Stríðið gengur illa

Greinar

Styrjöld Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í Afganistan hefur gengið illa, þegar þetta er ritað. Hálfs mánaðar herför hefur ekki leitt til þess, að skref næðust að þeim markmiðum, sem herstjórn Bandaríkjanna hafði sett sér, þótt það kunni að breytast á næstu dögum.

Talibanar eru enn fastir í sessi og virðast hafa full tök á yfirráðasvæði sínu, sem nær yfir níu tíundu hluta landsins. Héraðshöfðingjar og svæðisherforingjar þeirra hafa ekki lagzt á sveif með Bandaríkjunum og svokallaðir “hófsamir” Talibanar hafa ekki látið á sér kræla.

Þjóðflokkur Pashtuna er fjölmennastur í Afganistan og Pakistan. Þrátt fyrir bandalag Bandaríkjanna við hryðjuverkastjórn valdaræningja í Pakistan, hafa engir hópar Pashtuna í Afganistan slegizt í lið með Bandaríkjunum. Þeir virðast ekki hafa bilað í stuðningi við Talibana.

Ekki hafa tekizt tilraunir Bandaríkjanna til að mynda eins konar samráðastjórn með því að grafa upp aldraðan kóng á Ítalíu og gera hann að leppi sínum. Þótt þessi hópur sé af þjóðflokki Pashtuna, þar á meðal kóngurinn, hefur þeim ekki tekizt að hafa áhrif á heimamenn.

Enn sem komið er, hefur herstjórn Bandaríkjanna eingöngu getað notað heri Norðurbandalagsins, sem eru andstæðingar Talibana. Því miður eru þeir aðeins skipaðir minnihlutahópum, sem eru hataðir af Pashtunum fyrir voðaverk Norðurbandalagsins á undanförnum árum.

Bandaríska herstjórnin er alltaf að bíða eftir sókn Norðurbandalagsins í átt til höfuðborgarinnar Kabul. Þessi sókn hefur lengi látið á sér standa. Víglínur eru enn óbreyttar norður í landi, þegar þetta er ritað. Ekki einu sinni hefur fallið héraðshöfuðborgin Mazar-i-Sharif.

Norðurbandalagið er ekki félegur bandamaður. Því er stjórnað af glæpamönnum, sem bera ábyrgð á mestum hluta fíkniefnanna, sem berast til Evrópu. Spunameisturum herferðar Bandaríkjanna í Afganistan hefur ekki tekizt að draga fjöður yfir þessa alvarlegu staðreynd.

Bandaríkin og bandamenn þeirra hafa farið halloka í stríðinu um sannleikann. Upplýsingar þeirra um árangur og afleiðingar loftárása hafa reynzt rangar, en upplýsingar Talibana réttar, svo sem síðar hefur verið staðfest af starfsfólki hjálparstofnana og Sameinuðu þjóðanna.

Verst er, að herstjórn Bandaríkjanna hefur fyrst vísað fréttum Talibana á bug, svo sem fréttum af árásum á íbúðahverfi og sjúkrahús, en síðan orðið að draga það til baka. Ekki er því við að búast, að menn treysti frekari fullyrðingum Bandaríkjanna og bandamanna þeirra.

Ekki er vitað til, að neinn liðsmaður Osama bin Ladens hafi fallið og ekki er sjáanlegt, að herstjórn Bandaríkjanna viti, hvar hann er niður kominn. Ekki er heldur vitað til, að neinn liðsmaður Talibana hafi fallið. Hins vegar hafa þúsund óbreyttir borgarar látið lífið.

Með þessu áframhaldi munu Pashtunar standa saman sem einn maður gegn herflokkum Bandaríkjamanna og óþjóðalýðnum, sem þeir hafa gert að bandamönnum sínum. Þegar þetta er ritað, eru því fremur horfur á, að vestrænn stuðningur við stríðið fari ört þverrandi.

Stærsta fórnardýr stríðs Bandaríkjanna í Afganistan er sú fullyrðing ráðamanna, að þetta sé stríð gegn hryðjuverkum. Þvert á móti hafa Bandaríkin gert bandalag við hryðjuverkamenn í Afganistan og hryðjuverkastjórnir í nágrenni Afganistan um dráp á blásaklausu fólki.

Senn fara Vesturlandabúar að álykta, að Bandaríkjastjórn sé komin í ógöngur í tilraunum sínum til að leita hefnda fyrir hryðjuverkin 11. september.

Jónas Kristjánsson

DV

Minna logið núna

Greinar

Talsmenn bandamanna í stríðinu í Afganistan fara gætilegar í fullyrðingum um rekstur stríðsins en forverar þeirra gerðu í Persaflóastríðinu og einkum þó í stríðinu í Kosovo, sem reyndist hafa verið nánast samfelld lygasaga af hálfu talsmanna Atlantshafsbandalagsins.

Eftir Persaflóastríðið voru uppi grunsemdir meðal stjórnenda fjölmiðla um, að þeir og notendur fjölmiðlanna hefðu verið hafðir að fífli. Um síðir kom í ljós, að myndskeið af árangri ýmissa flugskeyta, sem sýnd voru í sjónvarpi, voru í rauninni eins konar tölvuleikir.

Sjónvarpsstöðvar voru hins vegar svo uppteknar af árangursríkri blekkingu um yfirburði sína í lýsingum á “stríði í beinni útsendingu”, að þær létu hjá líða að læra af reynslunni. Fyrir bragðið féllu þær á bólakaf í svipaða gildru, þegar kom að styrjöldinni í Kosovo.

Eftir það stríð tóku ritstjórar vestrænna dagblaða sig saman um að rannsaka feril stríðsins og bera saman við fullyrðingar stríðsaðila. Niðurstaðan kom út í miklu riti, sem sýndi, að sannleikurinn skipti alls engu máli í fréttaflutningi stríðsaðila, þar á meðal bandamanna.

Ýmsar fréttastofur, útvarpsstöðvar og dagblöð höfðu fréttamenn á staðnum, sem sögðu allt aðra sögu en þá, sem Jamie Shea og aðrir gáfu daglega í aðalstöðvum Atlantshafsbandalagsins, vandlega þjálfaðir af spunameisturum leiðtoganna Tony Blair og Bill Clinton.

Bandaríkjastjórn virðist hafa dregið réttan lærdóm af hruni trausts fjölmiðla og notenda fjölmiðla á upplýsingum Atlantshafsbandalagsins um Kosovo. Talsmenn hennar fara mun varlegar en áður í fullyrðingar um gengi loftárásanna á Afganistan í einstökum atriðum.

Enda gera fjölmiðlar fullyrðingar bandalagsins ekki að sínum. Texti frétta er fullur af fyrirvörum á borð við: “að sögn” tilgreindra aðila. Dagblöð eru líka fljót að skjóta niður tilraunir spunameistara til að fljúga hátt, til dæmis í lýsingum á gildi fljúgandi matarpakka fyrir Afgana.

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, reyndi að skjóta upp þeirri kenningu, að talibanar byggðu afkomu sína á framleiðslu og sölu fíkniefna. Hann hætti því strax, þegar fjölmiðlar upplýstu, að sannleikurinn væri þveröfugur. Talibanar hafa raunar barizt gegn sölu fíkniefna.

Enn hafa þó fjölmiðlar tilhneigingu til að kaupa ódýrt fullyrðingar rekstraraðila stríðsins. Enn er talað um, að þetta sé styrjöld gegn hryðjuverkum almennt, þótt bandalagið hafi þróazt úr vestrænu bandalagi yfir í bandalag Bandaríkjanna við ýmsar hryðjuverkastjórnir.

Bandaríkjastjórn hefur reynt að stýra vitneskju manna um stríðið. Bandarískum sjónvarpsstöðvum er vansæmd af að hafa látið undan þrýstingi. Emírinn í Katar hefur meiri sóma, því að hann neitaði að hafa áhrif á mikilvægan fréttaflutning sjónvarpsstöðvarinnar al-Jazeera.

Hingað til hefur stríðið fyrst og fremst leitt hörmungar yfir saklausa. Hvorki er vitað um neitt mannfall í hópi liðsmanna Osama bin Ladens né liðsmanna talibana. Hins vegar hafa bandamenn drepið hundruð óbreyttra borgara og hrakið tugþúsundir þeirra á vergang.

