Stóriðjuflokkur

Punktar

Þótt yfirgnæfandi meirihluti Hafnfirðinga sé á móti stækkun álversins í Straumsvík samkvæmt skoðanakönnun, er bæjarstjóri Samfylkingarinnar staffírugur með stækkun. Hann kallar hana deiliskipulag til að reyna að þyrla upp ryki kringum sig. Bæjarstjórinn er sama sinnis og Samfylkingin á Húsavík, sem þyrstir í álver þar í bæ. Gleymum því ekki heldur, að Samfylkingin á Alþingi studdi Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma. Samfylkingin er gamaldags flokkur, sem tekur stóriðju fram yfir náttúru og nútíma hvar sem er og hvenær sem er.

Brölt í smáflokki

Punktar

Margrét Sverrisdóttir kemur sjálf vel fyrir, en ég sé alltaf bak við hana hinn gamla spillingarkóng, Sverri Hermannsson. Mér kom ekki á óvart, að Sverrir hefur tekið nafn Frjálslynda flokksins í gíslingu. Við fréttina um gíslingu nafnsins hefur þorrið hefur samúð mín með Margréti í hremmingum hennar í flokknum. Ég get ekki með nokkru móti séð, að unnt sé að hafa í flokksforustu persónu, sem tekur þátt í pólitískum skítverkum með Sverri Hermannssyni. En merkilegra er þó, hversu erfitt Guðjón Arnar formaður á með að bera klæði á vopnin í svona fámennum flokki.

Addi-kidda-gau

Punktar

Fyrst og fremst er það Guðjóni Arnari Kristjánssyni að kenna, að allt er á hvolfi hjá Frjálslyndum. Hann er gamall skipstjóri og er nú skútustjóri í pólitík. Sem slíkur á hann að geta sezt á ófriðarseggi og haldið mönnum rólegum. Það er æðsta hlutverk skipstjórnarmanna í pólitík. Samt lætur hann viðgangast, að stýrimenn og bátsmenn á skútunni kalli hver annan verri nöfnum en þeir nota á fólk í öðrum flokkum. Þótt Magnús varaformaður hugsi fátt og tali meira, þótt Sverrir sé að baki Margrétar, þótt stirt sé að höndla sakir um rasisma, -þá átti skipstjórinn að leysa málin strax.

Haglýsing Lobba lektors

Punktar

Egill Helgason og Friðrik Þór Guðmundsson hafa vakið athygli á tíu þátta haglýsingu Lobba lektors, sem mér finnst bezta hagfræði aldarinnar: 1) Hér eru mestu okurvextir mannkynssögunnar. 2) Bankarnir eru böl. 3) Krónan er hæpin. 4) Einkavæða þarf einkareksturinn. 5) Verðlag er okur, undir forustu landbúnaðar. 6) Álagning hefur hækkað. 7) Tollar og umsýslugjöld eru út af kortinu. 8) Hagar/Baugur eru hin raunverulega verðlagsstofnun. 9) Vinnuþrælkun er enn við lýði. 10) Misrétti hefur aukizt. Á meðan tala stjórnmálamenn innantóma froðu.

Íran er ítrekun

Punktar

Orðaval ríkisstjórnar Bandaríkjanna um Íran er þessa dagana svipað og það var um Írak skömmu áður en ráðist var á það land. Demókratar á þingi hafa tekið eftir þessu og eru að reyna að koma í veg fyrir, að gerði verði árás á Íran og einkum að hindra kjarnorkuárás. Mark Mazzetti skrifar um þetta í International Herald Tribune. Ríkisstjórnin notar sömu heimildirnar frá leyniþjónustunni og hún notaði áður og allar reyndust vera lygi frá rótum. Demókratar óttast, að ríkisstjórnin skilji ekki, að Íran er stærra ríki og erfiðara. Og að hún skilji ekki, að hún hafi ekki ráð á nýju stríði.

