Leiðsögn út í hött

Veitingar

Skrítin eru ráð leiðsögumanna um veitingahús í ýmsum borgum og bæjum. Þær birtast til dæmis í auglýsingabæklingi Flugleiða, Mín borg, sem borinn var í hús til mín. Þegar ég hef verið á ferðastöðum við Miðjarðarhafið, hef ég tekið eftir, að sumir íslenzkir leiðsögumenn þjóna matsölustöðum, taka prósentur af Íslendingaveltu. Í Madonna um daginn var reynsla mín af veitingum þveröfug við ráð leiðsögumanna. Með samanburði á dómum erlendra dagblaða og ábyrgra leiðsögubóka á borð við Michelin, Gault-Millau og Zagat, sé ég, að ráðin í bæklingi Flugleiða eru flest út í hött.

Sjónhverfingar

Punktar

Sjónhverfingar
Sjónhverfingamaðurinn Tony Blair á höttunum eftir nýjum leiðum til að gabba kjósendur. Nú hefur hann fengið sölumeistarann Cialdini til að hressa upp á fylgi kratanna í Bretlandi. Fyrsta regla Cialdini er að vinna eins og sölumenn notaðra bíla. Þeir klófesta kúnna á lágu bílverði og leggja síðan aukaþóknanir ofan á, þegar gengið er frá samningi. Spurningin er, hvort Samfylkingin getur ekki fengið Cialdini til fylgis við sig. Hann getur kennt henni að selja kjósendum umhverfisvernd fyrir kosningar og framkvæma síðan stóriðjustefnu eftir kosningar. Sjá Observer.

Bjarni rökfræðingur

Punktar

Að svo miklu sem hægt er að skilja grein Bjarna Harðarsonar í Blaðinu í gær, fjallar hún um, að uppsveitarmenn á Suðurlandi og Norðurlandi eigi sama rétt á malbikuðum Kjalvegi og höfuðborgarbúar eigi rétt á manngerðu umhverfi. Hann telur það “úrkynjun, sérgæsku og skinhelgi” að vera á móti veginum. Sérstaklega harmar hann “sjálfskipað” umhverfisverndarfólk, eins og einhver munur sé á sjálfskipuðu og öðru fólki. Bjarni er líklega mesti rugludallur landsins í rökfræði. Enda verður hann þingmaður í vor. Þá er stutt í, að hann verði umhverfisráðherra Framsóknar.

Gunnar sannfræðingur

Punktar

Íslendingar verja hlutfallslega mestu fé til heilbrigðismála af OECD-ríkjum, segir Gunnar Ingi Birgisson bæjarstjóri í grein í Mogganum í gær. Það er rangt, Bandaríkin eru í OECD og verja hærra hlutfalli. Röng fræði Gunnars er grunnforsenda hans fyrir sex tillögum hans í þessum málaflokki. Af því að sjálf forsenda hans er röng, þá eru tillögurnar líka rangar. Við færum heilbrigðismál okkar ekki í betri farveg með því að færa þau nær Bandaríkjunum. Þar er mestu fé sóað með minnstum árangri. Vandi kerfisins hér er mikill, en Gunnar lýsir honum kolrangt.

Birkir Byrgismaður

Punktar

Að grunni stafar Byrgishneykslið af lélegum embættismönnum, sem lokuðu skjöl niðri í skúffum í ýmsum ráðuneytum og stofnunum. Pólitísk ábyrgð er þó á fjórum ráðherrum Framsóknar, þeim Páli Péturssyni, Árna Magnússyni, Jóni Kristjánssyni og Magnúsi Stefánssyni. Sá síðastnefndi hefur ekki enn beðizt afsökunar fyrir hönd ríkisins. Ógleymdur er svo Birkir Jón Jónsson, sem var aðstoðarmaður Páls, þegar plöggunum var fyrst stungið undir stól. Hann var síðan formaður fjárlaganefndar, þegar fé var mokað í skandalinn. Hann er líklega sá, sem ber mesta pólitíska ábyrgð á Byrginu.

