Ópera, Hansen, Amigos, Asía

Veitingar

Gert út á ferðamenn
Matreiðslan í Café Óperu hefur batnað, en verðið hefur hækkað meira. Fyrir verðlag Hótel Holts fær maður mat í gæðaflokki Hótel Borgar. Þótt mér finnist sjálfum hálfhrá stórlúða ágætis matur, er ég ekki viss um, að fólk, sem ekki hefur sérpantað slíka matreiðslu, sætti sig almennt við niðurstöðuna. Þar á ofan er staðurinn groddalega innréttaður með berum borðplötum og daufri loftræstingu, sem losar ekki tóbaksfnykinn. Mér sýnist staðurinn vera ætlaður ferðamönnum, sem vitað er, að koma aldrei aftur. Hörpuskel með hvítu svartrótarmauki var eigi að síður ágætis matur.
(Café Ópera, Lækjargötu 2, sími 552 9499)

Groddalega eldað
Ég mundi ekki sakna A. Hansen í Hafnarfirði, ef hann væri lagður niður. Samt er húsnæðið að mörgu leyti notalegt, enda með því elzta, sem þekkist hér á landi. Þjónustan var af því tagi, sem spurði, hvort ég “ætlaði að skrifa um staðinn”. Matreiðslan reyndist tæpast vera frambærileg. Þið verðið þó að vara ykkur á fiskinum, sem kemur upp úr frysti og er settur í örbylgjuofn. Beðið var um léttsteikt lambakjöt, en það kom grásteikt á borð með ofelduðum sveppum og ógeðfelldri hveitisósu án gráðostsbragðsins, sem boðað hafði verið. Tvíreykt sauðafillet með daufri piparrótarsósu var hins vegar ágætur matur.
(A. Hansen, Vesturgötu 4, Hafnarfirði, sími 565 1130)

Endalausar tortillur
Amigos er ódýr matstaður með yfirbragði bjórkrár, en eigi að síður með góðri loftræstingu á reyklausa svæðinu og þjónustu á plani hefðbundinna veitingahúsa. Þetta er fjölskylduvænn Tex-Mex, sem þýðir, að hér er Texas-matreiðsla, sem byggir á tortillu-grunni frá Mexikó. Salöt voru að mestu úr gömlu og brúnu jöklasalati. Úthafsrækjan var vafin beikoni, svo að úr varð hreint beikonbragð. Hins vegar var gaman að Santa Fe kjúklingi upp úr lime-kryddlegi með góðri baunakássu og léttelduðu grænmeti. Skynsamlegast er hér að velja úr endalausum útgáfum af tortillum.
(Amigos, Tryggvag. 8, s. 511 1333)

Fundinn fókus
Eins árs hringferð minni um fimmtíu veitingahús höfuðborgarsvæðisins lauk á miðvikudaginn á Asíu, þar sem ánægjulegt var að finna, að staðurinn hefur fundið sér kínverskan fókus í stað þess að reyna að spanna alla Asíu. Matreiðslan hefur batnað töluvert, þótt hún jafnist ekki á við Kínahúsið, auk þess sem verðið hefur hækkað hlutfallslega. Svínakjöt á pinnum var gott sem fyrr, en lamb í lauksósu var ekki eins meyrt og lofað var á matseðli.
(Asía, Laugav. 10, sími 562 6210)

Jónas Kristjánsson

DV

Glæpamaður framseldur

Greinar

Framsal Slobodan Milosevic til stríðsglæpadómstólsins í Haag markar þáttaskil í sigurgöngu lýðræðis og mannréttinda í heiminum. Einn af verstu glæpamönnum Evrópu er kominn bak við lás og slá og verður látinn svara til saka fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu.

Treglega hefur gengið að ná þeim, sem mesta ábyrgð bera á óhæfuverkum í arftakaríkjum Júgóslavíu. Friðargæzlusveitir Atlantshafsbandalagsins hafa ekki enn mannað sig upp í að handtaka Radovan Karadzik og vestræn stjórnvöld hafa þvælzt fyrir dómstólnum í Haag.

Helzti vandi vestræns lýðræðis er, að ríkisstjórnir sumra öflugustu ríkja þess vilja stundum ekki styðja lýðræði og mannréttindi í þriðja heiminum vegna meintra stundarhagsmuna. Þau beita ekki áhrifum sínum til að útbreiða árangursríkasta þjóðskipulag jarðarinnar.

Reynslan sýnir þó, að Vesturlönd hafa langtímahagsmuni af stuðningi við þættina, sem mynda vestrænt lýðræði, svo sem gegnsæi í stjórnsýslu, lög og rétt, frjálsar kosningar, dreifingu valdsins og frelsi fólks til að tjá sig og afla upplýsinga, koma saman og mynda samtök.

Gott er að eiga viðskipti og hafa samskipti í löndum, þar sem þessar undirstöður lýðræðis að vestrænum hætti eru í heiðri hafðar. Þar gilda leikreglur, sem farið er eftir og þar myndast traust í kaupsýslu og öðrum mannlegum samskiptum. Því borgar sig að styðja og efla lýðræði.

Sigurför lýðræðis í Mið-Evrópu og suður eftir Balkanskaga einkenndi þróun alþjóðamála á síðasta áratug. Þar hefur myndazt jarðvegur og svigrúm til að þróa einstaka þætti lýðræðis að vestrænum hætti og draga úr spillingu, sem enn er allt of mikil á þessum slóðum.

Handtaka og framsal Milosevic sýnir, að stjórnvöld í Serbíu eru með stuðningi meirihluta kjósenda reiðubúin að opna glugga inn í glæpsamlega fortíð og draga út óþrifnaðinn, svo að Serbar geti ákveðið, að martröð að hætti Milosevic gerist aldrei aftur á þeirra slóðum.

Svipuð sigurför lýðræðis að vestrænum hætti stendur yfir í Rómönsku Ameríku, þótt hægar fari. Vegna djarfrar framgöngu saksóknara á fjarlægum Spáni á Augusto Pinochet í vök að verjast í Chile þar sem verið er að gera upp fortíðina og kortleggja óhæfuverk hans.

Fyrir nokkrum dögum var Vladimiro Montesinos framseldur til Perú, þar sem hann verður væntanlega látinn svara til saka fyrir ótrúlega spillingu í skjóli Alberto Fujimori, fyrrum forseta landsins, sem nú hírist landflótta í Japan og verður framseldur þaðan um síðir.

Uppgjörið við fortíðina er mikilvægt í öllum löndum, sem eru að feta sig í átt til lýðræðis að vestrænum hætti. Menn fá tækifæri til að gera upp viðhorf sín og ákveða, hver fyrir sig, að óhæfan gerist aldrei aftur. Vestrænir stuðningsmenn harðstjóra fá verðskulduð kjaftshögg.

Óhjákvæmilegt er að glæpaslóðir verði raktar til áhrifamikilla stofnana og einstaklinga á Vesturlöndum. Innan stórvelda lýðræðisríkjanna mun fara fram hliðstætt uppgjör og í þriðja heiminum. Margir munu neyðast til að læðast með veggjum, þegar fréttirnar fara að leka.

Þannig verður ekki aðeins hreinsað til á nýjum svæðum vestræns lýðræðis, heldur einnig í kjarnalöndum þess. Minnka mun svigrúm skammtímamanna til stuðnings við glæpi og harðstjórn í þriðja heiminum. Lýðræði mun því knýja fastar að dyrum víðar í þriðja heiminum.

Við framsal Milosevic í hendur stríðsglæpadómstólsins í Haag rennur kalt vatn milli skinns og hörunds ýmissa harðstjóra, sem ranglega hafa talið sér alla vegi færa.

