Gagnslaust þýlyndi

Greinar

Ekki er hægt að sjá neinn árangur af gagnkvæmum heimsóknum íslenzkra og kínverskra ráðamanna í stjórnmálum, stjórnsýslu og viðskiptum. Ekki er heldur hægt að sjá neinn árangur af sendiráði Íslands í Kína. Og allra sízt er hægt að sjá neinn árangur af því að skríða fyrir Kína.

Sem viðskiptavinur kemst Kína varla á blað Íslands. Um hálft prósent útflutnings okkar fer til Kína, miklu minna en til venjulegs smáríkis í Evrópu. Enda bjóðum við aðeins dýrar vörur, sem einungis ríkar þjóðir hafa efni á að kaupa, Evrópumenn, Bandaríkjamenn og Japanir.

Ekki er einu sinni jöfnuður í hinum sáralitlu viðskiptum Íslands og Kína. Þaðan kemur margfalt meira af vörum en fer þangað. Vöruskiptajöfnuðurinn er óvenjulega óhagstæður, þrátt fyrir sendiráð í Peking og endalausar tilraunir til að koma íslenzkum vörum á framfæri í Kína.

Samt hafa íslenzkir ráðamenn verið á stöðugum ferðalögum til Kína, stundum með fjölmennar sendinefndir kaupsýslumanna. Tilraun til að koma upp íslenzkri lakkrísverksmiðju þar í landi fóru frækilega út um þúfur. Og ekki er enn séð, að Orkuveita Reykjavíkur sjái aur fyrir sitt puð.

Ekki er nóg með, að íslenzkir peningar hafði verið lagðir undir í kínverska fjárhættuspilinu. Stjórnmálamenn hafa lagt orðstír sinn að veði með því að bjóða hingað illræmdum harðstjórum á borð við Li Peng og Jiang Zemin og efnt þannig til mótmæla og sundrungar í þjóðfélaginu.

Vigdís Finnbogadóttir klúðraði forsetatíð sinni með ógætilegum orðum á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking fyrir sjö árum. Þar sýndi hún þýlyndi og gagnrýndi þá, sem bentu á, að Kína hafði þverbrotið skilyrði, sem sett höfðu verið fyrir því að fá að halda ráðstefnuna.

Meira að segja hefur bilað teflon-húðin á Davíð Oddssyni forsætisráðherra, sem lét íslenzku stjórnsýsluna taka við 500 nafna svörtum lista frá kínverska sendiráðinu og lét senda lögreglumenn út um heim til að hindra friðsama sértrúarmenn í að trufla heimsókn Jiang Zemin til Íslands.

Eins og ýmsir fleiri ráðamenn í stjórnmálum, stjórnsýslu og viðskiptum víðar í heiminum eru ráðamenn hér á landi uppnumdir af stærð og uppgangi Kína og telja þar vera mikil viðskiptafæri, þótt okkur væri nær að reyna að sinna betur nálægum mörkuðum, sem borga betur.

Kína er ofmetinn viðskiptavinur. Hagtölur þaðan eru stórýktar og marklausar með öllu. Vond reynsla er af fjárfestingum þar í landi. Mestu máli skiptir þó, að Kína á eftir að ganga gegnum hríðir aðlögunar að lýðræði, sem Indland og ýmis fleiri þriðja heims lönd hafa þegar komizt yfir.

Kommúnistaflokkurinn í Kína hefur það eitt að markmiði að bíða ekki sjálfur sömu örlög og systurflokkurinn í Sovétríkjunum sálugu. Vegna þessa þolir hann enga sjálfstæða hugsun í landinu, ekki einu sinni sértrúarflokka og góðgerðasamtök. Þess vegna er Kína tifandi tímasprengja.

Engin heilbrigð skynsemi er í dálæti íslenzkra ráðamanna á viðskiptum við þessa mestu tímasprengju nútímans, sem getur hvenær sem breytzt í vígvöll milli héraðshöfðingja. Helzt hefur verið bent á, að óhófsáhugi á ókeypis ferðalögum til Kínamúrsins valdi þýlyndi okkar manna.

Við skulum hætta kínversku þráhyggjunni, hver sem er orsök hennar, og beina kröftum okkar að vexti vannýttra markaða í auðugum nágrannalöndum okkar, þar sem leikreglur eru traustar.

Jónas Kristjánsson

FB

Talibani í Hvíta húsinu

Greinar

Fimmtíu ríki Múhameðs spámanns, Vatíkanið í Róm og samtök kristilegra ofsatrúarsafnaða í Bandaríkjunum hafa tekið höndum saman um að hindra ný ákvæði í sáttmálum Sameinuðu þjóðanna um aukinn rétt barna og kvenna. Einkum eru þessir aðilar andvígir fé til fóstureyðinga.

George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur lagt lóð sitt eindregið á vogarskál hinna trúuðu róttæklinga. Hann hefur skipað harða andstæðinga fóstureyðinga í bandarískar sendinefndir á ráðstefnum Sameinuðu þjóðanna og hindraði þannig árangur á nýlegri barnaráðstefnu þeirra.

Á þessu sviði og ýmsum skyldum sviðum eru Bandaríkin komin í sveit með ríkjum á borð við Súdan, Írak og Íran og berjast með þeim gegn eindreginni fylkingu ríkja Vestur-Evrópu, sem vilja auðvelda fóstureyðingar í þriðja heiminum, meðal annars til að hafa hemil á eyðni.

Bush Bandaríkjaforseti hefur fleiri járn í eldinum. Hann vill ekki, að Bandaríkin staðfesti sáttmála Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1980 um aukinn rétt kvenna og barna. Allur þorri ríkja heims, 169 ríki alls, hafa staðfest sáttmálann, en ríkisstjórn Bandaríkjanna hafnar honum.

Bandaríska dómsmálaráðuneytið er enn að skoða samninginn og hefur allt á hornum sér. Samt fjallar hann fyrst og fremst um, að konur og börn í þriðja heiminum fái sama rétt og þau hafa í ríku löndunum. Til dæmis bannar hann, að konur séu grýttar til dauðs fyrir að vera nauðgað.

Viðhorf forsetans endurspeglar í smáatriðum stefnu samtaka kristilegra ofsatrúarsamtaka, sem telja aukinn rétt barna og kvenna draga úr eðlilegu feðraveldi, sem sé vilji guðs. Sömu skoðunar eru talibanar í Afganistan, sem einnig gerðu það sem þeir gátu til að takmarka réttindi kvenna.

Óneitanlega er það sérkennileg staða í alþjóðapólitíkinni, að fulltrúar Bandaríkjanna á ráðstefnum Sameinuðu þjóðanna sitji úti í hornum á klíkufundum með fulltrúum Súdans, Íraks og Írans til að skipuleggja baráttu gegn evrópskum hugmyndum af veraldlegu tagi.

Til skamms tíma hvíldu yfirburðir Vesturlanda í heiminum meðal annars á aðskilnaði borgaralegra málefna og trúarlegra, meðan ríki Múhameðs spámanns höfðu guðstrúna ofar öllu og settu hvers kyns viðfangsefni í trúarlegt samhengi. Banda- ríkin hafa nú flutt sig í þær herbúðir.

Til skamms tíma hvíldu yfirburðir Vesturlanda í heiminum meðal annars á jafnrétti fólks. Feðraveldi hefur fyrir löngu verið hafnað og reynt er að nýta hæfilega kvenna í þágu efnahagslegra framfara. Í heimi talibana og forseta Bandaríkjanna er staður konunnar hins vegar á heimilinu.

Vesturlönd hafa áratugum saman reynt að útbreiða mannréttindi í ríkjum þriðja heimsins á grundvelli yfirlýsinga Sameinuðu þjóðanna. Með nýjum sáttmálum á ýmsum sérsviðum mannréttinda hefur verið takmarkað svigrúm harðstjóra þriðja heimsins til að níðast á fólki sínu.

