Brúarfælni í Reykjavík

Greinar

Erfiðleikar embætta skipulagsstjóra og gatnamálastjóra Reykjavíkur við að sjá fyrir þróun samgöngumála í borginni endurspeglast í tregðu þeirra við að undirbúa viðstöðulausan akstur á mesta umferðar- og slysahorni borgarinnar, gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.

Til skamms tíma töldu embættin ranglega, að ekki þyrfti mislæg gatnamót á þessum stað. Nú vita þau betur, en eru samt að gæla við hugmynd um, að hafa aðeins viðstöðulausan akstur á annarri götunni og þá jafnvel frekar á Kringlumýrarbraut, þótt umferð á Miklubraut sé miklu þyngri.

Við undirbúning mislægra gatnamóta á þessum stað þarf að hafa í huga nýja byggð, sem verið er að skipuleggja í Vatnsmýri vegna minnkunar flugvallarins, ráðagerðir um byggð úti í sjó við Eiðisgranda og hugmyndir um að láta flugvöllinn í Vatnsmýri víkja fyrir nýjum miðbæ.

Miklabraut er eðlileg samgönguæð þessara viðbóta. Með mislægum og viðstöðulausum gatnamótum á horni Kringlumýrarbrautar og með því að beina umferð um Stakkahlíð og Lönguhlíð frá Miklubraut næst viðstöðulaus kafli alla leið til Vatnsmýrar um undirgöngin við Miklatorg.

Skrifstofur skipulagsstjóra og gatnamálastjóra geta gamnað sér við hugmyndir um að ýta umferðinni niður í miðbæ af Miklubraut yfir á Kringlumýrarbraut og Sæbraut, en á þeirri leið eru ótal gatnamót, sem þyrftu að vera mislæg til að vera samkeppnishæf við Miklubraut.

Á þessum króki niður í bæ eru gatnamót við Háaleitisbraut, Suðurlandsbraut, Borgartún, Sæbraut, Samtún, Snorrabraut og á þremur stöðum við Skúlagötu. Það verður dýrari kostur að reyna að veita umferðinni í þennan farveg fremur en að ráðast í augljósar breytingar á Miklubraut.

Miklu nær er að leyfa Sæbrautinni að þróast í takt við fyrirhugaða tengingu yfir sundin við Vesturlandsveg, þegar að henni kemur, en láta Miklubraut þjóna samgöngum í Reykjavík endilangri og viðstöðulausum tengingum við bæjarfélögin í suðri og við Suðurlandsveg.

Því miður hefur borgin víða skipulagt hús alveg ofan í lykilgatnamót aðalskipulagsins, svo sem dæmið sýnir við Höfðabakkabrúna. Þessi óforsjálni hefur leitt til flókinna og dýrra lausna og umferðarljósa á brúm í stað viðstöðulaus aksturs eins og hefur þó tekizt við Elliðaárnar.

Aðkoman að Miklubraut úr undirgöngunum frá Kringlu er gott dæmi um, að ekki er nauðsynlegt að hafa víðáttumiklar slaufur við mislæg gatnamót, svo framarlega sem umferðarhraða er haldið niðri, til dæmis með hraðahindrunum. Viðstöðulaus akstur getur náðst í þrengslum.

Gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar eru og verða þyngsta umferðarhorn höfuðborgarsvæðisins. Óhugsandi er annað en að hafa þar mislæg gatnamót með viðstöðulausum akstri í allar áttir, jafnvel þótt hafa verði sumar slaufurnar krappari en æskilegt hefði verið.

Skynsamlegt er að stefna að viðstöðulausum akstri um Miklubraut eftir borginni endilangri frá Vatnsmýri að Suðurlandsvegi, um Kringlumýrarbraut í Hafnarfjörð og um Reykjanesbraut til Keflavíkur. Öflugt atvinnulíf á svæðinu kallar á hraðar og hindrunarlausar samgöngur.

Embættismenn og skipulagsnefnd borgarinnar þurfa að byrja að átta sig á, að mót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar verða mikilvægasta samgöngumannvirki höfuðborgarsvæðisins.

Jónas Kristjánsson

FB

Frestun martraðar

Greinar

Þegar fjölskyldufólk greiðir 60.000-100.000 krónur árlega fyrir rafmagn til ljósa og heimilistækja í landi ótæmandi vatnsorku og afskrifaðra orkuvera, er greinilega vitlaust gefið í spilunum. Hin margrómaða auðlind er ekki að skila árangri í samræmi við væntingar þjóðarinnar.

Sumpart er fólk að niðurgreiða rafmagn til stóriðju, einkum til Grundartanga. Sumpart er fólk að borga herkostnaðinn af orkuverinu við Blöndu, sem reist var, þótt þáverandi stóriðjukaupandi hlypi úr skaftinu. Sumpart er fólk bara að borga fyrir vondan rekstur Landsvirkjunar.

Um nokkurt skeið hefur svo litið út, sem herkostnaður fólks af vatnsorku mundi aukast verulega vegna glannalegra ráðagerða stjórnvalda um orku- og álver á Austurlandi. Fólk getur þó andað léttara í bili, því að Norsk Hydro hefur slegið málinu á frest um óákveðinn tíma.

Ferill Reyðaráls er farinn að minna óþægilega á feril álversins á Keilisnesi, sem mánuðum og árum saman var sagt vera í burðarliðnum. Í báðum tilvikum voru ráðherrar með stóriðju á heilanum, reyndu í lengstu lög að halda í drauminn og enduðu með því að festast í eigin blekkingavef.

Draumurinn um Reyðarál og Kárahnjúkavirkjun var í rauninni martröð, sem hefði skaðað þjóðfélagið, ef orðið hefði að veruleika. Skipulagsstofnun var í haust búin að hafna orkuverinu vegna slæmra umhverfisáhrifa og ýmis peningaleg reikningsdæmi voru óhagstæð.

Seðlabankinn hefur nýlega upplýst, að vextir í þjóðfélaginu hefðu almennt orðið 2-2,5% hærri á framkvæmdatímanum, en þeir hefðu ella orðið. Útreikningar sýna, að þetta felur í sér fjölskylduskatt, sem nemur 120 þúsund krónum á ári hjá þeim, sem skulda fimm milljónir króna.

Sami vaxtaskattur hefði lagst á alla þá, sem hefðu viljað afla sér lánsfjár til eflingar atvinnulífs á öðrum sviðum. Reyðarál hefði raunar þurrkað mikið af tiltæku lánsfé, einkum hjá lífeyrissjóðunum, sem átti að ginna til samstarfs. Það fé hefði ekki verið til ráðstöfunar í atvinnulífinu.

Ráðagerðir stjórnvalda fólu þar á ofan ekki í sér, að orkuver og stóriðja greiddu markaðsverð fyrir ríkisábyrgð, né heldur að þau greiddu mengunar- og umhverfisskatt í samræmi við reglur, sem Alþjóðabankinn er farinn að beita. Síðasta upphæðin gæti numið milljarði króna á hverju ári.

Fyrir utan óbætanlegt tjón á stærsta ósnortna víðerni Evrópu hefði þjóðin beðið mikið fjárhagslegt tjón af Reyðaráli og Kárahnjúkavirkjun, ef martröðin hefði orðið að veruleika. Tjónið hefði falizt í háum vöxtum, fjármagnsskorti og háu verði á rafmagni til ljósa og heimilistækja.

En veruleikafirring stjórnvalda var orðin svo mikil, að í nokkrar vikur leyndi orkuráðherra þjóðina nýjustu upplýsingum um tregðu Norsk Hydro. Hún var að reyna að knýja virkjanaleyfi í gegn á Alþingi áður en tregðan kæmist upp, sem hlaut samt að gerast vikunni fyrr eða síðar.

Miðað við fjölbreyttar upplýsingar, sem Skipulagsstofnun ríkisins, Seðlabankinn, Alþjóðabankinn og ýmsir hagfræðingar hafa lagt í púkkið, er ástæða til að hafa áhyggjur af, að rúmlega helmingur þjóðarinnar var til skamms tíma reiðubúinn að fallast á framkvæmdirnar eystra.

