Nýjar dauðagildrur

Greinar

Í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur fyrir tímabilið 1996­2012 er kafli um stígakerfi borgarinnar, þar sem fjallað er um göngustíga, hjólastíga og reiðstíga. Í inngangi kaflans segir skýrum stöfum í forsendum, að leiðirnar skuli vera “öruggar og greiðfærar”.

Í undirkafla aðalskipulagsins um reiðleiðir í borgarlandinu segir ennfremur skýrum stöfum: “Innan byggðar og í næsta nágrenni er gert ráð fyrir sérstökum reiðgötum, sem eru aðskildar frá öðrum stígum. Þessir stígar eru malarlagðir og um 3­3,5 metra breiðir.”

Þessar forsendur eru ekki ástæðulausar. Hestar eru hvorki menn né vélar. Þeir geta orðið afar hræddir og hræddastir eru þeir við reiðhjól og skíði. Þegar þeir taka á rás, verða þeir að rúmlega 300 kílóa dreka, sem stöðvast ekki fyrr en heima í örygginu við hesthúsið sitt.

Þegar reiðhjól og hestur mætast í stígakerfinu, má búast við, að hesturinn taki á rás. Þá verður fyrst slysahætta á reiðmanninum, sem getur fallið af baki. Síðan verður slysahætta á leið hestsins heim, þegar hann getur hlaupið á gangandi fólk og hjólreiðamenn.

Reykjavíkurborg hefur þverbrotið aðalskipulagið í sumar og haust með því að leggja reiðhjólabrautir um athafnasvæði hestamanna á Víðivöllum, leggja þessar brautir samhliða reiðleiðum í undirgöngum og leggja þessar brautir síðan kruss og þvers yfir reiðleiðirnar.

Fram til síðasta hausts var greiður aðgangur hestamanna um reiðleiðir á Víðivöllum og upp úr byggðinni. Gerð voru undirgöng til að beina þessari umferð frá bílaumferðinni. Sæmileg sátt var um þetta ástand, sem Reykjavíkurborg hefur nú hleypt í bál og brand.

Hægur vandi var að leggja nýju hjólreiðabrautirnar utan við athafna- og tamningasvæði hestamanna á Víðivöllum, leggja þessar brautir í sérstök undirgöng og framlengja þær síðan upp úr byggðinni á öðrum stöðum en reiðstígarnir, sem fyrir voru á svæðinu.

Þegar framkvæmdir borgarinnar urðu sýnilegar síðla sumars, gekk maður undir manns hönd að reyna að hafa vit fyrir hönnuðum verksins, verkfræðingum og pólitískum yfirmönnum þeirra. Strax var eindregið varað við verkinu í fjölmiðlum, þar á meðal hér í blaðinu.

Skemmst er frá því að segja, að ekki hefur gengið að hafa vit fyrir þeim, sem hafa heimskuna og hrokann efst í farteskinu. Fremstur fer þar í flokki gatnamálastjóri borgarinnar, sem hirðir ekki einu sinni um að mæta á fundi, er hann boðar sjálfur á skrifstofu sinni.

Í aðvörunum fjölmiðla var þegar í upphafi bent á mikla slysahættu, sem fylgir augljósum brotum Reykjavíkurborgar á eigin aðalskipulagi. Þá þegar var augljóst, að margir mundu minnast embættismanna og stjórnmálamanna borgarinnar, þegar slysin hæfust.

Slysin byrja væntanlega ekki fyrr en í vor. Þá fyrst verða hönnuðir verksins og verkfræðingar, gatnamálastjóri og skipulagsnefnd að svara til saka fyrir brot sín á aðalskipulagi borgarinnar. Þá munu pólitískir ráðamenn borgarinnar taka út þjáninguna fyrir mistökin.

Enginn utanaðkomandi aðili, sem hefir skoðað verkið, sér neitt vit í því. Reiðhjólabrautirnar upp úr Elliðaárdal eru samfelld endaleysa frá a til ö. Samt er tregðan í borgarkerfinu svo stjórnlaus, að heita má, að pólitískir yfirmenn skipulagsins séu meðvitundarlausir með öllu.

Þessi brot á aðalskipulagi Reykjavíkur gefa skýra mynd af stöðnuðu borgarkerfi, þar sem ferðinni ræður vanhæft fólk, sem gæti ekki unnið fyrir sér úti í lífinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Njet í Nató

Greinar

Róttækar hugmyndir ráðamanna Atlantshafsbandalagsins um að veita arftaka Sovétríkjanna aukinn aðgang að ákvörðunum bandalagsins og neitunarvald á sumum sviðum eru ekki traustvekjandi. Þær endurvekja efasemdir um, að allt sé með felldu í þessu aldna bandalagi.

Atlantshafsbandalagið var stofnað fyrir rúmlega hálfri öld til að hamla gegn útþensluvilja Sovétríkjanna og tilraunum þeirra til að afla sér neitunarvalds um málefni ríkja vestan járntjaldsins. Þetta tókst, því að Sovétríkin hrundu um síðir og leifarnar urðu að Rússlandi.

Nú á að færa Rússlandi neitunarvald á silfurbakka, af því að ráðamenn Vesturlanda hafa skyndilega uppgötvað, að varnir gegn hryðjuverkamönnum hins íslamska menningarheims séu kjörið verkefni til að lífga við afskekkt bandalag, sem hefur lokið ævistarfi sínu.

Atlantshafsbandalagið er orðið afskekkt í heiminum. Bandaríkjastjórn hleypir hvorki því né ríkjum þess að hernaðarlegum ákvörðunum í Afganistan. Bretar reyndu að senda hundrað hermenn þangað, en þeir kúra þar einangraðir, umkringdir Norðurbandalaginu.

Af slíkum ástæðum hafa evrópskir ráðamenn margir hverjir tekið vel í hugmyndir Bandaríkjanna og Bretlands um aukinn aðgang Rússlands að ákvörðunum Atlantshafsbandalagsins. Þeir telja sig þannig geta virkjað Bandaríkin betur til gagnvirkra samráða í hernaðarefnum.

Þessir ráðamenn, þar á meðal Íslands, misskilja heimssýn bandarískra stjórnvalda. Þau vilja gjarna hafa svæðisbundin bandalög á borð við Nató sem eins konar leppa í hverjum heimshluta fyrir sig, en taka þar fyrir utan ekkert hernaðarlegt mark á bandamönnum sínum.

Bandaríkin geta notað Atlantshafsbandalagið til að halda niðri ófriði á Balkanskaga, af því að hann er í Evrópu. Þau nota á sama hátt annars konar bandalag við Pakistan, Úsbekistan og Norðurbandalagið í Afganistan til að ná sér niðri á Osama bin Laden og Talibönum.

Flest grófustu hryðjuverkaríki heimsins hafa séð sér hag í að flaðra upp um Bandaríkin í kjölfar árásarinnar á World Trade Center og Pentagon. Þau vilja fá vestrænan gæðastimpil á ofsóknir sínar gegn minnihlutahópum í landinu. Rússland er bezta dæmið um þetta.

Þar búa tugir minnihlutaþjóða, sem eru meira eða minna kúgaðar, þar á meðal Tsjetsjenar. Slíkar þjóðir nota rétt hinna kúguðu til andófs og eru þá uppnefndar sem hryðjuverkamenn. Rússland vill, að Vesturlönd hætti að amast við ofbeldi gegn slíkum þjóðum.

Þegar vestrænir ráðamenn ráðslaga um aðgerðir gegn hryðjuverkum, er ekki skortur sjálfboðaliða af hálfu ríkja, sem stunda ríkisrekin hryðjuverk gegn fólki, svo sem Rússlandi og Kína, Ísrael og Írak, Pakistan og Úsbekistan. Við skulum draga einlægni slíkra ríkja í efa.

Í Atlantshafsbandalaginu skilja menn ekki, að heimsmyndin hefur breytzt. Bandaríkin þurfa ekki lengur á Evrópu að halda til að hamla gegn Sovétríkjunum, sem eru ekki lengur til. Bandaríkin eru ein eftir sem heimsveldi og spyrja hvorki kóng né prest um neitt.