Jónas Kristjánsson

DV

Loksins spörum við

Greinar

Bezta fréttin úr efnahagsgeiranum er, að við erum loksins farin að spara eftir kaupæði undanfarinna ára. Innflutningur bíla er helmingi minni á þessu ári en á sama tíma í fyrra. Í fyrsta skipti í langan tíma hefur dregizt saman innflutningur á fatnaði og heimilistækjum.

Fyrstu fjóra mánuði ársins var vöruskiptajöfnuðurinn hagstæður um rúmlega tvo milljarða, en var óhagstæður um tæplega tvo milljarða króna á sama tíma í fyrra. Batinn milli ára nemur nærri fjórum milljörðum á fjórum mánuðum. Þetta felur í sér feiknarleg umskipti.

Aukinn sparnaður þjóðarinnar kemur vafalaust fram í minni skuldum heimilanna í landinu og aukinni fjárfestingu almennings í pappírum af ýmsu tagi. Þar með félli um sjálfa sig sú kenning Seðlabankans, að of hátt kaup fólks sé ein helzta undirrót vandræða í hagkerfinu.

Ekki á að skaða hagkerfið neitt, þótt fólk hafi meiri tekjur en Seðlabankanum finnst það eiga skilið, ef það notar tekjurnar til skynsamlegra fjárfestinga í stað þess að kaupa bíla, tízkuföt og óþörf heimilistæki í gríð og erg. Við slíkar aðstæður er bara betra, að kaup sé hátt.

Að baki aukins sparnaðar liggur vafalaust aukin óvissa og raunar holl óvissa um framvindu efnahagslífsins. Að undanförnu hafa þeir haft meiri áhrif, sem tala efnahagslífið niður, en hinir, sem tala það upp. Þetta er hin séríslenzka aðferð að hafa vatnið ýmist í ökkla eða eyra.

Þegar forsætisráðherra hafði árum saman náð góðum árangri í að tala efnahagslífið upp, endaði sú himnaför með því að raunveruleikinn náði í skottið á sýndarveruleikanum. Við gengislækkun og verðbólguskot náðu hinir eyrum fólks, sem sjá heimsenda í hverju horni.

Veruleikinn er milli öfganna. Krónan getur náð jafnvægi á nýjan leik og verðbólgan getur reynzt vera eitt skot, sem fjarar út. Það fer meðal annars eftir, hvernig haldið verður á spilunum á næstunni. Til þess þarf ríkisstjórnin að koma út úr sýndarveruleikanum.

Við þurfum að fara að svara áleitnum spurningum. Er til dæmis forsvaranlegt að reka hér á landi lélega þriðja heims mynt, þegar stórveldi leggja niður eigin mynt? Er forsvaranlegt að reka hér á landi lélega þriðja heims mynt, sem kostar nokkrar aukaprósentur í vöxtum?

Við þurfum líka að spyrja okkur, hvernig standi á, að erlendir aðilar vilja ekki fjárfesta hér á landi, ekki einu sinni í nýjum álverum. Erlendar fjárfestingar eru hér á landi ekki nema brot af því, sem tíðkast annars staðar á Vesturlöndum, þótt miðað sé við íbúafjölda.

Við þurfum að spyrja okkur, hvort slíkar aðstæður séu heppilegar til að fara að reyna að ryksuga allt finnanlegt fjármagn í landinu til að borga fyrir álver á Reyðarfirði, sem útlendingar vilja ekki kosta. Hvernig á þá að fjármagna uppbyggingu atvinnuvega framtíðarinnar?

Við þurfum að komast úr gildrunni, sem felst í séríslenzkum aðferðum við rekstur efnahagslífsins. Við þurfum að losna við leifar sósíalismans, meðal annars eignarhald og ábyrgðir ríkisins í efnahagslífinu, svo og frumkvæði þess í gæluverkefnum á borð við stóriðju.

Við þurfum að læra af smáþjóðum Evrópu, sem líður vel í stórum efnahagsbandalögum og reka suma af öflugustu bönkum og fjármálafyrirtækjum heims, þótt þær hafi ekki eigin mynt. Þeim gengur vel, af því að þær eru ekki að rembast við sérþjóðleg atriði í efnahagnum.

Þegar við losnum úr gildru sérstöðunnar, minnka sveiflur, verðbólga hjaðnar og peningar fæðast, sem nýtast okkur framhjá sérþörfum gæludýra ríkisins.

Jónas Kristjánsson

DV

Reykjavík nauðhemlar

Greinar

Borgarstjórn Reykjavíkur hefur sem stór eignaraðili Landsvirkjunar tekið af skarið um, að farið verði gætilegar en hingað til í ráðagerðum um stórvirkjun á Austurlandi. Undirbúningur hennar verði vandaðri og tekið verði meira tillit til hliðarverkana á umhverfið.

Eftir samþykkt borgarstjórnar má gera ráð fyrir, að umhverfisáhrif virkjunarinnar verði rannsökuð miklu betur en hingað til. Niðurstöðurnar verði síðan kynntar almenningi rækilega, væntanlega á svipaðan hátt og Reykjavíkurborg kynnti flugvallarmálin í vetur.

Eftir samþykkt borgarstjórnar má gera ráð fyrir, að vandaðri arðsemisútreikningar verði gerðir um alla einstaka þætti málsins. Í þeim verði tekið tillit til áhrifa þeirra á umhverfi og náttúru, svo sem margsinnis hefur verið lagt til, en ekki verið hlustað á til þessa.

Mat á verðgildi ríkisábyrgðar er stór þáttur, sem hingað til hefur skort í útreikningum undirbúningsaðila. Í frjálsu markaðskerfi eru ábyrgðir á lánum metnar til fjár. Sá, sem veitir ábyrgð, fær í sinn hlut helminginn af mismun vaxta af lánum með ábyrgð og án ábyrgðar.

Hingað til hafa menn komizt upp með að skuldbinda ríkissjóð í þágu sérhagsmuna. Sá tími spillingar á að vera liðinn fyrir löngu. Ef ríkissjóður tekur fyrir hönd allra skattgreiðenda ábyrgð á stórframkvæmdum hlutafélaga, á hann að fá eðlilega ábyrgðarprósentu í sinn hlut.

Gersamlega marklausir eru allir arðsemisútreikningar, sem ekki gera ráð fyrir eðlilegum kostnaði af ríkisábyrgð. Sömuleiðis eru gersamlega marklausir allir arðsemisútreikningar, sem byggjast á leynilegu mati hlutafélags á verðinu, sem það telur muni fást fyrir söluvöruna.

Engin sátt getur náðst í þjóðfélaginu um útreikninga, sem ekki eru gegnsæir. Ef stærsti liður þeirra, söluverð orkunnar, er leyndarmál, þá eru útreikningarnir sjálfir marklausir frá grunni. Hlutafélag með slíkt viðskiptaleyndarmál á ekki að væla sér út ábyrgð ríkissjóðs.

Þegar búið er að taka tillit til greiðslu Landsvirkjunar fyrir ríkisábyrgð og gera arðsemisútreikninga Landsvirkjunar gegnsæja, er enn eftir að bæta við kostnaðinn greiðslum Landsvirkjunar til þjóðfélagsins vegna skaðlegra áhrifa virkjunarinnar á umhverfi og ferðaþjónustu.

Gerð hefur verið tilraun til að meta umhverfisskaða Kárahnjúkavirkjunar til fjár með því að spyrja fólkið í landinu, hvað það vilji borga í auknum sköttum til að vernda landið fyrir ágangi Landsvirkjunar. Niðurstaða athugunarinnar nemur 400 milljónum króna á ári.

