt og að það megi bæta með því að byggja úti í sjó.

Á öllu þessu svæði hefur land verið að síga og mun áfram síga á næstu áratugum og öldum. Í stórflóðum gengur sjór á land og spillir strönd. Seltjarnarnes hefur minnkað um meira en helming á þremur öldum eins og sjá má af gömlum sjókortum danska flotans.

Með því að dæla efni í uppfyllingar upp úr sjó verður bratti sjávarbotnsins við strandlengjuna meiri en hann var áður. Hafið fær því greiðari aðgang að ströndinni, svo sem komið hefur í ljós á Kjalarnesi. Þar hefur sjór gengið á land vegna dælingar á sandi.

Í ráðagerðum landvinningamanna fer lítið fyrir skilningi á landsigi og landbroti og afleiðingum brattara landgrunns. Mikilvægt er, að sérfræðingar á þessu sviði verði kallaðir til, áður en arkitektar við teikniborð fara að framkvæma drauma sína um byggðir úti í sjó.

Ekki verður heldur séð, að hugmyndafræðingar geri sér sómasamlega grein fyrir áhrifum fólksfjölgunar á þrönga innviði samgangna í gömlum hlutum borgarinnar. Umferðin eykst og gamlar götur verða of þröngar. Á endanum þarf að kaupa hús til niðurrifs.

Hringbraut er þegar orðin of þröng frá Gamla-Garði að Ánanaustum. Þar hefur orðið að reisa langar girðingar á miðri götu til að fæla gangandi fólk frá að fara sér að voða í umferðinni. Með 1.200 íbúðum og menntaskóla í Eiðisvík þarf að rífa hús til að breikka Hringbraut.

Ef reyna á að meina fólki að nota Hringbraut til að komast út úr umferðargildrunni og beina því á Mýrargötu, þarf einnig þar að rífa hús, svo að fólk komist greiðlega lengri leiðina austur Sæbraut. Þétting byggðar kallar ætíð á aukinn þrýsting á gamla innviði borga.

Miklu einfaldara er að byggja þétt á nýjum svæðum, þar sem hægt er frá upphafi að gera ráð fyrir greiðum samgöngum. Þegar byggt er þétt ofan í gömlum svæðum er verið að leggja nýjar skyldur á gamla innviði, sem þeir voru ekki hannaðir á sínum tíma til að þjóna.

Uppfyllingar í sjó á Granda og Örfirisey sýna, hvað gerist, ef framkvæmdar verða ráðagerðir um 1.200 íbúðir og menntaskóla í Eiðisvík. Umferðin frá nýbyggingunum við Fiskislóð og Hólmaslóð hefur sótt með miklum þunga inn á Hringbraut og stíflað hana á annatímum.

Hugmyndafræði þéttari byggðar er tízkufyrirbæri, sem hefur ekki fengið næga umfjöllun. Miklu nánar þarf að rýna í óskir fólks um ýmis búsetuform og kostnað sveitarfélaga af þessum búsetuformum, svo og kostnað þeirra af nauðsynlegum breytingum á innviðum sínum.

Þegar byggðaþéttingin er komin út í öfgar landfyllinga, er brýnt að fara að stinga enn fastar við fótum og krefjast þess, að menn kynni sér betur, hvernig sjór gengur á land á höfuðborgarsvæðinu og hvernig uppfyllingar með brattari hafsbotni kalla á gagnsókn hafsins.

Ráðagerðir um landfyllingar á höfuðborgarsvæðinu eru vanhugsaðar og illa rökstuddar. Þær gefa alls ekki tilefni til framkvæmda á næstu áratugum.

Jónas Kristjánsson

DV

Kúariðan vakti fólk

Greinar

Kúariðan í Evrópu varð að íslenzku innanlandsmáli, þegar yfirdýralæknir heimilaði án nauðsynlegra öryggisgagna innflutning nautakjöts frá Írlandi, því landi, sem sætir mestri kúariðu í Evrópu á eftir Bretlandi. Virðist embættismaðurinn hafa vanrækt eftirlitsskylduna.

Áður var landbúnaðarráðherra búinn að kynda undir málinu með því að heimila innflutning fósturvísa nautgripa frá Noregi, þótt þar í landi hafi yfirvöld áhyggjur af heilsufari norska kúakynsins. Fólk vill nú allt í einu hlusta á þá, sem vöruðu við þessum innflutningi.

Ekki bætir úr skák, að nýlega var hafinn í Flóanum rekstur á verksmiðju, sem býr til mjöl úr afgangsafurðum sláturhúsa. Það eru einmitt slíkar verksmiðjur, sem eru í sviðsljósi kúariðuskelfingarinnar í Evrópu. Erfitt verður að komast hjá að loka þessari nýju verksmiðju.

Eðlilegt er að fólki bregði í brún, þegar það sér, að gæzlumenn almannahagsmuna hafa með þjónustu við sérhagsmuni í matvælageiranum stefnt heilsu fólks í hættu. Slíkar uppgötvanir hafa valdið ómældri skelfingu víðs vegar í Evrópu og nú gætir þess einnig hér.

Skammt er yfir í öfgar, þegar hræðslan er komin í gang. Menn gleyma, að kúariða er ekki talin flytjast með vöðvum eins og þeim, sem voru til sölu hér á landi. En embættismenn geta ekki varizt, þegar þeir hafa verið staðnir að því að fara ekki eftir settum reglum um eftirlit.

Þannig hafa stjórnmálamenn og embættismenn úti í Evrópu glatað trausti. Þegar almenningur áttar sig skyndilega á, að ekki standast fyrri fullyrðingar þeirra um, að allt sé í lagi, trúir hann ekki lengur neinu, sem þeir segja, og allra sízt róandi fullyrðingum þeirra.

Til þess að reyna að endurheimta traustið neyðast ráðamenn til að taka djúpt í árinni í gagnaðgerðum. Þeir banna innflutning kjöts, þeir láta framkvæma niðurskurð búfjár og þeir loka kjötmjölsverksmiðjum, jafnvel þótt engar líkur séu á smithættu í flestum tilvikanna.

