Aukið ofbeldi Ísraels

Punktar

Iain Hook, brezkur yfirmaður við hjálparstarf Sameinuðu þjóðanna í Palestínu, var í gær skotinn til bana með kúlu af því tagi, sem hermenn Ísraels nota. Síðan töfðu hermenn Ísraels sjúkrabíl á leiðinni til hans. Bretinn lézt síðan í sjúkrabílnum á leiðinni í sjúkrahús. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og brezka ríkisstjórnin mótmæltu þessu í gærkvöldi og heimtuðu rækilega rannsókn. Ofbeldi Ísraelshers fer nú ört vaxandi í skjóli Bandaríkjanna og er farið að ná til erlendra hjálparmanna og blaðamanna. Um daginn sátu hermenn Ísraels fyrir 15 blaðamönnum og réðust á þá með barsmíðum. Tryllingur þessa ofbeldisríkis nýtur eindregins stuðnings Bandaríkjanna og er ein helzta undirrót örvæntingarfulls haturs múslima á Vesturlöndum. Bandaríkin gætu stöðvað ofbeldið með því að skrúfa fyrir peningastrauminn til Ísraels. Í staðinn eru þau að undirbúa árás á Írak, m.a. með stuðningi Íslands.

Barnslega upphafinn Moggi

Punktar

Í fréttum vestrænna dagblaða í morgun af fundi Atlantshafsbandalagsins í Prag var fyrst og fremst slegið upp niðurstöðu Íraksmálsins, sem beðið hafði verið með óþreyju. Lítið er fjallað um innri mál bandalagsins og stækkun þess til austurs, enda var búið að ákveða allt slíkt löngu fyrir fundinn. Almennt eru blöðin sammála um, að bandalagið hafi lýst stuðningi við ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og forðast að lýsa yfir stuðningi við hernaðaraðgerðir á þessu stigi málsins. >George Papandreou, utanríkisráðherra Grikklands, sagði í viðtali við Guardian, að ályktunin hafi í meðferð fundarins að frumkvæði Frakka og Þjóðverja verið færð nær ályktun öryggisráðsins en uppkastið gerði ráð fyrir. Barnslega upphafinn Moggi sker sig hins vegar úr með fyrirsögnunum “Mikill sigur fyrir NATO” og “Stærra sterkara sneggra bandalag”.

Lyfjamenn unnu kosningarnar

Punktar

Fulltrúar lyfjaframleiðenda í Bandaríkjunum héldu um daginn fund í Westfield í Virginíu til að samræma pólitískar aðgerðir sínar í kjölfar þingkosninganna, þar sem þeir höfðu einkum stutt frambjóðendur repúblikana. Fyrirtækin borguðu þrjá milljarða íslenzkra króna í kosningabaráttuna og hafa á sex árum borgað alls 50 milljarða króna í pólitíska baráttu. Þau hafa 600 manna þrýstihóp á sínum vegum í Washington, þar af 24 fyrrverandi þingmenn, samkvæmt upplýsingum Public Citizen, neytendasamtaka Ralph Nader. Eftir sigur repúblikana vænta þau hagstæðra vinda í Washington. Þau vilja hvorki takmarkanir á lyfjaverði né að gengið sé framhjá dýrum sérheitalyfjum. Þau vilja ekki takmarkanir á lyfjaauglýsingum í fjölmiðlum. Robert Pear og Richard A. Oppel segja í New York Times í dag frá þessu dæmi um, hvernig lýðræði breytist í auðræði.

Evrópu leiðist Ísland

Punktar

Nýjar kröfur Evrópusambandsins um margfaldaðar greiðslur Íslands í þróunarsjóð þess og um afskipti sambandsins af íslenzkum sjávarútvegi sýna breytt viðhorf bandalagsins til okkar. Það hefur meira en nóg að gera við að reyna að höndla metnaðarfull áform á öðrum sviðum, svo sem sameinaðan gjaldmiðil, stækkun til austurs og friðargæzlu á Balkanskaga. Um leið er það að missa áhuga á Evrópska efnahagssvæðinu, það er að segja Noregi og Íslandi. Með því að setja fram ofurkröfur án þess að bjóða aðild er sambandið að segja: “Við nennum ekki lengur að tala við ykkur”. Ekki bætir úr skák, að í höfuðstöðvunum í Brüssel nýtur forsætisráðherra okkar lítils trausts, enda er hann talinn vera hatursmaður sambandsins.

