Þeir kusu að hlusta ekki

Punktar

Í annars fróðlegri grein um deCode í Guardian gefur James Meek kaldhæðnislega mynd af Íslendingum sem dáleiddum fylgismönnum Davíðs Oddssonar og Kára Stefánssonar. Hins vegar er rangt hjá Meek, að Kári hafi stýrt íslenzkum fjölmiðlum í kaupæði hlutabréfa árin 1999-2000. Fjölmiðlar voru galopnir fyrir vel rökstuddum efasemdum um fjárfestingu í deCode. Þeir, sem eigi að síður létu ginnast til að kaupa verðlaus hlutabréf í deCode á uppsprengdu verði, eru ekki saklaus fórnardýr örlaganna. Þeir kusu bara að hlusta ekki.

Salman Rushdie er rökfastur

Punktar

Af mikilli yfirsýn skrifar Salman Rushdie rithöfundur í dag í Washington Post greinina til að binda endi á greinaskrif um Íraksmálið. Hann hafnar flestum rökum Bandaríkjastjórnar og fellst á flest mikilvægustu rökin gegn málstað hennar, þar á meðal þau, sem ég hef haldið fram í þessum pistlum. Eigi að síður segir hann stjórnarfar Íraks vera svo óbærilegt, að hann hvetur ríki heims til að taka sameiginlega til hendinni með Bandaríkjunum og Bretlandi, þegar búið er að semja í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um feril málsins. Látið ekki hjá líða að lesa þessa tímamótagrein.

Kárahnjúkavirkjun er ómagi

Punktar

Í minnisblaði frá borgarstjóranum í Reykjavík segir, að arðsemi Kárahnjúkavirkjunar sé ekki sú, sem reiknað hafi verið með. Ennfremur, að fjárhagslegir erfiðleikar Landsvirkjunar lendi á eigendum hennar, þar á meðal borginni. Af Kárahnjúkavirkjun einni verða 34 milljarðar króna í húfi hjá borginni. Raunar er úr hófi athyglisvert, að umdeild virkjun skuli vera svo illa arðbær, að hún verður ekki reist án þess að fá gefins ábyrgðir ríkis og borgar. Til þess að rekstrartapið af eyðileggingu stærsta ósnortna víðernis í Evrópu lendi ekki á herðum skattborgaranna, mun Landsvirkjun neyðast til að misnota einokunaraðstöðu sína til að láta tjónið lenda á greiðendum rafmagnsreikninga. Kárahnjúkavirkjun er og verður ómagi á þjóðinni.

Gjaldþrot evrópskrar fiskveiðistefnu

Punktar

Við vitum, að fiskveiðistefna Evrópusambandsins er ónothæf. Við vitum, að hún varðveitir ekki fiskistofna. Tveggja áratuga rányrkja í skjóli hennar hefur nú leitt til þess, að banna verður þorsk- og ýsuveiði í Norðursjó og Írlandshafi. Dálkahöfundar evrópskra fjölmiðla eru farnir að átta sig á gjaldþroti stefnunnar, t.d. Annalisa Barbieri í Guardian í dag. Senn fer Evrópusambandið sjálft að átta sig. Gersamlega eru brostin rökin fyrir því, að ný aðildarríki neyðist til að tak upp gjaldþrota stefnu. Sambandið getur til dæmis ekki staðið fast á fiskveiðistefnunni í viðræðum um aðild Íslands. Þess vegna eigum við að fara að semja um aðild. Viðræður munu vafalaust leiða til, að við getum haldið okkar eigin ófullkomnu fiskveiðistefnu, þótt við verðum aðilar að bandalaginu.

Hvenær fáum við Klambratún?