Senn kann stríðið að beinast meira gegn raunverulegum glæpamönnum. Myndskeið af meintri næturárás fallhlífamanna á einar herbúðir talibana var þó ekki trúverðugt, enda sáust þar ræktuð tré í röðum. Að fenginni reynslu er rétt að taka það hóflega alvarlega.

Það er eðli trausts, að auðvelt er að glata því, en erfitt að endurheimta það. Því fær fólk sennilega réttari fréttir af stríðinu í Afganistan en undanförnum styrjöldum.

Jónas Kristjánsson

DV

Ríkið selji fíkniefni

Greinar

Þegar ríkið tekur sölu ólöglegra fíkniefna af svarta markaðinum, mun neyzlan aukast. Reynslan úr áfenginu sýnir, að lögleiðing eykur neyzlu. Ríkið þarf einnig að lækka verðið til að losna við svarta markaðinn, og reynslan úr áfenginu sýnir, að verðlækkun eykur neyzlu.

Reynslan úr áfenginu sýnir okkur líka, að fleiri verða fíklar, þegar ólögleg fíkniefni verða lögleg og þegar verð þeirra lækkar. Þetta er raunar eini umtalsverði gallinn við lögleiðingu fíkniefna. Þennan galla þarf að meta á móti ótvíræðum kostum lögleiðingar fíkniefna.

Þegar ríkið flytur verzlun þessara fíkniefna í búðirnar, sem selja lögleg fíkniefni, það er að segja lyf og áfengi, hrynur veldi skipulagðra glæpaflokka, sem stjórna innflutningi, heildsölu og dreifingu ólöglegra fíkniefna. Þeir geta ekki lengur grafið undan samfélaginu.

Núna eru þessir glæpaflokkar ríki í ríkinu. Þeir innleiða siðareglur, sem eru allt aðrar en áður hafa gilt í þjóðfélaginu. Þeir gera samfélagið ofbeldishneigðara, mútuþægnara og þögulla. Þeir hafa handrukkara og láta fíkla fremja lögbrot til að fjármagna neyzluna.

Mörg dæmi hafa birzt í fréttum hér á landi. Tollvörður var laminn sundur og saman fyrir hnýsni. Foreldrar fíkils sættu ógnunum og barsmíðum. Deilur glæpaflokka um áhrifasvæði leiddu til skotbardaga. Smám saman breytist Ísland í harðan fíkniefnaheim að erlendri fyrirmynd.

Lífsstíll auðugra eiturlyfjabaróna er farinn að höfða til óharðnaðra unglinga, sem sjá þar þægilega leið frá þrúgandi færiböndum iðnvæðingarinnar. Þannig eru fyrirmyndir fíkniefnaheimsins farnar að keppa við æskilegar fyrirmyndir hins hefðbundna þjóðfélags.

Lögreglan er gagnslaus í baráttunni gegn ófögnuðinum. Hún hefur ekki reynzt geta rakið feril efna frá neytendum til seljenda, að minnsta kosti ekki svo, að það leiði til ákæru. Hér á landi finnast fíkniefni nær eingöngu í innflutningi í litlum mæli. Neyzlan vex og vex.

Fyrr eða síðar mun þjóðfélagið gera uppreisn gegn ólöglegri fíkniefnasölu. Eina virka vopnið í uppreisninni felst í að taka lifibrauðið af eiturlyfjabarónum með því að lögleiða fíkniefnin og flytja sölu þeirra inn í áfengisverzlanir eða lyfjabúðir, þar sem seld eru lögleg fíkniefni.

Hagnað ríkisins af yfirtöku markaðarins má nota til að efla meðferðarúrræði fyrir þá, sem ánetjast fíkniefnum. Svarti markaðurinn leggur ekki krónu af mörkum til slíkra mála, en ríkið getur hæglega látið viðbótartekjurnar renna til meðferðar fíkniefnavandans.

Þeim fjölgar hér á landi, sem vilja láta lögleiða fíkniefni. Málið er meira að segja komið í umræðu á landsfundum stjórnmálaflokka. Kennir þar áhrifa frá útlöndum, þar sem slíkar kenningar njóta aukins stuðnings, meðal annars vegna röksemda tímaritsins Economist.

Fíkniefnabarónarnir munu berjast gegn þessum sjónarmiðum, sem ógna auði þeirra og völdum. Þeir munu fjármagna andóf og róg í garð þeirra, sem mæla með lögleiðingu fíkniefna. Þeir munu kaupa stjórnmálamenn og fjölmiðlunga til fylgis við óbreyttan markað svartan.

Við þurfum að fylgjast vel með tilraunum ýmissa þjóða til að feta sig yfir í lögleiðingu fíkniefna, einkum Hollendinga, sem stigu fyrstu skrefin, og Svisslendinga, sem hafa farið í humátt á eftir. Með því að læra af öðrum, getum við mildað hliðarverkanir af lögleiðingunni.

Við munum feta sömu slóð, því að samfélagið mun ekki sætta sig við, að hér hafa myndazt skipulagðir undirheimar, sem grafa undan innviðum þjóðfélagsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Alls engar sættir

Greinar

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins um helgina sýndi staðfestu í hitamálunum tveimur, sem hafa skipt þjóðinni í tvær fylkingar. Að ráði forustumanna flokksins hafnaði fundurinn sáttum í fiskveiðikvóta og Kárahnjúkavirkjun og studdi í þess stað stefnu ríkisstjórnarinnar.

Í fiskveiðikvótanum var samþykktur málamyndagerningur, kallaður “hóflegt veiðigjald”, sem felur í sér eftirgjöf af stærðargráðunni 5% við sjónarmið þeirra, sem vilja afnema gjafakvótann. Slíkt frávik frá fyrri stefnu felur ekki í sér neina marktæka tilraun til sátta.

Málamiðlun og sættir eru þekkt hugtök hér á landi. Þau fela í sér, að tekið er tillit til ýmissa sjónarmiða og fundin þolanleg niðurstaða að mati flestra málsaðila, enda falla deilur niður í kjölfarið. Engin leið er að rugla þeim hugtökum saman við niðurstöður landsfundarins.

Raunar varð niðurstaða fundarins um Kárahnjúkavirkjun svo eindregin, að klappað var, þegar helzti andstæðingur hennar á fundinum var kallaður “hryðjuverkamaður”. Þannig fer fyrir þeim, sem heimta að fá að reyna að raska fyrirfram ákveðnum niðurstöðum.

Vitað er, að þjóðin skiptist í tvær fylkingar í hitamálunum tveimur. Raunar hafa flestar skoðanakannanir mælt meiri stuðning við sjónarmiðin, sem landsfundurinn hafnaði. Ráðamenn Sjálfstæðisflokksins vita af þessum vanda, en létu eigi að síður slag standa á fundinum.

Fulltrúar koma ekki á landsfund til að hafa áhrif á gerðir fulltrúa flokksins á Alþingi og í ríkisstjórn. Þeir koma til að taka þátt í fagnaði rétttrúaðra sem eins konar klapplið fyrir sitt lið á vellinum. Á landsfundi minnir flokkurinn á íþróttafélag, sem styður “okkar” menn.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er enginn þverskurður kjósenda flokksins, sem eru samkvæmt skoðanakönnunum miklu hallari undir markaðsvæðingu kvótans og náttúruvernd á Austurlandi. Fundurinn er fyrst og fremst gjallarhorn og bergmál fyrir flokksforustuna.

Foringjarnir hafa gilda ástæðu til að ætla, að þeir komist upp með þetta, því að kjósendur eru flestir stilltir. Reynslan sýnir, að yfirleitt láta kjósendur skoðanir sínar á einstökum ágreiningsmálum ekki trufla hefðbundinn stuðning við flokkinn sinn í kjörklefanum.

Meðan kjósendur hafa ekki næga sannfæringu til að fylgja viðhorfum sínum til hitamála eftir í kjörklefanum, munu forustumenn halda áfram að líta svo á, að hlutverk sitt sé fremur að leiða hjörðina heldur en að spyrja hana, hvert skuli fara. Enda er það eðlileg niðurstaða.

