Með dauða hönd á hrossum

Punktar

Hin dauða hönd ríkisvaldsins er farin að láta til sín taka í hrossum eins og öðrum búfénaði. Í tíð Guðna Ágústssonar ráðherra hafa verið stofnaðir hrossasjóðir, sem sérhæfa sig í að kasta fé í grýtta jörð, Átak heitir einn og Hestamiðstöðin annar. Uppskera þeirra er lítil sem engin. Fyrir tugmilljónir var settur upp verðlausi fréttavefurinn eidfaxi.is, sem árlega tapar milljónum. Í framhaldi af því eru sjóðirnir þessa dagana að bjarga móðurfélaginu Eiðfaxa og tímaritum þess frá yfirvofandi gjaldþroti. Faðmlög ríkisvaldsins af þessu tagi draga allan mátt úr gæludýrunum, draga úr líkum á einkaframtaki og eru ávísun á frekari vandræði. Þannig hefur það áratugum saman verið í landbúnaði, allt frá kindum yfir í minka. Og þannig mun Guðni skilja við hrossin, – á framfæri hins opinbera.

Evrópa hækkar reikningana

Punktar

Evrópusambandið leggur vaxandi áherzlu á, að Ísland og Noregur borgi meira fyrir aðganginn að evrópskum mörkuðum, ef til vill til að sýna okkur fram á, að þægilegra verði að lokum að sitja innanbúðar í hlýjunni en standa úti í kuldanum og semja við það sem utangarðsmenn. Vafalaust kærir sambandið sig ekki heldur um, að þessi tvö ríki séu ánægð með útivistina og noti bara valda þætti úr samstarfinu. Stórfelld stækkun sambandsins til austurs gefur því gott færi á að gera auknar fjárkröfur á hendur okkur. Norðmenn eru sagðir vilja borga talsvert, jafnvel margfalt meira, en Davíð segir nei takk fyrir okkar hönd, sem er ágætis upphafsstaða í viðræðum. Verst er, að við þurfum meira á Evrópusambandinu að halda en það á okkur.

Aukaefni í landbúnaði

Punktar

Rannsókn á vegum ríkisháskólans í Missouri í Bandaríkjunum hefur leitt í ljós, að um miðbik ríkisins er sæði karlmanna mun lakara í sveitum en borgum, samkvæmt Associated Press í gær. Mælt í fjölda á rúmmálseiningu er það um 60 milljónir á millilítra í sveitum, en um 100 milljónir í borgum. Að óreyndu er þessi munur talinn stafa af umgengi sveitafólks við aukaefni, sem notuð eru í landbúnaði, tilbúinn áburð, skordýraeitur og illgresiseyði. Niðurstaðan er talin munu hvetja til aukinnar lífrænnar ræktunar, því að hún hafnar þessum aukaefnum. Nokkrir garðyrkjubændur á Íslandi stunda lífræna ræktun samkvæmt alþjóðlegum stöðlum óháðra vottunarfyrirtækja. Íslenzku bændasamtökin hafa hins vegar horn í síðu hennar. Þau vilja heldur efla svokallaða vistvæna ræktun í samræmi við heimasmíðaða staðla í Bændahöllinni, sem líta mildari augum á aukaefni á borð við tilbúinn áburð.

Góðar greinar í Guardian

Punktar

Þrjár góðar kjallaragreinar í Guardian í morgun gefa samanlagt einstæða innsýn í heimspólitískar breytingar, sem fela í sér, að fyrstu áratugir þessarar aldar verða ólíkir síðustu áratugum liðinnar aldar. Gary Younge rekur dæmi um, hvernig hagsmunir peninga, til dæmis olíupeninga, eru að víkja mannúðarsjónarmiðum til hliðar hjá Sameinuðu þjóðunum. Simon Tisdall skrifar um, hvernig ráðamenn Evrópu eru almennt (eins og ég) farnir að átta sig á, að Bandaríkjastjórn er um það bil að verða til miklu meiri vandræða í umheiminum en hún hefur verið að undanförnu, en hafa ekki kjark til að stöðva hana. John Vidal telur, að friðsöm fjöldamótmælin gegn hnattvæðingu í Flórens um helgina sýni, að andstaðan gegn róttækri gróðahyggju sé búin að ná þroska og feli í sér rætur endurreisnar gegn ríkjandi hugmyndafræði á Vesturlöndum. Missið ekki af þessum þremur greinum.

