Bréf hryðjuverkamanns

Punktar

Ekkert bandarískt dagblað hefur enn þorað að birta “Bréf til Ameríku” eftir Osama bin Laden, þar sem hann rekur orsakir hryðjuverkanna eins og hann sér þær og setur fram kröfur um breytta stefnu Bandaríkjanna í málefnum íslamskra þjóða. Hræðslan stafar af ótta við einlitt almenningsálit, sem telur slíka birtingu vera eins konar landráð. Þess vegna vita Bandaríkjamenn ekki, hvaða texta er verið að prédika í þúsundum moska víðs vegar um heim um þessar mundir. Þar sem okkur Vesturlandabúum er nauðsynlegt að skilja hugarfarsvélina, sem knýr öldu hryðjuverka gegn Vesturlöndum, hefur brezka tímaritið >Observer birt enska þýðingu bréfsins í heild. Það er einkar fróðleg lesning.

Stríðið er að tapast

Punktar

Ein bezta grein, sem birzt hefur um gengi baráttunnar gegn hryðjuverkum, er grein Peter Beaumont, utanríkisritstjóra Observer, á sunnudaginn. Hann telur, að al Kaída sé ekki félag, heldur hugmyndfræði, sem muni lifa, þótt Osama bin Laden og helztu ráðgjafar hans verði handteknir eða drepnir. Hann telur, að þessi hugmyndafræði sé að ná tökum á heimi múslima og muni hefta stuðning ríkja í Miðausturlöndum við væntanlega árás á Írak. Hann telur, að al Kaída sé að takast að draga úr bandarískum áhrifum víðs vegar um heim. Með árásunum í Mombasa hafi hreyfingunni tekizt að þjappa Bandaríkjunum og Ísrael saman og egna Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, til frekari óhæfuverka gegn Palestínu, sem muni enn magna stuðning almennings í löndum múslima við hugmyndafræði al Kaída. Við erum að tapa stríðinu, segir Beaumont í rökfastri grein sinni.

Ferðaheftur Kissinger

Punktar

Einu sinni var Henry Kissinger valdamesti maður heims, framlengdi Víetnam-stríðið um nokkur ár, stóð fyrir blóðugu valdaráni í Chile og æsti upp illar hvatir Nixons Bandaríkjaforseta. Nú þarf hann lögfræðiaðstoð til að ákveða, til hvaða landa hann getur farið. Í fyrra bjargaði hann sér á flótta frá París, þegar honum var afhent stefna á Ritz-hóteli. Glæpir hans gegn mannkyni voru teknir upp af brezkum dómstóli fyrr á þessu ári. Hann er eftirlýstur í Chile og Argentínu og hann varð að hætta við ferð til Brazilíu undir lok síðasta árs. Nýlega opnuð stjórnarskjöl í Washington sýna, að endurminningar hans eru fullar af lygum. Því hæfir kjaftur skel, þegar George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur falið honum að rannsaka, hvernig leyniþjónustum ríkisins mistókst að hindra hryðjuverkin 11. september í fyrra. Frá þessu segja Maureen Dowd í New York Times og Christopher Hitchens í vefritinu Slate.

Þjóðtungan eflist í Lúxemborg

Punktar

Þegar ég kom fyrst til Lúxemborgar fyrir fjórum áratugum, var mér sagt, að heimamenn töluðu lúxemborgsku heima hjá sér, en frönsku og þýzku í vinnunni og læsu blöðin á þýzku. Ég vissi ekki, að þá þegar var farið að gefa út fyrstu bækurnar á lúxemborgsku. Nú eru gefnir út nokkrir tugir slíkra bóka árlega og lúxemborgska orðin ríkistunga, sem notuð er í þinginu og víða í atvinnulífinu. Engar málfræðibækur eru enn til, en verið er að undirbúa nýja útgáfu orðabókar eftir fimm áratuga hlé. Gamla þjóðtungan hefur endurvakizt, þótt einn af hverjum þremur íbúum Lúxemborgar sé nýbúi, landið sé fjölþjóðleg bankaparadís, dvergríki milli stórvelda og hafi gengið í Evrópusambandið í árdaga þess. Steven Gray segir frá þessu í Washington Post í dag.