Hingað til hafa Bandaríkin tekið þátt í þessari viðleitni vesturlanda. Með komu Bush í valdastól hefur það breytzt. Nú er Bandaríkjastjórn almennt andvíg takmörkunum á svigrúmi sínu á alþjóðlegum vettvangi, sérstaklega ef þær takmarkanir espa stuðningsmenn hennar á heimavelli.

Á skömmum tíma hafa málin skipazt á þann veg, að Bandaríkin eru komin í bandalag við Súdan, Írak og Íran og að gerðir forsetans minna í vaxandi mæli á stefnuskrá talibana í Afganistan.

Jónas Kristjánsson

FB

Verjum traustið

Greinar

Hringt var á bjöllunni, þar sem ég var staddur hjá íslenzkri fjölskyldu í New York. Úti var fjölskyldufaðir í götunni, sem gekk milli húsa með yfirlýsingu, þar sem foreldrar áttu að undirrita, að þeir mundu ekki lögsækja hann, ef eitthvað kæmi fyrir í yfirvofandi barnaafmæli.

Í samtölum við íslenzka kaupsýslumenn vestan hafs kom fram, að ekki er lengur hægt að gera stuttaralega samninga og hvað þá munnlega samninga, sem staðfestir eru með handsali. Nú eru samningar nokkur hundruð síður, þar sem tekið er á öllum hugsanlegum ágreiningsatriðum.

Nútíminn er kominn langt frá ítölskum kaupmönnum miðalda, er lyftu Evrópu inn í nýja öld með pappírslausum viðskiptum, sem ekki var einu sinni hægt að handsala, af því að mánaðar ferðalag aðskildi samningsaðila. Menn sendu vörur í trausti þess að fá þær greiddar með öðrum vörum.

Allar götur síðan hafa viðskipti byggzt á trausti eins og önnur samskipti manna. Traustið er forsenda velmegunar og lýðræðis Vesturlanda nú á tímum. Án þess væri mannfélagið sundrað í fámenna hópa, sem berðust um svigrúm að hætti frumsteinaldar og mafíuflokka Sikileyjar.

Þar sem alltaf eru til einstaklingar, sem reyna að misnota almennt samkomulag manna um að treysta hver öðrum, hefur smám saman verið byggt upp flókið kerfi laga og reglugerða um fjárhagsleg og önnur samskipti, fyrst innan einstakra ríkja og síðan á fjölþjóðlegum grundvelli.

Evrópusambandið er tröllaukið kerfi reglugerða, þar sem leikreglur á öllum sviðum eru skráðar í smáatriðum, svo að unnt sé að stunda vel slípuð viðskipti án þess að gera um þau samninga upp á mörg hundruð síður og efna til barnaafmæla án þess að fá foreldra til að hafna málsókn.

Íslendingar hafa alltaf treyst hver öðrum. Orð skulu standa, sögðu fornmenn. Þeir sögðu líka, að með lögum skyldi land byggja. Það er fyrst á síðustu áratugum, að brestir hafa komið í traustið milli manna . Mest hefur borið á því í stjórnmálum, þar sem menn freistast til að lofa öllu fögru.

Bandarískt menntaðir spunameistarar ímyndarfræða í ráðgjafarstöðum stjórnmála og viðskipta hafa stuðlað að auknu áti á trausti. Í vaxandi mæli er svart sagt vera hvítt. Í vaxandi mæli skammast menn sín ekki, þegar upp um þá kemst, heldur segja þeir bara: Það gengur betur næst.

Sérfræðistofnanir éta traustið, þegar þær þjónusta viðskiptavini með hagstæðum niðurstöðum. Vinnuveitendur éta traustið, þegar þeir lofa starfsmönnum einhverju, sem þeir standa ekki við. Stjórnmálamenn éta traustið, þegar þeir gefa kjósendum rangar upplýsingar um stöðu mála.

Til að hamla gegn þessu og halda þjóðfélaginu vel smurðu sem framleiðsluvél velmegunar, verða kjósendur í auknum mæli að hafna stjórnmálamönnum, sem éta traustið. Þannig heldur fólk uppi aga í stjórnmálum og raunar í viðskiptum um leið, því að eftir höfðinu dansa limirnir.

Því fleiri valdamenn í stjórnmálum og viðskiptum, sem sjá sér skammtímahag í að éta traust, þeim mun meira þurfa aðrir að sporna við fótum, svo að fólk geti notið þess að lifa áfram í þægilegu andrúmslofti trausts og athafnamenn fái frið fyrir neðanbeltishöggum umhverfisins.

Át á trausti stefnir skipulagi lýðræðis og auðhyggju í voða. Mikil vörn er í hátimbruðum reglugerðum, en ekkert getur komið í staðinn fyrir gamaldags traust í mannlegum samskiptum.

Jónas Kristjánsson

FB

Engin andúð á Ameríku

Greinar

Bandaríkjamenn fundu upp stóru baðhandklæðin, sem fólki finnst gott að vefja um sig. Þeir fundu upp stóru klæðaskápana, sem hægt er að ganga inn í. Þeir fundu upp stóru baðherbergin, sem eru notalegir íverustaðir. Þeir fundu upp stóru bílana og stóru húsalóðirnar með góðu bili milli húsa.

Þetta eru nokkur hversdagsleg dæmi um, hvernig Bandaríkjamönnum hefur tekizt að brjóta sig úr viðjum borulegs hugsunarháttar gamla heimsins í lífsþægindum. Bandarískir framleiðendur áttuðu sig snemma á, að viðskiptavinir vilja hafa hluti óþarflega og þægilega stóra.

Þar í landi “afsetja” menn ekki afurðir eins og við stunduðum fiskútflutning í gamla daga, rétt eins og við værum bara að losna við fiskinn. Þeir spyrja sig, hvað viðskiptavinurinn vilji í raun og veru, í stað þess að segja, að varan, sem þeir vilja framleiða, sé svo sem nógu góð í hann.

Í mörgu smáu og stóru er fyrirkomulag betra í Bandaríkjunum en í Evrópu, að Íslandi meðtöldu. Vestan hafs eru bara notuð græn og rauð umferðarljós, en ekki þessi gulu, sem búa til grátt svæði fyrir hættulegar ákvarðanir ökumanna. Þar vilja menn hafa hlutina á hreinu, af eða á.

Löngu fyrr en allir aðrir voru Bandaríkjamenn farnir að kenna hagnýta hluti á borð við akstur bíla og vélritun í skyldunámsskólum. Löngu fyrr en allir aðrir voru þeir farnir að hafa neyzluvöruverzlanir opnar allan sólarhringinn. Alltaf eru þeir fyrstir að átta sig á, hvað sé hagkvæmt.

Bandaríkin eru framúrskarandi á fleiri sviðum, til dæmis í samskiptum fólks af ólíkum uppruna og í samskiptum milli gamalbúa og nýbúa. Með langvinnu pólitísku átaki hefur þeim tekizt að lina þær andstæður, sem kynþáttafordómafull Evrópa er tæpast byrjuð að fást við í alvöru.

Listinn yfir kosti Bandaríkjanna getur verið margfalt lengri. Við munum eftir þægilegri umgengni milli nágranna, rólyndi í akstri úti á vegum og hæfileikum fólks til að halda uppi tilfallandi, þægilegum og opinskáum samræðum við ókunnuga. Við eigum sumt enn eftir ólært af þessu.

Við getum dáðst að þessu öllu um leið og við fáum gæsahúð af tilhugsuninni um ýmis atriði í afstöðu Bandaríkjamanna til umheimsins, svo sem hamslausan stuðning þeirra við Ísraelsríki, andúð þeirra á alþjóðlegum stríðsglæpadómstóli og á samkomulagi um takmörkun eiturlofts.

