Skothríðin er hafin

Greinar

Skothríð fíkniefnamanna um helgina er einn margra fyrirboða. Í fyrra var framið fíkniefnamorð. Fimm ár eru síðan fíkniefnamenn börðu hnýsinn tollvörð til óbóta. Smám saman færist vandi umheimsins inn í landið og fyrr eða síðar þurfum við að læra að taka á honum.

Án aðgerða verður ástandið svipað og það er orðið víða erlendis, þar sem fíkniefnamönnum hefur tekizt að grafa undan þjóðskipulaginu með ógnunum og ofbeldi, mútum og fyrirgreiðslum. Við sjáum nú þegar, að íslenzk burðardýr þora ekki að segja hverjir réðu þau til verka.

Hér á landi eru að myndast undirheimar, þar sem lög og réttur þjóðfélagsins gilda ekki, heldur miskunnarleysi yfirmanna fíkniefnasölunnar. Þessi harði heimur teygir klærnar upp á yfirborðið og spillir gæzlumönnum þjóðfélagsins, alveg eins og gerzt hefur víða erlendis.

Ekki hefur tekizt að hefta útbreiðslu efnanna. Stóru fíkniefnamálin hófust vegna upplýsinga frá upphafspunkti ferils efnanna en ekki frá endapunktinum. Efnin voru tekin við tollskoðun, en ekki vegna upplýsinga neytenda, sem alls ekki vilja segja til þeirra, sem efnin selja.

Hin svokölluðu stóru fíkniefnamál landsins hafa ekki haft umtalsverð áhrif á markaðinn. Verðsveiflur hafa verið litlar. Það segir okkur, að náðst hefur aðeins í lítið brot efnanna, sem eru í umferð. Verðum við þannig að sætta okkur við síaukna neyzlu og síaukna glæpi?

Fyrir tólf árum benti tímaritið The Economist á, hvernig mætti leysa vandann sem fylgir ólöglegri sölu fíkniefna. Vakin var athygli á lausninni í leiðara DV á þeim tíma og raunar nokkrum sinnum síðan. Nú síðast hefur þekktur lögmaður tekið undir þessi sjónarmið.

Lausnin felst í að lögleiða fíkniefnin, rétt eins og áfengi er löglegt og geðbreytilyf eru lögleg. Salan verði tekin úr höndum glæpamanna og færð í hendur ríkisverzlana eða lyfjabúða. Þar með væri fótunum kippt undan þeirri starfsemi sem núna nagar innviði þjóðskipulagsins.

Neyzla fíkniefna mun aukast, en lögbrot stórminnka. The Economist vísaði á sínum tíma til sérfræðinga, sem höfðu komizt að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að fórna minni hagsmunum fyrir meiri, sætta sig við aukna neyzlu, en njóta í staðinn aukins friðar og réttlætis.

Vandi neytenda ólöglegra efna snýr ekki aðeins að neyzlunni sjálfri, heldur enn frekar að kostnaðinum og spillingunni við að komast yfir efnin. Vandi þjóðfélagsins felst margfalt meira í ólöglegri starfsemi undirheima heldur en í afleiðingum neyzlunnar uppi á borði.

Þótt mikilvægt sé að hamla gegn neyzlu ólöglegra fíkniefna er enn mikilvægra að hindra myndun hættulegra valdamiðstöðva, sem grafa undan þjóðfélaginu. Sú var niðurstaðan í Bandaríkjunum, þegar áfengisbann var afnumið, og þetta lögmál gildir líka um fíkniefnin.

Ekki má gleyma, að áfengi er leyft, þótt það sé mjög hart fíkniefni og margfalt dýrara og hörmulegra vandamál en ólöglegu fíkniefnin. Ekki má gleyma, að þorri afbrota í landinu er framinn undir áhrifum áfengis og lyfja úr lyfjabúðum, frekar en ólöglegra fíkniefna.

Samt er sala áfengis leyfð í sérstökum ríkisverzlunum og sala geðbreytilyfja leyfð í sérstökum lyfjabúðum. Engar efnisforsendur eru fyrir því að fela undirheimalýð að sjá um sölu annarra fíkniefna en áfengis og geðbreytilyfja og leyfa þeim að grafa undan þjóðfélaginu í leiðinni.

Með því að leyfa raunsæi að leysa hræsni af hólmi sem leiðarljós okkar í baráttunni gegn fíkniefnaheiminum getum við hindrað, að innviðir þjóðfélagsins bresti.

Jónas Kristjánsson

DV

Kringlan

Veitingar

Krimmi á Kringlukránni
Framlágur smákrimmi sat við borð með grátandi stelpu og útskýrði fyrir henni, að hann lemdi hana, af því að hún gerði hann svo æstan. Þetta var allur gestahópurinn á víðáttumikilli og snyrtilegri Kringlukrá. Breytileg lofthæð, óreglulegir veggir og hlykkjótt afgreiðsluborð milda stærðina og gera salinn að notalegasta veitingarými Kringlunnar til að drekkja sorgum undir þreytandi síbylju útvarps.

Matseðill með gloppum
Ekki var búizt við mörgum matargestum, því að ýmislegt á matseðlinum var ekki fáanlegt. Ég fékk þó matarmikla og mikið rjómaða sjávarsúpu með rækjum og hörpufiski; seigan smokkfisk á sterkri tómatsósu; steiktan steinbít með mildri og fínni chili-sósu; svo og hversdagslegt hakkabuff með kapers, sem bjargaði réttinum. Staðlað meðlæti var eins með kjöti og fiski. Sem matstaður var kráin þolanleg, en ekki mikið meira.

Rangali á Café Bleu
Gestir Borgarleikhússins hafa ekki í góð hús að venda, ef þeir hyggjast fá sér að borða fyrir sýningu. Matstaðir Kringlunnar eru eiginlega upphafnir skyndibitastaðir, ekki sambærilegir við meðaltal matstaða utan hins verndaða umhverfis. Að hætti Kringlunnar eru þetta staðir ímyndar umfram innihald. Að Café Bleu frátöldu eru þeir mikið og sumpart vel hannaðir sem húsnæði, en matreiðslan er ekki girnileg, einna skást og sérkennilegust í Café Bleu, óvenjulega stíllausum rangala síbreytilegs útlits, þar sem lífleg og vökul þjónusta er bezti kosturinn.

Hard Rock er að þreytast
Elzti og háværasti staðurinn á svæðinu er Hard Rock, sem hefur slakað á matreiðslu og þjónustu, sem núna er meira elskuleg en athafnasöm, enda þarf staðurinn ekki lengur að gera hosur sínar grænar fyrir barnafólki og túristum, sem koma hvort sem er. Ég fékk engin hnífapör með lítt glæsilegum rétti, hæfilega creole-grilluðum og góðum steinbít með litlum og hörðum rækjum. Grænmetissalatið var líka fremur gott og lítt glæsilegt.

Færiband komið í Eldhúsið
Ég á erfitt með að ræða Eldhúsið, því að ég hef komið þar fjórum sinnum og alltaf fengið óvenju illa gerðan mat. Nú sýnist mér hafa verið skipt um eigendur og matseðil, svo að ég þarf sjálfsagt að skipta um skoðun, en ég treysti mér varla til að reyna einu sinni enn. Takmörk hljóta að vera fyrir því, hvað maður leggur á sig fyrir hugsjónina. Ég var samt nýlega kominn inn úr dyrunum, en sá þá, að innan við anddyrið hafði verið smíðaður risavaxinn matbar með réttum á færibandi, í bókstaflegum skilningi. Mér féllust hendur og ég lagði á flótta.

