Hnekkt okri á reiki

Punktar

Þýzka ríkisstjórnin hefur ráðist gegn okri símafyrirtækja á símtölum í farsíma milli landa. Þessi reikisímtöl kosta símafyrirtækin 10-12 sent á mínútu, en eru seld almenningi á 3-12 evrur. Þjóðverjar vilja, að Evrópusambandið setji reglu um 49 senta gjald á mínútu fyrir að hringja og 25 senta gjald fyrir að taka við símtali. Tillagan er komin fyrir Evrópuþingið og fer á þriðjudaginn í umræðu í iðnaðarnefnd þess. Gert er ráð fyrir, að hún komi til kasta þingsins í apríl og verði framkvæmd í júlí. Þetta verður frækilegur sigur neytenda gegn einokunarfyrirtækjum símans. Sjá IHT.

Grænir sigrar

Punktar

Grænir sigrar verða sífellt tíðari í heiminum. Marks & Spencer ætlar meðal annars að hætta að selja íslenzkan fisk sem og annan fisk, er ekki hefur viðurkenningu frá vottunarstofum. Fyrirtækið ætlar að hætta að láta frá sér koltvísýring sem úrgang. Hinar risastóru keðjur matarbúða, WalMart og Tesco, ákveðið að gerast grænar. Tesco ætlar að merkja allar vörur sínar með stöðu þeirra á grænum mælikvarða. Lengst ætlar risinn WalMart að ganga og mun hafa áhrif á vinnubrögð birgja um allan heim. George Monbiot segir í Guardian, að fyrirtækin gangi mun lengra en opinberar reglur mæla fyrir.

Reisugleði þingkvenna

Punktar

Undarleg er ferð nokkurra reisuglaðra þingkvenna til Sádi-Arabíu. Það er eitt mesta afturhaldsríki heims, lýtur trúarstjórn Wahabíta, sem beinlínis hata konur. Hvergi í heiminum eru kvenréttindi minni en í Sádi-Arabíu. Þar á ofan er þingið þar handvalið og valdalaust. Mér er fyrirmunað að skilja, hvers vegna forseti íslenzks Alþingis fer með þingkonum til að heimsækja einmitt þetta guðs volaða þing í ríki, sem hefur ekkert við sig nema olíuna. Ferðin er ekki bara pólitísk mistök, heldur hrein heimska, sem er hálfu verra. Með eða án slæðunnar, sem þær skörtuðu.

Leiðindi og veðurfar

Punktar

Reykjavík dettur úr tízku ferðabransans samkvæmt borgavísitölu Anholt ráðgjafanna. Af 60 borgum er Reykjavík komin niður í 45 sæti, næst á eftir Seúl. 20.000 voru spurðir. Næturlífið þykir ekki lengur spennandi, enda er tæpur áhugi manna á kaldsömu fylleríi norður í ballarhafi. Menn átta sig á, að veðrið á Íslandi er ekki temprað. Hverjir nenna að ganga milli biðraða að okurbjór í roki og frosti eða rigningu og krapa? Vísitalan markar ekki heimsendi, en hún auglýsir timburmenn eftir firrtar væntingar ferðabransans.

Sjónvarpið laskast

Punktar

Ef hefðbundnir fjölmiðlar deyja vegna veraldarvefsins, deyr sjónvarpið fyrst, segir Spiegel. Mörg dagblöð hafa komið sér vel fyrir á vefnum og eru þar í sambandi við ungt fólk. Fáar sjónvarpsstöðvar eru í þeirri stöðu. Unga fólkið flýr þær eins og blöðin, en sækir ekki vefmiðla þeirra, heldur staði eins og MySpace, þar sem það lifir í firrtum heimi. Þar býr fólk sér til einkenni og persónuleika að eigin ósk og umgengst vini og kunningja, sem eru jafn óraunverulegir. Það horfir aldrei á sjónvarp, sem eykur þó ekki fréttir, heldur hraðar leið sinni yfir í veruleikafirringu fyrir óvita á efri árum.