Þannig munu hinir fáu útvöldu halda áfram að fá gefins sína skammta af takmörkuðum hlunnindum sjávar. Þannig mun náttúruperlum Austurlands verða fórnað fyrir tæpa gróðavon. Forustumenn Sjálfstæðisflokksins hafa ákveðið þetta og fengið stuðning landsfundar.

Þetta verður síðan staðfest á Alþingi í vetur og verður þar með löglegt. Allt byggist þetta á, að kjósendur eru ekki reiðubúnir til að taka skoðanir sínar alvarlega. Undir niðri líta flestir þeirra á sig sem þegna fremur en frjálsborna borgara. Þeir treysta yfirvaldinu.

Þegar stjórnmálaflokkar fara að líkjast fótboltafélögum og landsfundir þeirra fara að líkjast klappliðum, sjá menn fljótt, að þetta er ekki vettvangur fyrir málafylgju. Hún færist yfir í eins máls samtök og þrýstihópa, sem taka vaxandi þátt í þjóðmálaumræðu fjölmiðla.

Slíkir hópar munu svo áfram puða markvisst við að reyna að knýja fram sættir á borð við þær, sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafnaði um helgina.

Jónas Kristjánsson

DV

Samtök um lýðræði

Greinar

Þótt flestum þyki nóg til af fjölþjóðasamtökum, vantar okkur ein í viðbót. Ekki eru til nein samtök lýðræðisríkja um lýðræðið sjálft, verndun þess og eflingu í heiminum. Lýðræðisríkin þurfa slík samtök til að tryggja öryggi sitt, bæta efnahag sinn og efla milliríkjaviðskipti.

Þetta er sá minnihluti ríkja, sem fer eftir mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, býr við dreifingu valdsins og gegnsæi þess, leggur áherzlu á lög og rétt, og stundar aðskilnað ríkis og trúarbragða. Þetta er sá minnihluti ríkja, þar sem hinn óbreytti borgari er í öndvegi.

Slík ríki eru traust, af því að þau hafa innri öryggisventla í lagi. Farið er eftir leikreglum í viðskiptum og öðrum samskiptum. Þau eru í senn traust inn á við og út á við. Viðskipti milli slíkra ríkja eru traustari en önnur viðskipti, af því að þau virða rétt útlendra aðila.

Þegar lýðræðisríkjum fjölgar, stækkar svigrúmið, þar sem ríki fara ekki í stríð við hvert annað og stunda ekki hryðjuverk í ríkjum hvers annars. Þá stækkar svigrúmið til auðsöfnunar allra slíkra ríkja af völdum aukinnar sérhæfingar þeirra í framleiðslu og viðskiptum.

Sjónarmiðin að baki lýðræðisins eflast, ef slík ríki gera með sér samtök um að koma fram sem heild á alþjóðlegum vettvangi, til dæmis hjá Sameinuðu þjóðunum. Þar verður erfitt að andmæla, þegar einum rómi tala þau ríki, sem ein fara eftir mannréttindareglum samtakanna.

Mikilvægur þáttur slíks samstarfs er að koma sér saman um að styðja lýðræðisöfl í öðrum löndum, svo að svigrúm lýðræðis í heiminum stækki smám saman. Það felur um leið í sér, að bönnuð eru tímabundin hagkvæmnisbandalög þessara ríkja við andstæðinga lýðræðis.

Hafnað verður bandalögum, sem hefna sín um síðir, svo sem gamalkunnu bandalagi milli Bandaríkjanna og hryðjuverkaríkisins Pakistans um að koma Rússum frá Afganistan með því að koma á fót sveitum ofstækishópa talibana, menntuðum í sértrúarskólum Sádi-Arabíu.

Einnig verður hafnað bandalögum við aðila, sem grafa undan innviðum lýðræðisins með eiturlyfjasölu. Þar eru einna athafnasamastir stríðsherrar svokallaðs Norðurbandalags í Afganistan, sem Bandaríkin eru nú að nota til að kveða niður sinn eigin uppvakning, talibana.

Öll hagkvæmnisbandalög af slíku tagi hefna sín um síðir. Þau gefa stríðsherrum, herforingjum, lögreglustjórum og ýmsu öðru illþýði í þriðja heiminum tækifæri til að mjólka fjárhirzlur Vesturlanda og hindra eða tefja valdatöku lýðræðissinnaðra afla í þriðja heiminum.

Lýðræðisbandalagið ætti að nota þróunarfé sitt til að efla lýðræðislega þætti í öðrum ríkjum, svo að þau geti náð sér í aðgöngumiða að lýðræðisbandalaginu. Sérstaka áherzlu þarf að leggja á ríki, sem ramba á mörkum lýðræðis og geta með lagi þróazt í rétta átt.

Í þeim hópi er Tyrkland, sem þarf að efla mannréttindi minnihlutahópa og draga úr áhrifum hersins. Einnig Indland, sem þarf að draga úr spillingu ríkisafskipta og efla rétt lægstu stétta samfélagsins. Ennfremur Rússland, sem þarf að efla rétt minnihlutahópa og stöðva mafíuna.

Þetta eru fjölmenn ríki, sem eru komin langleiðina í faðm lýðræðisins. Ef þau sogast áfram í átt til lýðræðishefða Vesturlanda, stendur lýðræðið föstum fótum í fleiri menningarheimum en áður og er betur búið til að setja fjöldamorðingjum heimsins stólinn fyrir dyrnar.

Í fjölskrúðugri flóru fjölþjóðasamtaka vantar okkur samtök, sem hafa það eitt að markmiði að treysta lýðræði í sessi og víkka áhrifasvæði þess í heiminum.

Jónas Kristjánsson

DV

Vestrið er bezt

Greinar

Hryðjuverkin í Bandaríkjunum og eftirmál þeirra hafa hleypt nýju lífi í umræðuna um, hvort Samuel Huntington eða Francis Fukuyama hafi rétt fyrir sér. Hefur vestrið sigrað heiminn eða er í uppsiglingu meginbarátta milli menningarheima? Rétt svör finnast mitt á milli.

Fyrir áratug var mikið rætt um, að svonefnd austræn gildi gætu att til kapps við vestræn gildi í nútímanum. Velgengni ríkja og þjóða í Suðaustur-Asíu var talin stafa af fjölskylduhyggju í stað einstaklingshyggju og hlýðni við yfirboðara í stað gagnrýninnar hugsunar.

Þessi umræða er steindauð. Komið hefur í ljós, að fjölskylduhyggja og undirgefni voru ávísanir á spillingu, sem hefur dregið vígtennur úr austræna undrinu. Japan hefur sokkið í varanlega kreppu og önnur ríki á þeim slóðum hafa orðið fyrir miklum efnahagsáföllum.

Flest bendir til, að lykill að velgengni þjóða í nútímanum fari eftir áherzlu þeirra á hefðbundin vestræn gildi eins og þau birtast í mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, dreifingu valdsins og gegnsæi þess, aðskilnaði ríkis og kirkju, og eindreginni áherzlu á lög og rétt.

Flest bendir líka til, að hagsmunir og vilji almennings í öðrum heimshlutum hallist á sömu sveif, þótt yfirvöld hafi margt við vestrið að athuga. Yfirvöld rægja vestrið til að verja óhófleg völd sín. Þaðan er sprottin umræðan um, að vestrið sé að valta yfir aðra menningarheima.

Tímabært er orðið, að Vesturlönd hætti að vera feimin við að hafa áhrif í öðrum heimshlutum. Almenningur í þriðja heiminum vill vestræn áhrif og telur þau munu verða til að lyfta sér úr fátækt til bjargálna. Hin vestrænu gildi hafa almenna skírskotun til vona almennings.

Allt þetta bendir til, að Francis Fukuyama hafi rétt fyrir sér, hin vestrænu gildi muni dreifast um allan heim og efla reisn almennings í þriðja heiminum. En til er ein undantekning, sem bendir til, að sitthvað sé líka skynsamlegt í því, sem Samuel Huntington hefur sagt.

Þessi undantekning er menningarheimur íslams. Þar er trú og ríki samofið. Þar er jafnrétti heft með skírskotun til helgra bóka. Þar er hvergi lýðræði, nema helzt í Tyrklandi. Þar eru litlar efnahagsframfarir, aðrar en þær, sem byggjast á þeirri heppni að eiga olíu í jörð.

