Reykvíkingar borgi tvöfalt

Punktar

Ef Reykjavíkurborg ábyrgist að sínum hluta skuldbindingar Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar sem minnihlutaeigandi í fyrirtækinu, hengir hún Reykvíkinga framtíðarinnar á tvöfaldan klafa. Sem skattgreiðendur þurfa þeir að standa undir skuldbindingum ríkisins og sem útsvarsgreiðendur þurfa þeir að standa undir skuldbindingum borgarinnar. Þar sem Reykvíkingar eru vanir að láta pólitíkusa sparka í sig í þágu byggðastefnu, fer vel á því, að þeir fái tvöfalda refsingu fyrir dýrustu aðgerð smábyggðastefnunnar.

Fullt af fínum greinum

Punktar

Þetta er góður morgunn með kaffinu, fullt af fínum greinum í heimspressunni, allt frá grein Thomas Fuller um Evrópu, sem er að eldast inn í framtíðina, yfir í grein Nicholas Wade um þjóðflutninga yfir Indlandshaf fyrir 8000 árum. Thomas L. Friedman leggur til, að Atlantshafsbandalagið taki að sér stjórn Palestínu, meðan þar verði byggt upp eigið lýðræðisríki Palestínumanna. Julian Borger skrifar um, hvernig George W. Bush sé á báðum áttum um, hvað gera skuli í máli Íraks. Og William Pfaff segir, að Bandaríkin séu að rækta hatur múslima með því að koma sér upp herstöðvum í löndum þeirra. Allt eru þetta rökfastar og umhugsunarverðar greinar, þveröfugt við það, sem við erum vön í fjölmiðlum Íslands.

Allt í steik í Afganistan

Punktar

Þótt konur eigi betri ævi í höfuðborginni Kabúl eftir hernámið, er enn verið að brenna stúlknaskóla annars staðar í Afganistan. Hamid Karzai, leppur sigurvegarans, fer ekki spönn frá rassi án bandarískra lífvarða. Úti á landi ráða herstjórar Norðurlandabandalagsins lögum og lofum. Talibanar höfðu bannað framleiðslu eiturlyfja, en í skjóli herstjóranna er hún aftur orðin aðalatvinnuvegur landsins, Vesturlöndum til mikillar armæðu. Þótt stórfelldri uppbyggingu hafi verið lofað, sér hennar hvergi stað og >leppstjórnin á ekki fyrir launum opinberra starfsmanna. Talibanar eru aftur farnir að láta á sér kræla í skjóli vinveittra íbúa. 53 árásir voru gerðar á setulið Bandaríkjamanna í nóvember. Ef endurreisn Íraks verður á svipuðum nótum og >endurreisn Afganistans hefur verið, er ekki von á góðu.

Nærri allir vilja Kyoto

Punktar

Með yfirgnæfandi meirihluta samþykkti þingið í >Kanada í gær Kyoto-samninginn um loftslag jarðar eftir langvinnt málþóf stuðningsmanna bílaiðnaðarins. Sama dag samþykkti >Nýja-Sjáland samninginn. Við það magnaðist gagnrýni í nágrannalandinu Ástralíu á ríkisstjórnina þar í landi fyrir að hafa einangrað landið með Bandaríkjunum í andstöðu við samning, sem nýtur alþjóðasáttar. Rússland hefur samþykkt samninginn, sem verður staðfestur í þingi landsins síðar í vetur. Evrópusambandið gekk skrefinu lengra á mánudaginn og samþykkti milliríkjaviðskipti um mengunarrétt. Slík viðskipti eru talin frábær leið til að flýta fyrir aðgerðum. Einangrun Bandaríkjanna og Ástralíu í þessu máli minnir á, að Bandaríkin hafa líka einangrast í andstöðu við Alþjóða stríðsglæpadómstólinn í Haag, í andstöðu við viðskiptabann á jarðsprengjum og í andstöðu við tugi annarra góðra sáttmála, sem alþjóðasamfélagið styður eindregið.