Jakobi launað að verðleikum

Punktar

Samfylkingin stóðst margmilljón króna áhlaup Jakobs Frímanns Magnússonar í prófkjörinu í Reykjavík. Andlit hans er búið að ofmetta síður fjölmiðla og alla hugsanlega sjónvarpsþætti og þekja veggi um allan bæ á síðustu dögum, eins og martröð í einræðisríki. Þetta dugði aðeins í ömurlegt tíunda sætið. Og segir okkur, að peningar og popp, óheftur aðgangur að rugluðu sjónvarpsfólki, auglýsinga- og ímyndarfræði gerviheims nútímans eru samanlagt engan veginn ósigrandi. Kjósendur Samfylkingarinnar létu orrahríð Jakobs ekki á sig fá og kusu sitt fólk eins og ekkert hefði í skorizt. Hann hafði ekkert að segja og var launað að verðleikum.

Tyrkland er í Evrópu

Punktar

Giscard d’Estaing, fordómafullur formaður stjórnlaganefndar Evrópusambandsins, gerði sig vanhæfan, þegar hann sagði, að Tyrkland geti ekki orðið aðili að Evrópusambandsins, af því að landið sé ekki í Evrópu, íbúar þess fjölgi sér of mikið og hugsi öðru vísi en Evrópumenn. Saga Tyrklands hefur verið samofin evrópskri sögu í rúmlega fimm aldir. Evrópusambandið lýkur ekki því hlutverki að loka ófriðarsögu álfunnar fyrr en Tyrkland er komið inn. Tyrkland er lýðræðisríki, sem er ekki rekið á trúarlegum grunni og hefur eflt mannréttindi upp á síðkastið. Evrópu er fengur í aðild fjölmenns ríkis, sem hefur þjóðskipulag á evrópskum meiði. Ráðamönnum Evrópu ber að haga sér í samræmi við það. Giscard á umsvifalaust að fá rauða spjaldið.

Fyrsta glasið ruglar fólk

Punktar

Á fyrsta glasi áfengis byrjar dómgreind og athyglissnerpa að minnka, samkvæmt niðurstöðum samanburðarrannsóknar á hópum, sem innbyrtu mismikið áfengi á 20 mínútum og hópi, sem hélt að hann væri að drekka áfengi á sama tíma, en var með áfengislausan drykk. Niðurstöðurnar frá háskólunum í Amsterdam og Leiden í Hollandi munu birtast í tímaritinu Science, en eru þegar komnar í Washington Post. Þeir, sem ekkert áfengi fengu, gerðu 4,8% mistök, en strax við fyrsta drykkinn hoppuðu mistökin upp í 19,8% og síðan enn hærra, ef áfengismagnið var meira. Þar að auki tók það tilraunardýrin lengri tíma að komast að réttri niðurstöðu eftir að hafa innbyrt áfengi. Það þýðir, að fólk, sem hefur aðeins smakkað það, er viðbragðsseinna í óvæntri atburðarás, t.d. þegar barn hleypur fyrir bílinn. Fólki er hvorki treystandi fyrir bíl né mikilvægum ákvörðunum, þótt það hafi aðeins drukkið eitt rauðvínsglas.

Heimskur og hættulegur

Punktar

Óneitanlega kemur á óvart, að Landsvirkjun og verkfræðistofa hennar skuli falsa niðurstöður vísindamanna til að reyna að gera lítið úr umhverfisspjöllum uppistöðulóns við Norðlingaöldu. Falsanir umboðsmanna Landsvirkjunar hafa verið staðfestar í tölvupósti þeirra. Þær voru svo klunnalegar og illa gerðar, að undrun sætir. Mér til efs, að menn kæmust upp með nota skærin á slíkan hátt í nokkru öðru vestrænu ríki. Hins vegar kemur ekki á óvart, að virkjanaráðherrann skuli saka vísindamennina um að hafa látið skoðanir sínar lita niðurstöðurnar og að það hafi neytt verkfræðistofuna til að lagfæra niðurstöðurnar fyrir hönd þeirra. Við vitum af langri reynslu, að ráðherrann er bæði heimskur og hættulegur, manngerðin sem þarf til að geta fengið af sér að spilla heimsfrægum og einstæðum náttúruverðmætum Þjórsárvera.