Þess vegna duga ekki vandræðalegar yfirlýsingar um, að afgangsafurðir sláturhúsa séu í lagi hér á landi, mjölið verði ekki notað í stórgripafóður og að það verði ekki notað innanlands. Litið verður á pólitísku skjaldborgina um verksmiðjuna í Flóanum sem sérhagsmunagæzlu.

Almennt mun kúariðufárið heima og heiman leiða til stórminnkaðrar neyzlu nautakjöts og minni neyzlu annars kjöts. Neyzlan mun að hluta til flytjast yfir í grænmeti, sem er neðar í fæðukeðjunni og hefur ekki safnað upp öllum óþverranum, sem er ofar í keðjunni.

Líklegt er, að kröfur aukist um ódýrari aðgang almennings að grænmeti, einkum lífrænt ræktuðu grænmeti, er felur í sér mun minna af skaðlegum efnum, sem notuð eru við nútímalega þrautræktun á borð við ræktun erfðabreyttra matvæla. Tollarnir verða heimtaðir burt.

Íslendingar borða miklu minna grænmeti en aðrar vestrænar þjóðir. Það stafar af hagsmunagæzlu árstíðarbundinna ofurtolla eftir misjöfnu framboði innlendra gróðurhúsa. Nauðsynlegt er að afnema þessa tolla, ekki sízt á grænmeti, sem hefur lífræna vottunarstimpla.

Áhugi fólks á mataræði mun óhjákvæmilega aukast við kúariðufárið. Þeim hefur snögglega fjölgað, sem gera sér grein fyrir, að ekki er sama, hvað þeir láta ofan í sig. Harðari kröfur verða gerðar um greiðan aðgang að fæðu, sem ekki er grunuð um að skaða heilsu fólks.

Erfiðara verður fyrir ráðamenn að gæta hættulegra sérhagsmuna í landbúnaði, matvælaiðnaði og matvælainnflutningi, sem stangast á við almannahagsmuni.

Jónas Kristjánsson

DV

Yfir-hæstiréttur í vanda

Greinar

Loksins hefur bilað teflon-húðin á ríkisstjórninni og höfuðflokki hennar, Sjálfstæðisflokknum. Í fyrsta sinn á kjörtímabilinu hefur stjórnin ekki meirihlutafylgi í skoðanakönnun og í fyrsta sinn tekur Sjálfstæðisflokkurinn þátt í langvinnu fylgistjóni Framsóknarflokksins.

Líklega hefur þúfa öryrkja velt þessu þunga hlassi. Forsætisráðherra hefur teflt sér í þá stöðu að hafa í tvígang gert þá að höfuðandstæðingum sínum og orðið að beita stöðu sinni sem sjálfskipaður yfir-hæstiréttur til að veikja áhrif dómsúrskurðar í þágu samtaka öryrkja.

Forsætisráðherra gerðist áður yfir-hæstiréttur í gjafakvótamálinu. Samkvæmt skoðanakönnunum var meirihluti þjóðarinnar á öðru máli en hann, án þess að hann biði álitshnekki af málinu. Líklega er ofbeldi við öryrkjabandalag eitt af því, sem “maður gerir ekki”.

Forsætisráðherra og ríkisstjórn hans er vorkunn. Þegar menn haga sér hvað eftir annað á þann veg, að ekki þætti erlendis sæma valdamönnum, án þess að þjóðin bregði sér hið minnsta, er engin furða, þótt þeir komist smám saman á þá skoðun, að þeim séu allir vegir færir.

Ríkisstjórnarflokkarnir standa gegn því, að fjárreiður íslenzkra stjórnmála verði gegnsæjar eins og í nágrannalöndum okkur beggja vegna Atlantshafs. Ekki hefur borið á, að kjósendur hafi neinar minnstu áhyggjur af þessari sérstöðu, sem hefur þegar boðið hættunum heim.

Utanríkisráðherra varði flokkspólitíska ráðningu í stöðu forstjóra Leifsstöðvar með því, að lögmaður ráðuneytisins væri sér sammála, rétt eins og dæmdur sakborningur segði verjanda sinn vera sér sammála. Ekki virtist þjóðin hafa miklar áhyggjur af þessu.

Umhverfisráðherra hefur oftar en einu sinni stælt forsætisráðherra, ekki sem yfir-hæstiréttur, heldur sem yfir-náttúruvísindamaður þjóðarinnar. Hún veit, að erfðabreytt matvæli eru ekki hættuleg, og hún veit, að sjókvíalax veldur engum skaða á umhverfi sínu.

Í báðum þessum tilvikum er til fullt af erlendum rannsóknum, sem benda til, að erfðabreytt matvæli geti verið hættuleg og að sjókvíalax sé hættulegur umhverfinu. En hún er svo mikill vísindamaður, að hún veit betur, án þess að þjóðin heimti, að hún hrökklist frá völdum.

Sérhvert dæmanna, sem hér hafa verið rakin, mundu duga til að koma ráðherrum frá í nágrannalöndum okkar beggja vegna Atlantshafs. En hér á landi hafa kjósendur ekki tekið slík mál alvarlega, ef marka má skoðanakannanir. Það er fyrst núna, að hriktir í stjórnarfylginu.

Ekki er ástæða til að draga of víðtækar ályktanir af fylgistjóni ríkisstjórnarinnar og forustuflokks hennar í nýjustu skoðanakönnuninni. Þetta er bara aðvörun. Fylgismenn stjórnmálaflokka hafa skriðið til föðurhúsanna á styttri tíma en lifir til næstu alþingiskosninga.

Ekki er heldur ástæða til of mikillar bjartsýni við þær aðstæður í veraldarsýn kjósenda, að menn saka í alvöru þá fjölmiðlun um sorpblaðamennsku, sem ver ómældum tíma í að grafa upp feimnismál, en fagna hins vegar þeirri fjölmiðlun, sem lítur á stjórnmál sem boltaleik.

Hugsanlegt er, að með sinnaskiptum sínum í öryrkjamálinu hafi kjósendur stigið langþráð skref frá því að vera undirsátar og þegnar hertogans yfir í að verða sjálfstæðir borgarar á borð við engilsaxa. Sagan sýnir þó, að ástæða er til að vara við mikilli bjartsýni.

Ófullveðja kjósendur, er líta á stjórnmál sem boltaleik, fá til lengdar þá forustu, sem þeir eiga skilið, þótt flestum mislíki um tíma, að hertoginn sé yfir-hæstiréttur.