Þjóðin er sjálf til í að greiða 400 milljónir króna á ári til að eiga svæðið norðan Vatnajökuls sem þjóðgarð. Þetta verð ber Landsvirkjun að greiða þjóðinni á hverju ári og bæta þeim kostnaði við arðsemisútreikninga. Að öðrum kosti eru þeir reikningar marklausir með öllu.

Aðeins ágizkanir eru enn til um tjón ferðaþjónustunnar af spjöllum á þessu svæði. Það er annað reikningsdæmi en dæmi þjóðgarðsins hér að ofan og niðurstöðurnar hrein viðbót við heildardæmið. Enn hefur þessi þáttur dæmisins ekki verið metinn til fjár á fræðilegan hátt.

Hér að ofan hafa verið rakin nokkur dæmi um, að núverandi arðsemisútreikningar Landsvirkjunar vegna Kárahnjúka eru út í hött. Hagfræðingar hafa bent á fleiri þætti, svo sem vanmat áhættuálags í ávöxtunarkröfu í þessum útreikningum og vísa til slíks álags í Noregi.

Þegar menn eru komnir á bólakaf í illa grundaðar ráðagerðir um stórvirkjanir, er gott, að einn opinber aðili, Reykjavíkurborg, vilji loksins stinga við fótum.

Jónas Kristjánsson

DV

Naustið, Rauðará

Veitingar

Ferðamannagildrur
Naustið og Rauðará hafa batnað frá því fyrir þremur árum, þegar ég kom þar síðast. Enn eru þetta dýrar ferðamannagildrur, sem þykjast vera fínar, en eru ekki lengur fáránleg veitingahús. Maturinn er ætur, þjónustan er kammó og innréttingarnar skemmtilegar. En mér mundi seint detta í hug að borga 5.000 krónur á mann fyrir þríréttað með kaffi á þessum stöðum, ef ég mætti ráða ferð.

Úr frysti í örbylgju
Þrátt fyrir heitið er Naustið ekki sjávarréttahús og býður engan fisk dagsins. Stórir humarhalar höfðu þurra bragðið, sem kemur í sjávarrétti, þegar þeir eru settir beint úr frysti í örbylgjuofn. Þetta varð enn ljósara, þegar pönnusteikti karfinn kom skraufaþurr á borðið. Laxakæfa og kaldur lax var hvort tveggja bragðlaust, en kryddhjúpaður saltfiskur var útvatnaður og frambærilegur. Þetta er ekki eldhús safaríks matar.

Firnalangur og forn
Vandræði eldhússins verða strax ljós af firnalöngum matseðli í fornum stíl með átján forréttum og kvarthundrað aðalréttum. Lítið virðist vera um Íslendinga í Nausti, en ferðamenn slæðast inn og telja líklega, að matreiðsla sjávarrétta eigi að vera svona á Íslandi. Þeir fá þunnar pappírsþurrkur og hauga af stöðluðu meðlæti, sem flýtur í sósum og felur leifarnar af eðlisbragði hráefnanna. Í kaupbæti fá þeir aðgang að notalegum innréttingum.
(Naustið, Vesturgötu 6­8. sími: 551 7759)

Einnota viðskiptamenn
Rauðará hefur hvítt lín umfram Naustið og frambærilegri matreiðslu í sérgrein staðarins, nautasteikum. Þær má fá í ýmsum stærðum og eldunartímum. Rauðará er gróf í innréttingum og niðursoðnum hávaða. Þjónustan var samræðufús, en ekki mikið gefin fyrir að hella vatni í glös. Hingað slæðist nokkuð af heimamönnum, sem eru vanir sjoppum við þjóðveg eitt, en flestir viðskiptamennirnir eru þó ferðamenn, sem eru einota, hafa aldrei komið hér áður og munu aldrei koma aftur.

Grásteikt lambakjöt
Nákvæmnin í nautapiparsteikinni skilaði sér ekki yfir í lambahryggvöðvann, sem kom grásteiktur á borðið, þótt beðið væri um hann léttsteiktan (rare). Reyktur lundi var ágætur forréttur, en salatdiskur hússins var að mestu leyti einhæft jöklasalat. Meðlæti aðalrétta var staðlað, bökuð kartafla og léttsteikt grænmeti, sem jóðlaði í sætri sósu. Sykur var of mikið notaður við matreiðsluna, eins og raunar víðar hér á landi. Enginn munur var á venjulegu lambakjöti og svokölluðu ítalskt krydduðu, enda skortir metnað í eldhúsinu.
(Rauðará, Rauðarárstíg 37, sími: 562 6766)

Jónas Kristjánsson

DV

Andstæða orða og verka

Greinar

Stjórnmálamenn eru oft réttilega sakaðir um að lofa upp í ermina á sér og tala jafnvel þvert um hug sér. Þessar ódýru aðferðir við að afla sér atkvæða eru smámunir í samanburði við þær aðferðir, sem upp á síðkastið hafa þróazt í framúrstefnulöndum áróðurstækninnar.

Þegar formaður Framsóknarflokksins gerði milljarð til fíkniefnavarna að höfuðmáli síðustu kosningabaráttu, var hann að lofa upp í ermina á sér og tala þvert um hug sér. Eftir kosningar hefur milljarðurinn ekki komið í ljós og ekki heldur nein viðleitni formannsins í þá átt.

Framganga formannsins var ekki annað en ýkt útgáfa ómerkilegheita, sem lengi hafa tíðkazt. Menn hafa löngum lofað því, sem þeir hafa ekki ætlað að efna. Nú er hins vegar farið að tíðkast að lofa einhverju, þótt menn stefni ótrauðir að því að framkvæma hið gagnstæða.

Bush Bandaríkjaforseti er fyrirtaks dæmi um skipulega notkun og mikinn árangur þessarar nýju tegundar áróðurstækni. Sem ríkisstjóri í Texas hafði hann slæman feril í umhverfismálum. Samt rak hann baráttuna fyrir forsetakosningarnar sem einlægur umhverfisvinur.

Í þeim tilgangi tefldi hann rándýrri áróðurshrinu gegn keppinaut sínum í forkosningum repúblikana, John McCain, þar sem því var haldið fram, að McCain mundi ekki standa sig í umhverfismálum. Þessi hrina réð úrslitum um, að Bush náði tilnefningu flokks síns.

Þegar Bush var setztur í forsetastól, sneri hann umsvifalaust við blaðinu. Hann leyfði umfangsmikla olíuborun í friðlöndum náttúruvinja í Alaska. Hann afturkallaði aðild Bandaríkjanna að Kyoto-sáttmálanum um takmörkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Í kosningabaráttunni fann Bush upp slagorð “brjóstgóðrar” íhaldssemi og gaf í skyn, að hann mundi gæta hagsmuna þeirra, sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Þar með sló hann gamalkunnugt vopn úr höndum demókrata, sem hingað til hafa talið sig fulltrúa smælingjanna.

Eftir kosningar sneri Bush skyndilega við blaðinu. Hann hafði frumkvæði að nýjum skattalögum, sem eru eindregið höll undir þá, er breiðust hafa bökin í landinu. Hann hafði frumkvæði að stórfelldum niðurskurði útgjalda í málaflokkum velferðarþjóðfélagsins.

Aðferðina notar hann ekki bara á innlendum markaði. Ímyndar- og áróðursfræðingar hans telja, að aðgæzluleysi á þessu sviði sé ekkert einkamál bandarískra kjósenda, heldur sé umheimurinn yfirleitt haldinn botnlausri trúgirni, þar á meðal ráðamenn í Vestur-Evrópu.