Við getum viðurkennt yfirburði Bandaríkjamanna á ótal sviðum um leið og við fordæmum andstöðu þeirra við að leyfa fjölþjóðlegum sáttmálum að takmarka svigrúm sitt. Við hötum ekki Bandaríkin, þótt við teljum söguhetjur Clint Eastwood ekki vera heppilega fyrirmynd.

Raunar er sorglegt, að Evrópa og Bandaríkin skuli sigla hraðbyri hvor í sína átt í heimspólitík og heimsviðskiptum. Þessir tveir þættir Vesturlanda, svo ólíkir, sem þeir eru, hafa margt að læra hvor af öðrum. En til þess þarf hvor aðili um sig að vera opinn fyrir hugmyndum hins.

Það felur ekki í sér andúð á Ameríku, þótt menn segi stjórn George W. Bush Bandaríkjaforseta hafa skaðað Vesturlönd með einleik á alþjóðlegum vettvangi og algeru tillitsleysi við sjónarmið allra annarra í stóru og smáu. Það er eðli frjálshuga fólks að vilja ekki láta valta yfir sig.

Um leið og við látum Bandaríkin hafa það óþvegið í réttlátri reiði út af ýmsum slíkum atriðum, gleymum við ekki framförunum, sem þau hafa fært okkur á öllum sviðum mannlífsins.

Jónas Kristjánsson

FB

Burt með þennan gest

Greinar

Sírenur væla og lestir bónaðra bíla þjóta um á hættulegum hraða með heimsþekkta stríðsglæpamenn og fjöldamorðingja innanborðs. Lögreglan lokar götuhornum til að hleypa þessum lýð viðstöðulaust áfram og tefur þannig venjulegt og heilbrigt fólk, sem þarf að komast milli staða.

Í bílalestunum eru meðal annars vopnaðir manndráparar, sem vernda hina heimsþekktu stríðsglæpamenn og fjöldamorðingja. Bullsveitt lögregla reynir að hindra venjulegt og heilbrigt fólk í að haga sér þannig, að það geti espað manndráparana til að beita skotvopnum sínum.

Þetta er eins og í þriðja heiminum. Fréttablaðið leitaði á mánudaginn dyrum og dyngjum að einhverjum, sem skildi, hvers vegna þetta þriðja heims ástand þarf að koma til Íslands. Alls enginn fékkst til að mæla því bót, utan skrifstofustjóri ráðuneytisins, sem skipuleggur sírenurnar.

Því miður eru sumir ráðamenn haldnir þeirri firru, að fólk með áhugamál sé hættulegt, svo sem leikfimi- og hugleiðslufólk, svo og áhugafólk um mannréttindi og náttúruvernd, en sjálfsagt sé að bugta sig og beygja fyrir þeim, sem harðast ganga fram gegn hagsmunum mannkyns.

Við þurfum að vara okkur á fasistum í valdastöðum hér á landi, mönnum sem vilja setja reglur og lög á reglur og lög ofan til að geta haft auknar gætur á fólki og heft hefðbundið ferðafrelsi og athafnafrelsi þess. Þráhyggja fasistanna er ekki í neinu samhengi við frjálslyndan þjóðarvilja.

Við lifum friðsömu og borgaralegu lífi á rólegum stað í heiminum. Við höfum hvorki her né vopnaða lögreglu og viljum fá að vera í friði til að sinna skyldum okkar og áhugamálum. Við viljum geta treyst stjórnvöldum okkar til að neita sér um að raska ró okkar með óviðkomandi vanda.

Við viljum ekki þurfa að sæta truflunum á leið okkar og gesta okkar um Leifsstöð, af því að gæzlumenn öryggis ríkisins séu önnum kafnir við að reyna að átta sig á, hvaða fólk sé líklegt til að vilja stunda jóga á almannafæri eða vera á annan hátt of heilbrigt til að fá að koma til landsins.

Auðvitað viljum við fá gesti til landsins, þar á meðal ráðstefnugesti og erlend fyrirmenni. Flest af því tagi veldur engum vandræðum. Það er fyrst, þegar landsfeður okkar vilja bjóða hingað heimsþekktum fólum á borð við stríðsglæpamenn og fjöldamorðingja, að gamanið fer að kárna.

Dálítið er til að erlendum þjóðhöfðingjum, sem eru ekki verri en svo, að unnt er að taka í höndina á þeim og sitja með þeim til borðs. En kínversku valdamennirnir Li Pen og Jiang Zemin flokkast engan veginn á þann hátt, að nokkur venjulegur og heilbrigður maður vilji koma nálægt þeim.

Við eigum ekki að bjóða hingað valdamönnum eða fjölþjóðastofnunum, sem hafa svo slæman feril að baki, að hann kalli á mótmæla- og andófsfólk. Þetta gildir um ráðamenn helztu harðstjórnarríkja þriðja heimsins og örfáar fjölþjóðastofnanir, sem hafa getið sér illt orð í þriðja heiminum.

Hægt er að setja upp einfalda reglu, sem segir, að ekki verði tekið á móti opinberum gestum, sem hafa vopnaðar manndrápssveitir í för með sér eða gera kröfu til ferðalaga í sírenuvæddum bílalestum eða senda hingað lista yfir fólk, sem ekki sé æskilegt að hafa í landinu á boðstímanum.

Koma Jiang Zemin brýtur allar þessar reglur. Við skiljum ekki, hvernig landsfeðrum datt í hug að bjóða honum og lýsum fullri óbeit á sértækum varúðarráðstöfunum vegna komu hans.

Jónas Kristjánsson

FB

Illmennið kemur

Greinar

Jiang Zemin, forseti Kína. er helzti harðlínumaður kommúnista þar í landi, ráðinn framkvæmdastjóri flokksins í kjölfar fjöldamorðanna á Torgi hins himneska friðar árið 1989, þegar Deng Xiaoping einræðisherra þótti þáverandi stjórnendur vera of linir við andófsmenn í landinu.

Jiang er þekktur fyrir ögrandi stefnu gagnvart nágrannaríkjunum, auknar heræfingar á sundinu milli Kína og Tævan, landgöngur hersins á afskekktum eyjum Filipseyja, fyrirlitningu á lýðræðislegum vilja meirihluta íbúanna í Hong Kong og fyrir stóraukna grimmd við Tíbetbúa.

Mannvonzka Jiang kemur bezt fram í ofsóknum ríkisins á hendur Falun Gong. Tugþúsundir félagsmanna hreyfingarinnar hafa verið handteknir og pyndaðir af skefjalausri grimmd, 400 þeirra til dauða, þar af 100 á síðasta ári. Þetta er versti bletturinn á stjórnarfarinu í Kína.

Falun Gong er félag fólks, sem stundar kerfi hugleiðslu- og öndunaræfinga, sem helzt minna á indverskt jóga. Hún ögrar ráðamönnum með því að stunda friðsamar æfingar sínar á almannafæri. Hvergi eru dæmi um, að félagsmenn hafi abbast upp á lögreglu eða efnt til óeirða.

Kerfinu í Kína er illa við Falun Gong, ekki bara af því að samtökin geta það, sem kommúnistaflokkurinn getur ekki, höfðað til þrár fólks til innra jafnvægis og betra mannlífs, heldur einkum af því að þau sýna þetta opinberlega og fletta þannig óbeint ofan af siðferðisgjaldþroti flokksins.

Engin stjórnvöld í heiminum hafa nokkuð upp á Falun Gong að klaga. Það er hrein lygi utanríkisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis Íslendinga, að þýzk stjórnvöld eða einhver önnur hafi lent í erfiðleikum með Falun Gong út af fjölþjóðaráðstefnum eða heimsóknum valdamanna.

Gersamlega er óskiljanlegt, að íslenzk stjórnvöld skuli láta kínversk stjórnvöld skerða fullveldi Íslands með því að láta banna komu félagsmanna í Falun Gong til Íslands í tilefni af komu hryðjuverkamannsins Jiang Zemin í opinbera heimsókn til landsferðranna á Íslandi.