Um leið er íslam ófriðlegasti menningarheimur jarðar. Á jöðrum hans eru flest átök í heiminum um þessar mundir. Íslam er greinilega vansæll menningarheimur, fullur öfundar og gremju í garð vestursins, sem hefur tekið við af íslam sem forustuafl mannkyns.

Þetta hefur verið feimnismál, en þarfnast umræðu. Það er engin tilviljun, að allur þorri hryðjuverka, sem beinist gegn vestrinu, er framinn af ofsatrúuðum áhangendum Múhameðs spámanns. Árásirnar 11. september hafa vakið vestrið til vitundar um þessa óþægilegu staðreynd.

Tímabært er, að ríkin, sem virða vestræn gildi mannréttinda, dreifingar valds og gegnsæis þess, aðskilnað ríkis og kirkju og áherzlu á lög og rétt, geri með sér bandalag um að efla áhrif þessara hugmynda í heiminum og hætti bandalögum við einræðisherra og harðstjóra.

Vestrinu ber að hætta stuðningi við ráðamenn ríkja á borð við Sádi-Arabíu, Pakistan, norðurbandalagið í Afganistan, Úsbekistan og Jórdaníu, svo að nokkur dæmi séu nefnd um aðila, sem hafa komið sér í mjúkinn hjá vestrinu til að halda völdum yfir langsoltnum lýð.

Í staðinn ber vestrinu að gera bandalag við lýðræðisöfl þriðja heimsins um útbreiðslu lýðræðis, svo að reisn, hagur og frelsi almennings eflist um allan heim.

Jónas Kristjánsson

DV

Íslam á bágt

Greinar

Veðurfræðingurinn í sjónvarpinu í Marokkó endar með því að segja, að svona verði veðrið, ef Allah lofar. Íslömsk þjóð, sem er svo frjálslynd, að áfengi fæst á öðru hverju kaffihúsi, gefur konum aðeins hálfan arfhlut á við karla, af því að kóraninn er sagður banna jafnrétti.

Í Marokkó hefur ekki orðið sá aðskilnaður ríkis og trúar, sem stuðlar að framgangi vísinda og tækni. Þar skammtar einvaldskonungur lýðræði og málfrelsi úr hnefa. Þar neitar ríkið sér um hagkvæmni jafnréttis kynjanna, sem þykir vera sjálfsagt á Vesturlöndum.

Frumkristnin var trú þræla og einkum kvenna, svo sem enn má sjá af kirkjusókn í kaþólskum löndum. Kristnin er sveigjanleg og hefur getað beygt sig fyrir þrýstingi. Meðal annars sættir hún sig við að spila aðra fiðlu í veraldlegri sinfóníu þjóðskipulagsins á Vesturlöndum.

Íslam var hins vegar hermannatrú, hlaðin karlrembu, svo sem enn má sjá af moskusókn í íslömskum löndum. Hún er einföld og ósveigjanleg og hefur átt erfitt með að víkja fyrir veraldlegri efnishyggju, sem flæðir að vestan um heim íslams eins og önnur svæði þróunarlanda.

Sem trú sigurvegarans hefur íslam átt erfitt með að bíta í það súra epli, að heiminum sé að mestu stjórnað af Vesturlöndum, sem eru í senn kristin og heiðin. Áhangendum íslams sárnar, að tæknivædd og auðug Vesturlönd skuli geta valtað kruss og þvers yfir trúarsvæði íslams.

Margir verða til að sá eitri í þennan jarðveg. Harðstjórar verja völd sín með því að gæla við trúna. Saddam Hussein gerðist trúaður á einni nóttu, þegar hann taldi sig þurfa á því að halda. Konungsættin í Sádi-Arabíu eys árlega ótrúlegum fjármunum í trúarofstækisskóla.

Ofstækisfullt Ísraelsríki var rekið eins og fleinn í þetta viðkvæma hold. Í sjónvarpinu sjá menn dag eftir dag og ár eftir ár hryðjuverk og ofbeldi Ísraels gegn Palestínumönnum. Allir íslamar vita, að Bandaríkin hafa árum saman haldið Ísrael uppi með peningum og vopnum.

Vítahringurinn er sáraeinfaldur. Aðstæður og umhverfi framleiða vanmáttartilfinningu, sem leiðir unga menn í trúarskóla á vegum Sádi-Arabíu, þaðan sem þeir útskrifast sem ofsatrúaðir Wahhabítar og sumir hverjir sem froðufellandi efni í skæruliða og hryðjuverkamenn.

Ef Sádi-Arabinn og Wahhabítinn Osama bin Laden verður handtekinn, verður hann að píslarvotti. Hann verður að dýrlingi, ef hann verður drepinn. Fyrir hvern Osama bin Laden, sem hverfur af vettvangi, spretta upp tíu aðrir, rétt eins og skrímslin í sögunum.

Vandinn er stærri en svo, að hann verði leystur með hagkvæmnisbandalagi við hryðjuverkamenn í Pakistan, harðstjóra í Úsbekistan og fíkniefnasala í Norðurbandalagi um að velta talibönum úr sessi í Afganistan. Vandinn felst í misvægi og misþroska menningarheima.

Vesturlönd og einkum Bandaríkin hafa hamlað gegn lýðræðisþróun og veraldarhyggju í löndum íslams með því að styðja þar afturhaldssama harðstjóra, sem misnota trúna sér til framdráttar, og með því að styðja ofsatrúaða Ísraelsmenn til hryðjuverka í miðjum heimi íslams.

Vesturlönd geta því aðeins bægt hættu hryðjuverka frá sér, að þau rétti sáttahönd til íslams og reyni að finna friðarferli, sem auðveldi innreið lýðræðis, auðsældar og efnishyggju. Fólkið í þessum löndum mun reynast vilja taka mannsæmandi líf fram yfir froðufellandi trú.

Það dregur hins vegar síður en svo úr hættu á hryðjuverkum á Vesturlöndum að henda sprengjum á úlfaldarassa í Afganistan og hæfa þá ekki einu sinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Stóri bróðir stækkar

Greinar

Osama bin Laden og fylgismönnum hans hefur óvart tekizt að breyta stjórnarháttum í Bandaríkjunum. Repúblikönsk stjórn George W. Bush hefur látið af störfum og við tekið demókratísk stjórn George W. Bush með afskiptasamari og dýrari Stóra bróður en hin fyrri.

Í kjölfar hryðjuverkanna 11. september hefur Bush fallið frá ýmsum ráðagerðum, sem þar í landi eru taldar eiga heima til hægri í pólitísku litrófi, svo sem minni ríkisútgjöldum og lægri sköttum og minni afskiptum ríkisins yfirleitt af frelsi fólks til að fara sínu fram.

Gagnvart útlöndum er breytingin ekki áhrifaminni. Í stað afskiptaleysis af utanríkismálum, sem jaðraði við fyrirlitningu á bandamönnum ríkisins, svo sem neitun á aðild að ýmsum fjölþjóðasamningum, er bandaríska ríkið skyndilega komið á kaf í hefðbundin utanríkismál.

Bandaríkin eru jafnvel farin að greiða niður skuldir sínar við Sameinuðu þjóðirnar, sem hægri sinnaðir repúblikanar hafa hingað til hatað eins og pestina. Með sama áframhaldi samþykkja Bandaríkin um síðir jarðsprengjusáttmálann og stríðsglæpadómstólinn.

Heima fyrir kemur stefnubreytingin fram í ýmsum atriðum, sem snerta líf manna. Menn munu eiga erfiðara með að halda fjármálum og ferðalögum sínum leyndum fyrir Stóra bróður. Farið er að tala um nafnskírteini, sem hingað til hafa verið eitur í beinum þjóðarinnar.

Faldar myndavélar á mikilvægum stöðum, skyldunotkun nafnskírteina og víkkað svigrúm opinberra aðila til að hnýsast í fjármál fólks og notkun þess á símum og netþjónustu hafa hingað til ekki verið á stefnuskrá repúblikana. En nú hefur veruleiki tekið við af draumi.

Bandaríkin eru fjarri því að verða neitt lögregluríki í kjölfar hryðjuverkanna. Þau eru hins vegar að færast nær stjórnarháttum, sem hafa lengi þótt sjálfsagðir víðast hvar í Vestur-Evrópu, þar sem nafnskírteini hafa lengi þótt eðlileg og faldar myndavélar eru mikið notaðar.