Jónas Kristjánsson

DV

Potturinn og pannan, Tilveran, ódýrir staðir

Veitingar

Bylting á Potti og pönnu
Pottinum og pönnunni við Nóatún hjá Brautarholti var bylt að útliti fyrir áramótin. Bása- og timburstíllinn hvarf, en við tók bjartur og opinn stíll að nýrri tízku. Útbyggingin hefur verið breikkuð og salurinn stækkaður, svo að rýmra er milli bólstraðra stóla og viðarborða. Aðbúnaður er notalegri en áður var, vatnskönnur koma á borð og falleg glös. Súpa, salatbar, aðalréttur og kaffi kosta 1830 krónur

Innihaldið er óbreytt
Allt annað er nákvæmlega eins í Pottinum og pönnunni. Þar er sama glaðbeitta þjónustan, sama lága verðið, sami leiðigjarni matseðillinn, sama frambærilega matreiðslan og sama sögufræga og góða salatborðið, sem Úlfar Eysteinsson matreiðslumaður gerði frægt á þessum stað árið 1982. Þetta er einn af föstu punktunum í tilverunni, þótt eigendur hafi komið og farið. En viðskiptavinir eru orðnir átján árum eldri en þeir voru fyrst.

Salatborð er hornsteinn
Óbrigðult salatborð er hornsteinn Pottsins og pönnunnar. Hveitisúpurnar eru leiðinlegar, en stundum sjást betri súpur tærar Væg matreiðsla notar rétta eldunartíma og dauf matreiðsla býður piparsósu, sem ekkert bragð er að. Fyrir nokkrum kvöldum mátti velja milli silungs, fiskiþrennu, gríss og nauts, sem reyndist vera fyrirmyndar piparsteik með léttelduðu grænmeti í vandaðri kantinum.

Tilveran breytist ekki
Enn ódýrari fjölskyldumatstaður er alþýðleg Tilveran við Linnetstíg hjá Fjarðargötu í Hafnarfirði, þar sem súpa, aðalréttur og kaffi kosta 1150 krónur. Þessi staður kom til sögunnar árið 1996 og hefur unnið sér verðugar vinsældir. Svipmót staðarins er þægilega gamaldags, þjónusta notaleg og matreiðsla traust, allt svo sem verið hefur frá fyrsta degi.

Fiskur er beztur
Fiskréttir hafa reynzt mér beztir í Tilverunni. Pönnusteiktur steinbítur var hæfilega eldaður og borinn fram með mildri engifersósu. Smjörsteikt rauðspretta var líka hæfilega elduð, borin fram með mildri saffran-sósu. Ofnbakaður saltfiskur var vel útvatnaður, hvítur og bragðmildur, svo að hann gerist vart betri. Hreindýra-gúllas var meyrt, en skorti hreindýrsbragð og var því miður með kekkjaðri kartöflustöppu.

Aðrir ódýrir staðir
Fyrir utan Pottinn og pönnuna og Tilveruna eru ekki til margir frambærilegir veitingastaðir með fullri þjónustu í lægri verðkantinum. Laugaás við Laugarásveg er þar líka, lengi einn af mínum uppáhaldsstöðum, en hefur verið reikull í spori undanfarin misseri. Annar uppáhaldsstaður er Kínahúsið í Lækjargötu, sem ár eftir ár býður vönduðustu austrænu matreiðsluna hér á landi.

Jónas Kristjánsson

DV

Sextíu dollarar orðnir níu

Greinar

Samkvæmt nýju, bandarísku reglugerðinni um verndun persónulegra upplýsinga um heilsufar fólks mega fræðimenn nota upplýsingarnar til að stunda rannsóknir, en alls ekki afhenda utanaðkomandi gagnabönkum á borð við deCode Genetics slíkar upplýsingar

Blaðurfulltrúi deCode Genetics fer með rangt mál um þetta atriði eins og önnur atriði málefnisins. Á sama tíma fer hann með rangt mál um önnur atriði, sem varða hagsmuni fyrirtækisins, er hann vinnur fyrir, enda er það hlutverk blaðurfulltrúa að styðja sína menn.

Í kranablaðamennsku-morgunþætti Ingólfs Margeirssonar á Rás 2 á miðvikudag hélt blaðurfulltrúinn óátalið fram, að gengi hlutabréfa deCode hafi til áramóta ekki lækkað meira en Nasdaq-vísitalan. Þetta er röng fullyrðing, gengi bréfanna hefur lækkað miklu meira.

Í öllum þessum málum er blaðurfulltrúinn að gæta hagsmuna fyrirtækis, sem frá upphafi hefur ekki greint rækilega milli ímynda og raunveruleika, fyrirtækis, sem í fyrra hafði lag á að láta fólk borga sextíu dollara fyrir hlutabréf, sem nú eru aðeins níu dollara virði.

DeCode Genetics reynir að gera lítið úr áhrifum bandarísku reglugerðarinnar um verndun persónulegra heilsufarsupplýsinga, af því að fyrirtækið stendur í samningum við íslenzkar heilbrigðisstofnanir og vill ekki, að slæmar fréttir frá útlöndum trufli samningaferlið.

Almennt er skynsamlegt fyrir fólk að fara varlega í að trúa gæzlumönnum sérhagsmuna umfram þá, sem engra hagsmuna hafa að gæta í umræðuefninu.

Jónas Kristjánsson

DV

Að orðnum hlut

Greinar

Leiðarar DV um aðgerðir bandarískra stjórnvalda til að varðveita friðhelgi heilsufarsupplýsinga um fólk hafa vakið reiði ráðamanna deCode Genetics, sem vilja ekki, að varpað sé skugga á hina vandamálafríu mynd, sem þeir gefa af væntanlegu gagnasafni sínu.

Aðgerðir brezku ríkisstjórnarinnar í einkamálaþætti heilsufarsupplýsinga voru einnig til umfjöllunar í margræddum leiðara DV. Þar gera stjórnvöld ráð fyrir, að verndin bili, upplýsingar berist til tryggingafélaga og vinnuveitenda og geti valdið fólki fjárhagstjóni.