Utanríkis- og dómsmálaráðuneytið misnota heimildir, sem henta til að koma í veg fyrir, að fjölþjóðleg glæpasamtök á borð við Vítisenglana sendi hópa af fólki til landsins. Ekki var stofnað til slíkra heimilda til að koma í veg fyrir heimsókn fólks, sem ekki leggur hendur á nokkurn mann.

Einnig er gersamlega óskiljanlegt, að íslenzk stjórnvöld skuli yfirleitt bjóða ofsækjanda Falun Gong til Íslands, einkum þekktasta grimmdarseggi, sem uppi er í heiminum um þessar mundir, og fulltrúa þeirra stjórnvalda, sem eru mesta ógnunin við heimsfriðinn um þessar mundir.

Landsfeður okkar hafa orðið sér alþjóðlega til skammtar með því að bjóða Jiang Zemin til Íslands og neita félagsmönnum Falun Gong að koma til Íslands á sama tíma. Landsfeður okkar hafa vakið athygli á sér fyrir óþarfa þjónustulund við síðasta vígi kommúnismans í heiminum.

Af þessu tilefni er kominn tími til að setja skorður við gagnkvæmum heimsóknum íslenzkra ráðamanna og erlendra harðstjóra og setja skorður við misnotkun ríkisvaldsins á reglum, sem snúast um öryggi ríkisins, en ekki um óviðkunnanlega kurteisi í garð erlendra harðstjóra.

Nærvera Jiang Zemin og fjarvera Falun Gong er svartur blettur á ríkisstjórn okkar og um leið mikil vanvirða Íslands. Í þessari viku er ástæða til að skammast sín fyrir að vera Íslendingur.

Jónas Kristjánsson

FB

Traustið étið

Greinar

Fræðimenn taka af höfuðstól traustsins í hvert skipti, sem þeir þjónusta hagsmunaaðila með hagstæðri niðurstöðu í svokallaðri óháðri úttekt á umdeildu máli. Frægar eru skýrslur lögmanna, sem jafnan þjónusta umbjóðandann. En virðulegar stofnanir lenda líka í slíkum hremmingum.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gladdi forsætisráðherra í þessari viku með skýrslu, sem hann bað um og fjallaði um kostnað ríkisins af aðild að Evrópusambandinu. Þar gaf stofnunin sér, að útgjöld aðildarríkja til sambandsins mundu hækka úr 1,27% af landsframleiðslu í 1,4%.

Þetta er það, sem hagfræðideild Dresden-banka telur að gera þurfi, þegar fátæku ríkin í Austur-Evrópu ganga í bandalagið. Til þess að svo megi verða, þurfa þjóðþing allra aðildarríkjanna að samþykkja hækkunina. Pólitískt raunsætt er að telja alls engar líkur vera á slíkri gjafmildi.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands tók víðar af höfuðstól traustsins í skýrslunni. Hún uppfærði tölur með verðbólguspám fram í tímann, þótt verið sé að fjalla um mál, þar sem verðbólgan hefur sömu áhrif á gjöld og tekjur. Á verðlagi líðandi stundar gefur niðurstaðan ýkta mynd.

Alvarlegast er, að hagfræðistofnunin sættir sig auðmjúklega við þær þröngu skorður, sem forsætisráðherra setti henni, að fjalla aðeins um þátt ríkisins í reikningsdæmi aðildarinnar, en fjalla ekki um áhrif aðildarinnar á þjóðfélagið í heild, sem eru miklu meiri en áhrifin á ríkisvaldið.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands telur á veikum forsendum Dresden-banka, að þátttaka í Evrópusambandinu muni kosta 9 milljarða króna á ári. Þessi tala fellur í skugga 15 milljarða árlegs hagnaðar okkar af vaxtalækkun og annars eins hagnaðar okkar af bættu viðskiptaumhverfi.

Hagurinn af aðild að Evrópusambandinu felst einmitt í, að okkar ríkisvald tekur á sig kostnað til að vextir, vöruverð og útflutningskostnaður okkar geti lækkað. Verið er að fórna minni hagsmunum ríkissjóðs fyrir meiri hagsmuni atvinnulífsins og heimilanna, það er þjóðfélagsins í heild.

Þótt ríkið muni hafi hreinan kostnað af aðild, sem telja má í nokkrum milljörðum króna á hverju ári, hefur þjóðfélagið í heild á hverju ári hreinan hagnað, sem er að minnsta kosti þrefaldur á við þann kostnað. Tölur ríkisins eru lítill hluti af heildartölum aðildar að Evrópusambandinu.

Þegar lagt er upp með þá forsendu, að eingöngu sé skoðuð neikvæða hliðin, er augljóst, hver útkoman verður. Heilbrigð dómgreind og pólitískt innsæi hefði átt að segja hagfræðistofnuninni, að forsætisráðherra hygðist misnota niðurstöðurnar. Samt lét hún teyma sig á asnaeyrunum.

Það er ekki nóg að geta þess í eftirmála, að verksvið rannsóknarinnar hafi verið afar takmarkað og telja sig þar með vera stikkfrí. Ljóst mátti vera, að niðurstöðutölurnar um áhrifin á ríkissjóð mundu ekki bara gefa skekkta, heldur beinlínis kolranga mynd af áhrifunum á þjóðfélagið í heild.

Aðstandendur stofnana, sem vilja varðveita gamalt traust, verða að hafa dómgreind til að sjá gegnum forskriftir viðskiptavina sinna og neita að fylgja þeim í einu og öllu. Þeir þurfa að víkka sjónarhornið, svo að ekki verði unnt að rangtúlka niðurstöðu á þröngu sviði yfir á málið í heild.

Hér eftir munu menn spyrja: “Hver borgaði”, þegar Hagfræðistofnun Háskóla Íslands birtir niðurstöður í umdeildum málum. Það er nefnilega ekki bæði hægt að éta traustið og eiga það.

Jónas Kristjánsson

FB

Ofstæki á jaðri atómstríðs

Greinar

Með vinum á borð við herforingjann Pervez Musharraf í Pakistan þarf George W. Bush Bandaríkjaforseti enga óvini í sunnanverðri Asíu. Musharraf er ofstækismaður, sem er einfær um að koma af stað atómstríði út af Kasmír í skjóli aðstoðar hans við Bandaríkin í Afganistan.

Slæm reynsla er af hagsmunatengslum Pakistans og Bandaríkjanna frá dögum Sovétríkjanna. Með bandarísku ríkisfé ræktaði Pakistan flokk talibana í Afganistan til að siga á Sovétríkin. Síðan misstu Bandaríkin stjórn á þessum uppvakningi eins og þau misstu stjórn á Ísraelsríki.

Musharraf hershöfðingi var sjálfur yfirmaður róttækra aðgerða hersins í Pakistan gegn Indlandi árið 1999, þegar hann lét ekki nægja að þjálfa og kosta sjálfstæða hryðjuverkahópa innfæddra Kasmírbúa, heldur sendi beinlínis pakistanska herflokka inn fyrir landamæri Kasmírs.

Pakistanski herinn og leyniþjónusta hans hafa komið á fót hryðjuverkasamtökum á borð við Jaish-e-Mohammed, sem réðust árangurslaust á þinghús Indlands 27. desember í fyrra. Leiðtogi samtakanna lifir á háum pakistönskum ríkislaunum í glæsilegri ríkisvillu í Islamabad.

Pakistan er ríki hers og trúar. Stundum hafa verið haldnar þar kosningar til málamynda, en herinn tekur völdin, þegar honum þóknast, sem gerist æði oft. Musharraf er síðastur í langri röð valdaræningja og engan veginn sá eini, sem hefur verið þóknanlegur bandarískum stjórnvöldum.

Í Pakistan fara allir peningar í herinn. Þar er ekkert opinbert menntakerfi, sem heitið getur. Þar eru hins vegar rúmlega 6.000 trúarskólar, sem unga út ofstækismönnum á borð við þá, sem áður fylltu raðir talibana og al-Kaída í Afganistan og nú fylla raðir hryðjuverkamanna í Kasmír.

