Tæknivædd salerni í Japan

Punktar

Samkeppni japanskra salernisframleiðenda harðnar stöðugt. Nýjustu salernin frá Matsushita mæla fitumagn líkamans, þegar setzt er á þau. Inax hefur svarað með salernum, sem ljóma í myrkri og lyfta upp lokinu, þegar maður nálgast. Nærri helmingur salerna á japönskum heimilum er með hitastillanlegu úðunarkerfi. Sum eru komin með innbyggðum lyktareyði og önnur með þvagefnamæli. Framleiðendur salerna eru sannfærðir um, að eina friðarstund Japana sé á salerninu. Þeir eru smám saman að gera það að eins konar tækniundri og altari í senn. Helzti vaxtarbroddur í sölu salerna á næstu árum er talinn felast í að tengja salernin við veraldarvefinn. James Brooke skrifar um þetta sérkennilega mál í New York Times í dag og bendir á ýmsa spaugilega kosti og galla, sem tæknibylting salerna getur haft í för með sér.

Bezti fréttavefurinn fundinn

Punktar

Google er heiðarlegasta og vinsælasta leitarvélin á veraldarvefnum. Hún er til dæmis komin með þessa pistla mína í safnið eftir tvo daga, þótt þeir séu á íslenzku. Nú hefur hún í rúmar tvær vikur rekið fréttavef í tilraunaskyni, sem slær við öllu öðru sem ég hef séð, BBC og CNN og öllum hinum. Á sjálfvirkan hátt safnar hún öllu, sem kemur á vefinn frá enskumælandi fjölmiðlum og raðar því upp á snyrtilegan og aðgengilegan hátt, eins og hún væri ritstýrður fjölmiðill, sem er fjölbreyttari en aðrir. Aðeins tveir gallar eru á News.Google. Annar er, að eingöngu er safnað úr enskumælandi fjölmiðlum. Hinn er, að eingöngu eru teknar fréttir, en ekki leiðarar eða kjallaragreinar fjölmiðla, sem erlendis segja oft dýpri sögu en fréttirnar gera, öfugt við það sem gildir hér á landi. Frábært væri, ef News.Google gæti bætt úr þessum takmörkunum.

Pakistan er tímasprengja

Punktar

Þá sjaldan sem heimsins bezti dálkahöfundur, Peter Preston í Guardian, tekur til lyklaborðsins, kemur hann heilafrumunum í gang. Í dag minnist hans árs afmælis innrásarinnar í Afganistan: Leppur Bandaríkjanna í Afganistan, Hamid Karzai forsætisráðherra, hrekst frá völdum um leið og Bandaríkin missa endanlega áhuga á landinu. Og leyniþjónusta heimsveldisins getur hvorki fundið Omar talibana né Osama hryðjuverkamann. Þeir læddust til Pakistans, þar sem hershöfðinginn Musharaf ræður á brauðfótum sínum ekki við neitt; ekki við hryðjuverkamenn í Kasmír, ekki við ættbálkahöfðingja í landamærahéruðum og ekki við fjöldamorðingja á kristnu fólki í landinu. Pakistan er 150 milljón manna ríki með alvöru atómsprengjur frá eigin verkstæðum og mesta gróðrarstía ofsatrúarmanna í heiminum. Meðan Bandaríkin eru heltekin af þriðja flokks Írak er Pakistan fyrsta flokks tifandi tímasprengja.

Ónothæfir samningamenn

Punktar

Forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra segja stefnu Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum vera í senn ósveigjanlega og ónothæfa fyrir Ísland. Þetta segja þeir, þótt ekki hafi reynt á þetta í samningaviðræðum. Þetta segja þeir, þótt almennt gildi í viðskiptum, að menn vita ekki, hvort eða hvernig um semst, nema samningaviðræður hefjist. Lélegur þætti sá kaupsýslumaður, sem lokar dyrum sínum og leggst undir sæng í stað þess að kanna viðskiptamöguleika sína. Á sama hátt eru ekki starfi sínu vaxnir þeir íslenzku ráðherrar, sem bulla fyrirfram eins og spákerlingar um niðurstöður samningaviðræðna, án þess að hefja viðræðurnar.