Svipað milliverð
Allir þessir staðir eru á svipuðu milliverði, á kvöldin að meðaltali þríréttað með kaffi á 3.200 krónur í Café Bleu, 3.400 krónur á Hard Rock, 3.600 krónur á Kringlukránni og eitthvað hærra í Eldhúsinu.
Jónas Kristjánsson

DV

Öfugmæla-verðlaun

Greinar

Flestir eru þeir látnir, sem eiga verðlaun skilið fyrir að veita birtu og yl í þjóðfélagið án notkunar kola eða olíu. Landið var rafvætt og hitaveituvætt fyrir mörgum áratugum, löngu áður en núverandi ríkisstjórn tók til starfa. Hún á engan þátt í því merka umhverfismáli.

Feður málsins eru löngu liðnir ráðamenn Reykjavíkur, sem stofnuðu Hitaveituna og reistu orkuverið við Ljósafoss. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki lagt neitt nýtt til orkumála, nema vera skyldi aukna áherzlu á stórar stíflur og miðlunarlón orkuvera í þágu stóriðju.

Það er eins og hver önnur sviðsetning, þegar erlendir menn með mikla sýniþörf, þar á meðal Míkhaíl Gorbatsjov, sem hefur of lítið að gera, stofna sérstök samtök fyrir sig í tízkugrein umhverfismála og veita verðlaun út og suður, þar á meðal íslenzku ríkisstjórninni.

Vatnsorkuver og hitaveitur hafa lengi verið sérgrein og stolt Íslendinga. Við teljum þetta að mestu leyti vera hvíta orkuöflun, sem sé sjálfbær og mengi ekki umhverfið. Hingað til höfum við að mestu leyti haldið okkur við framkvæmdir, sem valda ekki miklum skaða.

Við þurfum þó að fara varlega, því að komið hefur í ljós á síðustu árum, að vatnsorkuver eru ekki eins skaðlítil og áður var haldið. Í nóvember síðastliðnum skilaði Alþjóða stíflunefndin tímamótaáliti til Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðabankans um efnahagsáhrif af stíflum og lónum.

Nefndin skoðaði þúsund stíflur og lón um allan heim og komst að raun um, að þessar framkvæmdir hefðu oftast skaðað efnahag þjóða í stað þess að bæta hann. Mesti vandinn er, að stíflur hindra eðlilegan flutning á aur niður árfarvegi og valda breytingum á jarðvegi.

Aswan-stíflan í Egyptalandi hindrar aur í að bætast við óshólma Nílar og hamlar móti sjávargangi. Nú er sjór farinn að ganga á land í óshólmunum og ógnar milljónum manna. Einnig hefur jarðvegur orðið saltari í Nílardal og gefur minni gróður af sér. Þarna tifar tímasprengja.

Enn verri er vandinn í Kína, þar sem risastíflum og risalónum hefur verið komið fyrir án tillits til hliðarverkana. Eins og í Egyptalandi breytist jarðvegur áveitusvæðanna í Kína og gefur sífellt minna af sér. Þar tifar tímasprengja yfirvofandi hungursneyðar.

Við höfum verið svo heppin á Íslandi, að öflugustu orkuverin byggjast að mestu leyti á rennslisvirkjunum, sem þurfa ekki háar stíflur og mikil miðlunarlón. Þannig hefur Þjórsár- og Tungnaársvæðið að mestu verið virkjað án mikilla breytinga á landslagi svæðisins.

Miðlunarlón hafa hér á landi þann alvarlega galla að vera með breytilegu yfirborði eftir miðlunarþörfum hvers árstíma. Þannig er reiknað með, að hæðarmunur í fyrirhuguðu lóni við Kárahnjúkavirkjun verði yfir 70 metrar. Sveiflan í hæð lónsins á að nema rúmum 70 metrum.

Við lónið verða því víðáttumikil landflæmi, sem stundum eru undir vatni og stundum þurr og eru hvarvetna til óprýði. Samkvæmt biturri erlendri reynslu myndast þarna dauður foksandur og fokleir sem hindrar fjörugróður og stuðlar að gróðureyðingu í nágrenninu.

Miðlunarlón verða aldrei neinn áfangastaður ferðamanna, hvað þá að menn geti haft tekjur af að sigla með ferðamenn um þau. Í Þórisvatni höfum við dæmi um dautt lón af þessu tagi. Það er eyðimörk eins og landið í kring og sýnir okkur, hvernig Hálsalón verður.

Við höfum meira en nóga orku til frambúðar, þótt við förum að ráði Alþjóða stíflunefndarinnar og höfnum mengandi risastíflum og -lónum ríkisstjórnarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjálfskaparvíti kjósenda

Greinar

Einkennilegt er, að fólk með kosningarétt telur sig yfirleitt ekki bera neina ábyrgð á gerðum sínum. Það telur eðlilegt að kvarta og kveina yfir gerðum stjórnvalda, en hefur ekki lyft litla fingri til að koma í veg fyrir, að gæzlumenn sérhagsmuna einoki störf Alþingis.

Alþingismenn taka flestir málstað sérhagsmuna fram yfir málstað almannahagsmuna, hvort sem fjallað er um grænmeti eða eitthvað annað, af því að þeir vita, að þeir komast upp með það. Kjósendur munu ekki láta umboðsmenn sérhagsmuna fá makleg málagjöld.

Starf alþingismanna og einkum þeirra alþingismanna, sem Alþingi gerir að ráðherrum, felst einkum í að veita sérhagsmunum brautargengi. Frægust dæmi um slíkt eru í landbúnaði og sjávarútvegi, en sama stefna einkennir líka störf ríkisstjórnar og Alþingis á öðrum sviðum.

Áratugum saman hefur verið bent á þá óhrekjanlegu staðreynd, að hefðbundinn landbúnaður á Íslandi er rekinn á kostnað neytenda og skattgreiðenda. Sjálft vinnsluvirðið í greininni er alls ekki neitt og hefur raunar lengst af verið neikvætt á sumum sviðum greinarinnar.

Kjósendur vita vel um þessa umræðu og eru flestir sammála niðurstöðunum. Þeir vita, að þeir eru látnir borga hærri skatta en ella vegna þessa. Þeir vita líka, að þeir eru látnir borga meira fyrir matinn en ella vegna þessa. Þeir gera samt ekkert með þessa vitneskju.

Síðasta áratug var hörkuumræða um gjafakvótann í sjávarútvegi, sem felst í, að auðlindir, sem sjálft þjóðfélagið hefur með verndaraðgerðum bjargað frá hruni, eru afhentar fámennum hópi gæðinga, sem leigja síðan kvótann og selja eins og þeir eigi sjálfa auðlindina.

Kjósendur vita vel um þessa umræðu og eru flestir sammála niðurstöðunum. Þeir vita, að þeir eru látnir borga hærri skatta en ella vegna þessa. Þeir vita raunar, að þetta jafngildir öllum tekjuskatti einstaklinga í landinu. Þeir gera samt ekkert með þessa vitneskju.

Ráðherrar og alþingismenn styðja sérhagsmuni, af því að þeir eru öflugir og samstæðir og leggja sumir mikið fé í kosningasjóði. Ráðherrar og alþingismenn hafna almannahagsmunum, af því að þeir eru lágværir og sundraðir og fjármagna ekki kosningabaráttu.

Ef kjósendur tækju ábyrgð á gerðum sínum og veldu sér umboðsmenn í stjórnmálum eftir hagsmunum sínum sem skattgreiðendur og neytendur, sem um leið eru almannahagsmunir, mundu stjórnmálamenn ekki voga sér að taka sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni.