Punktar

Gamli maðurinn sagðist hafa fæðst í Sankti Pétursborg, alizt upp í Petrograd, búa í Leningrad, en hann mundi deyja í Sankti Pétursborg. Þessi sannspái maður bjó alla tíð á sama stað. Rithöfundurinn Shashi Tharoor skrifar ágæta grein í International Herald Tribune í dag um breytingar á staðanöfnum, sem stundum fara í hring. Þannig varð Kongó að Zaire á tímum Mobuto og núna aftur að Kongó. Kambódía varð að Kampútseu á dögum Rauðu kmeranna og núna aftur að Kambódíu. Canaveral-höfði varð að Kennedy-höfða eftir lát forsetans, en nú orðinn aftur að Canaveral. Þetta vekur spurningar um reykvískt örnefndi, sem komst í ónáð á einhverju minnimáttarskeiði borgarstjórnar fyrir nokkrum áratugum. Miklatún er skelfilega púkalegt uppnefni á Klambratúni. Hvenær fáum við gamla og góða nafnið aftur?

Það snýst um vatnið

Punktar

Ríkisstjórn Ísraels hefur nú bannað Palestínumönnum að bora eftir vatni í Palestínu. Allt frá árinu 1967 hefur Ísrael skipulega notað hernumdu svæðinu til að bora eftir vatni fyrir sig. Helmingur af vatni Ísraels kemur frá Palestínu. Árið 1967 hertók Ísrael vatnsbrunna Palestínu og hefur síðan skammtað heimamönnum aðgang að þeim, þannig að hver Ísraelsmaður fái sex sinnum meira vatn en hver Palestínumaður. Þegar skortur er á vatni, er skrúfað fyrir vatnið til Palestínumanna, svo að Ísraelsmenn hafi nóg vatn í sundlaugum sínum í ólöglegum byggðum ísraelskra landnema í Palestínu. Nýja borunarbannið hefur mjög slæm áhrif á landbúnað og heilsufar Palestínumanna. Þetta er heimshluti, þar sem vatn er verðmætara og dýrara en olía. Jessica McCallin segir frá þessu í Sunday Herald.

Þeir verja morðin í Moskvu

Punktar

Hinir stríðsglöðu kalla það “collateral damage” eða óviðkomandi manntjón. George W. Bush í Bandaríkjunum og Tony Blair í Bretlandi hafa báðir varið stórkarlalega klaufabárðaárás rússneskra öryggissveita á leikhúsið, þar sem ópíumgas (sjá BBC) drap ekki færri en 120 saklausa borgara. Og þar sem rússnesk stjórnvöld hindruðu lækna við björgun almennra borgara með því að neita að segja þeim (sjá Guardian), hvaða eitur hafði verið notað. Blair afsakar meira að segja morðin í Moskvu með því, að svona aðgerðir hljóti alltaf að vera áhættusamar. Kuldaleg viðbrögð tveggja stríðsglaðra leiðtoga, sem bera of litla virðingu fyrir mannslífum, hljóta að vekja spurningar. Til dæmis um, hvers konar “óviðkomandi manntjón” sé afsakanlegt. Mundu Bush og Blair verja svona klúður heima fyrir?

Bush lýgur eftir þörfum

Punktar

George W. Bush Bandaríkjaforseti lýgur meira en aðrir slíkir hafa gert. Dana Milbank segir í Washington Post frá nokkrum lygum hans. Nýlega sagði forsetinn, að Saddam Hussein hefði flota mannlausrar flugvéla, sem gætu hæft skotmörk í Bandaríkjunum. Einnig sagði hann, að Saddam Hussein yrði búinn að koma sér upp kjarnorkuvopnum eftir sex mánuði. Áður var hann búinn að segja frá margvíslegu sambandi Íraks við Al Kaída og talibana, meðal annars í Prag. Allt var þetta tóm lygi til að reyna að selja Bandaríkjamönnum væntanlega árás á Írak. En Paul Krugman bætir við í New York Times í dag, að lygasögur Bush séu ekki nýjar af nálinni og varði ekki aðeins Írak, heldur rekur hann dæmi um margvíslegar lygar í lýsingum forsetans á ýmsum þáttum bandarískra innanríkismála. Til stuðnings máli sínu notar Bush til dæmis tölur, bæði um magn og verð, sem eru úr lausu lofti gripnar. Niðurstaðan er, að staðreyndir skipti forsetann engu máli, hann búi þær bara til eftir pólitískum þörfum hverju sinni.

