Skjálftar heims og lands

Greinar

Við lifum á mestu brotatímum mannkynssögunnar. Hálfri öld eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar er aftur farið að hrikta í heimsmálunum. Heimsveldi eru að koma og fara, gömul bandalög að riðlast og ný að myndast. Allt hefur verið á hverfanda hveli í einn áratug og verður svo annan áratug enn.

Skjálftavirkni mannkynssögunnar varðar hagsmuni Íslendinga. Hún breytir eðli samtaka, sem við tökum þátt í, og samtaka, sem við höfum ekki tekið þátt í. Hún raðar viðskiptalöndum okkar upp á nýjan hátt, skapar okkur tækifæri og spillir tækifærum okkar. Umhverfi okkar síbreytist hratt.

Landinu hefur lengi verið stjórnað af heimalningum úr lögfræðideild Háskólans, tregmæltum á erlenda tungu og áhugalitlum um hræringar umheimsins. Þeir búa í sérstöku sólkerfi, þar sem sólin heitir Davíð og þar sem verðmætasköpun felst í reikningum fyrir ráðgjafarstörf.

Starfs síns vegna er utanríkisráðherra eini ráðherrann, sem seint og um síðir er farinn að átta sig á jarðskjálftunum í umhverfinu. Þroskasaga hans hefur samt verið svo hæg, að hann áttaði sig ekki á mikilvægi Evrópusambandsins fyrr en það var búið að taka Austur-Evrópu fram fyrir Ísland.

Eftir hálfrar aldar friðsælu kalda stríðsins hófst skjálftatímabilið með hruni Sovétríkjanna og Varsjárbandalagsins fyrir réttum áratug. Bjartasta efnahagsvon Asíu hvarf síðan um aldamótin, þegar Japan missti fótanna í fjármálum. Á sama tíma varð Evrópa að nýju að efnahagslegum risa.

Nýjasti skjálftinn er tilkall Bandaríkjanna á þessum vetri til heimsyfirráða. Þau hafna föstum bandamönnum öðrum en Ísrael, hafna fjölþjóðasamningum, heyja stríð og hóta að heyja fleiri slík, og neita kerfisbundið að láta takmarka á nokkurn hátt svigrúm sitt til aðgerða um allan heim.

Allir þessir skjálftar og margir smærri hafa áhrif á tilveru og afkomu Íslendinga, þótt þjóðin sé nú nær hjara veraldar en hún var á blómaskeiði kalda stríðsins. Umhverfi viðskipta, efnahags og hernaðar er orðið breytt og verður innan skamms gerbreytt frá dögum kalda stríðsins.

Einu sinni voru Bandaríkin stærsta viðskiptaland okkar og einu sinni var Japan bjartasta útflutningsvon okkar. Hvort tveggja er liðin tíð. Smám saman hefur Vestur-Evrópa mjakast í þá stöðu að skila okkur öllum þorra útflutningsteknanna, án þess að landsfeður okkar hafi áttað sig.

Áður en skjálftavirknin hófst fyrir rúmum áratug var Atlantshafsbandalagið hornsteinn að tilveru okkar. Nú stefnir allt í óefni hjá því bandalagi, því að Bandaríkin eru á hraðri siglingu frá Evrópu sem bandamanni, af því að Evrópa mun harðneita að taka við tilskipunum hernaðarrisans.

Evrópa hefur sérhæft sig í hægfara útþenslu til austurs og efnahaglegum framförum, hægum að vísu, en þó hraðari en í Bandaríkjunum að undanförnu. Jafnframt hefur Evrópa orðið að hernaðarlegum dvergi, sem getur ekki tekið og vill ekki taka marktækan þátt í heimsvaldabaráttu.

Evrópa og Bandaríkin munu á þessum fyrsta áratug nýrrar aldar í auknum mæli reyna að sinna hernaðarlegum þörfum sínum utan Atlantshafsbandalagsins til að forðast árekstrana, sem þar verða óhjákvæmilegir. Evrópusambandið mun sjálft yfirtaka staðbundnar stríðsþarfir.

Undir stjórn heimalninganna ratar Ísland í þá stöðu að halda stíft í gamla hornsteina á borð við Atlantshafsbandalagið og Evrópska efnahagssvæðið, sem bila í jarðskjálftum heimsmálanna.

Jónas Kristjánsson

FB

Dr. Jekyll er Mr. Hyde

Greinar

Persaflóastríðinu lauk aldrei. Bush eldri lýsti yfir sigri og skildi uppreisnarmenn í Írak eftir í klóm Saddam Hussein árið 1991. Síðan hefur forseti Íraks ögrað forsetum Bandaríkjanna hverjum á fætur öðrum. Nú er komið að málalokum. Bush yngri hyggst loksins ljúka verki föður síns.

Erfitt er að mæla gegn slíku. Saddam Hussein er sem fyrr hættulegur umhverfinu og reynir að safna fjöldaslátrunarvopnum. Hann er að vísu fastari í sessi en Talibanar í Afganistan, en á þó við að etja eins konar ígildi Norðurbandalags í minnihlutahópum Kúrda í norðri og Sjíta í suðri.

Margir efast um, að Bandaríkin geti reitt sig á mikinn stuðning innan Íraks eftir ófarirnar 1991. Við verðum þó fremur að treysta mati bandarískra herstjóra á stöðunni. Þeir virðast telja sig geta velt Saddam Hussein úr sessi án teljandi mannfórna af sinni hálfu og án mikils mannfalls almennings.

Fyrirhuguð styrjöld Bandaríkjanna við Saddam Hussein Íraksforseta er ekki framhald stríðs þeirra við Talibana og al Kaída í Afganistan. Engin gögn benda til, að Saddam Hussein tengist hryðjuverkum þeirra á Vesturlöndum. Þvert á móti hefur hann haldið sig til hlés um langt árabil.

Ef menn vilja styðja fyrirhugaða árás á Saddam Hussein, geta þeir ekki gert það með tilvísun til aðildar hans að hryðjuverkum á Vesturlöndum. Hún verður aðeins studd þeim rökum, að hún sé eðlilegt framhald af stríði, sem menn létu undir höfuð leggjast að ljúka fyrir einum áratug.

Hitt er svo annað og verra mál, að heimurinn er allt annar en hann var fyrir áratug og raunar allt annar en hann var fyrir hryðjuverkin á Manhattan og í Pentagon í haust. Bandaríkin hafa breytzt. Þau eru orðin að einráðu heimsveldi, sem fer sínu fram án nokkurs tillits til bandamanna sinna.

Þessi breyting hófst fyrir valdatöku Bush yngri og magnaðist eftir hana. Bandaríkin hafa um nokkurt skeið neitað að taka á sig nokkrar alþjóðlegar skuldbindingar til þess að takmarka ekki svigrúm sitt. Bandaríkin hafa tekið við af Sovétríkjunum sálugu sem afl hins illa í heiminum.

Bandaríkin eru nánast að hætta stuðningi við þróunarlöndin og greiða ekki hlut sinn af kostnaði Sameinuðu þjóðanna. Þau undirrita ekki samninga um jarðsprengjubann og efnavopnaeftirlit. Þau hafna alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum og takmörkunum á útblæstri eiturefna.

Raunar ákvað Bush Bandaríkjaforseti í lok síðustu viku að auka útblástur eiturefna eins mikið á þessum áratug og Evrópa hefur tekið að sér að minnka hann á sama tíma. Eiginhagsmunastefna Bandaríkjanna er orðin svo eindregin, að hún er orðin að mestu ögrun mannkyns á nýrri öld.

Með sigrinum í Afganistan fundu Bandaríkin hernaðarmátt sinn og megin. Með auknum stuðningi við hryðjuverkaríkið Ísrael hafa Bandaríkin myndað nýjan öxul hins illa í heiminum, studdan nýjum leppríkjum á borð við Pakistan, sem er ein mesta gróðrarstía hryðjuverka í heiminum.