Betra en læknisfræðin

Punktar

Samkvæmt greinaflokki í Newsweek hefur helmingur Bandaríkjamanna gefist upp á hefðbundinni læknisfræði og leitar sér hjálpar í margs konar lækningum, sem hingað til hafa verið kallaðar hjálækningar, allt frá nálastungum yfir í smáskammtalækningar. Til að ná aftur í viðskiptavinina eru hinar hefðbundnu læknastofnanir vestra komnir á fulla ferð við að kanna, hvort ekki sé eitthvað til í þúsund ára gömlum fræðum frá fjarlægum löndum á borð við Kína. Í einni greininni, um hjartasjúkdóma, kemur fram, að ef til vill séu hvorki vestrænu fræðin né svokölluðu hjáfræðin bezt. Þar segir, að harðfitusnauð neyzla á grófu korni, grænmeti, ávöxtum og fiski minnki áhættu á hjartaslagi um 20-80% og samtals þriggja stunda göngutúrar á viku minnki áhættuna á hjartaslagi um 30-40%. Erum við ekki stundum að fara langt yfir skammt í dýrum lækningum, hefðbundnum og óhefðbundnum?

Málsvari mikilmagnans

Punktar

Óviðkunnanleg og ósæmileg er kvörtun Helga Péturssonar framsóknarmanns yfir því, að Náttúruverndarsamtök Íslands skuli geta skrapað saman frá sjálfboðaliðum í auglýsingaherferð gegn Kárahnjúkavirkjun fjárhæðum, sem nema broti af áróðurs- og ímyndarfé Landsvirkjunar á kostnað almennings. Þetta minnir á, þegar talsmenn ísraelska kjarnorkuveldisins hneyksluðust á, að rifflar höfðu fundist í húsi Palestínumanns. Þið munið sjálfsagt, hvað biblían segir um svona framgöngu.

Víkkuð Evrópa er risi

Punktar

Evrópusambandið var hernaðarlegur dvergur, áður en John Vinocur skrifaði grein sína í International Herald Tribune í morgun og verður það áfram, þegar Austur-Evrópa er komin í hlýjuna. En sambandið er efnahagsrisi og verður enn meiri efnahagsrisi við stækkunina. Þegar gamalgróinn ótti Austur-Evrópu við Rússland þverr, muni áhugi hennar á Atlantshafsbandalaginu dofna, en áhuginn á Evrópusambandinu styrkjast, meira að segja í Tyrklandi. Sameiginlegir viðskiptahagsmunir innan álfunnar munu síðan ráða því, að Austur-Evrópa mun styðja Vestur-Evrópu í vörn Evrópu gegn tilraunum Bandaríkjanna til að setja forskriftir sér í hag í viðskiptum milli Evrópu og Bandaríkjanna. Sem heimsviðskiptaveldi mun víkkuð Evrópa setja skorður við efnahagslegum heimsyfirráðum Bandaríkjanna.

Deildar spár um vestrið

Punktar

John Vinocur segir í International Herald Tribune í dag, að upp sé að renna fyrir ráðamönnum Evrópu, að innganga fyrrum fylgiríkja Sovétríkjanna sálugu í Evrópusambandið muni gera það hlynntara Bandaríkjunum en það hefur verið að undanförnu. Í Austur-Evrópu líti menn meira upp til Bandaríkjanna heldur en menn geri í Vestur-Evrópu. Hann bendir á, að gömlu austantjaldsríkin séu reiðubúnari að styðja Bandaríkin í fyrirhugðu stríði við Írak og að pólskir ráðamenn séu farnir að líta á sig sem brú milli Evrópu og Bandaríkjanna í heimspólitíkinni. Ekki eru allir á þessu máli, að minnsta kosti ekki um heimsviðskiptin. Steve Schifferes hjá BBC telur, að viðskiptastríð Evrópu og Bandaríkjanna muni fara ört harðnandi á næstu árum og nefnir erfðabreytt matvæli sérstaklega til sögunnar.