Aðkoma Rússlands að Atlantshafsbandalaginu bætir þessa stöðu ekki. Hún breytir því ekki, að bandalagið hefur breytzt úr mikilvægum bandamanni í lítilvægan lepp, sem hefur eigrað um á barmi atvinnuleysis, síðan stóri óvinurinn í austri hrundi inn í sjálfan sig.

Þegar mál eru komin í þá stöðu að arftaki óvinarins er farinn að segja “njet” í málefnum Vestur-Evrópu, er kominn tími til að segja pass og leggja Nató niður.

Jónas Kristjánsson

DV

Fyrsta stríð nýrrar aldar

Greinar

Norðurbandalagið í Afganistan hefur reynzt Bandaríkjunum erfiður bandamaður í hefndarstríði þeirra gegn talibönum og liði Osama bin Ladens. Það neitar að láta segja sér fyrir verkum og reynir að hefta svigrúm vestrænna hermanna, sem komnir eru til landsins.

Í Afganistan hefur ógnaröld fylgt landvinningum Norðurbandalagsins í kjölfar loftárása Bandaríkjanna, svo sem búizt hafði verið við. Það voru einmitt hryðjuverk þess, sem ollu því, að landsmenn urðu fegnir, þegar talibanar hrifsuðu til sín völdin í landinu á sínum tíma.

Ferlið í Afganistan sýnir mátt og máttleysi bandarískra yfirburða í hernaði. Engin ríki hafa neitt, sem nálgast bandaríska tækni við loftárásir. Það hafði raunar áður komið í ljós í átökum á Balkanskaga, að Evrópa hefur varanlega helzt úr lest framfara í lofthernaði.

Á móti þessu kemur, að Bandaríkin vilja ekki fyrir nokkurn mun lenda í návígi við andstæðinga sína. Þau vilja vera skýjum ofar og láta bandamenn hvers tíma um átök á landi niðri. Þetta kom greinilega fram á Balkanskaga og hefur verið staðfest í Afganistan.

Þetta takmarkar áhrif Bandaríkjanna. Bandamenn á jörðu niðri hafa sínar eigin forsendur, sem þurfa ekki að fara saman við bandarískar forsendur. Þess vegna réð Evrópa miklu í Balkanstríðunum og þess vegna hefur Norðurbandalagið ráðið miklu í núverandi stríði.

Stríð Bandaríkjanna í Afganistan er fyrst og fremst hefnd, sem Osama bin Laden og talibanar eiga skilið. Það er engin frelsun þjóðar úr ánauð hryðjuverkamanna, bara alþekkt skipti á harðstjórum. Í stað trúarofstækismanna suðursins koma eiturlyfjabarónar norðursins.

Stríð Bandaríkjanna í Afganistan er ekki heldur nein marktæk aðgerð gegn hryðjuverkum í heiminum. Það er einmitt eðli hinna valddreifðu samtaka, sem Osama bin Laden hefur ræktað, að þau þrífast um allan heim, hvort sem þau eiga áfram griðastað í Afganistan eða ekki.

Raunar hefur stríðið magnað hryðjuverk í heiminum. Glæpastjórnir heimsins hafa notað tækifærið til að efla kúgun minnihlutahópa undir því yfirskini, að þau séu að taka þátt í stríðinu gegn hryðjuverkum. Þannig hefur Kínastjórn magnað ofbeldið í Tíbet og Sinkíang.

Mannréttindi eru helzta fórnardýr framvindunnar. Í Bandaríkjunum og Bretlandi er verið að setja lög, sem takmarka borgaraleg réttindi. Fyrrum forusturíki mannréttinda munu hér eftir ekki standast samjöfnuð við Evrópu, sem nýlega hefur sett sér mannréttindasáttmála.

Þegar sigri verður fagnað yfir Osama bin Laden og talibönum, þurfum við í leiðinni að átta okkur á takmörkum sigursins. Hann mun ekki hindra frekari hryðjuverk, hvorki á Vesturlöndum né í þriðja heiminum, og hann mun síður en svo færa okkur nær betri heimi.

Stríðið í Afganistan er fyrsta stríð nýrrar aldar. Hátæknivætt herveldi reynir með loftárásum að fjarstýra stríði milli hryðjuverkahópa í þriðja heiminum. Önnur atrenna af slíku tagi kann að verða reynd fyrr en varir í nágrannaríkinu Írak, ef sæmilega gengur í Afganistan.

Sérstaða Bandaríkjanna og einstefna í alþjóðamálum hefur magnazt að undanförnu. Óhjákvæmilegt er, að sú framvinda leiði til árekstra innan hins vestræna heims, því að önnur sjónarmið ríkja á meginlandi Evrópu, þar sem mikil áherzla er lögð á fjölþjóðlegt samstarf.

Þegar upp verður staðið, mun stríðið í Afganistan ekki reynast hafa þjappað Vesturlöndum saman, heldur opnað rifur, sem síðar verður erfitt að rimpa saman.

Jónas Kristjánsson

DV

Hrunadansinn stiginn

Greinar

Flest bendir til, að íslenzka krónan hafi ekki fundið botninn, þótt hún hafi fallið í ár um meira en fimmtung gagnvart gjaldmiðlum helztu viðskiptalandanna og um meira en fjórðung gagnvart dollar. Fall gjaldmiðilsins hefur raunar orðið hraðara í vetur en það var í sumar.
Verðbólga er fjórum sinnum meiri hér á landi en í viðskiptalöndum okkar. Undanfarið ár hefur hún verið rúmlega tveir af hundraði á Evrópska efnahagssvæðinu, en rúmlega átta af hundraði hér á landi. Gengisfallið og verðbólgan segir okkur, að við höfum misst tökin.
Efnahags- og framfarastofnun Evrópu segir í nýrri skýrslu um Ísland, að þessi vandræði séu heimatilbúin. Hún bendir á, að viðskiptahalli Íslands hafi verið tíu af hundraði í fyrra og átta af hundraði í ár. Í varfærnum orðum lýsir stofnunin ríki, sem stígur hrunadans.
Ríkisstjórnin og Seðlabankinn eiga þátt í vandanum. Seðlabankinn hélt of lengi uppi röngu fastgengi krónunnar fram á vorið og eyddi síðan gjaldeyri í misheppnaðar tilraunir í haust til að halda genginu uppi, þegar það hafði verið gefið frjálst og raunveruleikinn komið í ljós.
Engin fjármálastjórn er hjá ríkisstjórninni og hefur lengi engin verið. Fjármálaráðuneytið hefur að vísu takmörkuð tæki til að hamla gegn hrunadansi þjóðfélagsins, en hefur ekki notað nein þeirra. Í stórum dráttum má segja, að ráðuneytið sé einhvers staðar í felum.
Þjóðin hefur hvorki getað notfært sér hátt og stöðugt verðlag á sjávarafurðum í viðskiptalöndum okkar né hríðlækkandi verð á olíu og bensíni á heimsmarkaði til að færa sig nær því marki að lifa ekki um efni fram. Við erum í vandræðum, þótt ytri skilyrði séu hagstæð.
Almenn niðurstaða ferils fjármála á síðustu mánuðum er almenn svartsýni á framhaldið, almennt vantraust á gengi krónunnar og almennt vantraust á verði innanlands. Menn eru aftur farnir að spá í verðbólguna eins og fyrir einum mannsaldri. Braskið blómstrar að nýju.
Engin merki eru um, að landsfeður eða þjóð átti sig á stöðunni og ætli að læra af reynslunni. Við rekum enn þjóðfélag við litla framleiðni, þar sem stórfyrirtæki leysa vandræði sín með samkomulagi um hátt verðlag í stað þess að hafa fyrir því að hagræða í rekstrinum.
Efnahagsleg áhugamál landsfeðranna snúast einkum um fyrsta og annars stigs frumframleiðslu á borð við landbúnað, sjávarútveg og stóriðju. Slíkar greinar soga til sín fjármagn og munu gera það með vaxandi þunga, þegar farið verður að reyna að fjármagna Reyðarál innanlands.
Ríkisstjórnin er gersamlega ófáanleg til að ræða grundvallaratriði í efnahags- og fjármálum á borð við aðild að Evrópusambandinu og notkun erlendra gjaldmiðla á borð við evruna í viðskiptum innanlands. Með háum tollum hamlar hún líka gegn innflutningi ódýrra matvæla.
Við viljum vera svo rosalega sjálfstæð þjóð, að við þurfum séríslenzka verðbólgu, sem er margföld verðbólga annarra, að við þurfum séríslenzkar gengislækkanir, sem eru margfaldar lækkanir annarra, að við þurfum séríslenzkan viðskiptahalla, sem er margfaldur halli annarra.
Verst er, að ríkisstjórnin nýtur stuðnings þjóðarinnar við að stinga höfðinu í sandinn. Þjóðin vill ekki horfast í augu við raunveruleikann. Hún vill eyða um efni fram. Hún vill halda áfram að stíga hrunadansinn, af því að hún ímyndar sér, að kirkjan muni aldrei sökkva.
Hirðirinn og sauðirnir eru sammála um, að aðalatriðið sé að ferðast á fyrsta farrými. Hitt skipti minna máli, hvert ferðinni er heitið, hvort það er norður og niður.
Jónas Kristjánsson