Evrópa á ekki heima í þessu bandalagi og er farin að átta sig á hinni nýju og alvarlegu stöðu heimsmála. Hver ráðamaður Evrópu á fætur öðrum er farinn að stinga við fótum, Chris Patten, Hubert Vedrine og Joschka Fischer. Menn eru farnir að sjá Dr. Jekyll breytast í Mr. Hyde.

Í ljósi þess, að það eru Bandaríkin og Bush miklu fremur en Írak og Saddam Hussein, sem eru hættuleg umheiminum, má Evrópa alls ekki láta flækja sig í nýtt ofbeldi af hálfu Bandaríkjanna.

Jónas Kristjánsson

FB

Þeir töluðu ekki við mig

Greinar

Er samgönguráðherra var spurður álits á brotthvarfi lággjaldaflugfélagsins Go af íslenzkum markaði, sagði hann: “Þeir töluðu ekki við mig.” Að baki orðanna er sú skoðun, að ráðamenn Go hefðu átt að skríða fyrir ráðherranum og væla út afslætti af gjöldum á Keflavíkurvelli.

Á Vesturlöndum tíðkast ekki það þriðja heims siðferði, að rekstur fyrirtækja sé háður fyrirgreiðslum úr stjórnarráði. Þar er talið skaðlegt, að pólitísk sambönd séu meira virði en hefðbundin rekstrarlögmál. Hér á landi ríkis hins vegar þriðja heims siðferði í ráðuneytum.

Sturla Böðvarsson er gróft dæmi um skaðlegan þriðja heims stjórnmálamann. Með fyrirgreiðslum til innlendra gæludýra kom hann í veg fyrir, að almenningur gæti notið ódýrs millilandaflugs í daglegri áætlun. Síðan vildi hann, að ráðamenn Go kæmu og flöðruðu upp um sig.

Annað dæmi um þriðja heims siðferði ráðherrans er 150 milljón króna sjóður, sem hann hefur komið upp í ráðuneytinu til að styrkja markaðssetningu gæludýra í ferðaþjónustu. Ekki var skipuð nein fagleg nefnd til að úthluta þessu fé, heldur ætlar hann að gera það sjálfur.

Samkvæmt vestrænum siðum ber stjórnvöldum að smíða heildarramma, sem henta fyrirtækjum almennt, en ekki stunda sértækar aðgerðir í þágu valinna fyrirtækja. En siðalögmál eiga ekki upp á pallborðið hjá ráðherrum, sem hafa valdamenn frá Afríku sér til fyrirmyndar.

Þannig hefði samgönguráðherra getað notað 150 milljónirnar til að búa svo um hnútana, að flugstöð Leifs Eiríkssonar væri samkeppnishæf við erlendar flughafnir í þjónustu við flugfélög almennt í stað þess að nota peningana til að borga mönnum fyrir að smjaðra fyrir sér.

Ef Keflavíkurflugvöllur væri samkeppnishæfur við flugvelli í Evrópu, mundi samkeppni flugfélaga aukast og ferðamönnum fjölga. Þetta skiptir ráðherrann og ríkisstjórnina engu máli í samanburði við möguleika þeirra á að láta mola hrjóta af allsnægtaborði til gæludýra.

Þriðja dæmið um afríkönsk vinnubrögð ráðherrans er 10 milljón króna styrkur til eins erlends flugfélags til að fljúga frá Evrópu til Egilstaða á háannatíma sumarsins. Þessi fyrirgreiðsla flokkast undir byggðastefnu og hlaut því náð hins sértæka ráðherra, sem hafnaði Go.

Sturla Böðvarsson hefur líka lagt sig í líma við að koma á vægari reglum um heilsufar flugmanna en tíðkast annars staðar í Evrópu og tíðkuðust hér á landi fyrir valdatöku hans. Afleiðingin er, að ferðabransinn í heiminum telur flug á Íslandi hættulegra en annað flug á Vesturlöndum.

Í þessum verkum ráðherrans og mörgum fleirum kemur fram skýr lína: Hlutverk hans er ekki að búa til almennan ramma fyrir heilbrigðan rekstur á sviði samgangna og ferðaþjónustu, heldur að efna til slefandi biðraða væntanlega gæludýra fyrir utan skrifstofu ráðherrans.

Þetta kann að styðja sjálfsmynd lélegs ráðherra, sem hefur hvað eftir annað misstigið sig á stuttum ferli og nýtur stuðnings flugmálastjóra, sem álítur meginhlutverk sitt felast í að friða ráðherrann. Hún er hins vegar skaðleg málaflokki ráðuneytisins og þjóðfélaginu í heild.

Afríkanskrar embættisfærslu að hætti samgönguráðherra verður vart víðar í stjórnkerfinu, þótt komið sé fram á nýja öld og enginn efist lengur um skaðsemi hennar í smáu og stóru.

Jónas Kristjánsson

FB

Annars flokks borgarar

Greinar

Reykvíkingar og aðrir íbúar höfuðborgarsvæðisins eru annars flokks borgarar í landinu. Ríkisvaldið er á ýmsa vegu misnotað gegn þessu fólki. Vegur þar þyngst eindregin byggðastefna núverandi stjórnvalda, einkum í vegagerð og flutningi opinberra stofnana af svæðinu.

Ráðherrum Sjálfstæðisflokksins hefur ekki verið falið að reyna að kúga Reykvíkinga til að kjósa flokkinn í borgarstjórn í von um betra veður af hálfu ríkisstjórnarinnar, þótt einstakir ráðherrar kunni stundum að blindast af hatri á núverandi valdhöfum borgarinnar.

Hættulegt væri að reyna að kúga Reykvíkinga til að kjósa rétt, því að aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn höfuðborgarsvæðinu koma jafnmikið niður á nágrannabyggðum Reykjavíkur, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er víða við völd, ýmist einn sér eða í samfloti með öðrum flokkum.

Hitt er hins vegar rétt, að flokkar ríkisstjórnarinnar telja sér útlátalaust að níðast á höfuðborgarsvæðinu og íbúum þess. Ráðherrarnir mundu ekki haga sér eins og þeir gera, ef kjósendur létu flokka þeirra gjalda fyrir að gera þá að annars flokks borgurum í landinu.

Aldrei hefur verið sett fram sannfærandi skýring á geðleysi Reykvíkinga og annarra íbúa höfuðborgarsvæðisins gagnvart ríkisvaldinu. Ef til vill hafa þeir hreinlega keypt kenningar um, að þeir séu sjálfir eins konar úrhrök íslenzkrar þjóðmenningar og eigi ekki betra skilið.

Við hverja breytingu kjördæmaskipunarinnar hefur verið reiknað með, að aukinn þingstyrkur suðvesturhornsins mundi draga úr ofbeldi hins opinbera. Sú hefur ekki orðið raunin. Þingmenn svæðisins hafa möglunarlítið leyft stjórnvöldum að valta fram og aftur yfir kjósendur sína.

Næst verða þingmenn höfuðborgarsvæðisins helmingur allra þingmanna í landinu. Enn eru uppi vonir um, að ný tilfærsla leiði til óhlutdrægari viðhorfa stærstu stjórnmálaflokkanna í garð íbúanna á svæðinu, enda eru þeir mikill og vaxandi meirihluti kjósenda í landinu.

Ekkert bendir þó enn til, að kjósendur á höfuðborgarsvæðinu hyggist láta stjórnmálaflokka taka afleiðingum gerða sinna gegn svæðinu. Við munum því áfram þurfa að sæta ráðherrum á borð við núverandi samgönguráðherra og núverandi iðnaðar- og stóriðjuráðherra.

Sturla Böðvarsson er dæmigerður fulltrúi aflanna, sem kjósendur í Reykjavík efla til valda í landinu. Hann leggur sig í líma við að hindra brýnustu samgöngumannvirki í Reykjavík til að eiga fyrir jarðgöngum úti á landi, þvert gegn sjónarmiðum um arðsemi og umferðaröryggi.