Svo blindir eru kjósendur á eigin hagsmuni, að fæstir þeirra styðja Neytendasamtökin með aðild sinni, og svo starblindir eru þeir á eigin hagsmuni, að ekkert Skattgreiðendafélag er til, svo vitað sé. Stjórnmálamenn horfa á þetta sinnuleysi og haga sér auðvitað eftir því.

Stjórnmálamönnum er ekki hafnað í skoðanakönnunum og prófkjöri innan flokka, þótt þeir hafi það á samvizkunni að hafa tekið sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni. Stjórnmálaflokkum er ekki hafnað í kosningum, þótt þeir hafi lagt lóð sitt allt á sömu vogarskál.

Því ættu kjósendur ekki að kvarta og kveina, þótt landbúnaðarráðherra, aðrir ráðherrar, allir þingmenn stjórnarflokkanna og nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar hækki matarverð með ofurtollum. Kjósendur ættu heldur að sparka þessum umboðsmönnum sínum úr starfi.

Meðan kjósendur neita að gæta hagsmuna sinna sem neytendur og skattgreiðendur er engin von til þess, að stuðningi við þrönga sérhagsmuni linni í pólitíkinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Hatur á höfuðborg

Greinar

Iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins hefur lagt sig í líma við að tefja mikla stækkun álversins við Grundartanga, svo að hún leiði síður til frekari frestunar álvers í Reyðarfirði, sem er flokknum mjög hjartkært, enda er það lengra frá hinu mjög svo hataða höfuðborgarsvæði.

Norðurál við Grundartanga afkastar núna 90 þúsund tonnum af áli á ári. Leyfi er fyrir 90 þúsund tonna afköstum til viðbótar, en ráðamenn fyrirtækisins vilja stækka það upp í 300 þúsund tonna afköst. Til þess þarf nýtt umhverfismat, sem ráðherra hefur komið í veg fyrir.

Ráðamenn Norðuráls eru þekktir fyrir að ganga rösklega til verka. Stuðningsmenn Reyðaráls óttast, að mikil og ör stækkun Norðuráls muni leiða til, að ekki verði talið efnahagslega ráðlegt að reisa umdeilt Reyðarál á sama tíma vegna ofþenslu í framkvæmdum í landinu.

Engar efnislegar ástæður eru fyrir framferði ráðherrans. Norðurál er hagkvæmur stóriðjukostur, sem veldur miklu minni umhverfisdeilum en Reyðarál, er kallar á flutning tuttugu fallvatna milli farvega og gríðarlega stíflu og lón með afar breytilegu vatnsyfirborði.

Valgerður Sverrisdóttir er ekki að vinna fyrir þjóðina í ráðuneytinu, heldur gegn henni. Hún er að reyna að tefja hagkvæmar framkvæmdir við höfuðborgarsvæðið, svo að umdeildar framkvæmdir í strjálbýlinu fái forgang. Hún er dæmi um ofbeldishneigðina í höfuðborgarhatrinu.

Ráðherrar Framsóknarflokksins eru ekki einir um að reyna að níða skóinn niður af höfuðborgarsvæðinu. Samgönguráðherra hefur lagt sig fram við að fresta framkvæmdum við mislæg gatnamót á því svæði, svo að þau sogi ekki peninga frá jarðgöngum gegnum fjöll.

Engar efnislegar ástæður eru fyrir framferði ráðherrans. Mislæg gatnamót á höfuðborgarsvæðinu stuðla að hagkvæmni í flutningum mjög margra og draga þar að auki úr slysum, en jarðgöngin eru ákaflega dýr og hafa ekki nema brotabrot af nýtingu gatnamótanna.

Efnahagslega er augljóst, að þjóðin hefur meira gagn af mislægum gatnamótum Miklubrautar og nokkurra þverbrauta hennar, svo og mislægum gatnamótum Reykjanesbrautar og nokkurra þverbrauta hennar heldur en af jarðgöngum í fjöllum milli afskekktra héraða.

Sturla Böðvarsson er ekki að vinna fyrir þjóðina í ráðuneytinu, heldur gegn henni. Hann er að reyna að tefja hagkvæmar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu, svo að umdeildar framkvæmdir í strjálbýlinu fái forgang. Hann er dæmi um ofbeldishneigðina í höfuðborgarhatrinu.

Hvar í flokki sem þeir standa vinna ráðherrarnir gegn hagsmunum þess rúmlega helmings þjóðarinnar, sem býr á höfuðborgarsvæðinu. Þeim er hjartanlega sama um, að fólk á þessu svæði missi vinnuna, þegar þeir eru að flytja opinberar stofnanir með handafli á afskekkta staði.

Þeim er líka hjartanlega sama um, að þessar stofnanir verða lélegri þjónustustofnanir en þær voru áður vegna aukins skorts á sambandi þeirra við fólk. Þeir líta ekki á opinberar stofnanir sem þjónustu, heldur aðferð við að útvega störf í kjördæmum, sem þeim eru hjartkær.

Alveg er líka sama, hvort Sjálfstæðisflokkurinn eða Framsóknarflokkurinn á mann í stöðu landbúnaðarráðherra. Allir kappkosta þeir að okra á fólki í skjóli landbúnaðareinokunar, af því að það býr flest á höfuðborgarsvæðinu og telst því ekki menn með mönnum.

Furðulegt er, að kjósendur á höfuðborgarsvæðinu skuli áratug eftir áratug láta þessa tvo stjórnmálaflokka komast upp með markvisst hatur á höfuðborgarsvæðinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrír Frakkar

Veitingar

Þrír sneisafullir Frakkar
Eins og þeir eiga skilið eru Þrír Frakkar hjá Úlfari sneisafullir af háværu fólki í hádegi og að kvöldi árið um kring og loka þannig þríhyrningi matreiðslu, umhverfis og stemmningar, sem gerir veitingahús að hornsteini í lífi borgar. Ekki skaðar verðlagið, átta fiskréttir að meðaltali á 1190 krónur í hádegi og 1735 krónur að kvöldi, hvort tveggja að tærri grænmetissúpu dagsins innifalinni. Þríréttað val af fornlegum fastaseðli með kaffi kostar 3700 krónur á mann.

Nákvæmur eldunartími
Réttur eldunartími fiskjar er aðall góðrar matreiðslu Úlfars Eysteinssonar á Þremur Frökkum, sem haldizt hefur óbiluð frá árdögum staðarins, þótt hugmyndaflugið hafi daprazt svo, að nú eru sömu tilbrigðin endurtekin í sífellu, staðlað meðlæti með mörgum réttum, svo og ostasósur og ostbökun út í eitt. Sjaldgæfum fisktegundum hefur fækkað á matseðli, sem þó slær við öðrum matseðlum á Íslandi með því að breytast tvisvar á dag.

Silkimjúkur saltfiskur
Afbragðsgóður plokkfiskur með rúgbrauði er einkennisréttur Þriggja frakka. Enn betri er silkimjúkur saltfiskur, fínlega eldaður í ýmsum útgáfum, sem breytast frá degi til dags, stundum með hamsatólg, í annan tíma ostbakaður eða þá með kapers og rauðlauk og einnig suðrænn með tómatmauki og olífum. Síðast man ég eftir nákvæmt grilluðum þorski í mildri sinnepssósu. Þá voru líka boðnar gellur, rauðspretta, smálúða, karfi, steinbítur, tindabikkja og barri.