Enginn gegnumakstur

Punktar

Göng undir bænum eru aðalgatan í Madonna í Ítalíu. Frá báðum endum rörsins eru botnlangar inn að hótelum og öðrum stofnunum. Gegnumakstur er enginn á götunum. Milli skíðalyftanna og hótelanna gengur strætó og er sagður frír. Ég hef aldrei séð neinn þeirra sjálfur, svo að ég er ekki viss. Ein af lyftunum fer upp úr bænum andspænis Hubertus og ein brekkan liggur þangað niður, svo að við höfum ekki þurft að nota strætó. Mér datt hins vegar í hug, að gott væri að hafa göng gegnum Skólavörðuholtið og gott bílastæði Lækjartorgsmegin. Og gott væri að hafa frítt í strætó.

Fín verkfræði

Punktar

Kúnstin við skipulagið í Madonna á Ítalíu er, að þar er ein gata með tveimur torgum í miðjunni, þar sem bannað er að fara á bíl. Umferðin milli staða í borginni er gegnum rörið. Fyrst þarf að keyra út úr borginni, síðan gegnum rörið og koma upp úr því hinum megin í bænum. Fyrir bragðið er miðbærinn nánast hrein göngugata. Sama skipulag er á skíðalyftum og brekkum. Frá flestum hótelum er hægt að renna sér niður í lyftu og úr brekkunum er hægt að renna sér niður að flestum hótelum. Brekkukerfið þræðir á brúm og í göngum inn í bæinn aðskilið gatnakerfinu. Fín verkfræði.

Ítalskur reikningur

Punktar

Skíðastaðir á Ítalíu eru flokkaðir í þrennt, íþróttastaði, fjölskyldustaði og snobbstaði. Ef hlutfall gistinótta og skráninga í lyftuhliðum er hátt, er lítið skíðað og meira gengið í pelsum milli kaffihúsa, snobbstaður. Ef hlutfallið er lágt, er mikið skíðað og lítið rölt í bænum, íþróttastaður. Miðja vegu eru fjölskyldustaðir. Tveir staðir hér flokkast sem snobbstaðir samvkæmt þessu. Cortina er annar og Madonna er hinn. Enda eru hér 900 snjóbyssur. Þykkur snjór er því í öllum brekkum, þótt ekkert snjói. En þá fer rafmagnsreikningur á byssunum í þrjá milljarða á vertíð.

Blátönn og blakkber

Punktar

Nú er búið að loka “hot spots” hér í Madonna á Ítalíu til að hindra, að ég fremji hryðjuverk. Einnig er búið að loka “internet cafés” í sama skyni. Ítalía er þessa dagana að fremja áætlun Evrópusambandsins um bann við hryðjuverkum og þetta er aðferðin. Bretar hafa þá aðferð að klæða fólk úr skóm á flugvöllum. Ég og terroristarnir verðum nú að taka upp farsímann og hringja með Bluetooth úr tölvunni gegnum símann til að ná netsambandi. Það kemur í sama stað niður, en er dýrara og með minni bandvídd en “hot spots”. Terroristar, sem ekki þurfa að skrifa mikið, nota Blackberry í stað Bluetooth.

Alger vangeta

Punktar

Heitir blettir og skór eru vopn terrorista að mati yfirvalda í Bretlandi og Evrópusambandinu. Hliðstætt rugl er mat stjórnvalda í Bandaríkjunum. Þessu hefur Osama bin Laden áorkað. Hann hefur látið fyrirskipa Bluetooth og Blackberry á Ítalíu og gegnumlýsingu skóa í Bretlandi. Ef þetta er snilld embættismanna í baráttunni gegn hryðjuverkum, hver er þá snilld þeirra á öðrum sviðum? Er hún ekki hin sama og snilld íslenzkra embættismanna í Félagsmálaráðuneyti, hjá Landlækni og í fangelsismálastofnun og alls staðar, þar sem mál Byrgisins komu á borð: Alger vangeta á línuna.