Það er ekki bara hagsmunamál suðvesturhornsins að koma frá völdum þeim þingmönnum, sem stuðlað hafa að ráðherradómi hatursmanna höfuðborgarsvæðisins, heldur er það líka þjóðarmál, að höfuðborgarsvæðið sé samkeppnishæft við erlenda segla atgervis og peninga.

Höfuðborgarsvæðið er eini staðurinn á landinu, sem getur keppt við útlenda staði um atgervi og peninga á tímum hnattvæðingar. Því er beinlínis þjóðhagslega hagkvæmt, að íbúar svæðisins láti hið bráðasta af geðleysi sínu og bíði færis að reka þingmenn sína úr starfi.

Kjósendur á höfuðborgarsvæðinu þurfa að velja sér allt aðra og betri þingmenn, sem tryggja þjóðinni afturhvarf frá öllum þáttum hinnar skaðlegu byggðastefnu núverandi stjórnvalda.

Jónas Kristjánsson

FR

Fjölmenning er slagorð

Greinar

Dæmi nágrannaþjóða sýna, að hægara er sagt en gert að taka við nýbúum hér á landi. Góðan vilja þarf að tempra með raunsæi til að vel fari. Sérstaklega þarf að fara varlega við að nota góðviljuð og eldfim slagorð á borð við fjölmenningu, sem geta valdið bakslagi.

Annars vegar rísa ofbeldishneigðir skallabulluhópar fordóma gegn nýbúum og hins vegar þróast mafíuhópar nýbúa á skjön við siði og reglur nýja landsins. Við eigum að vita þetta allt af skelfilegum dæmum frá löndum á borð við Danmörku, Svíþjóð og Austurríki.

Mikilvægt er, að allir nýbúar í landinu hafi á hreinu, að lög og reglur nýja landsins gildi, en ekki landsins, sem flúið var. Þannig gengur ekki hér á landi að líta á kvenfólk sem hluta af dýraríkinu, þótt það sé gert í ýmsum illa stýrðum löndum, sem fæða af sér flest flóttafólkið.

Þetta þýðir, að konur í hópi nýbúa hafa sama frelsi og sömu skyldur og aðrar konur landsins. Ekki má láta þær giftast fyrr en aðrar konur og feður þeirra hafa engan refsingarétt yfir þeim. Hér eru glæpir og refsing ekki mál stórfjölskyldunnar, heldur sérstakra stofnana.

Þegar nýbúar vilja koma til landsins, er mikilvægt, að þeir séu sem allra fyrst og helzt fyrirfram fræddir um ýmsa viðkvæma þætti, sem eru öðru vísi hér á landi en í heimalandi þeirra. Þeir séu fyrirfram látnir vita, að illa fari, ef þeir vilja ekki þola lög og reglur nýja landsins.

Einnig er mikilvægt, að sem auðveldast og ódýrast sé gert fyrir þá að læra íslenzku, svo að þeir verði gjaldgengir á almennum og opnum vinnumarkaði. Ef nýbúar ganga atvinnulausir eða lokast inni á afmörkuðum atvinnusviðum lágstétta, er hætt við að illa fari til lengdar.

Mikilvægt er að gera greinarmun á tungumálarétti nýbúa og gamalgróinna minnihlutahópa. Kúrdar á Tyrklandi og Baskar á Spáni hafa aldagróinn rétt til að læra í opinberum skólum á sínu tungumáli, en nýbúar verða að gera svo vel að læra á tungu nýja landsins.

Þegar Íslendingar gerðust nýbúar í Kanada fyrir rúmri öld, tóku þeir því sem hverri annarri nauðsyn að læra ensku til að geta komizt áfram í nýja heiminum. Þeir létu sér ekki detta í hug, að ríkisvaldið mundi útvega þeim kennslu á íslenzku og töldu það enga skerðingu mannréttinda.

Hins vegar er mikilvægt, að ríkið greiði kostnað við varðveizlu tungumála nýbúa og stuðli á annan hátt að varðveizlu menningarsérkenna úr upprunalegum heimkynnum þeirra, svo sem trúarbrögðum, tónlist, klæðaburði og matreiðslu. Í því felst raunsæ fjölmenningarstefna.

Vafasamt er til dæmis að banna ákveðinn klæðaburð kvenna í skólum, ef þær telja hann vera hluta af trúarlífi sínu. Frakkar og Tyrkir hafa reynt að banna slæður kvenfólks, en ekki haft árangur sem erfiði. Við þurfum að læra af þessari reynslu eins og annarri slíkri.

Ef skynsamlega og raunsætt er staðið að þátttöku nýbúa í þjóðfélaginu eru um leið dregnar vígtennur úr lýðskrumurum á borð við þá, sem slegið hafa pólitískar keilur í Danmörku og Austurríki út á ótta heimafólks við framandi nýbúa og jafnvel komizt til pólitískra valda.

Nánast öllum ríkjum Evrópu hefur mistekizt meðferð mála nýbúa. Mikilvægt er, að við lærum af mistökum annarra og látum raunsæi ýta vel meintum slagorðum til hliðar.

Jónas Kristjánsson

FB

Ísland má ekki trufla

Greinar

Utanríkisráðherra hefur komizt að raun um það, sem hann grunaði, að Evrópusambandið hefur engan áhuga á að uppfæra samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Sambandið er svo önnum kafið við að melta Austur-Evrópu, að það vill ekki láta Ísland trufla sig á næstu árum.

Þar sem flest mikilvægustu ríki Evrópska efnahagssvæðisins eru þegar gengin í Evrópusambandið, er restin af svæðinu ekki lengur í fókus sambandsins. Við fáum ekki tækifæri til að koma hagsmunum okkar á framfæri, þegar Austur-Evrópa gengur í sambandið.

Þetta spillir væntingum um sölu sjávarafurða til uppgangsþjóða Austur-Evrópu. Í stað fyrra tollfrelsis munu sjávarafurðir okkar sæta háum tollum á þeim slóðum. Það verður eitt skýrasta dæmið um tjón okkar af þvermóðsku íslenzkra stjórnvalda gegn Evrópusambandinu.

Með því að neita að taka umsókn um aðild að Evrópusambandinu á dagskrá hefur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tekizt að tefja málið svo lengi, að viðræður sambandsins við Austur-Evrópu eru komnar fram fyrir viðræður við Ísland. Við verðum því úti í kuldanum mörg ár í viðbót.

Þegar Austur-Evrópa er komin í sambandið, verður það orðið að breyttri stofnun með ný og erfið verkefni, sem draga úr getu þess og vilja til að taka milda afstöðu til hagsmuna smáríkis, sem seint og um síðir beiðist inngöngu. Þessi staða er stærsta afrek núverandi ríkisstjórnar okkar.

Við þurfum samt ekki að örvænta, því að þýðendur íslenzkra ráðuneyta munu áfram sitja með sveittan skallann við að snara evrópskum reglum yfir á íslenzku. Það er í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, að reglur sambandsins gildi líka á Íslandi.

Flestar þessar reglur eru gagnlegar. Þær stuðla yfirleitt að fastari reglum um málefnalega stjórnsýslu hér á landi og gæta yfirleitt hagsmuna lítilmagnans gegn þeim, sem völdin hafa og dýrðina. Við höfum þegar séð feiknarlega góð áhrif Evrópusambandsins á íslenzka dómstóla.

Þar sem við erum utan sambandsins, höfum við ekki aðstöðu til að spyrna við fótum í tæka tíð, þegar með reglugerðunum slæðast ákvæði, sem henta verr á Íslandi en á meginlandi Evrópu vegna misjafnra hefða, til dæmis meiri áherzlu á skorpuvinnu og unglingavinnu hér á landi.

Það var einmitt með tilliti til slíkrar sérstöðu, að Svíar ákváðu að ganga í Evrópusambandið til að hafa innan þess áhrif á gang mála, áður en þau yrðu að formlegum reglum. Við verðum hins vegar að sætta okkur við að taka pakkana frá Evrópu eins og þeir koma af skepnunni.