Gögnin hjá Kompási

Punktar

Ef lögreglan telur löglegt að veiða barnaníðinga í gildru, á hún að gera það sjálf og ekki líta svo á, að Kompás eða aðrir borgarar eigi að gera það fyrir sig. Ef hún telur slíka gildru ólöglega, á hún ekki að sækjast eftir upplýsingum, sem þannig eru fengnar. Fréttamenn eru jafnan tregir til að afhenda slíkar upplýsingar. Þeirra hlutverk er að segja sannar sögur, en lögreglan á að sjá um löggæzlu. Að vísu gildir í tilviki barnaníðinganna ekki trúnaður blaðamanns við heimildamenn, því að þeir, sem létu góma sig, flokkast ekki sem heimildamenn. Kompás má því siðferðilega séð afhenda hin umræddu gögn.

Samstarf flokka

Punktar

Stjórnarandstöðunni hefur tekizt að koma sér á framfæri sem einni heild. Það sýnir skoðanakönnun Fréttablaðsins um fylgi fólks við ýmis stjórnarmynztur. Næstum því eins margir vilja, að andstaðan í heild myndi næstu ríkisstjórn, og hinir, sem vilja framhald núverandi samstarfs. Þetta eru raunar einu marktæku kostirnir. Hinir eru færri, sem vilja samstarf Sjálfstæðisflokks með annað hvort Samfylkingu eða vinstri grænum. Þó sker í augu, að helmingi fleiri sjálfstæðismenn vilja samstarf með vinstri grænum heldur en með Samfylkingunni. Kannski er þar grundvöllur fyrir hægri grænni ríkisstjórn.

Davos á flótta

Punktar

Davos er tákn auðhyggjunnar, sem étur vistkerfi mannkyns og leiðir það til glötunar. Þar hittast árlega 2500 ábyrgðarmenn markaðshagkerfis, sem ekki er sjálfbært og mun spila rassinn úr buxunum fyrir miðja öld. Í Davos eru þeir einangraðir á læstum hótelum, þar sem almenningur kemur hvergi nærri. Skoðanakannanir sýna, að Davos-menn hafa glatað trausti fólks. Meirihluti spurðra í sextíu löndum telur, að heimur versnandi fari, þrátt fyrir títtnefndan hagvöxt heimsins. Yfirstéttin í Davos brást heiminum og fjölmiðlar eru hættir að slefa yfir niðurstöðum fundanna.

Forréttindi brotamanna

Punktar

Fangelsismálastjóri lýsir ferli, sem á að gera fanga hæfa til að koma aftur inn í samfélagið að lokinni fangavist. Þeir eru settir í meðferð á staði á borð við Vernd og Byrgi, þar sem þeir ganga lausir, þótt reglur segi annað. Eins og alltaf er meira hugsað um brotamenn en fórnardýr. Þegar brotamaður byrjar aftur fyrri iðju sína, þegar hann er kominn á Vernd eða í Byrgið, klórar fangelsismálastjóri sér í kollinum og segir þetta þurfa að skoðast betur. Vandinn er þó augljós. Hann felst í, að ímynduð meðferð brotamanna er tekin fram yfir hagsmuni samfélagsins.

Hamfarir ýtustjóra

Punktar

Ýtustjóri var sektaður um 200 þúsund krónur fyrir að gera ólöglegan slóða frá Hveragerði inn í Gufudal. Ekki hefur frétzt af neinni sekt ýtustjórans, sem lagði ólöglegan slóða yfir Snæfjöll frá Ísafjarðardjúpi í Jökulfirði. Þessi mál vekja mér þá spurningu, hvað muni kosta að eyðileggja allar óbyggðir Íslands með jarðýtum. Ætli það sé nálægt hundrað milljónum, einni veizlu hjá nýríkum manni? Ég man eftir ýtustjóra, sem bauð mér að leggja reiðveg frá Kaldbak í Hrunakrók. Eins og ekkert væri sjálfsagðara en að eyðileggja ósnortin víðerni. Svona eru íslenzkir vargar.

