Getur unnið eða verður að vinna?

Punktar

Bandaríkjastjórn ætlar að heyja hefðbundið stríð, sem hún getur unnið, í stað þess að heyja flókið stríð, sem hún verður að vinna. Það er niðurstaða dálkahöfundarins Tony Judt í New York Times í dag. Yfirvofandi stríð við Írak er rangt stríð á röngum tíma. Í stað þess að safna fylgi almennings í löndum múslima við stríð gegn alþjóðlegum hryðjuverkamönnum er Bandaríkjastjórn að auðvelda hryðjuverkamönnum að njóta skjóls hjá vinveittum almenningi. Enda er augljós tvískinnungur að banna Írak það, sem Ísrael er leyft. Þess vegna mun mannkynið verða að þola meira af Bali og World Trade Center, meðan Bandaríkin gera upp sakir við gamlan skjólstæðing, sem átölulaust notaði efnavopn gegn minnihlutahópum og nágrannaríkjum fyrir tveimur áratugum, þegar hann var ennþá “okkar tíkarsonur” og mátti gera það, sem hann vildi.

Hryðjuverk í heimahögum

Punktar

Raðmorðingi hefur undanfarið leikið lausum hala í úthverfum höfuðborgar Bandaríkjanna og valdið almennri skelfingu. Ef svona erfitt er að hafa hendur í hári hryðjuverkamanns við bæjardyr Hvíta hússins, hversu miklu flóknara verkefni er að ná til hryðjuverkamanna sums staðar í fjarlægum útlöndum, þar sem þeir njóta skjóls hjá hluta almennings, spyr Martin Kettle í Guardian. Enda gengur Osama bin Laden enn laus og raunar allir helztu ráðamenn al Kaída samtakanna. Þetta segir okkur, að baráttan við alþjóðlega hryðjuverkamenn er flókið þolinmæðisverk. Einfaldara er fyrir George W. Bush forseta að skipta út umræðuefnum og reyna að beina óþolinmóðri athygli fólks að alls óskyldum vanda, Saddam Hussein, sem fyrir löngu hætti að styðja hryðjuverk í útlöndum.

Svarthol í Vetrarbrautinni

Punktar

Í fyrsta skipti hafa náðst sönnunargögn um tilvist risastórs svarthols í miðju vetrarbrautarinnar. Vísindamenn við Max Planck stofnunina í Þýzkalandi hafa birt grein um niðurstöður sínar í brezka tímaritinu Nature. Þar kemur fram, að fyrirbæri, sem nefnist Sagittarius A er þremur milljón sinnum stærri en sólin. Svarthol í geimnum eru ekki hvirflar, sem soga til sín hluti, heldur svo eðlisþung fyrirbæri, að ljós sleppur ekki frá þeim. Þau myndast, þegar stjörnur falla saman inn í sjálfar sig. Þau er að finna í kjarna flestra sólkerfa. Sagittarius A hefur í aldarfjórðung verið grunaður um að vera slíkt svarthol, en sönnunargögn hafa ekki fengizt fyrr en nú. Búizt er við, að þessi tíðindi muni efla um allan heim rannsóknir á svartholum.

Reykbann þenst út vestra

Punktar

Þar sem við hermum flest eftir Bandaríkjamönnum, má vonast til, að sá tími renni upp, að maður geti heimsótt kaffihús án þess að vera baðaður í tóbaksreyk. Nýja borgarjóranum í New York, Michael Bloomberg, er um það bil að takast að sannfæra borgarstjórnina um að víkka reykingabann, sem áður gilti á veitingahúsum, þannig að það gildi einnig á börum borgarinnar. Slíkt bann gildir raunar þegar í Kaliforníu og hefur ekki dregið úr aðsókn að þessum stofnunum, þótt eigendur þeirra hefðu aður haldið slíku fram. Mótbárur kollega þeirra í New York eru því ekki þungar á metunum í umræðum borgarstjórnar. Kvörn skynseminnar malar hægt en örugglega.

Góður pakki um næsta stríð

Punktar

Hin harða gagnrýni Jimmy Carter, fyrrum Bandaríkjaforseta og nýjasta friðarverðlaunahafa Nóbels, á styrjaldarstefnu George W. Bush Bandaríkjaforseta gagnvart Írak birtist í Washington Post á dögunum. Blaðið hefur tekið saman ýmsar greinar, sem hafa birzt í þar um málið upp á síðkastið, í einn pakka, The Debate About Iraq, flokkaðan eftir viðfangsefnum og sjónarmiðum Þar má sjá skoðanir margra þekktra dálkahöfunda og stjórnmálamanna, mikill fjársjóður fyrir þá, sem vilja setja sig inn í þessa sérstæðu áráttu, sem virðist hafa leyst af hólmi eltingaleikinn við hryðjuverkahópa á vegum Osam bin Laden. Þarna eru m.a. greinar eftir Richard Holbrooke og Robert J. Samuelsson, Robert Kagan og Francis Fukuyama, Charles Krauthammer og Jim Hoagland, Jimmy Carter og George Schultz, Bob Dole og James A. Baker.