Að undanförnu hefur Bandaríkjaforseti ferðazt um Evrópu og ekki notað neitt slagorð oftar en það, að hann sé að hafa “samráð” við leiðtoga evrópskra ríkja. Ætla mátti eftir þessu hugtaki, að hann ætlaði að taka tillit til evrópskra sjónarmiða í gerðum sínum á næstunni.

Þvert á móti kom í ljós í hverju einasta smáatriði, að Bush gaf ekki eftir tommu af þeim áformum, sem mestri andstöðu hafa mætt í Evrópu. Hann ætlar í öllum smáatriðum að fylgja nákvæmlega þeirri stefnu, sem hann fylgdi, áður en svokölluð “samráðs”-ferð hófst.

Andstaða hans við Kyoto-sáttmálann er nákvæmlega jafn hörð sem áður. Fyrri ákvarðanir hans um eldflaugavarnir standa nákvæmlega eins og þær voru. Hann ætlar hvorki að taka þátt í stríðsglæpadómstóli Sameinuðu þjóðanna né alþjóðabanninu gegn jarðsprengjum.

Alvarlegast er, að hvorki almenningur né leiðtogar virðast átta sig á, að framvegis má búast við, að í pólitík séu orð og verk ekki óskyld, heldur beinar andstæður.

Jónas Kristjánsson

DV

Vesturlönd hossa Pútín

Greinar

Ef Slobodan Milosevic, fyrrum forseti Júgóslavíu, er stríðsglæpamaður, þá er Vladimir Pútín, núverandi forseti Rússlands, enn meiri stríðsglæpamaður. Hernaður hans í Tsjetsjeníu er villimannlegri en hernaður hins fyrrnefnda var í löndum hinnar gömlu Júgóslavíu.

Miskunnarlaus hernaður Pútíns hefur árum saman beinzt gegn venjulegum borgurum í Tsjetsjeníu. Fréttir þaðan berast hins vegar svo seint og stopult og myndir alls ekki, því að vestrænir fjölmiðlar hafa þar mun lakari aðstöðu til að fylgjast með en í Bosníu og Kosovo.

Mestu máli skiptir þó, að vestrænir leiðtogar töldu Vesturlöndum ekki hag í að bera blak af Milosevic, en eru hver um annan þveran að reyna að vera í góðu sambandi við Pútín. Þeir telja nauðsynlegt að hafa hann góðan, af því að Rússland er öflugt ríki, öfugt við Serbíu.

Meðan ráðamenn Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna rífast nánast opinberlega í innri samskiptum sínum um allt sviðið frá Kyoto-sáttmálanum yfir dauðarefsingu og að eldflaugavörnum, eru þeir sammála um það eitt, að reyna að koma á sem beztum samskiptum við stjórn Pútíns.

Óveðursský leyniþjónustunnar eru að hrannast upp í Rússlandi, enda er Pútín alinn þar upp. Hvarvetna sjást merki þess, að arftakar KGB eru að taka völdin í landinu. Menn eru aftur byrjaðir að líta flóttalega kringum sig og tala í hálfum hljóðum eins og á tímum Stalíns.

Dæmin eru fjölbreytt. Stórgróðamenn eru látnir maka krókinn í friði, nema þeir séu fyrir Pútín, þá er skattalögreglan send á þá. Ef þeir eiga fjölmiðla, sem eru gagnrýnir á stjórnvöld, eru þessir fjölmiðlar afhentir öðrum, sem eru hallir undir forsetann og stjórn hans.

Vísindamenn eru handteknir vegna gruns um njósnir í þágu Vesturlanda og aðrir eru varaðir við ferðum til útlanda. Sama gildir um þá, sem hafa tekið að sér að fylgjast með framvindu umhverfismála í Rússlandi. Þeir eru þar á ofan hundeltir með opinberum ákærum.

Alexander Nikitin skipstjóri fann kjarnorkuvélar í ryðguðum kafbátahræjum við Kolaskaga. Á rúmum fimm árum hafa yfirvöld kært hann níu sinnum fyrir njósnir. Þar á meðal hefur hann bæði verið kærður fyrir brot gegn leynilegum lögum og gegn afturvirkum lögum.

Samstarfsmenn Pútíns úr leyniþjónustunni hafa undanfarið verið ráðnir hver á fætur öðrum til lykilstarfa í stjórnsýslunni. Þetta eru yfirleitt menn, sem eru heilaþvegnir í stalínskri kaldastríðshugsun. Helzti ofsækjandi Nikitins er orðin að lénsherra í Pétursborg.

Slysið í kafbátnum Kúrsk er dæmigert um aðvífandi myrkur í Rússlandi. Yfirvöld gáfu út margvíslegar yfirlýsingar um orsakir slyssins, sem allar voru mismunandi, en áttu allar þó það sameiginlegt að vera ekki bara rangfærðar eða rangar, heldur beinlínis fjarstæðar.

Almenningur í Rússlandi trúði auðvitað ekki einu orði í yfirlýsingum yfirvalda um slysið í Kúrsk. En menn hafa hægt um sig, því að þeir óttast hleranir á símum og tölvupósti. Smám saman eru Rússar að hverfa aftur inn í sjálfa sig eins og þeir urðu að gera á tímum Stalíns.

Eini munurinn á Stalín og Pútín er, að Stalín hafði áratugi til að móta ógnarstjórnina, en Pútín hefur aðeins verið við völd í hálft annað ár. Ef Vesturlönd halda áfram að moka peningum í Rússland, hefur Pútín góðan tíma til að reisa alræði leyniþjónustunnar að nýju.

Það er vestræn sjálfseyðingarárátta, að Bandaríkin og Vestur-Evrópa skuli koma sér saman um það eitt að veita arftaka Stalíns sem allra mestan stuðning.

Jónas Kristjánsson

DV

Verzlað með verin

Greinar

Gamall ferðamálafulltrúi Íslendinga í Þýzkalandi sagði nýlega í blaðaviðtali, að uppistöðulón á hálendinu gætu nýtzt til ferðamála, ef þar verði komið upp skipulögðum bátsferðum, svo að fólk geti hallað sér aftur á bak og drukkið í sig landslagið umhverfis lónið.

Þessi draumsýn er fjarri raunveruleikanum. Uppistöðulón eru engin stöðuvötn frá náttúrunnar hendi. Þau eru ætluð til miðlunar. Stundum eru þau full af vatni og stundum er lítið í þeim. Við Kárahnjúka er gert ráð fyrir, að mismunur vatnshæðar verði 75 metrar.

Hver metri í lóðlínu jafngildir fleiri metrum í landslagi. Þar sem land er tiltölulega flatt eins og í Þjórsárverum, getur hver lóðréttur metri jafngilt hundrað metrum í landslagi. Á öllu þessu svæði er land, sem stundum er á kafi í vatni og stendur stundum upp úr vatninu.

Gróður eyðist á þessu belti misjafnrar vatnshæðar. Eftir situr moldarflag, sem rýkur í þurrkum og rífur upp gróður í nágrenninu. Þannig verður til annað belti uppblásturs utan innra beltisins og venjulega margfalt stærra. Þannig mun fara fyrir friðlandi Þjórsárvera.

Við þekkjum lítið til uppistöðulóna við gróið land. Hingað til hafa aðeins verið gerð lítil lón, einkum á Tungnaársvæðinu, þar sem nánast enginn gróður var fyrir. Við Þjórsárver er hins vegar ráðgert að búa til þrjátíu ferkílómetra lón, sem liggur inn á friðaða svæðið.