Þar sem hættan á hryðjuverkum hefur tekið við af hættunni á hefðbundinni styrjöld sem nærtækasta öryggisvandamál vestrænna þjóða, er eðlilegt, að Stóri bróðir verði fyrirferðarmeiri en áður. Róttæk frjálshyggja hentar ekki þjóðfélagi á nýrri öld hryðjuverka.

Bandaríkin og önnur vestræn ríki verða að finna nýtt jafnvægi milli afskipta og afskiptaleysis hins opinbera. Við verðum að laga okkur að breyttum aðstæðum án þess að ýkja vandann. Ekki er ástæða til að gleðja hryðjuverkamenn með því að fara á taugum út af þeim.

Á tímabili var ástæða til að óttast, að stjórnvöld í Bandaríkjunum hefðu látið taka sig á taugum. Ýmsar tilskipanir í kjölfar hryðjuverkanna voru eins og pantaðar af Osama bin Laden. Flug var stöðvað og flugvöllum lokað, stóra flugvellinum í Washington vikum saman.

Drákonskar aðgerðir af slíku tagi voru til þess fallnar að magna efnahagsáföll Bandaríkjanna í kjölfar hryðjuverkanna. Þær voru svo harðar, að erfitt er að meta, hvort það voru hryðjuverkin sjálf eða viðbrögð stjórnvalda, sem ollu meiri samdrætti efnahags Bandaríkjanna.

Mikilvægt er, að stjórnvöld á Vesturlöndum grípi ekki til gagnaðgerða sem skaða þjóðarhag, trufli ekki samgöngur og aðra innviði kerfisins, heldur leyfi gangverki efnahagslífsins að hafa sinn gang. Slíkt sparar ómælda peninga og lýsir um leið frati á hryðjuverkamenn.

Sterkasta vopn Vesturlanda í vörninni gegn hryðjuverkum er traust gangverk efnahagslífsins og varfærni við að efla afskiptasemi Stóra bróður af lífi fólks.

Jónas Kristjánsson

DV

Vondur félagsskapur

Greinar

Ýmsir leiðtogar í Evrópu hafa beðið við símann síðan fulltrúar Bandaríkjanna sögðu þeim á fundi Atlantshafsbandalagsins fyrir viku, að þeir “mundu hringja, þegar þeir þyrftu aðstoð”. En Bandaríkin hafa bara alls ekki hringt, því að þau þurfa ekki evrópska aðstoð.

Bretar fá til málamynda að vera með í fyrirhuguðum átökum við fylgismenn Osama bin Ladens og talibana í Afganistan. Flestir aðrir eru fegnir. Frakkar naga hins vegar neglurnar, því að þeim er annt um að fá að vera með í fremstu víglínu, er í harðbakkann slær.

Bandaríkjastjórn hefur teflt skákina sem afleiðingu árásar á Bandaríkin, en ekki árásar á vestræn gildi í nútímanum. Hún hefur einangrað vandann við fylgismenn Osama bin Ladens, sem hún hyggst klófesta eða drepa, og talibana, sem hún hyggst reka frá völdum.

Til að ná markmiðunum eru Bandaríkin að byggja upp svæðisbandalag við nágrannaríki Afganistans, þar sem hún þarf aðstöðu til undirbúnings átökunum. Lykilríki í þessu svæðisbandalagi eru Pakistan, Úsbekistan og Sádi-Arabía, svarnir andstæðingar vestrænna gilda.

Fyrst ber frægast að telja Pakistan, sem ræktaði talibana í Afganistan fyrir bandaríska peninga til að siga þeim á sovézka hernámsliðið. Pakistan er núna undir stjórn herforingjans Musharrafs, sem skipulagði í hittifyrra glæfralega og misheppnaða innrás í Kasmír.

Musharraf þorir ekki annað en að hlýða Bandaríkjunum til að firra sig reiði þeirra. Auk þess hyggst hann nota bandalagið til að bæta stöðu sína til frekari hryðjuverka í Indlandi, svo sem fram kom á mánudaginn, þegar 38 manns voru drepnir í árás á þinghúsið í Kasmír.

Hryðjuverkið framdi hópurinn Jaish-e-Mohammed, sem kostaður er af ríkissjóði Pakistans. Af tillitssemi við Musharraf er hópurinn ekki á skrá Bandaríkjanna yfir hryðjuverkasamtök, þótt Indverjar hafi margsinnis bent á, að hann eigi að vera þar ofarlega á blaði.

Annar miður fýsilegur bandamaður Bandaríkjanna er Úsbekistan, þar sem harðstjórinn Karimov gengur lengst allra valdhafa arfaríkja Sovétríkjanna í stjórnarháttum, sem stríða gegn vestrænum gildum. Með trúarofsóknum gegn múslímum framleiðir hann hryðjuverkamenn.

Karimov gengur fagnandi til samstarfs við Bandaríkin, því að hann sér, að nú fær hann frið til að festa sig enn frekar í sessi með enn harðari ofsóknum gegn íbúum landsins. Hann sér fram á að þurfa ekki að sæta sömu örlögum og Slobodan Milosevic sætir nú í Haag.

Þriðji og hættulegasti bandamaður Bandaríkjanna er konungsætt Sádi-Arabíu, sem hefur leynt og ljóst framleitt hryðjuverkamenn í ofsatrúarskólum Wahhabíta og lætur peninga renna í stríðum í straumum til þeirra hryðjuverkamanna, sem mest og harðast hata vestrið.

Með hjálp bandamanna á borð við Pakistan, Úsbekistan og Sádi-Arabíu mun Bandaríkjunum takast að koma fram réttlátum hefndum á Osama bin Laden og talibönum. En menn mega alls ekki halda, að það verði í leiðinni neinn sigur fyrir vestræn gildi í heiminum.

Til marks um það má hafa, að Bandaríkjastjórn hefur beðið emírinn í Katar að láta ritskoða sjónvarpsstöðina al-Jazeera, sem er eini frjálsi fjölmiðillinn á Arabíuskaga og nýtur virðingar um allan heim fyrir harðsótta fréttaöflun, til dæmis af ýmsum óhæfuverkum talibana.

Stundarhagur er af bandalagi við hryðjuverkamenn gegn hryðjuverkamönnum, en að unnum sigri verður staða vestrænna gilda í heiminum lakari en áður.

Jónas Kristjánsson

DV

Tvöfalt siðgæði

Greinar

Með hjálp vesturveldanna gerðu Þjóðverjar hreint fyrir sínum dyrum eftir síðari heimsstyrjöldina, viðurkenndu hryðjuverk sín, greiddu skaðabætur og gerðu ýmsa aðra yfirbót, sem lauk með áhrifamiklum og einlægum hætti í stjórnartíð Willy Brandt kanslara.

Japanar hafa aldrei gert hreint fyrir sínum dyrum á þennan hátt, þrátt fyrir kröfur nágrannaþjóðanna, sem urðu fyrir barðinu á hryðjuverkum þeirra í stríðinu. Fyrir bragðið hefur Japan aldrei orðið fullgildur félagi í vestrænu þjóðfélagi eins og Þýzkaland hefur orðið.

Yfirleitt gleymist, að fleiri en hinir sigruðu frömdu hryðjuverk í stríðinu. Stærstu hryðjuverk mannkynssögunnar, reiknuð á tímaeiningu, voru framin, þegar Bandaríkin vörpuðu kjarnorkusprengjum á óbreytta borgara í Hiroshima og Nagasaki undir lok styrjaldarinnar.

Bandamenn frömdu hryðjuverk á óbreyttum borgurum fjarri víglínunni, þegar þeir sprengdu Dresden, sem var ekki hernaðarlega mikilvæg borg, og frömdu ýmsar aðrar loftárásir, sem eingöngu var beint gegn óbreyttum borgurum, einkum börnum, konum og gamalmennum.

Í krafti sigursins hafa bandamenn aldrei gert hreint fyrir sínum dyrum að hætti Þjóðverja. Þótt rúmlega hálf öld sé liðin frá þessum skelfilegu atburðum, er samt sanngjarnt, að þeir verði teknir fyrir og afgreiddir með formlegum hætti hjá Alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum.