Brezka ríkisstjórnin hefur sérstaklega tekið á þessum þætti, hvernig fólki verði bætt, ef það fær lakari tryggingu eða lakari vinnu út á arfgenga sjúkdóma í ættinni eða jafnvel hvorki tryggingu né vinnu. Þar hyggst ríkið taka afleiðingum gerða sinna.

Hér á landi var einkaréttur deCode keyrður í gegn án þess að gert væri ráð fyrir þeim möguleika, að illa færi. Það er í samræmi við þá pólitísku venju hér á landi að gera í bjartsýni ráð fyrir, að allt fari á bezta veg og gera engar ráðstafanir til að mæta hugsanlegum vanda.

Hér á landi hafna stjórnvöld til dæmis umhverfismati á sjókvíaeldi á þeim forsendum, að eldislaxinn ógni ekki umhverfinu, sýkist ekki og sleppi ekki úr kvíunum. Samt eru til rannsóknir í nágrannalöndum okkar, sem sýna hið gagnstæða, að þessi vandamál eru stórfelld.

Miklu nær væri að gera ráð fyrir vandamálum strax í byrjun og reyna að haga málum frá upphafi á þann veg, að auðveldara en ella sé að bregðast við ótíðindum. Það hefðu íslenzk stjórnvöld átt að gera í gagnagrunnsmálinu og ættu nú að gera vegna laxeldis í sjókvíum.

Bjartsýni er góðra gjalda verð, en hún má ekki verða svo hamslaus, að menn gleymi varúðarráðstöfunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Rándýr sjókvíalax

Greinar

Kvikmynd BBC um hætturnar af laxeldi hefur sýnt, að kæruleysi stjórnvalda í löndum Norður-Atlantshafs á sér enga stoð í niðurstöðum rannsókna, sem sýna hver á fætur annarri, að eldislaxinn framleiðir margvísleg vandamál, sem menn vita ekki, hvernig megi að ráða við.

Eldiskvíar í sjó eru gróðrarstía sjúkdóma og sníkjudýra, sem þar er haldið niðri með lyfjagjöfum, en breiðast út í náttúrulega fiskistofna, sem eiga leið um firðina. Þar á meðal er villtur lax, sem ekki hefur aðgang að sömu varnarlyfjum og eldislaxinn í kvíunum.

Þetta hefur leitt til hruns náttúrulegra laxastofna í Noregi og Skotlandi. Sumar ár hafa hreinlega tæmzt af laxi og í öðrum finnst aðeins reytingur af sloppnum eldislaxi, en lítið af náttúrulaxi. Hagsmunir fiskiræktar stangast þannig á við hagsmuni hefðbundinna laxabænda.

Til viðbótar við uppsöfnuð áhrif af lyfjagjöf hefur komið í ljós, að þrávirk eiturefni hlaðast margfalt meira upp í eldislaxi en náttúrulegum laxi. Vísindamenn eru því byrjaðir að vara við of mikilli neyzlu á eldislaxi, það er að segja meiri neyzlu en sem nemur einni máltíð á viku.

Þetta skaðar ímynd eldislaxins, sem auglýstur hefur verið sem einstök hollustufæða, rík af Omega-3 fitusýrum, sem fólk ætti helzt að borða oft í viku hverri. Nú verður ekki lengur hægt að auglýsa eldislax á svona róttækan hátt, því að hann er fullur af þrávirkni og lyfjum.

Í þriðja lagi hefur lengi verið vitað um, að eldiskvíar í sjó leiða til mikilla breytinga í umhverfinu. Þær hafa til dæmis valdið stjórnlausum vexti þörungagróðurs, sem stíflar loftblöndun sjávar og veldur miklum fiskidauða. Þetta hefur reynzt vera þrálátt vandamál í Noregi.

Í fjórða lagi hefur komið í ljós, að víða er eldislax orðinn vanskapaður af þrautpíndum tilraunum til að auka vöxt hans og vaxtarhraða í harðri lífsbaráttu milli eldisstöðva. Menn eru rétt að byrja að rannsaka, hvaða áhrif þetta getur haft á fólk, sem neytir framleiðslunnar.

Svo getur farið, að sams konar áfall verði á markaði fyrir eldislax og orðið hefur á markaði fyrir nautakjöt. Fólk áttar sig allt í einu á, að stjórnvöld hafa lengi gert lítið úr mikilli hættu og haldið leyndum niðurstöðum rannsókna. Þá grípur um sig snögg skelfing neytenda.

Hér á landi ríkir villta vestrið á þessu sviði í skjóli handónýtra stofnana á borð við umhverfisráðuneytið og Skipulagsstofnun ríkisins, sem í þessum málum sem flestum öðrum umhverfismálum gefa linnulaust út ábyrgðarlausa úrskurði um, að ekki þurfi umhverfismat.

Til dæmis hefur kærulaus skipulagsstjóri ríkisins ákveðið, að fyrirhugað sjókvíaeldi á norskum laxi í Berufirði skuli ekki sæta umhverfismati. Þetta hefur verið kært til umhverfisráðherra, sem áður hafði hafnað kæru vegna sömu niðurstöðu um eldi í Mjóafirði.

Núverandi umhverfisráðherra og núverandi skipulagsstjóri hafa á ýmsum sviðum reynzt vera róttækir fylgjendur sóðaskapar í umhverfismálum. Þau hafa þegar skaðað framtíðarhagsmuni vistkerfis lands og sjávar og munu áfram skaða þá, svo lengi sem þau verða við völd.

Svo getur farið, að sjókvíaeldi verði hagkvæm atvinnugrein hér á landi. Hún verður það hins vegar aldrei, ef svo illa er staðið að málum, að stjórnvöld afneita staðreyndum á borð við niðurstöður vísindalegra rannsókna á síðasta áratugi og sæta síðan óviðráðanlegum afleiðingum.

Sérstaklega eru ámælisverðir úrskurðir róttæks skipulagsstjóra, sem fullyrðir út og suður um vísindaleg efni, sem hann hefur greinilega ekki kynnt sér hið minnsta.