Þetta er ekkert venjulegt gróðurlendi, sem þar er ráðgert, að fari undir vatn, moldarflög og uppblástur. Það eru sjálf Þjórsárver, sem eru stærsta gróðurvin íslenzka hálendisins og njóta alþjóðlegrar friðunar frá 1981 í samræmi við ákvæði fjölþjóðasáttmálans frá Ramsar.

Vandamál uppistöðulónsins við Kárahnjúka verða svipaðs eðlis, en í öðrum hlutföllum. Þar verður mismunur vatnsborðs meiri, en áhrif hvers dýptarmetra minni á landið í kring vegna meiri bratta. Heildaráhrifin á náttúruna verða geigvænleg á báðum þessum stöðum.

Í umhverfisskýrslu sinni um Kárahnjúka hefur Landsvirkjun skautað létt yfir þessi áhrif, einkum óbeinu áhrifin utan sjálfs fjöruborðsins. Væntanlega verður bætt um betur á síðari stigum málsins, enda njóta áróðursskýrslur þessarar illræmdu stofnunar einskis trausts.

Þjórsárveranefnd er enn að skoða tillögu Landsvirkjunar um uppistöðulón í jaðri Þjórsárvera. Landbúnaðarráðherra hefur lýst yfir, að ekki verði skertur metri af svæðinu. Því miður segir reynslan okkur, að ekki er mikið að marka digurbarkalegar yfirlýsingar hans.

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun DV er mikill meirihluti þjóðarinnar andvígur uppistöðulóninu við Þjórsárver. Því miður er málið flokkspólitískt, lónið stutt af meirihluta kjósenda Sjálfstæðisflokksins, sem ræður rúmlega öllu, sem hann vill ráða í ríkisstjórninni.

Naumur meirihluti kjósenda Framsóknarflokksins er hins vegar andvígur lóninu. Því er hugsanlegt, að ráðherrar flokksins komi í veg fyrir hryðjuverk í Þjórsárverum til að bæta fyrir hnekkinn á ímynd flokksins, sem stafar af harðri baráttu hans fyrir Kárahnjúkalóni.

Þannig er farið um hálendið, sem þjóðin hefur til varðveizlu fyrir hönd ófæddra kynslóða. Það er orðið að pólitískri verzlunarvöru. “Ef ég fæ að eyðileggja þennan stað, skal ég ekki eyðileggja hinn staðinn”, gætu verið einkunnarorð Framsóknarflokksins þessa dagana.

Hvorugur glæpurinn er ráðamönnum þó svo fastur í hendi, að samstilltara átak þjóðarinnar geti ekki hindrað óafturkræf hryðjuverk á stærstu víðernum Evrópu.

Jónas Kristjánsson

DV

Búrgund

Veitingar

Góðbú í Búrgund
Beztu veitingastaðir Frakklands bera af erlendum eins og gull af eiri, enda tala Frakkar um kokka eins og aðrir Vesturlandabúar tala um frægðarfólk. Hjarta franskrar matargerðarlistar hefur lengi slegið í Búrgund, þaðan sem nýklassíska byltingin sigraði Frakkland á áttunda áratugnum. Í kjölfar vinnu í Lausanne fór ég vikulangt í minnisstæða pílagrímsferð milli góðbúa héraðsins í matargerðarlist árið 1986.

Öryggi hjá Girardet
Ferðin hófst raunar í nágrenni Lausanne í franska Sviss, þar sem Alfred Girardet á glæsilegan veitingastað í gömlu ráðhúsi í Crissier. Ég man eftir hlýju snillingsins, sem gaf sér tíma til að ræða við mig um frábæran humar með hvítri graslaukssósu. Löngu seinna naut ég að endurlifa þar hástig virðulegrar matargerðarlistar. Nú hefur Rochat tekið við stjórnartaumunum, en gæðin eru traust sem fyrr.
Crissier (Sviss): Hotel de Ville, 1 rue d’Yverdon, sími: 21 634 0505, fax: 21 634 2464

Ilmur hjá Blanc
Frá George Blanc man ég eftir mögnuðum ilmi blómagarðsins við ána Veyle, þar sem allt sameinaðist í meistaraverkum persónulegs matargerðarstíls, þar sem ilmur og bragð fengu að halda forræði sínu í litadýrðinni. Hann kunni bezt allra að sameina tindrandi ferskt hráefni og hárnákvæma eldamennsku. Kjúklingalifur með svartberja-edikssósu var hátindur pílagrímsferðarinnar.
Vonnas: George Blanc, sími: 47 450 9090, fax: 47 450 0880

Sjarmi hjá Troisgros
Frá nútímalegu veitingahúsi bræðranna og feðganna Troisgros andspænis járnbrautarstöðinni í Roanne man ég bezt eftir gamansamri og viðkunnanlegri framgöngu annars bróðurins, Pierre, sem gekk milli borða og útskýrði krabbasúpu með léttsýrðu grænmeti. Sonurinn Michel er nú orðinn yfirkokkur staðarins og heldur fyrra gæðastaðli.
Roanne: Freres Troisgros, Place Gare, sími: 47 771 6697, fax: 47 770 3977

Hráefni hjá Chapel
All hafði sinn sérstaka keim í undirfögrum veitingasalnum hjá Alain Chapel. Meira að segja brauð og smjör ilmuðu eins og franskt sumar. Hugmyndarík matreiðsla féll vel að heimsins ferskasta hráefni, einkum í saffrankryddaðri þykkvalúru. Nú hefur Philippe Jousse tekið við stjórnartaumunum í Mioannay og stjörnunum hjá Michelin hefur fækkað um eina.
Mioannay: Alain Chapel, sími: 47 891 8202, fax: 47 891 8237

Bocuse kóngur
Pílagrímsferðin endaði svo tveimur klössum neðar hjá Bocuse kóngi í úthverfi Lyon, þar sem hann hefur neglt firnastórt málverk af sér utan á húsið og nokkur minni málverk af sér innandyra. Ég kom raunar til hans aftur fyrir tveimur árum. Í bæði skiptin óð auglýsingakóngurinn útblásinn um sali.
Maturinn var í hvorugt skiptið hugmyndaríkur eða minnisstæður, nema hvað ekkert svartsveppabragð var að frægu svartsveppasúpunni í seinni heimsókninni. Gestir voru þá einkum fávíst peningafólk og kokkar frá Noregi, enda skilst mér, að franskir matgæðingar hafi fyrir löngu afskrifað hinn sjálfhverfa kóng.
Collonges: Poul Bocuse, Pont de Collonges Nord, sími: 47 242 9090, fax: 47 227 8587

DV

Fimmfaldir sóðar

Greinar

Bandaríkjamenn eru 5% af íbúum jarðar og bera ábyrgð á 25% af útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Að mati George Bush Bandaríkjaforseta er þetta afar fátæk þjóð, sem hefur ekki efni á að taka til hendinni í þessu efni. Vísar hann í staðinn á auðþjóðir Indlands og Kína.

Bush hefur dapurlegt veganesti með sér á ferð sinni um Evrópu. Ríkisstjórn hans hefur á skömmum tíma kippt Bandaríkjunum úr forustu vestrænna ríkja fyrir margvíslegum framförum í heiminum, þar á meðal í baráttunni gegn aukningu gróðurhúsalofttegunda.

Sinnaskiptin vestra stafa ekki af nýjum vísindum. Þvert á móti hefur Vísindaráð Bandaríkjanna nýlega staðfest þær niðurstöður vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá í vetur, að loftslag og veðurfar á jörðinni sé af mannavöldum að breytast á afar skaðlegan hátt.