Vesturveldin þurfa á þessu að halda, því að dómstóllinn er alþjóðleg staðfesting almenns gildis mannasiða, sem teknir hafa verið upp á Vesturlöndum á síðustu hálfri öld. Vesturlönd þurfa að gera upp skugga fortíðarinnar til að geta dæmt aðra fyrir hryðjuverk þeirra í nútímanum.

Siðferði baráttunnar gegn stríðsglæpum og öðrum hryðjuverkum má ekki verða tvöfalt. Annars öðlast baráttan ekkert innra gildi. Eitt verður yfir alla að ganga, þar á meðal Vesturlönd og ekki sízt Bandaríkin, sem hafa raunar hafnað Alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum.

Þessi almenni dómstóll Sameinuðu þjóðanna er eðlilegt framhald sértækra stríðsglæpadómstóla, sem komið hefur verið á fót í kjölfar hryðjuverka í Rúanda í Afríku og á Balkanskaga í Evrópu og munu væntanlega ná lögum yfir ýmsa af ógeðfelldustu illmennum nútímans.

Því miður hafa Bandaríkin kosið að taka ýmsar hryðjuverkastjórnir inn í bandalag sitt gegn Osama bin Laden. Má þar nefna fyrrverandi Sovétlýðveldi norðan við Afganistan, einkum Uzbekistan, þar sem Karimov er við völd, einn verstu hryðjuverkamanna nútímans.

Í þessu óhreina bandalagi eru hryðjuverkastjórnir Rússlands og Kína, svo og Sádi-Arabíu og Ísraels. Bandalagið við Sádi-Arabíu er athyglisvert fyrir þá sök, að það ríki stofnaði og kostar ofsatrúarskólana, sem ólu upp hryðjuverkamenn Osama bin Ladens og aðra slíka.

Rétt er líka að minnast þess, að sjálfir talibanar eru skrímsli, sem Bandaríkin og Pakistan ræktuðu sameiginlega til að losna við Rússa frá Afganistan á sínum tíma, en misstu síðan tök á, svo sem títt er um slík skrímsli. En ríki verða að bera ábyrgð á skrímslum sínum.

Eðlilegt er, að öll þau ríki, sem hér hafa verið nefnd, svari fyrr eða síðar til saka hjá Alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum fyrir hryðjuverk sín, bæði verk, sem þau fremja sjálf; verk, sem þau borga öðrum fyrir að fremja; og verk, sem þau hvetja aðra til að fremja.

Mannkynið í heild mun af einlægni styðja baráttuna gegn hryðjuverkum, ef hafnað verður tvöföldu siðgæði og eitt látið yfir alla hryðjuverkamenn ganga.

Jónas Kristjánsson

DV

Mín og þín hryðjuverk

Greinar

Bandaríkin eru með hjálp Evrópu og fjölda annarra ríkja að leita uppi hryðjuverkamenn, sem skipulögðu árásina á Bandaríkin 11. september, svo og stjórnvöld, sem veittu þeim skjól og veita enn. Eðlilegt er, að allir þessir aðilar hljóti fyrr eða síðar makleg málagjöld.

Jafnframt þurfa Vesturlönd út af fyrir sig að hefja skipulegar aðgerðir til að hindra frekari hryðjuverk, sem beinast sérstaklega að Vesturlöndum sem slíkum. Það er afmarkað vandamál, sem verður ekki höndlað skynsamlega, nema menn átti sig á einföldum rótum þess.

Hryðjuverk gegn Vesturlöndum eru fyrst og fremst framin af rugluðum ofsatrúarmönnum af sértrú Wahhabíta, sem hafa gengið í trúarofstækisskóla, kostaða af konungsættinni í Sádi-Arabíu, þar sem virkjuð er almenn gremja vegna stuðnings Bandaríkjanna við Ísrael.

Vesturlöndum ber öryggishagsmuna sinna vegna að hefja aðgerðir gegn heiftarhættu, sem á rætur sínar í framgöngu ríkisvaldsins í Sádi-Arabíu og Ísrael. Þar fyrir utan er skynsamlegt fyrir Vesturlönd að stuðla að almennu viðnámi gegn hryðjuverkum yfirleitt.

Þegar út í þá sálma er komið, er nauðsynlegt að átta sig á, að mestur hluti hryðjuverka í heiminum er ekki framinn af einstaklingum eða hópum einstaklinga, heldur af ríkisstjórnum og umboðsmönnum þeirra í her og lögreglu. Það eru hin dæmigerðu hryðjuverk nútímans.

Í þessum hópi eru harðstjórnir tindáta víðs vegar um þriðja heiminn, svo og ríki á borð við Rússland og Kína, sem vilja nota bandalagið gegn Osama bin Laden til að fá betri frið til að stunda hryðjuverk á hernumdum svæðum, svo sem í Tsjestjeníu, Tíbet og Sinkíang.

Ekki má heldur gleyma, að mikið af hryðjuverkum nútímans er framið með jarðsprengjum, sem hafa þá eiginleika, að hermenn kunna að vara sig á þeim, en börn og gamalmenni alls ekki. Daglega deyja börn og enn fleiri börn verða örkumla af völdum þessa hræðilega vopns.

Bandaríkjastjórn hefur neitað að skrifa undir fjölþjóðasáttmála á vegum Sameinuðu þjóðanna um bann við sölu og notkun jarðsprengja, rétt eins og hún er að undirbúa afturhvarf frá fjölþjóðasáttmála á vegum Sameinuðu þjóðanna um bann við tilraunum með sýklavopn.

Árás hryðjuverkamanna á World Trade Center og Pentagon ætti að hafa vakið Bandaríkjastjórn til meðvitundar um, að það er í þágu Bandaríkjanna eins og afgangsins af mannkyninu, að fjölþjóðlegu sáttmálarnir um jarðsprengjur og sýklavopn nái fram að ganga nú þegar.

Hún ætti líka að hafa vakið Bandaríkjastjórn til meðvitundar um, að fjölþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn, sem hefur að tilhlutan Evrópu, en gegn andstöðu Bandaríkjanna, verið komið upp á vegum Sameinuðu þjóðanna, hentar Bandaríkjamönnum ekki síður en öðrum þjóðum.

Það er nefnilega komið í eindaga hjá Bandaríkjunum að láta af siðlausri andstöðu sinni við fjölþjóðlegt samstarf um ýmis almenn öryggismál mannkyns, svo sem um ofangreinda fjölþjóðasamninga og um verndun lofthjúps jarðar, sem almennt samkomulag er um í heiminum.

Ríki, sem er í innilegu bandalagi við hryðjuverkaríki á borð við Sádi-Arabíu og Ísrael, í hagsmunabandalagi við hryðjuverkaríki á borð við Rússland og Kína og neitar að taka þátt í fjölþjóðasáttmálum um ýmis atriði, sem varða öryggi mannkyns, hefur tapað áttum í tilverunni.

Bandaríkjamenn þurfa almennt að spyrja sig, hvar enda hin vondu og skelfilegu hryðjuverk allra hinna og hvar byrja mín eigin góðu og nauðsynlegu hryðjuverk.

Jónas Kristjánsson

DV

Tveir eitraðir vinir

Greinar

Sértrúarflokkur Wahhabíta er nánast einráður í hópi þeirra hryðjuverkamanna, sem beina spjótum sínum að Bandaríkjunum. Þessi þrönga og ofsafengna sértrú af meiði Íslams ræður ríkjum á Arabíuskaga, bæði í Sádi-Arabíu og Sameinuðu furstadæmunum.

Osama bin Laden er Wahhabíti frá Sádi-Arabíu og sama er að segja um allan þorra 200 manna nánustu hirðar hans í Afganistan. Sveitir hans fyllast af ungum mönnum, sem hafa lært í trúarskólum, er konungsættin í Sádi-Arabíu hefur komið á fót víðs vegar um heim múslima.

Í þessum sértrúarskólum Wahhabíta er ungum og óhörðnuðum mönnum kennt að hata efnishyggju Vesturlanda skefjalaust. Úr þessum skólum kemur endalaust hráefni í sjálfsmorðsveitir á borð við þær, sem réðust á World Trade Center og Pentagon 11. september.