Ólæknandi gigt fyrir alla

Punktar

Gigtveiki er ekki séríslenzkur sjúkdómur, sem fylgir breytilegu veðri. Viðamikil rannsókn í Bandaríkjunum hefur leitt í ljós, að þriðji hver Bandaríkjamaður þjást af liðagigt. Frá þessu var sagt í Boston Globe á föstudaginn. Bandarísku tölurnar samsvara því, að læknar hér fengju 44.000 heimsóknir vegna liðagigtar á hverju ári og 750 manns leggist af sömu ástæðu á sjúkrahús á hverju ári. Erfitt er að eiga við liðagigt, þegar hún er komin á svona hátt stig. Við sumum tegundum, svo sem slitgigt, er ekkert hægt að gera, nema gefa fólki sterk verkjalyf, sem hafa aukaverkanir. Á frumstigum veikindanna er hins vegar hægt að verjast þeim með góðu mataræði og líkamsrækt, einkum með því að forðast offitu og með því stunda reglubundið æfingar, sem styrkja stoðkerfi líkamans.

Fjötruð lyfjavísindi

Punktar

Enn einu sinni hefur verið staðfest, að ekki er unnt að taka mark á niðurstöðum lyfjarannsókna háskólaspítala. Í nýjasta tölublaði New England Journal of Medicine, sem kom út í fyrradag, eru birtar niðurstöður rannsókna á hagsmunatengslum lyfjaframleiðenda við 108 háskólasjúkrahús. Þær sýna, að lyfjafyrirtækin ráða nánast alveg ferðinni í rannsóknum og stjórna í 99% tilvika, hvort niðurstöður eru birtar eða ekki. Markmiðið er að láta okkur trúa, að lyf virki rosalega vel og séu án nokkurra aukaverkana. Áður hafði komið í ljós, að sumir höfundar að skýrslum lásu ekki einu sinni skýrslurnar, sem komu fullbúnar frá lyfjaframleiðendum, heldur skrifuðu bara undir þær. Svo skemmtilega vildi til, að sama dag birtist í ríkissjónvarpinu síðasti þáttur raðar um læknisfræði, sem auðvitað var kostuð af lyfjafyrirtækjum.

Höggvið á hnútinn

Punktar

Samkomulag Schröder og Chirac í gær er gott dæmi um þróun Evrópusambandsins. Eftir linnulaust þjark er loksins höggvið á hnútinn og sambandið getur stigið næstu skref. Þannig var á sínum tíma ákveðið að stækka sambandið um alla Evrópu, taka upp evru og sameiginlegan seðlabanka, hvort tveggja heimssöguleg skref. Nú er í raun búið að ákveða, hvernig farið verður með landbúnaðarstyrkina, þegar fátæku ríkin í austri bætast við. Þau byrja að fá styrki árið 2004 og síðan verður sett þak á alla landbúnaðarstyrki árið 2007. Þetta er ekki óskaniðurstaða, en veður samþykkt af öllum og gerir bandalaginu kleift að halda áfram að þenjast út og verða að langmesta efnahagsveldi veraldar.

Vilja banna þorskveiðar

Punktar

Fiskrannsóknaráð Evrópusambandsins mun á morgun leggja fram tillögur, sem fela meðal annars í sér algert bann við þorskveiðum í Norðursjó og Írlandshafi. Þessi ráðgjöf kemur í beinu framhaldi af þeirri ákvörðun alþjóðlega umhverfisþingsins í Suður-Afríku í ágúst að hvetja til lokunar hafsvæða fyrir veiðum til reyna að ná upp fiskstofnum, sem taldir eru í útrýmingarhættu. Dæmi eru frá Nýja-Sjálandi og Kanada um, að slíkar aðgerðir nái árangri, þótt einnig sé til dæmi frá Nýfundnalandi um, að þorskur eigi afar erfitt með að ná sér eftir taumlausa ofveiði. Það hefur lengi verið íslenzk stefna að loka hafsvæðum, þar sem fiskstofnar eru í hættu. Því má segja, að úti í heimi séu menn farnir að herma eftir íslenzkri fiskveiðistjórn. Í Guardian má finna ágætt greinasafn um ofveiði og sjálfbæra veiði.