Nú er tækifæri fyrir fólk að láta af stuðningi við martröðina og fara að hlusta á tölur, sem sýna, að ráðagerðirnar austur á landi eru mun óhagstæðari en stjórnvöld hafa hingað til viljað vera láta.

Jónas Kristjánsson

FB

Evrópuumræðan er búin

Greinar

Athyglisverðast við niðurstöður nýjustu könnunarinnar á afstöðu íslenzkra kjósenda til Evrópuaðildar er ekki, að allur þorri vill sækja um aðild og meirihluti beinlínis ganga í sambandið og að sá meirihluti nemur þremur af hverjum fimm, sem hafa tekið afstöðu til aðildarinnar.

Fremur er fróðlegast, að þrír af hverjum fjórum kjósendum hafa þegar gert upp hug sinn til Evrópusambandsins og ákveðið fyrir sitt leyti, hvort þeir vilja, að Ísland verði með eða ekki. Þetta sýnir, að umræðan um aðild Íslands að Evrópu er ekki bara hafin, heldur meira eða minna búin.

Allan tímann, sem forsætisráðherra hefur haldið fram, að málið sé ekki til umræðu, hefur það samt verið til umræðu. Fjölmiðlar hafa fjallað rækilega um það og birt hin margvíslegustu sjónarmið. Umræðan hefur streymt fram með vaxandi þunga og náð hámarki í vetur.

Liðin er sú tíð, að áhugamenn um aðild reyndu að selja hugmyndina um, að Ísland prófaði umsókn um aðild til að komast að raun um, hvort aðild væri bitastæð eða ekki. Þjóðin er komin langt fram úr þeirri varfærnu afstöðu. Meirihluti hennar vill hreina aðild fremur en könnunarviðræður.

Umræðan um aðild að Evrópusambandinu er svo langt komin, að ekki er lengur deilt um hana. Þjóðin hefur þegar skipt sér í meirihluta þeirra, sem vilja aðild og engar refjar, og í minnihluta þeirra, sem vilja kanna í aðildarviðræðum, hvaða útkomu sé hægt að fá í sjávarútvegi.

Líklega telur þjóðin réttilega orðið tímabært, að áhyggjur af sjávarútvegi megi ekki lengur ráða ferðinni. Atvinnuvegur, sem er kominn niður í 11% af landsframleiðslu, megi ekki lengur stjórna því, hvort hún fái að njóta annarra ávaxta af aðild að sameinaðri siglingu Evrópu í átt til betra lífs.

Ánægjulegt er, ef þjóðin er búin að átta sig á, að framtíð hennar liggur hvorki í fiski né áli, heldur í þekkingariðnaði. Það er þekkingin, sem hefur undanfarin ár staðið undir hagvexti Íslands eins og annarra auðugra landa. Það er hún, sem mun standa undir auðsæld okkar í náinni framtíð.

Gegnum niðurstöður nýjustu skoðanakönnunarinnar á viðhorfum okkar til Evrópusambandsins skín einmitt vaxandi skilningur fólks á, að þriðja og fjórða kynslóð atvinnuvega þarf sem fljótast að leysa fyrstu og aðra kynslóð þeirra af hólmi. Í þessum skilningi felst lykill framtíðar okkar.

Evrópa er okkar segull. Rætur okkar sjálfra og rætur menningar okkar liggja í Evrópu. Þangað leitum við, þegar við viljum slaka á í fríum okkar. Þar eru kaupendur varnings okkar og þjónustu. Með ári hverju verða Evróputengslin vaxandi þáttur í samskiptum okkar við umheiminn.

Aðrir heimshlutar, þar á meðal Bandaríkin, eru hlutfallslega dvínandi þáttur þessara samskipta. Við getum gamnað okkur við hugmyndir um að sigla ein á báti nyrst í Norður-Atlantshafi, sem eftir lok kalda stríðsins er orðið fremur afskekkt. En köld raunhyggja vísar okkur til Evrópu.

Við höfum þegar þegið ótrúleg gæði frá Evrópusambandinu, sumpart gegn geðþóttahefðum íslenzkrar valdastéttar. Við erum farin að kæra rangláta dóma til Evrópu. Ótal evrópskar reglugerðir hafa þrengt svigrúm til geðþótta í stjórnsýslu okkar, þótt enn megi bæta stöðuna.

Gegn vilja forsætisráðherra hefur umræðan um öll þessi atriði þegar farið fram, mikil að vöxtum. Kjósendur hafa fylgzt vel með henni og beinlínis tekið jákvæða afstöðu til aðildar að Evrópu.

Jónas Kristjánsson

FB

Þú þarft ekki að vera síhress

Greinar

Þáttastjórnendur í sjónvarpi æsa sig upp í að vera hressir á skjánum í hálftíma eða klukkutíma á viku, en geta verið hinir önugustu þess á milli. Þá hlið sjá sjónvarpsnotendur ekki. Þeir fá þá brengluðu mynd af raunveruleikanum, að fræga og fína fólkið í sjónvarpinu sé alltaf bráðhresst.

Þrýstingurinn kemur úr mörgum áttum. Auglýsingar og slúðurtímarit koma því óvart inn hjá venjulegu og eðlilegu fólki, að eitthvað hljóti að vera að því, ef það getur ekki uppfyllt kröfuna um að vera síhresst. Því leitar fólk í auknum mæli á náðir geðbreytilyfja til að bæta stöðuna.

Hefðbundna geðbreytilyfið er áfengi, sem sætir vaxandi samkeppni af hálfu ólöglegra og löglegra fíkniefna. Mest hefur neyzla aukizt á svokölluðu læknadópi. Daglega verða tugþúsundir Íslendinga að taka inn prózak eða annað læknadóp til að treysta sér til að horfast í augu við daginn.

Geðið sveiflast meira hjá sumum en öðrum. Ef sveiflurnar fara út í öfgar, er eðlilegt að menn leiti sér læknis. En skilgreiningin á því, hvað séu öfgar, hefur breytzt. Nú halda margir, að eitthvað sé að þeim, ef þeir eru ekki hressir út í eitt eins og fyrirmyndirnar á skjánum virðast vera.

Íslenzk notkun geðbreytilyfja úr apótekum þrefaldaðist rúmlega á síðasta áratug tuttugustu aldar. Samt harðnaði lífsbaráttan ekki tiltakanlega á þessum tíma. Þvert á móti batnaði hagur fólks. Aukin neyzla hlýtur því að stafa af breyttu mati fólks á því, hvað sé eðlilegt sálarástand.

Hagsmunir framleiðenda eru líka að baki kröfunnar um síhressu. Lyfjafyrirtæki stunda linnulausan áróður meðal lækna og hafa smám saman breytt mati þeirra á því, hvað sé eðlilegt sálarástand fólks. Þau verja meiri fjármunum til áróðurs en til rannsókna og lyfjaþróunar.

Þetta minnir á, hvernig þau komu því inn, að fólk þyrfti átta tíma svefn og yrði ella að taka svefnlyf. Rannsóknir sýna hins vegar að hollara er og líklegra til langlífis að sofa sex-sjö tíma á dag. Með svefnlyfjum reynir heilbrigt fólk að auka svefntíma sinn upp í átta tíma kröfuna.

Ofnotkun svefnlyfja og geðbreytilyfja er dæmi um aukinn þrýsting, sem kemur frá umhverfinu, sumpart að undirlagi lyfjafyrirtækja og sumpart vegna ranghugmynda um eðlilegt sálarástand, sem flæða yfir okkur, einkum úr sjónvarpi, er keyrir linnulaust á uppsprengdri síhressu.

Krafan um síhressu er ný af nálinni. Áður fyrr gerði fólk sér betur grein fyrir, að lífið var ekki og átti ekki að vera dans á rósum. Það vissi, að stundum var tími gleði og stundum var tími sorgar. Fyrst og fremst vissi það, að líðan var oftast hlutlaus, að eðlilegt var að líða hvorki vel né illa.