DV

Gatasigti kvótakerfis

Greinar

Ekkert kerfi er betra en götin á því. Þveröfugt við það, sem sjávarútvegsráðherra heldur fram, er ekki hægt að skilja milli fiskveiðikerfisins annars vegar og hins vegar lögbrotanna, sem framin eru í götunum á því. Segja má, að þetta skömmtunarkerfi sé samfellt gatasigti.

Þótt nýleg og fræg sjónvarpsmynd af brottkasti hafi verið sviðsett, leikur enginn vafi á mikilli útbreiðslu þess. Alvarlegt er, að sjómenn skuli almennt vera svona glæpahneigðir, en ekki er nóg að sækja þá til saka. Breyta þarf kerfinu á þann hátt, að freistingunum fækki.

Vegna linnulausra glæpa eru reiknilíkön fiskifræðinga meira eða minna vitlaus. Brottkastið veldur fiskadrápi langt umfram heimildir. Einnig er svindlað milli fisktegunda, milli tegunda fiskiskipa, milli fisks af erlendum og innlendum skipum, milli kvótakerfis og dagakerfis.

Þar við bætist, að stjórnmálamenn hafa oft bætt miklu við magnið, sem fiskifræðingar mæla með. Allar þessar skekkjur samanlagðar eru mikilvægur þáttur í samdrætti fiskistofna á Íslandsmiðum. Flestir þeirra eru ofveiddir svo harkalega, að kalla má hreina rányrkju.

Um helgina var töluverð umræða um færeyska kerfið, sem komið var á fót fyrir fimm árum, þegar fiskveiðar Færeyinga hrundu. Þar eru skammtaðir sóknardagar, en ekki aflamagn, svo að brottkast er þar ekki vandamál. Að öðru leyti eru vandamálin hliðstæð í Færeyjum.

Þar eins og hér eru alls konar grá svæði, þar sem svindlað er í götunum. Þar er svindlað milli fisktegunda, milli stærða fiskiskipa, milli veiðarfærategunda, milli veiðisvæða, milli tegunda veiðileyfa, milli kvótakerfis og dagakerfis. Færeyska kerfið er ekki einfaldara.

Lausn íslenzka vandans felst ekki í að taka upp færeyska vandann. Hins vegar þarf að kasta núverandi kvótakerfi og taka upp aðra tegund skömmtunar að hinni takmörkuðu auðlind, þar sem haft verði að leiðarljósi, að gráu svæðin verði sem minnst og götin sem fæst.

Auðlindin er takmörkuð og sóknargetan of mikil og vaxandi. Því þarf einhverja skömmtun, svo að veiðin verði sjálfbær. Spurningin er bara, hvers konar skömmtun verndar stofninn bezt, framkallar fæst lögbrot og gefur kost á sem einföldustu skipulagi og eftirliti.

Vel kemur til greina að taka upp skömmtun á sóknardögum fremur en skömmtun á aflamagni, af því að staðsetningartækni nútímans auðveldar eftirlitið. En ekki má vera kerfi aflamagns í gangi samhliða, því að menn finna alltaf leiðir til að svindla á mörkum kerfa.

Jafnframt þarf að gæta þess að vera ekki með misjafnar reglur milli stærðar eða tegundar fiskiskipa, milli tegundar veiðarfæra, milli nálægra og fjarlægra veiðisvæða, milli tegundar eða staðsetningar byggða, milli tegunda fiskverkunar eða milli tegunda veiðileyfa.

Svarið við þessum vandamálum öllum er að bjóða afladagana upp á almennu útboði, þar sem allir lysthafendur geti tekið þátt. Útboð eru eina hagfræðilega leiðin til að skammta aðgang að takmarkaðri auðlind og afladagar eru bezta leiðin til að gera sjávarútveginn sjálfbæran.

Þetta er brýnt verkefni. Stunduð er glórulaus ofveiði við Ísland og hlaðið er undir glórulausa glæpahneigð íslenzkra sjómanna. Á endanum neita útlendingar að kaupa fiskinn héðan, af því að hann getur ekki fengið alþjóðalega vottunarstimpla um sjálfbæran sjávarútveg.

Kvótahagsmunir ráða viðhorfum ráðamanna okkar. Undir forustu sjávarútvegsráðherra stimpast þeir gegn breytingum, sem skapa sátt um sjávarútveginn.

Jónas Kristjánsson

DV

Okrið er eðlilegt

Greinar

Ein af allra stærstu keðjum smásöluverzlunar í landinu auglýsir efst á forsíðu bæklinga sinna, að hún fylgist látlaust með verði keppinautanna. Þetta er eðlilegt viðhorf á frjálsum markaði og segir okkur, að verð á vöru er afstætt og fer eftir ytri aðstæðum í umhverfi fyrirtækja.

Markaðslögmálin leiða til verðlækkana, þegar mörg fyrirtæki keppa og reyna hvert um sig að ná sem mestri markaðshlutdeild. Við þær aðstæður taka einstök fyrirtæki sig út úr hópnum og lækka verð, en hin fylgja í humátt á eftir til að verja markaðshlutdeild sína.

Á þessu stigi lækkar verð jafnt og þétt, verðbólga dregst saman og hagur viðskiptavina batnar. Þannig var ástandið í smásöluverzluninni, þegar Hagkaup var að ryðja sér til rúms og síðar, þegar Bónus var að ryðja sér til rúms. Þá höfðu keðjurnar forgöngu um að lækka verð.

Þegar samkeppnin gengur of nærri efnahag fyrirtækjanna, fara þau að kaupa hvert annað eða sameinast á annan hátt, fyrst til að ná hagkvæmni stærðarinnar og síðan til að draga úr samkeppni á markaði. Þannig breytist samkeppni í fákeppni og fákeppni í fáokun.

Markaðslögmálin leiða til verðhækkana, þegar þetta ferli er komið á stig fáokunar. Þá sitja tvö eða þrjú fyrirtæki eftir með þrjá fjórðu hluta markaðarins og ráða verðlagi með beinu eða óbeinu samráði sín á milli. Slíkt ástand ríkir í mörgum þáttum verzlunar á Íslandi.

Stjórnendur grænmetisverzlunar urðu að hittast í Öskjuhlíð til að hafa samráð um verð. Auðveldara er þetta hjá olíufélögunum, þar sem hugir forstjóranna eru svo samstilltir, að þeir ákveða allir sömu hækkun á sama andartaki, án þess að þurfa að vita hver af öðrum.

Þannig ríkir hér á landi fáokun í smásöluverzlun, grænmetisheildsölu, búvöruvinnslu, olíuverzlun, bifreiðatryggingum, farþegaflugi, vöruflugi, siglingum og ekki sízt í bönkum. Á öllum þessum sviðum ráða tvö eða þrjú fyrirtæki yfir þremur fjórðu hlutum markaðarins.

Á þessu stigi hækkar verð jafnt og þétt, verðbólga eykst og hagur viðskiptavina versnar. Nýjasta dæmið um þetta er, að olíufélögin hafa notað tíðar sveiflur á olíuverði til að klípa meira til sín af kökunni við hverja sveiflu. Fólk kveinar og kvartar og talar um okur á benzíni.