Alþjóðadagblað selt

Punktar

Washington Post seldi í gær New York Times helmings hlut sinn í alþjóðlega dagblaðinu >International Herald Tribune, svo að NYT á nú allt hlutafé í því. Samkomulag eigenda hafði stirðnað að undanförnu, WP bauðst til að kaupa NYT út, en var hafnað. NYT beitti hörðu til að ná tökum á IHT, hótaði að setja upp eigin alþjóðaútgáfu og að neita frekari fjármögnun IHT, sem hefur verið rekið með slæmu tapi í tvö s.l. ár. Þetta eru vondar fréttir, þótt NYT sé vandað dagblað. Það er ákaflega hallt undir Ísrael. Sú afstaða mun áreiðanlega leka inn hjá IHT, sem hingað til hefur verið fremur óhlutdrægt í þeim efnum að hætti Washington Post. Hin alþjóðadagblöðin tvö, Wall Street Journal og Financial Times, eru einnig fremur höll undir Ísrael, svo að hér eftir verða vaxandi erfiðleikar á að fá á einfaldan hátt góða innsýn í þann vanda, sem er ein helzta rót hins ótrygga ástands í Miðausturlöndum og aukinna umsvifa alþjóðlegra hryðjuverkamanna.

Keppinautar fallast í faðma

Punktar

Þegar matvörukeðjurnar berjast um á hæl og hnakka til að ná meiri hluta af markaðinum til sín, taka þær forustu við að lækka vöruverð. Þannig voru fyrst Hagkaup og síðan Bónus á uppvaxtarárum sínum. Þegar keðjurnar hafa hins vegar náð jafnvægi í markaðshlutdeild, hætta þær að stýra verðþróun og fara að fylgja henni eftir. Þær hætta allri ævintýramennsku og keppast um að halda hlutfallslegu verðlagi í samanburði við keppinautana. Áherzla á gróða leysir áherzlu á markaðshlutdeild af hólmi. Keppinautar fallast í faðma. Þannig eru Hagkaup og Bónus orðin að Baugi. Staðan í matvöru er nýlega orðin hin sama og hún hefur frá ómunatíð verið í bönkum og benzíni, flutningum og flugi. Samkeppni er orðin að fáokun, neytendum og þjóðarbúi í óhag. Og bráðum verður þetta svona í fjarskiptunum líka.

Evrópa er vond við Davíð

Punktar

Davíð getur ekki slegið Evrópu leiftursnöggt í skallann. Þess vegna fer hún sínu fram án samráðs við hann, sem ekki fær dulið gremju sína. Nú er hún að þenja sig til austurs og spillir óvart tvíhliða samningum Íslands við ríki í Austur-Evrópu, þar sem við höfum komið inn tollfríum fiski. Af því að við viljum ekki vera með í Evrópu, heldur hafa Fríverzlunarsamtök til að semja við hana um Evrópskt efnahagssvæði, neyðumst við til að biðja hana um að fá að halda fiskmarkaði okkar í Austur-Evrópu. Í staðinn vill hún, að við tökum meiri fjárhagslegan þátt í að hjálpa fátækum þjóðum í Evrópu, en það vill Davíð alls ekki. Allt væri þetta miklu einfaldara, ef við skildum, að ríki, sem er háð erlendum aðgangi fyrir afurðir sínar, getur ekki staðið fyrir utan tollmúra, heldur verður að koma sér í hlýjuna fyrir innan, þar sem líka fæst lágt vöruverð, lágir vextir og hentug evra.