Ef við fylgjumst með, vitum við, að síhressan er tálsýn. Sjónvarpsfólkið, fína fólkið og fræga fólkið á erfitt í einkalífinu. Það fær taugaáföll og lendir á heilsuhælum og afvötnunarhælum í meira mæli en venjulegt fólk. Þetta stafar af, að það veldur ekki hlutverkinu, sem því er ætlað að leika.

Sérhver ný kynslóð virðist vera dæmd til að ýkja mistök fyrri kynslóða. Sjónvarpsrásir unga fólksins eru enn þrungnari af kröfunni um síhressu en rásir eldra fólksins. Sífellt verður auðvelda að grípa til hættulegra lausna; áfengis, ólöglegra fíkniefna eða læknadóps.

Stóri bróðir ríkisvaldið er hluti vandans en ekki lausnarinnar. Þess vegna verður fólk sem einstaklingar að rjúfa vítahring umhverfisins og afla sér sjálft frelsis frá kröfunni um síhressu.

Jónas Kristjánsson

FB

Sjónarspil í stjórnsýslu

Greinar

Niðurstaðan er alltaf eins, hvort sem fyrirbærið heitir “lögfræðingar ráðuneytisins”, “nefnd embættismanna” eða “starfshópur óháðra sérfræðinga” úti í bæ. Engu máli skiptir, hvort dómstólar telji síðar niðurstöðuna hafa verið rétta eða ranga eða hver var starfsheiður nefndarmanna.

Ekki skiptir heldur máli, hvort nefnd embættismanna sendir leynilegt minnisblað til starfshóps, þar sem sömu embættismenn starfa með óháðum sérfræðingum úti í bæ. Engra dæma verður minnzt um, að einhvers staðar í sjónarspilinu hafi verið vikið frá fyrirfram vitaðri niðurstöðu.

Fyrirbærið kemst ekki bara oftast, heldur ævinlega að þeirri niðurstöðu, að rétt sé eða hafi verið að gera eins og ráðherra vill. Slíkt getur samkvæmt líkindareikningi stærðfræðinnar ekki verið tilviljun. Fyrirbærið starfar eins og málflutningsmaður, sem tekur að sér að verja sakborning.

Skipun fyrirbæra af þessu tagi er ein elzta aðferðin í stjórnsýslu íslenzka ríkisins við að draga athyglina frá ráðherranum og reyna að gefa í skyn, að einhvers konar æðri máttur eða hlutlaus dómstóll hafi efnislega rannsakað áform eða gerðir ráðherrans og gefið þeim gæðastimpil.

Sjónarspilið getur orðið kyndugt, þegar nefndarmenn fyrri nefndar senda eins konar erindisbréf eða fyrirmæli til sjálfra sín í síðari nefnd sama ferils, þar sem nefndarmenn lesa bara alls ekki erindisbréf eða fyrirmæli, að því er upplýst hefur verið í fjölmiðlum í kjölfar birtingar slíks bréfs.

Málið snýst ekki um, hvort málflutningsmenn ríkisvaldsins hafa meiri eða minni starfsheiður en aðrir málflutningsmenn í þjóðfélaginu. Það snýst um ákveðnar tegundir stjórnsýslu, sem tíðkast fremur hér á landi en í nágrannalöndunum, þar sem stjórnsýsla er í traustari skorðum.

Hér sætta stjórnvöld sig ekki við að tapa málum fyrir dómstólum. Ráðuneytisstjórar koma saman í kyrrþey og búa til minnisblöð, þar sem úrskurðað er, að Hæstiréttur hafi rangt fyrir sér, og gefa úrskurð sinn í formi leynilegs erindisbréfs til sjálfra sín og nokkurra annarra valinkunnra sæmdarmenna með starfsheiður á afar háu stigi.

Þegar Hæstiréttur hefur neytt forsætisráðherra til að opinbera erindisbréfið og sjónarspilið er þannig komið í ljós, er það niðurstaða forsætisráðherra, að of mikið sé framleitt af hættulegum plöggum í ráðuneytum og því sé tímabært að hætta að birta dagskrá ríkisstjórnarfunda.

Áður hefur forsætisráðherra sagt, að hann sé farinn að sjá eftir að hafa stuðlað að setningu núgildandi upplýsingalaga, sem dómur Hæstaréttar byggist á. Lögin hafa raunar valdið stjórnvöldum óþægindum á mörgum sviðum, því að fjölmiðlar eru farnir að beita þeim fyrir sig.

Nýju upplýsingalögin eru samin að norrænni fyrirmynd og ganga fráleitt lengra en fyrirmyndirnar. Þau ganga raunar mun skemmra en hliðstæð lög í ýmsum ríkjum Bandaríkjanna. Þau eiga því ekki að þurfa að fela í sér nein óbærileg óþægindi fyrir ráðherra og embættismenn.

Slík lög hafa verið sett í nágrannalöndunum, af því að þar hafa menn uppgötvað, að stjórnsýsla þurfi að vera gegnsæ, svo að almenningur geti fylgzt með ferli mikilvægra ákvarðana og valdamenn verði ábyrgari gerða sinna. Þetta er talinn vera nauðsynlegur þáttur lýðræðis.

Hér er stjórnsýsla hins vegar skemmra á veg komin, ráðamenn láta upplýsingalög pirra sig og skipa “óháð” fyrirbæri til að grugga vatnið.

Jónas Kristjánsson

FB

Þéttbýlisflokk vantar

Greinar

Fjórflokkurinn allur er andvígur hagsmunum íbúa höfuðborgarsvæðisins, svo sem sést af athöfnum hvers kyns ríkisstjórna og þingmeirihluta. Áratugum saman hefur mikið af orku slíkra aðila farið í að reyna að hamla gegn þroska höfuðborgarsvæðisins með fjárhagslegum aðgerðum af ýmsu tagi.

Einna lengst gengur þetta í vegagerð, þar sem fáfarin göng gegnum afskekkt fjöll eru tekin fram yfir lífshættulega fjölfarin gatnamót við þvergötur Miklubrautar og Reykjanesbrautar. Núverandi samgönguráðherra Sjálfstæðisflokksins gengur raunar að þessari mismunun af mikilli ákefð.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins þurfa stjórnmálaflokk, sem tryggir, að vegafé sé notað, þar sem tekjurnar verða til. Þeir þurfa flokk, sem lætur byggja mislæg gatnamót á höfuðborgarsvæðinu til að fækka slysum, stytta ferðatíma, minnka eldsneytiskostnað og draga úr loftmengun.

Slík tilfærsla vegafjár er um leið þjóðhagslega hagkvæm, því að reynslan sýnir, að vaxtarbroddur nýrra fyrirtækja í atvinnugreinum framtíðar er eingöngu á höfuðborgarsvæðinu. Greiðar samgöngur á því svæði stuðla að verndun byggðar á Íslandi og draga úr atgervisflótta til útlanda.

Nýjasta dæmið um árás stjórnvalda á hagsmuni höfuðborgarsvæðisins eru ráðagerðir um að ryksuga allt tiltækt fjármagn í landinu til að borga fyrir álver á Reyðarfirði og orkuver við Kárahnjúka. Þetta þýðir, að minna fjármagn verður til ráðstöfunar handa vaxtarbroddum atvinnulífsins.

Góðar hugmyndir á framtíðarsviðum munu ekki verða að veruleika, af því að efnilegt fólk mun ekki geta útvegað sér fjármagn til að koma tækifærum sínum í gang. Sumir munu gefast upp, en aðrir flytja sig til ríku landanna, þar sem menn taka atvinnuvegi framtíðarinnar fram yfir álver.

Ein birtingarmynd þessarar árásar er 2-2,5% vaxtahækkun í landinu á byggingatíma álvers og orkuvers samkvæmt tölum Seðlabankans. Þetta er skattur, sem ryksugun fjármagns til 19. aldar gæluverkefnis leggur á alla þá, sem þurfa að taka lán, hvort sem er til húsnæðis eða verkefna.