Pakistan er efnahagslega og pólitískt misheppnað ríki, þar sem herinn ræktar völd sín með bandalagi við trúarskóla um að dreifa athygli ungra manna frá innanlandsvanda að heilögu stríði við Indland út af Kasmír. Í nokkur ár hefur þessi hættulegi her ráðið yfir kjarnorkuvopnum.

Að upplagi hefur sjálfstæðisbarátta Kasmírbúa stefnt að sjálfstæði, en ekki innlimun í Pakistan. Hryðjuverkum á vegum hersins í Pakistan hefur ekki aðeins verið beint gegn Indverjum, heldur einnig gegn leiðtogum þess meirihluta Kasmírbúa, sem kærir sig hvorki um Indland né Pakistan.

Öfugt við Pakistan ræður herinn í Indlandi ekki ferðinni þar í landi. Þar ríkja borgaraleg stjórnvöld að vestrænum hætti, þar sem valdamenn koma og fara eftir úrslitum kosninga. Þar hefur í stórum dráttum tekizt að halda frið milli trúarflokka og í alvöru verið reynt að hemja ofsatrúarmenn.

Í Indlandi er í vaxandi mæli farið eftir vestrænum efnahagslögmálum, sem hafa gefið mikinn og stöðugan hagvöxt af sér og lyft þjóðinni úr sárustu fátækt upp í sára fátækt. Indland er pólitískt og efnahagslega eðlilegur bandamaður Vesturlanda í baráttunni um hugi og hjörtu mannkyns.

Þessi tvö ólíku ríki ramba nú á barmi atómstríðs út af Kasmír, samtals með eina milljón manna undir vopnum á landamærunum, hvort um sig með atómvopn í handraðanum. Forsetar Rússlands og Kína eru þessa dagana að reyna að miðla málum á fundi deiluaðila í Almaty í Kazakstan.

Þar sem Musharraf herforingi er skjólstæðingur Bandaríkjastjórnar má ætlast til þess af ráðvilltu heimsveldinu, að það hindri að minnsta kosti, að ofstækismaðurinn beiti atómvopnum.

Jónas Kristjánsson

FB

Halldór segir jafnan pass

Greinar

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra segir jafnan pass, þegar upp úr sýður í stjórnarsamstarfinu. Hann ber jafnan klæði á vopnin og segir eðlilegt, að menn hafi misjafnar áherzlur. Honum líður bezt í ferðalögum til útlanda og vill ekki með neinu móti láta rugga báti þessarar ríkisstjórnar.

Hann lætur ekki á sig fá, þótt upp úr sjóði vegna ólíkra viðbragða við öryrkjadómi Hæstaréttar, vegna ósamkomulags um kvótasetningu smábáta, vegna þverstæðra skoðana á einkavæðingu stofnana á borð við Landssímann og vegna ágreinings um viljayfirlýsingu heilbrigðisráðherra.

Hann segir líka pass, þegar forsætisráðherra ákveður að leggja niður Þjóðhagsstofnun án þess að ræða málið við samstarfsráðherra. Hann segir jafnvel pass, þegar forsætisráðherra segir “yfirgripsmikið þekkingarleysi” felast í skoðunum af tagi utanríkisráðherra á aðild að Evrópu.

Sennilega hefur hann ákveðið með sjálfum sér, að það sé bara stíll núverandi forsætisráðherra að flytja mál sitt með slíkum skætingi, að hann sakar jafnvel þá um fáfræði, sem fara með réttar tölur um niðurstöður í kosningum fyrri tíma, ef hann sjálfur hefur fengið rangar tölur í kollinn.

Utanríkisráðherra vill greinilega margt vinna til að halda friðinn í stjórnarsamstarfinu. Mest notaða og sennilegasta skýringin er, að hann sé brenndur af slæmri reynslu af samstarfi Framsóknarflokksins til vinstri og hafi litla trú á samstarfsgetu forustumanna þeirra flokka.

Auk þess hefur hann smám saman lifað sig inn í utanríkismálin og telur sig geta sinnt þeim betur en nokkur annar. Smám saman hefur hann orðið afhuga hversdagslegum vandamálum hér heima, ekki bara samstarfsvanda ríkisstjórnarinnar, heldur líka agavandræðum í eigin flokki.

Utanríkisráðherra hefur lengi átt erfitt með að taka einarðlega afstöðu í valdabrölti ráðamanna í flokknum. Einkum hefur hann átt erfitt með að taka afstöðu í baráttunni um ráðherrasæti, sem losna. Einnig lætur hann yfir sig ganga, að formaður þingflokksins haldi sig á sérleiðum.

Utanríkisráðherrann kemst upp með að stunda ekki starf sitt sem flokksformaður af því að hann er vel látinn og lítið er um frambærilega prinsa í flokknum. Ríkiserfinginn flúði raunar skyndilega af hólmi inn á grænar grundir Seðlabankans, þar sem hann má næðis njóta til fullnustu.

Allt þetta ferli, sem hér hefur verið lýst, á þátt í daufu fylgi Framsóknarflokksins í skoðanakönnunum, sem sýna hver á fætur annarri, að flokkurinn er orðinn minnstur fjórflokkanna. Með sama áframhaldi fær flokkurinn slæma útreið í alþingiskosningum, sem verða eftir aðeins eitt ár.

Ekkert bendir til, að utanríkisráðherra hætti að segja pass í ríkisstjórninni og að flokksformaðurinn hætti að segja pass í stjórnmálaflokki sínum. Sterku mennirnir umhverfis hann, allt frá þingflokksformanninum upp í forsætisráðherrann, munu í auknum mæli valta yfir hann.

Deilumálin fara ört vaxandi kringum Halldór Ásgrímsson. Einkum vex kergjan í ríkisstjórninni. Nú síðast hefur umræðan um aukna aðild að Evrópu magnað ófrið á stjórnarheimilinu. Loks hefur áminningin, sem heilbrigðisráðherra var veitt, ekki fallið í góðan jarðveg flokksmanna.

Hneykslaðir flokksjaxlar heimta, að formaðurinn stingi við fótum og hætti að segja pass. Hann er hins vegar sæll á svip á ferðalagi meðal hryðjuverkamanna fyrir botni Miðjarðarhafs.

Jónas Kristjánsson

FB

Alcoa er betra

Greinar

Alcoa vill borga sjálft fyrir álverið á Reyðarfirði, en ekki vera milliliður, sem á minnihluta og borgar með þekkingu, viðskiptavild og hlýju handtaki eins og Norsk Hydro vildi gera. Þess vegna eru viðræður við Alcoa miklu áhugaverðari en viðræðurnar við Norsk Hydro voru á sínum tíma.

Samkvæmt hugmyndum Alcoa verður ekki reynt að soga upp innlent fé til að fjármagna álverið. Það þýðir, að meira verður aflögu af peningum innlendra lífeyrissjóða og annarra fésýsluaðila til að byggja upp landið og atvinnuvegi þess og til að treysta framtíð þjóðarinnar.

Reynslan sýnir, að álver eru sérstök fyrirbæri, sem fléttast ekki inn í annað atvinnulíf. Þau eru fullþroskuð og raunar nýtízkuleg útgáfa af gamaldags atvinnuvegi, þar sem stofnkostnaður á hvert starf er margfalt meiri en á öðrum sviðum. Þau blandast lítið þekkingariðnaði nútímans.

Þjóðfélag á fjárhagslegri framabraut þarf að nota stóran hluta af sparnaði sínum til að byggja upp þekkingariðnað, þar sem arðsemi er mikil og laun há, og að nota annan stóran hluta hans til fjárfestingar í útlöndum í þágu eftirlaunafólks, til að treysta öryggið í verðgildi sparnaðar.