Fiskhús Íslands eru fá
Ferskur og fjölbreyttur fiskur ætti að vera aðall íslenzkra veitingahúsa í nútíma ferðamannaflóðsins. Samt eru hér bara þrjú fiskhús. Fyrir utan Þrjá Frakka eru það áðurnefndir Tveir fiskar og Tjörnin. Sticks’n Sushi í Aðalstræti er líka góður fiskistaður, en japanskrar ættar. Laugaás við Laugarásveg er úr sögunni, hættur að vera með breytilegan fiskimatseðil dagsins og tilbiður frystikistuna eins og flestir matstaðir landsins, ekki sízt þeir yngstu og verstu.

Notalegur og glaður
Þótt fiskimatreiðslan sé eins góð á Tveimur fiskum við Tryggvagötu og enn betri á Tjörninni við Kirkjutorg, hafa Þrír Frakkar eina hlið þríhyrningsins, stemningu gestanna, umfram Tjörnina og tvær hliðar þríhyrningsins umfram Tvo fiska, stemningu gestanna og notalega gamaldags húsakynni í þremur litlum og þröngum stofum, studd elskulegri þjónustu, sem heldur streitulausum dampi, þótt oft sé mikið að gera. Ekki má gleyma, að þetta er einn af fáum stöðum, sem tekur mark á reglum um reyklaus svæði, en loftræstingin mætti þó vera betri í þrengslunum, þegar þau eru mest.

(Þrír Frakkar hjá Úlfari, Baldursgötu 14, sími 552 3939)
Jónas Kristjánsson

DV

Davíð trúir Atkins betur

Greinar

Nokkrir næringarfræðingar eru með böggum hildar yfir því, að forsætisráðherra skuli ekki leita næringarráða hjá þeim, heldur fara í smiðju bandarísks töfralæknis og fá leyfi hans til að megra sig með aðferðum, sem fela meðal annars í sér egg og beikon í morgunverð.

Í stað þess að amast við aðferðum, sem virðast koma forsætisráðherranum að gagni, væri þessum næringarfræðingum og ýmsum fleiri slíkum nærtækara að spyrja sig, hvers vegna ráð næringarfræðinga hafa komið viðskiptavinum þeirra að átakanlega litlu gagni.

Íslenzkum næringarfræðingum virðist mörgum hverjum ósýnna um að fylgjast með fræðunum eftir að þeir koma úr skóla en mörgum öðrum stéttum sérfræðinga. Að minnsta kosti virðast greina- og bókahöfundar íslenzkrar næringarfræði sumir vera harla úreltir.

Á síðasta áratug tuttugustu aldar varð almennt vitað, að fitumyndun í líkama fólks stafar einkum af óstýrilátri insúlínframleiðslu líkamans, sem stafar einkum af óhóflegu kolvetnisáti þess, einkum þó neyzlu einfaldra sykurtegunda, sem bætt er út í flest matvæli fólks.

Þótt vestrænar þjóðir, og þar á meðal Íslendingar, hafi stórminnkað fituát sitt að ráði næringarfræðinga, hafa þær haldið áfram að þyngjast skelfilega. Það stafar af, að kolvetnisrík fæða á borð við pöstur og pítsur og sykurblönduð pakkafæða eru orðin að þjóðarréttum.

Léttmjólk og undanrenna hafa tekið við af feitri nýmjólk og alls konar fituskertar smjörvörur hafa tekið við af feitu smjöri, svo sem auðveldlega má sjá í rekkum stórmarkaða. Samt hafa Íslendingar haldið áfram að fitna, enda er sykri óspart mokað í mjólkurvörur.

Á líkamsræktarstöðvum halda sumir næringarfræðingar pöstum og sykurdrykkjum að fólki og stuðla þannig að vítahring kolvetna-insúlíns-offitu. Síðan skrifa þessir úreltu næringarfræðingar greinar í blöð og skrifa bækur, þar sem sykur er talinn ódýr og hollur orkugjafi.

Ekki er nóg með, að íslenzkum næringarfræðingum virðist mörgum hverjum vera ókunnugt um uppgötvanir á samhengi sykurs, insúlínframleiðslu og offitu, heldur geta þeir ekki heldur skilið, hvers vegna offitufólk fer ekki varanlega eftir ráðum þeirra, heldur gefst upp.

Ekki gengur að láta fólk hætta varanlega að reykja tóbak með sölu á nikótíntyggjó og nikótínplástrum, af því að sjálft fíkniefnið, nikótínið, er áfram notað. Alveg á sama hátt er ekki hægt að láta offitufólk hætta matarfíkn með því að halda fíkniefnunum áfram í fæðunni.

Sérfræðingum í áfengisfíkn dettur ekki í hug að láta fíklana hafa svo mikið sem eitt bjórglas á viku, af því að þeir vita, að það viðheldur fíkninni. Á sama hátt ber ekki að láta tóbaksfíkla hafa nikótíntyggjó og nikótínplástur og ekki láta kolvetnisfíkla hafa einfaldan sykur.

Næringarfræðingar virðast margir hverjir ekki skilja hugtakið fíkn. En það hugtak skýrir þó, hvers vegna offitufólk getur ekki fylgt ráðum um mataræði. Það ræður einfaldlega ekki við sig, þegar það situr andspænis fíkniefnunum. Líkaminn heimtar sitt blóðsykurflipp.

Forsætisráðherra hefur tekið upp aldarfjórðungs gamla og grófa aðferð Atkins læknis, sem mörgum hefur reynzt vel, enda er hún óneitanlega áhrifamikil. Á síðustu árum hafa komið fram mildari og hægari, en hollari aðferðir, sem fela meðal annars í sér grænmeti.

Næringarfræðingar ættu ekki að amast við ágætri megrun forsætisráðherra heldur fara að kynna sér hin nýju fræði, sem lýsa þætti fíknar og insúlíns í offitu.

Jónas Kristjánsson

DV

Sterkir boða ógæfu

Greinar

Þegar persónugervingur íslenzkrar spillingar bað þjóðina í síðustu kosningum um að veita sér brautargengi til að berjast gegn spillingu, voru aðeins örfá prósent þjóðarinnar reiðubúin að trúa. Það segir okkur, að fáir Íslendingar séu reiðubúnir að trúa hverju sem er.

Hins vegar er um það bil helmingur Ítala reiðubúinn að trúa, að persónugervingur ítalskrar spillingar, Silvio Berlusconi, sé bezti kostur þjóðarinnar sem nýr forsætisráðherra eftir þingkosningarnar í maí, þótt hann hafi reynzt lélegur og skammlífur landsfaðir árið 1994.

Ennfremur er um það bil helmingur Perúmanna reiðubúinn að trúa, að persónugervingur þarlendrar spillingar, Alan Garcia, sé bezti forsetakosturinn í úrslitakjörinu í maí eða júní, þótt hann hafi reynzt skelfilegur forseti landsins árin 1985­1990 og hafi lengi verið landflótta.

Eftir er að sjá, hvort lýðskrumararnir á Ítalíu og í Perú ná hinum eftirsóttu embættum. Hitt er víst, að tjón Ítala verður minna en Perúmanna, af því að hinir fyrrnefndu búa við þingræði, en hinir síðarnefndu við forsetaræði, þar sem forsetinn er kosinn beinni kosningu.

Vegna meiri valddreifingar við þingræði heldur en við forsetaræði eru meiri líkur á, að Ítalir geti varizt misbeitingu valds heldur en Perúmenn. Sá hefur reynzt galli forsetaræðis í fátækum löndum, að landsfaðirinn misbeitir valdinu til að afla sér aukinna valda.