Þetta kemur auðvitað mest niður á unga fólkinu á höfuðborgarsvæðinu. Það þarf að byggja yfir sig og skapa sér tækifæri til hátekjustarfa í greinum, þar sem það hefur lært til verka. Byggðastefna álvers á Reyðarfirði og orkuvers við Kárahnjúka er bein fjárhagsleg árás á allt þetta fólk.

Hér hafa aðeins verið nefnd tvö afmörkuð atriði, þar sem núverandi stjórnvöld vinna gegn hagsmunum íbúa höfuðborgarsvæðisins. Þar fyrir utan snúast heilir málaflokkar ríkisins um varðveizlu gamalla atvinnuvega til sjávar og sveita með tilheyrandi ofurkostnaði skattgreiðenda.

Engum kemur á óvart, að Framsóknarflokkurinn sýni íbúum höfuðborgarsvæðisins óvild, þar sem hann er fylgislítill á svæðinu. Undarlegra er, að Sjálfstæðisflokkurinn skuli kjörtímabil eftir kjörtímabil komast upp með að vinna markvisst gegn hagsmunum kjósenda sinna á svæðinu.

Langvinnur stuðningur kjósenda á höfuðborgarsvæðinu við aðalandstæðinga svæðisins, við ýmsar birtingarmyndir hins pólitíska fjórflokks í landinu, einkum við Sjálfstæðisflokkinn, er verðugt skoðunarefni fyrir sálfræðinga á sviðum langlundargeðs, sjálfseyðingar og sjálfsniðurlægingar.

Þegar kjósendur höfuðborgarsvæðisins sameinast um að kjósa sér fjölmenna sveit fulltrúa nýs þéttbýlisflokks á Alþingi, munu loksins hætta pólitískar ofsóknir gegn höfuðborgarsvæðinu.

Jónas Kristjánsson

FB

Reykvísk stjórnsýsla

Greinar

Meðal helztu vinnureglna í borgarskipulagi Reykjavíkur hafa verið þær þrjár, að ekki skuli fara eftir texta gildandi aðalskipulags, að skipulagið skuli vera smart að sjá úr flugvél, og að ekki skuli leita samráðs við neina þá, sem málið varðar. Þannig voru lagðir í fyrra stígar útivistarfólks.

Á síðbúnum fundi skipulagsins með samtökum íþrótta- og útivistarfólks á Elliðaársvæðinu um síðustu helgi kom fram, að skipulagið fellst á alla gagnrýni málsaðila og lofar bót og betrun. Var svo að skilja, að mistökin í fyrra yrðu rifin upp og verkið unnið að nýju að siðaðra manna hætti.

Í texta gildandi aðalskipulags segir, að reiðstígar skuli vera aðskildir frá hjólastígum og göngu- og hlaupastígum. Þetta eðlilega öryggisákvæði á að draga úr líkum á slysum, er stafa af, að hestar eru ekki vélar, heldur flóttadýr, sem er eðlislægt að vera hræddir við hjól og hlaupandi fólk.

Í Elliðaárdal og upp af honum lagði Reykjavík í fyrra kerfi útivistarstíga kruss og þvers yfir fyrri reiðstíga, af því að slíkar sveigjur líta vel út úr lofti séð. Kerfið var lagt um reiðvegagöng gegnum æfingasvæði hestamanna og sköpunarverkið kórónað með fótboltavelli inni á æfingasvæðinu.

Hvorki göngufólk né hjólafólk hafði beðið um þessa útfærslu, enda hafði það ekki verið spurt ráða. Þegar verkið var hafið og málsaðilar fóru að átta sig á vitleysunni, var strax farið að mótmæla í fjölmiðlum. Síðan var haldinn fjölmennur mót-mælafundur, þar sem yfirvöld áttu engin svör.

Allan tímann héldu borgaryfirvöld því fram, að of seint væri að snúa við, því að framkvæmdir væru í fullum gangi. Til viðbótar var þó lagt í kostnað við margvíslegt klastur. Til dæmis voru virkisveggir reistir í undirgöngum endilöngum og malbik rifið upp, þar sem leiðir mættust.

Nú er hins vegar viðurkennt, að allt verkið í fyrra er ónýtt og klastrið ekki síður. Kostnaður er kominn upp úr öllu valdi, þótt vinna við klastrið sé falin í almennum kostnaði gatnamálastjóra. Nú á eftir að borga kostnað við að rífa vitleysuna og að lokum kostnað við að leggja nýja stíga.

Þegar borgaryfirvöld eru nú seint og um síðir búin að játa, að ekki var heil brú í framkvæmdum síðasta árs við útivistarstíga, vaknar auðvitað sú spurning, hverjir beri ábyrgð á þeim og á tregðu borgaryfirvalda við að hlusta á þá, sem sögðu þeim, að mál þetta væri að komast í óefni.

Hver er staða skipulagsstjóra og gatnamálastjóra Reykjavíkur, þegar forkastanleg vinnubrögð þeirra eru orðin ljós öllum, sem sjá vilja? Hver er staða pólitískt skipaðrar skipulagsnefndar, sem á að hafa eftirlit með embættismönnum borgarinnar á þessu sviði, en lét ekki vekja sig á verðinum?

Til að fullnægja öllu réttlæti er nauðsynlegt að taka fram, að engan greinarmun er hægt að gera á pólitískum meiri- og minnihluta skipulagsnefndar. Menn sváfu jafn værum blundi, hvort sem þeir voru með D eða R í barminum og voru jafn ófáanlegir til að láta vekja sig af værum svefni.

Einnig má spyrja, að hve miklu leyti síðbúnar syndajátningar borgaryfirvalda tengjast siðbótarvilja annars vegar og óþægilegri nálægð borgarstjórnarkosninga hins vegar. Með opinskáum fundi með málsaðilum hafa mótmælaaðgerðir fyrir kosningarnar í maí líklega verið hindraðar.

Á næsta fundi sínum getur skipulagsnefnd staðfest nýju útfærsluna og byrjað að fjármagna hana eða staðfest, að bara sé verið að ýta vanda fram yfir kosningar og lágmarka pólitískt tjón.

Jónas Kristjánsson

FB

Ótímabær gestur

Greinar

Nú er ekki rétti tíminn til að taka með viðhöfn á móti nýjum sendiherra Ísraels á Íslandi, sem á að afhenda trúnaðarbréf á miðvikudaginn. Oft hefur Ísrael gengið fram af okkur, en aldrei eins og þessa síðustu daga, þegar herinn þar í landi gerir árásir á sjúkrabíla og hindrar umönnun slasaðra.

Ísland hefur að vísu diplómatískar skyldur gagnvart ríkjum í stjórnmálasambandi. En hægur vandi er að fresta um óákveðinn tíma ýmsum formsatriðum til að sýna milda útgáfu af óánægju með framvinduna í stefnu Ísraels gagnvart þrautkúgaðri þjóð á hernumdu svæðunum.

Ekki er síður óviðkunnanlegt að halda um þessar mundir ráðstefnu í Reykjavík um ferðalög til Ísraels. Hvað á sýna ferðamönnum, hvernig Ísraelsher myrðir sjúkraliða í Betlehem eða allar hinar hundrað tegundir brota Ísraels á Genfarsáttmálanum um meðferð hernumins fólks?

Íslendingum er þetta einkar sorgleg framvinda, því að sú var tíðin, að sérstaklega gott samband var milli þjóðanna. Þá var ástæða til að taka vel á móti sendiherrum Ísraels og mæta á ráðstefnur til að skipuleggja ferðir fólks um sögustaði biblíunnar. Sá notalegi tími er liðinn fyrir löngu.

Um langt skeið hefur Ísrael verið að breytast í æxli, sem ógnar heimsfriðnum. Í skjóli neitunarvalds Bandaríkjanna í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, sækir Ísrael óþvingað fram með sífellt fjölbreyttari brotum á Genfarsáttmála, sem Ísrael og Bandaríkin hafa raunar ritað undir.