Þessi staða skerðir fullveldi okkar meira en full aðild að sambandinu mundi gera. Enda mun forsætisráðherra reynast erfitt að telja þjóðinni trú um, að henni hafi tekizt betur að varðveita fullveldi sitt utan sambandsins en ríkjum á borð við Danmörku hefur tekizt að gera innan þess.

Of seint er að harma það, sem liðið er. Við þurfum hins vegar að gera okkur grein fyrir, að inntökuskilyrði sambandsins verða strangari árið 2010 en þau voru 1995. Sambandið mun framvegis hafa minna svigrúm til að taka tillit til séríslenzkra hagsmuna en það hafði áður.

Við fáum hins vegar engu breytt um þá staðreynd, að viðskipti okkar og hagsmunir liggja í löndum stækkaðs Evrópusambands langt umfram Norður-Ameríku og þriðja heiminn.

Jónas Kristjánsson

FB

Leppríki Ísraels

Greinar

Íran á ekki heima á því, sem bardagaglaður Bush Bandaríkjaforseti nefnir “illan öxul” frá Írak til Norður-Kóreu. Afturhaldsöfl klerkastéttar og lýðræðisöfl forseta Írans takast á um völdin í landinu. Við þær aðstæður er mikilvægt, að ekki sé verið að stimpla ríkið sem óargadýr.

Það er hreinn tilbúningur Bandaríkjastjórnar, að Íran hafi komið Talibönum og liðsmönnum al Kaída undan sigurvegurum stríðsins í Afganistan. Íran hefur alltaf verið andvígt báðum þessum öflum af trúarástæðum og var næstum komið í stríð við Talibana fyrir þremur árum.

Talibanar og liðsmenn al Kaída flúðu hins vegar til Pakistans, þar sem þeir eiga öruggt griðland, þar á meðal helztu liðsoddarnir. En Pakistan er í bandalagi við Bandaríkin, svo að ekki má tala um þá staðreynd, heldur skella skuldinni á Íran, sem ekki kemur neitt við sögu í málinu.

Íran hefur hins vegar stutt uppreisnarhópa gegn hernámi Ísraels í Suður-Líbanon og Palestínu, meðal annars með hergögnum. Þetta er eðlilegur stuðningur við þrautkúgað fólk og felur ekki í sér ógnun við Vesturlönd eða Bandaríkin, aðeins við hryðjuverkaríkið Ísrael.

Staðreyndin er sú, að það er Ísrael, sem hefur komið Íran á lista Bandaríkjastjórnar yfir þrjú hættulegustu ríki heimsins, hinn illa öxul frá Írak til Norður-Kóreu samkvæmt orðalagi Bush Bandaríkjaforseta. Hagsmunir Ísraels ráða þessu, en ekki hagsmunir Bandaríkjanna.

Ísrael hefur hreðjatök á utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Enginn forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum þorir að láta hjá líða að lýsa yfir eindregnum stuðningi við Ísrael. Og enginn getur náð sæti á Bandaríkjaþingi gegn andstöðu þrýstihópanna, sem gæta hagsmuna Ísraels.

Þessir þrýstihópar stuðningsmanna Ísraels eru svo öflugir í Bandaríkjunum, að enginn stjórnmálamaður kemst til áhrifa þar í landi án þess að fylgja þeim að málum. Víðast annars staðar væru þetta talin landráð, en í Bandaríkjunum virðast kjósendur vera sáttir.

Hér er ekki rúm til að skýra, hvernig stuðningsmenn lítils hryðjuverkaríkis hafa komizt í þá stöðu að stjórna utanríkisstefnu Bandaríkjanna og tefla því á brún styrjaldar við ríki, sem hefur það eitt sér til saka unnið að styðja þrautkúgað fólk á hernámssvæðum Ísraels.

Afleiðingarnar eru hins vegar ljósar. Bandaríkjastjórn er svo upptekin af þjónustu við hagsmuni Ísraels, að hún fórnar í staðinn hagsmunum sínum af góðu samstarfi við Evrópu, til dæmis í Atlantshafsbandalaginu, og bakar sér almennt hatur fólks í löndum íslamskrar trúar.

Blind þjónusta Bandaríkjanna við hagsmuni lítils hryðjuverkaríkis hefur leitt til aukinna áhrifa laustengdra hryðjuverkahópa á borð við al Kaída, sem eiga einkum trúarlegar rætur sínar í Sádi-Arabíu, en ekki í Íran, og beina spjótum sínum gegn Bandaríkjunum.

Hryðjuverkin á Manhattan og árásin á Afganistan eru þættir í vítahring, sem byggir tilveru sína á því, að Bandaríkin hafa hafnað evrópskum sjónarmiðum í garð íslams og leggja utanríkisstefnu sína í sölurnar fyrir eitt mesta vandræðaríki heims um þessar mundir.

Segja má, að rófan sé farin að veifa hundinum of hastarlega, þegar Bandaríkin koma fram á alþjóðavettvangi sem leppríki Ísraels og eru í því hlutverki farin að stofna heimsfriðnum í voða.

Jónas Kristjánsson

FB

Glæpagengi úthýst

Greinar

Vítisenglar, sem komu til landsins fyrir helgi, fengu rétta meðferð lögreglunnar. Umsvifalaust var vísað til baka þeim, sem höfðu verstu glæpina á samvizkunni. Hinir, sem minna höfðu brotið af sér, voru hafðir undir eftirliti, unz úrskurður fékkst um, að einnig mætti vísa þeim úr landi.

Vítisenglar eru einn af mörgum hópum vestrænna glæpamanna, sem eru okkur miklu hættulegri en íslamskir hryðjuverkamenn á borð við Talibana og al Kaída. Vítisenglar eru ein af svokölluðum mafíum Vesturlanda, sem grafa undan þjóðfélaginu með skipulögðum glæpum.

Íslamskir hryðjuverkahópar hafa lítinn áhuga á Íslandi. Landið er of lítið og afskekkt fyrir fréttnæm hryðjuverk. Þar á ofan er það í Evrópu, sem ekki telst lengur hinn sami djöfull og Bandaríkin eru í augum margra múslima eftir langvinnan og eindreginn stuðning þeirra við Ísrael.

Sem betur fer hefur linnt gömlu sambandi Íslands og Ísraels. Því harðskeyttara hryðjuverkaríki, sem Ísrael hefur orðið á síðustu áratugum, þeim mun meira hefur það fjarlægzt okkur. Kúgaðir og niðurlægðir Palestínumenn njóta vaxandi samúðar hér á landi og það vita múslimar.

Við þurfum samt að gæta okkar, ekki á austrænum ofsatrúarmönnum, heldur á vestrænum glæpamönnum, sem hvað eftir annað hafa reynt að teygja anga sína til Íslands. Einna oftast hafa Vítisenglar reynt að koma sér fyrir hér á landi með aðstoð íslenzkra meðreiðarsveina.

Fleiri gengi eru hættuleg en Vítisenglar, sem hafa þann Akkillesarhæl að ganga í auðþekktum einkennisbúningum og bera augljós líkamslýti. Flestar mafíur senda hingað borgaralega klædda menn, sem ekki stinga í stúf við hversdagslega ferðamenn eða kaupsýslumenn.

Viðfangsefni þessara glæpamanna er hið sama, hvort sem þeir bera húðmerki, sólgleraugu eða engin sérkenni. Þeir reka nætur- og nektarklúbba með tilheyrandi vændi. Þeir reka spilavíti. Þeir selja ólögleg fíkniefni. Þeir fylla einfaldlega í eyður þess, sem bannað er eða fordæmt.

