Stríðsglæpir Jóns og séra Jóns

Punktar

Samkvæmt grein eftir Lee Dembart í International Herald Tribune í dag er Evrópusambandið að beygja sig fyrir kröfu Bandaríkjanna um, að bandarískir ríkisborgarar séu undanþegnir lögsögu hins nýja Alþjóðlega stríðsglæpadómstóls í Haag. Samkvæmt 98.grein stofnskrár dómstólsins geta ríki samið tvíhliða um að leysa mál hermanna sín í milli án afskipta dómstólsins. Bandaríkin vinna nú að gerð slíkra samninga við undirgefin ríki. Þau vilja þar að auki, að ákvæðið nái ekki bara til hermanna, heldur til allra bandarískra borgara. Þetta er í gamni kallað Kissinger-verndin og á að hindra, að mennirnir að baki bandarískra stríðsglæpa verði sóttir til saka á alþjóðlegum vettvangi. Evrópusambandið hefur verið tregt í taumi, en gefið eftir stig af stigi. Þetta er eitt af mörgum dæmum, að mál eru að renna í þann farveg, að lög og réttur í heiminum nái ekki til Bandaríkjanna.

“Eitrað andrúmsloft”

Punktar

Ráðamenn Bandaríkjanna harma, að ríkisstjórn Gerhard Schröders skuli hafa haldið velli í kosningunum í Þýzkalandi um helgina. Condolezza Rice öryggisráðgjafi og Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra tala um “eitrað andrúmsloft” í sambúð Bandaríkjanna og Þýzkalands. Sárindin endurspeglast í bandarískum fjölmiðlum, meira að segja í International Herald Tribune, sem oft sér evrópskar hliðar á málum. Í dag eru heilar tvær uppsláttargreinar í blaðinu helgaðar meintum vandræðum Þjóðverja, önnur eftir John Schmid og hin eftir John Vincour. Þar er efnahagur landsins sagður á hverfanda hveli og ríkið sagt hafa einangrazt frá öðrum Evrópuríkjum, sem hvort tveggja hlýtur að teljast fullmikil óskhyggja blaðsins. Schröder gefur hins vegar ekki eftir og segir sjónarmið ríkisstjórnarinnar gegn fyrirhuguðum hernaði í Írak vera hin sömu eftir kosningar og þær voru fyrir kosningar.

Gegn Saddam, ekki Írak

Punktar

Samkvæmt fréttaleka til Washington Post hefur bandaríska hermálaráðuneytið ákveðið að heyja snöggt stríð í Írak gegn Saddam Hussein, lífverði og þjóðvarðliði hans, höllum hans, flugvöllum og skotpöllum. Hins vegar er ráðgert, að árásin beinist hvorki ekki gegn almenningi og venjulegum hermönnum né gegn venjulegum innviðum ríkisins á borð við brýr og vatnsból. Sérstök áherzla verður þó lögð á að eyða Tikrit, fæðingarbæ Husseins og ættbálks hans. Reiknað er með, að margar hersveitir Íraks leggi niður vopn í upphafi stríðs, enda séu sumir herforingjar þegar farnir að koma á framfæri orðsendingum á þá leið. Thomas E. Ricks skrifar rækilega fréttaskýringu um þetta.

Ritskoðun í þágu Ísraels

Punktar

John Pilger, höfundur heimildakvikmyndarinnar “Palestine is still the issue” skrifar þrungna kjallaragrein í Guardian í dag, þar sem hann segir frá erfiðleikum sínum og annarra við að koma réttum upplýsingum um deilu Ísraels og Palestínu á framfæri í brezkum fjölmiðlum. BBC er að hans sögn mjög hallt undir Ísrael og hagar orðalagi frétta í samræmi við það. Sendiráð Ísraels er mjög duglegt við að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í Bretlandi og nýtur stuðnings harðskeyttra málafylgjumanna. Hvenær fáum við að sjá þessa ágætu heimildakvikmynd í sjónvarpi á Íslandi?

Lón og uppistöðulón

Punktar

“Lón verða til á hálendi Íslands, hvort sem þau eru gerð af manna höndum eða ekki – meira að segja var lón áður, þar sem Hálslón á koma vegna Kárahnjúkavirkjunar.” Þannig endar nýleg grein á vef Björns Bjarnasonar stjórnmálamanns. Björn skilur ekki eða vill ekki skilja, að uppistöðulón vegna virkjana eru að því leyti öðru vísi en náttúruleg lón, að hinn fyrrnefndu hafa mjög svo breytilega vatnshæð eftir árstíðum og vatnsþörf orkuvera. Það gildir um fyrirhuguð uppistöðulón við Kárahnjúka og Norðlingaöldu. Breytilegri vatnshæð fylgja sérstök vandamál, svo sem lífvana fjörur og uppblástur.