Auðmýking á skjánum

Punktar

Gamaldags er orðið að sýna auðmýkingu ófróðra í spurningaþáttum sjónvarps. Í Bandaríkjunum og víðar keppast sjónvarpsstöðvar við að ganga sem lengst í að smána fólk, sem þráir að öðlast kortérs frægð á því að láta lítillækka sig. Enginn skortur er á þessum ódýra vinnukrafti. Alessandra Stanley skrifar ágæta grein um þetta í New York Times í dag. Þátttakendur eru látnir þjást á ýmsan hátt. Í “Örmagna” er þeim haldið vakandi dægrum saman. Í “Erfðaskránni” berjast þeir um arf látins ættingja. Í “Cathouse” eru þeir látnir fara á hóruhús í Nevada. Því lengra, sem gengið er í að niðurlægja fólk á skjánum, þeim mun meira eykst áhorfið. Það er að verða sameiningartákn sjónvarpsstöðva, að áhorfendur þrá að sjá auðmýkingu í skjánum.

Mundi Jesús keyra Hummer?

Punktar

Ýmis bandarísk trúfélög, þar á meðal lúterskirkjan og biskupakirkjan, hafa stofnað umhverfisráð, sem hefur sett mengun bílaumferðar á oddinn. Kjörorðið er: “Hvað mundi Jesús keyra?”. Það hefur sent forstjórum bílaframlenda bréf og hvatt þá til að bæta orkunýtingu bílanna. Forstöðumaður ráðsins segir þetta um auglýsingar GM á eldsneytisfrekum bílum: “Chevrolet hvetur fólk til að kaupa bíla, sem eitra sköpunarverk guðs.” Ráðið mun senda áróðursgögn til 100.000 safnaða í Bandaríkjunum og hvetja þá til að taka þátt í átakinu. Gert er ráð fyrir, að víða í Bandaríkjunum verði á næstunni messað gegn orkusóun bíla. Hægri sinnaðir trúmenn í Christian Coalition eru ekki sáttir við herferðina, enda er hún á skjön við stefnu Bandaríkjaforseta. Við spurningunni hér að ofan sendi einn þeirra inn þetta svar: “Jesús mundi keyra Hummer” Frá þessu skemmtilega máli er segir Danny Hakim í New York Times í dag.

Einokun og ostaskerar

Punktar

Einhvern tíma í sumar las ég texta eftir mann, sem hafði látið sér detta í hug þá frumlegu og sjálfsögðu hugsun, að skornu oststykkin frá Osta- og smjörsölunni þyrftu að passa í skurðbreiddir algengra ostaskera. Hann hafði rætt hugmyndina við ráðamann í einokuninni og sá hefði skilið, að þetta væri auðvitað til þæginda. Enginn hafði fundið upp á þessu snjallræði áður, líklega af því að fáum hefur komið til hugar, að unnt yrði að hnika einokunarstofnun á grundvelli þeirrar röksemdar, að breytingin yrði neytendum til hægðarauka. Auðvitað hefur ekkert gerzt í málinu síðan.