Jónas Kristjánsson

DV

Blaðurfulltrúinn

Greinar

Í samræmi við langvinnt frjálslyndi í umgengni við sannleikann hefur deCode Genetics ráðið sér blaðurfulltrúa til að fara með rangt mál í hagsmunagæzlu fyrirtækisins, svo sem slíkra er plagsiður. Það er jafnan sorglegur endir á blaðamennskuferli að gerast blaðurfulltrúi.

Umræðuefni blaðurfulltrúans er ný reglugerð bandaríska alríkisins um verndun persónuupplýsinga. Þessi reglugerð var sett í samræmi við lög, sem bandaríska þingið setti árið 1996 með eindregnum stuðningi beggja þingflokka. Reglugerðin er því ekki flokkspólitísk.

Gail R. Wilensky, heilbrigðisráðgjafi George W. Bush, verðandi forseta, segir, að repúblikönum sé ekki síður en demókrötum annt um, að lögin frá 1996 verði virk. Janlori Goldman, forstjóri einkamálaverkefnis Georgetown University, segir reglurnar vera stórsigur neytenda.

Höfuðtilgangur nýju reglugerðarinnar er að vernda einkamál í upplýsingum um heilsufar fólks. Samkvæmt henni verða læknar, lyfjabúðir og sjúkrastofnanir að fá skriflegt samþykki sjúklinga áður en þeir láta frá sér fara upplýsingar, sem varða heilsufar þeirra.

Það mun kosta heilsuiðnaðinn átján milljarða dollara á næstu tíu árum að framkvæma anda reglugerðarinnar. Sérhver sjúklingur fær við komu sína bækling um rétt sinn og um geymsluaðferðir upplýsinga og um rétt hans til að fá afrit af hverju einasta orði um hann sjálfan.

Einkamálaverndin nær til skrifaðra og prentaðra upplýsinga, talaðs máls og upplýsinga í tölvum. Skriflegt samþykki sjúklings þarf fyrir einföldustu atriðum á borð við vottorð. Hvert nýtt skref í meðferð sjúklingsins kallar á nýtt samþykki hans fyrir meðferð upplýsinga.

Sjúklingar eiga samkvæmt reglugerðinni rétt á að sjá og fá afrit af hverju einasta orði, sem um þá stendur í gögnum stofnana heilsuiðnaðarins. Þeir eiga líka rétt á fá þessar upplýsingar leiðréttar, ef þeir telja þær vera á einhvern hátt villandi eða skaðlegar fyrir sig.

Allar stofnanir á þessu sviði þurfa að koma sér upp ákveðnu ferli við meðferð einkamála. Sérstakur umboðsmaður sjúklinga á hverri stofnun mun aðstoða sjúklinga og verða við kvörtunum þeirra og fyrirspurnum. Brot á reglugerðinni valda háum sektum og varðhaldi.

Mikinn tíma tók að koma málinu á koppinn. Á fjórum árum frá setningu laganna til setningar reglugerðarinnar, var leitað umsagna. 50.000 athugasemdir bárust. Nú er reglugerðin orðin að veruleika og verður komin til fullra framkvæmda um öll Bandaríkin eftir aðeins tvö ár.

Samkvæmt reglugerðinni er því aðeins hægt að afhenda gögn um sjúkling að fenginni sérstakri heimild dómstóls í ferli lögreglurannsóknar. Alls ekki er gert ráð fyrir, að fyrirtæki á borð við deCode Genetics geti komizt í sjúkraskrár eða aðrar heilsufarsupplýsingar um fólk.

Það liggur í hlutarins eðli, að bandaríska reglugerðin kemur í veg fyrir, að upplýsingar um heilsufar fólks verði notaðar á sama hátt og gert verður hér á landi í þágu einkaleyfis deCode Genetics. Bandaríkin eru hluti fyrsta heimsins, en Ísland er hluti þriðja heimsins.

Rækilegar fréttir af reglugerðinni hafa birzt í bandarískum fjölmiðlum og eru þær aðgengilegar í gagnabönkum þeirra. Allir, sem áhuga hafa á málinu, geta því komizt að raun um, að blaðurfulltrúi deCode Genetics fer í öllum atriðum, stórum og smáum, með rangt mál.

Hins vegar er gott, að fulltrúinn skyldi fara að blaðra, því að það gefur færi á að ítreka upplýsingar, sem hafa birzt í DV og Morgunblaðinu um reglugerðina.

Jónas Kristjánsson

DV

Næstu grös, Grænn kostur

Veitingar

Næstu grös eru grín
Næstu grös á horni Laugavegs og Klapparstígs er kuldalega skandinavískt mötuneyti í sjúkrahælisstíl, þar sem veiklulegu fólki eru skammtaðir lítt kryddaðir og sjúklega bragðdaufir grænmetisréttir. Ótalmargt er hægt að gera fyrir hýðishrísgrjón, til dæmis í formi risotto, og fyrir ab-mjólkursósu, til dæmis með kryddjurtum, en það er ekki gert hér.
Um daginn var annar aðalrétturinn pæ og hinn lasagna, en enginn baunaréttur, svo að þetta varð dagur prótein-skorts. Hressileg tómat- og lauksúpa bætti úr skák, rétt eins og bragðsterk kókossúpa hafði gert nokkru áður. Aðeins eitt brauð var á boðstólum, ágætis súrdeigsbrauð. Hallærislegt var hrásalat, sem víða annars staðar er tilefni listaverka, en var hér aðallega jöklasalat.
Miðjuverð aðalrétta er 700 krónur og 1.000 krónur, ef súpan er með. Fyrir 400 krónur getur fólk síðan bætt sér upp hversdagsgráma staðarins með einni af sykurbombum skenksins, þremur glæsitertum, en ekki gera þær mikið fyrir megrunina. Alls engir ávextir eru í boði. Ég held, að þessi staður sé hálfgert spé og hafi verið það árum saman.