Einfaldasta leiðin til að kippa fótunum undan rekstri ýmiss konar glæpasamtaka er að lögleiða vændi og spilavíti og hefja ríkissölu á ólöglegum fíkniefnum, rétt eins og hinum löglegu, það er að segja áfengi og læknalyfjum. Þar með hefðu mafíur ekkert upp úr sér hér á landi.

Munurinn á vestrænum mafíum og austrænum ofsatrúarhópum er, að hinir fyrrnefndu ganga fyrir peningum og sækja þangað, sem þá er að hafa. Meðan við höfum boð og bönn, sem gefa kost á fjárhagslegri neðanjarðarstarfsemi, þurfum við að hreinsa landið með lögregluvaldi.

Versta einkenni glæpahópanna er, að þeir flytja með sér sérstæðar siðareglur, sem stinga í stúf við hefðbundnar siðareglur. Þeir mynda eins konar ríki í ríkinu, þar sem gilda önnur lög en gilda í þjóðfélaginu almennt. Þannig grafa þeir undan samfélaginu og eitra það að innan.

Við þurfum að nýta til fulls samstarfið í Schengen, Europol og Interpol til að hindra landgöngu fólks, sem á aðild að skipulögðum glæpasamtökum. Jafnframt þurfum við að finna leiðir til að koma aftur á vegabréfaskoðun, þrátt fyrir ákvæði Schengen-samkomulagsins um vegabréfalausar ferðir milli landa.

Samræmdar aðgerðir löggæzlunnar gegn Vítisenglum í síðustu viku sýna sem betur fer fullan vilja á að varðveita lög og rétt hér á landi.

Jónas Kristjánsson

FB

Hroki og silfurskeið

Greinar

Reykvíkingar eiga dapurra kosta völ í borgarstjórnarkosningunum í sumar. Stóru fylkingarnar hafa ákveðið að láta þær eingöngu snúast um sterka leiðtoga, sem muni heyja einvígi í kosningabaráttunni. Vafalaust telja hönnuðir baráttunnar, að það henti ófullveðja kjósendum.

Annars vegar er boðin endurnýjuð leiðsögn borgarstjóra, sem hefur fengið átta ár til að þróa með sér hrokann, er greinilega sést í orðahnippingum í sjónvarpi. Miklar vinsældir borgarstjórans í könnunum sýna, að Reykvíkingum hentar að lúta vilja hins sterka leiðtoga.

Gegn þessu er borgarbúum boðinn ættarlaukur, sem fæddur er með silfurskeið í munni og fær vegsemdir sínar á silfurfati. Frægasta silfurfatið er það síðasta, þegar hann gat mánuðum saman ekki ákveðið sig og þurfti flókna hönnun atburðarásar til að verða borgarstjóraefni.

Fylkingarnar hafa ákveðið að fela óbreytta frambjóðendur bak við leiðtogana, enda sýna skoðanakannanir, að nánast undantekningarlaust eru venjulegir borgarfulltrúar með allra óvinsælustu mönnum. Pólitíkusar í landsmálum mælast ekki eins hrapallega og þeir.

Í þriðju og minnstu sveit fara fulltrúar hinna vansælu, sem bjóða öllum ófullnægðum sérhagsmunum faðminn, hversu ólíkir og andstæðir sem þeir eru innbyrðis. Þetta er dæmigert einna kosninga framboð, sem getur auðveldlega komizt í oddaaðstöðu á næsta kjörtímabili.

Litlu skiptir, hverjir sigra í sumar. Reykjavíkurlistinn hefur á átta árum sýnt fram á, að völd hans jafngilda ekki móðuharðindum. En hann hefur ekki sýnt fram á, að merkjanlegur munur sé á honum og Sjálfstæðisflokknum, enda eru borgarmál fremur tæknileg en pólitísk.

Í rauninni eru það embættismenn, sem ráða borginni. Á nefndafundum hafa þeir algera yfirburði yfir dáðlitla borgarfulltrúa, sem ekki hafa neitt tæknivit, en hafa þeim mun meiri áhuga á fyrirgreiðslum. Embættismenn matreiða upplýsingar ofan í pólitíska nefndarmenn.

Skipulagsnefnd borgarinnar er dæmi um þetta ójafnræði, þar sem illa upplýstir borgar- og varaborgarfulltrúar hafa smám saman fengið það vanþakkláta hlutverk að verja misvitrar ráðstafanir embættismanna, sem sumir hverjir telja sig eiga borgina með húð og hári.

Lína-Net er málið, sem helzt gæti leitt til hreins meirihluta annarrar af stóru fylkingunum. Ef stuðningsmönnum þess tekst að sýna fram á, að vit sé í skýjaborgunum, fá þeir bónus hjá borgarbúum, annars fá andstæðingarnir bónus. Á þessu stigi er ekki hægt að spá niðurstöðunni.

Úrslit kosninganna gætu haft skemmtileg hliðaráhrif á landsmálin, ef núverandi meirihluti og Ólafur læknir sameinast um nýjan meirihluta, sem ákveður, að fulltrúar borgarinnar í Landsvirkjun vinni gegn Kárahnjúkavirkjun og magni þar með mikil vandræði málsins.

Líkur eru þó á, að flestir borgarbúar velji milli dálætis síns á hrokafulla borgarstjóranum annars vegar og borgarstjóraefninu með silfurskeiðina og silfurfatið hins vegar. Málefni á borð við Línu-Net munu falla í skugga forgangsröðunar kjósenda á slíkum mannkostum leiðtoganna.

Niðurstaðan er augljós. Stjórnmálamenn koma og fara, en misvitrir embættismenn sitja sem fastast, þrautþjálfaðir í að matreiða upplýsingar ofan í fáfróða borgarfulltrúa.

Jónas Kristjánsson

FB

Einstök Ameríka

Greinar

Meðferð stríðsfanga Bandaríkjanna á Kúbu er orðin frambærileg samkvæmt upplýsingum Rauða krossins. Furðuleg myndskeið, sem ollu gagnrýni í Evrópu, voru framleidd af bandaríska hernum fyrir bandaríska fjölmiðlaneytendur, sem hrópuðu á hefnd fyrir hryðjuverk.

Annars vegar höfum við kröfuna um, að Bandaríkin fari eftir alþjóðasáttmálum, sem þau hafa undirritað, og hins vegar kröfu bandarískra kjósenda um, að herinn hefni sín á óbreyttum hermönnum fyrir hryðjuverk, sem týndir forustumenn þeirra létu fremja í Bandaríkjunum.

Alþjóðasáttmálar um meðferð stríðsfanga eru gamlir og hafa lifað af tvær heimsstyrjaldir. Bandaríkjamenn eru á þessu sviði sem ýmsum öðrum komnir út á hálan ís. Viðhorf þeirra til umheimsins eru ekki til þess fallin að skapa frið um Bandaríkin í náinni og fjarlægri framtíð.

Bandaríkin eru hætt að undirrita alþjóðlega sáttmála og eru þar ýmist ein á báti eða í miður skemmtilegum félagsskap örfárra ríkja á borð við Jemen og Súdan. Þar á ofan neitar þingið að staðfesta um 60 fjölþjóðasáttmála, sem fulltrúar Bandaríkjanna höfðu áður undirritað.

Bandaríkin eru eina landið í heiminum, sem ekki er aðili að Kyoto-bókuninni um útblástur mengunar. Þau neita að undirrita bann við framleiðslu og sölu jarðsprengja, sem í þriðja heiminum hafa valdið takmarkalitlum þjáningum barna, er kunna fótum sínum ekki forráð.

Bandaríkin neita að skrifa undir hert eftirlit með framleiðslu efnavopna, af því að þau vilja ekki þrengja svigrúm sitt á því sviði, eins og þau vilja ekki þrengja svigrúm sitt til að framleiða, selja og nota jarðsprengjur. Þau vilja yfirleitt alls ekki skerða fullveldi sitt á neinn hátt.

