Smáflokkar brotna

Punktar

Frjálslyndi flokkurinn þoldi ekki fráhvarf Margrétar og er rúinn fylgi. Tvö framboð gamalla hafa farið illa af stað, mælast ekki með fylgi og munu ekki ná neinum þingmanni. Framsókn réttir ekki úr kútnum, enda talar formaðurinn eins og véfrétt eða blýantsnagari. Margrét er ekki trúverðugur frambjóðandi fyrir neitt grænt. Það árar ekki vel fyrir smáframboðum þessa dagana. Eina haldreipi þeirra er, að fjórir af hverjum tíu hafa ekki ákveðið, hvernig þeir hyggist kjósa. Skiptingin á því fylgi í kosningunum í maí mun ráða úrslitum, en ekki hremmingar í skoðanakönnunum í febrúar.

Samfylking útvötnuð

Punktar

Samfylkingin er hinn pólitíski sjúklingur vetrarins. Henni virðist aldrei ætla að batna fylgislekinn. Liðþjálfar hennar skilja hvorki upp né niður. Þeir ættu að prófa að kanna fleiri orsakir. Til dæmis þá, að kjósendur nenni ekki að styðja flokk, sem er útvötnuð útgáfa af flokkum ríkisstjórnarinnar. Við þurfum ekki fleiri flokka til að eyðileggja víðerni landsins. Við þurfum ekki fleiri flokka til að einkavæða einokun. Við höfum þegar einn Sjálfstæðisflokk og þurfum ekki fleiri. Kjósendur sjá ekki Samfylkinguna sem nýtt afl við stjórnvöl. Menn sjá hana bara sem krata.

Siv sló met

Punktar

Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra hefur stolið milljón krónum úr framkvæmdasjóði aldraðra til að gefa út kosningabækling um sjálfa sig. Þótt ráðherrar hafi breytt ráðuneytum sínum í kosningaskrifstofur, samanber Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hefur enginn sýnt eins ósvífna áráttu í spillingu og Siv. Hún notar framkvæmdafé aldraðra til að spinna sögur um sína eigin góðsemi. Og klykkir út með því að segja gagnrýni út af þessu vera storm í vatnsglasi. Alltaf þurfa ráðherrar Framsóknar að toppa aðra, þegar nýjar leiðir finnast í spillingu.

35 kílómetrar

Punktar

Ráðgerður Kjalvegur með bundnu slitlagi styttir leiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar ekki um 47 kílómetra. Aðeins um 35 kílómetra, ef miðað er við að stytta núverandi leið á smákafla með því að færa hana frá Blönduósi að Svínavatni. Þetta eru 22 mínútur, ótrúlega lítill árangur af miklu róti. Er þá eftir að taka tillit til ósnortinna víðerna á Kili og Eyvindarstaðaheiði, sem verða þá ekki lengur ósnortin. Kjalvegur hinn nýi er þáttur í hamslausri árás mannsins á landið, sem hefur alið hann. Hroki nútímans sést þarna í sömu mynd og í eyðingu Vesturöræfa og Kringilsárrana.

Vetnisstrætó

Punktar

Fyrir nokkrum árum voru miklar vonir bundnar við vetnisstrætó í Reykjavík. Fjölþjóðlegt samstarf var um verkefnið með aðild ríkis og borgar. Alla daga síðan hefur vetnisstrætó sinnt skyldu sinni á götum borgarinnar. Nú á þessu að linna og kjaftagangur málsaðila að koma í staðinn. Fyrir skömmu vorum við með bjarta sýn á, að vetnisöld væri að renna í garð á Íslandi, sem væri í fararbroddi heims í byltingu nýs orkugjafa. Nú hafa málsaðilar, ríki og borg, hins vegar lagt niður rófuna. Annað hvort hafa þeir gefizt upp eða nenna ekki að vera í forustu. Hvort tveggja er ömurlegt.

Myndir æsa ekki

Punktar

Furðu lítil viðbrögð hafa verið við myndum í Morgunblaðinu af dómurum Hæstaréttar, sem milduðu dóm yfir kynferðisafbrotamanni. Björn Bjarnason rakti málsatvik á heimasíðu og sagðist vera andvígur myndbirtingunni, en fór ekki um hana hörðum orðum. Fáir froðufella á nafnlausum vefsíðum. Kannski eru hræsnararnir búnir að gefast upp á séríslenzkum geldfréttum. Kannski eru þeir farnir að líta myndbirtingar sömu augum og annað fólk í heiminum. Þá er ísinn brotinn. Ef Íslendingar telja opinber mál ekki lengur vera einkamál málsaðila, verður ekki aftur snúið af þeirri braut.

Tveir góðir kostir

Veitingar

Le Roi er veitingastaður skíðamanna í Madonna á Ítalíu. Þar fæst allt, sem hugurinn girnist, pítsur og pöstur, sveppir og steikur, dádýr og hirtir, sómasamlega matreitt og árvökult fram borið. Enda er staðurinn sneisafullur á hverju kvöldi, innréttaður í alpastíl. Þríréttað með víni kostar þar 3.000 krónur á mann. Vilji menn borða franskt og fínt, er Da Alfiero góður kostur. Þar er þjónusta eins lærð og á dýrustu stöðum Reykjavíkur, maturinn oftast frábær og verðið ekki nema 4.000 krónur á mann.

Ferðamannagildrur

Veitingar

Fátt matstaða kemur til álita í Madonna á Ítalíu utan Le Roi og Da Alfiero. Til skamms tíma var þar góður staður, Artini, á 4.000 krónur þríréttað með víni, en nú má nota Antico Focolare á sama verði, góðan og líflegan stað með nokkuð góðri matreiðslu. Gleymið hins vegar dýrum ferðamannagildrum á hótelunum Bertelli og Imperatore. Bertelli veltir sér upp úr snobbi með vindlasal og verðlagi í skýjunum, 7.500 krónur á mann. Imperatore er í kuldalegum kjallara, býður góða matreiðslu og ómenntaða þjónustu á 5.000 krónur á mann.