Þetta er ekki verk einnar ríkisstjórnar Ísraels, heldur hefur æxlið vaxið á löngum tíma. Þjóðin þar í landi ber ábyrgð á stjórnarskrá sinni, sem heimilar pyndingar, og stjórnmálamönnum sínum, sem sækja sér fylgi með því að láta skýrt koma fram, að þeir líti á Palestínumenn sem hunda.

Ástandið hefur hríðversnað, síðan Ísraelsmenn völdu sér Ariel Sharon sem forsætisráðherra, af því að hann lofaði að sýna Palestínumönnum í tvo heimana. Það hefur alltaf verið stefna Sharon að efla byggðir ísraelskra landtökumanna og hindra samningaviðræður með hörðum skilyrðum.

Frá upphafi hefur það líka verið stefna núverandi ríkisstjórnar að reyna að kúga Palestínumenn til hlýðni með því niðurlægja þá sem allra mest og eyðileggja efnahagslíf þeirra. Nú hefur ofbeldið verið hert og Sharon segir opinberlega, að drepa verði Palestínumenn, unz þeir hlýði.

Stefna ríkisstjórnar Ísraels og forvera hennar er ein helzta forsenda hatursins á Vesturlöndum, sem oft brýst út í löndum íslams og mælist skýrt í skoðanakönnunum. Alvarlegasta birtingarmynd þessa haturs eru tilraunir múslima til að fremja hryðjuverk á Veturlöndum í hefndarskyni.

Hatur múslima á raunar eingöngu að beinast að Bandaríkjunum, því að þau bera ein fjárhagslega, hernaðarlega og pólitíska ábyrgð á Ísraelsríki. Í skjóli ofurvalds Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi eru Palestínumenn drepnir með bandarískum vopnum fyrir bandarískt gjafafé.

Því miður gefur Evrópa líka höggstað á sér með því að taka Ísrael inn í evrópskan ríkjahóp á ýmsum sviðum. Ísland hefur gengið skrefinu lengra með stuðningi við Ísrael eða hjásetu í fjölþjóðlegum atkvæðagreiðslum. Þennan óbeina stuðning Íslands þarf að stöðva þegar í stað.

Íslendingar mega ekki taka neina óbeina ábyrgð á krabbameini Miðausturlanda, sem mest ógnar heimsfriðnum um þessar mundir, og allra sízt láta ferðaskrifstofur ginna sig til ófriðarsvæða.

Kristjánsson

FB

Vestrið hefur klofnað

Greinar

Verndartollar Bandaríkjanna á stáli eru nýjasta skrefið af mörgum í átt frá stefnu samstarfs við Evrópu til einhliða aðgerða heimsveldis, sem telur sig geta farið fram á fjölþjóðavettvangi nákvæmlega eins og því þóknast, af því að alls enginn geti staðizt snúning hernaðarmætti þess.

Evrópusambandið hefur að vísu ákveðið, að svara ekki í sömu mynt, heldur sækja mál gegn Bandaríkjunum fyrir Heimsviðskiptastofnuninni. Þar hafa Bandaríkin á síðustu tveimur árum tapað fimm málum, sem varða stál, og töpuðu um daginn skattafríðindamáli fyrirtækja á alþjóðamarkaði.

Evrópusambandið mun nota tækifæri stáltollanna til að hefja þær gagnaðgerðir, sem því eru heimilar samkvæmt reglum Heimsviðskiptastofnunarinnar vegna þessara fyrri dóma. Sambandið hefur nóg af löglegum tækifærum til að setja háa tolla og hömlur á bandarískar vörur.

Þannig mun Evrópa halda sig innan ramma alþjóðalaga í viðskiptastríðinu við Bandaríkin og láta þau ein um að leika hlutverk hryðjuverkamannsins úr villta vestrinu. Það breytir því ekki, að Evrópa mun svara Bandaríkjunum. Viðskiptastríðið milli Vesturlanda mun því harðna á næstunni.

Viðskiptalegur yfirgangur Bandaríkjanna gagnvart Evrópu er eðlilegt framhald af yfirgangi þeirra á öðrum sviðum. Bandaríska þingið hefur lengi tregðast við að staðfesta fjölþjóðlega sáttmála og nú hefur forsetaembættið sjálft tekið forustu um að hafna slíkum sáttmálum yfirleitt.

Bandaríkin hafa lýst frati á Stríðsglæpadómstól Sameinuðu þjóðanna. Þau neita að fara eftir Genfarsáttmálanum um meðferð stríðsfanga, þótt hann taki af öll tvímæli um, hvernig skuli fara með hvers kyns fanga frá Afganistan, þar á meðal þá, sem ekki eru beinlínis einkennisklæddir.

Bandaríkin neita að taka þátt í banni við sölu á jarðsprengjum, sem hafa gert tugþúsundir barna örkumla í þriðja heiminum. Þau hafna fjölþjóðasamstarfi um hert eftirlit með framleiðslu efnavopna. Þau rituðu ekki undir Kyoto-bókunina. Þau hafa unnið leynt og ljóst gegn öllu þessu.

Til viðbótar við yfirgang vegna sinna eigin hagsmuna hafa Bandaríkin tekið að sér að halda hryðjuverkaríkinu Ísrael uppi fjárhagslega og hernaðarlega og gera utanríkisstefnu þess að sinni. Öxullinn milli Bandaríkjanna og Ísraels er núna hinn raunverulega illi öxull heimsins.

Svo náið eru þessi tvö ríki tengd, að ekkert þingmannsefni nær kosningu í Bandaríkjunum, ef það efast opinberlega um, að stuðningurinn við Ísrael sé réttmætur. Þetta er mikilvægasta rótin að einbeittum áhuga múslima á hryðjuverkum í Bandaríkjunum og víðar á Vesturlöndum.

Evrópa þarf að greina sig betur frá þessum öxli Bandaríkjanna og Ísraels, svo að múslimar átti sig betur á, að Evrópa er ekki aðili að ofbeldi öxulsins gegn Palestínumönnum og öðrum þjóðum íslams. Engin ástæða er fyrir Evrópu að taka á sig meðsekt af heljartökum Ísraels á Bandaríkjunum.

Evrópa hefur enga hernaðarlega burði til að hamla gegn ofbeldi Bandaríkjanna í þriðja heiminum. Eigi að síður hefur hún næga efnahagslega og viðskiptalega burði til að láta hart mæta hörðu í tilraunum Bandaríkjanna til að knýja Evrópu til að lúta einbeittri hagsmunagæzlu í viðskiptum.

Klofningur Evrópu og Bandaríkjanna er orðinn raunverulegur og á eftir að magnast. Viðskiptahagsmunir Íslands eru í Evrópu. Verndun þeirra hagsmuna mun ráða pólitískri afstöðu okkar.

Jónas Kristjánsson

FB

Bíddu bara

Greinar

Bíddu bara, þangað til ég verð stór. Bíddu bara, þangað til ég verð ráðherra. Þetta er innihaldið, þegar búið er að tína reiðilesturinn utan af skrautlegu bréfi formanns Samfylkingarinnar til forstjóra Baugs. Flokksformaðurinn segist vera langminnugur og muni hefna sín um síðir.

Málstíllinn hefur daprazt síðan hann var ráðherra árið 1994. Þá sagði hann: “Þú stjórnar Arnóri. Ég stjórna þér. Þessi ráðherra er ekki hræddur við að berjast. Ég minni þig á framkvæmdastjóra Náttúruverndarráðs, sem nú er fyrrverandi framkvæmdastjóri. Gleðileg jól.”

Starfsmaður veiðistjóra hafði sem félagi í Skotveiðifélaginu látið í ljós skoðun á rjúpnaveiði, sem ráðherranum mislíkaði. Hann heimtaði, að starfsmaðurinn yrði rekinn. Þegar veiðistjóri varð ekki við kröfunni, var hann sjálfur rekinn samkvæmt ofangreindri hótun valdhafans.

Ráðherrann sýndi ótrúlegan hrottaskap. Skoðun manna á rjúpnaveiði kemur ekki stjórnsýslunni við. Embættismenn geta ekki rekið starfsmenn sína út á símhringingar frá trylltum ráðherra. Og aðeins forhertur ráðherra getur rekið embættismann fyrir að stunda rétta stjórnsýslu.