Bandaríkin stunda viðskiptaþvinganir gegn nærri helmingi ríkja heimsins. Sem betur fer er sameinuð Evrópa svo sterk, að Bandaríkin geta ekki náð fram vilja sínum þar. En fátækar þjóðir þriðja heimsins verða að sæta viðskiptalegu ofbeldi Bandaríkjanna, til dæmis í þágu Enron.

Eitt alvarlegasta ágreiningsefni Evrópu og Bandaríkjanna er alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn, sem stofnaður hefur verið í Haag að frumkvæði Evrópu. Bandaríkin heimtuðu, að þar mætti ekki dæma Bandaríkjamenn og neituðu að vera með, þegar sú krafa náðist ekki fram.

Svo langt gengur tilfinning Bandaríkjamanna fyrir sérstöðu sinni, að þingið hefur samþykkt lög, sem skylda forseta landsins til að fara í stríð við lönd, sem draga bandaríska borgara fyrir stríðsglæpadómstól. Þessi undarlegu lög eru í gamni kölluð: Lögin um árásina á Haag.

Bandaríkin eru skuldseigasta ríki Sameinuðu þjóðanna. Fátæku löndin borga sitt með skilum, en Bandaríkin aðeins hluta af sínu og þá með eftirgangsmunum og skilyrðum. Enda hafa Bandaríkin í kjölfarið tapað sæti í mannréttindanefnd og fíkniefnanefnd samtakanna.

Bandaríkjamenn eiga það sameiginlegt með Ísraelsmönnum að telja sig guðs útvalda þjóð, sem sé handhafi réttlætis og sannleika og þurfi ekki að takmarka svigrúm sitt að hætti annarra þjóða. Þeir líta á sig sem einstaka þjóð í heiminum og haga sér í samræmi við það.

Ríka Evrópa er eini heimshlutinn, sem ekki lætur hina guðs útvöldu þjóð valta yfir sig. Annars staðar í heiminum láta menn sér nægja að óttast, sleikja og hata einstaka Ameríku.

Jónas Kristjánsson

FB

Kauptu ekki hlutabréf

Greinar

Hlutabréfakaup og -sala eru ágætt gróðafæri fyrir hákarla í djúpu lauginni. Þú átt ekkert erindi í þessa laug fjármálaheimsins, hvorki einn sér né með leiðsögn ráðgjafa á borð við svokallaða fjárvörzlumenn í bönkum. Hlutabréf eru fyrst og fremst ágætur vettvangur fyrir innherja.

Hlutabréf eru meira að segja hættuleg almenningi í Bandaríkjunum, þar sem reglur um upplýsingaskyldu fyrirtækja þykja betri en annars staðar og að minnsta kosti ýtarlegri en hér á landi. Nýjasta dæmið um það er gjaldþrot Enron, sem var með stærstu orku- og olíufélögum.

Stjórnendur og endurskoðendur fyrirtækisins vissu hvert stefndi, gáfu kolrangar upplýsingar um afkomuna, eyddu mikilvægum skjölum, skutu hagsmunum sínum undan með því að selja hlutabréf í kyrrþey og létu almenna hluthafa og starfsmenn sitja uppi með sárt ennið.

Græðgin í Bandaríkjunum kemur hingað, ef hún lifir ekki þegar góðu lífi hér á landi. Innherjar vita einir, hvernig staðan er og hvernig mál munu þróast. Þeir vita einir, hvert þeir ætla að stefna málum fyrirtækisins. Þeir hafa pólitísk sambönd, sem koma eða koma ekki að gagni.

Flestir ráðherrar núverandi ríkisstjórnar Bandaríkjanna eru hluthafar í Enron, sumir stórir. Þegar vandræði fyrirtækisins voru byrjuð að hrannast upp í fyrra, hafði Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna forustu um að misnota ríkisvaldið til að reyna að bjarga fyrirtækinu.

Meðal annars fóru fulltrúar margra ráðuneyta til Indlands til að hóta stjórn landsins bandarískum refsiaðgerðum, ef hún leysti Enron ekki undan skyldum sínum sem aðaleigandi misheppnaðs orkuvers í Dabhol. Þetta fantabragð mistókst, af því að Indverjar létu ekki kúga sig.

Hér á landi höfum við einnig séð ríkisvaldið misnotað í þágu innherja. DeCode Genetics fékk ókeypis einkaleyfi og fékk að gera uppkast að reglugerð um meðhöndlun á sjúkraskýrslum, rétt eins og Enron fékk að hafa áhrif á reglugerð um ríkisstuðning við olíuleit í framhaldi af hugsanlegum orkuskorti vegna ófriðarhættu.

Ríkisstuðningurinn við Enron dugði ekki og fyrirtækið var látið rúlla, þegar innherjarnir höfðu í kyrrþey losað sig við hlutafé sitt. Verðgildi hlutafjár í Enron gufaði upp, án þess að venjulegir hluthafar áttuðu sig á, hvaðan á þá stóð veðrið, líka þeir sem vissu um ríkisafskiptin.

Hér á landi eru margir, sem þykjast vera sérfræðingar í hlutabréfum og mæla með slíkri fjárfestingu umfram kaup á stöðugri pappírum á borð við opinber skuldabréf. Þeir notuðu uppsveiflu á síðari hluta síðasta áratugar til að tala hlutabréf upp í fjölmiðlum og í almennri ráðgjöf.

Árin 2000 og 2001 sáum við, að bjartsýni þessara svokölluðu sérfræðinga átti ekki við rök að styðjast. Þeir, sem fjárfestu í hlutabréfum, töpuðu yfirleitt peningum, meðan hinir varðveittu höfuðstólinn, sem fóru með löndum í fjárfestingunni og sættu sig við minni væntingar.

Fjárvörzlumenn í bönkum og aðrir meintir sérfræðingar vita lítið meira en þú um stöðu og þróun mála. Yfirleitt er þetta ungt fólk, nýskriðið úr skólum. Það áttar sig ekki á aðstæðum, en er vopnað takmarkalausu og ástæðulausu trausti á getu sína til að fara með annarra manna fé.

Raunar skiptir litlu, hversu mikið fjárvörzlumenn þroskast á mistökum sínum. Þeir vita alltaf minna en hákarlarnir í djúpu lauginni.

Jónas Kristjánsson

FB

Skert flugöryggi

Greinar

Samgönguráðuneytið hamast við að segjast ekki hafa gefið læknum nein fyrirmæli um að hunza reglur um flugöryggi. Samt hefur það ítrekað og jafnvel skriflega varað lækna, sem koma að nýjasta hneyksli íslenzkra flugmála, við að nota gildandi reglur um heilsufar flugstjóra í farþegaflugi.

Fyrirmælin kunna að kallast ítarlegar ábendingar eða þrábeiðni á sérkennilegu málfari ráðuneytisins. Orðhengilshátturinn megnar þó ekki að draga fjöður yfir þá staðreynd, að ráðuneytið hefur eindregið varað lækna við að nota grónar reglur, sem hafa verið notaðar hér á landi í rúma tvo áratugi.

Þetta eru samevrópskar reglur, sem þráfaldlega er vísað til í íslenzkri reglugerð um flug. Í meira en tvo áratugi hefur engum dottið annað í hug en, að þessar reglur væru hornsteinn íslenzkra flugmála. Enda eru þær grundvöllur þess, að Íslendingum sé treyst til að stunda farþegaflug.

Fyrir dæmigerða íslenzka handvömm hefur einn kafli ekki enn verið þýddur á íslenzku. Á þeirri handvömm starfsmanna sinna hangir samgönguráðherra eins og hundur á roði, þegar hann reynir að slaka á kröfum um öryggi í flugi á vegum íslenzkra aðila til að þjónusta heimtufrekju manna úti í bæ.

Í meira en tvo áratugi hefur hér á landi verið notuð evrópska öryggisreglan um, að flugmenn megi ekki fljúga, ef meira en 1% líkur eru á, að sjúkdómur þeirra taki sig upp meðan þeir eru að störfum. Til skamms tíma datt engum í hug að slaka á þessu, þótt sumum kunni að hafa fundizt það hart aðgöngu.