Þannig hafa forsetar Suður-Ameríku flestir orðið að hálfgerðum eða algerum einræðisherrum, þar á meðal sá, sem nýlega flúði frá Perú rúinn trausti. Það var Alberto Fujimori, sem lengi vel var einn helzti ástmögur þeirra, sem telja vestrænt hagkerfi vera allra meina bót.

Þannig hafa nánast allir forsetar Afríku orðið að meira eða minna trylltum einræðisherrum, sem hafa stórskaðað þjóðir sína og sumir hverjir skilið þær eftir í þvílíkum rústum, að óbætanlegt má telja. Margir þeirra náðu völdum með stuðningi kjósenda í kosningum,

Lýðræði að vestrænum hætti felst nefnilega ekki bara í kosningum. Þær eru nauðsynlegur þáttur lýðræðis, en ekki fullnægjandi. Þrír aðrir þættir skipta ekki minna máli, í fyrsta lagi lög og réttur, í öðru lagi skoðana-, funda, mál- og eignafrelsi og í þriðja lagi valddreifing.

Lýðræði gagnast ekki, nema allir þessir fjórir þættir séu meira eða minna virkir. Valddreifingin er ekki léttvægari en hinir þættirnir, enda má sjá, að skortur á henni hefur víðast hvar orðið lýðræði fjötur um fót í þriðja heiminum og raunar einnig í ríkari löndum.

Valddreifing er ýmiss konar. Á einn veg er valdi dreift milli framkvæmda-, löggjafar- og dómsvalds. Á annan veg er valdi dreift milli sveitarstjórna, landsstjórnar og fjölþjóðasamtaka. Einnig eru til stofnanir úti í bæ, sem hafa áhrif á gang mála, svo sem þrýstihópar af ýmsu tagi.

Því miður hafa ráðamenn á Vesturlöndum og ráðamenn fjölþjóðastofnana í viðskiptum og fjármálum verið of blindir á nauðsyn valddreifingar. Þeir hafa trúað, að sterkir menn tryggi bezt, að lánað eða gefið fé komi fátækum þjóðum að notum, þótt reynslan sýni annað.

Mestu vandamál þjóða, ríkja og heimshluta stafa einmitt af sterkum mönnum á borð við Hitler, Stalín, Maó, Milosevits og svo framvegis endalaust. Reynslan er miklu betri af veikum leiðtogum, sem þurfa að þrúkka hver við annan um framgang mikilvægra mála.

Íslendingar eru vel settir í flokki þjóða, sem meira eða minna hafa alla fjóra þætti lýðræðis í góðu lagi og lenda því ekki í hremmingum af völdum sterkra leiðtoga.

Jónas Kristjánsson

DV

Borg, Lón

Veitingar

Utanbæjarmenn á Borg
Þingmenn og þorpsbúar slæðast stundum í kvöldmat á Hótel Borg af inngrónum vana og búa kannski á hótelinu vegna nálægðar við Alþingi og helztu skömmtunarstofur þjóðfélagsins. Í hádeginu eru svo leifar kerlingafunda fyrri áratuga. Salurinn hefur losnað við forljóta hringbarinn á miðju gólfi, sem stakk í stúf við virðulega endurnýjað yfirbragð salarkynna millistríðsáranna, svo að andrúmsloftið er með stuðningi kertaljósa aftur orðið notalega gamal-evrópskt.

Tvískinningur og tóbakskóf
Veitingasalurinn heitir núna Brasserie Borg. Helmingur barsins er horfinn og hinn kominn út í horn. Áfram gildir tvískinnungurinn milli ölvunarhávaða Íslendinga í innra helmingi salarins og kvöldverðarþjónustu í gluggahelmingnum, þar sem afgreiddir eru ævintýrafælnir hótelgestir erlendir, sem ekki þora úr húsi. Vegna lélegrar loftræstingar var tóbakskófið þó sameiginlegt og hvergi sjáanlegt reyklaust afdrep í salnum.

Fátækleg íslenzka
Hvítt lín hefur blessunarlega leyst glerplötur af hólmi og kominn er tilboðsseðill, sem gefur færi á að borða þríréttað með kaffi fyrir 4400 krónur í stað 5700 króna, sem væri of hátt verð fyrir tilþrifalitla, en fagmannslega matreiðslu og sérkennilega þjónustu, er hvorki talar skiljanlega íslenzku né skilur íslenzku. Skemmtilega skrítnir þjónar voru raunar löngum aðalsmerki Hótels Borgar.

Lambarif með sykursósu
Bakaður saltfiskur var í þurrasta lagi, borinn fram með miklu gumsi, flókinn réttur, en hvorki fagur né góður. Skrautlega uppsett lambarif voru hins vegar ágæt, en því miður borin fram með væminni sykursósu. Forréttir voru betri en aðalréttir, góðar risarækjur með fínu grænmeti innbökuðu og heitreyktur lax ofan á kúskús-grænmeti. Eftirréttir voru þolanlegir, gamaldags súkkulaðiterta með vanillusósu og einföld ostaterta með kakódufti, kölluð tiramisú. (Brasserie Borg, Pósthússtræti 11, sími 551 1247)

Hlaðborð í Lóni
Leiðigjarnt hlaðborð hefur lengi verið sérkenni Lónsins á Hótel Loftleiðum og er enn, kostar 1590 krónur í hádeginu og 2600 krónur á kvöldin, þolanlegur kostur fyrir fanga Flugleiða í millilendingum, en tæpast nothæft fyrir aðra. Næstbezti hluti þess voru kaldir sjávarréttir, svo sem rækjur og hörpudiskur, reyktur og grafinn lax, en aðaltrompið fólst í ferskum ávöxtum niðursneiddum, jarðarberjum og vínberjum með þeyttum rjóma.

Þreytulegir réttir
Heitir réttir með skán í hitakössum voru hins vegar hvorki fallegir né góðir. Fiskur var ekki í hávegum hafður, en finna mátti frambærilega smálúðu í tómati. Tvær tegundir af ofelduðu og þurru kjöti voru sneiddar fyrir fólk, þegar búið var að finna skurðmeistarann. Ágætis gumsréttur úr byggi bjargaði kvöldverðinum fyrir horn. (Lón, Loftleiðum, sími 505 0925)

Jónas Kristjánsson

DV

Kínahúsið, Esja

Veitingar

Marktækt Kínahús
Eina kínverska veitingahúsið á landinu, sem ber nafn með rentu, er ódýrt Kínahúsið við Lækjargötu 8 (sími 551 1014), þar sem ég borða oft fyrir 595 eða 695 krónur í hádeginu og 1750 krónur á kvöldin. Þetta eru verð, sem sum hver hafa haldizt óbreytt árum saman. Fyrir það fæst sérlagaður og snöggeldaður kínverskur matur, sem ekki er mokað upp úr hitakössum og látinn jóðla í sósum eins og víðast hvar tíðkast á slíkum stöðum hér á landi.

Ódýrar veizlur
Í hádeginu fæst fyrir 595 krónur í Kínahúsinu matarmikil súpa, t.d. kjúklingasúpa, eggjadropasúpa eða deigbögglasúpa (Wun Tun), og aðalréttur með súrsætum rækjum og fyrir 695 krónur fæst súpan auk blöndu af þremur aðalréttum, djúpsteiktum rækjum og deigbögglum, kjúklingi í karrí, svínakjöti í ostrusósu og nautakjöti með grænmeti. Á kvöldin fæst súpa með fimm aðalréttum fyrir 1575 krónur og ferns konar viðameiri veizlutilboð fyrir 2350 krónur að meðaltali.