Á hvern íbúa eru Evrópubúar ekki nema hálfdrættingar á við Bandaríkjamenn í þessum sóðaskap, en vilja fyrir sitt leyti taka til hendinni. Ríkisstjórnir Evrópu hafa gagnrýnt stefnubreytingu Bandaríkjaforseta, sem gengur þvert á yfirlýsingar hans í kosningabaráttunni.

Ráðgert hafði verið, að árið 2002 mundu aðildarríki Kyoto-sáttmálans frá 1997 vera búin að staðfesta hann. Evrópuríkin segjast enn vera reiðubúin til þess, þótt Bandaríkin hafi ákveðið að vera utangarðs með tveimur öðrum sóðaríkjum, sem heita Ástralía og Ísland.

Í rauninni eru hagsmunir olíufélaga í Texas, heimaríki Bush, að baki sinnaskipta forsetans. Að yfirvarpi er þó haft, að bandarískt atvinnulíf hafi ekki ráð á hreinsun og að ósanngjarnt sé að undanskilja fjölmenn ríki á borð við Indland og Kína frá fyrstu aðgerðum í málinu.

Í Kyoto var þó litið þannig á málið, að núverandi mengun andrúmsloftsins væri einkum gömlu iðnríkjunum að kenna. Því bæri þeim að taka til hendinni í fyrstu umferð. Í annarri umferð aðgerðanna kæmu svo þróunarlöndin, sem eru nýlega byrjuð að menga andrúmsloftið.

Kyoto-sáttmálinn er engin fyrirmyndarlausn, heldur niðurstaða langvinns samningaþjarks með þátttöku Bandaríkjanna. Sum atriði hans verða erfið í framkvæmd. Hann átti bara að vera fyrsta skrefið til stöðvunar á mengun andrúmsloftsins. Fleiri skref áttu að fylgja.

Það er svo alveg nýtt fyrir mönnum, að Bandaríkjamenn séu svo fátækir, að þeir hafi ekki sömu efni og aðrir á að hreinsa eftir sig skítinn. Auðvitað verður hver þjóð fyrir sig að meta, hvort hún hafi komizt í álnir eða ekki, en óneitanlega leggst lítið fyrir kappann.

Bush Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að taka ekki frekar mark á Vísindaráði Bandaríkjanna en á vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Hann hefur ákveðið að leggja ekki fram tillögur um betri lausn á málinu en fólst í Kyoto-sáttamálanum. Hann kemur berhentur til Evrópu.

Það eina, sem hann hefur til málanna að leggja, er að skipa enn einu sinni nefnd og reyna að finna, hvernig hægt sé að fá fyrirtæki til að laga stöðu sína á sjálfviljugan hátt. Meðan hann fer undan í flæmingi, versnar ástand heimsins stöðugt vegna bandarískrar mengunar.

Í kjölfar ákvörðunar forsetans er eðlilegt, að Evrópa setji mengunarskatt á bandarískar vörur, svo að þær njóti þess ekki á markaði að vera framleiddar á ódýrari og sóðalegri hátt en evrópskar vörur. Skattinn má svo nota til róttækari aðgerða gegn mengun andrúmsloftsins.

Valdataka Bush í Bandaríkjunum er áfall fyrir allt mannkyn og sérstaklega fyrir Vesturlönd, sem eru orðin höfuðlaus her síðan Bandaríkin hurfu inn í skelina.

Jónas Kristjánsson

DV

Flokkar úr fókus

Greinar

Einn stjórnmálaflokkur hefur umfram aðra flokka landsins ástæðu til að hafa áhyggjur af fylgiskönnunum á miðju kjörtímabilinu. Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn, sem mælist langt undir síðasta kjörfylgi í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri.

Áhyggjur Framsóknarflokksins hljóta líka að vera nokkrar. Hver skoðanakönnunin á fætur annarri sýnir lakari stöðu hans en var í síðustu alþingiskosningum, sem voru flokknum þungbærar. Aðrir hlutar íslenzka fjórflokksins eru í sæmilega traustum fylgismálum.

Samfylkingin var stofnuð upp úr Alþýðuflokki, Alþýðubandalagi og Kvennalista með þeim yfirlýstu væntingum, að þetta yrði að minnsta kosti 40% flokkur. Niðurstaðan í kosningunum varð þó ekki nema 27%. Síðan hefur fylgið oftast mælzt 16­18% í skoðanakönnunum.

Meðan rólegum og miðlægum vinstri flokkum vegnar vel víðs vegar um Evrópu, þar á meðal í höfuðríkjunum Bretlandi, Frakklandi og Þýzkalandi, fellur miðlægi vinstri flokkurinn á Íslandi algerlega í skugga jaðarsins, eins og hann birtist í kannanafylgi vinstri grænna.

Að nokkrum hluta er vandamál Samfylkingarinnar svipað og Framsóknarflokksins. Þessir flokkar hafa ekki gætt veiðilendna sinna á rauða og græna jaðrinum og leyft nýjum flokki eindreginna og harðra sjónarmiða að hala sig á tveimur árum upp úr 9% í 25% fylgi.

Hefðbundnar kenningar segja, að flokkar eigi að stunda veiðiskap á miðjunni, af því að þar séu þorskarnir flestir. Þetta virðist síður eiga við á Íslandi en í nágrannalöndunum, nema þá að miðjan hafi færzt til, án þess að Samfylking og Framsókn hafi áttað sig á vilja kjósenda.

Græn sjónarmið eru ekki lengur jaðarmál. Þetta hafa systurflokkar Framsóknarflokksins á Norðurlöndum skilið og eru þar grænastir allra flokka. Hér á Framsókn við það skrítna böl að stríða að vera tveimur öldum of seint að reyna að troða Íslandi gegnum iðnbyltinguna.

Málið er ekki svona einfalt hjá Samfylkingunni, sem ætti að geta hossað sér á ýmsum stórmálum, sem fanga hugi þjóðarinnar í trássi við ríkisstjórnina. En fólk treystir bara ekki Samfylkingunni til að hindra Kárahnjúkavirkjun og afnema gjafakvótann í sjávarútvegi.

Spurning kjósandans er einfaldlega sú, hvort það taki því að falla frá stuðningi við stjórnarflokk og ánetjast ótraustri Samfylkingu á forsendum slíkra hitamála. Menn telja, að hún sé svo miðlæg, að hún muni fórna stóru hitamálunum í samningum um nýja ríkisstjórn.

Forustuvandi hrjáir báða flokkana. Formaður Framsóknar hefur átt einstaklega erfitt með að segja flokksfólki sínu, hvernig hann vilji láta skipa trúnaðarstöður og ráðherrastóla. Ennfremur er hann þungt haldinn af iðnbyltingar-sérvizku og smíðavinnu við gjafakvótann.

Málið er ekki svona einfalt hjá Samfylkingunni, sem hefur hvorki lagað stöðuna né spillt henni með því að skipta um formann. Ljóst er þó, að nýi formaðurinn virkar ekki á þann mynduga hátt, sem kjósendur ætlast sennilega til af leiðtoga stjórnarandstöðunnar á þingi.

Samfylkingin þarf að gera borgarstjórann í Reykjavík að formanni. Gallinn er bara sá, að hún þarf ekki að verða formaður, af því að hún er betur sett sem borgarstjóri Reykjavíkur, þar sem hún hefur einnig framsóknarmenn og vinstri græna undir víðum vængjum sínum.