Vikið frá vondri hefð

Punktar

Það er rétt hjá Morgunblaðinu, að dómarar Hæstaréttar eiga ekki að geta vikizt undan nafngreiningu. Ef þeir kveða upp úrskurð, sem stríðir gegn skynsemi og siðfræði almennings, er eðlilegt að nafngreina þá og birta myndir af þeim á forsíðu. Hingað til hefur Mogganum og hræsnurum þótt eðlilegt að gerilsneyða íslenzka fréttamennsku niður í nafnleysi. Fréttir hafa þannig orðið að eins konar táknmynd af fréttum. Morgunblaðið hefur nú vikið frá vondri hefð, sem hefur mótað skilning almennings á fréttamensku. Það er fjölmiðlabreyting áratugarins.

Mannasiðir

Punktar

Ítalir eru kurteisari á skíðasvæðum Alpanna en aðrar Alpaþjóðir. Þeir troðast ekki í lyftur, heldur mynda rólega röð eins og Bretar. Þeir henda ekki rusli úr lyftum, snjórinn er hvítur og hreinn undir lyftunum. Hér á Íslandi er slóð af sælgætisumbúðum og öðru rusli undir lyftunum. Líklega eru Íslendingar mestu sóðar Evrópu, grýta rusli út um bílglugga og skilja við tjaldstæði eins og ruslahaug. Foreldrar kenna ekki kurteisi. Kannski vantar okkur her, þar sem menn læra að bursta skó og vera snyrtilegir. En kannski vantar okkur bara námsgrein í mannasiðum í framhaldsskólum.

Mannasiðabókin

Punktar

Systir mín gaf mér mannasiðabók, líklega af gefnu tilefni, þegar ég var ungur maður. Hún var amerísk og hét Esquire Etiquette. Fyrir löngu týndi ég bókinni, en margt er mér þaðan minnisstætt. Ég lærði til dæmis að fyrst ætti að nota yztu hnífapörin og síðan inn að diski og loks hnífapörin ofan við diskinn. Einnig lærði ég, að seinkunn í matarboð mætti mest nema tíu mínútum, en 45 mínútum í hanastéli. Fara ætti sólarsinnis hring um samkvæmið og yfirgefa það 45 mínútum fyrir lokin, svo tími gæfist í annað hanastél. Fræði þessi reyndust mér gagnlegri en skólafræðin.

Misjafnlega hættulegir

Punktar

Af hverju agnúast fjölmiðlar og álitsgjafar sífellt út í Bandaríkin, sem hafa tekið einarða afstöðu gegn hryðjuverkum íslams? Af hverju draga þeir fjöður yfir grimmd terrorista til að koma höggi á Bandaríkin? Af hverju er þagað um hryðjuverk, kvennamorð og ýmsa karlrembu og ofbeldi róttækra múslima, en stöðugt kvartað yfir ofbeldi af hálfu Bandaríkjanna, sem þó eru lýðræðisríki, grein á vestrænum meiði? Allt þetta stafar af, að íslam er ekki hættulegt vesturlöndum, en Bandaríkin eru hættuleg allri heimsbyggðinni.

Engar krossferðir takk

Punktar

Vesturlönd eiga ekki að skipta sér of mikið af stjórnarfari í löndum múslima, ekki að fara með stríði á hendur þeim og alls ekki hernema þau. Slíkt framleiðir bara hatur. Það hafa Bandaríkin verið að gera síðustu ár. Þau hafa framleitt heilar hersveitir hryðjuverkamanna með því að fara í stríð við ríki múslima. Undir forustu trúarofstækismanns í embætti forseta hafa þessi stríð Bandaríkjanna orðið að krossferðum, sem ekki eru til neins annars en að auka hatur á vesturlandabúum. Þar með talinni ríkisstjórn Íslands, sem í barnaskap styður styrjaldir Bandaríkjanna.

Engar sérþarfir takk

Punktar

Við eigum á allt annan hátt að mæta róttækum útgáfum íslams, sem okkur er illa við. Við skulum ekki sætta okkur við slík sjónarmið á vesturlöndum. Við skulum reka burt kennimenn, sem hafna helztu gildum Vesturlanda og predika ofbeldi gegn vestrænu samfélagi. Um leið og við sættum okkur við róttækt íslam í þeirra heimshluta skulum við hafna því í okkar heimshluta. Við skulum hafna karlrembu og ofbeldi, hvort sem það heitir íslam eða annað. Þótt við höfnum krossferðum, skulum við líka hafna tillitssemi við múslimskar sérþarfir á Vesturlöndum. Í Róm hagi þeir sér eins og Rómverjar.

Evrópskur hugbúnaður

Punktar

Evrópa er að taka við sér í hugbúnaði. Yfirburðir Sílikon-dals í Kaliforníu hafa minnkað. New York Times rekur dæmi um þetta, svo sem Svíann Zennstrom, sem bjó til gagnagrunninn Kazaa. Skype er annað dæmi um evrópskan hugbúnað, sem notaður er til að sleppa við einokun símans. Einnig hefur Tariq Krim fundið upp Netvibes, leið fyrir almenning framhjá okri í netþjónustu, með tíu milljón notendum. Hin evrópsku Vpod og Sevenload eru að matri blaðsins betri en YouTube, sem margir þekkja. Litlir Sílikon-dalir eru að myndast hér og þar um Evrópu, jafnvel á Íslandi.