Friedman fer á kostum

Punktar

Oft skrifar Thomas L. Friedman frábærar greinar í New York Times. Í dag byrjar hann með því að segja frá fagnaðarlátunum í Berlín um daginn, þegar Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti var þar í heimsókn. Ef George W. Bush forseti hefði verið þar, hefði táragas ekki dugað gegn mótmælunum. Friedman ber saman forsetana Clinton, Reagan, Kennedy og Roosevelt annars vegar, bjartsýna menn, sem kunnu að samræma mildi og hörku, og hins vegar George W. Bush og gengið hans, Dick Cheney, Donald Rumsfeld og Condolezza Rice, svartsýnt fólk, sem trúir á hörkuna eina. Hinir fyrrnefndu forsetar gátu fengið Evrópu og raunar umheiminn allan til að fylgja forustu sinni, en það getur síðarnefndi hópurinn alls ekki og mun aldrei geta. Það verða örlög Bush og Cheney, Rumsfeld og Rice að vera hötuð og fyrirlitin. Það er svoleiðis fólk, sem Osama bin Laden vill hafa til að geta ræktað jarðveg hryðjuverka.

Skurðlæknar misþyrma táningum

Punktar

Í Bandaríkjunum eru skurðlæknar farnir að skera upp táninga, sem þjást af ofáti. Maginn, sem venjulega er á stærð við fótbolta, er minnkaður niður í stærð á við egg. Meltingarvegurinn er styttur með því að tengja framhjá hluta þarmanna. Þessar skelfilegu aðgerðir eru rökstuddar með því, að allar tilraunir til megrunar hafi reynzt árangurslausar, sjá grein eftir Lindsey Tanner hjá Associated Press. Aðrir læknar segja þetta siðlaust, enda sé um að ræða menningarsjúkdóm, sem áður var ekki vandamál. Fyrst eru börnin vanin á ruslfæði, sem ruglar taugaboð heilans og gerir þau að hömlulausum matarfíklum. Síðan er meltingarvegi þeirra gerbreytt með skurðaðgerð, þ.e. ráðist er á afleiðingarnar, en ekki orsökina. Síðan verða börnin að lifa ævilangt við fylgifiska breytingarinnar. Hvernig væri að fara heldur að ráðast gegn orsökinni sjálfri í fyrsta lagi og í öðru lagi gegn ofurvaldi fíkninnar, sem gerir táningum sem öðrum ókleift að fylgja megrunarkúrum?

Bush fékk umboð til vandræða

Punktar

Kosningarnar í Bandaríkjunum treysta stöðu George W. Bush Bandaríkjaforseta. Þær færa honum óbeint umboð til óbreyttrar stefnu. Fyrir tveimur árum varð hann forseti sem maður friðar og samúðar, maður miðjunnar, jafnvel umhverfisins. Í embætti fór hann hins vegar þveröfuga leið. Hann varð stríðsherra og róttækur hagsmunagæzlumaður þeirra, sem bezt mega sín og harðast rústa umhverfinu. Í stað þess að refsa honum fyrir að svíkja yfirlýsta stefnu sína, hefur bandaríska þjóðin nú fært honum fleiri bandamenn á þingi en áður. Hann getur litið á það sem stuðning við raunverulega stefnu sína, aukna stéttaskiptingu heima fyrir, vaxandi umhverfisspjöll og styrjaldir í útlöndum. Mest er tjón hins vestræna fjölþjóðasamfélags, er hefur byggt á auknu samráði og reglugerðum, sem ríkisstjórn Bush hefur meira eða minna hafnað holt og bolt. Kosningarnar hafa veitt Bush umboð til að verða til vaxandi vandræða í umheiminum.