Hatrið á hnattvæðingunni

Punktar

Hnattvæðing er hötuð um allan þriðja heiminn, af því að helztu stofnanir hennar hafa brugðizt hlutverki sínu. Alþjóðabankinn útvegar lánsfé til ofurframkvæmda á borð stíflur, sem spilla vistkerfi og efnahag þjóða. Hann útvegar lánsfé, sem hann veit að er laumað á bankareikninga spilltra valdhafa, en ætlast samt til, að þrautpíndar þjóðir endurgreiði. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er rekinn á róttækum hagfræðikreddum frá Chicago, sem hafa leitt kreppur yfir Suðaustur-Asíu, Rússland og Suður-Ameríku. Heimsviðskiptastofnunin styður ofurgreiðslur þriðja heims þjóða fyrir vestræn einkaleyfi, einkum amerísk, og kemur um leið í veg fyrir, að ódýrar landbúnaðarvörur þriðja heimsins komist inn á vestræna markaði. Skyldi verða rætt um þessar glæpastofnanir á hnattvæðingarráðstefnu háskólans um helgina?

Þéttbýlisflokk gegn ofsóknum

Punktar

Hornsteinn þjóðskipulags okkar eru fjórir gamalgrónir hagsmunaflokkar, sem dreifa skattfé og einkavæðingartekjum frá þéttbýlinu yfir í strjálbýlið. Vegakerfið er gott dæmi, því að fyrirhugað er að verja stjarnfræðilegum upphæðum til að bora göt í fjöll á afskekktum stöðum. Miklu nær væri að nota þetta fé á höfuðborgarsvæðinu, þar sem fjölgun mislægra gatnamóta með viðstöðulausum akstri mundi fækka slysum, stytta ferðatíma, minnka benzínnotkun og draga úr mengun á gatnamótum. Hér vantar greinilega þéttbýlisflokk til að gæta hagsmuna þriggja kjördæma á höfuðborgarsvæðinu, því að þingmenn fjórflokksins á svæðinu hafa aldrei gert það. Tíu þingmanna þéttbýlisflokkur mundi skelfa fjórflokkinn og neyða Alþingi til að verja vegafé ríkisins í stórauknum mæli til höfuðborgarsvæðisins. En fólkið þar hefur því miður ekki bein í nefinu til að losna við umferðarstöppu álagstímanna og draga úr öðrum ofsóknum af hálfu fjórflokksins.

Þráhyggja magnar öryggisleysi

Punktar

Þráhyggja bandarískra stjórnvalda gegn Írak stjórnar örvæntingarfullum og árangurslausum tilraunum þeirra til að sanna samband milli Osama bin Laden og Saddam Hussein til að réttlæta árás á Írak. Þetta hefur mánuðum saman skert getu CIA, bandarísku leyniþjónustunnar til að hafa upp á raunverulegum hryðjuverkamönnum, sem hafa með skelfilegum afleiðingum aukið umsvif sín, t.d. á Balí í Indónesíu, í Karachi í Pakistan og á sundinu við Jemen. Gleymst hefur stjórnleysið í Afganistan, þar sem leppar Bandaríkjanna ráða ekki við neitt utan við borgarmiðju Kabul og þar sem Osama og Omar talibani leika enn lausum hala. Þráhyggjan hefur magnað öryggisleysi Bandaríkjamanna. Margir dálkahöfundar fjalla um þetta í dag, svo sem Richard Norton-Taylor í Guardian og Julian Borger í sama blaði.

Steinaldarfæði hentar okkur

Punktar

Fólk er veikt, af því að líkaminn er ekki gerður til að þola lífshætti 21. aldar, er menn geta veitt sér allt, sem þeir vilja. Þetta segir Randolph Nesse, prófessor við Michigan-háskóla, einn helzti Darwinisti nútímans. Fjallað var um kenningar hans í BBC á laugardaginn. Líkaminn er að hans sögn gerður til að ganga 20 km á dag í leit að æti, yfirleitt trefjaríku og fitusnauðu. Líkaminn var í góðu samræmi við umhverfi sitt fyrir 10.000 árum. En hann hefur lítið breytzt eftir ytri aðstæðum og er ekki gerður til að verjast freistingum nútímans, allt frá tóbaki og áfengi yfir í fitu og sykur. Þannig blómstra menningarsjúkdómarnir. Samkvæmt þessu má búast við að menn þurfi að hverfa til neyzluvenja eins og þær voru fyrir 10.000 árum, til að minnka umtalsvert hættuna á veikindum. Steinaldarfæði er það, sem hentar líkama okkar.

Er krabbamein hegðun?