Göngumenn granda flugvélum

Punktar

Eftir misheppnaða eldflaugaárás á farþegavél við Mombasa-flugvöll í Kenía, velta erlend dagblöð fyrir sér, hvort eldflaugar, sem gangandi menn skjóta af öxl sér, verði einkennisvopn hryðjuverkamanna gegn Vesturlöndum. Talið er, að þar hafi verið notuð SAM-7, sem mikið er til af á svarta markaðnum. Stinger-flaugarnar eru hættulegri, mikið notaðar af stríðsherrum í Afganistan gegn flugher Sovétríkjanna á sínum tíma. 29 dæmi eru um, að axlarflaugar gangandi manna hafi grandað flugvélum í farþegaflugi. Farþegavélar vestrænna flugfélaga fara um allan heim og eru auðveld skotmörk, einkum í nágrenni flugvalla. Í gær skrifuðu um þetta David Ignatius í International Herald Tribune og Thom Shanker í New York Times. Skynsamlegt er fyrir Íslendinga að fljúga sem minnst á næstunni, einkum ekki til þriðja heimsins og alls ekki í vélum bandarískra eða ísraelskra flugfélaga

Rumsfeld þekkir Saddam vel

Punktar

Bandaríkjamenn vissu í síðasta lagi í október 1983, að Saddam Hussein notaði sinnepsgas í styrjöldinni milli Íraks og Írans. Í desember sama ár kom sérlegur sendiherra þáverandi Bandaríkjaforseta til Íraks og ræddi við Saddam Hussein einræðisherra. Þessi sendiherra var Donald Rumsfeld, sem nú er stríðsmálaráðherra og einn ákafasti talsmaður árásar á Írak. Í bandarískum ríkisskjölum, sem nýlega voru opnuð, kemur fram, að Rumsfeld ræddi ekki notkun eiturgassins við Saddam, sem túlkaði það sem frjálsar hendur. Í febrúar 1984 fór Saddam að nota sinnepsgas og taugagas í stórum stíl og í nóvember tóku Bandaríkin upp formlegt stjórnmálasamband við hann. Í marz 1988 eyddi hann með gasi heilum bæ Kúrda, Halabja, í norðurhluta landsins. Saddam Hussein var miklu hættulegri umhverfi sínu í þá daga, þegar hann var skjólstæðingur Bandaríkjanna. Nú hefur hann hins vegar verið til friðs í rúman áratug. Frá þessu segir Joost R. Hiltermann í International Herald Tribune.

Þeir hata ferðamenn

Punktar

Í Guardian í dag er rækilega skoðuð ein forsendan fyrir því, að ástæða er fyrir Íslendinga að hugsa sig um tvisvar áður en þeir fara í ferðalög til útlanda. Að baki hótelsprengingarinnar í Mombasa í Kenya í gær er umbylt hugarfar staðarmanna. Þar sem áður ríkti friður og sólskin, ríkir nú svartnætti haturs á Vesturlandabúum almennt, ekki bara Bandaríkjamönnum. Þessari breytingu er vel lýst í blaðinu. Íslendingar á ferðalögum geta lent í að þurfa að borga fyrir ofbeldi hins illa öxuls Bandaríkjanna og Ísraels í Palestínu og fyrir leit hrokafullra bandarískra hermanna á sólarströndum að drykkjuskap, vændi og fjárhættuspili, sem grefur undan menningu og hefðum heimamanna. Fyrst var það Balí og nú er það Mombasa. Full ástæða er fyrir íslenzk stjórnvöld að leggja áherzlu á að forðast aðild að yfirgangi og ofbeldi Bandaríkjanna í þriðja heiminum.

Afgirt hverfi eru vinsæl

Punktar

Bretar hafa áhyggjur af, að afgirtum og vöktuðum íbúðarhverfum fjölgar þar í landi. Tveir þriðju ungs fólks vilja gjarna búa í slíkum hverfum, sem hafa orðið vinsæl í Bandaríkjunum og þriðja heiminum vegna ótta manna við glæpi í opnum hverfum. Úr þessu verður vítahringur. Búseta í lokuðum hverfum dregur úr samfélagslegum áhuga hina betur stæðu og pólitískum stuðningi þeirra við aðgerðir til að bæta lífsskilyrði í opnum hverfum. Aukinn áhugi á afgirtum og vöktuðum hverfum er dæmi um aukið bil milli ríkra og fátækara og aukna stéttaskiptingu. Sennilega eiga lokuð hverfi langt í land hér á landi, þótt stéttaskipting vaxi hröðum skrefum. Um þetta mál var skrifað í Guardian í gær og Economist í dag.