Olía er uppspretta ófriðar

Punktar

Olía er farin að stjórna gangi heimsmálanna og mun gera það í vaxandi mæli á næstu árum að mati George Monbiot, dálkahöfundar hjá Guardian. Hann telur utanríkisstefnu Bandaríkjanna byggjast á sókninni í aðgang að nýjum og nýjum olíulindum í útlöndum. Stríðið við Afganistan leiddi til samstarfs Bandaríkjanna við nýja leppríkið sitt í Afganistan og svokölluð -stan ríki norðan þess um nýtingu olíulinda. Fyrirhugað stríð við Írak mun leiða til annars bandarísks leppríkis, sem býr yfir feiknarlegum olíulindum. Enda eru landflótta stjórnarandstæðingar nú þegar komnir í viðræður við þrjú stærstu olíufélögin í Bandaríkjunum. Eftir Írak má Sádi-Arabía fara að vara sig. “The American Way of Life” krefst ótakmarkaðs aðgangs að ódýru benzíni og mun í náinni framtíð magna ófrið milli Bandaríkjanna annars vegar og afgangsins af heiminum hins vegar.

Litli maðurinn gegn skrímslinu

Punktar

Notaleg grein um baráttu litla mannsins gegn skrímslinu birtist í International Herald Tribune í dag. Þar segir Ariana Eunjung Cha frá baráttu Vazquez de Miguel, menntaráðherrans í Extramadura, afskekktasta héraðs Spánar, gegn einokunarveldi Microsoft. Hann lét verja 180 þúsund evrum til að setja saman 150.000 eintök af geisladiski með ókeypis forritum, sem nota ókeypis stýrikerfið Linux í stað Windows. Þessi diskur er kominn á leið um heiminn. Efnahagsráðuneyti Evrópusambandsins er farið að mæla með notkun Linux. Kína, Indland og mörg önnur þriðja heims ríki eru komin á sömu slóð. Í 24 löndum eru stjórnvöld þegar farin að mæla með notkun Linux. Þetta er hugljúf saga, sem aldrei hefði getað gerzt hjá hinni þrælslunduðu þjóð norður í höfum, þar sem Björn Bjarnason, þáverandi menntaráðherra, lét borga Microsoft stórfé fyrir að láta svo lítið að íslenzka Windows, þegar Makkinn fékkst þýddur ókeypis.

Korpóratífur stjórnmálaflokkur

Punktar

Í reynd er Sjálfstæðisflokkurinn hlynntur umhverfisspjöllum, sbr. Kárahnjúka og Þjórsárver. Í reynd er Sjálfstæðisflokkurinn hlynntur ókeypis einkaleyfum og ríkisábyrgðum til sérvalinna aðila, sbr. deCode og Landsvirkjun. Í reynd er Sjálfstæðisflokkurinn hlynntur framsali auðlinda til fámenns hóps fyrir ekkert eða sem allra minnst afgjald, sbr. fiskveiðistefnuna og deCode. Í reynd er Sjálfstæðisflokkurinn andvígur framförum, sbr. landbúnaðarstefnuna og Evrópustefnuna. Hvernig stendur á, að frjálshyggjumenn kjósa flokk, sem í eðli sínu er korpóratífur íhaldsflokkur að hætti fasistaflokks Mussolinis á Ítalíu? Hvernig stendur á, að almenningur kýs flokk, sem hefur að forgangsmáli að gæta hagsmuna þeirra, sem lengst hafa verið bezt settir? Eru kjósendur unnvörpum haldnir sjálfspyndingarhvöt?

Margir mismunandi heimar

Punktar

Max Tegmark, stjörnufræðingur við Pennsylvania-háskóla, telur, að til séu að minnsta kosti fjórar tegundir heima, sem sumir hafi annars konar víddir en við þekkjum. Hann telur þetta rökrétta afleiðingu kenningar, sem margir stjörnufræðingar aðhyllast og Alan Guth við Massachusetts-tæknistofnunina setti fram árið 1980 um, að heimurinn væri að þenjast út. Dennis Overby hjá New York Times veltir vöngum yfir ýmsum skrautlegum útfærslum útþenslukenningarinnar, sem fremstu stjörnufræðingar heimsins velta fyrir sér um þessar mundir, svo sem: Eru víddirnar 10 eða 25? Fæðast nýir heimar í svörtu holunum? Rekast heimarnir á í 5. víddinni? Er hádegisverðurinn í rauninni ókeypis? Þetta eru vísindi 21. aldar, segir Martin Rees, stjörnufræðingur við Cambridge-háskóla.