Grænn kostur er sykurfrír
Meira vit er í sykurfrírri og hvítahveitisfrírri grænmetisfæðu, sem hentar megrunarfólki á Grænum kosti í bakhúsi á horni Skólavörðustígs og Bergsstaðastrætis. Þar er matreiðslan fjörlegi og undir meiri áhrifum fjarlægra landa. Þar eru til dæmis karrí og kúskús, samósur, chutney og guaccamole.
Hér hef ég nýlega fengið ágætis sojabaunakarrí, kjúklingabaunabollur og linsubaunabuff. Hrásalöt eru því miður ekki merkari en á Næstu grösum, einnig mestmegnis jöklasalat. Engir forréttir eru í boði, en hinar fögru og frábæru tertur eru sykurlausar, með kosti á þeyttum rjóma, sem nú er aftur orðinn hollur. Aðalréttur kostar 640 krónur og 800 krónur með ábót. Terta kostar 300­350 krónur til viðbótar.
Þetta er feiknagóður heilsu-skyndibitastaður, þar sem fólk situr á hænsnaprikum við pínuborð í óvenjulegum innréttingum, sem virðast sérstaklega hannaðar til að fólk hafi sig burt sem fyrst, svo að hægt sé að taka við nýjum viðskiptavinum.

Enn vantar grænmetisstað
Til viðbótar við Grænan kost vantar notalega innréttaðan stað, þar sem hægt er að gefa sér góðan tíma við að setjast niður í blómahafi og fá afgreidda á borðið lífræna grænmetisfæðu, sykur- og hvítahveitisfría að hætti Græns kosts, aukna og endurbætta með tærri súpu og fögrum forrétti, verulega litskrúðugu hrásalati og meiri áherzlu á ferska ávaxti. Salatbarir Eika eru prótein-slappir og megna ekki að fullnægja þessum órum.
Vel matreidd grænmetisfæða getur verið bragðbetri og fallegri en hver önnur fæða, auk þess sem hún er nytsamleg, hvort sem hugsað er um heilsuna eða línurnar. Ef umhverfið á grænmetis-veitingastað að hætti Græns kosts væri þar á ofan notalegt, mundi fólk flykkjast þangað til að efna nýársloforðin.

Jónas Kristjánsson

DV

Kúvending í Noregi

Greinar

Óhjákvæmilegt er, að það hafi áhrif á Íslandi, þegar norska ríkisstjórnin hættir við að reisa þrjú vatnsorkuver þar í landi á þeim grundvelli, að stórvirkjanir séu orðnar úreltar og skaði umhverfið of mikið. Nægir að benda á, að norska ríkið á 40% í Norsk Hydro.

Hingað til hefur flokkur jafnaðarmanna í Noregi verið flokkur stóriðjusinna, en miðflokkarnir haft meiri áhuga á umhverfisverndun. Hin óvænta yfirlýsing Jens Stoltenbergs forsætisráðherra í nýársávarpi sínu markar því þáttaskil í umhverfismálum Noregs.

Nú, þegar stærsti stjórnmálaflokkurinn hefur snúið við blaðinu, má heita að öll breiðfylking norskra stjórnmálaflokka hafi snúist á sveif með umhverfissinnum. Íslenzkir umhverfissinnar mega því vænta hljómgrunns, þegar þeir gagnrýna gerðir Norsk Hydro á Íslandi.

Holur hljómur er í tilraunum Norsk Hydro til að þykjast aðeins vera aðili að byggingu álvers á Reyðarfirði en ekki stórvirkjana, sem því fylgir. Augljóst er, að Kárahnjúkavirkjun verður því aðeins reist, að Norsk Hydro vilji verða einn helzti eigandi Reyðaráls.

Norska stjórnin verður sökuð um tvískinnung, ef hún reynir að hreinsa til í stóriðjunni heima fyrir, en lætur viðgangast, að norskt ríkisfyrirtæki notfæri sér græðgi nokkurra aðila í þeim hluta þriðja heimsins, sem heitir Ísland. Hún mun segja Norsk Hydro að fara varlega.

Íslenzkir umhverfissinnar eiga því töluverð sóknarfæri í Noregi með aðstoð norskra umhverfissinna. Vakin verður athygli á, hvernig Norsk Hydro hefur hingað til getað leikið tveimur skjöldum og hagað máli sínu eftir aðstæðum og viðmælendum hverju sinni.

Það bætir enn stöðuna, að sá framkvæmdastjóri Norsk Hydro, sem áður gaf umhverfisvænstu yfirlýsingar fyrirtækisins um Reyðarál, er núna orðin aðalforstjóri fyrirtækisins. Það eykur líkur á, að fyrirtækið stígi enn varfærnari skref en það hefur gert hingað til.

Áramótaávarp Jens Stoltenbergs sýnir himin og haf milli nýrra sjónarmiða, sem ríkja þar í landi og suður eftir allri Evrópu, og gamalla sjónarmiða, sem enn ríkja í þriðja heiminum og á Íslandi, þar sem stundargræðgi veiðimannaþjóðfélagsins er enn við völd.

Að þessu leyti eins og svo mörgu öðru hefur Ísland staðnað. Meðan Evrópa er á fleygiferð inn í 21. öldina er Ísland enn að berjast við vandamál 19. aldar. Á 21. öld verður það mannauðurinn, sem ræður gengi þjóða, en á 19. öld voru það auðlindir lands og sjávar.

Áramótaávarp norska forsætisráðherrans sýnir einnig, að þar í landi hefur byggðastefna vikið fyrir öðrum og brýnni hagsmunum þjóðfélagsins. Norðmenn reisa ekki lengur orkuver og álver til að þjóna staðbundnum hagsmunum gegn umhverfishagsmunum heildarinnar.

Þetta eru mikil tímamót, því að hingað til hefur Noregur gengið allra ríkja lengst í byggðastefnu. Henni hefur nú verið skákað með áhrifamiklum hætti, sem hlýtur að enduróma á Íslandi, þar sem margir hafa leitað fyrirmynda í Noregi að byggðastefnu fyrir Ísland.

Fréttirnar frá Noregi eru áfall fyrir hvort tveggja í senn, byggðastefnu og stóriðjustefnu á Íslandi, hvað sem einstakir ráðherrar og hagsmunaaðilar kunna að segja. Þær eru hvatning öllum þeim, sem vilja vekja þjóðfélagið af 19. aldar áráttu og halda inn í 21. öldina.

Uppspretta auðs, velmegunar og lífsgæða Íslendinga á 21. öld mun liggja í virkjun mannauðs, en ekki í 19. aldar stóriðju og öðrum spjöllum lands og sjávar.