Heimsblöðin við hendina

Punktar

Frábær er tæknin. Hægt að fá heimsins beztu dagblöð ókeypis með morgunkaffinu. Ár og dagur er síðan við hættum að þurfa að sætta okkur við sérstæðan flutning Morgunblaðsins á erlendum fréttum. Nú fáum við þær beint í æð með rækilegum fréttaskýringum. Við getum flett Le Monde frá Frakklandi, Frankfurter Allgemeine frá Þýzkalandi, Guardian frá Bretlandi, New York Times og Washington Post frá Bandaríkjunum og loks International Herald Tribune, öllum eldsnemma að morgni. Hver morgunn í lífi með líkamlega og andlega afskekktri þjóð er betri en á svítunni á hótel Plaza Athénée í París, nema hvað það kostar ekkert að búa heima hjá sér. Að vísu þarf ég að laga espresso sjálfur.

Róttækasta grasafæðið lofað

Punktar

Á upphafsárum Náttúrulækningafélagsins voru menn misjafnlega harðir á línu grófrar grænmetisfæðu. Mildast var Jónasarfæðið, sem notað var og er á Heilsustofnun í Hveragerði. Sumir voru á strangara Waerlandsfæði, sem nefnt var eftir sænskum næringarfræði. Þeir hörðustu voru á Nolfi-fæði, sem nefnt var eftir dönskum lækni, er stofnaði frægan Humlegården, þar sem ekki mátti hita matinn í meira en 48 stig á Celcius. Nú er þessi harðasta útgáfa náttúrulækningafæðu komin í tízku í Kaliforníu auðvitað, þar sem Roxanne rekur samnefndan stað í Larkspur, svæði 944939, sími (415) 924-5004, með löngum biðlistum gesta. Þar fást ekki einu sinni baunir, pasta, hrísgrjón, mjólkurvörur eða egg, ekki einu sinni tofu. Patricia Wells, heimsfrægur veitingagagnrýnandi International Herald Tribune, heimsótti Roxanne og mátti ekki vatni halda af hrifningu. “Þú munt elska hvern bita”, segir hún. Ef einhver Íslendingur er á ferðinni, er hann beðinn um að rannsaka málið og senda skýrslu. Netfangið er jonas@hestur.is.

Blix rænir ekki fólki

Punktar

Hans Blix, yfirmaður vopnaleitar Sameinuðu þjóðanna í Írak, neitar að verða við kröfum Bandaríkjastjórnar um mannrán og nýtur þar stuðnings annarra ríkja öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Hann hefur heimild til að bjóða vísindamönnum Íraks og fjölskyldum þeirra öryggi á Vesturlöndum fyrir reiði Saddam Hussein, ef þeir vilja segja frá leynilegum vopnum hans, en vill ekki flytja þá til útlanda beinlínis gegn vilja þeirra. Bandaríkjastjórn vill að vísindamönnum verði rænt og þeir fluttir til Bandaríkjanna, þar sem Bandaríkjamenn spyrji þá spjörunum úr. Blix sagðist í gær ekki vera í vinnu hjá Bandaríkjunum, heldur Sameinuðu þjóðunum og muni fara eftir forskriftum í starfi. Hann sakaði einnig Bandaríkjastjórn um að halda leyndum upplýsingum, sem geti flýtt fyrir störfum vopnaeftirlitsins, en fréttalekastjórar Hvíta hússins hafa undanfarið sakað hann um að fara sér hægt í starfi. Patrick E. Tyler og Julia Preston skrifa um þetta í New York Times í dag.