Átta árum síðar er ráðherrann orðinn formaður Samfylkingarinnar. Hann á bróður, sem rekur fyrirtæki, er missti viðskipti við Baug af því að starfsmaður þess skoðaði gögn á skrifborði viðskiptavinarins. Formaðurinn taldi viðskiptaslitin vera óbeina hefnd fyrir sína eigin pólitík.

Þótt svo væri, sem er langsótt, getur formaður stjórnmálaflokks ekki sent bréf eða hringt með hótunum um hefndir. Slíkt verður aðeins þannig skilið, að hann ætli sér að hefna sín á Baugi, þegar hann verði orðinn valdhafi í landinu á nýjan leik. Slíkt geta menn bara í Afríkuríkjum.

Þáverandi umhverfisráðherra og núverandi formaður Samfylkingarinnar hefur alls ekkert lagazt á þessum átta árum. Hann fær enn stjórnlaus reiðiköst og hótar mönnum öllu illu. Sagan sýnir, að hann framkvæmir hótanir sínar, þegar hann fær tækifæri til að misbeita ráðherravaldi.

Bréf og símtöl formannsins sýna óvenjulegan dómgreindarskort. Hann hefur ekki stjórn á reiðinni og greinir ekki málefni frá persónu sinni. Að hans mati mátti Baugur ekki hætta að skipta við fyrirtæki bróðurins, rétt eins og ríkisstarfsmaður mátti ekki hafa einkaskoðun á rjúpnaveiði.

Í þessu samhengi skiptir engu, hvort formaðurinn biðst afsökunar á stjórnleysinu eða sér eftir því. Aðalatriðið er, hvernig hann muni haga sér, þegar hann verður ráðherra. Getur Samfylkingin boðið upp á stjórnlausa valdshyggju, þegar næst verður reynt að mynda ríkisstjórn?

Svarið er augljóst. Enginn stjórnmálaflokkur getur leyft sér að hefja stjórnarsamstarf við flokk, sem býður fram ráðherraefni, er fær stjórnlaus reiðiköst, krefst brottrekstrar ríkisstarfsmanna út af einkamálum, sem varða ekki stjórnsýsluna, og rekur menn fyrir að anza ekki óhæfunni.

Það er áfangi í vegferð þjóðarinnar frá gamalli valdshyggju inn í siðvætt nútímaþjóðfélag, frá ráðherraveldi til opins lýðræðis nágrannaríkjanna, að hún hafni frumstæðum valdamönnum, sem hafa ekki stjórn á sjálfum sér, sem hóta að misbeita ráðherravaldi og sem misbeita ráðherravaldi.

Hafa má það til marks um stöðu Íslendinga á þróunarbrautinni, hvort þeir velja sér ráðherra, sem fara eftir reglum um stjórnsýslu eða fara eftir hamslausu skapi og hamslausri valdshyggju.

Jónas Kristjánsson

FB

Blindni víki fyrir trausti

Greinar

Bandaríkin hafa hert reglur um beinar og óbeinar greiðslur til stjórnmálanna. Eftir uppljóstranir um fjármál orkufyrirtækisins Enron náðist góður meirihluti í bandarísku fulltrúadeildinni fyrir auknum takmörkunum við greiðslum til verkefna, sem óbeint tengjast framboðsmálum.

Enron var fyrirferðarmikið í einkavæðingu orkugeirans í Bandaríkjunum. Það greiddi miklar fjárhæðir til kosningabaráttu Bush Bandaríkjaforseta og annarra frambjóðenda, sem tengdust honum. Fyrirtækið fékk í staðinn að hafa áhrif á framvindu einkavæðingar orkugeirans.

Í Bandaríkjunum hefur lengi verið talið sjálfsagt, að allar fjárreiður, sem tengjast stjórnmálum, séu gegnsæjar almenningi. Þess vegna er nákvæmlega vitað, hvað hver kosningabarátta kostaði og hversu mikið af peningunum kom frá frekum hagsmunaaðilum á borð við Enron.

Þannig vitum við, að Michael Bloomberg greiddi sem svarar sjö milljörðum króna til að verða borgarstjóri í New York, að mestu leyti úr eigin vasa. Þannig vitum við, að George W. Bush greiddi sem svarar tuttugu milljörðum króna til að verða forseti, sumpart frá Enron.

Flest ríki Vesturlanda hafa fetað sömu slóð og Bandaríkin á þessu sviði. Annars vegar hafa þau sett lög, sem gera fjárreiður stjórnmálanna gegnsærri. Hins vegar hafa þau sett lög, sem takmarka fjárhæðir, sem einstakir aðilar geta látið renna beint eða óbeint til stjórnmálanna.

Ísland hefur hvorugt gert, jafnvel þótt ljóst megi vera, að vandamál, sem skotið hafa upp kollinum á Vesturlöndum almennt, láti einnig á sér kræla hér á landi. Einstaka stjórnmálamenn hafa reynt að hreyfa málinu, en mætt harðri andstöðu annarra, einkum Sjálfstæðisflokksins.

Fréttir af græðgi áhrifamanna í stórfyrirtækjum hér á landi, einkum þeim, sem hafa verið á leið til einkavæðingar, benda til, að kjósendur hefðu gagn af að vita, hversu mikið fé þessir menn hafa látið fyrirtækin greiða til pólitískra hagsmuna, sem varða til dæmis einkavæðinguna.

Við vitum af samanlögðum auglýsingum baráttunnar fyrir síðustu alþingiskosningar, að Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin voru með svo rúm fjárráð, að miklar summur hlutu að renna til þeirra frá fjársterkum aðilum, sem enn þann dag í dag er ekki með vissu vitað, hverjir voru.

Fyrst og fremst er það landlægt kæruleysi kjósenda, sem veldur því, að þeir hafa ekki knúið stjórnmálaflokkana til að setja lög um gegnsæjar fjárreiður stjórnmálanna, hvort sem um er að ræða greiðslur eða aðra fyrirgreiðslu til flokka eða manna eða til verkefna, sem tengjast þeim.

Ástandið hér á landi stafar ekki af, að íslenzkir stjórnmálamenn séu spilltari en starfsbræður þeirra beggja vegna Atlantshafsins. Þeir hafa bara ekki orðið fyrir nægum þrýstingi og eru að spara sér og flokkum sínum óþægindin af að þurfa að sýna, hvernig þeir eru fjármagnaðir.

Vestrænt lýðræði hvílir á trausti manna milli og traustið hvílir á gegnsæi, en ekki blindni. Þetta er munurinn á þjóðskipulagi okkar heimshluta og ýmsu öðru þjóðskipulagi á jörðinni. Ekki þarf að efast um, að traust mundi eflast hér á landi, ef fjárreiður stjórnmálanna yrðu gegnsæjar.

Svo geta kjósendur spurt sjálfa sig, hvers vegna ýmsar opinberar siðareglur, sem þykja sjálfsagðar í öllum nágrannalöndum okkar, hafa ekki enn komizt til framkvæmda hér á landi.

Jónas Kristjánsson

FB

Fylgissnautt frumvarp

Greinar

Undarlegt er frumvarp sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnarinnar um 9,5% veiðigjald í sjávarútvegi, enda virðast flestir vera því andvígir, aðrir en ríkisstjórnin og Landssamband íslenzkra útvegsmanna. Frumvarpið sættir ekki sjónarmið deiluaðila, þótt það sé yfirlýst markmið þess.

Veiðigjaldsumræðan hefur þróazt á síðustu árum í átt til tveggja andstæðra sjónarmiða. Annars vegar eru þeir, sem ekki vilja leggja viðbótarálögur á sjávarútveg umfram aðrar atvinnugreinar. Hins vegar eru þeir, sem vilja endurheimta eignarhald auðlindarinnar í hendur þjóðarinnar.