Konungsættin í Sádi-Arabíu er ein helzta rótin að hryðjuverkum ofsafenginna múslima á Vesturlöndum. Hún rekur eitt afturhaldsamasta ríki heims á grundvelli sértrúar sinnar og notar hluta olíuauðsins til að breiða út sértrú Wahhabíta, sem ræktar hryðjuverkamenn.

Vesturlönd og einkum þó Bandaríkin hafa eigi að síður stutt konungsætt Sádi-Arabíu, af því að hún ræður yfir umtalsverðum hluta af olíubirgðum heimsins. Ættin segist raunar vera vinur Vesturlanda og studdi þau í stríði þeirra við keppinauta sína í Bagdað í Írak.

Ef væntanlegar aðgerðir Bandaríkjanna gegn hryðjuverkamönnum eiga að ná árangri, hljóta þær að beinast gegn konungsætt Sádi-Arabíu. Í skjóli herveldis síns geta Bandaríkin krafizt þess, að ættin láti samstundis af stuðningi sínum við undirróður gegn Vesturlöndum.

Hin helzta rótin að hryðjuverkum ofsafenginna múslima á Vesturlöndum er langvinn reiði almennra múslima í garð Bandaríkjanna vegna hins skefjalausa stuðnings þeirra við Ísraelsríki, þrátt fyrir sífelld hryðjuverk þess í garð hernuminna Palestínumanna.

Ef hryðjuverk eru mæld í mannslífum, er Ísraelsríki sex sinnum athafnameira á því sviði en samanlagðir Palestínumenn. Bandaríkin líta nánast alveg framhjá þessu misvægi, þótt hryðjuverk Ísraels séu greinileg og óumdeilanleg brot á fjölþjóðasamningum.

Bandaríkin og raunar Vesturlönd í heild eru réttilega sökuð um tvöfalt siðgæði í viðbrögðum við gegndarlausum yfirgangi Ísraels í hernuminni Palestínu. Þetta sárnar múslimum um allan heim og skapar jarðveg fyrir ofsatrúarskóla konungsættarinnar í Sádi-Arabíu.

Ef væntanlegar aðgerðir Bandaríkjanna gegn hryðjuverkamönnum eiga að ná árangri, hljóta þær að beinast gegn Ísraelsríki. Í krafti árlegs milljarðastuðnings síns geta Bandaríkin krafizt þess, að Ísrael láti samstundis af landnámi í Palestínu og samþykki eftirlitssveitir.

Orsakir hryðjuverkaöldunnar eru fleiri en Sádi-Arabía og Ísrael, en ekki eins áþreifanlegar og viðráðanlegar. Það er til dæmis athyglisvert, að nánast öll ríki múslima eru spillt lögregluríki, sem ekki veita íbúum sínum sömu framfarir og ríki Vesturlanda veita borgurum sínum.

En Sádi-Arabía og Ísrael skera í augu, þegar leitað er viðráðanlegra orsaka hryðuverka Osama Bin Laden og annarra af hans sauðahúsi. Því er athyglisvert, að þessi tvö ríki skuli einmitt vera talin í stuðningshópnum við baráttu Bandaríkjanna gegn hryðjuverkum.

Bandaríkin þurfa enga óvini, ef þau hafa ríki á borð við Sádi-Arabíu og Ísrael að vinum. Þar hafa Bandaríkin trygga uppsprettu ógna við öryggi sitt, tvo eitraða vini.

Jónas Kristjánsson

DV

Æðruleysis er þörf

Greinar

Árásin á World Trade Center í fyrradag var árás á vestræna samfélagsgerð. Hún markar tímamót í samtímasögunni, af því að hún flutti óttann og öryggisleysið aftur til Vesturlanda eftir hálfrar aldar friðar- og blómaskeið. Ógnir stríðsins eru aftur komnar til iðnríkjanna.

Frelsið sjálft beið hnekki í árásinni. Vestræn stjórnvöld kunna núna að freistast til að hefta einmitt það, sem greinir Vesturlönd frá gróðrarstíum hryðjuverkahópa. Eftirlit með samskiptum og hreyfingum fólks verður aukið. Um leið aukast óþægindi venjulegra borgara.

Þetta er sérstakt áfall fyrir Bandaríkjamenn, sem hafa alltaf lagt manna mesta áherzlu á frelsi fólks fyrir afskiptum ríkisvaldsins. Nú verða menn að sæta auknu eftirliti opinberra aðila, því að óvinurinn leynist í fjöldanum. Stóri bróðir mun hafa auknar gætur á þér.

Staðfest hefur verið, að ógnin mun ekki koma í eldflaug frá Afganistan. Ráðagerðir um stjörnustríð og regnhlíf yfir Bandaríkjunum hafa allt í einu reynzt vera heimskra manna ráð. Ógnin reyndist koma að innan, í flugvélum, sem tóku sig á loft frá bandarískum flugvöllum

Næst birtist ógnin í skjalatösku, sem vel klæddur maður setur við burðarsúlu í skýjakljúfi. Ef bandaríska þjóðfélagið hyggst bregðast við slíkri ógnun með öllum tiltækum ráðum, verður lífsstíll bandarískra borgara allur annar og lakari en hann hefur verið undanfarna áratugi.

Vesturlönd verða að reyna að verja líf og limi borgaranna. En þau verða líka að reyna að verja vestræna samfélagsmynztrið, sem gerir lífið eftirsóknarvert. Þess vegna verða innri varnir gegn hryðjuverkum framtíðarinnar ekki hámarkaðar, heldur fara bil beggja í umfangi.

Heimsmyndin hefur skyndilega breytzt. Yfirburðir Vesturlanda og einkum Bandaríkjanna hafa minnkað. Völdin í heiminum felast ekki lengur í að geta sent skæðadrífu eldflauga yfir heimshöfin til að refsa róttækum andstæðingum vestrænnar hugmyndafræði.

Svo mikil voru völd Vesturlanda orðin fyrir skömmu, að þau háðu stríð í Kosovo án þess að koma nærri vígvellinum og án þess að fórna eigin mannslífum. Nú hefur dæmið snúizt þannig, að nútímastríðið er komið heim til Vesturlanda sjálfra, einkum til Bandaríkjanna.

Enginn er óhultur í stríði nútímans. Menn geta ekki einskorðað sig við að láta sérfræðinga við tölvur heyja stríð í fjarlægð. Stríðið er komið heim í garð til þeirra, sem áður töldu sig óhulta í skjóli efnahagslegra og hernaðarlegra yfirburða vestræns samfélags.

Í fyrstu mun breytingin valda víðtækri vanstillingu fólks, sem fær útrás í kröfum um blóðugar refsiaðgerðir gegn blórabögglum, sem verða fundnir upp, ef raunverulegir sökudólgar finnast ekki í tæka tíð. Síðan munu viðhorf almennings hneigjast fremur til æðruleysis.

Fólk mun skilja betur en áður, að lífið er hættulegt og tilviljanakennt. Fólk getur farizt, ef einhver annar sofnar undir stýri á bíl, sem kemur úr gagnstæðri átt. Á sama hátt getur fólk farizt, ef það er statt í flugvél eða skýjakljúfi, sem lenda í atburðarás hryðjuverka.

Í öllum tilvikum eru tölfræðilega hverfandi líkur á, að menn verði fórnardýr hinnar nýju tegundar nútímastríðs. Forlögin hljóta að ráða, hvort þú vinnur í happdrætti eða verður fyrir bíl. Á sama hátt hljóta þau að að ráða, hver verður fórnardýr hryðjuverka og hverjir sleppa.

Ærðuleysi er dyggð, sem vestrænt samfélag verður að tileinka sér í auknum mæli til að svara breyttri heimsmynd með óskertu samfélagsmynztri Vesturlanda.

Jónas Kristjánsson

DV

Allt var það satt og rétt

Greinar

Magnaður hlýtur sá texti að vera, sem knýr Bandaríkin og Ísrael til að hverfa af ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um kynþáttamisrétti og fær ríki Evrópusambandsins til að hóta að gera slíkt hið sama, ef ekki verði mildaður. Önnur saga er svo af réttmæti hins magnaða texta.

Á Vesturlöndum hefur Ísrael einkum verið sakað um brot á fjölþjóðasáttmálum um framkvæmd styrjalda og meðferð fólks á hernumdum svæðum. Slík brot eru áþreifanleg og nægja til að setja Ísrael á aðra skör en Vesturlönd, en tæpast lægri en ýmis þriðja heims ríki.