Togað til í túlkun

Punktar

Í svart-hvítum kaldastríðsheimi Björns Bjarnasonar er hvergi rúm fyrir efasemdir. Það gerir erlendar fréttaskýringar hans gagnslitlar á köflum. Niðurstaða Íraksmálsins í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna var ekki sigur fyrir Bandaríkin eins og Björn heldur fram. Þar varð málamiðlun milli sjónarmiða. Frakkar og Rússar fengu því framgengt, að ekki yrði ráðist á Írak fyrr en eftir nýja umræðu og nýja niðurstöðu í öryggisráðinu um, hvort Írak hafi rofið skilmála fyrri niðurstöðunnar. Það þýðir hvorki fyrir Bandaríkin né Björn að toga þetta til í túlkun. Sjáið t.d. grein eftir Colum Lynch í Washington Post í gær. Hins vegar má líta á þetta sem hálfan sigur Bandaríkjanna, því að líklegt má telja, að Saddam Hussein reyni að bregða fæti fyrir eftirlitið, svo að öryggisráðið muni um síðir samþykkja hina langþráðu árás Bandaríkjanna. Um það fjallar grein eftir Hugo Young í Guardian í dag.

Erfðabreytt skal það vera

Punktar

Eins og Ísland, en öfugt við önnur ríki, greiða Bandaríkin ekki þróunaraðstoð sína í peningum, heldur með eigin vörum. Eins og á Íslandi er bandarísk þróunaraðstoð fyrst og fremst aðstoð við eigin landbúnað. En Bandaríkjamenn ganga lengra en við. Þeir nota þessa aðstoð til eindregins stuðnings við Monsanto og önnur fyrirtæki, sem framleiða erfðabreytt útsæði. Evrópa bannar slíkt útsæði og þróunarríkin hafa illan bifur á því, enda er til meira en nóg af venjulegu útsæði í heiminum. George Monbiot segir í morgun í Guardian frá þessu og skipulögðum vinnubrögðum Monsanto bak við tjöldin við að rægja vísindamenn og aðra, sem hafa gagnrýnt framleiðslu fyrirtækisins og tilraunir þess til að byggja upp einokun í skjóli einkaleyfa.

Tyrkir eru Grikkir

Punktar

Tónlistin og dansinn eru eins, maturinn og geitaræktin eru eins. Af ferðum mínum um Grikkland og Tyrkland sannfærðist ég fyrir löngu um, að þar byggju náskyldar þjóðir, þótt Grikkir séu frjálslegri í fasi en Tyrkir. Nú er staðfestingin komin. Á þingi gena- og fornleifafræðinga á Long Island fyrir helgina sýndi dr. Peter Underhill frá Stanford-háskóla, hvernig gena-sagnfræðingar geta rakið Y-litningalínur í rás aldanna. Þeir hafa m.a. fundið, að Tyrkir, sem réðust inn í hina grísku Anatólíu fyrir ellefu öldum og hnekktu síðar Miklagarði, hafa lítið skilið eftir sig í genum nútímafólks á svæðinu. Það var aðeins 40.000 manna her, sem tók völdin á svæði, þar sem bjuggu 12 milljónir manna á rómverskum tíma. Tyrkir nútímans eru afkomendur Grikkja, Galata og annarra Anatólíumanna fornaldar, hafa bara skipt um trú og tal.

Vefþreyta þjóðmálaumræðu

Punktar

Vefþreyta er að magnast í þjóðmálaumræðu á Íslandi. Silfur Egils á vefnum hefur ekki hreyfzt síðan í sumar og mikið af forsíðuefni Pressunnar hefur verið uppi vikum og sumt mánuðum saman. Góðir höfundar eru hættir að láta í sér heyra. Dagleg breyting er enn á forsíðu Deiglunnar, en hreyfingin er minni en áður og efnið flokksvænna og leiðinlegra, hæfilegt til skoðunar einu sinni í viku. Kreml og Múrinn og VefÞjóðviljinn hafa verið svo daufar slóðir, að ég nenni að fletta þeim upp aðra hverja viku. Töluverð umræða er hins vegar á nafnlausum spjallrásum, en hún er eðli málsins samkvæmt ekki á háu plani og vekur aðeins geispa. Veit einhver af íslenzkri slóð, sem vert er að skoða daglega? Sendu póst á jonas@hestur.is.