Punktar

Nú má fólk fara að vara sig, ef það er með hegðunarvandamál á borð við rangar neyzluvenjur. Jóhann Ágúst Sigurðsson prófessor segir í ágætu viðtali í Morgunblaðinu í dag, að sjúkdómshugtakið hafi verið þanið svo út, að náð sé mörkum þanþols á greiðslugetu heilbrigðiskerfisins. Jóhann kallar þetta sjúkdómavæðingu, sem meðal annars felst í að félagsleg vandamál og hegðunarmynztur eru skilgreind sem sjúkdómar. Viðtalið vekur þó fleiri spurningar en það svarar. Hvað verður til dæmis gert við fólk með krabbamein og hjartamein af ýmsu tagi, þegar menn átta sig betur á, að hegðun á borð við neyzluvenjur er umtalsveður áhættuþáttur slíkra sjúkdóma? Verður þetta fólk látið bera kostnaðarábyrgð á eigin heilsu, þegar búið er að þrengja sjúkdómshugtakið að hætti Jóhanns?

Leirböð aftur í tízku

Punktar

Samkvæmt grein eftir Vicky Elliott í International Herald Tribune eru baðlækningar að miðevrópskum hætti, svo sem við þekkjum frá Heilsustofnuninni í Hveragerði, annars vegar lindarvatnslækningar og hins vegar leirbaðalækningar, orðnar að tízkuæði í Kaliforníu. Í Evrópu hafa stofnanir af þessu tagi, nú orðið oftast kallaðar samheitinu Spa, löngum verið eftirsóknarverðir dvalarstaðir í sumarleyfum. Kaliforníumenn hafa bætt um betur og bjóða ilmböð og tónaböð, austurlenzka hugleiðslu og jóga og svo auðvitað heilsufæði að hætti þeirra í Hveragerði, þar sem raunar einnig hafa verið stundaðar nálastungur. Allt þetta setja Kaliforníumenn í einn slökunarpakka, sem miðar að því að losa önnum kafið fólk við streitu nútímans.

Frábær friðarverðlaun

Punktar

Sem einn fárra staðfastra aðdáenda Jimmy Carter Bandaríkjaforseta þykir mér vænt um að einmitt hann hefur fengið friðarverðlaun Nóbels, persónugervingur reisnar mannsandans á erfiðum tímum róttækra stríðsæsingamanna, sem eru að leiða Bandaríkin á rómverska braut til ógæfu alls mannkyns. Á valdatíma Carter urðu Bandaríkin tákn frelsis og reisnar, helzta von þriðja heimsins um bætta framtíð. Enn þann dag í dag er það rödd hans, sem hljómar tærast gegn ofstækismönnum þeim, sem náð hafa völdum í Bandaríkjunum. Sjáið ágæta grein eftir Mark Lawson í Guardian í dag.

Dýrt er handafl negrakónga

Punktar

Matarverð á Íslandi er 48% hærra á Íslandi en í Evrópusambandinu samkvæmt könnun, sem birtist í Eurostat og náði yfir 550 vörur í 31 landi. Áður hafði norska hagstofan reiknað út eftir öðrum aðferðum, að matarverð á Íslandi væri 69% hærra en í Evrópusambandinu. Við vitum af öðrum samanburði, að vaxtamunur á Íslandi er 30-50% hærri en í þeim löndum, sem tekið hafa upp evru sem gjaldmiðil. Þetta eru skýr dæmi um herkostnað okkar af því að taka verndun á handafli innlendra negrakónga fram yfir eðlilega aðild okkar að Evrópu og framfarastofnunum hennar. Ekkert er betur til þess fallið að bæta lífskjör almennings hér á landi en aðild að evrunni og Evrópusambandinu.

Bezti díllinn í bænum

Punktar

Pólski dálkahöfundurinn Konstanty Gebert hjá Gazeta Wyborcza skrifar í dag ágæta grein í International Herald Tribune um stækkun Evrópusambandsins og væntanlega aðild Póllands að sambandinu. Díllinn hefur súrnað, segir hann, en hann er samt bezti díllinn í bænum. Hann vonar, að sambandið verði annað og meira en stöðlun og reglugerðir. Hann viðurkennir, að sambandið hafi enn ekki komið á samevrópskri vitund og segir stækkun þess ekki skapa neitt nýtt. En hann segir stækkunina muni hafa langtímaáhrif til góðs og staðfesta lífsþrótt samevrópskra gilda.

30% þjást af offitu

Punktar

59 milljónir Bandaríkjamanna þjást af offitu, 30% þjóðarinnar, samkvæmt niðurstöðum rannsóknar, sem birtust í gær í Journal of the American Medical Association. Skilgreining offitu er samkvæmt bandarískum staðli um hlutfall hæðar og þyngdar líkamans. Þetta er enn verra ástand en áður hefur verið talið og stingur óneitanlega í stúf við alla heilsuræktina, öll megrunarlyfin og allan lágfitumatinn. Áður var búið að reikna út, að ofát er dýrasti vandi heilbrigðiskerfisins þar vestra, mun dýrari en áfengið. Í báðum tilvikum er um að ræða fíkn, sem veldur því, að það góða, sem menn vilja gera, gera þeir ekki, af því að þeir ráða ekki við fíknina, hversu góðar upplýsingar, sem þeir hafa. Við ættum að vara okkur, því að sykurneyzla á Íslandi heldur í humátt á eftir bandarískri sykurneyzlu og er hin næstmesta í heiminum.