Þess háttar þjóðfélag bindur ekki peninga sína í einni risaverksmiðju á borð við Reyðarál. Slíkt er verkefni erlendra atvinnufjárfesta á borð við Alcoa. Fyrir okkur er meira en nóg, að Landsvirkjun þarf að taka rosalán í útlöndum til að fjármagna orkuframleiðslu fyrir álverið.

Þar fyrir utan er ærið verkefni stjórnvalda að koma í veg fyrir, að smíði orkuvers og álvers leiði til of mikillar sveiflu í efnahagslífinu og of hárra vaxta í þjóðfélaginu á byggingatímanum. Þótt gott sé, að álverið rísi fyrir útlent fé, eru þar með ekki úr sögunni öll vandamál, sem tengjast því.

Í stórum dráttum má þó segja, að ágreiningurinn um álver á Reyðarfirði snúist ekki lengur um, hvort það sé fjárhagslega gott eða vont fyrir þjóðfélagið, heldur hvort hagurinn réttlæti náttúruspjöll virkjunarinnar eða ekki. Þannig er málið komið í eðlilegri farveg en áður var.

Um þessar mundir er verið að vinna grundvallarverk sem á að gefa okkur betri sýn yfir möguleikana í stöðunni. Nefnd óháðra aðila á vegum ríkisins hefur unnið síðan 1999 að gerð rammaáætlunar um orkunýtingu, hefur lokið áfangaskýrslu og hyggst ljúka störfum í upphafi næsta árs.

Það er nefnilega óskynsamlegt að vaða út í byggingu einstakra orkuvera án þess að hafa heildarsýn yfir stöðuna. Við þurfum að vita, hvaða orkuver koma til greina. Við þurfum samanburð á stofnkostnaði, framleiðslugetu, hagnaðarvon og ekki sízt umhverfisáhrifum orkuveranna.

Bráðabirgðaskýrsla nefndarinnar bendir til, að orkuver við Kárahnjúka verði óvenjulega arðbært og að umhverfisspjöll þess verði óvenjulega mikil. Til samanburðar er Norðlingaalda miklu síður arðbær en nærri því eins skaðleg umhverfinu og hlýtur því að teljast nokkru lakari kostur.

Hins vegar bendir skýrslan á staði, sem hingað til hefur lítið verið talað um. Þeir nýtast ekki til risavaxinnar stóriðju á borð við Reyðarál, en gagnast annarri framþróun í landinu. Þetta eru einkum ódýr orkuver í Skaftafellssýslu, sem talið er að valdi litlum umhverfisspjöllum.

Með rammaáætlun um nýtingu innlendrar orku og viðræðum við Alcoa um eignarhald álvers á Reyðarfirði eru ráðagerðir stjórnvalda um stóriðju loksins komnar inn á svið skynseminnar.

Jónas Kristjánsson

FB

Múrarnir rísa

Greinar

Með valdatöku George W. Bush Bandaríkjaforseta hófst nýtt tímabil verndarstefnu í heimsviðskiptum. Í stað gagnkvæmra lækkana á tollum og öðrum viðskiptahömlum eru stóru viðskiptablokkirnar í heiminum komnar á fulla ferð við að loka landamærunum fyrir vörum annarra.

Stáltollur Bandaríkjanna í upphafi þessa árs varð kveikjan að stóru báli. Evrópusambandið segist svara tollinum með eigin stáltolli og tollum á ávexti og vefnaðarvörur. Síðan tilkynntu Bandaríkin tæplega tvöföldun á stuðningi ríkisins við ýmsar innlendar landbúnaðarafurðir.

Þessar þrjár aðgerðir eru ekki einangraðar. Á fundum Heimsviðskiptastofnunarinnar upp á síðkastið hafa auðríkin eindregið tregðazt við að veita þriðja heiminum sama aðgang fyrir landbúnaðarafurðir og ríku löndin krefjast og hafa sumpart fengið fyrir iðnaðarvörur og þjónustu.

Tollmúrar Vesturlanda gagnvart landbúnaðarvörum þriðja heimsins nema tvöfaldri aðstoð Vesturlanda við þriðja heiminn. Þeir eru uppspretta fátæktar í þriðja heiminum og haturs í þriðja heiminum á Vesturlöndum, einkum á Bandaríkjunum sem forusturíki auðræðis.

Tollar og hömlur Vesturlanda miðast við sérhagsmuni ýmissa gæludýra í atvinnulífinu og stríða gegn almannahagsmunum í þessum sömu löndum. Höftin draga úr samkeppni og gera vörur og þjónustu dýrari en hún væri í frjálsri verzlun. Þau hækka verðlag og rýra kjör almennings.

Hagfræðin segir okkur þetta, en hún ræður því miður ekki ferðinni. Bandaríski stáltollurinn og stuðningurinn við innlenda búvöru eru sértækar aðgerðir, sem eiga að afla fylgis við forsetann í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna, þar sem fylgið er talið standa í járnum í næstu kosningum.

Gagnaðgerðir Evrópusambandsins eru líka pólitískar, því að þeim er ætlað að koma niður á þessum sömu ríkjum Bandaríkjanna. Markmiðið er að sýna fram á, að eyða megi áhrifum sértækra aðgerða með sértækum gagnaðgerðum, sem veikja stöðu forsetans í þessum mikilvægu ríkjum.

Staða frjálsrar verzlunar hefur stórversnað síðan Ronald Reagan var forseti Bandaríkjanna. Hann lagði ætíð mikla áherzlu á, að farið væri eftir alþjóðlegum viðskiptasamningum. George W. Bush hefur varpað slíkri hugsun á dyr og lætur kosningaspár einar ráða ferðinni.

Komið hefur í ljós á ýmsum sviðum, að núverandi forseti Bandaríkjanna er andvígur alþjóðasamningum yfirleitt, af því að þeir skerða svigrúm hans. Þess vegna telja önnur ríki tilgangslaust að gera nýja samninga og því verður mjög erfitt að vinda ofan af hinu nýja viðskiptastríði.

Skammsýni hans hefur ekki aðeins kallað á hefndaraðgerðir Evrópusambandsins. Hún hefur líka fordæmisgildi. Úr því að Bandaríkin láta eins og Heimsviðskiptastofnunin sé ekki til, telja önnur ríki, að sér leyfist slíkt líka. Þannig sprettur upp viðskiptastríð, sem allir aðilar tapa.

Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur með hjálp Evrópusambandsins tekizt það, sem andstæðingum hnattvæðingar tókst ekki með mótmælum í Seattle, Prag og Katar. Hnattvæðingin hefur verið stöðvuð. Frá og með þessu ári eru múrar hafta og tolla að rísa að nýju, fyrst á Vesturlöndum.

Ísland lifir á viðskiptum og getur lent í skotlínunni, þegar stórveldin berjast með höftum og tollum. Landsfeður okkar hafa látið hjá líða að tryggja okkur örugga höfn í Evrópusambandinu.

Jónas Kristjánsson

FB

Kosningalexía

Greinar

Staðbundnar aðstæður hafa víðast hvar áhrif á úrslit byggðakosninga og hindra raunhæfan samanburð milli byggða. Einkum er marklítið að túlka niðurstöðurnar á landsvísu, enda stóðu hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar út af fyrir sig og sameiginlega að framboðum á ýmsa vegu.

Eina nothæfa alhæfingin er um stöðu vinstri grænna. Þeim hefur greinilega ekki gefizt vel að bjóða sérstaklega fram í byggðakosningunum, þótt þeir njóti góðs fylgis í skoðanakönnunum á landsvísu. Flokkurinn virðist fremur höfða til fólks sem landsmálaflokkur en byggðamálaflokkur.

Slíkt þarf ekki að vera fjötur um fót. Það er bara hefð, en ekki rökrétt nauðsyn, að stjórnmálaöfl komi fram í sömu mynd í landsmálum og byggðamálum. Misjafnir málaflokkar landsstjórnar og byggðastjórna geta kallað á misjöfn mynztur í staðbundnu samstarfi í sveitarstjórnamálum.