Illur öxull ógnar öryggi

Punktar

Ríkisstjórn Sharons í Ísrael lætur her sinn fara hamförum í Palestínu á þessum drottins degi (sjá BBC) sem öðrum. Í þessum illvirkjum sem öðrum er hún eindregið studd af ríkisstjórn Bush í Bandaríkjunum, sem hótar sjálf að ráðast á ríki, ef þau láta ekki að vilja hans. Stuðningurinn við Ísrael er hornsteinn ofbeldishneigðrar utanríkisstefnu Bandaríkjanna og gerir samband þessara hryðjuverkaríkja að hinum eina sanna illa öxli í heiminum. Samanlögð hætta af völdum Íraks, Írans og Norður-Kóreu bliknar í samanburði við hættuna, sem öryggi Vesturlanda stafar af öxli Ísraels og Bandaríkjanna.

Linux gegn Microsoft

Punktar

Rúmlega 20 ríki, allt frá Þýzkalandi til Kína, hafa ákveðið að hvetja opinberar stofnanir til að nota opin og ókeypis stýrikerfi á borð við Linux í stað hins lokaða Microsoft Windows. New York Times og International Herald Tribune tóku undir þetta í leiðara á fimmtudaginn og telja þetta nauðsynlegt til að leysa heimsbyggðina úr læðingi einokunarrisans. Við þekkjum risann af því að hann þvingaði íslenzka menntaráðuneytið til að borga sér morð fjár fyrir að íslenzka stýrikerfið. Um þessar mundir er mikið að koma út af Linux-samhæfðum forritum, t.d. frá IBM og Sun, sem hefur sigað forritinu StarOffice á Microsoft Office. Linux hefur verið þróað með ókeypis vinnuframlagi fjölmargra forritara um allan heim og er bezta dæmi nútímans um samhjálp gegn einokun.

Ógnun við heimsfriðinn

Punktar

Ný öryggismálastefna Bush Bandaríkjaforseta, sem gefin var út í gær, staðfestir tæpitungulaust aukna hörku í samskiptum við umheiminn. Hún var túlkuð í gær af David E. Sanger í New York Times. Samkvæmt henni áskilja Bandaríkin sér rétt til að ráðast að fyrra bragði á erlend ríki og erlenda hópa, sem þau telja ógna bandaríska heimsveldinu eða keppa við Bandaríkin í gereyðingarvopnum. Bandaríkin munu ekki lengur virða þegar gerða sáttmála um takmörkun vígbúnaðar. Þau munu ekki láta fjölþjóðasamstarf standa í vegi bandarískra hagsmuna og þau munu ekki virða stríðsglæpadómstólinn í Haag. Stefnuskráin járnbindur nýja stöðu Bandaríkjanna: Þau eru orðin mesta ógnunin við heimsfriðinn.

Andefni framleitt í Genf

Punktar

Athena-hópur vísindamanna við CERN-rannsóknastofnunina í nágrenni Genfar var rétt á undan Atrap-hópi stofnunarinnar í framleiðslu andefnis, að því er segir í grein, sem mun birtast í næsta tölublaði Nature. Dennis Overby segir frá þessu í New York Times í dag. Vísindamennirnir bjuggu til andvetni í lokuðu rými og fylgdust með, hvernig vetni og andvetni eyddu hvort öðru og leystu við það orku úr læðingi. Staðfestu þeir þar með fyrri kenningar um, að efni og andefni væru algerar andstæður. Þetta opnar sýn inn í nýja veröld, þar sem tíminn líður aftur á bak, hægri er vinstri og jákvætt er neikvætt. Það skýrir hins vegar ekki, af hverju heimur okkar virðist að mestu vera gerður úr venjulegu efni.

Þverstæður í bunkum

Punktar

Bandaríkjastjórn hefur ákveðið að efna ekki tæplega árs gamalt loforð sitt um að koma í nóvember til baka með nýjar tillögur til Genfar á alþjóðlega undirbúningsfundi alþjóðasamnings um refsiaðgerðir gegn ríkjum, sem brjóta Varsjársáttmálann gegn sýklavopnum. Á sama tíma heimtar Bandaríkjastjórn nánast daglega fjölþjóðlegan stuðning við árás á Írak vegna hættu á að ríkið beiti sýklavopnum. Í kjallaragrein eftir Peter Slevin í Washington Post í dag er fjallað um þessa þverstæðu og minnt á hliðstæðu hennar við þá þverstæðu, að Bandaríkjastjórn hefur nýlega hafnað fjölþjóðasáttmálum í bunkum á sama tíma og hún heimtar fjölþjóðastuðning sáttmálasinnaðrar Evrópu við hina fyrirhuguðu árás á Írak.