Eins og annað okur er þetta okur olíufélaganna eðlilegur þáttur í markaðshagkerfinu, þegar stigi fáokunar er náð. Lítið og tiltölulega lokað hagkerfi eins og Ísland getur ekki brotizt út úr þessari gildru markaðshagkerfisins nema að fá erlend fyrirtæki til að hlaupa í skarðið.

Því miður eru Íslendingar upp til hópa svo þýlyndir og tryggir innlendum kvölurum sínum, að tilraunir erlendra fyrirtækja til að brjótast inn á markað hafa lítinn árangur borið. Þannig hefur ekki tekizt að rjúfa fáokun bílatrygginga, olíuverzlunar og farþegaflugs.

Eftir þá reynslu bíða erlend fyrirtæki ekki í röðum eftir að komast inn á þröngan markað Íslands. Ef stjórnvöld vilja, að markaðslögmálin styðji fremur en hamli gegn viðleitni þeirra til að minnka verðbólgu og bæta hag almennings, verða þau að opna hagkerfið betur.

Ýmislegt má gera í lögum, reglugerðum og stjórnsýslu til að auðvelda erlendum fyrirtækjum að hefja starfsemi hér á landi og taka upp samkeppni við innlend fyrirtæki, sem eru komin á svo hátt stig fáokunar, að þau fylgjast látlaust með verði keppinautanna upp á við.

Okrið mun samt áfram blómstra sem eðlileg afleiðing þess, að stór hluti þjóðarinnar vill fremur skipta við okrarana en að reyna viðskipti við nýja aðila.

Jónas Kristjánsson

DV

Friður verður torsóttur

Greinar

Fáum er harmur að falli harðstjórnar Talibana í Kabúl, sem gefur Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra færi á að endurvekja alþjóðlega viðurkennda ríkisstjórn í Afganistan. Með framferði sínu gegn mannréttindum og menningarsögu voru Talibanar orðnir óhelgir.

Sigur er í augsýn í Afganistan, þótt Norðurbandalagið hafi mætt meiri mótspyrnu í sókninni suður fyrir Kabúl. Talibanar höfðu ákveðið að verja ekki höfuðborgina, heldur halda til svæða þjóðflokks Pashtúna í suðurhluta landsins, þar sem þeir hafa síðan reynzt vera harðsóttari.

Norðurbandalagið mætir meiri mótspyrnu sunnan við Kabúl, því að þar eru þeir í óvinalandi. Þess vegna getur Bandaríkjunum reynzt torsótt að hafa hendur í hári Osama bin Laden og leiðtoga Talibana. Þau þurfa helzt að afla sér bardagamanna af þjóðflokki Pashtúna.

Engar vísbendingar eru um, að Bandaríkin treysti sér til að senda eigin landher til Afganistans á næstunni. Af því leiðir, að þau þurfa að reiða sig á leppa. Það var auðvelt norður í landi, þar sem herskáir minnihlutaþjóðflokkar höfðu varizt gegn Pashtúnum og Talibönum.

Þar sem örðugt hefur reynzt að finna Pashtúna, sem vilja berjast gegn Talibönum, munu loftárásir Bandaríkjanna halda áfram. Þar með heldur áfram sú ógeðfellda tegund stríðs, að menn varpa sprengjum að baki víglínunnar á almenna borgara, sem hafa ekkert til saka unnið.

Torvelt verður að koma á lögum og reglu í Afganistan, nema Sameinuðu þjóðirnar sendi friðargæzlu á vettvang. Annars yrðu Bandaríkin að gera það sjálf, sem þau vilja ekki. Það þýðir, að kröfur verða háværari um, að Bandaríkin greiði vanskilaskuldir sínar við samtökin.

Margir verða til að grafa undan viðleitni til að koma á fót veraldlegri stjórn í Afganistan. Fremst mun fara þar í flokki Pakistan, hinn uppvakti bandamaður Bandaríkjanna, þar sem börnin læra að hata Bandaríkin í skólum, sem kostaðir eru af konungsætt Sádi-Araba.

Flest bendir til, að friðurinn verði þyngri en stríðið. Bandaríkin hafa sett traust sitt á aldraðan og óvinsælan uppgjafakóng af þjóðflokki Pashtúna, en sá er ekki líklegur til stórræða. Indverjar og Rússar halda fram bandamönnum sínum meðal Norðurbandalagsins.

Þegar þessu snúna verki er lokið, Talibanar hafa verið hraktir frá völdum og friður kominn á í Afganistan, verður skammt á veg komin baráttan gegn hryðjuverkum trúarofstækismanna. Rætur þeirra liggja annars staðar, svo sem í ríkjum á borð við Sádi-Arabíu og Pakistan.

Hryðjuverkamenn heimsins koma ekki frá Afganistan, heldur Sádi-Arabíu og Pakistan, Egyptalandi og Alsír. Vesturlönd ná ekki árangri í að treysta öryggi sitt gegn hryðjuverkum trúarofstækis, nema þau ráðist að uppsprettum meinsins í eymd og ófrelsi íslamskra þjóða.

Vesturlönd þurfa að leggja aukna áherzlu á að selja fátækum þjóðum hugsjón lýðræðis, ekki bara frjálsar kosningar, heldur einnig aðskilnað ríkis og trúar, hinar ýmsu tegundir mannréttinda, svo og dreifingu valdsins og gegnsæi þess. Slíkt lýðræði er bezta hagstjórnartækið.

Vesturlönd þurfa að hætta að standa í vegi fyrir alþjóðlegu viðskiptafrelsi með tollfrjálsar landbúnaðarafurðir og vefnaðarvörur og hætta misnotkun sinni á Heimsviðskiptastofnuninni. Bandaríkin þurfa að hætta að standa í vegi fyrir sjálfstæðu ríki Palestínumanna.

Því meiri áherzla, sem lögð er á að eyða sjálfum jarðvegi hryðjuverkastefnunnar, þeim mun minni þörf er á lofthernaði, sem kemur niður á saklausu fólki.

Jónas Kristjánsson

DV

Sigur í Marrakesh

Greinar

Langþráður sigur felst í samkomulagi helgarinnar í Marrakesh um framkvæmd Kyoto-bókunarinnar um minni útblástur gróðurhúsalofttegunda. Einkum er það sigur fyrir ríki Evrópu, sem tókst að fá öll 160 þátttökuríkin til að fallast á sameiginlega niðurstöðu.

Undir lokin þurfti að múta Japan og einkum Rússlandi til að skrifa undir. Eftirgjafirnar fela í sér aukna þynningu Kyoto-bókunarinnar ofan á þann galla, að Bandaríkin skuli ein ríkja ekki telja sig hafa efni á að taka þátt í fjölþjóðlegu átaki um samdrátt mengunar.

Samkomulagið í Marrakesh bjargar ekki eitt sér jörðinni frá tortímingu. Það er hins vegar skref í rétta átt, felur í sér skilgreind markmið og viðurlög, ef ríki ná ekki markmiðunum. Allar ferðir byrja með einu skrefi og nú þegar hafa verið stigin þrjú skref á þessari leið.

Fyrsta skrefið var stigið í Kyoto fyrir fjórum árum, þegar leiðin var mörkuð. Annað skrefið var stigið í Bonn í sumar, þegar ríki Vestur-Evrópu sammæltust um að halda saman, þrátt fyrir andstöðu Bandaríkjanna og tilraunir þeirra til að koma í veg fyrir niðurstöðu.

Fjórða skrefið verður svo stigið á næsta ári, þegar 55 ríki með 55% mengunar heimsins á þessu sviði hafa ritað undir samninginn um gróðurhúsalofttegundir. Þá á að vera orðið tryggt, að árið 2012 verði útblástur gróðurhúsalofttegunda minni en hann var árið 1990.

Þetta nægir engan veginn til að hindra ágang sjávar og skaðlegar breytingar á veðurfari á jörðinni. En gróðurhúsaáhrifin hafa komizt í fókus mannkyns, svo að vænta má frekari aðgerða á næstu árum, þegar menn átta sig betur á vísindalegum forsendum aðgerðanna.

Ástæða til að vona, að Bandaríkin feti fyrr eða síðar á einhvern hátt í slóðina, sem önnur ríki hafa markað í Kyoto, Bonn og Marrakesh. Það skiptir umheiminn miklu, því að Bandaríkin ein bera ábyrgð á fjórðungi allrar mengunar á sviði gróðurhúsalofttegunda.