Toppur hverfis 101

Veitingar

Ferska smárétti að japönskum hætti úr hráum fiski fæ ég á Maru í aldna Ísafoldarhúsinu í Aðalstræti. Annars staðar í borginni eru þeir forsniðnir og geymdir, sigla á færibandi klukkustundum saman í Iðu. Stílhreinn naumhyggjusalurinn hefur verið í rúmlega sex ár í Aðalstræti, síðustu þrjú árin undir heitinu Maru. Í tilefni löggildingar sem gamlingja bauð konan mér á þennan alvörusal að japönskum hætti. Fyrst miso sojasúpa, síðan nokkur eintök af sashimi hráfiski, af sushi (nigiri) hráfiski á hrísgrjónum og af maki hrognum í þangrúllum. Þetta er toppurinn á hverfi 101.

Hláturs er von

Punktar

Héraðsdómur hefur sýknað útlending, sem fannst með þýfið í bíl sömu nótt og innbrotin voru framin í Reykjavík og á Selfossi. Maðurinn sást líka á eftirlitsmyndum á innbrotsstað. Á sér hafði hann uppdrátt af staðnum. Hann neitaði hins vegar öllu, sagðist til dæmis aldrei hafa komið til Selfoss. Neitaði meira að segja að gefa upp heimilisfang. Því virðist löggan ekki hafa vitað, hver maðurinn var, og ekki getað leitað heima hjá honum. Það eru tröllheimskar löggur, sem klúðra svona einföldu dómsmáli. Maðurinn er auðvitað enn að hlæja. Að vísu án herfangsins.

Burt með krónuna

Punktar

Við þurfum fremur að losna við krónuna en að fá evruna. Við tölum stíft um evru, af því að mikið af útflutningi greiðist í evrum. En við þurfum frjálsa notkun alls gjaldmiðils. Fyrirtæki geta nú haft bókhald í erlendri mynt og eiga að greiða starfsmönnum laun í sömu mynt. Þannig fáum við kosti traustra gjaldmiðla án þess að binda okkur við evru. En stórmarkaðir eiga að taka við evrum á daggengi til jafns við krónur. Smám saman skiljum við, að það er afnám krónunnar, sem skiptir mestu. Hagkerfi, sem vill vera ríkt, notar ekki gjaldmiðil, sem skekst í andvara. Betra er að hafa engan.

Aðgengileg kaffihús

Punktar

Nú er loksins hægt að heimsækja kaffihús á Ítalíu. Reykingar þar hafa verið bannaðar og verða bannaðar á veitingahúsum á næsta ári. Ítalía er að koma nýjum evrópureglum í gildi. Í Frakklandi verður á næsta ári bannað að reykja í kaffihúsum og veitingahúsum. Eftir það verður þess ekki langt að bíða, að slíkt verði einnig bannað hér á Íslandi. Reykingar eru sem betur fer að mestu horfnar úr veitingahúsum, en kaffihús eru hér flest enn ekki manngeng vegna kófsins. Eftir tvö ár verða ofsóttir reykingamenn að fara til Danmerkur, sem verður síðasta vígi nikótíns í Vestur-Evrópu.

Stolnir milljarðar týndust

Punktar

Bandaríska þingið hefur fundið út, að ríkisstjórnin sendi að minnsta kosti 12 milljarða dollara og sennilega 20 milljarða í hundrað dollara seðlum til Íraks án þess að biðja um neina skilagrein. Þessir peningar gufuðu að mestu upp án þess að neinn viti um slóð þeirra. Ríkisstjórnin afsakar sig fyrir þinginu með því, að þetta hafi ekki verið fé af bandarískum fjárlögum, heldur fé af olíutekjum Íraks. Ef svo er, þá hafa peningarnir horfið úr bandarískri vörzlu og ábyrgð. Bandaríkin þurfa þá að endurgreiða þá til Íraks. Það ver ekki ráðlausa meðferð fjármuna að hafa stolið þeim.