Eftir birtingu skýrslu auðlindanefndar hafa hinir síðarnefndu í stórum dráttum sameinazt um fyrningarstefnu , sem felur í sér, að veiðirétturinn falli í áföngum frá útgerðarfyrirtækjum til ríkisins, sem geti síðan útdeilt honum að nýju, til dæmis með byggðakvóta og útboði veiðileyfa.

Hinir síðarnefndu hafa ákaflega misjafnar skoðanir á, hvernig fyrndum kvóta verði úthlutað að nýju. Sumir leggja mikla áherzlu á byggðakvóta til að styðja búsetu í sjávarplássum. Aðrir leggja mikla áherzlu á útboð veiðileyfa til að leyfa markaðinum að finna verðgildi kvótans.

Allir eru þeir þó sammála um fyrsta skrefið, það er að segja fyrningu núverandi kvóta. Fyrningarleiðin nýtur raunar mest fylgis með þjóðinni og er í samræmi við niðurstöðu auðlindanefndar. Frumvarp sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnarinnar er hins vegar á allt öðrum nótum.

Menn hljóta að velta fyrir sér, hvert sé raunverulegt markmið frumvarps, sem flestir eru andvígir. Er ríkisstjórnin að reyna að hleypa málinu upp og fá fellt fyrir sér frumvarp til að geta fórnað höndum og haldið óbreyttu kerfi á þeim forsendum, að ekki hafi náðst sátt um nýtt?

Slíkt hlýtur að teljast nokkuð glannafengið, því að fall stjórnarfrumvarps er álitshnekkir fyrir ríkisstjórnina í heild og sérstaklega þann ráðherra, sem flytur það fyrir hennar hönd. Slík leikflétta hlyti að byggjast á, að ætlunin sé að fórna svo sem einum sjávarútvegsráðherra í þágu fléttunnar.

Nokkrir stjórnarþingmenn hafa lýst andstöðu við frumvarpið, hver á sínum forsendum. Sjávarútvegsráðherra talar eins og þeir muni greiða atkvæði á móti frumvarpinu og hann hafi í staðinn ætlazt til, að stjórnarandstaðan eða hluti hennar styðji málið og komi því í höfn fyrir hann.

Hugsanlegt er, að ákafir veiðigjaldssinnar innan stjórnarandstöðunnar kunni að freistast til að styðja frumvarpið á þeirri forsendu, að betri sé vondur skattur en alls enginn skattur. Fremur langsótt hlýtur þó að teljast að leggja umdeilt frumvarp fram á grunni slíkra hálmstráa.

Hin pólitíska staða er þannig, að Samfylkingin, Vinstri grænir og Frjálslyndir vilja fyrningu og munu sigla undir þeim fána í næstu alþingiskosningum. Framsóknarflokkurinn verður þá í vandræðum með sig, því að meirihluti veiðistefnunefndar flokksins vill fyrningarleiðina.

Meirihluti Sjálfstæðisflokksins er hins vegar andvígur öllum álögum á sjávarútveg, enda er Landssamband íslenzkra útvegsmanna einn helztu hornsteina flokksins. Þessir aðilar telja ef til vill unnt að friða lýðinn með því að kasta í hann árlegu veiðigjaldi upp á tvo milljarða króna.

Líklega er raunverulegt markmið frumvarpsins ekki nein leikflétta, sem felur í sér fall þess og óbreytt ástand auðlindamála, heldur ímynda ráðamenn sér ranglega, að þeir hafi fundið sátt.

Jónas Kristjánsson

FB

Íslenzk omerta

Greinar

Omerta er hornsteinn mafíunnar, hin þægilega þögn. Í ellefu aldir hefur mafían lifað á þögninni. Fólkið á valdasvæðum hennar segir ekki til glæpanna, þótt það sé vitni að þeim. Af vana eða ótta snýr trúnaður almennings að staðarhöfði mafíunnar, en ekki að þjóðfélaginu í heild.

Í ellefu aldir hefur mafían verið ríki í ríkinu á sunnanverðri Ítalíu. Á síðustu öld teygði hún anga sína til Bandaríkjanna og undir lok aldarinnar varð hún fyrirmynd hliðstæðra samtaka í Austur-Evrópu og víðar. Alls staðar beitir hún omertu til að grafa undan ríkjandi þjóðskipulagi.

Íslenzka útgáfan af omertunni er málshátturinn: Oft má satt kyrrt liggja. Þagnarstefna er inngróin í þjóðarsálina, þótt hún geti þannig stundum varpað huliðsklæðum yfir löglaust eða siðlaust athæfi. Ekki eru öll vitni sannfærð um, að þeim beri að skýra þjóðfélaginu frá vitneskju sinni.

Sérstök tegund af omertu hefur verið til vandræða í sambúð þjóðfélagsins við ýmis stórfyrirtæki á Vesturlöndum. Samvizkusamir einstaklingar hafa komizt í klemmu vegna starfa sinna við fyrirtæki, þar sem þeir komast að raun um ólöglegt eða ósiðlegt athæfi stjórnenda.

Víða hafa verið sett lög til að verja hagsmuni þeirra, sem víkjast undan þeirri hefð omertunnar, að oft megi satt kyrrt liggja. Hér á landi eru ekki til slík lög. Þess vegna gátu siðleysingjarnir, er ráða Símanum, rekið starfsmanninn, sem sagði þjóðfélaginu frá taumlausri græðgi þeirra.

Upplýst var, að stjórnarformaður Símans lét fyrirtækið borga sér milljónir utan stjórnarlauna, sem þætti ekki góð latína í nágrannalöndunum. Þetta varð þjóðfélagið að fá að vita, en samvizkusami uppljóstrarinn var rekinn fyrir vikið. Hinn siðferðilegi lærdómur fer ekki milli mála.

Forsætisráðherra og ýmsir fleiri valdamenn hafa stutt brottreksturinn og þannig lagt lóð sitt á vogarskál omertunnar. Héðan í frá verða þeir því færri en ella, sem voga sér að láta samvizkuna stjórna gerðum sínum, þegar þeir geta valið þögnina um lögleysu eða siðleysu stjórnenda.

Síminn er kennslubókardæmi íslenzkrar spillingar. Þar hafa tveir samgönguráðherrar í röð komið upp ástandi, þar sem pólitísk gæludýr ráða ferðinni og maka krókinn í skjóli meira eða minna meðvitundarlausrar stjórnar, sem skipuð er gæludýrum ýmissa stjórnmálaflokka.

Undanfarnar vikur hefur hvert siðleysið á fætur öðru komið í ljós innan Símans, þar á meðal milljónaráðgjöf stjórnarformannsins og greiðslur til hótels, sem hann á með öðrum. Að mati hans og forsætisráðherra er brottrekstrarsök að segja þjóðfélaginu frá slíku athæfi.

Stjórnarformaðurinn, samgönguráðherrann og forsætisráðherrann endurspegla siðferði omertunnar. Starfsmaðurinn hefði að þeirra mati átt að reyna að vinna að siðbótum innan stofnunarinnar í stað þess að kjafta frá. Fullyrða má, að slíkum kverúlans hefði verið einkar illa tekið.

Í framvindu máls Árna Johnsen eins og máls Friðriks Pálssonar stjórnarformanns kom í ljós, að sem betur fer er til fólk hér á landi, er fer ekki eftir þeirri siðfræði omertunnar, að oft megi satt kyrrt liggja. Þeir hlýða samvizkunni og láta þjóðfélagið vita um svínaríið, sem þeir sjá.

Auðvitað verður þjóðfélagið að grípa til varna fyrir samvizkusama flytjendur válegra tíðinda, þegar hagsmunagæzlumenn omertunnar grípa til refsiaðgerða og hrifsa lifibrauðið af þeim.

Jónas Kristjánsson

FB

Félagi Napóleon

Greinar

Þegar núverandi forsætisráðherra var borgarstjóri Reykjavíkur, lét hann reka ræstingakonu fyrir að nota síma hans. Sem forsætisráðherra heldur hann verndarhendi yfir forstöðumanni Þjóðmenningarhúss, sem er í vondum spillingarmálum upp á margar milljónir króna.