Þannig byrjaði ballið

Punktar

Samkvæmt nýjustu kenningunni kviknaði líf fyrst á jörðinni við eldgos eða hveragos á hafsbotni fyrir fjórum milljörðum ára. Slík gos mynda fínriðið net af járnsúlfíði og lífið á að hafa kviknað í möskvum þess. Fyrri kenningar töldu líf hafa byrjað með sameindum, en þessi kenning gerir ráð fyrir, að það hafi byrjað með frumum. Í vísindatímaritinu Nature er sagt frá þessari kenningu William Martin við háskólann í Düsseldorf og Michael Russell við rannsóknastöð skozku háskólanna í Glasgow. Hún byggist á nýjum rannsóknum á sérkennilegu og súrefnislausu lífi á jarðhitasvæðum hafsbotnsins. Þar hafa fundizt gerlar, sem flýta efnahvörfum með hjálp járnsúlfíðs.

Atlanta úti að aka

Punktar

Óskiljanlegt er, að flugfélagið Atlanta, sem hefur mikilla hagsmuna að gæta í Norður-Afríku og Miðausturlöndum skuli hafa skrifað undir samning við íslenzka ríkið, er forsætisráðherra Íslands túlkar sem skuldbindingu um flutninga í þjónustu við verkefni, sem eru vægast sagt umdeild í þeim heimshluta. Ef Atlanta verður fyrir áreiti út af þessum undarlega samningi, geta ráðamenn þess sjálfum sér um kennt. Borgaraleg flugfélög eiga ekki af fúsum og frjálsum vilja að blanda sér beint eða óbeint í styrjaldir eða undirbúning styrjalda.

Jöklar bráðna hraðar

Punktar

>Duncan Steel hjá Guardian er einn þeirra, sem segja, að hægfara hækkun hitans á jörðinni sé bara hið bezta mál. Að minnsta kosti er notalegt að hafa 5-8 stiga hita í Reykjavík í desember, ef við teljum, að hvassviðrið sé ekki sömu ættar. Samkvæmt Steel fáum við góðan undirbúning við að flytja okkur upp í Tungur og Hreppa, þegar sjórinn gengur á land í Reykjavík og öðrum sjávarplássum, því að þetta sé ferli, sem taki áratugi. Hitt er annað mál, hvort skil heita og kalda sjávarins verði lengur við Ísland, þegar íshettan er farin af norðurhöfum, og hvort þorskurinn kunni þá ekki betur við sig á öðrum slóðum en hér við land. New York Times segir, að minnkun jökla um allan heim sé hraðari en áður hefur verið talið og sé þegar farin sums staðar að hafa alvarleg áhrif á vatnsbúskap landbúnaðar, stórborga og ekki sízt vatnsaflsvirkjana. Sennilega þurfum við að afskrifa stofnkostnað Kárahnjúka nokkuð hratt, þegar Vatnajökull fer að gefa sig.

Lítils metin Bandaríki

Punktar

PEW Research Center kannaði í haust álit 38.000 manna í 44 löndum á Bandaríkjunum og fyrirhuguðu stríði þeirra við Írak. Niðurstaða könnunarinnar var, að um allan heim hefur andstaðan við Bandaríkin harðnað á síðustu tveimur árum. Jafnvel bandamenn Bandaríkjanna í Evrópu eru eindregið og yfirgnæfandi andvígir stríðinu við Írak, svo ekki sé talað um þjóðir íslams, þar sem fólk er hópum saman farið að hata Bandaríkin. Eindregnir Bandaríkjavinir eru að verða sjaldgæfir í Evrópu. Þar telja menn Palestínudeiluna alvarlegri vanda en hegðun Saddam Hussein. Um þetta eru tvær fréttir eftir Brian Knowlton í International Herald Tribune í dag, önnur almenns eðlis og hin um Írak. Þar koma fram athyglisverð hliðaratriði á borð við, að Rússar einir eru ánægðari með Bandaríkin en áður og að Bandaríkin hafa þá sérstöðu meðal auðþjóða heims, að 15% íbúanna eiga stundum ekki peninga fyrir mat.