Nú gengur ráðherrann hins vegar berserksgang til að tryggja, að flugstjóri, sem hefur verið metinn með fjórfalt til nífalt meiri áhættu, fái leyfi til að fljúga. Þetta virðist ekki vera flokkspólitísk ákvörðun, heldur sauðþrái ráðherra, sem hefur látið gabba sig og hefur engan skilning á afleiðingunum.

Handafl skilningsvana ráðherra hefur leitt til þess, að valinkunnum trúnaðarlækni flugmálastjórnar hefur verið vikið úr starfi tímabundið og enginn hefur fengizt til að koma í hans stað. Ráðherrann hefur haft flugmálastjóra að fífli og mátti sá embættismaður þó ekki við fleiri uppákomum en þeim, sem fram að þessu höfðu hrjáð stofnun hans.

Engin leið var að hindra, að flumbrugangur ráðherrans fréttist til útlanda, þar sem öryggi er í meiri hávegum haft. Eftirmálin eiga eftir að koma í ljós að fullu. Evrópskir aðilar hafa sent hingað fyrirspurnir og fengið svör, sem magna grunsemdir um, að ekki sé allt með felldu hér á landi.

Flugleiðir hafa mikla hagsmuni af, að ekki sé litið á Ísland sem vandamál í flugöryggi. Undarlegt er, að félagið skuli ekki hafa gengið fram fyrir skjöldu til að reyna að vinda ofan af hvatvísi ráðherrans. Sama má segja um samtök flugmanna, sem hafa hag af, að íslenzkum flugmönnum sé treyst.

Skortur á öryggi í flugi hefur hvað eftir annað verið í umræðunni á undanförnum misserum. Umræðan segir okkur, að lélegir embættismenn og lélegur ráðherra eru að klúðra góðri stöðu, sem Agnar Koefoed Hansen, þáverandi flugmálastjóri, og ýmsir fleiri byggðu upp fyrir nokkrum áratugum.

Afleitt er, að hvert atvikið á fætur öðru skuli rýra traust á íslenzkri flugmálastjórn. Rannsóknarnefnd flugslysa er lamað fyrirbæri, embætti trúnaðarlæknis er ekki skipað, flugmálstjóri hleypur út og suður til að þóknast aumasta ráðherra landsins, sem er orðinn hættulegur öryggi flugfarþega.

Þegar mál snúast um öryggi í flugi mega ráðamenn ekki hagað sér eins og þeir séu að fjalla um sínar ær og kýr, fyrirgreiðslu í þágu þeirra frekustu.

Jónas Kristjánsson

FB

Hræsni ræður heimi

Greinar

Jafnvel Sýrlandsstjórn þykist vera að berjast gegn hryðjuverkum, þegar hún ofsækir stjórnarandstæðinga í landinu. Eftir stríðið í Afganistan stimpla nánast allar harðstjórnir heimsins andstæðinga sína sem hryðjuverkamenn. Þannig sækjast þær eftir náðarfaðmi Bandaríkjanna.

Allir kúgaðir minnihlutahópar fá núna stimpil hryðjuverkafólks. Kínastjórn ofsækir fólk í Tíbet og Sinkíang og segir það vera hryðjuverkamenn. Rússlandsstjórn ofsækir fólk í Tsjetsjeníu og segir það vera hryðjuverkamenn. Ríkisrekin hryðjuverk eru afsökuð með slíkum stimpli.

Móðir allrar hræsni af þessu tagi er samráð Bandaríkjanna og Ísraels um að kalla Palestínumenn hryðjuverkamenn. Það er þjóð, sem Ísraelsríki ofsækir linnulaust á allan hátt með markvissum aðgerðum til að niðurlægja allan almenning og gera honum lífið í landinu óbærilegt með öllu.

Þetta eru raunar mestu hryðjuverkaríki heimsins. Bandaríkin reka hryðjuverkaskóla í Fort Benning fyrir upprennandi herforingja og leynilögreglumenn frá suðurhluta álfunnar. Nemendur skólans hafa margfalt fleiri morð á samvizkunni en stuðningsmenn Osama bin Laden.

Styrjöld Bandaríkjanna í Afganistan er ekki barátta gegn hryðjuverkum í heiminum. Hún er hefndarstríð einnar hryðjuverkastjórnar gegn lausbeizluðum hryðjuverkahópum, sem eru hættulegir Vesturlöndum. Þetta stríð var nauðsynlegt, en það er ekki stríð gegn hryðjuverkum.

Talibanar voru slæmir stjórnarherrar, en það eru arftakar þeirra einnig. Að sumu leyti er ástandið í Afganistan betra en það var fyrir stríð og að sumu leyti er það verra. Áhrif vestrænna eftirlitssveita ná lítið lengra en til höfuðborgarinnar. Annars staðar leika glæpamenn lausum hala.

Reynt er að kynna Norðurbandalagið sem eins konar frelsissveitir í Afganistan. Í rauninni er þetta upp til hópa glæpalýður, sem lifir á ránum og sölu fíkniefna. Þeir taka bíla og matvæli hjálparstofnana traustataki. Talibanar voru sumpart skárri, því að þeir voru andvígir sölu fíkniefna.

Þannig eru mál ekki eins svarthvít og bandarískir fjölmiðlar vilja vera láta, er þeir fjalla um svokallaða baráttu sinna manna gegn hryðjuverkum í heiminum. Fjölmiðlarnir eru tryggir stjórnvöldum og hallir undir hagsmunagæzlu hennar í útlöndum, vandlega sveipaða í hræsni.

Nú síðast er Íran gagnrýnt fyrir að hafa skotið skjólshúsi yfir landflótta liðsmenn Osama bin Laden. Staðreyndin er hins vegar sú, að Íranir eru shítar og hafa sem slíkir alltaf verið andvígir Talibönum sem róttækum súnnítum, allt frá þeim tíma, er Bandaríkin komu Talibönum til valda sællar minningar.

Enn ein hræsnin er sú, að handteknir stuðningsmenn Osama bin Laden séu ekki hermenn, heldur hryðjuverkamenn, sem alþjóðlegir sáttmálar um meðferð stríðsfanga nái ekki yfir. Þannig er Bandaríkjastjórn sjálf orðin fangi eigin áróðursstríðs og farin að brjóta alþjóðlegar siðareglur.

Af öllu þessu má ráða, að stríðið í Afganistan var ekki barátta góðs og ills. Það var hagsmunastríð gegn ákveðinni tegund hryðjuverka, sem beinist gegn Vesturlöndum, einkum Bandaríkjunum. Sem slíkt var stríðið nauðsynlegt, þótt efast megi um gildi sumra aðgerða, sem nú standa yfir.

Stríðið við Afganistan hefur verið vinsælt. Það hefur gefið hræsninni greiðari leið að hjörtum hinna trúgjörnu og magnað hana sem helzta hreyfiafl heimsmála.

Jónas Kristjánsson

FB

Hægri grænir

Greinar

Ólafur F. Magnússon gæti kallazt hægri grænn. Hann hefur til skamms tíma verið fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur og einn af helztu talsmönnum náttúruverndar. Þessi pólitíska blanda gekk ekki upp. Ólafur var frystur á minnisstæðan hátt á landsfundi í vetur.

Stjórnmálaflokkar rúma yfirleitt margvísleg sjónarmið. Þeir eru fyrst og fremst kosningavélar til að koma mönnum til valda og reyna því að breiða út faðminn. “Í húsi föður míns eru margar vistarverur” er kunn biblíutilvitnun, sem Jóhann Hafstein notaði eitt sinn á frægum landsfundi.

Að svo miklu leyti sem flokkar hvíla á hugmyndafræðilegum grunni, endurspegla þeir átök fyrri tíma, svo sem stéttabaráttu, velferð og markaðsbúskap. Þeim var ekki komið á fót til að taka afstöðu til fólksflutninga innanlands, náttúruverndar eða afgjalds fyrir notkun auðlinda sjávar.