Notalegur staður
Matreiðslan og verðlagið síður en svo einu kostir Kínahússins, sem er notalega einfaldur og friðsæll staður með vingjarnlegri og látlausri þjónustu, þar sem gestir hallast að því að draga máltíð á langinn, bara af því að þeim líður vel. Raunar er ég alveg hissa á, að hinir Kínastaðirnir skuli þrífast í samanburði við þennan. Munið eftir að panta jasmín-te með matnum.

Esja er þægileg
Annar þægilegur matstaður í Reykjavík er veitingasalurinn á neðslu hæð Esjuhótels. Þar er þjónusta fagmannsleg og húsbúnaður vandaður, eins þreytlaus og á fyrsta degi. Þykkt teppi á gólfi dempar hljóð, mildir litir og mild lýsing tempra andrúmsloftið. Þetta er hinn fullkomni hótelstaður, ópersónulegur og notalegur í senn, sjaldgæft dæmi um, að nútímahönnun slái við gömlum skorti á hönnun.

Án hugmyndaflugs
Hugmyndaflug er bannorð í eldhúsi Esju. Matseðill og matreiðsla skera sig ekki úr meðalmennsku íslenzkrar veitingamennsku með eilíft sömu sýnisréttum fyrir einnota túrista og óbreytanlegu sjávarréttahlaðborði, sem kostar 1190 krónur í hádeginu og 2090 krónur á kvöldin, að súpu dagsins meðtalinni. Túristamatseðlar kosta 1320 og 1980 krónur, en að öðru leyti er verðlagið hátt, 4100 krónur þríréttað með kaffi.

Sjávarréttaborð
Áhugaverðasti þáttur matreiðslunnar á Esju er heitt og kalt sjávarréttaborðið, þótt þar vanti tilfinnanlega gott hrásalat. Þar er oft góður lax kaldur, einnig sumir síldarréttirnir, einkum einfalda síldin kryddlegna. Plokkfiskurinn ber oft af heitu réttunum og stundum eru þar fiskitegundir, sem fást ekki í hverri fiskbúð, en allur líður heiti hlutinn fyrir að standa lengi í hitakössum.

Jónas Kristjánsson

DV

Davíð lemur Halldór

Greinar

Staða Framsóknarflokksins í ríkisstjórninni hefur hríðversnað. Smám saman hefur forsætisráðherra tekið þar öll völd og valtað yfir samstarfsflokkinn eftir hentugleikum og jafnvel eftir landsfrægum reiðiköstum sínum, sem hafa gerzt æ tíðari upp á síðkastið.

Nýlega tók forsætisráðherra völdin af iðnaðar- og viðskiptaráðherra við skipun stjórnar Búnaðarbankans og rifti samkomulagi, sem utanríkisráðherra hafði gert um breytta skipan bankaráðsins. Hann gerði báða þessa ráðherra Framsóknarflokksins að ómerkingum.

Nýjasta og bezta dæmið um niðurlægingu Framsóknarflokksins eru viðbrögð hans við afnámi Þjóðhagsstofnunar, sem forsætisráðherra gaf fyrst í skyn og herti síðan á, þegar farið var að ræða málið. Formaður Framsóknar vældi lítillega og þingflokkurinn þegir þunnu hljóði.

Hér er aðeins verið að ræða þann þátt þessara mála og annarra slíkra, sem snýr að samstarfi stjórnarflokkanna. Hann felst í, að forsætisráðherra stýrir málum í ráðuneytum Framsóknar, gerir samstarfsráðherra að ómerkingum og spyr þá ekki álits á mikilvægum málum.

Vel kann að vera, að efnislegar ástæður séu fyrir yfirgangi forsætisráðherra í garð flokks utanríkisráðherra. Til dæmis eru flestir ráðherrar Framsóknarflokksins ekki mikilla sanda eða sæva. Í mörgum tilvikum er ástæða til að taka fram fyrir hendur þeirra.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur til dæmis unnið það afrek að liggja á umsókn um stækkun Norðuráls í Hvalfirði, af því að hún óttast, að sú stækkun leiði til enn frekari frestunar Reyðaráls fyrir austan. Tafirnar hafa nú fryst undirbúninginn að stækkun Norðuráls

Álver eru nefnilega byggðamál, en ekki efnahagsmál í augum iðnaðar- og viðskiptaráðherra og utanríkisráðherra, sem bæði vilja frekar álver í sínu kjördæmi en í kjördæmi Vestlendinga. Þessi viðhorf ráðherranna gefa fróðlega innsýn í sjúkan hugarheim Framsóknar.

Í máli Þjóðhagsstofnunar hefði verið eðlilegt að taka málið upp í ríkisstjórninni, úr því að athugun í forsætisráðneytinu hafði tekið þá stefnu, að gott væri að leggja stofnunina niður. Forsætisráðherra kaus að gera það ekki, því að hann vildi niðurlægja Framsókn.

Það hefur honum tekizt. Svo vel hefur honum gengið að aga utanríkisráðherra, aðra ráðherra og þingmenn Framsóknarflokksins, að þeir létu hann valta yfir sig og hreyfðu alls engum mótbátum í umræðum á Alþingi. Með fingursmelli getur hann lagt niður stofnun.

Engu máli skiptir, hvort reiðiköst forsætisráðherra í garð biskups, öryrkja, Þjóðhagsstofnunar og annarra aðila eru náttúruleg eða tilbúin. Það, sem máli skiptir, er, að þau eru helzta stjórntæki hans, aðferð hans til að fá aðra til að standa og sitja eins og honum þóknast.

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins telja sig hafa himinn höndum tekið í forustumanni, sem lætur aðra valdamenn skjálfa á beinunum, hvort sem þeir eru innan flokks eða utan. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins vilja fyrst og fremst sterkan leiðtoga að hætti fátækrar Suður-Ameríku.

Kjósendur Framsóknarflokksins hafa hins vegar unnvörpum flúið forustumann, sem ekki getur varizt ofbeldi og tuðar bara niður í bringuna; forustumann, sem er svo rúinn trausti, að hann getur ekki einu sinni haft áhrif á, hver er kosinn varaformaður í hans eigin flokki.

Halldór Ásgrímsson er búinn að vera sem stjórnmálamaður, svo er Davíð Oddssyni fyrir að þakka. Sú er helzta ástæða þess, að Framsókn er í rúst.

Jónas Kristjánsson

DV

Samsæri gegn heilsunni

Greinar

Samkeppnisráð hefur komið upp um víðtækt samsæri innlendra grænmetisheildsala gegn neytendum eins og það er orðað í úrskurði ráðsins, þar sem það sektar Sölufélag garðyrkjumanna, Ágæti og Mötu um 105 milljónir króna fyrir alvarleg brot á samkeppnislögum.

Rannsókn ráðsins leiddi í ljós, að árið 1995 mynduðu þessi fyrirtæki einokunarhring til að draga úr samkeppni og hækka verð á grænmeti til neytenda. Samsæri af þessu tagi varðar við landslög, en því miður eru ekki til nein lög, sem ná yfir önnur og alvarlegri samsæri.

Stjórnmálaöflin og landbúnaðarkerfið í landinu hafa áratugum saman stundað samsæri gegn neytendum með því að leggja hindranir í vegi samkeppnisvöru frá útlöndum. Þetta hafa þau á síðustu árum gert með því að leggja tímabundna ofurtolla á innflutt grænmeti.

Samsæri stjórnmálaafla og landbúnaðar felur ekki aðeins í sér árás á fjárhag almennings, heldur einnig á líf hans og heilsu. Það hefur nefnilega leitt til þess, að neyzla grænmetis á mann er hér á landi ekki nema helmingur af neyzlunni á mann á Vesturlöndum almennt.