Forstöðumaður Landmælinga Íslands var á sínum tíma rekinn og dæmdur fyrir upphæðir, sem nema broti af fjárhæðunum, sem Ríkisendurskoðun gerir athugasemdir við hjá forstöðumanni Þjóðmenningarhúss. Um fimmtugfaldur munur er á fjárhagslegu umfangi málanna.

Því er eðlilegt, að fólk spyrji, hvers vegna ræstingakonan og Landmælingastjórinn voru rekin, en forstöðumaður Þjóðmenningarhúss fær bara áminningu. Svarið er einfaldlega, að ræstingakonan og Landmælingastjórinn voru ekki í hópi pólitískra skjólstæðinga forsætisráðherra.

Af skýrslu Ríkisendurskoðunar má ráða, að forstöðumaður Þjóðmenningarhúss hefur frá upphafi lagt sig fram um að maka krókinn í starfi. Ríkisendurskoðun vísar að öðru leyti málinu til forsætisráðuneytisins og forsætisráðherra, sem bera ábyrgð á störfum forstöðumannsins.

Komið hefur fram í öðrum málum, t.d. máli Landsbankastjóranna fyrir fjórum árum, að Ríkisendurskoðun lítur á sig sem skoðunarstofu bókhalds. Hún telur ekki á sínu færi að gera tillögur til aðgerða og vísar slíku til ráðuneyta eða Alþingis, sem hún heyrir raunar beint undir.

Því ber forsætisráðuneyti að taka á máli forstöðumannsins og síðan Alþingi, ef það telur forsætisráðherra hafa staðið illa að verki. Forsætisráðherra hefur þegar sýknað forstöðumanninn. Alþingi er auðsveip atkvæðavél forsætisráðherrans og mun því drepa málinu á dreif.

Eini þröskuldurinn í vegi spillingarinnar er embætti ríkissaksóknara, sem starfar óháð öðrum stjórnvöldum og getur tekið upp spillingarmál, sem önnur og spilltari stjórnvöld láta hjá líða að vísa þangað. Embættið hefur þegar sagzt munu taka til meðferðar mál forstöðumannsins.

Spillingin í Þjóðmenningarhúsi er svipaðs eðlis og spillingin í Símanum. Gæludýr eru á framfæri stjórnmálaflokka og -manna. Þau komast til áhrifa í ríkiskerfinu út á pólitísk sambönd. Þau telja sig munu njóta pólitískrar verndar, ef upp kemst um græðgi þeirra. Þau maka því krókinn.

Mat gæludýranna er rétt. Ef þau fara klaufalega gírugt að við kjötkatlana, fá þau áminningu og í versta tilviki starfslokasamning upp á tugi milljóna króna. Almenn lög í landinu um stjórnsýslu, meðferð opinberra fjármuna og hlutafélagalög gilda ekki um pólitísku kvígildin í landinu.

Við búum í þjóðfélagi, sem rithöfundurinn George Orwell lýsti í bókinni: Félagi Napóleon. Öll dýrin eru jöfn, en sum eru jafnari en önnur. Annars vegar er allur almenningur, frá skúringakonum upp í Landmælingastjóra. Hins vegar eru þeir, sem eru í náðinni hjá ráðamönnum þjóðarinnar.

Auðvitað er þetta eina ríkið á Vesturlöndum, þar sem ekki hafa verið sett ströng lög um fjárreiður stjórnmála. Auðvitað er þetta eina ríkið á Vesturlöndum, þar sem allar réttarbætur almennings koma að utan, frá erkibiskupum Evrópusambandsins, en engar koma innan frá.

Í grundvallaratriðum er Ísland eins konar Afríkuríki, þar sem velgengni manna ræðst af því, hversu duglegir þeir eru að bugta sig og beygja fyrir sjálfum Félaga Napóleon.

Jónas Kristjánsson

FB

Síminn og Enron

Greinar

Sumt er líkt með Símanum og bandaríska stórfyrirtækinu Enron, sem hafa verið í misjöfnum fréttum að undanförnu. Hvort tveggja starfar á jaðri tveggja heima, Enron keypti og seldi einkavæðingu orkugeirans og Síminn hefur um nokkurt skeið rambað á barmi einkavæðingar.

Hvorki-né staðan er önnur rót vandamála fyrirtækjanna tveggja og eigenda þeirra. Í tilviki Símans er farið að losna um tiltölulega fast mótaðar siðareglur og gildismat ríkisrekstrar, án þess að í staðinn hafi fest rætur tiltölulega fast mótaðar siðareglur og gildismat einkarekstrar.

Önnur rótin er lífsspeki græðginnar, sem hefur að bandarískri fyrirmynd rutt sér til rúms meðal forréttindastétta beggja vegna hafs. Menn hafa tekið trú á klisjuna um, að gróði eins sáldrist til allra hinna. Taumlaus sjálfsbjargarviðleitni eins efli efnahagslífið og magni hag fjöldans.

Þegar lífspeki græðginnar fer saman við losaralegt umhverfi fyrirtækja á breytingaskeiði, verður til eins konar Villta vestrið, þar sem valdamenn fyrirtækjanna sýna ótrúlegt hugmyndaflug við að misnota aðstöðu sína til að skara eld að eigin köku og við að réttlæta framferðið opinberlega.

Þriðja rótin felst í tengslunum við pólitíkina. Hér heima eru raunar allir málsaðilar komnir til skjalanna á pólitískum forsendum frekar en málefnalegum. Í flestum tilvikum eru þeir innstu koppar í búri stjórnmálaflokksins, sem mesta áherzlu leggur á sjálfsbjargarviðleitni.

Vandinn byrjar í sjálfri einkavæðingarnefndinni, sem hefur látið undir höfuð leggjast að setja skorður við lausunginni, sem hefst þegar í aðdraganda einkavæðingar og magnast gegnum allt ferli hennar. Undir verndarvæng einkavæðinganefndar leikur óheft sjálfsbjargarviðleitni lausum hala.

Sjálfur formaður einkavæðingarnefndar gaf tóninn með því að láta greiða sér laun fyrir meinta ráðgjöf, er voru margfalt hærri en þau, sem hann fékk fyrir formennskuna sjálfa. Önnur gæludýr einkavæðingarinnar hafa tekið sér þá aðferð til fyrirmyndar. Eftir höfðinu dansa limirnir.

Stjórnarmenn ríkisfyrirtækja eru valdir pólitískt og telja stjórnarlaun sín vera greiðslu fyrir að vera til, en ekki fyrir að gera neitt. Þeir sinna því engu því eftirliti og aðhaldi, sem talið er vera hlutverk stjórnarmanna í einkafyrirtækjum. Því gátu ráðamenn Símans leikið lausum hala.

Ekki er von á góðu, þegar pólitísk gæludýr með hugmyndafræði síngirninnar í farteskinu koma að eftirlitslausum ríkisfyrirtækjum, sem eru að breytast í einkafyrirtæki. Niðurstöðuna höfum við séð í nokkrum tilvikum, en hvergi greinilegar en í Símanum, furðulega reknu fyrirtæki.

Af framangreindum ástæðum hefur íslenzk einkavæðing réttilega verið nefnd einkavinavæðing. Ráðamenn þjóðarinnar hafa gripið sérhvert tækifæri einkavæðingar til að koma pólitískum gæludýrum sínum fyrir við kjötkatlana. Gæludýrin fara síðan hamförum í græðginni.

Einkavæðingarnefnd er hluti vandans, en ætti að vera hluti lausnarinnar. Hún ætti að tryggja málefnalegra mannval til forustu ríkisfyrirtækja á breytingaskeiði og einstaklega strangt eftirlit með þeim, í ljósi augljósrar hættu af hinni auknu útbreiðslu á hugsunarhætti græðginnar.

Síminn hefur eins og Enron opinberað fyrir öllum, hvernig Villta vestrið verður til. Þau sýna okkur, að við þurfum skriflegar leikreglur, sem eru miklu nákvæmari en við höfum haft hingað til.

Jónas Kristjánsson

FB