Enn síður veitir hugmyndagrunnur flokkanna greið svör við afstöðunni til flugvallar í Vatnsmýri eða hagsmuna aldraðra og öryrkja, sem undanfarið hafa verið tilefni ráðagerða um stofnun tímabundinna eins máls stjórnmálaflokka. Gömlu flokkarnir eru gamlir belgir með gömlu víni.

Þetta flækir stöðu flokka og kjósenda. Sífellt fjölgar ágreiningsefnum, sem ekki verða skilgreind samkvæmt flokkakerfinu. Sum þeirra eru svo heit, að gömlu og grónu flokkarnir treysta sér ekki til að taka afstöðu til þeirra af ótta við að fæla frá sér kjósendur á annan veginn eða hinn.

Kjósendur standa andspænis vali um forgangsröð. Hvort vegur til dæmis þyngra, hefðbundið viðhorf til flokks eða nýtt mál á borð við stórvirkjun í óbyggðum eystra. Sumir komast að niðurstöðu um flokkaskipti eða tryggð við flokk, en aðrir lenda í pattstöðu og geta engan flokk stutt.

Sagan segir okkur, að hér á landi sé rúm fyrir fjóra stjórnmálaflokka, sem allir séu fyrst og fremst kosningavélar. Nútíminn er greinilega svo flókinn og síbreytilegur, að erfitt er að finna öllum mikilvægum sjónarmiðum stað í kerfinu. Þess vegna skjóta eins máls flokkar upp kolli.

Sjálfstæðisflokkurinn var soðinn úr íhaldsflokki embættismanna og frjálslyndum flokki kaupsýslumanna. Þetta ótrúlega hjónaband hefur haldizt um áratugi. Nú er hins vegar svo komið, að flokkurinn vill tæpast rúma suma umhverfissinna og vandar þeim ekki kveðjurnar á landsfundi.

Umhverfissinnar, sem vilja ekki fyrirhugaðar stórvirkjanir á hálendinu, verða því að ákveða, hvort vegi þyngra í valinu, þau atriði, sem áður leiddu til stuðnings þeirra við flokka á borð við Sjálfstæðis- eða Framsóknarflokk eða stuðningur þessara flokka við virkjanir á hálendinu.

Forgangsröð einstakra kjósenda getur breytzt. Þannig ákveða sumir að refsa flokki sínum í einum kosningum, en falla svo aftur í faðm flokksins í kosningunum þar á eftir. Þannig verða til sveiflur í fylgi flokka, sem yfirleitt eru þó miklu vægari en sveiflur flokkafylgis í skoðanakönnunum.

Erfiðleikar gamalla flokka við að taka á nýjum málum, sem koma ört til sögunnar, hafa almennt á Vesturlöndum leitt til eflingar utanflokkasamtaka, sem keppa við flokka um hylli og baka sér oft hatur sumra þeirra, svo sem reynslan hefur orðið hér á landi um flest umhverfissamtök.

Sérmálasamtök ganga vel meðan þau skilgreina sig sem utanflokkasamtök. Fari þau hins vegar að gæla við framboð, svo sem framboð aldraðra og öryrkja, sem nokkuð hefur verið rætt í vetur, fer samkvæmt erlendri reynslu illa fyrir þeim. Eins eða tveggja mála flokkar hafa litla von.

Hins vegar geta vel rekin utanflokkasamtök haft málefnalega meiri áhrif en kosningavélar þær, sem við þekkjum undir nafninu stjórnmálaflokkar.

Jónas Kristjánsson

FB

Jólagjöfin í ár

Greinar

Kárahnjúkavirkjun er jólagjöf ríkisstjórnarinnar til þjóðarinnar í ár. Umhverfisráðherra hefur hnekkt úrskurði Skipulagsstofnunar ríkisins, sem lagðist gegn virkjuninni. Niðurstaða ráðherrans verður eftir áramót lögð fyrir Alþingi, þar sem hún verður lögfest.

Orkuverið og álverið, sem reist verða austur á landi munu hafa mikil áhrif í þjóðfélaginu og náttúrunni. Flestir landsmenn eiga að hafa hugmynd um náttúruspjöllin, en minna hefur verið rætt um efnahagsspjöllin af völdum þessarar jólagjafar ríkisstjórnarinnar.

Álverið á Reyðarfirði verður ólíkt fyrri álverum í Straumsvík og á Grundartanga, sem erlendir aðilar eiga að fullu. Nýja álverið verður að mestu leyti reist fyrir innlent fé, því að Norsk Hydro vill bara eiga fjórðung fyrir að fá einokun á hráefnum og afurðum versins.

Álver eru dýrasta aðferð í heiminum við að búa til vinnustaði. Innlenda fjármagnið í álverið á Reyðarfirði verður ekki notað til annarra verkefna, sem gefa miklu fleiri atvinnutækifæri á betri lífskjörum. Álverið sogar til sín fé, sem annars færi til arðbærra nútímastarfa.

Raforkuverð Austurlandsvirkjunar til Reyðaráls verður leyndarmál, af því að það verður lágt. Við þekkjum vandann frá þeirri stóriðju, sem fyrir er í landinu, einkum járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga, sem reist var að frumkvæði ríkisins og fær nánast gefins orku.

Vegna góðra skilyrða til virkjunar vatnsafls og gufu hér á landi ætti rafmagn að vera tiltölulega ódýrt. En niðurgreiðsla rafmagns til stóriðju veldur því, að rafmagn er tiltölulega dýrt hér á landi til annars iðnaðar og til almennings, sem borga þannig daglegan stóriðjuskatt.

Dæmið fyrir austan er svo erfitt, að ríkið mun telja sig knúið til að hlaupa undir bagga til að liðka fyrir fjármálum orkuvers og álvers á beinan og óbeinan hátt. Skattgreiðendur munu þurfa að borga brúsann af tilraunum ríkisins til að láta fjárhagsdæmið ganga upp.

Ríkið mun veita verðmætar ríkisábyrgðir án þess að taka neitt fyrir sinn snúð. Það mun taka áhættu fyrir hönd skattgreiðenda, án þess að greiðsla komi fyrir í samræmi við markaðslögmál. Ríkið mun veita ýmsar aðrar ívilnanir til að draga hluthafa inn í dæmið.

Meðal annars mun ríkið hlífa málsaðilum við að greiða fullar bætur fyrir óafturkræfan skaða, sem þeir valda náttúrunni. Alþjóðabankinn er farinn að meta slíkan skaða til fjár og fær út himinháar tölur, sem eru langt fyrir ofan það, sem jólagjöfin í ár getur staðið undir.

Virkjunin við Kárahnjúka mun stórspilla stærsta hálendisvíðerni Evrópu, þar á meðal rúmlega hundrað fossum. Uppistöðulón með breytilegu vatnsborði munu valda uppblæstri gróðurþekju hálendisins. Stórfelldir vatnaflutningar munu raska náttúrunni niðri í byggð.

Dæmin hér að ofan benda til, að Austurlandsvirkjun og Reyðarál muni verða þjóðinni dýr. Þau muni skaða atvinnuvegi, orkunotendur og skattgreiðendur um ókomna framtíð og valda náttúruspjöllum, sem aldrei verða bætt. Verið er að fórna hagsmunum afkomenda okkar.

Íslendingar verða hafðir að háði og spotti um allan hinn vestræna heim fyrir þá heimsku, að láta þrönga sérhagsmuni valda öllu þessu tjóni á peningum og náttúru. Ekki getum við borið fyrir okkur vanþekkingu, því að öll vandamálin eru orðin kunn fyrir löngu.

Skugginn af jólagjöf ríkisstjórnarinnar í ár mun verða langur og fylgja þjóðinni langt inn í ókomna framtíð, óbrotgjarn minnisvarði um skammsýni og þrjózku.

Jónas Kristjánsson

DV