Línuvillt í óvinaskránni

Punktar

Ætla mætti, að Bush Bandaríkjaforseti hafi farið línuvillt í óvinaskránni. Það var Osama bin Laden, sem stóð fyrir árásinni á Bandaríkin 11. september í fyrra. Saddam Hussein er að vísu vondur. Hann hefur samt ekki stutt hryðjuverk í útlöndum í tæpa tvo áratugi. Og gildandi flugbann kemur í veg fyrir, að hann geti ofsótt minnihlutahópa í norður- og suðurhluta landsins. Hann hefur farið kringum ályktanir Sameinuðu þjóðanna í áratug. Af hverju á þá að ráðast á hann einmitt núna í grænum hvelli? Ræða Bush hjá Sameinuðu þjóðunum fól ekki í sér nein ný gögn í málinu, enda er ekki vitað um nein tengsl Saddam Hussein og Osama bin Laden. Og sá síðarnefndi gengur enn laus, eftir eins árs baráttu Bandaríkjanna. Daglega birtast góðar kjallaragreinar í heimspressunni um þetta einkennilega mál, nú síðast eftir Thomas L. Friedman í International Herald Tribune í dag.

Víðerni á undanhaldi

Punktar

Ósnortin víðerni Íslands eru á hröðu undanhaldi fyrir trúarofstækismönnum orkuframleiðslu fyrir álver. Ögrandi og áberandi vegir eru farnir að skera sundur hálendið norðan Vatnajökuls. Og nú er röðin komin að alþjóðlega viðurkenndri náttúruperlu, Þjórsárverum. Þar hefur Skipulagsstofnum meira að segja gefið Landsvirkjun stærra lón en hún bað um. Allt þetta landbrot er óafturkræft, því að ekki verður unnt að snúa til baka, þegar koma til sögunnar í framtíðinni stjórnvitringar, sem hafa betri heildarsýn en ógæfumennirnir, er nú ryðjast sem fastast fram gegn ósnortnum víðernum landsins. Eina góða fréttin er, að Gnúpverjar hafa kært atlöguna að Þjórsárverum (Morgunblaðið).

Hliðaráhrif sjúkrastofnana

Punktar

Uppskurður gegn krabbameini í blöðruhálskirtli minnkar dánarlíkur vegna sjúkdómsins um helming, en eykur um leið líkur á öðrum sjúkdómum, svo að dánarlíkur haldast óbreyttar. Niðurstöður sænskrar rannsóknar á þessu sviði voru birtar í The New England Journal of Medicine fyrir helgina og endursagðar í International Herald Tribune í gær. Krabbameinsleit, meðferð sjúkdómsins og uppskurður eru áhættuþættir, sem magna hættur á öðrum sviðum, svo sem hjartaáfalli eða lungnabólgu. Fáir gera sér grein fyrir heildarmynd heilsufarsins, þegar þeir samþykkja að gangast undir leit, meðferð eða uppskurð á afmörkuðu sviði. Vegna kostnaðar hefur í flestum rannsóknum hingað til verið vanrækt að meta hliðarverkanir aðgerða á sjúkrastofnunum, þegar mældur er árangur þeirra.

Rómarveldi nútímans

Punktar

Samanburður Bandaríkja hinna nýju og Rómarveldis hins forna hefur á síðustu mánuðum verið hugleikinn sagnfræðingum og dálkahöfundum stórblaða. 10. apríl í vor skrifaði ég grein í Fréttablaðið um þetta efni, “Tuttugu öldum of seint”, þar sem ég efaðist um, að Bandaríkjamenn mundu treysta sér til að vera árlega í styrjöldum úti um heim að hætti Rómverja, þótt þeir tali digurbarkalega um Osama bin Laden og Saddam Hussein.
Í dag skrifar Jonathan Freedland langa grein í Guardian, þar sem hann líkir saman Róm og Bandaríkjunum á mörgum sviðum, einkum í hernaðarlegum og tæknilegum yfirburðum og þörf beggja á að heyja stríð til að fá umheiminn til að óttast sig. Sumir ráðamenn í Bandaríkjunum eru raunar orðnir skelfilega hrokafullir að hætti Rómverja. En hann kemst að sömu niðurstöðu og ég, að Bandaríkjamönnum muni ekki til lengdar líða vel í blóðugum fótsporum Rómverja.

Dýrkeypt refsing

Punktar

Lawrence J. Korb segir í New York Times, að bandaríska hermálaráðuneytið undir forustu Donald Rumsfeld sé með á heilanum, að Austur-Evrópa, einkum fátæktarríkin Rúmenía og Búlgaría, muni leysa Vestur-Evrópu af hólmi sem vettvangur setuliðs frá Bandaríkjunum og bandamaður Bandaríkjanna. Fjárhagslega er þetta óhagkvæmt vegna fjárfestingarkostnaðar og skorts á fjárhagslegri aðild þessara ríkja að rekstrarkostnaði setuliðsins. Höfundurinn telur hugsanlegt, að þetta sé gert til að refsa Vestur-Evrópu fyrir áhugaleysi á aðild að styrjöldum Bush Bandaríkjaforseta og þykir það kyndug refsing, sem komi Bandaríkjunum í koll.