Hundalógík ráðherrra

Punktar

Fyrst er kvartað um, að stjórnarandstaðan sýni leikreglum lýðræðisins dónaskap með málþófi um ríkisútvarpið. Þegar málþófið hefur staðið í viku og bundinn hefur verið endir á það, segja ráðherrar á borð við Þorgerði Katrínu og Björn, að stjórnarandstaðan hafi gefizt upp fyrir sjónarmiðum stjórnvalda. Það er fáránleg lýsing. Hún sýnir vel, hvað ráðherrar telja sig geta stundað grófa hundalógík. Málþóf er vopn, sem getur sýnt megna óánægju stjórnarandstöðu, en hlýtur þó að hafa einhvern enda. Vika getur varla sýnzt minna en hæfilegur skammtur.

Hjálmar farinn

Punktar

Hjálmar Árnason er hættur og það er gott. Sem formaður þingflokks vinnumiðlunar Framsóknar var hann notaður til að reka úr túninu. Ef ráðherrarnir vildu ekki láta etja sér fram, var Hjálmar alltaf sendur til að gelta. Hann vann það verk samvizkusamlega, en aldrei var neitt mark tekið á honum. Ekki varð hann heldur ráðherra eins og nánast allir aðrir þingmenn flokksins. Svo á eftir að koma í ljós, hvort eftirmaður hans verður skárri, en það er önnur saga. Vinnumiðlunin þarf nú að útvega Hjálmari lifibrauð á kostnað skattgreiðenda, því að ekki er hann vinnufær.

Veizlur ístöðuleysis

Punktar

Petronius lýsir í Satyrikon feiknarveizlu hjá leysingjanum Trimalkiusi, sem varð ríkur á ofanverðu Rómarveldi. Þær lýsingar taka fram lýsingum fjölmiðla á veizlum nýríkra Íslendinga tuttugu öldum síðar. Sérstaklega í mataræði, en minna er vitað um tóngæðin. Í báðum tilvikum fífla sig menn, sem vita ekki aura sinna tal og enn síður, hvað þeir eigi að gera við þá. Veizlurnar hjá Trimalkiusi voru undanfari hruns Rómarborgar, svo að búast má við hruni Íslands, ef veizlurnar gerast hrikalegri. Í báðum tilvikum ræður ferðinni ístöðuleysi nýríkra, sem kunna sig ekki meðal manna.

Frítt er gott

Punktar

Af látum íslenzkra og danskra embættismanna má ætla, að ókeypis dagblöð séu meiri háttar vandi, sem fylli póstkassa og kalli á endurvinnslu. Eru þó dagblöð í báðum löndum prentuð á pappír úr sjálfbærum skógum. Ég get ekki litið á það sem böl að fá Blaðið og Fréttablaðið inn um rifuna, enda tekur forstofan lengi við. Þvert á móti verð ég grautfúll, ef annað hvort blaðið kemur ekki, lengi Fréttablaðið og nú Blaðið. Ég held, að vandkvæði fólks af völdum fríblaða séu ofmetin, enda hef ég ekki séð þá kenningu studda neinni heimild úr rannsóknum. Menn þurfa bara að eiga góða póstkassa.

Gegnsæi Valgerðar

Punktar

Valgerður Sverrisdóttir vill auka gegnsæi í stjórnsýslunni og hefur birt nokkra viðauka við varnarsamninga. Ef það er upphafið að öðru meira, er það hið bezta mál, sem mun halda nafni Valgerðar á lofti. Ef hins vegar þetta er aðferð George W. Bush, sem reyndi að henda ruðum í demókrata, þá dugar það ekki. Það er ekki hægt að velja leyniskjöl til birtingar, enda neituðu demókratar að taka þátt í því. Of snemmt er að meta, hvort frumkvæði Valgerðar er upphaf nýs tíma gegnsæis í stjórnmálum. Við skulum fylgjast vel með framhaldinu. Og mey skal að morgni lofa.