Útilokað er, að Bandaríkin geti til lengdar þótzt vera forusturíki í heiminum, þegar það tekur ekki þátt í margvíslegu heimsátaki á borð við loftslagsvarnir, alþjóðlegan stríðsglæpadómstól, jarðsprengjubann og bann við eiturefnavopnum, svo að þekktustu dæmin séu nefnd.

Það er skammgóður vermir að geta kastað sprengjum á úlfalda í Afganistan í samráði við helztu dólga heimshlutans, ef ríki treystist ekki til að vera í forustusveit friðsamlegra aðgerða um að bæta lífsskilyrði á jörðinni. Slíkt ríki vinnur alls ekki til virðingar annarra ríkja.

Samið var um, að Ísland megi vera eins konar frífarþegi í málinu. Hér má útblástur gróðurhúsalofttegunda raunar aukast um 10% á tímabilinu, auk þess sem landgræðsla gefur landinu bónuspunkta. Þetta þýðir, að álver við Reyðarfjörð fellur ekki utan leyfilegs ramma.

Ekki er virðulegt að vera frífarþegi í viðleitni mannkyns til að tryggja framtíð sína. Við höfum þó skjól af, að samkomulag skuli vera um okkur sem ómaga. Bandaríkjamenn geta hins vegar ekki skotið sér á bak við einhliða yfirlýsingu þeirra um, að þeir hafi ekki ráð á aðild.

Aðildarríki Evrópusambandsins hafa mestan sóma af máli þessu. Þeim tókst að halda saman gegnum þykkt og þunnt og að knýja önnur lykilríki til undirskriftar. Þar með hefur Evrópa tekið forustu í baráttu mannkyns gegn hægfara hnignun lífsgæða á jarðarkringlunni.

Lofthernaður á eyðimörkum mun ekki ráða forustuhlutverki ríkja og ríkjasambanda á nýrri öld, heldur siðferðisþrek til jákvæðra athafna í þágu mannkyns.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir hafa ekkert lært

Greinar

Fulltrúar vesturlanda á stórfundi Heimsviðskiptastofnunarinnar í eyðimörkinni í Katar á Arabíuskaga hafa ekkert lært af heimssögulegum atburðum haustsins. Þeir eru ákveðnir í að halda til streitu kröfum um aukna skekkju í heimsviðskiptum á kostnað fátækra þjóða heims.

Í stað þess að samþykkja orðalaust kröfur þriðja heimsins um innflutnings- og tollfrelsi landbúnaðarafurða og vefnaðarvöru, stinga vesturlönd enn við fótum og krefjast að auki herts eignarréttar á hugbúnaði og lyfjum og aukins svigrúms vestrænnar fjármálaþjónustu.

Viðskiptafrelsið í heiminum nær einkum til iðnaðarvara, sem vesturlönd framleiða, en ekki til landbúnaðarafurða og vefnaðarvöru, sem þriðji heimurinn framleiðir. Hin nýlega Heimsviðskiptastofnun hefur haldið áfram hinni eindregnu ójafnaðarstefnu forvera síns.

Vesturlönd hafa notað Heimsviðskiptastofnunina til að halda þriðja heiminum niðri og þriðji heimurinn veit það. Viðskiptafrelsi búvöru mundi eitt út af fyrir sig bæta kjör fátækra þjóða um 600 milljarða dollara á ári hverju. Fyrir þá upphæð eina má mennta allan þriðja heiminn.

Síðasti fundur Heimsviðskiptastofnunarinnar var í Seattle fyrir tveimur árum og fór út um þúfur vegna ofsafenginna mótmælaaðgerða. Ekki er aðstaða til slíkra mótmæla í eyðimörk olíufurstanna, en eigi að síður mun fara út um þúfur fundurinn, sem nú stendur yfir.

Eins og venjulega er talað tungum tveimur í Katar. Í ræðupúltum fjalla fulltrúar vesturlanda fjálglega um gildi markaðsafla og mikilvægi frelsis, en á baktjaldafundum makka þeir gegn því, að þessi hugtök nái til einu afurðanna, sem þriðji heimurinn framleiðir ódýrt.

Vesturlönd styrkja landbúnað sinn um einn milljarð dollara á dag, sexfalt hærri upphæð en samanlögð aðstoð þeirra við þróunarríkin. Dálæti vesturlanda á eigin landbúnaði hindrar samkomulag í Katar um aukið viðskiptafrelsi í heiminum, alveg eins og í Seattle.

Afleiðingar vestræns hroka eru alvarlegar. Hann sáir eitri í huga fólks, hatri á vesturlöndum. Stórkarlalegast kemur það í ljós í heimi Íslams, þar sem hatrið brýzt út í hugarfari hryðjuverka, þar sem þúsundir manna bætast á hverju ári við sjálfsmorðssveitir framtíðarinnar.

Mikilvægur þáttur í aðgerðum vesturlanda til að efla öryggi borgaranna á viðsjárverðum tímum hryðjuverka er að skrúfa fyrir vestrænan hroka, sem framleiðir hatur í þriðja heiminum, sem framleiðir hryðjuverk gegn vestrænum hagsmunum og vestrænum mannslífum.

Þess vegna hefði 11. september átt að vera alvarleg áminning til vesturlanda um að gefa þriðja heiminum frelsi á fundi Heimsviðskiptastofnunarinnar í Katar. Þetta tækifæri hefur ekki verið notað. Þvert á móti hafa vesturlönd ákveðið að læra ekkert af reynslunni.

Höfuðrit hrokans í heiminum, Wall Street Journal, hrósaði meira að segja happi yfir því, að mótmælendur gætu ekki truflað fundinn í Katar, af því að þeim yrði þá miskunnarlaust líkt við hryðjuverkamenn. Wall Street Journal skilur alls ekki hvaða alvara er á ferðinni.

Ekki gengur upp sú veröld, þar sem ríkar þjóðir fela sig að baki tollmúra og arðræna fátækar þjóðir, ekki frekar en það þjóðfélag, þar sem ríka fólkið felur sig í lokuðum íbúðahverfum og arðrænir fátæklinga. Í báðum tilvikum verður bylting fyrr eða síðar, nema menn vakni.

Í Katar munu vesturlönd og Heimsviðskiptastofnunin neita að fallast á frjálsa verzlun afurða þriðja heimsins og missa af einstæðu tækifæri til að læra af reynslunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Ónýtar leyniþjónustur

Greinar

Þótt flest tilvik gruns um miltisbrand hafi reynzt án innihalds, þar á meðal á Íslandi, hafa nokkur raunveruleg tilvik fundizt í Bandaríkjunum og valdið töluverðum búsifjum í gangverki hagkerfisins. Til dæmis hefur notkun á pósti minnkað niður í brot af fyrra magni.

Bandaríkjamenn voru óviðbúnir miltisbrandinum. Þeim hefur heldur ekki tekizt að rekja hann til uppruna síns. Ekki er einu sinni vitað, hvort íslamskir hryðjuverkamenn eru að verki eða geðtruflaðir heimamenn í Bandaríkjunum. Rannsókn málsins er í molum.

Þetta er ein af ýmsum birtingarmyndum fullkomins skorts á upplýsingum, sem gætu komið í veg fyrir hryðjuverk eða rakið þau til upprunans. Yfir þúsund manns hafa verið í haldi vestanhafs án þess að nokkuð hafi komið í ljós, sem gæti auðveldað rannsókn hryðjuverka.

Osama bin Laden var alræmdur löngu fyrir hryðjuverkin 11. september. Hann hefur árum saman verið efstur á lista eftirlýstra glæpamanna. Hann hefur hvað eftir annað fullyrt, að Vesturlönd mættu búast við hryðjuverkum sinna manna. Samt hefur aldrei náðst í hann.

Í tvo mánuði hefur Osama bin Laden dvalizt óáreittur í felum sínum. Leyniþjónustur Bandaríkjanna og Breta vita ekki hvar hann er. Þær vita ekki einu sinni, hvort hann er í Afganistan. Þær eru jafnvel farnar að gera ráðstafanir til að leita að honum í Sómalíu.