Vinsælum varpað á dyr

Punktar

Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi óttuðust, að prófkjör mundi leiða til þingmennsku hins sívinsæla Árna Johnsens á vegum flokksins og vildu forðast það með uppstillingu listans í þröngum hópi. Flokksforustan í Valhöll vildi einnig nota tækifæri uppstillingar til að losna við næstum því eins vinsælan Kristján Pálsson, sem hefur einstöku sinnum rambað út af flokkslínunni, til dæmis í auðlindamálum sjávarútvegs. Að óbreyttu verður niðurstaðan, að í þessu kjördæmi býður flokkurinn fram lista daufra frambjóðenda, sem ekki gætu sýnt sig og sannað í prófkjöri. Þetta minnir okkur á, að prófkjör eru oftast nauðsynleg í pólitík, þegar margir eru um hituna, þótt þau séu stundum til kostnaðar og vandræða, þegar menn eru í stórum dráttum sáttir við lítt eða ekki breyttan lista frá síðustu kosningum. Þetta sýnir líka flokk, sem hikar ekki við að varpa vinælum þingmanni á dyr, ef Davíð heimtar það.

Bush styður tóbakið

Punktar

Ríkisstjórn Bush Bandaríkjaforseta styður tóbaksiðnaðinn eindregið, enda hafa tóbaksframleiðendur tekið mikinn þátt í að fjármagna kosningabaráttu flokks forsetans. Bush hefur að undanförnu reynt að bregða fæti fyrir harðari aðgerðir Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar gegn tóbaksnotkun. Hann hefur einnig reynt að þvælast fyrir málaferlum tíu Evrópuríkja gegn R.J. Reynolds Tobacco Holdings fyri samsæri um smygl, falsanir á umbúðum og samstarf við mafíuna í Evrópu um peningaþvott. Í leiðara í dag ræðst Washington Post harkalega á þessa afstöðu Bush Bandaríkjaforseta. Um þessar mundir deyja 4.900.000 manns á ári af tóbaksnotkun. Búist er við, að sú tala tvölfaldist á tveimur áratugum. Hyggjast tóbaksframleiðendur ná þeim árangri með því að ánetja börn í þriðja heiminum og gera þau að tóbaksfíklum. Bush Bandaríkjaforseti styður þetta ferli eindregið.

Kárahnjúkar hækka rafmagnsverð

Punktar

Við borgum hærri rafmagnsreikninga en Danir, þótt vatnsaflið sé orkugjafi, sem fræðilega séð eigi að vera ódýrari en orkugjafar rafmagnsins í Danmörku. Þessi þverstæða stafar af, að í rafmagnsverðinu greiðum við niður orku til stóriðju, sem lengi hefur verið gæludýr stjórnvalda. Rafmagnsreikningar okkar munu svo hækka töluvert til viðbótar, þegar við förum að greiða niður orkuna frá Kárahnjúkavirkjun, sem er dýrasta finnanlega aðferð til að framleiða atvinnutækifæri í þágu byggðastefnu. Þorsteinn Siglaugsson hagfræðingur hefur nú endurreiknað tap þeirrar virkjunar upp á 21-53 milljarða króna. Sumt af þeim kostnaði lendir á herðum greiðenda rafmagnsreikninga og sumt á herðum skattgreiðenda. Niðurstaðan verður sú gamalkunna, að kjósendur borga sjálfir sína heimsku.