Tyrkland í kuldanum

Punktar

Tyrkir hafa allra síðustu misserin fetað hratt í átt til vestræns lýðræðis. Kúrdar hafa fengið aukin mannréttindi þar í landi. Í þessari viku var afnumin dauðarefsing á friðartímum og afturkallaður dauðadómurinn yfir Abdullah Ocalan, skæruliðanum frá Kúrdistan. Fyrir þinginu liggja lagafrumvörp um aukið tjáningar- og félagafrelsi í landinu. Samt er Tyrkland ekki á nýrri tímaáætlun Evrópusambandsins um inntöku nýrra ríkja, samkvæmt fréttaleka úr höfuðstöðvum sambandsins í International Herald Tribune í dag. Á þessum ótryggu tímum í Miðausturlöndum hefði Evrópa einmitt þurft að senda Tyrklandi skýr skilaboð um, að ríkið væri hluti af vestrænu samfélagi. Evrópusambandið þarf að láta af villu síns vegar í tæka tíð fyrir þingkosningarnar í Tyrklandi 3. nóvember, ella munu vestrænt þenkjandi stjórnmálamenn og -flokkar eiga undir högg að sækja í kosningunum.

Saddam er gamall vinur

Punktar

Í aðdraganda árásar Bandaríkjanna á Írak er gott að minnast þess, að Saddam Hussein Íraksforseti var skjólstæðingur Bandaríkjanna árið 1988, þegar hann réðist á þorp Kúrda í landinu og framdi þar fjöldamorð. Árið eftir tvöfölduðu Bandaríkin styrkupphæðina og sendu honum þyrlur og efni, sem nota mátti í eiturefnavopn. Saddam Hussein var líka skjólstæðingur Bandaríkjanna árið 1980, þegar hann réðist á Íran og beitti efnavopnum í tíu ára stríðinu. Saddam Hussein var þá hættulegri umheiminum en núna. Raunar hefur hann ekki stutt hryðjuverk í útlöndum síðan 1993. Leyniþjónustur Vesturlanda hafa ekki fundið nein ný sakarefni á hendur honum og allra sízt neitt samband hans við Talibana eða Osama bin Laden, enda hefur Saddam Hussein alltaf verið andvígur heittrúarmönnum. Í heildina hefur Saddam Hussein skánað nokkuð síðan hann hætti að vera skjólstæðingur Bandaríkjanna.

Karl Marx og George Bush

Punktar

William Pfaff segir í International Herald Tribune í dag, að varnarmálayfirlýsing George W. Bush Bandaríkjaforseta frá 20. september árið 2002 sé önnur stóra atlagan í veraldarsögunni gegn fjölþjóðasáttinni í Westphalen frá árinu 1648 um fullveldi ríkja. Sú fjölþjóðasátt endurspeglast í nútímanum í stofnskrá Sameinuðu þjóðanna, sem segir, að landamæri séu heilög. Hin atlagan var Kommúnista-ávarið eftir Karl Marx, sem kom út árið 1848. Samkvæmt ávarpinu var réttur öreigaríkisins meiri en réttur einstakra ríkja og mátti því öreigaríkið ráðast á önnur ríki. Þetta hlutverk öreigaríkisins tóku Sovétríkin að sér. Varnarmálayfirlýsing Bush segið það sama, nema hvað það eru Bandaríkin, sem samkvæmt henni eru hafin yfir ríki veraldar og hafin yfir sáttmála milli ríkja. Þau mega því ráðast á önnur ríki með því að gefa fyrst út einfalda og einhliða yfirlýsingu um, að viðkomandi ríki sé á einkalista Bandaríkjanna yfir ríki, sem gætu hugsanlega keppt við þau um völd.