Svo utangátta voru Bandaríkin um ríkisstjórn Talibana í Afganistan, að hún var ekki einu sinni á skrá Bandaríkjastjórnar um stuðningsaðila hryðjuverkahópa. Svo virðist sem leyniþjónustan hafi einfaldlega treyst því, sem leyniþjónustan í Pakistan sagði um þessa vini sína.

Leyniþjónustur Vesturlanda ættu að vita mikið um Afganistan, af því að lengi hefur verið þekkt, að landið er mesta uppspretta fíkniefna í heiminum og grefur þannig undan Vesturlöndum. Samt koma þær af fjöllum, þegar Bandaríkin þurfa upplýsingar um Afganistan.

Leyniþjónustumenn hafa ekki einu sinni lesið dagblöðin. Vitneskja þeirra um þróun og stöðu mála í Afganistan hefur ekki reynzt vera nein. Ekki hafa rætzt spár þeirra um sundrungu í liði Talibana og í ættflokki Pashtuna í kjölfar loftárása Bandaríkjanna.

Talibanar og Pashtunar sitja sem fastast í Afganistan. Þeir ráða enn 90% landsins. Fíkniefnakóngarnir í Norðurbandalaginu, sem Bandaríkin beita fyrir sig, hafa ekki þorað að hreyfa sig. Þeir hafa ekki náð borginni Mazar-il-Sarif, sem er þó nánast uppi í fanginu á þeim.

Út um þúfur hafa farið tilraunir Bandaríkjanna til að senda sérsveitir á vettvang. Fræg er orðin árás þeirra á aðetur Mullah Mohammed Omar, yfirmanns talibana. Þær urðu að flýja af vettvangi eftir harða mótspyrnu, af því að upplýsingar þeirra um aðstæður voru rangar.

Þekkingarleysið er þeim mun athyglisverðara fyrir þá sök, að Talibanar eru gamlir skjólstæðingar Bandaríkjanna eins og félagar þeirra í Pakistan. Leyniþjónustur Bandaríkjanna og Pakistans ólu þá við brjóst sér til að sigrast á hernámsliði Rússa í Afganistan árið 1996.

Versta afleiðing fáfræðinnar er, að Bandaríkin geta hvorki sótt Osama bin Laden né Mullah Mohammed Omar og kasta í staðinn í reiði sinni sprengjum á almenning, sem á enga sök á neinum hryðjuverkum. Ekki er vitað til, að neinir lykilmenn Ladens eða Omars hafi fallið.

Hinar dýru leyniþjónustur tala ekki arabisku og vita ekkert um heim Íslams. Á þessu hausti hefur greinilega komið í ljós, að þær eru gersamlega gagnslausar.

Jónas Kristjánsson

DV

Samkeppnishæfni þjóða

Greinar

Finnar eru samkeppnishæfastir þjóða samkvæmt nýlegri könnun, hafa á einu ári skotizt upp fyrir Bandaríkjamenn. Eru þó skattar tiltölulega háir í Finnlandi og verkalýðsfélög öflug, svo að ekki er einhlítt, að þetta séu tveir helztu þröskuldar í vegi samkeppnishæfni.

Þjóðum getur vegnað vel með mismunandi aðferðum eins og Finnar og Bandaríkjamenn sýna. Lækkun skatta á fyrirtæki er engin galdraformúla fyrir aukinni samkeppnishæfni, þótt hóflegir skattar séu mikilvægir, þegar fjölþjóðlegum fyrirtækjum er valið ríkisfang.

Rekstrarumhverfi fyrirtækja ræðst af fleiri atriðum en sköttum, til dæmis þjónustunni, sem sköttum er ætlað að greiða. Góð nýting skattfjár skiptir eins miklu máli og hóflegir skattar. Gott og skilvirkt velferðarkerfi hefur eins mikilvægt aðdráttarafl og lágir skattar.

Ráðamenn fyrirtækja vilja aðgang að vel menntuðu starfsliði á sínu sviði. Þeir vilja halda í gott starfsfólk, sem vill vera þar sem lífsgæði eru almennt góð. Þar koma inn í myndina ýmis atriði, sem erfitt er að reikna til fjár, svo sem hreint loft og ósnortin víðerni.

Kannanir sýna víða á Vesturlöndum, að meirihluti fólks væri fús til að greiða hærri skatta, ef þeir tengdust bættri þjónustu á sviðum, sem skipta fólk máli. Þetta sýnir, að það er fremur nýting skattpeninganna en prósentan sjálf, sem ræður úrslitum um samkeppnishæfni.

Það fælir frá, ef skattar eru notaðir í fortíðarþrá, svo sem til að halda uppi atvinnu í öldruðum atvinnugreinum eða fámennum sveitarfélögum. Þjóðir, sem vilja efla samkeppnishæfni sína á fjölþjóðlegum markaði, eiga að forðast byggðastefnu eins og heitan eldinn.

Það fælir frá, ef fortíðarþrá ræður notkun gjaldmiðils og vaxtastigi, svo sem þegar þjóð neitar sér um að taka upp fjölþjóðlega mynt og vill nota gengislækkanir sem hagstjórnartæki. Fjölþjóðleg fyrirtæki vilja vera þar sem mynt er traust og útbreidd og vextir hóflegir.

Afnám byggðastefnu og krónunnar eru dæmi um atriði, sem mundu bæta samkeppnishæfni Íslands meira en lækkun skatta á fyrirtæki, þótt ekki sé beinlínis ástæða til að vanþakka skattalækkanir, ef þær eru þáttur í heildarmynd aðgerða, sem fyrirtæki laðast að.

Fyrirtæki sogast til landa, þar sem þjóðir horfa fram á veg fremur en til fortíðar. Þau sogast til landa, þar sem rekstrarumhverfi er traust, þar sem réttarstaða er einföld og augljós og allir eru jafnir fyrir lögunum. Þau sogast til landa, þar sem útboð hafa leyst spillingu af hólmi.

Þau sogast til landa, þar sem starfsfólki þeirra líður vel. Það eru lönd, sem hafa gott skólakerfi, gott heilbrigðiskerfi og gott öryggisnet, ef eitthvað kemur fyrir. Það eru lönd, sem hafa hreint loft og góða aðstöðu til útivistar, menningar og afþreyingar í frístundum.

Það merkilega er svo á tímum netvæðingar heimsins, að fyrirtæki og starfsfólk vilja vera á sama stað og önnur fyrirtæki og annað starfsfólk er á sama sviði. Þannig varð til Sílikon-dalur í Bandaríkjunum og svipaðar þyrpingar tölvufyrirtækja í ýmsum öðrum framfaralöndum.

Hér hafa verið talin upp ýmis atriði, sem skipta miklu, ef stjórnvöld kjósa í alvöru að hefja stefnu aðlöðunar fjölþjóðafyrirtækja. Sumt af þessu er á góðum vegi hér á landi og annað í afleitu ástandi. Skattalækkanir duga engan veginn einar sér til að setja hjólið af stað.

Fengur væri að breiðsíðu opinberra aðgerða, sem allar stefndu saman að því eftirsóknarverða marki, að fólki og fyrirtækjum líði hér vel og vilji helzt vera hér.

Jónas Kristjánsson

DV

Rætur heimsfrægðar

Greinar

Erlend dagblöð á borð við New York Times eru farin að fjalla fjálglega um fyrirbæri á borð við Apparat, Náttfara og Trabant. Þetta eru íslenzkar hljómsveitir, sem tæpast geta talizt landsþekktar, en eru eigi að síður orðnar heimsþekktar í veröld alþýðlegrar tónlistar.

Þetta hófst með Björk, sem amerísku blöðin segja frægasta Íslending allra tíma, frægari en Leif Eiríksson. New York Times vitnar með velþóknun í Jón Hákon Magnússon, sem segir Björk vera vörumerki Íslands á sama hátt og Volvo fyrir Svíþjóð og Nokia fyrir Finnland.

Blaðamennirnir Neil Strauss og Donald G. McNeil hafa nýlega skrifað langar greinar í New York Times um Björk og eftirkomendur hennar í alþýðlegri tónlist á Íslandi. Þeir segja, að útgefendur tónlistar í Bandaríkjunum hafi fallið fyrir Íslandi sem jarðvegi tónlistar.