Tékkar siðvæða Nató

Punktar

Tékkar neituðu í gær að veita hinum geðveika einræðisherra Hvíta-Rússlands, Alexander Lukashenko, vegabréfsáritun til að mæta á stórfund Atlantshafsbandalagsins í Prag, þar sem sjö fyrrum austantjaldsríki fá formlega aðild að bandalaginu. Jafnframt var látið að því liggja, að einræðisherrann í Úkraínu, Leonid Kuchma, væri ekki velkominn, ef hann reyndi að komast á fundinn. Með þessu hindra Tékkar, að einræðisherrarnir geti baðað sig í vestrænu sólskini heima fyrir og styrkt stöðu sína þar til frekari glæpa. Um leið fær Vladimir Pútín Rússlandsforseti óbeint á kjaftinn fyrir að halda þessum ógeðfelldu brotamönnum fjárhagslega á floti í leppríkjunum til að þjóna rússneskum stórveldisdraumum. Gott er að hafa fengið Tékkland í bandalagið til að hafa vit fyrir því og siðvæða það.

Góð og vond efnavopn

Punktar

Þótt Bandaríkjastjórn fjölyrði um að mistekizt hafi eftirlit með efnavopnaframleiðslu Íraks, er ekki síður athyglisvert, að í heilt ár hefur Bandaríkjastjórn barizt gegn, að hertar yrðu alþjóðareglur um bann við efnavopnaframleiðslu, þar á meðal að heimilað yrði að senda eftirlitsmenn á staðinn. Gildandi alþjóðareglur gera ekki ráð fyrir neinu eftirliti. Bandaríkjastjórn hefur hingað til viljað hafa það svo áfram. Samkvæmt frétt Reuters var það fyrst í gær, að samkomulag náðist milli Bandaríkjanna annars vegar og 145 ríkja heims hins vegar um að halda áfram að ræða hugsanlegt eftirlit með framleiðslu og geymslu efnavopna. Ástæðan fyrir tregðu Bandaríkjastjórnar er ótti hennar við, að menn fari að hnýsast í hennar eigin efnavopn.

Fyrst Ísrael, svo Írak

Punktar

Paul Foot minnir á það í grein í Guardian, að fleiri en Saddam Hussein hafa hunzað einróma niðurstöður öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Ísrael hefur í 35 látið hjá líða að verða við einróma kröfu alþjóðasamfélagsins um að hverfa með her sinn af hernumdum svæðum Palestínu. George W. Bush Bandaríkjaforseti spurði á allsherjarþinginu í haust: “Á að fara eftir niðurstöðum öryggisráðsins eða hunza þau án afleiðinga?” Hann var að tala um Írak, sem þá hafði ögrað öryggisráðinu í 10 ár, en sama spurning hefur átt við Ísrael í 35 ár. Skjólstæðingar Bandaríkjanna sleppa við refsingar, en vei hinum, sem sitja á olíu, er Bandaríkin girnast.

Barátta Bush gegn umhverfinu

Punktar

Gegn eindreginni andstöðu Bandaríkjanna hefur alþjóðasamfélagið samþykkt að herða eftirlit með ólöglegu skógarhöggi og verzlun með mahóní-við, sem hefur verið notaður svo grimmt til húsgagna og innréttinga, að honum hefur verið útrýmt víðast annars staðar en í Amazon-regnskóginum. Þetta gerðist á fundi 159 aðildarríkja Sáttmálans um verzlun og útrýmingu (CITES) >í Santiago í gær. Í þessu sem öðrum alþjóðamálum hafa Bandaríkin í auknum mæli einangrazt í harðri hagsmunagæzlu fyrir þá, sem græða á umhverfisspjöllum. Sama dag sagði Robert Zoellick, viðskiptafulltrúi Bandaríkjastjórnar, í New York að Evrópusambandið væri að spilla heimsviðskiptunum með aukinni áherzlu á umhverfismál. Við sama tækifæri sagði Pascal Lamy, viðskiptafulltrúi Evrópu, að umhverfi og verzlun eigi að vera jafnþung á metunum.