Fyrir löngu var vísindalega staðfest, að neyzla grænmetis þarf að vera miklu meiri en hún er á Íslandi. Alþjóða heilbrigðisstofnunin hefur gefið út staðla, sem hvetja til tvöfaldrar grænmetisneyzlu á við þá, sem er hér á landi. Engar breytingar hafa hins vegar orðið hér.

Um þessar mundir er neyzla grænmetis að stóraukast í Evrópu vegna sjúkdóma, sem hafa komið upp í nautgripum og leitt til stórfellds niðurskurðar í Bretlandi og á ýmsum öðrum stöðum. Fólk flýr í hrönnum frá kjötneyzlu yfir í neyzlu grænmetis, sem talin er öruggari.

Þetta geta Evrópumenn, af því að þeir þurfa ekki að þola sams konar samsæri og íslenzkir neytendur. Fólk á Íslandi hefur hreinlega ekki ráð á að bæta heilsuna með þessum hætti, af því að stjórnmálaöfl og landbúnaðarkerfi nota ofurtolla til að gera grænmeti óhóflega dýrt.

Samsæri íslenzku grænmetisheildsalanna bliknar í samanburði við pólitíska samsærið gegn lífi og heilsu Íslendinga. Það er pólitíska samsærið, en ekki viðskiptasamsærið, er hefur gert grænmeti að dýrustu matvælum landsins, sem fólk notar aðeins sem meðlæti.

Í nágrannalöndunum hefur orðið viðhorfsbreyting ráðamanna, sem ekki sér stað hér á landi. Í Þýzkalandi er kominn til skjalanna landbúnaðarráðherra, sem stefnir ekki aðeins að tilfærslu á neyzlu úr kjöti yfir í grænmeti, heldur sérstaklega yfir í lífrænt ræktað grænmeti.

Lífrænt ræktað grænmeti, sem felur í sér miklu minna af skaðlegum efnum en venjulegt grænmeti, er sums staðar í Evrópu orðinn einn tíundi hluti grænmetisneyzlunnar og fer ört vaxandi. Hér er neyzla lífrænt ræktaðs grænmetis hins vegar innan við einn af hundraði.

Lífrænt grænmeti er heldur dýrara en annað grænmeti. Þegar íslenzku ofurtollarnir leggjast á það, verður það svo dýrt í verzlunum, að fólk, sem tæpast hefur ráð á öðru grænmeti, lætur sig ekki dreyma um að kaupa það grænmeti, sem felur í sér mestu hollustuna.

Smákrimmarnir í Sölufélagi garðyrkjumanna, Ágæti og Mötu fá makleg málagjöld, en engin lög ná yfir stóru glæpamennina í stjórnmálunum og landbúnaðarkerfinu, enda sitja þeir meira eða minna í skjóli kjósenda, sem virðast sætta sig við að láta fara svona með sig.

Það bezta við smákrimma-dóminn er, að hann vekur athygli á rotnu verndunarkerfi, sem býður heim samsæri gegn heilsu þjóðarinnar í skjóli stjórnmálanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Andskotast í útlendingum

Greinar

Samband Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu hefur hríðversnað síðan George W. Bush tók við forsetavöldum í Bandaríkjunum í upphafi þessa árs og voru þó ágreiningsefnin næg fyrir. Í fyrsta skipti er talað í alvöru um, að leiðir fari að skiljast með þessum bandamönnum.

Hæst ber svik Bush við kosningaloforð sitt um stuðning við Kyoto-sáttmálann um takmörkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Svikin framdi hann að undirlagi stóru olíufélaganna í Texas, sem voru umsvifamest í greiðslu kostnaðar við kosningabaráttu hans.

Áður en Bush komst til valda voru Bandaríkin og Vestur-Evrópa hægt og bítandi að ná samkomulagi um staðfestingu sáttmálans, sem hefði jafngilt því, að hann kæmist til framkvæmda. Það tókst ekki á fundi í Haag í vetur, en ætlunin var að reyna aftur í Bonn í sumar.

Vestur-Evrópa telur sanngjarnt, að iðnríki Vesturlanda taki fyrsta skrefið í minnkandi útblæstri, þar sem þau bera ábyrgð á rúmlega helmingi útblástursins og Bandaríkin ein ábyrgð á fjórðungi. Eðlilegt sé, að þróunarlöndin komi ekki til skjalanna fyrr en í annarri umferð.

Næsthæst ber fráhvarf Bush frá tilraunum til sátta milli Suður- og Norður-Kóreu, þrátt fyrir eindregna hvatningu Kim Dae Jung, forseta Suður-Kóreu og friðarverðlaunahafa Nóbels í fyrra, um að halda áfram. Raunar var fráhvarfið blautur hanzki í andlit Kim Dae Jung.

Þetta kom illa við Vestur-Evrópu, einkum Þýzkaland, sem telur sig hafa góða reynslu af samskiptum innan klofins ríkis, þegar Austur-Þýzkalandi var haldið á lyfjum í formi vestræns fjármagns, unz landið hrundi í fangið á Vestur-Þýzkalandi og vestrænni hugmyndafræði.

Fyrir valdatöku Bush voru ýmis ágreiningsefni milli Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu. Hæst ber þar eindreginn peninga- og hernaðarstuðning Bandaríkjanna við hryðjuverkaríkið Ísrael, sem þverbrýtur alla alþjóðasamninga um meðferð fólks á hernumdum svæðum.

Samband Ísraels og Bandaríkjanna hindrar eðlilega nálgun í samskiptum hins vestræna heims og heims múslíma. Ráðamenn Vestur-Evrópu höfðu vænzt þess, að Bush viki frá stefnu Bills Clinton, sem var mjög háður fjárstuðningi Ísraelsvina í kosningabaráttu sinni.

Bush hefur hins vegar hvergi vikið frá stuðningi Bandaríkjanna við krabbamein Miðausturlanda. Hann hefur ekki heldur vikið frá tilraunum forvera síns til að beita Vestur-Evrópu viðskiptaþvingunum til að hindra merkingar á umbúðum erfðabreyttra matvæla.

Erfðabreytt matvæli eru svo ný af nálinni, að rannsóknir á hugsanlegri skaðsemi þeirra eru skammt á veg komnar. Fyrstu niðurstöður benda til, að þau geti aukið ofnæmi og óþol hjá fólki. Þess vegna vill Vestur-Evrópa, að erfðabreytt matvæli séu greinilega merkt á umbúðunum.

Bardagi Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu hefur oft verið harður í Heimsviðskiptastofnuninni og stundum erfitt að sjá, hvor aðilinn sé óbilgjarnari. Oft leynast dulin viðskiptahöft í reglugerðum, sem sagðar eru settar af öðrum tilefnum. Nú er talið, að harkan færist í aukana.

Bush er forseti stórauðugra sérhagsmunahópa, sem vilja beita ríkisvaldinu fyrir sig. Þar eru olíurisar og lyfja-risar einna fremstir í flokki. Fautaskapur þeirra kann að valta yfir þriðja heiminn, en er síður en svo líklegur til að fá Vestur-Evrópu til að leggja niður rófuna.

Verra er, ef ímyndarfræðingar Bush hafa rök fyrir að telja hann auka fylgið heima fyrir með því að andskotast í útlendingum yfirleitt, öðrum en Ísraelsmönnum.