Útgefendurnir hafi komið á tónlistarhátíðina í haust og búizt við endurtekningum fyrri hátíða, en komizt að raun um nýjar hljómsveitir með nýjar áherzlur. Margir þeirra telji, að gæði og breidd íslenzkrar alþýðutónlistar hafi farið vaxandi með hverju ári í rúman áratug.

Þessi gæðastimpill skiptir miklu, ekki sízt fyrir marga unga tónlistarmenn, sem hafa náð eyrum fólks, er skiptir máli í alþjóðlegum tónlistarheimi. Búast má við, að fleiri reyni að feta í fótspor Bjarkar og Sigur Rósar, sem einnig nýtur mærðar í greinum erlendu blaðamannanna.

Áhrifin í ferðaþjónustunni eru mikil. Flugfélagið Go flytur brezk ungmenni hópum saman til heimabæjar Bjarkar til að sjá “Björkville” og taka þátt í andrúmslofti reykvískra kaffihúsa og kráa. Tilraunastarf íslenzkrar alþýðutónlistar skilar sér í beinhörðum peningum.

Athyglisvert er, að nánast allt þetta fólk, sem náð hefur eyrum umheimsins, er vel menntað í tónlistarskólum landsins, allt frá Björk og Sigur Rós. Tilraunirnar í alþýðutónlistinni hvíla á grunni þekkingar, sem unga fólkið hefur aflað sér í opinberum tónlistarskólum.

Fyrir einhverja sagnfræðilega tilviljun, sem hér er ekki rúm til að kanna, var á sínum tíma ákveðið að stofna mætti tónlistarskóla með kennurum á launum hjá hinu opinbera. Tónlistarskólar risu í öllum sveitarfélögum, sem vildu telja sig gjaldgeng í nútímanum.

Þetta var svo mikil sprenging, að ekki voru handbærir kennarar til að standa undir öllu þessu starfi. Kennaraskorturinn var leystur með að flytja inn erlenda tónlistarmenn, sem margir voru afar vel færir og menntaðir og urðu lykilpersónur í tónlistarlífi um allt land.

Þannig fór tvennt saman. Opinberir aðilar skrúfuðu frá sjálfvirkum krönum fjármagns og tónlistarmenning var flutt inn frá útlöndum. Þetta var mikilvægur þáttur í grunninum að sigurför íslenzkrar alþýðutónlistar, sem nú endurspeglast á síðum erlendra stórblaða.

Spyrja verður, hvort svipaður árangur hefði náðst á öðrum sviðum, ef ríkið hefði boðið upp á sjálfvirka fjármögnun á fræðslu og flutt hefði verið inn erlent hæfileikafólk. Ættum við fleiri málara en Erró? Ættum við fleiri framleiðendur kvikmynda en Friðrik?

Annars vegar er breiðsíða alþjóðlegra viðurkenndra afreka í alþýðutónlist og hins vegar örfáir einstaklingar í öðrum greinum lista á borð við myndlist og kvikmyndir. Er munurinn sá, að hér voru tónlistarskólar úti um allar koppagrundir með innfluttri tónlistarmenningu?

Áleitið er að spyrja, hvort lítið þjóðfélag geti með markvissri skólastefnu hins opinbera og innflutningi hæfileikafólks náð árangri á hvaða sviði sem er.

Jónas Kristjánsson

DV

Nýbúar og þjóðardeigla

Greinar

Við erum langt á eftir flestum vestrænum þjóðum í innflutningi flóttamanna og eigum því að geta lært af reynslu annarra. Unnt á að vera að haga málum á þann hátt, að þjóðfélagið eflist við aðkomu nýbúa og geti tekið örar við þeim en gert hefur verið á undanförnum árum.

Síðustu árin hefur athygli manna í ýmsum nágrannalöndum okkar beinzt í auknum mæli að vandamálum, sem tengjast nýbúum. Annars vegar stafa þau af ófullkominni aðlögun þeirra og hins vegar af fordómum heimamanna, sem oftast eru flokkaðir sem kynþáttahatur.

Á allra síðustu vikum hefur fólk á Vesturlöndum vaknað við þá óþægilegu staðreynd, að meðal áhangenda íslams í hópi flóttamanna er til fólk, sem hafnar vestrænum gildum og telur eðlilegt eða skiljanlegt, að baráttumenn beiti hryðjuverkum gegn Vesturlöndum.

Undarlegt er, að fólk, sem hefur leitað skjóls í þeim hluta heimsins, sem er umburðarlyndari en aðrir heimshlutar, skuli nota skjólið til að grafa undan þeim hinum sama heimshluta. Samt er heilagt stríð prédikað af sumum íslömskum klerkum á Vesturlöndum.

Áður var vitað, að sumir hópar nýbúa vilja flytja með sér hefðir, sem eru andsnúnar grundvallaratriðum í vestrænni hugmyndafræði. Þar á meðal er umskurn barna og mismunun kynja, svo og sú stefna, að lög í helgum trúarbókum séu æðri veraldlegum lögum landsins.

Vesturlönd hvíla á nokkrum grundvallarforsendum, sem lengst af greindu þau frá öðrum. Þær eru frjálsar kosningar, mannréttindi að hætti stofnskrár Sameinuðu þjóðanna, dreifing valdsins og gegnsæi þess, áherzla á lög og rétt og ekki sízt aðskilnaður ríkis og trúar.

Vesturlönd verða að geta krafizt þess og að vilja krefjast þess, að nýbúar lúti helztu þáttum þjóðskipulagsins. Annars leiti þeir ekki skjóls í heimshlutanum og yfirgefi hann raunar, ef þeir eru þegar komnir þangað. Vesturlönd mega ekki ala fimmtu herdeild við brjóst sér.

Hins vegar er nauðsynlegt að taka vel á móti nýbúum, ef þeir sætta sig við ofangreind skilyrði. Auðvelda þarf þeim að viðhalda tungumáli sínu og öllum siðum og venjum, sem ekki brjóta í bága við þjóðskipulagið. Allt slíkt auðgar og bætir menningu gestgjafalandsins.

Gott dæmi um slíkt er þáttur Indverja í brezku þjóðfélagi. Þeir eru orðnir áhrifamikill þáttur mikilvægra stétta á borð við lækna, kaupmenn og matreiðslumenn með þeim afleiðingum, að þessar starfsgreinar veita samfélaginu mun betri þjónustu en ella hefði verið.

Hindra þarf, að nýbúar safnist í eins konar undirheimaríki í ríkinu. Veita þarf meiri fjármunum en nú er gert til að bæta aðlögun þeirra og gera þá að gildum aðilum þjóðardeiglunnar. Því betur, sem þetta gengur, þeim mun meira auðgast þjóðfélagið af nærveru nýbúa.

Við erum inngróin eyþjóð, sem þarf að hrista af sér aldagamla einangrun og taka erlendum menningarstraumum opnum örmum. Við megum alls ekki að líta á nýbúa sem ódýrt vinnuafl, sem síðast er ráðið og fyrst rekið. Við þurfum að taka þá sem fullgilda Íslendinga.

Bitur reynsla nágrannaþjóða sýnir, að vandratað er meðalhófið í þessu efni. Við þurfum að leggja miklu meiri áherzlu á að læra af þessari reynslu, svo að við getum forðast skuggahliðar þjóðflutninga og lagt í staðinn rækt við björtu hliðarnar, sem eru margar og fjölbreyttar.

Markmiðið á að vera, að nýbúar verði í stakk búnir til að hjálpa okkur við að hindra að þjóðfélagið staðni. Þeir verði virkir aðilar að þjóðardeiglunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Spilað með lífeyrinn

Greinar

Lífeyrissjóðir landsmanna hafa ekki staðið sig nógu vel í sviptingum efnahagsmála á þessu ári og hinu síðasta. Verðgildi þeirra rýrnaði í fyrra og mun rýrna enn meira á þessu ári, sumpart vegna erfiðs árferðis á hlutabréfamarkaði og sumpart vegna rangra ákvarðana.

Forstjóri Fjármálaeftirlits ríkisins segir nokkuð skorta á, að ráðamenn lífeyrissjóða hafi svipað aðhald og ráðamenn fyrirtækja almennt hafa af eigendum þeirra. Raunar er augljóst, að ekki er boðið upp á mikil afskipti fólks af rekstri lífeyrissjóða, sem það á aðild að.