Lyfjafyrirtækin áminnt

Punktar

Bandaríska heilbrigðisráðuneytið varaði á mánudaginn lyfjafyrirtæki við því, að margs konar viðskiptahættir þeirra gætu stangast á við lög um viðskiptasiðferði, skv. frétt Robert Pear í New York Times í dag. Sérstaklega nefndi ráðuneytið greiðslur og fríðindi til lækna fyrir að ávísa lyfjum og breyta um lyf, m.a. ferðir og veizlur, svo og greiðslur fyrir ráðgjafarstörf. Ráðuneytið tekur ekki á þeim vanda, sem var í frétt Melody Petersen í New York Times 13. ágúst, að frægðarfólk í Hollywood er farið að flykkjast í sjónvarp til að dásama nafngreind lyf og þykjast hafa notað þau sjálft. Það tekur ekki heldur á þeim vanda, að lyfjafyrirtæki eru farin að búa til rannsóknaniðurstöður og semja staðlausar skýrslur um rannsóknir fyrir lækna, sem setja nafn sitt undir, svo sem fram kom í New England Journal of Medicine fyrir tæpu ári.

Evrópa niðurlægð

Punktar

Evrópusambandið hefur tvisvar gefizt upp fyrir Bandaríkjunum á einni viku. Á fimmtudaginn ákvað það að hætta við að beita Bandaríkin refsiaðgerðum vegna nýrra stáltolla þeirra. Í gær var áfallið meira, þegar sambandið féllst á, að ríki þess gætu gert tvíhliða samninga við Bandaríkin um að draga ekki bandaríska hermenn og embættismenn fyrir nýja stríðsglæpadómstólinn í Haag. Brezka stjórnin var sem oftar fimmta herdeildin í sambandinu og fékk hægri stjórnirnar á Ítalíu og Spáni í lið með sér. Þetta fordæmi munu ýmis ríki Austur-Evrópu nota til að gera tvíhliða samninga við Bandaríkin án þess að spilla umsóknum sínum um aðild að Evrópusambandinu. Með þessu hafa stríðsglæpadómstóllinn og Evrópusambandið beðið pólitískan hnekki. Thomas Fuller skrifar um þetta í International Herald Tribune í dag og Kenneth Roth í gær.

Læknadóp fyrir 2 milljarða

Punktar

Fréttablaðið segir í dag, að við munum nota lyf fyrir rúma 5 milljarða króna á þessu ári, þar af tauga- og geðlyf fyrir tæpa 2 milljarða, langtum meira en nokkur önnur þjóð. Þetta eru vanabindandi geðbreytilyf, sem réttilega eru kölluð læknadóp á alþýðumáli. Spyrja má, hvers vegna fólk er að kaupa allt þetta áfengi og ólögleg fíkniefni, þegar allt landið flýtur hvort sem er í ódýru læknadópi og meira en tíuþúsund Íslendingar komast í prozak-vímu á hverjum morgni á kostnað ríkisins.

Ríkisábyrgð verður fryst

Punktar

Brottrekstur 30% starfsliðs deCode Genetics á Íslandi og slæmt gengi félagsins á hlutabréfamarkaði í sumar mun samanlagt hindra notkun heimildar fyrir tuttugu milljarða ríkisábyrgð til lyfjaþróunar deCode. Alþingi samþykkti heimildina í fyrravetur í skugga þeirrar fjárkúgunar, að lyfjaþróun deCode færi að öðrum kosti til Bandaríkjanna. Ríkisstjórnin verður að frysta heimildina, þar sem hún getur á síðasta ári fyrir kosningar ekki leyft sér að skuldsetja þjóðina upp á milljarða út á ímyndir og blekkingar.