Jónas Kristjánsson

DV

Þar borgarar, hér þegnar

Greinar

Með stuðningi beggja þingflokka gaf Bandaríkjaforseti fyrir áramótin út nýjar reglur um vernd sjúkraupplýsinga, sem ganga miklu lengra en tillögurnar, er ekki náðu fram að ganga hér á landi, þegar deCODE genetics fékk einkaleyfi til að safna slíkum upplýsingum.

Hér á landi vildu ríkisstjórn og meirihluti Alþingis ekki, að almenningur yrði spurður leyfis. Tillögur um upplýst samþykki náðu ekki fram að ganga, enda var forsætisráðherra mikið í mun, að lögin yrðu samþykkt eins og frumvarp þeirra kom frá deCODE genetics.

Í Bandaríkjunum verður hér eftir að fá skriflegt leyfi sjúklinga fyrir notkun gagna um þá, hvort sem er í stórum atriðum eða smáum. Fá þarf endurtekið leyfi í sumum tilvikum, svo sem þegar slíkar upplýsingar gætu haft áhrif á stöðu sjúklingsins í þjóðfélaginu.

Sérstaklega er stefnt að því, að slíkar upplýsingar komist ekki til vinnuveitenda og tryggingafélaga, sem gætu mismunað fólki á grundvelli þeirra. Bandaríska þingið fól forsetanum árið 1996 að setja slíkar reglur og tryggingafélögin hafa fyrir sitt leyti samþykkt nýju reglurnar.

Í Bretlandi hafa stjórnvöld ekki gengið eins langt til móts við sjónarmið neytenda á þessu sviði. Þau hafa hins vegar gengið lengra í að vernda fólk fyrir fjárhagslegum afleiðingum af misnotkun á sjúkrasögu þess. Þau ákváðu fyrir áramót að tryggja fólk fyrir slíku.

Ef tryggingafélög í Bretlandi neita að tryggja fólk eða setja því afarkosti í iðgjöldum vegna upplýsinga um heilsufar þess, mun ríkisvaldið hér eftir sjá um þær tryggingar. Þannig er stefnt að því, að fólki sé ekki útskúfað vegna dreifingar á atriðum úr sjúkrasögu þess.

Í hvorugu landinu er talið, að dulkóðun upplýsinga tryggi, að sjúkrasaga fólks komist ekki til aðila, sem hafa aðstöðu til að setja þessu fólki stólinn fyrir dyrnar. Bandaríkjamenn banna ósamþykkta söfnun slíkra gagna og Bretar gera ráðstafanir vegna afleiðinganna.

Gert er ráð fyrir, að í framtíðinni muni vinnuveitendur með réttu eða röngu hafa upplýsingar um heilsufar atvinnuumsækjenda og tryggingafélög sömu upplýsingar um heilsufar þeirra, sem sækja um líftryggingu. Hér á landi hafa stjórnvöld hins vegar engar áhyggjur.

Þetta endurspeglar misjöfn viðhorf stjórnvalda til almennings. Í engilsaxnesku löndunum er ströng hefð persónuréttinda, sem hafa mótast í aldalangri baráttu við einvaldsherra af guðs náð og forréttindastéttir fyrri tíma. Þar er fólk talið vera fullgildir borgarar.

Hér á landi var aldrei háð slík sjálfstæðisbarátta fólksins. Sjálfstæðisbarátta Íslendinga var barátta innlendrar yfirstéttar embættismanna gegn erlendum embættismönnum. Eftir sigurinn tók íslenzk yfirstétt við hlutverki lénsherranna. Fólk var áfram talið vera þegnar.

Þar sem Íslendingar eru þegnar fremur en borgarar, láta menn hér sumt yfir sig ganga, sem aldrei gæti gerzt meðal Engilsaxa og raunar ekki heldur meðal Skandínava. Frægasta dæmið er einkaleyfi deCODE genetics á notkun heilsufarsupplýsinga án upplýsts samþykkis fólks.

Margir Íslendingar sýna valdinu taumlausa undirgefni. Þetta má til dæmis sjá af umgengni fólks við ráðherra á mannþingum. Af þessu má ráða, að þegninn sitji enn fastur í þjóðarsálinni, en borgarinn sé ekki enn kominn til skjalanna. Og landsfeður haga sér samkvæmt þessu.

Í skjóli hlýðinna þegna sinna talar forsætisráðherra niður til Hæstaréttar, forseta Íslands og allra þeirra, sem efast opinberlega um gerðir einvaldsherrans.

Jónas Kristjánsson

DV

Allt mun breytast

Greinar

Þeir, sem nú fæðast inn í nýja öld og nýtt árþúsund, munu sennilega flestir lifa svo lengi, að þeir nái að deyja frá allt öðruvísi heimi en við þekkjum núna. Breytingarnar verða enn meiri en þær hafa orðið á æviskeiði þeirra, sem fæddust fyrir einni öld og urðu langlífir.

Stórmál 20. aldar munu víkja fyrir öðrum stórmálum á 21. öld. Kotbúskapur strjálbýlis hefur þegar vikið fyrir háskólagreinum þéttbýlis, svo að byggðastefna mun síður flækjast fyrir okkur í framtíðinni. Veiðimennska sjávarútvegs mun fljótt breytast í skipulegt fiskeldi.

Með farsælli skipan lífeyrismála mun barátta kynslóðanna ekki verða hörð á öldinni. Þegar hver safnar sjálfur sínum lífeyri, mun breytt aldursskipting ekki leiða til pólitískra illdeilna um tekjuskiptingu. Stéttabarátta 20. aldar er þar á ofan nánast horfin um þessi aldamót.

Baráttan um auðlindirnar var hörð undir lok aldarinnar, en mun ekki einkenna nýja öld vegna ört minnkandi vægis sjávarútvegs. Baráttan um réttlætið var hörð undir lok aldarinnar, en mun ekki einkenna nýja öld vegna aukinnar auðsældar og betri trygginga.

Við sjáum nú þegar, að gömul flokkaskipting á grunni baráttu milli byggða, atvinnuvega, aldurshópa, kynja og stétta, hefur leitt til miðjumoðs, sem þýðir í raun, að gömlu ágreiningsefnin eru að deyja. Til sögunnar koma ný ágreiningsefni, sem flokkakerfið á eftir að höndla.