Jónas Kristjánsson

DV

Einar Ben, Creole Mex

Veitingar

Einar Ben kúreki
Einar Ben heitir þemahús í veitingabransanum, sem hefur lifað í kyrrþey í fjögur ár í þremur sölum, bláum, rauðum og grænum, á annarri hæð í gömlu húsi í Veltusundi 1, notalegur staður með varfærinni og fínlegri eldamennsku. Staðarmenn hafa gefizt upp á réttum dagsins og bjóða nú aðeins fastan matseðil í eins konar kúrekastíl, rétt eins og þeir hafi ruglazt á Einari skáldi og Roy Rogers.

Allt bragð dauft
Svo varfærin er matreiðslan, að kryddnotkun mældist vart í bragði. Boðað turmeric-bragð fannst ekki að seljurótarmauki, boðað saffran-bragð fannst ekki að kartöflustöppu, engifer-bragð fannst ekki að engiferfroðu og boðað estragon-bragð fannst hvorki að smjöri né hvítlaukssósu. Að vísu er kostur, að hráefnið fái sjálft að njóta sín, en þá er hæpið að gefa í skyn í matseðlinum, að krydd sé notað í töluverðum mæli.

Fín meðferð hráefnis
Meðferð hráefnis var ágæt, humar vafinn í smokkfisk, risahörpuskel, lax og lambahryggvöðvi, allt saman meyrt og fínt. Meira að segja soðið grænmeti var stinnt undir tönn. Mikilvægustu boðorð nýfranskrar matargerðarlistar voru því að mestu í heiðri höfð á Einari Ben, þótt brenndir grænmetisþræðir kæmu eins og fjandinn úr sauðarleggnum með öllum réttum. Kartöflu-lagkaka með lambakjötinu var þurr og vond, minnti á Bæjaraland.
(Einar Ben, Veltustundi 1, sími 511 5090)

Creole Mex í stuði
Bezti staður Texas-Louisiana-Mexikó-matreiðslu í borginni er tvímælalaust Creole Mex í einskismannslandi við Laugaveg 178. Þar er matreiðslan nákvæmari eftirlíking upprunasvæðisins en í Amigos við Tryggvagötu og enginn ami af bjórfnyk, sem er orðin inngróinn í húsbúnaðinum á annars frambærilegum Amigos. Svo hefur Creole Mex erft tiltölulega vandaðar innréttingar frá fyrra veitingahúsi á sama stað og býður hina þægilegustu þjónustu.

Alls konar tortillur
Vel var skammtað á Creole Mex, tortillurnar stórar og fullar af kjöti, þar á meðal djúpsteikt og stökk chimi-changas, bökuð burritos og pönnusteikt enchiladas. Forréttirnir voru góðir, pönnusteikt fajitas og djúpsteikt nachos. Ágætur og skemmtilegur vert mætti hins vegar kynna sér betur hjá frúnni í eldhúsinu, hvernig hver réttur verður til, svo að hann geti betur satt fróðleiksfýsn gesta.

Næm eldun á fiski
Frúin í eldhúsinu kann fleira fyrir sér en tortillur, svo sem sjá mátti af svínfeitum eldissilungi eldsteiktum, sem var hæfilega eldað flak, milt kryddað og borið fram með stinnu grænmeti, en lítt merku kartölfusalati. Creole-humar með cajun-smjöri var lítill og illa skorinn, en meyr og ánægjulega bragðmildur miðað við nafngiftina.
(Creole Mex, Laugavegi 178, sími 588 1750)

Jónas Kristjánsson

DV

Mannvonzka á þingi

Greinar

Þjónusta alls þorra alþingismanna við þrönga sérhagsmuni innlendrar framleiðslu og einokunarheildsölu grænmetis felur í sér glæpsamlega árás á heilsu þjóðarinnar. Ofurtollar Alþingis á innfluttu grænmeti eru hvorki meira né minna en hrein mannvonzka.

Vegna ofurtollanna er grænmeti svo hrikalega miklu dýrara en á öðrum Vesturlöndum, að neyzla þess nemur innan við helmingi þess, sem ráðlagt er af Alþjóða heilbrigðisstofnuninni og innan við helmingi þess, sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar.

Það er alls ekki ný bóla, að paprikan fari yfir 700 krónur kílóið. Hún hefur gert það árvisst, síðan ofurtollarnir voru settir. Hækkunin gerist alltaf einu sinni á ári, þegar út rennur tímabil tollfrelsis á innfluttu grænmeti eftir reglum Evrópska efnahagssvæðisins.

Fyrir löngu var allt vitað, sem menn þurftu að vita um hollustu grænmetis og nauðsyn þess að stórauka hlut þess í fæðuvali þjóðarinnar. Alþingismenn vissu um það, þegar þeir settu ofurtolla á grænmeti á sínum tíma. Þeir vissu, að þeir voru að skaða heilsu þjóðarinnar.

Eins og venjulega tóku þeir þrönga sérhagsmuni í kjördæmum sínum fram yfir almannahagsmuni. Það gera þeir, hvenær sem þeir fá færi á slíku. Og það gera þeir enn þann dag í dag, þegar þeir ramba út og suður í vangaveltum um, hvort ofurtollarnir séu í lagi.

Alþingi setti lögin og landbúnaðarráðherrar allra tíma hafa túlkað þau í botn, þar á meðal sá núverandi. Í fyrradag kom enn í ljós á Alþingi, að mannvonzkan á sér öruggt skjól í Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokknum og hjá Vinstri grænum og Frjálslyndum.

Það versta við lögin er, að þau veita landbúnaðarráðherra svigrúm til misnotkunar, sem núverandi landbúnaðarráðherra hefur ekki síður notfært sér en fyrirrennarar hans. Þess vegna er ábyrgð hans mest og því getur hann ekki falið sig að baki alþingismanna.

Málflutningurinn til stuðnings ofurtollunum er með endemum. Guðjón Arnar Kristjánsson, þingmaður Frjálslyndra og Vestfirðinga, bullaði botnlausa vitleysu á þingi í fyrradag um gin- og klaufaveiki, rétt eins og paprika og annað grænmeti hafi gin og klaufir.

Að undanförnu hefur greinilega komið fram, að landbúnaðarráðherra og förunautar hans hyggjast misnota fárið og æðibunuganginn út af gin- og klaufaveikinni í Evrópu til að treysta í sessi takmarkanir á innflutningi búvöru og herða innlenda einokun.

Engum heilvita manni hefur dottið í hug, að gin- og klaufaveiki eða kúariða eða aðrar uppákomur af slíku tagi í verksmiðjuframleiðslu alidýra fylgi grænmetisneyzlu og allra sízt neyzlu lífrænt ræktaðs grænmetis, sem mjög lítið er framleitt hér á landi.

Þvert á móti er augljóst, að skipti úr kjöti í grænmeti í neyzlu fólks kemur í veg fyrir, að það skaðist af sjúkdómum, sem kunna að fylgja kjöti. Alþingismenn koma einmitt í veg fyrir þessa brýnu tilfærslu í neyzlu með því að halda ofurtollum á sjálfri hollustuvörunni.

Að lokum skal það ítrekað, svo að ekki fari milli mála, að lög Alþingis um ofurtolla og túlkun landbúnaðarráðherra á þeim fer langt út fyrir hefðbundna gæzlu þröngra sérhagsmuna. Hún felur í sér glæpsamlega atlögu þessara málsaðila að sjálfu heilsufari þjóðarinnar.

Hér er ekki aðeins verið að gagnrýna þá, sem settu lögin á sínum tíma, heldur alla þá, sem nú tala út og suður og hindra þannig, að lögin verði afnumin.

Jónas Kristjánsson

DV