Flokkar þurfa að varðveita sérstöðu sína í alþingiskosningum, af því að þar leggst fulltrúatala allra kjördæma saman í einn pakka á alþingi. Þetta er ekki eins brýnt í byggðakosningum, af því að þar er engin slík samlagning í fulltrúatölunni. Hver sveitarstjórn er sjálfstæð heild.

Áður voru kjósendur fastari í dilkum. Þá gat verið gott að nýta flokkskerfi úr landsmálum til átaka í byggðakosningum. Nú skiptir slíkt minna máli, þegar kjósendur ramba meira milli flokka. Landsmálakerfin duga því skemur en áður til að hafa aga á kjósendum í byggðakosningum.

Ljóst er, að samstarfið um meirihluta í Reykjavík hefur gengið vel þrisvar í röð og raunar betur en nokkru sinni fyrr. Sameinað framboð Framsóknar, Samfylkingar og vinstri grænna hefur skilað þeim árangri, að borgin virðist vera varanlega gengin úr greipum Sjálfstæðisflokksins.

Á sviði sveitastjórna eru ýmis mál, sem fólk lætur sig mestu varða, svo sem leikskólar og skólar, tómstundir almennings og aðstaða aldraðra, svo og byggðaþróun. Reykjavíkurborg hefur lengi gefið tóninn á slíkum sviðum, svo að pólitísk áhrif meirihlutans í borginni ná vítt um land.

Skólamáltíðir, einsetning skóla, lækkun skólaaldurs og dagvistun allra barna eru dæmi um mál, sem standa nær mörgu fólki en sumt af verkefnum ríkisstjórnar og alþingis. Verk Reykjavíkurlistans á slíkum sviðum munu verða áhugafólki umhugsunarefni í öðrum byggðum landsins.

Reykjavíkurlistinn hefur enn fengið fjögur ár til að gefa tóninn í nágrennispólitík. Sjálfstæðisflokkurinn er hins vegar í sárum eftir enn eina mislukkaða hallarbyltingu. Án árangurs hefur hann prófað hvern leiðtogann á fætur öðrum. En snillingar dafna ekki í skjóli formannsins.

Borgarmálin standa mörgum nær en landsmálin. Þau eru ekki eins ópersónuleg. Fólk finnur ekki til sama yfirþyrmandi vanmáttar gagnvart nágrennismálum sínum og landsmálunum. Enn meiri er þessi munur í minni sveitarfélögum, þar sem hver kjósandi er stærri hluti heildarinnar.

Aukin nágrennisstjórn á skólum og tómstundasvæðum í Reykjavík væri til þess fallin að færa pólitíkina þar fjær landsmálunum og nær byggðamálum eins og þau gerast annars staðar á landinu. Það væri til þess fallið að auka tilfinningu fólks fyrir því, að það geti haft pólitísk áhrif.

Að mestu snýst þetta samt um borgarstjóraefnin. Reynslan hefur enn einu sinni sagt okkur, að þau hafa risið og hljóta framvegis að rísa úr grasrótinni, en ekki stíga niður af ráðherrastóli.

Jónas Kristjánsson

FB

Kjósendum sveiflað

Greinar

Miklar og marktækar sveiflur á stuðningi kjósenda við stóru framboðin í Reykjavík á tveimur síðustu vikum kosningabaráttu vekja fleiri spurningar, en þær svara. Þær hafa vafizt fyrir sérfræðingum í stjórnmálum, markaðsmálum og ímyndarfræðum, sem er þó sjaldnast orða vant.

Við eðlilegar aðstæður má búast við, að flestir kjósendur séu búnir að ákveða sig tveimur vikum fyrir kjördag. Þá hefur öllum, sem vita vilja, lengi verið kunnugt um helztu frambjóðendur og forsögu oddvita framboðanna, svo og yfirlýst markmið þeirra í málefnum borgarinnar.

Ýmsar geta verið orsakir þess, að fylgi tekur að sveiflast út og suður við þessar aðstæður. Áleitnust er spurningin um, hvort tækni eða magn í kosningabaráttu hafi þessi miklu áhrif á lokastigi hennar. Er hægt að hræra í kjósendum og sveifla þeim til og frá eins og þeytispjöldum?

Áður en við gerum of mikið úr þessu, skulum við hafa í huga, að þetta á aðeins við um rúmlega tíunda hvern kjósanda. Einn eða tveir af hverjum tíu kjósendum skipta um skoðun á síðustu tveimur vikunum, sumir raunar oftar en einu sinni. Hinir standa fastir á fyrri skoðunum sínum.

Kosningabaráttan snýst auðvitað um þennan eina eða þessa tvo af hverjum tíu kjósendum. Sérfræðingar framboðanna reyna að haga baráttunni á þann veg, að hún dragi til sín lausgengan minnihluta, sem rambar út og suður, og gæta þess, að hann sé á “réttu” róli á morgni kjördags.

Einföld og þægileg skýring á sveiflum er, að sumir kjósendur taki skoðanakannanir ekki alvarlega á öllum stigum málsins nema undir það síðasta og noti þær raunar til að senda áminningar og önnur skilaboð til framboðanna. Undir niðri séu þeir búnir að ákveða, hvernig þeir kjósi.

Hitt er alvarlegra, ef tækni eða magn kosningabaráttu hefur þessi miklu áhrif á tveimur vikum. Ekki er gott, ef hægt er að sveifla einum eða tveimur af hverjum tíu kjósendum með því að setja nógu mikla peninga í kosningabaráttuna og ráða til hennar nógu marga og hæfa sérfræðinga.

Peningar og tækni kosningabaráttu eru þjóðfélagslegt vandamál. Lýðræðið gerir ekki ráð fyrir, að kjósendur séu svo fávísir, að unnt sé að sveifla þeim til og frá. Ef svo er í raun, munu peningar og tækni framvegis fara ört vaxandi í kosningum. Þetta er verulegt áhyggjuefni.

Kosningabaráttan í Reykjavík verður dýrasta barátta sögunnar, dýrari en síðustu alþingiskosningar. Stóru framboðsöflin verja hvort um sig tugum milljóna til baráttunnar. Þau þurfa einhvers staðar að afla þessara miklu peninga. Við þurfum að fá að vita, hvaðan þeir koma.

Ef þúsund eindregnir stuðningsmenn leggja hver um sig tíu þúsund krónur til framboðs, fæst tíu milljón króna sjóður, er dugar skammt í því stríði, sem við höfum séð að undanförnu. Einhverjir stórlaxar hljóta því að spýta miklu fé, sumir hverjir til að afla sér betri aðstöðu.

Kosningabarátta allra síðustu vikna hlýtur að magna kröfuna um, að fjárreiður stjórnmálanna verði gerðar gegnsæjar. Ennfremur hlýtur hún að magna þá kröfu á hendur kjósendum, að þeir láti flokka framvegis gjalda þess, ef þeir standa í vegi fyrir, að fjárreiðurnar verði gegnsæjar.

Lýðræði stendur og fellur með því, að kjósendur hafi aðstöðu til að skilja gangverkið í pólitíkinni, þar á meðal, hvernig fjármagnaðar eru aðferðir, sem duga til að sveifla kjósendum út og suður.

Jónas Kristjánsson

FB

Moby Dick sleppur enn

Greinar

Barátta Íslendinga fyrir hvalveiðum er farin að minna á þráhyggju Ahab skipstjóra, sem elti hvalinn Moby Dick árangurslaust um heimshöfin. Söguhetja rithöfundarins Herman Melville tapaði alltaf bardögunum og alltaf tapar Ísland í baráttu sinni við að hefja hvalveiðar að nýju.