Þátttaka okkar í fjölþjóðlegu samfélagi auðveldar okkur aðlögun að nýjum tíma. Stóru þjóðfélögin á Vesturlöndum taka yfirleitt miklu fyrr en við á vandamálum og búa til margvíslega ramma, sem Íslendingar verða að hlíta og vilja hlíta til þess að geta áfram skipt við útlönd.

Umhverfi mannkyns verður eitt af allra stærstu málum 21. aldar. Í auknum mæli verða þjóðir heims að taka saman höndum til að hindra varanleg umhverfisslys. Fyrstu skrefin hafa verið stigin, svo að ekki er ástæða til að efast um, að þjóðum heims muni takast þetta.

Lok síðustu aldar einkenndust af hatrömmum ágreiningi Íslendinga í umhverfismálum. Allra fyrstu loturnar hafa þegar verið háðar í baráttu, sem mun í auknum mæli kljúfa þjóðina í ósættanlegar fylkingar, sem munu berjast um pólitísk völd í landinu á næstu áratugum.

Ný stéttaskipting mun leysa eldri skiptingar af hólmi. Þjóðfélagið mun í auknum mæli skiptast í fjölmennari hóp hinna afskiptalausu og fámennari hóp hinna virku. Hinir afskiptalausu munu deyja lifandi inn í sjónvarpsskjáinn og sólarströndina og einkalífið yfirleitt.

Hinir virku munu hafa aðgang að mun betri þekkingu á nýhafinni öld en forverar þeirra höfðu á hinni síðustu. Þeir verða vel í stakk búnir til að stjórna vestrænu nútímasamfélagi á skynsaman hátt í umboði hinna, sem sitja fyrir framan skjáinn og hafast ekki að.

Fólk er þegar að öðlast færi á lífsstíl, sem felur í sér bætt mataræði, góða hreyfingu, aukin afskipti af samfélaginu og annað það, sem gefur lífinu fyllingu og tilgang. Það verða ekki lengur fáir útvaldir, heldur fjöldi manns, sem lifir lengi og lifir vel fram í háa elli.

Lífsstíll hinna aðgerðalausu mun hins vegar verða margfalt dýrari vandi á nýrri öld. Sífellt dýrari aðgerðum og dýrari lyfjum verður beitt til að hjálpa þeim, sem missa heilsuna framan við sjónvarpið og eru ófærir um að taka ábyrgð á eigin lífi, eigin heilsu og eigin afskiptaleysi.

20. öldin snerist um að skaffa og skipta. Hin 21. mun hins vegar snúast um nýjan lífsstíl og nýja stéttaskiptingu og ný viðhorf til stöðu mannkyns í náttúrunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Salatbarir Eika

Veitingar

Eiki skrifstofufólks
Salatbarinn hjá Eika í Pósthússtræti 13 er betri en sá upprunalegi, sem enn er opinn í Fákafeni 9. Pósthússtrætis-staðurinn er ekki eins kuldalegur; úrvalið er meira; súpurnar fjórar, en ekki tvær; og heitu réttirnir tveir eru ekki bara pöstur. Á hvorum stað kostar máltíðin 980 krónur.
Mötuneytislegur salatbarinn í Pósthússtræti er tvískiptur og hefur glugga á tvo vegu. Hér er oft mikið að gera. Skrifstofufólk úr nágrenninu kemur í hádeginu og blandar í plastöskjur til að fara með að tölvunni. Aðrir sitja í bakháum stólum við gamaldags og ljóta olíudúka á borðum og geta farið margar ferðir á barinn, svo að þeir blandi ekki öllu saman í graut.
Um daginn voru á boðstólum fjórar heitar og áhugaverðar súpur, fiskisúpa, lauksúpa, sveppasúpa og grænmetissúpa. Volgu réttirnir voru kartöflukaka og blandað grænmeti, hvort tveggja aðlaðandi. Margs konar brauð var á boðstólum og ótal tegundir af hráu grænmeti, svo og dósatúnfiskur, en engir baunaréttir voru sjáanlegir. Hér voru líka epli, appelsínur, kiwi og tvenns konar melónur. Kaffið var vont.

Eiki líkamsræktarfólks
Salatbarinn hjá Eika í Fákafeni hefur skánað að yfirbragði en versnað að innihaldi. Af tveimur súpum virtist önnur vera hveitisúpa, en hin var tært og ágætt tómatseyði. Brauðið var fjölbreytt. Volgu réttirnir voru fremur fráhrindandi pöstur og ekki sást lengur neinn baunaréttur. Hrásalatið var fjölbreytt og hér voru líka epli, appelsínur, vínber og melónur. Kaffið var þolanlegt.
Innréttingin er ekki lengur í hörðum grunnlitum og lampar eru komnir á borðin, sem enn standa í hernaðarlega þráðbeinum röðum með þröngu bili. Á langvegg er nú komin feiknarleg stækkun ljósmyndar af ýmsum jarðávöxtum. Hingað slæðist líkamsræktarfólk úr nágrenninu og ýmsir, sem halda, að þeir séu í megrun.

Vonlaus megrun
Kolvetnisríkir salatbarir sem þessir höfða til megrunarfólks án þess að gera neitt gagn sem slíkir. Það er ekki nóg að hafa bragðvondan dósatúnfisk einan sem prótein. Til skjalanna þurfa að koma heitir baunaréttir, sem geta verið mjög góðir. Þá er dauð fæða á borð við pöstu úr hvítu hveiti og hvít hrísgrjón ekki heppilegt megrunarfæði, ekki frekar en sykurblönduð jógúrt með ávaxtabragði eða niðursoðnir ávextir í sykurlegi.
Salatbarirnir tveir gagnast hvorki þeim, sem eru grænmetisætur og vilja jafnvægi í næringarefnum, t.d. forðast prótein-skort, né þeim, sem vilja grenna sig eftir nýjustu aðferðum, er flestar banna allt, sem lýtur að viðbættum sykri, alla sterkju og allt, sem gert er úr unnu korni. Þeir, sem ætla eftir offylli jólanna að gefa nýjársloforð um nýjan lífsstíl, verða að snúa sér annað. Meira um það eftir viku, í fyrstu veitingarýni nýs árs.

Jónas Kristjánsson

DV