Bush er ekki bjáni

Punktar

Aðalumræðuefnið vestan hafs þessa dagana er, að Françoise Ducros, blaðafulltrúi Jean Chrétien, forsætisráðherra Kanada, kallaði George Bush Bandaríkjaforseta bjána í áheyrn blaðamanna á fundi Atlantshafsbandalagsins í Prag. En Bush er enginn bjáni, þótt hann eigi erfitt með að tjá sig. Þessi róttæki athafnamaður á hægri kanti stjórnmálanna tók bandarísku þjóðina í nefið í kosningunum í haust. Í stað hefðbundinna ríkisstjórna í þágu miðstéttanna er komin ríkisstjórn í þágu auðmanna. Dæmi um það er heilbrigðis- og tryggingakerfi Bandaríkjanna, sem Bush er markvisst að eyðileggja. Venjulegt fólk er að hætta að hafa efni á heilbrigðisþjónustu í ríkasta landi heims. John M. Broder, Robert Pear, Milt Freudenheim og Daniel Altman skrifa langa grein um það í >New York Times í dag. Bush er í rauninni snillingur, því að Bandaríkjamenn hrópa húrra, þegar hann sparkar í þá.

Trúin á töfralyf

Punktar

Ein nýjasta dellan í heimi heilsubótarefna er inntaka svokallaðra andoxunarefna í miklu magni að hætti metsölubókarinnar Your Miracle Brain eftir Jean Carper. Þetta getur verið beinlínis hættulegt, því efnin, sem andoxunin vinnur gegn, eru nauðsynleg. Yfirleitt má gera ráð fyrir, að fólk, sem borðar hollan mat, þurfi engin fæðubótarefni og eigi ekki að trufla líkamann með ofurefnum, hvort sem þau eru í drykkjum eða í töfluformi. Gömul og lífseig della er, að við notum aðeins 10% heilans og getum náð betri nýtingu með því að kaupa einhver galdralyf. Við þráum einfaldar lausnir og trúum því á töfralyf. Í Guardian í morgun skrifar Christopher Wanjek um gagnslausar og hættulegar heilsudellur af ýmsu tagi.

Samstarf útlagaríkja

Punktar

Í New York Times og á forsíðu International Herald Tribune í dag er grein eftir David E. Sanger um samstarf Pakistans og Norður-Kóreu um þróun kjarnavopna. Þar kemur fram, að bandaríska leyniþjónustan CIA náði í júlí sl. myndum af Lockheed C-130 flugvél frá pakistanska hernum á flugvelli í Norður-Kóreu, þar sem hlutum í langdrægar eldflaugar var hlaðið í hana. Samkvæmt Sanger hjálpa þessi tvö útlagaríki hvort öðru við að þróa atómvopn, sem Pakistan notar til að ögra nágrannaríkinu Indlandi, þar sem pakistanski herinn stýrir hópum hryðjuverkamanna. Einræðisherrann Pervez Musharraf stýrði raunar hryðjuverkunum í Kasmír áður en hann hrifsaði völdin í Pakistan. Í skjóli hans hefur Pakistan orðið að heimsmiðstöð Al-Kaída og hryðjuverka gegn Vesturlöndum. Jafnframt er Musharraf ein helzti skjólstæðingur Bandaríkjamanna í heiminum og fékk þaðan ofangreinda Lockheed C-130 herflugvél til að berjast gegn hryðjuverkum. Það er ekki allt sem sýnist í hræsni heimsmálanna.

Hættulegur hrukkueyðir

Punktar

Komið hefur í ljós, að hættulegt er að láta sprauta hrukkueyði inn fyrir andlitshúðina, þótt Morgunblaðið hafi auglýst í löngu drottningarviðtali, að nú sé loksins hægt að fá slíkt gert hjá íslenzkum lækni. Erlend dagblöð hafa varað við aðferðinni að undanförnu. Mark Lawson skrifaði í gær í Guardian um, hvernig þetta sterka eitur, sem heitir botox, eyðir hrukkum með því að lama húðvöðvana, svo að fólk hættir að geta sýnt svipbrigði. Svokallaða botox-liðið í kvikmyndum og sjónvarpi missir að lokum vinnuna, af því að það virkar fábjánalega sviplaust á tjaldinu eða skjánum. Í sama blaði bendir Sarah Boseley á, að þar að auki séu langtímaáhrif eitursins ekki þekkt. En eitursalinn græðir á tízkufyrirbærinu, salan hefur aukizt úr 2,5 milljörðum króna áið 1993 í 43 milljarða á þessu ári.