Skoðanakannanir staðfesta, að Framsókn og Samfylking eru langt út úr fókus og eiga mikið verk fyrir höndum á þeim helmingi, sem lifir af kjörtímabilinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Grand

Veitingar

Hlutlaus hótelmatreiðsla
Veitingasalurinn á Grand hóteli hefur skánað og heitir ekki lengur Sjö rósir. Matreiðslan er komin upp í hlutlausan milliklassa að hætti hótela, sem þurfa að hafa mat handa þeim hótelgestum, sem ekki þora út fyrir dyr, en eru ekki að reyna að draga fólk utan úr bæ á forsendum matargerðarlistar. Væntingar matargesta eru engar og vonbrigðin þar af leiðandi engin. Matgæðingar meðal hótelgesta hér á landi eru hvort sem er svo fáir, að þeir rúmast allir á Hótel Holti.

Lapþunnt espresso
Fjórir stórir hörpudiskar voru einn forrétturinn á Grand, bornir fram með harðbrenndum laukþráðum og mildri Béarnaise-sósu með söxuðu spínati, sem ekki gaf neitt bragð, dæmigerður hlutleysisréttur að hætti keðjuhótela. Osthjúpaður lax var ofsoðinn og of þurr, borinn fram ofan á ágætum turni af kryddlegnu hvítkáli með kóríander og brúnni sósu til hliðar. Crème Brulée var létt og ágætt, borið fram í tveimur staupum. Svokallað espresso-kaffi var lapþunnt, enda kom það úr sjálfvirkri hnappavél.

Öfgar í skreytilist
Brúnni sósu með laxinum var slett til skrauts á breiða diskbarma, svo að ekki var hægt að leggja frá sér hnífinn án þess að óhreinka skaftið. Þetta er dæmi um skreytilist, sem er komin í svo miklar ógöngur meðal matreiðslumanna hér á landi, að hún skyggir ekki bara á matargerðarlist, heldur heftir beinlínis eðlilegt borðhald. Myndlistarárátta tröllríður mörgum veitingahúsum okkar, einkum þeim dýrustu, þar sem hún víkur raunverulegri matargerðarlist til hliðar.

Berskjaldaður matsalur
Fremur vandræðalega hannaður matsalur Grands er jafn berskjaldaður sem fyrr í anddyri hótelsins. Gamaldags básar með veggjum draga staðinn niður á bjórstofuplan, en opinn arineldur á miðju gólfi lyftir hins vegar staðnum og hamlar gegn skarkala frá anddyri. Stíllinn minnir á anddyri Hótel Sögu fyrir nýjustu breytingarnar, sem meðal annars fólu í sér brýnan aðskilnað anddyris og matsalar.

Reykvísk keðjuhótel
Hótel Holt er eina hótelið í bænum, sem leggur áherzlu á fína matargerðarlist í nýklassískum stíl. Næst á eftir koma Óðinsvé, þar sem meiri áherzla er þó á sjónvarpsfrægð en matargerðarlist. Þessir tveir hótelsalir draga til sín gesti utan úr bæ, en hinir þjóna nærri eingöngu hótelgestum. Grillið á Sögu er ásamt Perlunni annar af tveimur hátindum hinnar úrkynjuðu skreytilistar. Borg, Esja, Grand og Loftleiðir varðveita hina hlutlausu og stórslysalausu eldamennsku, sem fylgir keðjuhótelum um allan heim.
(Grand Brasserie, Sigtúni 38, sími 568 9051)

Jónas Kristjánsson

DV

Trúgirni og óskhyggja

Greinar

Þessa dagana er fólk fúsara en nokkru sinni fyrr að trúa kenningum um, að grisja þurfi fiskistofnana í hafinu enn frekar, svo að þeir vaxi upp, enda hafi slíkt reynzt vera heppilegt í stöðuvötnum. Kenningasmiðir grisjunar hafa skyndilega fengið byr undir báða vængi.

Fólk vill trúa á heilbrigðan grisjunarmátt mikillar veiði, þótt hún hafi alls ekki gefizt vel á ýmsum hafsvæðum, svo sem í Norðursjó og við Færeyjar og Kanada, þar sem fiskistofnar hafa nánast eða alveg hrunið af völdum þeirrar grisjunar, sem felst í of mikilli veiði.

Fólk vill trúa á grisjun, þótt þorskveiðisaga síðustu aldar sýni, að hvíldin, sem þorskurinn fékk á tímum tveggja heimsstyrjalda, leiddi til stofnstækkunar og mikillar veiði á eftirstríðsárunum. Þá gat veiðin farið upp fyrir hálfa milljón tonna á ári, þrefalt hærra en núna.

Hafrannsóknastofnunin hefur gefið á sér höggstað með því að neyðast til að játa þriðjungs ofmat sitt á þorskstofninum. Í augum fólks hefur henni ekki tekizt að varðveita fræðilegan orðstír, þótt þar sé innan dyra að finna beztu fiskifræðiþekkingu, sem til er í landinu.

Stofnuninni hefur mistekizt að gera fyllilega ráð fyrir þeim vanda, að heimilaður afli hefur flest ár verið töluvert meiri en sem nemur tillögum hennar. Henni hefur líka mistekizt að gera fyllilega ráð fyrir feiknarlegum afla lítilla, en öflugra og vel búinna báta utan kvóta.

Enn fremur hefur henni mistekizt að gera fyllilega ráð fyrir áhrifum brottkasts á fiskistofna. Síðast en ekki sízt hefur hún verið höll undir meintar þarfir þjóðfélagsins fyrir miklar tekjur af fiskafla, eins og þær hafa verið túlkaðar af aðgangshörðum stjórnmálamönnum.

Hafrannsóknastofnunin þarf að verða minna diplómatísk og meira fræðileg. Hún þarf að gera meira af því að setja viðurkennda fræðimenn sína í sviðsljósið og hún þarf að halda fjölþjóðlegar ráðstefnur, þar sem erlendir sérfræðingar leggja sitt af mörkum til málanna.

Þyngsti hluti vandans leynist þó utan stofnunarinnar. Í almenningsálitinu er aflatillögum hennar ruglað saman við svokallað gjafakvótakerfi, sem sætir almennri fyrirlitningu. Reiði fólks út í gjafakvóta stjórnmálamanna kemur niður á fiskveiðiráðgjöf vísindamanna.

Fólk er ósátt við, að auðlindir hafsins skuli án endurgjalds vera afhentar völdum aðilum, sem síðan selja öðrum kvótann fyrir morð fjár og flytja hagnaðinn úr landi. Almenningur er ósáttur við spillinguna, sem fylgir þessari skömmtun eins og svo margri annarri.

Spillingu gjafakvótakerfisins má afnema með því að leigja kvótann út á opinberu uppboði. Engin þörf er á að kasta barninu út með baðvatninu. Áfram þarf skömmtun á aðgangi að takmarkaðri auðlind hafsvæðanna við Ísland, þótt núverandi gjafakvóti verði lagður niður.

Jarðvegurinn er kjörinn fyrir kenningasmiði grisjunar og pólitíska plötuslagara, sem fylgja þeim fast eftir. Fólk vill trúa notalegum stöðuvatna-kenningum um, að aukin sókn stækki fiskistofnana í hafinu. Trúgirni og óskhyggja taka saman höndum í hugskoti almennings.

Kjarni málsins er hins vegar, að fiskveiðar við Ísland eru engan veginn sjálfbærar. Áratugum saman hefur verið stunduð ofveiði á flestum stofnum nytjafiska. Sjálfur þorskurinn hefur verið 25% ofveiddur í fjóra áratugi samfellt og nú er komið að skuldadögunum.

Hrunið er svo á næsta leiti, ef trúgirni og óskhyggja fólks leiðir til uppgangs pólitískra plötuslagara, sem magna sóknina í skjóli þægilegra grisjunarkenninga.