Ný vídd kemst í umræðuna um Ísrael, er það er sakað um nýlendustefnu, aðskilnaðarstefnu og kynþáttastefnu; þegar ráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna fer næstum út um þúfur, af því að fulltrúar Vesturlanda telja ekki við hæfi að gera Ísrael að blóraböggli á þeim sviðum.

Við nánari athugun kemur þó í ljós, að efnislega er margt réttmætt í ásökunum um nýlendustefnu, aðskilnaðarstefnu og kynþáttastefnu Ísraels. Tökum fyrst nýlendustefnuna, eins og hún lýsir sér í landnámi ísraelskra borgara á hernumdum svæðum í Palestínu.

Þótt þessar byggðir landnema séu einn helzti þröskuldurinn í vegi friðarsamninga milli Ísraels og Palestínu, er sífellt haldið áfram að stofna til þeirra, hvaða stjórnmálaflokkar sem eru við völd í Ísrael. Land er tekið frá Palestínumönnum með valdi og afhent Ísraelsmönnum.

Þótt slíkt landnám hafi fyrr á öldum verið talið sjálfsagt á Vesturlöndum, þegar siðferði var á lægra stigi en það er nú, var nýlendustefna að mestu aflögð í heiminum á síðustu áratugum. Nú er Ísrael versta dæmið um stefnu, sem samkvæmt fjölþjóðasamþykktum er ólögleg.

Aðskilnaðarstefna er orð, sem áður var einkum notað um stefnu stjórnvalda í suðurríkjum Bandaríkjanna á fyrri hluta síðustu aldar og stjórnar hvítra manna í Suður-Afríku á síðari hlut aldarinnar. Orðið vísar til kerfisbundins aðskilnaðar og mismununar borgaranna.

Slík aðskilnaðarstefna hefur myndazt í Ísrael eftir trúarbrögðum. Svæði ríkistrúarfólks fá betri þjónustu ríkis og sveitarfélaga en svæði hinna, sem játa önnur trúarbrögð, einkum áhangenda Íslams. Ísrael er smám saman að breytast í ofsatrúarríki með aðskilnaðarstefnu.

Kynþáttastefna er mikil og vaxandi í Ísrael. Þeir, sem heimsækja landið, komast tæpast hjá að sjá, að mikill hluti almennra Ísraelsmanna lítur niður á Palestínumenn sem annars flokks og ómennskt fólk. Þessi kynþáttastefna er studd af stefnu og aðgerðum stjórnvalda Ísraels.

Ísraelsmönnum finnst ekki tiltökumál, að Palestínumenn séu drepnir og telja það nánast eðlilega afleiðingu þess, að nýlenduríkið fái ekki athafnafrið á hernumdum svæðum. Sé einn Ísraelsmaður hins vegar drepinn, kallar það að mati þjóðarinnar á margfaldar hefndaraðgerðir.

Venja er að kalla þessi viðhorf kynþáttahatur, þótt erfitt sé að skilgreina, hvað séu kynþættir, síðan fræðimenn komust að raun um, að líkamlega er meiri munur innan hópa en milli hópa. Skilgreining kynþáttahaturs hefur breytzt og nær greinilega til Ísraelsmanna.

Ísrael er ríki, land og þjóð stríðsglæpa og glæpa gegn fólki á hernumdum svæðum. Það er ríki nýlendustefnu, aðskilnaðarstefnu og kynþáttahaturs, sem beinist einkum gegn fólki utan trúarbragða ríkisins. Magnaða orðalagið um Ísrael á ráðstefnunni var efnislega satt og rétt.

Hitt er svo flóknara, hvort skynsamlegt sé að setja Ísrael í gapastokkinn fyrir atferli, sem tíðkast víðar. Niðurstaðan varð því sú, að sannleikanum var kippt út.

Jónas Kristjánsson

DV

Palli er einn í heiminum

Greinar

Bandaríkin hafa siglt hraðbyri frá Evrópu á því hálfa ári, sem liðið er frá valdatöku George W. Bush forseta. Stjórn hans fer í vaxandi mæli fram eins og Palli, sem var einn í heiminum. Hún hefur þegar hafnað sex fjölþjóðasamningum, sem Evrópa styður eindregið.

Ráðamenn í Evrópu kvarta um, að samráð af hálfu Bandaríkjanna hafi lagzt niður við valdatöku Bush. Hann tilkynni einhliða, hvað hann hyggist gera og leyfi aðstoðarmönnum sínum að fara opinberlega háðulegum orðum um sjónarmið, sem fulltrúar Evrópu halda á lofti.

Bandaríkin vilja ekki stríðsglæpadómstól, af því að hann kynni að ákæra bandaríska ríkisborgara. Þau vilja ekki aðgerðir gegn loftmengun, af því að þær skerða svigrúm bandarískra olíufélaga. Þau vilja ekki bann við jarðsprengjum og eiturefnum vegna hagsmuna hersins.

Þetta er ekki gamla einangrunarstefnan, sem ríkti í Bandaríkjunum fram undir fyrri heimsstyrjöld og var síðan endurvakin eftir hana, er Bandaríkin vildu ekki taka þátt í Þjóðabandalaginu, sem þeirra eigin forseti hafði efnt til. Þetta er ný og einhliða heimsvaldastefna.

Bandarískir kjósendur hafa lítinn áhuga á kveinstöfum frá Evrópu. Hin nýja og einhliða heimsvaldastefna nýtur stuðnings heima fyrir, þótt menn skirrist enn við að taka orðið sér í munn. Bandaríkin telja sig einfaldlega vera himnaríki, sem sé hafið yfir fjölþjóðasamninga.

Hin nýja Bandaríkjastjórn styðst við gamlar upplýsingar um, að Evrópa sé lélegur bandamaður, af því að þar sé hver höndin upp á móti annarri, þegar til kastanna komi. Þetta er ekki lengur fyllilega rétt, því að Evrópa hefur fetað sig varlega í átt til aukinnar samræmingar.

Enn er Evrópa hernaðarlegur dvergur, sem getur ekki tekið til hendinni í eigin bakgarði á Balkanskaga án þess að hafa Bandaríkin með í spilinu. En það spillir líka metnaði og getu Bandaríkjanna sem heimsveldis að vilja alls ekki sjá blóð hermanna sinna í sjónvarpi.

Bandaríkin geta ekki stjórnað heiminum með ógnunum úr lofti. Þau verða að lokum að heyja styrjaldir sínar á jörðu niðri, þar sem blóð rennur óhjákvæmilega. Þau munu seint og um síðir átta sig á, að það kostar eigin mannslíf að reka heimsvaldastefnu forsetans.

Efnahagslega hafa Bandaríkin ekki forustu um þessar mundir, því að Evrópa er orðin stærri eining og vex örlitlu hraðar en Bandaríkin. Því væri skynsamlegt fyrir Bandaríkin að vera í góðu samstarfi við Evrópu og taka tillit til ýmissa sjónarmiða, sem þar ríkja.

Slíkt gerðu allir forsetar Bandaríkjanna á síðustu áratugum, þar á meðal faðir núverandi forseta. Nýja, einhliða heimsvaldastefnan í Bandaríkjunum er róttækt fráhvarf frá þeirri stefnu og virðist helzt hugsuð sem leið til að afla forsetanum vinsælda bandarískra sérstöðusinna.

Sennilegt er, að vikið verði frá þessari stefnu eftir fjögur ár, þegar nýr forseti tekur við. Ekki er víst, að samskipti Evrópu og Bandaríkjanna skaðist varanlega, þegar litið er til lengri tíma, til dæmis til áratugarins í heild. En skammtímaáhrifin eru óneitanlega óhagstæð.

Nýlegar skoðanakannanir um gervalla Evrópu sýna mikla og eindregna andstöðu evrópskra kjósenda við Bush Bandaríkjaforseta og mörg helztu stefnumið hans. Þær hvetja ráðamenn í Evrópu til að stinga við fótum og hindra framgang heimsvaldastefnunnar.

Meðan Palli er einn í heiminum á forsetastóli Bandaríkjanna verða erfið samskiptin yfir Atlantshafið, þar á meðal fyrir þjóðir, sem vanar eru að tvístíga.

Jónas Kristjánsson

DV