Vinnulausir vísindamenn

Punktar

Staða gæludýrsins deCode Genetics er alvarlegri en svartsýnir menn óttuðust. Ekki er nóg með, að fyrirtækið sé orðið því sem næst verðlaust. Það er einnig að bila sem veitandi vel borgaðra vísindastarfa. Þrír af hverjum tíu starfsmönnum þess hafa verið reknir. Fæstir þeirra geta fengið starf við sitt hæfi hér á landi. Hinir verða annað hvort að leita til útlanda að torsóttri vinnu á sínu sviði eða taka upp skóflu og fara að vinna hjá verktaka í stóriðju- og stífludraumum stjórnvalda. Eitt gott getur þó leitt af skammvinnu ævintýri deCode: Í grasrót þess er mannauður, sem getur leitað útrásar í smáfyrirtækjum vísindamanna með verðmæt verkefni fyrir erlend vísindafyrirtæki, sem telja sér hag í að borga fyrir slíkt.

Flokkar spanna ekki stórmál

Punktar

Valið milli Evrópusambandsins og minna vægis samstarfs okkar við Evrópu er svo mikilvæg ákvörðun, að hún ætti að vera eitt af helztu kosningamálum Íslendinga á komandi vori. Önnur brýn kosningamál eru valið milli víðernishagsmuna og virkjanahagsmuna, valið milli almannahagsmuna og sérhagsmuna í fiskveiðum, valið milli hagsmuna kynslóðanna og valið milli hagsmuna dreifbýlis og þéttbýlis og ýmis fleiri mál, sem flest skerast þvert á flokkslínur. Kjósendur eiga erfitt með að átta sig á afstöðu stjórnmálaflokka til meginmála nútímans, enda eru flokkarnir arfur frá tímum annarra ágreiningsefna í þjóðfélagsmálum. Ekki er gott fyrir lýðræði og þjóðarhag, að flokkar skuli hafa meira eða minna loðna afstöðu til flests þess, sem máli skiptir nú á tímum.

Evrópa verður vetnisálfa

Punktar

Olía er takmörkuð auðlind. Hinir svartsýnu segja það leiða til sífelldrar hækkunar olíuverðs upp úr árinu 2020, en hinir bjartsýnu segja það verða upp úr 2040. Evrópusambandið, evrópsk olíufélög og evrópskir bílaframleiðendur eru að búa sig undir að skipta í tæka tíð yfir í vetni sem orkugjafa. Á þeim grunni hyggst Evrópa mæta loforðum sínum um aukið hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa. Bandaríkin neituðu hins vegar að gefa slíkt loforð á umhverfisráðstefnunni í Jóhannesarborg í sumar. Þau reyna í þess stað að auka áhrif sín á olíusvæðum heimsins, svo sem í Miðausturlöndum, einkum Írak. Einn tilgangur fyrirhugaðs stríðs á þeim slóðum er að ná betri tökum á olíumarkaðinum. Jeremy Rifkin segir í dag í International Herald Tribune frá gerólíkum aðferðum Evrópu og Bandaríkjanna við að mæta fyrirsjáanlegum olíuskorti í heiminum á allra næstu áratugum.

Hnattvæðing í vörn

Punktar

Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði í fyrra, gaf í ár út gagnrýna bók um markaðs- og hnattvæðingu, Globalization and its Discontents. Hann kemur úr innsta kjarna hennar, því að hann var til skamms tíma aðstoðarbankastjóri og aðalhagfræðingur Alþjóðabankans. Hann telur, að Heimsviðskiptastofnunin, Alþjóðabankinn og einkum þó Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eigi mikla sök á erfiðleikum ríkja á borð við Rússland og Argentínu, sem fylgdu kollsteypu-stefnu þessara stofnana, en betur hafi farnazt ríkjum á borð við Indland og Kína, sem höfnuðu ráðgjöfinni og fóru sér hægt í markaðs- og hnattvæðingu. Bók Stiglitz hefur magnað andóf gegn markaðs- og hnattvæðingu, sem vafalaust mun leita útrásar á fundum þessara stofnana í Washington um næstu helgi. Grein eftir >Robert Weissman í Washington Post í dag er dæmi um, hvernig heimspólitíska umræðan hefur snúizt markaðs- og hnattvæðingu í óhag.