Jónas Kristjánsson

DV

Málsgrein og myndskot

Greinar

“Ekki er ofmælt, að það sé lýðræðinu hættulegt, ef fólk treystir á sjónvarp sem helzta fréttamiðil sinn,” segir Walter Cronkite sjónvarpsstjarna í sjálfsævisögu sinni, þar sem hann fer rækilega yfir feril sinn sem frægasti fréttastjóri og fréttaþulur í sögu sjónvarpsins.

Í ævisögunni rekur Cronkite, hvernig sjónvarpsfréttir í Bandaríkjunum hafa smám saman verið að breytast úr upplýsingum yfir í að vera dægrastytting eins og annað sjónvarpsefni. Reynsla hans skiptir okkur máli, því að nýbreytni í vestri flytzt oftast austur um haf.

Cronkite bendir á, að hálftíma sjónvarpsfréttir flytji fólki “fáránlega lítið fréttamagn”, það er svipað fréttamagn og tveir þriðju hlutar úr einni síðu í erlendu dagblaði, sem jafngildir tæplega hálfri annarri síðu í dagblaði af þeirri síðustærð, sem við þekkjum hér á landi.

Fréttir bandarískra sjónvarpsstöðva hafa minnkað niður í “soundbite” og “photo opportunity”, það er að segja málsgrein og myndskot. Þetta sést vel í kosningabaráttu, þar sem spunastjórar forsetaefnanna gefa sjónvarpinu færi á einni málsgrein og einu myndskoti á dag.

Forsetaefnin haga ferðum sínum á þann hátt, að á hæfilegum tíma dagsins fyrir sjónvarpsfréttir kvöldsins gefa þeir færi á að mynda sig við einar heppilegar kringumstæður, þar sem þeir slá fram einni málsgrein, sem spunastjórarnir telja skipta máli þann daginn.

Árið 1992 var þessi breyting sjónvarpsfrétta svo langt leidd í Bandaríkjunum, að allra lengsta beina tilvitnun sjónvarpsfréttar í málflutning forsetaframbjóðanda nam átta sekúndum. Þið getið prófað þetta sjálf og reynt að segja eitthvað af viti á átta sekúndum.

Samhliða þessum samdrætti upplýsingamagns hefur fréttainnihaldið breytzt. Ekki er lengur fjallað um málefni og rök, heldur meintan persónuleika. Í fyrrahaust var endalaust fjallað um, hvort frambjóðandinn Bush væri heimskur og frambjóðandinn Gore væri ýkinn.

Af notkun bandarískra sjónvarpsfrétta hefði maður getað haldið, að Bush væri sífellt einni málvillu frá heimskunni og Gore væri einni hagtöluvillu frá lyginni. Fréttaflutningurinn snerist meira eða minna um samanburð við fyrri væntingar sjónvarpsfrétta um persónubresti.

Þannig hafa stjórnmálafréttir sjónvarps verið að færast í sama farveg og sjónvarpsfréttir af frægðarfólki á borð við kvikmyndaleikara. Fréttaneytendur þykjast vita allt um persónusögu þeirra, persónubresti og fjölskyldulíf, en vita ekkert um, hvað þeir muni gera á valdastóli.

Þetta þrengir sjóndeildarhring þeirra Bandaríkjamanna, sem eingöngu nota sjónvarp sem fréttamiðil. Hinir, sem nota dagblöð og fréttatímarit, hafa aðgang að miklu meiri breidd upplýsinga, þar sem bæði magn og gæði fara langt fram úr því, sem sést í sjónvarpi.

Það kostulega er svo, að sérhæfing sjónvarpsins í persónum frekar en málefnum leiðir ekki til aukins skilnings notenda á persónum sjónvarpsfréttanna. Dæmin hrannast upp um, að persónur stjórnmálamanna eru meira eða minna ímyndir, framleiddar af spunastjórum þeirra.

Varnaðarorð Cronkite skipta miklu, því að hann varð heimsfrægur einmitt í þessu umhverfi, sem hann gagnrýnir svo hastarlega í ævisögu sinni. Hann bendir þó ekki á neina einfalda leið úr fréttagildru þeirra, sem treysta á sjónvarpið sem helzta fréttamiðil sinn.

Fyrsta skrefið til að losna úr gildrunni er, að fólk átti sig á, að málsgrein og myndskot verða aldrei ígildi fréttar og að persónuímynd verður aldrei ígildi persónu.

Jónas Kristjánsson

DV

Argentína, Hornið

Veitingar

Sérhæfðir veitingastaðir
Argentína og Hornið eru gróin og traust veitingahús, sem fundu sér stað í lífinu á fyrsta degi og hafa verið þar síðan, Argentína í nautasteikinni og Hornið í pöstunni og pítsunni. Fólk sækir þessa staði frá þeim sjónarhóli og verður sjaldan fyrir vonbrigðum, af því að stjórnendur staðanna hafa úthald til að halda staðli ár eftir ár. Slíkum veitingahúsum vegnar yfirleitt betur en hinum, sem ekki hafa eindreginn fókus.

Nautasteik Argentínu
Argentína er með dýrustu veitingahúsum landsins, 5800 krónur á mann þríréttað með kaffi áður en kemur að víni. Húsakynni eru ekki aðlaðandi, farið er um langan undirgang til að komast inn í dimman matsal með groddalegu tréverki. Básum hefur verið fækkað til bóta, svo að salurinn er opnari en áður. Staðurinn er samt áfram innilokunarlegur. Kostur er þó við myrkrið á staðnum, að maður sér illa, hversu ljótur staðurinn er.

Einhæf kartafla bökuð
Ef fólk fer út að borða með því hugarfari að fá sér nautasteik, er Argentína kjörin, því að hráefni nautakjötsins er þar jafnan gott, en getur verið misjafnt á hinum dýru matstöðunum í bænum. Mestu máli skiptir, að tímasetning nautasteikinga í eldhúsi er nákvæm, en meðlætið er einhæft, bökuð kartafla. Kryddlegið nautakjöt carpaccio var fínn forréttur og sömuleiðis hvítlauksgrillaðar risarækjur. Eftirréttir voru afar sætar og óhollar hitaeiningabombur. Þjónusta er ágæt og fumlaus.
(Argentína, Barónsstíg 11, sími 551 9555)

Pöstur og pítsur Hornsins
Hornið er hversdagslegri og ódýrari staður, sem selur pöstur á 1460 krónur, pítsur á 1300 krónur, fiskrétt dagsins með súpu á 1120 krónur og hefðbundna þrírétta máltíð með kaffi af fastaseðli á 3700 krónur áður en kemur að víni. Ef frá eru taldir skyndibitastaðir, er þetta fyrsti pöstu- og pítsustaðurinn í bænum og skartar enn óbreyttum innréttingum í kaffihúsastíl að baki stórra útsýnisglugga að fáförnu Hafnarstræti.

Góðar tímasetningar
Hefðbundinn matur er frambærilegur á Horninu. Þorskurinn var hæfilega skammt eldaður, mikið pipraður og borinn fram með sterkri tómatsósu, pastaræmum, léttsteiktu grænmeti og miklu af olífum. Lambafillet var líka hæfilega skammt eldað, milt kryddað og safaríkt, með ágætu jafnvægi í bragði blandaðs meðlætis annars vegar og fiskjar hins vegar. Kokkurinn missti hins vegar tökin á hörpuskeljar-forrétti og lét balsamsósu fljóta í miklu magni um diskinn, en hörpufiskurinn sjálfur var meyr.
(Hornið, Hafnarstræti 15,
sími 551 3340)

Jónas Kristjánsson

DV