Síðustu misserin hefur slagurinn einkennzt af tilraunum til að komast að nýju í Alþjóða hvalveiði-ráðið, sem við yfirgáfum í fússi fyrir áratug. Við getum ekki hafið hvalveiðar án aðildar, því að hún er eina leiðin til að selja afurðirnar. Japanir mega ekki kaupa hvalkjöt af ríkjum utan ráðsins.

Á fundi ráðsins í Japan var hafnað með fimm atkvæða meirihluta að taka umsókn Íslands á dagskrá, þar sem hún væri sama umsóknin og felld hafði verið í fyrra. Þetta kom áheyrnarfulltrúum Íslands í opna skjöldu, enda höfðu þeir gert sér rangar hugmyndir um afstöðu ríkja.

Sex ný ríki eru komin í ráðið síðan í fyrra og þar af fjögur, sem Japan hefur keypt til fylgis við hvalveiðar. Þetta dugði Íslendingum ekki, því að stórveldin með Bandaríkin í broddi fylkingar eru algerlega andvíg hvalveiðum og beittu sér gegn lögfræðilegri þrætubókarlist Íslendinga.

Við þessu eiga ráðamenn okkar engin svör nema reiðina. Hún beinist einkum að sænskum stjórnvöldum, því að sænskur formaður ráðsins fylgdi bandarískum ráðum um fundarsköp. Vandséð er þó, að sjávarútvegsráðherra Íslands geti framkvæmt hótanir um að hefna sín á Svíum.

Ísland er ekkert stórveldi, sem getur ráðskazt með hagsmuni Svíþjóðar. Tilraunir til slíks munu þvert á móti koma okkur í koll á öðrum sviðum, því að við þurfum mjög á Svíum að halda til að gæta hagsmuna okkar í Evrópusambandinu. Hótanir Árna Mathiesen eru því marklausar með öllu.

Vandi okkar er sá, að ríku þjóðirnar í heiminum, með Bandaríkjamenn í broddi fylkingar, eru algerlega andvígar hvalveiðum, fyrst og fremst af tilfinningalegum ástæðum. Hvalurinn Moby Dick er ein ástsælasta sagnapersóna heimsins og heldur verndarhendi yfir allri ættkvísl sinni.

Við tökum raunar þátt í vestrænu dálæti á hvölum. Íslenzk sveitarfélög keppast um að fá að hafa háhyrninginn Keikó. Hvalaskoðun er orðin svo mikilvæg atvinnugrein, að hugsanlegar tekjur af hvalveiðum yrðu aðeins skiptimynt til samanburðar. Við sitjum báðum megin borðsins.

Tilfinningar Vesturlandabúa nægja einar til að hindra hvalveiðar okkar, hvað sem öllum rökum líður. Bandaríski fulltrúinn í ráðinu kvað þó fast að orði um röksemdir Íslendinga og Japana um, að hvalur éti fisk frá mönnum. Hann sagði þetta vera bull til að draga athygli frá ofveiði á fiski.

Nú er úr vöndu að ráða. Japanir hafa ekki fé til að kaupa fleiri smáríki í hvalveiðiráðið. Til að komast í ráðið verðum við að falla alveg frá fyrirvörum, sem meirihluti aðildarríkjanna hafnar. Síðan geta fulltrúar Íslands reynt að byrja á nýjum núllpunkti og hefja þrætubók innan ráðsins.

Eitt er ljóst. Ísland mun áfram berja höfðinu við steininn eins og Ahab skipstjóri. Þráhyggjan er hornsteinn hugsunar okkar eins og hans. Áfram verður fé og orku eytt í vonlausar tilraunir til að tefla málum í þá stöðu, að við getum hafið hvalveiðar og farið að selja hvalkjöt að nýju.

Á sama tíma munum við halda áfram að auka tekjur okkar af ást Vesturlandabúa á hvölum. Við munum rækta hina meiri hagsmuni meðan við náum ekki fram hinum minni hagsmunum.

Jónas Kristjánsson

FB

Varnir á krossgötum

Greinar

Við erum hlynnt mannbjörg úr sjávarháska og að gömlum konum sé hjálpað yfir götu í Makedóníu. Þegar hrörnandi Atlantshafsbandalag breytist smám saman úr hernaðarbandalagi í eins konar blöndu slysavarnarfélags og skátahreyfingar, minnkar hér á landi ágreiningur um aðild.

Það er þó háð því, að ekki verði gerðar auknar fjárkröfur til okkar vegna aðildar að bandalaginu eða vegna eftirlitsstöðvar Bandaríkjanna á Keflavíkurvelli. Við getum fjölgað björgunarþyrlum og eflt þjónustu þeirra fyrir peningana, sem við leggjum nú þegar til bandalagsins.

Auðvitað verður að virða það við bandalagið, að það hefur náð árangri og skilað af sér hlutverki sínu. Síðasta verkefnið var friðun Balkanskaga, sem nú er á lokastigi. Hér eftir verða verkefnin fyrst og fremst pólitísk. Bandalagið er gagnlegur, vettvangur samráðs á norðurhveli jarðar.

Gagnið er þó tímabundið og blandað hagsmunum starfsmanna bandalagsins. Ráðamenn Bandaríkjanna hafa mun minni áhuga á því en áður og vilja ekki láta það flækjast fyrir sér í herferðum í þriðja heiminum. Stækkað Evrópusamband mun láta að sér kveða á sviði evrópskra varna.

Í nýrri heimssýn 21. aldar er lítið rúm fyrir bandalagið. Mat aðilanna á gildi þess mun í auknum mæli ráðast af mati á því, hvort það svarar kostnaði eða ekki í samanburði við aðra kosti stöðunnar. Auknar kröfur þess um útgjöld til hermála munu ekki auka vinsældir þess.

Væntanlega verður Ísland í bandalaginu meðan nágrannaríkin vilja vera þar. Við erum háð samskiptum við nágrenni okkar og lifum á viðskiptum við það. Okkar hagur er að taka sem mestan þátt í svæðissamstarfi, þar sem mörg friðsöm ríki setja hluta fullveldis síns í sameiginlegan pakka.

Öryggi okkar í náinni framtíð verður bezt borgið með góðum aðgangi að auðugum markaði. Vont væri að lenda í skotlínu harðnandi viðskiptastríðs Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Fiskverzlun gæti til dæmis hæglega orðið fyrir barðinu á bægslagangi pólitísku stórhvelanna.

Við þurfum að ganga í Evrópusambandið til að tryggja, að fiskafurðir okkar lendi ekki utangarðs vegna atburðarásar, sem við ráðum ekki við. Markaður okkar er fyrst og fremst í stækkuðu Evrópusambandi og hann verðum við að verja með klóm og kjafti, en einkum með aðild.

Við þurfum einnig að efla viðbúnað gegn hryðjuverkum, hvort sem við gerum það í samstarfi í Atlantshafsbandalaginu eða Evrópusambandinu. Við þurfum til dæmis að hafa viðbúnað til að verjast gíslatöku og efnavopnaárás, svo og skemmdarverkum á raflínum og hitaveitum.

Slík vandræði munu ekki koma til okkar með eldflaugum af himnum ofan eða með innrás fjölmennra sveita. Hefðbundnar varnir 20. aldar koma að litlu gagni gegn mönnum, sem bera hættuna í skjalatöskum. Varnir landsins á nýrri öld krefjast nýrra viðhorfa og nýrra viðbragða.

Smám saman mun koma í ljós, hvort gömul stofnun í leit að nýju hlutverki hentar vörnum okkar. Ekki er ágreiningur um, að Atlantshafsbandalagið hefur að undanförnu búið við vaxandi tilvistarkreppu, sem ekki leysist með stækkun til austurs og auknum afskiptum Rússlands.

Altjend leysum við ekki nýjar varnarþarfir okkar ein sér, heldur í samstarfi við nágranna- og viðskiptaríki okkar í Evrópu og undir þeim merkjum, sem hagkvæmust verða á hverjum tíma.

Jónas Kristjánsson

FB