Nató hugleiðir sjálfsmorð

Punktar

Nató heldur áfram að fjarlægjast almenning í Evrópu með aukinni áherzlu á stuðning við krossferðir Bandaríkjanna í löndum múslima. Mikil og vaxandi andstaða er við krossferðirnar til Afganistans og Íraks og við fyrirhugaða krossferð til Írans. Hinn einangraði framkvæmdastjóri samtakanna, Jaap de Hoop Scheffer, verður sífellt skrækari í kröfum um fleiri menn frá Evrópu. Hann er að drepa samtökin með þessu. Sem betur fer hlusta ríkisstjórnir í Evrópu heldur meira en hann á almenning og tregðast við að senda fleiri menn. Á báðum stöðum ganga stríðin illa, sem allir vita nema Geir Haarde.

Fangafæða Icelandair

Punktar

Flugfreyjur fá ekki sama mat og flugmenn. Þær fá fangafæðu, en ekki yfirstéttarmat. Þær eru ekki sáttar við það. Eins og formaður þeirra segir, þykir þeim venjulegur flugvélamatur “ekki skemmtilegur” til lengdar. Þetta er bezta athugasemdin, sem ég hef heyrt um mat hjá Icelandair. Lengi hef ég litið með skelfingu á þessa pakka og reynt að fara gegnum eftirlitið með epli og súkkulaði í vasanum. Fyrir hönd farþega vil ég taka undir kröfu flugfreyja og heimta líka yfirstéttarmat í flugvélum Icelandair. Eins og flugfreyjur neitum við að vera fangar. Lifi alþýðan. Niður með Icelandair.

Nýr liðsmaður

Punktar

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur er kominn í hóp þeirra, sem vara við byggð á landfyllingum úti í sjó, til dæmis í Örfirisey. Hann bendir á landsig á þessu svæði og bráðnun Grænlandsjökuls. Ég hef einnig bent á, að umferðaræðar í vesturbænum geta ekki tekið við nýju hverfi í Örfirisey, ekki frekar en tekið við byggð í Vatnsmýrinni. Pólitíkusar skipulags borgarinnar, með Björn Inga Hrafnsson í broddi fylkingar, reyna ekki einu sinni að andmæla því sjónarmiði. Þeir eru alls óvanir að taka tillit til umferðar, þegar þeir skipuleggja nýja byggð í grónum hverfum.

Erfðabreytt búvara

Punktar

Jónína Bjartmarz vill sérmerkja erfðabreytt matvæli hér á landi eins og gert er í Evrópu. Nú er Ísland eina landið á Evrópska efnahagssvæðinu, sem ekki leyfir neytendum að velja milli hefðbundins og erfðabreytts matar. Ekki á að vera flókið fyrir umhverfisráðherrann að setja um þetta reglugerð. Hún getur látið þýða hana frá Evrópusambandinu eins og aðrar reglugerðir landsins. Henni liggur á, af því að íslenzkur bústofn lifir á erfðabreyttu korni. Það mun gera íslenzkar landbúnaðarafurðir óseljanlegar í útlöndum, þegar upp kemst. Sem verður fljótlega, ef Jónína verður sein.

Atvinnubótavinna

Punktar

Nánast allir eru sammála um, að fjármálaráðuneytið hafi árum saman rekið landakröfur á hendur bændum af fáheyrðum ruddaskap. Í stað þess að reka eitt prófmál og semja síðan um afganginn, heldur ráðuneytið fram ítrustu kröfum upp í mitt hjónarúm bænda, sýslu eftir sýslu. Ekki þýðir að segja 537 milljóna kostnað ríkisins af málinu vera rugl úr ríkislögmanni. Það eru ráðuneyti og ríkisstjórn, sem bera ábyrgð á landsmeti í marklausri frekju. Ástæða þjóðlendumálanna er þó önnur: Lögmenn í ráðuneytinu eru að skapa áratugs atvinnu fyrir nokkra tugi lögfræðinga á kostnað skattgreiðenda.