Embættismennirnir

Punktar

Ég skil ekki trú Íslendinga á, að embættismenn muni leysa allt. Þegar tillögur nefndarinnar um fjármál stjórnmálaflokka voru að koma út, virtist um tíma, að lausn hennar væri að fela ríkisskattstjóra að skoða gögnin og segja þjóðinni, hvort þau væru í lagi. Þetta er auðvitað engin lausn, þjóðin á sjálf að skoða skjölin og segja sér, hvort þau séu í lagi. Ofsatrúin á föðurvald embættismanna gengur gegn lýðræði. Embættismenn geta ekki varizt hryðjuverkum, geta ekki varið fólk gegn Byrginu og geta ekki verndað lýðræði. Sú er firra frá átjándu öld. Nú er öld gegnsæis.

Á kafi í snjó

Punktar

Skíðafarar nota netið eins og aðrir. Sumir hafa í örvæntingu fylgst með í allan vetur, hvernig hver vikan leið, án þess að snjóaði í Ölpunum. Á mínum stað hafði ekkert snjóað síðan 9. desember, þangað til á miðvikudag, að snjó fór að kyngja niður. Það hélt áfram á föstudag, svo að allt var á kafi í snjó, þegar ég mætti í gær í Madonna upp af Garda-vatni á Ítalíu. Hálfur metri var af snjó í bænum og heill metri á toppnum. Spáð er sólskini og frosti alla daga, svo að lítill tími verður til að kverúlera á netinu. Hér renna menn sér frá öllum hótelum í lyftur og úr brekkum heim á öll hótel.

Hnallþórur að morgni

Punktar

Hinn gullslegna og indæla signora á Hubertus býður okkur að venju hnallþórur með rjóma og sultu í morgunverð. Það held ég sé skynsamlegri tími fyrir veizlur en kvöldköffin heima á Íslandi, sem halda fyrir mér vöku um nætur. Betra er að nota kolvetnin í brekkurnar yfir daginn. Signoran er ekki eins tæknivædd og hún er öflug í tertunum, svo að ég verð að arka upp skafla á barinn á Arnica, þar sem ég næ þráðlausu sambandi við tölvuna. Svo þarf að velja kvöldmatarstað. Hér er ekki Tyrol, heldur ekta Langbarðaland. Gott risotto jafngildir sáluhjálp.

Svall í fjöllum

Punktar

Í Madonna eru veitingahús, skyndibitastaðir og barir uppi um öll fjöll og víða liggur fólk í sólinni í brekkunum. Fullt er af fólki á bitastöðum í brekkunum, en ekki er biðröð á Graffer, sem býður alvörumat í 2300 metra hæð. Merkasti barinn heitir Fjósið og þar safnast oft Íslendingar fyrir, þegar líður að ofanverðu síðdegi. Fyrir ofan er sex kílómetra ljúft rennsli og fyrir neðan er bara ein snarbrött brekka eftir niður í bæ. Sumir eru orðnir hæfilega kjarkaðir eftir tvo tíma á barnum. Ég reyni að stampast þar niður áður en hinir hífuðu sturta sér niður.

Sérpersónur duga

Punktar

Ég man ekki, að sérframboð hafi riðið feitum hesti frá kosningum hér á landi. Frekar er, að sérpersónur hafi náð árangri, svo sem Vilmundur Gylfason. Ómar Ragnarsson er sérpersóna. Hann gæti dregið með sér 4-5 menn á þing í flokki hægri grænna. Ef hægri grænir bjóða fram án Ómars, ná þeir niðurstöðu af stærðargráðunni 2-4% og engum þingmanni. Ekki hef ég heldur trú á framboðum aldraðra, enda mældist 2% fylgi þar í könnun um daginn. Fyrrverandi forsetaframbjóðandi, sem reyndist fylgisrýr, mun fá enn lakari útreið í framboði fyrir hönd aldraða.