Þetta er ekki einhlít skýring, enda má benda á, að enn verr hefur gengið hjá ýmsum lífeyrissjóðum, sem eru ávaxtaðir af fjármálastofnunum. Slíkir sjóðir hafa raunar gengið lengra en aðrir sjóðir í glannalegum kaupum á hlutabréfum, sem síðan hafa fallið í verði.

Gróft dæmi um glannalegan sjóð er Lífeyrissjóður Austurlands, sem hafði í fyrra 4,3% neikvæða raunávöxtun undir stjórn sérfræðinga í Kaupþingi, sem hafa hagað málum á þann veg, að 30% af öllum eigum sjóðsins eru í pappírum, sem ekki eru skráðir á verðbréfaþingi.

Alvarlegt er að haga þannig rekstri lífeyrissjóða. Þeir eiga alls ekki að vera áhættufjárfestar og því síður að stunda fjárhættuspil á hlutabréfum. Hlutverk þeirra er að standa undir eftirlaunum fólks með fjárfestingu í traustum skuldabréfum með hægfara ávöxtun.

Til skjalanna hafa komið svokallaðir verðbréfaguttar, sem hafa ginnt ráðamenn lífeyrissjóða til að víkja frá hefðbundnum sjónarmiðum við ávöxtun sjóðanna í von um skjótfenginn gróða í hlutabréfum kraftaverka. Slíkar vonir hafa yfirleitt brugðist, stundum hrapallega.

Þar sem lífeyrir almennings er í húfi, er nauðsynlegt að setja lífeyrissjóðum strangari reglur, jafnt séreignasjóðum sem sameignasjóðum. Nú mega sjóðir til dæmis eiga helming peninga sinna í hlutabréfum, sem er greinilega allt of hátt hlutfall. Fjórðungur væri betra hámark.

Stjórnir og verðbréfaguttar lífeyrissjóða liggja undir þrýstingi ýmissa aðila, sem eru með pottþétt gróðaplön á prjónunum og líta á lífeyrissjóði sem ríka frændann. Vel borguðum sætum í stjórnum kraftaverkafyrirtækja er veifað framan í þá, sem eiga að opna gullkisturnar.

Dæmi eru um, að lífeyrissjóðir festi beinlínis fé í stjórnarsætum fyrir ráðamenn sína og reikni framlög sín í slíkum sætum. Þetta felur í sér þvílíkan hagsmunaárekstur, að hreinlega þarf að banna ráðamönnum lífeyrissjóða setu í stjórn fyrirtækja með eignaraðild sjóðanna.

Setja þarf strangari reglur um fleiri þætti í rekstri sameignarsjóða og séreignarsjóða. Draga þarf úr líkum á, að verðbréfaguttar leiki lausum hala í hlutverki ráðgjafa eða umsjónarmanna. Lögfesta þarf strangari form um aðkomu sjóðfélaga að rekstri lífeyrissjóða sinna.

Upplýsingaskylda sjóðanna þarf að vera örari og gegnsærri en nú er, svo að erfiðara sé að draga fjöður yfir vandann. Skipun stjórna sjóðanna þarf að lúta strangari lýðræðisformum en nú er. Hvort tveggja miðar að aukinni tilfinningu sjóðfélaga fyrir eignarhaldi sínu.

Lífeyrissjóðir eru einn helzti hornsteinn íslenzka velferðarkerfisins. Þegar ávöxtun þeirra fylgir ekki hægfara hagvexti Vesturlanda og þegar þeir eru jafnvel farnir að tapa fé ár eftir ár, er greinilega brýnt að taka til hendinni á þann hátt, sem lýst er hér að ofan.

Reynslan sýnir, að löggjafarvaldið neyðist til að þrengja svigrúm stjórna og ráðgjafa lífeyrissjóða til að víkja af þröngum vegi ráðdeildar með peninga almennings.

Jónas Kristjánsson

DV

Fyrirlitnar skoðanir

Greinar

“Negro” er enskt orð, sem bandarískir svertingjar vildu um langt árabil nota sem samheiti yfir sig. Þeir töldu það vera nokkurn veginn hlutlaust orð, sem ekki fæli í sér niðurlægingu, betra en orðið “black”. Samkvæmt þessu er vafasamt að telja orðið negri vera ókurteist.

Samt segir íslenzkur dómari, að “alkunna sé”, að enska orðið “negro” sé neikvætt, enda óski svertingjar, að önnur orð séu notuð. Dómarinn notar sjálfur orðið blökkumaður, þótt svertingjar hafi verið búnir að hafna orðinu “black” áður en þeir höfnuðu orðinu “negro”.

Spurningin er, hvort ekki sé rétt að kæra og dæma dómarann fyrir kynþáttahatur úr því að hann telur við hæfi að dæma varaformann Félags íslenzkra þjóðernissinna fyrir að nota orðið negri. Orðhengilsháttur að hætti dómarans er nefnilega ekki gott vegarnesti.

Í nýföllnum dómi er talið, að orðin “Afríkunegri með prik í hendi”, sem “nenni ekki að berja af sér flugurnar” séu niðrandi í garð svartra manna. Því beri varaformanni Félags íslenzkra þjóðernissinna að greiða 30.000 króna sekt fyrir að hafa notað þessi orð í blaðaviðtali.

Raunar er furðulegt, að ákæruvaldið og dómsvaldið séu að eyða tíma í að skipta sér af orðavali, sem dómarinn segir sjálfur, að séu “ekki gróf eða mjög alvarleg”. Ruglið er í samræmi við fáfræðina, sem dómarinn sýndi, þegar hann hætti sér út í tungumála-sagnfræði.

Ákæran og dómurinn byggjast að nokkru leyti á viðleitni sumra manna á Norðurlöndum til að skipta hugsunum í pólitískt viðurkenndar hugsanir og þær, sem ekki eru pólitískt viðurkenndar og hvetja menn til að nota eingöngu orð, sem viðurkennd eru af samfélaginu.

Þessi góðviljaða hreinsunarstefna í málnotkun er dæmigerð forsjárhyggja. Hún hefur stuðning af almennum hegningarlögum, sem banna fólki að hæðast að öðrum eða smána þá. Samkvæmt lagagreininni mætti og ætti að draga alla háðfugla og eftirhermur fyrir dóm.

Þessi vafasama grein hegningarlaganna er ættuð frá Norðurlöndum og er sem betur fer lítið notuð hér á landi. Samkvæmt henni mætti dæma dómarann sjálfan fyrir kynþátthatur út af orðinu svertingi, sem hann notaði í úrskurðinum, svo sem bent var á hér að ofan.

Óskorað hugsana- og tjáningarfrelsi er hornsteinn vestræns samfélags. Í skjóli þess hafa hugmyndir um stjórnmál og samfélag, tækni og vísindi fengið að þróast án forsjárhyggju að ofan. Í skjóli þess hafa vestrænar þjóðir risið til mannlegrar reisnar og velsældar.

Þetta frelsi felur í sér, að enginn getur ákveðið fyrir aðra, hvaða hugsanir og skoðanir séu nothæfar og hverjar séu það ekki. Það, sem pólitískt viðurkennt fólk í dag telur vera óviðeigandi orðalag, getur verið viðeigandi á morgun. Forsjárhyggjumenn eru alls ekki alvitrir.

Þegar góðviljuð forsjárhyggja og hrein lýðræðishyggja stangast á, ber okkur að taka lýðræðið fram yfir. Við eigum að taka úr notkun lagagreinar, sem takmarka svigrúm manna til að tjá sig á hvaða hátt, sem þeir vilja, enda eru þær aðeins notaðar með höppum og glöppum.

Ef 233. grein hegningarlaga væri almennt notuð, ef ákæruvaldið kærði almennt út af henni, ef dómarar dæmdu almennt á þann hátt, sem gert var í umræddu máli, væri risið hér á landi sérkennilegt ríki skoðanakúgunar, sem ekki stenzt forsendur lýðræðis.

Við ættum heldur að hafa í heiðri orð Voltaires, sem sagði: “Ég fyrirlít skoðanir þínar, en er reiðubúinn að fórna lífinu fyrir rétt þinn til að halda þeim fram.”

Jónas Kristjánsson

DV